Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 4 . mál.


4. Frumvarp til laga



um staðla.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Hugtökin staðall, alþjóðlegur staðall, stöðlun, fyrirmæli á tæknisviði, tæknileg forskrift og sammæli skulu hafa alþjóðlega viðurkennda merkingu hér á landi eins og hún kemur fram í íslenskum staðli um íðorð í stöðlun og skyldri starfsemi.

2. gr.


    Íslenskur staðall er staðall sem hefur verið staðfestur af Staðlaráði Íslands.
     Heimilt er að gefa út íslenskan staðal á erlendu tungumáli ef sýnt er að það hindri ekki eðlileg not hans.

3. gr.


    Staðall er til frjálsra afnota. Stjórnvöld geta þó gert notkun tilgreinds staðals skyldubundna með vísun til hans í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum.

4. gr.


    Staðlaráð Íslands er samstarfsráð þeirra sem áhuga hafa á og hagsmuna hafa að gæta af stöðlun. Aðild að ráðinu er heimil öllum hagsmunaaðilum.
     Staðlaráð setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir. Í þeim skal m.a. kveðið á um skipulag ráðsins, stjórn þess og daglega starfsemi.
     Heimilt er að kveða á um í starfsreglum skv. 2. mgr. að stjórn Staðlaráðs eða sérstök nefnd á vegum ráðsins staðfesti fyrir hönd þess staðal sem íslenskan staðal, sbr. 2. gr.

5. gr.


    Staðlaráð á aðild að alþjóðasamstarfi staðlaráða fyrir Íslands hönd og fer með atkvæði landsins á þeim vettvangi. Heimilt er þó ráðinu að fela stofnun, fyrirtæki eða samtökum að annast í umboði þess þátttöku í alþjóðastaðlasamstarfi.

6. gr.


    Eigi sjaldnar en ársfjórðungslega skal á vegum Staðlaráðs gefa út Staðlatíðindi þar sem m.a. skal:
    tilkynna um ný stöðlunarverkefni,
    auglýsa frumvörp að íslenskum stöðlum og kalla eftir athugasemdum innan tiltekins tímafrests og
    tilkynna um staðfestingu Staðlaráðs á nýjum íslenskum stöðlum.
     Við útgáfu auglýsinga og ákvörðun tímafrests samkvæmt þessari grein skal miðað við að þeir sem hagsmuna hafa að gæta geti haft áhrif á gerð staðalsins.
     Á vegum Staðlaráðs skal haldin skrá yfir alla gildandi íslenska staðla. Skráin skal birt eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Jafnframt skal Staðlaráð sjá til þess að á hverjum tíma séu til eintök af öllum gildandi íslenskum stöðlum.

7. gr.


    Iðnaðarráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.

8. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Frumvarp þetta er flutt til þess að styrkja lagagrundvöll reglna um staðla og stöðlun hér á landi. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess hlutverks sem staðlar gegna í afnámi viðskiptahindrana milli þjóða, einkum innan Evrópska efnahagssvæðisins. Stjórnvöld hér á landi og víða erlendis nýta sér staðla í auknum mæli í stað reglugerða.
     Markmið með gerð og notkun staðla er að auka vöxt og nýsköpun í þágu íslensks atvinnulífs, neytenda og samfélagsins í heild.

1. Forsaga frumvarpsins.
    
Í 2. gr. laga nr. 41/1978, um Iðntæknistofnun Íslands, segir m.a. að stofnunin gegni hlutverki sínu m.a. með stöðlun. Stjórn stofnunarinnar fól nokkrum hagsmunaaðilum að annast skyldur sínar á þessu sviði. Þessir aðilar komu saman á vettvangi sem nefndur var Staðlaráð Íslands. Ráðið samþykkir íslenska staðla. Það starfar á grundvelli starfsreglna sem stjórn Iðntæknistofnunar Íslands setti 27. október árið 1987. Dagleg starfsemi ráðsins hefur verið í höndum staðladeildar Iðntæknistofnunar.
     Frumvarp til laga um stöðlun var lagt fram til kynningar á 112. löggjafarþingi. Það var byggt á tillögum nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði 2. ágúst 1989. Í athugasemdum við frumvarpið segir að lagalegur grundvöllur stöðlunar sé ófullnægjandi miðað við þá auknu áherslu sem lögð er á stöðlun og tengda starfsemi í Evrópu. Í frumvarpinu var lagt til að Staðlaráð Íslands yrði gert að sjálfseignarstofnun, auk þess sem lögfest yrðu ýmis ákvæði um sjálfa stöðlunina, þar á meðal um birtingu og not staðla.
     Að loknu 112. löggjafarþingi var frumvarpið sent ýmsum aðilum til umsagnar. Að teknu tilliti til ýmissa athugasemda, sem bárust frá hagsmunaaðilum, var frumvarpið flutt að nýju á 113. löggjafarþingi. Frumvarpið varð þá ekki útrætt.
     Frumvarpið var flutt á ný á 115. löggjafarþingi í nokkuð breyttri mynd sem frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Staðlaráð Íslands. Í stað þess að Staðlaráð Íslands yrði gert að sjálfseignarstofnun var nú gert ráð fyrir að það yrði gert að hlutafélagi og að ríkissjóður legði félaginu til starfsemi og eignir staðladeildar Iðntæknistofnunar. Var gert ráð fyrir að a.m.k. helmingur hlutafjár í félaginu yrði í eigu ríkissjóðs við stofnun þess. Ákvæði frumvarpsins um sjálfa stöðlunina, svo sem um birtingu og not staðla, voru hins vegar óbreytt frá fyrri gerðum frumvarpsins. Samhliða frumvarpinu var flutt sérstakt frumvarp til laga um breytingar á lagaákvæðum er varða stöðlun o.fl. en efni þess hafði áður verið hluti af frumvörpunum um stöðlun. Frumvörpin hlutu ekki afgreiðslu á þinginu.

2. Staðlar á alþjóðavettvangi.
    
Á alþjóðavettvangi hefur einkum verið fjallað um staðla í viðræðum um hindrunarlaus viðskipti milli landa. Gerður hefur verið samningur á vettvangi GATT um viðskiptahindranir á tæknisviðum. Í samningnum eru hugtökin staðall og stöðlun skilgreind. Auk þess er kveðið á um að vísað skuli til alþjóðlegra staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum fremur en að tilgreina í einstökum atriðum hverjar tæknilegar kröfur skuli gera til vöru og þjónustu.
     Samkvæmt reglum Alþjóðastaðlasambandsins (International Organization for Standardization, ISO) og Alþjóðaraftækniráðsins (International Electrotechnical Commission, IEC) er eitt megineinkenni staðla og stöðlunar að þeir eru samdir í samvinnu helstu hagsmunaaðila og í þeim endurspeglast góður framkvæmdamáti að bestu manna yfirsýn. Af þessu leiðir að enginn einstaklingur eða stofnun getur samið staðal án samráðs við hagsmunaaðila. Þetta samráð greinir staðla frá öðrum reglum og vöruforskriftum. Annað atriði sem greinir staðla frá stjórnvaldsfyrirmælum er að þeir eru frávíkjanlegir og til frjálsra afnota.
     Vegna þessara eiginleika staðla ákvað framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins (EB) að þeir skyldu gegna veigamiklu hlutverki í áformum þess að gera bandalagið að einum markaði fyrir árslok 1992. Í maí 1985 ákvað ráðherraráð EB að beita nýrri aðferð við að samhæfa tæknilegar reglur og staðla í aðildarríkjunum. Samkvæmt þessari aðferð skyldi lögbundin samhæfing, þ.e. samhæfing í tilskipunum EB, á tæknisviðum bundin við grunnkröfur um öryggi og heilsu manna og dýra og verndun umhverfisins. Síðan skyldi þeim aðilum, sem höfðu unnið að stöðlun í iðnaði, fengið það hlutverk að semja tæknilegar forskriftir í einstökum atriðum. Þessar forskriftir skyldu gefnar út sem samhæfðir staðlar í aðildarríkjum bandalagsins. Framleiðendum skyldi vera í sjálfsvald sett hvort þeir notfærðu sér staðlana en litið skyldi svo á að þeir sem það gerðu hefðu þar með fullnægt grunnkröfum bandalagsins.
     Árið 1985 var einnig gerður rammasamningur við evrópsku staðlasamböndin, CEN (Comité Européen de Normalisation) á almennu sviði og CENELEC (Comité Européen de Normalisation Electrotechnique) á raftæknisviði, um að stýra gerð þeirra staðla sem gert væri ráð fyrir í tilskipunum EB. Í rammasamningnum er það gert að skilyrði að samþykktir staðlar á vettvangi staðlasambandanna, Evrópustaðlar, verði gerðir að landsstöðlum í hverju aðildarríki CEN og CENELEC innan missiris frá samþykkt þeirra. Jafnframt skulu þeir landsstaðlar numdir úr gildi sem brjóta í bága við Evrópustaðlana. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) fylgdu á eftir og gerðu samsvarandi samning við staðlasamböndin. Í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er gert ráð fyrir að vísað verði til Evrópustaðla í stjórnvaldsfyrirmælum á tæknisviðum og við opinber innkaup. Staðlaráð Íslands gerðist aðili að CEN og CENELEC um miðbik ársins 1988.
     Með þeirri stefnu, sem hér hefur verið lýst, breytist hlutverk þeirra sem semja staðla í smærri Evrópuríkjum mikið. Áður voru nánast einvörðungu samdir staðlar sem iðnaður í viðkomandi ríki taldi sig þurfa á að halda á þeim hraða sem aðstæður leyfðu hverju sinni. Engar kvaðir lágu á stjórnvöldum að vísa til staðla. Á þrjátíu ára tímabili voru staðfestir um fimmtíu staðlar á Íslandi en síðan Staðlaráð gerðist aðili að CEN og CENELEC árið 1988 hafa tæplega 1.600 staðlar verið staðfestir.
     Í ljósi þess mikilvæga hlutverks, sem stöðlum er ætlað í framtíðinni innan Evrópu, er einstökum ríkjum nauðsynlegt að fylgjast vel með samningu þeirra og taka fullan þátt í þeirri vinnu á þeim sviðum er varða hagsmuni þeirra. Þetta á reyndar við um fleiri staðla en Evrópustaðla. Fjölmörg sjónvarpstæki hér á landi geta ekki birt séríslenska bókstafi í textavarpi ríkissjónvarpsins vegna ófullnægjandi staðla. Þá er skemmst að minnast tillögu Tyrkja um að sértyrkneskir bókstafir kæmu í stað séríslenskra í alþjóðlegri stafatöflu fyrir tölvur sem samin var á vegum Alþjóðastaðlasambandsins (ISO). Samþykkt þessarar tillögu hefði leitt til þess að gera hefði þurft kostnaðarsamar breytingar á tölvubúnaði sem fluttur væri inn til landsins í framtíðinni til þess að hann geti fallið að sérkennum íslenskrar tungu.

3. Meginefni frumvarpsins.
    
Í frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá fyrri hugmyndum um að stofna sjálfstætt staðlaráð sem yfirtaki starfsemi staðladeildar Iðntæknistofnunar Íslands. Fyrir því eru einkum tvenn rök. Í fyrsta lagi er mikilvægt að lagagrundvöllur staðla og gerð þeirra verði styrktur sem fyrst. Til að greiða fyrir framgangi frumvarpsins er því talið heppilegt að engar breytingar verði að sinni gerðar á stöðu Staðlaráðs og staðladeildar Iðntæknistofnunar. Í öðru lagi er nú að störfum nefnd á vegum iðnaðarráðuneytisins sem ætlað er að meta hvort núverandi skipulag þeirra rannsóknastofnana sem heyra undir iðnaðarráðuneytið, þ.e. Iðntæknistofnunar, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og Orkustofnunar, skili atvinnulífinu árangri í samræmi við þá fjármuni sem til stofnananna er varið. Telja verður eðlilegt að staða Staðlaráðs og staðladeildar Iðntæknistofnunar komi til skoðunar í þessu sambandi.
     Í frumvarpinu er að finna ákvæði um gerð og birtingu staðla. Þau eru að mestu leyti samhljóða samsvarandi ákvæðum þar að lútandi í fyrri frumvörpum á þessu sviði. Þá er í frumvarpinu kveðið á um Staðlaráð Íslands.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að skýrt verði kveðið á um merkingu hugtaka. Með alþjóðlega viðurkenndri merkingu er einkum átt við merkingu sem fram kemur í GATT-samningi um viðskiptahindranir á tæknisviði, samkomulagi EFTA-ríkjanna um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi (Tampere-samkomulagsins) og Leiðbeiningariti ISO og IEC nr. 2. Merking eftirfarandi hugtaka er nánar tiltekin þessi:
     Staðall (e. standard): Sérstök gerð opinbers skjals sem er byggt á sammæli hagsmunaaðila og staðfest af þar til bærum aðila. Í því eru settar fram reglur, leiðbeiningar fyrir eða lýsing á einkennum algengrar og endurtekinnar starfsemi eða afrakstur hennar. Markmið með gerð slíks skjals er að ná sem mestri samskipan á gefnu sviði með sem víðtækastri notkun þess.
     Stöðlun (e. standardization): Það að ná sammæli um staðal, staðfesta hann og gefa út.
     Alþjóðlegur staðall (e. international standard): Opinber staðall sem hefur verið staðfestur af alþjóðastaðlasambandi.
     Fyrirmæli á tæknisviði (e. technical regulation): Skjal þar sem kveðið er á um lagalega bindandi kröfur á tæknisviði sem staðfestar eru af stjórnvaldi. Kröfurnar eru ýmist tilgreindar í einstökum atriðum með vísun til staðals, tæknilegrar forskriftar eða framkvæmdastaðals eða með því að taka staðalinn upp í heild. Undir þetta falla m.a. lög, reglugerðir, auglýsingar, tilkynningar og orðsendingar.
     Tæknileg forskrift (e. technical specification): Skjal þar sem mælt er fyrir um þær kröfur sem vara, ferli eða þjónusta á að fullnægja og þær tilgreindar í einstökum atriðum.
     Sammæli (e. consensus): Almennt samkomulag sem mikilvægir hagsmunaaðilar í málinu halda ekki uppi andstöðu við í veigamiklum atriðum. Sammæli næst með því að leitast er við að taka tillit til sjónarmiða allra aðila sem málinu tengjast. Í því felst að finna lausn sem sameinar andstæðar röksemdir.
    Í greininni er lagt til að þessi hugtök og viðteknar skilgreiningar á þeim verði settar ásamt öðrum helstu hugtökum á þessu sviði í íslenskan staðal.
    Í þessu sambandi er rétt að benda á að Evrópustaðall eða evrópskur staðall er opinber staðall sem hefur verið staðfestur af öðru hvoru evrópsku staðlasambandanna, CEN eða CENELEC.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að skýrt verði kveðið á um hvað geti talist íslenskur staðall. Ákvæðinu er einnig ætlað að taka til samsetninga þar sem einkunnum eða öðrum ákvæðisliðum kann að vera bætt við orðalagið íslenskur staðall. Ekki er gert ráð fyrir að endurstaðfesta þurfi alla íslenska staðla sem staðfestir voru fyrir gildistöku laga þessara.
    Hvorki með ákvæði þessarar greinar né öðrum greinum frumvarpsins er Staðlaráði Íslands tryggður einkaréttur til að semja staðla. Hins vegar er með þessu ákvæði ásamt ákvæði 6. gr. frumvarpsins tryggt að einungis þeir staðlar eða frumvörp að stöðlum, sem uppfylla ákveðin formskilyrði, geti orðið að íslenskum stöðlum. Þannig þarf skv. 6. gr. að tilkynna um ný stöðlunarverkefni og auglýsa frumvörp að íslenskum stöðlum og kalla eftir athugasemdum. Loks þarf staðfestingu Staðlaráðs áður en staðallinn getur tekið gildi.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði að staðfesta staðal sem íslenskan staðal þó hann sé á erlendu máli ef ljóst er að not hans eru bundin við aðila er kunna það mál. Dæmi um þetta eru flóknir staðlar á flugmálasviði. Þetta ákvæði er í samræmi við stefnu annarra norrænna ríkja í þessum efnum. Nefna má að Finnar hafa breytt stjórnarskrárákvæði um lögbirtingu á finnsku og sænsku á þann veg sem hér er lagt til. Heppilegt þykir að lögfesta ekki að staðlar skuli ávallt gefnir út á íslensku. Þess í stað verði metið í hverju tilviki hvort staðall skuli þýddur, m.a. annars með tilliti til notkunar staðalsins.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði sú meginregla að staðlar séu til frjálsra afnota í skiptum manna á meðal. Í samræmi við alþjóðlega þróun er hins vegar gert ráð fyrir að stjórnvöld hér á landi muni í auknum mæli vísa til staðla í reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum þannig að sá sem fylgir tilgreindum stöðlum teljist hafa fullnægt ákvæðum stjórnvaldsfyrirmælanna. Þess vegna er í greininni veitt heimild til þess að stjórnvöld geti gert notkun staðals skyldubundna.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að staða Staðlaráðs Íslands verði lögfest. Ekkert ákvæði er nú í lögum um stöðu þess, skipulag og starf heldur er ráðið skilgreint í reglum sem stjórn Iðntæknistofnunar staðfesti í október 1987. Allt frá stofnun Staðlaráðs árið 1978 hefur dagleg starfsemi þess verið í höndum Iðntæknistofnunar. Gera verður ráð fyrir að svo verði áfram enn um sinn þótt einhverjar breytingar kunni að verða í framtíðinni.
    Í 1. mgr. er einnig lagt til að skýrt verði kveðið á um að ráðið sé öllum opið. Hér er um mikilvægt ákvæði að ræða með hliðsjón af eðli staðla.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Staðlaráð setji sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir. Eðlilegt er að starfsreglurnar verði birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 2. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, þar sem í þeim verður kveðið á um mikilvæg réttindi og skyldur Staðlaráðs. Í 2. málsl. þessarar málsgreinar er kveðið á um nokkur atriði sem fjallað skal um í starfsreglunum.
    Í 3. mgr. er lagt til að heimilt verði að framselja vald Staðlaráðs til að staðfesta íslenskan staðal til stjórnar þess eða sérstakrar nefndar á vegum ráðsins, t.d. sérstakrar staðfestingarnefndar. Þykir nauðsynlegt að hafa í lögum óyggjandi ákvæði þessa efnis.

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að Staðlaráð eigi aðild að alþjóðasamstarfi staðlaráða fyrir Íslands hönd. Rétt þykir þó að ráðinu sé heimilt að fela öðrum þátttöku í slíku samstarfi. Ákvæði greinarinnar tekur til aðildar að Alþjóðastaðlasambandinu (ISO), Alþjóðaraftækniráðinu (IEC), auk evrópsku staðlasambandanna CEN og CENELEC. Hún tekur hins vegar ekki til margvíslegrar þátttöku íslenskra stjórnvalda og stofnana í samhæfingarvinnu á alþjóðavettvangi að því marki sem þessi vinna miðast ekki við setningu landsstaðla. Greinin tekur þannig ekki til þess starfs sem fer fram hjá Codex Alimentarius. Þar er um að ræða vinnu á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem heilbrigðisráðuneytið og sjávarútvegsráðuneytið hafa tekið þátt í.

Um 6. gr.


    Í greininni er fjallað um útgáfu Staðlatíðinda þar sem tilkynna skal um ný stöðlunarverkefni. Með ákvæðinu er reynt að tryggja að allir þeir, sem hagsmuna hafa að gæta, geti haft áhrif á gerð staðals. Skýrar reglur um aðgengileika staðla auðveldar enn fremur tilvísun í staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um staðla.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að staða Staðlaráðs Íslands verði lögfest, en meginverkefni þess er að staðfesta íslenska staðla og halda skrá yfir þá, auk þess sem því er ætlað að gefa út Staðlatíðindi. Ráðið er samstarfsráð hagsmunaaðila og hefur ekki ákveðinn aðilafjölda né er það heldur launað. Til þessa hefur ráðið starfað á grundvelli reglna sem stjórn Iðntæknistofnunar hefur samþykkt. Í þeim hefur falist að fagleg umsjón með starfi staðladeildar Iðntæknistofnunar hefur verið í höndum Staðlaráðs. Gert er ráð fyrir að svo verði áfram.
    Starfsemi staðladeildar Iðntæknistofnunar og Staðlaráðs hefur á undanförnum árum verið fjármögnuð með eftirfarandi hætti:
    Hluti af ríkisframlagi til Iðntæknistofnunar Íslands hefur runnið til deildarinnar. Er sú fjárhæð um 3 m.kr. á árinu 1992.
    Fjárveiting af lið 11–299 115, Alþjóðastaðlar CEN og CENELEC, er 13,8 m.kr. í fjárlögum yfirstandandi árs. Henni er varið til að greiða kostnað af aðild Íslands að Evrópustaðlasamtökum CEN og CENELEC, svo og fyrir að gera evrópska staðla að íslenskum stöðlum.
    Deildin hefur haft umtalsverðar sértekjur af sölu staðla og sölu þjónustu til ýmissa opinberra aðila og einkaaðila.
    Ekki verður talið að frumvarpið sem slíkt leiði af sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Umsvif á þessu sviði munu eflaust aukast með tímanum en á móti má ætla að sértekjur geti einnig aukist.