Almannatryggingar

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 17:18:19 (4196)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tel að tilvísanakerfið muni ekki spara. Ég vil líka geta þess að þótt innleiðing tilvísanakerfis fækki heimsóknum til sérfræðinga, þá muni slíkt fremur leiða til útgjaldaauka en sparnaðar. Hlutur sjúklings í greiðslum til sérfræðinga nemur nú um 50% af meðalgreiðslu til þeirra en hlutur sjúklinga til heimilislækna er mun minni þannig að sá hluti ríkisins í tilvísanakerfi verður endanlega meiri. Ég vil auk þess benda á fyrri gagnrýni mína við 1. umr. þar sem ég nefndi ýmiss konar óhagræði og tímasóun af tvöföldun heimsókna, skriffinnsku, auknu álagi á heimilislækna sem nemur tugþúsundum heimsókna og ómarkvissari heimsóknir sjúklinga til lækna. Ég vil einnig trúa því að Íslendingar hafi þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að dæma sjálfir um það hvort þeir þurfi á sérfræðiaðstoð að halda og hvers konar sérfræðingur er nauðsynlegur í hverju tilviki. Lögleiðing tilvísanakerfisins er pólitísk frá sjónarmiði heilbrigðisþjónustupólitíkur og ef lögleiða á tilvísanakerfi þá á sú lögleiðing á hinu háa Alþingi ekki að fara fram við umræðu um fjárlög heldur við umræðu um pólitíska stefnu í heilbrigðisþjónustu. Ég segi því nei.