Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 1 . mál.1. Frumvarp til lagaum Evrópska efnahagssvæðið.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)1. gr.

    Heimilt er að fullgilda fyrir Íslands hönd:
     1.      Samning um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn), þ.e. meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka, ásamt gerðum, sem í viðaukunum er getið, milli Efnahags­bandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þessara bandalaga annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992;
     2.      samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992;
     3.      samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna sem undirritaður var í Óportó hinn 2. maí 1992.

2. gr.

    Meginmál EES-samningsins skal hafa lagagildi hér á landi. Sama gildir um ákvæði bókun­ar 1 við samninginn og ákvæði 9. tölul. VIII. viðauka og g-liðar 1. tölul. XII. viðauka við samninginn.
    Ákvæði EES-samningsins, bókunarinnar og viðaukanna, sem vísað er til í 1. mgr., eru prentuð sem fskj. 1–4 með lögum þessum.

3. gr.

    Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

4. gr.

    Ráðherra, sem í hlut á, getur, ef sérstök nauðsyn krefur, sett reglur þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd EES-samningsins.

5. gr.

    Ákvæði 1. gr. laga þessara öðlast þegar gildi.
    Önnur ákvæði laganna öðlast gildi um leið og EES-samningurinn öðlast gildi að því er Ís­land varðar.Fylgiskjal I.


SAMNINGUR UM EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐIÐ


EFNAHAGSBANDALAG EVRÓPU,
KOLA- OG STÁLBANDALAG EVRÓPU,
KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
ÍRLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS

OG

LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍSLAND,
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,
KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
RÍKJASAMBANDIÐ SVISS,

sem nefnast hér á eftir SAMNINGSAÐILAR;

ERU SANNFÆRÐIR UM að Evrópskt efnahagssvæði muni stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda;

ÁRÉTTA að höfuðáhersla er lögð á náin samskipti Evrópubandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna, sem grundvallast á nálægð, sameiginlegu gildismati frá fornu fari og evrópskri samkennd;

HAFA EINSETT SÉR að stuðla á grundvelli markaðsbúskapar að auknu frjálsræði og sam­vinnu í viðskiptum um gjörvallan heim, einkum í samræmi við ákvæði Hins almenna sam­komulags um tolla og viðskipti og samninginn um Efnahags- og framfarastofnunina;

HAFA Í HUGA það markmið að mynda öflugt og einsleitt Evrópskt efnahagssvæði er grund­vallist á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, meðal annars fyrir dómstólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi hagsbóta, réttinda og skyldna samningsaðila;

HAFA EINSETT SÉR að beita sér fyrir því að frelsi til vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga verði sem víðtækast á öllu Evrópska efnahagssvæð­inu, svo og að styrkja og auka samvinnu í jaðarmálum og tengdum málum;

HAFA ÞAÐ AÐ MARKMIÐI að stuðla að samræmdri þróun á Evrópska efnahagssvæðinu og eru sannfærðir um nauðsyn þess að draga með samningi þessum úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða;

VILJA LEGGJA SITT AF MÖRKUM til að styrkja samvinnu milli þingmanna Evrópu­þingsins og þjóðþinga EFTA-ríkjanna, svo og milli aðila vinnumarkaðarins í Evrópubanda­laginu og EFTA-ríkjunum;

ERU SANNFÆRÐIR UM að einstaklingar muni gegna mikilvægu hlutverki á Evrópska efnahagssvæðinu vegna beitingar þeirra réttinda sem þeir öðlast með samningi þessum og þeirrar verndar dómstóla sem þessi réttindi njóta;

HAFA EINSETT SÉR að varðveita, vernda og bæta umhverfið og sjá til þess að náttúruauð­lindir séu nýttar af varúð og skynsemi, einkum á grundvelli meginreglunnar um sjálfbæra þróun og þeirrar meginreglu að grípa skuli til varúðarráðstafana og fyrirbyggjandi aðgerða;

HAFA EINSETT SÉR að við mótun nýrra reglna verði lagðar til grundvallar strangar kröfur um að vernda beri heilsu, öryggi og umhverfi;

GERA SÉR LJÓST mikilvægi framþróunar í félagsmálum, þar á meðal jafnréttismálum karla og kvenna, á Evrópska efnahagssvæðinu og láta í ljós vilja sinn til að tryggja efnahagslegar og félagslegar framfarir, skapa skilyrði fyrir fullri atvinnu, bættum lífskjörum og bættum starfsskilyrðum á Evrópska efnahagssvæðinu;

HAFA EINSETT SÉR að efla hagsmuni neytenda og styrkja stöðu þeirra á markaðinum, með öfluga neytendavernd að markmiði;

SETJA SÉR ÞAU SAMEIGINLEGU MARKMIÐ að styrkja vísindalegar og tæknilegar undirstöður evrópsks iðnaðar og gera hann samkeppnishæfari á alþjóðavettvangi;

ÁLÍTA að gerð samnings þessa eigi ekki á nokkurn hátt að hafa áhrif á möguleika EFTA-ríkja til að gerast aðilar að Evrópubandalögunum;

STEFNA AÐ ÞVÍ, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samnings þessa og þeirra ákvæða í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samning þennan, svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði;

ÞAR EÐ samningur þessi takmarkar hvorki sjálfræði samningsaðila til ákvarðanatöku né rétt þeirra til að gera samninga, samanber þó ákvæði samnings þessa og takmarkanir sem leiðir af reglum þjóðaréttar;

HAFA ÁKVEÐIÐ að gera með sér eftirfarandi samning:
    

I. HLUTI
MARKMIÐ OG MEGINREGLUR

1. gr.


1.     Markmið þessa samstarfssamnings er að stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópskt efnahagssvæði sem nefnist hér á eftir EES.
2.     Til að ná þeim markmiðum sem sett eru í 1. mgr. skal samstarfið í samræmi við ákvæði samnings þessa fela í sér:
     a)      frjálsa fólksflutninga;
     b)      frjálsa vöruflutninga; f
     c)      frjálsa þjónustustarfsemi;
     d)      frjálsa fjármagnsflutninga;
     e)      að komið verði á kerfi sem tryggi að samkeppni raskist ekki og að reglur þar að lútandi verði virtar af öllum; og einnig
     f)      nánari samvinnu á öðrum sviðum, svo sem á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismála, menntunar og félagsmála.

2. gr.


Í þessum samningi merkir:
     a)      hugtakið „samningur“ meginmál samningsins, bókanir við hann og viðauka auk þeirra gerða sem þar er vísað til;
     b)      hugtakið „EFTA-ríki“ samningsaðila sem eru aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu;
     c)      hugtakið „samningsaðilar“, að því er varðar bandalagið og aðildarríki EB, bæði bandalagið og aðildarríki EB eða annaðhvort bandalagið eða aðildarríki EB. Merkingin, sem leggja ber í þetta orð í hverju tilviki, ræðst af viðkomandi ákvæðum samnings þessa hverju sinni og jafnframt viðkomandi valdsviði bandalagsins og aðildarríkja EB í sam­ræmi við stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbanda­lags Evrópu.

3. gr.


     Samningsaðilar skulu gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir. Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð.
    Þeir skulu enn fremur auðvelda samvinnu innan ramma samnings þessa.

4. gr.


     Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

5. gr.

     Samningsaðilar geta hvenær sem er vakið máls á áhyggjuefnum í sameiginlegu EES-nefndinni eða EES-ráðinu í samræmi við þær aðferðir sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 92. gr. og 2. mgr. 89. gr. eftir því sem við á.

6. gr.


     Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbanda­lags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.

7. gr.

     Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:
     a)      gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;
     b)      gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.

II. HLUTI

    FRJÁLSIR VÖRUFLUTNINGAR1. KAFLI


    GRUNDVALLARREGLUR


8. gr.


1.     Koma skal á frjálsum vöruflutningum milli samningsaðila í samræmi við ákvæði samnings þessa.
2.     Ákvæði 10.–15., 19., 20. og 25.–27. gr. taka einungis til framleiðsluvara sem upprunnar eru í ríkjum samningsaðila nema annað sé tekið fram.
3.     Ef annað er ekki tekið fram taka ákvæði samningsins einungis til:
     a)      framleiðsluvara sem falla undir 25.–97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni, að frátöldum þeim framleiðsluvörum sem skráðar eru í bókun 2;
     b)      framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun 3 í samræmi við það sérstaka fyrirkomulag sem þar er greint frá.

9. gr.

1.     Kveðið er á um upprunareglur í bókun 4. Þær eru settar með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sem samningsaðilar eru eða kunna að verða bundnir af samkvæmt Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti.
2.     Samningsaðilar skulu áfram leitast við að bæta og einfalda upprunareglur á allan hátt og auka samvinnu á sviði tollamála með það fyrir augum að byggja á grundvelli þess árangurs sem náðst hefur með samningi þessum.
3.     Fyrsta endurskoðun skal fara fram fyrir árslok 1993. Síðan fer endurskoðun fram á tveggja ára fresti. Á grundvelli þessarar endurskoðunar skuldbinda samningsaðilar sig til að ákveða þær viðeigandi ráðstafanir sem eiga að verða hluti samningsins.

10. gr.


     Tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðir milli samningsaðila. Með fyrirvara um það fyrirkomulag sem um getur í bókun 5 skal þetta einnig eiga við um fjáröflunartolla.

11. gr.


     Magntakmarkanir á innflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar milli samningsaðila.

12. gr.


     Magntakmarkanir á útflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar milli samningsaðila.

13. gr.

     Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almanna­öryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og við­skipta. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.

14. gr.


     Einstökum samningsaðilum er óheimilt að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt innanlands á framleiðsluvörur annarra samningsaðila umfram það sem beint eða óbeint er lagt á sams konar innlendar framleiðsluvörur.
     Samningsaðila er einnig óheimilt að leggja á framleiðsluvörur annarra samningsaðila innlendan skatt sem er til þess fallinn að vernda óbeint aðrar framleiðsluvörur.

15. gr.


     Þegar framleiðsluvörur eru fluttar út til yfirráðasvæðis annars samningsaðila má endurgreiðsla á innlendum skatti ekki nema hærri fjárhæð en skattinum sem þegar hefur verið lagður á þær beint eða óbeint.

16. gr.


1.     Samningsaðilar skulu tryggja breytingar á ríkiseinkasölum í viðskiptum þannig að enginn greinarmunur sé gerður milli ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA-ríkja hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara.
2.     Ákvæði þessarar greinar gilda um allar stofnanir sem þar til bær yfirvöld samningsaðilanna nota samkvæmt lögum eða í reynd, beint eða óbeint, til að hafa eftirlit með, ráða eða hafa umtalsverð áhrif á inn- eða útflutning milli samningsaðila. Þessi ákvæði gilda einnig um einkasölur sem ríki hefur fengið öðrum í hendur.

2. KAFLI


LANDBÚNAÐAR- OG SJÁVARAFURÐIR


17. gr.


     Í I. viðauka eru sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi heilbrigði dýra og plantna.

18. gr.


     Með fyrirvara um sérstakt fyrirkomulag varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir skulu samningsaðilar tryggja að fyrirkomulaginu, sem kveðið er á um í 17. gr. og a- og b-lið 23. gr. varðandi aðrar vörur en þær er heyra undir 3. mgr. 8. gr., verði ekki stofnað í hættu vegna annarra tæknilegra viðskiptahindrana. Ákvæði 13. gr. skulu gilda.

19. gr.

1.     Samningsaðilar skulu taka til athugunar alla erfiðleika sem upp kunna að koma í viðskiptum þeirra með landbúnaðarafurðir og leitast við að finna viðeigandi lausn á þeim.
2.     Samningsaðilar skuldbinda sig til að halda áfram viðleitni sinni til að auka smám saman frjálsræði í viðskiptum með landbúnaðarafurðir.
3.     Í þeim tilgangi skulu samningsaðilar sjá um að fram fari endurskoðun á skilyrðum fyrir viðskipti með landbúnaðarafurðir fyrir árslok 1993 og á tveggja ára fresti þaðan í frá.
4.     Samningsaðilar munu, í ljósi þeirra niðurstaðna sem fást af þessari endurskoðun, innan ramma landbúnaðarstefnu hvers um sig og með tilliti til niðurstaðna Úrúgvæ-viðræðnanna, ákveða, innan ramma samnings þessa, á grundvelli fríðindaréttinda, með tvíhliða eða marghliða hætti og með gagnkvæmu samkomulagi sem er hagstætt hverjum aðila, frekara afnám hvers kyns viðskiptahindrana í landbúnaði, að meðtöldum þeim viðskiptahindrunum sem leiðir af ríkiseinkasölum í viðskiptum á sviði landbúnaðar.

20. gr.


     Ákvæði og fyrirkomulag varðandi fisk og aðrar sjávarafurðir er að finna í bókun 9.

3. KAFLI


SAMVINNA Á SVIÐI TOLLAMÁLA OG AUÐVELDUN VIÐSKIPTA


21. gr.


1.     Til að greiða fyrir viðskiptum skulu samningsaðilar einfalda eftirlit og formsatriði á landamærum. Fyrirkomulag í þessu skyni er að finna í bókun 10.
2.     Samningsaðilar skulu aðstoða hver annan í tollamálum til þess að tryggja rétta framkvæmd tollalöggjafar. Fyrirkomulag í þessu skyni er að finna í bókun 11.
3.     Samningsaðilar skulu styrkja og auka samvinnu sín í milli með það að markmiði að einfalda framkvæmd vöruviðskipta, einkum að því er varðar áætlanir, verkefni og aðgerðir bandalagsins sem miða að því að greiða fyrir viðskiptum í samræmi við reglurnar í VI. hluta.
4.     Þrátt fyrir 3. mgr. 8. gr. skal þessi grein taka til allra framleiðsluvara.

22. gr.


     Samningsaðili er hefur hug á að lækka virkt stig tolla eða gjalda sem hafa samsvarandi áhrif gagnvart þriðju löndum með bestu kjör eða íhugar frestun þeirra skal, sé slíkt gerlegt, tilkynna sameiginlegu EES-nefndinni það eigi síðar en þrjátíu dögum áður en lækkunin eða frestunin kemur til framkvæmda. Hlutaðeigandi samningsaðili skal gefa gaum athugasemdum frá öðrum samningsaðilum um röskun sem hlotist gæti af þessu.

4. KAFLI


AÐRAR REGLUR UM FRJÁLSA VÖRUFLUTNINGA


23. gr.


     Sérstök ákvæði og fyrirkomulag er að finna í:
     a)      bókun 12 og II. viðauka varðandi tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottanir;
     b)      bókun 47 varðandi afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín;
     c)      III. viðauka varðandi skaðsemisábyrgð.
    Þau skulu taka til allra framleiðsluvara nema annað sé tekið fram.
    

24. gr.

    Sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi orkumál er að finna í IV. viðauka.

25. gr.


     Leiði framkvæmd 10. og 12. gr. af sér:
     a)      endurútflutning til þriðja lands á framleiðsluvöru sem er af hálfu samningsaðila er flytur út háð magntakmörkunum, útflutningstollum eða ráðstöfunum eða gjöldum sem hafa samsvarandi áhrif; eða
     b)      alvarlegan skort, eða hættu á alvarlegum skorti, á framleiðsluvöru sem er mjög mikilvæg samningsaðila er flytur út;
    og valdi þær aðstæður, sem að ofan getur, samningsaðila er flytur út meiri háttar erfið­leikum eða eru líklegar til þess getur hann gert viðeigandi ráðstafanir í samræmi við reglurnar í 113. gr.

26. gr.


     Í samskiptum samningsaðila skal ekki gera ráðstafanir gegn undirboðum, leggja á jöfnun­artolla og grípa til aðgerða gegn ólöglegum viðskiptaháttum sem rekja má til þriðju landa nema annað sé tekið fram í samningi þessum.

5. KAFLI


    KOLA- OG STÁLVÖRUR


27. gr.


     Ákvæði og fyrirkomulag varðandi kola- og stálvörur er að finna í bókunum 14 og 25.

III. HLUTI


    FRJÁLSIR FÓLKSFLUTNINGAR, FRJÁLS ÞJÓNUSTUSTARFSEMI


OG FRJÁLSIR FJÁRMAGNSFLUTNINGAR1. KAFLI


    LAUNAFÓLK OG SJÁLFSTÆTT STARFANDI EINSTAKLINGAR


28. gr.


1.     Frelsi launþega til flutninga skal vera tryggt í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum.
2.     Umrætt frelsi felur í sér afnám allrar mismununar milli launþega í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum.
3.     Með þeim takmörkunum sem réttlætast af allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði felur það í sér rétt til þess að:
     a)      þiggja atvinnutilboð sem raunverulega eru lögð fram;
     b)      fara að vild í þeim tilgangi um yfirráðasvæði aðildarríkja EB og EFTA-ríkja;
     c)      dveljast á yfirráðasvæði aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis í atvinnuskyni í samræmi við ákvæði í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um starfskjör ríkisborgara þess ríkis;
     d)      dveljast áfram á yfirráðasvæði aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis eftir að hafa starfað þar.
4.     Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um störf í opinberri þjónustu.
5.     Í V. viðauka eru sérstök ákvæði um frelsi launþega til flutninga.

29. gr.


1.     Til að veita launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum frelsi til flutninga skulu samningsaðilar á sviði almannatrygginga, í samræmi við VI. viðauka, einkum tryggja launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum og þeim sem þeir framfæra að:
     a)      lögð verði saman öll tímabil sem taka ber til greina samkvæmt lögum hinna ýmsu landa til að öðlast og viðhalda bótarétti, svo og reikna fjárhæð bóta;
     b)      bætur séu greiddar fólki sem er búsett á yfirráðasvæðum samningsaðila.

30. gr.


     Til að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja og stunda starfsemi skulu samningsaðilar í samræmi við VII. viðauka gera nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi, svo og samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum samningsaðila varðandi rétt launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga til að hefja og stunda starfsemi.

2. KAFLI


STAÐFESTURÉTTUR


31. gr.


1.     Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera á rétti ríkisborgara aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis til að öðlast staðfestu á yfirráðasvæði einhvers annars þessara ríkja. Hið sama gildir einnig þegar ríkisborgarar aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði einhvers þeirra, setja á stofn umboðsskrifstofu, útibú eða dótturfyrirtæki.
    Staðfesturéttur felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki, einkum félög eða fyrirtæki í skilningi annarrar málsgreinar 34. gr., með þeim skilyrðum sem gilda að landslögum um ríkisborgara þess ríkis þar sem staðfestan er fengin, þó með fyrirvara um ákvæði 4. kafla.
2.     Í VIII.–XI. viðauka eru sérstök ákvæði um staðfesturétt.

32. gr.


     Ákvæði þessa kafla gilda ekki um starfsemi sem á yfirráðasvæði ákveðins samningsaðila fellur undir meðferð opinbers valds jafnvel þótt svo sé aðeins í einstökum tilvikum.

33. gr.


     Ákvæði þessa kafla og ráðstafanir í samræmi við þau útiloka ekki að beitt verði ákvæðum í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum um sérstaka meðferð á erlendum ríkisborgurum er grundvallast á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði.

34. gr.


     Með félög eða fyrirtæki, sem stofnuð eru í samræmi við lög aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis og hafa skráða skrifstofu, yfirstjórn eða aðalstarfsstöð á yfirráðasvæði samn­ingsaðila, skal farið, að því er þennan kafla varðar, á sama hátt og einstaklinga sem eru ríkisborgarar í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum.
     Með félögum eða fyrirtækjum er átt við félög eða fyrirtæki, stofnuð á grundvelli einkamálaréttar eða verslunarréttar, þar með talin samvinnufélög, svo og aðrar lögpersónur sem lúta allsherjarrétti eða einkamálarétti, þó að frátöldum þeim sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni.

35. gr.


     Ákvæði 30. gr. gilda um málefni sem fjallað er um í þessum kafla.

3. KAFLI


ÞJÓNUSTA


36. gr.


1.     Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera á frelsi ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA-ríkja til að veita þjónustu á yfirráðasvæði samningsaðila enda þótt þeir hafi staðfestu í öðru aðildarríki EB eða EFTA-ríki en sá sem þjónustan er ætluð.
2.     Í IX.–XI. viðauka eru sérstök ákvæði um frelsi til að veita þjónustu.

37. gr.


     Með „þjónustu“ er í samningi þessum átt við þjónustu sem að jafnaði er veitt gegn þókn­un að því leyti sem hún lýtur ekki ákvæðum um frjálsa vöruflutninga, frjálsa fjármagnsflutn­inga og frjálsa fólksflutninga.
    Undir „þjónustu“ fellur einkum:
     a)      starfsemi á sviði iðnaðar;
     b)      starfsemi á sviði viðskipta;
     c)      starfsemi handverksmanna;
     d)      sérfræðistörf.
     Sá sem veitir þjónustu getur, með fyrirvara um ákvæði 2. kafla, í því skyni stundað starf­semi sína tímabundið í því ríki þar sem þjónustan er veitt, með sömu skilyrðum og það ríki setur eigin ríkisborgurum.

38. gr.


     Frelsi til að veita þjónustu á sviði flutninga fellur undir ákvæði 6. kafla um flutninga­starfsemi.

39. gr.


     Ákvæði 30. og 32.–34. gr. gilda um málefni sem fjallað er um í þessum kafla.

4. KAFLI


    FJÁRMAGN


     40. gr.


     Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutn­ingum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokk­ur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar.

41. gr.

     Gengar greiðslur í tengslum við þjónustustarfsemi, vöruflutninga, fólksflutninga eða fjár­magnsflutninga milli samningsaðila samkvæmt ákvæðum samnings þessa skulu lausar við öll höft.

42. gr.


1.     Ef beitt er innlendum reglum um fjármagnsmarkað og lánsviðskipti í fjármagnsflutningum sem höftum hefur verið létt af samkvæmt ákvæðum samnings þessa skal það gert án mis­mununar.
2.     Lán til beinnar eða óbeinnar fjármögnunar aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis eða sveitarstjórna þess skulu ekki boðin út eða tekin í öðrum aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum nema viðkomandi ríki hafi gert með sér samkomulag um það.

43. gr.


1.     Kunni munurinn milli gjaldeyrisreglna aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna að verða til þess að menn, búsettir í einu þessara ríkja, færi sér í nyt þær rýmri yfirfærslureglur á yfir­ráðasvæði samningsaðila sem kveðið er á um í 40. gr. til þess að fara fram hjá reglum einhvers þessara ríkja um fjármagnsflutninga til eða frá þriðju löndum getur viðkomandi samningsaðili gert viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því.
2.     Leiði fjármagnsflutningar til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í aðildarríki EB eða EFTA-ríki getur hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana á sviði fjár­magnsflutninga.
3.     Breyti þar til bær yfirvöld samningsaðila gengisskráningu sinni þannig að alvarlegri röskun á samkeppnisskilyrðum valdi geta hinir samningsaðilarnir gert nauðsynlegar ráðstafanir um mjög takmarkaðan tíma til að vinna gegn áhrifum breytingarinnar.
4.     Eigi aðildarríki EB eða EFTA-ríki í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða, getur hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana, einkum ef örðugleikarnir eru til þess fallnir að stofna framkvæmd samn­ings þessa í hættu.

44. gr.


     Bandalagið annars vegar og EFTA-ríkin hins vegar skulu beita eigin málsmeðferð, sem mælt er fyrir um í bókun 18, vegna framkvæmdar ákvæða 43. gr.

45. gr.


1.     Tilkynna skal sameiginlegu EES-nefndinni ákvarðanir, álit og tilmæli vegna þeirra ráðstafana sem lýst er í 43. gr.
2.     Ekki má grípa til neinna verndarráðstafana nema að höfðu samráði í sameiginlegu EES-nefndinni og eftir að henni hafa verið veittar upplýsingar.
3.     Í því tilviki sem um ræðir í 2. mgr. 43. gr. getur hlutaðeigandi samningsaðili þó gert ráðstafanirnar, án þess að áður fari fram samráð eða skipti á upplýsingum, þegar það reynist óhjákvæmilegt vegna þess að þær verða að fara leynt eða þola ekki bið.
4.     Komi skyndilega upp vandi er varðar greiðslujöfnuð, í því tilviki sem um ræðir í 4. mgr. 43. gr., og sé ekki unnt að fylgja málsmeðferðinni í 2. mgr., getur hlutaðeigandi samn­ingsaðili gripið til nauðsynlegra fyrirbyggjandi verndarráðstafana. Ráðstafanirnar skulu hafa í för með sér eins litla röskun á framkvæmd samnings þessa og kostur er á og mega ekki vera víðtækari en brýnasta nauðsyn krefur til að ráða bót á þeim skyndilega vanda sem komið hefur upp.
5.     Þegar gerðar eru ráðstafanir í samræmi við 3. og 4. mgr. skal tilkynna það eigi síðar en þann dag sem þær öðlast gildi og skulu upplýsingaskiptin, samráðið og tilkynningarnar sem um getur í 1. mgr. eiga sér stað eins fljótt og auðið er í kjölfar þess.

5. KAFLI


    SAMVINNA UM STEFNU Í EFNAHAGS- OG PENINGAMÁLUM


     46. gr.


     Samningsaðilar skulu skiptast á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd samnings þessa og áhrif samstarfsins á efnahagsstarfsemi og framkvæmd stefnu í efnahags- og peningamálum. Þeir geta enn fremur rætt stefnu, ástand og horfur í efnahagsmálum. Þessi skipti á skoðunum og upplýsingum skulu fara fram án nokkurra skuldbindinga.

6. KAFLI


FLUTNINGASTARFSEMI


     47. gr.


1.     Ákvæði 48.–52. gr. gilda um flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum.
2.     Í XIII. viðauka eru sérstök ákvæði um allar tegundir flutninga.

48. gr.


1.     Engu aðildarríki EB eða EFTA-ríki er heimilt að setja nokkur þau ákvæði um flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum utan ramma XIII. viðauka sem beint eða óbeint eru óhagstæðari flutningsaðilum frá öðrum ríkjum en innlendum flutningsaðilum.
2.     Sérhver samningsaðili er víkur frá meginreglunni í 1. mgr. skal tilkynna sameiginlegu EES-nefndinni það. Aðrir samningsaðilar, sem fallast ekki á frávikið, geta gripið til viðeig­andi gagnráðstafana.

49. gr.


     Aðstoð er samrýmanleg samningi þessum ef hún bætir úr þörf fyrir samræmingu á sviði flutninga eða í henni felst endurgjald fyrir að rækja tilteknar skyldur sem falla undir hugtakið opinber þjónusta.

50. gr.


1.     Þegar um er að ræða flutninga á yfirráðasvæði samningsaðila skal ekki vera nokkur mismunun sem kemur fram í því að flutningsaðilar leggi á mismunandi gjöld eða setji mismunandi skilmála við flutning sams konar vöru á sömu flutningaleiðum, allt eftir því hvert uppruna- eða ákvörðunarland viðkomandi vöru er.
2.     Þar til bært yfirvald samkvæmt VII. hluta skal að eigin frumkvæði eða að beiðni aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis rannsaka öll tilvik um mismunun sem falla undir þessa grein og taka nauðsynlegar ákvarðanir samkvæmt eigin reglum.

51. gr.


1.     Bannað er að leggja á gjöld og setja skilmála er varða flutningastarfsemi innan yfirráðasvæðis samningsaðila og fela í einhverjum mæli í sér aðstoð eða vernd, einu eða fleiri fyrirtækjum eða atvinnugreinum í hag, nema þar til bært yfirvald samkvæmt 2. mgr. 50. gr. heimili það.
2.     Þar til bært yfirvald skal að eigin frumkvæði eða að beiðni aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis kanna gjöld þau og skilmála sem um getur í 1. mgr., annars vegar einkum með kröfur um æskilega efnahagsstefnu á einstökum landsvæðum í huga, svo og þarfir vanþróaðra svæða og erfiðleika svæða þar sem alvarlegt stjórnmálaástand ríkir, og hins vegar með tilliti til áhrifa gjaldanna og skilmálanna á samkeppni milli mismunandi greina flutningastarfsemi.
    Þar til bært yfirvald skal taka nauðsynlegar ákvarðanir samkvæmt eigin reglum.
3.     Bannið sem um getur í 1. mgr. tekur ekki til gjalda sem ákveðin eru til að bregðast við samkeppni.

52. gr.


     Álögur eða gjöld, sem flutningsaðili innheimtir umfram flutningsgjöld vegna flutnings yfir landamæri, mega ekki vera hærri en sanngjarnt er með hliðsjón af raunverulegum kostn­aði vegna þessa. Samningsaðilar skulu leitast við að draga smám saman úr slíkum kostnaði.

IV. HLUTI


SAMKEPPNISREGLUR OG AÐRAR SAMEIGINLEGAR REGLUR1. KAFLI


REGLUR UM FYRIRTÆKI


53. gr.


1.     Eftirfarandi skal bannað og talið ósamrýmanlegt framkvæmd samnings þessa: allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni, hún sé takmörkuð eða henni raskað á því svæði sem samningur þessi tekur til, einkum samningar, ákvarðanir og aðgerðir sem:
     a)      ákveða kaup- eða söluverð eða önnur viðskiptakjör með beinum eða óbeinum hætti;
     b)      takmarka eða stýra framleiðslu, mörkuðum, tækniþróun eða fjárfestingu;
     c)      skipta mörkuðum eða birgðalindum;
     d)      mismuna öðrum viðskiptaaðilum með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og veikja þannig samkeppnisstöðu þeirra;
     e)      setja það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt við­skiptavenju.
2.     Samningar og ákvarðanir sem grein þessi bannar eru sjálfkrafa ógildir.
3.     Ákveða má að ákvæðum 1. mgr. verði ekki beitt um:
    samninga eða tegundir samninga milli fyrirtækja;
    ákvarðanir eða tegundir ákvarðana af hálfu samtaka fyrirtækja;
    samstilltar aðgerðir eða tegundir samstilltra aðgerða;
    sem stuðla að bættri framleiðslu eða vörudreifingu eða efla tæknilegar og efnahagslegar framfarir, enda sé neytendum veitt sanngjörn hlutdeild í þeim ávinningi sem af þeim hlýst, án þess að:
a)    höft, sem óþörf eru til að hinum settu markmiðum verði náð, séu lögð á hlutaðeigandi fyrirtæki;
b)    slíkt veiti fyrirtækjunum færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna sem um er að ræða.

54. gr.


     Misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á yfirburðastöðu á svæðinu sem samningur þessi tekur til, eða verulegum hluta þess, er ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa og því bönnuð að því leyti sem hún kann að hafa áhrif á viðskipti milli samningsaðila.
     Slík misnotkun getur einkum falist í því að:
     a)      beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs eða aðrir ósanngjarnir viðskiptaskilmálar settir;
     b)      settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun, neytendum til tjóns;
     c)      öðrum viðskiptaaðilum sé mismunað með ólíkum skilmálum í sams konar viðskiptum og samkeppnisstaða þeirra þannig veikt;
     d)      sett sé það skilyrði fyrir samningagerð að hinir viðsemjendurnir taki á sig viðbótarskuldbindingar sem tengjast ekki efni samninganna, hvorki í eðli sínu né samkvæmt við­skiptavenju.

55. gr.


1.     Með fyrirvara um ákvæði sem hrinda 53. og 54. gr. í framkvæmd og er að finna í bókun 21 og XIV. viðauka við samning þennan skulu framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA, sem kveðið er á um í 1. mgr. 108. gr., tryggja beitingu meginreglnanna sem mælt er fyrir um í 53. og 54. gr.
    Hin þar til bæra eftirlitsstofnun, sem kveðið er á um í 56. gr., skal að eigin frumkvæði eða að beiðni ríkis á viðkomandi svæði eða hinnar eftirlitsstofnunarinnar rannsaka tilvik þar sem grunur leikur á að meginreglur þessar séu brotnar. Hin þar til bæra eftirlitsstofnun skal fram­kvæma þessar rannsóknir í samvinnu við þar til bær stjórnvöld á viðkomandi svæði og í sam­vinnu við hina eftirlitsstofnunina sem skal veita henni aðstoð í samræmi við eigin reglur.
    Komist hún að þeirri niðurstöðu að um brot hafi verið að ræða skal hún gera tillögur um viðeigandi ráðstafanir til að binda enda á það.
2.     Ef ekki er bundinn endi á umrætt brot skal þar til bær eftirlitsstofnun skrá slíkt brot á meginreglunum í rökstuddri ákvörðun.
    Hin þar til bæra eftirlitsstofnun getur birt ákvörðun sína og heimilað ríkjum á viðkomandi svæði, með þeim skilyrðum og á þann hátt sem hún kveður nánar á um, að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að ráða bót á ástandinu. Hún getur einnig farið fram á það við hina eftirlits­stofnunina að hún heimili ríkjum á viðkomandi svæði að gera slíkar ráðstafanir.

56. gr.


1.     Eftirlitsstofnanirnar skulu taka ákvarðanir í einstökum málum, sem falla undir 53. gr., í samræmi við eftirfarandi ákvæði:
     a)      eftirlitsstofnun EFTA skal taka ákvarðanir í þeim málum sem einungis hafa áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkjanna;
     b)      með fyrirvara um c-lið skal eftirlitsstofnun EFTA taka ákvarðanir, eins og kveðið er á um í ákvæðum 58. gr., bókun 21 og reglum um framkvæmd hennar, bókun 23 og XIV. viðauka, í málum þar sem velta viðkomandi fyrirtækja á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna er 33% eða meiri en velta þeirra á svæðinu sem samningur þessi tekur til;
     c)      framkvæmdastjórn EB skal taka ákvarðanir í öðrum málum, svo og í þeim málum sem falla undir b-lið og hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EB, og skal hún þá taka tillit til ákvæðanna í 58. gr., bókun 21, bókun 23 og XIV. viðauka.
2.     Eftirlitsstofnun á því svæði þar sem yfirburðastaða er talin vera fyrir hendi skal taka ákvarðanir í einstökum málum sem falla undir 54. gr. Reglurnar sem settar eru í b- og c-lið 1. mgr. gilda því aðeins að um yfirburðastöðu á svæðum beggja eftirlitsstofnananna sé að ræða.
3.     Eftirlitsstofnun EFTA skal taka ákvarðanir í einstökum málum sem falla undir c-lið 1. mgr. og hafa ekki umtalsverð áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EB eða samkeppni í banda­laginu.
4.     Hugtökin „fyrirtæki“ og „velta“ eru, að því er þessa grein varðar, skilgreind í bókun 22.

57. gr.


1.     Samfylkingar, sem gert er ráð fyrir eftirliti með í 2. mgr. og skapa eða efla yfirburðastöðu er hindrar virka samkeppni á samningssvæðinu eða umtalsverðum hluta þess, skal lýsa ósam­rýmanlegar samningi þessum.
2.     Eftirtaldir aðilar skulu hafa eftirlit með samfylkingum sem falla undir 1. mgr.:
a)    framkvæmdastjórn EB í þeim málum sem falla undir reglugerð EBE nr. 4064/89, í samræmi við þá reglugerð, bókanir 21 og 24 og XIV. viðauka við samninginn. Með fyrirvara um endurskoðunarvald dómstóls EB hefur framkvæmdastjórn EB ein vald til að taka ákvarðanir í þessum málum.
b)    eftirlitsstofnun EFTA í þeim málum sem falla ekki undir a-lið hafi viðmiðunarmörkum, sem sett eru í XIV. viðauka, verið fullnægt á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna í samræmi við bókanir 21 og 24 og XIV. viðauka við samninginn. Þetta er með þeim fyrirvara að aðildarríki EB séu ekki valdbær í þessu tilliti.

58. gr.


     Með það fyrir augum að þróa og viðhalda samræmdu eftirliti á Evrópska efnahagssvæð­inu á sviði samkeppni, svo og að stuðla að einsleitri framkvæmd, beitingu og túlkun ákvæða samningsins í þessu skyni, skulu lögbær yfirvöld hafa með sér samvinnu í samræmi við ákvæði bókana 23 og 24.

59. gr.


1.     Eigi í hlut opinber fyrirtæki, og fyrirtæki sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veita sérstök réttindi eða einkarétt, skulu samningsaðilar tryggja að hvorki séu gerðar né viðhaldið nokkrum þeim ráðstöfunum sem fara í bága við reglur samnings þessa, einkum reglur sem kveðið er á um í 4. gr. og 53.–63. gr.
2.     Reglur samnings þessa, einkum reglurnar um samkeppni, gilda um fyrirtæki sem falið er að veita þjónustu er hefur almenna efnahagslega þýðingu eða eru í eðli sínu fjáröflunareinka­sölur, að því marki sem beiting þeirra kemur ekki í veg fyrir að þau geti að lögum eða í raun leyst af hendi þau sérstöku verkefni sem þeim eru falin. Þróun viðskipta má ekki raska í þeim mæli að það stríði gegn hagsmunum samningsaðilanna.
3.     Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu hvor innan síns valdsviðs tryggja að ákvæðum þessarar greinar sé beitt og gera, eftir því sem þörf krefur, viðeigandi ráðstaf­anir gagnvart þeim ríkjum sem eru á svæðum hvorrar um sig.

60. gr.


     Í XIV. viðauka eru sérstök ákvæði um framkvæmd þeirra meginreglna sem settar eru í 53., 54., 57. og 59. gr.

2. KAFLI


RÍKISAÐSTOÐ


61. gr.


1.     Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.
2.     Eftirtalið samrýmist framkvæmd samnings þessa;
     a)      aðstoð af félagslegum toga sem veitt er einstökum neytendum enda sé hún veitt án mismununar með tilliti til uppruna viðkomandi framleiðsluvara;
     b)      aðstoð sem veitt er til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða óvenjulegra atburða.
     c)      aðstoð sem veitt er til atvinnuvega á ákveðnum svæðum í Sambandslýðveldinu Þýskalandi, þar sem skipting Þýskalands hefur áhrif, að því marki sem þörf er á slíku; aðstoð til að bæta upp efnahagslegt óhagræði vegna skiptingarinnar.
3.     Eftirtalið getur talist samrýmanlegt framkvæmd samnings þessa:
       a)      aðstoð til að efla hagþróun á svæðum þar sem lífskjör eru óvenju bágborin eða atvinnuleysi mikið;
       b)      aðstoð til að hrinda í framkvæmd mikilvægum sameiginlegum evrópskum hagsmunamálum eða ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi aðildarríkis EB eða EFTA-ríkis;
       c)      aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum;
       d)      aðstoð af öðru tagi sem sameiginlega EES-nefndin kann að tiltaka í samræmi við VII. hluta.

62. gr.


1.     Fylgjast skal stöðugt með öllum kerfum vegna ríkisaðstoðar sem eru til á yfirráðasvæðum samningsaðila, svo og öllum áætlunum um að veita slíka aðstoð eða breyta henni, með það í huga að þau samrýmist 61. gr. Eftirtaldir aðilar skulu framkvæma slíkt eftirlit:
       a)      framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins, að því er varðar aðildarríki EB, í samræmi við reglurnar í 93. gr. stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu;
       b)      eftirlitsstofnun EFTA, að því er varðar EFTA-ríkin, í samræmi við þær reglur sem settar eru í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar EFTA en mælt er fyrir um valdsvið hennar og störf í bókun 26.
2.     Með það fyrir augum að tryggja samræmt eftirlit á sviði ríkisaðstoðar á svæðinu sem samningur þessi tekur til skulu framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA hafa með sér samvinnu í samræmi við ákvæðin í bókun 27.

63. gr.

    Í XV. viðauka eru sérstök ákvæði um ríkisaðstoð.

64. gr.


1.     Ef önnur eftirlitsstofnunin telur að framkvæmd hinnar eftirlitsstofnunarinnar á 61. og 62. gr. samningsins, svo og 5. gr. bókunar 14, samræmist ekki kröfum um sömu samkeppnisskilyrði á svæðinu sem samningur þessi tekur til skal skipst á skoðunum innan tveggja vikna í samræmi við málsmeðferð f-liðar í bókun 27.
    Hafi ekki fundist lausn innan þessara tveggja vikna sem aðilar geta sætt sig við getur þar til bært yfirvald samningsaðila, sem málið snertir, gripið án tafar til bráðabirgðaráðstafana til þess að ráða bót á þeirri röskun sem orðið hefur á samkeppni.
    Samráð skal síðan hafa í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við.
    Hafi sameiginlegu EES-nefndinni ekki tekist að finna lausn innan þriggja mánaða og umræddar aðgerðir valda, eða hætta er á að þær valdi, röskun á samkeppni sem hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila er unnt að gera þær varanlegu ráðstafanir í stað bráðabirgða­ráðstafananna sem eru bráðnauðsynlegar til að jafna áhrif röskunarinnar. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst starfsemi EES.
2.     Ákvæði þessarar greinar skulu einnig gilda um ríkiseinkasölur sem settar eru á stofn eftir undirritunardag samningsins.

3. KAFLI


AÐRAR SAMEIGINLEGAR REGLUR


     65. gr.


1.     Í XVI. viðauka eru sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi innkaup sem gilda, nema annað sé tekið fram, um allar framleiðsluvörur og þjónustu eins og tilgreint er.
2.     Í bókun 28 og XVII. viðauka eru sérstök ákvæði og fyrirkomulag varðandi hugverk og eignarréttindi á sviði iðnaðar og verslunar sem gilda um allar framleiðsluvörur og þjónustu nema annað sé tekið fram.

V. HLUTI


ALTÆK ÁKVÆÐI ER VARÐA FJÓRÞÆTTA FRELSIÐ1. KAFLI


FÉLAGSMÁL


     66. gr.


     Samningsaðilar eru sammála um að nauðsynlegt sé að stuðla að bættum starfsskilyrðum og lífskjörum launþega.

67. gr.


1.     Samningsaðilar skulu sérstaklega leggja áherslu á að hvetja til umbóta, einkum varðandi vinnuumhverfi, með tilliti til heilsu og öryggis launþega. Til að stuðla að því að þessu markmiði verði náð skulu lágmarkskröfur smám saman koma til framkvæmda og þá með hliðsjón af þeim aðstæðum og tæknilegu reglum er gilda hjá hverjum samningsaðila. Slíkar lágmarkskröfur eru því ekki til fyrirstöðu að samningsaðili láti strangari reglur um starfsskilyrði halda gildi sínu eða setji slíkar reglur enda samrýmist þær samningi þessum.
2.     Í XVIII. viðauka eru tilgreind nauðsynleg ákvæði vegna framkvæmdar lágmarkskrafna samkvæmt 1. mgr.

68. gr.


     Á sviði vinnulöggjafar skulu samningsaðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja góða framkvæmd samnings þessa. Þessar ráðstafanir eru tilgreindar í XVIII. viðauka.

69. gr.


1.     Hver samningsaðili skal tryggja og viðhalda beitingu þeirrar meginreglu að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu.
    Með „launum“ er í þessari grein átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur er í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnu­veitanda sínum vegna starfa síns.
    Með sömu launum án mismununar vegna kynferðis er átt við að:
     a)      laun fyrir sömu ákvæðisvinnu skuli miðuð við sömu mælieiningu;
     b)      laun fyrir tímavinnu skuli vera hin sömu fyrir sams konar starf.
2.     Í XVIII. viðauka eru sérstök ákvæði um framkvæmd 1. mgr.


70. gr.


     Samningsaðilar skulu stuðla að því að meginreglan um jafnrétti karla og kvenna verði virt með því að hrinda ákvæðunum sem tilgreind eru í XVIII. viðauka í framkvæmd.

71. gr.

     Samningsaðilar skulu leitast við að auka skoðanaskipti milli vinnuveitenda og launþega í Evrópu.

2. KAFLI


    NEYTENDAVERND


     72. gr.


    Í XIX. viðauka eru ákvæði um neytendavernd.

3. KAFLI


    UMHVERFISMÁL


     73. gr.


1.     Aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skulu byggjast á eftirtöldum markmiðum:
     a)      að varðveita, vernda og bæta umhverfið;
     b)      að stuðla að því að vernda heilsu manna;
     c)      að tryggja að náttúruauðlindir séu nýttar af varúð og skynsemi.
2.     Aðgerðir samningsaðila á sviði umhverfismála skulu grundvallaðar á þeim meginreglum að girt skuli fyrir umhverfisspjöll, áhersla sé lögð á úrbætur þar sem tjón á upphaf sitt og bótaskylda sé lögð á þann sem mengun veldur. Kröfur um umhverfisvernd skulu vera þáttur í stefnu samningsaðila á öðrum sviðum.

74. gr.


     Í XX. viðauka eru sérstök ákvæði um verndarráðstafanir sem skulu gilda samkvæmt 73. gr.

75. gr.


     Verndarráðstafanirnar, sem um getur í 74. gr., eru því ekki til fyrirstöðu að einstakir samningsaðilar láti strangari verndarráðstafanir halda gildi sínu eða grípi til þeirra enda samrýmist þær samningi þessum.

4. KAFLI


    HAGSKÝRSLUGERÐ


     76. gr.


1.     Samningsaðilar skulu tryggja úrvinnslu og dreifingu samfelldra og sambærilegra hagskýrslna sem lýsi og geri kleift að fylgjast með öllum þeim þáttum sem máli skipta á sviði efnahags-, félags- og umhverfismála á Evrópska efnahagssvæðinu.
2.     Í þessu skyni skulu samningsaðilar þróa með sér og nota samræmdar aðferðir, skýrgreiningar og flokkanir, svo og sameiginlegar starfsáætlanir og vinnubrögð við hag­skýrslugerð hvar sem það á við í stjórnsýslunni og hafa þá í huga nauðsyn þess að fyllsta trúnaðar sé gætt.
3.     Í XXI. viðauka eru sérstök ákvæði um hagskýslugerð.
4.     Í bókun 30 eru sérstök ákvæði um skipulag samstarfs á sviði hagskýrslugerðar.

5. KAFLI


FÉLAGARÉTTUR


     77. gr.


     Í XXII. viðauka eru sérstök ákvæði um félagarétt.

VI. HLUTI


    SAMVINNA UTAN MARKA FJÓRÞÆTTA FRELSISINS


     78. gr.


    Samningsaðilar skulu efla og auka samvinnu innan ramma starfsemi bandalagsins á sviði: rannsókna og tækniþróunar,
    upplýsingaþjónustu,
    umhverfismála,
    menntunar, þjálfunar og æskulýðsmála,
    félagsmála,
    neytendaverndar,
    lítilla og meðalstórra fyrirtækja,
    ferðamála,
    hljóð- og myndmiðlunar og
    almannavarna,
    að því leyti sem samstarf á þessum sviðum lýtur ekki ákvæðum annarra hluta samnings þessa.

79. gr.


1.     Samningsaðilar skulu auka skoðanaskipti sín í milli með öllum viðeigandi aðferðum, einkum samkvæmt reglum VII. hluta, með það fyrir augum að ákveða starfssvið og starfsemi þar sem nánari samvinna getur aukið líkur á að sameiginleg markmið náist á þeim sviðum sem um getur í 78. gr.
2.     Þeir skulu einkum skiptast á upplýsingum og ræða í sameiginlegu EES-nefndinni, að beiðni einstakra samningsaðila, áform og tillögur um að stofna til eða breyta rammaáætl­unum, einstökum áætlunum, aðgerðum og verkefnum á þeim sviðum sem um getur í 78. gr.
3.     Ákvæði VII. hluta gilda að breyttu breytanda um þennan hluta þegar sérstaklega er kveðið á um það í þessum hluta eða bókun 31.

80. gr.

    Samvinna samkvæmt 78. gr. skal að öðru jöfnu fara fram með eftirfarandi hætti:
    þátttöku EFTA-ríkja í rammaáætlunum EB, einstökum áætlunum, verkefnum eða öðrum aðgerðum;
    komið verði á sameiginlegri starfsemi á tilteknum sviðum þar sem meðal annars gæti verið um að ræða samræmingu eða samstillingu á starfsemi, sameiningu starfsemi sem fyrir er og komið verði á sérstakri sameiginlegri starfsemi;
    formlegum og óformlegum upplýsingaskiptum eða -miðlun;
    sameiginlegu átaki til að hvetja til tiltekinnar starfsemi á yfirráðasvæði samningsaðila;
    hliðstæðri löggjöf, eftir því sem við á, með sömu eða svipuðum reglum;
    samræmingu aðgerða og starfsemi á vettvangi eða fyrir tilstilli alþjóðastofnana, svo og samræmingu samvinnu við þriðju lönd, þar sem um gagnkvæmt hagsmunamál er að ræða.

81. gr.


    Þegar samvinna felur í sér þátttöku EFTA-ríkja í rammaáætlun EB, einstakri áætlun, verkefni eða annarri aðgerð skulu eftirfarandi meginreglur gilda:
     a)      EFTA-ríkin skulu hafa aðgang að öllum þáttum áætlunar.
     b)      Staða EFTA-ríkjanna í nefndum, sem aðstoða framkvæmdastjórn EB við stjórnun eða þróun starfsemi bandalagsins, skal vera í fullu samræmi við það fjárframlag sem EFTA-ríkin kunna að greiða vegna þátttöku sinnar.
     c)      Ákvæði 3. mgr. 79. gr. gilda um þær ákvarðanir bandalagsins er hafa bein eða óbein áhrif á rammaáætlun, einstaka áætlun, verkefni eða aðra aðgerð sem EFTA-ríki taka þátt í samkvæmt ákvörðun á grundvelli samnings þessa, þó ekki ákvarðanir sem varða fjárlög bandalagsins. Sameiginlega EES-nefndin getur endurskoðað skilmála og skilyrði fyrir áframhaldandi þátttöku í viðkomandi starfsemi í samræmi við 86. gr.
     d)      Þegar um samstarfsverkefni er að ræða skulu stofnanir, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar EFTA-ríkja hafa sömu réttindi og skyldur í áætlun bandalagsins eða annarri aðgerð sem um ræðir og samstarfsstofnanir, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar aðildarríkja EB. Hið sama gildir að breyttu breytanda um þátttakendur sem fara milli landa vegna viðkomandi samstarfs aðildarríkja EB og EFTA-ríkja.
     e)      EFTA-ríki, stofnanir þeirra, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar skulu hafa sömu rétt-indi og skyldur að því er varðar úrvinnslu, mat og nýtingu niðurstaðna og aðildarríki EB, stofnanir þeirra, fyrirtæki, samtök og ríkisborgarar.
     f)      Samningsaðilar skuldbinda sig í samræmi við viðkomandi reglugerðir og reglur sínar til að auðvelda flutninga þátttakenda í áætluninni og annarri starfsemi að því marki sem nauðsynlegt er.

82. gr.

1.     Þegar samvinna samkvæmt þessum hluta felur í sér fjárframlag frá EFTA-ríkjunum skal framlagið látið í té á einhvern eftirtalinn hátt:
     a)      Framlag EFTA-ríkjanna vegna þátttöku þeirra í starfsemi bandalagsins skal reiknað í hlutfalli við:
        fjárhagsskuldbindingar; og
        greiðsluskuldbindingar;
        sem varðandi bandalagið eru settar árlega á þann lið fjárlaga þess sem á við um viðkomandi starfsemi.
        Hlutfallsstuðullinn sem ákvarðar framlag EFTA-ríkjanna skal vera summa hlutfallsins milli annars vegar vergrar landsframleiðslu hvers EFTA-ríkis um sig miðað við markaðsverð og hins vegar summa vergrar landsframleiðslu allra aðildarríkja EB og umrædds EFTA-ríkis miðað við markaðsverð. Stuðullinn skal reiknaður fyrir hvert fjárhagsár á grundvelli nýjustu tölfræðilegra upplýsinga.
        Bæði að því er varðar fjárhagsskuldbindingar og greiðsluskuldbindingar skal fjárframlag EFTA-ríkjanna koma til viðbótar fjárframlagi bandalagsins á þeim lið fjárlaga þess sem á við um viðkomandi starfsemi.
        Þau framlög sem EFTA-ríkin skulu greiða árlega skulu ákveðin á grundvelli greiðslu­skuldbindinganna.
        Skuldbindingar sem bandalagið tók á sig áður en EFTA-ríkin hófu á grundvelli samn­ings þessa þátttöku í viðkomandi starfsemi, svo og greiðslur sem af henni leiðir, kalla ekki á framlög af hálfu EFTA-ríkjanna.
     b)      Fjárframlag EFTA-ríkjanna vegna þátttöku þeirra í ákveðnum verkefnum eða annarri starfsemi skal grundvallast á þeirri meginreglu að sérhver samningsaðili skuli bera eigin kostnað, svo og viðeigandi hluta af fastakostnaði bandalagsins samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
     c)      Sameiginlega EES-nefndin skal taka nauðsynlegar ákvarðanir varðandi fjárframlag samningsaðila til þeirrar starfsemi sem um ræðir hverju sinni.
2.     Nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar eru í bókun 32.

83. gr.


     Þegar samvinnan felst í upplýsingaskiptum milli opinberra aðila skulu EFTA-ríkin hafa sama rétt á að fá upplýsingar og aðildarríki EB og ber þeim jafnframt sama skylda til að veita upplýsingar, samanber þó kröfur um trúnað sem sameiginlega EES-nefndin ákveður.

84. gr.


     Ákvæði um samvinnu á tilteknum sviðum eru í bókun 31.

85. gr.


     Ef ekki er kveðið á um annað í bókun 31 skal samvinna, sem þegar fer fram milli banda­lagsins og einstakra EFTA-ríkja á sviðunum sem um getur í 78. gr. við gildistöku samnings þessa, eftir það lúta viðeigandi ákvæðum þessa hluta og bókunar 31.

86. gr.

     Sameiginlega EES-nefndin skal, í samræmi við VII. hluta, taka allar nauðsynlegar ákvarðanir vegna framkvæmdar 78.–85. gr. og ráðstafana sem af henni leiðir og geta þær meðal annars falið í sér viðbætur við og breytingar á bókun 31, ásamt því að ákveða nauð­synlegar bráðabirgðaráðstafanir vegna framkvæmdar 85. gr.

87. gr.


     Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að þróa, efla eða auka samvinnu innan ramma starfsemi bandalagsins á sviðum sem eru ekki tilgreind í 78. gr. þegar slík sam­vinna þykir líkleg til að greiða fyrir því að markmiðum samnings þessa verði náð eða samn­ingsaðilar telja slíkt hagstætt báðum aðilum af öðrum ástæðum. Slíkar ráðstafanir geta haft það í för með sér að 78. gr. verði breytt þannig að nýjum sviðum verði bætt við þau sem þar eru tilgreind.

88. gr.


     Með fyrirvara um ákvæði annarra hluta samnings þessa skulu ákvæði þessa hluta ekki koma í veg fyrir að einstakir samningsaðilar geti undirbúið, samþykkt og hrundið ráðstöfun­um í framkvæmd einhliða.

VII. HLUTI


ÁKVÆÐI UM STOFNANIR1. KAFLI


SKIPULAG SAMSTARFSINS1. ÞÁTTUR


EES-RÁÐIÐ


     89. gr.


1.     EES-ráði er hér með komið á fót. Hlutverk þess er einkum að vera pólitískur aflvaki varðandi framkvæmd samnings þessa og setja almennar viðmiðunarreglur fyrir sameiginlegu EES-nefndina.
    Í þessum tilgangi skal EES-ráðið meta hvernig samningurinn í heild hefur verið fram­kvæmdur og hvernig hann hefur þróast. Það skal taka stjórnmálalegar ákvarðanir sem leiða til breytinga á samningnum.
2.     Samningsaðilar, að því er varðar bandalagið og aðildarríki EB eftir valdsviði viðkomandi, geta tekið mál er valda erfiðleikum upp í EES-ráðinu eftir að hafa rætt þau í sameiginlegu EES-nefndinni, eða geta tekið þau beint upp í EES-ráðinu er mjög brýna nauðsyn ber til.
3.     EES-ráðið setur sér starfsreglur með ákvörðun þar að lútandi.

90. gr.


1.     EES-ráðið skipa fulltrúar í ráði Evrópubandalaganna og úr framkvæmdastjórn EB ásamt einum fulltrúa ríkisstjórnar hvers EFTA-ríkis.
    Skipa skal fulltrúa í EES-ráðið í samræmi við þau skilyrði sem mælt verður fyrir um í starfsreglum þess.
2.     Ákvarðanir EES-ráðsins skulu teknar með samkomulagi milli bandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar.

91. gr.


1.     Fulltrúi ráðs Evrópubandalaganna og ráðherra í ríkisstjórn EFTA-ríkis skulu gegna embætti forseta EES-ráðsins til skiptis sex mánuði í senn.
2.     Forseti EES-ráðsins skal kalla það saman tvisvar á ári. EES-ráðið skal einnig koma saman, þegar aðstæður krefjast, í samræmi við starfsreglur sínar.


2. ÞÁTTUR


    SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN


92. gr.


1.     Sameiginlegu EES-nefndinni er hér með komið á fót. Skal hún tryggja virka framkvæmd samnings þessa. Í þeim tilgangi skal þar skipst á skoðunum og upplýsingum og taka ákvarð­anir í þeim málum sem kveðið er á um í samningi þessum.
2.     Samningsaðilar, að því er varðar bandalagið og aðildarríki EB eftir valdsviði viðkomandi, skulu hafa samráð í sameiginlegu EES-nefndinni um öll þau mál á grundvelli samningsins sem valda erfiðleikum og einhver þeirra hefur tekið upp.
3.     Sameiginlega EES-nefndin setur sér starfsreglur með ákvörðun þar að lútandi.

93. gr.


1.     Sameiginlegu EES-nefndina skipa fulltrúar samningsaðila.
2.     Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skulu teknar með samkomulagi milli bandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna, sem mæla einum rómi, hins vegar.

94. gr.


1.     Fulltrúi bandalagsins, þ.e. framkvæmdastjórnar EB, og fulltrúi eins EFTA-ríkis skulu gegna embætti formanns sameiginlegu EES-nefndarinnar til skiptis sex mánuði í senn.
2.     Sameiginlega EES-nefndin skal að öðru jöfnu koma saman að minnsta kosti einu sinni í mánuði til að gegna störfum sínum. Hana má einnig kalla saman að frumkvæði formannsins eða samkvæmt beiðni einhvers samningsaðila í samræmi við starfsreglur hennar.
3.     Sameiginlega EES-nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir eða starfshópa sér til aðstoðar við framkvæmd verkefna sinna. Sameiginlega EES-nefndin skal í starfsreglum sínum mæla fyrir um skipan og starfshætti umræddra undirnefnda og starfshópa. Sameiginlega EES-nefndin skal ákveða verkefni þeirra í hverju tilviki fyrir sig.
4.     Sameiginlega EES-nefndin skal gefa út ársskýrslu um framkvæmd og þróun samnings þessa.

3. ÞÁTTUR


SAMVINNA ÞINGMANNA


95. gr.


1.     Sameiginlegri EES-þingmannanefnd er hér með komið á fót. Hana skipa jafnmargir þingmenn Evrópuþingsins annars vegar og þjóðþinga EFTA-ríkjanna hins vegar. Heildarfjöldi þingmanna í nefndinni kemur fram í stofnsamþykktinni í bókun 36.
2.     Fundir sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar skulu haldnir til skiptis í bandalaginu og EFTA-ríki í samræmi við ákvæði bókunar 36.
3.     Sameiginlega EES-þingmannanefndin skal með umræðum og fundum stuðla að auknum skilningi milli bandalagsins og EFTA-ríkjanna á þeim sviðum sem samningur þessi tekur til.
4.     Sameiginlegu EES-þingmannanefndinni er heimilt að láta álit sitt í ljós í formi skýrslna eða ályktana eftir því sem við á. Hún skal einkum taka til athugunar ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar um framkvæmd og þróun samnings þessa sem gefin er út í samræmi við 4. mgr. 94. gr.
5.     Forseti EES-ráðsins má koma fyrir sameiginlegu EES-þingmannanefndina og taka þar til máls.
6.     Sameiginlega EES-þingmannanefndin setur sér starfsreglur.


4. ÞÁTTUR


SAMVINNA AÐILA ER STARFA


Á SVIÐI EFNAHAGS- OG FÉLAGSMÁLA


     96. gr.


1.     Fulltrúar efnahags- og félagsmálanefndarinnar og annarra samtaka, sem eru í fyrirsvari fyrir aðila á sviði félagsmála í bandalaginu, og fulltrúar samsvarandi aðila í EFTA-ríkjunum skulu vinna að því að styrkja tengslin sín í milli og eiga samstarf á skipulagðan og reglubundinn hátt með það að markmiði að auka skilning á efnahagslegum og félagslegum þáttum í stöðugt samofnara efnahagssamstarfi samningsaðilanna og á hagsmunum þeirra innan EES.
2.     Ráðgjafarnefnd EES er hér með komið á fót í þessum tilgangi. Hana skipa jafnmargir fulltrúar efnahags- og félagsmálanefndar bandalagsins annars vegar og ráðgjafarnefndar EFTA hins vegar. Ráðgjafarnefnd EES er heimilt að láta í ljós álit sitt í formi skýrslna eða ályktana eftir því sem við á.
3.     Ráðgjafarnefnd EES setur sér starfsreglur.


2. KAFLI


TILHÖGUN ÁKVARÐANATÖKU


     97. gr.


     Með fyrirvara um meginregluna um jafnræði, og eftir að öðrum samningsaðilum hafa verið veittar upplýsingar þar um, hefur samningur þessi ekki áhrif á rétt einstakra samnings­aðila til að breyta innlendri löggjöf á þeim sviðum sem samningurinn tekur til:
    ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að löggjöf, eins og henni hefur verið breytt, hafi ekki áhrif til hins verra á framkvæmd samningsins; eða
    ef skilyrðum 98. gr. hefur verið fullnægt.

98. gr.


     Breyta má viðaukum samningsins, svo og bókunum 1–7, 9–11, 19–27, 30–32, 37, 39, 41 og 47, eftir því sem við á, með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í samræmi við 93. (2. mgr.), 99., 100., 102. og 103. gr.

99. gr.


1.     Þegar framkvæmdastjórn EB hefur undirbúning að nýrri löggjöf á sviði sem samningur þessi tekur til skal hún leita óformlega ráða hjá sérfræðingum EFTA-ríkjanna á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkja EB við mótun tillagnanna.
2.     Þegar framkvæmdastjórnin sendir ráði Evrópubandalaganna tillögur sínar skal hún senda afrit af þeim til EFTA-ríkjanna. Fyrstu skoðanaskipti skulu fara fram í sameiginlegu EES-nefndinni óski einhver samningsaðila þess.
3.     Á þeim tíma sem líður fram að töku ákvörðunar í ráði Evrópubandalaganna skulu samningsaðilar, í samfelldu ferli upplýsingaskipta og samráðs, ráðgast hver við annan í sameigin­legu EES-nefndinni að beiðni einhvers þeirra á öllum tímamótum á leið að endanlegri töku ákvörðunar.
4.     Samningsaðilar skulu starfa saman af heilum hug á upplýsinga- og samráðstímabilinu með það fyrir augum að auðvelda ákvarðanatöku í sameiginlegu EES-nefndinni í lok meðferðar málsins.

100. gr.


     Framkvæmdastjórn EB skal tryggja sérfræðingum EFTA-ríkjanna eins víðtæka þátttöku og unnt er á viðkomandi sviðum við undirbúning á drögum að tillögum er síðar eiga að fara fyrir þær nefndir sem eru framkvæmdastjórninni til aðstoðar við beitingu framkvæmdarvalds hennar. Í þessum málum skal framkvæmdastjórn EB, þegar hún gengur frá tillögum, ráðgast við sérfræðinga EFTA-ríkjanna á sama grundvelli og hún ráðgast við sérfræðinga aðildar­ríkja EB.
     Í þeim tilvikum þegar mál er til meðferðar hjá ráði Evrópubandalaganna í samræmi við starfsreglur sem gilda um viðkomandi nefnd skal framkvæmdastjórn EB koma áliti sérfræð­inga EFTA-ríkjanna á framfæri við ráð Evrópubandalaganna.

101. gr.

1.     Að því er varðar nefndir, sem falla hvorki undir 81. né 100. gr., skal haft samstarf við sérfræðinga EFTA-ríkjanna þegar góð framkvæmd samningsins krefst slíks.
    Þessar nefndir eru skráðar í bókun 37. Kveðið er á um tilhögun slíks samstarfs í bókunum og viðaukum um einstök svið þar sem fjallað er um viðkomandi málefni.
2.     Telji samningsaðilar að slíkt samstarf ætti að taka til annarra nefnda sem eru svipaðs eðlis getur sameiginlega EES-nefndin breytt bókun 37.

102. gr.


1.     Til að tryggja réttaröryggi og einsleitni EES skal sameiginlega EES-nefndin taka ákvörðun um breytingu á viðauka við samning þennan eins fljótt og unnt er, eftir að bandalagið hefur samþykkt nýja samsvarandi löggjöf bandalagsins, með það að markmiði að unnt sé að beita samtímis þeirri löggjöf og breytingunum á viðaukunum við samninginn. Bandalagið skal í þessum tilgangi tilkynna öðrum samningsaðilum í sameiginlegu EES-nefndinni eins fljótt og unnt er þegar það samþykkir réttargerð um málefni sem fjallað er um í samningi þessum.
2.     Sameiginlega EES-nefndin skal meta á hvaða hluta viðauka við samning þennan þessi nýja löggjöf hefur bein áhrif.
3.     Samningsaðilar skulu gera sitt ýtrasta til að komast að samkomulagi um málefni sem samningur þessi tekur til.
    Sameiginlega EES-nefndin skal einkum gera sitt ítrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við þegar upp koma alvarleg vandamál á sviðum sem falla undir valdsvið löggjafans í EFTA-ríkjunum.
4.     Ef ekki er unnt að komast að samkomulagi um breytingar á viðauka við samning þennan, þrátt fyrir beitingu undanfarandi málsgreinar, skal sameiginlega EES-nefndin kanna alla frekari möguleika á því að tryggja áframhaldandi góða framkvæmd samningsins og taka nauðsynlegar ákvarðanir þar að lútandi, meðal annars möguleika á viðurkenningu á sam­bærilegri löggjöf. Taka verður slíka ákvörðun eigi síðar en við lok sex mánaða tímabils, frá því að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, eða á gildistökudegi samsvarandi löggjafar bandalagsins ef sá dagur er síðar.
5.     Hafi sameiginlega EES-nefndin ekki tekið ákvörðun um breytingu á viðauka við þennan samning við lok frests sem settur er í 4. mgr. skal litið svo á að framkvæmd viðkomandi hluta viðaukans, sem ákveðinn er samkvæmt 2. mgr., sé frestað til bráðabirgða nema sameiginlega EES-nefndin ákveði annað. Frestun af þessu tagi gengur í gildi sex mánuðum eftir lok tímabilsins sem um getur í 4. mgr., þó ekki fyrir þann dag er samsvarandi gerð EB kemur til framkvæmda í bandalaginu. Sameiginlega EES-nefndin skal áfram leitast við að koma á samkomulagi um lausn sem aðilar geta sætt sig við svo að draga megi frestunina til baka við fyrsta tækifæri.
6.     Ræða skal um raunhæfar afleiðingar þeirrar frestunar sem um getur í 5. mgr. í sameiginlegu EES-nefndinni. Réttindi og skyldur sem einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri hafa þegar áunnið sér með samningi þessum skulu haldast. Samningsaðilar skulu, eftir því sem við á, ákveða hvaða breytingar þurfi að gera vegna frestunarinnar.

103. gr.

1.     Ef ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar getur einungis verið bindandi fyrir samningsaðila eftir að hann hefur uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði skal ákvörðunin ganga í gildi á þeim degi sem getið er í henni, ef sérstakur dagur er tiltekinn, að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili hafi tilkynnt hinum samningsaðilunum fyrir þann dag að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt.
    Hafi tilkynningin ekki farið fram fyrir umræddan dag gengur ákvörðunin í gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynningu.
2.     Hafi tilkynningin ekki átt sér stað sex mánuðum eftir að sameiginlega EES-nefndin tók ákvörðun sína skal ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar gilda til bráðabirgða meðan stjórnskipulegum skilyrðum hefur ekki verið fullnægt, nema samningsaðili tilkynni að slík gildistaka til bráðabirgða geti ekki átt sér stað. Í síðara tilvikinu, eða tilkynni samningsaðili að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hafi ekki hlotið samþykki, skal frestunin sem kveðið er á um í 5. mgr. 102. gr. ganga í gildi einum mánuði eftir að tilkynningin fer fram en þó ekki fyrir þann dag er samsvarandi gerð EB kemur til framkvæmda í bandalaginu.

104. gr.


     Ákvarðanir teknar af sameiginlegu EES-nefndinni í tilvikum sem kveðið er á um í samn­ingi þessum skulu vera bindandi fyrir samningsaðila frá og með gildistökudegi þeirra, nema kveðið sé á um annað í þeim, og skulu þeir gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja framkvæmd þeirra og beitingu.

3. KAFLI


EINSLEITNI, TILHÖGUN EFTIRLITS OG LAUSN DEILUMÁLA1. ÞÁTTUR


EINSLEITNI


     105. gr.


1.     Til að ná því markmiði samningsaðila að ná fram og halda sig við eins samræmda túlkun og unnt er á ákvæðum samningsins og þeim ákvæðum í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samninginn skal sameiginlega EES-nefndin starfa í samræmi við þessa grein.
2.     Sameiginlega EES-nefndin skal stöðugt hafa til skoðunar þróun dómsúrlausna dómstóls Evrópubandalaganna og EFTA-dómstólsins sem kveðið er á um í 2. mgr. 108. gr. Í þessum tilgangi skal senda dóma þessara dómstóla til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem skal gera ráðstafanir til að varðveita einsleita túlkun á samningnum.
3.     Ef sameiginlegu EES-nefndinni hefur ekki tekist að varðveita einsleita túlkun á samningnum innan tveggja mánaða frá því að mismunur á úrlausnum dómstólanna tveggja var lagður fyrir hana má beita málsmeðferðinni sem mælt er fyrir um í 111. gr.

106. gr.


     Til að tryggja að samningur þessi verði túlkaður á eins samræmdan hátt og kostur er, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, skal sameiginlega EES-nefndin koma á kerfi til að skiptast á upplýsingum um dóma EFTA-dómstólsins, dómstóls Evrópubandalaganna og dómstóls Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi og dómstóla EFTA-ríkjanna á síðasta dómstigi. Í kerfi þessu skal felast:
     a)      að þessir dómstólar sendi ritara dómstóls Evrópubandalaganna dóma sína um túlkun og beitingu annars vegar samnings þessa og hins vegar stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalags Evrópu, með áorðnum breytingum og viðbótum, auk þeirra gerða sem hafa verið samþykktar í samræmi við þá, að því leyti sem þeir varða ákvæði sem eru efnislega samhljóða ákvæðum samnings þessa;
     b)      að ritari dómstóls Evrópubandalaganna sjái um að flokka þessa dóma og semja og birta, eins og þörf krefur, þýðingar og útdrætti;
     c)      að ritari dómstóls Evrópubandalaganna sendi þau skjöl sem máli skipta til lögbærra yfirvalda hvers lands sem sérhver samningsaðili tilnefnir fyrir sig.

107. gr.


     Í bókun 34 eru ákvæði er gefa EFTA-ríki kost á að heimila dómstóli eða rétti að biðja dómstól Evrópubandalaganna að ákveða túlkun EES-reglna.

2. ÞÁTTUR


TILHÖGUN EFTIRLITS


     108. gr.


1.     EFTA-ríkin skulu koma á fót sjálfstæðri eftirlitsstofnun (eftirlitsstofnun EFTA) svo og kerfi svipuðu og fyrir er í bandalaginu, meðal annars kerfi til að tryggja efndir á skuldbind­ingum samkvæmt samningi þessum og til eftirlits með lögmæti aðgerða eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni.
2.     EFTA-ríkin skulu koma á fót dómstóli (EFTA-dómstóli).
Undir valdsvið EFTA-dómstólsins skal með tilliti til beitingar samnings þessa og í samræmi við sérstakan samning milli EFTA-ríkjanna einkum heyra:
     a)      mál um tilhögun eftirlits er varðar EFTA-ríkin;
     b)      áfrýjanir á ákvörðunum eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni;
     c)      lausn deilumála milli tveggja eða fleiri EFTA-ríkja.

109. gr.


1.     Annars vegar skal eftirlitsstofnun EFTA fylgjast með efndum á skuldbindingum samkvæmt samningi þessum og hins vegar framkvæmdastjórn EB sem starfar samkvæmt stofn­sáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og samningi þessum.
2.     Til að tryggja samræmt eftirlit á öllu Evrópska efnahagssvæðinu skulu eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB hafa samstarf sín í milli, skiptast á upplýsingum og ráðgast hvor við aðra um stefnu í eftirlitsmálum og einstök mál.
3.     Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu taka við umkvörtunum varðandi beitingu samnings þessa. Þær skulu skiptast á upplýsingum um kvartanir sem borist hafa.
4.     Hvor þessara stofnana um sig skal rannsaka allar kvartanir sem falla undir valdsvið hennar og koma kvörtunum sem falla undir valdsvið hinnar stofnunarinnar til hennar.
5.     Komi upp ósamkomulag milli þessara tveggja stofnana um það til hvaða aðgerða skuli gripið í tengslum við kvörtun eða um niðurstöðu rannsóknar getur hvor þeirra sem er vísað málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar sem skal fjalla um það í samræmi við 111. gr.

110. gr.


     Ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB, samkvæmt samningi þessum, sem leggja fjárskuldbindingar á aðra aðila en ríki skulu vera fullnustuhæfar. Hið sama skal eiga við um slíka dóma dómstóls Evrópubandalaganna, dómstóls Evrópubandalag­anna á fyrsta dómstigi og EFTA-dómstólsins samkvæmt samningi þessum.
     Fullnustan skal fara fram í samræmi við gildandi réttarfarsreglur í einkamálum í ríkinu þar sem fullnustan fer fram. Fullnustuúrskurður skal fylgja ákvörðuninni með því eina form­skilyrði að gengið hafi verið úr skugga um að ákvörðunin hafi verið tekin af þar til bæru yfir­valdi sem sérhver samningsaðili tilnefnir í þessu skyni og sendir öðrum samningsaðilum, svo og eftirlitsstofnun EFTA, framkvæmdastjórn EB, dómstóli Evrópubandalaganna, dómstóli Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi og EFTA-dómstólnum, tilkynningu um.
     Þegar þessum formsatriðum hefur verið fullnægt að beiðni hlutaðeigandi aðila má hinn sami láta fullnustu fara fram, í samræmi við lög þess ríkis þar sem fullnustan á að fara fram, með því að fara með málið beint fyrir lögbært yfirvald.
     Fullnustunni verður einungis frestað með úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna hvað varðar ákvarðanir framkvæmdastjórnar EB, úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi eða dómstóls Evrópubandalaganna, eða með úrskurði EFTA-dómstólsins hvað varðar ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA eða úrskurði EFTA-dómstólsins. Dómstólar hlutaðeigandi ríkja hafa þó lögsögu varðandi kvartanir um að ekki sé staðið rétt að fullnustunni.

3. ÞÁTTUR


LAUSN DEILUMÁLA


     111. gr.


1.     Bandalagið eða EFTA-ríki getur lagt deilumál er varðar túlkun eða beitingu samnings þessa fyrir sameiginlegu EES-nefndina í samræmi við eftirfarandi ákvæði.
2.     Sameiginlegu EES-nefndinni er heimilt að leysa deilumálið. Henni skulu gefnar allar upplýsingar sem hún kann að þarfnast til þess að framkvæma nákvæma rannsókn á málinu, með það fyrir augum að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við. Í þessum tilgangi skal sameigin­lega EES-nefndin rannsaka alla möguleika til að viðhalda góðri framkvæmd samningsins.
3.     Varði deilumál túlkun ákvæða samnings þessa, sem eru efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála, og hafi málið ekki verið leyst innan þriggja mánaða frá því að það var lagt fyrir sameiginlegu EES-nefndina, geta samningsaðilar, sem eiga aðild að deilumálinu, samþykkt að fara fram á það við dómstól Evrópubandalaganna að hann kveði upp úrskurð um túlkun á viðkomandi reglum.
    Hafi sameiginlega EES-nefndin ekki náð samkomulagi um lausn á slíku deilumáli innan sex mánaða frá þeim degi er þessi málsmeðferð hófst, eða hafi samningsaðilar, sem eiga aðild að deilumálinu, á þeim tíma ekki ákveðið að fara fram á úrskurð dómstóls Evrópu­bandalaganna, getur samningsaðili, til að draga úr hugsanlegu ójafnvægi,
    annaðhvort gripið til öryggisráðstafana í samræmi við 2. mgr. 112. gr. og málsmeðferð 113. gr.;
    eða beitt 102. gr. að breyttu breytanda.
4.     Varði deilumál umfang eða gildistíma öryggisráðstafana, sem gripið er til í samræmi við 3. mgr. 111. gr. eða 112. gr., eða umfang jöfnunarráðstafana, sem gerðar eru í samræmi við 114. gr., og hafi sameiginlegu EES-nefndinni ekki tekist að leysa deiluna þremur mánuðum eftir þann dag er málið var lagt fyrir hana getur hver samningsaðila sem er vísað deilumálinu til gerðardóms samkvæmt málsmeðferð sem mælt er fyrir um í bókun 33. Óheimilt er að fjalla um túlkun á ákvæðum samnings þessa, sem um getur í 3. mgr., samkvæmt þessari máls­meðferð. Gerðin er bindandi fyrir deiluaðila.

4. KAFLI


    ÖRYGGISRÁÐSTAFANIR


112. gr.


1.     Ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr.
2.     Slíkar ÖRYGGISRÁÐSTAFANIR skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafan­ir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.
3.     Öryggisráðstafanirnar skulu gilda gagnvart öllum samningsaðilum.

113. gr.


1.     Samningsaðili sem hyggst grípa til öryggisráðstafana í samræmi við 112. gr. skal tilkynna hinum samningsaðilunum það án tafar fyrir milligöngu sameiginlegu EES-nefndarinnar og skal hann veita allar nauðsynlegar upplýsingar.
2.     Samningsaðilar skulu tafarlaust bera saman ráð sín í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna viðunandi lausn fyrir alla aðila.
3.     Hlutaðeigandi samningsaðili má ekki grípa til öryggisráðstafana fyrr en einum mánuði eftir dagsetningu tilkynningarinnar samkvæmt 1. mgr. nema samráði samkvæmt 2. mgr. hafi verið lokið áður en umræddur frestur var liðinn. Þegar óvenjulegar aðstæður, sem krefjast tafarlausra aðgerða, útiloka könnun fyrir fram getur hlutaðeigandi samningsaðili strax gripið til þeirra verndarráðstafana sem bráðnauðsynlegar teljast til þess að ráða bót á ástandinu.
    Framkvæmdastjórn EB skal grípa til öryggisráðstafana fyrir bandalagið.
4.     Hlutaðeigandi samningsaðili skal án tafar tilkynna ráðstafanirnar, sem gerðar hafa verið, til sameiginlegu EES-nefndarinnar og veita allar nauðsynlegar upplýsingar.
5.     Í sameiginlegu EES-nefndinni skal hafa samráð um öryggisráðstafanirnar á þriggja mánaða fresti frá því að gripið er til þeirra með það fyrir augum að fella þær niður fyrir áætluð lok gildistímabilsins eða takmarka umfang þeirra.
    Hver samningsaðilanna um sig getur hvenær sem er farið fram á það við sameiginlegu EES-nefndina að hún endurskoði umræddar ráðstafanir.

114. gr.


1.     Ef öryggisráðstöfun, sem samningsaðili hefur gripið til, veldur misvægi milli réttinda og skyldna samkvæmt samningi þessum getur hver hinna samningsaðilanna gripið til jafnumfangsmikilla jöfnunarráðstafana gagnvart fyrrnefndum samningsaðila og bráð­nauðsynlegar eru til að jafna umrætt misvægi. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst starfsemi Evrópska efnahagssvæðisins.
2.     Málsmeðferðin sem kveðið er á um í 113. gr. gildir.

VIII. HLUTI


FJÁRMAGNSKERFI


115. gr.


    Samningsaðilar eru sammála um nauðsyn þess að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða sinna með það fyrir augum að stuðla að jafnri og stöðugri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila eins og kveðið er á um í 1. gr. Í þessu tilliti hafa þeir í huga ákvæði sem er að finna annars staðar í samningi þessum og bókanir er tengjast honum, að meðtöldum tilteknum ráðstöfunum er varða landbúnað og sjávarútveg.

116. gr.


    EFTA-ríkin skulu koma upp fjármagnskerfi í þeim tilgangi að leggja sitt af mörkum, í tengslum við EES og til viðbótar því sem bandalagið gerir þegar á þessu sviði, til framgangs markmiðunum sem sett eru í 115. gr.

117. gr.


    Í bókun 38 eru ákvæði um fjármagnskerfið.
    

IX. HLUTI


ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI


     118. gr.


1.     Álíti samningsaðili það öllum samningsaðilum til hagsbóta að þróa tengslin, sem stofnað er til með samningi þessum, með því að láta þau ná til fleiri sviða en þar er gert ráð fyrir skal hann leggja fram rökstudda beiðni til hinna samningsaðilanna í EES-ráðinu. Ráðið getur falið sameiginlegu EES-nefndinni að rannsaka alla þætti beiðninnar og leggja fram skýrslu.
    EES-ráðið getur, eftir því sem við á, tekið stjórnmálalegar ákvarðanir með það fyrir augum að hafnar verði samningaviðræður milli samningsaðila.
2.     Samningar sem samningaviðræður samkvæmt 1. mgr. leiða til skulu háðir fullgildingu eða samþykki samningsaðila í samræmi við þeirra eigin reglur.

119. gr.


    Viðaukar, svo og gerðir sem vísað er til í þeim og aðlagaðar eru vegna samnings þessa, skulu auk bókana vera óaðskiljanlegur hluti samningsins.

120. gr.


    Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum og einkum í bókunum 41, 43 og 44 skulu ákvæði samningsins ganga framar ákvæðum í gildandi tvíhliða eða marghliða samningum sem Efnahagsbandalag Evrópu annars vegar og eitt eða fleiri EFTA-ríki hins vegar eru bundin af að því leyti sem samningur þessi tekur til sömu efnisatriða.

121. gr.


    Ákvæði samnings þessa útiloka ekki samstarf:
     a)      innan ramma norrænnar samvinnu að því leyti sem slík samvinna raskar ekki góðri framkvæmd samnings þessa;
     b)      innan ramma svæðissambandsins milli Sviss og Liechtensteins að því leyti sem markmið sambandsins nást ekki með beitingu ákvæða samnings þessa og góð framkvæmd samningsins raskast ekki;
     c)      innan ramma samvinnu Austurríkis og Ítalíu varðandi Tíról, Vorarlberg og Trentínó Suður-Tíról/Altó Adíge að því leyti sem slík samvinna raskar ekki góðri framkvæmd samnings þessa.

122. gr.


     Fulltrúar, sendimenn og sérfræðingar samningsaðila, svo og embættismenn og aðrir starfsmenn samkvæmt samningi þessum, skulu bundnir þagnarskyldu, sem helst enda þótt þeir láti af störfum, um vitneskju sem á að fara leynt í starfi þeirra, einkum upplýsingar um fyrirtæki, viðskiptatengsl þeirra og kostnaðarþætti.

123. gr.

     Ekkert í samningi þessum skal hindra samningsaðila í að gera ráðstafanir:
     a)      sem hann telur nauðsynlegar til að girða fyrir uppljóstrun upplýsinga andstætt mikilvægum öryggishagsmunum sínum;
     b)      sem snerta framleiðslu á eða viðskipti með vopn, skotfæri og hergögn eða aðrar framleiðsluvörur, nauðsynlegar til varna, eða varða rannsóknir, þróun eða framleiðslu, nauðsynlega til varna, enda raski þessar ráðstafanir ekki samkeppnisskilyrðum hvað varðar framleiðsluvörur sem eru ekki sérstaklega ætlaðar til hernaðarþarfa;
     c)      sem hann telur nauðsynlegar vegna eigin öryggis þegar alvarlegar innanlandserjur ógna lögum og reglu, stríð geisar eða alvarleg spenna ríkir í alþjóðamálum, sem leitt getur til styrjaldar, eða til að uppfylla skyldur sem hann hefur tekið á sig til að gæta friðar og alþjóðaöryggis.

124. gr.


    Með fyrirvara um beitingu annarra ákvæða samnings þessa skulu samningsaðilar sjá til þess að ríkisborgarar aðildarríkja EB og EFTA-ríkja sitji við sama borð og eigin ríkisborgar­ar hvað varðar hlutdeild í fjármagni félaga eða fyrirtækja í skilningi 34. gr.

125. gr.


     Samningur þessi hefur engin áhrif á reglur samningsaðila um skipan eignarréttar.

126. gr.


1.     Samningurinn gildir á þeim svæðum sem stofnsáttmáli Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmáli Kola- og stálbandalags Evrópu taka til, með þeim skilmálum sem þar eru settir, og á yfirráðasvæðum Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Finnlands, Lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs, Konungsríkisins Svíþjóðar og Ríkjasambandsins Sviss.
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. skal samningur þessi ekki gilda um Álandseyjar. Ríkisstjórn Finnlands getur þó gefið út yfirlýsingu, sem lögð skal fram hjá vörsluaðila við fullgildingu samnings þessa og hann skal senda samningsaðilum staðfest endurrit af, þess efnis að samningurinn skuli gilda um þessar eyjar með sömu skilmálum og hann gildir um aðra hluta Finnlands, samanber þó eftirfarandi ákvæði:
     a)      Ákvæði samnings þessa skulu ekki hindra beitingu ákvæða er gilda hverju sinni á Álandseyjum og varða:
         i.     höft á rétti einstaklinga, sem hafa ekki svæðisbundinn borgararétt á Álandseyjum, og lögpersóna til að eignast og eiga fasteignir á Álandseyjum án heimildar þar til bærra yfirvalda eyjanna;
         ii.     höft á rétti einstaklinga, sem hafa ekki svæðisbundinn borgararétt á Álandseyjum, eða lögpersóna til staðfestu og til að veita þjónustu án heimildar þar til bærra yfirvalda eyjanna.
     b)      Samningur þessi hefur ekki á áhrif á réttindi íbúa Álandseyja í Finnlandi.
     c)      Yfirvöld á Álandseyjum skulu veita öllum einstaklingum og lögpersónum samningsaðila sömu kjör.

127. gr.

     Sérhver samningsaðili getur sagt upp aðild sinni að samningi þessum að því tilskildu að hann veiti öðrum samningsaðilum að minnsta kosti tólf mánaða fyrirvara með skriflegum hætti.
     Jafnskjótt og fyrirhuguð uppsögn hefur verið tilkynnt skulu hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til þess að meta hvaða breytingar sé nauðsynlegt að gera á samningnum.

128. gr.


1.     Evrópuríki sem gengur í bandalagið er skylt, en heimilt gangi það í EFTA, að gerast aðili að samningi þessum. Það skal senda EES-ráðinu umsókn sína.
2.     Samningsaðilar og ríki sem sækir um skulu gera með sér samkomulag um skilmála og skilyrði fyrir slíkri aðild. Slíkt samkomulag skal lagt fyrir alla samningsaðila til fullgildingar eða samþykktar í samræmi við eigin reglur þeirra.

129. gr.


1.     Samningur þessi er gerður í einu frumriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, norsku, portúgölsku, spænsku, sænsku og þýsku og er hver þessara texta jafngildur.
    Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á dönsku, ensku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, portúgölsku, spænsku og þýsku, eins og þeir birtast í Stjórnartíð­indum Evrópubandalagsins, og skulu með tilliti til jafngildingar gerðir á finnsku, íslensku, norsku og sænsku.
2.     Samningsaðilar skulu fullgilda eða samþykkja samning þennan í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers um sig.
    Honum skal komið í vörslu hjá aðalskrifstofu ráðs Evrópubandalaganna sem skal senda hverjum hinna samningsaðilanna staðfest endurrit.
    Fullgildingar- og samþykktarskjölunum skal komið í vörslu hjá aðalskrifstofu ráðs Evrópubandalaganna sem skal tilkynna öllum hinum samningsaðilunum það.
3.     Samningur þessi öðlast gildi 1. janúar 1993 að því tilskildu að allir samningsaðilar hafi afhent fullgildingar- eða samþykktarskjöl sín til vörslu fyrir þann dag. Eftir þann dag skal samningurinn öðlast gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynninguna. Lokafrestur varðandi þá tilkynningu skal vera 30. júní 1993. Eftir þann dag skulu samningsaðilar boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að meta stöðu mála.

    ÞESSU TIL STAÐFESTINGAR hafa undirritaðir fulltrúar, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    Gjört í Óportó annan dag maímánaðar árið nítján hundruð níutíu og tvö.Fylgiskjal II.


BÓKUN 1


UM ALTÆKA AÐLÖGUN


     Ákvæði gerða sem vísað er til í viðaukum við samning þennan skulu gilda í samræmi við samninginn og þessa bókun, nema kveðið sé á um annað í viðkomandi viðauka. Sérstaka nauðsynlega aðlögun fyrir einstakar gerðir er að finna í þeim viðauka þar sem viðkomandi gerð er skráð.

1. Inngangur að gerðum
     Inngangsorð gerða sem vísað er til eru ekki aðhæfð hvað samning þennan varðar. Mikilvægi þeirra fer eftir því hversu nauðsynleg þau eru fyrir rétta túlkun og beitingu, innan ramma samningsins, þeirra ákvæða sem í gerðunum felast.

2. Ákvæði um EB-nefndir
     Í 81., 100. og 101. gr. samningsins og bókun 31 er fjallað um starfshætti, fyrirkomulag stofnana eða önnur ákvæði um EB-nefndir í gerðunum sem vísað er til.

3. Ákvæði um tilhögun aðlögunar/breytinga á gerðum bandalagsins
     Ef gerð sem vísað er til gerir ráð fyrir Evrópubandalagstilhögun við aðlögun, útvíkkun eða breytingu á gerðinni eða þróun nýrrar stefnu, frumkvæðis og gerða innan bandalagsins gilda viðeigandi reglur um ákvarðanatöku samkvæmt samningnum.

4. Tilhögun varðandi upplýsingaskipti og tilkynningar
     a)      Þegar aðildarríki EB ber að veita framkvæmdastjórn EB upplýsingar skal EFTA-ríki veita eftirlitsstofnun EFTA og fastanefnd EFTA-ríkjanna slíkar upplýsingar. Hið sama gildir þegar þar til bær yfirvöld eiga að annast sendingu upplýsinga. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA skulu skiptast á upplýsingum sem þeim hafa borist frá aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjunum eða þar til bærum yfirvöldum.
     b)      Þegar aðildarríki EB ber að veita einu eða fleiri aðildarríkjum EB upplýsingar skal það einnig veita framkvæmdastjórn EB þessar upplýsingar og skal hún koma þeim á fram­færi við fastanefndina sem dreifir þeim til EFTA-ríkjanna.
             EFTA-ríki skal veita einu eða fleiri EFTA-ríkjum samsvarandi upplýsingar og einnig fastanefndinni sem kemur upplýsingunum á framfæri við framkvæmdastjórn EB er dreifir þeim til aðildarríkja EB. Hið sama gildir þegar þar til bær yfirvöld eiga að veita upplýsingarnar.
     c)      Á sviðum þar sem brýn þörf er á skjótvirkri upplýsingamiðlum ber að leita viðeigandi lausna fyrir einstök svið til þess að greiða fyrir beinum upplýsingaskiptum.
     d)      Starfsemi framkvæmdastjórnar EB vegna tilhögunar við sannprófun eða samþykki, upplýsingar, tilkynningar eða ráðgjöf og skyld málefni skal að því er EFTA-ríkin varðar fara fram í samræmi við starfsreglur þeirra. Þetta gildir með fyrirvara um ákvæði 2., 3. og 7. tölul. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA eða fastanefndin, eftir atvikum, skulu skiptast á öllum upplýsingum um þessi málefni. Öllum ágreiningsefnum sem upp koma í þessu samhengi má vísa til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

5. Skýrslugerð
     Þegar framkvæmdastjórn EB eða önnur stofnun EB á, samkvæmt gerð sem vísað er til, að vinna að skýrslu eða mati eða öðru slíku, skal eftirlitsstofnun EFTA eða fastanefndin, eftir atvikum, nema annað sé ákveðið, samtímis gera, eftir því sem við á, samsvarandi skýrslu eða mat eða annað slíkt, með tilliti til EFTA-ríkjanna. Framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA eða fastanefndin, eftir atvikum, skulu hafa samráð sín á milli og skiptast á upplýsingum meðan á skýrslugerðinni stendur, en afrit af skýrslunni skal senda sameiginlegu EES-nefndinni.

6. Birting upplýsinga
     a)      Þegar aðildarríki EB á, samkvæmt gerð sem vísað er til, að birta ákveðnar upplýsingar um staðreyndir, málsmeðferð og annað slíkt skulu EFTA-ríkin einnig, samkvæmt samn­ingnum, birta viðkomandi upplýsingar á samsvarandi hátt.
     b)      Þegar birta á, samkvæmt gerð sem vísað er til, staðreyndir, málsmeðferð, skýrslur og annað slíkt í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins skal birta þar samsvarandi upplýs­ingar varðandi EFTA-ríkin í sérstakri EES-deild. 1

7. Réttindi og skyldur
    Líta ber á réttindi og skyldur aðildarríkja Evrópubandalagsins eða opinberra stofnana þeirra, fyrirtækja eða einstaklinga hvers gagnvart öðru sem réttindi og skyldur samnings­aðila, og er með samningsaðilum einnig átt við, eftir atvikum, þar til bær yfirvöld þeirra, opinberar stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.

8. Tilvísanir til yfirráðasvæða
     Þegar gerðirnar vísað er til geyma tilvísanir til yfirráðasvæða „bandalagsins“ eða „sameiginlega markaðarins“ ber að líta svo á að því er samninginn varðar að þær séu tilvísanir til yfirráðasvæða samningsaðila samkvæmt skilgreiningu í 126. gr. samningsins.

9. Tilvísanir til ríkisborgara aðildarríkja EB
     Þegar gerðirnar sem vísað er til geyma tilvísanir til ríkisborgara aðildarríkja EB ber að líta svo á, að því er samninginn varðar, að þær séu einnig tilvísanir til ríkisborgara EFTA-ríkjanna.

10. Tilvísanir til tungumála
     Þegar gerð sem vísað er til veitir aðildarríkjum EB eða opinberum stofnunum þeirra, fyrirtækjum eða einstaklingum réttindi eða setur þeim skyldur um notkun einhvers hinna opinberu tungumála Evrópubandalaganna, ber að líta svo á að samsvarandi réttindi og skyldur um notkun á einhverju opinberu tungumáli allra samningsaðila eigi við um samnings­aðila, þar til bær yfirvöld þeirra, opinberar stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.

11. Gildistaka og framkvæmd gerða
     Ákvæði um gildistöku eða framkvæmd þeirra gerða sem vísað er til í viðaukum við samninginn eiga ekki við að því er samninginn varðar. Tímamörk og dagsetningar fyrir gildistöku og framkvæmd EFTA-ríkja á þeim gerðum sem vísað er til miðast við 3. mgr. 129. gr. samn­ingsins, svo og ákvæði um bráðabirgðafyrirkomulag.

12. Viðtakendur gerða bandalagsins
     Ákvæði þar sem þess er getið að gerð bandalagsins sé beint til aðildarríkja bandalagsins eiga ekki við að því er samninginn varðar.Fylgiskjal III.


     9. TÖLUL. VIII. VIÐAUKA

     Þrátt fyrir 31.–35. gr. samningsins og ákvæði þessa viðauka er Íslandi heimilt að beita áfram höftum, sem eru í gildi við undirritun samningsins um staðfestu þeirra sem i eru ekki ríkisborgarar og ríkisborgara sem eiga ekki lögheimili á Íslandi, á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu.Fylgiskjal IV.


G-LIÐUR 1. TÖLUL. XII. VIÐAUKA

     Þrátt fyrir 40. gr. samningsins og ákvæði þessa viðauka er Íslandi heimilt að beita áfram þeim höftum sem eru í gildi við undirritun samningsins um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi á sviði fiskveiða og fiskvinnslu.
     Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Þó hafa innlend yfirvöld rétt til að skuldbinda fyrirtæki sem hafa að hluta eða að öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki eru með lögheimili á Íslandi til að losa sig við fjárfestingar í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða í fiskiskipum.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.A. Inngangur.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 115. löggjafarþingi og á ný á 116. löggjafarþingi. Með frumvarpi þessu er leitað eftir heimild Alþingis til þess að fullgilda samning um Evrópskt efnahagssvæði, hér nefndur EES-samningurinn, milli Efnahagsbandalags Evrópu (EBE), Kola- og stálbandalags Evrópu (KSBE) og aðildarríkja þessara bandalaga annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hins vegar, sem undirritaður var í Óportó 2. maí 1992.
    Einnig er leitað eftir heimild til þess að fullgilda tvo fylgisamninga milli EFTA- ríkjanna, annars vegar samning um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, hér nefndur ESE-samning­urinn, og hins vegar samning um fastanefnd EFTA.
    Frumvarpinu fylgir samningur í formi bréfaskipta milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði, en gildistaka hans er háð gildistöku EES-samningsins.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er viðamesti samningur sem Ísland hefur gert og er jafnframt einn sá mikilvægasti. Honum er ætlað að koma á sameiginlegum markaði 19 ríkja Evrópubandalagsins (EB) og Fríverslunarsamtaka Evrópu, með um 380 milljónir íbúa, frá og með 1. janúar 1993.
    Með samningnum er stefnt að því að koma á frjálsum vöru- og þjónustuviðskiptum, frjálsum fjármagnsflutningum og sameiginlegum vinnumarkaði á þessu svæði. Jafnframt verður samvinna þessara Vestur-Evrópuríkja stóraukin á margvíslegum sviðum, m.a. á sviði félagsmála, jafnréttismála, neytendamála, umhverfismála, menntamála, vísinda- og tæknimála, svo að dæmi séu tekin.
    Markmið samningsins eru m.a. að auka viðskipti, glæða hagvöxt, bæta lífskjör og velsæld íbúa allra þátttökuríkja í efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu tilliti og ekki síst að styrkja grundvöllinn að varanlegum friði í Evrópu.
    EES-samningurinn skapar íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum bæði tækifæri og hvatningu til þess að þróa ný atvinnutækifæri, greiðir fyrir aðgangi íslenskra afurða og þjónustu að Evrópumarkaði og stuðlar þar með að aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.
    Um áhrif EES-samningsins á íslenskt efnahagslíf vísast í skýrslu Þjóðhagsstofnunar „Íslenskur þjóðarbúskapur og Evrópska efnahagssvæðið“ (116. bls., Reykjavík, september 1991). Í viðbæti 2 við frumvarpið er yfirlit yfir utanríkisviðskipti Íslands 1987-91 og í viðbæti 3 er yfirlit yfir hagvöxt 1988–92.

     B. Meginefni EES-samningsins

1. Fjórþætta frelsið
    Með því að koma á sameiginlegum markaði EB og EFTA-ríkja á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagns og vinnuafls eru hin 19 aðildarríki að samræma leikreglur viðskiptalífsins og þar með tengjast þau nánari böndum.
    Hinu má ekki gleyma að þær reglur sem Ísland hefur búið við á sviði vöruviðskipta innan EFTA síðan 1970 og skv. fríverslunarsamningum við EB síðan 1972 eru nánast hliðstæðar þeim sem felast í EES-samningnum. Sama má segja um hinn sameiginlega norræna vinnumarkað, sem Ísland hefur verið aðili að um árabil.
    Fjórþætta frelsið byggist á grundvallarreglunni um jafnrétti eftir þjóðerni og búsetu. Innan EES-svæðisins verður ekki heimilt að mismuna einstaklingum eða fyrirtækjum á þessum grundvelli, með nokkrum undantekningum þó. Samningurinn er hins vegar ekki því til fyrirstöðu að settar séu skorður á atvinnustarfsemi af ýmsum öðrum toga, eins og t.d. málakunnátta eða aðrir eiginleikar séu áskildir í tiltekinni starfsgrein. Einnig má takmarka frelsi til atvinnurekstrar, í samningnum nefndur „staðfesturéttur“, með vísan í allsherjar­reglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði.
    Á sviði vöruviðskipta verður með EES-samningnum rutt úr vegi mörgum svonefndum tæknilegum viðskiptahindrunum sem geta hamlað milliríkjaviðskiptum á sama hátt og tollar. Sama gildir um magntakmarkanir í inn- og útflutningi, með nokkrum undantekningum þó. Upprunareglur og tollafgreiðslureglur eru samræmdar, án þess að ytri tollur EB taki gildi fyrir EFTA-ríkin. EES verður ekki tollabandalag. EFTA- ríkjunum verður áfram frjálst að ákveða tolla og reglur þar að lútandi gagnvart þriðju ríkjum, innan þess ramma sem settur er af Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti, GATT.
    Sameiginleg sjávarútvegs- og landbúnaðarstefna EB gildir ekki á EES-svæðinu, en greitt er fyrir viðskiptum með sjávarafurðir og landbúnaðarvörur, eins og nánar er greint frá að neðan. Jafnhliða EES-samningnum hefur Ísland gert samning við Efnahagsbandalag Evrópu um sjávarútvegsmál. Sá samningur stendur sjálfstætt og verður því ekki fjallað um hann í frumvarpi þessu.
    Til þess að tryggja samkeppni með vörur og þjónustu eru í samningnum reglur sem eiga að koma í veg fyrir misbresti á þessu sviði, útiloka hringamyndun og misbeitingu markaðsyfirráða.
Samningurinn takmarkar ríkisstyrki sem skekkja samkeppni og setur reglur um starfsemi ríkiseinkasölufyrirtækja.
    EES-samningurinn kemur á sameiginlegum vinnumarkaði á samningssvæðinu. Ríkisborgurum aðildarríkja verður heimilt að fara til allra aðildarríkja í atvinnuleit og dvelja þar í allt að þrjá mánuði á meðan á leit stendur. Þetta mun auðvelda þeim Íslendingum sem þess óska að starfa t.d. tímabundið erlendis. Á sama hátt auðveldar samningurinn íbúum Vestur-Evrópu að leita sér starfa hér á landi. Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út ítarlega skýrslu um íslenskan vinnumarkað með tilliti til erlends vinnuafls.
    Samningurinn hefur einnig að geyma reglur um frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga, m.a. til fjárfestinga. Undantekning er gerð með fyrirtæki í sjávarútvegi og er lagt til að þau ákvæði, sem eru í VIII. og XII. viðauka, verði lögfest með 2. gr. frumvarpsins.
    Sú undantekning er gerð frá grundvallarreglum fjórþætta frelsisins að hægt er að beita öryggisráðstöfunum samkvæmt 112.–114. gr. samningsins. Þeim verður beitt einhliða ef upp koma alvarlegir erfiðleikar í efnahagsmálum, þjóðfélagsmálum eða umhverfismálum sem tengjast sérstökum framleiðslugreinum eða svæðum, eins og nánar verður útskýrt.

2. Jaðarmálefni
    Samningurinn fjallar einnig um svonefnd jaðarmálefni. Þeim má skipta í tvennt, sameiginleg hagsmunamál sem varða fjórþætta frelsið og önnur skyld mál. Hin fyrrnefndu eru félagsmál, öryggi á vinnustað, jafnréttismál, neytendavernd, umhverfismál, hagskýrslugerð og félagaréttur. Hin síðarnefndu eru t.d. rannsóknir og tækniþróun, upplýsingamál, menntamál, aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki, ferðamál, almannavarnir o.fl.

3. Stofnanir
    Loks fjallar samningurinn um sameiginlegar stofnanir. Þar er tekið á samráðsmálum, samvinnu þingmanna, samvinnu á sviði efnahags- og félagsmála, ákvarðanatöku og lausn deilumála. Sett er á stofn EES-ráð þar sem koma saman ráðherrar aðildarríkja og fulltrúar framkvæmdastjórnar EB til þess að fjalla um stjórnmálalega stefnumörkun. Sameiginlega EES-nefndin er embættismannanefnd sem fjallar um framkvæmd og útfærslu samningsins. EES-þingmannanefnd er samráðsvettvangur fyrir fulltrúa þjóðþinganna. Ráðgjafarnefnd EES er skipuð fulltrúum efnahags- og félagsmálanefndar EB og ráðgjafarnefndar EFTA.
    Með EFTA-fylgisamningunum tveimur eru sett á stofn eftirlitsstofnun EFTA (ESE), sem á að hafa eftirlit með framkvæmd EES-reglna, EFTA-dómstóll, hliðstæður EB-dómstólnum, og fastanefnd EFTA, sem er samráðsvettvangur EFTA-ríkjanna um mál er varða samninginn.

     C. Réttaráhrif EES-samningsins

1. Yfirlit
    EES-samningurinn skiptist í meginmál, sem er í 129 greinum, 49 bókanir, 22 viðauka, 71 yfirlýsingu og fjölda samþykkta. Í viðaukunum er vísað til um 1400 heimilda, hér nefndar „gerðir“, fyrst og fremst reglugerða og tilskipana Evrópubandalagsins sem hafa verið aðlagaðar að Evrópska efnahagssvæðinu.

2. Lögfesting samningsins
    EES-samningurinn er þjóðréttarsamningur. Sem slíkur bindur hann íslenska ríkið að þjóðarrétti, en ekki einstaklinga eða fyrirtæki að landsrétti. Þar sem í honum eru ákvæði sem er ætlað að hafa áhrif að landsrétti verður að lögfesta þau. Mælst er til þess í 2. gr. frumvarpsins að sjálft meginmálið verði lögfest, ásamt bókun 1, sem aðlagar gerðir EB, með 12 aðildarríkjum, að Evrópska efnahagssvæðinu, með 19 aðildarríkjum. Einnig er lagt til að mikilvægustu undanþágur Íslands, á sviði fiskveiða og fiskvinnslu, verði lögfestar.
    Nauðsynlegt er að lögfesta ýmsa aðra þætti samningsins, sem er lagt til í fylgifrumvörpum með honum. Listi yfir ráðgerð fylgifrumvörp eru í viðbæti við frumvarp þetta. Það fellur í hlut viðkomandi ráðuneyta að undirbúa lagasetninguna, í samræmi við reglugerð Stjórnarráðsins um starfsskiptingu milli ráðuneyta.
    Með lögfestingu meginmáls EES-samningsins fá sum ákvæði hans svonefnd bein réttaráhrif, þ.e. þau binda einstaklinga og lögpersónur, en önnur ákvæði samningsins hafa ekki slík áhrif. Það fer eftir túlkun þeirra hverju sinni hvort um bein réttaráhrif er að ræða, eins og ávallt er þegar milliríkjasamningar eru lögfestir. Lögfesting meginmáls samningsins og annarra hluta hans er ein forsenda þess að skapa samræmdar reglur á markaðssvæðinu.

3. Dómaframkvæmd
    EES-samningurinn miðar að því að koma á sameiginlegum markaði með sömu leikreglum. Niðurstaða samningaviðræðnanna við EB varð sú að nota reglur þess sem grunn. Til þess að tryggja sem mest samræmi voru margar greinar stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu (Rómarsamningsins) teknar inn í EES-samninginn og gerðir sem byggja á honum voru teknar inn í viðauka hans. Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að beita þessum ákvæðum eins og þau hafa verið túlkuð af dómstól EB og er það einnig af samræmisástæðum. Í viðbæti við frumvarpið er yfirlit yfir samsvörun EES- ákvæða og Rómarsamningsins. Með yfirlitinu er gert auðveldara að kynna sér dómaframkvæmd EB-dómstólsins sem hér skiptir máli með aðstoð handbóka og fræðirita, innlendra og erlendra (t.d. Evrópurétt eftir Stefán Már Stefánsson, 392 bls., Reykjavík 1991). Í athugasemdum við EES-samninginn hér að neðan er einnig getið um helstu dóma, sem samninginn varða.

4. Samningsmarkmið
    Af framangreindu má ráða að við EES-samningagerðina reyndist ekki einfalt að ná samræmdum réttaráhrifum EB og EFTA-ríkjanna, sem þó var nauðsynlegt til þess að tryggja sem líkasta lagaframkvæmd á öllu markaðssvæðinu. Af Íslands hálfu var eitt meginsamnings­markmiðið, sem fleiri EFTA-ríkja, að samningurinn mundi ekki leiða til breytinga á stjórnarskrá, að ekkert löggjafarvald yrði fært til sameiginlegra stofnana og að engar breyt­ingar yrðu nauðsynlegar á fyrirkomulagi ákvarðanatöku innanlands.

5. Réttaráhrif EB-reglna
    Þess ber að geta að réttarkerfi EB er öðruvísi uppbyggt en meðal EFTA-ríkja. EB hefur yfirþjóðlegt vald og getur sett reglur sem hafa bein réttaráhrif í aðildarríkjunum. Hér skal stuttlega gerð grein fyrir þessum reglum eða gerðum og áhrifum þeirra innan EB.
    EB-reglugerðum er ætlað að binda alla aðila, ríki, sveitarfélög, einstaklinga og lögpersónur.
    EB-tilskipanir beinast eingöngu að ríkjum. Þær eru hugsaðar þannig að eingöngu markmið þeirra er bindandi. Aðildarríkjum er frjálst að velja hvernig því markmiði er náð, en ákveðin stjórnsýsluframkvæmd er ekki nægjanleg í þessu tilliti. Þeim svipar að þessu leyti til þjóðréttarsamninga. Frá þessari meginreglu er mikilvæg undantekning, sem er sú að að svo miklu leyti sem tilskipun er skýr, nákvæm og skilyrðislaus er hún bindandi á sama hátt og EB-reglugerð.
    EB-ákvarðanir eru að jafnaði bindandi á sama hátt og reglugerðir fyrir þann eða þá sem þær beinast að.
    EB-tilmæli, skoðanir og aðrar heimildir eru ekki bindandi, en ætlast er til þess að tekið sé tillit til þeirra. Þeim getur verið beint til aðildarríkja, stofnana, lögaðila og einstaklinga.

6. Réttaráhrif EES-reglna
    Framangreindar skilgreiningar eiga við samkvæmt EB-rétti, sem fyrr segir, en þær eiga ekki við innan EES. Réttaráhrif gerðanna í EES-samningnum fara eftir því hvernig til þeirra er vísað í viðaukunum, en þar er greint á milli bindandi gerða og óskuldbindandi. Bindandi gerðir eru tilgreindar sem „gerðir sem vísað er til“, en óskuldbindandi gerðir sem „gerðir sem samningsaðilar skulu taka mið af“ eða „tilhlýðilegt tillit til“. Með öðrum orðum getur reglugerð verið bindandi innan EB, en óskuldbindandi innan EES. EES-samningurinn tilgreinir hvort gerð er bindandi fyrir samningsaðila, en ekki form hennar.
    En í flestum tilfellum eru skuldbindandi gerðir reglugerðir eða tilskipanir, en óskuldbind­andi gerðir tilmæli, leiðbeiningar, ályktanir, bréf eða þess háttar. Þótt gerð sé óskuldbindandi ber samt sem áður að taka tillit til hennar.
    Í 7. gr. samningsins segir með hvaða hætti reglugerðir og tilskipanir, sem vísað er til í viðaukum, skulu teknar upp í landsrétt.
     Íslenskum stjórnvöldum ber samkvæmt samningnum að lögfesta (bindandi) reglugerðir óbreyttar, sem lög eða stjórnvaldsreglur. Í flestum tilvikum yrði það gert með stjórnvalds­reglum, en það fer eftir því hvers eðlis reglurnar eru, hvort þær eru á sviði lagasetningar eða stjórnvaldsreglna samkvæmt almennum íslenskum stjórnarfarshefðum. Viðkomandi ráðu­neyti gerir tillögu um hvor leiðin sé farin.
    Tilskipanir er ekki nauðsynlegt að lögfesta sem slíkar. Þær kveða oftast á um ákveðinn ramma eða lágmarkskröfur sem verður að uppfylla. Samningsaðilar verða hins vegar að tryggja að tilgangi (bindandi) tilskipunar sé náð, þótt ákveðin formskilyrði séu ekki sett. Ef tilskipun er skýr, nákvæm og skilyrðislaus er hins vegar rétt að taka hana upp í lög eða stjórnvaldsreglur.

7. Aðrir hlutar samningsins
    Í bókunum við samninginn er fjallað um nánari útfærsluatriði á samningnum, önnur en þau sem varða EB-gerðir og taldar eru upp í viðaukunum. Bókanirnar eru 49 talsins og er vísað til þeirra í meginmáli EES-samningsins, sem og viðaukanna. Dæmi er bókun 9 um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir. Í athugasemdum við EES-samninginn hér á eftir er nánar greint frá bókunum og viðaukum á viðkomandi stað í umfjöllun um einstakar greinar hans.
    Með lokagerð við samninginn fylgja 30 sameiginlegar yfirlýsingar, 2 yfirlýsingar allra samningsaðila og 39 yfirlýsingar eins eða fleiri samningsaðila. Yfirlýsingar eru ekki hluti af samningnum, en hafa þýðingu við túlkun á ákvæðum hans. Ísland setti t.d. fram yfirlýs­ingar varðandi beitingu öryggisráðstafana og um áfengiseinkasölu.
    Með lokagerðinni fylgja einnig samþykktir, sem eru bindandi fyrir samningsaðila. Þær fjalla um túlkun eða nánari útfærslu á einstökum ákvæðum samningsins, hvort heldur er meginmáli, bókunum eða viðaukum.

8. Viðbótarbókanir
    EES-samningurinn var gerður þegar Evrópubandalagið var að leggja síðustu hönd á hinn sameiginlega innri markað, sem öðlast gildi 1. janúar 1993. Stefnt er að því að frá þeim tíma geti EFTA-ríkin tekið fullan þátt í þeim markaði. Lokaátak EB við að hrinda í framkvæmd áætlun sinni um innri markað hefur leitt til umfangsmikillar lagasetningar sem enn er ekki að fullu lokið. EES-samningurinn tekur mið af þeim EB-reglum sem hafa verið settar á undanförnum 30 árum, fram til 1. ágúst 1991.
    Samningsaðilar gera ráð fyrir því að undirrita sérstaka viðbótarbókun við samninginn um þær gerðir, sem hafa bæst við á samningssviðinu frá þeim tíma eins fljótt og auðið er. Varðandi gerðir sem bætast við eftir þann tíma og fram að gildistöku samningsins, gildir umsamið fyrirkomulag, sem fylgir lokagerð með samningnum, þ.e. að vinnuhópar starfi áfram og semji um hvaða gerðir eigi við innan EES. Árangurinn verði annaðhvort skráður í viðbótarbókunum eða afgreiddur í sameiginlegu EES-nefndinni.

D. Sögudrög


    Hinn 11. maí 1988 samþykkti Alþingi að kjósa nefnd um stefnu Íslands gagnvart Evrópubandalaginu, Evrópustefnunefnd. Nefndin gaf út sex bæklinga, sem Alþingi gaf síðan út í einni bók, ásamt áfangaskýrslu Evrópustefnunefndar til Alþingis, í lok árs 1990. Vísast til hennar um sögulegan aðdraganda að EES-samningnum. Að neðan verður stiklað á stóru á því tímabili sem bókin nær yfir, en heldur nánar greint frá því sem gerst hefur á sl. tveimur árum. Einnig vísast til skýrslna utanríkisráðherra til Alþingis.

1. EB og EFTA
    Evrópubandalagið er samheiti á þremur bandalögum, þ.e. Kola- og stálbandalagi Evrópu (stofnað 1951), Efnahagsbandalagi Evrópu (1957) og Kjarnorkubandalagi Evrópu (1957). Efnahagsbandalagið er langvíðtækast og veigamest þessara þriggja bandalaga, sem nú hafa sameiginlegan rekstur og stjórnarstofnanir. Stofnsamningur þess, Rómarsamningurinn, sem stundum hefur verið nefndur Rómarsáttmálinn, ásamt síðari breytingum, þar með talið með einingarlögum Evrópu sem tóku gildi 1987, er megingrundvöllur Evrópubandalagsins. Stofn­aðilar þessara bandalaga voru sex, þ.e. Belgía, Frakkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg og Sambandslýðveldið Þýskaland. Árið 1973 urðu Bretland, Danmörk og Írland aðilar að EB, en tvö hin fyrrnefndu höfðu áður verið aðilar að EFTA. Árið 1981 varð Grikkland aðili að bandalaginu og árið 1986 Spánn og Portúgal, en það síðastnefnda hafði áður verið í EFTA. Voru aðildarríki Evrópubandalagsins þá orðin tólf með um 320 milljónir íbúa.
    Tilgangur Evrópubandalagsins er mjög náin samvinna eða samruni á fjölmörgum sviðum. Má þar nefna tollabandalag og þar með sameiginlega viðskiptastefnu út á við, sameiginlega landbúnaðarstefnu, sameiginlega fiskimálastefnu o.s.frv. Innan bandalagsins er stefnt að óhindruðum vöruviðskiptum, fjármagnsflutningum og þjónustuviðskiptum og óhindruðum atvinnurétti og búseturétti þegna bandalagsríkjanna. Þessu marki á að verða náð að fullu fyrir 1. janúar 1993, þ.e. sama tíma og EES-samningurinn á að öðlast gildi. Einnig stefnir bandalagið að náinni samvinnu á sviði fjármála og peningamála, félagsmála og utanríkis­mála, svo að dæmi séu nefnd. Í upphafi níunda áratugarins voru miklar umræðu um hvert skyldi stefnt. Tvö meginsjónarmið voru uppi: Stækkun bandalagsins, frekari útvíkkun til annarra Evrópuríkja, annars vegar og dýpkun, styrking ríkjasamstarfsins sem þróast gæti til eins konar sambandsríkis, hins vegar. Með Maastricht-samkomulaginu í desember sl. var tekið stórt skref í átt til dýpkunar bandalagsins og ætlar það nú að snúa sér að stækkun þess sem í fyrsta áfanga gæti náð til Finnlands, Svíþjóðar og Austurríkis, sem þegar hafa sótt um aðild, og e.t.v. Noregs og Sviss, sem hafa lýst vilja sínum til þess að sækja um aðild.
    EFTA, eða Fríverslunarsamtök Evrópu, voru stofnuð árið 1960 í þeim tilgangi að tryggja að þróun EB stefndi ekki í tvísýnu því sem áunnist hafði í auknu viðskiptafrelsi í Vestur-Evrópu í heild eftir síðari heimsstyrjöld. Samtökunum var ekki ætluð löng sjálfstæð tilvera og var fremur litið á stofnun þeirra sem áfanga aðildarríkja að nánara samstarfi við Evrópubandalagið. Stofnaðilar EFTA voru sjö ríki, þ.e. Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð. Finnland gerðist aukaaðili 1961, en fullgildur aðili 1986. Ísland varð aðili að EFTA 1970. Bretland og Danmörk sömdu um aðild að EB og gengu úr EFTA árið 1973, sem fyrr segir. Noregur hafði þá einnig samið um aðild að EB, en sú aðild var felld í þjóðaratkvæðagreiðslu og var landið áfram í EFTA. Portúgal gekk úr EFTA í EB árið 1986, en Liechtenstein bættist í samtökin árið 1991. Voru þá sjö ríki í EFTA, þ.e. Austurríki, Finnland, Ísland, Liechtenstein, Noregur, Sviss og Svíþjóð. Íbúafjöldi þessara ríkja er samtals 32 milljónir eða einn tíundi hluti af íbúafjölda í ríkjum Evrópu­bandalagsins.
    EFTA var stofnað sem fríverslunarsvæði en ekki tollabandalag, þar sem aðildarríkin felldu niður verndartolla hvert gagnvart öðru, aðallega af iðnaðarvörum, en héldu hvert sinni tollskrá að öðru leyti gagnvart öðrum ríkjum. Fríverslun með fisk gekk í gildi 1. júlí 1990 milli ríkja EFTA. Á árunum 1972–1973 sömdu öll EFTA-ríkin, en þó hvert fyrir sig, við Evrópubandalagið um fríverslun. Hún náði fyrst og fremst til iðnaðarvara, en Ísland samdi jafnframt við EB um tollaívilnanir fyrir mikinn hluta af þeim fiski og fiskafurðum, sem þá voru seld til bandalagsins. Ákvæði um viss fríðindi fyrir sjávarafurðir er einnig að finna í samningum Svía við EB og í sérstökum erindaskiptum Norðmanna og bandalagsins.

2. Samvinna EFTA og EB
    Fram til ársins 1984 var samvinna EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið að mestu á tvíhliða grundvelli, þ.e. hvert EFTA-ríki átti sjálfstæð samskipti við bandalagið.
    Árið 1984 efndu ríki EFTA og EB til sameiginlegs ráðherrafundar í Lúxemborg og sam­þykktu þar að efla mjög samvinnu allra EFTA-ríkjanna og EB á sviðum sem tengdust vöru­viðskiptum, svo og á öðrum sviðum, m.a. í rannsókna og þróunarstarf, mennta- og menning­armálum og umhverfismálum. Þessu samstarfi, sem nefnt hefur verið Lúxemborgarferlið, miðaði vel áfram á þeim árum, sem í hönd fóru, og gerir enn.
    Þó þótti ýmsum sem betur mætti gera og þrýsti það ekki síst á, að árið 1985 ákvað Evrópubandalagið að setja sér fasta áætlun um að ryðja úr vegi öllum þeim hindrunum sem enn væru fyrir fullri framkvæmd ákvæða Rómarsamningsins um innri markað bandalagsins. Hvítbók framkvæmdastjórnarinnar um aðgerðir til að koma á raunverulegum innri markaði fyrir árslok 1992 var lögð fram árið 1985 og árið 1987 gengu gildi ýmsar breytingar á stofn­sáttmála bandalagsins, svonefnd einingarlög Evrópu, sem m.a. áttu að tryggja auðveldari framgang þessara mála. Í Lúxemborgarferlinu var á mörgum sviðum farið að gæta tregðu af hálfu EB varðandi þátttöku EFTA-ríkjanna í ýmsum samstarfsverkefnum innan EB, sérstak­lega vegna þátttöku EFTA-ríkjanna í stjórnun þeirra.
    Í árslok 1988 bauð Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs, til leið­togafundar EFTA-ríkjanna í Osló dagana 14.–15. mars 1989 til þess að fjalla um samskipti þessara ríkja við Evrópubandalagið. Áður en að þeim fundi kom, eða hinn 17. janúar 1989, flutti Jacques Delors, forseti framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins, ræðu á fundi þings þess í Strasborg þar sem hann vék m.a. að sambandi EFTA og EB og braut þar upp á nýjum hugmyndum um frekara samstarf. Þar velti Delors fyrir sér þeirri spurningu hvort nýtt skipu­lag þyrfti að koma til í stað þess sem nú var milli EFTA og EB. Í raun væri þá um tvær leiðir að ræða: Í fyrsta lagi að halda sig við þáverandi samskiptahætti, sem væru í eðli sínu tví­hliða, þ.e. EB og hvert EFTA-ríkjanna fyrir sig, og stefna þannig að fríverslun sem næði til EFTA og EB. Í öðru lagi að ganga til mun víðtækara samstarfs en áður hefði verið talið koma til greina og gera samstarfið virkara með sameiginlegum stofnunum og ákvörðunum og leggja áherslu á samvinnu á sviði efnahagsmála, félagsmála, fjármála og menningarmála. Með öðrum orðum: samvinna og samstarf á sem flestum sviðum nema í öryggismálum og stjórnmálum.
    Þessi ræða Delors og sú viljayfirlýsing um nánara samstarf við EFTA-ríkin, sem fram kom á leiðtogafundi Evrópubandalagsríkja á Ródos í desember 1988, urðu tilefni þess að EFTA-ríkin settu fram á leiðtogafundi sínum í Osló í mars 1989 ákveðnar hugmyndir um samstarf EFTA og EB og samskipti sín innbyrðis í Oslóaryfirlýsingunni. Framhald þessa máls hefur verið nefnt Osló-Brussel ferillinn.
    Í yfirlýsingu leiðtogafundar EFTA segir m.a.:
    „Við svörum frumkvæði Delors á jákvæðan hátt og lýsum yfir vilja okkar til að kanna með EB aðferðir og leiðir til að ná fram kerfisbundnara samstarfi með sameiginlegri ákvarðanatöku og stjórnstofnunum til þess að samstarf okkar verði árangursríkara.
    Við gerum ráð fyrir því að fyrirhugaður ráðherrafundur EFTA og EB sem haldinn verður í Brussel 20. mars leggi grunninn að því að hefja viðræður um framtíðarform og umfang samvinnu milli EFTA-ríkja og bandalagsins í náinni framtíð.
    Við gerum ráð fyrir því að samningaviðræður mundu leiða til samkomulags, að svo miklu leyti sem það er mögulegt, um óhindraðan flutning á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, með það að markmiði að koma á einu samræmdu, evrópsku efnahagssvæði. Við erum því reiðu­búin til að kanna ýmsa möguleika og leiðir til að styrkja formleg tengsl milli EFTA-ríkjanna og EB. Við myndum ekki útiloka neinn valkost innan ramma framtíðarviðræðna okkar við EB. Við sjáum verulegan gagnkvæman hag í að þróa samstarf okkar á öðrum sviðum en þeim sem tengjast beint áætluninni um innri markaðinn. Við höfum sérstakan áhuga á að stefna að:
–    Víðtækari þátttöku þeirra aðila innan EFTA sem taka þátt í rannsókna- og þróunaráætlunum bandalagsins og leggja þannig fram verulegan skerf til að bæta samkeppnisstöðu evr­ópsks iðnaðar;
–    auknu samstarfi á sviði menntamála til að auðvelda óhindruð skipti á nemendum, kennurum og vísindamönnum og veita gagnkvæmar viðurkenningar prófskírteina;
–    lausn á svæðisbundnum og alþjóðlegum umhverfisvandamálum með því að leggjast á eitt og samræma starfsemi á þessu sviði um alla Evrópu. Við erum sammála þeirri skoðun að markmiðið með efnahagslegum samruna í Evrópu verði að taka mið af verndun umhverf­isins. Við erum reiðubúin til að kanna með Evrópubandalaginu nýjar leiðir sem gætu gert aðgerðir okkar markvissari;
–    auknu samráði um efnahags- og peningamálastefnu.
    Við erum sammála um að aukinni efnahagssamvinnu þurfi að fylgja myndun „Evrópu fólksins“ og þróun á hinum félagslega þætti samrunans með náinni samvinnu við hagsmuna­samtök atvinnulífsins. Til að efla frekari samruna og til að fá niðurstöður á sama tíma innan Evrópska efnahagssvæðisins gerum við ráð fyrir að upplýsingaskipti um fyrirhugaða löggjöf, ráðgjafarstarf, gagnkvæma viðurkenningu á sambærilegri löggjöf og ákvarðanatöku fari fram tímanlega. Þessu ætti að vera fylgt eftir með öflugu og öruggu eftirliti með fullnustu dóma og sameiginlegri meðferð á lausn deilumála. Við leggjum áherslu á að athugun á leiðum til fastmótaðri samskipta megi ekki draga úr sameiginlegum ásetningi okkar að ná árangri í núverandi samstarfi.
    Við viðurkennum sjálfsákvörðunarrétt hverrar einstakrar EFTA-þjóðar hvað varðar tvíhliða frumkvæði og samninga við EB með tilliti til sérhagsmuna þeirra. Við lítum á EFTA sem meginvettvang til fjölhliða samninga við EB og erum sammála um að auka frekar sam­starf innan EFTA á öllum sviðum tengdum Evrópska efnahagssvæðinu. Við munum gera nauðsynlegar ráðstafanir til að styrkja ákvarðanatöku innan EFTA og sameiginlega getu okkar til samningagerðar. Við munum einnig styrkja það kerfi sem við höfum til eftirlits og framkvæmdar á samningsskuldbindingum til þess að tryggja samræmda og samhæfða framkvæmd og túlkun á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
    Það er enn fremur markmið okkar að styrkja innra samstarf EFTA, svo sem með fullri frí­verslun með sjávarafurðir.“
    Spánverjar, sem þá gegndu formennsku í Evrópubandalaginu, höfðu frumkvæði að því að boða til sameiginlegs fundar utanríkisráðherra EB og EFTA-ríkja, hins fyrsta þessara ráð­herra síðan Lúxemborgarfundurinn var haldinn 1984, þar sem tekin var ákvörðun um nánara samstarf EB og EFTA. Þessi sameiginlegi fundur var haldinn í Brussel 20. mars 1989, eða aðeins fimm dögum eftir leiðtogafund EFTA. Á honum kom fram mikill vilji til þess að efla samstarfið í Vestur-Evrópu, en of skammt var um liðið frá leiðtogafundi EFTA til þess að unnt væri að taka þar stefnumótandi ákvarðanir. Hins vegar var ákveðið að ráðherrarnir hittust aftur fyrir lok ársins og mætu þá stöðuna í ljósi þeirra athugana og frumviðræðna sem þá ættu að hafa farið fram um aukið samstarf EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins.
    Í framhaldi af þessu settu EFTA-ríkin og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins á fót stjórnarnefnd háttsettra embættismanna EFTA-ríkja og EB til að skipuleggja og hafa á hendi yfirstjórn væntanlegra viðræðna til að athuga möguleika á víðtækara og nánara samstarfi EFTA-ríkja og EB á öllum sviðum sem tengjast myndun innri markaðar bandalagsins. Þessi hópur háttsettra embættismanna „High Level Steering Group“ (skammstafað „HLSG“) ákvað á fyrsta fundi sínum, sem haldinn var 28. apríl 1989, að koma á fót fjórum vinnu­hópum, þ.e. um (1) vöruviðskipti, (2) þjónustuviðskipti, þar með talið fjármagnsflæði, (3) atvinnu- og búseturétt og loks (4) önnur svið, þ.e. jaðarverkefni sem ekki falla beint undir aðra vinnuhópa, svo sem menntamál, neytendamál og umhverfismál. Fimmta hópnum var komið á síðar til að fjalla um (5) réttarreglur og stofnanir.
    Þessi stjórnarnefnd og undirnefndir hennar luku könnunarþætti viðræðnanna með því að skila sameiginlegum niðurstöðum hinn 20. október 1989. Skýrsla um þessar könnunarvið­ræður var lögð fyrir Alþingi í nóvember 1989.
    Ráðherrar EFTA-ríkjanna og EB komu að nýju saman til fundar í Brussel hinn 19. desember 1989 og ræddu þar niðurstöður könnunarviðræðnanna. Þar var ákveðið að hefja, eins fljótt og auðið yrði, á fyrra árshelmingi 1990, formlegar samningaviðræður, sem hefðu það að markmiði að ná víðtækum samningum milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Fram til þess tíma skyldu fara fram undirbúningsviðræður til þess að skilgreina nánar umfang og efnisþætti þessa nýja samskiptaramma.
    Stjórnarnefndin kom aftur saman 18. janúar 1990 og ákvað að stefna saman að nýju starfshópunum fimm, sem hafði verið komið á fót í fyrri viðræðum þeirra í apríl-október 1989. Þessum formlega þætti undirbúningsviðræðnanna lauk síðan með fundi stjórnarnefnd­arinnar 20. mars 1990, þar sem ályktað var, að þessar viðræður hefðu leitt til skýrari skiln­ings á afstöðu hvers aðila. Eftir þessa fundi væri það álit stjórnarnefndarinnar, að nægilegu ljósi hefði verið varpað á mögulegt umfang, efnisatriði og form væntanlegs EES-samnings, og að sú athugun hefði styrkt það mat fundarins 20. október 1989 að efnt skyldi til formlegra samningaviðræðna.
    Á fundi stjórnarnefndarinnar var skýrt frá því, að EFTA-ríkin væru þess reiðubúin að Liechtenstein yrði þátttakandi í samningaviðræðunum með það fyrir augum að verða samn­ingsaðili EFTA-megin.

3. Upphaf samningaviðræðna
    Ráðherrar EFTA-ríkjanna fjölluðu um niðurstöður könnunar- og undirbúningsviðræðnanna á óformlegum fundi sínum í Genf hinn 3. apríl 1990. Þeir lýstu þar ánægju með undir­búningsstarfið og niðurstöður stjórnarnefndarinnar jafnframt því sem þeir ítrekuðu helstu stefnumið EFTA-ríkjanna í komandi samningaviðræðum.
    Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins undirbjó á næstu vikum tillögu sína til ráðherraráðs bandalagsins um umboð fyrir sig til formlegra samningaviðræðna. Það olli nokkrum töfum á endanlegri afgreiðslu þess umboðs að ýmsir þingmenn Evrópuþingsins töldu framkvæmdastjórn EB hafa stefnt sjálfræði bandalagsins við ákvörðun innri mála sinna í hættu með atriðum í yfirlýsingu stjórnarnefndarinnar frá 20. mars 1990. Með henni væri verið að lofa EFTA-ríkjum meiri áhrifum á mótun og töku ákvarðana en Evrópuþingið hefði. Nokkurt tillit var tekið til þessa málflutnings við endanlega mótun samningsumboðsins til framkvæmdastjórnarinnar þar sem hnykkt var á því að ekki mætti stefna sjálfræði aðila til mótunar eigin ákvarðana í hættu.
    Ráðherraráð Evrópubandalagsins samþykkti samningsumboð framkvæmdastjórnar á fundi sínum 17.–18. júní 1990 og fyrsti fundur aðalsamninganefndar var síðan haldinn hinn 20. júní það ár.

4. Staða samningaviðræðna í byrjun október 1990
    Á fyrsta fundi sínum 20. júní 1990 tóku aðalsamninganefndirnar þá ákvörðun að skipa fimm undirnefndir vegna einstakra efnisþátta. Fyrsta nefnd skyldi fjalla um vöruviðskipti, þar á meðal samkeppnisreglur, ríkisstyrki, opinber innkaup og framkvæmdir, önnur nefnd um fjármagns- og þjónustuviðskipti, þriðja nefnd um atvinnu- og búseturéttindi, fjórða nefnd um jaðarmálin og fimmta nefnd um lagaleg og stofnanaleg málefni.
    Fyrstu fundir undirnefnda fóru fram í lok júní og fyrri hluta júlí, en raunverulegar samn­ingaviðræður hófust ekki fyrr en snemma í septembermánuði.
    Á sameiginlegum fundi ráðherra EFTA-ríkjanna, Evrópubandalagsríkja og fulltrúa í fram­kvæmdastjórn EB í Brussel hinn 19. desember 1990 var staðfestur sá árangur sem náðst hafði í samningaviðræðunum um Evrópska efnahagssvæðið fram að þeim tíma og samn­ingamönnum falið að leita allra leiða til að samningar mættu nást á fyrra helmingi árs 1991.
    Í yfirlýsingu fundarins er vísað til sameiginlegrar yfirlýsingar frá desember 1989 og ítrekuðu ráðherrarnir staðfastan pólitískan ásetning sinn um að ljúka víðtækum EES- samn­ingi á jafnréttisgrundvelli sem fyrst. Hann ætti að tryggja gagnkvæma hagsmuni samnings­aðilanna að svo miklu leyti sem unnt væri og ná til allra þátta samstarfs þeirra og tryggja jafnvægi í samstarfinu.
    Eftir að hafa hlýtt á skýrslur hvors aðila um sig um samningastöðuna lýstu þeir ánægju með þann verulega árangur sem náðst hafði frá því að samningaviðræðum um EES var hleypt af stokkunum 20. júní 1990. Þeir fögnuðu því hversu dregið hefði saman með samnings­aðilum um fjölmarga mikilvæga þætti. Þeir viðurkenndu einnig að varðandi önnur mikilvæg atriði hefði samningaviðræðum ekki miðað nægilega áfram og frekara starfs væri þörf. Þeir tóku fram að lokasamþykki hlyti að byggjast á því að viðunandi lausn fengist á öllum atrið­um samningsins, jafnt efnisatriðum sem stofnanahliðum. Einnig þyrfti að tryggja heildarjafn­vægi réttinda og skyldna innan samningsins.
    Þeir lýstu yfir ánægju með að tekist hefur að mestu að afmarka sameiginlega hvaða reglu­gerðir Evrópubandalagsins eigi að fella inn í EES-samninginn sem sameiginlegan réttar­grundvöll fyrir frjáls vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutninga og atvinnu- og búseturéttindi. Auk viðeigandi innihalds Rómarsamningsins eru tilgreindir réttargjörningar alls um 1400 talsins. Enn er starf óunnið við að ljúka afmörkun viðeigandi samþykkta á tilteknum sviðum. Þeir hvöttu samningamenn sína til að leita lausna varðandi þau svið sem enn bíða úrlausnar.
    Lögð var áhersla á nauðsyn þess að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði um allt EES. Til þess að ná þessu markmiði ætti að leggja viðeigandi greinar Rómarsamningsins til grundvallar samkeppnisreglum innan EES og beiting þeirra ætti að tryggja í reynd sama árangur um allt EES. Ráðherrar tóku fram að samningamenn ynnu nú á þeim grundvelli að sett yrði upp sjálfstæð EFTA-stofnun til að tryggja framkvæmd samkeppnisreglna. Slík stofnun ætti að hafa samsvarandi umboð og hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Sérstaklega verður að semja um það hvernig beri að skilgreina hlutverk hvorrar stofnunar um sig, hvernig skipuleggja eigi samstarf þeirra sem og hlutverk úrskurðaraðila.
    Varðandi þau vandkvæði sem upp hafa komið varðandi framkvæmd samþykkta Evrópu­bandalagsins lögðu þeir áherslu á það að stefnt yrði að því að samræma tryggar og strangar verndarkröfur á sviði heilbrigðis-, öryggis- og umhverfisverndar og frjáls vöruviðskipti. Þeir hvöttu samningamenn til þess að leita viðeigandi og raunhæfra lausna með því að taka hvert mál fyrir sérstaklega.
    Enn fremur lögðu þeir áherslu á nauðsyn þess að ná frekari árangri á sviði flutninga, atvinnu- og búseturéttinda og fjármagnsflutninga; þeir tóku þó tillit til þess að afstaða EFTA-ríkjanna hefði þróast varðandi mögulega niðurfellingu beiðna um varanlegar undan­þágur og tóku einnig fram að tvíhliða samningaviðræður stæðu nú yfir varðandi gegnum­flutninga.
    Þeir tóku jafnframt fram að verulegur árangur hefði náðst um öryggisákvæði og samn­ingamenn ynnu nú á þeim grundvelli að helstu einkenni slíkra öryggisákvæða ættu að vera eftirtalin: Þeim yrði beitt samkvæmt einhliða ákvörðun en eftir að aðgerðir hafa verið til­kynntar og ræddar með það fyrir augum að finna sameiginlega viðunandi lausn. Aðgerðir á grundvelli öryggisákvæða ættu að vera í samræmi við tilefni þeirra og raska samningi sem minnst. Þær ættu að vera undir eftirliti og heyra undir dómstóla og mögulegt yrði að grípa til viðeigandi gagnaðgerða til að ná aftur jafnvægi samkvæmt svipuðum leiðum. Þeir hvöttu samningamenn til að vinna rösklega að þessum málum. Þeir tóku fram að á tilteknum sviðum, sem hefðu úrslitaþýðingu fyrir heildarjafnvægi samningsins sem og til þess að tryggja allsherjarjafnvægi milli þess sem hver aðili bæri úr býtum, ættu samningaviðræður enn langt í land. Einkum átti þetta við um sjávarútveg. Einnig þyrfti að ná frekari árangri í landbúnaði.
    Varðandi samstarf utan hins fjórþætta frelsis (jaðarverkefni) lögðu þeir áherslu á það að EES-samningur ætti að leggja traustan réttargrunn fyrir víðtækt og kraftmikið samstarf. Einnig ætti hann að stuðla að þróun starfsemi í beggja þágu. Ráðherrar lögðu áherslu á það sameiginlega markmið að halda við, vernda og bæta umhverfið.
    Þeir voru ásáttir um það að samningum skyldi haldið áfram af fullum krafti til að kanna aðferðir og leiðir sem gætu dugað til þess að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða innan EES til þess að tryggja allsherjar jafnvægi milli þess sem hver samnings­aðili bæri úr býtum.
    Atriði á borð við stál, orku, undirboðsreglur og upprunareglur krefjast nánari athugunar.
    Þeir tóku fram að umtalsverður árangur hefði nú náðst varðandi laga- og stofnanaatriði en minntu á að virða þyrfti að fullu sjálfræði hlutaðeigandi aðila við ákvarðanatöku og að sjá þyrfti fyrir því að sjónarmið þeirra yrðu tekin til greina til þess að auðvelda samkomulag við ákvarðanir varðandi EES.
    Samþykkt var að sérfræðingar frá samningsaðilum ættu að fá sömu tækifæri til að leggja sitt af mörkum við undirbúning tillagna EB um nýja löggjöf um EES-málefni. Samningsaðil­arnir munu með því að skiptast stöðugt á upplýsingum og ráða ráðum sínum við mótun ákvarðana gera sitt ítrasta til að komast að sameiginlegri niðurstöðu eftir að málefni hefur verið skilgreint sem EES-málefni. Við mótun ákvarðana verður þeim kleift að taka upp hvað það sem veldur áhyggjum hvenær sem er og á hvaða stigi sem er án þess að valda viðbótar­töfum („droit d'évocation“ – upptökuréttur). Ákvarðanir á EES-stigi yrðu teknar samhljóða, EFTA-ríkin mundu tala einum rómi. Þær yrðu í formi þjóðréttarreglu, ekki er þörf á því að flytja löggjafarvald til EES. Allir samningsaðilar ættu að framkvæma EES-reglur þannig að þær komist í raun til framkvæmda á sama tíma um allt EES, til þess að tryggja fullt samræmi innan svæðisins. Frekar verður samið um það hvernig bregðast eigi við því ef ekki verður hægt að ná samkomulagi um nýjar EES-reglur.
    Þeir lögðu enn fremur áherslu á nauðsyn fulls réttarsamræmis EES-reglna til þess að tryggja að einstaklingar og aðilar atvinnulífsins gætu notið um allt EES-reglna sem skiluðu sama réttarárangri, gætu starfað við sömu skilyrði og notið sömu kjara. Þeir lögðu sérstaka áherslu á það að til þess að ná þessu markmiði hefði það úrslitaþýðingu að tryggja jafnsterkt og áreiðanlegt eftirlit og fullnustu reglna um allt EES með skilvirku EES-eftirlitskerfi og EES-úrskurðaraðila. Stofnanafyrirkomulag um ákvarðanatöku skyldi ná til EES-ráðsins en í því skyldu sitja meðlimir EB-ráðsins, meðlimir framkvæmdastjórnar EB og ráðherrar EFTA-ríkja. Það skyldi einkum fara með:
    Almenna pólitíska stefnumótun og frumkvæði;
    leggja heildarmat á framkvæmd og þróun samningsins, þar á meðal ef nauðsynlegt reynd­ist að taka upp sérstaklega mál sem veldur áhyggjum („droit d'évocation“ - upptökurétt­ur);
    pólitískar ákvarðanir sem gætu leitt af sér breytingar á EES-samningum.
    Sameiginleg EES stofnun skyldi fara með framkvæmd og rekstur samningsins þar á meðal með ákvarðanir varðandi EES. Þær yrðu teknar samhljóða af EB annars vegar og EFTA-ríkjunum, með einum rómi, hins vegar.
    Þeir töldu brýnt að samningamenn sínir gengju frá útistandandi atriðum varðandi víðtækt samkomulag um fyrirkomulag EES-ákvæðanna. Tekið verður tillit til verkefna sem EB-nefndir sinna.
    Ráðherrar létu að lokum í ljósi þá ósk að EES-samningurinn gæti gengið í gildi 1. janúar 1993. Í ljósi þess að fullgilda þarf samninginn töldu þeir að allt yrði að reyna til þess að undirrita EES-samninginn fyrir sumarið 1991. Þeir gáfu samningamönnum þau fyrirmæli að herða samningaviðræður til að svo mætti verða.

    Á fyrstu mánuðum 1991 var hafist handa við að útfæra þessar ákvarðanir ráðherra EFTA og EB, en sú vinna gekk hægt. Á ráðherrafundi EFTA og EB hinn 14. maí það ár í Brussel náðist samkomulag um stofnanahliðar EES-samningsins og í sameiginlegri yfirlýsingu þess fundar eru staðfestar þær meginreglur sem settar voru fram í hinni sameiginlegu yfirlýsingu ráðherra 19. desember 1990. Jafnframt náðist samkomulag um aðrar óleystar laga- og stofnanahliðar samningsins, þ.e. dómstólaþátt hans og nánari útfærslu á þátttöku EFTA í mótun EES-reglna (fyrir utan svokallaðar þriðja flokks nefndir, sem samkomulag náðist fyrst um í október).
    Um nánari útfærslu á þátttöku EFTA í mótun EES-reglna segir í sameiginlegu yfirlýsingunni:
    „Þeir (ráðherrar EFTA og EB) lögðu einnig áherslu á mikilvægi þess að tryggja hið fyllsta réttarsamræmi. Til þess að ná því markmiði þyrfti að þróa á þeim sviðum, sem snertu evrópskt efnahagssvæði, stöðugt ferli upplýsingaskipta og samráðs samhliða löggjafarferli Evrópubandalagsins. Enn fremur þyrfti að gefa sérfræðingum EFTA- landanna kost á því að eiga hlut að máli að svo miklu leyti sem hægt er og eftir því hvaða svið er til umfjöllunar við vinnslu tillagna framkvæmdastjórnar til nefnda EB. Í þessu samhengi tóku þeir fram að þegar framkvæmdastjórn undirbýr tillögur sínar mun hún leita til sérfræðinga EFTA-landanna á sama hátt og til sérfræðinga aðildarríkjanna. Einnig tóku þeir fram að hægt væri að ræða raunhæfar lausnir fyrir tiltekin sérstök vandamál og enn fremur að staða EFTA-landanna í nefndum sem varða jaðarverkefni muni að fullu mótast af mögulegri fjárhagslegri þátttöku þeirra í viðeigandi verkefnum.“
    Með ráðherrafundum EFTA og EB í desember 1990 og maí 1991 voru þannig leidd til lykta, ef undan er skilinn dómstólaþáttur EES-samningsins, svo gott sem allar laga- og stofnanahliðar samningsins, sem síðar hafa verið útfærðar af fulltrúum EFTA og EB í lagatexta.
    Þegar leið á sumarið tók að kristallast hvaða ágreiningsmál væru óleyst. Nauðsynlegt var talið að leysa þau í einum áfanga þar sem gæta þyrfti jafnvægis gagnvart öllum samnings­aðilum. Þyngst á vogarskálinni voru málefni sem vörðuðu fisk, EFTA-sjóð og þungaflutninga um Alpalöndin. Talið var að með úrlausn á þessum þremur ágreiningsmálefnum mætti finna heildarlausn á öðrum málum.
    Á ráðherrafundi EFTA og EB 18.–19. júní 1991 í Lúxemborg var gerð tilraun til að leysa útistandandi ágreiningsmál. Höfuðáhersla var lögð á að finna lausn á þremur fyrrnefndu sviðunum. Eftir fundinn var almennt talið að tekist hefði að finna stjórnmálalega lausn varðandi fiskþáttinn. EB túlkaði síðan niðurstöðu fundarins á annan veg og taldi að vegna fyrirvara um útfærslu væri samkomulag ekki fyrir hendi.
    Ástæður þess að ekki tókst að ná heildarlausn á ráðherrafundinum í júní eru vafalaust margar. Þyngst vegur væntanlega að flutningar um Alpalöndin voru til umræðu í tvíhliða viðræðum milli Austurríkis, framkvæmdastjórnar EB og aðildarríkja þess og á milli Sviss, framkvæmdastjórnar EB og aðildarríkja þess. Þær umræður voru einfaldlega ekki komnar nógu langt á veg í júlí til þess að hægt væri að finna lausn þá. Niðurstaða um EFTA-sjóð var háð því að samkomulag næðist um alla aðra þætti. Aðildarríki EB voru ekki nógu kunnug málum til að vera í stakk búin að standa að samkomulagi um heildarlausn. Tíminn var einfaldlega ekki nægur vegna fjölda flókinna ágreiningsmála, þó að hann væri notaður til hins ítrasta. Ýmislegt jákvætt kom þó út úr fundinum og þá einkum það að allir aðilar, ekki síst af hálfu EB, höfðu kynnst allvel óleystum ágreiningsefnum og hugsanlegum lausnum á flestum þeirra. Þetta var því allgóður undirbúningur undir ráðherrafund EFTA og EB í október. Listi ágreiningsefna frá júní-fundinum fylgdi viðræðunum fram að ráðherrafundi EFTA og EB 21.–22. október. Í millitíðinni vannst embættismönnum tími til að ræða þessi mál og mögulegar lausnir ásamt áframhaldandi vinnu að gerð samningstexta um önnur mál.
    Á ráðherrafundi EFTA og EB 21.–22. október tókst að ná heildarlausn á óleystum málum, þó enn ætti eftir að útfæra þær niðurstöður og setja í samningstexta.

5. Samkomulagið 21.–22. október 1991
    Niðurstaðan varðandi fisk má segja að hafi verið sú að góður samningur náðist fyrir Ísland. Alla tíð var á brattann að sækja vegna afstöðu framkvæmdastjórnar EB og einstakra aðildarríkja þess. Hlutfall frjáls markaðsaðgangs fyrir íslenskar sjávarafurðir í EB-ríkjunum miðað við viðskipti eykst úr rúmlega 60% í yfir 90%. Núverandi íslensk lög um fjárfestingar erlendra aðila nr. 34/1991 gilda áfram eftir að EES-samningurinn tekur gildi, þ.e. engar fjárfestingar útlendinga í útgerð og frumvinnslu verða leyfðar. Allt undir lok samn­ingalotunnar 21. október var það eindregin krafa EB að EFTA-ríkin féllu frá þessu og á tímabili leit út fyrir að öll samningalotan og hugsanlega hugmyndir um EES-samning færu út um þúfur vegna afstöðu EFTA-ríkjanna, einkanlega fyrir hönd Íslands, um þetta efni. Samkomulagið um gerð tvíhliða samnings milli Íslands og EB um gagnkvæm skipti veiði­heimilda að jafnvirði 3.000 tonna af karfa er hlutfallslega óverulegt miðað við þá kröfu sem EB hafði uppi gagnvart Íslandi í samningaviðræðunum.
    Samhliða ráðherrafundi EFTA og EB 21.–22. október 1991 voru haldnir tvíhliða fundir milli Austurríkis, framkvæmdastjórnar EB og aðildarríkja EB og Sviss, framkvæmdastjórnar EB og aðildarríkja EB. Á þessum fundum náðist samkomulag um þungaflutninga um Alpana og vísað verður til þessara tvíhliða samninga í sérstökum viðaukum við EES-samninginn.
    Á þjóðleiðum um Sviss er þungatakmörkun 28 tonn. Allflestar vöruflutningabifreiðar, sem aka milli landa í Vestur-Evrópu, eru þyngri en það. EB hótaði í upphafi samningavið­ræðnanna að ekki yrði um neinn EES-samning að ræða varðandi þetta ef Sviss og Austurríki sýndu ekki sveigjanleika. Síðan breytti EB afstöðu sinni þannig að ef ekkert samkomulag næðist á þessu sviði mundi allur flutningakaflinn falla niður í EES- samningnum. Samkomu­lag náðist milli Sviss og EB um að gefið yrði leyfi fyrir 50 vörubifreiðar frá EB-ríkjum til flutninga um Sviss með því skilyrði að bifreiðarnar væru yngri en tveggja ára og í við­komandi tilviki væri ekki rúm fyrir þær á flutningavögnum í járnbrautarlestum. Jafnframt er ætlun Sviss að auka stórlega flutningsgetu járnbrauta gegn um landið.
    Í Austurríki er leyfður hámarksþungi vöruflutningabifreiða 38 tonn og Austurríki hefur gert tvíhliða samninga við flest EB-ríki um takmarkanir á flutningum með vörubifreiðum. Austurríki vildi verulega takmarka þessa flutninga, sem samið hafði verið um, til að minnka mengun í Austurríki. Samkomulag náðist um að miða leyfilega flutninga við mengunarmörk og eiga heimilaðir flutningar að fela í sér u.þ.b. 60% samdrátt í mengun á 12 árum. Þetta mun einnig verða hvatning fyrir EB-ríkin til að nota vörubifreiðar, sem valda minni mengun, þannig að flutningar þeirra um Austurríki takmarkist ekki í þeim mæli sem annars væri.
    Samkomulag varð um stofnun sjóðs, sem EFTA-ríkin greiddu til á fimm árum. Upphæð sjóðsins verði 2 milljarðar evrópskra mynteininga (ECU). Einn og hálfur milljarður verði í formi niðurgreiddra lána (með 3% vöxtum og afborgunarlaust fyrstu tvö árin) og 500 milljónir ECU í formi styrkja. Lán og styrkir verða einkum veitt úr sjóðnum til Suður-Evrópulanda og Írlands, en markmið sjóðsins er að auka jafnstöðu í lífskjörum innan Evrópu og því fara framlög úr honum til landa eða héraða sem eru illa sett í þeim efnum. Framlag Íslands er u.þ.b. 0,7%.
    Auk ofangreindra þriggja meginmálefna, sem samkomulag varð um í október 1991, náðist samkomulag um önnur óleyst ágreiningsefni.
     1.      Gengið var frá sameiginlegum EES-lista yfir þær vörur unnar úr landbúnaðarhráefnum, sem falla undir samninginn. Ísland undanskildi af sinni hálfu á listanum smjörlíki með lágu fitu- og kolvetnisinnihaldi og mjólkur- og rjómaís. Austurríki fékk aðlögunarfrest varðandi nokkrar vörur á þessum lista.
     2.      Samkomulag varð um að eftirlitsstofnun EFTA fjalli um meint brot á samkeppnisreglum EES ef í hlut eiga fyrirtæki frá EFTA- og EB-ríki og 33% eða meira af sameiginlegri veltu fyrirtækjanna á sér stað í EFTA-ríkjum.
     3.      Samkomulag varð um þátttökurétt EFTA-ríkjanna í ýmsum þar til greindum, svokölluðum þriðja flokks nefndum EB.
     4.      EB hélt til streitu kröfu um að aðrar reglur gildi um styrki til skipasmíða innan EB en innan EFTA. Núverandi reglur EB gilda til 1. janúar 1994. Samkomulag náðist um að við endurskoðun þeirra muni EB hafa samráð við EFTA-ríkin og endurmeta afstöðu sína varðandi gildi reglnanna gagnvart EFTA-löndum í samræmisátt. Á meðan verði ekki beitt gagnaðgerðum vegna opinberra styrkja til skipasmíða.
     5.      Samkomulag varð um að EFTA-ríkin geti, ef ekki hefur komið tilkynning frá EFTA- ríki um að slíkt sé ekki hægt, beitt nýjum eða breyttum EES-reglum tímabundið þótt endan­leg ákvörðun um viðunandi reglu hafi ekki verið tekin af hálfu EFTA- og EB- ríkjanna sameiginlega vegna þess að eitt eða fleiri EFTA-ríki hafi ekki, vegna ákvæða stjórnarskrár getað tekið afstöðu til málsins.
     6.      Staðfest var viljayfirlýsing um rétt ungs fólks frá EFTA-ríkjunum, sem er í starfsþjálfunarverkefnum á EES, til dvalarleyfis í viðkomandi ríki.

6. Lok samningaviðræðna
    Eftir samkomulagið sem tókst 21.–22. október 1991 sendi framkvæmdarstjórnin EB-dómstólnum samninginn til umsagnar. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í desember 1991 að stofnanafyrirkomulag EES-samningsins bryti í bága við ákvæði stofnsamnings Evrópu­bandalagsins. Ástæðan var sú að gert var ráð fyrir því að EES-dómstóllinn, sem skyldi koma á stofn, gæti túlkað ákvæði EES-samningsins sem væru efnislega samhljóða ákvæðum EB-réttarins. Vegna mismunandi markmiða EB- og EES-samninganna gæti það leitt til mismunandi túlkunar á sömu ákvæðum sem EB-dómstóllinn yrði bundinn af.
    Eftir þessa niðurstöðu hófust samningaviðræður að nýju um dómstólaþáttinn og náðist saman um lausn 14. febrúar 1992. Hætt var við að setja á stofn EES-dómstól en ákveðið að vísa deilumálum um túlkun einstakra ákvæða samningsins til sameiginlegu EES-nefndarinnar til pólitískrar úrlausnar. Í afmörkuðum tilfellum má vísa ágreiningi vegna umfangs öryggisráðstafana og jöfnunarráðstafana við öryggisákvæði til gerðardóms. Ákveðið var að stofna EFTA-dómstól sem starfi jafnhliða EB-dómstólnum.
    Niðurstaða samninganna 14. febrúar var einnig send EB-dómstólnum til umsagnar og féllst hann á að samningurinn væri í samræmi við Rómarsamninginn, en taldi rétt að árétta að þær úrlausnir deilumála sem EES nefndin kæmist að hefðu ekki fordæmisgildi fyrir EB dómstólinn. Var það leyst með bókun 48 við EES-samninginn, sem hljóðar einfaldlega svo: „Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar samkvæmt 105. og 111. gr. mega ekki hafa áhrif á dómsúrlausnir dómstóls Evrópubandalaganna.“
    Aðalsamningamenn árituðu EES-samninginn 14. apríl 1992. og var hann undirritaður í Óportó 2. maí 1992, með fyrirvara um samþykki Alþingis.
    Sama dag voru undirritaðir tveir EFTA-samningar, samningur milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og um fastanefnd EFTA-ríkjanna. Einnig voru undir­ritaðir tveir tvíhliða samningar Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu, annar um sérstakt fyrirkomulag með verslun tiltekinna vara í landbúnaði og hinn um sjávarútvegsmál. Sá fyrri tengist EES-samningnum með bókun 42 við samninginn, en sá síðari tengist EES-samningn­um aðeins með óbeinum hætti.
    EES-samningurinn inniheldur reglur um innri markað EB sem samkomulag hafði orðið um fyrir 1. ágúst 1991. Samningaviðræður halda því áfram varðandi þær reglur á samn­ingssviðinu sem EB hefur sett frá þeim tíma og mun setja fram að gildistöku samningsins. Ráðgert er að ganga frá viðbótarbókun um þessar reglur eins fljótt og auðið er.

E. Athugasemdir við EES-samninginn


Um inngangsorð samningsins


    Inngangsorð samningsins eru almenns eðlis. Þau kveða ekki skýrt á um skuldbindingar eða réttindi en setja samninginn allan í stjórnmálalegt og sögulegt samhengi. Með því að setja fram forsendur samningsins og skýra hvað fyrir samningsaðilum vakti við gerð hans hafa þau áhrif á það hvernig túlka beri ákvæði hans. Nokkrar málsgreinar eru teknar því sem næst orðrétt úr yfirlýsingum sameiginlegra ráðherrafunda EB og EFTA-ríkja á undanförnum árum.
    Fyrst er áréttað að samningsaðilar eigi samleið í mikilvægum málum og að EES- samn­ingurinn geti stuðlað að styrkingu frelsis, lýðræðis og mannréttinda í álfunni. Tekið er fram að stefnt sé að auknu viðskiptafrelsi um heim allan og með vísunum til GATT og OECD er gert ljóst að samstarfi þessu er ekki beint gegn þjóðum utan þess. Lögð er áhersla á jafna samkeppnisstöðu, viðskiptafrelsi, réttarsamræmi og jafnvægi milli réttinda og skyldna.
    Það kemur einnig skýrt fram að markmið samningsins eru ekki eingöngu efnahagslegs eðlis. Tryggja verði örugga umhverfisvernd og grundvallarreglur um sjálfbæra þróun og fyrirbyggjandi aðgerðir eru ítrekaðar. Mikilvægi neytendaverndar, rannsókna og þróunar, jafnréttis karla og kvenna og framþróunar í félagsmálum er áréttað.

Um I. hluta


Markmið og meginreglur


Um 1. gr.


    Kjarni EES-samningsins kemur fram strax í fyrstu grein. Til þess að efla viðskipti og styrkja efnahagstengsl samningsríkjanna er gert ráð fyrir því að viðskipti með vörur og þjónustu verði frjáls og hindrunum á fjármagnsflutningum og atvinnu- og búseturéttindum verði aflétt. Enn fremur er talið nauðsynlegt að setja reglur sem tryggi jöfn samkeppnis­skilyrði. Náin samvinna á öðrum sviðum er áskilin og sérstaklega er tilgreint samstarf á sviði rannsókna og þróunar, umhverfismála, menntunar og félagsmála. Hið fjórþætta frelsi atvinnulífsins, samkeppnisreglur og jaðarverkefnin eru sett fram í stuttu máli en nánari útfærsla bíður annarra ákvæða samningsins.

Um 2. gr.


    Hér eru skilgreind nokkur hugtök sem samninginn varða. Samningurinn sjálfur telst vera, auk þeirra 129 greina sem eru í sjálfu meginmálinu, 49 bókanir og 22 viðaukar. Þær gerðir, hin afleidda löggjöf, sem vísað er til í viðaukum, teljast einnig hluti samningsins.
    Hugtakið EFTA-ríki í samningnum merkir þau ríki sem eru aðilar að þessum samningi sem einnig eru aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Fríverslunarsamtökin (EFTA) sem slík eru ekki aðili að samningnum. Ríki sem gerist aðili að Fríverslunarsam­tökunum (EFTA) síðar fær ekki sjálfkrafa aðgang að EES-samningnum, heldur yrði að semja um það sérstaklega.
    Evrópubandalagið er aðili að samningunum og einnig öll aðildarríki þess. Í c-lið er nánar tilgreint að það fari eftir samhengi hverju sinni hvort orðið samningsaðili eigi við Evrópu­bandalagið, aðildarríki þess eða bæði Evrópubandalagið og aðildarríkin. Flest samningssvið EES falla undir valdsvið Evrópubandalagsins. Framkvæmdastjórn EB kemur þá fram fyrir hönd aðildarríkjanna. Á þeim samningssviðum sem falla utan valdsviðs Rómarsamningsins t.d. að því er varðar einstaka þætti hugverkaréttinda, framkvæmd landamæraeftirlits o.fl., reka aðildarríkin sjálf sín erindi.

Um 3. gr.


    Hér er áréttað að orð skuli standa og samningsaðilar muni gera sitt til þess að samstarf gangi hnökralaust. Hnykkt er á skuldbindingum án þess þó að nokkru sé efnislega bætt við.

Um 4. gr.


    Ein grundvallarregla EES-samningsins er að öll mismunun á grundvelli ríkisfangs sé bönnuð á þeim sviðum sem samningurinn nær til. Þetta á að tryggja að stjórnvöld hniki ekki til samkeppnisaðstæðum til þess að hygla vissum fyrirtækjum á kostnað annarra. Ekki verður t.d. hægt að setja strangari reglur um innfluttar vörur en þær sem gilda um innlenda framleiðslu og réttarstaða fyrirtækja alls staðar á EES-svæðinu verður að vera söm og jöfn. Samsvarandi regla er í 7. gr. Rómarsamningsins en hún er víðtækari þar því Rómarsamn­ingurinn nær til miklu fleiri þátta en EES-samningurinn. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu að gerðar séu efnislegar kröfur, t.d. um tungumálakunnáttu umsækjenda í starf eða um að vara eða þjónusta sem falboðin er hæfi íslenskum aðstæðum.
    Sérstakar undanþágur eru tilgreindar frá þessari meginreglu annars staðar í samningnum. T.d. er hægt að áskilja ríkisborgararétt þegar ráðið er í stöður á vegum ríkisins, sem fela í sér sérstakt trúnaðarsamband við vinnuveitanda (28. gr.). Ef allsherjarregla, almannaöryggi eða almannaheilbrigði krefst þess er einnig hægt að láta sérstakar reglur gilda um erlenda ríkisborgara (33. gr.). Loks má geta þess að tekin eru af öll tvímæli um það í samningnum að Ísland og Noregur geti takmarkað aðgang erlendra ríkisborgara að fyrirtækjum í sjávarútvegi, eins og gildandi lög kveða á um.
    Rétt er að taka fram að þessi meginregla hefur ekki í för með sér að allar reglur þátttöku­ríkja EES verði að fullu samræmdar. Töluverður munur getur verið á því hvaða reglur eru í gildi á tilteknum sviðum en tryggja verður aðeins að framkvæmd þeirra mismuni ekki eftir ríkisfangi. Þannig er hægt að setja strangari reglur hér um ýmsan varning eða starfsemi en tíðkast annars staðar svo fremi þær reglur gildi jafnt um Íslendinga sem erlenda ríkisborgara og valdi ekki hindrunum í milliríkjaviðskiptum innan EES.

Um 5. gr.


    Hér er kveðið á um rétt samningsaðila til þess að taka upp mál í sameiginlegu EES-nefndinni eða EES-ráðinu eftir þeim reglum sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 89. og 2. mgr. 92. gr. Gert er ráð fyrir að vandamál séu fyrst tekin fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni. Almennt hefur verið litið svo á að hér gangi EB til móts við sjónarmið EFTA- ríkja og auki möguleika þeirra á að hafa áhrif á afgreiðslu mála innan EB þegar líklegt er talið að þau hafi áhrif innan EES. Upptökurétturinn gildir um öll mál sem varða samningssviðið. Einnig gildir upptökurétturinn fyrir vandamál sem koma upp á öllum stigum samstarfsins hvort sem það er á meðal sérfræðinga, embættismanna eða ráðherra. Þetta ákvæði tryggir því sérhverjum samningsaðila rétt til að færa umræðuna á það stig sem nauðsynlegt er talið til þess að úrlausn fáist á vandamálum hans.

Um 6. gr.


    Grundvallarmarkmið EES-samningsins er að tryggja samræmi innan alls svæðisins og jafna samkeppnisaðstöðu. Byggt er á þeim réttargrundvelli sem settur hefur verið innan EB á viðskiptasviðinu. Mörg samningsákvæði EES-samningsins taka því mið af samsvarandi ákvæðum Rómarsáttmálans og reglur sem settar eru á grundvelli hans eru teknar upp í viðauka við EES-samninginn. En þótt orðanna hljóðan sé hin sama getur túlkun ákvæðanna orðið mismunandi. Því hefur verið talið nauðsynlegt að setja skýrt fram þá túlkunarreglu að samningsákvæði beri að túlka í samræmi við þá úrskurði EB-dómstólsins sem máli skipta og varða þau ákvæði EB-réttar sem eru efnislega samhljóða EES-reglum. Þetta gildir þó aðeins um þá úrskurði sem upp hafa verið kveðnir fyrir undirskrift samningsins.
    Ákvæði EB-réttar og EES-réttar teljast aðeins vera efnislega samhljóða þegar efni þeirra og þar með talin markmið eru þau sömu. Þannig eiga t.d. dómar EB um bein réttaráhrif og forgang EB-réttar ekki við um túlkun EES-ákvæðanna þar sem ekki er yfirfært löggjafarvald til stofnanna EES sbr. bókun 35 og álit EB-dómstólsins 1/91 14. desember 1992 tölul. 23-29.
    Framangreind regla er túlkunarregla sem sett er með fyrirvara um sjálfstæði dómstólanna og þróun á dómaframkvæmd. Dómarnir eru því lögskýringargagn en þeir eru ekki lögfestir sem slíkir. Það er alltaf í höndum dómstóla að meta hvort EB-dómarnir eigi við EES-ákvæðin að efni til og hvort forsendur séu fyrir sömu túlkun.
    Ákvæðið á ekki við um framtíðardóma EB-dómstólsins en í samningnum um eftirlits­stofnun og dómstól EFTA er gert ráð fyrir að réttmætt tillit sé tekið til þeirra við túlkun. Sér­stakar ráðstafanir verða gerðar um upplýsingaskipti á dómum sbr. 106. gr. til þess að auð­velda samningsaðilum að fylgjast með því hvernig aðrir samningsaðilar túlka einstök ákvæði einnig eftir undirskrift og gera þeim þannig kleift að tryggja samræmi. Komi upp alvarlegt misræmi í túlkun verður það tekið fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Í greinargerð þessari er vísað til helstu dóma EB-dómstólsins sem varða EB-reglur sem eru sambærilegar við EES-reglur.

Um 7. gr.


    EES-samningurinn er bindandi að þjóðarétti fyrir samningsaðilana. Þær gerðir sem vísað er til í viðaukunum eru einnig bindandi að þjóðarétti. Innan EB hafa reglugerðir bein réttaráhrif sem felur í sér að einstaklingar geta sótt rétt sinn samkvæmt ákvæðum EB-reglna fyrir dómstólum í aðildarríkjunum á sama hátt og á grundvelli landslaga. Aðildarríkin hafa framselt löggjafarvald frá þjóðþingum sínum til stofnana EB sem gerir þeim kleift að setja reglur sem hafa lagagildi án þess að til komi sérstakt samþykki þjóðþinganna. Hið sama gildir ekki innan EFTA. Til þess að einstaklingar í EFTA-ríkjunum geti byggt rétt sinn á ákvæðum samningsins þar á meðal þeim gerðum sem vísað er til í viðaukum hans verða ákvæðin að vera hluti af landsrétti aðildarríkjanna. Hið sama gildir um ákvarðanir sameigin­legu EES-nefndarinnar. Þessi grein kveður nánar á um með hvaða hætti EES-reglugerðir og EES-tilskipanir verða teknar upp í landsrétt.     
    Í réttarkerfi EB er gerður greinarmunur á reglugerð (regulation, forordning, Verordnung), sem hefur lagagildi í aðildarrríkjunum og tilskipun (directive, direktiv, Richtlinie), þar sem sett eru ákveðin markmið en aðildarríkjum er gefinn viss tími til lagasetningar í samræmi við þau á viðeigandi hátt. Tiltölulega lítill hluti gerða þeirra sem vísað er til í EES-samningnum er reglugerðir en þær ber skv. 7. gr. að taka upp orðrétt í landsrétt samningsaðila. Mun meira svigrúm er til þess að meta hvernig hægt sé að standa við þær samningsskuldbindingar sem upp eru teknar vegna tilskipana. Samningsaðilar hafa það í sinni hendi í hvaða formi efni tilskipananna er gert hluti af landsrétti.
    Aðrar gerðir sem nefndar eru í viðaukunum oftast í formi tilmæla, orðsendinga eða ályktana eru ekki bindandi fyrir samningsaðilana heldur ber þeim ýmist að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra eða að taka mið af þeim. Einnig eru nefndar gerðir sem eftirlitsstofnunum samningsaðila ber að taka tilhlýðilegt tillit til.

Um bókun 1


Altæk aðlögun


    Við samningagerðina voru uppi tveir valkostir við yfirtöku EB-gerða í EES-samningnum, þ.e. reglugerða, tilskipana o.s.frv. Annars vegar með því að umskrifa allar gerðirnar og aðlaga þær að stjórnskipun EES-svæðisins eða með því að notast við tilvísanir og setja sérstakar reglur um aðlögun þeirra vegna EES.
    Fyrri kosturinn þótti óframkvæmanlegur miðað við þann tímaramma sem EES-samn­ingnum var settur. Endursamning á öllum gerðunum hefði kallað á samningaviðræður um túlkun og orðalag á einstökum ákvæðum í þeim. Síðari kosturinn var því valinn, en samning­urinn er ekki eins auðveldur aflestrar fyrir bragðið.
    Reglur um aðlögun EB-gerðanna sem vísað er til í samningnum eru þrenns konar. Í fyrsta lagi eru reglur um altæka aðlögun sem fjallað er um í þessari bókun, þ.e. almennar reglur sem eiga við um allar gerðir. Í öðru lagi eru aðlögunarreglur sem eiga eingöngu við einn málaflokk og er þeirra þá getið í viðkomandi viðauka. Í þriðja lagi eru aðlögunarreglur sem eingöngu eiga við einstakar gerðir eða ákvæði í þeim og er þeirra þá getið í viðaukum þar sem viðkomandi gerð er skráð.
    Inngangsorð að EB-gerðunum eru miðuð við markmið og stjórnskipun EB. Oftast fara markmið EB og EES saman að því er varðar fjórfrelsið. Ber því að notast við inngangsorð gerðanna sem túlkunargagn fyrir EES-reglurnar eingöngu að því leyti sem þau eiga við.
    Um aðlögun vegna ákvæða er varða þátttöku í EB-nefndum og ákvarðanatöku er vísað til almennra reglna í meginmáli samningsins sem gilda um þessi efni.
    Í gerðunum eru framkvæmdastjórn EB falin ýmis störf er varða upplýsingaskipti og til­kynningar til aðildarríkjanna. Þessi störf verða að því er varðar EFTA-ríkin í höndum annars vegar fastanefndar EFTA og hins vegar í höndum eftirlitsstofnunar EFTA. Bókun 1 við samning milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól og bókun 1 við samning um fastanefnd EFTA-ríkjanna fjalla nánar um hvernig þessi störf falla undir valdsvið hvorrar stofnunarinnar um sig.
    Þegar skýrslugerðar er krafist innan EB ber fastanefnd EFTA eða eftirlitsstofnun EFTA eftir atvikum að gera samsvarandi skýrslu. Í sameiginlegri yfirlýsingu við samninginn er hins vegar kveðið á um að sameiginlega EES-nefndin geti, hvenær sem hún telur að slíkt komi að gagni, farið fram á að sameiginleg skýrsla verði gerð.
    Upplýsingar varðandi staðreyndir og málsmeðferð sem gerðirnar gera ráð fyrir að séu birtar í Stjórnartíðindum EB verða að því er EFTA-ríkin varðar birtar í sérstakri EES-deild Stjórnartíðinda EB. Um fyrirkomulag birtinga EES vísast til bréfaskipta aðalsamningamanna þar um, en þau eru birt með samningnum.
    Þegar rætt er um réttindi og skyldur EB-ríkjanna, opinberra stofnana þeirra, fyrirtækja og einstaklinga í EB-gerðunum er, að því er varðar EES, einnig átt við EFTA-ríkin og opin­berar stofnanir þeirra o.s.frv. Þannig eiga t.d. ákvæði um samstarf opinberra stofnana á til­teknu sviði í EB-ríkjunum við um samstarf opinberra stofnana á því sviði í öllum aðildar­ríkjum EES.
    Þegar vísað er til yfirráðasvæða, sameiginlegs markaðar og ríkisborgara EB-ríkja í gerð­unum eiga þær tilvísanir einnig við yfirráðasvæði, markaði og ríkisborgara EFTA ríkjanna.
    Réttur til að nota eitthvert opinbert tungumál EB-ríkjanna felur í sér rétt til að nota öll hin 13 opinberu tungumál aðildarríkja EES sem talin eru upp í 129.gr. samningsins.
    Um gildistöku gerðanna í EES gilda almenn gildistökuákvæði sbr. 3. mgr. 129. gr. samn­ingsins og ákvæði um bráðabirgðafyrirkomulag, en þar er átt við aðlögunartíma fyrir einstök ríki sem getið er um í viðaukum.

Um II. hluta


Frjálsir vöruflutningar


    Þótt samstarf um aukna fríverslun milli EB og EFTA eigi sér alllanga forsögu og standi fastari fótum á vörusviðinu en t.d. í þjónustuviðskiptum eða fjármagnsflutningum hefur reynst nauðsynlegt að kveða skýrar á um nokkur atriði en gert er í fríverslunarsamningunum frá 1972. Í fyrsta lagi eru áréttaðar þær reglur sem nauðsynlegar eru til þess að ákvarða uppruna vöru. Þær eru nokkru einfaldari en tíðkast hefur til þessa og er það nánar skýrt hér á eftir. Einnig eru endurteknar reglur um að tollar og magntakmarkanir séu ekki leyfð á þeim vörum sem undir samninginn falla og fjáröflunargjöld ýmiss konar mega ekki leggjast af meiri þunga á innfluttar vörur en innlendar. Þar eru enn fremur settar sérstakar starfsreglur fyrir ríkiseinkasölur. Landbúnaðar- og sjávarafurðir falla ekki undir meginákvæði samn­ingsins og er því fjallað sérstaklega um meðferð þeirra í 2. kafla. EES verður ekki tollabandalag en samstarf tollyfirvalda verður aukið og er það skilgreint nánar í 3. kafla. Loks er í 4. kafla tekið á ýmsum öðrum þáttum, t.d. tæknilegum viðskiptahindrunum, orkumálum og undirboðsaðgerðum, en á kola- og stálvörum í 5. kafla.

Um 1. kafla


Grundvallarreglur


Um 8. gr.


    Í þessari grein er nánar kveðið á um óhindruð vöruviðskipti milli samningsaðila. Þar sem EES verður ekki tollabandalag og samræmir því ekki tolla gagnvart ríkjum utan svæðisins er sérstaklega tekið fram í 2. tölulið að nokkur tilgreind ákvæði samningsins eigi aðeins við um vörur sem upprunnar eru á samningssvæðinu. Hér er um að ræða ákvæði samningsins um afnám tolla og annarra gjalda (10. gr.), afnám magntakmarkana í innflutningi og útflutningi (11., 12. og 13. gr.), afnám allrar mismununar við skattlagningu innanlands (14. og 15. gr.), frekara samstarf við þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir (19. gr.), vísan til sérmeðferðar fyrir sjávarafurðir (20. gr.), útflutningstakmarkanir í undantekningartilvikum (25. gr.), afnám allra undirboðsaðgerða (26. gr.) og vísan til sérstakra reglna um kol og stál (27. gr.).
    Loks er tekið fram í 3. mgr. að ákvæði samningsins eigi við um iðnvarning í tollflokkum 25–97 í samræmdu tollskránni. Undanskilin eru örfá efni, t.d. kasein, albúmín, albúmínöt, dextrín og umbreytt sterkja. Þessi tilhögun endurspeglar það fyrirkomulag sem er t.d. í fríverslunarsamningi Íslands við EB frá 1972 en þar eru einnig almennar reglur samningsins látnar gilda um iðnvarning, með sömu undantekningum og hér, en sérstakt fyrirkomulag haft um landbúnaðar- og sjávarafurðir. Nokkrar vörur sem unnar eru úr landbúnaðarhráefni falla undir ákvæði samningsins, sbr. b-lið, en um þær gilda þó að auki sérstakar reglur. T.d. er heimilt að setja á þær verðjöfnunargjöld við innflutning eins og nánar er kveðið á um í bókun 3. Sams konar ákvæði var í fyrsta viðauka fríverslunarsamningsins.

Um bókun 2


    Vörur þær sem taldar eru upp hér eru í flokki með iðnvarningi í tollskrá en í þeim eru landbúnaðarhráefni og hafa þær því verið undanþegnar fríverslun. Í fríverslunarsamningnum frá 1972 var samsvarandi listi (viðauki I) en þar var einnig talinn upp korkur auk albúmíns.

Um bókun 49


Ceuta og Melilla


    Ceuta og Melilla eru spænsk landsvæði á norðurströnd Afríku, umkringd af Marokkó, sem gerir tilkall til þeirra. Bæði þessi landsvæði eru fríhafnir og er hið fyrrnefnda 19,5 ferkm að stærð og hefur um 70.000 íbúa en hið síðara 12,5 ferkm með rúmlega 60.000 íbúa. Vegna sérstakrar stöðu þessara svæða er talin ástæða til þess að árétta að vörur þaðan skuli hljóta EES-meðferð.

Um bókun 3


Framleiðsluvörur sem um getur


í b-lið 3. mgr. 8. gr. samningsins


(Breytingar frá fyrri útgáfu skáletraðar)


    Í fríverslunarsamstarfi eftirstríðsáranna hefur lengi tíðkast að gera greinarmun á almennum landbúnaðarafurðum og unnum landbúnaðarvörum eða iðnvarningi sem unninn er úr landbúnaðarhráefni. Í fríverslunarsamningi Íslands við EB frá 1972 eru þessar afurðir skráðar í bókun 2 og í stofnskrá EFTA, Stokkhólmssamningnum, í viðauka D. Gilt hafa þær reglur að tollar og magntakmarkanir eru afnumin en heimilt hefur verið að leggja á sérstök verðjöfnunargjöld á innflutning og greiða sérstakar útflutningsbætur vegna útflutnings til þess að jafna samkeppnisaðstöðu vegna mismunandi verðs á landbúnaðarafurðum sem notaðar eru sem hráefni í viðkomandi vörum. Þetta tryggir iðnfyrirtækjum sem nota landbúnaðarvörur sem hráefni sambærileg samkeppnisskilyrði hvernig sem landbúnaðarstefna er rekin í löndum samningsaðila, en það er einmitt megintilgangur kerfisins.
    Í bókun 3 er reynt að tryggja að þessi framkvæmd verði sem einföldust og leiði ekki til frekari viðskiptahindrana. Í stað staðlaðra uppskrifta er miðað við raunverulegt innihald s amkvæmt yfirlýsingu framleiðenda við staðgreiðslu og þegar reiknaður er út verðjöfnunarþáttur má ekki lengur miða við mismun á heimaverði og heimsmarkaðsverði heldur verður miðað við mismun á heimaverði og því verði sem lægst er á EES-svæðinu. Í þeim tilvikum sem ákvæði 3.–9. gr. bókunar 3 eru ekki uppfyllt sbr. 11. gr., svo sem þegar raunuppskriftir eru ekki til staðar, verður bókun 2 í fríverslunarsamningunum notuð áfram, t.d. hvað varðar staðlaðar uppskriftir við útreikning verðjöfnunargjalds. Ekki er gert ráð fyrir því að heildarálögur verði hærri eftir að kerfið hefur verið tekið upp en þær sem tíðkuðust 1. 1. 1992. Viðmiðun hvað Ísland varðar er þó árið 1991, sjá hér að neðan. Reikna má niðurgreiðslur innlends hráefnis sem jafngildi innflutningsgjalds og í þeim tilfellum sem algert innflutningsbann hefur ríkt verður ekkert slíkt þak. Sérstakar reglur munu gilda um það hvaða hráefni megi verðjafna, hvernig tilkynna eigi um innihald, hvernig reikna eigi viðmiðunarverð og innihald við frekari vinnslu en tæknilegri forvinnu er enn ekki að fullu lokið. Í vissum tilfellum munu ákvæði fríverslunarsamningsins frá 1972 gilda. Ákvæði bókunarinnar eiga aðeins við um þær vörur sem þar eru taldar upp en listinn er heldur lengri en samsvarandi listi í bókun 2 (við bætist kaffi, te, kakómassi o.fl.) og er hann að fullu samræmdur þ.e. sami listi gildir fyrir öll EFTA-ríki og EB.
    Tvenns konar varningur á lista þessum er undanþeginn ákvæðum bókunarinnar við innflutning til Íslands: 21.05 rjómaís og úr 21.06.90 blöndur af smjöri og jurtafitu þar sem smjörinnihald er meira en 15%. Þetta tollnúmer nær til afurða á borð við „Létt og laggott“ og „Smjörva“. Heimilt er því samkvæmt þessu að viðhalda innflutningsbanni en rétt er að minna á að rjómaís með súkkulaði var á samsvarandi lista í fríverslunarsamningnum frá 1972. Rétt er einnig að taka fram að ekki er hægt samkvæmt þessu að banna innflutning á blöndu af jurtafeiti og smjöri ef smjörinnihald er milli 10 og 15 %.
    Hér að framan var sagt að ekki mætti leggja á hærri gjöld en tíðkuðust 1. janúar 1992. Þar sem íslensk stjórnvöld hafa lítið notað sér möguleika til verðjöfnunargjalda setur þetta nokkrar skorður við innheimtu þeirra í framtíðinni þar sem innflutningur hefur verið frjáls. Undanþága frá þessu ákvæði fékkst fyrir nokkrar afurðir í 5. gr. 1. viðbætis, t.d. jógúrt, bragðbætt eða blandað ávöxtum, hnetum eða kakaó (0403), smjörlíkisblöndur sem innihalda meira en 10% en minna en 15% smjör (1517), súkkulaði og aðrar vörur sem innihalda kakaó (1806), maltextrakt (1901), pasta (1902), brauð, kökur og kex (1905), sultur og marmelaði (2007), sósur (2103) og súpur (2104). Allar þessar vörur eru nú án tolla, en jöfnunargjald hefur verið á sumum þeirra. Í 2. mgr. 2. tölul. 5. gr. I. viðbætis er fjallað um aðrar vörur sem ekki eru innan ramma undanþágunnar í 1. mgr. 2. töluliðs og er þar tekið fram að fyrir þessar vörur verði miðað við álögð gjöld árið 1991 en ekki 1. 1. 1992, sem er viðmiðun annarra samningsaðila. Þar sem þak verðjöfnunarkerfis fyrir Ísland miðast við álögð aðflutningsgjöld árið 1991, reyndist ekki nauðsynlegt að hafa allar vörutegundir sem nú eru framleiddar hér á landi og eru á lista bókunar 3, innan áðurnefndrar undanþágu. Þetta stafar af því að verulega há aðflutningsgjöld voru á nokkrum vörutegundum 1991 svo sem frönskum kartöflum, kartöfluflögum o.fl. auk þess sem jöfnunargjald var lagt á margar þeirra. Auk þess ber að taka tillit til innri sem ytri verðjöfnunar. Þetta þýðir að reikna má niðurgreiðslur innlends hráefnis sem jafngildi innflutningsgjalds, þótt þær hafi ekki verið fluttar inn. Þá er einnig vert að geta þess að þegar bókun 2 verður notuð gildir þak á verðjöfnunargjald ekki gagnvart þeim vörum sem taldar eru upp í vörulista hennar.

Um 1. gr. bókunar 3


    Hér er kveðið á um að öll ákvæði samningsins skuli gilda um þær vörur sem falla undir bókunina (þ.e. vörur sem falla undir verðjöfnunarkerfið í töflu I og vörur sem verða í fullri fríverslun í töflu II). Ákvæðið er sett til öryggis þar sem vörur í 1.–24. kafla tollskrárinnar falla almennt ekki undir samninginn.

Um 2. gr. bókunar 3


     Þessi kafli fjallar um verðjöfnunarkerfið sem gildir um vörur í töflu I. Hér eru sett fram nánari ákvæði um hvernig samningsaðilar skuli standa að verðjöfnun á unnum landbúnaðar­vörum.
    Vinnu við ýmis tæknileg framkvæmdaatriði vegna verðjöfnunarkerfisins var ekki hægt að ljúka fyrir undirritun samningsins, sbr. 2.–7. viðbæti. Þessari vinnu á hins vegar að ljúka fyrir 1. júlí 1992.
    Eins og í bókun 2 við fríverslunarsamninginn frá 1972 á verðjöfnunarkerfið að jafna þann mun sem er á verði landbúnaðarhráefna í framleiðslu á unnum landbúnaðarvörum sem taldar eru upp í töflu I. Þetta er gert með því að leggja breytilegt gjald – verðjöfnunargjald – á innfluttar vörur og endurgreiða útflytjendum varanna þennan mismun.
    Ef einhver samningsaðilanna gerir ráðstafanir innanlands til lækkunar á hráefnisverði, t.d. með því að niðurgreiða hráefni til iðnaðarins, ber að taka tillit til þess við álagningu verðjöfnunargjalds og endurgreiðslu við útflutning.

Um 3. gr. bókunar 3


    Verðjöfnun skal reiknuð út á grundvelli raunverulegs magns landbúnaðarhráefnis í endanlegu framleiðslunni. Verðjöfnunin verður með því eðlileg og sanngjörn. Hér er um að ræða breytingu frá því sem gilt hefur í fríverslunarsamningnum frá 1972 en þar er gert ráð fyrir að reikna megi verðjöfnunina út á grundvelli staðlaðra uppskrifta og getur það leitt til mismununar gagnvart einstökum framleiðendum.

Um 4. gr. bókunar 3


    Til að finna raunverulegt magn hráefnis í vörunni er tekið upp það fyrirkomulag að framleiðandi eða útflytjandi vörunnar gefur yfirlýsingu um innihaldið, sem er staðfest af yfirvöldum í útflutningslandinu og lögð fram við tollafgreiðslu eða útflutning, og verðjöfnunargjald eða endurgreiðsla til útflytjanda reiknuð á grundvelli hennar.

Um 5. gr. bókunar 3


    Þarfnast ekki skýringa.

Um 6. gr. bókunar 3

    Það viðmiðunarverð, sem lagt verður til grundvallar verðjöfnuninni verður staðfest af sameiginlegu EES-nefndinni, þ.e. það verð sem greitt er af framleiðendum á svæðinu. Verðjöfnunin verður síðan reiknuð sem mismunur á innlendu hráefnisverði og lægsta verði sem gildir innan EES. Þetta þykir skapa sem mest samræmi innan svæðisins en í bókun 2 við fríverslunarsamninginn 1972 gildir sú regla að verðjöfnun er reiknuð á grundvelli mismunar á innlendu hráefnisverði og heimsmarkaðsverði.

Um 7. gr. bókunar 3


    Ef ekki hefur verið samþykkt viðmiðunarverð fyrir hráefni sem notað hefur verið við framleiðsluna verða notaðir ákveðnir stuðlar til að umreikna hráefnisverð sem samþykkt hefur verið.

Um 8. gr. bókunar 3


    Hér er kveðið á um það sem áður hefur komið fram að munurinn á innlendu viðmiðunarverði og lægsta viðmiðunarverði innan EES skuli vera grundvöllur verðjöfnunar­innar.

Um 9. gr. bókunar 3


    Verðjöfnunarkerfi fyrir unnar landbúnaðarvörur hefur verið framkvæmt í nokkra áratugi og er m.a. útfært í fríverslunarsamningum milli EFTA-landanna og EB og í stofnsamningi EFTA. Bókun 3 er í raun ekki ætlað að breyta miklu frá fyrra kerfi. Meiri áhersla hefur verið lögð á að einfalda kerfið og samræma þær reglur sem munu gilda á svæðinu. Því er í þessari grein kveðið á um að samningsaðilarnir skuldbindi sig til að leggja ekki hærri gjöld á þær vörur sem falla undir kerfið en þeir gerðu 1. janúar 1992. Um er að ræða nokkurs konar varnagla til að einstaka lönd noti ekki tækifærið og hækki sín gjöld. Nokkrar undantekningar eru frá þessari reglu, sjá síðar.

Um 10. gr. bókunar 3


    Hér er fjallað um vörur sem taldar eru upp í töflu II. Um þær mun gilda full fríverslun. Samkvæmt því má hvorki leggja á þær tolla, önnur innflutningsgjöld, þar með talið verðjöfn­unargjöld, né leggja bann eða takmarkanir á innflutning þeirra.
    Undantekningar frá þessu ákvæði er að finna í 1. viðbæti en þar er að finna ákvæði um stiglækkun tolla sem enn eru lagðir á ýmsar vörur sem falla undir töflu I. Þessi ákvæði hafa ekki áhrif á Íslandi þar sem aðflutningsgjöld hafa þegar verið felld niður af þeim vörum sem þar eru taldar upp.

Um 11. gr. bókunar 3


    Til að ákvæði bókunar 3 um verðjöfnun verði framkvæmd þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt, m.a. ákvæði 3.–9. gr. bókunarinnar. Sé þessum skilyrðum ekki fullnægt, t.d. ef ekki er lögð fram yfirlýsing um hráefni eða ef viðmiðunarverð hefur ekki verið ákveðið af sam­eiginlegu nefndinni, er ekki hægt að nota kerfið. Því er kveðið á um í þessari grein að þá skuli nota ákvæði bókunar 2 við fríverslunarsamninga EFTA-landanna og EB.

Um 12. gr. bókunar 3


    Í þessari grein er fjallað um tilkynningar og upplýsingaskipti samningsaðilanna innan sameiginlegu EES-nefndarinnar um verðjöfnunaraðgerðir, bæði innan EES og ef slíkar aðgerðir eru notaðar í viðskiptum aðilanna við þriðju ríki.

Um 13. gr. bókunar 3


    Vegna ákvæða 9. gr. um takmörkun verðjöfnunaraðgerða við þau gjöld, sem lögð voru á vörur hinn 1. janúar 1992 sáu nokkur EFTA-landanna fram á að þeim yrði óheimilt að nota verðjöfnunarákvæðin varðandi ýmsar vörur. Sérstakar undanþágur er því að finna í 4.–6. gr. 1. viðbætis.
    Þetta á við, að því er varðar ákvæði fyrir Finnland og Noreg, vegna innflutningsbanns sem verið hefur á tilteknum vörutegundum, og þar af leiðandi tollfrelsi, og að því er varðar Austurríki, vegna sérstakra ákvæða um stiglækkun tolla á áfengi. Enn fremur hefur Austurríki fengið samþykkt sérstök ákvæði vegna sterkjuframleiðslu þar sem hún mun hafa verulega þýðingu fyrir ákveðin fátæk landbúnaðarsvæði í landinu.
    Sérstök ákvæði sem gilda um Ísland er að finna í 5. gr. 1. viðbætis. Gerð hefur verið grein fyrir þeim í almennum athugasemdum við bókunina.

Um 14. gr. bókunar 3


    Viðskipti með unnar landbúnaðarvörur, svo og verðjöfnunarkerfi bókunarinnar, verða endurskoðuð á tveggja ára fresti, m.a. til að kanna möguleika á auknum viðskiptum, svo og þróun verðjöfnunarkerfisins almennt.

Um 9. gr.


    EES-samningurinn veitir varningi af EES-svæðinu talsverð fríðindi umfram vörur annars staðar frá. En áður en fríðindi þessi eru veitt við tollafgreiðslu verður að sýna fram á að vörurnar séu í raun upprunnar af EES-svæðinu. Sérstakar reglur gilda um það hvernig sýna skal fram á EES-uppruna og eru þær að verulegu leyti byggðar á upprunareglum þeim sem gilt hafa samkvæmt bókun 3 við fríverslunarsamninga EB og EFTA-ríkja. Fjallað er um þessar upprunareglur í bókun 4 við EES-samninginn, en einnig er áréttað að skuldbindingar þær sem samningsaðilar hafa tekist á herðar eða munu gangast undir innan GATT skuli standa. Eftir að vara hefur verið afgreidd inn til EB verður ekki þörf frekari eftirlits.
    Vara telst upprunavara EES ef hún er að fullu unnin á svæðinu úr hráefni af svæðinu. Einnig getur hún öðlast upprunaréttindi ef vinnsla hennar uppfyllir viss skilyrði, sjá nánar II. viðbæti við bókun 4 en þar er skráð hvaða aðvinnsla veitir upprunaréttindi. Þar er einnig nánar kveðið á um það hversu mikið hráefni má nota frá ríkjum utan svæðisins án þess að missa tollfríðindi. Heimilt er að láta vinna vöru að hluta utan EES-svæðis án þess að glata upprunaréttindum ef virðisauki vegna aðvinnslunnar þar nemur ekki meira en 10% af heildarverðmæti. Reglur um vefnaðarvörur og fatnað eru þó strangari hvað þetta varðar. Engu máli skiptir hins vegar þótt aðvinnslan fari fram á mörgum stöðum innan EES. Almennt er sú krafa gerð að vöru fylgi annaðhvort upprunavottorð eða yfirlýsing framleiðanda á reikningi.
    Samningsaðilar skuldbinda sig í 2. mgr. 9. gr. til þess að endurbæta frekar og einfalda allar upprunareglur og efla samstarf sitt í tollamálum.
    Upprunareglur þessar verða teknar til fyrstu endurskoðunar fyrir árslok 1993. Væntanlega verður það gert í hópi upprunasérfræðinga landanna 19 en þeir hafa haft með sér náið sam­starf um áraraðir. Þaðan í frá verður samstarfið endurskoðað á tveggja ára fresti.

Um bókun 4


Upprunareglur


    Í fríverslunarsamningi Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu eru ákvæði um upprunareglur í bókun 3. Upprunareglur eru reglur sem vara þarf að uppfylla til að hún geti notið fríðindameðferðar samkvæmt ákvæðum fríverslunarsamningsins.
    Í bókun 4 eru ákvæði um upprunareglur sem gilda munu innan Evrópska efnahags­svæðisins. Við gerð þeirra var höfð hliðsjón af sambærilegum reglum fríverslunarsamninga EB og EFTA-landanna en reynt eftir mætti að einfalda orðalag, svo og reglurnar sjálfar og framkvæmd alla, til að inn- og útflytjendur og tollyfirvöld eigi auðveldara með að nota þær. Helstu breytingar frá gildandi upprunareglum eru eftirfarandi:
    
1. EES-uppruni
    Vörur sem framleiddar eru innan svæðisins úr hráefnum sem þar eru fengin eða uppfylla að öðru leyti aðvinnslureglur bókunarinnar verða svokallaðar EES-upprunavörur. Samkv­æmt fríverslunarsamningnum eru vörur upprunavörur í því landi sem þær eru framleiddar í.
2. Hráefnanotkun
    Unnt verður að nota hráefni hvaðanæva að af frá svæðinu án þess að vara glati upprunaskráningu sinni. Þá eru einnig veittar rýmri heimildir til að nota hráefni utan svæðisins án þess að uppruni glatist og enn fremur opnast möguleikar á aðvinnslu upprunavara utan svæð­isins.
3. Formsatriði og eyðublöð
    Formsatriði við staðfestingu á að upprunareglum sé fullnægt eru einfölduð, m.a. eru mörk fjárhæða hækkuð að því er varðar undanþágur frá framlagningu upprunavottorða og vegna upprunayfirlýsingar á vörureikningi.
    Eyðublöðum og vottorðum er fækkað og verða nú tvö í stað fjögurra áður, þ.e. ERU 1 skírteini og yfirlýsing útflytjanda á vörureikningi.
    Ákvæði um samvinnu og upplýsingagjöf stjórnvalda og reglur um sannprófanir uppruna­yfirlýsinga o.s.frv. eru sambærilegar við núgildandi ákvæði um upprunareglur.
    Benda má á að í 9. gr. samningsins er ákvæði um samvinnu samningsaðilanna um frekari þróun og einföldun upprunareglnanna.

     Um 1. gr. bókunar 4

    Hér eru taldar upp skilgreiningar sem nota á við framkvæmd bókunarinnar. Skilgreiningarnar eru almennt sambærilegar við þær sem notaðar eru í bókun 3 við fríverslunarsamninga EFTA-landanna og EB en þó hefur verið reynt að einfalda orðalag og gera það skýrara.

     Um 2.–9. gr. bókunar 4

    Þær vörur sem framleiddar eru á EES og uppfylla skilyrði sem sett eru í þessum ákvæðum og í öðrum ákvæðum bókunarinnar teljast vera upprunnar í EES. Hér er um að ræða verulega breytingu frá því sem gildir í fríverslunarsamningum milli EBE og EFTA-landanna, en sam­kvæmt þeim getur vara einungis verið upprunnin í því landi þar sem varan er framleidd. Framleiðendum verður heimilt að nota hráefni frá hvaða landi innan EES sem er án þess að framleiðsluvaran glati upprunaskráningu sinni. Í fríverslunarsamningunum er almenna reglan hins vegar sú að einungis má nota hráefni frá hinum samningsaðilanum, t.d. í viðskiptum Íslands og EB má einungis nota íslenskt eða hráefni frá EB-ríki, en ekki frá öðru EFTA-landi. Þessar reglur voru hins vegar rýmkaðar nokkuð fyrir nokkrum árum en reglur EES-samningsins eru mun frjálslegri þar sem uppruni hráefnis má vera hvaðanæva að af svæðinu. Þá er einnig gert ráð fyrir svokallaðri „valkvæðri hlutfallsreglu“, sem er nýmæli, en hún gerir ráð fyrir að sækja megi 10% af verðmæti vörunnar utan svæðisins án þess að hún glati uppruna sínum.
    Í þessum bálki er nánar kveðið á um skilyrði þess að vara verði talin upprunavara innan EES og eru þau að sumu leyti sambærileg við það sem gildir nú. Við gerð bókunarinnar var hins vegar reynt að einfalda reglur og orðalag til þess að auðvelda notkun hennar fyrir inn- og útflytjendur, tollyfirvöld o.s.frv.
    Vert er að geta þess að í II. viðbæti er skrá yfir aðvinnslu efna, sem ekki teljast upprunavörur, til að framleiðsluvaran öðlist upprunaréttindi innan EES. Þessi skrá er í sam­ræmi við sams konar skrá sem er í bókun 3 við fríverslunarsamning Íslands og EB.

     Um 10.–17. gr. bókunar 4

    Almenna reglan er sú að auk reglna um notkun hráefna þurfi framleiðsla og aðvinnsla þeirra að fara fram á EES til þess að vara teljist EES-upprunavara. Í samningaviðræðunum lögðu EFTA-ríkin ríka áherslu á að reglur um þetta yrðu rýmkaðar þannig að aðvinnsla og öflun hráefna gætu einnig komið frá þriðju ríkjum. Niðurstaðan varð hins vegar sú að sett voru inn ákvæði sem gera aðvinnslu utan svæðisins mögulega í takmörkuðum mæli. Þetta gildir hins vegar ekki um vefnaðarvörur.
    Gert er ráð fyrir því að á þessu ári hefjist viðræður milli EB, EFTA ríkja og Póllands, Tékkóslóvakíu og Ungverjalands um einföldun upprunareglna.

     Um 25. gr. bókunar 4

    Hér er lagt bann við endurgreiðslum eða undanþágum frá tollum og gjöldum vegna framleiðslu upprunavara í ríkjum EES. Ákvæðið á að tryggja að einstakt land geti ekki veitt innlendri framleiðslu vernd gagnvart vörum frá öðrum samningsaðilum.

     Um 12.–31. gr. bókunar 4

    Til að vara geti notið tollfrelsis samkvæmt samningnum þarf að liggja fyrir sönnun á að hún uppfylli upprunareglur bókunar 4. Í þessum ákvæðum eru settar form- og framkvæmda­reglur um útgáfu upprunayfirlýsinga, þ.e. ERU 1 flutningsskírteini og yfirlýsingu á vöru­reikningi. Reglurnar eru sambærilegar við reglur núgildandi fríverslunarsamninga milli EB og EFTA-ríkja en þó hefur verið reynt að einfalda reglurnar og fækka þeim skjölum sem notuð eru við staðfestingu uppruna. Þau verða tvö í stað fjögurra áður. Í III.–VI. viðbæti við bókunina eru fyrirmyndir þeirra skjala sem nota skal og nánari reglur um notkun þeirra.

     Um 32.–36. gr. bókunar 4

    Hér er að finna ákvæði um gagnkvæma aðstoð tollyfirvalda vegna framkvæmdar upprunareglnanna, t.d. ef sannprófa þarf uppruna. Reglurnar eru sambærilegar við reglur fríverslunarsamninganna milli EB og EFTA-ríkja.

     Um 37.–38. gr. bókunar 4

    Um hin spænsku landsvæði Ceuta og Melilla gilda sérstök ákvæði, sbr. einnig bókun 48. EES-upprunareglurnar munu ekki gilda um vörur sem framleiddar eru á þessum svæðum heldur eru í þessum ákvæðum sérstakar upprunareglur fyrir þær. Er þetta í samræmi við margnefndar reglur bókunar 3 í fríverslunarsamningum EB-EFTA.

Um 10. gr.


    Hér er lagt bann við öllum tollum á innflutning eða útflutning í viðskiptum milli samningsaðila. Bann þetta á einnig við fjáröflunartolla. Ákvæði þetta hefur ekki áhrif á vörugjöld eða aðra skattlagningu sem leggst jafnt á innlenda sem erlenda framleiðslu og hefur því engin verndaráhrif. Sérstakar undanþágur eru þó veittar í bókun 5 fyrir Sviss og Liechtenstein fyrir nokkrar tilteknar vörur (kaffi, bensín, vélar, bifreiðar og varahluti) í takmarkaðan tíma. Það fyrirkomulag verður tekið til endurskoðunar í sameiginlegu EES-nefndinni fyrir árslok 1996. Undirbúningur er hafinn að breytingu á skattlagningu þar og er gert ráð fyrir því að neysluskattar komi í stað fjáröflunartolla þessara. Skattabreytingar eru þungar í vöfum í Sviss og því veitir ekki af þessum tíma til breytinganna.
    Svipuð ákvæði eru í fríverslunarsamningi Íslands og EB frá 1972 í 3.–7. gr. Í þeim var Íslandi þó veitt undanþága fyrir langan lista fjáröflunartolla sem skv. tollskrá í dag hefði fyllt 174 síður. Íslenska ríkið hafði einhliða fallið frá mörgum þeirra í áranna rás en kröfu um að halda inni sömu heimildum og í fríverslunarsamningunum var haldið til streitu til síðustu stundar eða þar til ljóst var að viðunandi árangur mundi nást hvað varðar tollfrelsi sjávarafurða. Í fríverslunarsamningnum voru langir aðlögunartímar og tollar felldir niður í áföngum en þar sem tollar á iðnvarningi tíðkast ekki lengur í samskiptum EES-ríkjanna er hér hægt að gera langa sögu stutta.
    Fjáröflunartollar voru á árinu 1991 einkum lagðir á ljós- og kvikmyndavörur, ýmsar vörur úr plasti, gúmmíi, leir, járni, stáli og áli, ýmsar vélar, heimilistæki, rafmagnstæki, ökutæki og skotfæri. Tekjur ríkissjóðs vegna þessara tolla á vörum frá löndum hins Evrópska efna­hagssvæðis voru um 940 milljónir á árinu 1991. Í stað þessara tekna gætu komið vörugjöld eða skráningargjöld. Aðalatriðið er að gjöld þessi leggist jafnt á innlenda sem erlenda framleiðslu.

Um bókun 5


     Fjáröflunartollar (Liechtenstein, Sviss)

     Sjá athugasemdir við 10. gr.

Um bókun 6


     Söfnun lögboðins varaforða í Sviss og Liechtenstein

    Sviss hefur lengi rekið mjög viðamikið almannavarnakerfi. Þannig er í hverju fjölbýlishúsi öruggt geislavarið byrgi, lofthreinsitæki og matarbirgðir til reiðu ef til kjarnorkustyrjaldar kæmi. Ríkið stendur þess vegna í allumfangsmiklum innkaupum. Í bókun þessari er tekið fram að ekki megi mismuna í rekstri þessa kerfis gagnvart innflutningi.

Um 11. gr.


    Hér er aftur verið að árétta hlut sem í raun var kominn á að mestu leyti með fríverslunar­samningi Íslands við EB 1972, sbr. 13. gr. þess samnings. Orðalagið endurspeglar 30. grein Rómarsamningsins. Í stuttu máli má segja að bannið nái til allra viðskiptahindrana sem tálma viðskiptum milli samningsaðila, beint eða óbeint. Þó hefur verið viðurkennt að nauðsynlegt geti verið að grípa til ráðstafana sem í raun hindra viðskipti, ef hægt er að færa fyrir þeim gild rök, t.d. vegna neytendaverndar, umhverfisverndar, vinnueftirlits eða skattaeftirlits.
    Í fríverslunarsamningnum frá 1972 var þó haldið inni heimild til innflutningstakmarkana á olíu og olíuvörum vegna viðskiptahátta við Ráðstjórnarríkin og á ýmiss konar burstum vegna innlendrar framleiðslu á vegum Blindrafélagsins. Ekki þótti ástæða til þess að halda við takmörkunum á olíu og olíuvörum í ljósi breyttra viðskiptahátta en í samráði við Blindrafélagið var haldið inni takmörkunum á nokkrum tegundum sópa og bursta. Er nánar kveðið á um þær í bókun 7 við samninginn. Um svipað efni fjalla m.a. eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 29.11.78, mál 83/78, Pigs Marketing Board, B 1978, bls. 2347)
(DEB, 11.07.74, mál 8/74, Dassonville, B 1974, bls. 837)
(DEB, 20.02.79, mál 120/78, Rewe, Cassis de Dijon, B 1979, bls. 649)
(DEB, 20.02.75, mál 12/74, Sekt und Weinbrand, B 1975, bls. 181)
(DEB, 08.11.79, mál 15/79, Viande Chevaline, B 1979, bls. 3409)
(DEB, 26.06.80, mál 788/79, Gilli et Andres, B 1980, bls. 2071)
(DEB, 16.12.80, mál 27/80, Fietje, B 1980, bls. 3839)
(DEB, 22.01.81, mál 58/80, Dansk Supermarked, B 1981, bls. 181)
(DEB, 05.02.81, mál 53/80, Nisine, B 1981, bls. 409)
(DEB, 19.02.81, mál 130/80, Kelderman, B 1981, bls. 527)
(DEB, 17.05.81, mál 113/80, Articles de bijouterie, B 1981, bls. 1625)
(DEB, 14.07.81, mál 155/80, Oebel, B 1981, bls. 1993)
(DEB, 09.12.81, mál 193/80, Vinaigre II, B 1981, bls. 3019)
(DEB, 17.12.81, mál 272/80, Biologische Producten, B 1981, bls. 3277)
(DEB, 31.03.82. mál 75/81, Blesgen, B 1982, bls. 1211)
(DEB, 10.11.82. mál 261/81, Rau (Margarine), B 1982, bls. 3961)
(DEB, 17.03.83, mál 94/82, De Kikvorsch, B 1983, bls. 947)
(DEB, 20.04.83, mál 59/82, Vermouth, B 1983, bls. 1217)
(DEB, 14.07.83, mál 174/82, Sandoz, B 1983, bls. 2445)
(DEB, 29.11.83, mál 181/82, Roussel, B 1983, bls. 3849)
(DEB, 30.11.83. mál 227/82, Van Bennekom, B 1983, bls. 3883)
(DEB, 07.02.84, mál 238/82, Duphar, B 1984, bls. 523)
(DEB, 13.03.84, mál 16/83, Prantl, B 1984, bls. 1299)
(DEB, 06.06.84, mál 94/83, Melkunie, B 1984, bls. 2367)
(DEB, 19.09.84, mál 94/83, Heijn, B 1984, bls. 3263)
(DEB, 10.01.85, mál 229/83, Prix fixe du livre, B 1985, bls. 1)
(DEB, 11.07.85, mál 60 og 61/84, Cinétheque, B 1985, bls. 2605)
(DEB, 26.11.85, mál 182/84, Miro, B 1985, bls. 3731)
(DEB, 10.12.85, mál 247/84, Motte, B 1985, bls. 3887)
(DEB, 28.01.86, mál 188/84, Homologation des machines á travailler le bois,
    B 1986, bls. 419)
(DEB, 13.03.86, mál 54/85, Mirepoix, B 1986, bls. 1067)
(DEB, 06.05.86. mál 304/84, Kampfmeyer, B 1986, bls. 1511)
(DEB, 04.12.86, mál 179/85, Pétillant de raisin, B 1986, bls. 3879)
(DEB, 12.03.87, mál 178/84, Loi de pureté de la biere, B 1987, bls. 1227)

Um bókun 7


Magntakmarkanir sem Ísland má viðhalda

    Hér vísast til athugasemda við 11. gr.

Um 12. gr.


    Þessi grein endurspeglar orðalag 34. gr. Rómarsamningsins og gildir um hana það sama og sagt var hér að framan um 11. gr. Rétt er að minna á að bann þetta nær ekki til sjávarafurða því að um þær gilda sérstakar reglur samkvæmt bókun 9 en þar er ekki kveðið á um útflutningsbann. Í 25. gr. samningsins eru sérstök ákvæði um leyfilegar útflutningstak­markanir, t.d. vegna hráefnisskorts. Um svipað efni fjalla m.a. eftirfarandi dómar EB-dóm­stólsins:
(DEB, 30.10.74, mál 190/73, Van Haaster, B 1974, bls. 1123)
(DEB, 15.12.76, mál 41/76, Donckerwolcke, B 1976, bls. 1921)
(DEB, 23.01.75, mál 51/74, Van der Hulst, B 1975, bls. 79)
(DEB, 03.02.77, mál 53/76, Bouhelier, B1977, bls. 197)
(DEB, 18.05.77, mál 111/76, Van Den Hazel, B 1977, bls. 901)
(DEB, 29.11.78, mál 83/78, Pigs Marketing Board, B 1978, bls. 2347)
(DEB, 08.11.79, mál 15/79, Groenveld, B 1979, bls. 3409)
(DEB, 14.07.81, mál 155/80, Oebel, B 1981, bls. 1993)
(DEB, 15.12.82, mál 286/81, Oosthoek, B 1982, bls. 4575)
(DEB, 07.02.85, mál 173/83, Huiles usagées, B 1985, bls. 491)

Um 13. gr.


    Þessa grein má kalla fastagest í fríverslunarsamningum því að orðalag hennar er að heita má samhljóða 36. gr. Rómarsamningsins, 21. gr. fríverslunarsamnings Íslands við EB, 8. grein fríverslunarsamnings EFTA við Tyrkland og svipaðra samninga sem EFTA hefur gert við önnur lönd. Efnisinnihald 12. gr. stofnsamnings EFTA, Stokkhólmssáttmálans er og hið sama. Greinin gefur stjórnvöldum svigrúm til þess að beita hindrunum þegar mikið liggur við til þess að vernda m.a. almennt siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, heilsu manna, dýra eða gróðurs, þjóðarverðmæti eða hugverkaréttindi. Hefð er fyrir því að túlka þessi ákvæði þröngt. Sýna verður fram á að þær aðgerðir sem gripið er til séu ekki umfangsmeiri en nauðsyn krefur, að þær séu markvissar og að ekki sé önnur leið fær til þess að ná fram sömu áhrifum sem ekki veldur röskun á viðskiptum. Sérstaklega er tekið fram í 25. gr. hvenær grípa megi til magntakmarkana á útflutningi. Um svipað efni fjalla m.a. eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 19.12.61, mál 7/61, Viande porcine et produits dérivés, B 1961, bls. 635)
(DEB, 10.12.68, mál 7/68, Æuvres d'art, B 1968, bls. 617)
(DEB, 19.12.68, mál 13/68, Salgoil, B 1968, bls. 661)
(DEB, 20.02.75, mál 12/74, Sekt und Weinbrand, B 1975, bls. 181)
(DEB, 20.05.76, mál 104/75, De peijper, B 1976, bls. 613)
(DEB, 25.01.77, mál 46/76, Bauhuis, B 1977, bls. 5)
(DEB, 27.10.77, mál 30/77, Bouchereau, B 1977, bls. 1999)
(DEB, 12.10.78, mál 13/78, Eggers, B 1978, bls. 1935)
(DEB, 23.11.78, mál 7/78, Regina/Thopmson, B 1978, bls. 2247)
(DEB, 20.02.79, mál 120/78, Cassis de Dijon, B 1979, bls. 649)
(DEB,14.12.79, mál 34/79, Henn & Darby, B 1979, bls. 3795)
(DEB, 10.07.84, mál 72/83, Campus Oil Lts, B 1984, bls. 2727)
(DEB, 06.11.84, mál 177/83, Kohl, B 1984, bls. 3651)
(DEB, 25.09.85. mál 34/84, Leclerc, B 1985, bls. 2915)
(DEB, 25.09.85, mál 114 og 115/84, Leclerc S.A et Carrefour supermarché S.A., B 1985, bls. 2961)
(DEB, 11.03.86, mál 121/85, Conegate, B 1986, bls. 1007)

Um 14. gr.


    Hér er nánar útfærð almenn krafa EES-samningsins um að ekki sé mismunað eftir þjóðerni við óbeina skattlagningu eða gjaldtöku. Ákvæðið gefur stjórnvöldum fullt svigrúm til þess að haga skattheimtu með hvaða hætti sem er, svo fremi hún leggist með jöfnum þunga á innlenda og erlenda framleiðslu. Samsvarandi ákvæði er að finna í 19. grein fríverslunar­samnings Íslands við EB. Orðalag endurspeglar 95. gr. Rómarsamningsins. Greinina ber einnig að lesa með hliðsjón af 11. gr. samningsins, sem bannar allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif og magntakmarkanir. Þetta á við um skattlagningu sem hefur það í för með sér að erlend framleiðsluvara er látin sæta hærri álögum en sambærileg innlend vara. Hið sama gildir ef lagt er á gjald sem síðan nýtist aðeins eða er endurgreitt innlendum iðnaði, jafnvel þótt gjaldið sjálft leggist jafnt á innlenda sem erlenda framleiðslu. Hægt er að skattleggja vöru þótt ekki sé um neina samsvarandi framleiðslu að ræða innanlands ef gjaldið er hluti af almennu skattheimtukerfi sem rekið er án tillits til uppruna vöru.
Um svipað efni fjalla m.a. eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 22.03.77, mál Steinike, 78/76, B 1977, bls. 595)
(DEB, 07.05.87, bananaskattur, mál 193/85, B 1987, bls. 2085)

Um 15. gr.


    Efni greinarinnar er í beinu framhaldi af greininni á undan og tekur efnislega upp síðari hluta 19. greinar fríverslunarsamningsins við EB. Aftur er hér verið að tryggja að ekki sé mismunað með því að endurgreiða meiri skatt en þann sem lagður hefur verið á vöru og með því móti niðurgreiða útflutning til annars samningsríkis. Orðalagið endurspeglar 96. gr. Rómarsamningsins. Ekkert hefur reynt á þetta ákvæði innan EB eftir að virðisaukaskattur var almennt tekinn upp. Um svipað efni fjalla m.a. eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB. 01.12.65, Endurgreiðsla skatta til útfl., mál 45/64, Rec. 1965, bls. 1057)
(DEB. 16.06.66, mál 57/65, Lutticke, B 1966, bls. 293)
(DEB. 27.02.80, mál 168/78, Framkvæmdastj. gegn Frakklandi, B 1980, bls. 347)

Um 16. gr.


    Þessi grein endurspeglar orðalag 37. gr. Rómarsamningsins en þar er kveðið á um að tryggja verði að ríkiseinkasala geri ekki greinarmun á grundvelli ríkisfangs hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar. Ákvæðið gildir einnig í þeim tilfellum sem ríkið hefur framselt öðrum einkarétt sinn eða stýrir á einn eða annan hátt inn- og útflutningi milli aðildarríkja EES. Grein þessi á hins vegar hvorki við um ríkiseinkarétt til framleiðslu, sem getur verið óskertur, né til þjónustu.
    Taka verður tillit til þess hvernig ákvæðið hefur verið túlkað innan EB en þar hefur áherslan verið lögð á það að ávallt verði að vera hægt að stunda svokallaðan samhliða innflutning og veita einkaréttarhafanum þar með samkeppni. Í samningaviðræðum um EES hafa Norðurlöndin öll innan EFTA, sem öll hafa með hendi ríkiseinkasölu á áfengi, ekki talið að skuldbindingar samningsins gefi ástæðu til þess að breyta fyrirkomulagi áfengissölu, svo fremi einkasölurnar ábyrgist það að þær mismuni ekki áfengistegundum eftir uppruna þeirra. Bent hefur verið á að í raun sé um að ræða fyrirkomulag smásölu og því innanríkismál frem­ur en mál sem beint snerti alþjóðaviðskipti. Framkvæmdastjórn EB hefur í samningaviðræð­um ekki dregið þessa túlkun í efa.
    Til þess að tryggja stöðu sína enn frekar ef til þess kæmi að þetta atriði kæmi fyrir dóm­stóla hafa Norðurlöndin fjögur, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, gefið yfirlýsingu við samninginn þar sem áréttað er að áfengiseinkasala sé mikilvægur þáttur í stefnu þessara ríkja í heilbrigðis- og félagsmálum.
    Þess má geta að upp hefur komið dómsmál innan EB þar sem tóbakseinkasölu Ítalíu var gert að breyta starfsemi sinni vegna 37. gr. Rómarsamningsins. Þar var hins vegar um að ræða greinilega tilraun til þess að vernda innlenda tóbaksframleiðslu.
    Vegna þessarar greinar verður skylt að svipta Áburðarverksmiðju ríkisins einkaleyfi til þess að flytja inn áburð. Tveggja ára aðlögunartími er þó til ársins 1995, sbr. bókun 8 við samninginn.
    Nánar er rætt um ríkiseinkasölur að neðan.
Um svipað efni fjalla m.a. eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 17.02.76, mál 91/75, Göttingen, B 1976, bls. 217)
(DEB, 30.04.74, mál 155/73, Sacchi, B 1974, bls. 409)
(DEB, 03.02.76, mál 59/75, Manghera, B 1976, bls. 91)
(DEB, 21.03.72, mál 82/71, Sail, B 1972, bls. 119)
(DEB, 20.02.79, mál 120/78, Cassis de Dijon, B 1979, bls. 649)
(DEB, 13.03.78, mál 91/78, Hansen, B 1979, bls. 935)
(DEB, 13.03.79, mál 119/78, Peureux II, B 1979, bls. 975)

Um bókun 8

Ríkiseinkasölur


    Nokkrar EFTA-þjóðir, Austurríkismenn, Íslendingar og Svisslendingar, fóru fram á aðlögunartíma til þess að aðlaga einkasölur sínar breyttum aðstæðum. Ísland fékk aðlögunartíma fyrir áburð, Austurríki fyrir salt en Sviss og Liechtenstein fyrir salt og byssupúður. Fékkst það fram til ársbyrjunar 1995 eins og greint er frá hér að framan.
    Í bókuninni er tekið fram að 16. gr. samningsins eigi einnig við um vín og er það gert vegna þess að í raun fellur vín ekki undir almenn ákvæði samningsins þar sem í 8. gr. er tekið fram að ákvæði hans nái einungis til varnings í tollskrárflokkum 25–97 og þess varnings sem tilgreindur er í bókun 3, en vín fellur undir hvorugan flokkinn.


Um 2. kafla


Landbúnaðar- og sjávarafurðir

    Allar meginreglur fríverslunar hafa til þessa miðast við iðnvarning en sérstakar reglur gilt um landbúnaðar- og sjávarafurðir. EES-samningurinn er engin undantekning frá þessari reglu. Reynt verður þó að greiða fyrir viðskiptum einnig á þessu sviði eftir föngum og er nánar kveðið á um það í þessum kafla.

Um 17. gr.


    Grein þessi vísar til umfangsmikils viðauka um reglur þær sem gilda skulu um eftirlit með heilbrigði dýra og plantna. Við upphaf samningaviðræðna var talið víst að ógerlegt væri að samræma reglur á þessu viðkvæma og margslungna sviði en svo fór að lokum að EFTA-ríkin, öll nema Ísland, samþykktu að taka upp reglur EB um heilbrigði dýra, með nokkrum undantekningum þó. Ástæða þess að fast var haldið af Íslands hálfu í algera undanþágu var sérstaða íslenskra bústofna vegna langvarandi einangrunar og viðkvæmni fyrir farsóttum. Samningurinn breytir því engu um innflutningsbann það sem verið hefur, ekki aðeins á lifandi dýrum heldur einnig kjöti, eggjum og ýmsum búfjárafurðum. Íslensk löggjöf um fóður og plöntur, verður hins vegar samræmd EES reglum með fáeinum undantekningum.
    Mikilvægt var hins vegar að tryggja hagsmuni íslensks sjávarútvegs, en heilbrigðiseftirlit með sjávarfangi fellur undir dýralæknadeildir EB. Því var sérstaklega tekið fram að reglur um sjávarafurðir skyldu einnig gilda um Ísland, þrátt fyrir ofangreinda undanþágu. Með þessu er tryggt að heilbrigðiseftirliti verður ekki beitt á Evrópumarkaði harðar gegn íslenskum sjávarafurðum en samsvarandi afurðum frá EB-löndum, en þess er nokkuð farið að gæta nú.
    Rétt er að taka fram að landamæraeftirliti verður haldið áfram fyrir bæði dýr og plöntur.

Um I. viðauka
    Heilbrigði dýra og plantna

    Viðaukanum um heilbrigði dýra og plantna er skipt í þrjá meginkafla, þ.e. heilbrigði dýra, fóðurvörur og heilbrigði plantna.

1. Heilbrigði dýra
    Í þessum kafla er fjallað um heilbrigði lifandi dýra, hollustu mjólkur-, eggja- og sláturafurða, varnir gegn útbreiðslu dýrasjúkdóma og útrýmingu þeirra, fiskafurðir, fiskeldi, notkun vaxtarhvetjandi efna, notkun fúkkalyfja í dýrafóður, eftirlit með efna- og lyfjaleifum í sláturafurðum, reglur um viðurkenndar rannsóknastofur, hreinræktun búfjár og ýmsar stjórnarnefndir.
    Önnur EFTA-ríki munu fella allar reglur í þessum kafla inn í löggjöf sína, öll nema Ísland, sem halda mun sinni löggjöf óbreyttri. Þrjár tilskipanir sem mikilvægar eru vegna markaðssetningar og útflutnings sjávarafurða eru teknar með hvað Ísland varðar og íslenskri löggjöf breytt til samræmis. Hér er um að ræða:
a. tilskipun ráðsins um fiskafurðir 91/493/EBE:
b. tilskipun ráðsins um lindýr 91/492/EBE;
c. tilskipun ráðsins um fiskeldi 91/67/EBE.
    Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, sem mun uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í ákvæðum fyrrgreindra tilskipana um eftirlit og sölu fiskafurða, þar með talin eldisfisks.
    Undanþegin eru ákvæði í tilskipun 91/67/EB, þar sem fjallað er um lifandi fiska og krabbadýr, hrogn og kynfrumur fiska og krabbadýra til eldis eða til endurnýjunar stofna en þar mun núgildandi íslensk löggjöf gilda áfram óbreytt.

2. Fóðurvörur handa dýrum
    Gerðir EB sem taldar eru upp í þessum kafla I. viðauka skulu samkvæmt samningnum öðlast gildi hér á landi 1. janúar 1993. Þó skal Ísland geta stuðst við eigin löggjöf hvað snertir blöndun sýklalyfja í fóður, sem skal endurskoða á árinu 1995, og um þráavarnarefni, bragðbætandi og lystaukandi efni, svo og litarefni, þar með talda dreifuliti, sem gildir fram til 31. desember 1995.
    Lögum nr. 53/1978 um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær verður að breyta til að þau stangist ekki á við gerðir EB. Þær breytingar felast í 2. gr. um eftirlit og 19. gr. um verslun með áburð. Einnig þarf að taka lög nr. 43/1970 til endurskoðunar vegna einkasölu Áburðarverksmiðju ríkisins á áburði.

3. Plöntur
    Í þessum kafla er fjallað um fræ og sáðvörur og gilda þar sömu athugasemdir og tekið var fram um 2. kafla hér að framan, að breyta þarf lögum nr. 53/1978 til samræmingar við gerðir EB.
    EES-samningnum fylgir sameiginleg yfirlýsing um að meðan á endurskoðun gerða er snerta plöntur stendur yfir og þar til þeirri endurskoðun er lokið skal löggjöf einstakra aðildarríkja gilda óbreytt.

Um 18. gr.


    Þar sem EES-samningurinn gildir ekki almennt um landbúnaðarafurðir þótti rétt í þessari grein að árétta að ekki verði settar frekari viðskiptahindranir en þær sem heimilar eru sam­kvæmt þeim sérstöku reglum sem kveðið er á um í I. viðauka um heilbrigði dýra og plantna, II. viðauka um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, bókun 12 um samninga við þriðju lönd um samræmismat eða bókun 47 um afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín.

Um 19. gr.


    Frá upphafi samningaviðræðna þrýstu mörg aðildarríki EB á um að gera hlut landbúnaðar sem stærstan í þessum samningum og litu hýru auga til markaða EFTA-ríkja. Árangur þessarar viðleitni er lítill, ef frá er talið að EFTA-ríkin greiddu í sérstökum erindaskiptum götu nokkurra suðrænna landbúnaðarafurða inn á markaði sína. Til þess að miðla málum var sæst á þetta orðalag sem skuldbindur samningsaðila aðeins til þess að koma saman og ræða leiðir til þess að auðvelda viðskipti með landbúnaðarafurðir á tveggja ára fresti. Í fríverslunarsamningnum frá 1972 var í 15. gr. einnig kveðið á um það að samningsaðilar væru reiðubúnir til þess að þróa viðskipti með landbúnaðarafurðir, forðast mismunun við beitingu heilbrigðisreglugerða og leita lausna á þeim vandamálum sem upp kynnu að koma.
    Ákvæði 4. mgr. eru byggð á þeim grundvallarforsendum sem ákvarðast af sjálfstæðri landbúnaðarstefnu hvers aðila um sig, niðurstöðum Úrúgvæ-viðræðnanna og EES-samn­ingnum. Hins vegar hafa tíðkast milli samningsríkjanna 19, samningar af ýmsu tagi á land­búnaðarsviðinu, sem veitt hafa vissum ríkjum forgang. Sérstaklega var Austurríkismönnum annt um samninga þá sem þeir hafa gert við EB um forgangsaðgang að EB-mörkuðum fyrir tilteknar landbúnaðarafurðir. Einnig var þeim í mun að tryggja að gagnkvæmt jafnvægi yrði að ríkja á landbúnaðarsviðinu en óskyld vandamál væru ekki leyst með því að vísa á þetta svið.

Um bókun 42


Tvíhliða fyrirkomulag varðandi tilteknar landbúnaðarvörur

    Sjá athugasemdir við samninginn um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði.

Um 20. gr.

    Hér er aðeins vísað til bókunar 9 en nánari skýringar við hana fara hér á eftir.

Um bókun 9


Viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir

    Í könnunarviðræðum EFTA og Evrópubandalagsins 1989 um grundvöll fyrir stofnun Evrópsks efnahagssvæðis urðu aðilar sammála um það, að hvorki yrði stefnt að sameigin­legri landbúnaðarstefnu né sameiginlegri sjávarútvegsstefnu. Hver samningsaðili heldur þannig sinni eigin stefnu á þessum sviðum.
    Ríki EFTA lögðu síðan höfuðáherslu á í samningaviðræðunum að tekin yrði upp fríverslun með sjávarafurðir innan EES á sama hátt og með sömu samkeppnisskilyrðum og giltu um iðnaðarvörur.
    Haustið 1990 hafnaði Evrópubandalagið kröfu EFTA um fríverslun með sjávarafurðir, m.a. á þeirri forsendu að ekki stæði til að taka upp sameiginlega sjávarútvegsstefnu innan EES og hver aðili mundi því halda sinni stefnu. Kröfur EFTA taldi bandalagið jafngilda því, að höggið væri að rótum sjávarútvegsstefnu EB sem, eins og landbúnaðarstefnan, byggði á því að þessar atvinnugreinar væru sérstakar og yrðu að njóta verndar á ýmsan hátt til að tryggja framboð matvæla, jafnvægi í byggð og lífskjör fyrir þá sem þessar atvinnu­greinar stunda, sambærileg við þau sem fengjust við aðra starfsemi.
    Þegar ljóst varð að bandalaginu varð ekki þokað með hreina fríverslun fyrir sjávarafurðir breyttu EFTA-ríkin kröfu sinni á þann veg að krefjast a.m.k. niðurfellingar allra tolla af sjávarafurðum innan EES. Evrópubandalagið svaraði þeirri kröfu á þann hátt, að tollaniður­felling mundi raska því viðkvæma jafnvægi sem væri til staðar á sviði sjávarútvegs innan bandalagsins. Ef jafnvægi ætti að haldast eftir að tollfrelsi væri komið á yrðu EFTA-ríkin að veita sjómönnum bandalagsins fiskveiðiheimildir í lögsögu EFTA-ríkja svo að aukinn afli gæti bætt upp minni tollvernd.
    Á sameiginlegum ráðherrafundi EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins í Lúxemborg í júni 1991 komu Norðmenn nokkuð til móts við þessi sjónarmið EB með því að bjóðast til að bæta aðgang sjómanna frá ríkjum EB að norskum fiskimiðum. Svo virtist í Lúxemborg sem tekist hefði að leysa málin og að EFTA ríkin fengju tollfrjálsan aðgang að mörkuðum EB. Við nánari umræður innan EB urðu þær skoðanir hins vegar ofan á að hvorki væri tilboð Norð­manna nógu hátt til að réttlæta fullt tollfrelsi né væri undir neinum kringumstæðum unnt að veita fullt tollfrelsi fyrir allar fisktegundir inn á markað EB. Ýmis ríki á suðurvæng EB voru tilbúin til að veita fullt tollfrelsi ef meiri veiðiheimildir væru í boði en önnur ríki EB norðar í Evrópu neituðu fullu tollfrelsi, sama hvaða veiðiheimildir kynnu að vera í boði.
    Allar tilraunir til að samræma þessi ólíku sjónarmið reyndust árangurslausar og var þessi deila helsta ástæða þess að EES-viðræður sigldu tímabundið í strand um sumarið.
    Þegar samningaviðræður um sjávarútvegsmál hófust að nýju fyrir alvöru í september og október 1991 lögðu Norðmenn höfuðáherslu á tvennt, annars vegar að þar yrði þróunargrein sem gæfi þeim möguleika á að halda því fram að samningurinn stefndi að því – til lengri tíma litið – að allir tollar af sjávarafurðum yrðu felldir niður og hins vegar að fá tryggingu fyrir því að norskar fiskafurðir, ekki síst lax, sættu ekki undirboðsaðgerðum og jöfnunartollum. Önnur ríki EFTA studdu Norðmenn við að reyna að ná fram þessum kröfum. Evrópubanda­lagið gat hins vegar ekki fallist á þær nema ýmsir aðrir þættir kæmu þá inn í myndina líka. Þróunargrein gæti ekki átt við bættan markaðsaðgang nema bandalaginu væri jafnframt heimilt að ræða önnur atriði, m.a. aðgang að fiskimiðum og ekki væri unnt að lofa að beita ekki undirboðsaðgerðum eða jöfnunartollum nema ríkisstjórnir einstakra EFTA-ríkja skekktu ekki samkeppnisstöðu með ríkisstyrkjum umfram það sem bandalagið veitir sjálft samkvæmt sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sinni, með markaðsskipulagi sem veitti framleiðendum í EFTA ríkjunum meiri lögbundinn stuðning við samkeppni en framleiðendur innan EB nytu, eða með því að neita hafnaraðstöðu og umflutningsrétti („transit“) sem skip EFTA-ríkja hefðu óhindrað í ríkjum EB. Fleiri atriði töldu samningamenn EB að kynnu að geta komið til athugunar áður en ákvæði 26. gr. EES-samningsins og bókunar 13 gætu gilt um fisk, þ.e. að undirboðsaðgerðum eða jöfnunartollum yrði ekki beitt.
    
    Hér fara á eftir skýringar og athugasemdir við einstakar greinar bókunarinnar.
    

Um 1. gr. bókunar 9

    Hér er kveðið á um afnám hafta á innflutningi sjávarafurða til EFTA-landa og gildir það jafnt um tolla, gjöld, magntakmarkanir og aðrar aðgerðir sem hafa svipuð áhrif. Evrópu­bandalagið sóttist eftir því að fá inn í þessa grein sérstök ákvæði um afnám útflutningsgjalda, útflutningstakmarkana og annarra aðgerða sem hefðu svipuð áhrif og vísaði þar til þess að almennt ákvæði þess eðlis er í 12. gr. samningsins. Þessu var vísað á bug af Íslands hálfu þar sem ekki þótti ráðlegt að skerða frekar svigrúm til útflutningsstjórn­ar frá því sem nú er, á meðan sömu samkeppnisskilyrði eru ekki að fullu tryggð innan EES í sjávarútvegi. Enn fremur var bent á að í 20. gr. samningsins er gert ráð fyrir sérstöku fyrir­komulagi varðandi sjávarafurðir í bókun 9. EB lét þessa kröfu sína niður falla og samþykkti textann eins og hann var upphaflega lagður fram af Íslands hálfu. Þess ber þó að geta að Evrópubandalagið hefur oftar en einu sinni látið í ljós, að beiting útflutningsleyfa til þess að tryggja hámarksverð sé ekki í samræmi við fríverslunarsamningana né GATT-skuldbinding­ar, án þess þó að sækja það mál af neinni hörku.
    

Um 2. gr. bókunar 9

    Hér er kveðið á um tollalækkanir á innflutningi sjávarafurða til Evrópubandalagsins. Athygli er vakin á því að þegar um er að ræða 70% niðurfellingu tolla er miðað við það toll­stig sem gildir samkvæmt gildandi tvíhliða samningum en ekki tolla samkvæmt almennri toll­skrá EB. Ef tollar lækka í GATT-viðræðunum verður lækkaður tollur tekinn til viðmiðunar. Bætt er inn vísan til 13. gr. samningsins líkt og í 1. gr.

Um 3. gr. bókunar 9

    Greinin kveður á um uppruna varnings sem bókunin nær til og vísar til bókunar 4 við samninginn um upprunareglur.

Um 4. gr. bókunar 9

    Hér er kveðið á um að allir ríkisstyrkir til sjávarútvegs sem skekki samkeppni skuli afnumdir og löggjöf um markaðsskipulag í sjávarútvegi breytt til þess að skekkja ekki sam­keppnisstöðu. Einnig er samningsaðilum uppálagt að tryggja þær samkeppnisaðstæður sem geri hinum samningsaðilunum kleift að forðast undirboðstolla. Þessi grein styrkir stöðu Íslands við gagnrýni á þá styrki sem einstök aðildarríki EB veita til sjávarútvegs en þau fjárframlög sem koma beint frá framkvæmdastjórn EB teljast ekki skekkja samkeppni sam­kvæmt eigin skilgreiningum EB.

Um 5. gr. bókunar 9

    Hér er kveðið á um aðgang að höfnum og rétt til landana. Að kröfu Íslendinga er tekið fram að þetta gildi ekki um landanir fisks ríki ágreiningur um nýtingu viðkomandi fiskistofns. Orðalagið er byggt á orðalagi samsvarandi texta innan EFTA.
    Aðalatriðið hér er að tryggt er að hægt er að stöðva landanir EB-skipa sem stunda veiðar með leyfi Grænlendinga ef ágreiningur kemur upp um nýtingu t.d. karfa eða rækju á miðum milli Íslands og Grænlands, en ekki hafa náðst samsvarandi samningar um þessa stofna og varðandi loðnu.
    

Um 6. gr. bókunar 9

    Líkt og fyrr er tekið fram að sé lagalegri framkvæmd ákvæða þessarar bókunar áfátt að einhverju leyti skuli vísa því máli til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Náist ekki sam­komulag geta aðrir samningsaðilar gripið til gagnaðgerða.

Um 7. gr. bókunar 9

    Sérstaklega er tekið fram að þar sem fyrri samningar gefi meiri réttindi en þessi samningur skuli fyrri samningar gilda. Þetta tryggir meðal annars áframhaldandi tollfrelsi á rækjum, bæði frystum og niðurlögðum, lýsi og fiskimjöli en allar þessar afurðir njóta tollfrelsis sam­kvæmt bókun 6 við fríverslunarsamning Íslands við EBE en falla almennt ekki undir Frí­verslunarsamninga EFTA-ríkjanna við EBE. Athygli er enn fremur vakin á því að á listanum sem kemur fram í 3. viðbæti við bókunina um fyrri samninga sem áfram skuli gilda er einungis vitnað til 1. gr. bókunar 6, sem kveður á um tollalækkanir en ekki til 2. gr. sem vísar til efnahagsvandkvæða EB vegna útfærslu fiskveiðlögsögu Íslands. EB hefur gjarnan vitnað til síðari greinarinnar þegar það hefur gengið eftir kröfum um fiskveiðiheimildir við Ísland.

Um 1. viðbæti við bókun 9

    Hér er kveðið á um undanþágur og aðlögunartíma EFTA-þjóða frá tollalækkunum. Finnar hafa aðlögunartíma svipað og í EFTA-samningum fyrir lax og síld, Sviss fyrir vatnafisk. Sviss hefur einnig leyfi til þess að leggja breytilegt gjald á fiskimjöl og lýsi frá EB og Svíþjóð hefur leyfi til magntakmarkana á síld og þorsk fram til ársloka 1993 ef það reynist nauðsynlegt til að forðast markaðshrun.

     Um 2. viðbæti við bókun 9

    Þessi viðbætir hefur að geyma þrjár töflur og sérstakt fylgiskjal við þá þriðju. Hin fyrsta er tæmandi upptalning sjávarafurða samkvæmt fríverslun með sjávarafurðir innan EFTA. Tollar og magntakmarkanir falla niður af öllum þessum vörum við innflutning inn til EFTA-landa frá EB.
    Önnur taflan telur upp þær sjávarafurðir sem tollar falla niður af við innflutning inn til EB frá EFTA-löndum. Þar á meðal eru margar þær afurðir sem þyngstan toll hafa borið við innflutning til EB og nægir að nefna saltaðan þorsk, saltfiskflök og fersk þorsk-, ýsu- og ufsaflök.
    Þriðja taflan er tæmandi skrá yfir allar sjávarafurðir í 3. kafla tollskrár og nær allar í 16. kafla (vantar 1603-fiskisafa). Af öllum þessum afurðum fæst 70% tollafsláttur, sem kemst að fullu til framkvæmda 1.1.1997. Samningurinn nær ekki til hvalkjöts (tollfl. 0208), lýsis (tollfl. 1504 og 1516) né fiskimjöls (tollfl. 2301), en þessar afurðir falla undir bókun 6 í fríverslunarsamningnum við EBE, þannig að ekki kemur að sök.
    Loks eru í sérstöku fylgiskjali við þriðju töflu taldar upp þær afurðir sem falla utan samn­ings og er um að ræða síld, lax, makríl, hörpudisk, rækju og leturhumar og afurðir unnar úr þeim. Það hefur þó fengist staðfest að söltuð síldarflök sem falla undir tollfl. 0305 3090 eru tollfrjáls.
    Nákvæm skilgreining á því hvað falli undir einstök tollskrárnúmer er víðtækara mál en svo að um það sé yfirleitt samið í viðskiptasamningum milli einstakra ríkja eða ríkjasamtaka. Tollasamvinnuráðið (Customs Cooperation Council) er sá alþjóðavettvangur þar sem sú vinna er framkvæmd og hafa verið gefnar út víðtækar skilgreiningar og leiðbeiningar um tollaflokkanir á vegum ráðsins.
    Nokkrar vísbendingar um flokkun einstakra tegunda saltsíldarflaka með aukefnum er að finna í útgefnum leiðbeiningum Tollasamvinnuráðsins „Harmonized commodity description and coding system, explanatory notes“. Í skýringum við kafla 03.05. segir m.a.: „The salt used in the preparation of fish, salted or in brine, may contain added sodium nitrite or sodium nitrate. Small quantity of sugar may be used in the preparation of salted fish without affect­ing the classification of the fish in this heading“. Síðar í skýringum Tollasamvinnuráðsins stendur: „The heading does not cover: (a) Cooked fish (subject to the above provisions regarding smoked fish) and fish prepared in any other way, for example preserved in oil or vinegar or in a marinade, and caviar substitutes (heading 16.04).“
    Síldarútvegsnefnd (SÚN), sem flokkar söltuð síldarflök eftir mismunandi framleiðsluað­ferðum, vill að eftirtalin flök, við innflutning til EB-ríkja, flokkist undir tollflokk CN 0305 30 90 og njóti þannig tollfrelsis:
1.     Saltflök         
     - léttsöltuð     saltinnihald     7–10%
     - millisöltuð    "     10–13%
     - harðsöltuð     "     13–16%
2.    Sykurflök     "     10–13%     sykur     1-3,5%
3.    Kryddflök     "     10–13%     "     1-3,5%
4.    Edikflök    "     4-8%     "     0,5-2,5%

    Í byrjun desember 1991 leitaði sendiráðið í Brussel eftir áliti skrifstofu Tollasam­vinnuráðsins á tollskrárflokkun saltsíldarflaka samkvæmt framangreindri lýsingu Síldarút­vegsnefndar. Samkvæmt því telur skrifstofa ráðsins rétt að flokka saltflökin, sykurflökin og kryddflökin undir 0305 (og þar með yrðu þau tollfrjáls í EES). Á hinn bóginn telur skrifstofan rétt, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, að flokka edikflök undir tollskrárflokk 16.04. Sá tollflokkur er utan EES-samnings að því er síld varðar, en hins vegar njóta íslensk edikflök þá tollívilnunar við innflutning til EB á grundvelli bókunar 6, þ.e. 10% í stað 20%, en sú bókun gildir áfram jafnhliða EES-samningnum.
    Samkvæmt framansögðu virðist nokkuð ljóst að fyrstu þrír flokkarnir á lista Síldarútvegsnefndar eiga að falla undir 0305 og njóti tollfrelsis. Sama gildir ekki um fjórða flokkinn, ediksöltuð flök, en þar gæti oltið nokkuð á skilgreiningu ediksins sem notað er, þ.e. hvort um er að ræða landbúnaðarvöruna edik = vinegar eða kemiskt framleidda sýru. Síðari möguleikinn yki líkurnar á flokkun í 0305. Þetta atriði þarf nánari athugunar við en formleg niðurstaða fæst væntanlega ekki fyrr en endurskoðun á aukefnaskrá EB hefur verið lokið.
     Saltsíldarútflutningur til EB hefur ekki verið mikill á undanförnum árum. Þannig hefur saltsíldarútflutningur til EFTA-ríkja verið tífalt meiri en til EB og útflutningur til Austur-Evrópu fjórtánfaldur. Nokkrar vonir eru þó bundnar við þróun síldarmarkaðar í Þýskalandi. Þegar og ef Svíþjóð og önnur Evrópuríki ganga í EB verða af sjálfu sér teknar upp að nýju samningaviðræður þar sem tillit verður tekið til þess að tollar eru engir á síld innan EFTA.
    Makrílveiðar hafa litlar sem engar verið hér við land og er sú undanþága því léttvæg. Sama máli gegnir um rækju því að samkvæmt bókun 6 við samninginn við EBE er bæði fryst og niðurlögð rækja frá Íslandi tollfrjáls nú þegar. Enn fremur er staðfest að íslenskur hörpudiskur (Chlamys Islandica) fellur undir tollflokk 03072990 en ekki 03072100 (pecten maximus) og nýtur því 70% tollalækkunar eins og aðrar sjávarafurðir á töflu III við bókun 9. Íslenskur leturhumar nýtur hins vegar engra tollalækkana samkvæmt þessum samningi, sem vissulega er bagalegt þar sem t.d. Frakklandsmarkaður verður æ mikilvægari. Andstöðu EB við að lækka tolla á þessari afurð má rekja til byggða- og verndarstefnu franskra stjórnvalda sem er umhugað um að vernda svæði nokkur í Bretagne sem óttast samkeppni frá EFTA-löndum. Þegar fram í sækir er vel mögulegt að ná fram tollkvóta og aðrar ívilnanir. Loks er það laxinn sem engra tollfríðinda nýtur. Þetta kemur mun harðar niður á Norðmönnum en Íslendingum því að á flestum þeim laxafurðum sem fluttar hafa verið út frá Íslandi hefur aðeins verið 2% tollur.

     Um 3. viðbæti við bókun 9

    Hér eru taldir upp samningar milli EFTA-ríkjanna og EB sem snerta sjávarútveg. Taldir eru upp fríverslunarsamningar Sviss, Svíþjóðar og Noregs og þau bréfaskipti um landbúnað­ar- og sjávarútvegsmál, sem þessi þrjú ríki hafa gengið frá síðan. Það er með ráðum gert að þegar kemur að fríverslunarsamningi Íslands og EB er aðeins vísað til 1. gr. bókunar 6, en hún kveður á um tollalækkanir. Ákvæði 2. gr. bókunar 6 fjalla um óleystan efnahagsvanda EB vegna útfærslu íslenskrar fiskveiðilögsögu og tengir lausn hans gildistöku bókunarinnar. EB hefur túlkað þessa grein svo að það eigi kröfu á hendur Íslandi um fiskveiðiheimildir hér við land en þeim kröfum hefur sem kunnugt er ævinlega verið vísað á bug. Það að ekki er lengur vísað til þessarar greinar er óbein viðurkenning EB á því að hún eigi ekki lengur við og sé úrelt.

     Um sameiginlega yfirlýsingu um túlkun
    á 1. og 2. mgr. 4. gr. bókunar 9

    Hér er sérstaklega áréttað að EFTA-ríkin taka ekki upp sameiginlega fiskveiðistefnu EB. Innan EB eru þó í gildi samkeppnisreglur á sjávarútvegssviðinu sem takmarka t.d. svigrúm til ríkisstyrkja (þótt beinir styrkir frá stofnunum EB séu þar undanþegnir) og skipulagðra ríkisaðgerða til að skipuleggja markaði. Tekið verður tillit til þessara reglna þegar metið er hvað skekkir samkeppnisstöðu og hvað ekki. EB-ríkin, einkum Danmörk, hafa ásakað Noreg um að misnota ríkisstyrki til sjávarútvegs og vilja halda möguleikum opnum til gagnaðgerða. Norðmönnum er hins vegar mjög í mun að tryggja sig gegn slíkum aðgerðum. Eina leiðin sem Norðmönnum er fær er að laga sig sem mest að reglum EB á þessu sviði. Geti þeir sýnt fram á að þessar reglur séu virtar er ekki grundvöllur fyrir gagnaðgerðir af hálfu EB.

     Um yfirlýsingu Evrópubandalagsins og ríkisstjórna Austurríkis,
Finnlands,     Liechtensteins, Svíþjóðar og Sviss um hvalaafurðir

    Tekið er fram að fimm EFTA-ríki og EB framfylgi banni við innflutningi hvalafurða og muni halda því áfram. Þetta var áður neðanmálsgrein í 2. viðbæti bókunar 9 en krafa EB var að textinn yrði settur upp sem sameiginleg yfirlýsing allra samningsaðila. Ekki var á það fallist af Íslands hálfu að slík yfirlýsing gæti verið sameiginleg þar sem það hefði mátt túlka sem samþykki við slíku banni.

Um bókun 46


Þróun samvinnu í sjávarútvegi

    Í samantekt um samningsniðurstöður var tekið fram hvernig texti þessi ætti að hljóma og er það að ósk EB að hann er nú settur upp sem sérstök bókun. Vildi EB upphaflega hafa yfirskriftina „Bókun um fiskveiðar“ en því var hafnað af hálfu EFTA þar sem það gæti gefið villandi hugmyndir um inntak hennar. Hér er lýst yfir vilja til þess að efla samstarf í sjávarútvegi innan ramma sjávarútvegstefnu samningsaðila.

     Um yfirlýsingu Evrópubandalagsins
    varðandi umflutninga í sjávarútvegi

    Hér vísar EB til 6. gr. í bókun 9 og áskilur sér rétt til gagnaðgerða hafi ekki náðst samkomulag um gegnumflutning fisks áður en samningurinn gengur í gildi.

Um 3. kafla


    Samvinna á sviði tollamála og auðveldun viðskipta

Um 21. gr.


    Eins og fram hefur komið verður landamæraeftirlit við lýði á EES-svæðinu en leitast verður við að tryggja að það hindri viðskipti sem minnst. Í því skyni hefur verið samið um aðferðir til þess að einfalda eftirlit og formsatriði á landamærum. Nánar er gerð grein fyrir þessu í skýringum við bókun 10.
    Í 2. mgr. er vísað til ákvæða í bókun 11 um samstarf tollvarða og rétta framkvæmd tollalöggjafar. Slíkt samstarf er nauðsynlegt ef hægt á að vera að halda uppi virku eftirliti, bæði með gjaldtöku og innflutningstakmörkunum. Einnig er gert ráð fyrir að saman verði unnið að því að einfalda viðskiptahætti, þar með talið ýmis skjöl og yfirlýsingar sem fylgja verða varningi. Nánar er gerð grein fyrir þessu í skýringum við bókun 11. EFTA-ríkin og EB hafa nú þegar gengið frá tveimur samningum til þess að auðvelda viðskipti, nefndir „SAD“ og „Transit“ frá 1987.
    Einnig er vísað til þess almenna samstarfs sem verður milli EES-ríkja utan hins fjórþætta frelsis og rakið er í VI. hluta samningsins, en innan EB hafa verið starfrækt sam­starfsverkefni, t.d. um tölvuvæðingu tollgagna (TEDIS).
    Sérstaklega er tekið fram að grein þessi nái til allra vara, þ.m.t. sjávarafurða og land­búnaðarafurða.

Um bókun 10


Einföldun skoðunar og formsatriða vegna vöruflutninga

    Til að auðvelda viðskipti samningslandanna munu þau einfalda landamæraeftirlit og formsatriði við flutning vara um landamæri. Ákvæði um þetta eru í 21. gr. samningsins og bókun 10 þar sem settar eru nánari reglur um framkvæmd og samskipti.
    Ákvæði bókunarinnar munu auðvelda flutning varnings og farartækja um landamæri og með því er stefnt að því að auðvelda viðskipti innan svæðisins. Bókuninni er ætlað að tryggja það, þó án þess að nauðsynlegt eftirlit með innfluttum varningi verði fyrir borð borið eða að ólöglegur innflutningur geti flætt óhindrað á milli landa.
    Ákvæði bókunarinnar taka aðallega til afgreiðslu vara og farartækja á raunverulegum landamærum milli landa og munu því ekki hafa mikil áhrif á tollafgreiðslur hér á landi, t.d. varðandi opnunartíma landamærastöðva og hraðlínur á landamærum.
    Tollyfirvöld skulu viðurkenna sérstakar skoðanir, t.d. að því er varðar plöntuheilbrigði, sem gerðar hafa verið í öðru landi, nema sérstakar ástæður liggi fyrir. Einnig er gert ráð fyrir að skoðanir tollyfirvalda á innfluttum vörum verði gerðar með úrtaki til að afgreiðsla geti gengið hraðar fyrir sig og komið verði í veg fyrir hindranir í viðskiptum á milli landa.
    Í bókuninni er auk þess að finna ákvæði um samskipti og samvinnu tollyfirvalda.
    

Um bókun 11
Gagnkvæm aðstoð í tollamálum

    Á liðnum árum hefur Ísland gert samninga við önnur lönd um gagnkvæma aðstoð í tolla­málum auk þess að gerast aðili að ályktun Tollasamvinnuráðsins frá árinu 1953 um gagn­kvæma stjórnsýsluaðstoð. Þó að sú ályktun taki til margra landa og hafi oft gagnast toll­yfirvöldum hér á landi þá hefur hún takmarkaðra gildissvið en sérstakir tvíhliða samningar sem síðar hafa verið gerðir. Nú eru í gildi þrír samningar um gagnkvæma aðstoð í tolla­málum á milli Íslands og Þýskalands, milli Íslands og Póllands og Norðurlandasamningur.
    Áður nefndir samningar hafa reynst tollyfirvöldum hér á landi mjög gagnlegir þegar þurft hefur að afla upplýsinga eða sönnunargagna vegna innflutnings frá þessu löndum hingað til lands. Hins vegar hefur oft þurft að leita fanga í þessu efni hjá fleiri Evrópulöndum og þrátt fyrir að samningar um aðstoð hafi ekki verið gerðir hefur íslenskum tollyfirvöldum verið veitt margvísleg aðstoð og upplýsingar. Styrkari stoðum er skotið undir samstarf í tolla­málum við lönd EFTA og Evrópubandalagsins með þessari bókun. Efni hennar er að flestu leyti sambærilegt við þá samninga sem Ísland hefur áður gert. Þó að telja verði að tollasam­starf Íslands við aðrar þjóðir hafi verið til verulegs ávinnings fyrir tollyfirvöld hér á landi þá höfum við ekki eingöngu verið þiggjendur heldur getað veitt samstarfsaðilum okkar upp­lýsingar oft og tíðum. Ljóst er að tollasamstarf milli þjóða mun verða enn mikilvægara í framtíðinni en verið hefur þar sem tolleftirlit á landamærum í Evrópu mun minnka innan EES og jafnvel hverfa innan EB í framtíðinni.

Um 22. gr.


    Þar sem ekki er um tollabandalag að ræða milli EFTA-ríkja og EB verða tollar gagnvart ríkjum utan svæðisins ekki samræmdir. Þar sem viðskipti eru hins vegar eins mikil og raun ber vitni milli samningsaðilanna þykir rétt að samráð sé haft áður en meiri háttar breytingar eru gerðar á innheimtu tolla gagnvart ríkjum utan svæðisins. Því er þetta ákvæði sem skyldar til þess að tilkynna um tollalækkanir 30 dögum fyrir framkvæmd. Ákvæði 12. gr. frí­verslunarsamningsins við EB frá 1972 eru svipaðs eðlis þó þau séu ekki eins afdráttarlaus.

Um 4. kafla


    Aðrar reglur um frjálsa vöruflutninga

Um 23. gr.


    Hér er vísað til ákvæða og fyrirkomulags í bókunum 12 og 47 og II. og III. viðauka og tekið fram að þau skuli ná til alls varnings, þ.e. ekki aðeins þess sem vísað er til í 8. gr. samningsins heldur einnig þess sem fellur undir tollflokka 1-24.
    EES-samningurinn hefur ekki í för með sér samræmingu á viðskiptastefnu gagnvart ríkjum utan svæðisins en æskilegt er þó að samráð sé haft um ýmsa hluti, þ.m.t. hvað varðar samninga við lönd utan svæðisins um samræmismat. Í bókun 12 er gert ráð fyrir því að þegar EB semur við þriðju lönd um gagnkvæma viðurkenningu merkinga og samræmismats verði samhliða gengið frá svipuðum samningum milli þessara ríkja og EFTA-ríkjanna. Náið sam­ráð verður haft við gerð slíkra samninga milli EB og EFTA-ríkja. Komi upp ágreiningur verður reynt að leysa hann í sameiginlegu nefndinni.
    Að slepptum tollum og magntakmörkunum hafa svonefndar tæknilegar viðskiptahindranir helst staðið í vegi fyrir viðskiptum. Í mörgum tilfellum hefur tæknilegum reglugerðum um framleiðslu vöru og ákvæðum um staðla, prófanir og vottanir verið beitt til þess að hindra innflutning og beint eða óbeint vernda innlenda framleiðslu. EB og EFTA-ríkin hafa unnið að því um alllangt skeið að ryðja úr vegi hindrunum sem þessum. EFTA-ríkin gengu árið 1988 frá samningi sín á milli um gagnkvæma viðurkenningu prófana og vottana og 1989 var gengið frá samningi milli EB og EFTA-ríkja um gagnkvæma upplýsingagjöf um nýjar tæknilegar reglugerðir. Samningaviðræður hafa staðið yfir lengi milli sérfræðinga um sam­ræmingu á einstökum sviðum en þeim hefur miðað hægt áfram. Einn umfangsmesti hluti EES-samningsins eða um helmingur gerða þeirra sem vísað er til fjallar einmitt um þetta og eru þær taldar upp í II. viðauka um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun. Viðaukinn er í 27 þáttum, frá vélknúnum ökutækjum og landbúnaðardráttarvélum til lyfja og áfengra drykkja. Nánar er um þetta fjallað í skýringum við II. viðauka.
    Í greininni er einnig vísað til bókunar 47 um afnám hindrana í viðskiptum með vín, einkum hvað varðar vöruskilgreiningu og markaðssetningu, en ákvæði hennar snerta ekki gjaldtöku eða tolla.
    Loks er vísað til III. viðauka um skaðsemisábyrgð en íslensk löggjöf hefur nú þegar verið færð til samræmis við EB-reglur á þessu sviði.

Um bókun 12


Samningar við þriðju lönd um samræmismat

    Sjá athugasemdir við 23. gr.

Um II. viðauka


     Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun

Inngangur
    Efni það sem hér um ræðir er oftast nefnt samheitinu tæknilegar viðskiptahindranir og er flokkað í 27 þætti í II. viðauka. Áður en vikið verður að einstökum þáttum skal farið um efnið nokkrum almennum orðum.
    Löggjöf, reglugerðir og staðlar eru mismunandi eftir löndum. Þetta hefur í för með sér að gerðar eru mismunandi kröfur til varnings sem á markaði er, hvaða viðurkenningar hann nýtur og hvaða eftirlit með honum er haft uppi. Allt þetta getur dregið úr eðlilegum og æskilegum viðskiptum milli landa. Til ýmissa ráða hefur verið gripið til að eyða eða koma í veg fyrir slíkar tæknilegar viðskiptahindranir. Hin helstu eru:
–     Víðtæk samvinna milli stjórnvalda einstakra landa til að stuðla að samræmingu reglna, sem gilda í þessum efnum.
–    Setning sameiginlegra reglna til prófunar, gagnkvæmrar viðurkenningar og eftirlits með varningnum.
–    Sérstakir samskiptahættir um upplýsingagjöf landa milli um nýjar tæknireglugerðir og staðla.
    Unnið hefur verið að afnámi tæknilegra viðskiptahindrana bæði í GATT, EB/EFTA og meðal Norðurlandaþjóðanna. Samræmd löggjöf hefur verið ofarlega á blaði innan EB og skipar verulegan sess við framkvæmd hins svonefnda innri markaðar. Síðan 1984 hafa EFTA-löndin og EB átt náið samstarf um afnám tæknilegra viðskiptahindrana á vettvangi Lúxemborgarferlisins.
    Hér verður á eftir vikið nánar að því hvernig mál þessi hafa þróast innan EFTA og hvernig samstarfinu við EB hefur verið háttað.

Samræmdar vörukröfur
    Árið 1985 samþykkti Evrópubandalagið áætlun um að koma á svokölluðum „innri markaði“. Í áætluninni voru tillögur um á þriðja hundrað aðgerða til að gera raunverulegan sameiginlegan markað að veruleika. Ákveðið var árið 1986 að breyta Rómarsamningnum á þann veg að tilskipanir mætti að jafnaði setja með auknum meirihluta í stað þess að vera samþykktar samhljóða. Með afgreiðslu slíks meirihluta hefur öll ákvarðanataka reynst miklu skilvirkari.
    Þá voru í maímánuði 1985 settar nýjar grundvallarreglur um samræmingu lagabálks EB – hin svonefnda „nýja aðferð“ („New Approach“). Í aðferðinni felst í stórum dráttum að hinar almennu kröfur (grundvallarkröfur) vegna heilbrigði, öryggis og umhverfis eru settar fram í svonefndum rammatilskipunum. Einstökum aðildarríkjum er látið það eftir hvernig þetta er framkvæmt, þ.e. hvernig grundvallarkröfunum er fullnægt, en oftast koma evrópsku staðlastofnanirnar, CEN (Evrópska staðlaráðið), CENELEC (Evrópska rafstaðlaráðið) og ETSI (Evrópska fjarskiptastaðlastofnunin) við sögu og setja nánari tæknilegar reglur um útfærslu í formi evrópskra staðla. Varningur sem fellur undir eða er háður tilskipunum sam­kvæmt nýju aðferðinni (nýaðferðartilskipunum) og framleiddur er samkvæmt evrópskum staðli óhindraðrar umsetningar innan EB og sama mun gilda innan EES.
    Nú þegar hefur EB beitt nýju aðferðinni á vörusviðunum vélar, byggingarvörur, notendabúnaður fyrir síma, lækningatæki og leikföng. Farið er að vinna að tilskipunum í þessum dúr fyrir skemmtibáta, skipabúnað, togbrautir og bólstruð húsgögn.
    Fyrir önnur vörusvið hafa verið settar miklu nákvæmari reglur í EB samkvæmt eldri aðferð. Reglur af því tagi gilda t.d. fyrir matvæli, hættuleg efni, ökutæki og lyf, svo að dæmi séu nefnd. Fyrir þessi vörusvið mun bandalagið setja í auknum mæli rammatilskipanir með tilheyrandi sértilskipunum um tæknilega útfærslu. Evrópskum staðlastofnunum mun með öðrum orðum ekki verða falið að setja staðla að þessu leyti.
    Með Lúxemborgarferlinu var eins og áður segir stofnað til náinnar samvinnu milli EFTA og EB um sameiginlegar aðgerðir til að greiða fyrir viðskiptum og auka skilning og innsýn í lög og reglur sem gilda í EFTA-löndum og aðildarríkjum bandalagsins. Þessi samvinna hefur fyrst og fremst beinst að almennum upplýsingaskiptum svo og til þeirra sviða þar sem EB hefur sett tilskipanir samkvæmt nýju aðferðinni. EFTA og EB standa t.d. þannig að verki í þessum efnum að samtímis eru sendar stöðlunarbeiðnir til evrópsku staðlastofnananna um setningu staðla sem nauðsynlegir eru vegna nýaðferðartilskipana. Ísland er eins og önnur EFTA-lönd og aðildarríki EB fullgildur aðili að þessum samtökum.
    Í EES-samningi felst að þessi nána samvinna verður enn aukin milli samningsaðilanna um þróun og setningu sameiginlegra reglna. Samræmdar reglur á þessu sviði munu hafa í för með sér samræmdar vörukröfur og eftirlitskerfi fyrir þær og skapa grundvöll að raunverulega frjálsri umsetningu varnings innan EES.

Eftirlitskerfi og notkun CE-merkis
    Það hefur sýnt sig að sameiginlegar vörureglur og staðlar er hvorugt einhlítt til að tryggja frjálsa umsetningu vara milli landa. Til þess að fylgjast með að tilteknum kröfum í tilskipun sé fullnægt og farið sé eftir tæknilýsingum í stöðlum er nauðsynlegt að koma á fót eftirlitskerfum sem tryggja að svo sé. Í EB hafa því verið settar almennar viðmiðunarreglur um prófanir og eftirlit sem byggjast á samræmdum kröfum til rannsóknastofa og gæðatryggingarkerfa. Gert er ráð fyrir náinni samvinnu milli þeirra stofnana í einstökum löndum sem annast prófanir og eftirlit. Þetta nána samstarf er forsenda þess að treysta megi prófunum og skoðunum sem framkvæmdar hafa verið í öðrum löndum. Svonefnd faggilding er aðferð til að slá því föstu að eftirlitsstofnun standist settar evrópskar kröfur. Nú er óðum verið að setja á laggirnar slíkar faggildingarstofnanir í Evrópulöndum.
    Vörur sem háðar eru nýaðferðartilskipunum og framleiddar í fullu samræmi við þær mega bera svonefnt CE-merki. Merkið tryggir ekki gæði heldur sýnir það að óhætt er að nota vöruna vegna þess að útfærsla grundvallarskilyrðanna hefur verið tryggð.
    EFTA-löndin gerðu með sér samning 1988 um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi (Tampere-samninginn) til að efla samvinnu á þessu sviði. Þá gerðu EFTA-löndin, Evrópubandalagið og evrópsku staðlaráðin með sér samkomu­lag um stofnun Evrópusamtaka fyrir prófanir og viðurkenningar (European Organization for Testing and Certification, EOTC). Íslendingar eru aðilar að stofnuninni.

Upplýsingaskylda um tæknilegar reglugerðir
    Til þess að hamla gegn nýjum tæknilegum viðskiptahindrunum gerðu EFTA og EB með sér samning í júlí 1989 um að ekkert aðildarland gæti sett tæknilega reglugerð fyrr en henni hefði verið dreift til hinna landanna til umsagnar. Frestur til að koma athugasemdum á framfæri er almennt þrír mánuðir. Ef nauðsynlegt reynist að setja reglugerð með skömmum fyrirvara af heilbrigðis-, öryggis- eða umhverfisástæðum er hægt að láta reglugerð taka gildi umsvifalaust, en nauðsyn þess þarf að rökstyðja sérstaklega. Upplýsingaskylda þessi helst óbreytt í EES-samningnum.
    

Hér fer á eftir umsögn um einstaka þætti II. viðauka.

Ökutæki og dráttarvélar
    Vélknúið ökutæki sem er gerðarviðurkennt í einhverju landi innan Evrópska efnahags­svæðisins á í framtíðinni, án tæknilegra hindrana, að fá viðurkenningu til skráningar hér á landi. Ekki verður séð að þetta skapi vandkvæði, en getur þegar fram líða stundir aukið festu, þægindi og öryggi við innflutning vélknúinna ökutækja. Samræmd gerðarviðurkenning er samt ekki enn þá komin til framkvæmda í EB-löndum.
    Ekki gilda alveg sömu reglur um búnað ökutækja í Bandaríkjunum og í Evrópu. Ísland hefur haft þá sérstöðu að viðurkenna ökutæki til skráningar hér á landi sem búin eru sam­kvæmt bandarískum reglum (stöðlum). Áfram verður unnt að flytja til landsins ökutæki frá löndum utan svæðis þó útbúnaður sé annar.
    Með hliðsjón af ákvæðum í II. viðauka samningsins þarf að aðlaga íslenskar reglur um gerð og búnað ökutækja. Heimild er til þess í umferðarlögum.
    Engin tæknileg vandkvæði eru sjáanleg á innflutningi á dráttarvélum.

Lyfti- og flutningabúnaður, gastæki, byggingarsvæði og búnaður, aðrar vélar, þrýstihylki, persónuhlífar og vélar
    Við skoðun á tilskipunum EB sem snerta ofangreinda þætti er ljóst að breyta þarf flestum tæknilegum reglum Vinnueftirlits ríkisins varðandi vélar og tæki, eða semja nýjar. Þetta er talið hafa í för með sér mjög umfangsmikla vinnu á næstu missirum, svo og vegna útkomu nýrra Evrópustaðla sem fjalla um þessa málaflokka og tengjast þessari löggjöf. Ljóst er að Evrópustaðlar sem fjalla um öryggisbúnað véla og tækja munu bæta mjög og verða mun ítarlegri en núgildandi reglur. Sérstaka athygli má hér vekja á tilskipun EB um persónuhlífar og Evrópustaðla sem verið er að semja fyrir þann málaflokk. Engar íslenskar sérreglur hafa fram að þessu verið til á þessu sviði þótt nauðsynlegar hafi verið.
    Þess skal getið að hjá Vinnueftirliti ríkisins var á sl. ári samin ítarleg greinargerð um EB og vinnuvernd. Þar er m.a. að finna greinargóðar upplýsingar um þær tilskipanir EB sem fjalla um ofangreinda þætti II. viðauka.

Mælitæki
    Öll EFTA-ríki og aðildarríki EB hafa með sér náið samstarf innan Alþjóðamælifræðistofnunarinnar, (OIML), og hafa notað niðurstöður hennar við reglugerðasmíði. Lög­gildingarstofan hér á Íslandi hefur fylgst með undirbúningi nýrra reglna á þessu sviði innan EB. Á grundvelli þeirra er gert ráð fyrir setningu Evrópustaðla sem fari í öllu eftir ábendingum OIML.

Heimilistæki og rafmagnsvörur
    Tilskipun EB 74/23/EBE er megintilskipun í viðfangsefnunum „heimilistæki“ og „rafmagnsvörur“ og fjallar hún um meðferð raffanga og rafkerfa, svonefnd „lágspennutil­skipun“. Samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar verða rafföng og rafkerfi að uppfylla kröfur um að þau veiti mönnum, dýrum og mannvirkjum nógsamlega vernd til að koma í veg fyrir tjón og slys. Um þessi mál fjallar fjöldi samræmdra staðla, sem þegar hafa verið settir hérlendis eða eru í vinnslu. Vegna krafna um afnám tæknilegra viðskiptahindrana verður lögð áhersla á ábyrgð framleiðenda, innflytjenda og dreifenda á að varan sé í fullu samræmi við kröfur.
    Önnur megintilskipun EB í þessum málaflokkum er tilskipun 89/336/EBE, um rafsegul­sviðssamhæfi. Með þessari tilskipun er leitast við að koma í veg fyrir að rafföng valdi raf­segultruflunum eða verði fyrir áhrifum frá þeim. Þetta á m.a. við um það að opinber fjar­skiptakerfi og -tæki séu varin gegn rafsegultruflunum.
    Rafmagnseftirlit ríkisins hefur í áratugi haft eftirlit með vörnum gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum í samræmi við reglugerð um raforkuvirki og alþjóðlegar reglur, staðla og hefðir. Við gildistöku tilskipana EB má ætla að starfsemi stofnunarinnar muni breytast á næstu árum. Má þar einkum nefna að þörf á raffangaprófun minnkar, þar sem gera má ráð fyrir að æ fleiri rafföng komi til landsins fullprófuð samkvæmt samræmdum kröfum ríkjanna. Frumprófana verður því ekki þörf nema að litlu leyti hér á landi, og þá einkum fyrir íslenskan iðnað, og til að sinna þörfum markaðseftirlits og úrtaksprófana. Skráning raffanga verður ekki leyfð, heldur ekki viðurkenningarskylda í því formi sem hún hefur verið hér á landi. Því verður að stórauka markaðseftirlit með rafföngum hérlendis.
    Raflagnareglur þjóðanna verða samræmdar. Vegna þess eru mikilvægar breytingar á gildandi reglugerð um raforkuvirki nauðsynlegar. Framvegis verður í henni vísað í sam­ræmda staðla sem skýringar verða skrifaðar við eftir þörfum notenda.
    Ekki er talin þörf á að breyta lögum nr. 60/1979 um Rafmagnseftirlit ríkisins.

Matvæli
    Eins og fram hefur komið er eitt af markmiðum með samskiptum EB og EFTA að tryggja frjáls viðskipti með vörur. Þessu markmiði skal náð án þess að slaka á heilbrigðiskröfum, um leið og tryggt verði að neytendur fái þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að öðlast þekkingu á samsetningu og eiginleikum vöru. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt á matvæla­sviði þar sem ein umfangsmesta löggjöf sem EES-samningurinn nær til eru reglur (tilskipan­ir) EB um matvæli og matvælaeftirlit og sambærilegar reglur EFTA-ríkja.
     Helstu efnisatriði.Á matvælasviði ná samningarnir til reglna um efnainnihald matvæla og þá sérstaklega aukefna og varnarefna (pesticides), reglna um samsetningu umbúða og umbúðamerkingar, auk matvælaeftirlits og þátta því tengdra. Þetta eru helstu efnisatriðin, en einnig má nefna sérreglur um einstakar fæðutegundir eða tilgreinda fæðuflokka.
    Samræmd matvælalöggjöf EB á framangreindum sviðum nær í sumum tilvikum lengra en sambærilegar íslenskar reglur, en á öðrum sviðum eru reglur hér á landi mun ítarlegri. Sam­ræmdar reglur EB um aukefni eru þannig nokkuð takmarkaðar, en það sama verður ekki sagt um reglur varðandi samsetningu umbúða fyrir matvæli, og þá helst plastumbúða, og einnig reglur um mesta leyfilegt magn varnarefna í matvælum.
     Ný löggjöf – breyttar áherslur. Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hefur samræmd matvælalöggjöf EB verið lögð til grundvallar og leiðir það til verulegrar breytingar á íslenskri matvælalöggjöf. Breyttar áherslur verða í framkvæmd matvælaeftirlits og þá ekki síst hvað varðar eigið eftirlit (innra eftirlit) þeirra sem framleiða og dreifa matvælum og ábyrgð þeirra á eigin vöru. Samstarf Evrópuríkja mun jafnframt aukast og verður meginstefnan í opinberu matvælaeftirliti sú að hvert ríki stuðli að því að matvæli framleidd þar uppfylli heilbrigðiskröfur og aðra þætti matvælalöggjafar í EES. Þetta merkir þó ekki að eftirlit með vörum sem fluttar eru til landsins frá öðrum Evrópuríkjum verði lagt niður. Þess í stað mætti líta á íslenskt matvælaeftirlit sem hluta af matvælaeftirliti í EES, þar sem markmiðið er frjáls viðskipti með matvæli, án þess að slakað verði á heilbrigðiskröfum og framkvæmd matvælaeftirlits. Breyttar áherslur í matvælaeftirliti eiga því ekki aðeins við um eigið eftirlit framleiðenda og dreifenda, heldur einnig eftirlit opinberra aðila.
    Kostir og gallar. Samningur um Evrópska efnahagssvæðið mun hafa í för með sér kosti og galla hvað varðar matvælalöggjöf og matvælaeftirlit. Ekki er hins vegar einfalt að meta kosti á móti göllum, þar sem reynsla af auknu samstarfi Evrópuríkja á þessum vettvangi er ekki fengin og ekki er ljóst hver þróun mála verður varðandi löggjöf um tiltekna þætti á matvælasviði.
    Breyttar áherslur í matvælaeftirliti og aukið samstarf á þeim vettvangi má telja til aug­ljósra kosta, enda þótt reynsla af slíkum breytingum verði ekki nægileg fyrr en að nokkrum árum liðnum. Á hinn bóginn er einn helsti ókosturinn sá að Evrópubandalagið hefur enn ekki náð fram samræmingu á mikilvægum sviðum löggjafarinnar, auk þess sem tímabært er að endurskoða vissa þætti í samræmdri matvælalöggjöf bandalagsins. Að þessum verkefnum er nú unnið, en ríki EFTA hafa ekki haft raunhæfa möguleika á að leggja fram tillögur eða hafa á annan hátt áhrif á endurskoðun og gerð nýrra reglna EB á matvælasviði. Þetta mun hins vegar breytast til batnaðar með EES-samningnum.

Lyf
    Helstu breytingar varða skráningu lyfja, sem með samræmdum reglum verður fljótvirkari, auk þess sem hún verður að hluta ákveðin fyrir öll löndin í einni af tveimur skráningarnefnd­um á vegum EB. Hægt verður áfram að skrá lyf „þjóðlegri skráningu“ vegna sérþarfa í ein­stökum löndum, en hins vegar verður ekki lengur hægt að hafna skráningu lyfs, t.d. vegna verðs eða vegna þess að skráningaryfirvöld telja ekki þörf fyrir lyfið.
    Lyfjahugtakið mun ná yfir fleiri lyf en hingað til. Má þar nefna bóluefni, lyf sem unnin eru úr blóði, geislavirk lyf, náttúrulyf og hómópatalyf, sem verður að líkindum að skrá hér á landi jafnt og í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins.
    Óheimilt verður að vera með einokun á innflutningi lyfja en að öðru leyti þarf ekki enn sem komið er að breyta sérstaklega þeim ákvæðum núgildandi laga er fjalla um lyfja­innflutning og lyfjadreifingu vegna EES-samningsins. Hins vegar þarf að laga ýmis atriði í reglugerðum að breyttum aðstæðum.
    Ýmsar breytingar verða á auglýsingum og kynningu lyfja. Heimilt verður að auglýsa lyf fyrir almenning, sem fást án lyfseðils, með ákveðnum skilyrðum, t.d. í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi. Auglýsingar og kynningar á lyfseðilsskyldum lyfjum verða hins vegar háðar strangari reglum en gilt hafa. Fylgiseðlar með ítarlegum upplýsingum verða að fylgja öllum lyfjum.
    Samkvæmt þeim hluta GATT-samningsins er fjallar um hugverkaréttindi er aðildarríkjum samningsins skylt að veita einkaleyfi jafnt fyrir afurðum sem aðferðum á öllum tæknisviðum. Samkvæmt gildistökuákvæði í 2. mgr. 75. gr. einkaleyfislaga, sem tóku gildi um síðustu áramót, er ekki hægt að veita einkaleyfi fyrir læknislyfjum fyrr en fimm árum eftir gildistöku laganna. Þessi tími var hugsaður sem aðlögunartími fyrir innlendan lyfjaiðnað. Í EES-viðræðum tókst hins vegar að ná fram tveggja ára aðlögunartíma, til 1. janúar 1995. Þessu ákvæði einkaleyfalaganna verður því að breyta til samræmis við framangreindan aðlögunartíma.
    Stefnt er að samræmingu á lyfjaverði, flokkun lyfja í lausasölu og lyfseðilsskyldum lyfjum, þátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði og ýmsum fleiri atriðum, en óvíst er hvenær þeim markmiðum verður náð.

Áburður
    Íslensk lög og gildandi reglugerð (nr. 256/81) eru mun ófullkomnari en reglur EB. Drög að nýrri reglugerð, sem draga dám af dönskum EB-reglum, hafa legið fyrir um hríð en ekki hefur orðið af útgáfu. Er það einkum vegna þess að þessi mál eru mjög í deiglunni og línur eiga eftir að skýrast. Nauðsynlegt er að takmarka kadmíum magn í tilbúnum áburði, sem er eiturefni er það skolast út í náttúruna. Ríki EFTA geta samkvæmt EES-samningnum gengið lengra en EB hefur til skamms tíma viljað.

Hættuleg efni
    Reglur eru samræmdar til að tryggja frjáls viðskipti með eiturefni og hættuleg efni milli aðildarríkja EFTA og EB. Þetta skal þó gert á þann hátt að tryggja sem best öryggi og heilsu fólks og verndun umhverfis fyrir skaðlegum áhrifum efnanna, m.a. með því að þeir sem umgangast efnin fái nægjanlegar upplýsingar um þau. Árið 1986 tóku stjórnvöld hér þá stefnumarkandi ákvörðun að við flokkun og merkingu eiturefna og hættulegra efna skyldi taka mið af reglum Evrópubandalagsins og annarra Norðurlandaþjóða eins og framkvæmanlegt þætti og hagkvæmt.
    Reglur (tilskipanir) EB, sem lagðar eru til grundvallar, eru einkum á eftirfarandi þremur sviðum:
    Flokkun, merking og meðferð eiturefna og hættulegra efna. Stefnt er að því að ákvæði tilskipana EB um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna og hættulegra efna taki gildi 1. janúar 1995. Fram til þess tíma vinna samningsaðilar að því að leysa þau atriði sem enn er ágreiningur um. Árið 1994 á að meta stöðuna og þau ríki sem eru óánægð með gang mála geta sótt um að EB-reglurnar gildi ekki fyrir sig.
    Takmarkanir og bönn. Tilskipanir EB um takmarkanir og bann við sölu og notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna öðlast strax gildi. Þó er EFTA-ríkjunum heimilt að halda þeim reglum sem ganga lengra á eftirtöldum sviðum: lífræn klórsambönd – asbest kvikasilfurssambönd – arsensambönd – lífræn tinsambönd – pentaklórenól – kadmíum – rafhlöður. Árið 1995 verður staða mála könnuð á ný.
    Varnarefni.Tilskipanir EB um flokkun og merkingu varnarefna og um varnarefni sem innihalda tiltekin virk efnasambönd öðlast gildi strax. EFTA-ríkin geta þó takmarkað innflutning á varnarefnum samkvæmt landsreglum sem í gildi eru við undirritun samningsins.

Snyrtivörur
    Engin löggjöf mun vera til á Íslandi sem fjallar sérstaklega um snyrtivörur. EB hefur hins vegar sett reglur um framleiðslu og samsetningu þessara vara, svo og reglur um greiningu á þessum vörum til eftirlits með samsetningu þeirra. Þessar reglur eru í stöðugri endurskoðun. EFTA hefur þegar stofnað sérfræðingahóp á þessu sviði (sem heyrir undir fastanefnd um tæknilegar viðskiptahindranir) til að taka þátt í að móta setningu reglna á þessu sviði.

Umhverfisvernd
    Eins og áður segir hefur eitt veigamikið samningsatriði á vörusviðinu verið að afnema skuli, að svo miklu leyti sem unnt er, tæknilegar viðskiptahindranir sem fyrir hendi eru og skapast vegna ólíkra tæknilegra fyrirmæla og um leið að koma í veg fyrir að nýjar hindranir verði til. Heimilt er að halda íslenskum umhverfisverndarkröfum í þeim tilvikum sem þær ná lengra en samsvarandi reglur EB.
    Aðlögun að reglum EB um hávaða og útblástursreglum fyrir dráttarvélar mun hafa í för með sér að íslensk ákvæði um umhverfi verða hert. Hvað snertir brennistein í olíubrennslu og blýmagn í bensíni þá eru íslenskar reglur samrýmanlegar reglum EB. Sama gildir um þvottaefni. Núverandi íslenskar reglur um umbúðir fyrir drykkjarvörur eru í samræmi við reglur EB.
    Auk þessa hefur verið samið um eftirfarandi sérlausnir:
    Bílaútblástur. Heimilt er að halda núverandi reglum um útblástur fyrir allar gerðir vélknúinna farartækja. Fram til 1. 1. 1995 er heimilt að neita að viðurkenna bíla sem hafa verið framleiddir í EB-löndum, ef þeir standast ekki íslenskar lágmarkskröfur. Frá og með 1. 1. 1995 verða bifreiðar frá EB viðurkenndar, sem standast lágmarkskröfur EB enda eru hertar EB-kröfur nú í undirbúningi sem verða gengnar í gildi þá.
    Unnið verður sameiginlega að því að semja strangari reglur í framtíðinni, innan ramma þess samstarfsfyrirkomulags sem EES-samningurinn kveður á um.
    Efnavörur. Aðilar eru sammála um þau áform, að EFTA-löndin viðurkenni reglur EB um flokkun og merkingu hættulegra efnavara eins og þær eru 1. 1.1995. Þangað til verður unnið sameiginlega að því að minnka mismuninn. Fari svo, engu að síður, að Ísland (eða eitthvert annað EFTA-land) telji að ekki sé unnt 1.1. 1995 að viðurkenna reglur EB skal þeim ekki framfylgt í viðkomandi landi. Það land mun þá standa utan við samstarfið hvað varðar þennan þátt, svo framarlega sem ekki semst um annað.
    Hvað snertir takmarkanir og bönn við hættulegum efnavörum verður heimilt að halda gildandi reglum, í þeim tilvikum er þær ganga lengra en reglur EB, varðandi klórhreinsuð lífræn upplausnarefni, asbest, kvikasilfur, arsenik, pentaklórfenól, kadmíum og lífræn tinefnasambönd. Aðilar munu endurmeta stöðuna árið 1995.
    Áburðarefni. EFTA-löndin eiga rétt á að takmarka kadmíum-magn í tilbúnum áburði samkvæmt þeim reglum sem gilda þegar EES-samningurinn gengur í gildi. Endurmat fer fram árið 1995.
    Eiturefni. Einnig varðandi eiturefni eiga EFTA-löndin rétt á að takmarka verslun samkvæmt reglum sem gilda þegar EES-samningurinn gengur í gildi. Samvinna verður um það þegar nýjar reglur eru mótaðar.
    Rafhlöður. EFTA-löndin eiga rétt á að takmarka verslun samkvæmt reglum sem gilda þegar EES-samningurinn gengur í gildi. Endurskoðun fer fram 1995.
    Efni sem leysa upp ósonlagið. EFTA-löndin eiga rétt á að fara eftir reglum sem gilda þegar EES-samningurinn gengur í gildi. Endurskoðun fer fram árið 1995.

Upplýsingatækni, fjarskipti og gagnavinnsla
    Reglur EB á þessu sviði eru í reynd tvenns konar. Annars vegar er um að ræða sölu á vörum, og um það verður fjallað hér nánar, og hins vegar er sala á þjónustu. Ljóst er að víðtæk notkun staðla á þessu sviði ræður úrslitum um raunhæfan sameiginlegan markað. Hvert land um sig hefur eða hefur haft til skamms tíma mismunandi flóknar reglur um tækni og búnað fyrir fjarskipti sem gilda í hverju landi. Á sviði upplýsingatækni og tölvuvinnslu eru opinberar reglur aftur á móti miklu fáskrúðugri, enda hafa framleiðendur sjálfir ráðið ferðinni í ríkum mæli. Að undanförnu hefur EB þó lýst því með margvíslegum hætti á ýmsum vettvangi hvernig það hyggst þoka þessum málum til réttari vegar. Hér er því um ærin verkefni að ræða í samskiptum samningsaðila innan EES.

Almenn ákvæði um tæknilegar viðskiptahindranir og frjálsir vöruflutningar – almennt
    Um þess tvo þætti vísast til hinnar almennu greinargerðar um II. viðauka hér að framan.

Byggingarvörur
    Tilskipunin um byggingarvörur er frábrugðin öðrum tilskipunum að því leyti að sérstök túlkunarskjöl munu fylgja henni til þess að færa hinar svokölluðu grunnkröfur yfir á tæknimál. Vinnu við gerð þessara sex túlkunarskjala er ekki enn lokið en lokadrög liggja fyrir.
    Áhrif tilskipunarinnar og tengdra skjala hér á landi munu verða mjög mikil þar eð sam­ræmdar upplýsingar munu verða til staðar um einstakar vörur og vöruflokka sem fengið hafa sérstakt EB-merki. Áhersla á að vera á upplýsingar um vörurnar með fyrirhugaða notkun í huga. Varðandi vörur sem hafa ekki EB-merki eru breytingar aðeins þær að með tilkomu samræmdra evrópskra staðla og leiðbeininga um tæknisamþykki verður auðveldara að krefjast upplýsinga um þær og/eða fara fram á prófanir.
    Samþykkt tilskipunarinnar um byggingarvörur leggur nokkrar kvaðir á herðar stjórnvöldum. Nefna má eftirfarandi:
–    Framkvæmdastjórn EB hefur ákveðið hlutverk samkvæmt tilskipuninni. Ekki hefur verið ákveðið hver fer með þetta hlutverk fyrir hönd Íslands með samþykkt tilskipunarinnar.
–    Hugsanleg aðild að fastanefndinni um byggingarmál (eða samsvarandi nefnd á vegum EFTA).
–    Aðild að „Samtökum um evrópskt tæknisamþykki“ („European Organization for Technical Approvals, EOTA“). EFTA-lönd hafa ekki fram að þessu átt þess kost að gerast aðilar að EOTA. Samkvæmt 3. tölul. 11. gr. í tilskipuninni er aðildarríkjum skylt að birta viðmiðunarreglur um evrópskt tæknisamþykki á þjóðtungu sinni. Hér gæti því komið til mikillar vinnu við þýðingar.
–    Tilnefna þarf vottunaraðila, skoðunaraðila og prófunarstofur til að leysa af hendi verkefni í sambandi við tæknisamþykki, vottun samræmis, skoðanir og prófanir samkvæmt tilskipuninni. Þessir aðilar verða að uppfylla skilyrði sem tilgreind eru í IV. viðauka tilskipun­arinnar.
–    Ísland er þegar aðili að Staðlaráði Evrópu (CEN) eins og öll lönd EB og EFTA.

Leikföng
    Tilskipun ráðsins 88/378/EBE um samræmingu aðildarríkjanna um öryggi leikfanga var ein af þeim fyrstu sem samdar voru samkvæmt hinni svokölluðu nýju aðferð, þ.e. að leikföngin þurfa að vera í samræmi við gildandi staðla til að þau uppfylli öryggiskröfur til­skipunarinnar. Þau leikföng sem uppfylla þessar kröfur eru merkt CE og eiga þannig að geta borist um allt Evrópska efnahagssvæðið hindrunarlaust. Til að uppfylla ákvæði tilskipun­arinnar hér á Íslandi verður samin reglugerð á grundvelli laga um öryggi framleiðsluvara.

Tóbak
    Íslensk löggjöf varðandi tóbak er annars vegar lög nr. 63/1969 um að allt tóbak til sölu innanlands skuli merkt ÁTVR og hins vegar lög nr. 74/1984 og reglugerð nr. 499/1984 um að skráð skuli aðvörun um skaðsemi vörunnar á umbúðir hennar. Auk þess eru tóbaksauglýsingar bannaðar með lögum á Íslandi. Löggjöf EB á þessu sviði er tiltölulega ný. Ráðstilskipun 89/622/EBE fjallar um merkingu tóbaksvara og mælir fyrir um samræmda aðvörunar- og innihaldsmerkingu fyrir tóbaksvörur frá 1. janúar 1993 að telja. Þegar hafa komið fram fjölmargar breytingartillögur um annan aðvörunartexta og staðsetningu hans á umbúðum og er verið að vinna úr þessum tillögum. Á þessu stigi er ekki ljóst hvort eða hvernig þurfi að breyta íslenskum reglum um þetta efni. Á Íslandi hafa engar reglur verið settar um tjöruinnihald tóbaks. ÁTVR hefur þó birt upplýsingar um tjöruinnihald í verðskrám sínum. Með tilskipun 90/239/EBE setti hins vegar EB reglur sem kveða á um 15 mg hámarksinnihald tjöru. Nokkur skriður er á frekari löggjöf innan EB. Unnið er að tillögu að tilskipun um bann við tóbaksauglýsingum og drög að tilskipun sem banna mundi vissar tegundir munntóbaks eru talin komin vel á veg. Um þessar tillögur að tilskipunum verður fjallað af fulltrúum EFTA og EB samkvæmt samskiptareglum EES-samningsins.

Orkumál
    Í þessum þætti er ein tilskipun þar sem kveðið er á um að aðildarríkin skuli ekki hamla, takmarka eða hindra markaðssetningu á bensíni (eða öðru eldsneyti fyrir sprengihreyfla) sem blandað hefur verið með súrefnisbindandi efnasamböndum sem upp eru talin í viðauka við tilskipunina, í þeim hlutföllum sem þar koma fram. Á grundvelli tilskipunarinnar skal starfa nefnd til að aðlaga viðaukann framþróun á sviði vísinda og tækni. Í nefndinni sitja fulltrúar aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar. Tilskipunin vísar til 235. gr. Rómarsamn­ingsins.

Áfengir drykkir
    Í reglum EB um vín og brennd vín eru ákvæði um framleiðslu, skilgreiningar, notkun íblöndunarefna, merkingar o.fl. Reglurnar eru birtar sem reglugerð sem er bindandi fyrir öll aðildarríkin. Samkvæmt EES-samningi þurfa EFTA-lönd að fella þessi ákvæði inn í landslög eins og efni standa til. Sérreglur munu gilda með Norðurlandaþjóðunum í EFTA að þau geta bannað sölu á vodka sem er framleitt úr öðrum efnum en korni og kartöflum. Þá geta þau einnig hafnað umsetningu áfengis með hærra alkóhólmagni en 60%. Vöruheitin Íslenskt brennivín og Íslenskt vodka eru vernduð samkvæmt samningnum.

Um bókun 47


     Afnám tæknilegra hindrana í viðskiptum með vín

    Bókunin kveður á um að heimila skuli innflutning og markaðssetningu á vínum sem eru upprunnin innan EES, svo fremi sem þau uppfylli skilyrði þeirra gerða sem taldar eru upp í viðbæti við bókunina.
    Í viðbætinum eru gerðir, ásamt breytingum, varðandi skilgreiningu á vínum, starfsvenjum í vínfræði, samsetningu á vínum og aðferðir við dreifingu og markaðssetningu.

Um III. viðauka


Skaðsemisábyrgð


    Í III. viðauka við samninginn er fjallað um skaðsemisábyrgð, en þar er um að ræða skaðabótaábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila á tjóni, sem hlýst af ágalla á vöru, sem þeir hafa framleitt eða dreift.
    Vísað er til tilskipunar EB-ráðsins frá 25. júlí 1985 ( 85/374/EBE) um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum vegna skaðsemisábyrgðar á gölluðum vörum.
    Frumvarp til laga um skaðsemisábyrgð var flutt á 112. löggjafarþingi og síðan aftur á 113. löggjafarþingi með nokkrum breytingum. Voru lög nr. 25 frá 27. mars 1991 samþykkt á grundvelli þess. Íslensku lögin um skaðsemisábyrgð eru í fullu samræmi við framangreinda tilskipun og þarf því ekki að gera á þeim breytingu í tengslum við EES-samninginn.

Um 24. gr.


    Hér er vísað til IV. viðauka um orku. Innan EB hefur ekki þróast nema í mjög takmörkuðum mæli sameiginleg stefna í orkumálum. Enn fremur kom fljótt í ljós í samn­ingaviðræðum um EES að erfitt yrði að sameinast um reglugerðir um birgðahald vegna þess að sameiginlegar stofnanir skorti til eftirlits. Því varð ofan á að samstarf á þessu sviði er nokkru takmarkaðra en stefnt var að í fyrstu. Sameiginlegar reglur verða þó um gagnkvæma tilkynningarskyldu um fjárfestingar á sviði jarðolíu, jarðgass og raforku, blöndun annars eldsneytis í olíu og aðgang að orkuflutninganeti. Hið síðasta gæti komið að gagni ef og þegar af útflutningi orku frá Íslandi til Evrópu með sæstreng verður.

Um IV. viðauka


Orka


    Í IV. viðauka er vísað í eftirfarandi tilskipanir og reglugerðir:

    Reglugerð 1056/72/EBE frá 18. maí 1972 um tilkynningu til framkvæmdastjórnarinnar um áhugaverð fjárfestingarverkefni fyrir bandalagið á sviði jarðolíu, jarðgass og raforku, eins og henni var breytt með reglugerð ráðsins 1215/76/EBE frá 4. maí 1976.
    Í reglugerðinni er m.a. kveðið á um að aðildarríkin skuli greina framkvæmdastjórninni frá fjárfestingarverkefnum sem lúta að vinnslu, flutningi, geymslu eða dreifingu á jarðolíu, jarðgasi eða rafmagni og að framkvæmdastjórnin (ESE fyrir EFTA-ríki) skuli birta árlega yfirlit um þessi fjárfestingarverkefni. Farið er með upplýsingar sem veittar eru sem trúnaðarmál.
    Tilskipun 75/405/EBE frá 14. apríl 1975 um takmarkanir á notkun olíuvara í orkuverum.
    Í tilskipuninni er kveðið á um að leyfi stjórnvalda í viðkomandi aðildarríki þurfi til að reisa rafstöðvar sem brenna olíu eingöngu eða að mestu leyti. Ákvæði eru um hvenær veita megi slík leyfi. Þannig má t.d. veita slíkt leyfi ef afl rafstöðvarinnar er undir 10 MW eða ef hún er eingöngu notuð sem toppaflsstöð eða ef um vararafstöð er að ræða. Kveðið er á um að tilkynna skuli framkvæmdastjórn bandalagsins (ESE fyrir EFTA-ríki) um leyfi sem veitt eru og um ástæður leyfisveitingarinnar.
    Tilskipun 76/491/EBE frá 4. maí 1976 um starfshætti bandalagsins varðandi upplýsingamiðlun og samráð um verð hráolíu og olíuvara í bandalaginu.
    Tilskipunin kveður á um að aðildarríkin skuli veita framkvæmdastjórninni upplýsingar um fob- og/eða cif-verð á innfluttum olíuvörum og smásöluverð á olíuvörum bæði með og án tolla og skatta. Þau aðildarríki sem hafa hámarksverð á olíuvörum skulu gefa upplýsingar um það bæði með og án gjalda og skatta. Farið er með þessar upplýsingar sem trúnaðarmál. Á grundvelli þessara upplýsinga tekur framkvæmdastjórnin (ESE fyrir EFTA-ríki) ársfjórðungslega saman og sendir aðildarríkjunum yfirlit um verð á hráolíu og olíuvörum, samanburð á verði olíuvara í aðildarríkjunum o.fl.
    Tilskipun 78/170/EBE frá 13. febrúar 1987 um virkni tækja til upphitunar húsnæðis og vatns í nýjum og eldri byggingum, sem ekki eru notaðar til atvinnurekstrar, og um einangrun hita- og neysluvatnskerfa í nýjum byggingum sem ekki eru notaðar til atvinnurekstrar, eins og henni var breytt með tilskipun frá 10. desember 1982.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu aðildarríkin sjá til þess að ný tæki til upphitunar húsnæðis og/eða vatns í nýjum og eldri byggingum, sem ekki eru notaðar til atvinnurekstrar, fullnægi lágmarkskröfum um virkni. Hún nær til katla sem hita vatn, gufukatla, lofthitunartækja og tækja sem hita vatn og vinna rafmagn samhliða óháð því hvaða orkuberi er nýttur. Tilskipun­in kveður einnig á um að aðildarríkin skuli gera ráðstafanir til að hita- og neysluvatnskerfi séu einangruð eftir því sem hagkvæmt getur talist.
    Reglugerð 1893/79/EBE frá 28. ágúst 1979 um að koma á skráningu á innflutningi hráolíu- og/eða olíuvara til bandalagsins, eins og henni var breytt með reglugerð 4152/88/EBE frá 21. desember 1988.
    Reglugerðin kveður á um að þeim sem flytja inn hráolíu eða olíuvörur sé skylt að láta viðkomandi aðildarríki í té upplýsingar um hvern farm. Einstök aðildarríki senda síðan reglulega yfirlit um innflutninginn til framkvæmdastjórnarinnar (ESE fyrir EFTA-ríki), sem síðan er dreift til ríkjanna. Farið er með upplýsingarnar sem trúnaðarmál.
    Tilskipun 85/536/EBE frá 5. desember 1985 um sparnað á hráolíu með notkun eldsneytislíkis í bensíni, eins og henni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 87/441/EBE frá 29. júlí 1987 um sparnað á hráolíu með notkun eldsneytislíkis í bensíni.
    Tilskipunin kveður á um að aðildarríkin skuli ekki hamla, takmarka eða hindra markaðssetningu á bensíni (eða öðru eldsneyti fyrir sprengihreyfla) sem blandað hefur verið með súrefnisbindandi efnasamböndum, sem upp eru talin í viðauka við tilskipunina, í þeim hlutföllum sem þar koma fram. Á grundvelli tilskipunarinnar skal starfa nefnd til að aðlaga viðaukann framþróun á sviði vísinda og tækni. Í nefndinni sitja fulltrúar aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar (ESE fyrir EFTA-ríki).
    Tilskipun 90/377/EBE frá 29. júní 1990 um starfsreglur bandalagsins til að auka gagnsæi verðlagningar á gasi og rafmagni til endanlegra notenda í atvinnuskyni.
    Þessi tilskipun er tilgreind í upplýsingaskyni.
    Tilskipun 90/547/EBE frá 29. október 1990 varðandi gegnumflutning á rafmagni um flutningskerfi (transit).
    Tilskipunin kveður á um gegnumflutning á raforku milli meginflutningskerfa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau fela meðal annars í sér að orkuflutningurinn hefjist eða að honum ljúki í aðildarríki bandalagsins og að hann sé yfir landamæri milli bandalagsríkja. Listi yfir flutningskerfin og orkufyrirtæki sem eru ábyrg fyrir þeim er í viðauka sem fylgir tilskipuninni. Samningar um gegnumflutning skulu vera milli fyrirtækja sem bera ábyrgð á flutningskerfunum og fyrirtækja sem annast inn- eða útflutning á rafmagni í aðildarríkjunum, ef það á við. Kveðið er á um að tilkynna skuli viðkomandi aðildarríkjum og framkvæmda­stjórn bandalagsins (ESE fyrir EFTA-ríki) um samningaviðræður. Ef samningar nást ekki skal greina frá ástæðum. Ef skýringarnar eru ekki taldar studdar nægum rökum eða eru ófullnægjandi ber framkvæmdastjórninni (ESE) að eigin frumkvæði eða ósk þess aðila sem biður um gegnumflutninginn að gera ráðstafanir sem hún hefur heimild til í lögum bandalagsins. Sérhvert hlutaðeigandi orkufyrirtæki getur farið fram á að skilmálar um gegnumflutning séu samræmdir af stofnun sem framkvæmdastjórnin (ESE) kemur á fót.
    Kveðið er á um aðlögun þessarar tilskipunar í viðaukanum. Þar segir að sérhvert hlutaðeigandi orkufyrirtæki geti farið fram á að stofnun sem eftirlitsstofnun EFTA (ESE) kemur á fót samræmi skilmála um gegnumflutninginn að því er varðar viðskipti innan EFTA. Í honum er einnig kveðið á um að hlutaðeigandi orkufyrirtæki geti farið fram á það að sam­eiginlega EES-nefndin samræmi reglur um gegnumflutning að því er varðar viðskipti milli bandalagsins og EFTA-ríkis. Í 1. viðbæti með IV. viðauka er skrá um flutningskerfi sem heyra undir tilskipunina. Meðal þeirra er kerfi Landsvirkjunar.
    Tilskipun ráðsins 91/296/EBE frá 31. maí 1991 varðandi gegnumflutning á jarðgasi um flutningskerfi.
    Tilskipunin kveður á um gegnumflutning á jarðgasi um meginflutningskerfi að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau fela meðal annars í sér að flutningurinn skuli hefjast eða ljúka í aðildarríki bandalagsins og að hann sé yfir landamæri milli bandalagsríkja. Listi yfir flutningskerfin og orkufyrirtæki sem eru ábyrg fyrir þeim er í viðauka sem fylgir tilskipun­inni. Samningar um gegnumflutning skulu vera milli fyrirtækja sem bera ábyrgð á flutnings­kerfunum og fyrirtækja sem annast inn- eða útflutning á jarðgasi í aðildarríkjunum, ef það á við. Kveðið er á um að tilkynna skuli viðkomandi aðildarríkjum og framkvæmdastjórn bandalagsins (ESE fyrir EFTA-ríki) um samningaviðræður. Ef samningar nást ekki skal greina frá ástæðum. Ef skýringarnar eru ekki taldar studdar nægum rökum eða eru ófullnægjandi ber framkvæmdastjórninni að eigin frumkvæði eða ósk þess aðila sem biður um gegnumflutninginn að gera ráðstafanir sem hún hefur heimild til í lögum bandalagsins. Sérhvert hlutaðeigandi orkufyrirtæki getur farið fram á að stofnun sem framkvæmdastjórnin (ESE) kemur á fót samræmi skilmála um gegnumflutninginn. Í tilskipuninni er vísað til greinar 100c í Rómarsamningnum.
    Í viðaukanum er kveðið á um hvernig ákvæði tilskipunarinnar skulu aðlöguð vegna EES-samningsins. Þar er meðal annars kveðið á um að sérhvert hlutaðeigandi orkufyrirtæki geti farið fram á að stofnun sem eftirlitsstofnun EFTA (ESE) kemur á fót samræmi skilmála um gegnumflutninginn að því er varðar viðskipti innan EFTA. Í honum er einnig kveðið á um að hlutaðeigandi orkufyrirtæki geti farið fram á það að sameiginlega EES-nefndin samræmi reglur um gegnumflutning að því er varðar viðskipti milli bandalagsins og EFTA-ríkis. Í 2. viðbæti með IV. viðauka er skrá fyrir flutningskerfi sem heyra undir tilskipunina.

Um 25. gr.


    Hér er sleginn varnagli og svigrúm gefið til þess að grípa til sérstakra aðgerða ef framkvæmd ákvæða 10. og 12. gr. hefur í för með sér röskun á viðskiptastefnu gagnvart ríki utan svæðisins eða ef frjáls útflutningur leiðir til alvarlegs skorts á hráefni sem er útflutningslandinu mikilvægt. Almenn framkvæmd aðgerða sem þessara skal vera í samræmi við 113. gr., sem kveður á um framkvæmd öryggisaðgerða.

Um 26. gr.


    Þar sem gert er ráð fyrir því að samkeppnisaðstæður allar verði hinar sömu alls staðar á hinu Evrópska efnahagssvæði mun enginn samningsaðila grípa til undirboðsaðgerða gegn öðrum. Undirboðsaðgerðir hafa í raun verið eitt beittasta vopn EB við framkvæmd viðskiptastefnu sinnar og EFTA-ríkin hafa staðið uppi berskjölduð gagnvart því. EB hefur t.d. tekið til athugunar að grípa til undirboðsaðgerða gagnvart járnblendi frá Íslandi og formlega eru nú í gildi undirboðstollar á íslensku járnblendi þótt Grundartangaverksmiðjan hafi umsamda undanþágu. Grein þessi styrkir því verulega stöðu orkufreks iðnaðar á Íslandi á mikilvægasta markaðssvæðinu, Evrópu. Grein þessi nær þó ekki til sjávarafurða vegna þess að ekki eru sameiginlegar samkeppnisreglur á því sviði í gildi innan svæðisins.

Um bókun 13


Jöfnunartollum og aðgerðum gegn undirboðum verði ekki beitt

    Sérstaklega er tekið fram að bann það sem lagt er við undirboðsaðgerðum og jöfnunartollum eigi aðeins við um þær vörur sem falla undir samninginn og þar sem reglur EB eru að fullu felldar inn í samninginn. Þetta gefur t.d. EB svigrúm til þess að beita undirboðsaðgerðum gegn niðurgreiddum, norskum laxi.


Um 5. kafla


     Kola- og stálvörur

Um 27. gr.


    Sögulegar ástæður eru fyrir því að sérstaklega er með kol og stál farið. Undanfari EB var einmitt Kola- og stálbandalagið, þar sem koma átti í veg fyrir styrjöld í Evrópu með því að samtvinna framleiðslu kola og stáls í álfunni. Þótt Evrópubandalögin þrjú, Kola- og stálbandalagið, Efnahagsbandalagið og Kjarnorkubandalagið (EURATOM), séu nú í raun runnin saman eru ýmis stjórnsýsluákvæði enn í gildi sem gera það að verkum að verkaskiptingu milli Framkvæmdastjórnar og aðildarríkja er öðruvísi háttað þegar kemur að kolum og stáli en þegar aðrar vörur eru til umfjöllunar. Í upphafi samningaviðræðna gerði EB ekki ráð fyrir því að viðskipti með þessar vörur yrðu hluti af samningnum en lét undan kröfu EFTA-ríkja, einkum Austurríkis og Svíþjóðar. EB-ráðið gaf því framkvæmdastjórninni sérstakt umboð til samninga um þetta efni. Þetta endurspeglast í EES-samningnum í bókunum 14 og 25.
    Þegar Ísland gerði fríverslunarsamning við EB 1972 var ekki gert ráð fyrir því að af útflutningi á stáli frá Íslandi til EB gæti orðið. Því féllu tollar ekki niður á íslensku stáli inn til EB þótt EB-stál yrði tollfrítt inn til Íslands. Þegar Stálfélagið hóf framleiðslu sína og miðaði við að flytja út til EB var hafist handa við að fá leiðréttingu á þessu. Var það mál komið á góðan rekspöl þótt ekki tækist að fá því framgengt áður en verksmiðjan hætti starfsemi sinni. EES-samningurinn mun hins vegar sjálfkrafa leiðrétta þessa stöðu og tryggja fulla gagnkvæmni.

Um bókun 14


     Verslun með kola- og stálvörur

    Í bókuninni er tekið fram að ákvæði fríverslunarsamninganna haldi gildi sínu en allir tollar og magntakmarkanir skuli falla burt. Þar sem ekki er um sérstök ákvæði í fríverslunarsamningunum að ræða gilda almenn ákvæði samningsins. Þetta mun m.a. auðvelda viðskipti með brotajárn, sem hafa verið nokkrum takmörkunum háð milli Evrópuríkja. Þetta er enn áréttað í 3. gr. bókunarinnar þar sem hvers kyns höft eru bönnuð í viðskiptum með kol og stál. Vísað er til samkeppnisreglna í bókun 21 og 25 og XIV. viðauka. Sérstakar reglur skulu þó gilda um aðstoð við stáliðnaðinn svipað og tíðkast innan EB. Innan EB hefur þó verið reynt að halda aðstoð við stáliðnaðinn í þröngum skorðum og binda hana við umhverfisaðgerðir, rannsóknir og þróun, félagslega hjálp og aðstoð við lokun.
    Í 6. gr. er kveðið á um upplýsingaskipti um markaðsmál og fjárfestingar. Þetta var sérstakt áhugaefni EB þar sem það auðveldar starf framkvæmdastjórnar við að hafa yfirlit með þróun stálmarkaðarins.
    Loks er tekið fram í 7. gr. að upprunareglur bókunar 4 í þessum samningi skuli gilda, en þær eru einfaldari og þægilegri í notkun en þær sem tíðkast hafa samkvæmt bókun 3 í fríverslunarsamningum EBE og EFTA-ríkja.

Um bókun 25


     Samkeppni varðandi kol og stál

    Bókun 25 fjallar um samkeppnisreglur á sviði kola og stáliðnaðar. Þar er t.d. allt það bannað sem hindrað gæti frjálsa samkeppni, þar á meðal samninga um fast verð, framleiðslutakmarkanir og samningar milli fyrirtækja um skiptingu markaðar. Leita verður umsagnar eftirlitsstofnunar við samruna fyrirtækja ef heildarvelta er veruleg og sérstaklega er reynt að forðast að einn aðili nái ríkjandi stöðu á markaði. Ákvæði 1. og 2. gr. bókunarinnar endurspegla 65. og 66. gr. stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins. Einnig er vísað til almennra ákvæða samningsins um framkvæmd eftirlits og samvinnu EB og EFTA á því sviði.

Um III. hluta
     Frjálsir fólksflutningar, frjáls þjónustustarfsemi
     og frjálsir fjármagnsflutningar


Um 1. kafla


     Launafólk og sjálfstætt starfandi einstaklingar

    Frelsi íbúa í einstökum ríkjum er tilheyra munu Evrópska efnahagssvæðinu til að þiggja störf í öðrum ríkjum innan svæðisins skal vera tryggt. Enn fremur skal þeim frjálst að setja á stofn sjálfstæða starfsemi í öðru ríki með því að próf þeirra, sem jafngilda prófum innlendra borgara séu viðurkennd. Þá skal einstaklingum frjálst að veita persónulega þjónustu milli ríkja innan svæðisins. Þeim einstaklingum sem starfs síns vegna er nauðsynlegt að taka sér búfestu í öðru ríki en sínu eigin innan svæðisins, skal tryggt dvalarleyfi. Þetta eru höfuðatriði þess sem nefnt hefur verið atvinnu- og búsetufrelsi.

Um 28. gr.


    Afnema skal alla mismunun milli einstaklinga í aðildarríkjum EB og EFTA sem byggð er á ríkisfangi og lýtur að atvinnu, launakjörum og öðrum starfs- og ráðningarskilyrðum. Þetta felur í sér að óheimilt er að ráða ríkisborgara frá öðrum ríkjum innan Evrópska efnahags­svæðisins upp á önnur launakjör en ákveðin hafa verið í viðkomandi ríki. Þá er ekki heimilt að gera aðrar kröfur um t.d. menntun, starfsreynslu og þess háttar en krafist er af innlendum mönnum. Í reglugerð sem sett var árið 1968 um frjálsa flutninga launþega er öll mismunun varðandi ráðningar bönnuð. Hins vegar er tekið fram að það teljist ekki mismunun að krefjast tungumálakunnáttu þegar viðkomandi starf krefst hennar. Starf kennara, hver svo sem kennslugrein viðkomandi er, hefur verið tekið sem dæmi um starf þar sem krefjast verður kunnáttu í tungumáli viðkomandi starfslands. Þetta felur það í sér að sæki Íslendingur og ríkisborgari frá öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins um sama starf og báðir uppfylla kröfur til starfans, teljist það ekki mismunun að hafna hinum erlenda borgara, ef hann hefur ekki nægilegt vald á íslenskri tungu. Ef hinn erlendi borgari er talinn betri umsækjandi hvað varðar menntun og starfsreynslu, þarf að meta sérstaklega hvort hann hafi tilhlýðilega íslenskukunnáttu. Gæti það orðið til þess að hinum erlenda borgara yrði hafnað, þrátt fyrir aðra yfirburði til starfans.
    Bannið við mismunun ríkisborgara frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins felur í sér að ekki má mismuna þeim varðandi þjónustu vinnumiðlunar, eða gera aðrar kröfur, í tengslum við störf, svo sem varðandi búsetu um tiltekið árabil. Allt það sem felur í sér dulbúnar hindranir er ósamrýmanlegt ákvæðunum. Má nefna sem dæmi að gera hinum erlenda borgara að uppfylla kröfur, sem einungis er hægt að uppfylla með búsetu um árabil í viðkomandi landi. Aðrar hindranir, eins og það að gera hinum erlenda borgara erfiðara að fá húsnæði en innlendum eru einnig óheimilar.
    Óheimilt er að skattleggja tekjur hins erlenda borgara á annan hátt en innlendra. Aðild að verkalýðsfélögum skal standa hinum erlenda borgara til boða. Hann hefur sama rétt og innlendir til að gegna trúnaðarstörfum í verkalýðsfélögum.
    Forsenda allra þessara réttinda er að hinn erlendi borgari hafi raunverulega starf með höndum. Samningurinn kveður því fortakslaust á um það að frelsið felist m.a. í því að mega þiggja atvinnutilboð sem raunverulega eru gerð. Hafi tekist samningar við atvinnurekanda um starf í öðru ríki öðlast launþeginn rétt til þess að dveljast í viðkomandi landi í samræmi við þær reglur sem gilda um störf innlendra manna. Venjulega er gefið út skilríki til fimm ára í senn um rétt launþegans til dvalar í landinu. Hinum erlenda borgara er heimilt að koma til landsins með fullgilt vegabréf og leita sér að starfi í allt að þrjá mánuði. Hafi hann ekki fengið starf innan þess tíma, verður hann að fara úr landi. Hverju ríki er frjálst að beita því eftirliti við landamæri er þar tíðkast og enn fremur að fylgjast með því að erlendir borgarar hafi fengið dvalarleyfisskilríki.
    Skilyrði þess að fá útgefið dvalarleyfi er að viðkomandi leggi fram:
     1.      Skilríki er þeir höfðu við komu til landsins;
     2.      staðfestingu atvinnurekenda um ráðningu þess starfsmanns.
    Fjölskylda launþegans öðlast sama rétt til dvalar og launþeginn. Gildir það óháð því af hvaða þjóðerni maki er. Þannig á maki frá ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins rétt til að dveljast jafnlengi og launþeginn. Maki og börn eiga rétt til allrar félagslegrar þjónustu sem innlendir og aðgang að skólum og endurmenntunarnámi.
    Til að fjölskylda fái útgefin dvalarleyfisskilríki þarf hún að leggja fram:
     1.      Skilríki sem viðkomandi lögðu fram við komu til landsins;
     2.      staðfestingu sveitarstjórna í heimaríki um fjölskyldutengsl við starfsmann.
    Eftir að starfsævi lýkur öðlast launamaðurinn rétt á að dveljast áfram í viðkomandi ríki og hið sama gildir um fjölskyldu hans. Fjölskylduhugtakið nær til maka, barna og forfeðra. Skilyrði er að viðkomandi hafi dvalist í landinu síðustu 3 ár fyrir starfslok, þar af hafi starfsmaðurinn unnið a.m.k. 12 mánuði.
    Framangreint er einungis heimilt að takmarka með því að byggja það á allsherjarreglu, almannaöryggi og almannaheilbrigði. Eru það í reynd sömu reglur og hvert ríki hefur rétt á að beita gagnvart sérhverjum útlendingi. Er þar um að ræða reglur um öryggi ríkisins, hættulegar farsóttir og þess háttar.
    Framangreint á við um öll störf á almenna vinnumarkaðinum. Í samningnum er hins vegar tekið fram að þetta eigi ekki við um störf í opinberri þjónustu. Við gerð Rómarsamningsins mun hafa verið litið svo á, að öll störf í opinberri þjónustu væru undanskilin. Í gegnum árin hafa hins vegar gengið allmargir dómar er varða túlkun þessa ákvæðis. Af þeim verður ekki ráðið nákvæmlega hvaða störf falli undir opinbera þjónustu, en hins vegar má ráða af dómum EB-dómstólsins að til að starf teljist til opinberrar þjónustu þurfi það að fela í sér ákveðið trúnaðarsamband milli ríkisvaldsins og starfsmannsins. Honum sé falið að fara með ákveðið vald af hálfu hins opinbera, sem ekki er talið æskilegt frá sjónarmiði öryggishagsmuna að sé í höndum erlendra borgara. Störf sem í sumum ríkjum innan svæðisins eru í höndum einkaaðila, en annars staðar í höndum opinberra aðila, virðast almennt falla utan við þetta ákvæði. Af dæmum má ráða að eftirtalin störf falli ekki undir opinbera stjórnsýslu: Starfs­menn við póstþjónustu, lestarstjórar, hlaðmenn, ófaglærð störf tengd járnbrautum, hjúkrun­arfræðistörf við sjúkrahús, barnahjúkrunarfræðingar, næturverðir, pípulagningamenn, raf­virkjar, garðyrkja, arkitektar og verkstjórar hjá sveitarfélögum, kennaranemar í starfsþjálfun, rannsóknarmenn og tungumálakennarar við háskóla. Af þessu er ljóst að innihald starfans skiptir höfuðmáli, en ekki ráðningarform eða þess háttar.
    Með hverjum dómi sem kveðinn er upp skýrist þetta ákvæði betur. Ágreiningur hefur ver­ið um það innan Evrópubandalagsins hvort það sé á valdsviði EB að skilgreina hvað séu störf í opinberri þjónustu. Virðist litið svo á að það sé á valdi hvers ríkis að ákveða þetta. Hverju ríki er frjálst að gera kröfu um ríkisfang að skilyrði fyrir skipun í opinbera stöðu. Slíkt skilyrði er í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 38/1954. Um svip­að efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 04.12.1974, mál 41/74, Van Duyn, B 1974, bls. 1337)
(DEB, 19.03.1964, mál 75/63, Unger, B 1964, bls. 347)
(DEB, 15.10.1969, mál 15/69, Ugliola, B 1969, bls. 363)
(DEB, 13.12.1972, mál 44/72, Marsman, B 1972, bls. 1243)
(DEB, 11.04.1973, mál 76/72, Michel S., B 1973, bls. 457)
(DEB, 30.09.1975, mál 32/75, Cristini, B 1975, bls. 1058)
(DEB, 03.07.1986, mál 66/85, Lawrie-Blum, B 1986, bls. 2121)
(DEB, 12.02.1974, mál 152/73, Sotique, B 1974, bls. 153)
(DEB, 03.07.1974, mál 9/74, Casagrande, B 1974, bls. 744)
(DEB, 28.11.1974, mál 16/78, Choquet, B 1978, bls. 2293)
(DEB, 28.02.1975, mál 67/74, Bonsignore, B 1975, bls. 297)
(DEB, 27.10.1977, mál 30/77, Bouchereau, B 1977, bls. 1999)
(DEB. 16.06.1987, mál 225/85, Framkvæmdastjórnin gegn Ítalíu, B 1987, bls. 2625)
(DEB, 17.12.1980, mál 149/79, Framkvæmdastjórnin gegn Belgíu)
(DEB, 04.04.1974, mál 167/73, Framkvæmdastjórnin gegn Frakklandi, B 1974, bls. 359)

Um V. viðauka


     Frelsi launþega til flutninga

    Tilskipun ráðsins 64/221/EBE frá 25. febrúar 1964 um samræmingu á sérstökum ráðstöfunum er varða flutninga og búsetu erlendra ríkisborgara og réttlættar eru með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis (Stjtíð. EB nr. 56, 4.4.1964, bls. 850).
    Almenna reglan samkvæmt EB-rétti er sú að einstaklingar innan EB eiga rétt til að fara úr landi, dvelja, leita að atvinnu og hverfa á braut. Tilskipunin kveður á um hvenær hægt er að takmarka atvinnu- og búseturétt vegna allsherjarreglu, öryggis eða heilbrigðis. Tilskipun­in nær til ríkisborgara aðildarríkja og fjölskyldna þeirra, sem dvelja í eða ferðast til annars aðildarríkis til að taka að sér starf sem launþegar eða sjálfstætt starfandi eða til að inna af hendi eða njóta þjónustu.
    Takmörkun á rétti til útgáfu og endurnýjunar dvalarleyfis og brottvísunar má ekki byggjast á fjárhagsástæðum.
    Takmörkun vegna allsherjarreglu og öryggis verður að byggjast eingöngu á persónulegri hegðun viðkomandi. Brottvísun má ekki byggja á því að vegabréf eða kennivottorð sé útrunnið.
    Aðeins tilgreindir sjúkdómar eða fötlun réttlæta synjun á komu til lands eða útgáfu fyrsta dvalarleyfis. Sjúkdómar sem koma til eftir útgáfu fyrsta dvalarleyfis réttlæta ekki synjun á endurnýjun dvalarleyfis eða brottvísun.
    Með breytingartilskipunum 72/194/EBE og 75/35/EBE var tilskipunin einnig látin ná til launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga að loknum starfsferli.
    Framangreindar tilskipanir gera nauðsynlegt að breyta lögum nr. 45/1965 um eftirlit með útlendingum.
    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1612/68 frá 15. október 1968 um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins.
    Reglugerðin byggist á 48. og 49. gr. Rómarsamningsins. Reglugerðin er nánari útfærsla á markmiðum hans um frjálsan atvinnu- og búseturétt launþega og fjölskyldna þeirra og byggist á þeirri meginreglu að allir launþegar aðildarríkja hafi jafnan rétt til vinnu og tengdra félagslegra réttinda án tillits til þjóðernis.
    Launþegi og fjölskylda hans hefur m.a. sama rétt til skattaafsláttar, almannatrygginga, starfsmenntunar og endurmenntunar, aðildar að stéttarfélagi, rétt til húsnæðis, þar á meðal að kaupa það húsnæði sem hann þarf.
    Réttur til starfsmenntunar nær einnig til almenns aðgangs að framhaldsskólum og háskólum þó viðkomandi hafi ekki verið starfandi eða tilheyrt fjölskyldu launþega í viðkomandi landi.
    Setja má skilyrði um tungumálakunnáttu launþega ef starfið krefst þess. Frjáls atvinnu­réttur nær ekki til opinberra trúnaðarstarfa.
    Reglugerðin kveður á um samstarf vinnumiðlana í aðildarríkjunum og evrópskrar sam­ræmingarskrifstofu um dreifingu á upplýsingum um atvinnuástand og lausar stöður. Verði röskun á vinnumarkaði í einu aðildarríki sem gæti ógnað lífskjörum eða atvinnustigi á vissu svæði eða í tiltekinni atvinnugrein, á EB-aðildarríki að upplýsa framkvæmdastjórnina, en EFTA-ríki eftirlitsstofnun og fastanefnd EFTA, um ástandið. Fastanefnd EFTA ber þá að grípa til ráðstafana til að draga úr atvinnuumsóknum á því svæði.
    Tilskipun ráðsins 68/360/EBE frá 15. október 1968 um afnám takmarkana á flutningum og búsetu innan bandalagsins gagnvart launþegum og fjöldskyldum þeirra (Stjtíð. EB nr. L 257, 19.10.1968, bls. 13).
    Markmiðið með tilskipuninni er að afnema hömlur á tilflutningum og búsetu ríkisborgara samningsríkjanna og fjölskyldna þeirra. Tilskipunin kveður á um að ríkisborgarar aðildarríkjanna skuli hafa rétt til að fara úr landi í því skyni að hefja starf í öðru samn­ingsríki gegn framvísun vegabréfs eða kennivottorðs, án áritunar, en slíkur réttur gildir einungis fyrir ríkisborgara aðildarríkja. Réttur er til dvalarleyfis, einnig fyrir fjölskyldumeðlimi sem eru ekki ríkisborgarar samningsaðila. Dvalarleyfi skal veitt til 5 ára og endurnýjað sjálfkrafa. Allt að 6 mánaða rof á dvöl breytir ekki gildi leyfis. Ef um skammtímaráðningu er að ræða má gefa út leyfi til samningstímans. Dvalarleyfi verður ekki afturkallað þótt vinnu ljúki, hvort heldur er vegna veikinda eða atvinnuleysis eða gegn eigin vilja. Viðurkenna skal dvalarrétt þeirra sem taka að sér starf sem ekki er áætlað að standi lengur en í 3 mánuði án sérstaks dvalarleyfis.
    Ákvæði tilskipunarinnar gilda með hliðstæðum hætti um þá sem eru sjálfstætt starfandi, eða ætla sér að láta í té þjónustu og þeirra sem ætla að njóta þjónustu í öðru ríki (tilskipun 73/148/EBE frá 21. maí 1973).
    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1251/70 frá 29. júní 1970 um rétt launþega til að dveljast áfram á yfirráðasvæði aðildarríkis eftir að hafa gegnt starfi í því ríki (Stjtíð. EB nr. L 142, 30.6.1970, bls. 24).
    Reglugerðin tekur til launþega og fjölskyldna þeirra sem starfað hafa í aðildarríki EB skv. 10. gr. reglugerðar (EB) nr. 1612/68.
    Rétt til áframhaldandi dvalarleyfis í aðildarríki á:
     c.      Launþegi sem náð hefur ellilífeyrisaldri þegar hann lætur af starfi og hefur haft þar vinnu í a.m.k. 12 mánuði og búið þar samfellt í meira en 3 ár.
     d.      Launþegi sem hættir störfum vegna varanlegs óhæfis til vinnu og búið hefur í viðkomandi aðildarríki í a.m.k. 2 ár samfellt. Ekki skal þó gerð krafa um tímalengd búsetu ef óhæfi til vinnu stafar af vinnuslysi eða atvinnusjúkdómi sem veitir rétt til lífeyris að hluta til eða að öllu leyti frá stofnun í því ríki.
     e.      Launþegi sem eftir þriggja ára samfellda vinnu og búsetu í því ríki starfar í öðru ríki en heldur heimili í fyrra ríkinu og hverfur þangað að jafnaði daglega eða a.m.k. einu sinni í viku.
    Ákvæðin í a- og b-lið um tímalengd vinnu eða búsetu eiga ekki við ef maki launþegans er ríkisborgari viðkomandi ríkis eða hefur misst hann við að giftast launþeganum. Ákvæði eru um rétt fjölskyldunnar.
    Ákvæði reglugerðarinnar gilda með hliðstæðum hætti um þá sem tilskipun 73/148/EBE tekur til, þ.e. til sjálfstætt starfandi fólks sem látið hefur af starfi, sbr. tilskipun 75/34/EBE frá 17. desember 1974.
    Tilskipun ráðsins 72/194/EBE frá 18. maí 1972 um útfærslu gildissviðs tilskipunar 64/221/EBE frá 25. febrúar 1964, um samræmingu á sérstökum ráðstöfunum er varða flutninga og búsetu erlendra ríkisborgara og réttlættar eru með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis og almannaheilbrigðis, svo að það nái einnig til launþega sem neyta réttarins til að dveljast áfram í aðildarríki eftir að hafa verið þar við störf (Stjtíð. EB nr. L 121, 26.5.1972, bls. 32).
    Tilskipunin kveður á um að ferðafrelsi og búseturéttur þeirra aðila sem eiga rétt til áframhaldandi dvalar í aðildarríki eftir að hafa starfað í því verði eingöngu takmarkaður á grundvelli aðgerða sem byggðar eru á allsherjarreglu, öryggis- eða heilbrigðissjónarmiðum.
    Tilskipun ráðsins 77/486/EBE frá 25. júlí 1977 um menntun barna farandlaunþega (Stjtíð. EB nr. L 199, 6.8.1977, bls. 32).
    Tilskipun þessi kveður á um að stjórnvöld skuli gera viðeigandi ráðstafanir til þess að börn farandlaunþega fái kennslu í tungumáli gistiríkis og í samvinnu við upprunaríkin efla kennslu barnanna í móðurmáli sínu. Þetta skal fara fram í samræmi við þær reglur og þær aðstæður sem gilda í hverju ríki.

Um bókun 15
Aðlögunartímabil vegna frjálsra fólksflutninga
(Sviss og Liechtenstein)

    Bókun 15 kveður á um aðlögunartíma varðandi frjálsan atvinnu- og búseturétt ríkisborgara aðildarríkja EB og EFTA í Sviss og Svisslendinga í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjum fram til 1. janúar 1998. Ríkjunum verður frjálst að halda gildandi lögum gagnvart þeim fram til þess tíma.
    Sviss verður heimilt að beita fjöldatakmörkunum vegna nýrra íbúa og farandverkamanna fram til 1. janúar 1998 og jafnframt takmörkunum á því að árstíðabundið vinnuafl geti flutt sig á milli greina eða svæða.
    Frá 1. janúar 1993 verða tímabundnir ráðningarsamningar framlengdir sjálfkrafa. Þá er m.a. kveðið á um það að Sviss geti viðhaldið takmörkunum varðandi þá sem fara yfir landa­mæri til vinnu, þó lengst til 1. janúar 1998.
    Svipuð ákvæði gilda um Liechtenstein að öðru leyti en því að 10., 11. og 12. gr. reglu­gerðar (EBE) nr. 1612/68 gilda um farandverkamenn í Sviss frá 1. janúar 1997 en um þá sem hafa lögheimili í Liechtenstein munu aðilar sameiginlega fara yfir þetta svið þar sem tekið verði sérstaklega tillit til hinnar sérstöku landfræðilegu stöðu Liechtensteins.

Um 29. gr.


    Ein forsenda þess að fólk geti flutt milli landa í atvinnuskyni er sú að flutningurinn hafi ekki í för með sér missi réttinda til almannatrygginga. Rómarsamningurinn hefur því að geyma ákvæði í 51. gr sem á að tryggja það að launþegi eða einstaklingur sem starfar sjálf­stætt og kýs að vinna og dveljast í öðru aðildarríki en heimaríkinu missi í engu almanna­tryggingaréttindi vegna flutningsins milli landa. Tvær reglugerðir um almannatryggingar hafa og verið settar hjá EB sem lýsa nánar reglum á þessu sviði. Þetta er reglugerð (EBE) nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja og reglugerð (EBE) nr. 574/72 um framkvæmd reglugerðar (EBE) nr. 1408/71.
    Reglum EB á sviði almannatrygginga er ætlað að tryggja samræmda og samfellda beitingu löggjafar aðildarríkjanna á sviði almannatrygginga gagnvart launþegum og sjálfstætt starf­andi atvinnurekendum sem skipta um vinnustað eða dvalarstað innan EB. Þær koma ekki í veg fyrir að reglur EB-ríkjanna á sviði almannatrygginga séu ólíkar bæði að formi og efni þannig að réttindi launþega og sjálfstæðra atvinnurekenda geta verið mismunandi eftir því hvar þeir starfa.
    Í EES-samningnum er gert ráð fyrir að reglur EB á sviði almannatrygginga verði jafnframt reglur EES-svæðisins. Í 29. gr. EES-samningsins er því að finna ákvæði sam­bærilegt við 51. gr. Rómarsamningsins. Í VI. viðauka við samninginn er síðan að finna nánari útfærslu einstakra EFTA-ríkja vegna aðlögunar þeirra að fyrrnefndum reglugerðum EB á sviði almannatrygginga.
    Í 29. gr. felast tvær af fjórum meginreglum Evrópubandalagsins á sviði almannatrygginga, annars vegar samlagningarreglan og hins vegar útflutningsreglan.
    Samlagningarreglan tryggir að launþegar og einstaklingar sem starfa sjálfstætt missa í engu áunnin réttindi eða réttindi sem þeir eru um það bil að ávinna sér þó svo að þeir flytjist til eða hefji störf í öðru samningsríki. Í samlagningarreglunni felst að ef löggjöf lands hefur t.d. að geyma ákvæði um það að launþegi skuli hafa verið tryggður eða starfað í ákveðinn tíma áður en hann öðlast rétt til bóta þá skal við ákvörðunina um það hvort skilyrði þessu sé fullnægt taka tillit til þess að launþeginn hefur verið tryggður eða unnið í öðru samn­ingsríki. Þetta þýðir að tryggingatímabil, starfstímabil og búsetutímabil sem áunnin eru sam­kvæmt löggjöf annars aðildarríkis skal telja með eins og þau væru áunnin samkvæmt löggjöf viðkomandi lands.
    Útflutningsreglan hefur í för með sér að almannatryggingabætur skal greiða hvarvetna innan EES-svæðisins. Reglunni er þannig ætlað að tryggja hinn tryggða gegn tekjutapi eingöngu af þeirri ástæðu að hann kýs að flytja frá því landi þar sem hann á rétt á bótunum. Útflutningsreglan er mismunandi eftir því hvort um er að ræða útflutning á peningabótum, svo sem dagpeningum eða lífeyri eða sjúkrahjálp, s.s. læknishjálp eða sjúkrahúsdvöl. Um sjúkrahjálpina gildir sú meginregla að hún er greidd í samræmi við löggjöf þess ríkis sem bótaþeginn býr í eða dvelst í án tillits til þess hvort hann heyri undir löggjöf þess ríkis. Útflutningurinn felst í því að stofnun í því landi þar sem bótaþeginn telst tryggður í skal endurgreiða stofnun í dvalarlandinu þann kostnað sem hún hafði af sjúkrahjálpinni við bótaþegann. Um peningagreiðslur gildir sú regla að þær eru inntar af hendi í samræmi við löggjöf þess lands þar sem viðkomandi telst tryggður. Peningagreiðslurnar á að greiða honum án tillits til þess hvort hann búi í öðru samningsríki. Tvennt kemur til greina varðandi peningasendinguna, annaðhvort er hægt að senda viðkomandi peningana beint eða í gegnum stofnun í því ríki þar sem hann býr.
    Aðrar meginreglur almannatrygginga hjá Evrópubandalaginu sem verða reglur EES sam­kvæmt samningnum eru jafnræðisreglan og pro rata temporis reglan. Jafnræðisreglan byggist á 7. gr. Rómarsamningsins og 1. mgr. 3. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1408/71. Í jafnræðisreglunni felst að launþegar og einstaklingar sem starfa sjálfstætt munu að því er varðar aðgang þeirra að almannatryggingabótum og greiðslu þeirra standa jafnfætis ríkis­borgurum viðkomandi ríkis. Af þessu leiðir að ef almannatryggingalöggjöf viðkomandi lands hefur að geyma skilyrði um ríkisborgararétt, má ekki beita þessu skilyrði gagnvart þeim sem heyra undir reglur EES um almannatryggingar. Pro rata temporis reglan tryggir bótaþega hlutfallsgreiðslu ef hann, vegna breytinga á vinnustað, hefur ekki náð því að vinna sér inn nægileg réttindi til að fá fullar bætur. Reglan er ekki almenn að því leyti að henni er ekki beitt um allar bótagreiðslur. Beiting reglunnar er takmörkuð við greiðslur sem byggja á söfnun réttinda þ.e. lífeyrisgreiðslur, og í ákveðnum tilvikum bætur samkvæmt löggjöf um slysatryggingu vegna atvinnusjúkdóma. Ef lífeyrir er greiddur samkvæmt pro rata temporis reglunni þá hefur það í för með sér að greiddur lífeyrir er í hlutfalli af tryggingatímabili eða búsetutímabili viðkomandi í samningsríkinu. Um svipað efni fjallar eftirfarandi dómur EB-dómstólsins:
(DEB, 21.10.1975, mál 24/75, Petroni, B 1975, bls. 1161)


Um VI. viðauka


     Félagslegt öryggi

     Vísað er til ahugasemda við 29. gr.

Um bókun 16
    Ráðstafanir á sviði félagslegs öryggis varðandi aðlögunartímabil
vegna frjálsra fólksflutninga (Sviss og Liechtenstein)

    Mikill fjöldi Spánverja og Portúgala en þó einkum Ítala hefur stundað árstíðabundin störf í Sviss. Því hefur reynst nauðsynlegt að setja sérstök tímabundin ákvæði um réttindi þeirra á aðlögunartímabili.
    Í bókuninni er kveðið á um aðlögunartímabil fyrir beitingu almannatrygginga- reglugerðar (EBE) nr. 1408/71 að því er varðar launþega sem vinna árstíðabundin störf. Á aðlögunar­tímanum á farandverkamaður rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt löggjöf Sviss og Liechtensteins á sama hátt og innlendir. Sérreglur gilda um endurgreiðslur atvinnuleysis­iðgjalda.
    Jafnframt er tekið fram að nokkrir tvíhliða samningar sem Sviss hefur gert um atvinnu­leysisbætur skuli gilda út aðlögunartímann.
    Gildistími þessarar bókunar er hinn sami og bókunar nr. 15.

Um 30. gr.


    Mikið starf hefur verið unnið á undanförnum áratugum innan Evrópubandalagsins til að ryðja úr vegi þeirri hindrun að próf og starfsréttindi fólks fáist ekki viðurkennd. Í samningn­um er kveðið á um, til að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja starfsemi, að gerðar skuli nauðsynlegar ráðstafanir varðandi gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur menntun ákveðinna heilbrigðisstétta verið samræmd. Fyrirliggjandi eru tilskipanir sem tryggja læknum, hjúkrunarfræðingum, lyfjafræðingum, ljósmæðrum, tann­læknum og dýralæknum rétt á viðurkenningu menntunar sinnar í hverju einstöku aðildarríki. Með þessum samningi njóta þessar heilbrigðisstéttir viðurkenningar hvar sem er á efnahags­svæðinu.

Um VII. viðauka


     Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi

    Í viðaukanum er að finna tilskipun um lögfræðinga, sem felur þó ekki í sér gagnkvæma viðurkenningu prófa. Hún felur í sér viðurkenningu á starfsheiti, en unnt er að skilyrða lögfræðistörf við það að þau fari fram í samvinnu við innlenda lögmenn. Arkitektatilskipunin byggist ekki á samræmdu námi, heldur á lista yfir þau próf sem menn þurfa að hafa til að eiga rétt á viðurkenningu sem arkitektar.
    Á sviði verslunar er í viðaukanum tilskipanir um milliliði í verslun eins og smásala, heildsala, umboðssala og farandsala. Sérstakar tilskipanir eru um handverk og iðnað. Á þessum sviðum eru menntunarkröfur afar mismunandi í aðildarríkjum samningsins. Í sumum löndum er einungis krafist starfsreynslu um tiltekið árabil, en ekki formlegra prófa. Gert er ráð fyrir að iðnmeistari, sem hefur full réttindi í heimalandi sínu, geti fengið réttindi sín viðurkennd í öðru ríki, ef hann hefur starfað sex ár sjálfstætt. Sömu kröfur varðandi tryggingar og aðrar þær kröfur sem gerðar eru til borgara viðkomandi ríkis mundu gilda um stofnsetningu fyrirtækis.
    Tilskipanir eru um ýmiss konar starfsemi tengda flutningum, svo sem flutningamiðlun, ferðaskrifstofurekstur og skipamiðlun. Ef um er að ræða svið þar sem krafist er viðurkenningar hérlendis getur sjálfstætt starf um tiltekið árabil gefið fólki rétt á að fá viðurkenningu. Hinn erlendi borgari byggi eftirleiðis við nákvæmlega sömu kröfur og gerðar eru til innlendra rekstraraðila.
    Tilskipanir á sviði landbúnaðar heimila borgurum frá öðru aðildarríki svæðisins að gerast sjálfstæðir bændur hafi þeir unnið sem landbúnaðarverkamenn um tiltekið árabil. Enn fremur er erlendum bændum heimilað að taka við jörðum sem hafa verið í eyði um tveggja ára skeið, með þeim skilyrðum sem viðkomandi landslög kveða á um.
    Tilskipanir um prófaviðurkenningar eru aðlagaðar í viðaukanum að prófgráðum í EFTA-ríkjum. Með hliðsjón af þeim fjölda Íslendinga sem lýkur háskólanámi eða framhalds­námi utan Evrópu gáfu samningsaðilarnir út sameiginlega yfirlýsingu við samninginn þar sem mælst er til þess að próf sem Íslendingar hafa lokið í ríkjum utan Evrópska efnahags­svæðisins séu viðurkennd, hafi þau hlotið viðurkenningu íslenskra stjórnvalda.
    Þróunin innan Evrópubandalagsins hefur leitt í ljós að afar flókið og tímafrekt er að sam­ræma menntunarkröfur. Var því valin sú leið að semja almenna tilskipun um viðurkenningu á æðra námi sem tæki a.m.k. þrjú ár.
    Nær hún til þeirra starfa er krefjast löggildingar og byggjast á að minnsta kosti þriggja ára háskólanámi. Hún mundi hins vegar ekki hrófla við eldri tilskipunum sem ná til einstaka starfsgreina þar sem krafist er æðri menntunar. Gert er ráð fyrir að hverju ríki fyrir sig verði falið að yfirfara umsóknir um viðurkenningu á æðra námi og kanna hvort menntun viðkomandi sé sambærileg við það sem krafist er af innlendum aðilum til að fá löggildingu. Skorti þar eitthvað á yrði að gefa hinum erlenda borgara kost á að þreyta próf eða bæta við sig námi, ef nám er verulega styttra en í gistiríki. Aldrei mætti þó krefjast meira en þriggja ára viðbótarnáms eða starfsþjálfunar. Stjórnvöld gætu því aðeins fyrirskipað hvor leiðin sé farin, ef um er að ræða löggildingu til starfa sem krefjast mikillar þekkingar á innlendum lögum og reglum. Gert er ráð fyrir að afgreiðsla mála taki aðeins þrjár vikur, þannig að hinir erlendu borgarar þurfi ekki að velkjast í vafa um stöðu sína. Með þessari tilskipun er stefnt að því að ekki þurfi eftirleiðis að semja tilskipanir um einstök störf er njóta löggildingar. Samsvarandi almenn tilskipun um iðnnám er í undirbúningi.
    Að lokum skal getið um tilskipanir á þessu sviði varðandi kvikmyndaiðnaðinn.
    Tilskipun um framkvæmd á ákvæðum hinnar almennu áætlunar um afnám hafta á rétti til að veita þjónustu að því er varðar kvikmyndaiðnaðinn, 63/607/EBE frá 15. október 1963, fjallar m.a. um skilgreiningar hugtaka, hvenær kvikmynd telst hafa þjóðerni aðildarríkis og bann við takmörkunum á innflutningi, dreifingu og nýtingu á tilteknum tegundum kvikmynda.
    Tilskipun um framkvæmd á ákvæðum hinnar almennu áætlunar um afnám hafta á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu á sviði kvikmyndaiðnaðar, 65/264/EBE frá 13. maí 1965, fjallar um afnám hafta á kvikmyndasviðinu.
    Tilskipun ráðsins um hvernig koma skuli á staðfesturétti sjálfstætt starfandi einstaklinga að því er varðar starfsemi á sviði kvikmyndadreifingar, 68/369/EBE frá 15. október 1969.
    Framangreindar reglur um frjálsan atvinnu- og búseturétt gera ríkisborgara frá EES-ríkjum í reynd jafnsetta og norrænir ríkisborgarar samkvæmt samningi um norrænan vinnumarkað frá 1982. Þau ganga lengra að því leyti að mun betur er tryggt að borgarar þessara ríkja fái starfsréttindi sín viðurkennd. Hvað almannatryggingar áhrærir er staðan sú sama og nú gildir fyrir norræna borgara. Áfram munu hins vegar gilda þær verulegu takmar­kanir sem eru á atvinnuþátttöku annarra erlendra borgara á Íslandi.

Um 2. kafla


Staðfesturéttur


    Orðið „staðfesturéttur“ er nýyrði og er þýðing á enska hugtakinu „right of establishment“ eða norræna hugtakinu „etableringsfrihet“ (stofnsetningarréttur, atvinnurekstrarréttur). Um staðfesturétt er fjallað í þessum kafla.

Um 31. gr.


    Samkvæmt ákvæðum greinarinnar, sem svarar til 52. gr. Rómarsamningsins, skulu ekki vera hömlur á rétti borgara aðildarríkjanna til að setjast að og stofna til atvinnurekstrar hvar sem er á EES-svæðinu. Þetta gildir einnig um stofnsetningu umboðsskrifstofa, útibúa eða dótturfyrirtækja. Staðfesturrétturinn felur í sér rétt til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi eftir sömu reglum og gilda að landslögum um borgara eða lögaðila þess ríkis, þar sem staðfestan er fengin. Frá þessu er þó undanþága í EES-samningnum að því er varðar starfsemi á sviði fiskveiða og fiskvinnslu á Íslandi.
    Atvinnu- og búsetufrelsi nær til einstaklinga sem í krafti löggildingar öðlast rétt til að starfa sjálfstætt. Engar hömlur eða hindranir má leggja á starfsemi þeirra, umfram það sem gert er við starfsemi innlendra aðila. Hins vegar er það skilyrði sett, að viðkomandi borgarar frá öðrum ríkjum EES-svæðisins hafi hlotið löggildingu þar til bærra íslenskra stjórnvalda. Um svipað efni fjallar eftirfarandi dómur EB-dómstólsins:
(DEB, 21.06.1974, mál 2/74, Reyners, B 1974, bls. 631)

Um VIII. viðauka

Staðfesturéttur


    Hér er að finna nánari ákvæði um staðfesturétt. Í 8. tölul. er vísað í tilskipun ráðsins 90/366/EBE frá 28. júní 1990 um búseturétt námsmanna og í 9. tölul. er tekið fram að Íslandi sé heimilt að beita áfram höftum á sviði sjávarútvegs og fiskvinnslu, sem eru í gildi við undirritun samningsins. Þetta ákvæði yrði lögfest með frumvarpinu.
    Ýmis atriði í IX.–XI. viðauka snerta staðfesturétt, en jafnframt frelsi til að veita þjónustu og verður fjallað nánar um viðaukana í framhaldi af umfjöllun um 36. gr. samningsins.

Um 32. gr.


    Í greininni, sem samsvarar 55. gr. Rómarsamningsins, segir að ákvæði kaflans um staðfesturétt gildi ekki um starfsemi sem fellur undir meðferð opinbers valds, jafnvel þótt svo sé aðeins í einstökum tilvikum. Hér er átt við störf ýmissa opinberra embættis- og sýslunarmanna, sem eftir sem áður verður unnt að binda við ríkisborgara eina.

Um 33. gr.

    Hér er um að ræða frekari undantekningu frá staðfesturétti, er byggist á sjónarmiðum um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði. Í tilskipun 64/221/EBE er að finna nánari reglur um þær takmarkanir á staðfesturétti, sem byggst geta á greininni, og miðast til­skipunin við að samræma ólík ákvæði í löggjöf einstakra landa. Kemur þar fram að aðgerðir verða að miðast við tiltekna háttsemi erlendra ríkisborgara í landinu og mega ekki byggjast á aðstæðum, sem ekki eiga við í því tilviki sem til umfjöllunar er.

Um 34. gr.


    Af þessari grein samningsins leiðir að ríki innan EES skuldbinda sig til þess að gefa fyrirtækjum frá öðrum ríkjum svæðisins sama rétt og innlendum fyrirtækjum eða það sem nefna mætti „landskjör“ („national treatment“ á enskri tungu).
    EES-samningurinn hefur í för með sér að aðildarríkin geta haldið áfram hömlum á staðfesturétti fyrir aðila sem koma frá ríkjum utan EES-svæðisins. Samkvæmt bókun 17 hafa aðildarríkin rétt til þess að grípa til aðgerða til þess að hindra að reglur, sem takmarka staðfesturéttinn eða aðgang að sameiginlega markaðnum verði sniðgengnar af hálfu lands utan EES með því að nýta aðstöðu á landsvæði annars EES-ríkis. Samkvæmt hinum almennu reglum samningsins ber þó að leitast við að samræma reglur um slíkar aðgerðir á öllu samn­ingssvæðinu.
    Í flestum EFTA-ríkjunum hafa gilt reglur, sem takmarka rétt útlendinga til staðfestu og til kaupa á fyrirtækjum eða fasteignum. Ríkin verða nú að breyta þessum reglum og er veittur sérstakur aðlögunartími til þess í samningnum, sbr. ákvæðin um frjálsa fjármagnsflutninga og ákvæði XII. viðauka. Gera þarf breytingar á lögum nr. 34 frá 25. mars 1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sbr. og lög nr. 23 frá 27. mars 1991 um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl.
    Að því er staðfesturéttinn sjálfan varðar þarf að fella út eins árs búsetuskilyrði í fjölmörgum lögum um atvinnuréttindi þegar í hlut eiga ríkisborgarar annarra EES-ríkja.

Um bókun 17


Varðandi 34. gr.

    Í framangreindri bókun 17 segir í 1. tölul. að ákvæði 34. gr. skuli ekki koma í veg fyrir að samningsaðilar setji löggjöf eða beiti neinum þeim ráðstöfunum sem varða aðgang þriðja lands að mörkuðum þeirra. Farið skuli með löggjöf á sviði sem samningurinn tekur til í sam­ræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í samningnum og beri samningsaðilum að kappkosta að starfa í samræmi við samsvarandi reglur EES.
    Þá segir í bókuninni að samningsaðilum beri í öllum öðrum tilvikum að upplýsa sameigin­legu EES-nefndina um ráðstafanirnar og leitast við, eftir því sem þörf krefur, að samþykkja ákvæði er tryggi að ráðstafanirnar séu ekki sniðgengnar á yfirráðasvæðum annarra samn­ingsaðila. Ef ekki tekst að koma að samkomulagi um slíkar reglur eða ákvæði, geti hlutaðeigandi samningsaðili gripið til ráðstafana sem nauðsynlegar kunna að reynast til að koma í veg fyrir að ráðstafanirnar séu sniðgengnar.

Um 35. gr.


    Í greininni er kveðið á um að ákvæði 30. gr. EES-samningsins gildi um málefni er falla undir staðfesturétt og vísast til athugasemda við þá grein.

Um 3. kafla


Þjónusta


Um 36. grein


    Frjáls viðskipti með þjónustu eru eitt af fjórfrelsum EES-samningsins á sama hátt og í Rómarsamningnum. Um þetta er fjallað í 36. gr. samningsins, sem svarar til 59. gr. Rómarsamningsins. Í IX.–XI. viðauka er að finna nánari ákvæði um útfærslu frjálsra þjónustuviðskipta á EES-svæðinu og um aðlögunartíma einstakra ríkja að tilteknum breyt­ingum.
    Með þjónustu er átt við þjónustu á sviði iðnaðar eða verslunar eða ýmiss konar handiðnað og þjónustu sjálfstætt starfandi sérfræðinga, sem veitt er gegn greiðslu. Þetta hefur í för með sér að ýmiss konar opinber þjónusta fellur utan gildissviðs EES-samningsins. Samningurinn hefur ekki að geyma tæmandi upptalningu á þeirri þjónustu sem ákvæði hans ná til en eins og áður segir er hér um meginreglu að ræða sem gildir nema annað sé sérstaklega tekið fram.
    Frjáls þjónustuviðskipti og fjármagnshreyfingar eru ekki þáttur í gildandi fríverslunarsamningum Íslands við Vestur-Evrópuríkin og EES-samningurinn markar tímamót í efnahagssamvinnu EFTA-ríkjanna innbyrðis og við aðrar þjóðir. Með því að setja sameiginlegar reglur um frjáls þjónustuviðskipti og frelsi í fjármagnshreyfingum er stefnt að því að auka skilvirkni og lækka kostnað þeirra sem kaupa þjónustu á sviði flutninga, fjármálastofnana og á fleiri sviðum, að bæta nýtingu fjármagns og að skapa sambærileg sam­keppnisskilyrði fyrir þjónustuviðskipti og um fjármagnshreyfingar jafnframt því sem tekið sé tillit til sameiginlegra hagsmuna varðandi umhverfisvernd, öryggi og neytendavernd.
    Frelsi í fjármagnshreyfingum, óheftir greiðslustraumar og afnám mismununar í staðfestu­rétti og fyrirtækjarekstri eru grundvöllur sameiginlegs markaðar með fjármálaþjónustu í EB-ríkjunum. Nánari ákvæði um framkvæmd sameiginlegs markaðar á þessu sviði er ekki að finna í Rómarsamningnum, en með heimild í 2. mgr. 54. gr. hans hefur Evrópubandalagið gefið út allmargar tilskipanir sem leggja grunn að skipan fjármálaþjónustu í bandalaginu. Þær byggjast á þremur meginreglum. Í fyrsta lagi á einu starfsleyfi, í öðru lagi á eftirliti heimaríkis og í þriðja lagi á lágmarkssamræmingu löggjafar aðildarríkjanna svo að unnt sé veita gagnkvæma viðurkenningu á stofnunum og starfsemi. Tilskipanirnar sem hér um ræðir hafa í öllum meginatriðum verið teknar upp í EES-samninginn og verður því að breyta íslenskri löggjöf um fjármálaþjónustu til samræmis við þær.
    Meginreglan um „eitt starfsleyfi“ merkir að starfsleyfi eða löggilding, sem fjármálafyrir­tæki fær í því ríki, sem það hefur aðalstöðvar í, skal gilda hvarvetna innan EES-svæðisins. Fyrirtækið getur án hindrana selt þjónustu sína frá heimalandi yfir landamæri milli aðildarríkjanna og það getur jafnframt sett á fót útibú í öðrum aðildarríkjum.
    Meginreglan um „eftirlit heimaríkis“ merkir að það eru eftirlitsstofnanir þess ríkis, sem fjármálafyrirtækið hefur aðalstöðvar í, sem fylgjast skulu með því að fyrirtækið standist allar lögskyldar kröfur og að starfsemi þess sé með eðlilegum hætti. Þessar stofnanir skulu einnig fylgjast með útibúum fyrirtækisins í öðrum aðildarríkjum. Þannig yrðu það bankaeftirlit Seðlabanka Íslands eða Tryggingaeftirlitið sem hafa eftirlit með íslenskum bönkum og vátryggingafélögum og útibúum þeirra erlendis.
    Skipanin um eitt starfsleyfi og eftirlit heimaríkis byggist á því að hvert aðildarríki viðurkenni reglur annarra aðildarríkja um fjármagnshreyfingar og rekstur fjármálafyrirtækja og að opinbert eftirlit heimaríkis sé nægilegt til þess að tryggja að allt sé með felldu í rekstri fjármálastofnana þess á erlendri grundu. Því hafa tilskipanir EB beinst að því að setja lágmarkskröfur um samræmingu starfsreglna fyrir banka og aðrar lánastofnanir, vátryggingafélög og verðbréfafyrirtæki. Og í því skyni að forðast árekstra á hinum sam­ræmdu mörkuðum hafa verið settar verklagsreglur fyrir stjórnsýslulega samvinnu eftirlitsstofnana aðildarríkjanna.

Um IX. viðauka


Fjármálaþjónusta

Þjónusta á sviði vátryggingastarfsemi
    Í viðaukanum er fyrst fjallað um vátryggingastarfsemi, en hún fellur bæði undir staðfesturétt og rétt til að selja þjónustu yfir landamærin milli EB-ríkjanna. Markmið EB er að neytendur geti keypt sér þá vátryggingu sem þeim hentar best og þar sem þeim líkar þjónustan best í ríkjum EB. Vátryggingafélög geti því boðið þjónustu sína hvar sem er á svæðinu og ekki megi koma í veg fyrir það með ákvæðum í lögum einstakra ríkja. Sam­ræmingarreglur EB um vátryggingastarfsemi eru hluti af reglum EES og skal hér getið þeirra helstu.
    Staðfesturéttur til vátryggingastarfsemi var lögfestur á áttunda áratugnum með svokallaðri staðfestutilskipun. Í fyrstu tilskipuninni um skaðatryggingar ( 73/239/EBE) frá árinu 1973 og í fyrstu tilskipuninni um líftryggingar ( 79/267/EBE) frá 1979 er mælt fyrir um að aðildarríkin skuli setja starfsleyfi sem skilyrði fyrir rekstri vátryggingastarfsemi. Í báðum tilskipununum var lýst þeim reglum sem gilda ættu og hvaða skilyrði skyldi setja fyrir stofnun útibús vátryggingafélags með aðalstöðvar í öðru EB-ríki. Í þessum tilskipunum var líka að finna ákvæði er miða að því að tryggja að fjárhagur vátryggingafélaga sé fullnægj­andi sterkur miðað við þau viðskipti sem viðskiptavinum standa til boða. Í annarri tilskipun­inni um skaðavátryggingar, sem samþykkt var á árinu 1988 ( 88/357/EBE), er gerður greinarmunur á stóráhættu og annarri áhættu (þar á meðal fjöláhættu). Sala vátrygginga gegn stóráhættum er gefin frjáls á öllu EB-svæðinu með einu starfsleyfi og undir eftirliti heimalands, en hér er fyrst og fremst um að ræða flutninga-, sjóvá- og greiðslu- og efndavátryggingar, sem teknar eru af atvinnurekendum ásamt fasteigna- og ábyrgðartryggingum sem teknar eru af stórum fyrirtækjum. Eftirlit gistiríkis er þó ekki alveg fellt niður þótt það sé takmarkað og leyfisveitingin sé í höndum heimaríkis. Eftirlit gistiríkis skal fylgjast með starfseminni og gera athugasemdir þegar þörf krefur. Í vissum tilvikum getur eftirlit gistiríkis jafnvel bannað sölu stóráhættuvátrygginga í því ríki, en afturköllun starfsleyfis er hins vegar í höndum heimaríkis þegar um stóráhættu er að ræða.
    Fyrir sölu vátrygginga gegn fjöláhættu, en þar er m.a. átt við heimilistryggingar, bifreiða­vátryggingar og fleiri neytendavátryggingar, eru gerðar sérstakar kröfur um neytendavernd. Aðildarríkin hafa því rétt til þess að setja skilyrði um þjónustuviðskipti á því sviði yfir landamærin og að fella þau undir eftirlitsstarfsemi sína.
    Í nóvember 1990 var önnur tilskipunin um líftryggingar samþykkt ( 90/619/EBE). Hún fjallar bæði um tryggingasamninga við einstaklinga og um hóplíftryggingar. Meginreglurnar um eitt starfsleyfi og eftirlit heimaríkis eru teknar upp að því er varðar líftryggingar sem tryggingartaki tekur að eigin frumkvæði í öðru aðildarríki en hann er búsettur í. Ákvæði til­skipunarinnar um líftryggingar þegar um er að ræða töku líftrygginga að eigin frumkvæði tryggingartaka er nánast samhljóða annarri skaðavátryggingartilskipun að því er eftirlit gistiríkis varðar.
    Varðandi aðrar líftryggingar er talin þörf fyrir sérstaka neytendavernd og geta aðildar­ríkin því valið hvort þau vilja taka upp regluna um eftirlit heimaríkis eða hvort þau vilja áfram byggja á eigin starfsleyfi skv. samræmdum reglum fyrir slíkum þjónustuviðskiptum yfir landamæri sín.
    Í 4. gr. fyrstu tilskipunarinnar um skaðatryggingar ( 73/239/EBE) eru tiltekin vátrygginga­félög og stofnanir undanþeginr almennum ákvæðum hennar sökum lögbundinnar sérstöðu í aðildarríkjum EB. Í viðaukanum er bætt við nokkrum slíkum félögum í EFTA-ríkjum og eru þar á meðal Húsatryggingar Reykjavíkurborgar og Viðlagatrygging Íslands. Í kaflanum um líftryggingar er í c-lið veittur aðlögunarfrestur vegna smárra líftryggingafélaga, m.a. hér á landi, en hann skal endurskoðaður fyrir 1. janúar 1995. Aðlögunarfrestur er einnig veittur til 1. janúar 1995 fyrir smá skaðatryggingafélög í samþykktum vegna IX. viðauka. Hér er fyrst og fremst átt við bátaábyrgðarfélögin.
    Verið er að endurskoða íslenska löggjöf um vátryggingastarfsemi. Sérstök nefnd fjallar um endurskoðun laga nr. 50/1978 og er starf hennar langt komið. Flestar breytingartillögur nefndarinnar hefðu vafalaust komið fram án tillits til EES-samningsins, þar eð löggjöfin er komin til ára sinna og ekki nægilega ítarleg í ýmsum atriðum. En til viðbótar koma nokkur ákvæði, sem nauðsynlegt þykir að taka upp til samræmingar við löggjöf EB.
    Varðandi löggjöf á vátryggingasviði að öðru leyti skal þess getið, að fyrirhugað er að leggja fram frumvarp sem ná mun til breytinga á þeim sérlögum á sviði vátrygginga sem nauðsynlegt er að breyta til þess að þau samrýmist EES-samningnum.

Þjónusta banka og annarra lánastofnana
    Í fyrstu tilskipun EB um samræmingu bankareglna frá árinu 1977 ( 77/780/EBE) er mælt fyrir um að aðildarríki skuli ætíð krefjast starfsleyfis af lánastofnunum. Með lánastofnun er ekki einungis átt við banka heldur einnig stofnanir eða fyrirtæki sem taka á móti innlánsfé eða á annan hátt taka fé að láni frá almenningi og veita það að láni fyrir eigin reikning.
    Í því skyni að undirbúa jarðveginn fyrir hið endanlega markmið um eitt starfsleyfi voru á níunda áratugnum settar nokkrar reglur um lágmarkssamræmingu, þar á meðal tilskipun um uppsetningu ársreikninga og samstæðureikninga fyrir lánastofnanir, um höfuðstól þeirra og eiginfjárhlutfall.
    Í desember 1989 var svo sett önnur tilskipun EB um samræmingu bankareglna ( 89/646/EBE), sem skapa á grundvöll fyrir fullkominni samræmingu fjármagnsmarkaðarins með einu starfsleyfi og eftirliti heimalands. Lánastofnun á rétt á því í krafti starfsleyfis frá heimaríki að starfa í öðrum aðildarríkjum, annaðhvort með viðskiptum yfir landamæri eða frá útibúi, sem hún á rétt á að koma þar upp. Í fylgiskjali með tilskipuninni eru taldar upp ýmsar stofnanir sem reka fjármálaþjónustu á einn eða annan hátt og falla undir það. Allar þessar stofnanir skulu hafa starfsréttindi hvar sem er á svæðinu í krafti starfsleyfis síns, burtséð frá því hvort gistiríkið heimilar eigin lánastofnunum slíkan rekstur.
    Eftirlit heimalands nær yfir útibú innan EB-svæðisins en ekki til dótturfélaga. Þau eru að forminu til sjálfstæð fyrirtæki með starfsleyfi og undir eftirliti þess ríkis, sem þau eru stofnuð í. Í vissum tilvikum er þó litið á heildarsamstæðu fyrirtækja. Í tilskipun frá árinu 1983 er kveðið á um eftirlit með heildarsamstæðu fyrirtækja ( 1983/350/EBE), en þar segir að heimaríki lánastofnunar skuli krefjast samstæðuuppgjörs milli stofnunarinnar og annarra lána- og fjármálastofnana, sem lánastofnunin á verulegan hlut í.
    Enn eru ekki fyrir hendi bindandi reglur um innstæðutryggingu innan EB. Framkvæmda­stjórn EB gaf á árinu 1986 út meðmæli um innstæðutryggingu ( 87/63/EBE). Búist er við tillögu um nýja tilskipun um innstæðutryggingu á árinu 1992, en efni meðmælanna er hluti af EES-samningnum. Í júní árið 1991 var samþykkt tilskipun um „peningaþvott“, þ.e. starfsemi sem miðar að því að koma í löglega umferð ólöglega fengnu fé, svo sem afrakstri fíkniefnasölu o.fl. Tilskipunin ( 91/308/EBE) er einnig hluti af reglum EES.
    Í viðaukanum er m.a. tekið fram að byggingarsjóðir ríkisins séu undanþegnir ákvæðum reglnanna um lánastofnanir, og Íslendingar hafa aðlögunarfrest til þess að koma á ákvæðum fyrstu og annarrar bankatilskipunarinnar með síðari breytingum allt til 1. janúar 1995. Á aðlögunartímanum njóta íslenskar lánastofnanir ekki starfsréttar í öðrum EES-ríkjum fyrr en tilskipanirnar hafa komið alfarið til framkvæmda.
    Framangreind ákvæði kalla á ýmsar breytingar á íslenskri löggjöf um viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar fjármálastofnanir. Sérstakur starfshópur á vegum viðskiptaráðuneytisins, með þátttöku fulltrúa Seðlabankans og annarra fjármálastofnana, hefur umsjón með frumvörpum til þessara breytinga á lögunum.

Verðbréfaþing og verðbréf
    Markmið samræmingar á reglum um verðbréfaviðskipti innan EB er að koma á sameiginlegum verðbréfamarkaði þar sem ólíkir aðilar geta gefið út og átt viðskipti með verðbréf yfir landamæri um leið og fjárfestum í aðildarríkjunum er eftir samræmdum reglum veitt aukin vernd gegn misferli.
    Nokkrar tilskipanir á sviði kauphallarviðskipta hafa verið samþykktar. Í þeim eru settar lágmarkskröfur um ýmislegt sem tengist viðskiptum með verðbréf á markaðsþingi. Kjarna þeirra er að finna í þremur kauphallartilskipunum ( 79/279/EBE, 80/390/EBE og 82/121/EBE) sem innihalda ákvæði um þær kröfur sem gerðar eru til opinberrar skráningar verðbréfa í kauphöll eða á verðbréfaþingi, hvaða upplýsingar útboðslýsing verðbréfa skal hafa að geyma, skýrslugjöf til fjárfesta um hag fyrirtækja o.fl.
    Tilskipuninni um efni útboðslýsinga verðbréfa var fylgt eftir með tilskipun um gagnkvæma viðurkenningu þeirra ( 87/345/EBE og 90/211/EBE). Þar segir m.a. að útboðs­lýsing sem viðurkennd er af yfirvöldum í einu EB-ríki skuli einnig njóta viðurkenningar í hinum EB-ríkjunum. Mælt er fyrir um gagnkvæmni á gildi fleiri kauphallarskjala í tilskipun frá árinu 1990 ( 90/211/EBE) og má þar nefna umsóknargögn um skráningu í kauphöll. Til viðbótar má svo nefna svokallaða „flöggunartilskipun“ frá árinu 1988 ( 88/627/EBE) en hún mælir fyrir um að tilkynna skuli með ákveðnum hætti um kaup eða sölu hlutafjáreignar yfir tilteknum mörkum í hlutafélagi sem skráð er kauphöll.
    Svipaðar reglur og er að finna í áðurnefndum tilskipunum um útboðslýsingu skráðra verðbréfa er einnig að finna í tilskipun frá 1989 ( 89/298/EBE) um útboðslýsingu verðbréfa, sem ekki eru skráð í kauphöll eða á verðbréfaþingi en ætlunin er að selja almenningi.
    Ákvæði um verðbréfasjóði („UCITS“) er að finna í tveimur tilskipunum frá árinu 1985 ( 85/611/EBE og 85/612/EBE). Þær hafa að geyma ákvæði um lágmarkssamræmingu reglna varðandi fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum og byggjast þau á meginreglunum um eitt starfsleyfi og eftirlit heimaríkis. Tilskipunin um innherjaviðskipti ( 89/592/EBE) miðar að því að koma í veg fyrir að menn notfæri sér trúnaðarupplýsingar, sem þeir öðlast í starfi sínu, til þess að afla sér ágóða eða forðast tap í verðbréfaviðskiptum.
    EES-samningurinn nær ekki til EB-tilskipunar um starfsleyfi heimaríkis og eftirlit heimaríkis með fjárfestingarfélögum.
    Framangreindar tilskipanir munu leiða til talsverðra breytinga á íslenskri löggjöf um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði, en Íslendingar hafa aðlögunarfrest á nokkrum sviðum til 1. janúar 1995, enda er þróun verðbréfamarkaðar ekki komin jafnlangt hér á landi og í öðrum ríkjum EES.

Um X. viðauka


Hljóð- og myndmiðlunarþjónusta

    Tilskipun ráðsins frá 1989 ( 89/552/EBE) um samræmingu reglna um sjónvarpssendingar yfir landamæri er byggð á markaðssamræmingu og miðar m.a. að því að styrkja markaðsstarf fyrir vöru- og þjónustuviðskipti á hinum sameiginlega innra markaði.
    Í tilskipuninni eru sett markmið um að auka hlut evrópsks efnis í sjónvarpssendingum frá aðildarríkjunum og samvinnu framleiðenda slíks efnis í ríkjunum. Þá hefur tilskipunin að geyma reglur um að nýjar kvikmyndir skuli ekki sýndar í sjónvarpi fyrr en tiltekinn tími er liðinn frá frumsýningu þeirra nema öðruvísi sé um samið milli rétthafa og sjónvarpsstöðvar, reglur um hvernig auglýsingar séu birtar í sjónvarpi og siðareglur um auglýsingar í sjónvarpi. Samkvæmt tilskipuninni skulu tóbaksauglýsingar bannaðar í sjónvarpi og hömlur settar á áfengisauglýsingar, sem þó eru ekki bannaðar með öllu.
    Í EES-samningaviðræðunum var tekist á um síðastnefnda atriðið og varð niðurstaðan sú, sem greinir í b-lið 1. tölul. X. viðaukans, þar sem segir að EFTA-ríkjunum sé í sjálfsvald sett hvort þau geri kapalfyrirtækjum, sem starfa á yfirráðasvæði þeirra, skylt að rugla eða á annan hátt trufla innskotsauglýsingar fyrir áfenga drykki. Þessi undanþága hefur ekki áhrif á takmarkanir á endurvarpi á hluta sjónvarpsefnis, öðru en innskotsauglýsingum fyrir áfenga drykki. Samningsaðilar munu endurskoða þessa undanþágu sameiginlega árið 1995, en þess skal getið að vaxandi raddir eru uppi í EB-ríkjunum um algert bann við áfengisauglýsingum í sjónvarpi.
    Á vegum Evrópuráðsins hefur verið saminn sáttmáli um sjónvarpssendingar yfir landa­mæri. Hann var undirritaður af fyrstu aðildarríkjunum á árinu 1989 og reiknað hefur verið með að hann geti öðlast gildi á árinu 1992. Íslendingar hafa ekki undirritað sáttmálann.
    Samræmi er á milli sáttmálans og tilskipunarinnar í mörgum atriðum, t.d. varðandi auglýsingar og þátttöku utanaðkomandi aðila í kostnaði við sjónvarpsþætti. Sáttmálinn byggist þó meira á menningarlegum en viðskiptalegum sjónarmiðum, en þar er m.a. heimilað að þurrka út áfengisauglýsingar við beint endurvarp efnis um kapalkerfi.
    Íslendingar hafa haft sérstöðu bæði varðandi tilskipunina og sáttmálann sökum þýðingarskyldu á beinni endurútsendingu sjónvarpsefnis. Ekkert er því til fyrirstöðu að krefjast þýðingarskyldu á venjulegri útsendingu efnis frá íslenskum sjónvarpsstöðvum eða í kapalkerfum, en þegar um er að ræða beint endurvarp erlends efnis, sem t.d. er móttekið frá útsendingu útvarpshnattar og samtímis endurvarpað um þráð eða þráðlaust, er ekki hægt að krefjast samtímis þýðingar yfir á íslensku.
    Tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjum um sjónvarpsrekstur fjallar um reglur um sjónvarpsdreifingu innan bandalagsins. Í tilskipuninni segir m.a. að:
     1.      Leitast skuli við að styrkja hinn sameiginlega markað framleiðslu og dreifingar á sjónvarpsefni með því m.a. að aðildarríki leitist við að helmingur dagskrárefnis sé evrópskur og að sjónvarpsstöðvar skuli leitast við að leggja a.m.k. 10% af dagskrár­gerðarfé til sjálfstæðra kvikmyndagerðarmanna eða verka framleiddra af þeim;
     2.      greiða skuli fyrir sjónvarpssendingum milli landa með því að aðildarríkin skuldbindi sig til að ryðja burt hindrunum sem kunna að vera fyrir dreifingu á sjónvarpssendingum annarra aðildarríkja. Þetta atriði knýr á um breytingu á fortakslausri þýðingarskyldu á erlendu dagskrárefni í upprunalegum útsendingum;
     3.      settar eru lágmarkskröfur sem sjónvarpssendingar þurfa að uppfylla, einkum með tilliti til barna en einnig varðandi efni og tilhögun auglýsinga. Samþykktur er sérstakur fyrirvari vegna banns við áfengisauglýsingum.
    Tilskipun þessi kallar á breytingar á útvarpslögum og reglugerðum, sérstaklega varðandi þýðingarskyldu og einstökum skilgreiningu hugtaka.

Um XI. viðauka


Fjarskiptaþjónusta

    Hið almenna frelsi EES-samningsins um þjónustuviðskipti nær einnig til fjarskiptaþjónustu. Í þessum viðauka er að finna mikilvægar gerðir, sem hafa munu mikil áhrif á fram­þróun fjarskiptaþjónustu í álfunni. Fjarskipti verða sífellt mikilvægari í efnahagslegri, félagslegri og menningarlegri þróun innan Evrópu. Þau hafa ekki aðeins mikil áhrif á þjón­ustu almennt, svo sem fjármálaþjónustu, samgöngur og ferðaþjónustu, heldur einnig á vöru­viðskipti og samvinnu Evrópuríkja á sviði iðnaðar.
    Stefna EB í fjarskiptum var mörkuð með útgáfu svokallaðrar „grænbókar“ árið 1987 um þróun sameiginlegs markaðar fyrir fjarskiptaþjónustu og fjarskiptabúnað. Á grundvelli þeirrar stefnumörkunar hefur EB gefið út ýmsar gerðir, sem verða hluti af EES-samningnum.
    Um langan aldur hafa ríkisreknar símastjórnir og símafélög annast fjarskipti, yfirleitt í skjóli einkaréttar sem löggjöf hlutaðeigandi ríkja hefur veitt þeim. Breytt viðskiptalegt umhverfi, ör tækniþróun, aukin samkeppni frá öðrum ríkjum og þrýstingur frá notendum varð til þess að stjórnvöld í ríkjum EB hófu endurskoðun stefnunnar í fjarskiptamálum. Markmið þeirra, sem síðan endurspeglaðist í áðurnefndri grænbók, var að veita evrópskum notendum fjölbreyttari og betri fjarskiptaþjónustu á lægra verði. Með EES-samningnum hafa EFTA-ríkin fallist á að aðlaga löggjöf sína sama markmiði.
    Mikilvægustu gerðirnar eru tilskipanir sem setja ramma um þær breytingar sem áformaðar eru á fjarskiptakerfum EB-ríkjanna. Meðal þessara tilskipana má nefna ráðstilskipun um samkeppni á markaði fyrir símaþjónustu, tilskipun um fjarskiptaþjónustu og ráðstilskipun um að koma skuli á fót sameiginlegum markaði fyrir fjarskiptaþjónustu með því að koma á frjálsum aðgangi að hinum opinberu símanetum (grunnnetum) þannig að aðrir aðilar en þeir sem netin reka geti selt almenningi ýmsa viðbótarþjónustu við venjulega símtalaþjónustu. Þar á meðal má nefna rekstur gagnaneta, upplýsinga- og svarþjónustu og margs konar tengingar fyrir tölvubúnað. Er síðastnefnda tilskipunin nefnd ONP-tilskipunin en skammstöfunin stendur fyrir ensku orðin „Open Network Provision“.
    Þessar tilskipanir hafa í för með sér að markaðurinn er opnaður fyrir samkeppni á öllum sviðum öðrum en á sviði venjulegrar símtalaþjónustu, sem heimilt er að halda áfram í höndum einokunarfyrirtækja. Varðandi gagnanet er heimilt að setja það skilyrði fyrir aðgangi að símakerfi ríkisins, að slíkt net nái til landsins alls eða hluta þess en ekki einungis til þeirra svæða, þar sem búast má við mestri notkun á netinu. En tryggja skal þeim sem setja vilja upp viðbótarþjónustu aðgang að símakerfinu gegn sanngjarnri þóknun fyrir afnotin og þær takmarkanir sem settar eru skulu byggðar á hlutlægum sjónarmiðum með meginregluna um frjálsan aðgang að leiðarljósi.
    Meðal annarra reglna, sem upp eru taldar í viðaukanum, má nefna samræmingarreglur um farsíma, um boðkerfi, um stafræn þráðlaus fjarskipti, um stöðlun o.fl. Þá er mælt fyrir um að aðskilja skuli eftirlit og rekstur á sviði fjarskipta, sem hefur í för með sér að fjarskipta­eftirlit, svo sem leyfisveitingar, eftirlit með gerðarskoðunum og úthlutun tíðna til þráðlausra fjarskipta, skal aðskilið frá viðkomandi símastjórn eða opinberu símafélagi. Skal eftirlitið vera óháð einstökum rekstraraðilum. Þetta kallar á breytingar hér á landi og er undirbúning­ur þeirra þegar hafinn.
    Íslendingar hafa aðlögunartíma til 1. janúar 1995 varðandi gildistöku ákvæða tilskipunar­innar um myndun innri markaðar fyrir fjarskiptaþjónustu með því að koma á frjálsum að­gangi að símakerfum.

Upplýsingaþjónusta
    Markaðurinn fyrir tölvutæka upplýsingaþjónustu vex mjög ört. Talið er að heimsmarkaðurinn á þessu sviði hafi numið að jafnvirði um 500 milljörðum króna á árinu 1988, þar af um 140 milljörðum í Evrópu. Árlegur vöxtur er áætlaður um 20% fram til aldamóta.
    Með nútímafjarskiptum hefur Íslendingum opnast ódýr möguleiki á því að nýta margvíslega gagnabrunna innanlands og erlendis, og jafnframt hafa opnast möguleikar á því að koma á fót slíkri sérhæfðri upplýsingaþjónustu hér landi sem selji þjónustu sína út fyrir landsteinana.
    Sökum þeirra möguleika sem nútíma upplýsingaþjónusta hefur í för með sér fyrir þróun og vaxtarskilyrði verslunar, iðnaðar og rannsókna, ákvað EB-ráðið á árinu 1988 að fram­kvæma áætlun um að koma á fót sameiginlegum innri markaði EB-ríkjanna á sviði upp­lýsingaþjónustu fyrir árslok 1992 (IMPACT). Á árinu 1991 var svo ákveðið að framlengja líf áætlunarinnar árin 1992–1995 undir heitinu IMPACT 2.
    EFTA-ríkin hafa sýnt því áhuga að taka þátt í IMPACT 2 með sömu kjörum og EB-ríkin. Við gildistöku EES-samnings skal sameiginlega EES-nefndin ákveða skilmálana fyrir þátt­töku EFTA-ríkjanna í IMPACT 2.
    Samkvæmt IMPACT-áætluninni er m.a. unnið að því að samræma réttarreglur um upp­lýsingaþjónustu. Slíkar reglur fjalla m.a. um gjald fyrir aðgang að opinberum gagnabrunnum, um höfundarrétt, persónuvernd, um lögfulla sönnun í tölvusamskiptum, um refsiverð brot í tölvunotkun, um bankaviðskipti og innkaup með aðstoð tölva og um útgáfustarfsemi í gagna­brunnum. Þetta samræmingarstarf á eftir að hafa mikil áhrif á markaðinn fyrir upplýsinga­þjónustu í Evrópu á næstu árum.
    EB vinnur jafnframt að því að framkvæma áætlun um að breiða út upplýsingar um nýjung­ar og hátækni (SPRINT) á árunum 1989–1992. Með EES-samningnum opnast möguleikar fyrir EFTA-ríkin að taka þátt í SPRINT- áætluninni. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 03.12.1974, mál 33/74, Van Binsbergen, B 1974, bls. 1299)
(DEB, 02.02.1989, mál 186/87, Cowan, B 1989, bls. 195 (ferðamenn)
(DEB, 31.01.1984, mál 286/72, Luisi og Carone, B 1984, bls. 377 (sjúklingar)
(DEB, 18.01.1979, mál 110–111/78, Van Wesemael, B1979, bls. 35)

Um 37. gr.


    Í 37. gr., sem svarar til 60. gr. Rómarsamningsins, er þjónusta skilgreind á þann veg að átt sé við þjónustu sem að jafnaði sé veitt gegn þóknun að því leyti sem hún lúti ekki ákvæðum um frjálst vöruflæði, frjálsa fjármagnsflutninga og frjálsa flutninga fólks. Síðan eru talin upp helstu svið þjónustu og er þar að finna starfsemi á sviði iðnaðar, starfsemi á sviði viðskipta, starfsemi handverksmanna og sérfræðistörf. Jafnframt segir að sá sem veiti þjónustu geti í því skyni, með fyrirvara um ákvæði kaflans um staðfesturétt, stundað starfsemi sína tímabundið í því ríki þar sem þjónustan er veitt, með sömu skilyrðum og það ríki setur eigin ríkisborgurum. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 11.07.1985, mál 61/84, Cinéthéque, B 1985, bls. 2605)
(DEB, 18.03.1980, mál 52/79, Debauve, B 1980, bls. 833)
(DEB, 27.09.1988, mál 263/86, Humbel, B 1988, bls. 5365)


Um 38. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 39. gr.


    Í þessari grein er tekið fram að ákvæði 30. gr. um ráðstafanir til þess að auðvelda launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum að hefja og stunda starfsemi skuli gilda um þau atriði, sem fjallað er um í þjónustukaflanum, og sömuleiðis ákvæði 32.–34. gr. í
    kaflanum um staðfesturétt.


Um 4. kafla

Fjármagn


    Ein af meginreglum EES-samningsins er á sama hátt og regla 67. gr. Rómarsamningsins sú, að ekki skuli lagðar hindranir í veg fjármagnshreyfinga yfir landamæri aðildarríkjanna, en það hlýtur að vera forsenda fyrir staðfesturétti og markaðssamrunanum sem áætlað er að komi að fullu til framkvæmda í ársbyrjun 1993.

Um 40. gr.


    Hér er staðfest meginreglan um frjálsar fjármagnshreyfingar. Óheimil eru hvers konar höft á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB og EFTA og önnur mismunun byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Síðan er í greininni vísað til XII. viðauka, sem fjallar nánar um framkvæmd þessarar meginreglu.

Um XII. viðauka


Frjálsir fjármagnsflutningar

    Í þessum viðauka er vísað til einnar tilskipunar ráðsins, þ.e. tilskipunar frá árinu 1988 ( 88/361/EBE) um framkvæmd 67. gr. Rómarsamningsins, sem samsvarar 40. gr. EES-samn­ingsins eins og áður segir. Tilskipunin fjallar um afnám hafta á fjármagnshreyfingum milli aðildarríkja. Í viðaukanum er bætt við hana ýmsum sérákvæðum er varða EFTA-ríkin í EES-samstarfinu. Þannig er að finna þar nokkur sérákvæði er varða Ísland sérstaklega.
    Í fyrsta lagi er þar að finna heimild fyrir Íslendinga til að viðhalda hömlum á skammtíma­hreyfingum fjármagns til 1. janúar 1995. Samkvæmt reglugerð nr. 312/1990 verða þær höml­ur sem eftir standa á fjármagnshreyfingum milli Íslands og annarra ríkja, aðrar en hömlur á skammtímahreyfingum fjármagns, felldar niður frá 1. janúar 1993. Afnám hafta á skamm­tímahreyfingum fjármagns kallar á bætt stjórntæki Seðlabankans til þess að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur á íslenskum gjaldeyrismarkaði.
    Í öðru lagi er Íslendingum heimilt að viðhalda hömlum á beinum fjárfestingum innanlands til 1. janúar 1996 og á fjárfestingum í fasteignum innanlands til sama tíma.
    Í þriðja lagi er Íslendingum áfram heimilt þrátt fyrir ákvæði 40. gr. og hinna almennu ákvæða viðaukans að beita áfram þeim höftum, sem í gildi eru við undirritun Samningsins um eignarrétt erlendra aðila og/eða eignarrétt aðila sem ekki eru búsettir á Íslandi sviði fiskveiða og fiskvinnslu.
    Þessi höft skulu ekki koma í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila eða ríkisborgara sem eru ekki með lögheimili á Íslandi í félögum sem taka aðeins á óbeinan hátt þátt í fiskveiðum eða fiskvinnslu. Þó hafa innlend yfirvöld rétt til að skuldbinda fyrirtæki sem hafa að hluta eða að öllu leyti verið keypt af erlendum aðilum eða ríkisborgurum sem ekki eru með lögheimili á Íslandi til að losa sig við fjárfestingar í starfsemi á sviði fiskvinnslu eða í fiskiskipum.
    Hér er um varanlega undanþágu að ræða frá meginreglunni um frjálsar fjármagns­hreyfingar innan EES-svæðisins.
    Af Íslands hálfu var í upphafi samningaviðræðnanna um EES farið fram á varanlega undanþágu varðandi aðgang og eignarrétt erlendra aðila að orkulindum Íslands. Fram kom að ekkert er því til fyrirstöðu í reglum EB að orkuvinnsla og dreifing raforku og jarðvarma hér á landi sé í höndum opinberra fyrirtækja eins og nú er. Ef einkaaðilum væru hins vegar falin þessi hlutverk mætti ekki mismuna einstaklingum eða lögaðilum frá ríkjum EES-svæð­isins á grundvelli þjóðernis. Sama gilti um eignarrétt að orkulindunum sjálfum.
    Eins og kunnugt er, hefur töluverð óvissa verið ríkjandi hérlendis varðandi eignarrétt að orkulindum landsins, t.d. um það hvort eignarrétti á landi fylgi ótakmarkaður réttur til nýtingar hita í iðrum jarðar. Iðnaðarráðuneytið hefur umsjón með frumvörpum er fjalla um eignarrétt og nýtingarrétt jarðvarma og vatnsafls hér á landi, leitast er við að afmarka þann rétt nánar.
    Varðandi rétt erlendra aðila til kaupa á fasteignum voru upphaflega ýmsir fyrirvarar og beiðnir um varanlegar undanþágur sett fram af EFTA-ríkjunum. Niðurstaðan varð hins vegar sá aðlögunartími, sem um getur í þessum viðauka, en jafnframt munu ákvæði laga um eignarrétt að jarðeignum og öðrum fasteignum í ýmsum tilvikum tekin til endurskoðunar. Slík endurskoðun fer nú fram á vegum landbúnaðarráðuneytisins hér á landi, en jafnframt gaf ríkisstjórnin í samningaviðræðunum sérstaka yfirlýsingu um beitingu öryggisráðstafana samkvæmt samningnum, ef til komi alvarleg röskun vegna innstreymis á vinnumarkað eða alvarleg röskun á fasteignamarkaði.

Um 41. gr.


    Ákvæði 41. gr. svarar til 2. mgr. 67. gr. Rómarsamningsins og er eðlilegt fylgiákvæði 40. gr., en það slær því föstu að gengar greiðslur í tengslum við þjónustustarfsemi, vöruflæði, fólksflutninga eða fjármagnsflutninga milli samningsaðila samkvæmt ákvæðum samningsins skuli vera lausar við öll höft af hálfu stjórnvalda.

Um 42. gr.


    Í þessari grein er fjallað um þá grundvallarreglu að ekki megi mismuna íbúum samn­ingsríkjanna á grundvelli þjóðernis við beitingu reglna um fjármagnsmarkað og lánsviðskipti í fjármagnsflutningum, og í 2. mgr. sömu greinar er sett um það regla að ekki skuli án sam­komulags við viðkomandi stjórnvöld í EES-ríki bjóða þar út lán til beinnar eða óbeinnar fjármögnunar annars EES-ríkis eða sveitarfélags í því. Þykir eðlilegt að stjórnvöld hvers ríkis hafi forræði um það, hvort þau leyfi öðrum ríkjum eða sveitarfélögum þeirra að taka lán á fjármagnsmarkaðinum, m.a. með tilliti til stefnu stjórnvaldanna í vaxtamálum.

Um 43. gr.


    Þessi grein hefur að geyma öryggis- eða varnaglaákvæði sem grípa má til ef menn notfæra sér reglur í öðru samningsríki til þess að fara fram hjá þeim reglum, sem gilda um fjármagns­flutninga í heimalandi þeirra, og ef fjármagnsflutningar leiða til röskunar á fjármagns­markaði.
    Ákvæði 1. mgr. 43. gr., sem svarar til 2. mgr. 70. gr. Rómaramningsins, og gefur samn­ingsaðila sem ekki hefur að öllu leyti gefið frjálsar fjármagnshreyfingar gagnvart öllum ríkjum („erga omnes“) heimild til þess að grípa til ráðstafana til þess að hindra að hægt sé að fara í kringum reglur samningsaðilans um fjármagnshreyfingar til og frá þriðja landi með því að notfæra sér milligöngu í öðru EES-ríki.
    Ákvæði 2. mgr. 43. gr. svarar til 73. gr. Rómarsamningsins, en það veitir samningsaðila rétt til þess að grípa til verndarráðstafana á sviði fjármagnsflutninga, ef fjármagnshreyfingar valda röskun á starfsemi fjármagnsmarkaðar samningsaðilans.
    Ákvæði 3. mgr. 43. gr., sem svarar til 2. mgr. 107. gr. Rómarsamningsins, fjallar um rétt samningsaðila til þess að grípa til tímabundinna gagnráðstafana, ef þar til bær yfirvöld annars samningsaðila breyta gengisskráningu sinni þannig að valdi alvarlegri röskun á sam­keppnisskilyrðum.
    Ákvæði 4. mgr. 43. gr. svara til 1. mgr. 108. gr. Rómarsamningsins, en hún veitir samn­ingsaðila rétt til þess að grípa til verndarráðstafana, ef erfiðleikar á sviði greiðslujafnaðar við önnur ríki og í gjaldeyrismálum koma upp og þá einkum ef örðugleikarnir eru til þess fallnir að stofna framkvæmd EES-samningsins í hættu.

Um 44. gr.


    Í þessari grein segir að EB annars vegar og EFTA-ríkin hins vegar skuli beita eigin málsmeðferð vegna framkvæmdar 43. gr. Jafnframt er vitnað til bókunar 18 um þetta efni.

Um bókun 18
Reglur aðila vegna framkvæmdar 43. gr.

    Bókunin fjallar um innri reglur varðandi beitingu verndarráðstafana.
    Segir þar að, að því er bandalagið varðar, séu þær reglur sem fara eigi eftir settar fram í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu (Rómarsamningnum).
    Að því er EFTA-ríkin varðar séu reglurnar settar fram í samningnum um fastanefnd EFTA-ríkjanna og muni þær taka til eftirfarandi atriða:
–    EFTA-ríki sem hafi í hyggju að gera ráðstafanir í samræmi við 43. gr. samningsins skuli tilkynna það fastanefnd EFTA-ríkjanna með góðum fyrirvara.
–    Þó, ef um leynd sé að ræða og málið sé aðkallandi, skuli tilkynna það hinum EFTA-ríkjunum og fastanefnd EFTA í síðasta lagi daginn sem ráðstafanirnar öðlast gildi.
–    Fastanefnd EFTA-ríkjanna skal athuga aðstæður og skila áliti um hvort beita skuli þessum ráðstöfunum. Hún skal endurskoða aðstæður og henni er heimilt hvenær sem er, með meirihluta atkvæða, að mælast til mögulegra breytinga, niðurfellingar eða afnáms á þeim ráðstöfunum sem komið hefur verið á eða varðandi aðrar ráðstafanir aðstoða hlutaðeigandi EFTA-ríki við að ráða fram úr vandamálum sínum. Framangreindar verklagsreglur eru settar fram til uppfyllingar á ákvæðum 44. gr.

Um 45. gr.


    Tilkynna skal sameiginlegu EES-nefndinni ákvarðanir, álit og tilmæli vegna þeirra ráðstafana sem lýst er í 43. gr. og fjallar 45. gr. um samráð samningsaðila í slíkum tilvikum. Megintilgangur þessara ákvæða er að koma í veg fyrir að einn samningsaðili valdi öðrum samningsaðilum erfiðleikum með ráðstöfunum, sem haft geta alvarleg áhrif t.d. á greiðslu­jöfnuð, eða spákaupmennsku með gjaldeyri þeirra. Því er lögð áhersla á greitt upplýsinga­flæði og samráð, þegar alvarlegir örðugleikar koma upp á fjármagnsmarkaði einstakra samn­ingsaðila.

Um 5. kafla


    Samvinna um stefnu í efnahags- og peningamálum

Um 46. gr.


    Í 46. gr. er fjallað um skipti samningsaðila á skoðunum og upplýsingum um framkvæmd samningsins og áhrif samstarfsins á efnahagsleg umsvif og stefnumörkun í efnahags- og gjaldeyrismálum. Enn fremur geta samningsaðilar rætt framtíðarhorfur og stefnu í efna­hagsmálum. Tekið er fram í lokamálslið greinarinnar að þetta skuli gert án nokkurra skuld­bindinga.
    Samræmd efnahagsstefna samningsaðilanna er ekki forsenda fyrir markaðssamruna af því tagi sem stefnt er að með EES-samningnum. Það er hins vegar æskilegt að efnahagsstefna einstakra samningsaðila gangi ekki þvert á stefnu annarra samningsaðila. Þá dregur markaðssamruninn, t.d. afnám hafta á fjármagnshreyfingum, óneitanlega úr möguleikum ein­stakra samningsaðila til þess að reka algjörlega sjálfstæða efnahagsstefnu, sem gengur þvert á ríkjandi efnahagsstefnu á svæðinu. Því er eðlilegt að samningsaðilar skiptist reglulega á skoðunum um ýmsa þætti efnahags- og gjaldeyrismála.
    Innan EFTA hafa upplýsingaskipti af þessu tagi farið fram í efnahagsnefnd EFTA um langt árabil. Á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984 var komið á árlegum fundum efnahagsnefndar EFTA og fulltrúa framkvæmdanefndar EB þar sem rætt var um ýmsa þætti efnahagsmála. Eftir að könnunarviðræður EFTA og EB um Evrópskt efnahags­svæði hófust var fundunum fjölgað í tvo á ári. Á þeim hefur verið skipst á skoðunum og upplýsingum um efnahagsmál og hefur höfuðáherslan verið lögð á upplýsingar um áhrif efnahagssamruna á EB- og EFTA-ríkin. Ráðgert er að áframhald verði á þessum fundum og að þeir verði aðalvettvangur þeirra skoðanaskipta, sem kveðið er á um í 46. gr. Í efnahagsnefnd EFTA sitja fyrir Íslands hönd fulltrúar Seðlabanka Íslands, Þjóðhagsstofn­unar og fjármálaráðuneytisins.
    Á Maastrichtfundinum í desember 1991 ákváðu aðildarríki EB að stefna að enn nánara samstarfi í efnahags- og peningamálum en áður og taka upp sameiginlegan gjaldmiðil í síðasta lagi í ársbyrjun 1999. Þessi áform hafa ekki áhrif á framkvæmd EES-samningsins. Efnahagsstefna EB-ríkjanna verður hins vegar mun samhæfðari en verið hefur og áhrifameiri en áður um efnahagsmál í álfunni allri. Þörfin fyrir skipti samningsaðila á skoðunum og upplýsingum um efnahagsmál verður því enn mikilvægari.

Um 6. kafla


Flutningastarfsemi

    Í 74. gr. Rómarsamningsins er kveðið á um að aðildarríki EB skuli móta sér sameiginlega stefnu í flutningastarfsemi. Ekki er um sambærilegt ákvæði að ræða í EES-samningnum, en EFTA-ríkin hafa ákveðið að samþykkja ýmsar mikilvægar reglur EB á sviði flutningamála sem hluta af honum. Rétt er að vekja athygli á því að ákvæði þessa kafla eiga við um alþjóðlega flutningastarfsemi og eiga því ekki við um landflutninga hér á landi nema að mjög litlu leyti. Eftir sem áður gildir íslensk löggjöf um landflutninga íslenskra aðila og ekki er um starfsemi erlendra aðila að ræða á því sviði á íslensku yfirráðasvæði að ræða nema í algerum undantekningartilvikum. Í slíkum tilvikum mætti þó ekki mismuna flutningaaðilum á grundvelli þjóðernis og í ýmsum tilvikum yrði að hafa hliðsjón af hinum sameiginlegu reglum. Þessu er öðruvísi farið með önnur EFTA-ríki, sem öll eru í vega- og bílferjusam­bandi við EB-ríkin. Þó er þess að geta að þær reglur EB sem EFTA-ríkin hafa fallist á í EES-samningnum hafa auk ákvæða um flutninga að geyma ýmis ákvæði um flutningatæki, þ.e. gerð og búnað ökutækja, sem Íslendingar verða að laga sínar reglur að. Eins má nefna reglur um ökuskírteini, lágmarksreglur um skoðun ökutækja o.fl. en um bæði þessi atriði hafa nýlega verið settar samræmingarreglur í ráðstilskipunum EB og eru þær nú til umfjöllunar á sameiginlegum fundum fulltrúa EB og EFTA-ríkja.
    Þá eru í EES-samningnum margvíslegar reglur um flutninga með járnbrautum og á vatnaleiðum, sem ekki eiga við hér á landi af alkunnum ástæðum. Ísland er samt ekki undanþegið þessum reglum frekar en aðrar EFTA-þjóðir.
    Hins vegar eiga Íslendingar samleið með öðrum EFTA- og EB-ríkjum á sviði sjó- og loftflutninga og samningurinn gerir ráð fyrir samræmdum reglum á því sviði. Slíkar reglur hjá EB byggjast á ákvæðum 2. mgr. 84. gr. Rómarsamningsins, en EFTA-ríkin hafa sam­þykkt að taka margar þeirra með í XIII. viðauka, sem fjallar um allar tegundir flutningastarfsemi.
    Stefna EB á sviði flutningastarfsemi byggist á eftirfarandi meginreglum:
     1.      Frelsi til að láta í té þjónustu;
     2.      afnámi hindrana á frjálsri samkeppni;
     3.      afnámi ríkisstyrkja á sviði flutninga, auknu öryggi flutningatækja og í umferð og bættum mengunarvörnum í flutningum;
     4.      almennum reglum Rómarsamningsins um staðfesturétt, frjálsa samkeppni og um fleiri atriði;
    Þrátt fyrir þessar meginreglur er þó langt í land að stefnan hafi náð fram að ganga á öllum sviðum. Að því er þó markvisst unnið.
    Ákvæði 53. og 54. gr. EES-samningsins um frjálsa samkeppni munu hafa mikil áhrif á rekstur á sviði flutningastarfsemi og mun það koma í hlut væntanlegrar eftirlitsstofnunar EFTA að framfylgja þeim.
    

Um 47. gr.


    Þessi grein fjallar um gildissvið 48.–52. gr. og vísar til XIII. viðauka samningsins. Eins og áður segir hefur hann að geyma ákvæði um allar tegundir flutningastarfsemi. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 04.04.1974, mál 167/73, Framkvæmdastjórnin gegn Frakklandi, B 1974, bls. 359)
(DEB, 22.05.1985, mál 13/83, EB-þingið gegn EB-ráðinu, B 1985, bls. 1513)

Um XIII. viðauka
Flutningastarfemi

Landflutningar
    Þær gerðir EB, sem teknar hafa verið með í EES-samninginn, fjalla m.a. um kröfur til flutningatækja á sviði tæknistaðla og öryggis, um skattlagningu á flutningastarfsemi, reglur um vinnuvernd og fleiri félagsleg atriði, um aðgang að flutningamarkaði, rétt ríkisborgara EES-ríkis til innanlandsflutninga í öðru EES-ríki (sk. „cabotage“), kröfur um gerð og ástand flutningatækja og fleira mætti nefna .
    Sérstök ákvæði gilda um flutninga á vegum og með járnbrautum gegnum Sviss og Austurríki.
    Nákvæmar reglur gilda um flutningastarfsemi á landi milli og innan meginlandsríkjanna í EB og EFTA og setja þær verulegt mark á XIII. viðaukann. Þar sem íslenskir flutningaaðilar starfa lítt á þeim markaði verða þær ekki raktar hér. Reglurnar eru í örri þróun um þessar mundir.

Siglingar
    Reglur EES-samkomulagsins um sjóflutninga lúta fyrst og fremst að rekstri kaupskipaútgerðarinnar. Afskipti stjórnvalda jafnt í EB- sem EFTA-ríkjum af flugrekstri annars vegar og siglingum hins vegar hafa verið með ólíkum hætti. Opinber afskipti eru mikil af flug­rekstri og ýmiss konar leyfa er krafist til rekstrar á því sviði. Meginreglan á sviði sjóflutn­inga er athafnafrelsi, þ.e. starfsemi án afskipta stjórnvalda, en stefnumótun EB hefur einkum miða að því að styrkja stöðu kaupskipaútgerðar aðildarríkjanna undir eigin þjóðfána og auka hlutdeild þeirra í alþjóðlegri kaupskipaútgerð. Kaupskipafloti aðildarríkja EB er stór, en hefur að stórum hluta verið skráður undir „þægindafánum“. Stefna EB miðast við að ná fram breytingum á þessu. Með EES-samningnum hafa EFTA-ríkin tekið undir þessa stefnu, en Norðurlandaríkin fjögur í EFTA hafa sömu hagsmuna að gæta varðandi kaupskipasiglingar, þótt mikill stærðarmunur sé á flota þeirra.
    Kjarnann í gerðum EB á þessu sviði er að finna í nokkrum reglugerðum, en auk þess eru tvær tilskipanir EB-ráðsins teknar með í XIII. viðauka, sem fjallar um tæknileg efni.
    Í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4056/86 frá 22. desember 1986 er fjallað um beitingu sam­keppnisreglna Rómarsamningsins gagnvart flutningastarfsemi á sjó. Þar er skilgreindur frjáls aðgangur að kaupskipasiglingum til og frá bandalagslöndum og má ekki mismuna útgerðum í slíkum siglingum með magnkvótum, forgangi að flutningum o.þ.h. Reglugerðin gildir eingöngu um mismunun í kaupsiglingum til og frá EB-ríkjum gegn skipum í eigu og/eða rekstri útgerða innan EB. Þar er einnig skilgreint til hvaða aðgerða EB geti gripið, ef EB-útgerð er mismunað í alþjóðlegum siglingum og geta slíkar aðgerðir falist í sektum vegna flutninga einstakra útgerðarfyrirtækja allt til afskipta af heildarútflutningi þeirra til og frá EB. Dæmi er um að framkvæmdastjórn EB hafi ákvarðað sektir á útgerðarfyrirtæki í Suður-Kóreu sökum opinberrar mismununar sem það naut í samkeppni um flutninga milli EB-ríkis og Kóreu. Íslensk stjórnvöld og útgerðarfyrirtæki yrðu á sama hátt að aðlaga sig reglum EB um siglingar milli Íslands og EB-ríkja þótt ekki væri um EES-samninginn að ræða, en samningurinn kveður á um gagnkvæmar skuldbindingar, sem felast í því að virða þær meginreglur sem staðfestar eru í reglugerðinni.
    Í bókun 19 við samninginn er fjallað um tengsl við þriðju lönd á sviði sjóflutninga.
    Í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4055/86 frá 22. desember 1986 er fjallað um frelsi til að veita þjónustu í kaupskipasiglingum. Markmið hennar er að afnema hindranir og verndar­múra í kaupsiglingum milli EB-ríkjanna. Með því að taka þess reglu í EES-samninginn er samkomulag um að á EES-svæðinu gildi sú meginregla, að aðgangur sé frjáls fyrir öll skipafélög í EES-ríkjum. Upphaflega tillagan að framangreindri reglugerð gerði ráð fyrir að frelsið næði einnig til innanlandssiglinga („cabotage“), en um það náðist ekki samkomulag og er enn fjallað um það efni innan EB.
    Þessi reglugerð er almennt talin veigamest af þeim reglum sem gilda í EB um kaupskipasiglingar. Hún nær til allra sjóflutninga og stefnir að afnámi tvíhliða samninga um kvótaskiptingu milli ríkja. Sá fyrirvari er þó gerður, að þar sem reglugerðin stangast á við ákvæði samþykktar Sameinuðu þjóðanna um samsiglingakerfi (línusiglingar), gilda ákvæði samþykktarinnar, en hún fjallar um samvinnu í áætlunarsiglingum á ákveðnum siglingaleið­um, um samræmd flutningsgjöld og tíðni þjónustu. Samþykktin mælir einnig fyrir um skipt­ingu farmmagns milli aðildarríkja og um hlutdeild þriðju ríkja eftir svonefndri 40-40-20%-reglu. Ríki EB hafa gert veigamikinn fyrirvara við samþykktina (Brusselfyrir­varann), þar sem segir að 40% flutninganna, sem falli í hlut EB-ríkis, skuli opin fyrir sam­keppni allra EB-ríkja og einnig OECD-ríkja, sem staðfest hafa samþykktina með Brussel­fyrirvörunum. Íslendingar hafa ekki staðfest þessa samþykkt Sameinuðu þjóðanna.
    Samkvæmt reglugerðinni (EBE) nr. 4056/86 gilda samkeppnisreglur Rómarsamningsins í alþjóðlegum siglingum, öðrum en tilfallandi flutningum. Reglugerðin hefur að geyma ítar­leg ákvæði um hvernig samkeppnisreglunum skuli beitt í sjóflutningum. Samkvæmt ákvæð­unum eru heimilaðar ýmsar undanþágur frá frjálsri samkeppni og banni gegn samráði og samningum, t.d. varðandi samsiglingakerfin, samræmingu á viðkomu skipa í áætlunarsigling­um, viðbótarþjónustu áætlunarútgerða, þar á meðal um heildarflutningsgjöld og skipti á flutningsrými í áætlunarsiglingum. Undirboð á farmgjöldum í skjóli ríkisaðstoðar eru bönn­uð, en undirboð eru skilgreind sem flutningsgjöld sem eru lægri en aðrar útgerðir innan eða utan samsiglingakerfis bjóða á ákveðinni siglingaleið. Allir rekstrarstyrkir eða forréttindi sem fánaríki veitir útgerðum sínum eru skilgreind sem forsenda fyrir aðgerðum EB (eða eftirlitsstofnunar EFTA) og geta útgerðarfélög í EES-ríkjunum kært óraunhæf undirboð keppinauta sinna á þeim grundvelli.
    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 613/91 frá 4. mars 1991 um tilfærslu skipa frá einni skipaskrá til annarrar innan ríkja EB getur haft verulega þýðingu hér á landi. Samkvæmt henni er aðildarríki óheimilt að neita að skrá skip á tæknilegum forsendum þegar skip hefur gild skírteini og fullnægir kröfum fyrra heimalands. Þar með er í raun numin brott heimild einstakra ríkja til að framfylgja sérreglu um tækni- og öryggisbúnað, en um leið eykst þrýstingur á að setja sameiginlegar reglur fyrir EES-svæðið á þessu sviði.
    Tillögur um frekari aðgerðir stjórnvalda í EB-ríkjum til þess að styðja við kaupskipaútgerð í ríkjunum voru lagðar fram árið 1989. Ekki hefur enn náðst samkomulag um þær innan EB, en einstök atriði þeirra kunna að komast á dagskrá EES-samstarfsins á næstunni.

Loftflutningar
    Samgöngur í lofti eru sú grein samgangna sem býr við ítarlegustu reglur allra samgöngugreina innan EES sem utan. Áhersla EB á breytingar í flugsamgöngum, sem nú er staðfest í EES-samningnum, lýtur að því að koma á almennum leikreglum og frelsi í áætlunarflugi og væntanlega einnig leiguflugi. Þessi stefna mun líklega leiða til stórfelldra breytinga á flugsamgöngum í Evrópu.
    Stefnt er að því að mynda einn sameiginlegan markað fyrir flutningsþjónustu með flug­vélum, markað þar sem virk samkeppni ríkir, m.a. með auknu frelsi í ákvörðun fargjalda, og markað sem er opinn öllum flugfélögum í ríkjum EES-svæðisins. Með þessum hætti er stefnt að því að bæta rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu evrópskra flugfélaga og stuðla að lækkun fargjalda.
    Flugsamgöngur í Evrópu hafa um áratugaskeið byggst á tvíhliða samningum milli ríkja og samningum einstakra flugfélaga sem deilt hafa með sér markaðnum. Þetta fyrirkomulag um tvíhliða samning byggist á yfirráðarétti þjóða yfir lofthelgi sinni, en efnislega hafa samn­ingarnir kveðið á um aðgang að mörkuðum, skiptingu sætaframboðs milli flugfélaga og ákvörðun fargjalda. Slíkir samningar hafa takmarkað athafnafrelsi flugfélaga en jafnframt hafa þeir verndað þau gegn samkeppni.
    Áformað er nú að breyta þessu, en ákveðið var að breytingin gerðist í þremur áföngum, sem öðlast hafa gildi 1. janúar 1988, 1. janúar 1990 og þriðji áfanginn á að öðlast gildi 1. janúar 1993. Í þeim áföngum, sem þegar hafa öðlast gildi og eru þáttur í EES-samningnum, eru veittar undanþágur frá meginreglunni um frjálsa samkeppni á sviði flugsamgangna. Jafnframt eru settar ýmsar samræmingarreglur. Reglurnar gilda einungis um millilandaflug en ekki um innanlandsflug.
    Í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3975/87 frá 14. desember 1987 gilda hinar almennu sam­keppnisreglur um flugsamgöngur með þeim undanþágum sem þar eru veittar. Víkja má frá þessu þegar markmið takmarkana er að stuðla að endurbótum eða samvinnu um tæknileg málefni og er það nánar útfært í reglugerðinni. Í reglugerð ráðsins nr. 4261/88 eru síðan settar nánari verklagsreglur um framkvæmd framangreindrar reglugerðar.
    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2343/90 frá 24. júlí 1990 fjallar um markaðsaðgang flugfélaga í áætlunarflugi innan bandalagsríkjanna og skiptingu á sætaframboði milli áætlunarflugfélaga í flugi innan ríkjanna.
    Reglugerð (EBE) nr. 2299/89 frá 24. júlí 1989 setur reglur um notkun tölvuvæddra bókunarkerfa flugfélaganna, reglugerð (EBE) nr. 294/91 frá 4. febrúar 1991 setur reglur um vöruflutningaflug milli aðildarríkjanna og reglugerð (EBE) nr. 295/91 frá 4. febrúar 1991 setur sameiginlegar reglur um skaðabætur flugfélaga til farþega, sem ekki fá far með flugfélagi þrátt fyrir staðfesta farpöntun. Þessar reglur er varða markaðsaðgang áætlunarflugfélaga að flugleiðum innan bandalagsins og skiptingu á sætaframboði fyrir farþega stefna að því að öll höft á skiptingu sætaframboðs verði afnumin 1. janúar 1993. Hverju aðildarríki er nú heimilað að tilnefna fleiri en eitt flugfélag til áætlunarflugs („multiple designation“). Með reglugerðinni um vöruflutningaflug er leitast við að afnema höft sem nú hindra frjálsan aðgang að markaðinum fyrir slíka þjónustu og aðildarríkjunum er gert að heimila farmflugfélögum víðtækan flugrétt, ef þau hafa slíkt flugrekstrarleyfi í öðru aðildarríki. Farmtaxtar skulu ákveðnir með frjálsum samningum milli aðila að farmflutningasamningum.
    Reglugerð (EBE) nr. 2342/90 frá 24. júlí 1990 fjallar um fargjöld flugfélaga. Þar eru reglur um ákvörðun fargjaldanna rýmkaðar. Flugfélög þurfa ekki lengur að samræma fargjöld sín fargjöldum samkeppnisaðilanna og heimild ríkisstjórna til afskipta af fargjöld­um, sérstaklega lágum fargjöldum, er takmörkuð. Reglugerðin mælir fyrir um að aðildarríkj­um beri að samþykkja fargjöld í áætlunarflugi innan svæðisins ef þau eru í eðlilegu samhengi við kostnað flugfélags á viðkomandi flugleið. Jafnframt skal taka tillit til þess að fjármagn skili viðunandi arði og að lágmarkskostnaður nægi til þess að tryggja fullnægjandi öryggi. Það skal taka tillit til fleiri þátta, svo sem þarfa neytenda og samkeppnissjónarmiða. En það, að fargjald flugfélags sé lægra en fargjald sem annað flugfélag býður sem þjónar sömu flugleið, réttlætir ekki synjun yfirvalda á fargjaldinu.
    Hér að framan hefur verið fjallað um meginefni þeirra reglna um flugmál, sem eru hluti EES-samningsins. En eins og áður er getið er ætlunin að þriðji þáttur breytinganna í flugmálum taki gildi 1. janúar 1993 og að tillögur framkvæmdastjórnar EB verði lagðar fyrir ráðherraráð EB í júní 1992. Rétt þykir að gera grein fyrir efni þeirra breytinga eins og það birtist í þeim þremur reglugerðardrögum, sem kynnt hafa verið og ætlunin er að hafi að geyma meginefni breytinganna. Fjalla þær um leyfisveitingu til flugfélaga, markaðsaðgang þeirra og verðlagningu á flugþjónustu.
    Varðandi leyfisveitingu til flugfélaga er þess getið að meginhluti starfsemi flugrekanda og skráðar höfuðstöðvar séu innan þess aðildarríkis EB, sem flugrekstrarleyfi veitir, og enn fremur að flugfélagið sé í beinni eigu eða meirihluti hlutabréfa sé í eigu aðila innan EB. Frá þessu má þó víkja í vissum tilvikum. Verði þriðji þátturinn samþykktur sem hluti af EES-samningnum ná reglurnar til alls EES-svæðisins að breyttu breytanda. Til þess að tryggja nauðsynlegan stöðugleika í flugrekstri eru gerðar kröfur um fjárhagsstöðu flugrekenda. Samkvæmt þeim þarf nýtt flugfélag að hafa a.m.k. 100 000 ECU eða rúmlega 7,2 millj. kr. í stofnfé og geta sýnt fram á greiðslugetu fyrir a.m.k. þriggja mánaða rekstur. Önnur flugfélög þurfa hvenær sem er að geta sýnt fram á að þau geti fullnægt öllum fjárhagsskyldum sínum í a.m.k. 12 mánuði.
    Lagt er til að sömu reglur gildi um leyfi til áætlunarflugs og leiguflugs og er það gert í því skyni að einfalda reglur um leyfisveitingarnar. Loks eru gerðar miklar kröfur um ýmis tæknileg atriði og þjálfun flugliða. Er óheimilt að veita leyfi nema þessum kröfum sé fullnægt.
    Í reglugerðardrögunum um markaðsaðgang er gert ráð fyrir mjög víðtækum heimildum til flugs innan markaðssvæðisins. Er þá miðað við að viðurkennd verði svokölluð þriðju, fjórðu og fimmtu réttindi í flugrekstri og að samkeppni verði heimiluð í innanlandsflugi aðildarríkjanna að vissu marki. Aðildarríki verður þó heimilt að takmarka þátttöku í innan­landsflugi, þar sem notkun opinberra stuðningsaðgerða er talin réttlætast af aðgerðum gegn neikvæðri byggðaþróun. Slíkt skal þó aðeins heimilt að höfðu samráði við önnur aðildarríki og það á ekki við um flug til alþjóðaflugvalla. Varðandi aðgang að innanlandsflugi er gert ráð fyrir að ekki megi mismuna flugfélögum á grundvelli skrásetningarríkis flugfélags innan EES og meginreglan verður sú, að ekki sé unnt að takmarka aðgang að flugrekstri til eða frá innanlandsflugvelli sem um fara meira en 30.000 farþegar á ári. Þetta á við um fjóra flugvelli utan Reykjavíkur og Keflavíkur, en það eru flugvellirnir á Akureyri, í Vestmannaeyjum, á Egilsstöðum og á Ísafirði.
    Varðandi verðlagningu á flugi er markmiðið það að gefa verðlagningu frjálsa sem meginreglu frá ársbyrjun 1993. Verður þá stjórnvöldum óheimilt að neita um staðfestingu fargjalda nema bæði ríkin komist að þeirri niðurstöðu, þegar um millilandaflug er að ræða, að verðlagning feli í sér óraunhæft undirboð eða augljóst okur. Þrátt fyrir framangreinda meginreglu verða þó ýmsar undanþágur frá henni í gildi, en í greinargerð framkvæmdastjórn­ar EB kemur fram að stefnt sé að því, að frjáls verðlagning sé komin til framkvæmda að fullu í ársbyrjun 1996.
    Leiguflug er mjög verulegur hluti af allri loftflutningaþjónustu í EB-ríkjunum. Þar hefur því stefnumörkun í málefnum leiguflugs verið til umfjöllunar og er niðurstaða framkvæmda­stjórnar EB, að sömu reglur skuli gilda um áætlunarflug og leiguflug. Þetta þýðir að sömu reglur gildi um flugfargjöld, markaðsaðgang og flugrekstrarleyfi fyrir öll flugfélög. Þessi stefna mundi láta flugrekendum það eftir að ákveða á viðskiptalegum grunni, hvort þau vilji þjóna markaðnum með leiguflugi eða áætlunarflugi.
    Loks er þess að geta að á sl. hausti samþykkti EB nýjar reglur á sviði flugþjónustu til viðbótar reglugerðinni um tæknilega samræmingu. Þessar reglur eru þegar til umræðu á fundum fulltrúa EB og EFTA-ríkja. Hér er um að ræða reglur um þær kröfur sem gera á til flugmanna og nýjar lágmarkskröfur um tæknilega getu flugfélaga á sviði viðhalds og rekstrar.
    Í undirbúningi eru reglur EB um hámarksvinnutíma flugáhafna og reglur um úthlutun til flugfélaga á afgreiðslutíma á flugvöllum („slots“-reglur). Þessar reglur eru þáttur í því að skapa sambærilegt rekstrarumhverfi fyrir flugfélögin hvarvetna á markaðssvæðinu.
    

Um bókun 19


Flutningar á sjó

    Í þessari bókun eru ákvæði er varða samskipti EES-ríkja við þriðju lönd og félög í þriðju löndum á sviði flutninga á sjó. Er þar áhersla lögð á samræmingu aðgerða aðildarríkjanna í málefnum er varða stöðu þeirra gagnvart samkeppni í farmflutningum með skipum frá ríkjum utan EES-svæðisins.

Um bókun 20


Aðgangur að skipgengum vatnaleiðum

    Í bókun 20 er fjallað um aðgang að skipgengum vatnaleiðum, en flutningar á þeim eru flokkaðir með flutningum á landi. Segir þar m.a. að ráðstafanir til þess að tryggja gagnkvæman, jafnan aðgang að vatnaleiðum innan yfirráðasvæðis samningsaðila fyrir alla samningsaðila skuli gerðar á vegum hlutaðeigandi alþjóðlegra stofnana fyrir 1. janúar 1996, að teknu tilliti til þeirra skuldbindinga sem er að finna í tilheyrandi marghliða samningum, og er þar t.d. átt við sérstaka milliríkjasamninga um skipaumferð á fljótunum Rín og Dóná.

Um 48. gr.

    Þessi grein inniheldur bann við reglum einstakra aðildarríkja um flutninga á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum utan ramma XIII. viðauka, sem beint og óbeint eru óhagstæðari flutningsaðilum frá öðrum aðildarríkjum en innlendum flutningsaðilum. Reglan svarar til 76. gr. Rómarsamningsins.
    Þó er gert ráð fyrir að frávik geti verið frá þessu, en þá skal það tilkynnt öðrum samnings­aðilum og geta þeir gripið til mótaðgerða.

Um 49. gr.


    Hér er fjallað um opinbera aðstoð við flutningaþjónustu og er reglan í samræmi 77. gr. Rómarsamningsins.

Um 50. gr.


    Hér er lagt bann við ákveðinni mismunun á flutningasviði og svarar greinin til 1. mgr. og 4. mgr. 79. gr. Rómarsamningsins.

Um 51. gr.


    Í þessari grein er einnig fjallað um mismunun fyrirtækja eða atvinnugreina gagnvart flutningaþjónustu af völdum opinberra aðgerða og svarar greinin til 80. gr. Rómarsamn­ingsins.

Um 52. gr.


    Í þessari grein eru ákvæði um kostnað umfram flutningsgjöld, sem heimilt er að krefja um. Jafnframt skal stefnt að því að draga úr slíkum kostnaði.

Um IV. hluta
Samkeppnisreglur og aðrar reglur

Um 1. kafla
Reglur um fyrirtæki

    Eitt meginmarkmið EES-samningsins er að skapa jöfn samkeppnisskilyrði á öllu Evrópska efnahagssvæðinu sbr. 1. gr. samningsins. Í EES-samningnum fjalla 53.–60. gr. um sam­keppnismál og fela 53. gr. og 54. gr. í sér helstu efnisreglurnar. Reglurnar gilda í framkvæmd aðeins um stór fyrirtæki þegar athafnir þeirra fela í sér samkeppnishömlur sem hafa eða geta haft áhrif á viðskipti milli tveggja eða fleiri ríkja sem aðild eiga að EES-samningnum. Sam­keppnisreglur hvers lands fyrir sig gilda því áfram um viðskipti sem aðeins hafa áhrif innan landamæra viðkomandi lands. Eftirlit með framkvæmd samkeppnisreglna EES verður í höndum framkvæmdastjórnar EB og eftirlitsstofnunar EFTA og fer skipulag málanna eftir því hvar áhrif viðskiptanna koma fram. Reglur um eftirlit með samkeppnisreglum EES er að finna í 108.–110. gr. samningsins og í samningi EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dóm­stól.

Um 53. gr.


    Samkvæmt þessari grein eru samningar, samþykktir og samstilltar aðgerðir um verð, framleiðslutakmarkanir, fjárfestingatakmarkanir, markaðsskiptingu o.fl. bannaðar. Þrjár forsendur þurfa þó að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að framfylgja bönnunum.
    Í fyrsta lagi þurfa að vera fyrir hendi samningar, samþykktir eða samstilltar aðgerðir á milli fyrirtækja. Þegjandi samkomulag er nóg í þessu sambandi þegar augljóslega er um sam­stilltar aðgerðir að ræða.
    Í öðru lagi þurfa aðgerðirnar að geta haft áhrif á viðskipti á milli aðildarlandanna. Í framkvæmd er reglunum aðeins beitt á samkeppnishömlur sem hafa afgerandi áhrif á milliríkjaviðskipti eða sem kunna að hafa slík áhrif.
    Þriðja forsendan er að aðgerðirnar þurfa að hafa að markmiði eða leiða til þess að sam­keppni innan hins sameiginlega markaðar skerðist. Til þess að skera úr um það er nauðsynlegt að afmarka sérstaklega þann markað þar sem áhrifa samkeppnishamlanna gætir í hverju tilviki, þ.e. þann markað sem máli skiptir í einstökum málum. Þar er bæði um að ræða vörumarkaðinn þar sem litið er á innbyrðis staðgengi varanna og hinn landfræðilega markað. Verður nánar vikið að þessum hugtökum hér á eftir.
    Þrátt fyrir að 53. gr. feli í sér víðtæk bönn eru ekki allir samningar sem fela í sér sam­keppnishömlur bannaðir. Nefna má sk minniháttarreglu (rule de minimis – bagatel-regla), sem felur í sér að samningar, sem ná til innan við 5% markaðshlutdeildar á þeim markaði sem máli skiptir og þar sem heildarvelta fyrirtækjanna sem hlut eiga að máli er innan við 200 millj. ECU (um 15 milljarðar kr.), eru undanþegnir þessu bannákvæði. Skilyrði fyrir undanþágum er að báðar forsendurnar séu uppfylltar.
    Fyrir utan minniháttarregluna eru í 53. gr. heimildir til þess að veita aðrar undanþágur frá hinum ströngu bannákvæðum þegar sýnt þykir að jákvæð áhrif samkeppnishamla séu meiri en hin neikvæðu. Þetta gildir þegar samningar eða samstilltar aðgerðir stuðla að bættri framleiðslu eða vörudreifingu eða efla tæknilega og efnahagslega framþróun en það er algjört skilyrði að neytendur fái sanngjarna hlutdeild í því sem ávinnst. Undanþágurnar eru yfirleitt bundnar einstökum tilvikum en einnig eru undanþágur fyrir ákveðna flokka samn­inga, sbr. XIV. viðauki.
    

Um 54. gr.


Bann við misbeitingu á markaðsráðandi stöðu

    Samkvæmt þessari grein er markaðsráðandi fyrirtækjum bannað að misnota aðstöðu sína með því t.d. að ákvarða ósanngjarnt verð, takmarka framleiðslu, markaðs- eða tækniþróun til skaða fyrir neytendur, mismuna viðskiptavinum o.fl. Regla þessi á aðeins við ef misbeitingin hefur áhrif á viðskipti á milli aðildarríkjanna. Ákvæði 54. gr. eiga bæði við fyrirtæki sem hefur markaðsráðandi stöðu og einnig til fyrirtækja sem með samstarfi ná markaðsráðandi stöðu. Afmörkun á þeim markaði sem skiptir máli hverju sinni bæði út frá innri staðgengi varanna og út frá landfræðilegum sjónarmiðum ræður úrslitum um túlkun hugtaksins markaðsráðandi staða.

Vörumarkaðurinn
    EB byggir mat sitt á staðgengi vara fyrst og fremst á hlutlausum forsendum sem hægt er að tengja beint við sjálfa vöruna, eins og einkenni hennar, verð og notkun. Í reynd hefur þó einnig verið tekið tillit til annarra aðstæðna á markaðnum. Þannig hafa líkar vörur sem höfða til mismunandi hópa neytenda verið taldar tilheyra ólíkum mörkuðum. Almennt má segja að það verður að vera töluvert mikið staðgengi fyrir hendi til þess að vörur teljist tilheyra sama markaði. Í dómi EB-dómstólsins í máli United Brand-fyrirtækisins voru t.d. bananar taldir tilheyra sérmarkaði þó að aðrir ávextir hafi að vissu marki verið taldir geta komið í stað ban­ana. Bananar og aðrir ávextir voru sem sagt ekki taldir vera í beinni samkeppni. Í svokölluðu Philip Morris-máli var litið svo á að sígarettur væru sérstakur markaður aðskilinn frá markaði fyrir vindla, pípur o.s.frv. Almennt er því matið á umfangi vörumarkaðarins þröngt hjá EB.

Landfræðilegi markaðurinn
    Almennt mætti gera ráð fyrir að auðveldara væri að afmarka hinn landfræðilega markað sem máli skiptir en vörumarkaðinn. Í EB-rétti er gert ráð fyrir að landfræðilegi markaðurinn nái til verulegs hluta af hinum sameiginlega markaði. Skilgreining á hugtakinu „verulegur hluti hins sameiginlega markaðar“ hefur verið mjög teygjanleg og virðist í reynd geta átt við smæstu markaði, svo framarlega sem þeir eru álitnir sérstakir afmarkaðir sam­keppnismarkaðir. Það er hugsanlegt að þrátt fyrir smæð íslenska markaðarins verði hann í ýmsum tilvikum skilgreindur sem sérstakur landfræðilegur markaður vegna einangrunar hans frá öðrum mörkuðum. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 10.07.1980, mál 37/79, Marty/Lauder, B 1980, bls. 2481)
(DEB, 14.07.1972, mál 48/69, Imperial Chemical Industries, B 1972, bls. 619)
(DEB, 16.12.1975, mál 40-48/50, 54-56/111, 113–114/73, Suiker Unie, B 1975, bls. 1663)
(DEB, 25.11.1971, mál 22/71, Béguelin, B 1971, bls. 949)
(DEB, 22.06.1973, mál 48/72, „Haecht II“ B 1973, bls. 77)
(DEB, 27.01.1987, mál 45/85, Verband der Sachversicherer, B 1987, bls. 405)
(DEB, 14.07.1981, mál 172/80, Züchner, B 1981, bls. 2021)
(DEB, 20.06.1966, mál 56/65, Société Technique Miniére, B 1966, bls. 281)
(DEB, 06.04.1962, mál 13/61, Bosch, B 1962, bls. 93)
    
Markaðsyfirráð
    Í United Brand-málinu (bananamálinu) gaf EB-dómstóllinn út eftirfarandi skilgreiningu á hugtakinu yfirburðastaða eða markaðsyfirráð: „Það er sú staða þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að fyrirtækinu er kleift að hindra virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að þurfa að taka tillit til sam­keppnisaðila, viðskiptavina og neytenda.“ Innan EB hefur verið miðað við þá meginreglu að markaðshlutdeild undir 40% feli ekki í sér markaðsyfirráð. Ítrekað skal að markaðsyfirráð sem slík eru ekki bönnuð, heldur misbeiting þeirra.
Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 14.07.1981, mál 172/80, Züchner, B 1981, bls. 2021)
(DEB, 10.07.1980, mál 37/79, Marty/Lauder, B 1980, bls. 2491)
(DEB, mál 27/76, „Chiquita-bananar“, B 1978, bls. 207) Við 53.–54. gr.:
(DEB, 17.10.1989, mál 97-99/87, „Dow Chemical“, B 1989, bls. 3165)
(DEB, 21.09.1989, mál 46/87 og 227/88 Hoechst, B 1989, bls. 2859)
(DEB, 20.03.1985, mál 41/83, Ítalía, misnotkun yfirburða á markaði, B 1985, bls. 873)
(DEB, 03.10.1985, mál 311/84, Télémarketing (CBEN), B 1983, bls. 3261)
(DEB, 05.10.1988, mál 247/86, Alsatel/Novanianu, B 1988, bls. 5987)
(DEB, 13.02.1969, mál 14/69, Walt Wilhelm, B 1969. bls. 1)

Um 55. gr.


    Hér er kveðið á um að framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA (ESE) skuli tryggja framkvæmd meginreglnanna sem felast í 53.–54. gr. og úrskurða um brot á þeim.
    Fyrir flestar tegundir samkeppnismála hafa verið settar reglur um framkvæmd eftirlits, sbr. reglur í bókun 21 og XIV. viðauka. Þær almennu reglur sem settar eru fram um fram­kvæmd eftirlitsins í 55. gr. eiga við þegar sérstakar reglur hafa ekki verið ákveðnar á því sviði.
    ESE er skylt að framkvæma rannsóknir á meintum brotum í samvinnu við þar til bær stjórnvöld á viðkomandi svæði og í samvinnu við framkvæmdastjórn EB. Á sama hátt skal framkvæmdastjórn EB hafa samvinnu við eftirlitsstofnun EFTA og viðkomandi stjórnvöld.

Um bókun 21


Framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki

    Í bókun 21 skuldbinda EFTA-ríkin sig til að fela eftirlitsstofnun EFTA, í sérstökum samningi á milli EFTA-ríkjanna, sambærilegt valdsvið og framkvæmdastjórn EB á sviði sam­keppnisreglna til tryggingar á framkvæmd þeirra meginreglna sem EES-samningurinn kveður á um. Einnig skuldbindur EB sig til að setja ákvæði sem tryggi framkvæmd á sam­keppnisreglum EES-samningsins.
    Í bókuninni eru jafnframt settar fram nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins á sviði sam­keppnisreglna.

Um XIV. viðauka
Samkeppni

    Í viðaukanum er getið um 15 bindandi gerðir á sviði samkeppnismála. Meginreglunum sem þar koma fram er lýst í athugasemdum hér á undan.

Um 56. gr.


    Greinin fjallar um framkvæmd á 53.–54. gr. og hvernig framkvæmdastjórn EB og ESE skulu skipta á milli sín þeim málum sem koma til umfjöllunar hjá þeim.
    Eftirlit samkvæmt þessari grein og 57. gr. beinist að fyrirtækjum. Við skiptingu á valdsviði og eftirlitsstörfum eftirlitsstofnananna, ESE og framkvæmdastjórn EB, skiptir ekki máli hvar fyrirtækið á heimili heldur er skipting mála miðuð við hvar áhrifa þeirra viðskipta sem fela í sér samkeppnishömlur gætir. Með tilliti til réttaröryggis fyrirtækja og til að koma í veg fyrir að mál séu til rannsóknar á tveimur stöðum í einu miðast reglurnar um skiptinguna við að mál geti aðeins heyrt undir aðra hvora stofnunina.
    Eftirlitsstofnun EFTA mun fjalla um mál sem aðeins snerta viðskipti á milli EFTA-ríkjanna. Mál sem einungis hafa áhrif á viðskipti á milli EB-ríkja falla undir valdsvið framkvæmdastjórnar EB.
    Svokölluð blönduð mál sem hafa áhrif á viðskipti bæði á meðal EFTA-ríkjanna og EB falla undir eftirlitsstofnun EFTA ef þau hafa áhrif á viðskipti á milli EFTA-ríkjanna og eins EB-ríkis, en þó aðeins að því gefnu að velta fyrirtækjanna á EFTA-svæðinu sé minnst einn þriðji hluti af veltunni á öllu EES. Einnig falla undir eftirlitsstofnun EFTA öll blönduð mál sem ekki hafa umtalsverð áhrif á viðskipti á milli EB-ríkjanna. Öll önnur blönduð mál verða undir eftirliti framkvæmdastjórnar EB.

Um bókun 22


Skilgreining á „fyrirtæki“ og „veltu“ (56. gr.)

    Í bókuninni er að finna skilgreiningar á „fyrirtæki“ og „veltu" og hvernig hún reiknast.

Um 57. gr.


Eftirlit með samruna fyrirtækja
    Það er náið samband á milli misbeitingar á markaðsráðandi stöðu og eftirlits með samruna fyrirtækja. En það er ekki fyrr en á síðustu árum sem athyglin í Vestur-Evrópu hefur beinst að því að setja á sérstakar samrunareglur. EB tók upp samrunareglur á árinu 1989. Samkvæmt 57. gr. taka samrunareglur EES aðeins til samruna sem fer yfir ákveðna veltutölu. Þannig þarf velta þeirra fyrirtækja sem hyggjast sameinast að vera yfir 5 milljarðar ECU (370 milljarðar kr.) í öllum heiminum og a.m.k. tvö af fyrirtækjunum þurfa að selja fyrir 250 milljónir ECU (18 milljarða kr.) innan Evrópska efnahagssvæðisins til þess að samruninn falli undir reglur þess. Þessi mörk eru mjög há og er því mjög ólíklegt að þessi grein muni hafa áhrif á íslensk fyrirtæki.

Um 58. gr.


Samvinna eftirlitsstofnana

    Í þessari grein er kveðið á um að framkvæmdastjórn EB og ESE og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skuli hafa með sér nána samvinnu um túlkun og samræmt eftirlit með sam­keppnisreglum á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Bókanir 23 og 24 fjalla um nánari reglur fyrir samstarf stofnanna. Sjá nánar umfjöllun um samstarf eftirlitsstofnana í athugasemdum við samning EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól. Um svipað efni fjallar eftirfarandi dómur EB-dómstólsins:
(DEB, 21.09.1989, mál 46/87 og 227/88, Hoechst, B 1989, bls. 2859)

Um bókun 23


Samvinna milli eftirlitsstofnana (58. gr.)

    Sjá athugasemdir við 58. gr.

Um bókun 24


Samvinna varðandi eftirlit með samfylkingum

    Sjá athugasemdir við 58. gr.

Um 59. gr.


Opinber fyrirtæki
    Í 59. gr. er kveðið á um að opinber fyrirtæki eða fyrirtæki með einkaleyfi eða sérleyfi skuli aðlaga sig samkeppnisreglum EES. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dóm­stólsins:
(DEB, mál 10/71, ríkissaksóknari Lúxemborgar gegn Mutter, B 1971, bls. 738)
(DEB, mál 6 og 7/73, Commercial Solvents, B 1974, bls. 223)

Um 60. gr.


    Í 60. gr. er vísað til XIV. viðauka við samninginn sem felur í sér ákvæði um nánari framkvæmd á þeim reglum sem eru í 53., 57. og 59. gr. Í XIV. viðauka eru m.a. reglur um undanþágur flokka fyrirtækja á samkeppnissviðinu.

    


Um 2. kafla


Ríkisaðstoð


    Í samningnum er miðað við að reglur um ríkisstyrki hafi ekki áhrif á samkeppni fyrirtækja í viðskiptum milli aðildarríkja. Meginreglan er sú að allir opinberir styrkir sem hefta sam­keppni með því að mismuna fyrirtækjum eða framleiðsluvörum teljast ósamrýmanlegir framkvæmd samningsins svo framarlega sem þeir hafi áhrif á viðskipti milli aðildarríkja. Undanþágum frá þessari reglu má skipta í tvennt. Annars vegar eru styrkir sem alltaf samrýmast framkvæmd samningsins, svo sem félagslegir styrkir til einstaklinga og styrkir til að bæta tjón af völdum náttúruhamfara eða sérstakra atburða. Hins vegar eru styrkir sem geta samrýmst framkvæmd samningsins, svo sem styrkir til að efla atvinnuþróun og stuðla að efnahagslegum framgangi á svæðum þar sem lífskjör eru slæm, styrkir sem efla sameiginlega hagsmuni aðildarríkja eða bæta úr alvarlegri röskun á efnahagslífi. Ráðherraráð og fram­kvæmdastjórn EB hafa sett nánari reglur um framkvæmd þessarar stefnu og eru þær lagðar til grundvallar samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Skilgreining á ríkisstyrkjum nær yfir bein fjárframlög, ábyrgðir og skattaívilnanir, auk trygginga og niðurgreiðslu lánskjara frá markaðskjörum, og á jafnt við styrki veitta af ríkisvaldinu, sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og sjóðum í eigu opinberra aðila að hluta til eða öllu leyti.
    Samningurinn kveður á um að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins annars vegar og eftirlitsstofnun EFTA hins vegar fylgist stöðugt með öllum ríkisstyrkjum sem veittir eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Aðildarríki hafa upplýsingaskyldu gagnvart þessum eftirlitsstofnunum og þurfa að tilkynna fyrir fram og fá samþykki fyrir áætlunum sínum um veitingu ríkisstyrkja. Eftirlitsstofnanirnar skulu tryggja að styrkir séu í samræmi við samn­ingsákvæði og útfærslu þeirra í XV. viðauka. Til að tryggja enn frekar samræmda framkvæmd beggja eftirlitsstofnana á umsóknum og eftirliti með veitingu ríkisstyrkja í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, þá er í sérstakri bókun kveðið nánar á um samvinnu þeirra í milli.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið mun leiða til umtalsverðrar kerfisbreytingar hér á landi, bæði hvað snertir framkvæmd og form ríkisstyrkja. Styrkir til fyrirtækja og atvinnuvega eru hlutfallslega lágir hér á landi ef tekið er mið af öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Þess vegna verður ekki um mikla breytingu að ræða varðandi opinberar styrkveitingar. En vegna hinnar almennu bannreglu við ríkisstyrkjum, reglunum um tilkynn­ingu, samþykkt og eftirlit með styrkveitingum í „undanþágutilvikum“, verður framkvæmd styrkveitinga að breytast í veigamiklum atriðum hér á landi. Í því efni skal nefna þrjú atriði: áætlanir um styrkveitingar, gegnsæi styrkja og söfnun upplýsinga um styrkveitingar og áhrif þeirra.
    Við gildistöku samnings um Evrópska efnahagssvæðið mun eftirlitsstofnun EFTA safna upplýsingum um gildandi áætlanir um styrkveitingar í EFTA-ríkjunum. Þegar einstök ríki óska samþykktar stofnunarinnar fyrir nýjum styrkveitingum, skulu þær vera í formi áætlana, en ekki upplýsingar um styrki til einstakra verkefna eða fyrirtækja. Þannig leggja ríkin fram áætlun um veitingu byggðastyrkja, styrkja til rannsóknar- og þróunarverkefna, til einstakra atvinnugreina, umhverfisverndar o.fl. á tilteknu tímabili. Fram koma helstu markmið, umfang styrkja, hvers konar verkefni fái notið þeirra o.s.frv. Að fengnu samþykki eftirlitsstofnunar þurfa ríkin síðan að gera nákvæma grein fyrir framkvæmd styrkáætlana. Í XV. viðauka er gerð grein fyrir þeim kröfum sem báðar eftirlitsstofnanirnar, ESE og framkvæmdastjórn EB, gera til styrkáætlana á einstökum sviðum til þess að þær hljóti samþykki. Á það t.d. við um gegnsæi styrkja, þ.e. að augljóst sé með hvaða hætti styrkir séu veittir og einfalt að áætla upphæðir styrkja.
    Ef einstök ríki veita ríkisstyrki án samþykktar eftirlitsstofnunar, þá getur hún krafist þess að styrkþegar endurgreiði styrkveitingar og skal viðkomandi ríki framfylgja þeirri ákvörðun.

Um 61. gr.

    Grein þessi endurspeglar orðalag 92. greinar Rómarsamningsins og setur almennt bann við ríkisaðstoð sem raskar samkeppni og áhrif hefur á milliríkjaviðskipti. Tilgreindar eru undanþágur, vegna félagslegra aðstæðna, náttúruhamfara o.s.frv., sbr. athugasemdir við 2. kafla. Í sameiginlegri yfirlýsingu um c-lið 3. mgr. taka samningsaðilar fram að einnig skuli tekið tillit til strjálbýlis þegar athugað er hvort ríkisaðstoð eigi rétt á sér. Sameiginlega EES-nefndin getur ævinlega úrskurðað aðstoð samrýmanlega samningum á stjórnmálalegum forsendum, sbr. d-lið 3. mgr.
    Tilgangur þessarar greinar er sem fyrr að tryggja sem jöfnust samkeppnisskilyrði og sem greiðust viðskipti. Ríkisstyrkir geta í raun haft sömu áhrif og tollar, þ.e. skekkt sam­keppnisstöðu jafnmikið. Hins vegar er viðurkennt að þeir geti átt rétt á sér í vissum tilfellum. Fyrsta málsgrein skilgreinir ekki „hvers kyns aðstoð sem ríki veitir“, en túlkun hefur skýrst í áranna rás í meðferð EB-dómstólsins. Þar hefur verið áréttað að ekki er aðeins um beinar greiðslur að ræða heldur einnig afslætti, fríðindi eða undanþágur frá gjöldum sem vanalega eru innheimt. Allar aðgerðir ríkisins til styrktar fyrirtæki sem hafa í för með sér útgjöld eða tekjutap fyrir ríkið geta flokkast undir ríkisaðstoð, jafnvel þótt fyrirtækið greiði fyrir að hluta. Hið sama gildir um aðstoð sem veitt er úr sjóðum sem ríkið hefur stofnað til og fjármagnar, jafnvel þó þeir séu reknir sjálfstætt. Ríkisaðstoð getur verið í formi beinna fram­laga, skattafsláttar, lána á vildarkjörum, undanþágu frá launatengdum gjöldum, hagstæðra kjara við innkaup, afhendingu bygginga eða lóða undir markaðsverði, lánatrygginga eða tekjutryggingar. Í vissum tilfellum getur hugtakið einnig náð til beinna greiðslna til stofnana tiltekinnar iðngreinar. Einnig hefur verið viðurkennt að hlutabréfakaup ríkisins í fyrirtækjum geta í vissum tilfellum talist ríkisaðstoð. Öll aðstoð sem er almenns eðlis og beinist ekki að tilteknum fyrirtækjum er undanþegin ákvæðum greinarinnar. Greinin á hins vegar jafnt við um ríkisfyrirtæki sem einkafyrirtæki. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dóm­stólsins:
(DEB, 23.02.61, mál 30/59, De Gezamenlijke Steenkolenmijnen, B 1961, bls. 3)
(DEB, 09.07.69. mál 5/69, Völk-Vervaecke, B 1969, bls. 295)
(DEB, 10.12.69, mál 6 og 11/69, Taux de réescompte préférentiel á l'exportation,
    B 1969, bls. 523)
(DEB, 25.06.70, mál 47/69, Taxe parafiscale appliquée aux produits textiles en France,
    B 1970, bls. 487)
(DEB, 19.06.73, mál 77/72, Capolongo, B 1973, bls. 611)
(DEB, 12.07.73, mál 70/72, Aides á la reconversion des région miniéres, B 1973, bls.813)
(DEB, 11.12.73, mál 120/73, Lorenz, B 1973, bls. 1471)
(DEB, 02.07.74, mál 173/73, Allocation familiales dans le secteur textile,
    B 1974, bls. 709)
(DEB, 22.03.77, mál 78/76, Steinike, B 1977, bls. 595)
(DEB, 21.05.77, mál 31/77 R og 53/77 R, Ordonnance, B 1977, bls. 921)
(DEB, 17.09.80, mál 730/79, Philip Morris, B 1980, bls. 2671)
(DEB, 14.11.84, mál 323/82, Intermills, B 1984, bls. 3809)
(DEB, 13.03.85, mál 296 og 318/82, Aide dans le secteur de la transformation du carton,
    B 1985, bls. 809)
(DEB, 07.05.85, mál 18/84, Avantages fiscaux pour la presse, B 1985, bls. 1339)
(DEB, 15.01.86, mál 52/84, Prise de participation dans le capital d'une
    entreprise - droits de la défense, B 1986, bls. 89)
(DEB, 10.07.86, mál 234/84, Prise de participation dans le capital d'une
    entreprise - droits de la défense, B 1986, bls. 2263)
(DEB, 10.07.86. mál 40/85, Prise de participation dans le capital d'une
    entreprise - droits de la défense, B 1986, bls. 2321)
(DEB, 24.02.87, mál 310/85, Deufil, B 1987, bls. 901)

Um 62. gr.


    Hér er kveðið á um framkvæmd eftirlits með ríkisaðstoð innan EB og EFTA. EFTA-ríkin hafa á undanförnum árum haft eftirlit með ríkisstyrkjum með þeim hætti að þeir hafa verið tilkynntir og ræddir á sérfræðingafundum. Skamkvæmt stofnskrá Stokkhólmssamningsins er og hægt að taka meirihlutaákvörðun um það innan EFTA- ráðsins að grípa til aðgerða gegn ríki sem misnotar útflutningsstyrki. Innan EFTA hefur einnig verið bönnuð ríkisaðstoð við sjávarútveg.
    Reglur EFTA hafa þróast í sömu átt og reglur EB en ekki verið eins víðtækar né skýrar. Einnig skorti lengi skilvirkt eftirlitskerfi þó samþykkt hafi verið árið 1989 að koma því á fót. Með samningi þessum skuldbinda EFTA-ríkin sig til að koma á sambærilegu eftirliti með ríkisstyrkjum og er við líði innan EB. Sjá nánari umfjöllun í athugasemdum við bókun 3 við EES-samninginn.
    Sjá einnig dómatilvísanir við 61. grein.

Um bókun 26


Valdsvið og störf eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar

    Bókunin kveður á um skuldbindingu EFTA-ríkjanna að fela með samningi sín á milli eftirlitsstofnun EFTA sams konar eftirlitsvald á sviði ríkissaðstoðar og framkvæmdastjórn EB hefur innan EB. Sjá 24. gr. ESE-samningsins og bókun 3 við sama samning.

Um bókun 27


    Samvinna á sviði ríkisaðstoðar

    Hér er vísað til athugasemda við ESE-samninginn.

Um 63. gr.


    Hér er vísað til XV. viðauka.

Um XV. viðauka


Ríkisaðstoð


    Í viðauka þessum er aðeins tilgreind ein bindandi gerð, tilskipun sem leggur aðildarríkjum þá skyldu á herðar að veita upplýsingar um fjármálatengsl aðildarríkja og opinberra fyrirtækja. Eftirlitsaðilum innan EES, þ.e. Framkvæmdastjórn EB og Eftirlitsstofnun EFTA er hins vegar gert að taka tilhlýðilegt tillit til nokkurra annarra.
    Eins og kunnugt er rekur EB umfangsmikla byggðastefnu sem kostuð er úr sameiginlegum sjóðum. Framlög vegna hennar eru undanþegin ákvæðum um bann við ríkisaðstoð. Aðstoðaraðgerðir einstakra ríkja ber að tilkynna og hefur innan EB verið talið að aðstoð til svæðis eigi alla jafnan rétt á sér þegar tekjur íbúa eru innan við 75% af meðaltekjum EB-íbúa. Einnig hefur ríkjum verið heimilað að aðstoða einstök héruð ef atvinnuleysi er þar mun meira en í landinu öllu eða fátækt meiri.
    Sérstakar reglur gilda innan EB um aðstoð til skipasmíða. Þar er heimiluð ríkisaðstoð sem nemur allt að 9% kostnaðar fyrir stærri verkefni en 4,5% fyrir þau smærri. Þó er aðstoð sem leiðir til aukinnar skipasmíðaaðstöðu bönnuð. Meiri aðstoð er heimiluð ef skipið er flutt út frá EB. Ekki náðist samkomulag um að taka upp sameiginlegar reglur um aðstoð við skipasmíðar innan EES, en í yfirlýsingu er tekið fram að stefnt sé að því fyrir árslok 1993, þegar 7. tilskipun EB um aðstoð til skipasmíða rennur út.
    Sérstakar reglur gilda og um aðstoð til bílaiðnaðar, textílframleiðslu, kol- og stálfram­leiðslu vegna samdráttar í þessum greinum.
    Heimilað hefur verið að fjármagna allt að 50% kostnaðar við rannsóknir og þróun. Einnig hefur ekki verið amast við aðstoð við fyrirtæki sem færri en 150 vinna hjá og þar sem árleg velta er minni en 1.100 millj. kr. ef tilgangurinn er að skapa atvinnutækifæri eða ef hvert fyrirtæki fær minna en 15 millj. kr. í sinn hlut.
    Innan EB hefur og tíðkast að veita undanþágur ef verkefnið er talið vera í þágu allra EB-ríkja. Með sameiginlegri yfirlýsingu er tekið fram að samningsaðilar skuli taka tillit hver til annars við beitingu slíkra undanþágna.

Um 64. gr.


    Grein þessi kveður á um það hvernig bregðast eigi við ef önnur hvor eftirlitsstofnunin slær slöku við að mati hinnar. Þá er efnt til viðræðna. Ef þær eru árangurslausar er gripið til bráðabirgðaráðstafana og máli vísað til sameiginlegu EES nefndarinnar. Ef engin lausn fæst þar geta ráðstafanirnar orðið viðvarandi.
    Oftast gæti slíkt misræmi stafað af því að samningsaðilar túlka samninginn á mismunandi hátt en eins og kunnugt er nú enginn sameiginlegur úrskurðaraðili í slíkum tilfellum.
    Minnt er á að skv. 2. mgr. 109. gr. er tekið fram að stofnanirnar skuli hafa samstarf sín á milli, skiptast á upplýsingum og ráðgast hvor við aðra um stefnu í eftirlitsmálum og einstök mál. Ekki er því gert ráð fyrir því að mismunandi túlkunarhefðir geti náð að þróast.
    Umfang þeirra ráðstafana sem minnst er á takmarkast af almennum reglum samningsins um að sem minnst beri að raska framkvæmd hans og frjálsum viðskiptum.

Um 3. kafla


Aðrar sameiginlegar reglur


Um 65. gr.


     Í 1. mgr. er vísað til XVI. viðauka um opinber innkaup.

Um XVI. viðauka

Opinber innkaup


    Samkomulag um opinber innkaup á Evrópumarkaði miðar að því að tryggja aukna alþjóðlega samkeppni á markaði opinberra innkaupa. Samkomulagið felur í sér ítarlegar reglur um það hvernig þeir aðilar sem tilgreindir eru eiga að haga útboðum vegna opinberra innkaupa og samþykkja tilboð. Skamkvæmt samningnum eiga lög, reglugerðir, framkvæmda­reglur og venjur varðandi opinber innkaup að vera skýr og tryggja að innlend framleiðsla eða seljendur sé ekki vernduð eða gert upp á milli erlendrar framleiðslu og innlendrar.

Núverandi opinbert innkaupakerfi á Íslandi

    Um opinber innkaup gilda í dag lög nr. 63/1970 um opinberar framkvæmdir og lög nr. 57/1987 um opinber innkaup, enn fremur reglugerð nr. 189/1988 um opinber innkaup og starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins. Tilgangur þessara laga er að tryggja hagkvæmni í rekstri ríkisins að því er varðar kaup á vörum og þjónustu til rekstrar og framkvæmda og hagkvæmni við verkframkvæmdir.
    Opinber innkaup heyra undir fjármálaráðuneytið. Það er meginregla í lögunum að bjóða út kaup á vörum og þjónustu og verkframkvæmdir.
    Í meginatriðum eru útboðsaðferðir, meðferð tilboða og val svipað og í þeirri reglu sem tíðkast í GATT og þeim reglum sem gilda hjá EB.
    Innkaupastofnun ríkisins er falið að annast útboð, vörukaup og verksamninga fyrir ríkisstofnanir, nema ráðherra feli eða heimili ríkisstofnunum að annast eigin viðskipti. Hefur það verið gert í nokkrum tilfellum í sambandi við verkframkvæmdir, t.d. Vegagerð ríkisins, Vita- og hafnamálastofnun, Rafmagnsveitur ríkisins, Póst- og símamálastofnun og Flugmála­stjórn. Þá hefur og Landsvirkjun annast eigin viðskipti á þessu sviði. Ekki eru ákvæði í þessum lögum eða reglugerðum um lágmarksverðmæti þess sem skylt er að bjóða út á opinberum markaði eða um lágmarksútboðstíma.
    Í verkútboðum er mikið stuðst við staðalinn ÍST 30 og þær reglur sem þar eru tilgreindar.
    Reykjavíkurborg rekur eigin innkaupastofnun sem annast innkaup og verkútboð fyrir borgina og er eina sveitarfélagið sem rekur sérstaka innkaupastofnun. Önnur sveitarfélög hafa í mörgum tilfellum falið Innkaupastofnun ríkisins að annast meiriháttar innkaup fyrir sig. Í EB-reglum er opinberum innkaupum skipt í fjóra þætti:

i. Opinber vörukaup
    Hjá EB eru vörukaup fyrir ríkisstofnanir og sveitarfélög yfir verðmæti 130 þús. ECU, eða um 10 millj. kr. án virðisaukaskatts, boðin út á Evrópumarkaði samkvæmt sérstökum lista og tilgreindum reglum um útboðsaðferðir og val tilboða. Um ýmsar aðrar vörutegundir gilda verðmætismörk yfir 200 þús. ECU eða um 15 millj. kr. Ekki verður séð að þær meginreglur sem Evrópubandalagið hefur í gildi stangist í grundvallaratriðum á við íslensk lög og venjur, en reglurnar eru og nákvæmari um einstök útfærsluatriði en í íslenskum lögum og reglugerð.
    Enginn vafi er á því að verulegur fjöldi vörukaupaútboða fyrir ríkisstofnanir hér á landi eru yfir þeim mörkum, sem hér að framan eru talin. Hins vegar munu vera fá tilfelli yfir mörkum hjá sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg.

ii. Opinberir verksamningar
    Annar þáttur opinberra innkaupa hjá EB eru opinber verkútboð og verksamningar. Þar er gert ráð fyrir í meginatriðum sams konar útboðsaðferðum og við opinber vörukaup, en þar er lágmarksútboðsverðmæti 5 millj. ECU eða 375 millj. kr. Verðmæti miðast við heildar­verkið, það er að segja hönnun, vinnu og helstu vörukaup.
    Aðföng sem nauðsynleg eru við framkvæmdir og samningsaðilar hafa látið verktaka í té teljast innifalin í lágmarksútboðsverðmæti.

iii. Útboð vegna opinberra rekstrarfyrirtækja (orkusala, Póstur og sími, vatnsveitur og flutningar)
    Um þennan þátt gilda í meginatriðum sömu reglur og um opinbera verksamninga, verðmæti lágmarksútboðs er 5 millj. ECU eða 375 millj. kr. og vörukaup skal bjóða út ef verðmæti er yfir 400 þús. ECU eða um 30 millj. kr. nema hjá Pósti- og síma. Þar er lágmark vörukaupa 600 þús. ECU eða um 45 millj. kr.

iv. Opinber innkaup á þjónustu
    Tilskipun um það efni er enn í vinnslu hjá EB og því ekki hluti af EES-samkomulaginu.

Sameiginleg atriði

    Eftirtalin atriði eru sameiginleg fyrir alla fjóra innkaupaflokka á EES-svæðinu:
     1.      Strangar reglur gilda um auglýsingar og meðferð útboða og val bjóðenda. Útboðum skipt í flokka, m.a. almenn útboð, sem er öllum opið og lokuð útboð, þar sem útboðs­lýsing er gerð í samráði við 1 eða 2 aðila og um fáa framleiðendur eða bjóðendur að ræða.
     2.      Allar auglýsingar skulu birtast í Stjórnartíðindum EB, í sérstakri EES-deild, og eru á kostnað bandalagsins. Óheimilt að auglýsa í heimalandi fyrr en auglýsing hefur verið send til Stjórnartíðinda EB.
     3.      Útboðstími er nákvæmlega skilgreindur í hverju tilfelli og er langur miðað við það sem tíðkast hefur á Íslandi.
     4.      Sérstakir aðilar á vegum EB úrskurða innan EB eða fjalla um ágreiningsmál er varða gerð útboðslýsinga og val bjóðenda. Á EES-svæðinu skiptist eftirlit milli framkvæmda­stjórnar EB og eftirlitstofnunar EFTA.
     5.      Lögð er áhersla á Evrópustaðla við gerð útboðslýsinga.
     6.      Lögð er rík áhersla á að öll aðildarríki fari eftir tilskipunum og reglugerðum, en einstaka EB og EFTA-ríki hafa fengið lengdan aðlögunartíma eftir 1992.
     7.      Mikil upplýsingaskylda hvílir á þátttökuþjóðum hvað varðar öll opinber innkaup og skulu upplýsingar sendar til framkvæmdastjórnar EB og eftirlitsstofnunar EFTA.
     8.      Verðmætismörk í útboðum eru endurskoðuð annað hvort ár.

Væntanlegar breytingar á Íslandi
    Af framangreindu má álykta að eftirfarandi aðgerða sé þörf hér á landi:
     1.      Breyting á lögum eða reglugerðum um opinber innkaup til samræmis við Evrópumarkaðinn, þar með talið að skylda sveitarfélög til að efna til opinberra útboða samkvæmt reglum á Evrópumarkaði.
     2.      Einni opinberri stofnun sé falið að annast öll opinber samskipti hvað varðar upplýsingar og framkvæmd opinberra útboða á Evrópumarkaði. Jafnframt sé þeirri stofnun falið að vera öðrum opinberum stofnunum ríkis og sveitarfélaga til ráðuneytis við gerð útboðslýsinga og túlkun og framkvæmd þeirra reglna sem í gildi eru á Evrópska efna­hagssvæðinu.
     3.      Sennilega þarf að efla þýðingamiðstöð til að annast þýðingar á útboðslýsingum og öðrum gögnum sem snerta þetta mál, en væntanlega mun kostnaður við þýðingar á útboðs­gögnum aukast eitthvað. Einnig er möguleiki á því að sameiginleg þýðingamiðstöð starfi á einum stað í Evrópu.

Lokaorð
    Um langt skeið hefur verið fyrir hendi opinn alþjóðlegur útboðsmarkaður hér á landi við opinber innkaup, bæði hvað varðar vörur og meiri háttar verkkaup. Með aðild að EES er því ekki um verulega grundvallarbreytingu að ræða hvað varðar samkeppnisaðstæður eða sam­keppnisreglur. Samkeppnisávinningur er óviss vegna þess hve útboð eru nú þegar opin og á alþjóðamörkuðum, en væntanlega kemur hann fram í aukinni þátttöku bjóðenda. Hins vegar aukast möguleikar innlendra framleiðenda og verktaka vegna upplýsingaflæðis hingað til lands um opinber innkaup í öðrum aðildarríkjum. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 31.10.1974, mál 15/74, Centrafarm, B 1974, bls. 1147)
(DEB, 08.06.1971, mál 78/70, Deutsche Grammophon, B 1971, bls. 487)

Um 2. mgr. 65. greinar

    Hér er vísað til bókunar 28 og XVII. viðauka

Um bókun 28


Hugverk


     Um 1. gr. bókunar 28

    Ákvæði samningsins hagga ekki þeirri vernd sem þegar er veitt með núgildandi höfundarlögum.
    Nánari ákvæði um þær gerðir sem falla undir bókun 28 eru í XVII. viðauka. Þessar gerðir eru á sviði höfundarréttar:
    Tilskipun ráðsins 91/250/EBE frá 14. maí 1991 um lögvernd fyrir tölvuforrit og að sínu leyti einnig tilskipun ráðsins 87/54/EBE frá 16. desember 1986 um vernd svæðislýsinga smárása, en slík vernd er sérstaks eðlis og byggist í flestum ríkjum á sérstakri löggjöf.
    Tillögur liggja fyrir um tilmæli um leigu, lán og viss réttindi höfundaréttar (COM (90) 586 final-SYN 319) og enn fremur tilmæli sem lúta að skuldbindingu til að gerast aðilar að alþjóðasáttmálum á þessu sviði (COM (90) 582 final-SYN 318).
    Höfundaréttarleg vernd í öllum ríkjum Evrópu grundvallast á alþjóðlegum sáttmálum á þessu sviði, þ.e. Bernarsáttmálanum til verndar bókmenntum og listaverkum og alþjóðlega höfundarréttarsáttmálanum. Því er inntak verndar nánast hið sama í þessum ríkjum.
    Um vernd tölvuforrita verður sérstaklega vikið í greinargerð með XVII. viðauka.

     Um 2. gr. bókunar 28

    Tæming réttinda á sviði hugverkaréttar innan Evrópubandalagsins byggist á þeirri meginreglu að handhafi höfundarréttar, eða hugverkaréttar almennt, að hugverki, sem nýtur verndar samkvæmt löggjöf aðildarríkis, megi ekki beita þeirri löggjöf til þess að koma í veg fyrir innflutning hugverksins, hafi það með lögmætum hætti verið markaðssett af handhafanum sjálfum eða með samþykki hans í öðru aðildarríki EB.
    Með tæmingu réttinda er ekki átt við tæmingu á einkaréttalegum heimildum sem felast í höfundarrétti að öðru leyti, svo sem heimildum til opinbers flutnings, eintakagerðar, leigu, aðlögunar og þýðingar o.s.frv.
    Tilgangur EB-reglna um tæmingu réttinda byggist á því sjónarmiði að afnema hindranir í viðskiptum milli ríkja.

     Um 3. gr. bókunar 28

    Samningsaðilar skuldbinda sig til að leitast við að ljúka samningaviðræðum innan þriggja ára frá gildistöku samningsins um einkaleyfi í bandalaginu ( 89/695/EBE) ACP um að EFTA-ríkin taki þátt í þeim samningi.
    ACP-samningurinn miðar að því að koma á EB-einkaleyfi, þ.e. einkaleyfi sem yrði veitt og hefur gildi í öllum aðildarríkjum EB, en í dag eru einkaleyfi eingöngu veitt fyrir hvert ríki fyrir sig. Tilgangur samkomulagsins er að hindra að einkaleyfi valdi viðskiptahindrunum. Samkomulagið gerir ráð fyrir að samhliða venjulegum landsbundnum einkaleyfum verði hægt að skrásetja EB-einkaleyfi sem gilda fyrir allt EB- svæðið. Slík einkaleyfi yrðu veitt af Einkaleyfastofnun Evrópu (European Patent Office eða EPO). EPO veitir einkaleyfi fyrir aðildarríki EPO samhliða einkaleyfastofnunum einstakra aðildarríkja. Eftir að einkaleyfin eru veitt gilda þau í hverju ríki fyrir sig, óháð einkaleyfum í öðrum ríkjum eins og er um venjuleg einkaleyfi. Ef samkomulagið gengi í gildi þá mundu einkaleyfi sem EPO veitti fyrir aðildarríki ACP-samkomulagsins gilda fyrir allt það landsvæði, sem það nær til, en ekki hafa óháða tilveru í hverju aðildarríki eins og nú er.
    Samkomulagið gerir ráð fyrir að EB-ráðið geti boðið öðrum ríkjum að gerast aðilar að sáttmálanum ef þau eru í fríverslunar- eða tollabandalagi við EB og eru jafnframt aðilar að EPO. Ísland er ekki aðili að EPO.
    Hinn 1. janúar 1992 tóku gildi ný einkaleyfalög á Íslandi sem eru í öllum atriðum byggð á norrænum einkaleyfalögum. Norrænu lögin eru efnislega samhljóða EPO- sáttmálanum auk þess sem mið hefur verið tekið af efni ACP-samningsins.
    Ef Ísland gerðist aðili að ACP-samningnum yrðu Íslendingar að gerast aðilar að EPO. EFTA-ríkin vilja að þau EFTA-ríki sem eru aðilar að EPO geti sjálfkrafa gerst aðilar að ACP.
    Ísland getur gerst aðili að EPO án þess að til efnisbreytinga á einkaleyfalögunum þurfi að koma. Ekki hefur verið gerð ítarleg úttekt á áhrifum þess að Ísland gerðist aðili að EPO en svo virðist sem íslensk þátttaka geti verið til hagsbóta þar sem það leiddi til að allar erlendar umsóknir um einkaleyfi yrðu rannsakaðar af EPO. Of fljótt er að segja nokkuð um aðild að ACP-samkomulaginu þar sem mörg atriði um framkvæmd þess eru enn óljós.

     Um 4. gr. bókunar 28

    Í bókuninni er einnig fjallað um vernd svæðislýsinga á hálfleiðurum. Þar er tekið fram að samningsaðilar EES geti tekið ákvarðanir um að láta verndina einnig ná til aðila sem ekki er aðili að samningnum. Í slíkum tilfellum skal leitast við að tryggja að sá aðili veiti öðrum samningsaðilum samningsins rétt til verndar með sambærilegum skilmálum og þeim sem honum eru veittir. Þessi aukna vernd skal viðurkennd og virt af öllum samningsaðilum.

     Um 5. gr. bókunar 28

    Hér er fjallað um skuldbindingu samningsaðila EES til að fara að tilteknum sáttmálum á sviði hugverkaréttar. Ísland er þegar aðili að stjórnunarkafla Parísartexta Bernarsamnings­ins frá 1971, en ekki efnisákvæðum þess texta. Undirbúningur er þegar hafinn fyrir fullgild­ingu Rómarsamningsins frá árinu 1961 um vernd listflytjenda o.fl..
    Núgildandi höfundarlög eru samin með hliðsjón af ákvæðum þessara samninga. Ekki er því þörf á breytingum á núgildandi löggjöf vegna þeirra, en brýnt er að tryggja innlendum og erlendum höfundum og listflytjendum þá réttarvernd sem í þessum alþjóðasamningum felst.

     Um 6. gr. bókunar 28

    Samningsaðilar samþykkja að bæta það stjórnarfyrirkomulag sem komið hefur verið á með EES-samningnum í ljósi niðurstaðna Úrúgvæ-samningalotunnar í GATT- viðræðunum.

     Um 7. gr. bókunar 28

    Samningsaðilar skuldbinda sig til að veita hver öðrum upplýsingar á sviði hugverkaréttar og að hafa samráð á því sviði.

     Um 8. gr. bókunar 28

    Í bráðabirgðaákvæði bókunarinnar segir að samningsaðilar samþykki aðild að samningaviðræðum til þess að þau EFTA-ríki sem áhuga hafi geti síðar meir tekið fullan þátt í ráðstöfunum vegna hugverka sem samþykktar kunna að verða í löggjöf bandalagsins.

Um 9. gr. bókunar 28

    Þarfnast ekki skýringa.

Um XVII. viðauka

Hugverkaréttindi

    Í viðaukanum er vísað í eftirfarandi tilskipanir og ákvarðanir:

    Tilskipun 87/54/EBE frá 16. desember 1986 um lögvernd smárása.
    Smárás er fullkomin rafmagnsrás fyrir lágspennu, framleidd sem ein eining og getur gegnt sjálfstæðu hlutverki. Smárásir eru unnar úr hálfleiðaraefnum og eru ómissandi í öllum nútímarafeindatækjum. Með tilskipuninni eru settar fram reglur um hvernig vernd smárása skuli háttað efnislega í aðildarríkjum EB. Hins vegar er einstökum ríkjum eftirlátið að ákveða ýmis formskilyrði, eins og t.d. hvort skráning skuli vera grundvöllur verndar. Ólíkt því sem gildir almennt í hugverkarétti byggist tilskipunin á því að vernd smárása skuli aðeins ná til ríkisborgara EB eða fyrirtækja og annarra lögpersóna sem staðsett eru í aðildarríkjum þess.

    Tilskipun 89/104/EBE frá 21. desember 1988 um samræmingu löggjafar aðildarríkjanna varðandi vörumerki.
    Reglur tilskipunarinnar miða að því að samræma vörumerkjalög aðildarríkja þannig að ákvæði þeirra valdi ekki viðskiptahindrunum. Í tilskipuninni er kveðið á um það hvaða merki geti talist vörumerki, af hvaða ástæðum megi hafna eða ógilda skráningu vörumerkja, hvað vörumerkjaréttur feli í sér, verndarsvið þekktra vörumerkja, takmörkun á vörumerkjarétti, hvenær vörumerkjaréttur teljist tæmdur, skyldu til að nota skráð vörumerki og afleiðingar þess ef skráð vörumerki er ekki notað. Tilskipunin kveður hins vegar ekki á um hvernig staðið skuli að skráningu eða ógildingu skráningar. Aðildarríkin geta því skipað málum þessum sjálf. Tilskipunin tekur heldur ekki afstöðu til þess hvort vörumerkjaréttur geti eingöngu stofnast með skráningu eða hvort notkun geti verið grundvöllur vörumerkjaréttar eins og byggt er á hjá Norðurlandaþjóðunum.
    Gera þarf nokkrar efnisbreytingar á gildandi vörumerkjalögum. Helsta breytingin er sú að notkun skráðs vörumerkis sé forsenda fyrir gildi skráningar, en í dag hvílir ekki notkunarskylda á eigendum skráðra vörumerkja. Notkun sem grundvöllur áframhaldandi vörumerkjaverndar er eðlileg þróun í vörumerkjarétti. Á síðustu áratugum hefur skráðum vörumerkjum fjölgað verulega. Það hefur leitt til þess að samkeppnisaðilar eiga erfiðara með að finna ný nothæf vörumerki sem þeir geta skráð.
    Önnur breyting er sú að auka þarf vernd frægra vörumerkja til að koma í veg fyrir að sam­keppnisaðilar geti notfært sér viðskiptavild þeirra eða rýrt gildi þeirra. Aðrar efnisbreytingar eru minni háttar og ættu ekki að skapa erfiðleika fyrir íslenskan iðnað. Vörumerkjalög okkar byggjast á norrænum grunni og eru efnislega samhljóða vörumerkjalögum annarra Norðurlandaþjóða. Í Danmörku öðluðust ný vörumerkjalög gildi 1. janúar 1992. Í þeim er tekið tillit til ofangreindrar tilskipunar auk þess sem Danir hafa notað tækifærið og breytt ýmsum öðrum atriðum. Af Íslands hálfu verður haft samráð við Finna, Svía og Norðmenn um útfærsluatriði.

    Ákvörðun ráðsins 90/510/EBE frá 9. okt. 1990 um aukna lögvernd fyrir svæðislýsingar smárása á hálfleiðurum til að ná til einstaklinga frá tilteknum löndum og yfirráðasvæðum.
    Þegnar ríkja eða þeir sem hafa heimilisfesti í þeim ríkjum sem talin eru upp í viðauka við ákvörðunina eiga sama rétt og þegnar EB. Þetta getur einnig gilt um lögaðila.

    Ákvörðun ráðsins 90/511/EBE 9. okt. 1990 um aukningu á vernd smárása.
    Ákvörðunin er nær samhljóða tilskipun 90/510/EBE.

    Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 90/541 / EBE frá 26. okt. 1990.
    Vísar til ákvörðunar ráðsins 90/511/EBE frá 9. okt. 1990 og bætir Bandaríkjunum og Sviss í hóp þeirra ríkja er njóta verndar.

    Tilskipun ráðsins 91/250/EBE frá 14. maí 1991 um lögvernd fyrir tölvuforrit.
    Samkvæmt tilskipuninni ber að veita tölvuforritum vernd eins og um bókmenntaverk í skilningi Bernarsáttmálans væri að ræða. Orðið „tölvuforrit“ tekur einnig til undirbúnings- og hönnunarvinnu við gerð forrita. Einstaklingar, hópar einstaklinga eða lögpersónur geta talist höfundar forrits. Þegar starfsmaður hefur hannað forrit í starfi sínu eða samkvæmt fyrirmælum vinnuveitanda á vinnuveitandinn að öllu jöfnu einkaréttinn. Einkaréttur höfundarins nær til afritunar, þýðingar, aðlögunar, uppröðunar, dreifingar og leigu. Helstu undanþágur eru fólgnar í því að ekki þarf leyfi rétthafa til að gera leiðréttingar á forriti sem aflað hefur verið með lögmætum hætti. Auk þess má sá sem rétt hefur til að nota forritið gera af því öryggisafrit og kynna sér eða kanna hvernig forritið verkar. Einnig er óþarfi að fá leyfi höfundar þegar afritun forrits og þýðing þess er óhjákvæmileg til að ná þeim upplýsingum sem þörf er á fyrir rekstrarsamhæfni utanaðkomandi forrits, þó að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Aðildarríkjum ber að kveða á í landslögum sínum um viðeigandi úrræði gagnvart þeim sem brýtur á rétti höfundar.
    Verndin gildir svo lengi sem höfundur forritsins lifir og í 50 ár frá dauða hans eða dauða síðasta eftirlifandi höfundar verksins.
    Miðað er við að aðildarríkin verði búin að aðlaga lög sín fyrir 1. janúar 1993.
    Í menntamálaráðuneytinu hefur verið samið frumvarp til nýrra höfundarlaga en núgildandi lög eru nr. 73/1972. Þar er fjallað sérstaklega um tölvuforrit og njóta þau verndar á sama hátt og önnur höfundarréttindi, en þó með sérstökum hætti, í samræmi við tilskipunina. Er vikið frá meginreglum höfundarréttarverndar að nokkru leyti, sérstaklega hvað varðar takmörkun á heimildum höfundarréttarhafa til þess að koma í veg fyrir að eigandi eintaks geti gert fleiri eintök af því. Eintakagerð er því heimiluð ef hún er nauðsynleg af tæknilegum ástæðum vegna afnota af forritinu. Þá eru einnig sérstök ákvæði um heimildir vinnuveitenda til að ráðstafa forriti ef það er unnið á grundvelli vinnusamnings. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 29.02.68, mál 24/67, Parke Davis, B 1968, bls. 81)
(DEB, 08.06.71, mál 78/70, Deutsche Grammophon, B 1971, bls. 487)
(DEB, 03.07.74, mál 192/73, Van Zuylen/Hag, B 1974, bls. 731)
(DEB, 31.10.74, mál 15/74, Centrafarm/Sterling Drug, B 1974, bls. 1147)
(DEB, 31.10.74, mál 16/74, Centrafarm/Winthrop, B 1974, bls. 1183)
(DEB, 22.06.76, mál 119/75, Terrapin/Terranova, B 1976, bls. 1039)
(DEB, 23,05.78, mál 102/77, Hoffmann La Roche/Centrafarm, B 1978, bls. 1139)
(DEB, 10.10.78, mál 3/78, Centrafarm/American Home products, B 1978, bls. 1823)
(DEB, 20.01.81, mál 55 og 57/80, Musik-Vertrieb Membran/Gema, B 1981, bls. 147)
(DEB, 22.01.81. mál 58/80, Dansk Supermarked/Imerco, B 1981, bls. 181)
(DEB, 15.07.81, mál 187/80, Merck/Stephar, B 1981, bls. 2063)
(DEB, 03.12.81, mál 1/81, Pfizer/Eurim-Pharm, B 1981, bls. 2913)
(DEB, 14.09.82, mál 144/81, Keurkoop/Nancy Kean Gifts, B 1982, bls. 2853)
(DEB, 06.11.84, mál 177/83, Kohl/Ringelhan & Rennett, B 1984, bls. 3651)
(DEB, 09.07.85, mál 19/84, Pharmon/Hoechst, B 1985, bls. 2281)
(DEB, 09.04.87, mál 402/85, Basset/SACEM, B 1987, bls. 1747)

Um V. hluta


     Altæk ákvæði er varða fjórþætta frelsið

    Þessi hluti samningsins fjallar um samstarf sem einskorðast ekki við neitt eitt svið fjórþætta frelsisins. Hér er að finna almenn ákvæði, sem geta haft áhrif á öll sviðin. Þetta samstarf er mjög mikilvægt til þess að markmið innri markaðar um jafna samkeppnisaðstöðu náist.
    Samstarfið nær til félagsmála, umhverfismála, neytendaverndar, hagskýrslna og félagaréttar. Samkvæmt EES-samningnum eru þessi svið meðhöndluð eftir sömu reglum og þau, sem varða innri markaðinn, og þær gerðir EB, sem vísað er til í þessum hluta, eru bindandi á sama hátt og aðrar sem varða fjórþætta frelsið. Flestar greinarnar eiga sér sam­svörun í Rómarsamningnum og er gert ráð fyrir að í framtíðinni gildi sömu reglur um þessa málaflokka innan EES.
    Samstarfið grundvallast á XVIII.–XXII. viðauka við EES-samninginn. Í flestum tilvikum er um að ræða lágmarkskröfur og samningsaðilar geta því sett strangari reglur innan landamæra sinna.
    Þegar um er að ræða samstarfsáætlanir eða einstök verkefni á sviði félagsmála, umhverfismála og neytendaverndar, fellur það samstarf undir VI. hluta samningsins um sam­vinnu utan marka fjórþætta frelsisins.

Um 1. kafla

Félagsmál

    Innri markaðurinn gerir ráð fyrir umfangsmiklu og bindandi samstarfi um málefni sem tengjast aðstæðum á vinnumarkaði. Meðal markmiða þessa samstarfs eru útrýming atvinnuleysis, bætt starfsumhverfi, jafnrétti á vinnumarkaði, starfsmenntun og jöfn tækifæri íbúa á öllu svæðinu, sem felur í sér stuðning við þá sem verr eru settir, bæði landfræðilega og félagslega.
    Í samningaviðræðunum um EES lögðu EFTA-ríkin mikla áherslu á að samningurinn yrði grundvöllur að umfangsmiklu lagalega bindandi samstarfi á sviði félagsmála með það að meginmarkmiði að auka gæði á öllum sviðum samfélagsins.
    Samstarfið innan EB á þessu sviði, sem er hluti af samningnum um EES, byggist á 117., 118., 119. og 123. gr. í Rómarsamningnum og 118. gr. a og b, sem bættust við með einingarlögunum.
    Til viðbótar við ofangreind markmið er í þessum greinum gert ráð fyrir að framkvæmda­stjórn EB stuðli að því að efla skoðanaskipti milli aðila vinnumarkaðarins. Slíkt samráð fellur í hlut fastanefndar EFTA í EFTA-ríkjunum samkvæmt EES-samningnum.
    Árið 1988 átti framkvæmdastjórn EB frumkvæði að því að semja stofnskrá um félagsleg grundvallarréttindi launafólks til þess að settar yrðu rammareglur, sem tryggðu íbúum bandalagslandanna félagslegt og efnahagslegt öryggi. Aðilar vinnumarkaðarins tóku þátt í því að móta þessar reglur.
    Stofnskráin um félagsleg grundvallarréttindi er ekki bindandi, en hún var undirrituð árið 1989 af öllum bandalagsríkjunum nema Bretlandi. Með EES-samningnum fylgir yfirlýsing ríkisstjórna EFTA-ríkjanna um að þau vilji fylgja þeim reglum, sem settar eru fram í stofnskránni. Á ráðherrafundi EB-landanna í Maastricht í desember sl. sameinuðust löndin 11, sem undirritað hafa stofnskrána, um félagsleg grundvallarréttindi um að efla samstarfið á sviði félagsmála og renna traustari stoðum undir það með nýjum greinum í Rómarsamn­ingnum.
    Í framhaldi af undirritun stofnskrárinnar 1989 gerði framkvæmdastjórn EB áætlun til að fylgja henni eftir. Í áætluninni eru 47 ráðstafanir sem eiga að vera komnar til framkvæmda ekki síðar en 1. janúar 1993, en aðeins nokkrar þeirra hafa enn verið samþykktar af EB-ráðinu.
    Innan EB hefur mikil áhersla verið lögð á að aðilar vinnumarkaðarins taki þátt í að móta samstarfið á sviði félagsmála og hefur framkvæmdastjórnin þar frumkvæði. Er það einnig eitt af markmiðum EES-samningsins að samningsaðilar auki skoðanaskipti milli vinnuveitenda og launþega í Evrópu, sbr. 71. gr.

Um 66. gr.

Þarfnast ekki skýringar.

Um 67. gr.

    Ákvæði greinarinnar skylda samningsaðila til að leitast við að bæta vinnuumhverfi til verndar heilsu og öryggi launþega. Í þessum tilgangi skulu lágmarkskröfur koma smám sam­an til framkvæmda, en samningsaðilum er heimilt að setja strangari reglur.
    Í XVIII. viðauka eru þær gerðir EB, sem fela í sér þær lágmarkskröfur sem fylgja á.
    Meðal þeirra ákvæða sem eru í gerðum þessum má nefna ákvæði um skyldur atvinnurekenda og launafólks, verndaraðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir, þátttöku launafólks í stjórn fyrirtækja, menntun og eftirlit.
    Settar eru reglur um búnað á vinnustað, einkum með tilliti til öryggis launafólks.

Um 68. gr.

    Í XVIII. viðauka eru þær gerðir EB sem fela í sér ákvæði um þær ráðstafanir á sviði vinnulöggjafar sem samningsaðilum ber að hlíta til að tryggja góða framkvæmd samningsins.
    Hér er einkum fjallað um réttindi launafólks við yfirtöku eins fyrirtækis á öðru, en sá sem tekur við fyrirtæki er skyldugur til að uppfylla þær skuldbindingar sem fyrri atvinnurekandi hafði við launafólk fyrirtækisins.
    Ákvæði eru um að tryggja skuli stöðu launafólks verði atvinnurekandi gjaldþrota. Aðildarlöndin eru skylduð til að koma á fót stofnunum, sem bera eiga ábyrgð á að launakröfur vegna gjaldþrots séu uppfylltar.
    Ákvæði eru um hópuppsagnir (10 starfsmanna eða fleiri). Tilgangurinn er að styrkja stöðu launafólks gegn hópuppsögnum með því m.a. að skylda atvinnurekendur til að ræða fyrirhugaðar hópuppsagnir við trúnaðarmenn launafólks. Tilgangurinn með viðræðunum er að reyna að koma í veg fyrir uppsagnir eða draga eins mikið úr þeim og gera þær eins léttbærar launafólki og unnt er.
    Tilkynna skal stjórnvöldum um hópuppsagnir og þau skulu leitast við að leysa vandamál sem af þeim leiðir.

Um 69. gr.

    Sjá athugasemdir við 70. gr.
    Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dósmstólsins:
(DEB, 13.05.1986, mál 107/84, Bilka, B 1986, bls. 1607)
(DEB, 26.02.1986, mál 152/84, Marshall, B 1986, bls. 723)

Um 70. gr.


    Ákvæði 69. og 70. gr. skuldbinda samningsaðila til þess að stuðla að því að meginreglan um jafnrétti kynjanna sé virt og í 69. gr. er sérstaklega kveðið á um jöfn laun fyrir jafna vinnu. Hér er byggt á 119. gr. Rómarsamningsins.
    Í XVIII. viðauka eru þær gerðir EB, sem fela í sér ákvæði um jafnrétti kynjanna. Þar er m.a. kveðið á um launajafnrétti, jafnan aðgang að störfum, starfsmenntun og frama í starfi.
    Þeir sem telja sig misrétti beitta að þessu leyti eiga að geta vísað máli sínu til dómstóla án þess að hætta á að missa vinnuna. Atvinnurekandi verður að sýna fram á að allur launamismunur eigi sér aðrar orsakir en mismunandi kynferði.
    Ekkert í þessari grein kemur í veg fyrir að aðildarlöndin geti gripið til aðgerða til þess að bæta stöðu kvenna.
    Mikil áhersla er lögð á jafnrétti kynjanna varðandi bætur, m.a. vegna veikinda, en viðurkenndur er sérstakur réttur kvenna vegna barneigna.
    Gerðir EB á sviði jafnréttismála eru lágmarkskröfur og hverju landi er heimilt að setja strangari reglur. Um svipað efni fjalla eftirfarandi dómar EB-dómstólsins:
(DEB, 08.04.1976, mál 43/75, Defrenne, B 1976, bls. 455)
(DEB, 11.03.1981, mál 69/80, Worringham, B 1981, bls. 767)

Um 71. gr.

    Þessi grein skyldar samningsaðila til þess að leitast við að auka skoðanaskipti milli atvinnurekenda og launafólks í Evrópu. Samsvarandi ákvæði er í 118. gr. a í Rómarsamn­ingnum.

Um bókun 29


Starfsþjálfun


    Hér er staðfestur vilji samningsaðila til þess að auðvelda námsmönnum að sækja skóla í öðru ríki en sínu eigin. Þó er tekið fram að samningurinn breyti engu um innheimtu skólagjalda. Breskir háskólar geta því t.d. eftir sem áður innheimt hærri skólagjöld af námsmönnum frá EFTA-ríkjunum en af sínum eigin.

Um XVIII. viðauka
Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum,
vinnuréttur og jafnrétti kynjanna

    Sjá athugasemdir við einstakar greinar í 1. kafla um félagsmál

Um 2. kafla
Neytendavernd

    Hinn sameiginlegi markaður sem EES-samningurinn skapar, með frjálsum flutningum vöru og þjónustu, hlýtur að byggjast á því m.a. að neytendur á svæðinu megi treysta nýjum vörum sem koma á markað. Gera verður strangar kröfur um öryggi framleiðslunnar og auka upplýsingar um vörurnar. Einnig verður að tryggja réttindi neytenda.
    Sú neytendalöggjöf sem er hluti af samningnum um EES byggist fyrst og fremst á reglum um hvaða kröfur megi gera til vöruframleiðslu og hvaða skilyrðum verði að fullnægja til þess að selja megi vöru og þjónustu.
    

Um 72. gr.

    Greinin vísar í XIX. viðauka.

Um XIX. viðauka


Neytendavernd


    Í þessum viðauka eru eftirfarandi gerðir EB sem hafa að geyma ákvæði um neytendavernd og eru hluti EES-samningsins.

    Tilskipun ráðsins nr. 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán.
    Tilskipun 90/88/EBE frá 22. febrúar 1990 til breytingar á tilskipun 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi upplýsingaskyldu um lánskjör til neytenda.
    Tilgangur tilskipananna er að koma skipulagi á samkeppni milli lánveitenda, svo og að vernda neytendur með því að samræma kröfur til lánveitenda, einkum að því er upplýsingaskyldu þeirra varðar. Eru þar m.a. ákvæði um að allur kostnaður sem neytandinn þarf að greiða fyrir lántökuna eigi að reiknast út sérstaklega á sama hátt og vextir.

    Tilskipun 84/450/EBE frá 10. september 1984 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar.
    Tilgangur tilskipunarinnar er að vernda neytendur, viðskiptafólk og hagsmuni almennings gegn villandi auglýsingum og óréttlátum afleiðingum þeirra.
    Engra breytinga er þörf á íslenskri löggjöf varðandi þetta mál.
    Tilskipun 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva, þ.e í svokallaðri húsgöngusölu.
    Ákvæði tilskipunarinnar miða að því að tryggja rétt neytenda þegar þeir eiga í viðskiptum í heimahúsum eða í gegnum póstverslun. Í slíkum viðskiptum eiga neytendur rétt á minnst sjö daga umhugsunarfresti eftir að kaupin fóru fram og er farandsölum skylt að gera neytend­um grein fyrir þessu áður en kaupin eru gerð. Setja þarf lög um húsgöngusölu til að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar.
    Tilskipun 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um pakkaferðir, sumarleyfis- og skoðunarferðapakka.
    Í tilskipuninni er kveðið á um skyldur seljenda og skipuleggjenda ferðanna gagnvart neytendum. T.d. eru seljendur skyldaðir til að hafa starfsábyrgðarvátryggingu svo að öruggt reynist að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar, bæklingar verða að vera auðlesnir og án villandi upplýsinga. Ekki má hækka áður umsamið verð 30 dögum fyrir brottför og eftir það verður að gefa upp nafn á umboðsmanni seljanda á áfangastað þannig að hægt verði að leysa fljótt og örugglega úr öllum kvörtunarmálum sem upp kunna að koma.
    Setja þarf ákvæði í lög og reglugerðir til að framfylgja ákvæðum tilskipunarinnar hér á landi.

    Í viðauka þessum eru einnig nefndar tvær óskuldbindandi gerðir. Þær eru:
    Tilmæli 88/590/EBE frá 17. nóvember 1988 um greiðslumiðlanir einkum sambandið milli korthafa og kortaútgefanda í greiðslukortaviðskiptum.
    Tilmæli þessi fjalla um þörf neytenda á upplýsingum og vernd í tengslum við notkun fjár­málaþjónustu, sem veitt er með notkun tölvukerfa, einkum með tilliti til greiðslumiðlunar, sem fram fer með notkun greiðslukorta. Er þá fyrst og fremst verið að huga að hvernig samn­ingsgerð er háttað á milli kortaútgefanda annars vegar og korthafa hins vegar. Tilmælin taka m.a. til hvaða upplýsingum neytandinn á rétt á áður en samningur um notkun kortsins er gerður. Jafnframt er fjallað um hvaða upplýsingar eigi að koma fram í samningnum sjálfum, hvernig ábyrgðin skiptist á milli aðila þegar kort týnist, því er stolið eða það falsað og hver sé ábyrgð kortaútgefanda þegar greiðslumiðlunin mistekst.
    Á árinu 1989 lagði viðskiptaráðherra fram frumvarp á Alþingi varðandi greiðslukortastarfsemi. Síðan þá hefur frumvarp þetta verið lagt fram þrisvar sinnum án þess að hafa fengið afgreiðslu. Við samningu frumvarpsins á sínum tíma voru ofangreind tilmæli höfð til hliðsjónar.

    Ályktun 88/C153/O1/EBE frá 7. júní 1988 um neytendavernd að því er varðar hvernig verð á matvælum og öðrum vörum er tilgreint.
    Tilgangurinn með þessari ályktun er að auðvelda afgreiðslu innan aðlögunartímabilsins á tilskipunum sem fjalla um verðlagningu á matvælum. Lagt er til í ályktuninni að teknar verði upp staðlaðar magnumbúðir innan bandalagsins fyrir ýmsa vöruflokka, endurskoðað það úrval magnumbúða sem fyrir er og það bætt.
    Samkvæmt 45. gr. laga nr. 56/1978 um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta við­skiptahætti getur verðlagsstofnun sett reglur um verðmerkingar og verðskrár og getur ákveðið að tilteknar vörur skuli bjóða í nánar tilteknum einingum.
    Löggjöf Evrópubandalagsins á sviði neytendaverndar er víðtækari en íslensk löggjöf og með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu verður neytendalöggjöf hérlendis færð til betri vegar.

Um 3. kafla

Umhverfismál


    EES-samningurinn gefur nýja möguleika á samstarfi á sviði umhverfismála og skapar Íslandi vettvang til að hafa áhrif á sameiginlega stefnu Vestur-Evrópuríkja í umhverfismálum framtíðarinnar. Aðlögunin að reglum EB um umhverfismál hefur í mörgum tilvikum í för með sér að ákvæði í íslenskum umhverfisreglum verða hert. Vegna ákvæðanna um eftirlit með framkvæmd samningsins mun Íslandi einnig gefast kostur á geta brugðist við innan stofnanaramma EES þegar aðildarríki EB fara ekki eftir settum reglum á sviði umhverfismála.

Um 73. gr.


    Samkvæmt samningnum eiga ráðstafanir sem gerðar eru vegna umhverfismála að miða að því að:
     1.      Viðhalda, vernda og bæta umhverfið;
     2.      stuðla að heilsuvernd manna;
     3.      tryggja skynsamlega og hagkvæma nýtingu náttúruauðlinda.
    Ráðstafanir sem samningsaðilar gera varðandi umhverfið eiga að byggjast á þeim meginreglum, að gerðar skuli fyrirbyggjandi ráðstafanir, að umhverfisspjöllum skuli, eins og frekast er kostur, sinnt við upptökin og að sá sem skaðar umhverfið skuli bera kostnaðinn við að lagfæra það sem aflaga hefur farið (sk PPP-regla). Kröfur um umhverfisvernd skulu vera hluti af stefnumiðum samningsaðila á öðrum sviðum.

Um 74. gr.


    Greinin vísar í XX. viðauka. Í honum eru þær tilskipanir sem fjalla um umhverfismál, sem eru 32 talsins auk tilskipana sem breyta þeim. Efni þeirra má skipta í fimm flokka. Í fyrsta lagi eru tvær sem fjalla almennt um umhverfismál, í öðru lagi 11 sem fjalla um varnir gegn vatnsmengun, í þriðja lagi eru átta sem fjalla um varnir gegn loftmengun, í fjórða lagi fjórar sem fjalla um mengun af völdum hættulegra efna og í fimmta og síðasta lagi eru sjö sem fjalla um aukið eftirlit með úrgangi og förgun hans.

Um 75. gr.


     (Viðbót við fyrri útgáfu)

     Samkvæmt 75. gr. samningsins geta einstakir samningsaðilar viðhaldið strangari umhverfislöggjöf, eða gripið til hennar, að því tilskyldu að slíkar reglur samræmist samn­ingnum að öðru leyti. Til dæmis verður að telja að umhverfislöggjöf einstakra samnings­aðila samræmist ekki samningnum ef hún hefur þær afleiðingar í för með sér að sam­keppnisstaða einstakra samningsaðila skerðist. EB-dómstóllinn hefur þó gefið til kynna að umhverfisvernd geti haft forgang fram yfir reglur um frjálsa flutninga ef sýnt væri fram á brýna þörf fyrir umhverfisvernd.

Um XX. viðauka

Umhverfismál


     (Breytt frá fyrri útgáfu)

    Gerðir sem vísað er til í þessum viðauka fjalla m.a. um:
     1.      Mat vegna framkvæmda sem geta haft í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfið;
     2.      aðgang að upplýsingum stjórnvalda um umhverfismál og upplýsingamiðlun þeirra;
     3.      vatnsvernd, þ.e. takmörkun eða bann við losun ýmissa óæskilegra efna í vatn;
     4.      reglur um hættulegan úrgang t.d. um losun og flutning.
    Reglurnar í XX. viðauka hafa oft á tíðum þær afleiðingar í för með sér að íslenskar reglur verða gerðar ítarlegri eða þær hertar auk þess sem nýmæli verða tekin upp. Heimilaður hefur verið aðlögunartími til 1. janúar 1995 varðandi margar af tilskipununum sem birtar eru í viðaukanum.

Um 3. gr. bókunar 31
(Viðbót við fyrri útgáfu)

    Bókunin fjallar um þau svið þar sem styrkja skal samvinnu samningsaðila í umhverfismálum. samningsaðilar stefna að aukinni samvinnu á eftirfarandi sviðum:
          Við stefnumótun og gerð framkvæmdaáætlunar um umhverfið,
          við samþáttun umhverfissjónarmiða við aðra málaflokka,
          við notkun hagtækja í þágu umhverfisverndar,
          við lausn alþjóðlegra umhverfisvandamála og
          við lausn mikilvægra svæðisbundinna eða alþjóðlegra málefna, sem til umræðu eru innan alþjóðastofnana.
    Enn fremur segir í 2. mgr. 3. gr. bókunarinnar að nauðsynlegt sé að tryggja þátttöku EFTA-ríkjanna í Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) þegar hún tekur til starfa. Hlutverk hennar verður m.a. að sjá aðilum samningsins og almenningi fyrir hlutlausum og áreiðanlegum upplýsingum um ástand umhverfisins.

Umhverfismál tengd verslun
    Eitt veigamikið samningsatriði á vörusviðinu fjallar um afnám tæknilegra viðskipta­hindrana og bann við upptöku nýrra. Þó er unnt að halda íslenskum umhverfisverndarkröfum í þeim tilvikum sem þær ná lengra en samsvarandi reglur EB.
    EFTA-löndin hafa innan ramma EES-samningsins skuldbundið sig til að fylgja ákveðnum samræmdum reglum EB, sem eru mikilvægar fyrir umhverfið.
    Aðlögun að reglum EB um hávaða og útblástursreglur fyrir dráttarvélar mun hafa í för með sér að íslensk ákvæði um gerð og búnað ökutækja verða hert. Hvað snertir brennistein í olíubrennslu og blýmagn í bensíni eru íslenskar reglur samrýmanlegar reglum EB. Sama gildir um þvottaefni. Núverandi íslenskar reglur um umbúðir fyrir drykkjarvörur eru í sam­ræmi við reglur EB.
    Auk þessa hefur verið samið um eftirfarandi sérlausnir:
          Útblástur ökutækja.Hægt er að halda núverandi reglum um útblástur fyrir allar gerðir vélknúinna farartækja. Fram til 1. 1. 1995 er heimilt að neita að viðurkenna bíla sem hafa verið framleiddir í EB-löndum, ef þeir ekki standast lágmarkskröfur hér á landi varðandi útblástur. Frá og með 1. 1. 1995 verða Íslendingar að viðurkenna ökutæki frá EB-ríkjun­um, sem standast lágmarkskröfur bandalagsins.
         Unnið verður sameiginlega að því að semja strangari reglur í framtíðinni, innan ramma þess samstarfsfyrirkomulags sem EES-samningurinn kveður á um.
          Efnavörur. Samningsaðilar eru sammála um þau áform, að EFTA-löndin viðurkenni reglur EB um flokkun og merkingu hættulegra efnavara eins og þær verða 1. 1. 1995. Þangað til, verður unnið að aukinni samræmingu. Fari svo, engu að síður, að Ísland (eða eitthvert annað EFTA-land) telji að ekki sé unnt 1. 1. 1995 að viðurkenna reglur EB, skal þeim ekki framfylgt í viðkomandi landi. Þetta land mun þá standa utan við samstarfið hvað varðar þann þátt, svo framarlega sem ekki semst um annað.
         Hvað snertir takmarkanir og bönn við hættulegum efnavörum geta þjóðarreglur gilt áfram í þeim tilvikum er þær ganga lengra en reglur EB (klórhreinsuð lífræn upplausnarefni, asbest, kvikasilfur, arsenik, pentaklórfenol, kadmíum og lífræn tinefna­sambönd). Aðilar munu endurmeta stöðuna árið 1995.
          Áburðarefni. EFTA-löndin eiga rétt á að takmarka kadmíummagn í tilbúnum áburði samkvæmt þeim reglum sem gilda í hverju ríki þegar EES-samningurinn gengur í gildi.

Endurmat árið 1995
          Eiturefni. EFTA-ríkin geta takmarkað verslun með eiturefni og rafhlöður samkvæmt gildandi reglum þegar EES-samningurinn gengur í gildi. Atriði þetta verður endurskoðað árið 1995.

Umhverfisrannsóknir
    EB starfrækir samstarfsverkefni um rannsóknir og þróun á sviði umhverfismála. Ísland og önnur EFTA-ríki hafa samið um þátttöku í starfsáætlun um vísindi og tækni til verndar umhverfinu (STEP) og áætlun um veðurfarsfræði og náttúrurvá (EPOCH).

Starfið innan EES
(Breytt frá fyrri útgáfu)

    Innan EB eru starfandi fjöldi nefnda og starfshópa á sviði umhverfismála (u.þ.b. 40), sem vinna að undirbúningi nýrrar lagasetningar eða breytingum á gildandi reglum. Þegar EES-samningurinn tekur gildi ber EB að tryggja að sérfræðingar EFTA-ríkjanna geti tekið þátt í þessu starfi og leitað ráða hjá þeim.

Annað
    Að öðru leyti er vísað til skýrslu Eiðs Guðnasonar umhverfisráðherra um lagasetningu vegna samnings um Evrópskt efnahagssvæði og áhrif hans á umhverfismál.


Um 4. kafla

Hagskýrslugerð


    Evrópuríki hafa um langan aldur átt með sér víðtækt samstarf á sviði hagskýrslugerðar. Þetta samstarf hefur einkum verið innan vébanda Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega hag­skýrslunefndar samtakanna og hagstofu þeirra í New York og Efnahagsnefndar Evrópu í Genf. Þetta starf hefur m.a. falist í þróun sameiginlegra flokkunarkerfa og staðla, mótun og hagnýtingu nýrra aðferða og tækni og útgáfu hagskýrslna. Ofangreindar stofnanir Sameinuðu þjóðanna gegndu lengi forystuhlutverki á þessu sviði. Á því hefur orðið talsverð breyting nokkur undangengin ár og stafar hún bæði af fjárhagsvanda samtakanna og af auknum umsvifum hagstofu EB í Lúxemborg, Eurostat. Mikil aukning umsvifa hagstofu EB og opinberrar hagskýrslugerðar á vegum Evrópubandalagsins stafar af stóraukinni áherslu EB á hagskýrslugerð. Ákvarðanir þar að lútandi voru teknar í kjölfar þess að bandalagið ákvað að stofna innri markað sinn frá og með árinu 1993 og að stefna að því að auka til muna sam­starfið innan bandalagsins á sviði efnahagsstjórnar. Aukin og endurbætt hagskýrslugerð var talin meðal grundvallarforsendna þessa samstarfs. Í því skyni samþykkti ráð EB á árinu 1989 víðtæka áætlun um forgangsverkefni á sviði hagskýrslugerðar fyrir árin 1989–1992. Í hag­skýrsluáætluninni er lögð áhersla á allt í senn, útvíkkun hagskýrslugerðar EB-ríkja til sviða sem hafa verið vanrækt eða ekki notið forgangs, svo sem skýrslugerðar um umhverfis- og félagsmál, aukna samræmingu í hagskýrslugerð aðildarríkja með notkun sameiginlegra flokkunarkerfa og samræmdra aðferða og vinnubragða og aukna útgáfu sameiginlegra skýrslna. Í ljósi þessara ákvarðana og þeirrar forystu sem Evrópubandalagið og hagstofa þess tóku með þessu ákváðu hagstofustjórar EFTA-ríkjanna á árinu 1988 að óska eftir sérstöku samstarfi við Hagstofu EB. Áhugi EFTA-hagstofanna stafaði m.a. af tvennu, að sýnt var að stefnt væri að víðtæku þróunarstarfi, sem væri faglega mjög áhugavert, og að EB-ríkin væru að færa sig inn á starfssvið þar sem EFTA-ríkin töldu sig hafa mikilla hagsmuna að gæta og höfðu mikinn áhuga á að hafa áhrif á. Átti það ekki síst við hagskýrslugerð á sviði umhverfismála. Hagstofa EB tók málaleitan hagstofustjóra EFTA-ríkj­anna mjög vel og bauð til sameiginlegs hagstofustjórafundar haustið 1989.
    Frá þeim tíma hefur þróast víðtækt samstarf með þessum aðilum. Samstarfið hefur greinst í tvennt. Annars vegar hefur það snúist um að undirbúa formlegt samkomulag um samstarf í hagskýrslugerð sem hluta af EES-samningnum. Hins vegar hefur hagskýrslusamstarfið beinst að þeim hluta hagskýrslugerðar EB sem háður er óformlegu samkomulagi hagstofa aðildarríkjanna fremur en formlegum laga- og reglugerðarákvæðum. Undir þetta fellur mikill meirihluti hagskýrslugerðarinnar því að lauslega er áætlað að 2/ 3 hlutar hennar byggist á óformlegu samkomulagi hagstofanna en 1/ 3 huti á formlegum ákvæðum í lögum og reglum bandalagsins.
    Á fundi sínum haustið 1989 urðu hagstofustjórarnir sammála um að leggja til við aðalsamninganefndir aðila að EES-samningurinn tæki til hagskýrslugerðar sem sjálfstæðs verkefnis. Bent var á að hagskýrslugerðin ætti við samningssviðið allt en ekki einstaka hluta þess og því sýndist nauðsynlegt að rætt yrði og samið um hana sem slíka. Aðalsamninga­nefndirnar samþykktu þetta, ákváðu að verkefnið skyldi falla undir samningahóp IV sem þverfaglegt viðfangsefni og fólu hagstofustjórunum að mynda sérfræðinganefnd til að undir­búa þennan hluta EES-samningsins. Þessi nefnd hefur starfað frá því í ársbyrjun 1990 og verið lengst af undir formennsku íslenska hagstofustjórans. Verkefni nefndarinnar hefur verið að kanna og leggja fram tillögur um hvaða ákvæði laga og reglna Evrópubandalagsins um hagskýrslugerð væru samningsefni milli aðila og hvernig staðið skuli að hagskýrslusam­starfi milli aðila eftir að EES-samningurinn væri kominn á.
    Þær reglugerðir og tilskipanir sem EB hefur sett um hagskýrslugerð með formlegum hætti lúta m.a. að skýrslugerð sem nauðsynleg hefur verið talin vegna sameiginlegrar stefnu EB í tilteknum málaflokkum eða sameiginlegrar fjármögnunar úr sjóðum bandalagsins. Hvað EES-samninginn snertir hefur verið samkomulag um að hann tæki einungis til þess hluta hinna formlegu ákvæða sem snerust um almenna hagskýrslugerð. Ekki yrði hins vegar samið um þau ákvæði er lúta að sérgreindri skýrslugerð sem unnin væri vegna stjórnvaldsþarfa EB. Um þetta hefur tekist gott samkomulag og er lagt til að samningurinn taki til þeirra reglu­gerðarákvæða EB sem snerta hagskýrslugerð um umsvif og fjárfestingu í iðnaðar- og byggingarstarfsemi, um flutningastarfsemi innanlands og milli landa, um utanríkisverslun, samræmda gerð þjóðhagsreikninga, notkun atvinnugreinaflokkunar EB, um landbúnaðar­framleiðslu, fiskiskýrslur og meðferð trúnaðarupplýsinga í hagskýrslugerð. Í nokkrum tilvikum hefur EB sett reglugerðir um hagskýrslugerð eftir að samningaviðræðum lauk eða áformar að setja reglugerðir áður en samningurinn öðlast gildi. Er þá gert ráð fyrir að semja sérstaklega um þetta og er undirbúningur þess í höndum sérfræðinganefnda aðila. Hér má einkum nefna reglugerðir um samræmdar vinnumarkaðskannanir, um samræmt flokkunar­kerfi í framleiðsluskýrslum og skýrslur um fiskafla. Sem fyrr segir er sá hluti hagskýrslu­gerðarinnar, sem byggist á óformlegu samkomulagi, miklu viðameiri en hinn formlegi. Hér er m.a. um að ræða hagskýrslugerð um mannfjölda, félagsmál, verðlagsmál, laun og tekjur, samgöngur á sjó og í lofti, um umsvif í verslunar- og þjónustugreinum, um umhverfismál og margt fleira.
    Hagskýrslusamstarf EB- og EFTA-ríkjanna hefur að undanförnu þróast þannig að dregið hefur úr skilunum milli hins formlega og óformlega samstarfs og er sýnt að lítill munur verður þar á er samningurinn kemur til framkvæmda. Samstarfið snýst fyrst og fremst um vinnu að þróun og upptöku samræmdra aðferða, flokkunarkerfa og vinnubragða, og að sam­hæfingu gagnaöflunar og úrvinnslu, bæði hvað snertir efni og tímasetningar. Meginmarkmið er samræmd og samhæfð hagskýrslugerð á sviði efnahags-, félags- og umhverfismála sem lýsi stöðu þessara mála og breytingum í tímans rás. Áhersla er nú lögð á að leggja drög að sameiginlegri hagskýrsluáætlun EB og EFTA. Er ætlunin að unnið verði eftir þessari áætlun næstu árin. Þá er gert ráð fyrir að samstarfið verði innan vébanda þeirra stofnana, sem fyrir eru, og byggist á gildandi tilhögun í þessum efnum, þar sem það er talið skjótvirkara og ódýrara en að koma á nýju skipulagi og stofnunum í þessu skyni. Gert er ráð fyrir að sam­eiginlegir hagstofustjórafundir hafi yfirumsjón með samstarfinu og leiði það en unnið verði að sameiginlegum verkefnum í starfsnefndum. Þá er gengið út frá því að samhæfing gagnaöflunar verði á vegum Skrifstofu hagskýrsluráðgjafa EFTA og hagstofu EB en hún annist jafnframt varðveislu og úrvinnslu sameiginlegra skýrslna. Loks má nefna að samn­ingsákvæði um hagskýrslugerð eru í 76. gr. samningsins, í bókun 30 þar sem kveðið er á um skipulags- og framkvæmdaratriði og í XXI. viðauka er skrá um þær tilskipanir og reglugerðir EB, sem um er samið, og um frávik frá þeim.

Um 76. gr.


    Í 76. gr. eru ákvæði um samstarf í hagskýrslugerð innan EES og á þeim sviðum sem samn­ingurinn tekur til. Segir þar fyrst að samningsaðilar skuli vinna og dreifa samfelldum og sam­bærilegum hagskýrslum um helstu þætti á sviði efnahags-, félags- og umhverfismála innan EES. Hér er um stefnumarkandi ákvæði að ræða. Verður þá að hafa í huga að stofnun innri markaðar Evrópubandalagsins og hið víðtæka samstarf og viðskiptafrelsi milli aðildarríkjanna nítján, sem að er stefnt með samningnum, gerir sérstakar kröfur til hag­skýrslugerðar. Nauðsynlegt er að skýrslugerðin verði aðlöguð nýjum viðskiptaháttum og sameiginlegum verkefnum og að hún verði sem sambærilegust. Í 76. gr. er þannig kveðið á um að samningsaðilar skuli þróa með sér og beita samræmdum aðferðum, skilgreiningum og flokkunum og móta sameiginlegar starfsáætlanir og vinnubrögð við hagskýrslugerð, sem beitt skuli á öllum sviðum stjórnsýslu ríkjanna.
    Í 76. gr. er enn fremur vísað til XXI. viðauka, en þar eru upp taldar þær tilskipanir og reglugerðir EB um hagskýrslugerð sem aðilar hafa orðið ásáttir um að taka upp í samninginn. Í þessu sambandi má hafa eftirfarandi atriði í huga:
     1.      Þær reglugerðir og tilskipanir, sem hér um ræðir, varða aðeins hluta verkefna á sviði hagskýrslugerðar. Mikill meirihluti verkefna er ekki háður formlegum ákvæðum laga og reglna og hefur fram til þessa fremur byggst á óformlegu samkomulagi. Eftir að samningurinn gengur í gildi er gert ráð fyrir að samstarf í hagskýrslugerð verði einkum markað með sameiginlegri hagskýrsluáætlun sem nái til allra þeirra sviða sem EES-samningurinn tekur til.
     2.      Í XXI. viðauka koma fram þær undantekningar frá ákvæðum tilskipana og reglugerða sem samkomulag er um. Eru þær í aðalatriðum þrenns konar. Í fyrsta lagi er að hluta tekið tillit til aðstæðna í einstökum ríkjum. Í öðru lagi tekur samningurinn til almennrar hagskýrslugerðar en ekki til stjórnsýslu- eða fjárúthlutunarþarfa EB. Í þriðja lagi er í nokkrum tilvikum að finna undantekningar fyrir EFTA-ríkin frá því að beita nákvæmlega þeim aðferðum sem bandalagið hefur lagt fyrir aðildarríkin. Í þessum tilvikum telja EFTA-ríkin sig beita aðferðum sem eru síst lakari en þær sem bandalagið hefur áskilið.
     3.      Sýnt er að hagskýrslusamstarfið krefst talsverðs undirbúnings- og aðlögunartíma. Því er samkomulag um að það taki gildi frá og með skýrslugerð um árið 1995. Hér er sleginn allsherjarvarnagli og víst er að úrvinnsla og birting sameiginlegra hagskýrslna mun hefjast mun fyrr á mörgum sviðum.

    Í 76. gr. er loks vísað til bókunar 30 um skipulag hagskýrslusamstarfsins. Af hag­kvæmnisástæðum er gert ráð fyrir að samstarfið fylgi þeim farvegi sem þegar hefur verið markaður og byggist á þeim stofnunum sem þegar eru tiltækar. Þannig er að því stefnt að sameiginlegir hagstofustjórafundir verði vettvangur ákvarðana og umsjónar með samstarfinu, en að unnið verði að þróunarverkefnum í sameiginlegum starfsnefndum. Loks er gert ráð fyrir að hagstofa EB, Eurostat í Lúxemborg, annist úrvinnslu sameiginlegra hagskýrslna en skrifstofa hagskýrsluráðgjafa EFTA í Lúxemborg verði samhæfingaraðili og annist samskipti milli EFTA-ríkjanna og hagstofu EB.

Um XXI. viðauka

Hagskýrslugerð


    XXI. viðauki hefur að geyma skrá um tilskipanir og reglugerðir Evrópubandalagsins um hagskýrslur sem um hefur samist að EFTA-ríkin taki upp. Í skránni kemur fram hvernig viðkomandi tilskipanir og reglugerðir skuli aðlagaðar að því er samninginn varðar, þ.e. hvaða frávik, undantekningar og sérákvæði skuli gilda, ýmist fyrir EFTA-ríkin í heild eða einstök EFTA-ríki. Hér á eftir verður gerð grein fyrir efni þessara gerða, helstu frávikum og sérákvæðum og áhrifum þeirra á íslenska hagskýrslugerð.

Sérákvæði um upphaf hagskýrslugerðar samkvæmt þeim gerðum sem samningurinn tekur til
    Ljóst er að þær hagskýrslur, sem gera á samkvæmt ákvæðum þeirra tilskipana og reglugerða sem greinir í XXI. viðauka, bætast í ýmsum tilvikum við núverandi hagskýrslugerð EFTA-ríkjanna eða eru frábrugðnar þeim skýrslum, sem nú eru gerðar. Frávikin geta varðað efni skýrslna, tíðni athugana og úrvinnslu, tímasetningu og aðferðir við gagnaöflun og úrvinnslu. Af þessu leiðir að nauðsynlegt hefur þótt að nægur tími gæfist til aðlögunar fyrir EFTA-ríkin, þ.e. fyrir upptöku nýrra hagskýrslna og breytinga á núverandi hagskýrslugerð. Því hefur orðið að samkomulagi að EFTA-ríkin skuli hefja skýrslugerð samkvæmt þeim gerðum sem hér um ræðir eigi síðar en á árinu 1995. Er þá átt við gagnaöflun vegna þess árs. Gildir þetta um allar þær tilskipanir og reglugerðir um gagnasöfnun, úrvinnslu og afhendingu hagskýrslna, sem falla undir samninginn. Auk þessa eru í nokkrum tilvikum sérákvæði fyrir einstök ríki og er gerð grein fyrir slíkum ákvæðum um Ísland hér á eftir.

Almenn efnisleg frávik
    Þau ákvæði gerða EB um hagskýrslugerð, sem talin eru samningsefni, lúta að almennri hagskýrslugerð. Ákvæði sem lúta að sérgreindri hagskýrslugerð til nota við stjórnvalds­ákvarðanir innan EB, svo sem við ákvörðun fjárhagsgrundvallar til að innheimta gjöld eða úthluta fé og til eftirlits með stjórnvaldsákvörðunum, eru ekki talin samningsefni. Í XXI. viðauka er að finna ýmis dæmi um undantekningar af þessum ástæðum. Af öðrum efnislegum sérákvæðum má nefna að EFTA-ríkin hafa yfirleitt áskilið að ekki yrði samið um hag­skýrslugerð í sundurliðun eftir landsvæðum. Þá er jafnframt að finna ákvæði um undantekn­ingar frá ákvæðum um notkun tiltekinna aðferða við gagnaöflun í þeim tilvikum, þar sem EFTA-ríkin telja sig beita jafngóðum eða betri aðferðum en áskildar eru enda bitni það ekki að marki á sambærileika skýrslna. Í þessu sambandi má m.a. nefna hagnýtingu Norðurlanda á ýmsum stjórnvaldsskrám til hagskýrslugerðar, svo sem þjóðskrám, fyrirtækjaskrám og skattskrám, sem oft má telja að gefi betri vitneskju en sérstakar kannanir.

Efni reglugerða og áhrif á íslenska hagskýrslugerð
    Þær reglugerðir og tilskipanir sem eru samningsefni skiptast í nokkra málaflokka. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir hverjum þeirra og áhrifum viðkomandi gerða á íslenska hag­skýrslugerð eins og unnt er að meta þau nú.
     Iðnaðarskýrslur. Hér er um að ræða fjórar tilskipanir um athuganir á umsvifum og fjárfestingu í iðnaði og byggingarstarfsemi. Tvær þeirra verða árlegar athuganir og svipar þeim að mörgu leyti til íslenskra skýrslna. Nokkru meiri sundurliðunar er þó krafist, sem unnt ætti að vera að fullnægja án mikillar fyrirhafnar. Þá er samkomulag um að beitt verði nýrri atvinnugreinaflokkun EB. Hér á landi hefur um nokkurt skeið verið stefnt að upptöku nýrrar atvinnugreinaflokkunar og því koma þessi samningsákvæði vel heim við innlenda þörf. Flokkunarkerfið sem um er að ræða er leitt af hliðstæðri flokkun hagstofu Sameinuðu þjóðanna (ISIC, 3. endursk.) og tengist henni með einfaldri lyklun. Tvær tilskipanir um iðnaðarskýrslur lúta að gerð mánaðarlegra skýrslna um skammtímabreytingar umsvifa í iðnaði og byggingarstarfsemi. Fallist er á að Ísland sé undanþegið þessari skýrslugerð enda yrði hún fjárfrekari en réttlætanlegt væri að svo stöddu fyrir innanlandsþarfir.
     Flutningaskýrslur . Um er að ræða skýrslur um vöruflutninga og er kveðið á um þær í þremur tilskipunum eftir því hvort um er að ræða vöruflutninga eftir vegum, vatnaleiðum eða járnbrautalestum. Tvær þær síðasttöldu eiga ekki við Ísland eðli málsins samkvæmt. Íslensk hagskýrslugerð um vöruflutninga eftir vegum er mjög fátækleg en áhugi er á að efla hana. Hins vegar eru kannanir þær, sem hér yrðu nauðsynlegar, mjög dýrar. Því er fallist á að Íslendingar hefji þessa skýrslugerð þremur árum síðar en almennt gildir, þ.e. frá 1998, og að skýrsluna þurfi ekki að gera oftar en þriðja hvert ár.
     Verslunarskýrslur . Á þessu sviði er um að ræða níu reglugerðir um hagskýrslugerð um utanríkisverslun. Hér er um hefðbundna skýrslugerð að ræða sem þegar er sinnt hér á landi og ekki þarf að gera teljandi breytingar vegna samningsins.
     Trúnaðarkvaðir í hagskýrslum . EB hefur sett reglugerð um þetta efni til að tryggja að gætt sé fyllsta trúnaðar í meðferð gagna sem háð eru trúnaðarkvöðum í hagskýrslugerð. Þessi reglugerð er samningsefni og nauðsynleg ef unnt á að vera að afhenda Hagstofu EB gögn til úrvinnslu og birtingar eins og kveðið er á um í 76. gr. samningsins. Í þessu sambandi má nefna að EFTA-ríkin fá fulla aðild að þeirri nefnd EB, sem fjallar um ákvörðunar- og álitamál á þessu sviði.
     Mannfjölda- og félagsmálaskýrslur . Á þessu sviði er aðeins um eina reglugerð að ræða og lýtur hún að skýrslugerð um erlent vinnuafl. Hér er um nýja skýrslugerð að ræða fyrir Íslendinga sem telja verður bæði áhugaverða og nauðsynlega.
    Þjóðhagsreikningar . Í þessum málaflokki telst tilskipun um samræmingu skýrslugerðar um verga þjóðarframleiðslu á markaðsvirði vera samningsefni. Tilskipunin mælir fyrir um að beita skuli evrópska þjóðhagsreikningakerfinu við gerð þjóðhagsreikninga. Íslendingar fylgja 2. útgáfu af þjóðhagsreikningakerfi Sameinuðu Þjóðanna og þurfa brátt að taka upp 3. útgáfu þess, en á henni og evrópska kerfinu er óverulegur munur.
Flokkunarkerfi. Hér er samkomulag um upptöku atvinnugreinaflokkunar EB, eins og þegar hefur verið vikið að.
     Landbúnaðarskýrslur . Reglugerðir EB og tilskipanir á þessu sviði miðast að mörgu leyti við sérgreinda hagskýrslugerð til stjórnvaldsnota í tengslum við hina sameiginlegu land­ búnaðarstefnu EB fremur en almenna skýrslugerð. Því er hér samkomulag um ýmiss konar frávik og áhersla lögð á að einungis sé samið um almenna skýrslugerð um framleiðslu og umsvif.
     Fiskiskýrslur . Um er að ræða nýlega reglugerð EB um landanir fiskafla. Skýrslugerðin, sem hér er krafist, er nokkuð frábrugðin íslenskum skýrslum um þetta efni en á þó að vera fyrirhafnarlítil.
     Orkuskýrslugerð . Undir hagskýrslugerð í þessum málaflokki fellur aðeins ein reglugerð og er þar kveðið á um öflun og birtingu upplýsinga um verð á rafmagni og gasi til þess að verðlagning verði auðskildari en ella. Þar sem reglugerðin miðast við samkeppni í orkusölu á meginlandi Evrópu hafa upplýsingar frá Íslandi ekki þýðingu í þessu sambandi og er Ísland undanþegið því að láta í té upplýsingar samkvæmt þessari reglugerð.

Um bókun 30


     Sérstök ákvæði varðandi      skipulagningu
samvinnu á sviði hagskýrslugerðar

    Í þessari bókun eru ákvæði um skipulag samstarfs á sviði hagskýrslna. Eins og rakið er í almennum athugasemdum og í athugasemd við 76. gr. hafa Evrópubandalagið og EFTA-ríkin þegar með sér mikið samstarf í hagskýrslugerð. Sameiginlegir hagstofustjórafundir EB- og EFTA-ríkjanna hafa yfirumsjón með þessu samstarfi. Í bókun 30 er gert ráð fyrir að hið formlega samstarf í hagskýrslugerð innan Evrópska efnahags­svæðisins verði byggt á þeim grunni sem fyrir er og ráðstefnu hagstofustjóra ríkjanna falin umsjón með því. Þessar ráðstefnur hafa verið haldnar tvisvar á ári og er fyrirhugað að svo verði áfram. Á þessum ráðstefnum er farið yfir samstarfið og teknar ákvarðanir um starfsáætlanir. Vinna að sameiginlegum verkefnum fer nú að mestu fram í allmörgum starfsnefndum. Þessar nefndir voru upphaflega settar á stofn innan EB til þess að fjalla um og útfæra í nákvæmum atriðum áætlanir EB um hagskýrslugerð. EFTA-ríkin hafa tekið þátt í starfi margra af þessum nefndum sem fullgildir aðilar um þau verkefni sem þegar hafa verið skilgreind sem formleg samstarfsverkefni, en sem áheyrnaraðilar á þeim sviðum þar sem enn er unnið að skilgreiningu sameiginlegra verkefna.
    Í 2. tölul. bókunar 30 er kveðið á um að EFTA-ríkin skuli taka þátt í áætlunum um forgangsaðgerðir á sviði hagskýrslugerðar. Þetta starf er þegar í undirbúningi og er byggt á fyrirliggjandi hagskýrsluáætlun EB sem samþykkt var í tengslum við þá ákvörðun bandalagsins að koma á fót innri markaði þess 1993. Hagskýrsluáætlunin tekur til allra sviða hagskýrslugerðar. Er að því stefnt að EFTA-ríkin taki fullan þátt í því þróunarstarfi, sem hér um ræðir, að svo miklu leyti sem um almenna hagskýrslugerð er að ræða. Áætlun EB felur að auki í sér allmörg verkefni, sem miða að þróun skýrslugerðar vegna beinna stjórnvalds­þarfa bandalagsins. Er þá oft um að ræða gerð hagskýrslna til að mynda grundvöll fyrir ákvarðanir um úthlutun fjár úr sameiginlegum sjóðum eða fyrir eftirlit með þess háttar fjárnotkun og framkvæmd stjórnvaldsaðgerða. Skýrslugerð af þessu tagi fellur ekki undir samstarfsverkefni EES og munu EFTA-ríkin ekki taka þátt í henni eða þróun hennar.
    Í 3 tölul. eru frekari ákvæði um framkvæmd og er fyrst vikið að hlutverki skrifstofu hag­skýrsluráðgjafa EFTA í því sambandi. Þessi skrifstofa var stofnuð 1. febrúar 1991 og er staðsett í húsakynnum hagstofu Evrópubandalagsins (Eurostat) í Lúxemborg. Á skrifstofunni eru nú þrír starfsmenn og er verkefni þeirra að koma fram fyrir hagstofur EFTA-ríkjanna gagnvart hagstofu EB og aðstoða EFTA-ríkin við þátttöku í starfsnefndum EB. Skrifstofa hagskýrsluráðgjafans lýtur faglegri stjórn hagstofustjóra EFTA-ríkjanna. Sýnt er að hag­skýrslusamstarf EB og EFTA verður mjög umfangsmikið. Hagstofur EFTA-ríkjanna hafa á hinn bóginn takmarkað bolmagn til að taka fullan þátt í því með reglubundinni þátttöku í sameiginlegum starfsnefndum eins og þó er nauðsynlegt eigi EFTA-ríkin að hafa áhrif á sam­starfið. Því er áhugi á því að efla skrifstofu hagskýrsluráðgjafa EFTA þannig að unnt verði að fela henni að taka mun meiri þátt í starfsnefndunum, fylgjast með framgangi mála og halda fram þeim áhersluatriðum sem EFTA-ríkin verða sammála um. Væri þetta mjög æskilegt þar sem þeim er ókleift vegna smæðar sinnar að taka verulegan þátt í svo víðtæku samstarfi sem hér er að stefnt.
    Í 3. tölul. bókunar 30 felst beinlínis að þegar sameiginleg hagskýrslugerð EB og EFTA hefst muni hagstofur EFTA-ríkjanna senda hagskýrslugögn sín til skrifstofu hag-skýrsluráðg­jafans. Hlutverk skrifstofunnar verði að skipuleggja innheimtu og fylgjast með samhæfingu gagnaöflunar og úrvinnslu. Jafnframt er svo gert ráð fyrir því að hagstofa EB taki við gögnunum, varðveiti þau og vinni úr þeim heildarskýrslur fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Í þessu sambandi má benda á að aðilar eru sammála um að byggja á og nýta þá stofnun, sem þegar er til staðar, hagstofu EB, til sameiginlegrar skýrslugerðar. Sýnist það mun vænlegri og ódýrari kostur en að koma upp nýrri stofnun í þessu skyni. Í 5. tölul. eru ákvæði um hvernig fara skuli með þann kostnað sem af þessu hlýst.
    Ákvæði 4. og 6. tölul. bókunar 30 fela í sér tvær meginreglur um hina sameiginlegu hag­skýrslugerð. Í 4. tölul. er sú meginregla mörkuð að framkvæmdaraðilum sé skylt að koma skýrslum sínum til notenda og fyrir almenningssjónir. Þessi birtingarskylda er sjálfsögð og hvílir í reynd á öllum opinberum hagskýrslustofnunum. Skýrslugerðin er til orðin vegna ákveðinna þarfa, almennra og sérgreindra, en kemur ekki að gagni nema notendur og almenn­ingur hafi fullan aðgang að skýrslunum. Meginreglan sem felst í 6. tölul. er hin mikilvægasta en hún lýtur að meðferð trúnaðarupplýsinga. Sú regla sem þar kemur fram, að hagskýrslu­gögn, sem háð eru trúnaðarkvöðum, megi einungis nýta til hagskýrslugerðar, er grundvallar­regla í allri opinberri hagskýrslugerð. Með þessu ákvæði er tryggt að svo verður einnig í hagskýrslusamstarfi EB- og EFTA-ríkja.
Auk þess, sem hér hefur verið rakið um skipulag og framkvæmdaratriði samstarfs í hagskýrslugerð skv. bókun 30 má nefna að í samþykktum með EES-samningnum er kveðið á um fimm nefndir EB á sviði hagskýrslugerðar sem EFTA-ríkin skulu taka fullan þátt í. Nefndirnar eru þessar:
     1.      Nefnd um hagskýrsluáætlanir EB sem verður í reynd nefnd um hagskýrsluáætlanir EES. Nefndin skal skipuð fulltrúum hagskýrslustofnana aðildarríkjanna (í reynd hagstofu­stjórum). Nefndin skal fjalla um framkvæmd hagskýrsluáætlana til margra ára og vera til ráðuneytis um ákvarðanir í þeim efnum. Nefndin sinnir auk þess vissum úrskurðar- og ráðgjafarskyldum í tengslum við framkvæmd reglugerða um atvinnugreinaflokkun EB, kannanir á iðnaðarframleiðslu og árlegar vinnumarkaðskannanir.
     2.      Nefnd um hagskýrslur um peningamál, fjármál og greiðslujöfnuð. Nefndin er skipuð fulltrúum þeirra stofnana í aðildarríkjunum, sem fara með ofangreinda málaflokka. Verkefni hennar eru hliðstæð verkefnum hagskýrsluáætlananefndarinnar.
     3.      Nefnd um samræmingu skýrslugerðar um þjóðarframleiðslu á markaðsvirði. Nefndin er skipuð fulltrúum aðildarríkjanna og skal hafa eftirlit með að samræmis sé gætt í þjóð­hagsreikningagerð í aðildarríkjunum. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að þjóðartekjur og aðrar þjóðhagsreikningastærðir mynda í mörgum tilvikum grunn að skattlagningu, skiptingu greiðslna eða úthlutun fjár milli aðildarríkja EB. Nauðsynlegt er að EFTA-ríkin eigi aðild að þessari nefnd, einkum þar sem skipting kostnaðar milli EB og EFTA byggist samkvæmt samningnum á þjóðarframleiðslu ríkjanna.
     4.      Ráðgjafarnefnd um hagskýrslugerð á sviði efnahags- og félagsmála. Hér er um fjölmenna nefnd að ræða sem skipuð skal fulltrúum úr ýmsum greinum efnahags- og félags­mála í aðildarríkjum, hagstofustjórum og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar. Nefndin skal koma saman a.m.k. árlega og vera vettvangur umræðna um upplýsingastefnu og hagskýrslugerð á fyrrnefndum sviðum.

Um 5. kafla


Félagaréttur


Um 77. gr.


    Greinin vísar í XXII. viðauka.

Um XXII. viðauka

Félagaréttur


    Ein af meginreglum Evrópska efnahagssvæðisins felur í sér rétt til að stofna og reka félög eða fyrirtæki í svæðisríkjum með sama rétti og landsmenn þar, sbr. 31. og 34. gr. samn­ingsins. Í 77. gr. samningsins, sem fjallar um félagarétt, segir aðeins að XXII. viðauki við samninginn geymi sérstök ákvæði um félagaréttinn. Í viðaukanum er að finna upptalningu á níu tilskipunum, með áorðnum breytingum, og einni reglugerð.
    Framangreindum tilskipunum má skipta í nokkra flokka: 1) um rétt hluthafa í hlutafélögum, 2) um samruna og skiptingu almenningshlutafélaga, 3) um ársreikninga félaga og því um líkt og 4) um hlutafélög eins aðila.
    Í 1. tilskipuninni um rétt hluthafa (og kröfuhafa) í stórum og smáum hlutafélögum (almenningshlutafélögum og einkahlutafélögum), er m.a. fjallað um aðgang að ársreikning­um, en í 2. tilskipuninni um almenningshlutafélög er m.a. að finna ákvæði um stofnun þeirra og hlutafé. Ákvæði 3. tilskipunarinnar taka til samruna almenningshlutafélaga en ákvæði 6. tilskipunarinnar til skiptingar slíkra félaga. Um bókhaldstilskipanirnar fjórar má segja að 4. tilskipunin fjalli um ársreikninga hlutafélaga og jafnvel fleiri félaga, m.a. aðgang að ársreikningum, 7. tilskipunin um samstæðureikninga, 8. tilskipunin um samþykki á endur­skoðendum og 11. tilskipunin um reikning útibúa hlutafélaga. Ákvæði 12. tilskipunarinnar fjalla um hlutafélög eins aðila.
    Tilskipanirnar miða að því að samræma réttarreglur ríkja á sviði félagaréttar. Áberandi er sú viðleitni að samræma reglur um vernd hluthafa og lánardrottna og auka vernd þeim til handa en slíkt er talið skapa jafnari samkeppnisaðstöðu félaga í mismunandi ríkjum. Sam­ræming félagaréttarreglna, sem felur í sér aðlögun að þróun félagaréttar í Evrópu, hefur ýmsa aðra kosti. Meðal annars verður stofnun og rekstur félaga og fyrirtækja annars staðar en í heimalandi auðveldari en nú er þegar reglurnar verða hvarvetna þær sömu.
    Ákvæði reglugerðarinnar um Evrópska fjárhagslega hagsmunafélagið, sem stofna má t.d. um sameiginleg innkaup á hráefnum, miða að því að skapa nýtt form félagsskapar er aukið geti samvinnu aðila í mismunandi ríkjum.
    Athugun á framangreindum heimildum EB-réttar hefur leitt í ljós að efnisreglur virðast almennt séð vera nokkuð svipaðar og í íslensku hlutafélagalögunum en formið er mismunandi og EB-reglurnar almennt miklu ítarlegri. Ekki virðist vandkvæðum bundið að aðlaga á hlutafélagalögin og skylda löggjöf EB-réttinum. Meðal annars vegna ákvæða 2. tilskipunar­innar um að lágmarkshlutafé í almenningshlutafélögum skuli eigi vera lægra en sem svarar 25.000 evrópskum mynteiningum, ECU, (tæpum 2 millj. kr.) er talið rétt að stefna að setningu tvennra laga hér á landi um hlutafélög, annars vegar um almenningshlutafélög og hins vegar um einkahlutafélög (þar sem lágmarkshlutafé er ekki ákveðið í EB-reglum). Væntanlega verður við samningu frumvarpa til nýrra laga byggt á tvennum hlutafélagalögum í Danmörku og löggjöf þar í landi um ársreikninga o. fl. Þarf með öðrum orðum að breyta lögum um bókhald hér á landi en fella ákvæði um ársreikninga og því um líkt úr hlutafélagalöggjöfinni (og lögum um samvinnufélög).
    Að því er varðar 3. tilskipunina má nefna að þar eru miklu ítarlegri ákvæði um skilmála vegna samruna almenningshlutafélaga en í íslensku hlutafélagalögunum og ákvæði 6. tilskipunarinnar um skiptingu slíkra félaga eiga sér ekki samsvörun í íslensku löggjöfinni.
    Í 4. tilskipuninni um ársreikninga er aðeins gert ráð fyrir verðbólgureikningsskilum sem undantekningu. Hefðbundin kostnaðarreikningsskil eru aðalreglan. Þarf því að byggja á slíkum reikningsskilum þegar verðbólga hefur náðst niður á Íslandi þannig að varanlegt megi telja. Ekki þarf að breyta um aðferð þótt skammtímasveiflur verði. Í þessu sambandi má hafa í huga það sem greint er frá hér að neðan um almennan aðlögunartíma á sviði félagaréttarins.
    Nefna má að í 4. tilskipuninni, sbr 1. tilskipun, eru gerðar nokkru strangari kröfur hjá EB en hér á landi til félaga, m.a. að því leyti að félög geta ekki komist hjá því að birta hagnaðartölur. Eru þó reglur tilskipunarinnar um sumt vægari fyrir lítil félög en stór.
    Loks má vekja athygli á því í tengslum við 4. tilskipunina, sem er aðalheimildin meðal bókhaldstilskipananna, að hún tekur til fleiri félaga en hlutafélaga. Kunnáttumenn hér á landi telja því að nauðsynlegt sé að samræma fá og ófullkomin ákvæði laga um ársreikninga annarra félaga en hlutafélaga og þá til samræmis við reglurnar um ársreikninga hlutafélaganna. Endurskoða þarf lögin um bókhald af þessum sökum og er að því unnið á vegum fjármálaráðuneytisins.
    Ákvæði 7. tilskipunarinnar um samstæðureikninga eru miklu ítarlegri og fullkomnari en ákvæðin í hlutafélagalögunum. Er talin þörf á skýrari reglum hér á landi. Virðast ákvæði tilskipunarinnar þá koma vel til greina.
    Ákvæði 8. tilskipunarinnar um samþykki endurskoðenda eru ekki talin kalla á endurskoð­un íslenskra lagaákvæða varðandi löggilta endurskoðendur né breytingar á menntun þeirra.
    Engin lagaákvæði eru til á Íslandi sambærileg þeim sem finna má í 11. tilskipuninni um reikninga útibúa erlendra félaga, og kallar slíkt á setningu lagaákvæða á Íslandi. Í íslensku hlutafélagalögunum er ekki gert ráð fyrir því að um hlutafélög eins aðila geti verið að ræða. Skortir því lagaákvæði á sviði 12. tilskipunarinnar um einkahlutafélög eins aðila. Ákvæði tilskipunarinnar virðast þó ekki valda sérstökum erfiðleikum, sérstaklega þegar þess er gætt hversu hátt lágmarkshlutafé til stofnunar almenningshlutafélaga þarf að vera samkvæmt 2. tilskipuninni.
    Ákvæði reglugerðarinnar um Evrópska fjárhagslega hagsmunafélagið virðast ekki fela í sér sérstök vandamál í íslenskri löggjöf, en breytingar kann að þurfa að gera á löggjöfinni síðar ef reglugerðinni verður breytt þannig að slík félög geti átt aðsetur í EFTA-löndunum.
    Ýmsar tillögur EB á sviði félagaréttar kunna að tengjast Evrópska efnahagssvæðinu í framtíðinni, m.a. tillaga um yfirtökutilboð til verndar minnihluta í almenningshlutafélögum þannig að skylt sé við vissar kringumstæður að gera tilboð í öll hlutabréf en ekki einungis ákveðinn hluta þeirra. Nánar tiltekið er um að ræða drög að 13. tilskipuninni um yfirtöku­tilboð og önnur almenn tilboð. Í íslenskri hlutafélagalöggjöf eru engin ákvæði um slíkt. Þriðjungsreglan samkvæmt drögum þessum, um skyldur til að gera tilboð í öll hlutabréf en ekki einungis ákveðinn hluta þeirra, getur fræðilega séð valdið vandkvæðum. Hins vegar ættu ekki að vera sérstök vandamál í framkvæmdinni vegna almennrar undanþáguheimildar sem virðist ná til svo að segja allra íslenskra félaga, smárra á evrópskan mælikvarða. Ný lagaákvæði mundi þurfa hér á landi til að hrinda þessari tilskipun í framkvæmd, ef samþykkt yrði, og tilnefna þyrfti eftirlitsaðila.
    Þá liggja fyrir í EB drög að reglugerð um Evrópufélagið svokallaða, sem yrði almennings­hlutafélag, til að auðvelda samruna félaga í mismunandi aðildarríkjum, svo og í tengslum við þau drög að tilskipun er geymir ákvæði um atvinnulýðræði. Í drögunum um Evrópufélagið hafa ákvæðin verið slípuð til. Þar eru ýmsir valmöguleikar fyrir hendi varðandi form atvinnulýðræðisins, þátttöku launþega í rekstri fyrirtækja, sem íslensk löggjöf geymir svo til engin ákvæði um.
    Um þrjár meginleiðir er að ræða í drögunum varðandi form atvinnulýðræðisins. Í fyrsta lagi er um að ræða þýska reglu er gerir ráð fyrir því að starfsmenn eigi frá þriðjungi til helmings fulltrúa í stjórn eða yfirstjórn. Í öðru lagi er gert ráð fyrir sérstöku starfsmannaráði en reglur um kosningu eða skipun fulltrúa í það yrðu í samþykktum félags og yrði um þetta haft samráð við fulltrúa starfsmannanna í samræmi við lög eða venjur aðildarríkjanna. Í þriðja lagi yrði um að ræða samkomulag milli stjórnar fyrirtækis (eða stjórnar og yfir­stjórnar) annars vegar og starfsmanna eða fulltrúa þeirra hins vegar. Í öllum þessum þremur mismunandi þátttökukerfum er byggt á því að starfsmenn geti fylgst með meginþáttum í rekstri fyrirtækisins með fundum á a.m.k. þriggja mánaða fresti og sérstaklega þarf að upp­lýsa þá og hafa samráð við þá um meiri háttar ákvarðanir sem snerta fyrirtæki (m.a. lokun fyrirtækis ellegar flutning þess eða mikilvægs hluta þess). Enn er gert ráð fyrir því að Evrópufélagið megi aðeins stofna í aðildarríkjum EB.
    Almennur aðlögunartími til að samræma ofangreindar níu tilskipanir og reglugerðina er til 1. janúar 1995. Um svipað efni fjallar eftirfarandi dómur EB-dómstólsins:
(DEB, 27.09.1988, mál 81/87, Daily Mail, B 1988, bls. 5483)

Um VI. hluta
Samvinna utan marka fjórþætta frelsisins

    Í VI. hluta samnings þessa er kveðið á um eflingu samstarfs utan marka fjórþætta frelsisins. Byggist það einkum á samstarfssamningum og stefnuyfirlýsingum sem eru óskuld­bindandi. Þótt samstarfið sé í öðru formi en samstarf á sviði fjórþætta frelsisins, er það mikilvægt til þess að ná markmiði samningsins. Hér er rennt stoðum undir umfangsmikið samstarf á sviði menntamála, rannsókna og þróunar, umhverfismála, félagsmála, neytenda­verndar, samstarfs lítilla og meðalstórra fyrirtækja og á fleiri sviðum, sem aðrir hlutar samn­ingsins taka ekki til en eru talin upp í 78. gr. Nánar er gerð grein fyrir samstarfinu utan marka fjórþætta frelsisins í bókun 31. Fjallað er um bókunina í athugasemdum við 84. gr.
    Samstarf á sumum þessara sviða milli EB og EFTA-ríkjanna er þegar hafið, en það hefur verið mjög takmarkað og tekið langan tíma fyrir EFTA-ríkin að fá aðild að samstarfinu þar sem gera hefur þurft sérstaka samninga um hvert einstakt verkefni. Einnig hefur EB haldið ýmsum verkefnum utan samstarfsins, t.d. á sviði rannsókna og þróunar og menntamála.
    Á þeim takmörkuðu sviðum, sem samstarf hefur farið fram hafa EFTA-ríkin ekki haft nein áhrif á skipulag, stjórnun og þróun verkefnanna eða á það hvaða verkefni hafa forgang. Þetta breytist með EES-samningnum þar sem EFTA-ríkjunum er tryggður réttur til áhrifa á öll þessi atriði.
    Þegar til þátttöku í verkefnum hefur komið, hafa EFTA-ríkin ekki notið fulls jafnréttis, þrátt fyrir fjárframlög, en ákvæði VI. hluta tryggja slíkt jafnrétti eftir gildistöku þessa samn­ings.
    Þegar samningurinn gengur í gildi fá EFTA-ríkin aðgang að nær öllum verkefnum EB á umræddum sviðum. Eina undantekningin er á sviði menntamála, þar sem þátttaka hefst í áföngum, sbr. 4. gr. bókunar 31. Þau verkefni sem þegar er samstarf um samkvæmt tvíhliða samningum verða hluti af EES-samningnum frá gildistöku hans með þeim auknu réttindum sem lýst hefur verið hér að ofan.
    Hvað Ísland varðar hefst full þátttaka í rammaáætlun EB á sviði rannsókna og þróunar ekki fyrr en 1. janúar 1994 að ósk Íslendinga.
    Samningsaðilar skuldbinda sig til að efla og auka samstarfið á grundvelli VI. hluta þessa samnings. Gert er ráð fyrir stöðugum skoðanaskiptum í þeim tilgangi að komast að sam­komulagi um starfsemi og aðgerðir til þess að ná sameiginlegum markmiðum á þeim sviðum sem VI. hluti fjallar um. Ákvæði eru um að þessi skoðanaskipti skuli fara fram eftir sömu reglum og þegar um samstarf innan fjórþætta frelsisins er að ræða, þótt niðurstaðan verði ekki lagalega bindandi.
    Til samstarfsverkefna samkvæmt VI. hluta greiða EFTA-ríki í hlutfalli við verga landsframleiðslu. Fyrsta samstarfsárið a.m.k. greiða EFTA-ríkin helming framlags síns í janúar og helming í júlí með þeim hætti að féð verður lagt inn á reikning í seðlabönkum eða öðrum stofnunum í viðkomandi EFTA-ríki, sbr. bókun 32. EB hefur heimild til að taka út af reikningnum til greiðslu vegna þeirra verkefna sem samið hefur verið um, þegar starfræksla þeirra hefst.
    Sameiginlega EES-nefndin á að taka allar ákvarðanir vegna framkvæmdar VI. hluta samningsins og getur hún m.a. gert breytingar á bókun 31, en þar er nánari útfærsla á sam­starfinu og samstarfsformum á umræddum sviðum. Einnig er gert ráð fyrir því að sameigin­lega nefndin geti bætt nýjum samstarfssviðum inn í VI. hluta telji samningsaðilar æskilegt að þróa samstarfið enn frekar.

Um 78. gr.


    Hér eru talin upp þau svið utan marka fjórþætta frelsisins þar sem samningsaðilar hafa ákveðið að efla og auka samstarf sitt innan ramma þess samstarfs sem EB hefur þegar komið á milli bandalagsríkjanna. Gerð er nánari grein fyrir umfangi og tilhögun samstarfsins á hinum ýmsu sviðum í bókun 31, eins og fram kemur í 84. gr.

Um 79. gr.


    Hér er kveðið á um skyldu samningsaðila til að efla skoðanaskipti sín í milli til þess að ákveða hvaða nánara samstarf geti stuðlað að sameiginlegum markmiðum á þeim sviðum sem talin eru upp í 78. gr. Þótt samstarfið samkvæmt VI. hluta EES-samningsins sé utan marka fjórþætta frelsisins er kveðið á um að sömu reglur gildi um ákvarðanatöku og gilda um aðrar gerðir, sé þess getið í samningnum eða í bókun 31. Ákvæði um ákvarðanatökuna eru í VII. hluta samningsins.
    Allir samningsaðilar hafa rétt til að gera athugasemdir og beita áhrifum sínum ef áformuð er endurskoðun eða breytingar á verkefnum, sem hafin eru. Sama gildir um ný verkefni, bæði rammaáætlanir, einstakar áætlanir, aðgerðir og önnur verkefni.

Um 80. gr.


    Hér er kveðið á um þau samstarfsform sem gert er ráð fyrir á þeim sviðum sem 78. gr. tiltekur. Bæði er gert ráð fyrir þátttöku EFTA-ríkja í einstökum áætlunum og verkefnum EB, sameiginlegri starfsemi á tilteknum sviðum og formlegum og óformlegum upplýsingaskiptum. Loks er gert ráð fyrir að samningsaðilar samræmi aðgerðir sínar á starfsvettvangi alþjóðastofnana og samstarf sitt við lönd utan EES.

Um 81. gr.


    Þessi grein tryggir jafnrétti EFTA-ríkja á við aðildarlönd EB í samstarfi á grundvelli VI. hluta. Í því samstarfi sem fram hefur farið til þessa milli EB og EFTA-ríkja á sviðum sem getið er í 78. gr. hafa EFTA-ríkin ekki setið við sama borð og aðildarlönd EB. En hér er t.d. kveðið á um að EFTA-ríki skuli hafa aðgang að öllum þáttum áætlana, en þetta hefur ekki verið raunin, t.d. á sviði rannsókna og þróunar. EFTA-ríkin hafa til þessa ekki átt sæti í nefndum sem aðstoða framkvæmdastjórn EB við stjórnun og þróun verkefna þótt þau hafi greitt fé til þeirra, heldur hafa verið settar upp sameiginlegar nefndir EB annars vegar og hvers EFTA-ríkis fyrir sig hins vegar, enda hafa samstarfssamningarnir verið tvíhliða. EFTA-ríkin hafa því ekki haft tækifæri til að hafa bein áhrif á þróun og stjórnun sam­starfsverkefnanna, en slík áhrif á þessi samningsgrein að tryggja.
    Eins og fram kemur í greinargerð með 79. gr. á að fara með ákvarðanir sem hafa áhrif á þau samstarfsverkefni samkvæmt reglum í VII. hluta þessa samnings. Þó er hér tekið fram að slíkt eigi ekki við þegar um er að ræða ákvarðanir sem varða almenna fjárhagsáætlun bandalagsins.
    Í d- og e-lið er hnykkt á um jafnrétti EFTA-ríkja og aðildarríkja EB í samstarfinu sem byggt er á VI. hluta, og skiptir þá ekki máli hvort um stofnanir eða einstaklinga er að ræða, og í f-lið felst skuldbinding um að greiða fyrir því að þegnar ríkja samningsaðila geti tekið þátt í samstarfinu og ekki séu lagðar hindranir í veg þeirra þótt samstarfið feli í sér flutning milli landa. Oftast er um skammtímadvöl að ræða.

Um 82. gr.


    Hér er kveðið á um með hvaða hætti EFTA-ríki greiða kostnað af samstarfi, sem fram fer á grundvelli VI. hluta þessa samnings. Gert er ráð fyrir þremur möguleikum:
     1.      Þegar EFTA-ríki taka þátt í verkefnum bandalagsins er framlag þeirra reiknað hlutfallslega eins og nánar er skilgreint í 2. mgr., bæði miðað við áætlun bandalagsins um kostnað við viðkomandi verkefni og raunverulegan kostnað, þegar hann liggur fyrir. Framlög EFTA-ríkjanna eru færð árlega inn á viðkomandi fjárlagalið á fjárlögum bandalagsins.
             Framlög EFTA-ríkja koma til viðbótar þeim fjárveitingum sem EB notar til hvers verkefnis og verða greiðslur fyrir hvert ár miðaðar við raunverulegan kostnað.
     2.      Ef samningsaðilar hafa með sér samstarf sem ekki flokkast undir reglulega starfsemi bandalagsins, skal hver greiða sinn eigin kostnað og hluta af fastakostnaði bandalagsins samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar.
     3.      Sameiginlega EES-nefndin á að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir varðandi framlög samningsaðila til starfseminnar.
    Í 2. tölul. er vísað til bókunar 32 þar sem settar eru reglur um framkvæmd þessarar grein­ar.

Um bókun 32


     Fjárhagsfyrirkomulag vegna framkvæmdar á 82. gr.

     Um 1. gr. bókunar 32

    Hér er gerð grein fyrir tilhögun við ákvörðun fjárframlags EFTA-ríkjanna. Fyrstu upplýs­ingar um fjárframlög EFTA-ríkjanna byggjast á fjárlagatillögum EB til þeirra verkefna sem EFTA-ríkin taka þátt í. Hlutfall fjárframlags EFTA-ríkjanna er ákveðið samkvæmt reglunni, sem sett er fram í 82. gr. Sameiginlega EES-nefndin fær útreikningana til staðfestingar í síðasta lagi 30. maí ár hvert og skal staðfestingin eða athugasemdir ef einhverjar eru hafa borist EB fyrir 1. júlí.
    Þegar fjárlög EB hafa verið samþykkt skulu lokaútreikningar á framlagi EFTA-ríkjanna tilkynntar sameiginlegu EES-nefndinni og hefur hún þá 15 daga til að staðfesta að þær séu í samræmi við ákvæði 82. gr.
    Fastanefnd EFTA-ríkjanna ákveður hve stóran hluta fjárframlagsins hvert EFTA-ríki á að greiða og skal tilkynna framkvæmdastjórn EB um skiptinguna eigi síðar en 1. janúar á hverju fjárhagsári. Hafi þessar upplýsingar ekki borist miðar EB við skiptingu ársins á undan til bráðabirgða.

     Um 2. gr. bókunar 32

    Gert er ráð fyrir að fjárframlög EFTA-ríkjanna séu greidd tvisvar á ári, helmingur eigi síðar en 20. janúar og helmingur eigi síðar en 15. júlí. Þau eru greidd inn á reikninga hjá ríkissjóði í hverju landi eða stofnun sem tilnefnd er í þessu skyni. Liggja því peningarnir hjá EFTA-ríkjunum þar til EB þarf að greiða til samstarfsverkefnanna. Þegar að greiðslum kemur getur framkvæmdastjórnin tekið út fé af reikningunum.

Um 3. gr. bókunar 32

    Þessi ákvæði eiga við ef breytingar verða á fjárlögum EB, eftir að þau hafa verið sam­þykkt, sem valda breytingu á framlagi EFTA-ríkjanna. EFTA-ríkin telja sig ekki geta sam­þykkt að taka á sig hækkanir eftir að þau hafa samþykkt fjárlög fyrir viðkomandi fjárhagsár. Hækkanir verða stundum hjá EB, m.a. með tilfærslum og fjáraukalögum.
    Hér er gert er ráð fyrir þeirri almennu reglu að EFTA-ríkin jafni mun þann er skapast kann á fjárlögum næsta fjárhagsárs á eftir. Þó er gert ráð fyrir að sameiginlega EES-nefndin geti samþykkt að farið sé fram á viðbótarframlag frá EFTA-ríkjunum á sama fjárhagsári og breyting er gerð. Er gerð grein fyrir því í 3. mgr. hvernig með slíkar viðbótagreiðslur skuli farið.
    Einnig er hér ákvæði um að sameiginlega EES-nefndin skuli setja viðbótarreglur um framkvæmd 1.–3. mgr. ef slíkt reynist nauðsynlegt.

Um 4. gr. bókunar 32

    Sameiginlega nefndin skal endurskoða, fyrir 1. janúar 1994, 1. og 2. mgr. 2. gr. og 2. og 3. mgr. 3. gr., sem fjalla um fyrirkomulag greiðslna EFTA-ríkjanna.
    Ástæðan til þessa er að EFTA-ríkin telja hagkvæmara að greiða framlög sín með jöfnum mánaðarlegum greiðslum og féllust samningamenn EB á að þessi atriði mætti endurskoða.

Um 5. gr. bókunar 32

    Framlög EFTA-ríkjanna eru færð inn á fjárlagaliði, merkta þeim verkefnum sem þau taka þátt í, og er óheimilt að nota þau til annars.

Um 6. gr. bókunar 32

    Þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr. bókunar 32

    Þarfnast ekki skýringar.

Um 8. gr. bókunar 32

    Upplýsingar um verga landsframleiðslu á markaðsverði skulu veittar á grundvelli samstarfsins innan EES um hagskýrslugerð, sem ákvæði eru um í 76. gr. samningsins. Ekki er ráðgert að það samstarf hefjist að fullu fyrr en 1. janúar 1995 og þess vegna verða upplýs­ingar OECD notaðar a.m.k. fyrstu tvö árin.

Um 83. gr.


    Hér er kveðið á um að réttindi og skyldur opinberra aðila í EFTA-ríkjum séu þær sömu og aðildarríkja EB þegar samstarfið felur í sér upplýsingamiðlun milli opinberra aðila. Gert er ráð fyrir að sameiginlega EES-nefndin setji reglur um hvaða upplýsingar skuli farið með sem trúnaðarmál.

Um 84. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um bókun 31


Um samvinnu á sérstökum sviðum
utan marka fjórþætta frelsisins

Um 1. gr. bókunar 31
Rannsóknir og tækniþróun

     Hér er kveðið á um tilhögun þátttöku EFTA-ríkja í rammaáætlun um starfsemi bandalagsins á sviði rannsókna og tækniþróunar (1990–1994).

Um a-lið 1. mgr. 1. gr.
    Hér er kveðið á um að frá og með gildistöku þessa samnings skuldbindi EFTA-ríkin sig til að taka þátt í þriðju rammaáætlun um starfsemi bandalagsins á sviði rannsókna og tækniþróunar með þeim skilmálum sem hér að neðan greinir.
    Rammaáætlanir EB eru heildaráætlanir til ákveðins tíma um rannsóknir og þróun, einkum á sviðum raunvísinda og tækni. Annarri rammaáætluninni lauk í árslok 1991 en þá tók við þriðja rammaáætlunin sem gildir frá 1990-94. Innan hverrar rammaáætlunar er fjöldi undiráætlana um rannsóknir á tilteknum afmörkuðum sviðum.
    Með rammaáætlunum EB hefur verið stuðlað að aukinni samvinnu ríkja EB með því að veita úr sameiginlegum sjóðum bandalagsins styrki til ákveðinna samvinnuverkefna. Þessi verkefni eru afmörkuð svo sem framkvæmdastjórn bandalagsins ákveður hverju sinni í sam­vinnu við aðildarríki þess. Markmiðið með þessum rammaáætlunum er m.a. að efla vísindalegan og tæknilegan grundvöll evrópsks iðnaðar og efla alþjóðlega samkeppnisstöðu hans. Þær eiga að stuðla að hagkvæmari verkaskiptingu milli ríkja bandalagsins og koma í veg fyrir að fleiri en einn aðili vinni sömu verkin. Við val á viðfangsefnum í rammaáætlanirnar eru höfð í huga eftirfarandi verkefni:
     1.      Sem hvert ríki eitt og sér ræður ekki við;
     2.      sem reikna má með að hafi hagnýtar, seljanlegar niðurstöður;
     3.      sem eru fjölþjóðleg í eðli sínu;
     4.      sem styrkja heildarmarkmið aðildarríkjanna.
    Rannsóknaverkefni lúta fyrst og fremst að undirstöðuatriðum en ekki vöru- eða afurðaþróun í markaðslegum skilningi. Þess ber þó að geta að verkefni fást fyrst og fremst við raunvísindi, tækni og þróun sem leitt geta til bættrar samkeppnisaðstöðu aðildarríkjanna á heimsmarkaði.
     Í þriðju rammaáætluninni fyrir árin 1990–1994 er lögð megináhersla á þrjú svið:
     1.      Þróun nýrrar tækniþekkingar eða tæknigetu.
     2.      Auðlindastjórn.
     3.      Mannauð.
Nánar tiltekið skiptist þriðja rammaáætlun EB í eftirfarandi 15 undiráætlanir:
     1.      Upplýsingatækni     1352
     2.      Fjarskiptatækni     489
     3.      Flutningsþjónusta fyrir uppl. á vegum símastofnana     380
     4.      Iðn- og efnistækni (áður BRITE/EURAM í 2. rammaáætluninni)     748
     5.      Mælingar og prófanir     140
     6.      Umhverfisrannsóknir (áður STEP/EPOCH í 2. rammaáætluninni)     414
     7.      Hafrannsóknir (áður MAST í 2. rammaáætluninni)     104
     8.      Líftækni          164
     9.      Rannsóknir á sviði landbúnaðar, fiskveiða og -vinnslu     333
     10.      Læknisfræði- og heilbrigðisrannsóknir     133
     11.      Rannsóknir í líffræðigreinum með tilliti til þróunarlanda     111
     12.      Rannsóknir á öðrum orkugjöfum en kjarnorku (áður JOULE)     157
     13.      Öryggi í kjarnorkuvinnslu     199
     14.      Beislun kjarnasamruna     458
     15.      Mannauður (human capital and mobility) (áður SCIENCE)     518
               Samtals millj. ECU     5700

    Ákvæði VI. hluta þessa samnings og 1. gr. þessarar bókunar tryggja að EFTA-ríkin verða fullgildir aðilar að öllum þessum rannsóknaáætlunum nema kjarnorkurannsóknaáætlunum, nr. 13 og 14, en þær eru hluti af samþykktum Kjarnorkubandalags Evrópu (EURATOM) sem EES-samningurinn nær ekki til. Full aðild EFTA-ríkja að rammaáætlun EB gefur rannsóknastofnunum, fyrirtækjum og vísindamönnum í EFTA-ríkjunum möguleika á að EB fjármagni samstarfsverkefni þeirra við aðila í EB-ríkjum um allt að 50% af verkefniskostn­aði. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að þegar á þessu ári verður Ísland, samkvæmt tví­hliða samningum þar um, aðili að tveimur af framangreindum undiráætlunum, þ.e. á sviði umhverfisrannsókna og mannauðs, nr. 6 og 15.
    Bæði Rannsóknaráð ríkisins og Vísindaráð hafa mælt með því að Ísland gerist aðili að rammaáætlun EB með þeim skilmálum sem um ræðir í EES-samningnum. Fram hefur komið við mat á aðild Íslands að rammaáætlunum EB að meirihluti einstakra undiráætlana sem gilda fyrir árin 1990–1994 uppfyllir eftirfarandi skilyrði: 1) Íslenskir vísindamenn og rann­sóknastofnanir hafa mikilvæga sérfræðiþekkingu fram að færa á viðfangsefnum áætlananna, 2) þátttaka í þeim gæti eflt vísinda- og tæknistig hérlendis á umtalsverðan hátt og 3) meiri fjármunir gætu skilað sér til baka til hérlenda vísindastarfsemi en sem nemur kostnaði Íslands við aðild að áætlunum.
    Hér á landi mun menntamálaráðuneytið tryggja framkvæmd ákvæða EES-samnings á sviðum sem snerta rannsóknir og tækniþróun, en gera má ráð fyrir að Vísindaráði og Rannsóknaráði ríkisins verði falin umsjón með þátttöku Íslands í einstökum áætlunum.

Um b-lið 1. mgr. 1. gr.
    Samtals munu EFTA-ríkin greiða u.þ.b. 800 milljónir ECU til þriðju rammaáætlunarinnar en þær greiðslur bætast við fjárframlag EB. Reikna má með að aðild Íslands að ramma­áætluninni á árinu 1994 komi til með að kosta u.þ.b. 100 millj. kr. Upphæð fjárframlags Íslands á árinu 1993 fer eftir þeim fjölda undiráætlana sem Ísland fær aðild að 1. janúar 1993 en frá því máli hefur ekki verið endanlega gengið við EB. Útreikningar á fjárfram­lögum EFTA-ríkjanna fara eftir ákvæðum í 82. gr. og bókun 32.

Um c-lið 1. mgr. 1. gr.
    Hvert aðildarríki EFTA fær rétt til að tilnefna 1–2 fulltrúa í hinar 13 stjórnunarnefndir undiráætlana rammaáætlunar EB en hver stjórnunarnefnd skipar síðan vinnuhópa á ákveðnum sérsviðum. Fulltrúar EFTA-ríkjanna hafa ekki atkvæðisrétt í umræddum nefndum en hafa að öðru leyti jafnan rétt og aðildarríki EB til að móta starfsemi þessara nefnda, hafa áhrif á innihald áætlana og koma sínum sjónarmiðum fram að öðru leyti. Í þeim nefndum sem hér um ræðir er atkvæðisrétti sjaldnast beitt heldur mótast verkefni og áætlanir af gæðum faglegs framlags hvers og eins.

Um d-lið 1. mgr. 1. gr.
    Nefnd um vísinda- og tæknirannsóknir (Scientific and Technical Research Committee, CREST) er æðsta ráðgjafar- og stefnumótandi nefnd EB á sviði vísindamála. Hvert
EFTA-ríki tilnefnir tvo fulltrúa í nefndina. Hlutverk CREST er einkum þrenns konar:
     1.      Ráðgefandi fyrir EB-ráðherraráðið.
     2.      Ráðgefandi fyrir framkvæmdastjórn EB í málefnum sem eru utan EES-samningsins.
     3.      Ráðgefandi fyrir framkvæmdastjórn EB í málefnum sem eru á sviði EES-samningsins.
    
    Í sameiginlegri yfirlýsingu samningsaðila er samkomulag um að frá og með gildistöku samnings taki fulltrúar EFTA-ríkjanna fullan þátt í störfum CREST-nefndarinnar þegar hún fjallar um mál sem falla undir lið 3.
    Aðrar nefndir á þessu sviði sem EFTA-ríkin fá aðild að á grundvelli þessa ákvæðis eru vísinda- og tækniþróunarnefnd Evrópu (Committee for the European Development of Science and Technology, CODEST) og ráðgjafarnefnd um iðnaðarrannsóknir og þróun (Industrial Research and Development Advisory Committee, IRDAC). Báðar þessar nefndir eru ráðgefandi fyrir framkvæmdastjórn EB. Í CODEST-nefndinni eru 24 EB-fulltrúar en í IRDAC-nefndinni eru þeir 14. CODEST-nefndin fjallar um málefni sem varða mótun og framkvæmd á almennri vísinda- og tæknistefnu EB en IRDAC-nefndin um málefni er snerta iðnaðarrannsóknir og þróun. Ekki hefur endanlega verið gengið frá hvernig aðild EFTA-ríkj­anna að þessum tveimur nefndum verður háttað.

Um 2. mgr. 1. gr.
    Ákvæðið felur í sér að Ísland er ekki skuldbundið til að taka fullan þátt í rammaáætlun EB á sviði vísinda- og tækniþróunar fyrr en 1. janúar 1994, enda er samstarf Íslands og EB hvað varðar þennan málaflokk skammt á veg komið í samanburði við samstarf EB og annarra EFTA-ríkja. Ákvæðið hindrar samt ekki að Ísland verði fullgildur aðili að einstökum undir­áætlunum fyrir þennan tíma á grundvelli tvíhliða rammasamnings sem gerður var 1990 og fái þar með fulla aðild að stjórnunarnefndum einstakra áætlana, sbr. c-lið mgr. 1. hér á undan, þótt ekki sé gert ráð fyrir slíkri aðild í tvíhliða samningnum. Samkomulag er um að Ísland fái þangað til 1. janúar 1994 áheyrnaraðild að CREST-, CODEST- og IRDAC-nefnd­unum og þeim stjórnunarnefndum einstakra undiráætlana rammaáætlunar EB sem Ísland er ekki fullgildur aðili að nú þegar.
    Eins og áður hefur komið fram verður Ísland þegar á þessu ári, samkvæmt tvíhliða samn­ingum þar um, aðili að rannsóknaáætlunum EB á sviði umhverfisrannsókna og mannauðs. Í EES-viðræðum við EB var einnig af Íslands hálfu lögð áhersla á að frá 1. janúar 1993 fengi Ísland fulla aðild að eftirtöldum undiráætlunum rammaáætlunar EB: Upplýsingatækni, líftækni, hafrannsóknir, læknisfræði- og heilbrigðisrannsóknir.

Um 3. mgr. 1. gr.
    Hér er einkum um að ræða nýjar aðgerðir á sviði rannsókna og tækniþróunar sem fram­kvæmdastjórn EB kynni að samþykkja á gildistíma rammaáætlunar. Þessar samþykktir kynnu að hafa í för með sér auknar fjárhagsskuldbindingar fyrir aðildarríki samningsins en tryggja jafnframt áhrif EFTA-ríkja á endurskoðun rammaáætlunarinnar.

Um 4. mgr. 1. gr.
    Þeir samningar sem Ísland hefur gert við EB og falla undir þetta ákvæði eru rammasamn­ingur um samvinnu á sviði vísinda og tækni sem öðlaðist gildi 6. júní 1990 og sam­starfssamningur um starfsáætlun til að örva alþjóðasamstarf og nauðsynleg samskipti evrópskra vísindamanna í rannsóknum (SCIENCE-áætlunin) en hann öðlaðist gildi 28. október 1991.

Um 2. gr. bókunar 31
Upplýsingaþjónusta

    Hér er kveðið á um að samningsaðilar feli sameiginlegu EES-nefndinni að ákveða skilyrði fyrir og tilhögun þátttöku EFTA-ríkja í eftirfarandi áætlunum EB-ráðsins, eða öðrum áætlunum sem leiðir af þeim, á sviði upplýsingaþjónustu:
     1.      Aðgerðaáætlun til að koma á fót markaði fyrir upplýsingaþjónustu. Áætlunin felur í sér eftirfarandi verkefni: a) Öflun og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga um evrópskan markað fyrir upplýsingaþjónustu. b) Kynna EB-ráðinu tillögur um afnám lagalegra, stjórnunarlegra og tæknilegra viðskiptahindrana á markaði á sviði upplýsingaþjónustu. c) Örva samstarf hins opinbera og einkageirans á sviði upplýsingaþjónustu. d) Hefja undirbúning að samtengingu bókasafna í aðildarríkjum EB.
     2.      SPRINT-áætlunin sem er aðallega ætlað að stuðla að tæknisamvinnu á milli smærri fyrirtækja yfir landamæri. Verkefnið felur m.a. í sér að komið verður á fót upplýsinganeti á milli fyrirtækja, háskóla, rannsóknastofnana og atvinnugreinasamtaka. Auk þess er gert ráð fyrir miðlun um árangur af starfrækslu áðurgreindra upplýsinga­neta, rannsóknum og námsstefnum og endurskoðun lagareglna, skattareglna, fjár­mögnunarmöguleika o.fl.

Um 3. gr. bókunar 31

Umhverfismál


     Um þetta samstarf vísast í athugasemdir við 3. kafla V. hluta.

Um 4. gr. bókunar 31

Menntun, þjálfun og æskulýðsmál

    Samstarf EB á sviði menntamála fer yfirleitt fram með þeim hætti að ákveðin eru sam­starfsverkefni og miðað við að þau séu þess eðlis að samstarf skili betri árangri en aðgerðir á vegum stjórnvalda hvers lands.
    EB hefur ekki sameiginlega menntastefnu og forræði í málaflokknum er hjá stjórnvöldum hvers bandalagslands.
    Menntamálaráðherrar bandalagsins hittast reglulega, taka ákvarðanir um vænleg sam­starfsverkefni og gefa út yfirlýsingar um stefnumál, sem þeir eru sammála um að fylgja í löndum sínum.
    Menntamálasamstarf það, sem hér er kveðið á um, byggist á samstarfsverkefnum líkum þeim sem EB hefur staðið að á undanförnum árum, einkum í þeim tilgangi að gera ungu fólki, bæði háskólanemum og öðrum, og einnig kennurum, auðveldara að kynnast öðrum EB-lönd­um en heimalöndum sínum og stunda þar nám og störf. Einnig hefur verið unnið að því í tengslum við þessi samstarfsverkefni að koma á samstarfi milli skóla, einkum á háskólastigi, og tengslum háskóla og atvinnulífs, einkum á sviði tækniþjálfunar.
    EFTA-ríki hafa þegar gert tvíhliða samstarfssamninga við EB um þátttöku í tveimur verk­efnum á sviði menntamála, COMETT II, sem stuðlar að samstarfi háskóla og atvinnulífs á sviði tækniþjálfunar, og ERASMUS, sem stuðlar einkum að nemendaskiptum á háskólastigi en auk þess kennaraskiptum og samstarfsnetum háskóla.
    EFTA-ríkin hafa tekið þátt í COMETT II frá 1990, en áætlunin nær til fimm ára tímabils. Ráðstöfunarfé til áætlunarinnar úr sjóðum bandalagsins, sem EFTA-ríki greiða einnig til, er um 16,5 milljarðar kr. Eftir að Ísland hóf þátttöku í COMETT II var eitt fyrsta verkefnið að sækja um styrk til að reka samstarfsnefnd um eflingu tækniþjálfunar á Íslandi. Í nefndinni sem nefnist SAMMENNT (Samstarfsnefnd atvinnulífs og skóla um menntun og þjálfun í tengslum við COMETT) eiga sæti um 20 aðilar, skólar, fyrirtæki og stofnanir. Slíkar sam­starfsnefndir eru um 150 innan EB- og EFTA-ríkja. Þær mynda þéttriðið net samstarfs um alla Evrópu.
    Fjárframlag Íslands til COMETT II er reiknað út með sama hætti og gert er ráð fyrir í 82. gr. þessa samnings. Er gert ráð fyrir að Íslendingar greiði um 3,5 millj. kr. í framlag til áætlunarinnar árlega.
    SAMMENNT hefur hlotið um 12 millj. kr. í styrk frá COMETT til reksturs verkefnanna í þrjú ár. Auk þess hafa fengist styrkir til endurmenntunar, samstarfs um fiskvinnslu og nemendaskipta samtals að upphæð 3,1 millj. kr.
    Þátttaka EFTA-ríkja í ERASMUS-áætluninni hefst á þessu ári, en áætlunin hefur verið starfrækt hjá EB frá 1987. Markmiðið með ERASMUS er einkum að efla samstarf milli háskóla og stuðla að því að nemendur stundi hluta háskólanáms síns utan heimalandsins, en skilyrði fyrir slíkri námsdvöl eru að heimaskóli nemandans viðurkenni námsdvöl hans erlendis sem hluta námsins og hann tapi ekki tíma. Evrópubandalagið stefnir að því að 10% háskólanemenda stundi hluta af námi sínu í háskóla utan heimalandsins 1992, en mikið vantar á að þetta markmið sé í sjónmáli og aðeins 2-3% nemenda njóta stuðnings ERASMUS á þessu skólaári.
    Framlag EB til ERASMUS til þriggja ára frá 1990–1993 nemur um 14,5 milljörðum kr. Miðað við þann útreikning sem notaður er vegna þátttöku EFTA-ríkja greiðir Ísland um það bil 7 millj. kr. á ári vegna þátttöku sinnar í áætluninni. Styrkur til nemendaskipta úr sjóðum EB samkvæmt áætluninni nemur um 15 millj. kr. á ári en auk þess eru möguleikar á styrkjum til annarra verkefna eins og fram kemur hér að neðan;
    ERASMUS-áætlunin skiptist í fjóra þætti sem styrktir eru sérstaklega:
     1.      Skólar á háskólastigi geta fengið styrk til undirbúnings og reksturs samstarfsneta, til þess að koma á nemendaskiptum, kennaraskiptum, hafa samstarf um skólaþróun og setja upp námskeið bæði fyrir nemendur og kennara.
     2.      Nemendaskipti eru megintilgangur áætlunarinnar. Skilyrði fyrir styrk til nemendaskipta er að nemandi fái nám sitt erlendis metið sem hluta af náminu við heimaskóla. Styrkirnir eiga að greiða þann umframkostnað, sem af því hlýst að stunda nám erlendis, en gert er ráð fyrir að nemandinn haldi námsaðstoð sem hann á rétt á í sínu heimalandi til framfærslu, hér á landi námslánum.
     3.      Starfsfólk skóla á háskólastigi getur fengið styrki til að fara náms- og kynnisferðir til þátttökulanda í áætluninni, m.a. til að kanna möguleika á samstarfsnetum og ýmsa aðra þætti samstarfs sem tengjast áætluninni, t.d. varðandi mat og viðurkenningu á prófgráð­um og námsáföngum. Einnig eru kennurum veittir styrkir til stuttra kennsluheimsókna, hámark er fjórar vikur.
     4.      Stofnanir í aðildarlöndum geta sótt um styrki til aðgerða til að efla nemendaskipti, m.a. útgáfustyrki og styrki til kynningar á ERASMUS-áætluninni.

    Styrkjum samkvæmt 1, 3 og 4 er úthlutað af ERASMUS-skrifstofunni í Brussel, en styrkjum samkvæmt 2 er úthlutað af yfirvöldum í hverju landi og hefur alþjóðaskrifstofu Háskóla Íslands verið falið að hafa forgöngu um úthlutunina og hafa til samráðs nefnd, skipaða fulltrúum frá öðrum skólum á háskólastigi. Alþjóðaskrifstofa háskólans hefur enn fremur með höndum upplýsingastarfsemi bæði vegna COMETT II og ERASMUS og sér um samskipti við aðila í Brussel vegna þátttöku í áætlununum, í umboði menntamálaráðuneytis­ins.
    Í samræmi við 85. gr. þessa samnings kemur hann í stað tvíhliða samninga um COMETT II og ERASMUS og samstarfið verður innan ramma EES frá gildistöku hans. Það hefur þá breytingu í för með sér fyrir EFTA-ríki að þau fá fulltrúa í nefndum sem stjórna verkefnun­um, sbr. b-lið 81. gr. þessa samnings. EFTA-ríki hafa því í framtíðinni áhrif á undirbúning, skipulag og stjórnun verkefna sem EB efnir til, en samkvæmt tvíhliða samningunum hafa EFTA-ríki fengið aðild að fullmótuðum verkefnum EB án nokkurra möguleika á því að hafa áhrif á þróun þeirra. Samkvæmt tvíhliða samningunum er það einnig skilyrði að hver sam­starfsaðili í EFTA-ríki verði að finna samstarfsaðila í tveimur EB-ríkjum, en samkvæmt þessum samningi nægir einn samstarfsaðili innan EB.
    Í 1. mgr. þessarar greinar kemur fram að EFTA-ríki fá aðild að einni samstarfsáætlun til viðbótar við COMETT II og ERASMUS, þegar þessi samningur gengur í gildi, í samræmi við VI. hluta og nefnist hún „Æska í Evrópu“.
    Markmið áætlunarinnar er að gefa ungu fólki á aldrinum 15–25 ára tækifæri til að kynnast öðrum löndum. Áætlunin skiptist í fjóra hluta:
     1.      Ferðastyrkir til ungs fólks.
     2.      Styrki fyrir þá sem starfa að æskulýðsmálum til stuttra kynnisferða innan bandalagsins.
     3.      Styrki til samtaka sem eru ekki á vegum opinberra aðila en vilja beita sér fyrir ungmennaskiptum.
     4.      Styrki til menntunar æskulýðsleiðtoga, einkum frá evrópsku sjónarmiði.
    Styrkirnir eru veittir til verkefna sem fela í sér þátttöku frá 16–60 ungmenna og er gert ráð fyrir að þeir greiði 50% kostnaðar, nema um sé að ræða fatlaða sem hafa sérstakan forgang og fá 74% heildarkostnaðar. Einnig hafa forgang ungmenni sem ekki hafa áður átt kost á að taka þátt í skipulögðum ungmennaskiptum.
    Ekki eru veittir styrkir til ferða sem telja má hluta af reglulegu námi.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir fullri þátttöku EFTA-ríkja í verkefnum bandalagsins frá 1. janúar 1995. Ástæðan til þess að hér er ekki miðað við gildistöku samningsins er, að af hálfu EB var bent á að flest þau verkefni önnur sem EFTA-ríkin lýstu áhuga á þátttöku í væru tímabundin og við það að renna út 1. janúar 1993. Því gæti ekki orðið um raunverulega þátttöku að ræða fyrr en ný verkefni, annaðhvort á grunni þeirra sem nú er unnið að eða annars konar verkefni, hæfust og rétt væri að miða við 1. janúar 1995. Gert er ráð fyrir að EFTA-ríki taki frá gildistöku samningsins þátt í skipulagningu og þróun verkefna bandalagsins á þessu sviði.
    Samkvæmt 5. mgr. er gert ráð fyrir að umfangsmikið samstarf hefjist þegar við gildistöku samningsins, bæði á grundvelli starfsemi bandalagsins og einnig geti samningsaðilar haft frumkvæði um ný samstarfsverkefni.
    Í 6. mgr. er sérstaklega vikið að samstarfi um málefni sem heyra undir Evrópumiðstöð um þróun starfsmenntunar (CEDEFOP). Hlutverk stofnunarinnar er að aðstoða framkvæmda­stjórnina við eflingu og þróun starfsmenntunar og endurmenntunar. Hún á að stuðla að sam­eiginlegri starfsmenntastefnu og hvetja til upplýsingaskipta og samanburðar á reynslu. Stofn­unin á að taka mið af þeim tengslum, sem eru milli starfsmenntunar og annarra hluta mennta­kerfisins. Ekki er ljóst með hvaða hætti samstarf EFTA-ríkja við CEDEFOP verður.
    Starf stofnunarinnar til þessa hefur fyrst og fremst verið að lýsa og bera saman starfs­menntun í bandalagsríkjum EB.

Um 5. gr. bókunar 31

Félagsmál


    Á sviði félagsmála utan fjórþætta frelsisins er gert ráð fyrir skoðanaskiptum og samstarfi í samræmi við 79. gr. samningsins, m.a. milli sérfræðinga. Samningsaðilar skulu einkum efla samstarf sitt á grundvelli þeirra EB-gerða, sem taldar eru upp í bókun 31 og er óskuldbind­andi.
    Gert er ráð fyrir að EFTA-ríkin taki þátt í samstarfi EB um málefni aldraðra frá gildistöku samningsins. Þetta samstarf felur einkum í sér fræðslu um starfslok og fundi um önnur málefni, sem varða aldraða.
    Um önnur samstarfsverkefni á þessu sviði tekur sameiginlega EES-nefndin ákvörðun. EFTA-ríkin eiga að taka fullan þátt í störfum nefnda sem aðstoða framkvæmdastjórn EB við stjórnun og þróun áætlana á sviði félagsmála.
    Loks er gert ráð fyrir að EFTA-ríkin taki þátt í starfi Dublin-stofnunarinnar frá gildistöku samningsins, en stofnunin vinnur að því að bæta lífskjör og vinnuumhverfi í Evrópu og eiga aðilar vinnumarkaðarins aðild að stjórn hennar.

Um 6. gr. bókunar 31

Neytendavernd


    Í bókuninni segir m.a.: „Á sviði neytendaverndar skulu samningsaðilar auka skoðanaskipti sín í milli eftir viðeigandi leiðum, í þeim tilgangi að finna þau svið og starfsemi þar sem nánari samvinna mundi stuðla að því að markmið þeirra náist.“
    Í þessu sambandi er lögð áhersla á ályktun ráðsins um forgangsröð í framtíðinni til að endurvekja stefnu um neytendavernd, aðgerðaáætlun til þriggja ára um stefnu í neytendamál­um í EB (1990–1992) og ályktun ráðsins um aukna þátttöku neytenda við gerð staðla.
    Í ályktun ráðsins um forgangsröð í framtíðinni er aðalmarkmiðið að tryggja heilsu, öryggi og hagsmuni neytenda og efla fræðslu til þeirra. Vinna þarf að því að afgreiða endanlega þær tillögur sem fram hafa komið er varða neytendur, svo sem aukin áhrif neytenda á staðla, tryggja öryggi vara og þjónustu, halda áfram með EHLASS-slysaskráningarkerfið, svo og upplýsingakerfið varðandi hættulegar vörur á markaðinum, auðvelda neytendum aðgang að dómskerfinu, fullgera tilskipunina varðandi óréttmæta samningsskilmála, auka þekkingu neytenda hvað varðar tækninýjungar og efla vitund þeirra gagnvart óréttlátum auglýsingum.
    Flestir þessara málaflokka eru þegar til umfjöllunar á ýmsum stigum innan EB og hér á landi er verið eða stendur til að semja frumvörp varðandi sum þessara mála og munum við í framtíðinni væntanlega fylgja þróuninni í Evrópu.
    Liðið er á seinni hlutann í þriggja ára áætluninni og má reikna með að ný áætlun verði kynnt á þessu ári.
    Í ályktuninni um staðlamál eru ákvæði um að auka eigi áhrif neytenda á staðlavinnuna heima fyrir með setu þeirra í staðlaráðum og -stofnunum og eins að þeir eigi sína fulltrúa í evrópskum og alþjóðlegum staðlasamtökum.
    Í fjölþjóðasamstarfi hefur að undanförnu verið lögð mikil áhersla á aukið vægi staðla í tengslum við öryggi framleiðsluvara. Þar af leiðandi hafa fulltrúar neytenda farið að hafa meiri afskipti af staðlavinnunni til að hafa áhrif á það að staðlar hljóti ekki samþykki nema þeir uppfylli vissar kröfur.
    Síðastliðin tvö ár hefur verið til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til laga um stöðlun. Í frumvarpi þessu segir m.a. að í starfi Staðlaráðs sé tekið tillit til hagsmuna neytenda og er gert ráð fyrir að neytendur eigi fulltrúa í ýmsum nefndum ráðsins. Ef frumvarp þetta verður að lögum þá munu áhrif neytenda á staðlavinnuna hér á landi aukast og er það í fullu sam­ræmi við þróunina annars staðar. Lög nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum eru nú í endurskoðun og munu verða sett ný lög um öryggi framleiðsluvöru. Til að framfylgja ákvæðum þessarar tilskipunar er eðlilegt að setja reglu­gerð á grundvelli laga um öryggi framleiðsluvöru.

Um 7. gr. bókunar 31
Lítil og meðalstór fyrirtæki

    Evrópubandalagið skilgreinir lítil og meðalstór fyrirtæki (LMF) þannig að það séu fyrirtæki með færri en 500 starfsmenn og nettó fastafjármuni innan við 5,3 milljarða kr. (75 millj. ECU). Jafnframt er skilyrði að minna en 33% af hlutafé viðkomandi fyrirtækis sé í eigu stærri fyrirtækja en áðurnefnd mörk segja til um. Samkvæmt þessari skilgreiningu eru LMF um 95% af heildarfjölda fyrirtækja innan bandalagsins. Nær öll fyrirtæki á Íslandi eru innan þessara marka.
    Árið 1986 kynnti framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins sérstaka áætlun um lítil og meðalstór fyrirtæki (LMF) innan bandalagsins. Áætlunin hafði þau aðalmarkmið að skapa hagstætt starfsumhverfi fyrir atvinnulíf innan bandalagsins og veita LMF aukna þjónustu sem stuðlað gæti að aukinni nýsköpun og aukinni framþróun þeirra, jafnhliða því að gera þau hæfari til að takast á við aukna samkeppni vegna innri markaðarins eftir 1993. Áhersla var lögð á að lækka útgjöld fyrirtækja með því að einfalda lög og reglugerðir. Reynt er að fjölga tækifærum í rannsóknum og þróun og efla samstarf.
    Samvinna innan EB um bættar starfsaðstæður lítilla og meðalstóra fyrirtækja hefur einkum farið fram með því:
1. Að aflétta óeðlilegum hömlum á sviði stjórnunar, fjármála og laga er varða fyrirtæki
    og örva þannig myndun og þróun þeirra;
2. að miðla upplýsingum og aðstoð til fyrirtækja um stefnu og áætlanir bandalagsins,
    reglugerðir og framkvæmdir;
3. að hvetja til samstarfs á milli fyrirtækja, sérstaklega LMF, frá hinum ýmsu svæðum
    innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Í EES-samningnum eru um sex gerðir um þetta efni.
    Starfandi verður sérstök sérfræðinganefnd í málefnum LMF. Meginverkefni sérfræðing­anefndarinnar verða að móta stefnu í málefnum LMF, sem tekur mið af EES-samningnum, og stuðlar að aukinni samvinnu fyrirtækja í tengslum við verkefni bandalagsins og við miðlun upplýsinga. Megináhersluatriði eru eftirfarandi:
1. Aukið samstarf (m.a. BC-NET);
2. upplýsingamiðlun (m.a. Euro-Info);
3. rannsóknir og tækniþróun;
4. fjármögnun.

    Á hverju þessara sviða eru svo ótal verkefni sem hér er gerð grein fyrir í stuttu máli.
1. Aukið samstarf
    Aukin samvinna getur haft margvíslega kosti fyrir fyrirtæki, m.a. dreifingu áhættu, nýtingu á hagkvæmni stærðarinnar, nýtingu tæknikunnáttu, markaðssamstarf og samstarf um að koma framleiðslu á erlenda markaði. Dæmi um verkefni á þessu sviði er BC-NET-verkefni bandalagsins en í mars sl. gerðust EFTA-þjóðirnar aðilar að verkefninu. Iðntækni­stofnun Íslands annast samskipti fyrir hönd Íslands, en rúmlega 460 slíkir aðilar eru starfandi innan bandalagsins. Innan kerfisins, sem er tölvutengt upplýsingakerfi, geta fyrirtæki leitað eftir samstarfi og upplýsingum. Enn fremur skal minnst á verkefni svo sem Europartnership sem hvetur til samstarfs á milli svæða sem standa höllum fæti og þeirra sem standa betur, Evrópskt fjárhagslegt hagsmunafélag (European Economic Interest Grouping, EEIG) sem gerir aðilum kleift að stofna fjárhagslega sjálfstæða fyrirtækjahópa. Enn fremur má nefna verkefni um undirverkastarfsemi milli ríkja.
2. Upplýsingamiðlun
    EB hefur lagt mikla áherslu á að auka upplýsingamiðlun, ekki síst til og á milli lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Í því sambandi hafa verið settar á stofn sérstakar upplýsingaskrif­stofur, svokallaðar Euro-Info-Centers, EIC. Þær eiga að miðla upplýsingum um allt er varðar EB, svo sem varðandi lán og stuðning EB, rannsókna- og þróunarverkefni, opinber útboð o.fl. EB gefur auk þess út handbók fyrir stjórnendur, með hagnýtum upplýsingum um verkefni á vegum EB er lúta að LMF. Fyrirtæki geta einnig nálgast upplýsingar um EB í gegnum gagnabanka sem staðsettir eru víða innan bandalagsins.
3. Rannsóknir og tækniþróun
    Árið 1990 kynnti EB aðgerðir á sviði rannsókna og tækniþróunar sem gætu orðið til eflingar LMF. Helstu atriðin eru:
     1.      Hvetja LMF til þátttöku í rannsóknum;
     2.      miðlun upplýsinga á niðurstöðum rannsókna og tækniverkefna;
     3.      hvetja til starfsemi með áhættufjármagn;
     4.      mynda ný verkefni sem m.a. tengjast upplýsingamiðlun, þjálfun starfsmanna og samstarfi fyrirtækja. Enn fremur eru margvísleg verkefni í gangi á þessu sviði, svo sem ESPRIT um þróun upplýsingatækni, BRITE um grunnrannsóknir í þágu iðnþróunar og EUREKA um samstarf í hátækni, COMETT til að styrkja tengsl háskóla og fyrirtækja og SPRINT um nýsköpun og tæknivæðingu, auk fjölda annarra verkefna. Eins og kom fram í athugasemdum við 1. og 4. gr. bókunar 31 er Ísland þegar aðili að sumum þessara verkefna.
4. Fjármögnun
    EB hefur enn fremur verkefni á sviði fjármögnunar, m.a. til að auðvelda LMF aðgang að fjármagni, sérstaklega í gegnum hin ýmsu verkefni. Í þessu sambandi má nefna starfsemi Fjárfestingarbanka Evrópu sem lánar til ákveðinna byggðasvæða gegnum viðkomandi svæðisbanka og NIC (New community Instruments) sem eru sérstök lán til LMF, svo sem vegna endurskipulagningar, rannsókna o.fl. Fjárfestingarbankinn sér einnig um þessi lán. Enn fremur er um fjármálaráðgjöf að ræða og áhættufé, svo sem með verkefninu EUROTEC CAPITAL.


    Með tilkomu innri markaðarins 1993 mun samkeppni á markaði almennt aukast í Evrópu. Með aðild að EES gefast atvinnulífi auknir möguleikar til þátttöku í hinum ýmsu verkefnum EB á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja auk annarra áhersluþátta sem áður hafa verið taldir upp. Starfsskilyrði fyrirtækja hér á landi munu því þróast í samræmi við þessar áherslur. Helstu breytingar verða þær að möguleiki íslenskra fyrirtækja til þátttöku í hinum ýmsu verkefnum EB á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja vex til muna. Íslensk fyrirtæki geta því nýtt sér verkefni EB á þessu sviði og það mun væntanlega leiða til aukinnar sam­keppnishæfni íslensks atvinnulífs.
    Varðandi lítil og meðalstór fyrirtæki verður að telja að einungis sé um kosti fyrir íslensk fyrirtæki að ræða þar sem viðbótarmöguleikar eru verulegir á þessu sviði sem fyrirtæki geta valið að nýta sér eða ekki, allt eftir aðstæðum. Mikilvægt er þó að fyrirtækin sjálf geri sérstakar ráðstafanir sem allra fyrst til þess að fylgjast reglubundið og markvisst með þeim möguleikum og tækifærum sem skapast á þessu sviði. Fyrstu skrefin þurfa ekki að vera stór, en þó er mikilvægt að þau séu stigin sem allra fyrst, t.d. ákveðinn tími vikulega eða mánaðarlega til upplýsingaöflunar á þessu sviði.

Um 8. gr. bókunar 31
Ferðamál

    Eins og hér kemur fram er ekki ákveðið um hvað samstarfið á þessu sviði kemur til með að snúast, en samningsaðilar vilja vinna saman að bættum hag ferða iðnaðarins.
    Hjá EB hefur að undanförnu verið til umfjöllunar tillaga að framkvæmdaáætlun um ferða­mál sem framkvæmdastjórnin hefur lagt fram. Þessi áætlun hefur ekki verið samþykkt enn þá, en það verður væntanlega á þessu ári. Í áætluninni er gert ráð fyrir aðgerðum sem fram­kvæmdastjórnin ákveður og koma til viðbótar við það sem gert er í hverju landi, en forræði þessara mála er í höndum stjórnvalda. Líklegt er að samstarfið innan EES á þessu sviði taki mið af henni og því þykir rétt að skýra hér frá helstu atriðum hennar:
     1.      Ýmsar almennar aðgerðir:
       a)      Þróun hagskýrslna á sviði ferðamála;
       b)      viðræður við aðila í ferðaiðnaði;
       c)      samræmd stefnumörkun;
       d)      lenging ferðamannatímans;
       e)      aukin neytendavernd.
     2.      Aðgerðir til að auka ferðamannastraum innan bandalagsins:
       a)      Ferðir með menningarlegu markmiði;
       b)      ferðaiðnaðurinn og umhverfið;
       c)      ferðaþjónusta í sveitum;
       d)      æskulýðsferðir og ferðir á félagslegum grunni;
       e)      náms- og kynnisferðir;
       f)      markaðssetning Evrópu utan álfunnar;
       g)      samstarfsverkefni sem mörg lönd taka þátt í.
    Í Maastricht-samkomulaginu er gert ráð fyrir að EB fái formlega rétt til að stofna til verkefna og efla samstarf bandalagsríkjanna á sviði ferðaiðnaðarins.

Um 9. gr. bókunar 31
Hljóð- og myndmiðlun

    Samkvæmt þessari grein fá EFTA-ríkin aðild að MEDIA 95, áætlun EB um þróun hljóð- og myndmiðlunar. Þegar eru hafnar viðræður milli EB og EFTA-ríkjanna á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar um aðild hinna síðarnefndu að þessu samstarfi og er jafnvel gert ráð fyrir að samist hafi um þátttöku EFTA-ríkjanna áður en EES-samningurinn gengur í gildi.
    Media-áætluninni er skipt í nokkra ólíka samstarfsþætti:
     1.      Dreifingu kvikmynda og myndbanda og stuðning við framleiðslu sjónvarpsefnis á fleiri en einu tungumáli. Einnig er sjálfstæðum framleiðendum veittur styrkur.
     2.      Eflingu þekkingar á framleiðslutækni, t.d. handritsgerð og notkun nýrrar tækni við framleiðslu.
     3.      Könnun nýrra fjármögnunarleiða.
     4.      Samstarfsverkefni til að auka menntun og færni þeirra, sem fást við framleiðslu kvikmynda og myndbanda.
     5.      Stuðning við lönd sem eru fremur stutt á veg komin í þróun hljóð- og myndmiðlunar og gæti þetta komið Íslandi til góða. Einkum eru studd verkefni sem fleiri en eitt land taka þátt í og er sérstaklega gert ráð fyrir að kvikmyndagerðarmenn frá smærri löndum komi þar við sögu.

Um 10. gr. bókunar 31
Almannavarnir

    Hér er gert ráð fyrir að samningsaðilar efli samstarf sitt innan ramma starfsemi EB, einkum á grundvelli ályktunar ráðsins frá 1989.
    Ályktunin gerir ráð fyrir samstarfi til að bregðast við náttúruhamförum, umhverfisslysum vegna eiturefna og iðnaðarslysum.
    EB hefur þegar komið á tenglaneti þeirra opinberu aðila í löndum bandalagsins sem bera ábyrgð á almannavörnum, og lögð er áhersla á aukna upplýsingamiðlun vegna hamfara og umhverfisslysa, bæði milli opinberra aðila og til almennings.
    Hættuástand, sem krefst sameiginlegra viðbragða í aðildarlöndum EB, getur oft haft áhrif í EFTA-ríkjunum og þess vegna er það áhugamál EFTA-ríkjanna að gerast aðilar að þessu samstarfi.
    EB-ráðið hefur ákveðið að taka upp sameiginlegt neyðarsímanúmer, númerið 112, í síðasta lagi 31. desember 1995 og er samkomulag um að EFTA-ríkin geri það sama.

Um 85. gr.

    Þarfnast ekki skýringar.

Um 86. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.

Um 87. gr.


    Þessi grein veitir samningsaðilum heimild til að fjölga þeim sviðum sem samstarf þeirra utan marka fjórþætta frelsisins tekur til. Í samningaviðræðunum var t.d. talað um menningar­mál í þessu sambandi. Maastricht-samkomulagið gerir ráð fyrir nánara samstarfi EB-ríkja á þessu sviði.
    Samningnum um EES fylgir sameiginleg yfirlýsing samningsaðila um að þeir stefni að því að styrkja og auka samstarf sitt á sviði menningarmála.

Um 88. gr.


    Hér er lögð áhersla á að einstakir samningsaðilar geti einhliða komið á fót starfsemi á þeim sviðum sem tiltekin eru í 78. gr. án þess að hún verði hluti af samningnum.

Um VII. hluta
Ákvæði um stofnanir

Um 1. kafla


Skipulag samstarfsins

    Það var frá upphafi yfirlýst markmið EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins að með stofnun Evrópska efnahagssvæðisins væri ekki ætlunin að setja á stofn nýjar alþjóðastofnanir sem kölluðu á framsal valds frá stofnunum EB og þjóðþingum EFTA-ríkjanna. Stjórnun svæðisins byggist því á tveimur stoðum, Evrópubandalaginu annars vegar og EFTA-ríkjunum hins vegar. Þess ber að gæta að grundvallarmismunur er á stjórnskipun Evrópubandalagsins og samstarfi EFTA-ríkjanna í tengslum við Evrópska efnahagssvæðið.
    Evrópubandalagið byggist á stjórnskipun þar sem aðildarríkin taka ákvarðanir um sam­skipti sín í sameiginlegum stofnunum. Framkvæmdastjórn bandalagsins, sem hefur sjálfstætt ákvörðunarvald gagnvart aðildarríkjunum, hefur frumkvæði að undirbúningi að þeim reglum sem gilda eiga í samskiptum aðildarríkjanna. Ráðherraráð EB setur reglurnar en ráðfærir sig áður við Evrópuþingið. Framkvæmdastjórnin hefur jafnframt sjálfstætt eftirlit með því að EB-reglum sé framfylgt. Fari aðildarríkin ekki eftir þeim reglum eða ef ágreiningur er um hvernig túlka á reglurnar er málinu vísað til dómstóls Evrópubandalagsins, en aðildarríkj­unum er skylt að fylgja niðurstöðum hans.
    Evrópubandalagið hefur vald til að gera samninga við ríki utan bandalagsins á þeim sviðum sem Rómarsamningurinn nær til og er það því sjálfstæður aðili að samningnum. Ástæðan fyrir því að EB-ríkin sjálf eru einnig aðilar að EES-samningnum er hins vegar sú að nokkur samstarfssvið sem samningurinn nær til falla utan valdsviðs EB.
    EFTA eða Fríverslunarsamtök Evrópu eru ekki sem slík aðili að Evrópska efnahags­svæðinu, heldur er sérhvert EFTA-ríki sjálfstæður aðili. Samstarf EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum verður ekki í höndum EFTA-ráðsins. Settar verða upp nýjar nefndir og stofnanir EFTA-ríkjanna, fastanefnd EFTA, eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóll sem eingöngu tengjast samstarfi EFTA-ríkjanna vegna Evrópska efnahagssvæðisins. EFTA-ráðið mun hins vegar áfram fjalla um annað samstarf EFTA-ríkjanna, eins og t.d. samstarf við ríki Austur-Evrópu.
    Þegar skipulag EES-samstarfsins er skoðað verður að hafa í huga tengsl EB-réttar og EES-samningsins. Þegar Evrópubandalagið gerir samninga við ríki utan bandalagsins verða samningarnir, þegar þeir hafa verið fullgiltir innan EB, hluti af réttarreglum EB. Þannig verður EES-samningurinn hluti af EB-rétti. Það eru því stofnanir EB sem tryggja framkvæmd EES-samningsins innan bandalagsins á sama hátt og annarra EB-reglna. Stofnanir EFTA eiga hins vegar að tryggja framkvæmd samningsins í EFTA-ríkjunum. Sam­eiginlegar ákvarðanir fyrir Evrópska efnahagssvæðið verða teknar í sameiginlegum stofnunum EES.

Um 1. þátt
EES-ráðið

Um 89. gr.


    Stjórnmálaleg yfirstjórn EES-samningsins verður í höndum EES-ráðsins. Þar sitja fulltrúar EB-ráðsins, þ.e. ráðherrar aðildarríkja EB og fulltrúar framkvæmdastjórnar EB, og ráðherrar EFTA-ríkjanna.
    Mál sem koma upp á meðal samningsaðila má taka upp milliliðalaust í EES-ráðinu, sbr. almenna reglan um upptökurétt í 5. gr. samningsins. Sérhver samningsaðili getur því tekið upp mál á fundi ráðsins sem aðildarríki EB taka þátt í og jafnvel kallað til sérstaks fundar vegna þessa, sbr. 91. gr. Gert er ráð fyrir að vandamál séu fyrst rædd í sameiginlegu EES-nefndinni.

Um 90. gr.


    Ákvarðanir ráðsins eru fyrst og fremst stjórnmálalegar, en ekki bindandi í lagalegri merkingu. Fram að töku ákvarðana getur hvert ríki talað fyrir sig, en þegar ákvörðun er tekin er gert ráð fyrir að EFTA-ríkin mæli einum rómi. Ákvarðanir ráðsins eru teknar samhljóða af EFTA-ríkjunum sem hópi annars vegar og EB hins vegar.

Um 91. gr.


    EES-ráðinu ber að koma saman tvisvar á ári. Gert er ráð fyrir að í starfsreglum ráðsins verði settar reglur um möguleika til að halda fleiri fundi þegar aðstæður krefjast þess. Í sam­þykkt vegna 2. mgr. 91. gr. er gert ráð fyrir að orðalagið „þegar aðstæður krefjast“ nái til þeirra aðstæðna þegar samningsaðili nýtir sér rétt til upptöku vegna sérstaks vandamáls í samræmi við 2. mgr. 89. gr.

Um 2. þátt


Sameiginlega EES-nefndin

Um 92. gr.


    Sameiginlega EES-nefndin er helsti vettvangur fyrir samráð og samstarf samnings­aðilanna. Þar sitja fulltrúar samningsaðila, venjulega embættismenn frá EFTA-ríkjunum annars vegar og fulltrúar framkvæmdastjórnar EB hins vegar. Ef mál sem tekin eru fyrir í nefndinni falla utan valdsviðs EB taka fulltrúar aðildarríkja EB fullan þátt í störfum nefndar­innar.
     Hlutverk sameiginlegu EES-nefndarinnar er að tryggja virka framkvæmd samningsins og taka ákvarðanir um nauðsynlegar breytingar á viðaukum og bókunum við samninginn sbr. ákvæði 102. gr.
    Sameiginlega EES-nefndin fjallar um hugsanleg deilumál um túlkun á samningnum og reglum sem á honum byggjast, sbr. 105. og 111. gr. samningsins.
    Einnig skal í sameiginlegu nefndinni fjalla um öll þau mál er valda vandkvæðum í sam­skiptum samningsaðila, sbr. 5. gr. samningsins.

Um 93. gr.

    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar eru teknar samhljóða. Kveðið er á um að EFTA-ríkin eigi að mæla einum rómi við ákvarðanatöku. Það breytir ekki því að sérhvert EFTA-ríki hefur neitunarvald. Ef eitt ríki beitir neitunarvaldi þýðir það að engin ákvörðun verður tekin. Sjá nánar um ákvarðanatöku í athugasemdum við 97.–104. gr.

Um 94. gr.


    Gert er ráð fyrir að sameiginlega nefndin komi saman ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði, en oftar ef þörf krefur. Í samþykkt vegna 3. mgr. 94. gr. er gert ráð fyrir að sameiginlega nefndin taki ákvörðun um skipun undirnefnda og starfshópa á einum af sínum fyrstu fundum.

Um 3. þátt


    Samvinna þingmanna

Um 95. gr.


    Í sameiginlegu EES-þingmannanefndinni sitja 33 þingmenn frá þingi Evrópubandalagsins og 33 þingmenn samtals frá þjóðþingum EFTA-ríkjanna. Þingmenn frá þjóðþingum EFTA-ríkjanna verða tilnefndir af þjóðþingunum sjálfum.
    Hlutverk sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar er að stuðla að auknum skilningi milli bandalagsins og EFTA-ríkjanna á þeim sviðum sem samningurinn nær til. Þar eð löggjafarvald verður ekki flutt frá þjóðþingum EFTA-ríkjanna eða stofnunum bandalagsins til stofnana EES hefur sameiginlega þingmannanefndin fyrst og fremst ráðgjafar-, og eftirlitshlutverk.
    Stofnsamþykkt sameiginlegu þingmannanefndarinnar er að finna í bókun 36. Nefndin setur sér sjálf starfsreglur.
    Sérstakur samningur verður gerður á meðal EFTA-ríkjanna um störf nefndar EFTA-þingmanna sem sitja í sameiginlegu EES-þingmannanefndinni.

Um bókun 36


    Stofnsamþykkt sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar

    Sjá athugasemdir við 95. gr.

Um 4. þátt


Samvinna aðila er starfa á sviði efnahags- og félagsmála


Um 96. gr.


    Í ráðgjafarnefnd EES sitja jafnmargir fulltrúar frá efnahags- og félagsmálanefnd Evrópu­bandalagsins, þar sem sitja fulltrúar atvinnulífsins í EB-ríkjunum annars vegar, og úr ráðgjafarnefnd EFTA hins vegar. Ráðgjafarnefnd EFTA er sett upp af EFTA-ríkjunum. Þar sitja fulltrúar atvinnulífsins frá ýmsum samtökum, en þátttakendurnir eru tilnefndir persónulega. Ráðgjafarnefnd EFTA tilnefnir þátttakendur í ráðgjafarnefnd EES.
    Ráðgjafarnefnd EES á að auka skilning á efnahagslegum og félagslegum þáttum innan EES. Nefndin hefur ráðgefandi hlutverk við framkvæmd og þróun EES-samstarfsins.


Um 2. kafla
Tilhögun ákvarðanatöku

    Ein af meginforsendum fyrir sameiginlegum markaði á Evrópska efnahagssvæðinu er að sömu reglur og samkeppnisskilyrði gildi á öllu svæðinu. Þar sem sömu reglur gilda að hluta til innan EB og EES verður að vera samkomulag um breytingar og þróun reglnanna í ljósi framfara á þeim sviðum sem samningurinn nær til.
    Eitt grundvallarskilyrði við gerð samningsins var að samningsaðilar EB og sérhvert EFTA-ríki héldu sjálfræði sínu til ákvarðanatöku. Ákvarðanir um nýjar eða breyttar EES-reglur verður því að taka samhljóða og löggjafarvald er alfarið í höndum stofnana samnings­aðila, þ.e. hjá EFTA-ríkjunum í höndum þjóðþinganna. Þar eð ekki er framselt löggjafarvald til stofnana EES er hver ný ákvörðun um breytingu á EES-reglum því nýr þjóðréttarsamn­ingur.

Um 97. gr.


    Samningsaðilar geta breytt innri löggjöf sinni og á það bæði við um EB-löggjöf og landslög á efnissviði samningsins, ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að hin nýja löggjöf skaði ekki framkvæmd EES-samningsins eða ef reglur um ákvarðanatöku nýrra EES-reglna sem byggjast á EB-reglum hafa verið fullreyndar. Samkvæmt þessari grein getur EB því sett nýjar reglur sem EFTA-ríkin samþykkja ekki að taka upp, og sama gildir um réttinn til að setja innlenda löggjöf í EFTA-ríkjunum. Skilyrði er að jafnræðisreglunni sé beitt, þ.e. að allir samningsaðilar sitji við sama borð gagnvart hinum nýju reglum og að öllum samningsaðilunum hafi verið tilkynnt um löggjöfina.

Um 98. gr.


    Þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fjallað er um í þessum kafla varða breytingar á viðaukum og bókunum þeim sem taldar eru upp í greininni. Sameiginlega EES-nefndin getur ekki tekið ákvarðanir um breytingar á meginmáli samningsins eða þeim bókunum sem ekki eru tilgreindar í greininni. Fyrir slíkar breytingar þarf að kalla til ríkjaráðstefnu. Í báðum tilvikum verða skilyrði stjórnskipunarreglna hjá hverjum samnings­aðila að vera uppfyllt, sbr. 103. gr.

Um 99. gr.


     Meðferð á tillögum um nýjar EB-gerðir (reglugerðir, tilskipanir o.s.frv.) og samsvarandi EES-reglur mótast óhjákvæmilega af þeirri stjórnskipun sem fyrir hendi er innan EB. Til­lögur verða teknar fyrir samhliða í stofnunum EB og EES. EFTA-ríkin tala almennt einni röddu í sameiginlegu nefndinni og hafa því samráð sín á milli í fastanefnd EFTA. Samráð og upplýsingaskipti á milli EB og EFTA-ríkjanna fara síðan fram í sameiginlegu EES-nefnd­inni þar sem endanleg ákvörðun um EES-reglur er tekin.
    Hugmyndum EFTA-ríkjanna að nýjum EES-reglum er hægt að koma á framfæri í sam­eiginlegu EES-nefndinni. Innan EB hefur framkvæmdastjórnin ein rétt til að setja fram til­lögur til EB-ráðsins um nýjar EB-reglur. Aðildarríki EB hafa ekki slíkan tillögurétt að nýj­um reglum innan EB.
    Strax og undirbúningur hefst að nýrri tillögu um breyttar eða nýjar EB-reglur sem einnig varða efnissvið EES-samningsins ber framkvæmdastjórn EB að leita óformlega ráða hjá sér­fræðingum EFTA-ríkjanna á sama hátt og hún leitar ráða hjá sérfræðingum aðildarríkja EB við mótun tillagnanna. Við undirbúning tillögu er leitað til sérfræðinga sem sjálfstæðra aðila en ekki sem fulltrúa hvers lands. Sérfræðingar frá EFTA-ríkjunum geta því á frumstigi komið að áliti sínu áður en formleg tillaga er lögð fram um nýja löggjöf innan EB og þar með komið í veg fyrir vandamál á síðari stigum.
    Þegar tillaga framkvæmdastjórnar EB er formlega lögð fram til EB-ráðsins er afrit af henni jafnframt sent til EFTA-ríkjanna. Umræður um tillöguna á milli EB og EFTA-ríkjanna fara fram í sameiginlegu EES-nefndinni strax og einhver samningsaðili óskar þess. Stöðugt samráð og upplýsingaskipti um tillöguna og breytingartillögur á henni eða með öðrum orðum samningaviðræður fara fram þar til ákvörðun er tekin.
    EFTA-ríkin tala almennt einum rómi í sameiginlegu EES-nefndinni. Samráð EFTA ríkjanna um tillögu að nýjum EES-reglum fer fram í fastanefnd-EFTA til undirbúnings fyrir samninga í sameiginlegu EES-nefndinni. Engar formlegar ákvarðanir um EES-reglur eru teknar í fastanefnd EFTA. Formlegar ákvarðanir um EES-reglur eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni.

Um 100. gr.


    Í mörgum EB-tilskipunum sem kalla á tíðar og tæknilegar breytingar, er framkvæmda­stjórninni heimilað að setja framkvæmdareglur innan afmarkaðs sviðs án þess að bera þær undir EB-ráðið. Á þeim sviðum þar sem framkvæmdastjórninni er falið slíkt vald eru yfirleitt settar á stofn sérfræðinganefndir með fulltrúum aðildarríkjanna sem framkvæmdastjórninni ber skylda til að bera tillögur sínar undir. Sérfræðinganefndirnar eru ýmist ráðgefandi eða ákvarðandi. Í fyrra tilfellinu ber framkvæmdastjórninni að taka tillit til niðurstöðu nefndar­innar að því marki sem við á. Í síðara tilfellinu ber framkvæmdastjórninni að fara eftir áliti nefndarinnar, en að öðrum kosti ber henni að leggja tillögu sína fyrir EB-ráðið til ákvörðunar. Þetta samspil EB-ráðsins, framkvæmdastjórnar og sérfræðinganefnda er innan EB nefnt „comitology“.
    Á þeim sviðum þar sem framkvæmdastjórn EB hefur verið falið að setja framkvæmdareglur og henni ber að ráðfæra sig við sérfræðinganefndir EB um undirbúning að drögum að nýjum reglum ber henni einnig að ráðfæra sig við sérfræðinga EFTA-ríkjanna. Ef tillögur framkvæmdastjórnarinnar fara fyrir EB-ráðið ber henni einnig að leggja álit sér­fræðinga EFTA-ríkjanna fyrir ráðið.
    Samkvæmt yfirlýsingu EB við EES-samninginn um framkvæmd á þátttöku sérfræðinga EFTA í EB-nefndum taka sérfræðingar EFTA þátt í óformlegum störfum EB-nefndanna eins lengi og nauðsynlegt er eða þangað til framkvæmdastjórnin telur tímabært að leggja tillögu sína formlega fyrir EB-nefndina til atkvæðagreiðslu. Óformlegt starf nefndanna getur tekið allt frá einni viku til meira en eins árs eða eftir því hve langan tíma tekur að komast að viðunandi niðurstöðu. Sérfræðingar EFTA-ríkjanna geta ekki tekið þátt í formlegum störfum EB-nefndanna, þar með talinni atkvæðagreiðslu um niðurstöðu nefndarinnar.
    Ef upp kemur vandamál á sérfræðingastigi um afstöðu til nýrra reglna er hægt samkvæmt 5. gr. EES-samningsins að taka það upp til umræðu í sameiginlegu EES-nefndinni.
    Þær ákvarðanir um framkvæmdareglur sem innan EB falla undir valdsvið framkvæmda­stjórnar EB, verða innan EES teknar í sameiginlegu EES-nefndinni eins og ákvarðanir um aðrar EES-reglur.

Um 101. gr.


    Sérfræðingar EFTA-ríkjanna taka almennt fullan þátt í þeim nefndum sem starfa vegna rammaáætlana EB á ýmsum samstarfssviðum utan fjórfrelsisins. Um þær nefndir er fjallað í 81. gr. samningsins.
    Aðrar nefndir, þar sem mikilvægt er vegna framkvæmdar á samningnum að sérfræðingar allra aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna taki þátt í eru taldar upp í bókun 37. Þar er að finna átta nefndir, t.d. vísindanefnd um matvæli og framkvæmdaráð um félagslegt öryggi farand­launþega. Sameiginlega EES-nefndin getur tekið ákvörðun um að bæta nefndum á listann ef þörf krefur. Nánar er kveðið á um þátttöku og samstarf EFTA- og EB-sérfræðinganna í þeim viðaukum sem fjalla um viðkomandi svið.

Um bókun 37
Skrá sem kveðið er á um í 101. gr.

    Sjá athugasemdir við 101. gr.

Um 102. gr.


    Ákvæði þessarar greinar eiga eingöngu við um breytingar eða nýjar reglur í viðaukum við EES-samninginn. Greinin gildir því ekki um breytingar á meginmáli samningsins og bókunum við hann.
    Tilgangur með samráði og upplýsingaskiptum samningsaðila um þær reglur sem greinir í viðaukum við samninginn er að þeir geri sitt besta til að greiða fyrir ákvarðanatöku um sameiginlegar reglur. Náist samkomulag er ákvörðun í sameiginlegu EES-nefndinni tekin eins fljótt og hægt er eftir að EB er búið að taka sína ákvörðun um nýja eða breytta reglu.
    Ákvarðanir í sameiginlegu EES-nefndinni eru teknar samhljóða. Ef eitt EFTA-ríki styður ekki ákvörðun verður hún ekki tekin. Ef ekki næst samkomulag um nýjar reglur og sérstaklega ef þjóðþing EFTA-ríkjanna samþykkja ekki nýjar reglur ber sameiginlegu EES-nefndinni að leita annarra lausna sem ekki skaða framkvæmd samningsins og komið geta í stað sameiginlegu reglnanna. Hugsanlegt er að sæst yrði á undanþágur eða að hægt væri að una við frávik, t.d. að í gildi séu sambærilegar reglur hjá samningsaðilum þótt þær séu ekki eins. Ákvarðanir um sameiginlegar reglur eða aðrar lausnir verður að taka innan sex mánaða frá því að EB-ráðið hefur sent ákvörðun sína til sameiginlegu EES-nefndarinnar eða ekki síðar en EB-reglurnar taka gildi.
    Samningsaðilar halda rétti sínum til ákvörðunar um nýjar reglur á samningssviðinu ef ekki næst samkomulag, sbr. 97. gr. Vegna þess ójafnvægis sem upp getur komið, t.d. ef í gildi eru nýjar reglur innan EB og gömlu EES-reglurnar gilda á milli EB og EFTA-ríkjanna, er gert ráð fyrir að framkvæmd frestist til bráðabirgða á þeim reglum sem samningsaðilar hafa sam­þykkt að nýjar reglur hafi bein áhrif á. Umfang frestunarinnar fer því eftir samkomulagi samningsaðila og hún getur aðeins náð til þeirra gerða (reglugerða, tilskipana o.s.frv.) sem eru í viðaukum við EES-samninginn en ekki til meginmáls og bókana samningsins. Frestun á framkvæmd EES-reglna tekur ekki gildi fyrr en sex mánuðum eftir að þeir sex mánuður eru liðnir sem gefnir eru til að reyna að ná samkomulagi eftir að EB-ráðið hefur tekið ákvörðun um sínar innri reglur.
    Ljóst er að það er hagur allra samningsaðila að ekki komi til slíkrar frestunar á framkvæmd á EES-reglum, einnig þeirra sem setja vilja nýjar reglur sem geta leitt til frestunarinnar. Samningsaðilar hafa staðfest þessa afstöðu til frestunar í samþykkt vegna 111. gr. samningsins sem fjallar um úrlausn deilumála. Þar kemur einnig fram að forðast skuli af fremsta megni að beita frestun.
    Sameiginlega EES-nefndin getur tekið ákvörðun um að framkvæmdinni verði ekki frestað þótt ekki hafi náðst samkomulag. Komi hins vegar til hennar tekur hún gildi í fyrsta lagi tólf mánuðum eftir að ákvörðun EB um nýjar reglur kom til sameiginlegu EES-nefndarinnar en aldrei fyrr en nýju reglurnar öðlast gildi innan EB.
    Komi til frestunar á framkvæmd EES-reglna munu einstaklingar og fyrirtæki halda þeim réttindum sem þau hafa áunnið sér á grundvelli gömlu EES-reglnanna. Hins vegar er ekki hægt að byggja rétt á eldri reglum sem framkvæmd er frestað á þótt áætlanir hafi byggst á þeim. Þannig getur útlendingur haldið atvinnuleyfi sínu í því landi þar sem hann starfar, en hins vegar getur útlendingur sem gert hefur ráðstafanir til að hefja störf í öðru landi ekki fengið atvinnuleyfi ef ráðningarsamningur liggur ekki fyrir. Nokkur dæmi um áunnin réttindi sem halda sér þrátt fyrir frestun er að finna í samþykkt vegna 6. mgr. 102. gr.
    Frestun á framkvæmd á hluta viðauka samkvæmt 5. mgr. 102. gr. samningsins felur ekki í sér að viðkomandi reglur séu felldar úr gildi heldur er framkvæmd ákvæðanna frestað til bráðabirgða. Það þarf því ekki að gera nýjan samning með tilheyrandi samþykki þjóðþinga til að endurvekja ákvæðin ef samkomulag næst í sameiginlegu EES-nefndinni. Leita ber áfram leiða til að hægt sé að falla frá frestun á framkvæmd ákvæðanna. Umfang og gildistöku bráðabirgðafrestunar ber að auglýsa á viðeigandi hátt.
    Dæmi um frestun á framkvæmd gildandi þjóðréttarreglna er að finna í samningum EB við þriðju ríki og einnig í 31. gr. Stokkhólmssamningsins (Stofnsamningi EFTA). Þeim ákvæðum hefur þó aldrei verið beitt.

Um 103. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. EES-samningsins taka ákvarðanir EES-nefndarinnar ekki gildi fyrir samningsaðila fyrr en að uppfylltum skilyrðum stjórnskipunarréttar hvers lands. Samkvæmt samþykkt með lokagerð samningsins vegna 103. gr. gilda ákvæði 1. mgr. einnig þegar EES-ráðið samþykkir ákvörðun. Samþykktin á eingöngu við þær ákvarðanir EES-ráðsins sem væru bindandi fyrir samningsaðilana, en almennt eru ákvarðanir ráðsins stjórnmálalegar.
    Samkvæmt 21. gr. íslensku stjórnarskrárinnar verður að bera alla samninga, sem gerðir eru við önnur ríki, undir Alþingi ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða land­helgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Í framkvæmd hefur með hlið­sjón af 21. gr. stjórnarskrárinnar verið metið hverju sinni hvaða samningar hafa verið lagðir fyrir Alþingi.
    Ákvarðanir EES-nefndarinnar um nýjar eða breyttar gerðir sem svara til reglugerða eða tilskipana þarf að lögfesta sem slíkar eða að efni til. Þurfi að lögfesta ákvörðunina verður hún að fá þá stjórnskipulegu meðferð sem krafist er til lagasetningar. Allar þær ákvarðanir EES-nefndarinnar sem falla undir valdsvið Alþingis og lögfesta þarf verður því að taka með fyrirvara um samþykki þingsins. Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á EES-reglum sem falla undir valdsvið stjórnvalda eru hins vegar teknar upp í landsrétt með útgáfu stjórnvaldsreglna.
    Samþykki Alþingi ekki ákvörðun EES-nefndarinnar tekur hún ekki gildi á Evrópska efna­hagssvæðinu. Alþingi fær ákvörðunina til synjunar eða samþykktar sem og aðra þjóðréttar­samninga þar sem breytingar eins samningsaðila geta ekki bundið aðra samningsaðila.
    Í 2. mgr. 103. gr. er gert ráð fyrir að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar geti öðlast gildi til bráðabirgða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, ef frestur verður á að ein­hverjir samningsaðilar uppfylli stjórnskipuleg skilyrði heima fyrir. Gildistaka til bráðabirgða mundi gilda fyrir alla samningsaðila. Þetta ákvæði var sett sérstaklega með það í huga að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss tefðu framkvæmd samningsins. Ákvarð­anir sameiginlegu EES-nefndarinnar geta hins vegar ekki tekið gildi til bráðabirgða í sumum EFTA-ríkjunum nema til komi samþykki þjóðþinganna. Hafi þjóðþingin í þessum ríkjum ekki þegar samþykkt ákvarðanir EES-nefndarinnar verður aðildarríki að tilkynna sérstaklega að ekki sé unnt að láta ákvörðunina gilda til bráðabirgða. Skilyrði fyrir bráðabirgða­gildistöku samkvæmt 2. mgr. 103. gr. er því að þjóðþing EFTA-ríkjanna sem þurfa að lögfesta ákvörðunina til að hún öðlist bein réttaráhrif (þar á meðal Ísland) hafi samþykkt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Sú ráðstöfun að tilkynna verði um að gildistaka til bráðabirgða geti ekki farið fram var sett inn sem málamiðlun þar sem nauðsynlegt var fyrir sum EFTA-ríkin að bráðabirgðagildistökunni yrði beitt sjálfkrafa eftir ákveðinn tímafrest. Tilkynning um að samþykki liggi ekki fyrir eða að bráðabirgðagildistaka geti ekki orðið getur leitt til þess að ákvæðum 5. mgr. 102. gr. um frestun á beitingu gildandi ákvæða verði beitt.

Um 104. gr.


    Ákvarðanir sem teknar eru af sameiginlegu EES-nefndinni hafa einungis gildi að þjóðarétti. Það fer eftir réttarkerfi hvers lands hvernig þeim er komið í framkvæmd. Ákvarðanir sem svara til EB-reglugerða þarf að lögfesta í heild sinni, en ákvarðanir sem svara til EB-tilskipana þarf að lögfesta samkvæmt efni þeirra, sbr. 7. gr. samningsins.

Um 3. kafla


Einsleitni, tilhögun eftirlits og lausn deilumála

    Dómstóll Evrópubandalagsins hafnaði með áliti nr. 1/91 14. desember 1991 stofnun sérstaks dómstóls fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Samkvæmt áliti EB-dómstólsins braut stofnun sérstaks EES-dómstóls í bága við Rómarsamninginn. Hann átti að dæma í málum sem vörðuðu eftirlit með fullnustu EES-reglna í EFTA-ríkjunum í deilumálum á milli EFTA-ríkjanna og í deilum EFTA-ríkjanna við EB. Taldi EB-dómstóllinn að þar sem EB reglur væru að stórum hluta teknar upp í EES-samninginn mundi valdsvið stofnana EB skerðast þar sem þær yrðu bundnar af túlkun annars dómstóls en EB-dómstólsins sjálfs á sínum eigin reglum. Brottfall EES-dómstólsins kallaði á nýjar lausnir um samræmda túlkun og úrlausn deilumála.
    Samræmd túlkun, eftirlit og úrlausn deilumála er nú í höndum sameiginlegu EES-nefndar­innar, dómstóla Evrópubandalagsins og dómstóls EFTA-ríkjanna auk gerðardóms. Eftirlit með framkvæmd samningsins er í höndum framkvæmdastjórnar EB annars vegar og eftirlitsstofnunar EFTA hins vegar.

Um 1. þátt


Einsleitni


Um 105. gr.


(Viðbót við fyrri útgáfu skáletruð)

    Sameiginlegu EES-nefndinni ber að fylgjast með dómsúrlausnum EB-dómstólsins og EFTA-dómstólsins með tilliti til þess hvort misræmi er í túlkun þessara tveggja dómstóla á ákvæðum EES-reglna og EB-reglna sem eru eins. Ef upp kemur slíkt misræmi í túlkun ber sameiginlegu nefndinni að gera ráðstafanir til að varðveita einsleita túlkun EES-samnings­ins. Til greina gæti komið að samið yrði um nýjar eða breyttar EES-reglur. Ef ekki næst sam­komulag um lausn innan tveggja mánaða ber að beita málsmeðferð þeirri er 111. gr. kveður á um vegna úrlausnar deilumála.
    Í síðara áliti EB-dómstólsins, 1/92, 10. apríl 1992, er tekið fram að ákvæði EES-samn­ingsins um einsleitni og úrlausn deilumála, þ.e. 105. gr. og 111. gr., séu því aðeins sam­ræmanleg Rómarsamningnum að regla um að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í þessu tilliti megi ekki hafa áhrif á dómsúrlausnir EB-dómstólsins. Álit dómstólsins varð tilefni bókunar 48 við samninginn varðandi 105. gr. og 111. gr. þar sem sama regla er tekin fram. Reglan í bókun 48 er staðfesting á þeirri túlkun samningsaðila að valdsvið EB-dóm­stólsins um túlkun á EB-reglum verði ekki skert og að Evrópubandalagið sé bundið af túlkun EB-dómstólsins. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að settar verði nýjar EB- og EES-reglur sem breyti þeim reglum sem túlkun EB-dómstólsins byggist á ef samnings­aðilarnir eru sammála um að setja slíkar reglur.

Um bókun 48


    Sjá athugasemdir við 105. gr.

Um 106. gr.


    Sameiginlegu EES-nefndinni ber að koma á upplýsingakerfi um dóma á milli dómstóla Evrópubandalagsins, EFTA-dómstólsins og dómstóla á síðasta dómstigi í EFTA-ríkjunum, sem varða EES-samninginn og þær EB-reglur sem eru einnig teknar upp í EES-samninginn. Dómstólar á síðasta dómstigi í aðildarríkjum EB eru ekki með í þessu upplýsingakerfi þar sem þeim ber að leita eftir forúrskurðum um túlkun á EB-reglum til EB-dómstólsins, sbr. 177. gr. Rómarsamningsins. Forúrskurðir EB-dómstólsins um túlkun á EB-reglum eiga því að gefa upplýsingar um dómsúrlausnir dómstóla í aðildarríkjum EB.
    

Um 107. gr.

    Með 107. gr. og bókun 34 við EES-samninginn er opnað fyrir þann möguleika að dóm­stólar í EFTA-ríkjunum geti leitað eftir forúrskurði til EB-dómstólsins ef vafi rís um túlkun á þeim reglum EES-samningsins sem eru eins og EB-réttur. Forúrskurður felur í sér að EB-dómstóllinn úrskurðar um túlkun á EES-reglu áður en dómstóll í aðildarríki kveður upp endanlegan dóm í máli sem byggist á slíkri EES-reglu. Dómstólar í EFTA-ríkjunum væru bundnir af slíkum úrskurði ef eftir honum væri sótt.
    Forsaga þessa ákvæðis er sú, að EFTA-ríkin óskuðu eftir að sameiginlegur EES-dómstóll gæti kveðið upp úrskurði um túlkun. EB gat ekki fallist á það þar sem slík heimild mundi skerða dómslögsögu EB-dómstólsins. Til að stuðla að samræmdri túlkun gerðu þeir hins vegar kröfu um að dómstólar í EFTA-ríkjunum gætu beðið EB-dómstólinn um álit um túlkun á EB-reglum, sem eru eins og EES-reglur, sem yrði ekki bindandi. Með áliti EB-dómstólsins, 1/91 14. desember 1991, var hins vegar kveðið á um að ef EB-dómstóllinn kvæði á um túlkunaratriði yrði sá úrskurður að vera bindandi. EB gerði kröfu um að bókun 34 yrði haldið inni með breytingum um bindandi áhrif forúrskurðanna.
    Skilyrði fyrir heimild dómstóla í EFTA-ríkjunum til að leita eftir forúrskurði til EB-dóm­stólsins er að viðkomandi ríki hafi tilkynnt um að það ætli að nota bókun 34 og heimila dómstólum sínum að sækja forúrskurði til EB-dómstólsins. Bókunin getur ekki tekið gildi fyrir Ísland án slíkrar tilkynningar. Enga nauðsyn ber til þess að gefa slíka tilkynningu. Slík heimild til handa íslenskum dómstólum mundi krefjast lagaheimildar og jafnvel stjórnar­skrárbreytingar. Ekkert EFTA-ríki hefur gefið til kynna að það komi til með að heimila dóm­stólum að nota þessa heimild.
     Í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er gert ráð fyrir að EFTA-dómstóllinn hafi vald til að gefa álit um túlkun á EES-reglum samkvæmt beiðni frá dómstólum í aðildarríkjunum. Slík álit yrðu ekki bindandi fyrir íslenska dómstóla.

Um bókun 34


Dómstólar EFTA-ríkjanna geti farið fram á það að
dómstóll Evrópubandalaganna skeri úr um túlkun
á EES-reglum sem samsvara EB-reglum

    Sjá athugasemdir við 107. gr.

Um bókun 35


Um framkvæmd EES-reglna

    EB-reglur ganga framar settum lögum í aðildarríkjum EB. Dómstóll Evrópubandalagsins hefur kveðið skýrlega á um það í máli 106/77 (Amministrazione delle Finanze dello Stato v. Simmenthal SpA.) að ákvæði Rómarsamningsins, og þær ákvarðanir stofnana EB, sem hafa bein réttaráhrif, geri sjálfkrafa óvirkt gagnstæð ákvæði gildandi landslaga, einnig þeirra laga sem sett eru eftir að EB-reglan hefur tekið gildi.
    Í EES-samningnum er engin skylda á hendur EFTA-ríkjunum um að taka upp forgangsreglu EB-réttarins. Það var lengi krafa EB í samningaviðræðunum um EES að EFTA-ríkin samþykktu forgang EES-reglna þar sem réttarstaða einstaklinga yrði ekki tryggð á sama hátt í EFTA-ríkjunum og í EB-ríkjunum ef dómarar í EFTA-ríkjunum dæmdu á grundvelli landsréttar þó hann stangaðist á við EES-reglur.
    EFTA-ríkin féllust ekki á þessa kröfu EB þar sem ljóst var að í þeim EFTA-ríkjum þar sem þjóðarétturinn hefur ekki þegar forgang fyrir landslögum, mundi forgangsregla EB-réttarins kalla á framsal löggjafarvalds. Í Austurríki og Sviss hefur þjóðaréttur forgang, þótt skiptar skoðanir séu um hve langt þeirra forgangsreglur ná. Niðurstaða samninganna var sú að í bókun 35 við EES-samninginn staðfesta samningsaðilar að löggjafarvald sé ekki framselt til stofnana EES. Einnig er tekið fram að markmiðum um samræmda túlkun EES-reglna verði að ná með reglum í réttarkerfi hvers ríkis. Samningsaðilar skuldbinda sig því til, ef þörf krefur, að lögfesta túlkunarreglur þess efnis, að ef upp kemur misræmi milli EES-reglna sem hafa verið lögfestar og annarra ákvæða í lögum, þá gildi reglur EES í því tilviki. Sjá nánar 3. gr. frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið og athugasemdir við þá grein.

Um 2. þátt


Tilhögun eftirlits

    Með EES-samningnum eru settar sameiginlegar reglur á fjórfrelsissviðinu. Reglur þessar, sem einnig gilda sem lög í aðildarríkjunum, skapa réttindi og skyldur fyrir ríki, einstaklinga og fyrirtæki. Eftirlit með framkvæmd EES-reglnanna felst í því að fylgjast með og tryggja að aðildarríkin framfylgi EES-reglunum á samræmdan hátt og að einstaklingar og fyrirtæki fari að samkeppnisreglum þeim sem gilda um viðskipti á milli ríkja á svæðinu svo að þeir geti notið þeirra réttinda sem samningurinn veitir.
    Eftirlit með framkvæmd EES-samningsins er annars vegar í höndum framkvæmdastjórnar EB og EB-dómstólanna sem fara með eftirlit í aðildarríkjum EB og hins vegar í höndum sérstakrar eftirlitsstofnunar EFTA og sérstaks EFTA-dómstóls sem fara með eftirlit í EFTA-ríkjunum. Þannig byggist eftirlitskerfið á EES-svæðinu á tveimur stoðum sem hvor um sig mun hafa eftirlit á landsvæðum sinna aðildarríkja.
    Innan EB fara framkvæmdastjórn og dómstólar EB með eftirlit með EB-reglum samkvæmt Rómarsamningnum og einnig með EES-samningnum sem verður hluti af EB- rétti. Skuld­bindingar EB-ríkjanna sín á milli byggjast á Rómarsamningnum en skuldbindingar þeirra gagnvart EFTA-ríkjunum á EES-samningnum.
    Almennt eftirlit beinist að ríkjunum sjálfum sem samningsaðilum. Eftirlitsstofnunum, þ.e. framkvæmdastjórn EB og eftirlitsstofnun EFTA, ber að taka á móti kvörtunum vegna meintra brota á framkvæmd EES-reglna. Eftirlitsstofnunum ber að tilkynna hvor annarri um kvartanir sem berast. Þær geta krafið ríkin um upplýsingar um fullnustu samningsskuldbindinga þeirra samkvæmt EES-samningnum. Telji eftirlitsstofnun EFTA að EFTA-ríki hafi brotið samn­ingsskuldbindingar sínar getur hún höfðað mál á hendur viðkomandi ríki fyrir EFTA-dóm­stólnum vegna meints brots á þjóðréttarskuldbindingum samkvæmt EES-reglum. Á sama hátt getur framkvæmdastjórn EB höfðað mál á hendur EB-ríki fyrir EB-dómstóli vegna meints brots á EES-samningnum.
    Eftirlit á sviði samkeppnisreglna er ólíkt almennu eftirliti um samningsskuldbindingar ríkjanna sjálfra að því leyti að það beinist að einstaklingum og fyrirtækjum sem nýta sér réttindi þau er samningurinn veitir.
    Ef deilur koma upp um eftirlit á milli eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB má vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar til úrlausnar. Sérstakar reglur gilda um úrlausn slíkra deilumála er varða eftirlit með ríkisstyrkjum og ríkiseinokun, sbr. 64. gr. EES-samningsins.

Um 108. gr.


    Greinin kveður á um að EFTA-ríkin skuldbindi sig til að setja upp sjálfstæða eftirlitsstofnun og sérstakan EFTA-dómstól með þeim tilgangi að í EFTA-ríkjunum sé komið á sambærilegu eftirliti með framkvæmd EES-reglna og gildir innan EB. Gerður var sérstakur samningur á milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól 2. maí 1992 í Óportó (ESE-samningurinn).
    Í eftirlitsstofnun EFTA sitja sjö eftirlitsfulltrúar skipaðir af EFTA-ríkjunum. Þeir starfa sjálfstætt og er þeim ekki heimilt að taka við fyrirmælum frá EFTA-ríkjunum vegna starfa sinna. Hlutverk eftirlitsstofnunar EFTA er samkvæmt samningi milli EFTA-ríkjanna að tryggja fullnustu EFTA-ríkjanna á EES-samningnum og ESE-Samningnum og að hafa eftirlit með hvernig aðrir samningsaðilar þ.e. EB og aðildarríki þess uppfylla EES-samninginn. Jafnframt ber eftirlitsstofnuninni að tryggja framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.
    Sjö dómarar tilnefndir af EFTA-ríkjunum sitja í EFTA-dómstólnum. Dómurinn starfar fullskipaður en EFTA-ríkin mega heimila honum að starfa í deildum.
    Eitt meginhlutverk EFTA-dómstólsins er að dæma í málum er varða eftirlit í EFTA-ríkjunum. Eftirlitsstofnun EFTA getur höfðað mál á hendur EFTA-ríki vegna meintra brota á EES-samningnum og ESE-samningnum. EFTA-ríki getur einnig höfðað mál á hendur eftirlitsstofnun EFTA vegna aðgerðaleysis ef henni var skylt að hefjast handa um aðgerðir. Einstaklingar geta einungis höfðað mál fyrir EFTA-dómstólnum ef ákvarðanir eftirlitsstofn­unarinnar beinast að þeim eða þeir geta sýnt fram á að þeir eigi beinna hagsmuna að gæta vegna ákvarðana eftirlitsstofnunarinnar.
    Nánar er fjallað um eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn í athugasemdum við ESE-samninginn í kafla F.

Um 109. gr.


    Eftirliti á Evrópska efnahagssvæðinu er skipt á milli eftirlitsstofnunar EFTA og fram­kvæmdastjórnar EB og ber þeim að hafa samstarf og skipti á upplýsingum með því markmiði að samræma eftirlit á svæðinu. Hægt verður að kæra til hvorrar stofnunarinnar sem er. Stofnanirnar upplýsa hvor aðra um kærur og taka að sér rannsókn á þeim málum sem heyra undir valdsvið þeirra. Sérákvæði um samstarf eftirlitsstofnananna á sviði samkeppnisreglna er að finna í 56.–59. gr. og á sviði ríkisstyrkja í 62. gr. og í bókunum 23, 24 og 27 við EES-samninginn. Ef upp kemur deila um samstarfið ber sameiginlegu EES-nefndinni að leita lausna á þeim.
    Í samþykkt með 3. mgr. 109. gr. er kveðið á um að umkvartanir um beitingu á EES-samn­ingnum nái einnig til kvartana um framkvæmd EES-reglna. Hér er átt við að kvarta megi vegna vanrækslu á lögfestingu EES-reglna.

Um 110. gr.

    Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB geta fylgt ákvörðunum sínum á sviði samkeppnisreglna eftir með því að ákveða sektir eða févíti ef fyrirtæki gerist brotlegt við samkeppnisreglur EES.
    Ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar má fara með fyrir EFTA-dómstólinn á sama hátt og skjóta má ákvörðunum framkvæmdastjórnar EB fyrir dómstól EB á fyrsta dómstigi, en úrlausnum síðarnefnda dómstólsins má áfrýja til EB-dómstólsins.
    Til að gera eftirlit framangreindra stofnanna skilvirkt eru ákvarðanir þeirra, er fela í sér sektir eða févíti, fullnustuhæfar í aðildarríkjunum.
    Fullnusta sektar- og févítisákvarðana fer að lögum þess ríkis þar sem fullnustan fer fram. Um aðför framangreindra ákvarðana á Íslandi mun fara samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989, sbr. 11. tl. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga. Dómstólar í aðildarríkjunum geta ekki endurmetið sektarákvörðun eftirlitsstofnana, dómstóla EB eða EFTA-dómstólsins. Þeir geta hins vegar dæmt um hvort fullnustan hafi farið fram samkvæmt settum reglum. Sjá nánar um eftirlitsvald og fullnustu á sviði samkeppnisreglna í athugasemdum við ESE-samninginn í kafla F.

Um 3. þátt


Lausn deilumála


Um 111. gr.


    Sjá athugasemdir við bókun 33.

Um bókun 33


Gerðardómsmeðferð


    Álit EB-dómstólsins nr. 1/91 frá 14. desember 1991 útilokaði að settur yrði á fót sam­eiginlegur EES-dómstóll. Deilumál EB og EFTA-ríkjanna fá því ekki dómstólameðferð nema að því er varðar umfang og gildistíma öryggisráðstafana sem bera má undir gerðardóm. Deilumál á milli EFTA-ríkjanna sjálfra má hins vegar bera undir EFTA-dómstólinn.
    Evrópubandalagið og EFTA-ríkin mega fara með deilumál um túlkun og beitingu EES-samningsins fyrir sameiginlegu EES-nefndina sem ber að leita allra leiða til að semja um lausn málsins og að viðhalda góðri framkvæmd samningsins.
     Ef upp kemur mismunur á túlkun á EB-reglum og sömu reglum sem teknar eru upp í EES-samninginn ber sameiginlegu EES-nefndinni að taka ákvarðanir sem stuðla að sam­ræmdri túlkun. Ef ekki næst samkomulag um lausn innan þriggja mánaða geta aðilar að deilunni komið sér saman um að fá úrskurð EB-dómstólsins um túlkun reglnanna. Úrskurður EB-dómstólsins í deilu á milli EB og EFTA-ríkis verður því ekki fenginn nema EFTA-ríkið sem er aðili að deilunni samþykki að leitað verði eftir slíkum úrskurði.
    Takist sameiginlegu EES-nefndinni ekki að finna lausn innan sex mánaða geta samnings­aðilar gripið til öryggisráðstafana samkvæmt 112. gr. til að vega upp það ójafnvægi sem hefur skapast með ósamræmdri túlkun. Umfang og gildistíma slíkra ráðstafana verður að takmarka við það sem bráðnauðsynlegt er til að bæta ástandið. Ráðstafanir sem minnst skaða góða framkvæmd samningsins eiga að ganga fyrir. Heimilt er að beita gagnráðstöfunum skv. 114. gr. ef öryggisráðstöfunum skv. 112. gr. er beitt.
    Ef ekki dugir að beita öryggisráðstöfunum geta samningsaðilar gripið til þess ráðs að fresta framkvæmd hluta af þeim viðaukum sem ósamræmd túlkun hefur bein áhrif á. Sömu reglur gilda eftir því sem við á um slíka frestun og þegar ekki næst samkomulag um nýjar eða breyttar EES-reglur. Í samþykkt við 111. gr. eru samningsaðilar sammála um að slíkri frestun beri einungis að beita ef öll önnur ráð bregðast, þar sem frestun á framkvæmd skaði góða framkvæmd samningsins.
    Deilur sem varða umfang og gildistíma öryggisaðgerða og hvort gagnráðstafanir eru í réttu hlutfalli við umfang öryggisaðgerða má fara með fyrir gerðardóm ef sameiginlegu EES-nefndinni hefur ekki tekist að leysa deiluna innan þriggja mánaða. Þær öryggisaðgerðir sem hér um ræðir eru einungis þær öryggisaðgerðir sem beitt er samkvæmt skilyrðum almenns öryggisákvæðis samningsins í 112. gr. og þegar öryggisaðgerðum er beitt ef ósam­ræmd túlkun dómstóla leiðir til ójafnvægis, sbr. 111. gr. Gerðardómurinn getur aðeins dæmt um umfang og réttmæti gildistíma aðgerðanna, en ekki hvort þeim er beitt eða ekki. Aðrar öryggisaðgerðir sem samningsaðilar geta gripið til samkvæmt sérstökum ákvæðum, t.d. vegna ríkisstyrkja, sbr. 63. gr., er ekki hægt að fara með fyrir gerðardóm. Niðurstaða gerðardóms er bindandi fyrir deiluaðila.
    Starfsreglur um gerðardóminn eru settar fram í bókun 33. Þeir aðilar sem deila tilnefna tvo gerðardómendur sem síðan koma sér saman um oddamann gerðardómsins. Ef þeir geta ekki komið sér saman um oddamann innan tveggja mánaða skulu þeir velja oddamann af sjö manna lista sem sameiginlega EES-nefndin hefur sett upp.

Um 4. kafla


Öryggisráðstafanir


Um 112. gr.


    Í stað fjölda fyrirvara EFTA-ríkjanna á ýmsum samningssviðum varð samkomulag um að í samningnum skyldi vera almennt öryggisákvæði sem samningsaðilarnir gætu beitt einhliða ef á þyrfti að halda. Víða á samningssviðinu er einnig að finna sérstakar öryggisráðstafanir sem heimilt er að beita samkvæmt sérstökum reglum.
    Öryggisráðstöfunum skv. 112. gr. má beita ef alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar, sem líklegir eru til að vera viðvarandi, koma upp í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum.
    Beita má öryggisráðstöfunum bæði vegna erfiðleika sem eru orðnir að veruleika og einnig ef þeir eru yfirvofandi. Þær eiga hins vegar ekki við um skammtíma erfiðleika.
    Erfiðleikar þeir er verða tilefni til beitingar öryggisráðstafana geta verið takmarkaðir við ákveðnar atvinnugreinar og sérstök svæði. Ákvæðið nær því til vandamála í einstökum atvinnugreinum sem upp koma í afmörkuðum byggðarlögum. Samkvæmt samþykkt vegna 1. mgr. 112. gr. nær ákvæðið einnig til tiltekinna svæða. Samþykkt þessi gerir ráð fyrir að vandamál geti einnig komið upp í einstöku aðildarríki EB.
    Það eru samningsaðilarnir sjálfir sem meta hvort skilyrðin eru fyrir hendi. En gert er ráð fyrir að almennt sé haft samráð við aðra samningsaðila áður en ráðstöfunum er beitt.
    Ráðstafanirnar eiga að takmarkast við það sem bráðnauðsynlegt er til að ráða bót á ástandinu. Samningsaðilarnir meta það sjálfir þegar þeir beita ákvæðinu hvaða ráðstafana er þörf. Umfang og gildistíma ráðstafananna verður þó hægt að bera undir gerðardóm, sbr. 111. gr. Gerðardómurinn getur ekki tekið afstöðu til þess hvort nauðsynlegt var að beita ráðstöfunum, en hann getur metið hvort ráðstafanirnar eru í hlutfallslegu samræmi við það vandamál sem þeim er beitt gegn.
    Öryggisráðstafanir sem teknar eru vegna erfiðleika sem skapast vegna eins samningsaðila gilda gagnvart öllum samningsaðilum. Þannig mundi ákvörðun um að taka upp atvinnuleyfi vegna fólksflutninga þýða að allir borgarar annara aðildarríkja EES mundu þurfa atvinnuleyfi.
    Ríkisstjórn Íslands lagði fram yfirlýsingu með samningnum um beitingu öryggisráðstaf­ana samkvæmt þessari grein. Þar kemur fram að Ísland geti í samræmi við skyldur sínar sam­kvæmt samningnum gripið til öryggisráðstafana, einkum ef alvarleg röskun verður á vinnu­markaði vegna meiriháttar flutninga starfsfólks sem beinast að sérstökum svæðum, störfum eða atvinnugreinum eða ef alvarleg röskun kemur upp á fasteignamarkaði. Hugtakið fast­eignamarkaður í þessari yfirlýsingu nær bæði til þéttbýlis og dreifbýlis, húsa í sveitum og jarða í sveit. Yfirlýsing þessi varð ekki tilefni gagnyfirlýsingar af hálfu annarra samnings­aðila og verður því að líta svo á að þessi túlkun ákvæðisins sé óumdeild.

Um 113. gr.


    Greinin fjallar um framkvæmd öryggisráðstafana.
    Þeim samningsaðilum sem fyrirhuga að beita öryggisráðstöfunum skv. 112. gr., ber að til­kynna slíka fyrirætlan til sameiginlegu EES-nefndarinnar.
    Evrópubandalagið sem samningsaðili beitir ráðstöfunum en ekki einstök aðildarríki. Framkvæmdastjórn EB grípur til öryggisráðstafananna fyrir bandalagið.
    Hafa ber samráð í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna lausn á vandamálinu. Allar ákvarðanir þar að lútandi eru teknar með samhljóða atkvæði allra samn­ingsaðila. Engar lausnir verða því samþykktar í sameiginlegu nefndinni nema með samþykki þess samningsaðila sem fyrirhugar að beita öryggisráðstöfunum.
    Ef engin lausn finnst í sameiginlegu EES-nefndinni innan mánaðar frá því að samnings­aðili hefur tilkynnt um fyrirhugaða öryggisráðstöfun getur hann gripið til aðgerðanna.
    Þegar samningsaðili beitir öryggisráðstöfunum sem þola ekki að bíða samráðs í sameigin­legu nefndinni eða eftir að samráð hefur farið fram en engin lausn fundist ber honum að til­kynna um þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið.
    Athugun í sameiginlegu EES-nefndinni á þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið felur í sér að sameiginlega EES-nefndin tekur málið á dagskrá með það fyrir augum að athuga hvort hægt er að fella ráðstafanirnar úr gildi eða takmarka þær. Engar slíkar ákvarðanir er hægt að taka nema með samþykki allra samningsaðila, þar á meðal þess sem beitir ráðstöfununum.

Um 114. gr.


    Ef öryggisráðstöfunum er beitt er heimilt að beita jöfnunarráðstöfunum gagnvart þeim samningsaðila sem beitir öryggisráðstöfunum skv. 112. gr. Slíkar ráðstafanir má eingöngu gera að því marki sem telst bráðnauðsynlegt til að jafna það misvægi sem upphaflegar öryggisráðstafanir geta valdið.
    Sömu reglur gilda um framkvæmd jöfnunarráðstafana og um öryggisráðstafanir.
    Umfang jöfnunarráðstafana, þ.e. hvort þær eru jafnumfangsmiklar og upphaflegar ráðstaf­anir sem valda ójafnvægi á réttindum og skyldum samningsaðila, má bera undir gerðardóm, sbr. 111. gr.

Um VIII. hluta

Fjármagnskerfi


Um 115. gr.


    Sjá athugasemdir við bókun 38.

Um 116. gr.


    Sjá athugasemdir við bókun 38.

Um 117. gr.


    Greinin vísar í bókun 38.

Um bókun 38


Fjármagnskerfið


    Í bókun þessari eru nánari ákvæði um fjármagnskerfið, framkvæmd úthlutunar styrkja og lána.
    Samkvæmt 115.–117. gr. EES-samningsins munu EFTA-þjóðirnar leggja fé í sérstaka þróunaraðstoð við alfátækustu héruðin innan Evrópubandalagsins. Aðstoðin er takmörkuð við 500 millj. ECU (37 milljarða kr.) í styrkjum og niðurgreiðslum á lánsvöxtum, þar sem heildarupphæð lána er 1500 millj. ECU (111 milljarðar kr.).
    Sú niðurstaða að efna til þróunaraðstoðar er reist á þeirri forsendu að í samningum af þessu tagi verði að leita heildarjafnvægis hagsmuna allra sem eru aðilar að samningnum. Fyrir liggur að betur þróuð svæði með góða lífsafkomu hafi mikinn ábata af samningnum en það á ekki við um vanþróuð eða fátæk héruð. Til þess að rétta hlut þeirra þótti ásættanlegt að EFTA-þjóðirnar stæðu að þróunaraðstoð til þeirra.
    Þessi aðferð við að ná heildarjafnvægi hagsmuna er ekki ný af nálinni. Henni var t.d. beitt í samningum innan EB um að koma á hinum sameiginlega innri markaði. Þá eins og nú var ljóst að ávinningur vissra svæða af innri markaðnum væri a.m.k. mun minni en annarra svæða, jafnframt því sem vanþróun þessara svæða var talin vandamál í sjálfu sér. Var því efnt til þróunar- og styrktaraðstoðar innan EB til að jafna muninn.
    Framlag EFTA-landanna í þróunaraðstoð samkvæmt hinu svonefnda fjármögnunarkerfi verður að teljast lágt miðað við ávinning þeirra af samningnum. Samkvæmt áætlunartölum mun Ísland greiða um 70 millj. kr. á ári í fimm ár til þessa verkefnis, sem er lítil upphæð miðað við niðurfellingu og lækkun tolla af sjávarafurðum einum saman. Minna skal á að EFTA-ríkin halda enn uppi styrktarsjóði fyrir Portúgal frá þeim tíma að Portúgal var í sam­tökunum.
    Greiðslum milli EFTA-ríkja er skipt með tilliti til vergrar landsframleiðslu. Tekið er fram í sameiginlegri yfirlýsingu að ef einstök EFTA-ríki gangi í EB muni það ekki leiða til aukinna fjárskuldbindinga.
    Grikkland, Portúgal og Írland (þ.m.t. Norður-Írland) munu eiga aðgang að styrkjum sjóðsins.
    Í viðbæti við bókunina er skrá yfir þau svæði á Spáni sem koma til greina varðandi styrkveitingar.

Um IX. hluta
Almenn ákvæði og lokaákvæði

    Þessi kafli fjallar um ýmis samningsréttarákvæði sem almennt er að finna í þjóðréttarsamningum, þróunarákvæði, tengsl við aðra þjóðréttarsamninga o.s.frv.
    Einnig er að finna í kaflanum almenn ákvæði sem eiga ekki heima í öðrum köflum samn­ingsins, eins og um þagnarskyldu og reglur um eignarrétt í einstökum aðildarríkjum.

Um 118. gr.


    Óski samningsaðilar að þróa samstarf sitt þannig að það nái til fleiri sviða en samn­ingurinn nær til við gildistöku getur EES-ráðið fjallað um slíkar tillögur.
    Skýra ber þessa grein í samræmi við 89. gr. samningsins sem fjallar um hlutverk EES-ráðsins. Greinin er efnislega samhljóða 33. gr. fríverslunarsamnings Íslands og EB.
    Komist ráðið að þeirri niðurstöðu að æskilegt sé að þróa samstarfið, getur það tekið stjórnmálalega ákvörðun um að samningaviðræður skuli hafnar. Ákvarðanir um ný samn­ingssvið, eða breytingar á meginmálinu fara ekki fram í stofnunum EES. Um þær fer eins og við gerð nýrra samninga. Um fullgildingu slíkra samninga er farið að stjórnskipunarlögum hvers samningsaðila.

Um 119. gr.


    Viðaukar og bókanir hafa sömu stöðu og meginmál samningsins. Það sama gildir um þær gerðir sem vísað er til í viðaukum samningsins með þeim aðlögunum eða undanþágum sem um þær gilda.

Um bókun 39


     Evrópska mynteiningin (ECU)

    Með bókuninni er sett altæk aðlögunarregla eins og í bókun 1 við samninginn. Tekið er fram að þar sem í EB-gerðum er kveðið á um „evrópska reiknieiningu“ skuli að því er varðar EES notast við ECU (evrópska mynteiningu) eins og hún er skilgreind af þar til bærum yfirvöldum innan EB.

Um bókun 45


     Aðlögunartímabil varðandi Spán og Portúgal

    Þegar Spánn og Portúgal gerðust aðilar að EB sömdu þessi lönd um aðlögunartíma um gildistöku EB-reglna á ýmsum sviðum. Bókun þessi kveður á um að ef aðlögunartíminn nær fram yfir gildistöku EES-samningsins þá geti Spánn og Portúgal haldið gildandi rétti þar til aðlögunartímabilið er liðið einnig gagnvart EFTA-ríkjunum.

Um 120. gr.


    Sú regla sem hér er sett fram um að EES-samningurinn gangi framar gildandi tvíhliða og marghliða samningum á við um samninga sem í gildi eru á milli Efnahagsbandalags Evrópu annar vegar og eins eða fleiri EFTA-ríkja hins vegar.
    Undanþágur frá þessari reglu er að finna víða í EES-samningnum, þó sérstaklega í þeim bókunum sem nefndar eru í greininni.
    Reglan felur ekki í sér að samningar á milli EB og einstakra EFTA-ríkja falli úr gildi heldur er framkvæmd þeirra frestað, að svo miklu leyti sem efni þeirra skarast við efni EES-samningsins, á meðan sá samningur er í gildi.
    Í bókun 9 um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir er þessi regla áréttuð, en í 7 gr. hennar er tekið fram að ákvæði þeirra samninga sem nánar eru tilgreindir í viðauka með bókuninni, þar á meðal 1. gr. bókunar nr. 6 við fríverslunarsamning EB og Íslands, skuli ganga framar ákvæðum bókunarinnar að því leyti sem þau gefa EFTA-ríkjunum betri viðskiptakjör.
    Tvíhliða samningar á milli einstakra aðildarríkja EB og eins eða fleiri EFTA-ríkis og á milli EFTA-ríkjanna sjálfra falla ekki undir þessa reglu og gilda þeir því samhliða EES-samningnum. Í sameiginlegri yfirlýsingu samningsaðila er það staðfest að EES-samn­ingurinn hafi ekki áhrif á rétt sem byggist á slíkum samningum á meðan EES-samningurinn tryggir ekki sama rétt.
    Núgildandi samstarfssamningar Norðurlanda sem varða samningssvið EES-samningsins gilda samhliða EES-samningnum og má beita þeim jafnvel þótt þeir gefi betri rétt en EES-samningurinn.

Um bókun 41


     Gildandi samningar

    Þeir samningar sem taldir eru upp í þessari bókun gilda áfram á milli EFTA-ríkjanna og EB eftir að EES-samningurinn gengur í gildi þrátt fyrir meginreglu 120. gr.

Um bókun 43


     Samningur milli EBE og Lýðveldisins Austurríkis
     varðandi umflutning vara á vegum og járnbrautum

    Bókunin varðar tengsl tvíhliða samnings Austurríkis og EBE á sviði flutninga við EES-samninginn og hefur engin réttaráhrif á Íslandi.

Um bókun 44


     Samningur milli EBE og Ríkjasambandsins Sviss
     um vöruflutninga á vegum og járnbrautum

    Bókunin varðar tengsl tvíhliða samnings á milli Sviss og EBE á sviði flutninga og hefur engin réttaráhrif á Íslandi.

Um 121. gr.


    Svæðasamstarf innan ramma norrænnar samvinnu og milli Sviss og Liechtensteins og Austurríkis og Ítalíu er heimilt að því leyti sem það raskar ekki góðri framkvæmd EES-samningsins.
    Norðurlandasamstarf er því mögulegt einnig í framtíðinni á þeim grunni sem það er byggt á við gildistöku samningsins.

Um 122. gr.


    Ákvæði þetta nær einkum til þagnarskyldu um upplýsingar sem varða eftirlit með sam­keppnisreglum.

Um 123. gr.


    Samningsaðilar geta gert ráðstafanir vegna öryggishagsmuna samkvæmt skilyrðum þessarar greinar. Sams konar ákvæði er að finna í 21. gr. fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við EB.
    Í samþykkt við grein þessa er tekið fram að samningsaðilar muni ekki nota heimildir í þessari grein til að hindra upplýsingagjöf á sviði samkeppnisreglna.

Um 124. gr.


    Þessi grein áréttar almenna reglu 4. gr. um bann við mismunun vegna ríkisfangs að því er varðar hlutdeild í fjármagni félaga eða fyrirtækja eins og hún er skilgreind í 34. gr.

Um 125. gr.


    Samningurinn hefur engin áhrif á almennar eignarréttarreglur í aðildarríkjunum svo framarlega sem borgurum aðildarríkja EES er ekki mismunað eftir ríkisfangi.

Um 126. gr.


    Ákvæði þetta afmarkar þau landsvæði sem samningurinn nær til. Samningurinn nær til sömu landsvæða og Rómarsamningurinn að því er Evrópubandalagið og aðildarríki þess varðar.
    Að því er EFTA-ríkin varðar gildir samningurinn um yfirráðasvæði þessara ríkja.
    Samningurinn gildir að því er Noreg varðar um Jan Mayen og Svalbarða en í bókun 40 áskilja Norðmenn sér rétt til að undanþiggja Svalbarða frá ákvæðum samningsins. Gilda þá Stokkhólmssamningurinn og fríverslunarsamningurinn á milli EBE og Noregs.
    Álandseyjar eru undanþegnar samningnum nema ríkisstjórn Finnlands leggi fram yfirlýsingu um að samningurinn gildi um eyjarnar, en samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá Finnlands þarf sérstakt samþykki Álandseyja þar um. Öðlist samningurinn gildi gagnvart Álandseyjum gilda sömu reglur um eignarrétt að fasteignum og staðfesturétt gagnvart borgurum aðildarríkja EES og gilda gagnvart borgurum Finnlands.

Um bókun 40


Svalbarði


    Sjá athugasemdir við 126. gr.

Um 127. gr.


    Sérhver samningsaðili getur sagt upp aðild sinni að samningnum með 12 mánaða fyrirvara. Eina skilyrði uppsagnar er að skrifleg tilkynning þar um sé send öðrum samnings­aðilum.
    Þegar uppsögn hefur verið tilkynnt ber að boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að meta hvaða breytingar er nauðsynlegt að gera á samningnum vegna breytingar á aðild að honum.

Um 128. gr.

    Gert er ráð fyrir að önnur ríki en þau sem eru stofnaðilar geti gerst aðilar að samningum. Ríki sem gerist aðili að Evrópubandalaginu er skylt að gerast aðili að EES-samningnum en verður þó að sækja formlega um aðild að honum. Ríki sem gengur í EFTA hefur hins vegar val um það hvort það sækir um aðild að þessum samningi.
    Samþykki allra samningsaðila þarf fyrir nýjum aðilum.

Um 129. gr.


    Samningstextinn er jafngildur á 13 tungumálum samningsaðilanna. Þetta gildir einnig um gerðir þær sem vísað er til í viðaukum við hann.
    Samningurinn öðlast gildi 1. janúar 1993 að því tilskildu að allir samningsaðilar hafi afhent fullgildingarskjöl til aðalskrifstofu EB-ráðsins fyrir þann dag. Hafi einhver samnings­aðili ekki afhent fullgildingarskjöl tímanlega frestast gildistakan þangað til fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynninguna. Dragist fullgilding samningsaðila fram yfir 30. júní 1993 verður kölluð saman ráðstefna stjórnarerindreka til að meta stöðuna aftur.
    Í samþykkt vegna þessarar greinar er gert ráð fyrir að um leið og ljóst er að einhver samn­ingsaðili er ekki tilbúinn að fullgilda samninginn geti undirritunaraðilar metið aðstæðurnar. Ef einhver aðili fullgildir ekki samninginn innan tímamarka þ.e. ef ekki er komin tilkynning um fullgildingu frá öllum samningsaðilum fyrir 30. júní 1993 skulu hinir samningsaðilarnir boða til ráðstefnu stjórnarerindreka til að skoða möguleika á að samþykkja bókun með nauðsynlegum breytingum til þess að samningurinn geti öðlast gildi á milli þessara samn­ingsaðila. Slíka bókun þarf að fullgilda á sama hátt og samninginn sjálfan.

F. Athugasemdir við ESE-samninginn

Almenn ákvæði
    Með samningi þessum uppfylla EFTA-ríkin ákvæði 108. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem EFTA-ríkin skuldbinda sig til að setja upp sjálfstæða eftirlitsstofnun og sérstakan EFTA-dómstól til að fara með eftirlit með EES-samningnum í EFTA-ríkjunum á sambærilegan hátt og gert er innan EB. Samningur þessi á milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls er einnig nefndur ESE-samn­ingurinn.
    Eftirlitið með EES-samningnum byggist á tveimur stoðum. Framkvæmdastjórn EB og EB-dómstólarnir fara með eftirlit í aðildarríkjum Evrópubandalagsins en eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóll hafa með höndum eftirlit í EFTA-ríkjunum.
    Í EES-samningnum er fjallað um samstarf eftirlitsstofnanna í 109. gr. og bókun 1, á sviði samkeppnisreglna í 56.–58. gr. og bókunum 23 og 24, og á sviði ríkisstyrkja í 62. gr. og bókun 27.
    Forsenda samræmdrar framkvæmdar EES-reglna og þeirra EB-reglna sem eru teknar upp í EES-samninginn er að þær séu túlkaðar eins af eftirlitsstofnunum og dómstólum samnings­aðila. Í 3. gr. þessa samnings er því tekið upp ákvæði 6. gr. EES-samningsins um að fara beri eftir dómsúrlausnum EB-dómstólsins, sem fallið hafa fyrir undirritun samningsins, um þær EB-reglur sem eru teknar upp í EES-samninginn og hið sama gildir um þennan samning, sbr. athugasemdir við 6. gr. EES-samningsins.
     Í 2. mgr. 3. gr. er fjallað um framtíðardómsúrlausnir EB-dómstólsins. Taka ber réttmætt tillit til þeirra. Í báðum tilvikunum eru dómar EB-dómstólsins lögskýringargögn. Sam­bærilegt ákvæði er að finna í 1. gr. bókunar nr. 2 við Lúganósamninginn frá 1988 um dómsvald og um fullnustu dóma í einkamálum.

Eftirlitsstofnun EFTA og valdsvið hennar
    Í eftirlitsstofnun EFTA sitja sjö eftirlitsfulltrúar, skipaðir af EFTA-ríkjunum með samhljóða ákvörðun. Þeir starfa sjálfstætt og er þeim ekki heimilt að taka við fyrirmælum frá EFTA-ríkjunum vegna starfa sinna. Hlutverk eftirlitsstofnunar EFTA er að tryggja fullnustu EFTA-ríkjanna á EES-samningnum og ESE-samningnum og að hafa eftirlit með hvernig aðrir samningsaðilar uppfylla EES-samninginn. Jafnframt ber eftirlitsstofnuninni að tryggja framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.
    Ákvæði um almennt eftirlit skv. a-lið 1. mgr. 5. gr. og 22. gr. samningsins beinist að ríkjunum sjálfum. Það felst fyrst og fremst í því að taka á móti kvörtunum og afla upplýsinga um meint brot á EES-reglunum. Telji eftirlitsstofnunin að ríki hafi brotið samningsskuldbind­ingar getur hún höfðað mál á hendur ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum sbr. 36. gr. samningsins.
    Á sviði ríkisstyrkja og gerð verksamninga við opinber innkaup beinist eftirlitið einnig að ríkjunum sjálfum en sérstakar reglur gilda um framkvæmd eftirlitsins. Um framkvæmd eftirlits á þessum sviðum er fjallað í bókunum 2 og 3 við samning þennan.
    Eftirlit á sviði samkeppnisreglna EES beinist hins vegar að einstaklingum og fyrirtækjum. Um framkvæmd þess eftirlits er fjallað í bókun 4.
    Ýmis önnur störf eftirlitsstofnunnar EFTA sem varða eftirlit og sem eru sambærileg við störf framkvæmdastjórnar EB í EB-gerðum, eru tilgreind í bókun 1.

EFTA-dómstóllinn og valdsvið hans
    Dómstóll Evrópubandalagsins hafnaði með áliti sínu 1/91 frá 14. desember 1991 stofnun sameiginlegs EES-dómstóls fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Taldi dómstóllinn að þar sem EB-reglur væru að stórum hluta teknar upp í EES-samninginn mundi valdsvið dómstólsins skerðast þar sem hann yrði bundinn af túlkun annars dómstóls á innri reglum bandalagsins.
    Til þess að tryggja sambærilegt eftirlit með framkvæmd EES-reglna í EFTA-ríkjunum skuldbundu EFTA-ríkin, sig því til að setja upp dómstól fyrir EFTA-ríkin, sbr. 108. gr. EES-samningsins. Sérstök ákvæði um stofnun og valdsvið EFTA-dómstólsins er að finna í 27.–42 gr. samningsins. Nánari reglur um dómstólinn eru settar fram í stofnsamþykkt dóm­stólsins í bókun 5.
    Sjö dómarar sitja í EFTA-dómstólnum, einn frá hverju EFTA-ríki, og eru þeir skipaðir með samhljóða samþykki allra EFTA-ríkjanna.
    Hlutverk EFTA-dómstólsins er í meginatriðum þríþætt. Í fyrsta lagi dæmir EFTA-dóm­stóllinn í málum er varða ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA vegna framkvæmdar EES-reglna í EFTA-ríkjunum. Í öðru lagi dæmir hann í deilumálum er upp kunna að koma á milli EFTA-ríkjanna innbyrðis vegna framkvæmdar á EES-reglum. Í þriðja lagi, getur EFTA-dómstóllinn, til að stuðla að samræmdri túlkun, gefið dómstólum í aðildarríkjunum ráðgefandi álit um túlkun EES-reglna.
    Þeir sem geta höfðað mál fyrir EFTA-dómstólnum eru:
     1.      Eftirlitsstofnun EFTA gegn EFTA-ríki vegna meintra brota á EES-reglum og þessum samningi.
     2.      EFTA-ríki gegn eftirlitsstofnuninni ef það telur að hún hafi farið út fyrir valdsvið sitt eða brotið gegn þessum samningi, m.a. með aðgerðarleysi, eða valdið skaðabótaábyrgð.
     3.      Einstaklingur eða fyrirtæki vegna ákvörðunar eftirlitsstofnunarinnar er beinist að einstaklingnum eða fyrirtækinu eða ef ákvörðunin varðar beina hagsmuni aðila.
     4.      Dómstólar í EFTA-ríkjunum geta beðið um ráðgefandi álit um túlkun EES-reglna ef þeir telja það nauðsynlegt vegna niðurstöðu máls. Slík túlkun er ekki bindandi fyrir      dómstóla í aðildarríkjunum.
        Einstaklingar sem vilja sækja rétt sinn samkvæmt EES-reglum höfða mál fyrir dóm­stólum í aðildarríkjunum þar sem þær reglur sem þeir geta byggt rétt sinn á gilda sem landslög.

Réttarstaða eftirlitsstofnunarinnar og dómstólsins
    Gerhæfi, forréttindi og friðhelgi sem EFTA-ríkin viðurkenna og veita í tengslum við eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólinn er að finna í bókunum 6 og 7.
    Ríkisstjórnir EFTA-ríkjanna ákveða árlega með samhljóða samþykki fjárhagsáætlun fyrir EFTA-dómstólinn að fenginni tillögu dómstólsins. Fjárhagsáætlun eftirlitsstofnunarinnar er einnig ákveðin samhljóða af EFTA-ríkjunum eftir tillögu frá eftirlitsstofnuninni og að höfðu samráði við nefnd þingmanna þjóðþinga EFTA-ríkjanna sem sitja í sameiginlegu EFTA-þingmannanefndinni.

Um bókun 1
Störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA
samkvæmt gerðum í viðaukum við EES-samninginn
vegna beitingar bókunar 1 við þann samning

    Víða í EB-gerðum sem teknar eru upp í viðauka við EES-samninginn, eru framkvæmdastjórn EB falin ýmis störf, tengd stjórnun og eftirliti á EB-reglum innan EB. Þar sem sömu reglur gilda einnig fyrir EFTA-ríkin samkvæmt EES-samningnum er nauðsynlegt að stofnanir EFTA sjái um þessi sömu störf að því er EFTA-ríkin varðar. Verkefni fram­kvæmdastjórnarinnar eru hins vegar víðtækari en störf eftirlitsstofnunar EFTA þar sem sú síðarnefnda hefur eingöngu með höndum eftirlitsstörf. Stjórnun á EES- reglunum, sem fram­kvæmdastjórn EB sinnir innan EB, er því skipt á milli eftirlitsstofnunar EFTA og fastanefndar EFTA þannig að störf, tengd eftirlitinu, falla undir eftirlitsstofnunina en önnur störf undir fastanefndina.
    Þannig falla t.d. undir eftirlitsstofnunina ýmis störf er varða málsmeðferð sem heimilar frávik og undanþágur á ýmsum sviðum, staðarathuganir og vottanir.
    Eftirlitsstofnun EFTA sér um upplýsingadreifingu til framkvæmdastjórnar EB og til aðildarríkja EFTA þar sem EES-reglurnar kveða á um upplýsingaskyldu. Einnig ber henni að sjá um skýrslugjöf á þeim sérsviðum sem heyra ekki undir fastanefndina.
    Þegar framkvæmdastjórn EB ber að leggja mál fyrir sérfræðinganefndir aðildarríkjanna til ráðgjafar eða ákvörðunar ber eftirlitsstofnun EFTA að leggja slík mál fyrir sérfræðing­anefndir EFTA sem fastanefnd EFTA kemur á fót.

Um bókun 2


Störf og valdsvið eftirlitsstofnunarinnar á sviði innkaupa

    Á sviði útboða og opinberra verksamninga hafa reglur verið samræmdar og eru upplýsingar um framkvæmd þeirra birtar. Eftirlitsstofnunin hefur almennt eftirlit með að reglurnar séu framkvæmdar.
     Einnig hafa verið samræmdar reglur um málsmeðferð krafna vegna kæru útboðs og gerðar verksamninga. Slíkar kærur eru því meðhöndlaðar samkvæmt ákveðnum reglum í stjórnsýslu og dómskerfi aðildarríkjanna. Telji eftirlitsstofnun EFTA að reglurnar hafi verið brotnar ber henni að tilkynna aðildarríkinu um meint brot. Aðildarríkið hefur þó 21 dag til að svara um leiðréttingu brotsins, hvers vegna brotið hafi ekki verið leiðrétt eða ef gerð verksamnings eða útboðs hefur verið slegið á frest, þá af hvaða ástæðum. Senda ber eftirlitsstofnuninni upplýsingar um lok málsins.
    Eftirlitið á sviði innkaupa beinist einungis að aðildarríkjunum sjálfum.

Um bókun 3


Störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA
á sviði ríkisaðstoðar

    Eftirlitsstofnun EFTA á í samvinnu við EFTA-ríkin að hafa stöðugt til skoðunar styrkja-kerfi sem eru við lýði í þessum ríkjum. Samkvæmt bókun 26 við EES-samninginn skuldbinda EFTA-ríkin sig til að eftirlitsstofnun EFTA hafi sams konar vald á sviði ríkisaðstoðar og framkvæmdastjórnin hefur innan EB að því er varðar meginreglur EES-samningsins um ríkisstyrki, þ.e. í e-lið 2. mgr. 1. gr. 49. gr. og 61.–64. gr. Valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA nær einnig til samkeppnisreglna um ríkisaðstoð varðandi framleiðsluvörur sem falla undir stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins sem getið er í bókun 14 við EES-samninginn.
    Samræmist styrkjakerfin í EFTA-ríkjunum ekki ákvæðum 61. gr. EES-samningsins getur eftirlitsstofnunin kveðið á um að þau skuli lögð niður eða þeim breytt. Hlíti aðildarríkið ekki ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar getur hún höfðað mál á hendur viðkomandi ríki fyrir EFTA-dómstólnum. Samþykki öll EFTA-ríkin að veita undanþágu vegna ríkisaðstoðar ber að fresta eftirlitsaðgerðum eftirlitsstofnunarinnar.
    Eftirlitsaðgerðir á sviði ríkisstyrkja beinast að ríkinu sjálfu en ekki einstaklingnum sem fær styrkinn þó þær komi óhjákvæmilega til með að snerta hann óbeint. Skylda til innheimtu ríkisstyrks fer eftir lögum í því landi sem hann er veittur í og hvílir skyldan um innheimtuna á ríkinu en ekki eftirlitsstofnuninni. Ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar má bera undir EFTA-dómstólinn, sbr. 36. gr. samningsins. Einstaklingar og fyrirtæki geta einnig höfðað mál, sbr. 2. mgr. 36. gr. og 37. gr. samningsins, ef þeir sýna fram á að þeir hafi hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar eftirltisstofnunarinnar. Réttur einstaklinga til að höfða mál á þjóðréttarsviðinu er ekki óþekktur, sbr. rétt einstaklinga til að höfða mál samkvæmt mann­réttindasáttmála Evrópu sem Íslendingar eru aðilar að. Allar ákvarðanir eftirlitsstofnunar­innar á sviði ríkisstyrkja beinast að ríkinu og eru því þjóðréttarlegs eðlis.
    Í bókun 27 við EES-samninginn er kveðið á um samvinnu eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB á sviði ríkisaðstoðar. Til að tryggja samræmda framkvæmd, beitingu og túlkun reglna um ríkisaðstoð á öllu efnahagssvæðinu ber stofnununum að hafa upplýsinga- og skoðanaskipti um almenn stefnumál, hafa samstarf um að útbúa kannanir um ríkisaðstoð og tilkynna hvor annarri um rannsóknir og ákvarðanir í málum um ríkissaðstoð. Allar upplýsingar um áætlanir um ríkisaðstoð og aðstoð í einstökum málum ber að fara með sem trúnaðarmál.

Um bókun 4


     Störf og valdsvið eftirlitsstofnunarinnar á sviði samkeppni
     (Breytingar frá fyrri útgáfu skáletraðar)

    Meginreglur EES-samningsins um samkeppnismál er að finna í 53. og 54. gr. hans. Þeim er ætlað að koma í veg fyrir að stór fyrirtæki hafi með sér ólögmæta samvinnu eða að þau misnoti yfirburðastöðu sína á markaðinum að því leyti sem slíkir samningar eða athafnir hafa áhrif á viðskipti á milli samningsaðilanna. Þannig kveður 53. gr. EES-samningsins á um að allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem geta haft áhrif á viðskipti milli samningsaðila og hafa að markmiði eða af þeim leiðir að komið sé í veg fyrir samkeppni eða hún takmörkuð á því svæði sem samningurinn tekur til, séu bönnuð og teljist ósamrýmanleg framkvæmd samningsins. Samkvæmt 54. gr. er mis­notkun eins eða fleiri fyrirtækja á yfirburðastöðu á svæðinu, sem samningurinn tekur til, eða verulegum hluta þess talin ósamrýmanleg framkvæmd samningsins og því bönnuð að því leyti sem hún kann að hafa áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna. Samkeppnisreglur EES-samningsins varða því aðeins fyrirtæki sem eiga viðskipti á hinum alþjóðlega EES-markaði. Stundum kann að vera erfitt að meta hvort viðskipti hafi áhrif á viðskipti yfir landamæri og geta EES-samkeppnisreglurnar því einnig haft áhrif á viðskipti fyrirtækja innanlands. Þrátt fyrir slík áhrif geta gilt aðrar reglur um samkeppni fyrirtækja innanlands þegar viðskipti þeirra hafa ekki áhrif á viðskipti á milli aðildarríkja EES.
    Mjög mikilvægar undanþágur eru í gildi um bann við samningum sem fela í sér sam­keppnishömlur. Nefna má svokallaða minniháttarreglu (rule de minimis - bagatel regla) sem felur í sér þá viðmiðunarreglu að samningar, sem ná yfir minna en 5% markaðshlutdeildar á þeim markaði sem máli skiptir og þar sem heildarvelta fyrirtækjanna sem hlut eiga að máli er innan við 200 millj. ECU (15 milljarðar kr.), eru að jafnaði undanþegnir bannákvæði 53. gr. Skilyrði fyrir undanþágu er að bæði skilyrðin séu uppfyllt. Ákvæði 53. gr. gera einnig ráð fyrir undanþágum fyrir samninga sem fela í sér samkeppnishömlur en geta haft jákvæð áhrif, t.d. stuðlað að bætta framleiðslu eða vörudreifingu. Einnig eru ýmsir flokkar samninga undanþegnir banninu.
    Undanþágureglurnar miða við heildarveltu og markaðshlutdeild á sameiginlegum markaði. Ekki er alltaf átt við samanlagða markaði allra EB- og EFTA-ríkjanna heldur er markaðurinn skilgreindur hverju sinni út frá markaði viðkomandi vörutegundar og einnig út frá landfræðilegum sjónarmiðum. Þannig gæti Ísland hugsanlega verið skilgreint sem einn markaður í einhverjum tilvikum, en sennilega verður sjaldgæft að heildarvelta þeirra fyrirtækja sem koma við sögu geti náð 200 millj. ECU nema þegar gerðir eru samningar við erlend fyrirtæki.
    Valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA verður sambærilegt við valdsvið framkvæmdastjórnar EB að því er eftirlit með samkeppnisreglunum varðar. Þannig getur eftirlitsstofnunin hafnað beiðni einstaklinga eða lögaðila um undanþágu skv. 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins eða lýst því yfir að tiltekin háttsemi þeirra feli í sér brot á samkeppnisreglunum. Einnig getur eftirlitsstofnunin gripið til bráðabirgðaráðstafana gagnvart einstaklingum og lögpersónum ef hún telur að fyrirtæki brjóti gegn ákvæðum 53. gr., t.d. getur hún gefið fyrirmæli um endurnýjuð viðskiptasambönd sem hún telur að hafi verið ólöglega rofin.
    Skipting á eftirliti á milli framkvæmdastjórnar EB og eftirlitsstofnunar EFTA með sam­keppnisreglum EES er ekki miðuð við staðsetningu fyrirtækjanna heldur hvar viðskiptin og aðgerðirnar sem bannaðar eru hafa áhrif (sjá 56. gr. EES-samningsins). Meginreglurnar um skiptingu eru þær að eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlit með þeim málum, sem hafa áhrif á viðskipti á milli EFTA-ríkjanna, og þeim málum sem hafa áhrif á öllu efnahagssvæðinu en hafa ekki umtalsverð áhrif á viðskipti á milli EB-ríkjanna. Einnig fær eftirlitsstofnun EFTA til umfjöllunar mál sem hafa áhrif á viðskipti á milli eins EB-ríkis og fleiri EFTA-ríkja. Skilyrði er þó að velta fyrirtækjanna í EFTA-ríkjunum sé minnst 1/ 3 hluti veltunnar á efnahagssvæðinu. Framkvæmdastjórn EB fer hins vegar með eftirlit með öðrum málum sem hún telur að hafi áhrif á viðskipti á milli EB-ríkjanna.
    Framkvæmd eftirlitsins er með þeim hætti að skylda hvílir á fyrirtækjum að tilkynna eftirlitsstofnunum um samninga og athafnir sem varða samkeppnisreglur EES. Innan EB eru langflest mál afgreidd með bréfaskiptum þar sem framkvæmdastjórnin kveður upp úr um eftir að hafa fengið nauðsynlegar upplýsingar hvernig hún lítur á viðkomandi samninga eða athafnir. Þannig hafa að meðaltali árin 1981–1990 verið tekin fyrir í framkvæmdastjórn EB 3500 mál á ári sem ýmist berast til framkvæmdastjórnarinnar vegna tilkynninga frá fyrirtækjunum sjálfum, vegna kvartana eða framkvæmdastjórnin sjálf hefur frumkvæði um að rannsaka. Þar af hefur framkvæmdastjórnin tekið formlega ákvörðun í um 13–14 málum á ári. Að meðaltali hefur 9 málum verið skotið til EB-dómstólsins á ári.
    Ef þörf krefur getur eftirlitsstofnunin krafið stjórnvöld og fyrirtæki um nauðsynlegar upp­lýsingar vegna eftirlits með því að samkeppnisreglum sé fylgt. Þannig hefur eftirlitsstofnunin vald til að fara í fyrirtæki til að rannsaka bókhald og önnur bókhaldsskjöl. Hún getur tekið afrit og beðið um munnlegar útskýringar á staðnum. Slíkar rannsóknir verður að tilkynna fyrir fram til samkeppnisyfirvalda í því ríki þar sem rannsóknin fer fram. Rannsóknin er gerð í samvinnu við samkeppnisyfirvöld í viðkomandi ríki sem mega aðstoða við rannsóknina. Ef fyrirtæki neitar að rannsóknin fari fram ber samkeppnisyfirvöldum í viðkomandi ríki að sjá til þess að rannsóknin geti farið fram.
    Reglur um samstarf eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB um eftirlit á sviði samkeppnisreglna er að finna í bókun 23 við EES-samninginn. Eftirlitsstofnanirnar eiga að skiptast á upplýsingum um rannsóknir mála og hafa samráð um stefnumál á sviði eftirlitsins. Eftirlitsstofnanirnar geta sett fram athugasemdir við upplýsingar um málarekstur hvor hjá annarri. Fulltrúar eftirlitsstofnananna eiga rétt á að vera viðstaddir fundi ráðgjafarnefnda hverrar annara. Vanti aðra eftirlitsstofnunina upplýsingar vegna rannsóknar máls sem sækja þarf inn á svæði hinnar eftirlitsstofnunarinnar skal þar til bær eftirlitsstofnun krefja um upp­lýsingarnar ef þær hafa ekki verið veittar. Á sama hátt annast hvor eftirlitsstofnun um sig rannsókn á sínu svæði. Tilkynningar um samninga á að senda til þeirrar samkeppnisstofnunar sem fer með eftirlit viðkomandi samnings en kvartanir má senda til hvorrar eftirlitsstofnunarinnar sem er. Sambærilegar reglur gilda um samstarf eftirlitsstofnananna um eftirlit með samfylkingum, sbr. bókun 24 við EES-samninginn.
    Eftirlitsstofnunin getur fylgt ákvörðunum sínum eftir með því að ákveða sektir eða févíti frá 100–5000 (7,000–370,000 kr.) ECU ef upplýsingar eru af ásetningi rangar eða aðilar neita að láta af hendi upplýsingar. Einnig getur eftirlitsstofnunin ákveðið sektir eða févíti allt að 1 millj. ECU (74 millj. kr.) vegna ásetnings- eða gáleysisbrota á samkeppnisreglum EES-samningsins. Þó má sektarupphæðin ekki fara yfir 10% af veltu hvers þess fyrirtækis, sem þátt á í brotinu, á viðskiptaárinu á undan. Fjársektirnar eru ekki refsiréttarlegs eðlis. Eftirlitsstofnunin getur jafnframt ákvarðað févíti þar til ólögmætu ástandi hefur verið aflétt eða ef neitað er að veita upplýsingar eða veita aðgang að gögnum.
    Með ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar um févíti eða sektir má fara fyrir EFTA-dóm­stólinn. Dómstóllinn getur breytt ákvörðun eftirlitsstofnunarinnar, fellt hana úr gildi eða hækkað eða lækkað sektirnar. Á sama hátt má skjóta ákvörðunum framkvæmdastjórnar EB til dómstóls EB á fyrsta dómstigi. Úrlausnum fyrsta stigs dómstólsins má síðan áfrýja til EB-dómstólsins.
    Samkvæmt 19. gr. ESE-samningsins eru ákvarðanir eftirlitsstofnunar sem varða sektir fullnustuhæfar. Nánari ákvæði um fullnustuna er að finna í 110. gr. EES-samningsins sem gert er ráð fyrir að verði lögfest með meginmáli samningsins, en hún kveður einnig á um fullnustuhæfi ákvarðana framkvæmdastjórnar EB, EFTA-dómstólsins og dómstóla EB.
    Fullnustan fer að réttarfarsreglum þess ríkis þar sem hún fer fram. Hér á landi mun fullnustan fara að lögum nr. 90/1989 um aðför. Dómstólar í aðildarríkjunum geta ekki endurmetið sektarákvörðun eftirlitsstofnananna eða dómstóla EB eða EFTA-dómstólsins. Þeir geta hins vegar dæmt um hvort fullnustan hafi farið fram samkvæmt settum reglum.

Afmörkun eftirlitsvaldsins á sviði samkeppnisreglna
    Innan EB hafa ákvæði Rómarsamningsins og reglugerðir um samkeppnisreglur er varða fyrirtæki bein réttaráhrif, þ.e. þau gilda sjálfkrafa sem lög í aðildarríkjum EB. Sam­keppnisreglur EES-samningsins sem hinar sameiginlegu eftirlitsstofnanir hafa eftirlit með eru hins vegar þjóðréttarsamningar sem samþykktir eru samhljóða og lögfestir af Alþingi og geta því samkvæmt íslenskum lögum varðað réttindi og skyldur íslenskra fyrirtækja og einstaklinga.
    Það er hins vegar eftirlit með framkvæmd og fullnustu á alþjóðlegum samkeppnisreglum EES sem Alþingi hefur lögfest sem verður fyrst og fremst í höndum eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins í samvinnu við innlend samkeppnisyfirvöld. Í samskiptum innlendra samkeppnisyfirvalda og eftirlitsstofnunar EFTA gildir almennt sú regla að mál eru ekki tekin fyrir hjá innlendum yfirvöldum nema eftirlitsstofnun EFTA taki málið ekki upp. Eftirlit með innlendum samkeppnisreglum er hins vegar alfarið í höndum innlendra yfirvalda.

Alþjóðleg einkenni samkeppnisreglna EES
    Í öllum ríkjum sem búa við frjálst markaðskerfi er að finna lög um óréttmæta samkeppni. Almennt getur ríki aðeins framfylgt lögum síns ríkis innan sinna landamæra. Markmið sam­keppnisreglna EES-samningsins er fyrst og fremst að koma í veg fyrir að stór fjölþjóðafyrir­tæki geti misbeitt aðstöðu sinni. Samkeppnisyfirvöld í hverju landi ná ekki með góðu móti að hafa eftirlit með samningum og markaðsstöðu slíkra fyrirtækja þar sem lögsaga þeirra nær ekki yfir landamæri. Starfsemi fyrirtækjanna er hins vegar óháð landamærum þegar hinn sameiginlegi markaður er kominn á. Þar sem samkeppnisreglur EES-samningsins eru leik­reglur fyrirtækja á hinum sameiginlega EES-markaði verður ekki hjá því komist að eftirlit með framkvæmd samkeppnisreglnanna sé í höndum sameiginlegra stofnana samnings­aðilanna.

Ákvarðanir sem fela ekki í sér sektir eða févíti
    Ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar um beitingu samkeppnisreglnanna, ákvörðun um hvernig beri að túlka undanþáguheimildir og hvenær athafnir eða samningar teljast brjóta í bága við samkeppnisreglur EES, geta vart talist skerða íslenska sérhagsmuni heldur verður það þvert á móti að teljast hagur íslenskra fyrirtækja vegna smæðar þeirra á hinum alþjóð­lega markaði að eftirlit með samkeppnisreglunum sé virkt.
    Framangreindar ákvarðanir geta heldur ekki talist veruleg íhlutun í íslenska réttarskipan enda hafa samkeppnislög á Íslandi hingað til ekki náð til slíkra samninga og athafna. Fram­kvæmd eftirlitsins getur heldur ekki talist íþyngjandi fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Það eru fyrst og fremst samkeppnisreglurnar sjálfar en ekki eftirlit með framkvæmd þeirra sem leggja á skyldur um ákveðna hegðan fyrirtækjanna og einstaklinga þegar athafnir þeirra hafa áhrif á milliríkjaviðskipti. Lögsaga framkvæmdastjórnar EB og EB-dómstólsins á sviði eftirlits með samkeppnisreglum nær þegar í dag til þeirra lögskipta fyrirtækja sem hafa áhrif á viðskipti á milli EB-ríkja. Þannig getur framkvæmdastjórnin ákveðið sektir á hendur íslensku fyrirtæki ef það er aðili að samningi sem brýtur í bága við samkeppnisreglur EB. Eina nýmælið varðandi slíkar ákvarðanir er að ef framkvæmdastjórnin getur ekki gengið að eignum fyrirtækisins innan EB þá er í 110. gr. EES-samningsins komin aðfararheimild gagnvart fyrirtækinu á Íslandi.

Ákvarðanir sem fela í sér sektir eða févíti
    Um ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar sem fela í sér sektir eða févíti gilda hins vegar sérsjónarmið þar sem slíkar ákvarðanir eru fullnustuhæfar í öllum aðildarríkjum samnings­ins. Þannig verða slíkar ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA, EFTA-dómstólsins og fram­kvæmdastjórnar EB og EB-dómstólanna fullnustuhæfar á sama hátt og íslenskir dómar sem kveða á um fjárskuldbindingar.
    Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar dæma íslenskir dómstólar um embættismörk íslenskra yfirvalda. Íslenskir þegnar eiga því stjórnarskrárbundinn rétt til þess að hægt sé að bera ákvarðanir yfirvalda sem beinast að þeim undir sjálfstæðan dómstól. Ákvarðanir eftirlitsstofnunar EFTA verður hægt að bera undir EFTA-dómstólinn og ákvarðanir fram­kvæmdastjórnar EB undir dómstóla EB.
    Framkvæmd á fullnustu sektanna eða févítanna verður í höndum innlendra dómstóla. Niðurstöður eftirlitsstofnanna og EFTA og EB-dómstólanna verður hins vegar ekki hægt að bera undir íslenska dómstóla, en þeir geta dæmt um hvort farið hafi verið að settum reglum.
    Sektarvald eftirlitsstofnunar EFTA er liður í virku eftirliti með fullnustu samkeppnis­reglna EES. Sömu rök eiga því við um eðli slíkra ákvarðana og um aðrar ákvarðanir eftirlitsstofnunarinnar og hvers vegna eftirlitið verður með góðu móti ekki framkvæmt af yfirvöldum í hverju aðildarríki fyrir sig.
    Nokkur dæmi eru til um hliðstæða samninga sem Ísland er aðili að þar sem ákvarðanir erlendra yfirvalda og dómstóla eru fullnustuhæfar hér á landi.

Erlendar dómsúrlausnir
    Norðurlandasamningur um viðurkenningu dóma og fullnægju þeirra, sbr. lög 30/1932, og Lúganósamningurinn frá 1988 um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum gera báðir ráð fyrir að erlendar dómsúrlausnir geti hlotið viðurkenningu og aðfararhæfi hér á landi. For­sendan fyrir því að svo geti orðið er að um svokölluð alþjóðleg varnarþing sé að ræða, þ.e. að sakarefnið sé með þeim hætti að það eða aðilar þess geti ekki talist eingöngu „íslenskt“. Í þessum tilvikum hefur ekki farið fram framsal á dómsvaldi og hefur löggjafinn það á valdi sínu að viðurkenna slíkar úrlausnir erlendra dómstóla og veita þeim aðfararhæfi hér á landi án þess að þær sæti endurskoðun að efni til.
    Einnig má nefna lög 69/1963 um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Dan­mörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl. Í 1. gr. laganna er gert ráð fyrir því að fullnægja megi hér á landi sektarrefsingu sem aðila hefur verið gerð á hinum Norðurlöndunum og sama gildir um ákvarðanir sem varða upptöku eigna, sakarkostnað í opinberum refsimálum og einkarefsimálum og hald á eignum grunaðs manns til tryggingar sektargreiðslu, eignaupp­töku, skaðabótum, miskabótum eða sakarkostnaði í refsimálum. Lögin eru þó ekki takmörk­uð við fyrrgreind tilvik því að skv. 11. kafla laganna má einnig fullnægja norrænum refsi­vistardómum hér á landi með þeim skilmálum sem þar eru ákveðnir.

Erlendar stjórnsýsluákvarðanir
     Dæmi eru um að erlendum stjórnsýsluákvörðunum sé veitt aðfararhæfi hér á landi.
    Má t.d. nefna lög nr. 46/1990 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum. Í 14. gr. samningsins er m.a. sagt að úrskurð í skattamáli, sem samkvæmt löggjöf eins aðildarríkis er aðfararhæfur í því ríki, skuli viðurkenna aðfararhæfan í öðru aðildarríki.
    Einnig gera lög 93/1962 um heimild fyrir ríkisstjórnina til að láta öðlast gildi ákvæði í samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um innheimtu meðlaga ráð fyrir svipuðu úrræði. Í 1. gr. samningsins segir m.a. að úrskurði stjórnvalds sem lagt hefur einhverjum á herðar í einu samningsríkjanna að greiða meðlag með maka, skilgetnu barni, stjúpbarni, kjörbarni, óskilgetnu barni eða móður óskilgetins barns, og sé fullnusta heimil í því ríki, skuli þegar fullnægt í öðru samningsríki sé þess farið á leit. Í 4. gr. samn­ingsins er gert ráð fyrir því að fullnusta fari fram í hverju ríki samkvæmt gildandi lögum þar.
    Í drögum að frumvarpi til nýrra laga um viðurkenningu og fullnustu norrænna dóma í einkamálum er og gert ráð fyrir því að ýmsar erlendar stjórnsýsluákvarðanir geti orðið aðfararhæfar hér á landi. Í drögunum að frumvarpinu er gert ráð fyrir því að framkvæmd fullnustunnar fari eftir íslenskum aðfararlögum.

Niðurstöður um eftirlit á sviði samkeppnisreglna
    Stjórnmálalegir og efnahagslegir hagsmunir ekki aðeins aðildarríkja EES-samningsins heldur einnig einstaklinga og fyrirtækja í aðildarríkjunum sem starfa á hinum sameiginlega markaði kalla á skilvirka fullnustu þeirra samkeppnisreglna sem gilda á svæðinu öllu. Þar sem eftirlit með fullnustu EES-reglnanna verður eðli málsins samkvæmt ekki tryggt nema með sameiginlegum stofnunum verður að líta svo á að samkeppnisreglurnar falli óhjákvæmilega undir alþjóðlegt varnarþing. Það vald sem fengið er eftirlitsstofnun EFTA er vandlega afmarkað í samningum sem samþykktir eru samhljóða og lögfestir af Alþingi.
    Réttaröryggi einstaklinga og fyrirtækja verður tryggt þar sem hægt verður að bera ákvarð­anir eftirlitsstofnanana undir dómstóla. Ákvarðanirnar geta ekki talist verulega íþyngjandi þar sem þær fela ekki í sér þyngri viðurlög en sektir og févíti. Innheimta sektanna fer sam­kvæmt íslenskum lögum fyrir íslenskum dómstólum.
    Nokkuð mörg fordæmi liggja fyrir um samninga sem Ísland er aðili að og fela í sér sams konar skyldu til að fullnægja sektarákvarðana erlendra yfirvalda og dómstóla. Þau fordæmi sem fyrir liggja fela í sér sambærilega viðurkenningu á ákvörðunum erlendra yfirvalda og EES-samningurinn gerir ráð fyrir vegna fullnustu á sviði samkeppnisreglna.
    Vegna eðlis þeirra lögskipta sem samkeppnisreglur EES ná til og með hliðsjón af þeim fjölda mála þar sem framkvæmdastjórn EB hefur tekið endanlegar ákvarðanir um sektir á 320 milljóna manna markaði og þeim undanþágureglum, sem gilda á sviði samkeppnisreglna EES verður ekki séð að þær ákvarðanir sem hugsanlega gætu snert íslenska aðila, geti talist íhlutun í íslenskt réttarskipulag.

Um bókun 5
Stofnsamþykkt EFTA-dómstólsins

    Bókunin hefur að geyma nánari reglur um starfsemi EFTA-dómstólsins, reglur um dómarana, skipulag dómstólsins og málsmeðferð. Dómstóllinn setur sér nánari starfsreglur sem ríkisstjórnir EFTA-ríkjanna þurfa að samþykkja samhljóða.

Um bókanir 6 og 7
Gerhæfi, forréttindi og friðhelgi
eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins

    Bókanirnar fjalla um rétt stofnananna til að koma fram sem lögpersónur, einkum vegna kaupa á fasteignum og lausafé vegna starfsemi stofnananna.
    Ákvæði bókananna um forréttindi og friðhelgi stofnananna og starfsmanna þeirra eru í samræmi við það sem almennt gildir um alþjóðastofnanir. Varðandi skattfríðindi starfs-manna hefur verið tekið mið af sömu reglum og gilda um starfsmenn skrifstofu EFTA. Gert er ráð fyrir að réttarstaða stofnananna og starfsmanna þeirra verði viðurkennd með sérstakri löggjöf sem gildir um alþjóðastofnanir almennt.

G. Athugasemdir við samninginn
um fastanefnd EFTA

    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið gerir ráð fyrir samstarfi EFTA-ríkjanna um ákvarðanatöku, stjórnun, framkvæmd og samráð vegna samningsins. Með þessum samningi er sett á stofn ný nefnd EFTA-ríkjanna sem sinnir samstarfi vegna aðildar að EES. Störf nefndarinnar mega ekki hafa áhrif á störf eftirlitsstofnunar EFTA sem sett er upp samkvæmt samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Fastanefndin er ekki alþjóðastofnun á sama hátt og eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dóm­stóllinn. Um hana gilda því ekki sérstakar reglur um gerhæfi, forréttindi og friðhelgi.
    EFTA-ráðið starfar áfram samkvæmt stofnsamningi um Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). EFTA-ráðið mun áfram sinna samstarfi EFTA-ríkjanna sem varðar ríki og stofnanir utan Evrópska efnahagssvæðisins samkvæmt ákvæðum Stokkhólmssamningsins.
     Með þessu fyrirkomulagi er starf EFTA-ríkjanna vegna EES aðskilið frá öðru samstarfi þeirra og er þriðju ríkjum þar með gefinn kostur á að verða aðilar að EFTA án þess að verða aðilar að EES.
    Skrifstofa EFTA sem starfar fyrir EFTA-ráðið mun einnig sinna skrifstofuþjónustu fyrir fastanefnd EFTA. Starfsmenn fastanefndarinnar verða því formlega ráðnir af EFTA- ráðinu.

Um 1.–3. gr.


Hlutverk fastanefndar EFTA

    Hlutverk fastanefndarinnar verður í meginatriðum tvíþætt. Í fyrsta lagi hafa EFTA-ríkin samráð í nefndinni varðandi ákvarðanatöku í EES-ráðinu og sameiginlegu EES-nefndinni í þeim tilvikum þegar gert er ráð fyrir að EFTA-ríkin tali með einni röddu, sbr., 2. mgr. 90. gr. og 2. mgr. 93. gr. EES-samningsins. Samráð um tillögur um EES-reglur í fastanefndinni er fyrst og fremst undirbúningur undir ákvarðanatöku í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem endanlegar ákvarðanir verða teknar.
    Önnur störf fastanefndarinnar varða framkvæmd og stjórnun á EES-reglum í EFTA-ríkj­unum sem nánar eru tilgreind í 3. gr. samningsins.
    Víða í EB-gerðum þeim sem teknar eru upp í viðauka við EES-samninginn er fram­kvæmdastjórn EB, í sumum tilvikum í samvinnu við sérfræðinganefndir aðildarríkjanna og EB-ráðið, falið að sinna ýmsum störfum er varða framkvæmd og stjórnun EB-reglna. Þessum störfum er að því er varðar EFTA-ríkin skipt upp á milli eftirlitsstofnunar EFTA og fastanefndar EFTA, sbr. bókun 1 við EES-samninginn. Þau störf sem falla í hlut fastanefnd-arinnar eru talin upp í bókun 1 við þennan samning. Þau störf sem falla í hlut eftirlitsstofnunarinnar eru talin upp í bókun 1 við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Einnig falla undir fastanefndina störf í tengslum við störf eftirlitsstofnunarinnar. Þegar innan EB er gert ráð fyrir samráði við sérfræðinganefndir aðildarríkja EB og EB- ráðið er á sama hátt gert ráð fyrir að ákvörðunum sé vísað frá eftirlitsstofnun EFTA til sérfræðing­anefnda fastanefndarinnar.
    Önnur störf fastanefndarinnar varða upplýsingadreifingu, tilkynningar og skýrslugjöf, auk starfa og ákvarðana vegna öryggisráðstafana og frávika á ýmsum sérsviðum og sérstakri meðferð deilumála.

Um 4.–7. gr.


     Skipulag fastanefndarinnar

    Hvert EFTA-ríki hefur fulltrúa í fastanefndinni og hefur hver fulltrúi eitt atkvæði. Fulltrúar EFTA-ríkjanna geta á sama hátt og í EFTA-ráðinu verið embættismenn eða ráðherrar. Samkvæmt samþykkt vegna 4. gr. getur fastanefndin komið saman hvenær sem þörf krefur.
    Fastanefndin getur skipað undirnefndir og aðra hópa. Slíkar nefndir hafa einnig það hlutverk að aðstoða eftirlitsstofnun EFTA við störf hennar.
    Fastanefndin getur tekið ákvarðanir og samþykkt tilmæli varðandi þau störf sem talin eru upp í 3. gr. þessa samnings. Slíkar ákvarðanir eru bindandi fyrir EFTA-ríkin að þjóðarétti.
    Almennt eru ákvarðanir fastanefndarinnar teknar samhljóða.
    Undanþágur frá því eru taldar upp í viðauka við samninginn. Undanþágunum sem eru nákvæmlega tilgreindar, má skipta í þrjár tegundir ákvarðana:
     1.      Ákvarðanir stjórnunarlegs eðlis sem eftirlitsstofnun EFTA vísar til sérfræðinganefnda aðildarríkjanna á viðkomandi sviði og fastanefnd EFTA tekur síðan ákvörðun um;
     2.      ákvarðanir er varða sérstakar undanþágur samkvæmt EES-reglunum á nánar tilgreindum sviðum;
     3.      ákvarðanir er varða sérstaka meðferð deilumála á sviði flutninga.

    Framangreindar ákvarðanir og tilmæli varða einungis framkvæmd samningsins á mjög afmörkuðum sviðum og beinast einungis að ríkjunum sem slíkum. Hér er ekki um að ræða ákvarðanir sem verða grundvöllur fyrir lagasetningu.
    Sambærilegar ákvarðanir og tilmæli eru tekin með meirihlutaákvörðunum í EFTA- ráðinu, sbr. 5., 13., 9., 20., og 31. gr. Stokkhólmssamningsins.

Um 8.–14. gr.


Almenn ákvæði


    Í 12. gr. er fjallað um tengsl aðildar að EES-samningnum og samningnum um fastanefnd EFTA. Aðild að samningi um fastanefndina fellur sjálfkrafa úr gildi ef samningsaðili aftur­kallar aðild að EES-samningnum. Einnig er kveðið á um að EFTA-ríki sem gerist aðili að Evrópubandalaginu, verði sjálfkrafa ekki lengur aðili að þessum samningi þegar aðild að Evrópubandalaginu gengur í gildi.
    Í 13. gr. er kveðið á um að EFTA-ríki sem gerist aðili að EES-samningnum skuli einnig gerast aðili að þessum samningi.
    Samningur þessi er gerður á ensku en þýðingar á opinber tungumál EFTA-ríkjanna verða staðfestar fyrir gildistöku hans, sbr. 14. gr. Verður samningurinn því jafngildur á öllum opin­berum tungumálum EFTA-ríkjanna við gildistöku.
    Samkvæmt 14. gr. fylgir gildistaka samnings þessa gildistöku EES-samningsins.

Um bókun 1
Störf og valdsvið fastanefndarinnar
samkvæmt gerðum í viðaukum við EES-samninginn

vegna beitingar bókunar 1 við þann samning

    Í bókun 1 við EES-samninginn er í d-lið 4. tölul. gert ráð fyrir að þau störf, sem framkvæmdastjórnin innir af hendi er varða stjórnun og framkvæmd á EB-reglum, t.d. sannprófanir, upplýsingar, tilkynningar og upplýsingadreifing verði að því er varðar EFTA-ríkin í höndum fastanefndar EFTA eða eftirlitsstofnunar EFTA.
    Í bókun 1 við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls og í þessari bókun er kveðið á um hvernig framangreindum störfum er skipt á milli fastanefndar­innar og eftirlitsstofnunarinnar.
    Samkvæmt bókuninni sér fastanefndin í meginatriðum um upplýsingadreifingu, upplýsingaskrár, tilnefnir rannsóknastofur sem eru viðurkenndar, staðlamál, ráðgjöf, sam­ræmingarstarf vegna viðurkenningar á prófskírteinum og flokkun náms.
    Verði framkvæmdastjórn EB falin sambærileg störf og kveðið er á um í 1. gr. bókunar 1 má einnig fela fastanefnd EFTA að hafa með höndum sambærileg störf að því er varðar EFTA-ríkin.

Um bókun 2


Tilhögun EFTA-ríkja við beitingu ráðstafana
samkvæmt 43. gr. EES-samningsins

    Bókun þessi fjallar um framkvæmd þeirra verndarráðstafana sem heimilt er að gera á sviði fjármagnsflutninga samkvæmt 43. gr. EES-samningsins.
    EFTA-ríki sem ætlar að beita verndarráðstöfunum ber að tilkynna það fastanefnd EFTA sem með meirihluta atkvæða getur sett fram tilmæli um breytingu, frestun eða afnám ráðstafananna.
    Tilmæli EFTA-ríkja eru ekki bindandi fyrir viðkomandi ríki.

H. Athugasemdir við samninginn
     um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði

    Stefnumið bandalagsins um jöfnun lífskjara milli landsvæða innan þess tengist mjög landbúnaðarmálum. Er þar einkum um að ræða að bandalagið telur að EFTA-ríkjunum beri að greiða fyrir það hagræði sem, þau hafa af óheftum aðgangi fyrir iðnvarning sinn að sam­ræmdum innri markaði EB, með frjálsari aðgangi að EFTA-mörkuðum fyrir landbúnaðar­afurðir. Suðurríki bandalagsins hafa mikla hagsmuni af viðskiptum með ávexti, grænmeti og blóm. Íslendingar hafa löngum haft sömu rök fyrir frjálsum aðgangi fyrir íslenskar sjávarafurðir að mörkuðum Evrópubandalagsins.
    Strax í byrjun viðræðnanna um EES ákváðu samningsaðilar að landbúnaðarstefnu þeirra skyldi haldið utan samningsins. Þó var ákveðið að EFTA-ríkin gerðu tvíhliða samninga við Evrópubandalagið um jöfnun ávinnings af samningnum fyrir Suðurríki Evrópubandalagsins.
    Evrópubandalagið lagði fram skrá yfir afurðir, alls 86 tollskrárnúmer samkvæmt íslensku tollskránni (72 sbr. EB), sem óskað var eftir að EFTA-ríkin flyttu inn óhindrað frá aðildar­ríkjum Evrópubandalagsins. Samið var við EFTA-ríkin, hvert um sig, um breytingar á skránni. Niðurstaða viðræðna Evrópubandalagsins og Íslands birtist í meðfylgjandi samn­ingi.
    Í samningaviðræðunum lögðu samningamenn Íslands áherslu á að taka tillit til óska allra hagsmunaaðila og lögðu til að innflutningur grænmetis, sem framleitt er af garðyrkjubændum á Íslandi, yrði háður leyfum á þeim tíma sem innlend framleiðsla fullnægir eftirspurn, þ.e. 16. mars – 31. október ár hvert. Svipað má segja um afskorin blóm, en innflutningur á flestum tegundum afskorinna blóma verður áfram háður leyfum allt árið. Íslendingar féllust á óheftan innflutning á afurðum sem falla undir 79 af þeim 86 tollskrárnúmerum sem Evrópu­bandalagið óskaði eftir, en heimiluðu innflutning sex tegunda grænmetis og fimm tegunda afskorinna blóma yfir vetrartímann.
    Afurðirnar sem takmarkaðar eru við tiltekið tímabil eru: Nokkrar tegundir afskorinna blóma (nellikur, lokaskegg, flamingóblóm, fuglamjólk og paradísarfuglablóm), tómatar, salathöfuð, gúrkur, reitagúrkur og paprika.
    Afurðirnar sem Íslendingar heimila óheftan innflutning á eru: Laukur, hvítlaukur, spergill, eggaldinjurtir, kúrbítur, belgávextir, þurrkaðar matjurtir, möndlur, valhnetur, heslihnetur, blöndur af hnetum og þurrkuðum ávöxtum, hnetukjarnar, bananar, ananas, fíkjur, appelsínur, mandarínur, sítrónur, vínber, melónur, apríkósur, kirsuber, ferskjur, plómur, jarðarber, kívíávöxtur, vanilla, saffran, rís, plöntuhlutar sem notaðir eru í ilmvötn, agar, kakósmjör, tómatar unnir eða varðir skemmdum, ræktaðir sveppir unnir eða varðir skemmdum, jarðartískokkar, ólívur, kapar, ávaxtasafar, vín, romm, ouzo, írskir rjómalíkjörar og óunnið tóbak.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að heimild verði veitt til að fullgilda samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn) og tvo fylgisamninga milli EFTA-ríkjanna, annars vegar samning um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (ESE-samninginn) og hins vegar samning um fastanefnd.
    EES-samningurinn og EFTA-samningarnir tveir eru prentaðir í sérheftum sem fylgja frumvarpinu.
    Með frumvarpinu er einnig prentaður samningur milli Íslands og Efnahagsbandalags Evrópu um sérstakt fyrirkomulag í landbúnaði, sbr. bókun 42 við EES-samninginn. Gildistaka hans er háð gildistöku EES-samningsins.
    Um efni samninganna vísast til athugasemda hér að framan.
    Með „samningi um Evrópska efnahagssvæðið“ er átt við meginmál samningsins og fylgiskjöl með honum, þ.e. til bókanir og viðauka, svo og gerðir sem vitnað er til í viðaukum, sbr. 2. gr. samningsins.
    Meginmál samningsins er 129 greinar ásamt inngangsorðum.
    Samningnum fylgja sameiginlegar yfirlýsingar, yfirlýsingar allra samningsaðila og yfir­lýsingar eins eða fleiri samningsaðila, en þær geta haft áhrif á túlkun samningsins.
    Með samningnum fylgir einnig samkomulag um þrjú atriði, þ.e. um hvernig farið skuli með þær réttarreglur Evrópubandalagsins á því sviði sem samningurinn tekur til og sem settar eru á tímabilinu frá 1. ágúst 1991 fram að gildistöku samningsins, um birtingu upplýsinga sem tengjast EES og um fyrirkomulag sem gildir um birtingu á auglýsingum EFTA um opinber innkaup.
    Loks fylgja samþykktir um túlkun einstakra ákvæða samningsins sem eru bindandi fyrir samningsaðila.
    Með orðinu „gerðir“ er átt við reglugerðir, tilskipanir, ákvarðanir, tilmæli og aðrar heimildir EES-réttar. Gerðirnar eru ýmist bindandi fyrir samningsaðila eða óskuldbindandi. EES-reglugerðir og tilskipanir eru dæmi um þær fyrrnefndu en tilmæli um hinar síðarnefndu. Þótt gerðir séu ekki bindandi ber samt sem áður að taka tillit til þeirra. Í viðaukunum við samninginn er skýrt tekið fram hvaða gerðir eru bindandi fyrir samningsaðila og hverjar ekki.

Um 2. gr.


    Með 2. gr. er lagt til að meginmál EES-samningsins hafi lagagildi hér á landi.
    Sama er að segja með bókun 1 við samninginn, en hún felur í sér aðlögun á gerðum EB, sem getið er í viðaukunum, að Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi aðlögun er fólgin í nauðsynlegum breytingum sem stafa m.a. af því að 19 þátttökuríki mynda EES, en EB- ríkin eru 12.
    Einnig er lagt til að undanþágur Íslands varðandi fiskveiðar og fiskvinnslu verði lögfestar. Hér er um mikilvægustu undanþágur Íslands að ræða og þykir því rétt að lögfesta þær sérstaklega þó að það verði ekki talin beinlínis laganauðsyn. Aðrar undanþágur, tímabundnar og ótímabundnar, sem Ísland fær með samningnum halda því fullu gildi sínu.
    Gert er ráð fyrir því að lögð verði fram frumvörp til laga af hálfu einstakra ráðuneyta eða að stjórnvaldsreglur verði settar eftir þörfum áður en ákvæði annarra þátta samningsins, svo sem bókana, viðauka og gerða sem þar er vitnað til, eiga að koma til framkvæmda.
    Ekki þykir nauðsynlegt að lögfesta hina þrjá fylgisamninga með EES-samningnum í heild sinni, EFTA-samningana tvo og tvíhliða samninginn um landbúnaðarmál.

Um 3. gr.


    Í bókun 35 er fjallað um framkvæmd EES-reglna.
    Íslenskum dómstólum ber að túlka íslensk lög í samræmi við þjóðarétt. Í dómum undanfarið hefur Hæstiréttur gengið mjög langt í þessu efni, sbr. t.d. hrd. 1990, bls. 2. Þar vék rétturinn frá nýlegum og skýrum dómafordæmum sínum og túlkaði lög m.a. til samræmis við þjóðréttarreglu, sem gildir ekki sem lög hér á landi, þ.e. túlkun mannréttindanefndar Evrópu á tiltekinni grein mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt þessu verður að telja að verði árekstur milli laga, sem sett hafa verið vegna skuldbindinga í þjóðréttarsamningi, og annarra innlendra réttarreglna veiti dómafordæmi Hæstaréttar vísbendingu um að innlenda reglan verði túlkuð til samræmis við þjóðréttarregluna eftir því sem framast er kostur.
    Þar fyrir utan er sterk hefð fyrir þeirri reglu í íslenskum rétti að sérlög gangi framar almennum lögum, þ.e. að lög, sem eru almenns eðlis, eru ekki talin fella brott eldri sérreglur laga um sama efni nema brottfellingarinnar sé getið sérstaklega í yngri lögunum. Oft mundi EES-regla vera sérregla um tiltekið efni.
    Í 3. gr. felst m.a. að innlend lög sem eiga stoð í EES-samningnum verði jafnan túlkuð sem sérreglur laga gagnvart ósamræmanlegum yngri lögum, að því leyti að yngri lög víki þeim ekki ef þau stangast á, nema löggjafinn taki það sérstaklega fram. Þetta er nauðsynlegt til þess að tryggja samræmi í reglunum á Evrópska efnahagssvæðinu. Í bókun 35 er og skýrt tekið fram að þessi skýringarregla skuli ekki hafa í för með sér framsal á löggjafarvaldi og er 3. gr. við það miðuð.
    Orðin „lög og reglur“ taka bæði til innlendra laga og reglna sem ekki tengjast EES-samn­ingnum og til laga og reglna sem sett hafa verið eða sett verða til að uppfylla skuldbindingar samkvæmt samningnum. Hin síðarnefndu geta verið eldri en EES-samningurinn, sbr. t.d. lög um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991, en þau geta einnig verið yngri.
    Orðin „að svo miklu leyti sem við á“ takmarka skýringarreglu greinarinnar með tvennum hætti. Annars vegar tekur skýringarreglan aðeins til laga sem kunna að fara í bága við EES-samninginn. Hins vegar er hnykkt á að hún takmarkast af stjórnarskrá, þ.e. Alþingi getur ekki bundið sjálft sig varðandi framtíðarlagasetningu.
    Með EES-samningnum er átt við meginmál samningsins, bókanir og viðauka, ásamt gerðum sem þar er vísað til, sbr. 1. tl. 1. gr. frumvarpsins.
    Orðin „reglur sem á honum byggja“ taka til EES-reglna, sem samþykktar verða eftir gildistöku EES-samningsins, þ.e. ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar skv. 92. gr. samningsins um breytingar á honum skv. 98. gr., að stjórnskipulegum skilyrðum uppfylltum skv. 103. gr.
    Með 3. gr. er jafnframt tryggt að lögfesting meginmáls EES-samningsins skv. 2. gr. frumvarpsins hróflar ekki við þeim undanþágum fyrir Ísland sem felast í samningnum, t.d. um frestun gildistöku einstakra ákvæða, eða öðrum sérákvæðum hans.

Um 4. gr.


    Ákvæðið er hugsað sem varaákvæði. Í því felst heimild fyrir hlutaðeigandi ráðherra til að setja nánari stjórnvaldsreglur um framkvæmd EES-samningsins ef sérstök nauðsyn krefur. Rétt er að taka fram að almenna reglan verður sú að slíkar reglur eigi stoð í lögum er gilda um viðkomandi svið og þegar hafa verið sett eða sett verða, sbr. athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins. Þessu ákvæði yrði því aðeins beitt ef heimild í settum lögum vantar eða hún er ekki talin nægilega skýr.

Um 5. gr.


    Samningarnir í heild verða birtir með auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda eins og venja er.
    Meginmál EES-samningsins og önnur ákvæði hans, sem getið er í 2. gr. og öðlast eiga lagagildi, verða birt sem fylgiskjöl með lögunum.
    Ákvæði 1. gr. um heimild til að fullgilda samningana þrjá öðlast gildi við birtinga laganna, en önnur ákvæði munu öðlast gildi samtímis EES-samningnum, sem einnig verður auglýst í Stjórnartíðindum.
    Þótt Ísland fullgildi EES-samninginn öðlast hann ekki gildi fyrr en allir samningsaðilar hafa fullgilt hann eða staðfest, sbr. 129. gr. samningsins.Viðbætir 1.1


Hr. Horst G. Krenzler
aðalskrifstofustjóri
framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna
aðalskrifstofu I
Avenue d'Auderghem 35
Brussel.

    Með vísan til viðræðna okkar í aðalsamninganefnd og í Lúxemborg 21. október 1991 leyfi ég mér að setja fram eftirfarandi tillögur.
    Ég legg til að EB- og EFTA-löndin, í viðræðum sínum um sérsamninga við Pólland, Ungverjaland, Tékkóslóvakíu o.s.frv., reyni í sameiningu að koma á marghliða stighækkandi uppsöfnun í viðskiptum með vörur, að textílvörum meðtöldum. Þar að auki ætti að kanna möguleika á útvíkkun til annarra EFTA-ríkja á fyrirliggjandi stjórnvaldsráðstöfunum frá 1984 milli Austurríkis-EB og Sviss-EB um textílvörur.
    Ég legg til að fjallað verði um þessi atriði fyrri hluta árs 1992 á vettvangi reglubundinna upplýsingaskipta milli starfsliðs framkvæmdastjórnar EB og fulltrúa EFTA-landa og EFTA-skrifstofunnar hjá EB, með það fyrir augum að hrinda niðurstöðunum í framkvæmd eins skjótt og auðið er.

Virðingarfyllst,

Hannes Hafstein, sendiherra,
forstöðumaður sendiráðs Íslands
hjá Evrópubandalögunum
    


Hr. H. Hafstein, sendiherra,
formaður sendinefndar EFTA,
EFTA-skrifstofunni,
Rue Arlon 118,
1040-Brussel.

    Ég hef í dag móttekið bréf yðar um upprunareglur varðandi unnar vörur.
    Ég hef tekið tillögur yðar til athugunar og mun skoða þær nánar með réttum aðilum á vegum framkvæmdastjórnarinnar og aðildarríkjunum með könnunarviðræður fyrir augum. Þér munuð heyra frá mér við fyrsta tækifæri varðandi tímasetningu slíkra viðræðna á fyrri hluta árs 1992.

Virðingarfyllst,

Horst G. Krenzler.
formaður sendinefndar
framkvæmdastjórnar
EvrópubandalagannaViðbætir 1.2


Hr. H. Hafstein, sendiherra,
formaður sendinefndar EFTA,
EFTA-skrifstofunni,
Rue Arlon 118,
1040-Brussel.

    Með tilvísun til samnings milli bandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna um Evrópskt efnahagssvæði, sem áritaður er í dag, veitist mér sá heiður að staðfesta að hvað varðar ráðgjafarnefnd á sviði bankamála eigi 100. gr. EES-samningsins við um þau störf er nefndin aðstoðar framkvæmdastjórnina við meðferð framkvæmdarvalds í umboði ráðsins. Varðandi önnur störf ráðgjafarnefndar á sviði bankamála munu fulltrúar framkvæmdastjórn­arinnar og formaður nefndarinnar skiptast á upplýsingum og hafa samráð við fulltrúa þar til bærra yfirvalda EFTA-ríkja fyrir og eftir nefndarfundi. Sama fyrirkomulag skal gilda um tryggingamálanefnd að breyttu breytanda jafnskjótt og viðeigandi EB-löggjöf hefur verið samþykkt og er orðin hluti af EES-samningnum.

Virðingarfyllst,

Horst G. Krenzler,
formaður sendinefndar
framkvæmdastjórnar
Evrópubandalaganna
Hr. Horst G. Krenzler
aðalskrifstofustjóri
framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna
aðalskrifstofu I
Avenue d'Auderghem 35
Brussel.

    Ég hef í dag móttekið svohljóðandi bréf frá yður:

    „Með tilvísun til samnings milli bandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna um Evrópskt efnahagssvæði, sem áritaður er í dag, veitist mér sá heiður að staðfesta að hvað varðar ráðgjafarnefnd á sviði bankamála eigi 100. gr. EES-samningsins við um þau störf er nefndin aðstoðar framkvæmdastjórnina við meðferð framkvæmdarvalds í umboði ráðsins. Varðandi önnur störf ráðgjafarnefndar á sviði bankamála munu fulltrúar framkvæmdastjórn­arinnar og formaður nefndarinnar skiptast á upplýsingum og hafa samráð við fulltrúa þar til bærra yfirvalda EFTA-ríkja fyrir og eftir nefndarfundi. Sama fyrirkomulag skal gilda um tryggingamálanefnd að breyttu breytanda jafnskjótt og viðeigandi EB-löggjöf hefur verið samþykkt og er orðin hluti af EES-samningnum.“

Virðingarfyllst,

Hannes Hafstein, sendiherra,
forstöðumaður sendiráðs Íslands
hjá EvrópubandalögunumViðbætir 1.3


Hr. H. Hafstein, sendiherra,
formaður sendinefndar EFTA,
EFTA-skrifstofunni,
Rue Arlon 118,
1040-Brussel.

Efni:     Framkvæmd bókunar 31 við EES-samninginn. CREST-nefndin

    Eins og yður er kunnugt setur d-liður 1. mgr. 1. gr. bókunar 31 við drög að EES-samn­ingnum sérákvæði vegna hlutdeildar EFTA-ríkjanna í störfum nefndar um vísinda- og tæknirannsóknir (CREST). Í framhaldi af viðræðum á nýafstöðnum sameiginlegum CREST/EFTA fundi þann 29. nóvember 1991 langar mig til að gera yður grein fyrir því hvernig framkvæmdastjórnin telur að framkvæmd fyrrnefndra ákvæða skuli háttað.
    Á grundvelli ályktunar ráðsins frá 1974 um stofnsetningu CREST og með gildistöku EES-samningsins mundi CREST í tengslum við ráðgjafarhlutverk sitt vegna vísinda- og tæknirannsókna í raun gegna þríþættu hlutverki:
1) sem ráðgjafi ráðsins
2) sem ráðgjafi framkvæmdastjórnarinnar í málum innan EBE
3) sem ráðgjafi framkvæmdastjórnarinnar í málum EBE er einnig snerta EES.

    Talið er æskilegt að tekið verði tillit til álits sérfræðinga í EFTA-ríkjunum að því er þetta þriðja hlutverk CREST varðar.
    Með fyrirvara um yfirstandandi viðræður innan ramma Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984 ætti því að bjóða EFTA-ríkjunum að senda sérfræðinga á fundi CREST-nefndarinnar þegar hún gegnir þessu síðasttalda hlutverki sínu. Álit þeirra yrði skráð í fundargerðir. Afriti af drögum að fundargerð yrði dreift á viðtekinn hátt til allra þátttakenda til að þeir geti gert athugasemdir áður en gengið verður frá lokaútgáfunni. Öll EFTA-ríkin munu, jafnt og aðildarríki EB, fá í hendur frumdrög að starfsáætlun ásamt viðeigandi skjölum, eftir því sem þau liggja fyrir, sex mánuðum fyrir næsta fund um málefni sem tengjast EES.


Virðingarfyllst,

Horst G. KrenzlerHr. Horst G. Krenzler
aðalskrifstofustjóri
framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna
aðalskrifstofu I
Avenue d'Auderghem 35
Brussel.

    Ég hef í dag móttekið svohljóðandi bréf frá yður:

„Efni:     Framkvæmd bókunar 31 við EES-samninginn. CREST-nefndin
    
    Eins og yður er kunnugt setur d-liður 1. mgr. 1. gr. bókunar 31 við drög að EES-samn­ingnum sérákvæði vegna hlutdeildar EFTA-ríkjanna í störfum nefndar um vísinda- og tæknirannsóknir (CREST). Í framhaldi af viðræðum á nýafstöðnum sameiginlegum CREST/EFTA fundi þann 29. nóvember 1991 langar mig til að gera yður grein fyrir því hvernig framkvæmdastjórnin telur að framkvæmd fyrrnefndra ákvæða skuli háttað.
    Á grundvelli ályktunar ráðsins frá 1974 um stofnsetningu CREST og með gildistöku EES-samningsins mundi CREST í tengslum við ráðgjafarhlutverk sitt vegna vísinda- og tæknirannsókna í raun gegna þríþættu hlutverki:
1) sem ráðgjafi ráðsins
2) sem ráðgjafi framkvæmdastjórnarinnar í málum innan EBE
3) sem ráðgjafi framkvæmdastjórnarinnar í málum EBE er einnig snerta EES.

    Talið er æskilegt að tekið verði tillit til álits sérfræðinga í EFTA-ríkjunum að því er þetta þriðja hlutverk CREST varðar.
    Með fyrirvara um yfirstandandi viðræður innan ramma Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984 ætti því að bjóða EFTA-ríkjunum að senda sérfræðinga á fundi CREST-nefndarinnar þegar hún gegnir þessu síðasttalda hlutverki sínu. Álit þeirra yrði skráð í fundargerðir. Afriti af drögum að fundargerð yrði dreift á viðtekinn hátt til allra þátttakenda til að þeir geti gert athugasemdir áður en gengið verður frá lokaútgáfunni. Öll EFTA-ríkin munu, jafnt og aðildarríki EB, fá í hendur frumdrög að starfsáætlun ásamt viðeigandi skjölum, eftir því sem þau liggja fyrir, sex mánuðum fyrir næsta fund um málefni sem tengjast EES.“

Virðingarfyllst,

Hannes Hafstein, sendiherra,
forstöðumaður sendiráðs Íslands
hjá Evrópubandalögunum
Viðbætir 1.4Hr. H. Hafstein, sendiherra,
formaður sendinefndar EFTA,
EFTA-skrifstofunni,
Rue Arlon 118,
1040-Brussel.

Efni:     Viðbótarupplýsingar um fjárhagshliðina á þátttöku EFTA-ríkjanna í tiltekinn starf-semi bandalagsins.

    Í 82. gr. EES-samningsins er gerð grein fyrir skilyrðum vegna fjárhagsþátttöku EFTA-ríkja í tiltekinni starfsemi bandalagsins. Þar að auki er í bókun 32 við samninginn mælt fyrir um nauðsynlegar aðferðir við framkvæmd þessarar þátttöku.
    Þegar samið var um bókun 32 töldu báðir aðilar æskilegt að veita EFTA-ríkjunum viðbótarupplýsingar — hvað varðar málsmeðferð innan EB — um meðferð fjárlaga vegna þátttöku EFTA-ríkjanna bæði varðandi framsetningu og framkvæmd.
    Nú veitist mér sá heiður að senda yður í hjálögðum viðauka viðbótarupplýsingar sem að gagni mega koma á þessu stigi. Óþarft er að taka fram að þessar upplýsingar eiga við ástand sem skapast á grundvelli núgildandi laga.
    Ég treysti því að upplýsingarnar séu nógu ítarlegar og muni stuðla að bestu hugsanlegu skilyrðum við framkvæmd þeirrar fjárhagssamvinnu sem samkomulag hefur náðst um í EES-samningnum.

Virðingarfyllst,

Horst G. Krenzler

VIÐAUKI


    VIÐBÓTARUPPLÝSINGAR UM FRAMKVÆMD
    ÁKVÆÐA BÓKUNAR 32 Í EES-SAMNINGNUM


1. Bókhald yfir framlag EFTA-ríkjanna
    Í samræmi við ákvæði þriðja undirliðar í annarri undirgrein 2. mgr. 4. gr. fjárhagsreglu­gerðar um fjárlög Evrópubandalaganna 1 telst framlag þriðju landa vera „sýndartekjur“.
    Þetta merkir í framkvæmd að þátttaka EFTA-ríkjanna verður:
    annars vegar gjaldfærð í sérstakri línu tekjuhliðar og gæti af þeim sökum ekki talist með öðrum tekjum á fjárlögum;
    hins vegar auðkennd, eingöngu vegna bókhaldsins, og væri því eingöngu hægt að nota hana til að greiða kostnað af þeirri starfsemi bandalagsins sem EFTA-ríkin taka þátt í.

    Þar af leiðandi, til að ábyrgjast að farið verði eftir meginreglunni um „sýndartekjur“, verða gerðar viðeigandi ráðstafanir í bókhaldi til að tryggja varanlega að þessar aðgerðir verði aðgreindar.
    Þar að auki ber að hafa hugfast að svohljóðandi 4. mgr. 7. gr. fjárhagsreglugerðarinnar:
    „Ónýttar tekjur og fjárveitingar sem eru fyrir hendi 31. desember sökum sérstakra tekju­stofna sem um getur í 2. mgr. 4. gr. eru sjálfkrafa fluttar áfram“ gildir um þessa starfrækslu.

2. Upplýsingar um fjárlagaskipulag í tengslum við framlög EFTA-ríkjanna
    Til að tryggja auðkenningu á framlagi EFTA-ríkjanna er fyrirhugað að viðeigandi „fjárlagaskipulag“ sem einkum felur í sér eftirtalda þætti komi fram á fjárlögum Evrópu­bandalaganna:
1)    á tekjuhlið: lína með málamyndafærslu þar sem fjárframlög EFTA-ríkjanna á viðkom-andi fjárhagsári skulu færð þegar að framkvæmdum kemur.
        Í athugasemd við línuna komi fram „til upplýsingar“ heildarfjárframlag EFTA-ríkjanna, greint í fjárhagsskuldbindingar og greiðsluskuldbindingar;
2)    á útgjaldahlið, III. þætti (framkvæmdastjórn) B-hluta:
    a)    í hverri línu sem tengist starfsemi er EFTA-ríkin taka þátt í skal koma fram í athugasemdum vísbending, „til upplýsingar“, um fjárframlög EFTA-ríkjanna.
    b)    í „yfirlitstöflu“ 2 sem fylgir B-hluta skal sýna, á grundvelli viðeigandi, tæmandi nafnaskrár, allar viðkomandi fjárhagslínur og, „til upplýsingar“, upphæð fjárframlaga EFTA-ríkja vegna einstakra verkefna.

    Þessir þættir — línan á tekjuhlið og „yfirlitstaflan“ á útgjaldahlið — skulu sýna fjárlaga­skipulagið varðandi horfur og framkvæmd, þar með talið bókhald, svo og gerð og endur­skoðun reikninga.

3. Skilyrði fyrir framkvæmd
    Tímasetning samkvæmt ákvæðum 3. gr. hvað varðar aðlögun — einkum vegna breytinga á fjárveitingum bandalagsins í kjölfar tilfærslu, leiðréttingar og/eða aukafjárveitinga — gæti haft í för með sér að ekki verði tekið tillit til „hlutfallsþáttarins“, sem gæti valdið vandkvæðum við framkvæmd fjárlaga og tafið framkvæmd viðkomandi starfsemi.
    Framkvæmdastjórnin álítur því nauðsynlegt að fyrirhuga viðeigandi átak beggja aðila eftir gildistöku samningsins til að bæta þetta ástand eins og hægt er.
    Framkvæmdastjórnin álítur enn fremur nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á bókun 32 í samræmi við þá endurskoðun sem kveðið er á um í 4. gr. hennar.
    Í þessu skyni og að því leyti er framkvæmdastjórnina varðar hyggst hún leggja til viðeigandi breytingu á fjárhagsreglugerðinni, til að skapa nýjan lagagrundvöll sem betur hæfði hinu nýja ástandi og gerði kleift að ráða bót á fyrrnefndum vandkvæðum.
    Óþarft er að taka fram að þegar slík tillaga er borin upp verða hlutaðeigandi stofnanir bandalagsins, þ.e. þingið, ráðið og endurskoðunarrétturinn, beðnar að leggja fram krafta sína í samræmi við ákvæði 209. gr. EBE-sáttmálans.

4. Fyrirkomulag er varðar eftirlit
    Enn fremur álítur framkvæmdastjórnin að fyrirkomulagi því sem um getur í 2. mgr.
    7. gr. bókunar 32 skuli komið á tímanlega eftir því sem þörf krefur.Hr. Horst G. Krenzler
aðalskrifstofustjóri
framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna
aðalskrifstofu I
Avenue d'Auderghem 35
Brussel.

    Ég hef í dag móttekið svohljóðandi bréf frá yður:

„Efni: Viðbótarupplýsingar um fjárhagshliðina á þátttöku EFTA-ríkjanna í tiltekinni
     starfsemi bandalagsins.

    Í 82. gr. EES-samningsins er gerð grein fyrir skilyrðum vegna fjárhagsþátttöku EFTA-ríkja í tiltekinni starfsemi bandalagsins. Þar að auki er í bókun 32 við samninginn mælt fyrir um nauðsynlegar aðferðir við framkvæmd þessarar þátttöku.
    Þegar samið var um bókun 32 töldu báðir aðilar æskilegt að veita EFTA-ríkjunum viðbótarupplýsingar — hvað varðar málsmeðferð innan EB — um meðferð fjárlaga vegna þátttöku EFTA-ríkjanna bæði varðandi framsetningu og framkvæmd.
    Nú veitist mér sá heiður að senda yður í hjálögðum viðauka viðbótarupplýsingar sem að gagni mega koma á þessu stigi. Óþarft er að taka fram að þessar upplýsingar eiga við ástand sem skapast á grundvelli núgildandi laga.
    Ég treysti því að upplýsingarnar séu nógu ítarlegar og muni stuðla að bestu hugsanlegu skilyrðum við framkvæmd þeirrar fjárhagssamvinnu sem samkomulag hefur náðst um í EES-samningnum.“

Virðingarfyllst,
Hannes Hafstein, sendiherra,
forstöðumaður sendiráðs Íslands
hjá EvrópubandalögunumVIÐAUKI


    VIÐBÓTARUPPLÝSINGAR UM FRAMKVÆMD
    ÁKVÆÐA BÓKUNAR 32 Í EES-SAMNINGNUM


1. Bókhald yfir framlag EFTA-ríkjanna
    Í samræmi við ákvæði þriðja undirliðar í annarri undirgrein 2. mgr. 4. gr. fjárhagsreglu­gerðar um fjárlög Evrópubandalaganna 1 telst framlag þriðju landa vera „sýndartekjur“.
    Þetta merkir í framkvæmd að þátttaka EFTA-ríkjanna verður:
    annars vegar gjaldfærð í sérstakri línu tekjuhliðar og gæti af þeim sökum ekki talist með öðrum tekjum á fjárlögum;
    hins vegar auðkennd, eingöngu vegna bókhaldsins, og væri því eingöngu hægt að nota hana til að greiða kostnað af þeirri starfsemi bandalagsins sem EFTA-ríkin taka þátt í.

    Þar af leiðandi, til að ábyrgjast að farið verði eftir meginreglunni um „sýndartekjur“, verða gerðar viðeigandi ráðstafanir í bókhaldi til að tryggja varanlega að þessar aðgerðir verði aðgreindar.
    Þar að auki ber að hafa hugfast að svohljóðandi 4. mgr. 7. gr. fjárhagsreglugerðarinnar:
    „Ónýttar tekjur og fjárveitingar sem eru fyrir hendi 31. desember sökum sérstakra tekju­stofna sem um getur í 2. mgr. 4. gr. eru sjálfkrafa fluttar áfram“ gildir um þessa starfrækslu.

2. Upplýsingar um fjárlagaskipulag í tengslum við framlög EFTA-ríkjanna
    Til að tryggja auðkenningu á framlagi EFTA-ríkjanna er fyrirhugað að viðeigandi „fjárlagaskipulag“ sem einkum felur í sér eftirtalda þætti komi fram á fjárlögum Evrópu­bandalaganna:
1)    á tekjuhlið: lína með málamyndafærslu þar sem fjárframlög EFTA-ríkjanna á viðkom-andi fjárhagsári skulu færð þegar að framkvæmdum kemur.
        Í athugasemd við línuna komi fram „til upplýsingar“ heildarfjárframlag EFTA-ríkjanna, greint í fjárhagsskuldbindingar og greiðsluskuldbindingar;
2)    á útgjaldahlið, III. þætti (framkvæmdastjórn) B-hluta:
    a)    í hverri línu sem tengist starfsemi er EFTA-ríkin taka þátt í skal koma fram í athugasemdum vísbending, „til upplýsingar“, um fjárframlög EFTA-ríkjanna.
    b)    í „yfirlitstöflu“ 2 sem fylgir B-hluta skal sýna, á grundvelli viðeigandi, tæmandi nafnaskrár, allar viðkomandi fjárhagslínur og, „til upplýsingar“, upphæð fjárframlaga EFTA-ríkja vegna einstakra verkefna.

    Þessir þættir — línan á tekjuhlið og „yfirlitstaflan“ á útgjaldahlið — skulu sýna fjárlaga­skipulagið varðandi horfur og framkvæmd, þar með talið bókhald, svo og gerð og endur­skoðun reikninga.

3. Skilyrði fyrir framkvæmd
    Tímasetning samkvæmt ákvæðum 3. gr. hvað varðar aðlögun — einkum vegna breytinga á fjárveitingum bandalagsins í kjölfar tilfærslu, leiðréttingar og/eða aukafjárveitinga — gæti haft í för með sér að ekki verði tekið tillit til „hlutfallsþáttarins“, sem gæti valdið vandkvæðum við framkvæmd fjárlaga og tafið framkvæmd viðkomandi starfsemi.
    Framkvæmdastjórnin álítur því nauðsynlegt að fyrirhuga viðeigandi átak beggja aðila eftir gildistöku samningsins til að bæta þetta ástand eins og hægt er.
    Framkvæmdastjórnin álítur enn fremur nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á bókun 32 í samræmi við þá endurskoðun sem kveðið er á um í 4. gr. hennar.
    Í þessu skyni og að því leyti er framkvæmdastjórnina varðar hyggst hún leggja til viðeigandi breytingu á fjárhagsreglugerðinni, til að skapa nýjan lagagrundvöll sem betur hæfði hinu nýja ástandi og gerði kleift að ráða bót á fyrrnefndum vandkvæðum.
    Óþarft er að taka fram að þegar slík tillaga er borin upp verða hlutaðeigandi stofnanir bandalagsins, þ.e. þingið, ráðið og endurskoðunarrétturinn, beðnar að leggja fram krafta sína í samræmi við ákvæði 209. gr. EBE-sáttmálans.

4. Fyrirkomulag er varðar eftirlit
    Enn fremur álítur framkvæmdastjórnin að fyrirkomulagi því sem um getur í 2. mgr.
    7. gr. bókunar 32 skuli komið á tímanlega eftir því sem þörf krefur.
Viðbætir 1.5


Hr. Horst G. Krenzler
aðalskrifstofustjóri
framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna
aðalskrifstofu I
Avenue d'Auderghem 35
Brussel.

    Ég leyfi mér að tilkynna af hálfu EFTA-ríkjanna að á ráðherrafundinum í Lúxemborg 21. október 1991 samþykktu EFTA-ríkin að reikna framlög sín til fjármagnskerfisins á grund­velli vergrar þjóðarframleiðslu (VÞF) miðað við upplýsingar um markaðsverð þriggja síðastliðinna ára.

Virðingarfyllst

Hannes Hafstein, sendiherra,
forstöðumaður sendiráðs Íslands
hjá EvrópubandalögunumHr. H. Hafstein, sendiherra,
formaður sendinefndar EFTA,
EFTA-skrifstofunni,
Rue Arlon 118,
1040-Brussel.

    Ég hef í dag móttekið svohljóðandi bréf frá yður:

    „Ég leyfi mér að tilkynna af hálfu EFTA-ríkjanna að á ráðherrafundinum í Lúxemborg 21. október 1991 samþykktu EFTA-ríkin að reikna framlög sín til fjármagnskerfisins á grundvelli vergrar þjóðarframleiðslu (VÞF) miðað við upplýsingar um markaðsverð þriggja síðastliðinna ára.“


Virðingarfyllst,

Horst G. Krenzler,
formaður sendinefndar
framkvæmdastjórnar
EvrópubandalagannaViðbætir 2.1


Vöruútflutningur Íslands
Árin 1987–1991

(1 bls. mynduð)Viðbætir 2.2


Vöruinnflutningur Íslands
Árin 1987–1991

(1 bls. mynduð)Viðbætir 3.
     Hagvöxtur 1988–1992.

    Hagvöxtur (vöxtur vergrar landsframleiðslu) skv. tölum OECD, desember 1991 (OECD Economic Outlook nr. 50). Prósentubreyting frá árinu á undan.
    
1988 1989 1990 1991 1992 Meðaltal
Ísland
-0,8 -1,3 0 0,3 -1,6 -0,68
Noregur
-0,5 0,4 1,8 4,1 2,0 1,56
Svíþjóð
2,3 2,1 0,3 -1,2 0,2 0,74
Finnland
5,4 5,4 0,4 -5,2 -0,4 1,12
Danmörk
0,5 1,2 2,1 2,0 2,5 1,66
EB
4,0 3,5 2,9 1,4 2,1 2,78
Bandaríkin
4,5 2,5 1,0 -0,5 2,2 1,94
OECD
4,5 3,3 2,6 1,1 2,2 2,74

     Hagvöxtur skv. tölum Þjóðhagsstofnunar, apríl 1992.
Bráðab. Spá
1988 1989 1990 1991 1992 Meðaltal
Ísland
-0,8 0 0,4 1,4 -2,8 -0,36
Viðbætir 4.


    Fylgifrumvörp með EES-samningnum.

    Að neðan er yfirlit yfir ráðgerð lagafrumvörp vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið miðað við 11. ágúst 1992.

Lög nr.:
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið (ráðgerir 2 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum sem varða réttarfar, atvinnuréttindi o.fl. vegna aðildar að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.
     2.      Frumvarp til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.

Félagsmálaráðuneytið (ráðgerir 4 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um frjálsa för launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     2.      Frumvarp til laga um br. á lögum um vinnumarkaðsmál við aðild að EES-samningi.
     3.      Frumvarp til laga um hópuppsagnir.
     4.      Frumvarp til laga um réttarstöðu launafólks við eigendaskipti á fyrirtækjum og öðrum atvinnurekstri.

Fjármálaráðuneytið (ráðgerir 6 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um vörugjald á ökutæki og eldsneyti:
       a.      16. gr. l. nr. 4/1960 um efnahagsmál felld úr gildi.
       b.      br. á l. nr. 3/1987 um fjáröflun til vegagerðar.
     2.      Frumvarp til laga um br. á tollalögum nr. 55/1987 og l. nr. 87/1987 um vörugjald.
     3.      Frumvarp til laga um br. á ýmsum lögum:
     a. l. nr. 55/1980 um starfskjör launþega og skyldutryggingu launþega.
     b. l. nr. 49/1974 um lífeyrissjóð sjómanna.
     4.      Frumvarp til laga um br. á l. nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda og l. nr. 52/1987 um opinber innkaup.
     5.      Frumvarp til laga um br. á l. nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignaskatt.
     6.      Frumvarp til laga um br. á l. nr. 51/1968 um bókhald.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið (ráðgerir 6 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna EES-samningsins.
     2.      Frumvarp til laga um bátaábyrgðarfélög.
     3.      Frumvarp til laga um br. á l. um Samábyrgð Íslands á fiskiskipum.
     4.      Fumvarp til laga um val á vátryggingarsamningalögum.
     5.      Frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi.
     6.      Frumvarp til laga um almannatryggingar.

Iðnaðarráðuneytið (ráðgerir 6 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um eignarrétt að auðlindum í jörðu.
     2.      Frumvarp til laga um virkjunarrétt fallvatna.
     3.      Frumvarp til laga um hönnunarvernd.
     4.      Frumvarp til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. 3
     5.      Frumvarp til laga um staðla.
     Frumvarp um breytingu á:
     6.      L. nr.17/1991 um einkaleyfi og l. nr. 47/1968 um vörumerki

Landbúnaðarráðuneytið (ráðgerir 3 frumvörp)
    Frumvörp um breytingu á:
     1.      L. nr. 65/1976, jarðalögum með síðari breytingum
     2.      L. nr. 43/1971 um Áburðarverksmiðju ríkisins
     3.      L. nr. 53/1978 um eftirlit með áburði o.fl.

Menntamálaráðuneytið (ráðgerir 3 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um gagnkvæma viðurkenning á menntun ríkisborgara í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og á Norðurlöndum til starfsréttinda á Íslandi.
     Frumvörp um breytingu á:
     2.      L. nr. 68/1985, útvarpslögum.
     3.      L. nr. 73/1972, höfundarlögum.


Samgönguráðuneytið (ráðgerir 5 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um fólks- og vöruflutninga á landi.
     2.      Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgöngumál vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
     3.      Frumvarp til laga um loftferðir.
    Frumvörp um breytingu á:
     4.      L. nr. 73/1984 um fjarskipti.
     5.      L. nr. 24/1982 um flutningasamninga o.fl.

Sjávarútvegsráðuneytið (ráðgerir 3 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
     2.      Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða.
    Frumvarp um breytingu á:
     3.      L. nr. 123/1989 um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla.

Umhverfisráðuneytið (ráðgerir 3 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um umhverfismat.
     2.      Frumvarp til laga um aðgang að upplýsingum um umhverfismál og upplýsingamiðlun.
     3.      Frumvarp til laga um takmarkanir á notkun og losun erfðabreyttra örvera og lífvera.

Utanríkisráðuneytið (ráðgerir 3 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið.
     2.      Frumvarp til laga um friðhelgi starfsmanna alþjóðastofnana.
     3.      Frumvarp til laga um heimild til að fullgilda Norðurlandasamning um félagslegt öryggi.

Viðskiptaráðuneytið (ráðgerir 17 frumvörp)
     1.      Frumvarp til laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
     2.      Frumvarp til laga um aðrar lánastofnanir.
     3.      Frumvarp til laga um verðbréfasjóði.
     4.      Frumvarp til laga um verðbréfaviðskipti.
     5.      Frumvarp til laga um Verðbréfaþing Íslands.
     6.      Frumvarp til laga um gjaldeyrismál.
     7.      Frumvarp til laga um innflutning.
     8.      Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1991.
     9.      Frumvarp til laga um vog, mál og faggildingu.
     10.      Frumvarp til laga um öryggi framleiðsluvöru.
     11.      Frumvarp til samkeppnislaga.
     12.      Frumvarp til laga um neytendalán.
     13.      Frumvarp til laga um húsgöngusölu.
     14.      Frumvarp til laga um hlutafélög.
     15.      Frumvarp til laga um samvinnufélög (innlánsdeildir).
     16.      Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða íslenskt ríkisfang vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði.
     17.      Frumvarp til laga um umboðssöluviðskipti.Viðbætir 5.
    

     Samsvarandi reglur.

    EES-REGLUR SEM ERU SAMA EFNIS OG SAMSVARANDI

EB-REGLURMeginmál EES-samningsins borið saman við EB-reglur

EES EB
1.–3. gr. Nei

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4. gr.
bann við mismunun 7. gr.
5.–9. gr. Nei
10. gr. bann við tollum 12.–17. gr.
11. gr. bann við takmörkunum á innflutningi 30. gr.
12. gr. bann við takmörkunum á útflutningi 34. gr.
13. gr. takmarkanir er ráðast af öðru en fjárhagslegum ástæðum 36. gr.
14. gr. bann við misrétti á grundvelli innlendrar skattlagningar 95. gr.
15. gr. endurgreiðsla á innlendum skatti 96. gr.
16. gr. ríkiseinkasala 37. gr.
17.–20. gr. Nei
21. gr. Nei 1
22. gr. Nei
23. gr. Nei 2
24.–26. gr. Nei
27. gr. Nei 3
28. gr. frelsi launþega til flutninga 48. gr.
29. gr. meginreglur um almannatryggingar 51. gr. 4
30. gr. gagnkvæm viðurkenning prófskírteina 1. og 2. mgr. 57. gr. 5
31. gr. staðfesturéttur 52. gr.
32. gr. meðferð opinbers valds 1. mgr. 55. gr. 6
33. gr. allsherjarregla, almannaöryggi eða almannaheilbrigði     1. mgr. 56. gr. 7
34. gr. jöfn meðferð fyrirtækja 58. gr.
35. gr. vísan til launþega 66. gr.
36. gr. frelsi til að veita þjónustu 59. gr.
37. gr. skilgreining þjónustu 60. gr.
38. gr. frelsi til að veita þjónustu á sviði flutninga 1. mgr. 61. gr.
39. gr. vísan til staðfesturéttar 66. gr.
40. gr. frjálsir fjármagnsflutningar 1. mgr. 67. gr.
41. gr. gengar greiðslur 2. mgr. 67. gr., 1. mgr. 106. gr.
42. gr. bann við mismunun og ríkislán 2. og 3. mgr. 68. gr.
43. gr. skilyrði vegna öryggisráðstafana
2. mgr. 70. gr., 1. mgr. 73. gr. 2. mgr. 107. gr., 1. mgr. 108. gr.
44. gr. Nei
1. og 2. mgr. 45. gr. Nei
3. mgr. 45. gr. 2. mgr. 73. gr.
4. mgr. 45. gr. 1. mgr. 109. gr.
5. mgr. 45. gr. Nei
46. gr. Nei
1. mgr. 47. gr. flutningar 1. mgr. 84. gr.
1. mgr. 48. gr. stöðvun 76. gr.
2. mgr. 48. gr. Nei
49. gr. ríkisaðstoð 77. gr.
1. mgr. 50. gr. bann við mismunun, gjöld og skilmálar á sviði flutninga 1. mgr. 79. gr.
2. mgr. 50. gr. rannsókn þar til bærra yfirvalda 4. mgr. 79. gr.
51. gr. aðstoð og vernd 80. gr.
52. gr. gjöld við landamæri 81. gr.
53. gr. samkeppnishömlur 85. gr.
54. gr. misnotkun á yfirburðastöðu 86. gr.
55. gr. eftirlit 89. gr. 8
56. gr. Nei
1. mgr. 57. gr. 3. mgr. 2. gr. reglugerðar 4064/89 2. mgr.
57. gr. Nei
58. gr. Nei
59. gr. opinber fyrirtæki 90. gr.
60. gr. Nei
61. gr. ríkisaðstoð, meginreglur 92. gr.
62. gr. Nei
63. gr. Nei 9
64.–65. gr. Nei
66. gr. bætt starfsskilyrði og lífskjör launþega 1. mgr. 117. gr.
67. gr. lágmarkskröfur 118. gr. a
68. gr. Nei
69. gr. jöfn laun karla og kvenna 119. gr.
70.–72. gr. Nei
73. gr. aðgerðir varðandi umhverfismál 1. og 2. mgr. 130. gr. r
74. gr. Nei
75. gr. strangari verndarráðstafanir 130. gr.
76.–121. gr. Nei
122. gr. þagnarskylda 214. gr.
123. gr. öryggisráðstafanir 223. gr.
124. gr. fjárfestingar 221. gr.
125. gr. skipan eignarréttar 222. gr.
126. gr. yfirráðasvæði 227. gr.
127. gr. Nei
128. gr. nýir aðilar 237. gr.
129. gr. fullgilding, samþykkt og gildistaka 248. gr.Viðbætir 6

    Áhrif frumvarpsins á stjórnsýslu og fjárlög.

1. Stofnanir EFTA
    Búast má við nokkurri fjölgun starfsmanna EFTA vegna framkvæmdar þessa samnings en framkvæmdastjórn EB og starfslið EFTA munu í sameiningu þjóna samningsaðilum. Ekki er þó að svo stöddu búist við að ný stöðugildi innan EFTA verði fleiri en 20 talsins. Við það munu hins vegar bætast þær stöður sem manna verður við aðrar stofnanir. Komið verður upp sérstakri eftirlitsstofnun EFTA og verður starfslið hennar fyrst um sinn 40-50 talsins. EFTA-dómstóllinn mun einnig verða rekinn sem sjálfstæð eining með innan við 30 starfs­menn. Alls má því búast við að um 100 starfsmenn til viðbótar starfi á vegum EFTA eftir að samningurinn er genginn í gildi. Framlag Íslands til EFTA hefur verið 1,74% af heildarkostn­aði. Áætlað framlag til EFTA á þessu ári er um 48 milljónir.

2. Íslensk stjórnsýsla
    Undirbúningur þessara samninga hefur nú staðið í þrjú ár og hafa þeir embættismenn sem að þeim hafa unnið jafnframt gegnt öðrum skyldum. Þátttaka í alþjóðasamstarfi er vaxandi þáttur í starfi allra fagráðuneyta og hefur aðgangur að reynslu annarra þjóða oft stytt Íslend­ingum leið við lausn ýmissa vandamála. Eftir að samningurinn er genginn í gildi verður að gera ráð fyrir talsverðri fundasókn og vinnu við að fylgjast með frekari þróun innan EES. Álagið verður þó mun minna en það hefur verið í samningaviðræðunum að undanförnu þegar verið var að skilgreina rammann sem unnið er út frá.
    Ekki er því búist við því að þess gerist þörf að endurskipuleggja stjórnarráðið eða auka verulega við starfslið þess vegna EES-samningsins. Tvö ráðuneyti hafa þegar starfsmann á launum við sendiráðið í Brussel og fleiri munu feta í kjölfarið. Önnur ráðuneyti og stofnanir vega og meta hvort fleiri starfsmanna sé þörf. Búast má þó við því að aukinn kostnaður vegna þýðinga verði viðvarandi.

3. Þróunarsjóður EFTA
    Starfræktur verður sérstakur þróunarsjóður á vegum EFTA í fimm ár, sem veita mun efnahagslega ver stöddum svæðum innan EB lán á hagstæðum kjörum. Framlag Íslands fyrsta árið verður um 70 milljónir króna.

4. Verkefni á vegum EB
    Evrópubandalagið starfrækir samstarfsverkefni um rannsóknir og þróun, menntun, umhverfismál o. fl. Ísland hefur þegar fengið aðgang að einstökum þeirra og haft góða reynslu af. Oftar en ekki hefur meira fé skilað sér til baka en framlagi nemur. Ætlunin er að Ísland taki að fullu þátt í rammaáætlun EB frá 1994 um rannsóknir og þróun og verður þá heildar­framlag um 100 milljónir. Ef vel tekst til við undirbúning getur meira fé runnið til íslenskra verkefna. Við þetta bætist kostnaður vegna þátttöku í verkefnum um menntamál, æskulýðs­samstarf, jafnréttismál, ferðamál, tölvuþjónustu og aðstoð við lítil og meðalstór fyrirtæki. Unnið er meðal sérfræðinga EB og EFTA að því að gera yfirlit um það hversu umfangsmikið þetta samstarf yrði eftir að samningurinn tekur gildi. Þetta liggur ekki ljóst fyir því samn­ingurinn setur aðeins ramma en gengið verður frá nákvæmri kostnaðaráætlun í sumar.

5. Tryggingagreiðslur
    Eftir að samningurinn tekur gildi öðlast Íslendingar erlendis aukinn rétt til að fá sendar til sín greiðslur á borð við tekjutryggingu. Erfitt er að slá tölu á hve mikill kostnaðarauki getur orðið af þessu en á móti koma greiðslur að utan til einstaklinga hér.Viðbætir 7.1


Yfirlýsing æðstu manna aðildarríkja
Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA),
í Ósló 14.–15. mars 1989.

    1.     Við, forsætisráðherrar ríkisstjórna aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) hittumst í Osló 14. og 15. mars 1989 til að ræða framlag EFTA til samruna Evrópu, sam­skipti EFTA-ríkjanna og aðildarríkja Evrópubandalagsins og markmið EFTA í heimsviðskiptum.
    2.     Við ítrekum skuldbindingar ríkja okkar varðandi samruna Evrópu. Við teljum að stefna og samvinna EFTA-ríkjanna á alþjóðavettvangi stuðli að pólitísku og félagslegu jafnvægi í Evrópu. Við erum þar af leiðandi sannfærð um að meiri samræming efnahagslífs EFTA-landanna og Evrópubandalagsins styrki Evrópu og auki hagsæld hennar.
    3.      Við lýsum ánægju okkar með framlag Evrópubandalagsins til meiri samræmingar með því að koma á einum innri markaði árið 1992. Grundvöllur að samvinnu okkar við Evrópu­bandalagið er sameiginlegur menningararfur, sameiginlegar hugmyndir um grundvallargildi lýðræðis og mannréttinda, landfræðileg nálægð og hversu háðar þjóðirnar eru hver annarri á sviði iðnaðar, viðskipta og tæknilegrar þróunar. Við erum sammála um að óhindruð viðskipti og opnir markaðir séu mikilvægir til að stuðla að efnahagsþróun og fullri atvinnu. Við erum reiðubúin til að taka höndum saman við ríki Evrópubandalagsins til að bæta velferð ríkisborgara okkar.
    4.     Við ítrekum markmið Stokkhólmssáttmálans og fríverslunarsamninganna við EB svo og sameiginleg markmið með Evrópubandalaginu eins og þau birtast í Lúxemborgaryfirlýsing­unni árið 1984 um að koma á fót samræmdu virku Evrópsku efnahagssvæði (EES), sem nær til allra aðildarríkja EFTA og EB.
    5.     Við lýsum ánægju með þann árangur sem náðst hefur í að afnema hindranir í vöruviðskiptum með iðnaðarvörur. Tollar og magntakmarkanir hafa verið felldar niður og uppruna- og tollmeðferð hefur verið einfölduð. Verulegur árangur hefur náðst á sviði tæknilegra reglu­gerða svo og varðandi öryggis- og heilbrigðiskröfur. Þessi þróun hefur styrkt tengsl EFTA og EB enn frekar og stöðu EFTA og EB sem mikilvægustu viðskiptaaðila hvors annars.
    6.     Samstarf okkar hefur aukist á sviði rannsókna og þróunar og samningar eru fyrirhugaðir til að auðvelda hvers konar þjónustuviðskipti. Á sviði menntamála og umhverfisverndar mið­ar starfinu áfram og hefur smám saman náð til fjármagnshreyfinga og nokkurra þátta er snerta óhindraðan flutning fólks á milli landa. Á vissan hátt hefur þessi víði samstarfsvett­vangur þó ekki að öllu leyti verið í samræmi við metnað okkar og væntingar.
    7.     Við þurfum að takast á við sömu hindranir og EB í uppbyggingu Evrópska efnahagssvæðisins. Sú leið sem við ákváðum að fara í hinni sameiginlegu Lúxemborgaryfirlýsingu skilar okkur á rétta leið. Við stefnum hins vegar að því að styrkja okkar sérstæða samband við EB á grundvelli jafnvægis á milli réttinda og skuldbindinga. Með hliðsjón af því viðurkennum við að leggja þarf fram aukið starf og nýjar hugmyndir og viljum þannig kanna þá möguleika sem við höfum til að ná þessu markmiði.
    8.     Í þessu sambandi lýsum við ánægju okkar með yfirlýsingu frá fundi æðstu manna Evrópubandalagsins sem haldinn var á Ródos þar sem bandalagið óskaði eftir nánari og auknum samskiptum við ríki EFTA og yfirlýsingu Spánverja, sem nú fara með formennsku í EB-ráðinu þess efnis að þeir líti á samskipti EFTA og EB sem helsta forgangsverkefni sitt. Á sama hátt lýsum við ánægju okkar yfir frumkvæði forseta framkvæmdastjórnar bandalags­ins, Jacques Delors, á Evrópuþinginu þann 17. janúar þar sem hann lagði til að teknar yrðu upp ítarlegar viðræður um umfang og stofnanlegan ramma nánari samvinnu við EFTA-ríkin.     9.     Við svörum frumkvæði Delors á jákvæðan hátt og lýsum yfir vilja okkar til að kanna með EB aðferðir og leiðir til að ná fram kerfisbundnara samstarfi með sameiginlegri ákvarð­anatöku og stjórnarstofnunum til þess að samstarf okkar verði árangursríkara.
    10.     Við gerum ráð fyrir því að fyrirhugaður ráðherrafundur EFTA og EB sem haldinn verður í Brussel 20. mars leggi grunninn að því að hefja viðræður um framtíðarform og umfang samvinnu milli EFTA-ríkja og bandalagsins í náinni framtíð.
    11.     Við gerum ráð fyrir því að samningaviðræður mundu leiða til samkomulags, að svo miklu leyti sem það er mögulegt, um óhindraðan flutning á vöru, þjónustu, fjármagni og fólki, með það að markmiði að koma á einu samræmdu, evrópsku efnahagssvæði. Við erum því reiðubúin til að kanna ýmsa möguleika og leiðir til að styrkja formleg tengsl milli EFTA-ríkjanna og EB. Við myndum ekki útiloka neinn valkost innan ramma framtíðarviðræðna okkar við EB.
    12.     Við sjáum verulegan gagnkvæman hag í að þróa samstarf okkar á öðrum sviðum en þeim sem tengjast beint áætluninni um innri markaðinn. Við höfum sérstakan áhuga á að stefna að:
—    víðtækari þátttöku þeirra aðila innan EFTA sem stunda rannsóknir og iðnþróun í rannsókna- og þróunaráætlunum bandalagsins og leggja þannig fram verulegan skerf til að bæta samkeppnisstöðu evrópsks iðnaðar.
—    auknu samstarfi á sviði menntamála til að auðvelda óhindruð skipti á nemendum, kennurum og vísindamönnum og veita gagnkvæmar viðurkenningar prófskírteina.
—    finna lausn á svæðisbundnum og alþjóðlegum umhverfisvandamálum með því að leggjast á eitt og samræma starfsemi á þessu sviði um alla Evrópu. Við erum sammála þeirri skoðun að markmiðið með efnahagslegum samruna í Evrópu verði að taka mið af vernd­un umhverfisins. Við erum reiðubúin til að kanna með Evrópubandalaginu nýjar leiðir sem gætu gert aðgerðir okkar markvissari.
—    auka samráð um efnahags- og peningamálastefnu.
    13.     Við erum sammála um að aukinni efnahagssamvinnu þurfi að fylgja myndun „Evrópu ríkisborgaranna“ og þróun á hinum félagslega þætti samrunans með náinni samvinnu við hagsmunasamtök atvinnulífsins.
    14.     Til að efla frekari samruna og til að fá niðurstöður á sama tíma innan Evrópska efnahagssvæðisins gerum við ráð fyrir að upplýsingaskipti um fyrirhugaða löggjöf, ráðgjafar­starf, gagnkvæma viðurkenningu á sambærilegri löggjöf og ákvarðanatöku fari fram tíman­lega. Þessu ætti að vera fylgt eftir með öflugu og öruggu eftirliti með fullnustu dóma og sam­eiginlegri meðferð á lausn deilumála.
    15.     Við leggjum áherslu á að athugun á leiðum til fastmótaðri samskipta megi ekki draga úr sameiginlegum ásetningi okkar að ná árangri í núverandi samstarfi.
    16.     Við viðurkennum sjálfsákvörðunarrétt hverrar einstakrar EFTA-þjóðar hvað varðar tvíhliða frumkvæði og samninga við EB með tilliti til sérhagsmuna þeirra.
    17.     Við lítum á EFTA sem meginvettvang til fjölhliða samninga við EB og erum sammála um að auka frekar samstarf innan EFTA á öllum sviðum tengdum Evrópska efnahagssvæð­inu. Við munum gera nauðsynlegar ráðstafanir til að styrkja ákvarðanatöku innan EFTA og sameiginlega samningamöguleika. Við munum einnig styrkja það kerfi sem við höfum til eftirlits og framkvæmdar á samningsskuldbindingum til þess að tryggja samræmda og sam­hæfða framkvæmd og túlkun þeirra á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
    18.     Það er enn fremur markmið okkar að styrkja innra samstarf EFTA, svo sem með fullri fríverslun með sjávarafurðir. 1
    19.     Við lýsum ánægju með yfirlýsingar þingmannanefndar EFTA-landanna og ráðgjafarnefndar EFTA sem eru þýðingarmikið framlag til umræðu okkar.
    20.     Við ítrekum ákvörðun okkar að styrkja og bæta frekar hið marghliða viðskiptakerfi og berjast gegn hvers konar verndarstefnu. Með hliðsjón af þessu markmiði heitum við öflugum stuðningi við það starf sem unnið er í GATT og leggjum áherslu á það samband sem er á milli sameiningar Evrópu og þess að ná fram óhindruðum viðskiptum um allan heim, eins og stefnt er að í Úrúgvæ-viðræðunum. Við lýsum áhyggjum yfir gangi GATT- samningavið­ræðnanna og vonum að þeim hindrunum sem nú standa í vegi fyrir því að ná fram nýjum og ákveðnari reglum í heimsviðskiptum verði fljótlega rutt úr vegi.
    21.     Við leggjum áfram áherslu á hversu nauðsynlegt það er fyrir þróunarlöndin að sameinast hinu opna fjölþjóðakerfi, en jafnframt viðurkennum við ábyrgð okkar á að leggja okkar skerf til þróunar í þessum ríkjum, þar með talið að finna lausn á skuldavanda þeirra. Við lofum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að viðhalda, og hvenær sem mögulegt er, að bæta aðgang innfluttra vara frá þróunarlöndunum að mörkuðum okkar og sérstaklega frá van­þróuðustu ríkjunum.
    22.     Við leggjum mikla áherslu á mikilvægi starfs Evrópuráðsins til að efla nánara samstarf innan Evrópu sérstaklega á sviði mannréttinda, menntunar, menningar og félagsmála.
    23.     Við metum einnig mikils samstarf iðnríkja innan OECD, sem hefur lagt stóran skerf til stefnumótunar, efnahagslegs stöðugleika og hagsældar.
    24.     Við lýsum yfir fullum stuðningi við endurskipulagningu og opnun hagkerfis Júgóslavíu og bjóðum fulltrúum þess að kanna leiðir til að þróa samstarf okkar.
    25.     Við lýsum yfir ánægju með árangursríka niðurstöðu Vínarfundar Ráðstefnu um samvinnu og öryggi í Evrópu (RÖSE), og heitum fullum stuðningi við áframhaldandi starf hennar. Við lýsum jafnframt yfir áhuga á pólitískum og efnahagslegum umbótum í Austur-Evrópu og vonum að sú þróun muni skapa grundvöll til nánari viðskipta- og annarra efnahagssamskipta. Við leggjum áherslu á hlutverk Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu þar sem hún er fjölþjóðlegur vettvangur til viðræðna við lönd Austur-Evrópu um þýðingarmikil, sameiginleg hagsmunamál.
    Finnland má tímabundið halda núverandi innflutningsfyrirkomulagi á Eystrasaltssíld og laxi. Fyrir 1. janúar 1993 skal Finnland leggja fram tímaáætlun um afnám þessara undan­þága.Viðbætir 7.2


Yfirlýsing     ráðherrafundar     Evrópubandalagsins, aðildarríkja þess


    og ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA)
    í Brussel 19. desember 1989.

    Ráðherrar aðildarríkja og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og ráðherrar landa Fríverslunarsamtaka Evrópu hittust í Brussel 19. desember 1989 eins og þeir höfðu komið sér saman um á fundi sínum 20. mars 1989.
    Fundinum var stjórnað af Roland Dumas, utanríkisráðherra Frakklands og formanni EB-ráðsins, og Jóni Baldvin Hannibalssyni, utanríkisráðherra Íslands og formanni EFTA-ráðsins. Fulltrúi framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins á fundinum var Jacques Delors, forseti, og Frans Andriessen, varaforseti. Skrá yfir ráðherra aðildarríkja Evrópubandalag­anna og EFTA-landanna fylgir hér með. Georg Reisch, aðalframkvæmdastjóri EFTA sat einnig fundinn.
     1.      Ráðherrar áréttuðu einstakt mikilvægi hinna sérlega nánu tengsla milli Evrópubandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-landanna. Þessi tengsl hafa ekki aðeins grundvallarþýðingu fyrir löndin sjálf heldur einnig fyrir alla Evrópu. Þessar þjóðir, sem þegið hafa í arf sömu hugsjónir, aðhyllast sömu grundvallarreglur og eiga sér sameiginlega framtíð, leggja í sameiningu sitt af mörkum til öflugrar framþróunar í Evrópu enda eru þau nú fyrirmynd allra grannþjóða sinna.
             Þeir fögnuðu pólitískum og efnahagslegum breytingum sem orðið hafa að undanförnu öðrum Evrópulöndum. Þeir ítrekuðu að þeir vildu stuðla að þróun í þessum ríkjum til lýðræðislegra stjórnarhátta og styðja nauðsynlegar efnahagslegar umbætur.
     2.      Þeir minntust þess hversu mjög Lúxemborgaryfirlýsingin 1984 hefði greitt fyrir samskiptum EB/EFTA og fögnuðu þeim verulega árangri sem náðst hefði á grundvelli hennar í áttina að sameiginlegu Evrópsku efnahagssvæði.
     3.      Sannfærðir um nauðsyn þess að efla þessi tengsl enn frekar með það að markmiði að koma á Evrópsku efnahagssvæði og lyfta þeim á nýtt stig sem hluta af sameiginlegum evrópskum viðhorfum, urðu þeir ásáttir um að ganga saman til þess verks að skilgreina skipulegra samstarf milli Evrópubandalagsins og allra EFTA-landanna.
             Þeir ákváðu því að hefja formlegar samningaviðræður eins fljótt og auðið er á fyrra helmingi ársins 1990, og setja sér það mark að leiða þær til lykta eins skjótt og verða má.
     4.      Ráðherrar lýstu ánægju með vönduð vinnubrögð í könnunarviðræðunum hingað til, einkum og sér í lagi með „Niðurstöður fundar stjórnarnefndar könnunarviðræðna fram­kvæmdastjórnar EB og EFTA (HLSG)“ 20. október; þeir fögnuðu því að viðræður framkvæmdastjórnar og EFTA-landanna, þar sem hin síðarnefndu töluðu einum rómi, hefðu leitt í ljós allsamhljóða skilning á umfangi og efnisþáttum endurnýjaðs samskipta­ramma milli Evrópubandalagsins og allra EFTA-landanna.
             Þeir urðu ásáttir um að þessu starfi skyldi haldið áfram til þess að skapa sem best skilyrði fyrir væntanlegar samningaviðræður.
     5.      Í ljósi þess starfs, sem þegar hefur verið unnið töldu þeir að í samskiptarammanum ætti að tryggja í fyllsta máta gagnkvæma hagsmuni hlutaðeigandi aðila, alhliða jafnvægi í samstarfi þeirra og einkum og sér í lagi ætti að fullnægja efnislega eftirfarandi markmiðum:
             —      að koma á óhindruðum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsviðskiptum og atvinnu- og búseturéttindum, samkvæmt reglum sem aðilar mundu skilgreina sam­eiginlega á grundvelli viðeigandi og þegar mótaðra reglna Evrópubandalagsins; undanþágur, sem réttlættar eru með hliðsjón af grundvallarhagsmunum einstakra þjóða svo og tilhögun á aðlögunartíma gætu orðið samningsatriði; tryggja bæri jöfn samkeppnisskilyrði;
             —      að efla og breikka samstarf á öðrum sviðum, sem falla að starfsvettvangi Evrópubandalagsins, svo sem rannsóknir og þróun, umhverfismál, menntamál, vinnuskilyrði og félagsmál, neytendamál, aðgerðir til stuðnings smáum og miðlungsstórum fyrir­tækjum og ferðamál;
                   að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða sinna.
     6.      Þeir telja að í samskiptarammanum ætti meðal annars að tryggja aðilum hans fullt sjálfsforræði við töku ákvarðana.
             Í samræmi við þessa grundvallarreglu ættu samningaviðræðurnar að leiða til þess að séð verði fyrir:
                   aðferðum, sem tryggja á skilvirkan hátt að sjónarmið beggja aðila séu tekin til greina til þess að auðvelda samhljóða niðurstöður við ákvarðanir sem varða Evrópska efna­hagssvæðið.
                   viðeigandi formum sem tryggðu bein réttaráhrif sameiginlegrar löggjafar, umsjón með framkvæmd hennar sem og réttarlegt eftirlit.
     7.      Með samningaviðræðum milli Evrópubandalagsins annars vegar og EFTA-landanna, sem eins viðræðuaðila, hins vegar mun stefnt að því að ná fram alhliða samningum sem næðu til efnisatriða og lagalegra og stofnanalegra hliða sem getið er hér að framan.
     8.      Þeir telja enn fremur að pólitískar viðræður kæmu til greina, m.a. beint milli allra hlutaðeigandi ráðherra.Viðbætir 7.3


Yfirlýsing æðstu manna og ráðherra
aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA)
í Gautaborg 13.–14. júní 1990.

    Evrópa er að breytast, ný skipan er að mótast og þjóðirnar eru að axla nýjar skyldur. Leiðtogar EFTA-ríkjanna og ráðherraráð EFTA komu saman til funda í Gautaborg, Svíþjóð, dagana 13.–14. júní 1990 á 30 ára afmæli Fríverslunarsamtaka Evrópu og staðfestu að EFTA-ríkin einsettu sér að leggja sitt af mörkum til þess að styðja þessa þróun. Þeir gáfu eftirfarandi yfirlýsingu:
     1.      Við, leiðtogar ríkisstjórna og ráðherrar EFTA-málefna fögnum þeim djúpstæðu breytingum, sem eiga sér stað í Evrópu og hinum nýju krefjandi tækifærum sem     gefast til að hnýta fastari bönd, byggð á sameiginlegu gildismati og gagnkvæmum skilningi, er stuðla munu að Evrópu friðar, lýðræðis, hagsældar og réttlætis. Myndun innri markaðar og frekari framþróun Evrópubandalagsins, myndun náins og víðtæks samstarfs milli EFTA og EB um öflugt Evrópskt efnahagssvæði í fullu samræmi innbyrðis og breytingarnar í Austur-Evrópu í átt til lýðræðis, hagsældar og réttlætis eru söguleg skref í nýskipan Evrópu.
     2.      Við lítum með stolti yfir 30 ára árangur EFTA-starfsins, sem hefur stuðlað að hagsæld, stöðugleika og hagvexti í aðildarríkjunum, ekki síst með gróskumiklum viðskiptum á grundvelli þess að viðskiptahindrunum hefur verið rutt úr vegi, bæði milli EFTA-ríkj­anna sem gagnvart Evrópubandalaginu. Við rifjum upp framþróun EFTA, allt frá því að fríverslun með iðnaðarvörur milli aðildarríkjanna komst á árið 1966, fríverslunarsamn­ingana milli EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins í byrjun áttunda áratugarins, sem mynduðu stærstu fríverslunarsvæði í heiminum, sem og Lúxemborgaryfirlýsinguna, er ráðherrar EFTA og EB samþykktu 1984, en hún færði samvinnu þessara tveggja aðila út fyrir viðskipti og vísaði veginn til myndunar öflugs Evrópsks efnahagssvæðis.
     3.      Við erum í þann mund að taka nýtt skref fram á veginn í Evrópusamstarfi með því að móta náið og skipulagt samstarf við EB eins og við gerðum ráð fyrir í Oslóaryfirlýsing­unni. Við væntum þess að hefja tafarlaust samningaviðræður í kjölfar þess að EB-ráðið samþykki samningsumboð EB.
        EFTA-ríkin hafa gert skýra grein fyrir markmiðum sínum og afstöðu til þessara samn­inga bæði að því er varðar efnisinnihald og lagaleg og stofnanaleg atriði.
     4.      EES-samningurinn á að vera víðtækur og yfirgripsmikill og á, samkvæmt sameiginlegri skilgreiningu EFTA- og EB-ráðherra 19. desember sl., að koma á óhindruðum vöruviðskiptum, þjónustuviðskiptum, fjármagnsflutningum og atvinnu- og búseturéttind­um. Einnig á hann að styrkja og útvíkka samstarf á jafnréttisgrundvelli að jaðarmálefn­um, t.d. umhverfismálum, rannsóknum og þróun, menntamálum og félagsmálum. Á vissum sviðum verður annaðhvort að gera ráð fyrir undantekningum sem réttlætast af grundvallarhagsmunum eða sérstakri tilhögun á aðlögunartíma.
     5.      Við bendum á að viðeigandi löggjöf Evrópubandalagsins hefur verið afmörkuð í grófum dráttum og verður hún felld inn í EES-samninginn sem sameiginlegur lagalegur grundvöllur. Með fyrirvara um endanlegt samþykki í væntanlegum samningaviðræðum virðist í meginatriðum unnt að fallast á þennan lagalega grundvöll. Viðunandi lausn verður að finnast varðandi sameiginlegan rekstur og um þróun EES-reglna áður en EFTA-ríkin geta tekið endanlega afstöðu til þess að fella viðeigandi reglur EB inn sem sameiginlegan lagalegan grundvöll EES.
     6.      Nauðsyn ber til að koma á viðeigandi lagalegu og stofnanalegu kerfi til að tryggja fullt samræmi innan EES og til þess að hafa fullan gagnkvæman hag af EES. Slíkt kerfi ætti að gera ráð fyrir frumkvæðisrétti beggja aðila, sameiginlegri mótun og ákvörðun EES-reglna, og jafnsterku og áreiðanlegu eftirliti og fullnustu reglna á öllu EES-svæðinu og sameiginlegum úrskurðaraðila sem hefði víðtækt umboð í EES-málum.
             Samningur verður þá og því aðeins pólitískt viðunandi og hefur tilskilin réttaráhrif ef ákvarðanatökuferillinn verður í raun sameiginlegur bæði að því er tekur til efnisatriða og að formi til. Við erum sannfærð um að slíkt fyrirkomulag geti tryggt aðilum hans fullt sjálfsforræði við töku ákvarðana. Stofnanafyrirkomulagið á að tryggja að hvorugur aðili standi frammi fyrir orðnum hlut og viðeigandi þátttöku ríkjanna nítján og framkvæmda­stjórnar EB. Við staðfestum áhuga okkar á að koma á skoðanaskiptum við Evrópu­bandalagið, einnig meðal ráðherra.
     7.      EFTA-ríkin hafa sett fram sameiginlega afstöðu með einum rómi í embættismannaviðræðunum og mun gera slíkt hið sama í samningaviðræðunum. Varðandi stofnanalegt hlutverk EFTA í væntanlegu EES, þá áréttum við þann ásetning okkar í Oslóaryfir­lýsingunni að innviðir EFTA verði styrktir í samræmi við þær lausnir sem fundnar verða sameiginlega á hinum nýja ferli.
     8.      Við áréttum þá ákvörðun EFTA- og EB-ráðherranna 19. desember 1989 að hefja formlegar samningaviðræður á fyrri helmingi ársins 1990 og að leiða þær til lykta eins skjótt og verða má. Við ítrekum það markmið okkar að samningaviðræðunum ljúki á þessu ári og að gildistaka samningsins verði 1. janúar 1993.
     9.      Við leggjum áherslu á mikilvægi áframhaldandi samstarfs á grundvelli Lúxemborgaryfirlýsingarinnar frá 1984 til þess að tryggja áþreifanlegan og skjótan árangur á sumu samvinnusviðum og til að tryggja mikilvægt framlag til samningaviðræðnanna um EES-samninginn.
     10.      Myndun EES er ákaflega mikilvæg fyrir framtíð og framþróun Evrópu. Með því að vinna saman munu EFTA- og EB-ríkin auka hagsæld, félagslega þróun og menningu í Evrópu til hagsbóta fyrir alla íbúa hennar. Sameiginlega eru þau einnig í betri aðstöðu til að kljást við umhverfisvanda og minnka félagslega og efnahagslega mismunun milli svæða.
     11.      Við fögnum mjög þeim ásetningi hinna nýju lýðræðisríkja í Evrópu að koma á fjölflokkakerfi, réttarríki, almennum mannréttindum og markaðsbúskap. Við lýsum yfir vilja okkar til að leggja okkar af mörkum til að treysta þessa þróun í sessi og stuðla að viðreisn á hagkerfum þeirra ríkja sem í hlut eiga. Það er álit okkar að nánari samvinna EFTA og EB innan Evrópsks efnahagssvæðis hafi mikla pólitíska þýðingu fyrir nýskipan Evrópu og muni frekar gera báðum kleift sameiginlega að örva og styðja hin nýju lýðræðisríki í Evrópu.
     12.      Við leggjum ríka áherslu á mikilvægi samstarfsyfirlýsinga milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Ungverjalands, Póllands og Tékkóslóvakíu hins vegar sem varða m.a. við­skipti, efnahagsmál, iðnað, tækni- og vísindasamstarf, ferðamál, flutningamál og um­hverfisvernd. Þessar samstarfsyfirlýsingar og Bergenyfirlýsingin sem gerð var milli EFTA-ríkjanna og Júgóslavíu árið 1983, hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þróun nánari samskipta EFTA-ríkjanna við hlutaðeigandi ríki. Náið samstarf EFTA-ríkja og EB er mikilvægt í þessu sambandi.
     13.      Við bendum á að innan tíðar munu könnunarviðræður milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands hefjast um hugsanlegan fríverslunarsamning. Við erum reiðubúin til að hugleiða viðeigandi aðgerðir varðandi aðra markaði, þar sem viðskiptum ríkja okkar er verulega mismunað.
     14.      Úrúgvæ-viðræðurnar, sem á að ljúka í desember, eru að komast á lokastig. Við áréttum eindreginn vilja okkar til að stuðla að góðum árangri viðræðnanna, sem ætti að skapa greiðari aðgang að mörkuðum, styrkja og endurbæta núverandi reglur og framfylgni við þær, fella undir GATT hin nýju svið viðræðnanna og enn fremur leggja grunninn að öruggari alþjóðaviðskiptum sem reist séu á samningsbundnum réttindum og skyldum. Verulegur árangur á öllum þessum sviðum mun birtast í betri og nútímalegri GATT-reglum, sem sporna gegn verndarhyggju, einhliða aðgerðum og tilhneigingu til að grafa undan hinu lögbundna alþjóðlega viðskiptakerfi. Við leggjum áherslu á hin gagnkvæmu tengsl Úrúgvæ-viðræðnanna og stofnsetningar hins Evrópska efnahags­svæðis, með óhindruð samskipti við önnur ríki.     Viðbætir 7.4


Yfirlýsing ráðherrafundar Evrópubandalagsins,
aðildarríkja þess og ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu
(EFTA) í Brussel 19. desember 1990.

    Ráðherrar aðildarríkja og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og ráðherrar landa Fríverslunarsamtaka Evrópu og Liechtensteins hittust í Brussel 19. desember 1990.
    Fundinum var stjórnað af Gianni De Michelis, utanríkisráðherra Ítalíu og formanni EB-ráðsins, og Jean-Pascal Delamuraz, efnahags- og viðskiptaráðherra Sviss, formanni EFTA-ráðsins. Fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins á fundinum voru Jacques Delors, forseti, og Frans Andriessen, varaforseti hennar. Skrá yfir ráðherra aðildarríkja Evrópubandalaganna og EFTA-landanna, sem fundinn sátu, fylgir hér með. Georg Reisch, aðalframkvæmdastjóri EFTA, sat einnig fundinn.
    Þátttakendur samþykktu sameiginlega yfirlýsingu sem hér fer á eftir:

I.


    Á síðasta sameiginlega fundi þeirra hafði verið gert ráð fyrir pólitískum skoðanaskiptum. Með það í huga var rædd og metin þróun mála í Evrópu frá síðasta fundi og þær samninga­viðræður sem nú fara fram milli Evrópubandalagsins og EFTA- landanna um samning um að koma á Evrópsku efnahagssvæði (EES).
    Þeir tóku sérstaklega fram að frá því að þeir hittust síðast fyrir réttu ári hafa orðið í Evrópu djúpstæðari breytingar en dæmi eru til í manna minnum. Pólitískar og efnahagslegar umbætur í Mið- og Austur-Evrópu og sameining Þýskalands gera það að verkum að nú er í sjónmáli nýtt og varanlegt skeið friðar, lýðræðis, virðingar fyrir mannréttindum, hagsældar og félagslegs réttlætis fyrir alla Evrópubúa innan ramma Helsinkiferilsins.
    Með tilliti til þeirra efnahagserfiðleika sem lönd Mið- og Austur-Evrópu, þ.m.t. Ráð­stjórnarríkin, eiga við að etja, töldu ráðherrar brýnt að auka stuðning við lönd þessi og þjóð­ir. Ráðherrar samþykktu að starfa áfram að því innan 24-landa hópsins sem annars staðar að samræma alla viðleitni til að auka viðskipti og styrkja samstarf við þessi lönd.
    Þeir staðfestu hversu ofarlega þeim væri í huga þau sérstæðu og nánu tengsl sem ríkja milli Evrópubandalagsins, aðildarríkja þess og EFTA-landanna, nágrannaríkja sem um aldir hafa deilt sama gildismati sem Evrópuríki. Þeir lögðu á það áherslu að með EES mundu þessi nánu og sérstöku tengsl taka á sig fasta mynd og leggja drjúgan skerf af mörkum til framtíðarskipulags Evrópu. Í því samhengi lögðu þeir áherslu á mikilvægi framþróunar Evrópubandalagsins í þágu Evrópu allrar.

II.


    Þeir vísuðu til sameiginlegrar yfirlýsingar frá desember 1989 og ítrekuðu staðfastan pólitískan ásetning sinn um að ljúka víðtækum EES-samningi á jafnréttisgrundvelli sem fyrst. Hann ætti að tryggja gagnkvæma hagsmuni samningsaðilanna að svo miklu leyti og sem unnt væri og ná til allra þátta samstarfs þeirra og tryggja jafnvægi í samstarfinu.
    Eftir að hafa hlýtt á skýrslu hvors aðila um sig um samningastöðuna lýstu þeir ánægju með þann verulega árangur sem náðst hefur frá því að samningaviðræðum um EES var hleypt af stokkunum 20. júní 1990. Þeir fögnuðu því hversu dregið hefði saman með samningsaðil­um um fjölmarga mikilvæga þætti. Þeir viðurkenndu einnig að varðandi önnur mikilvæg at­riði hefði samningaviðræðum ekki miðað nægilega áfram og frekari starfs væri þörf. Þeir tóku fram að lokasamþykki hlyti að byggjast á því að viðunandi lausn fengist á öllum atrið­um samningsins, jafnt efnisatriðum sem stofnanahliðum. Einnig þyrfti að tryggja heildarjafn­vægi réttinda og skyldna innan samningsins.
    Þeir lýstu yfir ánægju með að tekist hefur að mestu að afmarka sameiginlega hvaða reglu­gerðir Evrópubandalagsins eigi að fella inn í EES-samninginn sem sameiginlegan réttar­grundvöll fyrir frjáls vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutninga og atvinnu- og búseturéttindi. Auk viðeigandi innihalds Rómarsáttmálans eru tilgreindir réttargjörningar alls um 1400 talsins. Enn er starf óunnið við að ljúka afmörkun viðeigandi samþykkta á tilteknum sviðum. Þeir hvöttu samningamenn sína til að leita lausna varðandi þau svið sem enn bíða úrlausnar.
    Lögð var áhersla á nauðsyn þess að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði um allt EES. Til þess að ná þessu markmiði ætti að leggja viðeigandi greinar Rómarsáttmálans til grundvallar sam­keppnisreglum innan EES og beiting þeirra ætti að tryggja í reynd sama árangur um allt EES. Ráðherrar tóku fram að samningamenn ynnu nú á þeim grundvelli að sett yrði upp sjálfstæð EFTA-stofnun til að beita samkeppnisreglum. Slík stofnun ætti að hafa samsvarandi umboð og hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins. Sérstaklega verður að semja um það hvernig beri að skilgreina hlutverk hvorrar stofnunar um sig, hvernig skipuleggja eigi sam­starf þeirra sem og hlutverk úrskurðaraðila.
    Varðandi þau vandkvæði sem upp hafa komið varðandi framkvæmd samþykkta Evrópu­bandalagsins lögðu þeir áherslu á það að stefnt yrði að því samræma tryggar og strangar verndarkröfur á sviði heilbrigðis-, öryggis- og umhverfisverndar og frjáls vöruviðskipti. Þeir hvöttu samningamenn til þess að leita viðeigandi og raunhæfra lausna með því að taka hvert mál fyrir sérstaklega.
    Enn fremur lögðu þeir áherslu á nauðsyn þess að ná frekari árangri á sviði flutninga, atvinnu- og búseturéttinda og fjármagnsflutninga; þeir tóku þó til þess að afstaða EFTA-landanna hefði þróast varðandi mögulega niðurfellingu beiðna um varanlegar undanþágur og tóku einnig fram að tvíhliða samningaviðræður stæðu nú yfir varðandi gegnumflutninga.
    Þeir tóku jafnframt fram að verulegur árangur hefði náðst um öryggisákvæði og samn­ingamenn ynnu nú á þeim grundvelli að helstu einkenni slíkra öryggisákvæða ættu að vera eftirtalin: þeim yrði beitt samkvæmt einhliða ákvörðun en eftir að aðgerðir hafa verið til­kynntar og ræddar með það fyrir augum að finna sameiginlega viðunandi lausn. Aðgerðir á grundvelli öryggisákvæða ættu að vera í samræmi við tilefni þeirra og raska samningi sem minnst. Þær ættu að vera undir eftirliti og heyra undir dómstóla og mögulegt yrði að grípa til viðeigandi gagnaðgerða til að ná aftur jafnvægi samkvæmt svipuðum leiðum. Þeir hvöttu samningamenn til að vinna rösklega að þessum málum.
    Þeir tóku fram að á tilteknum sviðum, sem hefðu úrslitaþýðingu fyrir heildarjafnvægi samningsins sem og til þess að tryggja allsherjarjafnvægi milli þess sem hver aðili bæri úr býtum, ættu samningaviðræður enn langt í land. Einkum átti þetta við um sjávarútveg. Einnig þyrfti að ná frekari árangri í landbúnaði.
    Varðandi samstarf utan hins fjórþætta frelsis (jaðarverkefni) lögðu þeir áherslu á það að EES-samningur ætti að leggja traustan réttargrunn fyrir víðtækt og kraftmikið samstarf. Einnig ætti hann að stuðla að þróun starfsemi í beggja þágu. Ráherrar lögðu áherslu á það sameiginlega markmið að halda við, vernda og bæta umhverfið.
    Þeir voru ásáttir um það að samningum skyldi haldið áfram af fullum krafti til að kanna aðferðir og leiðir sem gætu dugað til þess að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða innan EES til þess að tryggja allsherjarjafnvægi milli þess sem hver samnings­aðili bæri úr býtum.
    Atriði á borð við stál, orku og undirboðsreglur, upprunareglur krefjast nánari athugunar.
    Þeir tóku fram að umtalsverður árangur hefði nú náðst varðandi laga- og stofnanaatriði en minntu á að virða þyrfti að fullu sjálfræði hlutaðeigandi aðila við ákvarðanatöku og að sjá þyrfti fyrir því að sjónarmið þeirra yrðu tekin til greina til þess að auðvelda samkomulag við ákvarðanir varðandi EES.
    Samþykkt var að sérfræðingar frá samningsaðilum ættu að fá sömu tækifæri til að leggja sitt af mörkum við undirbúning tillagna EB um nýja löggjöf um EES-málefni. Samnings­aðilarnir munu með því að skiptast stöðugt á upplýsingum og ráða ráðum sínum við mótun ákvarðana gera sitt ítrasta til að komast að sameiginlegri niðurstöðu eftir að málefni hefur verið skilgreint sem EES-málefni. Við mótun ákvarðana verður þeim kleift að taka upp hvað það sem veldur áhyggjum hvenær sem er og á hvaða stigi sem er án þess að valda viðbótartöfum (droit d'évocation - upptökuréttur). Ákvarðanir á EES-stigi yrðu teknar sam­hljóða, EFTA-löndin mundu tala einum rómi. Þær yrðu í formi þjóðarréttarreglu, ekki er þörf á því að flytja löggjafarvald til EES. Allir samningsaðilar ættu að framkvæma EES-reglur þannig að þær komist í raun til framkvæmda á sama tíma um allt EES, til þess að tryggja fullt samræmi innan svæðisins. Frekar verður samið um það hvernig bregðast eigi við því ef ekki verður hægt að ná samkomulagi um nýjar EES- reglur.
    Þeir lögðu enn fremur áherslu á nauðsyn fulls réttarsamræmis EES-reglna til þess að tryggja að einstaklingar og aðilar atvinnulífsins gætu notið um allt EES-reglna sem skiluðu sama réttarárangri, gætu starfað við sömu skilyrði og notið sömu kjara. Þeir lögðu sérstaka áherslu á það að til þess að ná þessu markmiði hefði það úrslitaþýðingu að tryggja jafnsterkt og áreiðanlegt eftirlit og fullnustu reglna um allt EES með skilvirku EES- eftirlitskerfi og EES-úrskurðaraðila.
    Stofnanafyrirkomulag um ákvarðanatöku mun ná til:
    EES-ráð en í því munu sitja meðlimir EB ráðsins, meðlimir framkvæmdastjórnar EB og ráðherrar EFTA-landa, mun einkum:
          Fara með almenna pólitíska stefnumótun og frumkvæði;
          leggja heildarmat á framkvæmd og þróun samningsins, þar á meðal ef nauðsynlegt reynist að taka upp sérstaklega mál sem veldur áhyggjum (droit d'évocation -upptökuréttur);
          taka pólitískar ákvarðanir sem gætu leitt af sér breytingar á EES-samningnum.
          Sameiginleg EES-stofnun mun fara með framkvæmd og rekstur samningsins þar á meðal með ákvarðanir varðandi EES. Þær yrðu teknar samhljóða af EB annars vegar og EFTA-löndunum, með einum rómi, hins vegar.
    Þeir töldu brýnt að samningamenn sínir gengju frá útistandandi atriðum varðandi víðtækt samkomulag um fyrirkomulag EES-ákvæðanna. Tekið verður tillit til verkefna sem EB-nefndir sinna.
    Ráðherrar létu í ljósi þá ósk að EES-samningurinn gæti gengið í gildi 1. janúar 1993. Í ljósi þess að fullgilda þarf samninginn töldu þeir að allt yrði að reyna til þess að undirrita EES-samninginn fyrir sumarið 1991. Þeir gáfu samningamönnum þau fyrirmæli að herða samningaviðræður til að svo mætti verða.Viðbætir 7.5


Yfirlýsing ráðherrafundar Evrópubandalagsins,
aðildarríkja þess og ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu
í Brussel 13. maí 1991.

     1.      Ráðherrar aðildarríkja og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins og ráðherrar ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Liechtensteins komu saman til fundar í Brussel 13. maí 1991.
     2.      Af hálfu Evrópubandalagsins var fundi stýrt af Jacques Poos, utanríkisráðherra Lúxemborgar og formanni EB-ráðsins, en af hálfu EFTA-landanna af Wolfgang Schüssel, efnahagsmálaráðherra Austurríkis og formanni EFTA-ráðsins. Fulltrúi framkvæmda­stjórnar Evrópubandalagsins á fundinum var Frans Andriessen, varaforseti hennar. Skrá yfir ráðherrra sem fundinn sátu fylgir. Georg Reisch, aðalframkvæmdastjóri EFTA, sat einnig fundinn.
2.a    Ráðherrar staðfestu þann ásetning sinn að leiða til lykta viðræður um víðtækan EES-samning á jafnréttisgrundvelli fyrir sumar, sem skyldi tryggja gagnkvæma hags­muni samningsaðilanna til hins ítrasta en ná jafnframt til allra þátta samstarfs þeirra og tryggja jafnvægi þess.
     3.      Eftir að hvor aðili um sig hafði gefið skýrslu um samningsstöðuna lýstu þeir ánægju með þann verulega árangur sem náðst hefur í samningaviðræðunum frá því að þeir hittust síðast í desember 1990.
     4.      Þeir tóku fram að samkomulag hefði náðst um fjölmarga mikilvæga þætti EES-samnings og komust að þeirri niðurstöðu að leiðir virtust færar til úrlausnar á þeim atriðum sem enn væru eftir. Þeir minntu á að lokasamningur hlyti að byggjast á því að viðunandi lausn fyrir samningsaðila fengist á öllum þeim sviðum sem viðræðurnar ná til, jafnt varðandi efnisatriði sem stofnanahliðar. Einnig þyrfti að tryggja heildarjafnvægi ábata, réttinda og skyldna. Þeir hvöttu samningamenn sína til að draga ekki af sér í leitinni að leiðum til lausnar þeirra mála sem enn eru ófrágengin.
     5.      Með vísan til þeirra atriða sem talin eru upp í sameiginlegri yfirlýsingu 19. desember 1990 minntust þeir á eftirfarandi atriði þar sem þróun hefur átt sér stað.
     6.      Þeir fögnuðu þeim árangri sem náðst hefur við skilgreiningu lausnar á rekstrarvanda kerfis sem tryggt gæti jöfn samkeppnisskilyrði um allt EES, þar með talið að því er varðar ríkisstyrki. Þeir tóku fram að dregið hefði saman með samningsaðilum við að skilgreina í meginatriðum verkaskiptingu og samstarf milli framkvæmdastjórnar EB annars vegar og sjálfstæðrar EFTA-stofnunar sem hefði samsvarandi umboð og svipað hlutverk og framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hins vegar. Þeir hvöttu samn­ingamenn sína til að leiða samninga til lykta eins fljótt og auðið yrði þar með talið um nánari útfærslu þess hvernig skipta mætti málum milli stofnananna tveggja sem og um hlutverk dómstóls.
     7.      Þátttakendur fögnuðu því að samkomulag hefði náðst um raunhæfar lausnir sem tryggðu jafnt örugga vernd á sviði heilbrigðis-, öryggis- og umhverfismála samhliða fríverslun. Þetta mun tryggja að þorri viðeigandi samþykkta Evrópubandalagsins kemur að fullu til framkvæmda innan EFTA-landa frá 1. janúar 1993. Á tilteknum öðrum sviðum verður hindrunum aflétt innan EES frá 1. janúar 1993 á grundvelli samþykkta Evrópu­bandalagsins þótt löggjöf einstakra EFTA-landa geti gilt á aðlögunartíma. Samkomulag náðist um að aflétta hindrunum í viðskiptum með vélknúin ökutæki frá 1. 1. 1995 á grundvelli samþykkta Evrópubandalagsins. EFTA- lönd geta þó haldið eigin löggjöf þar til lagðar hafa verið fram nýjar bandalagsreglur sem farið verður með samkvæmt því verklagi sem tilgreint verður í samningnum. Fyrir vissar afurðir (þ.e. áburð sem inniheldur kadmíum, CFC, Halons) hefur verið samþykkt ótímabundið aðlögunartímabil sem tekið verður til endurskoðunar 1995. Þau svið sem enn bíða úrlausnar varða nú aðeins hættuleg efni, tilbúin efni og lausnir og meindýraeitur. Samningamenn eru hvattir til þess að starfa enn að lausn þessara mála.
     8.      Að því er varðar önnur atriði vöruviðskipta tóku þátttakendur fram að góður árangur hefði náðst um opinber útboð, skaðsemisábyrgð, prófanir, vottorð og EB-merki, svo og hugverkaréttindi. Samningurinn mun fela í sér aukið samstarf í tollamálum og bættar og einfaldaðar upprunareglur. Innan ramma samningsins verður unnið að frekari umbótum.
     9.      Enn fremur var því gefinn gaumur að sá árangur hefði náðst að báðir aðilar samþykkja að stál skuli falla undir EES-samninginn að svo miklu leyti sem ákvæði tvíhliða fríverslunarsamninganna um vörur Kola- og stálbandalagsins gilda ekki, en þau ákvæði verða áfram í fullu gildi. Frekari árangur hefur náðst á orkusviðinu þar sem samkomulag er um að samningurinn skuli taka til hluta af samþykktum Evrópubandalagsins. Ræða þarf frekar þær samþykktir Evrópubandalagsins sem kveða á um framboðsörðugleika.
     10.      Þeir fögnuðu enn fremur því samkomulagi sem náðst hefur í tengslum við hindrunarlausa fjármagnsflutninga og þjónustuviðskipti. EFTA-löndin munu taka upp viðeigandi samþykktir Evrópubandalagsins frá 1. janúar 1993, með þeim undantekningum þó að um vissa þætti munu gilda aðlögunartímabil. Þau EFTA-ríki sem í hlut eiga munu beita núgildandi löggjöf sinni um fjármagnsflutninga frjálslega á aðlögunartíma. Athuga verður nánar útvarpstilskipun Evrópubandalagsins. Enn fremur fögnuðu þeir samkomu­lagi sem náðst hefur um drög að samstarfi á sviði efnahags- og gjaldeyrismála.
     11.      Þeir tóku fram að frekari árangur hefur náðst á flutningasviðinu, sem skiptir höfuðmáli innan EES vegna tengsla við frjáls vöru- og þjónustuviðskipti. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að finna þyrfti víðtæka lausn um flutninga. Þeir hvöttu samningamenn sína til að ljúka þeim tvíhliða viðræðum sem nú eiga sér stað um gegnumflutninga sem fyrst og hafa í huga sérstök hagsmunamál nokkurra jaðarsvæða EES.
     12.      Enn er starf óunnið varðandi búsetu- og atvinnuréttindi.
     13.      Þeir tóku fram að samkomulag hefði náðst um það að á nokkrum sviðum almenns eðlis þar sem samþykktir bandalagsins verða teknar upp af EFTA-löndunum (félagaréttur, félagsmálastefna, umhverfisstefna) munu almennt gilda aðlögunartímabil í allt að tvö ár.
        Þeir fögnuðu því samkomulagi sem náðst hefur til að styrkja og breikka samstarf utan hins fjórþætta frelsis (jaðarverkefni) innan ramma starfsemi Evrópubandalagsins, t.d. á sviði rannsókna og þróunar, þar með talin upplýsingaþjónusta, umhverfismála, mennt­unarmála, þjálfunar og æskulýðsmála, félagsmálastefnu, neytendaverndar, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, ferðamála og sjónvarps, að svo miklu leyti sem þessi málefni falla ekki undir aðra hluta samningsins. Þeir tóku fram að nú hefði verulega dregið úr ágreiningi um þá þætti sem ættu að verða hluti af EES-samningi til þess að tryggja traustan lagagrundvöll fyrir víðtækt og kraftmikið samstarf.
             Þeir hvöttu samningamenn sína til að starfa enn að lausn þeirra örfáu mála sem enn bíða úrlausnar.
     14.      Þátttakendur gáfu gaum þeim árangri sem náðst hefur á landbúnaðarsviðinu. Þeir staðfestu þann ásetning sinn að draga úr hömlum á viðskiptum með landbúnaðarafurðir inn­an EES í samræmi við landbúnaðarstefnu hvers lands fyrir sig. Sérstakt þróunarákvæði verður hluti af EES-samningnum. Enn fremur munu EFTA-löndin afnema eða draga úr innflutningsgjöldum frá 1. 1. 1993 á afurðum sem skipta miður þróuð svæði innan Evrópubandalagsins sérstöku máli. Sérstaklega verður unnið að því marki að afnema viðskiptahindranir af völdum reglugerða um heilbrigði dýra og jurta. Að því er hið síðastnefnda varðar munu EFTA-löndin taka upp að svo miklu leyti sem unnt er sam­þykktir Evrópubandalagsins. Enn fremur verða gerðar raunhæfar ráðstafanir frá 1. 1. 1993 í formi gagnkvæmra tvíhliða samninga milli Evrópubandalagsins og EFTA-land­anna innan EES-ramma. Loks verður greitt fyrir viðskiptum með unnar landbúnaðar­afurðir. Þeir samþykktu að halda yrði áfram samningaviðræðum um þessa þætti og leiða þær til lykta sem fyrst með tilliti til þess hversu þungt landbúnaðargeirinn vegur við að tryggja jafnvægi í samningnum en einnig sem þáttur í því að draga úr svæðisbundnu, félagslegu og efnahagslegu misræmi.
     15.      Þeir minntu á að sjávarútvegur væri jafnmikilvægur þáttur EES-samnings og lögðu á það áherslu að brýnt væri að herða róðurinn við samningaviðræður til þess að ná fram lausn sem gæti sameinað á viðunandi hátt hagsmuni beggja hliða fyrir lok samninga­viðræðnanna.
        Að því er sjávarútveg varðar vísa ráðherrar sérstaklega til fjórðu greinar þessarar yfir­lýsingar þar sem sagt er að lokasamkomulag fari eftir því hvort lausn fáist um alla þætti samningaviðræðnanna sem sé viðunandi fyrir hvern um sig; að lokum verður að nást heildarjafnvægi ábata, réttinda og skyldna fyrir sérhvern samningsaðila.
     16.      Brýnt er enn fremur að vinna að því að finna leiðir til að ná því mikilvæga markmiði að draga úr svæðisbundnu efnahagslegu og félagslegu misræmi. Þetta markmið er nauðsyn­legt til þess að ná viðunandi jafnvægi í EES-samningi. Þeir tóku til þess að Evrópu­bandalagið hefur lagt fram beiðni um að sett verði á stofn fjárhagsstofnun sem muni beita sér á viðeigandi hátt til þess að ná þessu markmiði og til þess að EFTA-löndin eru reiðubúin að athuga þetta. Ganga þarf nú frá framkvæmdaratriðum.
     17.      Laga- og stofnanahliðar ítrekuðu þátttakendur þær meginreglur sem settar voru fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá 19. desember 1990. Þeir töldu að starfhæfar stofnanalausn­ir þyrftu að nást til að ná sem mestu réttarsamræmi innan Evrópsks efnahagssvæðis án þess þó að stefna í voða hvorki sjálfræði samningsaðila við ákvarðanatöku, sam­einingarferli Evrópubandalagsins né séreðli EB löggjafar. Hafandi þetta í huga tóku þeir sérstaklega fyrir eftirfarandi atriði:
     18.      Þeir voru sammála um nauðsyn þess að samningurinn skyldi hafa að geyma almennt öryggisákvæði sem hægt væri að beita í hvert skipti sem alvarleg efnahagsleg, þjóð­félags- og/eða umhverfisvandamál í atvinnugrein eða í héraði væru að koma upp. Samn­ingsaðilar gætu með einhliða yfirlýsingum sem milliríkja ráðstefna bókaði, komið á framfæri því sem þau vildu um mögulega beitingu þessa almenna öryggisákvæðis. Þeir staðfestu einnig þau atriði varðandi þetta sem tekin voru fram í sameiginlegu yfirlýs­ingunni frá 19. desember 1990.
     19.      Þeir lögðu einnig áherslu á mikilvægi þess að tryggja hið fyllsta réttarsamræmi. Til þess að ná því markmiði þyrfti að þróa á þeim sviðum sem snertu evrópskt efnahagssvæði stöðugt ferli upplýsingaskipta og samráðs samhliða löggjafarferli Evrópubandalagsins. Enn fremur þyrfti að gefa sérfræðingum EFTA-landanna kost á því að eiga hlut að máli að svo miklu leyti sem hægt er og eftir því hvaða svið er til umfjöllunar við vinnslu tillagna framkvæmdastjórnar til nefnda EB. Í þessu samhengi tóku þeir fram að þegar framkvæmdastjórn undirbýr tillögur sínar mun hún leita til sérfræðinga EFTA-landanna á sama hátt og til sérfræðinga aðildarríkjanna. Einnig tóku þeir fram að hægt væri að ræða raunhæfar lausnir fyrir tiltekin sérstök vandamál og enn fremur að staða EFTA-landanna í nefndum sem varða jaðarverkefni mundi að fullu mótast af mögulegri fjárhagslegri þátttöku þeirra í viðeigandi verkefnum. 1
     20.      Þeir minntu á að ákvarðanir í Evrópsku efnahagssvæði væru teknar samhljóða af Evrópubandalaginu annars vegar og EFTA-löndunum með einum rómi hins vegar og minntu á að kæmu upp alvarleg og umfangsmikil vandkvæði á þeim sviðum sem heyra undir þjóðþing EFTA-landanna þá yrðu þau vandkvæði tekin til athugunar af sameigin­legu nefndinni. Hún mundi fyrst af öllu reyna að finna viðunandi lausn fyrir báða aðila sem gerði það kleift að halda öllum samningnum í gildi án þess þó að útiloka þann möguleika að grípa síðar, gerðist þess þörf, til almenns öryggisákvæðis og gagnaðgerða í réttu hlutfalli.
     21.      Þátttakendur lögðu áherslu á nauðsyn þess að koma á innan evrópsks efnahagssvæðis skilvirku eftirlitskerfi sem framkvæmdastjórn annaðist annars vegar en af hálfu EFTA-stofnun sem starfaði á svipaðan hátt hins vegar. Þar þyrfti einnig sjálfstæður úr-skurðaraðili að koma til.
     22.      Að því er varðar sjálfstæðan úrskurðaraðila verður að taka tillit til eftirfarandi meginreglna:
        —     Tilnefndir verða sjö dómarar frá EFTA-löndunum;
        —    settur verður á fót sjálfstæður EES-dómstóll en í honum munu sitja fimm dómarar frá Evrópudómstólnum og þrír af EFTA-dómurunum sjö. Hann mundi starfa innan Evrópubandalagsdómstólsins og hafa umboð til að kveða upp úrskurði:
        —    varðandi lausn deilumála, (þ.m.t., þegar við á, túlkun EES-reglna) samkvæmt beiðni sameiginlegu nefndarinnar eða samningsaðilanna
         —     varðandi deilur milli eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-lands
         —    varðandi mál sem fyrirtæki eða ríki taka upp gegn ákvörðunum EFTA-stofnunar á sviði samkeppni (þ.m.t. varðandi ríkisstyrki),
         —    styrkja verður réttarsamræmi innan EES með því að gera EFTA-löndum kleift að koma fyrir Evrópudómstólinn og með því að koma á verklagi svipuðu því sem starfrækt er á grundvelli Lúganósamningsins.
     23.      Þeir tóku fram að aðildarríki EFTA væru reiðubúin til þess að setja ákvæði í landslög sín í þá veru að reglur samningsins um Evrópskt efnahagssvæði skuli hafa forgang í þeim tilfellum sem þær rekast á við önnur ákvæði landslaga þeirra.Viðbætir 7.6


Yfirlýsing ráðherra Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA)


í Genf 10.–11. desember 1991.

     1.      Ráðherrar EFTA-ríkjanna komu til fundar í Genf 10.–11. desember 1991. Fundinum stýrði Pertti Salolainen, utanríkisviðskiptaráðherra Finnlands.
     2.      Ráðherrarnir minntu á að samningaviðræðunum um stofnun Evrópska efnahagssvæðisins (EES) hafi lokið 21./22. október í Lúxemborg. EES markar nýtt og krefjandi tímabil í samskiptum EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins. Vegna þess hvað samn­ingurinn er víðtækur felur hann í sér fjölbreytt tækifæri og ávinninga fyrir öll nítján EFTA- og EB-ríkin og þegna þeirra.
     3.      EES gerir öllum EFTA-ríkjunum kleift að taka þátt í innri markaðinum frá upphafi. Óhindruð vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjármagnsflutningar og atvinnu- og búsetu­réttindi, auk styrkara og víðtækara samstarfs að jaðarmálefnum, mun ekki einungis stuðla að jákvæðu framlagi til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar, verndunar um­hverfisins og hagsældar heldur einnig hlynna að samskiptum Evrópubúa og þannig efla evrópska samkennd.
     4.      Ráðherrarnir gerðu ráð fyrir að upplýsingaskiptum innan EB varðandi ákveðna lagaþætti EES-samningsins yrði lokið eins fljótt og mögulegt væri þannig að hægt yrði að undirrita samninginn fljótlega, eins og frá honum var gengið með samkomulagi ráðherra í Lúxemborg, og að hann geti öðlast gildi 1. janúar 1993.
     5.      Ráðherrarnir voru fullvissir um að eftir undirskrift EES-samningsins muni allir aðilar hans gera allt sem í þeirra valdi stendur til að staðfesta hann í tíma þannig að hann taki gildi samtímis innri markaði EB. Þeir lögðu áherslu á mikilvægi þess að fullnægjandi skipulagi yrði komið á fót við gildistöku EES-samnings þannig að hann kæmi strax þá til fullra framkvæmda.
     6.      Ráðherrarnir fengu skýrslu frá skipulagsnefnd EFTA um stjórnunarlegt fyrirkomulag milli EFTA-ríkjanna vegna undirbúnings framkvæmdar á EES-samningnum og veittu athygli því samkomulagi sem náðst hefði. Ráðherrarnir samþykktu að stofnsetja undir­búningsnefnd með það hlutverk að koma á fót eftirlitsnefnd EFTA og samþykktu einnig að stofnsetja bráðabirgðafastanefnd EFTA.
     7.      Ráðherrarnir fögnuðu sögulegri ákvörðun EB-ráðsins í Maastricht um efnahags-, gjaldmiðils- og stjórnmálalega samvinnu EB. Ráðherrarnir voru sannfærðir um að þessi ákvörðun væri afar mikilvæg fyrir áframhaldandi nánari Evrópusamvinnu og mundi auð­velda samskipti milli EFTA-ríkjanna og EB á grundvelli EES-samningsins.
     8.      Ráðherrarnir lögðu áherslu á stjórnmálalega þýðingu EES sem mikilvægs þáttar í nýskipan Evrópu og sem jákvæðs þáttar í aðlögun nýrra lýðræðisríkja Austur- og Mið-Evrópu að evrópsku skipulagi.
     9.      Ráðherrarnir töldu að EFTA-ríkin hafi miklu hlutverki að gegna í samvinnu Evrópuríkja og í eflingu fríverslunar. Í þessu samhengi veittu þeir athygli áhuga ýmissa þriðju ríkja á að koma á eða auka samvinnu við EFTA-ríkin og við að koma á nýjum tengslum við EFTA.
     10.      Ráðherrarnir fögnuðu undirritun fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands 10. desember, sem búist er við að taki gildi 1. apríl 1992. Þessi samningur mun hafa í för með sér að viðskipti EFTA-ríkjanna við Tyrkland munu njóta sömu ívilnana og eru milli Tyrklands og EB.
     11.      Ráðherrarnir veittu því athygli að verulegur árangur hafði náðst í samningaviðræðum EFTA-ríkjanna og Ungverjalands, Póllands og Tékkóslóvakíu um fríverslunarsamninga og lögðu áherslu á að þeim lyki fljótlega þannig að samningarnir mundu öðlast gildi á fyrri hluta ársins 1992. Ráðherrarnir töldu að þessir samningar ásamt samstarfssamn­ingunum sem EB hefur gert við sömu ríki væri mikilvægt framlag til frekari umbreyt­ingaferils þessara ríkja til frjáls hagkerfis og mundi auðvelda þátttöku þeirra í víðtækara fríverslunarskipulagi.
     12.      Ráðherrarnir fögnuðu endurheimtu sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litáen og samstarfsyfirlýsingum milli EFTA-ríkjanna og þessara þriggja ríkja, sem undirritaðar voru 10. desember.
     13.      Ráðherrarnir fögnuðu einnig samstarfsyfirlýsingum milli EFTA-ríkjanna og Búlgaríu og Rúmeníu, sem undirritaðar voru 10. desember.
     14.      Samstarf á grundvelli allra þessara yfirlýsinga mun vera til viðbótar við aðstoð einstakra EFTA-ríkja bæði tvíhliða og í 24 ríkja hópnum og mun stuðla að þróun í þessum ríkjum í átt að frjálsu hagkerfi og því hagkerfi, sem ríkjandi er í Evrópu og annars staðar.
     15.      Ráðherrarnir áréttuðu ákvörðun EFTA-ráðsins um að hætta samvinnu við Júgóslavíu. Þeir töldu átökin í Júgóslavíu mikla ógæfu fyrir íbúa landsins. Virða yrði Genfarsátt­málann og viðauka hans og hernaðarátökum yrði strax að linna. Eyðileggingu sameigin­legrar menningararfleifðar, sérstaklega í Dubrovnik, yrði að stöðva. Ráðherrarnir fólu EFTA-ráði embættismanna að kanna möguleika á að aðstoða þá aðila, sem hafa lagt sig fram við að finna yfirgripsmikla stjórnmálalega og friðsæla lausn mála.
     16.      Ráðherrarnir lögðu áherslu á nauðsyn þess að koma á hagstæðum viðskiptaskilyrðum milli EFTA-ríkjanna og Ísraels og það að ljúka samningaviðræðunum fljótt þannig að EFTA-ríkin njóti sömu samkeppnisskilyrða og aðalviðskiptaaðilar Ísraela.
     17.      Ráðherrarnir lýstu yfir áframhaldandi áhuga sínum á að kanna möguleika á fríverslunarviðræðum við aðildarríki Persaflóasamvinnuráðsins.
     18.      Ráðherrarnir áttu fund með þingmannanefnd EFTA og veittu athygli skýrslum um undirbúningsstarf hennar og hliðstæðrar nefndar Evrópuþingsins um framtíðarsamvinnu þeirra í sameiginlegri þingmannanefnd EES. Þeir fögnuðu hinni auknu samvinnu milli þingmannanefndar EFTA og þingmanna frá Ungverjalandi, Póllandi og Tékkóslóvakíu.
     19.      Ráðherrarnir fögnuðu undirbúningsstarfi ráðgjafarnefndar EFTA og efnahags- og félagsmálanefndar EB varðandi framtíðarsamvinnu þeirra innan ráðgjafarnefndar EES. Þeir veittu einnig framlagi ráðgjafarnefndarinnar athygli varðandi samvinnu við sam­starfsaðila þeirra í Mið- og Austur-Evrópu, þ.m.t. við Eystrasaltsríkin.
     20.      Ráðherrarnir áréttuðu stuðning sinn við jákvæðar niðurstöður Úrúgvæ-viðræðnanna fyrir lok ársins 1991. Þeir staðfestu stuðning sinn við að koma á fót réttlátum og skýrum reglum fyrir alþjóðaviðskipti. Niðurstaða viðræðnanna, sem er í sjónmáli, er víðtæk og yfirgripsmikil. Það mætti ekki missa af þessu tækifæri til að koma á fót kerfi til þess að eiga fyrirsjáanleg viðskipti og efnahagslega samvinnu fram á næstu öld.
     21.      Ráðherrarnir veittu með ánægju athygli á að í framhaldi af frumkvæði EFTA-ríkjanna hafi GATT ákveðið að hefja virka athugun á tengslum viðskipta og umhverfismála.
     22.      Næsti ráðherrafundur verður haldinn 20.–21. maí 1992 í Reykjavík.Viðbætir 8


Leiðréttingar á íslenskum texta EES-samningsins.

Eftirfarandi lagfæringar hafa verið gerðar á íslensku meginmáls EES-samningsins frá því að hann var undirritaður í Óportó 2. maí síðastliðinn. Verið er að leita staðfestingar annarra samningsaðila á þessum lagfæringum.
    2. lína c-liðar 2. gr. „eða annaðhvort bandalagið“ verður „eða bandalagið“
    2. lína 7. gr. „ teknar upp í landsrétti“ verður „teknar upp í landsrétt“
    2. lína 2. mgr. 9. gr. „Samningsaðilar skulu áfram“ verður „Samningsaðilar munu áfram“
    1. lína 3. mgr. 19. gr. „sjá um að fram fari endurskoðun“ verður „framkvæma endurskoð­un“
    3. lína 4. mgr. 19. gr. „á grundvelli fríðindaréttinda“ verður „ á grundvelli fríðinda“
    1. lína 2. mgr. 21. gr. „að tryggja rétta framkvæmd“ verður „að tryggja rétta beitingu“
    1. lína 29. gr. talan 1. fellur niður
    1. lína 2. mgr. 45. gr. „neinna verndarráðstafana“ verður „neinna ráðstafana“
    2. lína 41. gr. „samkvæmt ákvæðum“ verður „innan ramma ákvæða“
    3. lína 58. gr. „lögbær yfirvöld“ verður „þar til bær yfirvöld“
    1. lína b-liðar 2. mgr. 61. gr. „.“ verður „;“
    1. lína a-liðar 1. mgr. 62. gr. „framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins“ verður „fram­kvæmdastjórn EB“
    fimmti undirliður 80. gr. „svipuðum reglum“ verður „svipuðum ákvæðum“
    1. lína 1. mgr. 89. gr. „pólitískur aflvaki“ verður „stjórnmálalegur aflvaki“
    1. lína 3. mgr. 91. gr. „Fyrsta endurskoðun skal fara fram“ verður „Fyrsta endurskoðun fer fram“
    2. lína 1. mgr. 99. gr. „leita óformlega ráða“ verður „óformlega leita ráða“
    3. lína 4. mgr. 102. gr. „meðal annars möguleika á viðurkenningu á sambærilegri löggjöf“ verður „meðal annars að viðurkenna að löggjöf sé sambærileg“
    5. lína 1. mgr. 102. gr. „réttargerð“ verður „réttarheimild“
    1. lína c-liðar 106. gr. „lögbærra yfirvalda“ verður „þar til bærra yfirvalda“
    2. lína 107. gr. „að ákveða túlkun EES-reglna“ verður „að taka ákvörðun um túlkun
    EES-reglu“
    1. lína 2. mgr. 108. gr. „:“ verður „.“
    3. lína annarrar undirgreinar 110. gr. „að gengið hafi verið úr skugga um að ákvörðun hafi verið tekin af þar til bæru yfirvaldi“ verður „að það að ákvörðun hafi verið tekin af þar til bærum aðila sé staðfest að því yfirvaldi“
    3. lína þriðju undirgreinar 110. gr. „lögbært yfirvald“ verður „þar til bært yfirvald“
    5. lína fjórðu undirgreinar 110. gr. „að ekki sé staðið rétt að fullnustunni“ verður „að ekki sé staðið að fullnustunni með eðlilegum hætti“
    3. lína 3. mgr. 111. gr. „hafi málið ekki verið leyst“ verður „hafi deilumálið ekki verið leyst“
    fyrsti undirliður 3. mgr. 111. gr. „og málsmeðferð 113. gr.“ verður „og fylgt þá málsmeð­ferð 113. gr.“
    2. lína 4. mgr. 111. gr. „eða umfang jöfnunarráðstafana“ verður „eða jafngildi jöfnunar­ráðstafana“
    1. lína 1. mgr. 112. gr. „Ef upp koma“ verður „Ef upp eru að koma“
    4. og 5. lína 115. gr. „og bókanir er tengjast honum, að meðtöldum tilteknum ráðstöfun­um“ verður „og bókunum er tengjast honum, að meðtöldum tilteknum þeirra ráðstafana“
    1. lína 1. mgr. 128. gr. „að gerast“ verður „að sækja um að gerast“
    1. lína annarrar undirgreinar 2. mgr. 129. gr. „Honum skal komið“ verður „Samningnum skal komið“
    1. lína þriðju undirgreinar 3. mgr. 129. gr. „Oporto“ verður „Óportó“

     1     Í efnisyfirliti EES-deildarinnar yrði einnig vísað til þess hvar umræddar upplýsingar varðandi Evrópubandalagið og aðildarríki þess væri að finna.
     1     Fjárhagsreglugerð frá 21. desember 1977 sem gildir um fárlög Evrópubandalaganna (Stjtíð. EB nr. L 356, 31.12.1977, bls. 1), eins og henni var breytt með reglugerð ráðsins nr. 610 frá 13. mars 1990 (Stjtíð. EB nr. L 70, 16.3.1990, bls. 1), hér eftir nefnd fjárhagsreglugerðin.
     2     Þessi „yfirlit“ gætu í raun verið í formi „viðauka“, að því tilskildu að hann verði óaðskiljanlegur hluti fjárlaga, bæði í framsetningu og framkvæmd.
     1     Fjárhagsreglugerð frá 21. desember 1977 sem gildir um fárlög Evrópubandalaganna (Stjtíð. EB nr. L 356, 31.12.1977, bls. 1), eins og henni var breytt með reglugerð ráðsins nr. 610 frá 13. mars 1990 (Stjtíð. EB nr. L 70, 16.3.1990, bls. 1), hér eftir nefnd fjárhagsreglugerðin.
     2     Þessi „yfirlit“ gætu í raun verið í formi „viðauka“, að því tilskildu að hann verði óaðskiljanlegur hluti fjárlaga, bæði í framsetningu og framkvæmd.
     3      Unnið í samvinnu við menntamálaráðuneytið.

     1     21. gr. Í stofnsáttmála EB eru engin grundvallarákvæði varðandi einföldun formsatriða við landamæri, gagnkvæma aðstoð í tollamálum og einföldun málsmeðferðar í vöruviðskiptum lík þeim sem eru í 21. gr. Innan bandalagsins er hins vegar kveðið á um þessar reglur í afleiddri löggjöf sem lá að nokkru leyti til grundvallar bókunum 10 og 11. Því má líta svo á að með tilliti til markmiða þessarar greinar geti hún talist að hluta til svara til EB-reglna.
     2     23. gr. Í stofnsáttmála EB eru engin slík ákvæði, hins vegar eru samsvarandi reglur í II. og III. viðauka. Reglurnar í bókun 12 sem einnig er vísað til í þessu ákvæði svara ekki til EB-reglna.
     3     27. gr. Það er ekkert slíkt ákvæði í stofnsáttmála EB eða KSE. Þó eru í 27. gr. tilvísanir í bókun 14 og 25 sem hafa að geyma að hluta til samsvarandi reglur.
     4     Ákvæði 51. gr. stofnsáttmála EB eru heimildarákvæði. Ákvæði 29. gr. EES-samningsins er nú vísun í viðeigandi viðauka (almannatryggingar), en efni hennar er enn það sem fram kemur í a- og b- liðum 51. gr. stofnsáttmála EB.
     5     Ákvæði 57. gr. stofnsáttmála EB eru heimildarákvæði. Ákvæði 30. gr. EES-samningsins er nú vísun í viðeigandi viðauka (gagnkvæm viðurkenning á hæfnisskilyrðum), en efni hennar er enn það sem fram kemur í 1. og 2. mgr. 57. gr. stofnsáttmála EB.
     6     Ákvæði 2. mgr. 55. gr. stofnsáttmála EB eru heimildarákvæði.
     7     Ákvæði 2. mgr. 56. gr. stofnsáttmála EB eru heimildarákvæði.
     8     55. gr. EES-samningsins hefur verið umorðuð lítillega, búið er að endurraða atriðum og vísun til „hinnar eftirlitsstofnunarinnar“ hefur verið bætt við.
     9     63. gr. Ekkert slíkt ákvæði er að finna í stofnsáttmála EB en í greininni er tilvísun í afleidda löggjöf EB.
     1     Fríverslun með fisk og aðrar sjávarafurðir tekur gildi 1. júlí árið 1990.
     1     Framkvæmdastjórnin mun senda EFTA bréf til útskýringar á framkvæmd þessarar greinar.