Ferill 5. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 5 . mál.


5. Frumvarp til lagaum gjaldeyrismál.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)1. gr.


    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
     Innlendur aðili merkir:
    sérhvern mann sem hefur fasta búsetu hér á landi samkvæmt lögum um lögheimili án tillits til ríkisfangs; sama á við um íslenskan ríkisborgara og skyldulið hans sem hefur búsetu erlendis en gegnir störfum þar á vegum íslenska ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannsskrifstofu og tekur laun úr ríkissjóði eða er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að;
    sérhvern lögaðila sem skráður er til heimilis hér á landi á lögmæltan hátt, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi; hérlend útibú lögaðila, sem heimili eiga erlendis, teljast til innlendra aðila.
     Erlendur aðili merkir alla aðra aðila en innlenda.
     Innlendur gjaldeyrir merkir íslenska peningaseðla, slegna peninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli sem hljóða upp á greiðslu í íslenskum krónum, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýra málma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum hér á landi.
     Erlendur gjaldeyrir merkir erlenda peningaseðla, slegna peninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli sem hljóða upp á greiðslu í erlendri mynt, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýra málma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum erlendis.
     Gjaldeyrisviðskipti merkja það að skipta innlendum gjaldeyri fyrir erlendan, erlendum gjaldeyri fyrir innlendan eða einum erlendum gjaldeyri fyrir annan eða reikningsviðskipti sem eru ígildi þess að erlendur gjaldeyrir sé látinn af hendi eða móttekinn.
     Fjármagnshreyfingar merkja yfirfærslu eða flutning á fjármunum milli landa sem tengjast:
    beinum fjárfestingum,
    útgáfu á og viðskiptum með hlutabréf, skuldabréf, víxla, hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og önnur langtíma- eða skammtímaverðbréf,
    lánveitingum, lántökum og greiðslu eða móttöku afborgana af lánum,
    veitingu ábyrgða og hvers konar greiðslutrygginga,
    opnun bankareikninga og notkun þeirra,
    framvirkum viðskiptum, viðskiptum með valrétt (valkvæðum viðskiptum) og gjaldmiðla- og vaxtaskiptum,
    yfirfærslu á fjármunum einstaklinga og fjölskyldna.
     Skammtímahreyfingar fjármagns merkja fjármagnshreyfingar milli landa sem tengjast:
    útgáfu á og viðskiptum með skuldabréf og víxla með lokagjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi og önnur slík skammtímaverðbréf,
    útgáfu á og viðskiptum með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum,
    lánveitingum og lántökum til skemmri tíma en eins árs,
    innleggi á og úttekt af reikningum í innlánsstofnunum.
     Jafnframt teljast til skammtímahreyfinga fjármagns inn- og útflutningur skammtímaverðbréfa og önnur hliðstæð viðskipti.
     Langtímahreyfingar fjármagns merkja allar aðrar fjármagnshreyfingar en skammtímahreyfingar fjármagns.
     Bein fjárfesting merkir fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut til að öðlast virk áhrif á stjórn þess. Langtímalán frá eigendum fyrirtækis til fyrirtækisins teljast einnig bein fjárfesting.
     Óbein fjárfesting merkir alla aðra fjárfestingu en beina fjárfestingu, einkum fjárfestingu í verðbréfum sem er fyrst og fremst til þess ætluð að ávaxta fé en ekki til að öðlast virk áhrif á stjórn fyrirtækis.
     Innlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem innlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.
     Erlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem erlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.

2. gr.


    Gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu skulu vera óheft, svo og fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra, nema annað sé ákveðið í lögum.

3. gr.


    Seðlabanka Íslands er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., að ákveða að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið stöðvun í allt að sex mánuði á einhverjum eða öllum af eftirtöldum flokkum fjármagnshreyfinga ef skammtímahreyfingar fjármagns til og frá landinu valda að mati bankans óstöðugleika í gengis- og peningamálum:
    Viðskipti með skammtímaverðbréf.
    Innlegg á og úttektir af reikningum í innlánsstofnunum.
    Viðskipti með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum.
    Lánveitingar og lántökur til skemmri tíma en eins árs sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu.
    Inn- og útflutningur skammtímaverðbréfa og innlends og erlends gjaldeyris.
    Aðrar skammtímahreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim sem taldar eru upp í 1.–5. tölul.

4. gr.


    Viðskiptaráðherra er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., að ákveða í reglugerð að takmarkanir gildi um einhverja eða alla af eftirtöldum flokkum fjármagnshreyfinga, enda sé gætt ákvæða laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna og alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að:
    Beinar fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi.
    Viðskipti erlendra aðila með hlutabréf í innlendum fyrirtækjum.
    Fasteignakaup erlendra aðila hér á landi.
     Slíkar takmarkanir mega þó ekki ná til flutnings fjár í eigu erlends aðila frá landinu við sölu á eignarhlut eða slit atvinnufyrirtækis eða sölu fasteignar hér á landi.

5. gr.


    Ráðherra er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., að ákveða í reglugerð að til og með 31. desember 1994 gildi takmarkanir um einhverja eða alla af eftirtöldum flokkum fjármagnshreyfinga:
    Viðskipti innlendra aðila með skuldabréf og víxla í erlendri mynt með gjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi og útgáfu þessara aðila á slíkum verðbréfum erlendis.
    Viðskipti erlendra aðila með innlend skuldabréf og víxla í íslenskum krónum með gjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi og útgáfu þessara aðila á slíkum verðbréfum hér á landi.
    Útgáfu á skuldabréfum og víxlum í íslenskum krónum erlendis með gjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi.
    Viðskipti með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum.
    Lánveitingar og lántökur til skemmri tíma en eins árs sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptum með vöru eða þjónustu.
    Innlegg á og úttektir af reikningum í innlánsstofnunum.
    Inn- og útflutning skammtímaverðbréfa, peningaseðla og sleginna peninga.
    Aðrar skammtímahreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim sem taldar eru upp í 1.–7. tölul.
    Framvirk viðskipti, viðskipti með valrétt, gjaldmiðla- og vaxtaskipti og önnur skyld gjaldeyrisviðskipti þar sem krónan er annar eða einn gjaldmiðlanna.
     Ráðherra er jafnframt heimilt að ákveða í reglugerð reglur um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt. Þessi heimild fellur niður frá og með 1. janúar 1995.

6. gr.


    Erlendu ríki, sveitarfélagi eða öðru erlendu stjórnvaldi er óheimilt að gefa út skuldabréf á markaði hérlendis nema með leyfi Seðlabankans.

7. gr.


    Nú gilda ákveðnar takmarkanir á fjármagnshreyfingum skv. 4. gr., 5. gr. eða ákvæðum til bráðabirgða og er þá Seðlabankanum heimilt að veita undanþágur frá þeim samkvæmt umsókn þar að lútandi. Innheimt skal sérstakt 1% leyfisgjald af þeirri fjárhæð sem um ræðir hverju sinni þegar undanþága er veitt. Fjármagnshreyfingar á vegum ríkissjóðs og fjármagnshreyfingar vegna gjaldeyrisviðskipta þeirra aðila, sem leyfi hafa til gjaldeyrisviðskipta, eru ávallt undanþegnar gjaldinu. Gjaldið skal greitt til þess innlends aðila sem milligöngu hefur um gjaldeyrisviðskiptin eða Seðlabankans. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.

8. gr.


    Seðlabankinn hefur heimild til að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri. Öðrum aðilum er óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða fengið til þess leyfi frá Seðlabankanum.
     Ráðherra setur í reglugerð, að fenginni tillögu Seðlabankans, nánari reglur um leyfi til gjaldeyrisviðskipta, þar á meðal um skilyrði fyrir leyfisveitingu og afturköllun leyfis.

9. gr.


    Ákveða má í reglugerð að viðskipti innlendra aðila við erlenda aðila með verðbréf skuli fara fram fyrir milligöngu þeirra aðila sem hafa heimild til verðbréfamiðlunar hér á landi samkvæmt lögum eða ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Þar má jafnframt kveða á um að einstakir flokkar lögaðila séu undanþegnir kröfu þessari og að Seðlabankinn geti veitt einstökum aðilum leyfi til að eiga milliliðalaus verðbréfaviðskipti við erlenda aðila.

10. gr.


    Allir þeir aðilar, sem annast gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar fyrir viðskiptamenn sína, skulu hafa til reiðu skýrar og handhægar upplýsingar um slíka þjónustu ásamt upplýsingum um umboðslaun og gjöld sem áskilin eru í slíkum viðskiptum.
     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um framkvæmd 1. mgr.

11. gr.


    Skylt er að veita Seðlabankanum allar þær upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti sem hann kann að óska eftir til að hann geti sinnt nauðsynlegu eftirliti og hagskýrslugerð, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands. Bankanum er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd gjaldeyrisviðskipta, svo sem um skráningar- og tilkynningarskyldu vegna reikninga innlendra aðila í erlendum innlánsstofnunum, framlagningu gagna, almenna upplýsingagjöf og gerð eyðublaða.

12. gr.


    Þeir sem annast framkvæmd þessara laga eru bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins, nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

13. gr.


    Fyrir brot á lögum þessum skal refsa með sektum eða varðhaldi liggi ekki þyngri refsing við broti samkvæmt öðrum lögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt eða sviptingu starfsréttinda. Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

14. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.

15. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    
Viðskiptaráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að til þess tíma er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar, en þó ekki lengur en til og með 31. desember 1993, gildi takmarkanir um einhverja eða alla af eftirtöldum flokkum fjármagnshreyfinga:
    Viðskipti innlendra aðila með hlutabréf og skuldabréf í erlendri mynt með gjalddaga a.m.k. einu ári frá útgáfudegi og útgáfu þessara aðila á slíkum verðbréfum erlendis.
    Viðskipti innlendra aðila með hlutdeildarskírteini í erlendum verðbréfasjóðum sem fjárfesta í langtímaverðbréfum.
    Viðskipti erlendra aðila með skuldabréf í íslenskum krónum með gjalddaga a.m.k. einu ári frá útgáfudegi.
    Útgáfu innlendra aðila erlendis í íslenskum krónum á hlutabréfum og skuldabréfum með gjalddaga a.m.k. einu ári frá útgáfudegi.

II.


    Núgildandi leyfi viðskiptabanka, sparisjóða, Lánastofnunar sparisjóðanna hf. og Póst- og símamálastofnunarinnar til gjaldeyrisviðskipta falla úr gildi þremur mánuðum eftir gildistöku laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.1. Gerð frumvarpsins.
     Frumvarp þetta var samið af starfshópi sem viðskiptaráðuneytið skipaði 18. nóvember 1991 í því skyni. Hópnum var einnig falið að semja drög að reglugerð um gjaldeyrismál. Í skipunarbréfi hópsins er tilgreint að frumvarpið og reglugerðin skuli vera í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í gengismálum og ákvæði í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Í starfshópnum voru: Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri, viðskiptaráðuneytinu, formaður, Atli Freyr Guðmundsson skrifstofustjóri, viðskiptaráðuneytinu, Kjartan Gunnarsson deildarstjóri, viðskiptaráðuneytinu, Már Guðmundsson forstöðumaður, Seðlabanka Íslands, Stefán M. Gunnarsson forstöðumaður, Seðlabanka Íslands, Sveinbjörn Hafliðason lögfræðingur, Seðlabanka Íslands, og Barði Árnason aðstoðarbankastjóri, Landsbanka Íslands, tilnefndur af Sambandi íslenskra viðskiptabanka.
     Starfshópurinn skilaði drögum að fullbúnu frumvarpi til laga ásamt reglugerð til viðskiptaráðherra í mars 1992. Frumvarpið var lagt fram á 115. löggjafarþingi en var ekki tekið til umræðu. Það er nú lagt fram að nýju með örlitlum breytingum.

2. Þróun gjaldeyrisreglna á Íslandi.
     Núgildandi lög um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála eru frá 1979. Í þeim er bæði fjallað um gjaldeyrismál og innflutningsmál enda hafa gjaldeyrisverslun og gjaldeyrishöft löngum verið nátengd innflutningsverslun og innflutningshöftum. Í lögunum kemur fram sú meginregla að vöruinnflutningur til landsins skuli vera óheftur nema annað sé sérstaklega tekið fram en þjónustugreiðslur og fjármagnshreyfingar til annarra landa skulu óheimilar nema þær séu sérstaklega leyfðar af annaðhvort viðskiptaráðuneytinu eða Seðlabanka Íslands.
     Gjaldeyrisreglur hér á landi hafa smám saman verið rýmkaðar og stærsta skrefið í þá átt frá 1960 var stigið 1. september 1990 þegar ný reglugerð um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála tók gildi og 15. desember 1990 þegar reglur Seðlabanka Íslands um viðskipti með verðbréf í erlendri mynt tóku gildi.
     Gjaldeyrisreglurnar, sem giltu hér á landi fram að þeim tíma, mátti í ýmsum atriðum rekja til kreppuáranna á fjórða áratugnum og fyrstu áranna eftir síðari heimsstyrjöldina þegar tiltölulega mikil gjaldeyriseign þjóðarinnar hvarf á skömmum tíma. Á þeim tíma þótti nauðsyn bera til að taka upp strangt eftirlit á sviði gjaldeyrismála og hafa hönd í bagga með því hvernig erlendum gjaldeyri, sem þjóðin aflaði, var ráðstafað.
     Miklar hömlur á viðskiptum með erlendan gjaldeyri tíðkuðust allt fram til ársins1960 með tilheyrandi leyfakerfi og pólitískum úthlutunum. Eftir að hafa beitt fjölgengi og uppbótakerfi á sjötta áratugnum var ljóst að í gengis- og gjaldeyrismálum var við verulegan vanda að glíma. Þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, „viðreisnarstjórnin“, komst til valda árið 1960 urðu hvörf í gjaldeyrismálum þjóðarinnar þegar gjaldeyrisleyfi vegna innflutnings voru að stórum hluta afnumin og komið á fót því innflutningsfrelsi sem ríkt hefur síðan.
     Í kjölfar þess að ný lög um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála tóku gildi árið 1979 var gjaldeyrisdeild bankanna lögð niður. Í henni störfuðu á þeim tíma rúmlega tuttugu manns. Í staðinn var ákvörðunarvald banka í gjaldeyrismálum aukið og komið á fót sérstakri samstarfsnefnd um gjaldeyrismál sem enn starfar. Nefndin fjallar m.a. um verklagsreglur í gjaldeyrisviðskiptum, samræmir meðferð mála á milli banka og fjallar um umsóknir um gjaldeyris- og innflutningsleyfi.
     Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands voru lengi einu viðskiptabankarnir sem höfðu leyfi til að annast gjaldeyrisviðskipti. Búnaðarbanki Íslands fékk sams konar heimild árið 1983. Skömmu síðar fengu einkabankar og sparisjóðir heimild til að annast slík viðskipti. Loks fékk Póst- og símamálastofnunin takmarkaða heimild til gjaldeyrisviðskipta.
     Jafnframt því sem æ fleiri aðilum var heimilað að annast gjaldeyrisviðskipti voru gjaldeyrisreglurnar rýmkaðar smám saman. Árið 1983 var heimilað að nota greiðslukort erlendis. Fyrstu eignarleigufyrirtækin hófu starfsemi hér á landi árið 1986 og ári síðar voru settar sérstakar reglur um erlendar lántökur þeirra. Árið 1989 voru svo þær reglur ásamt reglum um erlendar lántökur vegna innflutnings, innlendrar framleiðslu og vegna skipaviðgerða rýmkaðar í tvígang. Sama ár voru reglur um innflutning með greiðslufresti einnig rýmkaðar í tvígang og jafnframt einfaldaðar verulega.
    Á árinu 1990 voru gerðar rótttækustu breytingar á gjaldeyrisreglunum síðan 1960. Með gildistöku reglugerðar viðskiptaráðuneytisins um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála nr. 312 frá 30. júlí 1990 og fjögurra auglýsinga Seðlabankans um tiltekin svið gjaldeyrisviðskipta varð bæði mikil breyting á framsetningu gjaldeyrisreglnanna til samræmis við alþjóðlega flokkun gjaldeyrisviðskipta og á inntaki þeirra. Nýjar gjaldeyrisreglur tóku gildi 1. september að undanskildum ákvæðum um viðskipti innlendra aðila með verðbréf í erlendri mynt sem tóku gildi 15. desember. Helstu atriðin í þeim breytingum, sem tóku gildi á árinu 1990, voru sem hér segir:
Þjónustugreiðslur.
    Gjaldeyrisyfirfærslur vegna erlendra þjónustuviðskipta voru gefnar frjálsar en áður voru þær formlega háðar gjaldeyrisleyfi og innheimtu 1% leyfisgjalds. Innheimta leyfisgjaldsins féll niður í árslok 1990.
    Fjárhæðarmörk vegna ferðakostnaðar erlendis voru hækkuð í 200.000 kr. fyrir hvern einstakling í hverri ferð. Í reglugerðinni var tilgreint að fjártakmarkanirnar féllu niður í ársbyrjun 1993. Áður höfðu fjárhæðarmörkin verið miðuð við jafnvirði 2.000 bandarískra dala (120 þús. kr.) fyrir fullorðna og 1.000 dala (60 þús. kr.) fyrir börn. Þá voru reglur um námskostnað rýmkaðar nokkuð þannig að þeir sem sækja námskeið sem vara allt niður í einn mánuð eiga rétt á slíkri yfirfærslu í stað sex mánaða áður. Í reglugerðinni er tiltekið að allar takmarkanir á gjaldeyrisyfirfærslum til greiðslu námskostnaðar falli niður í ársbyrjun 1993.
     Fjármagnshreyfingar.
    Innlendum aðilum var heimilað að fjárfesta í atvinnurekstri og kaupa fasteignir erlendis án sérstaks leyfis gjaldeyrisyfirvalda. Til ársloka 1990 voru þessar heimildir takmarkaðar við 3.750.000 kr. á ári fyrir fjárfestingu í atvinnurekstri og sömu fjárhæð fyrir kaup á sérhverri fasteign. Jafnframt var tilgreint að fjárhæðarmörkin hækkuðu í 5.625.000 kr. í ársbyrjun 1991, í 7.500.000 kr. 1. janúar 1992 og féllu niður 1. janúar 1993.
    Erlendum aðilum var heimilað að flytja söluandvirði eignarhlutar síns í fyrirtækjum og söluandvirði fasteigna úr landi án nokkurra takmarkana. Áður þurfti sérstakt leyfi fyrir slíkum yfirfærslum, sem og yfirfærslum á arði og öðrum fjármagnstekjum sem erlendir aðilar öfluðu hér á landi.
    Frá 15. desember 1990 var innlendum aðilum heimilt að kaupa erlend markaðsverðbréf og gefa út og selja markaðsverðbréf erlendis í annarri mynt en íslenskum krónum. Erlend verðbréfaeign var í fyrstu bundin við 375.000 kr. fyrir hvern einstakling. Hámarkið gildir þó ekki þegar keypt eru skuldabréf sem innlendir aðilar, eins og ríkissjóður eða Landsvirkjun, hafa gefið út erlendis. Jafnframt er tilgreint í auglýsingu Seðlabankans að þessi fjárhæðarmörk hækki í 562.500 kr. í ársbyrjun 1991, í 750.000 kr. 1. janúar 1992 og að þau falli niður 1. janúar 1993. Þá var verðbréfasjóðum, sem reknir eru af verðbréfafyrirtækjum sem aðild eiga að Verðbréfaþingi Íslands, heimilað að kaupa erlend verðbréf innan tiltekinna fjárhæðarmarka. Hins vegar gilda engar takmarkanir um kaup einstaklinga og fyrirtækja hér á landi á hlutdeildarskírteinum í slíkum verðbréfasjóðum.
    Erlendum aðilum var heimilað að kaupa markaðsverðbréf sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands og gefa út markaðsverðbréf hér á landi í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Þá var þeim heimilað að flytja til útlanda vexti og annan arð af verðbréfaeign sinni svo og söluandvirði slíkra bréfa. Áður fyrr þurfti sérstakt leyfi gjaldeyrisyfirvalda til þess.
    Innlendum aðilum var heimilað að taka erlend lán án þess að tilgreina sérstaklega tilefni slíkrar lántöku svo framarlega sem lántakan er ekki með ábyrgð innlendrar fjármálastofnunar. Þá var innlendum aðilum heimilað að veita erlendum aðilum sambærileg lán. Fyrst í stað takmarkaðist lánsfjárhæðin við 3.750.000 kr. á hverju almanaksári fyrir hvern einstakling eða lögaðila. Jafnframt var tilgreint í reglugerðinni að fjárhæðin hækkaði í 5.625.000 kr. í ársbyrjun 1991, í 7.500.000 kr. 1. janúar 1992 og að fjárhæðarmörkin féllu niður 1. janúar 1993.
    Innlendum aðilum var heimilað að opna bankareikninga erlendis samkvæmt svipuðum reglum og gilt hafa um gjaldeyrisreikninga í innlendum bönkum og sparisjóðum um nokkurra ára skeið. Reikningseiganda er því ekki heimilt að skipta krónum í erlenda mynt og leggja inn á erlendan bankareikning heldur verður hann að eignast erlenda gjaldeyrinn með öðrum hætti. Innstæður voru í fyrstu takmarkaðar við 750.000 kr. en jafnframt tilgreint að fjárhæðarmörkin hækkuðu í 1.500.000 kr. í ársbyrjun 1991, í 3.750.000 kr. 1. janúar 1992 og að þau féllu niður í ársbyrjun 1993.
    Reglur um gjaldeyrisyfirfærslur af ýmsu tilefni, t.d. vegna gjafa og greiðslu arfs, voru rýmkaðar úr 14.000 kr. í 200.000 kr. Þá voru reglur um gjaldeyrisyfirfærslur vegna búferlaflutninga rýmkaðar verulega þannig að innlendum aðilum var heimilað að yfirfæra verðmæti eigna sinna til útlanda um leið og þeir hafa sest þar að.
    Veittar voru heimildir til að gera framvirka samninga um gjaldeyrisviðskipti, gera samninga um valrétt í gjaldeyrisviðskiptum og stofna til vaxta- og skuldaskipta svo framarlega sem ekki er um að ræða samninga þar sem íslenska krónan kemur við sögu.
     Við þessar breytingar á gjaldeyrisreglunum var gætt þeirra meginsjónarmiða að rýmka fyrst reglur um langtímahreyfingar fjármagns áður en hömlum væri aflétt á skammtímahreyfingum þar sem spákaupmennska og óstöðugleiki í peninga- og gjaldeyrismálum fylgir fremur þeim síðarnefndu. Jafnframt var gert ráð fyrir að hömlur yrðu rýmkaðar í áföngum til að draga úr líkum á því að breytingar á gjaldeyrisreglum yrðu til að tefla í tvísýnu því jafnvægi sem hafði myndast á innlendum fjármagnsmarkaði og gefa innlendum aðilum tækifæri til að aðlagast smátt og smátt nýjum aðstæðum.
     Eftir að fyrrgreindar breytingar á gjaldeyrisreglunum tóku gildi og fjárhæðarmörk hverfa að fullu í ársbyrjun 1993 verða enn við lýði hömlur á eftirfarandi sviðum gjaldeyrisviðskipta:
    Beinum fjárfestingum og fasteignakaupum erlendra aðila hér á landi.
    Öllum skammtímahreyfingum fjármagns til og frá landinu, t.d. kaupum á verðbréfum með gjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi.
    Öllum erlendum langtímalántökum sem falla utan reglnanna um erlendar lántökur án sérstaks tilefnis.
    Öllum erlendum skammtímalántökum öðrum en greiðslufresti vegna innflutnings vöru.
    Frjálsum yfirfærslurétti úr krónum í erlenda mynt og notkun erlendra bankareikninga.
    Framvirkum samningum og öðrum gjaldeyrisviðskiptum af svipuðum toga þar sem krónan kemur við sögu.

3. Alþjóðleg þróun.
     Efnahags- og framfarastofnunin (OECD).
    
Aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) gerðu með sér tvær mikilvægar samþykktir árið 1961 til að greiða fyrir milliríkjaviðskiptum með þjónustu og fjármagn. Önnur þeirra fjallar um afnám hafta á þjónustuviðskiptum (Code of Liberalisation of Current Invisible Operations) og hin um afnám hafta á fjármagnshreyfingum (Code of Liberalisation of Capital Movements). Samþykktirnar fela ekki aðeins í sér að aðildarríkin skuldbinda sig til að heimila gjaldeyrisyfirfærslur vegna viðskiptanna heldur einnig að afnema allar hömlur á viðskiptunum sjálfum. Eftir því sem alþjóðaviðskipti hafa þróast og tekið breytingum í áranna rás hefur nýjum ákvæðum verið bætt við samþykktirnar. Þannig má nefna að á árinu 1989 var samþykkt að bæta við nýjum liðum um skammtímahreyfingar fjármagns og ýmiss konar framvirk viðskipti í fjármagnshreyfingasamþykktina og nýjum liðum um fjármálaþjónustu, sem veitt er í öðru landi án þess að opna þar dótturfyrirtæki eða útibú, í samþykktina um þjónustuviðskipti.
     Aðildarríki OECD geta á fjóra vegu vikið sér undan ákvæðum ofangreindra samþykkta. Í fyrsta lagi gátu þau strax í upphafi undanþegið sig algerlega ákvæðum þeirra, þ.e. sett almennan fyrirvara við samþykktirnar í heild. Í öðru lagi geta þau sett ótímabundna fyrirvara við einstaka liði í samþykktunum, annaðhvort strax í upphafi eða við nýja liði í samþykktunum. Í þriðja lagi geta þau, ef alvarlegar aðstæður skapast vegna þess að gjaldeyrisreglur hafa verið rýmkaðar, endurvakið höft sem áður höfðu verið felld niður. Og í fjórða lagi geta aðildarríkin, ef mikill halli er á viðskiptum þeirra við útlönd, endurvakið tímabundið höft sem áður höfðu verið felld niður. Síðastnefndu tveir liðirnir eru því öryggisákvæði.
     Ísland setti í fyrstu almennan fyrirvara við báðar samþykktirnar en árið 1964 var fallið frá almenna fyrirvaranum við þjónustusamþykktina og í staðinn settir fyrirvarar við einstaka liði hennar eftir því sem þágildandi gjaldeyrisreglur gáfu tilefni til. Fyrirvörunum hefur síðan fækkað eftir því sem gjaldeyrisreglur hér á landi hafa verið rýmkaðar. Eftir að Spánn, Grikkland og síðast Tyrkland féllu frá almennum fyrirvara sínum við fjármagnshreyfingasamþykktina var Ísland eina aðildarríki stofnunarinnar sem hélt í slíkan fyrirvara.
     Breytingarnar á gjaldeyrisreglunum hér á landi í september og desember 1990, einkum rýmkun á fjölmörgum sviðum fjármagnshreyfinga, urðu til þess að 12. desember 1990 tilkynnti viðskiptaráðherra OECD að Ísland hefði ákveðið að falla frá almennum fyrirvara sínum við samþykktina um afnám hafta á fjármagnshreyfingum. Í stað hans yrðu settir fyrirvarar við einstaka liði samþykktarinnar eftir því sem gildandi gjaldeyrisreglur gæfu tilefni til.
     Evrópubandalagið.
    
Langt er síðan flest ríki Vestur-Evrópu gáfu gjaldeyrisviðskipti vegna kaupa á vöru og þjónustu frjáls. Áfram var þó við haldið ýmsum höftum á fjármagnshreyfingum milli landa.
     Einn af hornsteinunum í áformum Evrópubandalagsins (EB) um sameinað markaðssvæði er afnám hafta á fjármagnshreyfingum milli landa þannig að bandalagsríkin myndi einn fjármagnsmarkað. Þótt aðildarríki EB, sem aðilar að OECD, hafi um langt skeið unnið að því að fækka höftum á fjármagnshreyfingum í samræmi við samþykkt stofnunarinnar þar að lútandi var það ekki fyrr en árið 1986 með ákvörðuninni um hið sameinaða markaðssvæði að verulegur skriður komst á málið. Bretar voru fyrstir af ríkjum EB til að afnema hömlur á fjármagnshreyfingum að fullu árið 1979 og á fyrri hluta níunda áratugarins bættust Holland, Lúxemborg og Vestur-Þýskaland við. Samkvæmt tilskipun EB um fjármagnshreyfingar frá 1988 bar aðildarríkjunum að afnema öll höft á fjármagnshreyfingum fyrir 1. júlí 1990. Grikkland, Írland, Portúgal og Spánn, sem að ýmsu leyti búa við vanþróaðra hagkerfi og fjármagnsmarkað en hin aðildarríkin átta, hafa þó umþóttunartíma til ársloka 1992 (Grikkland og Portúgal jafnvel til 1995).
     Á leiðtogafundum EB í Madríd á Spáni í júní 1989 og Maastricht í Hollandi í lok árs 1991 voru teknar ákvarðanir um enn nánara samstarf aðildarríkjanna á sviði peningamála, gengis- og gjaldeyrismála. Fyrsti áfangi hófst 1. júlí 1990. Í honum verður öllum hömlum á fjármagnshreyfingum aflétt og allar þjóðirnar gerast aðilar að gengissamstarfi bandalagsins. Annar áfangi hefst 1. janúar 1994. Í honum skulu aðildarríkin auka sjálfstæði seðlabanka sinna og búa sig að öðru leyti undir þriðja og síðasta áfangann. Í öðrum áfanga verður sett á laggirnar peningamálastofnun Evrópu sem er undanfari sameiginlegs seðlabanka. Í þriðja áfanga taka aðildarríkin upp sameiginlegan gjaldmiðil, ECU, og sameiginlegur seðlabanki tekur til starfa. Fyrir árslok 1996 skulu leiðtogar bandalagsins meta hvort meiri hluti aðildarríkjanna uppfyllir ákveðin skilyrði til að þriðji áfangi geti hafist og hvenær það skuli gerast. Hafi leiðtogarnir ekki náð samkomulagi fyrir árslok 1997 um upphafsdag þriðja áfanga hefst hann 1. janúar 1999. Í því tilviki skulu leiðtogarnir ákveða hver af aðildarríkjunum taka upp sameiginlega gjaldmiðilinn strax við upphaf þriðja áfanga.
     Norðurlönd.
    
Norðurlönd og önnur ríki utan EB hafa brugðist við áformum EB um aukið frjálsræði í gjaldeyrismálum með því að rýmka eigin gjaldeyrisreglur til samræmis við það sem hefur gerst innan EB. Hér kemur einkum tvennt til. Annars vegar ótti við að samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum innan EB versni vegna betri aðgangs þeirra síðarnefndu að stærri og þróaðri fjármagnsmarkaði en fyrirtækjum í ríkjum utan EB gefst kostur á. Hins vegar hafa athuganir víða um lönd á síðustu árum leitt í ljós að vegna tæknibreytinga á sviði fjarskipta og fjármagnsmiðlunar og sívaxandi alþjóðastarfsemi fyrirtækja megna gjaldeyrisreglur ekki lengur að einangra innlendan fjármagnsmarkað frá alþjóðlegum áhrifum í sama mæli og áður. En það hefur einmitt verið höfuðtilgangur með gjaldeyrisreglum víðast hvar.
     Á fundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi um mánaðamót febrúar og mars 1989 var samþykkt efnahagsáætlun fyrir Norðurlönd fyrir tímabilið 1989–1992. Í henni er m.a. gert ráð fyrir að löndin afnemi hömlur á tilteknum fjármagnshreyfingum fyrir árslok 1992. Danir höfðu þegar í október 1988 afnumið öll höft á fjármagnshreyfingum og því gengið mun lengra en þessi áætlun gerði ráð fyrir þannig að hún hafði ekkert gildi fyrir þá að þessu leyti. Íslendingar gerðu fyrirvara við þessi áform á grundvelli þess að uppbygging hagkerfisins væri ólík því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt var augljóst að afnám hafta á fjármagnshreyfingum var skemmra á veg komið hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum og skrefin sem stíga átti því stærri hér á landi. Á fundi á Álandseyjum í nóvember 1989 ákváðu fjármálaráðherrar Norðurlanda að ganga mun lengra en tiltekið er í efnahagsáætluninni og afnema öll höft á fjármagnshreyfingum í síðasta lagi 1. júlí 1990, þ.e. sama dag og þróaðri ríki EB yrðu að hafa gert hið sama. Í samræmi við fyrri afstöðu var gerður fyrirvari við þessa dagsetningu af Íslands hálfu.
     Svíar hófu að afnema hömlur á fjármagnshreyfingum í apríl 1986. Í júlí 1989 stigu þeir síðustu skrefin á þeirri braut þegar fjölmargar hömlur voru afnumdar í einu vetfangi. Er nú svo komið að einungis beinar fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri og landa- og fasteignakaup eru háð ýmsum takmörkunum, svo og heimildir einstaklinga til að eiga innlánsreikninga í erlendum bönkum. Ráðgert er að afnema þessar hömlur á árinu 1992.
     Norðmenn afnámu hömlur á fjármagnshreyfingum í mörgum skrefum. Það gekk þó ekki áfallalaust. Í nóvember 1984 urðu þeir t.d. að takmarka á ný heimildir erlendra aðila til að kaupa innlend skuldabréf en vegna hárra vaxta í Noregi streymdi fjármagn í miklum mæli til landsins. Á árunum 1986 og 1987 urðu þeir að takmarka á ný möguleika innlendra aðila til að fjárfesta í tilteknum fjárfestingarsjóðum í útlöndum vegna ótta við undanskot frá skatti í Noregi. Þessum hömlum var aflétt á ný árið 1989. Í júní 1990 afnámu Norðmenn svo flestallar hömlur á gjaldeyrisviðskiptum sem enn voru til staðar. Bein fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri og landa- og fasteignakaup eru þó enn háð ýmsum takmörkunum og innlendum aðilum er óheimilt að kaupa aðrar tryggingar en vátryggingar af erlendum tryggingafélögum.
     Finnar hafa einnig kosið að afnema hömlur á fjármagnshreyfingum í áföngum bæði vegna þess að þeir bjuggu lengi við ófullburða fjármagnsmarkað sem var illa í stakk búinn til að mæta erlendri samkeppni og til að forðast of mikla röskun á gjaldeyris- og fjármagnsmarkaði. Í september 1989 og í ársbyrjun 1991 var aflétt flestum gjaldeyrishöftum sem enn voru í gildi. Í október 1991 var svo skrefið nánast stigið til fulls þegar takmarkanir á erlendum lántökum einstaklinga voru afnumdar. Bein fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri og landa- og fasteignakaup eru þó enn háð ýmsum takmörkunum.
     Evrópskt efnahagssvæði.
    
Í samningi um Evrópskt efnahagssvæði er í meginatriðum ákveðið að reglur EB á sviði gjaldeyrismála gildi um svæðið allt. Það þýðir að engar hömlur má leggja á gjaldeyrisviðskipti í tengslum við inn- og útflutning vöru og þjónustu, ferðalög og búferlaflutninga og fjármagnshreyfingar. Þó er heimilt, rétt eins og gildir innan EB, að viðhalda takmörkunum sem verið hafa á kaupum á íbúðarhúsnæði sem eingöngu er notað hluta úr ári, svo sem sumarbústöðum. Ákvæði samningsins um frelsi í gjaldeyrismálum veldur EFTA-ríkjunum, að Íslandi undanskildu, litlum sem engum vandkvæðum því að þau hafa nú þegar afnumið svo til allar hömlur á því sviði. Hins vegar sömdu EFTA-ríkin um aðlögunartíma vegna fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri og fasteignum. Þannig er Íslandi áskilinn þriggja ára aðlögunartími frá gildistöku samningsins vegna fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri og fasteignum. Eftir þann tíma mega lög hér á landi ekki frekar en í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu mismuna á milli innlendra og erlendra aðila hvað þessi atriði varðar. Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða er þó undanþegin ákvæðum samningsins og lögbundið bann við slíkri fjárfestingu má standa um ótakmarkaðan tíma. Þá nýtur Ísland einnig tveggja ára aðlögunartíma til að aflétta hömlum á skammtímahreyfingum fjármagns.

4. Áhrif af rýmkun gjaldeyrisreglna 1990.
     Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans hefur rýmkun á gjaldeyrisreglum árið 1990 ekki enn sem komið er haft umtalsverð áhrif á fjármagnshreyfingar til og frá landinu. Sem dæmi má nefna að bein fjárfesting innlendra aðila erlendis umfram beina fjárfestingu erlendra aðila hér á landi á síðasta fjórðungi ársins 1990 nam um 344 m.kr. og 160 m.kr. allt árið. Á árinu 1991 snerist þetta við og bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi varð 820 m.kr. hærri en beinar fjárfestingar innlendra aðila erlendis. Fasteignakaup innlendra aðila erlendis námu á árinu 1991 um 143 m.kr. umfram fasteignakaup erlendra aðila hér á landi samanborið við 68 m.kr. árið 1990. Þá hafa innlendir aðilar ekki reynst ginnkeyptir fyrir verðbréfum í erlendri mynt. Fyrstu sex mánuði ársins 1991 námu kaup innlendra aðila á verðbréfum erlendis um 230 m.kr. umfram kaup erlendra aðila á verðbréfum hér á landi en á síðara helmingi ársins snerist þetta við. Allt árið námu kaup erlendra aðila á verðbréfum hér á landi um 1.300 m.kr. hærri fjárhæð en kaup innlendra aðila á verðbréfum erlendis. Á þessu sviði hefur því hingað til verið um innstreymi fjármagns að ræða en ekki útstreymi.

5. Meginefni frumvarpsins.
     Með frumvarpi þessu er lagt til að fjölmargar breytingar verði gerðar á skipan gjaldeyris- og viðskiptamála hér á landi. Breytingarnar þjóna þríþættum tilgangi. Í fyrsta lagi að færa reglur á þessu sviði til samræmis við það sem gerist og gengur í helstu samkeppnislöndunum þannig að gjaldeyrisreglur skerði ekki samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Í öðru lagi að rýmka gjaldeyrisreglurnar svo að hér á landi geti þróast gjaldeyrismarkaður með eðlilegum hætti þar sem framboð og eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri hefur áhrif á gengi krónunnar. Breytingar í þá átt eru í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í gengismálum sem kynnt var 3. október 1991. Í þriðja lagi eru gjaldeyrislögin með þessum breytingum samræmd ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði á þessu sviði.
     Helstu breytingar frá gildandi lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála eru þessar:
    Lagt er til að skilið verði á milli gjaldeyrismála annars vegar og innflutningsmála hins vegar og að sett verði sérstök lög um gjaldeyrismál og önnur um innflutningsmál. Í þessu sambandi má nefna að gjaldeyrisviðskipti má í æ ríkari mæli rekja til fjármagnshreyfinga í stað milliríkjaviðskipta með vöru og þjónustu. Því þykir eðlilegt að skilja á milli gjaldeyrismála og innflutningsmála, rétt eins og lagaákvæði um útflutningsmál eru ekki tengd lagaákvæðum um gjaldeyrismál.
    Lagt er til að sú meginregla gildi að gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu skuli vera óheft, svo og fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra, nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögum. Í þessu felst sú grundvallarbreyting að í stað núverandi reglu um að gjaldeyrisviðskipti séu háð leyfum, nema annað sé sérstaklega tekið fram, mun í framtíðinni gilda sú meginregla að gjaldeyrisviðskipti skuli vera óheft nema þau séu sérstaklega takmörkuð í lögum.
    Í megintexta frumvarpsins og í ákvæði til bráðabirgða er tekið fram að allt til þess tíma er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar, en þó ekki lengur en til ársloka 1993 og ársloka 1994, geti viðskiptaráðherra ákveðið með reglugerð takmarkanir á þeim flokkum fjármagnshreyfinga sem taldir eru upp í viðkomandi lagagrein og ákvæði til bráðabirgða. Ákvæðin taka mið af ákvæðum í samningunum um Evrópskt efnahagssvæði og þeim aðlögunarfresti sem Íslandi er heimilaður í samningnum. Í drögum að reglugerð um gjaldeyrismál, sem birt er sem fylgiskjal með frumvarpinu, kemur nánar fram hvaða hömlur ráðgert er að verði við lýði eftir gildistöku frumvarpsins. Þær varða einkum:
         
    
    Viðskipti með erlend verðbréf til lengri tíma en eins árs (hömlur felldar niður í árslok 1992).
         
    
    Skammtímahreyfingar fjármagns aðrar en skammtímalántökur í tengslum við milliríkjaviðskipti með vöru og þjónustu (hömlur felldar niður í áföngum til ársloka 1994).
         
    
    Beinar fjárfestingar í atvinnurekstri, sbr. lög nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, fjárfestingu erlendra aðila í fasteignum, sbr. lög nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, og fjárfestingu erlendra aðila í hlutabréfum. Hömlur á þessum sviðum taka mið af ákvæðum fyrrgreindra laga. Samkvæmt ákvæði í samningsdrögum um Evrópskt efnahagssvæði verður að afnema flestar þeirra í síðasta lagi í árslok 1995. Það skal undirstrikað að ákvæðin um þessi atriði í reglugerðardrögunum endurspegla núgildandi orðalag fyrrgreindra laga. Verði frumvarp þetta að lögum mun reglugerðin að sjálfsögðu endurspegla ákvæði þágildandi laga á þessum sviðum.
                  Þegar við gildistöku laganna verða því felldar brott allar gildandi hömlur á yfirfærslum vegna ferða- og námskostnaðar, fjárfestingu innlendra aðila í atvinnurekstri erlendis og fasteignakaupum erlendis. Sama gildir um hömlur á erlendum lántökum til lengri tíma en eins árs hvort sem þær tengjast milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu eða ekki. Jafnframt verða engar hömlur á skammtímalántökum í tengslum við milliríkjaviðskipti með vöru og þjónustu. Á sama tíma verður stigið fyrsta skrefið í afnámi hafta á öðrum skammtímahreyfingum fjármagns.
                  Frá og með 1. janúar 1993 er ráðgert að allar hömlur á viðskiptum með langtímaverðbréf hverfi og að 1. janúar 1994 taki gildi annar áfangi í afnámi hafta á skammtímahreyfingum fjármagns. Ráðgert er að allar hömlur á því sviði falli niður frá og með 1. janúar 1994.
                  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rýmkun á gjaldeyrishöftum gildi án mismununar gagnvart þegnum allra ríkja. Þessari meginreglu hefur verið fylgt við afnám gjaldeyrishafta á liðnum árum og öll rök mæla með því að svo verði áfram. Er það einnig í samræmi við stefnu OECD. Þó skal bent á að samkvæmt samþykktum OECD væri aðildarríkjum EB, EFTA og Evrópska efnahagssvæðisins heimilt að hafa rýmri ákvæði í gjaldeyrisreglum sínum gagnvart þegnum annarra aðildarríkja þessara samtaka en gagnvart þegnum ríkja utan þeirra. Nokkur af aðildarríkjum EB hafa nýtt sér þann rétt en ekkert EFTA-ríkjanna.
    Í frumvarpinu er svokallað öryggisákvæði sem heimilar Seðlabankanum að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið að ákveða tímabundna stöðvun tiltekinna flokka fjármagnshreyfinga ef fjármagnshreyfingar til og frá landinu valda óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Þeir flokkar fjármagnshreyfinga, sem unnt verður að hefta samkvæmt þessu ákvæði, eru taldir upp í frumvarpinu. Ákvæði af þessu tagi er heimilt samkvæmt samningsdrögum um Evrópskt efnahagssvæði.
    Í núgildandi lögum er viðskiptaráðuneytinu falið forræði á sumum sviðum gjaldeyrismála og Seðlabankanum á öðrum, t.d. verðbréfa- og fasteignakaup Íslendinga erlendis og lán til erlendra aðila. Þetta er óheppilegt. Því er lagt til að verkaskipting viðskiptaráðuneytisins og Seðlabankans verði með þeim hætti að ráðuneytið setji allar meginreglur á sviði gjaldeyrismála og Seðlabankinn setji nánari reglur um framkvæmd gjaldeyrisviðskipta og annist daglega framkvæmd á þessu sviði. Því er gert ráð fyrir að Seðlabankinn, en ekki ráðuneytið, veiti undanþágur frá þeim takmörkunum sem gilda hverju sinni um gjaldeyrisviðskipti.
    Lagt er til að heimildir til að stunda gjaldeyrisviðskipti fyrir þriðja aðila verði rýmkaðar frá því sem nú er. Í gildandi lögum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála og lögum um Seðlabanka Íslands er, auk Seðlabanka Íslands, viðskiptabönkum, sparisjóðum, Lánastofnun sparisjóðanna hf. og Póst- og símamálastofnuninni heimilað að stunda gjaldeyrisviðskipti innan marka sem Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ráðherra. Í frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá því að telja upp mismunandi flokka stofnana eða einstakar stofnanir sem hafa heimild til að stunda gjaldeyrisviðskipti. Þess í stað verði lögfest almennt ákvæði þar sem fram kemur með hvaða hætti unnt er að öðlast leyfi til að stunda gjaldeyrisviðskipti: í fyrsta lagi með heimild í lögum, í öðru lagi með heimild í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Sem dæmi má nefna að í samningi um Evrópskt efnahagssvæði er kveðið á um að starfsleyfi lánastofnana í heimalandi þeirra, þar á meðal leyfi til gjaldeyrisviðskipta, gildi einnig hér á landi. Í þriðja lagi er lagt til að Seðlabankinn geti veitt öðrum aðilum leyfi til að stunda gjaldeyrisviðskipti.
    Lagt er til að heimildir til að hafa milligöngu um viðskipti milli innlendra og erlendra aðila með verðbréf verði rýmkaðar frá því sem nú er. Samkvæmt auglýsingu Seðlabankans frá 14. desember 1990 um viðskipti með verðbréf í erlendri mynt er einungis aðilum að Verðbréfaþingi Íslands heimilað að hafa milligöngu um slík viðskipti. Á þeim tíma þótti eðlilegt að takmarka viðskiptin við þann hóp þar sem viðskipti með verðbréf í erlendri mynt voru nýjung og aðilar að Verðbréfaþingi Íslands voru taldir búa yfir mestri þekkingu á þessu sviði. Með auknu frjálsræði í gjaldeyrisviðskiptum þykir hins vegar óeðlilegt að takmarka heimild til að hafa milligöngu um þessi viðskipti við svo þröngan hóp. Nú er lagt til að lögfest verði heimild til ráðherra til að ákveða í reglugerð hvort þessum viðskiptum skuli beint í ákveðinn farveg. Jafnframt verði heimilt að undanþiggja í reglugerðinni ákveðna flokka lögaðila, t.d. viðskiptabanka, sparisjóði og fjárfestingarlánasjóði, kröfunni um að þurfa milligöngu annarra aðila um viðskipti af þessu tagi. Þá er heimilt að kveða á um að Seðlabankinn geti veitt einstökum lögaðilum undanþágu frá þessari kröfu. Þar gæti t.d. verið um að ræða lögaðila sem hyggst kaupa allt hlutafé í lögaðila erlendis.
    Lagt er til að áfram gildi upplýsingaskylda vegna gjaldeyrisviðskipta þótt gjaldeyrishöft hverfi. Hins vegar er ekki að finna í frumvarpinu ákvæði um rannsóknar- og úrskurðarvald gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í meintum brotum á gjaldeyrisreglunum eins og eru í lögunum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála frá 1979. Annars staðar á Norðurlöndum er gengið út frá þeirri meginreglu að öll gjaldeyrisviðskipti séu tilkynningarskyld þótt gjaldeyrisleyfis sé ekki lengur krafist.
    Lagt er til að lögskipuð samstarfsnefnd um gjaldeyrismál verði lögð niður. Í drögum að reglugerð er gert ráð fyrir að sett verði á laggirnar samráðsnefnd um gjaldeyrismál til að fylgjast með framkvæmd gjaldeyrismála, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um gjaldeyrismál og framkvæmd þeirra. Ætla má að þörf fyrir samráðsnefnd af þessu tagi sé mest á meðan frelsi í gjaldeyrismálum er að festast í sessi.
    Í frumvarpinu er lagt til að þeir aðilar, sem annast gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar fyrir viðskiptamenn sína, hafi til reiðu skýrar og handhægar upplýsingar um slíka þjónustu ásamt upplýsingum um umboðslaun og gjöld fyrir slíka þjónustu. Jafnframt er lagt til að viðskiptaráðherra geti með reglugerð sett nánari ákvæði um samningskjör vegna gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga. Í samningi um Evrópskt efnahagssvæði er þeim tilmælum beint til aðildarríkjanna að setja slíkar reglur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein eru helstu hugtök skilgreind. Í samræmi við þá stefnu, sem fylgt er hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og í aðildarríkjum hennar, er búseta einstaklings og heimili lögaðila lögð til grundvallar skilgreiningu á því hver telst vera innlendur eða erlendur aðili í skilningi frumvarpsins. Benda má á sambærilegar skilgreiningar í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og reglugerð nr. 312/1990 um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Rétt er að benda á að í fyrrnefndum lögum um fjárfestingu erlendra aðila eru útibú erlendra lögaðila hér á landi talin til erlendra aðila en samkvæmt skilgreiningu í þessu frumvarpi teljast þeir til innlendra aðila. Er það í samræmi við stefnu OECD og gjaldeyrisreglur í öðrum ríkjum. Þetta veldur engum vandkvæðum í ákvæðum þessa frumvarps en hins vegar þarf að gæta þess svo að ekki valdi misskilningi að í ákvæðum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi í reglugerð um skipan gjaldeyrismála verði tekið fram að skilgreining laganna um fjárfestingu erlendra aðila gildi á því sviði.
     Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. Þannig er verðbréf ávallt innlent ef aðili búsettur hér á landi gefur það út og gildir þá einu hvort það er gefið út hér á landi, erlendis, í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Þessar skilgreiningar eru í samræmi við skilgreiningar OECD. Bent skal á að í daglegu tali hér á landi eru verðbréf hins vegar iðulega flokkuð eftir myntinni eða útgáfustaðnum.
     Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent.

Um 2. gr.


    Í þessari grein kemur fram sú meginstefna frumvarpsins að öll gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu og fjármagnshreyfinga skuli vera óheft. Til samræmis við skuldbindingar Íslands gagnvart OECD er einnig tekið fram að fjármagnshreyfingarnar sjálfar skuli vera óheftar. Hér er í rauninni um aðskildar athafnir að ræða rétt eins og reglur um innflutning vöru eru ótengdar reglum um greiðslur milli landa fyrir þær.
     Í samningi um Evrópskt efnahagssvæði er Ísland skuldbundið til að aflétta öllum hömlum á gjaldeyrisviðskiptum vegna vöru- og þjónustuviðskipta. Hið sama gildir um fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra. Svipað gildir einnig gagnvart OECD vegna samþykkta stofnunarinnar frá 1961 þótt ekki sé þar um jafnafdráttarlausa skuldbindingu að ræða. Í annarri samþykktinni er kveðið á um afnám hafta á þjónustuviðskiptum og gjaldeyrisviðskiptum vegna þeirra. Í hinni er kveðið á um afnám hafta á fjármagnshreyfingum.
     Um frávik frá reglunni um óheft gjaldeyrisviðskipti er fjallað í 3.–5. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði svokallað öryggisákvæði. Óvenjulegar aðstæður, svo sem horfur í vaxtamálum og gengisbreytingum, leiða iðulega til þess að fjármagn streymir skyndilega til eða frá landi í von um skjótfenginn hagnað. Skyndihreyfingar fjármagns geta haft afar óæskileg áhrif á innlendan peninga- og gjaldeyrismarkað og skapað þar umrót og óvissu. Ótal dæmi eru um spákaupmennsku af þessu tagi í nágrannaríkjunum. Í flestum tilfellum geta seðlabankar stemmt stigu við fjármagnsflæðinu með almennum aðgerðum, einkum kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri og vaxtabreytingum. Sú staða getur hins vegar komið upp að slíkar aðgerðir dugi ekki og fjármagnsflæðið verði ekki stöðvað nema með því að binda það höftum. Því er lagt til að Seðlabankanum verði heimilt að grípa til aðgerða af því tagi að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið en einungis á sviði skammtímahreyfinga fjármagns. Ákvæði af þessu tagi eru heimil samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er tryggt samræmi á milli laga og reglugerða um gjaldeyrismál og laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Þetta er gert til að gjaldeyrisreglur endurspegli að fullu þær takmarkanir sem fyrrgreind lög setja á þessum sviðum.
     Til að taka af allan vafa er í 2. mgr. lagt til að ekki megi setja skorður við flutningi erlendra aðila á fé til útlanda við sölu á eignarhlut í atvinnufyrirtæki, slit atvinnufyrirtækis eða sölu fasteignar hér á landi.
     Rétt er að benda á að samkvæmt lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, teljast öll kaup erlendra aðila á eignarhlut í innlendu félagi til beinnar fjárfestingar í atvinnurekstri og falla því undir ákvæði laganna. Þetta er í andstöðu við skilgreiningar OECD, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og flestra annarra ríkja í þessum efnum. Yfirleitt teljast kaup á hlutabréfum upp að ákveðnu marki, t.d. 10% af hlutafé, ekki til beinnar fjárfestingar heldur til óbeinnar fjárfestingar og lúta því sömu reglum og önnur verðbréfakaup. Að óbreyttum lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri verða því að gilda strangar reglur um kaup erlendra aðila á hlutabréfum í innlendum félögum, jafnvel í þeim tilvikum þegar um er að ræða óbeina fjárfestingu (verðbréfafjárfestingu) af þeirra hálfu en ekki áhuga á að seilast til áhrifa í íslensku atvinnulífi.

Um 5. gr.


    Samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæði er Íslandi heimilt að viðhalda allt til 1. janúar 1995 hömlum á skammtímahreyfingum fjármagns sem taldar eru upp í viðauka II við EB-tilskipunina um fjármagnshreyfingar (88/361/EBE). Þessir flokkar skammtímahreyfinga eru taldir upp í 1. mgr. greinarinnar og er viðskiptaráðherra heimilað að ákveða í reglugerð að takmarkanir gildi um einhverja eða alla flokka þessara skammtímahreyfinga til loka aðlögunartímans. Í 2. mgr. er sambærilegt ákvæði um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris.
     Í drögum að reglugerð um gjaldeyrismál, sem birt er í fylgiskjali, kemur fram í 7.–15. gr. að fyrirhugað er að allar hömlur á þessu sviði falli úr gildi 1. janúar 1995. Er það í samræmi við þann aðlögunarfrest sem gefinn er í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Þær aðstæður kynnu hins vegar að skapast síðar að ekki þætti ástæða til að nýta aðlögunarfrestinn til fulls.

Um 6. gr.


    Ákvæði af þessu tagi eru í gjaldeyrisreglum fjölmargra ríkja og eru heimil samkvæmt reglum OECD og samningi um Evrópskt efnahagssvæði.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er í fyrsta lagi lagt til að Seðlabankinn geti veitt undanþágur frá þeim takmörkunum á fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum sem settar kunna að verða. Í þessu felst mikilvæg breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Vegna ákvæða í gildandi gjaldeyrislögum um valdsvið viðskiptaráðuneytisins og Seðlabankans veitir ráðuneytið undanþágur í sumum tilvikum og Seðlabankinn í öðrum. Þannig veitir t.d. ráðuneytið leyfi til að taka erlend lán en Seðlabankinn undanþágur frá reglum um fasteignakaup innlendra aðila erlendis og kaup innlendra aðila á verðbréfum erlendis. Nú er lagt til að dagleg framkvæmd í gjaldeyrismálum, þar á meðal veiting undanþágna, sé í höndum Seðlabankans. Rétt er að benda á að frá og með 1. janúar 1995 verður búið að aflétta öllum hömlum og upp frá því ekki um neinar undanþágur að ræða nema því aðeins að öryggisákvæðinu skv. 3. gr. frumvarpsins sé beitt.
     Í öðru lagi er lagt til að innheimt verði 1% leyfisgjald af þeirri fjárhæð sem um ræðir hverju sinni. Í 14. gr. núgildandi gjaldeyrislaga er heimild til að innheimta allt að 2% leyfisgjald samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra. Gjaldið hefur um langt skeið verið 1% og er lagt til að það hlutfall verði lögfest.

Um 8. gr.


    Í þessari grein er fjallað um þá aðila sem heimilt er að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og versla með erlendan gjaldeyri hér á landi. Það eru Seðlabankinn, þeir aðilar sem til þess hafa heimild í lögum, t.d. bankar og sparisjóðir, þeir aðilar sem heimild hafa til þess í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að og þeir aðilar sem hafa fengið leyfi frá Seðlabankanum. Með alþjóðlegum samningum er fyrst og fremst verið að vísa til samnings um Evrópskt efnahagssvæði.
     Ákvæðið ber að túlka þannig að þar sé átt við aðila sem hafa það að meginstarfsemi að versla við almenning með erlendan gjaldeyri eða þar sem slík viðskipti eru eðlilegur hluti af starfseminni. Ákvæðið nær því einkum til banka, sparisjóða og annarra sambærilegra stofnana. Einnig má hugsa sér að í framtíðinni hafi ferðaskrifstofur áhuga á viðskiptum af þessu tagi og að sérstakar skiptistöðvar fyrir erlendan gjaldeyri verði settar á laggirnar. Ákvæðið nær hins vegar ekki til viðskipta í verslunum þegar erlendur ferðamaður greiðir fyrir vöru með erlendum gjaldeyri né til annarra slíkra viðskipta.

Um 9. gr.


    Í núgildandi reglum um viðskipti með erlend verðbréf er kveðið á um að einungis aðilar að Verðbréfaþingi Íslands megi hafa milligöngu um þau. Var það talin eðlileg krafa þegar þessi viðskipti voru heimiluð á árinu 1990. Slíkt ákvæði er andstætt samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Hins vegar væri unnt að útiloka aðila utan Evrópska efnhagssvæðisins frá því að hafa milligöngu um viðskipti af þessu tagi hér á landi. Í greininni er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að ákveða í reglugerð hvort þessum viðskiptum skuli beint í tiltekinn farveg. Sé það gert þykir nauðsynlegt að hafa ótvíræð lagaákvæði um að í reglugerðinni megi undanskilja einstaka flokka lögaðila, t.d. viðskiptabanka, sparisjóði og fjárfestingarlánasjóði, kröfunni um milligöngu annarra aðila. Í öðru lagi er tekið fram að í reglugerðinni megi kveða á um að Seðlabankinn geti veitt einstökum aðilum leyfi til að eiga milliliðalaus verðbréfaviðskipti við erlenda aðila. Dæmi um slíkt er þegar lögaðili fjárfestir í atvinnurekstri erlendis með kaupum á hlutabréfum eða hefur sjálfur til að bera mikla þekkingu á verðbréfaviðskiptum.

Um 10. gr.


    Hér er um nýjung að ræða í íslenskum gjaldeyrisreglum. Í samningi um Evrópskt efnahagssvæði eru m.a. tilmæli til aðildarríkjanna um að setja reglur um upplýsingar sem veita verður viðskiptavinum um kostnað og önnur kjör í gjaldeyrisviðskiptum og úrskurð deilumála sem kunna að rísa af þessu tilefni. Tilgangurinn er sá að viðskiptavinir hafi ávallt möguleika til að kynna sér fyrir fram þann kostnað sem af viðskiptunum hlýst. Ekki þykir ástæða til að lögfesta þessar reglur og er því gert ráð fyrir að þær verði settar með reglugerð.

Um 11. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um skyldu til að veita upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti. Lagt er til að ákvæðið þar að lútandi verði afdráttarlaust. Jafnframt er ákvæði þess efnis að Seðlabankinn geti sett nánari reglur um framkvæmd gjaldeyrisviðskipta, svo sem um skráningar- og tilkynningarskyldu vegna reikninga í eigu innlendra aðila í erlendum innlánsstofnunum, framlagningu gagna, almenna upplýsingagjöf og gerð eyðublaða.
     Í flestum tilvikum mun upplýsingaskyldunni verða fullnægt með þeim hætti að viðskiptavinur fyllir út eyðublað í banka eða sparisjóði með lágmarksupplýsingum rétt eins og gildir um fjölmörg svið innlendra viðskipta. Upplýsingar um heildargjaldeyrisviðskipti dagsins samkvæmt helstu flokkum ganga síðan til Seðlabankans. Í öðrum tilvikum verður gerð sú krafa að tilkynna verður einstök viðskipti. Á þetta sérstaklega við um opnun bankareikninga erlendis og notkun þeirra. Er talið eðlilegt að lögfesta ekki framkvæmdaratriði af þessu tagi heldur fela Seðlabankanum að setja reglur þar að lútandi.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 15. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er það einungis að hluta til flutt vegna samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt vegna áframhaldandi frjálsræðisþróunar í gjaldeyrismálum hér á landi, einkum þróun frjáls gjaldeyrismarkaðar.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


     Samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæði er Ísland skuldbundið til að hafa aflétt hömlum á þeim fjármagnshreyfingum sem taldar eru upp í ákvæðinu og gjaldeyrisviðskiptum vegna þeirra við gildistöku samningsins. Hér er því lagt til að frá þeim tíma, sem lögin taka gildi þar til samningurinn tekur gildi, en þó ekki lengur en til 1. janúar 1994, geti viðskiptaráðherra með reglugerð ákveðið að hömlur gildi á þessu sviði. Þykir eðlilegt að búa svo um hnútana þar sem gildistaka frumvarpsins er ekki miðuð við gildistöku samningsins hér á landi. Hins vegar þykir engin ástæða til að lagaheimildin fyrir þessum höftum geti staðið lengur en til ársloka 1993 enda gert ráð fyrir því í núgildandi gjaldeyrisreglum að hömlur á þessu sviði falli niður í lok þessa árs. Fyrirhugaðar reglur koma fram í 6. gr. í drögum að reglugerð um gjaldeyrismál sem birt er í fylgiskjali með frumvarpinu. Er þar eingöngu um að ræða hömlur á viðskiptum með langtímaverðbréf og taka þær mið af núgildandi reglum á því sviði, sbr. auglýsingu Seðlabankans um viðskipti með verðbréf í erlendri mynt frá 14. desember 1990.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


     Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal I.

Drög.

Reglugerð um gjaldeyrismál.I. KAFLI


Orðskýringar.


1. gr.


    Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
     Innlendur aðili merkir:
    sérhvern mann sem hefur fasta búsetu hér á landi samkvæmt lögum um lögheimili, án tillits til ríkisfangs; sama á við um íslenskan ríkisborgara og skyldulið hans sem hefur búsetu erlendis en gegnir störfum þar á vegum íslenska ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannsskrifstofu og tekur laun úr ríkissjóði eða er starfsmaður alþjóðastofnunar sem Ísland er aðili að;
    sérhvern lögaðila sem skráður er til heimilis hér á landi á lögmæltan hátt, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi; hérlend útibú lögaðila, sem heimili eiga erlendis, teljast til innlendra aðila.
     Erlendur aðili merkir alla aðra aðila en innlenda. Til erlendra aðila teljast m.a. starfsmenn erlendra sendiráða hér á landi sem eru erlendir ríkisborgarar og varnarlið á vegum Atlantshafsbandalagsins hér á landi. Sama gildir um skyldulið þessara aðila sem dvelst hér á landi og hefur ekki íslenskt ríkisfang.
     Innlendur gjaldeyrir merkir íslenska peningaseðla, slegna peninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli, sem hljóða upp á greiðslu í íslenskum krónum, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýra málma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum hér á landi.
     Erlendur gjaldeyrir merkir erlenda peningaseðla, slegna peninga, tékka og aðrar ávísanir, víxla og önnur greiðslufyrirmæli, sem hljóða upp á greiðslu í erlendri mynt, minnispeninga, gull, silfur og aðra dýra málma ef þeir eru notaðir sem gjaldmiðill í viðskiptum erlendis.
     Gjaldeyrisviðskipti merkja það að skipta innlendum gjaldeyri fyrir erlendan, erlendum gjaldeyri fyrir innlendan eða einum erlendum gjaldeyri fyrir annan eða reikningsviðskipti sem eru ígildi þess að erlendur gjaldeyrir sé látinn af hendi eða móttekinn.
     Fjármagnshreyfingar merkja yfirfærslu eða flutning á fjármunum milli landa sem tengjast:
    beinum fjárfestingum,
    útgáfu á og viðskiptum með hlutabréf, skuldabréf, víxla, hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða og önnur langtíma- eða skammtímaverðbréf,
    lánveitingum, lántökum og greiðslu eða móttöku afborgana af lánum,
    veitingu ábyrgða og hvers konar greiðslutrygginga,
    opnun bankareikninga og notkun þeirra,
    framvirkum viðskiptum (á ensku: forward contract, futures), viðskiptum með valrétt (valkvæðum viðskiptum, option) og gjaldmiðla- og vaxtaskiptum (swap),
    yfirfærslu á fjármunum einstaklinga og fjölskyldna.
     Skammtímahreyfingar fjármagns merkja fjármagnshreyfingar milli landa sem tengjast:
    útgáfu á og viðskiptum með skuldabréf og víxla með lokagjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi og önnur slík skammtímaverðbréf,
    útgáfu á og viðskiptum með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum,
    lánveitingum og lántökum til skemmri tíma en eins árs,
    innleggi á og úttekt af reikningum í innlánsstofnunum.
     Jafnframt teljast til skammtímahreyfinga fjármagns inn- og útflutningur skammtímaverðbréfa og önnur hliðstæð viðskipti.
     Langtímahreyfingar fjármagns merkja allar aðrar fjármagnshreyfingar en skammtímahreyfingar fjármagns.
     Bein fjárfesting merkir fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut til að öðlast virk áhrif á stjórn þess. Langtímalán frá eigendum fyrirtækis til fyrirtækisins, þar á meðal lántaka með sérstökum skilyrðum, sbr. 39. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, teljast einnig bein fjárfesting.
     Óbein fjárfesting merkir alla aðra fjárfestingu en beina fjárfestingu, einkum fjárfestingu í verðbréfum, sem er fyrst og fremst til þess ætluð að ávaxta fé en ekki til að öðlast virk áhrif á stjórn fyrirtækis.
     Innlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem innlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.
     Erlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem erlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.

II. KAFLI


Meginreglur um gjaldeyrisviðskipti.


2. gr.


Óheft gjaldeyrisviðskipti.


    
Gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu skulu vera óheft, svo
og fjármagnshreyfingar og gjaldeyrisviðskipti vegna þeirra, nema annað sé ákveðið í lögum.

3. gr.


Bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi.


    
Erlendum aðilum er heimilt innan þeirra marka, sem kveðið er á um í lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, að stofna til beinna fjárfestinga í atvinnurekstri hér á landi. Um skilgreiningu á erlendum aðila í þessu sambandi fer eftir lögum nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og teljast því hérlend útibú erlendra lögaðila til erlendra aðila.
     Takmarkanir á beinum fjárfestingum erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi eru:
    Íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hérlendis, og lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eign íslenskra ríkisborgara, sem eiga lögheimili hérlendis, mega einir stunda fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt lögum nr. 33/1922, um rétt til fiskiveiða í landhelgi.
    Íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hérlendis, og lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eign íslenskra ríkisborgara, sem eiga lögheimili hérlendis, mega einir eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Til vinnslu í þessu sambandi telst hins vegar ekki umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu.
    Íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar, sem eiga lögheimili hérlendis, og lögaðilar, sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis, mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.
    Samanlagður eignarhlutur erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki, sem stundar flugrekstur hér á landi, má á hverjum tíma ekki vera meiri en 49%.
    Erlendir aðilar mega eiga 25% hlutafjár í íslenskum viðskiptabanka sem rekinn er af hlutafélagi.
    Fjárfesting erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis í atvinnurekstri hér á landi er óheimil, nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
    Fari heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi fram úr 250 millj. kr. á einu almanaksári skal fjárfesting umfram fyrrgreind viðmiðunarmörk háð sérstöku leyfi viðskiptaráðherra. Viðmiðunarmörkin miðast við lánskjaravísitölu í júní 1990, 2.887 stig, og breytist í samræmi við breytingar sem verða á henni til hækkunar eða lækkunar. Fjárfesting erlends aðila telst eiga sér stað í skilningi þessa töluliðar þegar tilkynningarskylda stofnast, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.
    Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskiptaráðherra. Með heildarfjárfestingu í atvinnugrein er átt við áætlaða fjárfestingu í iðnaði, öðrum en orkufrekum iðnaði, verslun og þjónustu, samgöngurekstri og fiskeldi samkvæmd mati Þjóðhagsstofnunar.
     Tilkynna ber Seðlabanka Íslands alla erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til fjárfestingar erlends aðila í atvinnufyrirtæki sem hann hefur ekki átt í áður og viðbótarfjárfestingar í slíku fyrirtæki. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og teljast nauðsynleg að mati Seðlabankans. Sé um að ræða erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnufyrirtæki hvílir tilkynningarskyldan á viðkomandi atvinnufyrirtæki en sé um að ræða fyrirhugaða atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni erlends aðila hvílir tilkynningarskyldan á honum.
     Erlendum aðila er jafnframt heimilt við sölu á eignarhlut sínum eða slit atvinnufyrirtækisins að ráðstafa söluandvirðinu hér á landi í samræmi við ákvæði gildandi laga eða flytja það úr landi.

4. gr.


Hlutabréfaviðskipti erlendra aðila.


    
Kaup erlendra aðila á hlutabréfum í innlendum félögum eru háð sömu takmörkunum
og beinar fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, sbr. 4. gr. laga nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, og 3. gr. þessarar reglugerðar:
    Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa hlutabréf í félagi er stundar fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa hlutabréf í félagi er leggur stund á vinnslu sjávararfurða hér á landi. Með vinnslu sjávarafurða er átt við frystingu, söltun, herslu, reykingu, súrsun, niðursuðu, niðurlagningu og hverja aðra þá verkun sem ver fisk og aðrar sjávarafurðir skemmdum, þar með taldar bræðsla og mjölvinnsla. Hins vegar telst umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu ekki til vinnslu í þessu sambandi.
    Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa hlutabréf í félagi er á eða eignast virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um félag sem stundar orkuvinnslu eða orkudreifingu.
    Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa hlutabréf í félagi er stundar flugrekstur hér á landi ef samanlagður eignarhlutur erlendra aðila hefur þegar náð 49%.
    Erlendum aðilum er óheimilt að kaupa hlutabréf í íslenskum viðskiptabanka ef samanlagður eignarhlutur erlendra aðila hefur þegar náð 25%.
    Kaup erlends ríkis eða fyrirtækis í eigu erlends ríkis á hlutabréfum í innlendu félagi eru óheimil, nema með sérstöku leyfi viðskiptaráðherra.
    Fari heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi fram úr 250 milljónum króna á einu almanaksári skulu kaup á hlutabréfum umfram fyrrgreind viðmiðunarmörk háð sérstöku leyfi viðskiptaráðherra. Viðmiðunarmörkin miðast við lánskjaravísitölu í júní 1990, 2.887 stig, og breytast í samræmi við breytingar sem verða á henni til hækkunar eða lækkunar. Fjárfesting erlends aðila telst eiga sér stað í skilningi þessa töluliðar þegar tilkynningarskylda stofnast, sbr. 2. mgr. þessarar greinar.
    Heildarfjárfesting erlendra aðila í hverri atvinnugrein fyrir sig má ekki fara yfir 25% nema til komi leyfi viðskiptaráðherra. Með heildarfjárfestingu í atvinnugrein er átt við áætlaða fjárfestingu í iðnaði, öðrum en orkufrekum iðnaði, verslun og þjónustu, samgöngurekstri og fiskeldi samkvæmd mati Þjóðhagsstofnunar.
     Tilkynna ber Seðlabankanum öll kaup erlendra aðila á hlutabréfum í innlendum félögum jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir. Tilkynningarskyldan tekur bæði til kaupa erlends aðila á hlutabréfum í félagi sem hann hefur ekki átt í áður og kaupa á viðbótarhlutafé í slíku félagi. Tilkynningu skulu fylgja afrit eða ljósrit af skjölum eða gögnum sem málið varða og teljast nauðsynleg að mati bankans. Tilkynningarskyldan hvílir á viðkomandi félagi.

5. gr.


Fasteignaviðskipti erlendra aðila hér á landi.


    
Um heimildir erlendra aðila til að kaupa eða öðlast afnotarétt yfir fasteignum hér á
landi fer eftir ákvæðum 1. gr. laga nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sbr. 8. gr. laga nr. 23/1991, um breytingu á lagaákvæðum er varða fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri o.fl.:
     Enginn má öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi, þar á meðal veiðirétt, vatnsréttindi eða önnur fasteignaréttindi, hvort sem er fyrir frjálsa afhendingu eða nauðungarráðstöfun, hjúskap, erfðir eða afsal, nema eftirtöldum skilyrðum sé fullnægt:
    Ef um er að ræða einstakling þá skal hann vera íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár.
    Ef um er að ræða félag þar sem hver eigandi ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins þá skulu þeir allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár.
    Ef um er að ræða félag þar sem sumir eigenda bera fulla en sumir takmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins skulu þeir er fulla ábyrgð bera allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár.
    Ef félag er þar sem enginn félaga ber fulla ábyrgð á skuldum félagsins eða stofnun skal félagið eða stofnunin eiga hér heimilisfang og varnarþing og stjórnendur allir vera íslenskir ríkisborgarar eða með lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár. Í hlutafélögum skulu 4 / 5 hlutafjár vera eign íslenskra ríkisborgara og íslenskir ríkisborgarar fara með meiri hluta atkvæða á hluthafafundum.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. tölul. 1. mgr. er dómsmálaráðherra heimilt að veita leyfi ef ástæða þykir til. Eigi þarf þó leyfi:
    Ef um er að ræða leigu á fasteign eða réttindi yfir henni og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri eða uppsögn áskilin með eigi lengri en árs fyrirvara.
    Ef um er að ræða aðila sem ekki fullnægir skilyrðum 1.–4. tölul. 1. mgr., en hefur rétt til að þess að stunda atvinnurekstur hér á landi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til eigin nota og/eða til notkunar í atvinnustarfsemi sinni, enda fylgi henni einungis venjuleg lóðarréttindi, en ekki önnur réttindi, svo sem veiðiréttur eða vatnsréttindi.
     Leggja skal fyrir dómsmálaráðuneytið samninga, afsöl eða önnur heimildarskjöl vegna eignar- eða afnotaréttinda erlendra aðila hér á landi og öðlast gerningurinn ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest hann með áritun sinni.
     Óheimilt er innlendum aðila að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti erlendra aðila vegna kaupa eða leigu á fasteign nema framvísað sé samningi, afsali eða öðrum heimildarskjölum með áritun dómsmálaráðuneytisins.
     Erlendum aðila er heimilt við sölu á eignarhlut sínum í fasteign hér á landi að ráðstafa söluandvirðinu hér á landi í samræmi við ákvæði gildandi laga eða flytja það úr landi.

6. gr.


Viðskipti innlendra aðila með erlend langtímaverðbréf.


    
Innlendum aðilum er heimilt að kaupa erlend hlutabréf, skuldabréf og önnur verðbréf með lokagjalddaga a.m.k. að einu ári frá útgáfudegi, þar með talin hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í langtímaverðbréfum, með eftirfarandi skilyrðum:
    Verðbréfin skulu keypt fyrir milligöngu þeirra sem hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða hafa fengið leyfi til verðbréfamiðlunar frá viðskiptaráðherra. Þó er Seðlabankanum heimilt að veita lögaðilum leyfi til að kaupa verðbréf af erlendum aðilum án milligöngu annars aðila samkvæmt umsókn þar að lútandi.
    Verðbréf, sem gefin eru út erlendis, skulu að jafnaði varðveitt hjá þeim aðila sem hafði milligöngu um kaupin eða á hans vegum þar sem hliðstæð verðbréf eru varðveitt.
    Heildareign innlends aðila á verðbréfum samkvæmt þessari grein skal ekki nema hærri fjárhæð en 750.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Þessi takmörkun nær þó ekki til lögaðila sem háðir eru reglum Seðlabankans um gengisbundnar eignir og skuldir. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindri hámarksfjárhæð samkvæmt umsókn þar að lútandi.
    Heildareign innlends verðbréfasjóðs á verðbréfum samkvæmt þessari grein skal ekki nema hærri fjárhæð en 150.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindri hámarksfjárhæð samkvæmt umsókn þar að lútandi.
     Innlendir aðilar, sem lúta reglum Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð og áhættu í gjaldeyrisviðskiptum, eru undanþegnir ákvæðum þessarar greinar.
     Frá og með 1. janúar 1993 falla ákvæði 3. og 4. tölul. 1. mgr. úr gildi.

7. gr.


Viðskipti innlendra aðila með erlend skammtímaverðbréf.


    
Innlendum aðilum er heimilt að kaupa erlend skuldabréf og víxla og önnur verðbréf
með lokagjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi, þar með talin hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum, með eftirfarandi skilyrðum:
    Verðbréfin skulu keypt fyrir milligöngu þeirra sem hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða hafa fengið leyfi til verðbréfamiðlunar frá viðskiptaráðherra. Þó er Seðlabankanum heimilt að veita lögaðilum leyfi til að kaupa verðbréf af erlendum aðilum án milligöngu annars aðila samkvæmt umsókn þar að lútandi.
    Verðbréf, sem gefin eru út erlendis, skulu að jafnaði varðveitt hjá þeim aðila sem hafði milligöngu um kaupin eða á hans vegum þar sem hliðstæð verðbréf eru varðveitt.
    Heildareign innlends aðila á verðbréfum samkvæmt þessari grein skal ekki nema hærri fjárhæð en 750.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Þessi takmörkun nær þó ekki til lögaðila sem háðir eru reglum Seðlabankans um gengisbundnar eignir og skuldir. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindri hámarksfjárhæð samkvæmt umsókn þar að lútandi.
    Heildareign innlends verðbréfasjóðs á verðbréfum samkvæmt þessari grein skal ekki nema hærri fjárhæð en 125.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindri hámarksfjárhæð samkvæmt umsókn þar að lútandi.
     Innlendir aðilar, sem lúta reglum Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð og áhættu í gjaldeyrisviðskiptum, eru undanþegnir ákvæðum þessarar greinar.
     Frá og með 1. janúar 1994 hækkar fjárhæðin í 3. tölul. 1. mgr. í 1.500.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt og fjárhæðin í 4. tölul. 1. mgr. í 250.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði 3. og 4. tölul. 1. mgr. úr gildi.

8. gr.


Viðskipti innlendra aðila með innlend skammtímaverðbréf í erlendri mynt.


    
Innlendum aðilum er heimilt að kaupa innlend skuldabréf í erlendri mynt og víxla og
önnur verðbréf í erlendri mynt með lokagjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi, þar með talin hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum, með eftirfarandi skilyrðum:
    Verðbréf, sem gefin eru út hér á landi, eru undanþegin ákvæðum þessarar greinar.
    Verðbréfin skulu keypt fyrir milligöngu þeirra sem hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða hafa fengið leyfi til verðbréfamiðlunar frá viðskiptaráðherra. Þó er Seðlabankanum heimilt að veita lögaðilum leyfi til að kaupa verðbréf af erlendum aðilum án milligöngu annars aðila samkvæmt umsókn þar að lútandi.
    Verðbréfin skulu að jafnaði varðveitt hjá þeim aðila sem hafði milligöngu um kaupin eða á hans vegum þar sem hliðstæð verðbréf eru varðveitt.
    Heildareign innlends aðila á verðbréfum samkvæmt þessari grein skal ekki nema hærri fjárhæð en 750.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Þessi takmörkun nær þó ekki til lögaðila sem háðir eru reglum Seðlabankans um gengisbundnar eignir og skuldir. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindri hámarksfjárhæð samkvæmt umsókn þar að lútandi.
    Heildareign innlends verðbréfasjóðs á verðbréfum samkvæmt þessari grein skal ekki nema hærri fjárhæð en 125.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindri hámarksfjárhæð samkvæmt umsókn þar að lútandi.
     Innlendir aðilar, sem lúta reglum Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð og áhættu í gjaldeyrisviðskiptum, eru undanþegnir ákvæðum þessarar greinar.
     Frá og með 1. janúar 1994 hækkar fjárhæðin í 3. tölul. 1. mgr. í 1.500.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt og fjárhæðin í 4. tölul. 1. mgr. í 250.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði 4. og 5. tölul. 1. mgr. úr gildi.

9. gr.


Viðskipti erlendra aðila með innlend skammtímaverðbréf.


    
Erlendum aðilum er heimilt að kaupa innlend skuldabréf og önnur verðbréf með lokagjalddaga allt að einu ári frá útgáfudegi, þar með talin hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum, með eftirfarandi skilyrðum:
    Verðbréf, sem innlendir aðilar gefa út erlendis, eru undanþegin ákvæðum þessarar greinar.
    Verðbréfin skulu keypt fyrir milligöngu þeirra sem hafa til þess heimild í lögum eða samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að eða hafa fengið leyfi til verðbréfamiðlunar frá viðskiptaráðherra.
    Verðbréf, sem gefin eru út hér á landi, skulu að jafnaði varðveitt hjá þeim aðila sem hafði milligöngu um kaupin eða á hans vegum hjá innlendum aðila þar sem hliðstæð verðbréf eru varðveitt.
    Heildareign erlends aðila á skammtímaverðbréfum í íslenskum krónum, sem gefin eru út hér á landi, skal ekki nema hærri fjárhæð en 50.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá fyrrgreindri hámarksfjárhæð samkvæmt umsókn þar að lútandi.
     Frá og með 1. janúar 1994 hækkar fjárhæðin í 4. tölul. 1. mgr. í 100.000.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði 4. tölul. 1. mgr. úr gildi.

10. gr.


Lánveitingar og lántökur til skemmri tíma en eins árs sem ekki tengjast


milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu.


    
Innlendum aðilum er heimilt að taka lán, sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptum með
vöru og þjónustu, hjá erlendum aðilum eða veita þeim lán til skemmri tíma en eins árs með eftirfarandi skilyrðum:
    Lánið sé ekki hærra en sem nemur 3.750.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt á almanaksárinu.
    Ekki sé um að ræða endurlán frá öðrum innlendum aðila.
    Fullkomið eintak lánasamninga, þar með talin allir viðaukar og fylgiskjöl, séu varðveitt í innlendum banka, sparisjóði, annarri lánastofnun eða Seðlabankanum.
     Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 1.–2. tölul. 1. mgr. samkvæmt umsókn þar að lútandi.
     Innlendir lögaðilar, sem háðir eru reglum Seðlabankans um gengisbundnar eignir og skuldir, eru undanþegnir ákvæðum þessarar greinar.
     Frá og með 1. janúar 1994 hækkar fjárhæðin í 1. tölul. 1. mgr. í 7.500.000 kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í annarri mynt. Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. úr gildi.

11. gr.


Framvirk viðskipti, viðskipti með valrétt, skulda- og vaxtaskipti og önnur skyld


gjaldeyrisviðskipti.


    
Innlendum aðilum er heimilt að eiga framvirk viðskipti, viðskipti með valrétt, skulda-
og vaxtaskipti og önnur skyld gjaldeyrisviðskipti með eftirfarandi takmörkunum:
    Innlendum aðilum er heimilt að eiga framvirk gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur við þá aðila sem heimild hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 8. gr. laga nr. xx/1992, um gjaldeyrismál, ef fyrir liggur greiðslusamningur í erlendri mynt. Útflytjendum vöru og þjónustu er þó heimilt að gera framvirka samninga um sölu á erlendum gjaldeyri vegna væntanlegra greiðslna frá erlendum aðilum þótt greiðslusamningur liggi ekki fyrir. Afhending eða sala erlends gjaldeyris í framvirkum viðskiptum innlendra aðila skal fara fram á sama tíma og greiðsla samkvæmt þeim greiðslusamningi sem viðskiptin byggjast á eða á þeim tíma sem ætla má að greiðsla berist frá erlendum aðila. Framvirkir samningar um gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur skulu ekki vera til lengri tíma en tólf mánaða vegna þjónustuviðskipta og fjármagnshreyfinga. Ákvæði þessa töluliðar eiga einnig við um valkvæð framvirk gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur.
    Innlendum aðilum, sem heimild hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 8. gr. laga nr. xx/1992, um gjaldeyrismál, er heimilt að eiga hvers kyns framvirk gjaldeyrisviðskipti við innlenda sem erlenda aðila með þeim takmörkunum sem gilda um gjaldeyrisviðskipti þessara aðila og samkvæmt reglum sem Seðlabankinn setur um gjaldeyrisjöfnuð og áhættu í gjaldeyrisviðskiptum þessara aðila. Ákvæði þessa töluliðar eiga einnig við um valkvæð framvirk gjaldeyrisviðskipti með íslenskar krónur.
    Innlendum aðilum er heimilt að gera samninga um valrétt í gjaldeyrisviðskiptum við aðra innlenda aðila eða erlenda aðila svo framarlega sem eingöngu er um að ræða samninga um tvær eða fleiri erlendar myntir, en ekki íslenskar krónur, og fyrir liggur greiðslusamningur í erlendri mynt.
    Innlendum aðilum, sem tekið hafa erlend lán, er heimilt að stofna til mynt- og vaxtaskipta, enda sé þess gætt að samningstímabil sé ekki lengra en lánstími tiltekins erlends láns viðkomandi aðila.
     Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði þessarar greinar úr gildi.

12. gr.


Reikningar í erlendum innlánsstofnunum.


    
Óheimilt er að opna bankareikninga í íslenskum krónum erlendis.
     Innlendum aðilum er heimilt að opna bankareikninga í erlendri mynt í útlöndum að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum:
    Reikningseigandi eignast hinn erlenda gjaldeyri í samræmi við gildandi gjaldeyrisreglur.
    Heildarinnstæður hvers innlends aðila séu að hámarki jafnvirði 3.750.000 kr. í erlendri mynt. Þessi fjárhæðarmörk falla úr gildi frá og með 1. janúar 1993.
     Eftirtaldir aðilar eru undanþegnir þeim fjárhæðarmörkum sem fram koma í 2. tölul. 2. mgr., enda sé hlutaðeigandi bankareikningur skráður hjá Seðlabankanum:
    Eigendur íslenskra flutningstækja sem starfsrækt eru að hluta til eða að öllu leyti erlendis.
    Innlendir aðilar sem starfrækja fyrirtæki erlendis, að því marki sem nauðsynlegt er vegna reksturs þeirra.
    Innlend vátryggingafélög sem endurtryggja erlendis eða taka að sér tryggingar erlendis.
    Innlendir aðilar sem fá umboðslaunatekjur erlendis.
    Innlendar lánastofnanir.
     Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði þessarar greinar úr gildi.

13. gr.


Reikningar í innlendum innlánsstofnunum.


    
Innlendum aðilum er heimilt að opna reikninga í erlendri mynt í innlendum innlánsstofnunum, enda hafi þeir eignast hinn erlenda gjaldeyri í samræmi við gildandi gjaldeyrisreglur.
     Erlendum aðilum er heimilt að opna reikninga í innlendum innlánsstofnunum að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum:
    Reikningarnir skulu ávallt vera skráðir með nafni reikningseiganda og íslenskri kennitölu hans.
    Þegar um er að ræða reikninga í íslenskum krónum skal hinn erlendi aðili hafa með höndum starfsemi hér á landi og opnun reikningsins tengjast starfseminni. Seðlabankinn getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði gegn umsókn þar að lútandi.
     Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði 2. tölul. 2. mgr. úr gildi.

14. gr.


Inn- og útflutningur verðbréfa, peninga og dýrra málma.


    
Um inn- og útflutning peningaseðla, myntar, gulls og annarra dýrra málma, dýrra steina og verðbréfa fer eftir reglum sem Seðlabankinn setur að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið.

15. gr.


Sölu- og skilaskylda erlends gjaldeyris.


    
Um sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris, sem innlendir aðilar eiga eða eignast fyrir seldar vörur, þjónustu eða á annan hátt, gilda eftirfarandi reglur:
    Henni telst fullnægt með sölu til innlends aðila sem heimild hefur til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 8. gr. laga nr. xx/1992, um gjaldeyrismál, innan eðlilegs frests frá því að hann komst í umráð eiganda eða umboðsmanns hans.
    Henni telst fullnægt með innleggi á reikning í erlendri mynt í innlendri innlánsstofnun, sbr. 13. gr.
    Henni telst fullnægt með innleggi á reikning í erlendri innlánsstofnun, sbr. 12. gr.
    Henni telst fullnægt er hinum erlenda gjaldeyri er varið til að greiða kostnað erlendis.
     Ráðstöfun erlends gjaldeyris skv. 1. mgr. er upplýsingaskyld til Seðlabankans samkvæmt nánari reglum sem hann setur, sbr. 20. gr.
     Innlendir aðilar, sem heimild hafa til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti skv. 8. gr. laga nr. xx/1992, um gjaldeyrismál, eru undanþegnir sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris. Seðlabankanum er heimilt að veita undanþágu frá sölu- og skilaskyldu erlends gjaldeyris samkvæmt nánari reglum sem hann setur.
     Frá og með 1. janúar 1995 falla ákvæði þessarar greinar úr gildi.

16. gr.


Lántökur erlends stjórnvalds.


    
Erlendu ríki, sveitarfélagi eða öðru erlendu stjórnvaldi er óheimilt að gefa út skuldabréf á markaði hérlendis nema með leyfi Seðlabankans.

III. KAFLI


Öryggisákvæði.


17. gr.


Tímabundin stöðvun tiltekinna fjármagnsflutninga.


    Seðlabankanum er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., að ákveða að höfðu samráði við viðskiptaráðuneytið stöðvun í allt að sex mánuði á einhverjum eða öllum af eftirtöldum flokkum fjármagnshreyfinga ef skammtímahreyfingar fjármagns til og frá landinu valda að hans mati óstöðugleika í gengis- og peningamálum:
    Viðskipti með skammtímaverðbréf.
    Innlegg á og úttektir af reikningum í innlánsstofnunum.
    Viðskipti með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða sem fjárfesta í skammtímaverðbréfum.
    Lánveitingar og lántökur til skemmri tíma en eins árs sem ekki tengjast milliríkjaviðskiptum með vöru og þjónustu.
    Inn- og útflutningur skammtímaverðbréfa og innlends og erlends gjaldeyris.
    Aðrar skammtímahreyfingar fjármagns hliðstæðar þeim sem taldar eru upp í 1.–5. tölul.

IV. KAFLI


Ýmis ákvæði.


18. gr.


Leyfisgjald.


    
Innheimt skal sérstakt 1% leyfisgjald af þeirri fjárhæð sem um ræðir hverju sinni þegar undanþága er veitt frá þeim fjárhæðartakmörkunum sem gilda um fjármagnshreyfingar í II. kafla. Fjármagnshreyfingar á vegum ríkissjóðs og fjármagnshreyfingar vegna gjaldeyrisviðskipta þeirra aðila, sem leyfi hafa til gjaldeyrisviðskipta, eru ávallt undanþegnar gjaldinu. Gjaldið skal greitt til þess innlends aðila sem milligöngu hefur um gjaldeyrisviðskiptin eða Seðlabankans. Tekjur af gjaldinu renna í ríkissjóð.

19. gr.


Samráðsnefnd um gjaldeyrismál.


    
Viðskiptaráðherra skipar samráðsnefnd um gjaldeyrismál. Í henni sitja fulltrúar viðskiptaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands og þeirra aðila sem heimild hafa til að versla með erlendan gjaldeyri. Fulltrúi viðskiptaráðuneytisins er formaður nefndarinnar. Kostnaður af starfi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
     Hlutverk nefndarinnar er að fylgjast með framkvæmd gjaldeyrismála, samræma verklagsreglur og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um gjaldeyrismál og framkvæmd þeirra.

20. gr.


Upplýsingaskylda.


    
Skylt er að veita Seðlabankanum allar þær upplýsingar um gjaldeyrisviðskipti sem hann kann að óska eftir til að hann geti sinnt nauðsynlegu eftirliti og hagskýrslugerð, sbr. 24. gr. laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands. Bankanum er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd gjaldeyrisviðskipta, svo sem um skráningar- og tilkynningarskyldu vegna reikninga innlendra aðila í erlendum innlánsstofnunum, framlagningu gagna, almenna upplýsingagjöf og gerð eyðublaða.

21. gr.


Þagnarskylda.


    
Þeir sem annast framkvæmd þessara laga eru bundnir þagnarskyldu um hagi einstakra
viðskiptamanna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli málsins nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt.
     Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

22. gr.


Viðurlög.


    
Um brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar fer eftir ákvæðum 13. gr. laga nr. xx/1992, um gjaldeyrismál.

23. gr.


Gildistaka.


    
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. xx/1992, um gjaldeyrismál, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglugerð nr. 312/1990, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, og auglýsing nr. 314/1990, um erlendar lántökur og leigusamninga vegna innflutnings á vélum, tækjum og búnaði til atvinnurekstrar.

Viðskiptaráðuneytið,
Fylgiskjal II.Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um gjaldeyrismál.


    Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
     Það skal tekið fram að um tekjur ríkissjóðs af umboðsþóknun og gengismun innlánsstofnana gilda sérstök lög (lög nr. 52/1984) og hefur frumvarp þetta ekki áhrif á þau.
Neðanmálsgrein: 1
Allar fjárhæðir í gjaldeyrisreglunum breytast mánaðarlega samkvæmt breytingum á gengi
                krónunnar gagnvart ECU frá 1. ágúst 1990.