Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:16:42 (4085)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað út í hött að ætla að fara að rukka eitthvert sveitarfélag fyrir það fé sem hefur verið veitt með löglegum hætti úr Framkvæmdasjóði aldraðra, samþykkt af viðkomandi ráðherra og greitt að hans tilvísun. Það er gjörsamlega út í hött.
    Ég vil aðeins, um hitt atriðið sem hann nefndi, segja það að hafi hann hlustað á framsögu formanns fjárln. til viðbótar við það sem stendur í þskj. þá hlýtur hann að geta sjálfur gert sér grein fyrir því að sú afgreiðsla sem þegar hefur farið fram í fjárlögum varðandi Framkvæmdasjóð aldraðra felst í því að það er verið að leggja sjóðnum til 70 millj. kr. umfram áætlaðar tekjur hans á næsta ári. Það framlag kemur úr ríkissjóði og það framlag er ætlað að renni til dvalarheimilisins Eirar.
    Þetta mál liggur alveg ljóst fyrir og ég trúi því ekki að jafntalnaglöggur maður og hv. þm. Svavar Gestsson er geti ekki skilið þetta því málið er svo einfalt.