Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 14:37:53 (4156)

     Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur brtt. um frv. til laga í skattamálum. Önnur tillagan er frá efh.- og viðskn. á þskj. 552. Þær breytingar sem þar er verið að gera snerta heimildir til gjaldfærslu á keyptum framleiðslurétti í landbúnaði. Ágreiningur hefur verið um skattalega meðferð slíkra kaupa en með þessu frv. er verið að skilgreina réttarstöðu þeirra viðskipta.
    Í meginatriðum snýst málið um það að sá kostnaður sem lagt er í við kaup á framleiðslurétti má niðurskrifast á fimm árum. Það hefur verið mjög bagalegt fyrir þá sem hafa staðið í þessum kaupum að vita ekki hvar þeir standa og því er tekið á þessu af hálfu nefndarinnar. Hún hefur orðið sammála um þetta mál og ég þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir það.
    Í öðru lagi mæli ég fyrir brtt. sem er á þskj. 553 frá meiri hluta efh.- og viðskn. um breytingar í skattamálum. Þar er fyrst og fremst um það að ræða að hækka fjárhæðir sem tengjast skerðingarákvæðum sem eru tengd eignarskatti. Ástæðan fyrir þessu er sú að fasteignamat hefur hækkað um 3% meðan skattvísitalan hefur hækkað um 0,38%. Ef þessar fjárhæðir væru ekki hækkaðar með þeim hætti sem hér eru mundi eignarskattsbyrði þyngjast sjálfkrafa og líka þær skerðingar sem taka mið af þessari breytingu.