Málefni aldraðra

88. fundur
Mánudaginn 21. desember 1992, kl. 23:38:04 (4090)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka það fram að fæstar af þeim þjónustuíbúðum, sem nefndar eru svo, sem hv. þm. gerði að umræðuefni hér í fyrri ræðu sinni, eru fjármagnaðar úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Flestar þeirra eru fjármagnaðar með lánsfjárfyrirgreiðslu frá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Í öðru lagi er ég henni alveg sammála um það og vil ítreka það að sú reynsla sem við þekkjum úr heilbrrn. að byggð séu dvalarheimili fyrir aldraða sem síðan er verið að reyna að breyta í hjúkrunarheimili með ærnum tilkostnaði, enda stofnanirnar ekki reistar til þess að sinna slíkum þörfum, þetta er auðvitað ekki skynsamlega farið hvorki með fjármuni né viðfangsefni í þágu öldrunarþjónustu. Og hv. þm. svaraði í sínum tveimur ræðum þeirri spurningu sem kom fram frá hv. flokksbróður hennar, Svavari Gestssyni, um það hvaða könnun það væri sem þyrfti að gera á málefnum og högum aldraðra í ljósi þeirra uppplýsinga sem nú eru að koma fram um vistunarmat. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir svaraði spurningu hv. þm. Svavars Gestssonar um það efni mjög vel og ítarlega og ég tek aðeins undir svar hennar og læt mér það nægja.