Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 7 . mál.


7. Frumvarp til lagaum vog, mál og faggildingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)I. KAFLI


Gildissvið og skilgreiningar.


1. gr.


    Lög þessi gilda um vog og mál, faggildingu og löggildingu mælitækja og vigtarmanna innan íslenskrar efnahagslögsögu.

2. gr.


    Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:
     Eftirlit merkir athugun á vöru, þjónustu, hönnun vöru, ferli eða verksmiðju til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur eða almennar kröfur og skal þá byggt á faglegum úrskurði.
     Faggilding merkir aðferð sem þar til bær aðili beitir til að veita formlega viðurkenningu á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni.
     Kvörðun merkir röð aðgerða sem staðfesta við tilgreindar aðstæður sambandið milli gilda sem mælitæki eða mælibúnaður sýnir eða gilda sem áþreifanlegur mælikvarði táknar og tilsvarandi þekktra gilda þess sem mælt er.
     Landsmæligrunnur merkir opinbera viðmiðun allra annarra mæligrunna í landinu.
     Löggilding merkir aðgerð til að tryggja og staðfesta að mælitæki og vigtarmenn fullnægi í einu og öllu kröfum laga og reglugerða.
     Mæligrunnur merkir áþreifanlegan mælikvarða, mælitæki eða mælibúnað til þess að skilgreina, raungera, varðveita eða birta einingu eða gildi eðlisfræðistærðar til þess að flytja þessa einingu eða stærð yfir á önnur mælitæki með samanburði.
     Prófun merkir tæknilega framkvæmd sem felur í sér ákvörðun á einu eða fleiri einkennum tiltekinnar vöru, ferils eða þjónustu samkvæmt fyrir fram tilgreindum verklagsreglum.
     Tilnefndur aðili merkir prófunarstofu, vottunarstofu eða eftirlitsaðila sem stjórnvöld tilnefna til að annast yfirumsjón með samræmismati samkvæmt tilskipunum Evrópubandalagsins (EB) og samkomulagi aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi frá 15. júní 1988 (Tampere-samkomulaginu).
     Vottun merkir aðferð sem þriðji aðili beitir til að veita formlega staðfestingu á því að vara, ferli eða þjónusta sé í samræmi við tilgreindar kröfur.

II. KAFLI


Mælieiningar og landsmæligrunnar.


3. gr.


    Á Íslandi skal nota alþjóðlega einingakerfið sem skilgreint er af Alþjóðastofnuninni fyrir vog og mál.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur ráðherra heimilað að notaðar séu mælieiningar utan alþjóðlega einingakerfisins. Þær skulu þó ávallt hafa viðmiðun í alþjóðlega einingakerfinu.
     Mælieiningar samkvæmt þessari grein nefnast lögformlegar mælieiningar.

4. gr.


    Í landinu skulu vera til nauðsynlegir landsmæligrunnar. Þeir skulu eiga ætt sína að rekja til alþjóðlegra frummæligrunna eins og þeir eru skilgreindir af Alþjóðastofnuninni fyrir vog og mál. Landsmæligrunnarnir skulu vera grundvöllur allra annarra mæligrunna hér á landi og kvörðunarvottorða.

III. KAFLI


Löggilding mælitækja.


5. gr.


    Skylt er að löggilda öll mælitæki sem notuð eru hér á landi til að mæla stærðir sem hafa áhrif á verð eða afgjald í hvers konar viðskiptum með vöru og þjónustu og skatt- og gjaldstofna.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar, þar á meðal um reglubundna endurlöggildingu mælitækja. Í þeim er m.a. heimilt að undanþiggja tilteknar gerðir mælitækja ýtrustu kröfum um löggildingarhæfni. Slík mælitæki skulu þó háð eftirliti Löggildingarstofunnar.
    Löggildingarstofan sker úr um hvort mælitæki séu löggildingarskyld. Úrskurði hennar má þó vísa til ráðherra til endanlegrar ákvörðunar, enda sé það gert innan fjögurra vikna frá því að Löggildingarstofan kvað upp úrskurð sinn.

6. gr.


    Löggildingar- og eftirlitsskyld mælitæki skulu ávallt uppfylla þær mælitæknilegu kröfur sem til þeirra eru gerðar. Tækjunum skal þannig fyrir komið að hvorki umhverfi þeirra, uppsetning né aðbúnaður hindri notkun, prófun eða stillingu tækjanna. Sé þess ekki gætt má banna notkun þeirra.

7. gr.


    Hvarvetna þar sem viðskipti fara fram og hönd selur hendi og í því sambandi notuð löggildingar- eða eftirlitsskyld mælitæki skal þannig um búið að viðskiptavinurinn sjái greinilega þegar mæling fer fram og geti lesið mæliniðurstöður fyrirhafnarlaust.

8. gr.


    Löggildingar- og eftirlitsskyld mælitæki skulu vera staðsett með þeim hætti og vera í slíku ástandi að viðskiptavinurinn geti borið traust til þeirra niðurstaðna sem tækin sýna. Merkingar og ástand mælitækja og aukabúnaðar þeirra skulu ávallt vera í fullkomnu lagi.

9. gr.


    Aukabúnaður, sem tengdur er löggildingarskyldu mælitæki, skal sýna sömu mæliniðurstöðu og tækið sjálft.
     Tenging hvers kyns aukabúnaðar við löggildingarskylt mælitæki, sem dregið getur úr nákvæmni þess eða búnaðarins sjálfs, er með öllu óheimil.

10. gr.


    Eigendum eða vörslumönnum löggildingar- og eftirlitsskyldra mælitækja ber að sjá til þess að tækin sæti reglubundnu eftirliti og uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar í lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
     Nú uppfyllir löggildingar- eða eftirlitsskylt mælitæki ekki þær kröfur sem til þess eru gerðar og skal notkun þess þá bönnuð. Heimilt er Löggildingarstofunni að loka með innsigli löggildingar- eða eftirlitsskyldum mælitækjum sem notkun hefur verið bönnuð á og hafa á brott með sér slík tæki eða hluta úr þeim ef vafi leikur á að settum reglum sé fullnægt.
     Óheimilt er að nota löggildingar- og eftirlitsskyld mælitæki nema þau beri gilt auðkenni þar að lútandi.

IV. KAFLI


Faggilding.


11. gr.


    Löggildingarstofan annast faggildingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Allir, sem þess óska, skulu geta látið faggilda starfsemi sína, enda uppfylli þeir þær kröfur sem settar eru, sbr. 12. gr.
     Stofnanir og fyrirtæki, sem framkvæma lögbundnar prófanir eða votta að vara, ferli eða þjónusta svo og hæfni og þekking starfsmanna uppfylli lögbundnar kröfur, skulu hafa faggildingu Löggildingarstofunnar eða hliðstæðra stofnana í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Ráðherra getur í reglugerð heimilað að faggilding frá stofnunum í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins gildi hér á landi.
     Löggildingarstofan metur tilnefnda aðila, sbr. 2. gr.
     Löggildingarstofan annast hér á landi málefni sem lúta að alþjóðlegum verklagsreglum á prófunarstofum í efnafræði.

12. gr.


    Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð forsendur faggildingar skv. 11. gr. enda séu þær í samræmi við hliðstæðar forsendur í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Í reglugerðinni skal telja upp þá staðla sem byggt skal á og birta meginreglur og sérreglur um faggildingu, vottun, prófun og eftirlit, svo og reglur um brottfall faggildingar á slíkri starfsemi.

13. gr.


    Nú synjar Löggildingarstofan umsókn um faggildingu og skal synjunin þá rökstudd skriflega. Synjun má skjóta til sérstakrar úrskurðarnefndar. Hún skal skipuð einum fulltrúa hvors málsaðila og fulltrúa ráðuneytisins sem jafnframt er oddamaður.

V. KAFLI


Löggildingarstofan.


14. gr.


    Löggildingarstofan er sjálfstæð ríkisstofnun er lýtur yfirstjórn viðskiptaráðuneytis.
     Löggildingarstofan skiptist í deildir samkvæmt ákvörðun ráðherra. Heimilt er að setja á laggir nefndir sérfróðra manna til að vera stofnuninni til ráðuneytis um starfsemi einstakra deilda.

15. gr.


    Hlutverk Löggildingarstofunnar er að:
    löggilda mælitæki, hafa eftirlit með mælitækjum, löggilda vigtarmenn og sjá að öðru leyti um að lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim sé framfylgt,
    annast öflun, varðveislu og viðhald landsmæligrunna,
    annast kvörðun mæligrunna og mælitækja og útgáfu vottorða þar að lútandi,
    stunda faggildingu,
    veita stjórnvöldum og öðrum ráðgjöf um faggildingu og mælifræðileg málefni og stuðla að útbreiðslu þekkingar hér á landi á þeim sviðum,
    vera í fyrirsvari fyrir Íslands hönd í alþjóðlegu samstarfi um mælifræðileg málefni og á sviði faggildingar,
    hafa samstarf við aðra aðila sem fást við verkefni á sviði mælifræði og faggildingar.
     Ráðherra getur enn fremur falið Löggildingarstofunni að sjá um kennslu vigtarmanna og annast rannsóknir á sviði mælifræði.

16. gr.


    Ráðherra getur að tillögu Löggildingarstofunnar og að höfðu samráði við samtök atvinnulífsins, eftirlitsstofnanir og samtök neytenda ákveðið að komið skuli á fót eftirliti með mælitækjum á sviðum sem ekki falla undir 5. gr. þar sem þess er talin þörf vegna einstakra atvinnugreina eða hagsmuna neytenda, svo og vegna aðstæðna er varða umhverfisvernd og heilbrigði eða öryggi almennings.

17. gr.


    Löggildingarstofan getur með samningi falið aðilum með sérþekkingu og nauðsynlega hæfni að leysa verkefni sem henni eru falin samkvæmt lögum þessum.

18. gr.


    Löggildingarstofan innheimtir gjöld fyrir þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur. Við ákvörðun um gjaldskrá skal við það miðað að tekjur stofnunarinnar standi undir útgjöldum hennar.
     Þess skal ávallt gætt að tekjum Löggildingarstofunnar af löggildingu mælitækja og annarri lögbundinni starfsemi sé ekki varið til að standa straum af kostnaði við þjónustu sem öðrum aðilum er einnig heimilt að veita.

VI. KAFLI


Löggiltir vigtarmenn.


19. gr.


    Vigtarmenn skulu hafa löggildingu Löggildingarstofunnar sem gefur út skírteini þeim til handa. Ráðherra setur þeim erindisbréf.
     Löggiltir vigtarmenn geta menn orðið uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:
    eru búsettir hér á landi,
    eru fullra tuttugu ára,
    eru sjálfráða og fjárráða,
    hafa sótt námskeið og staðist prófkröfur í námskeiðslok.
     Í reglugerð skal kveðið á um prófkröfur skv. 4. tölul. 1. mgr.
     Synja má manni um löggildingu ef 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.     Löggilding vigtarmanns gildir í allt að fimm ár en heimilt er að ákveða styttri gildistíma í einstökum tilfellum samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     Heimilt er að binda löggildingu vigtarmanns við tiltekinn eða tiltekna vinnustaði. Enn fremur má undanþiggja ákveðna vinnustaði. Löggildingarstofan getur kveðið á um að störf hjá tilteknum vinnuveitendum séu ósamrýmanleg störfum löggiltra vigtarmanna.

20. gr.


    Vottorð löggilts vigtarmanns er full sönnun um þyngd þess sem vegið var og hvað var vegið. Ráðherra getur í reglugerð tilgreint að ákveðin störf skuli unnin af löggiltum vigtarmönnum.

VII. KAFLI


Ýmis ákvæði.


21. gr.


    Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða fésektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar. Dæma má fésekt jafnframt refsivist ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
     Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd laga þessara, rangar skýrslur skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum, enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
     Dæma má upptöku eigna skv. 69. gr. almennra hegningarlaga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.

22. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Hann getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þeirra.

23. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Jafnframt falla úr gildi eftirfarandi lög:
     Lög nr. 13 4. júní 1924, um mælitæki og vogaráhöld.
     Lög nr. 33 16. nóvember 1907, um metramæli og vog.
     Tilskipun nr. 1 13. mars 1925, um mælitæki og vogaráhöld.
     Lög nr. 60 3. nóvember 1915, um löggilta vigtarmenn.
     Lög nr. 36 19. maí 1930, um vigt á síld.
     Lög nr. 21 22. mars 1949, um sölu á steinolíu, hráolíu, benzíni og smurningsolíu.

Ákvæði til bráðabirgða.


    

I.


     Þrátt fyrir ákvæði 19. gr. skulu löggildingar, sem veittar hafa verið vigtarmönnum af
lögreglustjórum skv. 1. gr. laga nr. 60/1915, halda gildi sínu uns þeim er breytt eða þær eru afturkallaðar samkvæmt ákvæðum þessara laga, þó ekki lengur en til 1. janúar 1998.

    

II.


     Þrátt fyrir ákvæði 23. gr. öðlast ákvæði 2. mgr. 11. gr. ekki gildi fyrr en 1. janúar 1996.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til að laga lagaákvæði um löggildingu að breyttum tímum og lögfesta ákvæði um faggildingu. Hvort tveggja er nauðsynlegt í ljósi aukinna alþjóðaviðskipta og þeirra skuldbindinga sem þau hafa í för með sér. Jafnframt er með frumvarpinu lagður grunnur að því að einkaaðilar geti í auknum mæli annast ýmis verkefni sem hingað til hafa verið á verksviði Löggildingarstofunnar.

1. Forsaga frumvarpsins.
    
Frumvarp til laga um vog, mál og faggildingu var fyrst flutt á 115. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Að lokinni 1. umr. um frumvarpið var því vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem sendi það fjölmörgum hagsmunaaðilum til umsagnar. Skriflegar umsagnir bárust frá átta aðilum. Frumvarpið hefur nú verið endurskoðað í ljósi þeirra athugasemda sem bárust. Jafnframt var endurskoðuð útgáfa frumvarpsins kynnt helstu hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að tjá sig um efni þess. Frumvarpið, sem nú er lagt fram, er afrakstur þessa samráðs.

2. Saga löggildingar hér á landi.
    
Fyrstu lagasetningu um mál og vog hér á landi er að finna í Jónsbók frá 1281 en þar er svo mælt að pundarar, stikur og mælikeröld skuli „liggja á Þingvelli undir lögmannslási“. Enn fremur er sagt að eftir því skuli sýslumenn rétta tæki sín og eftir þeirra tækjum bændur.
     Upphafleg lengdareining hér á landi var svokölluð lögalin sem var 19 danskir þumlungar eða um 48 sentimetrar að lengd. Í byrjun sextándu aldar breyttist alin þegar upp var tekin svokölluð Hamborgaralin sem var 22 þumlungar eða um 57,8 sentimetrar að lengd, en árið 1776 var dönsk alin löggilt hér á landi með konunglegri tilskipun. Var hún 24 þumlungar eða 62,8 sentimetrar að lengd.
     Hin forna vogareining var mörk sem var 8 aurar eða 24 örtugar. Mörkin er talin hafa verið 214 grömm að þyngd. Í hundraði silfurs voru 120 aurar eða 3.210 grömm.
     Af fornum lagarmálum má nefna að 1 fat jafngilti 4 uxahöfðum, 1 uxahöfuð 6 ankerum og 1 anker 40 pottum lagar.
     Árið 1907 var svo metramál löggilt hér á landi og voru þá í lögum nr. 33/1907 sett ákvæði um umreikning eldri eininga í metramál. Lögreglustjórum var falið að framfylgja lögunum.
     Árið 1915 voru sett lög um löggilta vigtarmenn. Tóku þau gildi 1. janúar 1916. Árið 1917 voru svo sett lög um mælitæki og vogaráhöld og var þar meðal annars að finna ákvæði um að sett skyldi á fót löggildingarstofa í Reykjavík sem stimpla skyldi og löggilda mælitæki og vogaráhöld, annast einkasölu á stimpluðum og löggiltum mælitækjum, svo og vogaráhöldum, og hafa verklegt eftirlit með slíkum tækjum. Árið 1919 var svo birt tilskipun um löggilt mælitæki og vogaráhöld og er þar að finna ýmis ákvæði mælifræðilegs eðlis, um eftirlit löggildingarstofunnar og gjöld fyrir þjónustu hennar. Árið 1925 var svo sett ný tilskipun um mælitæki og vogaráhöld og er hún enn í gildi. Jafnframt voru á fyrstu áratugum aldarinnar sett nokkur lög um sölu á eggjum, korni, kolum og salti eftir vigt og um þyngd bakarabrauða og árið 1980 var sett reglugerð um mælitæki og vogaráhöld með rafeindabúnaði.
     Eins og áður segir var stofnsett löggildingarstofa í Reykjavík með lögunum frá 1917 og tók hún til starfa 1. janúar 1919. Þorkell Þorkelsson kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri, síðar veðurstofustjóri, var skipaður fyrsti forstöðumaður löggildingarstofunnar. Fékk hann aðstoð forstöðumanns Fysisk Laboratorium við Polyteknisk Læreanstalt í Kaupmannahöfn, K. Prytz prófessors, við að útvega nauðsynlegustu tæki til þess að hægt væri að hefja starfsemi löggildingarstofunnar. Voru aðalmælitækin fengin að láni þar eð þau fengust þá eigi keypt og má þar á meðal nefna nákvæmt kílógrammslóð, hálfmetra úr messing og lítrarúmmál úr sömu málmblöndu. Önnur tæki voru keypt en vegna upplausnarástands í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar reyndist erfiðleikum bundið að fá þau til landsins. Fyrsta löggilding stofunnar á mælitækjum fór fram 12. apríl 1919 en alls urðu þær 2.350 fyrsta starfsárið. Í árslok 1919 störfuðu þrír menn á Löggildingarstofunni auk forstöðumanns.
     Löggildingarstofan var fyrst til húsa að Laufásvegi 16 en árið 1922 var hún flutt í nýtt og betra húsnæði að Skólavörðustíg 3. Árið 1920 var sett á fót veðurstofa og var hún nefnd Veðurstofudeild Löggildingarstofunnar. Starfaði hún til 1925 er hún var skilin frá Löggildingarstofunni.
     Tekin var upp samvinna við systurstofnanir Löggildingarstofunnar á öðrum Norðurlöndum og stofan gerðist aðili að samvinnu Norðurlanda um prófanir og tegundaviðurkenningar (Nordjust) milli ríkjanna. Árið 1984 varð Löggildingarstofan aðili að Alþjóðastofnuninni fyrir lögmælifræði sem hefur aðsetur í París. Þá hefur Löggildingarstofan átt þátt í samvinnu og samningum milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópubandalagsins (EB) um mælitæknileg atriði.
     Miklar framfarir hafa átt sér stað á sviði mælitækni á síðustu árum. Þróaðri og flóknari tæki hafa rutt sér til rúms í iðnaði, verslun og viðskiptum almennt og hér á landi eru nú framleiddar vogir til notkunar á sjó og landi. Löggildingarstofan hefur reynt að fylgja þessari þróun eftir með aukinni þjálfun og menntun starfsmanna og með kaupum á búnaði til þess að staðreyna nákvæmni þeirra mælitækja sem notuð eru, en þar á meðal má nefna vogarlóð, bensín-, olíu- og mjólkurmæla, vogir í sláturhúsum og við fiskvinnslu, löndunarvogir fyrir fiskimjölsverksmiðjur, hafnarvogir, vogir í verslunum og lyfjaverksmiðjum, áburðar-, sements-, ál- og járnblendiverksmiðjum. Þá má nefna mælitæki við fóðurblöndun, vínsölu, mælingu öxulþunga og stærð á möskvum.
     Eins og áður segir byggist mælifræðilegt eftirlit hér á landi á tilskipun frá 1925 en hún hentaði vel stöðu atvinnuvega landsmanna á þeim tíma. Síðan hafa komið upp nýjar þarfir um nákvæmni í mælingum, t.d. á hitastigi, tíðni, geislun og fleiri atriðum. Þá hefur Löggildingarstofunni verið falið að vera framkvæmdaraðili fyrir Íslands hönd í Tampere-samkomulagi EFTA-ríkjanna um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi og gagnvart ríkjum EB á sama sviði. Grunnur þessa samstarfs er að í hverju ríkjanna sé sérstakur faggildingaraðili en orðið faggilding er nýyrði yfir hugtak sem á Norðurlandamálum er nefnt „akkreditering“ og á ensku „accreditation“. Þessi aðili veitir vottunar- og prófunaraðilum faggildingu samkvæmt sameiginlegum reglum sem settar eru fram í evrópskum stöðlum og skulu þá vottorð frá vottunar- og prófunaraðilunum njóta gagnkvæmrar viðurkenningar í öllum ríkjunum.
     Starf Löggildingarstofunnar hefur nú stóraukna þýðingu fyrir atvinnuvegina jafnt á sviði mælifræðilegs eftirlits sem faggildingar og er því unnið að eflingu hennar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    
Í frumvarpinu er kveðið á um notkun alþjóðlega einingakerfisins hér á landi eins og það er skilgreint af Alþjóðastofnuninni fyrir vog og mál í París (Organisation Internationale des Poids et Mesures, OIPM). Alþekktar mælieiningar í því kerfi eru metrinn, kílógrammið, lítrinn og sekúndan. Þó er heimilað að hér á landi skuli notaðar aðrar mælieiningar en þær skulu þó ávallt hafa viðmiðun í alþjóðlega einingakerfinu.
     Til að tryggja hagsmuni þeirra sem stunda viðskipti hér á landi, bæði fyrirtækja og neytenda, og opinberra aðila er kveðið á um að mælitæki, sem notuð eru til að mæla stærðir sem hafa áhrif á verð eða afgjald í hvers konar viðskiptum með vöru og þjónustu og skatt- og gjaldstofna, skuli vera löggild. Sama gildir um vigtarmenn.
     Í frumvarpinu er löggilding mælitækja og vigtarmanna falin Löggildingarstofunni sem er ríkisstofnun. Sá möguleiki er fyrir hendi samkvæmt frumvarpinu að Löggildingarstofan feli öðrum aðilum með sérþekkingu verkefni á þessu sviði. Þannig kemur t.d. til greina að einkaaðilar taki að sér að ganga úr skugga um að mælitæki mæli rétt og gefi út vottorð eða setji á mælitæki auðkenni um að svo sé. Slíkt yrði þó ávallt gert í umboði Löggildingarstofunnar og viðkomandi aðilar háðir eftirliti hennar, t.d. með því að hljóta faggildingu.
     Þar sem löggilding nær yfirleitt til einstakra mælitækja þar sem þau eru notuð og er fyrst og fremst veitt til að tryggja hagsmuni hér á landi þykir ekki eðlilegt að heimila að tæki, sem löggilt hafa verið erlendis og flutt til landsins, séu undanþegin löggildingu hér á landi. Hins vegar skal undirstrikað að hinar ýmsu tegundir tækja og búnaðar, sem teljast hæfar til sölu í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, teljast það sjálfkrafa hér á landi samkvæmt ákvæði í samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Í kröfunni um löggildingu tækja og búnaðar hér á landi felst því engin viðskiptahindrun. Eigi hins vegar að nota þau í viðskiptum þurfa þau að hljóta löggildingu hér á landi.
     Með faggildingu er átt við úttekt á því að tiltekin starfsemi uppfylli ákveðnar kröfur um verklagsreglur þannig að fullt traust megi bera til þeirra aðila sem hana hljóta. Slíkar kröfur eru yfirleitt settar fram í alþjóðlegum stöðlum. Í frumvarpinu er Löggildingarstofunni falið að stunda faggildingu hér á landi. Jafnframt er kveðið á um það að faggilding frá hliðstæðum stofnunum í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins skuli gilda hér á landi og að ráðherra geti ákveðið að sama gildi um faggildingu frá stofnunum í ríkjum utan þess svæðis.
     Í frumvarpinu er kveðið á um starfsemi Löggildingarstofunnar. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að annast verkefni á sviði lögformlegrar mælifræði, þ.e. að sjá til þess að hér á landi séu til helstu landsmæligrunnar þannig að tryggt sé t.d. að á Íslandi sé til metri sem er jafnlangur og hann á að vera og kílógramm af réttri þyngd. Aðrir aðilar á Íslandi eiga ávallt að geta leitað til Löggildingarstofunnar til að fá sína eigin mæligrunna og mælitæki kvörðuð þótt ekki sé þörf á að löggilda þau. Löggildingarstofunni er heimilað að veita almenna þjónustu á þessu sviði en þó er skýrt tekið fram að tekjur hennar af lögbundinni þjónustu, einkum löggildingu, megi ekki nota til að niðurgreiða slíka þjónustu. Með því er verið að koma í veg fyrir að Löggildingarstofan fái óeðlilega samkeppnisstöðu á sviði þar sem hún kann að keppa við aðra aðila.
     Í frumvarpinu er mörkuð sú meginstefna að Löggildingarstofan sé þjónustustofnun sem veiti viðskiptalífinu og neytendum mikilvæga og eftirsóknarverða þjónustu. Jafnframt er mörkuð sú stefna að hún geti falið einkaaðilum að sinna ýmsum verkefnum á verksviði sínu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er kveðið á um gildissvið frumvarpsins. Gömul hefð er fyrir orðasambandinu vog og mál en merkingarsviðið hefur verið misvítt. Alþjóðastofnunin fyrir vog og mál (Organisation Internationale des Poids et Mesures, OIPM) var stofnuð 1875 með alþjóðlegu metrasamþykktinni. Í heitinu koma fyrir orðin vog og mál sem í þröngri merkingu taka aðeins til eininganna kílógramms og metra. Þessi stofnun hafði þó frá upphafi víðara verksvið og er í dag sú stofnun í heiminum á sviði mælifræði sem allir aðrir miða sig við. Orðasambandið vog og mál er því notað sem hluti fyrir heild fyrir allt svið mælifræðinnar. Í sumum heitum erlendra stofnana og laga eða reglugerða má finna samsvarandi orðasamband í þrengri merkingu fyrir lögmælifræði.
     Löggildingarstofunni eru með lögum þessum falin verkefni sem flokkuð eru með nokkuð mismunandi hætti meðal nágrannaþjóða okkar. Venjulega eru þau falin fleiri en einni stofnun. Þessi verkefni eru málefni landsmæligrunna, kvörðun, mælitæknilegt eftirlit og faggilding. Svo nefnd séu dæmi má geta þess að í Finnlandi, Englandi og Þýskalandi eru faggildingardeildir innan mælifræðistofnunar landsins en mælitæknilegt eftirlit er hjá öðrum stofnunum. Í Svíþjóð er sjálfstæð faggildingarstofnun en önnur stofnun hefur með höndum grunnmælifræðina og mælitæknilega eftirlitið.

Um 2. gr.


    Í greininni eru helstu hugtök frumvarpsins skilgreind. Nokkur þeirra er að finna í íslenskum staðli um íðorð í stöðlun og skyldri starfsemi en önnur eru þýðingar á alþjóðlega viðurkenndum skilgreiningum hugtaka eða heitum. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um að notkun alþjóðlega einingakerfisins (Systéme International d'Unités) sem skilgreint er af Alþjóðastofnuninni fyrir vog og mál í París (Organisation Internationale des Poids et Mesures, OIPM). Alþekktar mælieiningar í kerfinu eru metrinn, kílógrammið, lítrinn og sekúndan. Samkvæmt 2. mgr. getur ráðherra þó heimilað í reglugerð að notaðar séu einingar utan alþjóðlega einingakerfisins. Þær skulu þó ávallt hafa viðmiðun í alþjóðlega einingakerfinu með þeim fyrirvörum sem kveðið er á um í alþjóðlegum stöðlum og reglum sem settar hafa verið um alþjóðlega einingakerfið og vísa skal til í reglugerðinni.

Um 4. gr.


    Í greininni er kveðið á um að í landinu skuli vera til nauðsynlegir landsmæligrunnar. Þeir skulu vera byggðir á alþjóðlegum frummæligrunnum eins og þeir eru skilgreindir af Alþjóðastofnuninni fyrir vog og mál. Þeir skulu vera grundvöllur allra annarra mæligrunna hér á landi og vottorða sem gefin eru út um kvörðun, þ.e. stillingu mælitækja. Með þessu ákvæði er verið að tryggja eins og kostur er að t.d. metrinn hér á landi sé jafnlangur og hann á að vera og unnt sé með óyggjandi hætti að rekja tengslin milli metrans á Íslandi og frummetrans.
     Í greininni er ekki tekið fram hvaða landsmæligrunnar skuli vera til hér á landi. Ekki er víst að það svari kostnaði að eiga hér á landi landsmæligrunna fyrir aðrar einingar alþjóðlega einingakerfisins en metrann og kílógrammið en það verður að vega og meta í hverju tilviki. Í þeim tilvikum að landsmæligrunnar eru ekki til hér á landi verður Löggildingarstofan að leita til erlendra systurstofnana þegar á þarf að halda.

Um 5. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um hvaða mælitæki eru löggildingarskyld. Dæmi um slík mælitæki eru vatnsmælar, hitaveitumælar, bensínsöludælur, gjaldmælar leigubifreiða, vogir í verslunum og framleiðslufyrirtækjum, vínmælar, akstursmælar dísilbifreiða, bílvogir, löndunarvogir og raforkumælar.
     Í 2. mgr. er ráðherra heimilað að undanþiggja tilteknar gerðir mælitækja ýtrustu kröfum um löggildingarhæfni. Slíkt kann að vera réttlætanlegt vegna þess kostnaðar sem löggilding samkvæmt ýtrustu kröfum kynni að valda. Þannig kann t.d. að vera réttlætanlegt að ganga úr skugga um nákvæmni rennslismæla með því að vega vökva sem hefur runnið í gegnum þá. Með þessu er hugsanlega vikið frá ýtrustu alþjóðlegum kröfum sem lagðar skulu til grundvallar þegar slík mælitæki eru löggilt. Til að taka af allan vafa er kveðið á um það að þótt mælitæki séu undanþegin ýtrustu löggildingarhæfni skuli þau engu að síður háð eftirliti Löggildingarstofunnar.

Um 6. gr.


    Með ákvæði greinarinnar er reynt að koma í veg fyrir að nákvæm mælitæki séu sett upp með þeim hætti að illgerlegt eða jafnvel ómögulegt sé að komast að þeim til að prófa þau eða stilla. Með ákvæðinu er einnig verið að koma í veg fyrir eins og kostur er að ytri aðstæður valdi því að tæki séu ónákvæmari en ástæða er til.

Um 7. gr.


    Með þessu ákvæði er reynt að tryggja að viðskiptavinur, sem horfir á mælingu fara fram, geti ávallt fylgst sjálfur með niðurstöðunni og gengið þannig úr skugga um að rétt sé mælt eða vegið.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Algengt er að tengja ýmiss konar búnað við mælitæki til að gera aflestur mælinga mögulegan frá fleiri en einum stað samtímis eða til að flytja aflestur sjálfkrafa frá mælitæki til tölvu eða prentara. Mikilvægt er að tenging slíks búnaðar verði ekki til þess að draga úr nákvæmni mælitækisins eða búnaðarins. Tvenns konar hætta er fyrir hendi. Í fyrsta lagi getur aukabúnaðurinn valdið mæliskekkju í mælitækinu og í öðru lagi geta röng skilaboð borist frá mælitækinu til aukabúnaðarins. Mikilvægt er að hvorugt gerist.

Um 10. gr.


    Með þessari grein eru tekin af öll tvímæli um hver ber ábyrgð á að mælitæki séu rétt og sæti því eftirliti sem ber. Hingað til hefur Löggildingarstofan fylgst með því að mælitæki séu endurlöggilt með reglubundnum hætti. Með frumvarpi þessu er hins vegar lögð til sú breyting að í reglugerð, sem ráðherra setur skv. 5. gr. frumvarpsins, verði kveðið á um það hversu langur tími skuli líða milli reglubundinna endurlöggildinga hinna ýmsu flokka mælitækja og hversu lengi megi draga hana fram yfir fasta dagsetningu. Það verður svo á ábyrgð eigenda eða vörslumanna að sjá til þess að reglubundin endurlöggilding fari fram. Löggildingarstofan eða annar aðili á vegum stjórnvalda getur síðan með skipulegu markaðseftirliti gengið úr skugga um að mælitæki hafi verið löggilt.

Um 11. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið á um að Löggildingarstofan annist faggildingu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Stofnunin er því hinn íslenski faggildingaraðili. Í ákvæðinu felst að annar slíkur aðili starfar ekki í umboði og á ábyrgð hérlendra stjórnvalda. Í þessu felst hins vegar ekki einokun á þessari starfsemi hér á landi því að innlendum aðilum er að sjálfsögðu heimilt að leita eftir þessari þjónustu hjá erlendum faggildingaraðilum.
     Í 2. mgr. er kveðið á um að fyrirtæki og stofnanir, sem framkvæma lögbundnar prófanir eða votta að vara, ferli eða þjónusta svo og hæfni og þekking starfsmanna uppfylli lögbundnar kröfur, skuli hafa faggildingu. Ákvæðið ber að túlka svo að það nái einnig til prófana og vottunar sem skylt er að framkvæma samkvæmt ákvæðum í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Hér er um nýjung að ræða. Í þessu felst að gerðar skuli ríkar kröfur um verklagsreglur og traust þeirra aðila sem annast lögbundna starfsemi af þessu tagi hvort sem um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila sem taka að sér lögbundin verkefni. Í þessu felst viss trygging stjórnvalda, atvinnulífsins og alls almennings fyrir því að þessir aðilar uppfylli tilteknar kröfur. Dæmi um opinberar stofnanir, sem falla undir þetta ákvæði, eru Vinnueftirlit ríkisins og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Með því að lögfesta kröfur af þessu tagi skapast forsendur til að fela einkaaðilum fleiri verkefni sem opinberar eftirlits- og prófunarstofur hafa sinnt til þessa. Í ákvæðinu felst að sjálfsögðu ekki krafa um faggildingu þeirra prófunarstofa og vottunarstofa sem stunda prófun eða vottun á öðrum sviðum en þar sem lögbundnar kröfur eru um slíkt. Sem dæmi má nefna að vottunarstofa getur vottað að kröfu framleiðanda eða viðskiptamanns að gæðakerfi framleiðandans uppfylli kröfur alþjóðlegra staðla án þess að vottunarstofan þurfi að hafa faggildingu.
     Í öllum aðildarríkjum EB og EFTA eru starfandi faggildingaraðilar. Þeir starfa eftir samræmdum reglum sem settar eru fram í alþjóðlegum stöðlum. Tilgangurinn með starfsemi þeirra hefur fyrst og fremst verið sá að skapa nauðsynlegt traust milli stjórnvalda þannig að unnt sé að taka skyldubundna prófun í einu ríki gilda í öðru svo framarlega sem hún er framkvæmd af faggiltri prófunarstofu. Tilgangurinn með þessu er að draga úr tæknilegum viðskiptahindrunum sem m.a. felast í endurteknum prófunum á vöru þegar hún er flutt milli landa.
     Til að tryggja eðlilega samkeppni er lagt til í 2. mgr. að faggilding frá faggildingarstofnunum innan Evrópska efnahagssvæðisins skuli einnig gilda hér á landi og að ráðherra geti veitt stofnunum utan svæðisins sams konar heimild. Þetta þýðir að aðilar á Íslandi geta leitað eftir faggildingu erlendis. Þar með býr Löggildingarstofan við eðlilega samkeppni á þessu sviði.
     Þótt Löggildingarstofunni sé ætlað að sinna faggildingu hér á landi er ekki gert ráð fyrir að sú starfsemi kalli á marga nýja starfsmenn. Starfsemin er þess eðlis að við faggildingu á einstökum stofnunum eða fyrirtækjum verður leitað til sérfróðra manna á því sviði sem um er að ræða hverju sinni. Þá hefur viðskiptaráðuneytið f.h. Löggildingarstofunnar gert samstarfssamning við sænsku faggildingarstofnunina (SWEDAC) um aðgang Löggildingarstofunnar að sérfræðingum og þekkingu hennar.
     Í 3. mgr. er kveðið á um að Löggildingarstofan meti tilnefnda aðila. Þar er um að ræða aðila sem tilnefndir eru af stjórnvöldum sem prófunarstofur, vottunarstofur eða eftirlitsaðilar á tilteknum sviðum vöruviðskipta. Aðeins niðurstöður tilnefndra aðila eru teknar gildar innan EFTA og EB.
     Í 4. mgr. er Löggildingarstofunni falið að annast hér á landi málefni sem lúta að alþjóðlegum verklagsreglum á prófunarstofum í efnafræði. Á ensku nefnast þær „good laboratory practice“. Hingað til hefur Lyfjaeftirlit ríkisins annast þann hluta þessara verklagsreglna er lýtur að lyfjum og lyfjaiðnaði og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Hins vegar þykir rétt að taka af allan vafa um hvaða aðili á Íslandi annast þetta málefni í heild sinni. Eðlilegt þykir að fela það Löggildingarstofunni þar sem ýmislegt bendir til að faggilding og alþjóðlegar verklagsreglur á prófunarstofum í efnafræði renni um síðir saman.
     Ástæða er til að fara nokkrum orðum um ákvæði 3. mgr. um að Löggildingarstofan meti tilnefnda aðila og ákvæði frumvarps til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra. Samkvæmt 3. mgr. er það Löggildingarstofan sem metur tilnefnda aðila. Tilnefndur aðili er skilgreindur með eftirfarandi hætti í 2. gr. frumvarpsins: Tilnefndur aðili merkir prófunarstofu, vottunarstofu eða eftirlitsaðila sem stjórnvöld tilnefna til að annast yfirumsjón með samræmismati samkvæmt tilskipunum Evrópubandalagsins (EB) og samkomulagi aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum á samræmi frá 15. júní 1988 (Tampere-samkomulaginu). Hér er fyrst og fremst átt við prófanir og staðfestingar á samræmi hefðbundinna iðnaðarvara. Í frumvarpinu um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra er í 2. mgr. 14. gr. Fiskistofu eða öðrum aðila samkvæmt ákvörðun ráðherra falið að veita skoðunarstofum viðurkenningu. Á meðan ekki gilda sömu reglur um sjávarafurðir innan Evrópska efnahagssvæðisins og hefðbundnar iðnaðarvörur er ekkert sem mælir á móti því að annar aðili en Löggildingarstofan taki út starfsemi skoðunarstofa. Rétt er þó að benda á að sjávarútvegsráðherra getur í raun falið öðrum aðila en Fiskistofu þetta verkefni, t.d. Löggildingarstofunni. Fari hins vegar svo að sjávarafurðir verði felldar undir sama kerfi faggildingar, vottunar og prófunar mundu skoðunarstofur væntanlega teljast til tilnefndra aðila og falla undir ákvæði 3. mgr. þessarar greinar þessa frumvarps.

Um 12. gr.


    Faggildingaraðilar starfa samkvæmt samræmdum alþjóðlegum stöðlum, evrópskum stöðlum. Þeir hafa verið staðfestir af Staðlaráði Íslands sem íslenskir staðlar og eru í ÍST EN 45000 staðlaröðinni. Staðlarnir fjalla um verklagsreglur og er unnt að beita þeim á mjög ólíkum fagsviðum. Vegna þess að staðlarnir eru almenns eðlis þurfa í sumum tilvikum að koma til viðbótarreglur við þá. Þetta á einkum við ef um er að ræða afmarkað sérsvið.

Um 13. gr.


    Hér er kveðið á um hvernig með skuli farið ef Löggildingarstofan synjar umsókn um faggildingu. Eðlilegt þykir að unnt sé að skjóta synjun Löggildingarstofunnar til sérstakrar úrskurðarnefndar enda er kveðið á um að svo skuli vera í alþjóðlegu stöðlunum um þessa starfsemi. Vilji málsaðilar ekki sætta sig við úrskurð nefndarinnar má að sjálfsögðu bera málið undir dómstóla.

Um 14. gr.


    Í greininni er kveðið á um stöðu Löggildingarstofunnar innan stjórnkerfisins. Þar sem hér er um þjónustustofnun að ræða kunna ýmis rök að mæla með því að hún verði í B-hluta fjárlaga og ríkisreiknings. Það er á valdi ríkisreikningsnefndar að ákveða slíkt.
     Í 2. mgr. er tekið fram að heimilt sé að setja á laggir nefndir sérfróðra manna til að vera Löggildingarstofunni til ráðuneytis um starfsemi á afmörkuðum sviðum. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að bæði mælifræði og faggilding eru þess eðlis að mikilvægt er að starfsmenn hennar á þessum sviðum eigi öruggan aðgang að sérþekkingu og viðhorfum sérfróðra manna utan Löggildingarstofunnar. Þá er einnig mikilvægt að helstu hagsmunaaðilar um faggildingu geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Um 15. gr.


    Hér er kveðið á um hlutverk Löggildingarstofunnar. Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að Löggildingarstofan hafi einkarétt á að annast kvörðun mæligrunna og mælitækja hér á landi og útgáfu vottorða þar að lútandi. Þvert á móti er hér um að ræða starfsemi sem einkaaðilar geta auðveldlega sinnt. Hins vegar þykir eðlilegt að heimila Löggildingarstofunni að sinna verkefnum af þessu tagi þannig að hún geti veitt hana ef einkaaðilar kjósa að gera það ekki. Til að koma í veg fyrir óeðlilega samkeppnisstöðu Löggildingarstofunnar á þessu sviði er í 18. gr. frumvarpsins lagt til að henni sé óheimilt að nota tekjur af löggildingu mælitækja og annarri lögbundinni starfsemi til að standa straum af kostnaði við þjónustu sem öðrum aðilum er einnig heimilt að veita.
     Í 2. mgr. er ráðherra heimilað að fela Löggildingarstofunni að sjá um kennslu vigtarmanna. Hér er ekki um lögbundna starfsemi hennar að ræða og verður að telja eðlilegt að hún sinni ekki þessu verkefni ef aðrir aðilar í þjóðfélaginu gera það með fullnægjandi hætti. Nánar er fjallað um löggildingu vigtarmanna í VI. kafla frumvarpsins.

Um 16. gr.


    Í þessari grein er veitt heimild til að koma á fót eftirliti með mælitækjum sem ekki falla undir ákvæði 5. gr. frumvarpsins. Um gæti verið að ræða mælitæki sem tengjast umhverfisvernd, heilbrigði eða öryggi almennings.

Um 17. gr.


    Í þessari grein felst að Löggildingarstofan getur falið öðrum aðilum að leysa verkefni sem henni eru falin samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þessir aðilar verða að hafa til þess hæfni og nauðsynlega sérþekkingu. Þá verður að telja að ákvæði 11. gr. eigi við í slíkum tilvikum sem þýðir að viðkomandi aðilar verða að hafa faggildingu. Ekki er kveðið á um það í greininni en telja verður eðlilegt að verksamningar, sem Löggildingarstofan gerir samkvæmt þessari grein, séu uppsegjanlegir án fyrirvara. Um er að ræða verkefni sem ríkisstofnun eru falin og því eðlilegt að unnt sé að segja upp án fyrirvara samningi við aðila sem bregst því trausti sem honum er sýnt. Hins vegar verður að telja eðlilegt að fyrirvaralausri uppsögn samninga sé ekki beitt nema í mjög alvarlegum tilfellum.
     Ekki er að fullu ljóst hversu langt er unnt að ganga í því að fela öðrum aðilum verkefni Löggildingarstofunnar en möguleikar á því sviði eru vissulega fyrir hendi. Þannig má nefna að samkvæmt frumvarpi til laga um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi og verður lagt fram að nýju á 116. löggjafarþingi, munu skoðunarstofur fylgjast reglulega með hreinlæti, búnaði og gæðakerfum fyrirtækja og skipa í sjávarútvegi. Verði það frumvarp að lögum virðist fátt mæla á móti því að Löggildingarstofan semji við skoðunarstofur um að þær annist löggildingu voga í sjávarútvegi í umboði Löggildingarstofunnar.

Um 18. gr.


    Um athugasemdir við þessa grein frumvarpsins vísast til athugasemda við 15. gr. Telja verður eðlilegt að gætt sé ýtrustu hagkvæmni í rekstri Löggildingarstofunnar þannig að gjaldtaka hennar verði ekki íþyngjandi fyrir íslenskt atvinnulíf.

Um 19. gr.


    Í greininni er fjallað um löggildingu vigtarmanna. Helstu skilyrði fyrir löggildingu eru talin upp í 2. mgr.
     Í 1. mgr. er kveðið á um að að vigtarmenn skuli hafa löggildingu Löggildingarstofunnar. Með hliðsjón af ákvæði 17. gr. frumvarpsins ber að túlka 19. gr. þannig að Löggildingarstofan geti með samningi falið einni eða fleiri vottunarstofum að votta um hæfni þeirra sem vilja gerast vigtarmenn. Í slíkum tilvikum væri engin nauðsyn á því að Löggildingarstofan héldi sérstök námskeið fyrir þá sem vilja gerast löggiltir vigtarmenn eins og henni er heimilt skv. 2. mgr. 15. gr. Á grundvelli vottunar frá vottunarstofu og að uppfylltum skilyrðum í 1.–3. tölul. 2. mgr. fengi viðkomandi einstaklingur löggildingu Löggildingarstofunnar sem vigtarmaður.

Um 20. gr.


    Hér er kveðið á um sönnunargildi vottorðs frá löggiltum vigtarmanni. Auk þyngdar á vigtarmaður að skrá hvað var vegið. Þetta er t.d. mikilvægt í tengslum við stjórn fiskveiða þar eð fiskiskipum er úthlutað heimildum til að veiða visst magn af tilteknum tegundum. Hins vegar eru veiðar á öðrum tegundum frjálsar. Veigamikill þáttur í veiðieftirliti lýtur því að því að afli sé rétt flokkaður og vigtaður eftir tegundum. Víða erlendis er löng hefð fyrir slíku og sú ábyrgð lögð á vigtarmann að tilgreina á vigtarseðli í hvernig ástandi hið vegna var. Þessar upplýsingar eru svo hafðar til hliðsjónar þegar vara kemur á áfangastað og kannað er hvort um sé að ræða sömu vöru að magni og gæðum. Vigtarmaður má þó ekki votta um innihald veginna íláta eða flutningatækja nema hann hafi sjálfur haft aðstöðu til að staðreyna innihaldið.

Um 21., 22. og 23. gr.


     Greinarnar þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


     Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


     Í 2. mgr. 11. gr. frumvarpsins er lagt til að stofnanir og fyrirtæki, sem framkvæma lögbundnar prófanir eða votta að vara, þjónusta, hönnun vöru, ferli eða verksmiðja svo og hæfni og þekking starfsmanna uppfylli lögbundnar kröfur, skuli hafa faggildingu. Hér er um nýjung að ræða og þar sem bæði er tímafrekt og kostnaðarsamt að laga starfsemi þessara aðila að þeim kröfum, sem gerðar eru til að öðlast faggildingu, þykir rétt að veita þriggja ára aðlögunarfrest að þessu ákvæði.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um vog, mál og faggildingu.


    Með frumvarpi þessu er verið að laga lagaákvæði um löggildingu að breyttum tímum og lögfesta ákvæði um faggildingu. Um leið er gert ráð fyrir að nokkur eldri lög verði felld úr gildi. Frumvarpið felur ekki í sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð. Í fjárlögum 1992 er gert ráð fyrir að varið verði 46,4 m.kr. til Löggildingarstofunnar og þar á móti komi 27,7 m.kr. sértekjur. Frumvarpið gefur ekki tilefni til að ætla að þessi kostnaður þurfi að aukast af þess völdum.