Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 2 . mál.


2. Frumvarp til laga



um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Sá sem hannar svæðislýsingu smárása í hálfleiðara hefur einkarétt til hagnýtingar hennar samkvæmt lögum þessum.
     Nú hafa tveir menn eða fleiri sameiginlega hannað svæðislýsingu smárása í hálfleiðara og framlög þeirra verða ekki aðgreind hvert frá öðru sem sjálfstæð verk og eiga þeir þá saman einkarétt til hagnýtingar svæðislýsingarinnar samkvæmt lögum þessum. Hvor aðili um sig getur krafist bóta vegna skerðingar á réttinum.
     Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum er háð því að um nýsköpun sé að ræða, annaðhvort í heild eða að hluta.
     Ef einstakir þættir svæðislýsingarinnar eru almennt þekktir er verndin háð því að samsetning einstakra þátta svæðislýsingarinnar uppfylli skilyrði um nýsköpun. Skilyrði er að um eigið verk uppfinningamannsins sé að ræða og að það sé almennt ekki þekkt á sviði hálfleiðaratækni.
     Vernd samkvæmt lögum þessum tekur ekki til hugmynda, ferla, kerfa, tækni eða upplýsinga sem svæðislýsingin hefur að geyma en teljast ekki til hennar sjálfrar.

2. gr.


    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     Hálfleiðari er fullbúin vara eða vara á framleiðslustigi sem
         
    
    er samsett úr ýmsum efnum, þar á meðal einu lagi af hálfleiðaraefni,
         
    
    hefur eitt lag eða fleiri lög af leiðandi efnum, einangrandi efnum eða hálfleiðaraefnum þar sem lögunum er raðað eftir fyrir fram gefnu þrívíddarmunstri og
         
    
    til stendur að nota hana annaðhvort eingöngu eða m.a. í rafeindatæki.
     Svæðislýsing smárása á hálfleiðara er teikning af uppröðun samverkandi hluta sem hver rás er samsett úr, hvernig sem þetta munstur er áfest eða áritað,
         
    
    sem sýnir þrívíddarmunstur allra laganna sem mynda smárásir á hálfleiðara og
         
    
    þar sem hver hluti teikningarinnar hefur að geyma munstur eða hluta af munstri á yfirborði hálfleiðara á ákveðnu stigi í framleiðslu þess.

3. gr.


    Rétthafi telst sá sem hannar svæðislýsingu smárása í hálfleiðara. Hafi svæðislýsingin verið hönnuð sem hluti af starfi hönnuðarins eignast vinnuveitandi einkarétt til hennar nema kveðið sé á um annað í ráðningarsamningi.
     Hafi svæðislýsing verið hönnuð samkvæmt samningi öðrum en ráðningarsamningi eignast verkkaupi einkarétt til hennar nema kveðið sé á um annað í verksamningi.

4. gr.


    Verndar samkvæmt lögum þessum njóta íslenskir ríkisborgarar eða þeir sem hafa fasta búsetu hér á landi. Einnig njóta verndar þau fyrirtæki og lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi.
     Iðnaðarráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að réttarvernd samkvæmt lögum þessum skuli einnig taka til ríkisborgara í þeim ríkjum sem veita íslenskum ríkisborgurum sams konar rétt.

5. gr.


    Í einkarétti aðila á hagnýtingu svæðislýsingar smárása í hálfleiðara felst eftirfarandi:
    Réttur til afritunar svæðislýsingar smárása sem nýtur verndar skv. 1. gr. laganna.
    Réttur til hagnýtingar svæðislýsingar smárása í atvinnuskyni (útleigu).
         Hagnýting í atvinnuskyni þýðir sala, leiga, langtímaleiga eða önnur notkun svæðislýsingar smárása í atvinnuskyni eða tilboð gerð í þeim tilgangi.
    Réttur til innflutnings svæðislýsingar eða hálfleiðara sem framleiddur var með þeirri svæðislýsingu til nota í atvinnuskyni.

6. gr.


    Einkaréttur aðila á hagnýtingu svæðislýsingar smárása takmarkast á eftirfarandi hátt:
    Heimilt er að afrita svæðislýsingar smárása sé það gert af einkaaðilum og ekki í atvinnuskyni.
    Einkarétturinn nær ekki til afritunar í þeim tilgangi að rannsaka, meta eða fræða aðra um hugmyndir, ferli, kerfi eða tækni sem liggur að baki hlutaðeigandi svæðislýsingu smárása eða um svæðislýsinguna sjálfa.
    Einkarétturinn gildir ekki þegar um er að ræða svæðislýsingu smárása sem hefur orðið til á grundvelli rannsóknar og mats á svæðislýsingu smárása sem fram fór í samræmi við 2. tölul.
    Einkaréttur til að heimila eða banna atferli, sem er nánar lýst í lögum þessum, gildir ekki um slíkt atferli eigi það sér stað eftir að rétthafi eða annar, sem hefur nytjaleyfi frá honum, hefur sett svæðislýsingu smárása á markað.
    Óheimilt er að koma í veg fyrir að einstaklingur, sem hefur eignast hálfleiðara en hefur enga vitneskju um né gildar ástæður til að ætla að rétturinn njóti verndar, hagnýti sér hann í atvinnuskyni. Sé aftur á móti um að ræða atferli sem á sér stað eftir að einstaklingur hefur fengið vitneskju um eða hefur gildar ástæður til að halda að hálfleiðari njóti verndar samkvæmt lögum þessum skal að beiðni rétthafa úrskurða honum sanngjarnar bætur.

7. gr.


    Einkaréttur til hagnýtingar svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum stofnast þegar svæðislýsing er fyrst áfest eða árituð. Einkarétturinn fellur niður 10 árum eftir lok þess almanaksárs er svæðislýsing var fyrst hagnýtt í atvinnuskyni einhvers staðar í heiminum. Einkarétturinn fellur niður 15 árum eftir lok þess almanaksárs er svæðislýsingin var fyrst kynnt ef hún hefur ekki enn þá verið notuð í atvinnuskyni.

8. gr.


    Hverjum þeim, sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn rétti þeim er lög þessi veita aðila, er skylt að bæta honum tjón það er af hefur hlotist. Bætur þessar mega þó aldrei vera hærri en nemur hagnaði hins bótaskylda af brotinu. Krafa um bætur samkvæmt ofangreindu fyrnist á 5 árum. Sé krafan út af refsiverðu athæfi fyrnist hún á 10 árum.

9. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum. Um meðferð þeirra fer að hætti opinberra mála.

10. gr.


    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

11. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði höfum við skuldbundið okkur til að laga íslenska löggjöf að hluta til að reglum Evrópubandalagsins. Frumvarp til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum er eitt þeirra frumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
    Smárás ( e. integrated circuits) er fullkomin rafmagnsrás framleidd sem ein eining (flaga, kubbur) og getur gegnt sjálfstæðu hlutverki. Rétt eins og smárinn ( e. transistor) olli byltingu í rafeindatækninni vegna fjölbreyttra notkunarmöguleika og hve þægilegur hann er í notkun miðað við rafeindalampann ollu smárásirnar byltingu með því að breikka það svið sem hægt er að beita rafeindatækninni á. Nú er hægt að framkvæma hluti með smárásum sem ekki var hægt að framkvæma með rásum samansettum af einstökum íhlutum ( e. components). Með smárásatækninni er hægt að koma flókinni rás, sem inniheldur marga smára, díóður, viðnám og þétta, fyrir á einum kubb af hálfleiðara ( e. semiconductor). Því er hægt að smækka flóknar rásir það mikið að hægt er að nota þær í geimförum, stórum tölvum og öðrum tækjum þar sem ekki væri gerlegt að nota rásir samansettar úr fjölda stakra íhluta. Smárásir eru unnar úr hálfleiðaraefnum, t.d. kísil og germaníum. Aðallega hefur verið notast við kísil og af því kemur enska nafnið „silicon chip“.
     Smárásir voru fundnar upp árið 1958 og síðan hefur þróunin á þessu sviði verið mjög ör hvað varðar tæknina við að rækta kísilkristal og myndun rásanna í kristalinn. Þetta hefur leitt til þess að fjöldi eininga á rás hefur tvöfaldast á ári mörg undanfarin ár. Nú geta, t.d. í svonefndri LS ( e. large-scale) smárás, falist yfir 100.000 einingar á flögu sem er smærri en frímerki. Þó er nú svo komið að dregið hefur úr þróun í kristalagerð og aðferðum við að mynda rásirnar í kristalinn. Því hafa sjónir manna beinst stöðugt meir að því að vanda til gerðar plans sem ákvarðar hvar hver íhlutur á að vera í kubbnum. Segja má að hægt sé að líkja þessu plani við uppdrátt af húsi þar sem sýnt er á fleti hvar hvert herbergi er. Fyrir smárásina á þetta þá við um hvar hver hlutur fyrir sig á að vera.
     Til eru nokkrar aðferðir til að flokka smárásir ýmist eftir notkun þeirra eða framleiðsluaðferðum. Algengustu flokkunaraðferðirnar eru að flokka smárásir í línulegar og stafrænar rásir eftir notkun eða í einsleitar og svonefndar hybrid-rásir eftir framleiðsluaðferð. Línuleg smárás magnar rafmerki eða hefur einhvers konar önnur línuleg áhrif á merkið. Dæmi um línulega rás er einfaldur magnari. Stafrænar rásir eru notaðar í rökrásir og minni, t.d. í tölvum, vasareiknum og örgjörvum. Langflestar smárásir, sem framleiddar hafa verið, eru stafrænar rásir. Smárásir, sem eru allar á einum kubb af hálfleiðaraefni, eru kallaðar einsleitar ( e. monolithic) rásir. Hybrid-rás getur aftur á móti verið samansett af einni eða fleiri einsleitri rás eða einstökum smárásum festum á einangrandi efni með viðnámum, þéttum og öðrum íhlutum, öllu samtengdu.
     Framleiðsluferli einsleitra rása, en það er einmitt tilurð þeirra sem veldur því að upp koma spurningar um verndun rása, er eftirfarandi: Fyrst er hlutverk rásarinnar ákveðið. Þá þarf að hanna rásina sjálfa, þ.e. rásarteikning er búin til. Til þess þarf töluverða þekkingu í rásarfræði. Ef þetta væri rás þar sem eingöngu væru notaðir íhlutir væri hönnuninni nú lokið og hægt væri að raða íhlutunum saman og byrja að prófa rásina. En þar sem þetta er smárás þarf að ganga einu skrefi lengra í hönnuninni. Það þarf að búa til planið af rásinni á/í hálfleiðarann. Það þarf með öðrum orðum að raða einstökum hlutum, sem rásin samanstendur af, á hálfleiðarann. Það krefst mikillar huglægrar vinnu og krafta margra sérfræðinga sem vinna að hönnuninni með hjálp tölvu. Árangurinn af hönnunarvinnunni er svæðislýsingin ( e. topography) af smárásinni. Að notað er orðið svæðislýsing, en ekki rásarteikning, á að undirstrika það að rásin er yfirleitt búin til í fleiri en einu lagi hálfleiðarans. Þá er teikningin yfirleitt smækkuð. Smækkunin er gerð í skrefum til að auka nákvæmnina. Í lokin er teikningin orðin minni en fersentimetri að stærð. Þá eru búnir til „maskar“ úr teikningunni. Hægt er að líkja þessum „möskum“ við maska sem notaðir eru við silkiþrykk. Munurinn er sá að „þrykkt“ er á þunnan hálfleiðarakubb en ekki silkiefni og ekki eru notaðir litir heldur ákveðnar kemískar og fótógrafískar aðferðir, auk þess sem kubburinn er hitaður. Yfirleitt eru 100–200 rásir búnar til samtímis á einni silíkon-flögu. Hægt er í stuttu máli að lýsa framleiðsluaðferðinni í fimm skrefum:
    Þunnt lag af oxíð er lagt yfir flöguna.
    Þunnt lag af óljósnæmu efni er lagt yfir oxíðið. Í þetta lag er síðan dregið munstrið og það framkallað. Flagan er síðan sett í ætandi efnalausnir sem ná burtu því lagi sem óljósnæma efnið er enn á ásamt oxíðinu þar undir. Þetta munstur, sem nú myndast í kristalinn, gerir það mögulegt að hægt er að tengja saman hina fjölmörgu virku og óvirku íhluta. Þetta munstur kallast svæðislýsingin.
    Hlutar hálfleiðaraflögunnar eru nú berir og því er hægt að setja „óhreinindi“ á flöguna, eða hægt er að „sía“ þau inn í flöguna staðbundið. Þessi óhreinindi eru yfirleitt bóron, fosfór eða arseník og þau breyta eiginleikum hálfleiðaraefnisins.
    Þá er lag af leiðandi efni lagt yfir alla flöguna, það er yfirleitt pólísilíkon eða málmur.
    Með ætandi efnum er síðan málmurinn fjarlægður af ákveðnum stöðum á flögunni og árangurinn er einfaldur málm-oxíð hálfleiðari. Að lokum eru rásirnar skildar að með því að skera þær hverja frá annarri.
     Nýjustu aðferðir við að teikna rásarmyndina á silíkonflöguna felast í að tölva er notuð til að teikna. Með tímanum mun sú aðferð, sem hér að ofan er lýst, verða úrelt og ekki þörf á möskum.
     Smárásatæknin hefur gert það kleift að framleiða áreiðanlegri og ódýrari rásir en hægt er með því að nota staka íhluti. Það liggur í því að hægt er að búa til hundruð sams konar rása á einni kísilflögu. Þetta segir þó ekki alla söguna því að áður en hægt er að hefja framleiðslu á smárás þarf að hanna hana. Hönnun slíkra rása krefst mikillar og sérhæfðrar vinnu og því mikils stofnkostnaðar. Því liggja háar fjárupphæðir að baki hverri vel heppnaðri smárás. Aftur á móti er hægt að afrita rásarmunstrið fyrir brot af upphafskostnaði. Vegna þess mikla kostnaðar, sem hönnuður rásarinnar þarf að standa straum af í byrjun, er mikilvægt að umbunin sé nokkuð örugg. Annars mundi þróunin á þessu sviði staðna. Því stofnar það þróuninni á þessu sviði í nokkra hættu hve einfalt og kostnaðarlítið það er að afrita smárásir. Af þessum sökum hafa flest iðnaðarríki sett löggjöf um verndun smárása.
     Á þessari stundu er engin framleiðsla smárása á Íslandi. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvort svo muni verða í næstu framtíð. Þó er ólíklegt að allt ferlið frá hönnun til framleiðslu verði til staðar hér á landi á næstunni. Til þess þarf sérfræðinga á þessu sviði, en þá er ekki að finna hér á landi nú. Flest fyrirtæki, sem framleiða smárásir og standa í hönnun, eru stór fjölþjóðafyrirtæki eða smærri fyrirtæki sem hafa stórfyrirtæki sem bakhjarl.
     Tæknin við framleiðslu smárása hefur þegar hlotið einkaleyfavernd, enda uppfyllir hún öll skilyrði einkaleyfaréttar. Aftur á móti er ekki hægt að fá einkaleyfavernd fyrir svæðislýsingunni. Svæðislýsingin uppfyllir ekki skilyrði um nýnæmi. Hægt er að líkja vinnunni að svæðislýsingunni við forritun, allar skipanirnar eru þekktar, en svo er bara að raða þeim saman svo að útkoman verði sú sem til var ætlast.
     Fyrir hendi eru tvær leiðir til að tryggja vernd réttinda að svæðislýsingum. Annars vegar að gera kröfur um formlega skráningu hjá ákveðnum skráningaraðila. Sú leið hefur t.d. verið valin í Danmörku. Henni fylgir mikill kostnaður og umfang þar sem mikil sérþekking þarf að vera fyrir hendi á þeirri stofnun er sér um skráninguna.
     Hin leiðin er sú að byggja á sömu vernd og samkvæmt höfundalögum, þ.e. að skráning sé ekki gerð að skilyrði. Sú leið hefur verið farin í Noregi, en við gerð þessa frumvarps hefur að mestu verið farið að fyrirmynd þeirra laga, auk þess sem ákvæði tilskipunar EB hafa verið tekin inn í frumvarpið. Samkvæmt tilskipuninni er ríkjum það í sjálfsvald sett hvort skráning verði gerð að skilyrði fyrir vernd réttindanna. Með tilliti til þess að fyrirsjáanlega muni framleiðsla á þessu sviði hérlendis verða óveruleg hefur í frumvarpinu verið tekinn sá kostur að skráning skuli ekki verða gerð að skilyrði heldur tryggist verndin á sama grunni og réttindi á sviði höfundaréttar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði um það hver hafi einkarétt til hagnýtingar svæðislýsingar. Í lögunum eru ekki gerðar kröfur um skráningu réttindanna heldur stofnast hann á óformbundinn hátt og fer til þess sem hagnýtir sér hann. Aðilar geta átt einkaréttinn í sameiningu ef ekki er hægt að greina í sundur framlög þeirra til verksins. Gera verður þær kröfur að um sé að ræða eigið verk uppfinningamannsins og að það sé ekki almennt þekkt á sviði hálfleiðaratækni. Ef málum er hins vegar þannig farið að einstakir þættir svæðislýsingarinnar eru almennt þekktir verður samsetning einstakra þátta að uppfylla skilyrði um nýsköpun.

Um 2. gr.


    Í hugtakaskilgreiningum 2. gr. er alfarið stuðst við þær skilgreiningar er koma fram í tilskipun EB varðandi þetta efni.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. er fjallað um það hver teljist rétthafinn að svæðislýsingunni, þ.e. sá sem hannar hana. Þó þykir ástæða til að gera undantekningu hvað varðar vinnusambönd, en þá fer einkarétturinn til vinnuveitanda hönnuðarins, nema ákvæði í ráðningarsamningi segi annað. Hið sama gildir varðandi samband verksala og verkkaupa.

Um 4. gr.


    Hér er fjallað um þá aðila er notið geta verndar samkvæmt lögum þessum. Þar er fyrst og fremst um að ræða íslenska ríkisborgara eða þá sem hafa fasta búsetu hér á landi. Hér er um að ræða réttindi er ganga í erfðir eftir rétthafa. Verndar njóta einnig þau fyrirtæki eða lögaðilar sem starfrækja raunverulegan atvinnurekstur hér á landi. Iðnaðarráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að verndin skuli einnig taka til ríkisborgara í þeim ríkjum sem veita gagnkvæman rétt.

Um 5. gr.


    Í 5. gr. kemur fram hvað felst í einkarétti aðila á nýtingu svæðislýsingar.
     Í fyrsta lagi er um að ræða einkarétt á að gera eftirgerð af svæðislýsingunni. Í því felst öll hagnýting svæðislýsingarinnar sem líkist hinni upprunalegu.
     Í öðru lagi felur einkarétturinn í sér rétt til hagnýtingar í atvinnuskyni. Undir skilgreiningu laganna á „hagnýtingu í atvinnuskyni“ falla hvorki kaup né notkun. Því falla t.d. ekki undir þetta ákvæði þau tilvik er aðili kaupir sér tölvu til einkanota vitandi það að svæðislýsingin hefur verið fengin á ólögmætan hátt.
     Í þriðja lagi felur einkarétturinn í sér að rétthafinn má einn flytja inn svæðislýsingu eða hálfleiðara en þetta á aðeins við ef um er að ræða not í atvinnuskyni.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. er fjallað um á hvaða hátt einkarétturinn á hagnýtingu takmarkist.
     Einkaaðilum er heimilt að afrita svæðislýsinguna ef það er til einkanota þeirra. Einnig er heimilt að nota svæðislýsinguna í fræðsluskyni hvað varðar þá tækni er liggur að baki svæðislýsingunni. Ef um er að ræða svæðislýsingu sem hefur orðið til á grundvelli slíkra upplýsinga gildir einakrétturinn heldur ekki um hana.
     Ef rétthafi eða annar, sem hefur svokallað nytjaleyfi frá honum, hefur sett svæðislýsingu á markað getur einkarétthafi ekki bannað ráðstafanir og athafnir sem bann er lagt við í lögum þessum.
     Að lokum er fjallað um stöðu notanda sem er í góðri trú. Mikil áhersla hefur verið lögð á að vernda rétt hans og í ákvæðum 5. tölul. kemur fram að hafi einstaklingur enga vitneskju um né gildar ástæður til að ætla að hann sé að skerða réttindi annars manns megi ekki koma í veg fyrir að hann hagnýti sér réttindin. Það er þó afdráttarlaust skilyrði að aðili sé grandalaus. Ef hann er grandsamur skal úrskurða rétthafa bætur ef hann fer fram á það. Lögð er áhersla á að fjárhæð þeirra verður að vera sanngjörn miðað við allar aðstæður, svo sem tap rétthafa og gróða grandsams notanda.

Um 7. gr.


    Hér er fjallað um gildistíma einkaréttarins sem er 10 ár frá lokum þess almanaksárs er svæðislýsing var fyrst hagnýtt í atvinnuskyni einhvers staðar í heiminum. Ef svæðislýsing er ekki hagnýtt í 15 ár frá lokum þess almanaksárs er hún var fyrst kynnt fellur hún niður ef hún hefur ekki enn þá verið notuð í atvinnuskyni.

Um 8. gr.


    Í 8. gr. er að finna bótaákvæði og ákvæði um fyrningu.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga


um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum.


    Frumvarp þetta er lagt fyrir Alþingi í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og mun öðlast gildi um leið og EES-samningurinn verði það að lögum.
    Tilgangur frumvarpsins er að vernda höfundarétt hönnuða smárása og er það í samræmi við ríkjandi löggjöf í EB-löndum, en til þessa hefur skort lög um þetta efni hér á landi.
    Ekki er gert ráð fyrir neinni einkaleyfaskráningu eða annarri stjórnarathöfn til framfylgdar rétthöfum í frumvarpi þessu og því verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð verði það að lögum.