Ferill 27. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 27 . mál.


28. Frumvarp til laga



um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI

Almenn ákvæði og gjaldskylda.


1. gr.

    Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af vélknúnum ökutækjum sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, öðrum ökutækjum, vörum, svo sem nánar greinir í lögum þessum, sbr. 87. kafla viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, og eldsneyti, sbr. 27. kafla viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, eftir því sem segir í lögum þessum.

Gjaldskylda.


2. gr.

    Gjaldskyldan nær til allra vara, sbr. 1. gr., nýrra sem notaðra, sem fluttar eru til landsins eða eru framleiddar, unnið er að eða settar eru saman hér á landi. Vara, sem seld er úr landi, er þó ekki gjaldskyld.
    Við flokkun til gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum skal fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987, og gilda ákvæði þeirra um úrskurðarvald í ágreiningsmálum um flokkun vara jafnframt um vörugjald.

II. KAFLI

Vörugjald af ökutækjum.


Gjaldflokkar ökutækja

.

3. gr.

    Á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., skal vörugjald lagt á í eftirfarandi sjö gjaldflokkum miðað við eigin þyngd þess eða sprengirými aflvélar mælt í rúmsentimetrum:

Flokkur

Eigin þyngd í kg

Slagrými

Gjald í %




    I
0 – 700
0–1.000     26
    II
701 – 800
1.001–1.300     34
    III
801 – 900
1.301–1.600     41
    IV
 901–1.100
1.601–2.000     48
    V
1.101–1.300
2.001–2.300     60
    VI
1.301–1.500
2.301–3.000     75
    VII
yfir 1.500
yfir 3.000     87


    Ef tveir framangreindra flokka koma til álita við ákvörðun gjaldskyldu skal miðað við lægri gjaldflokkinn. Með „eigin þyngd“ er átt við þyngd bifreiðar eins og hún er skilgreind samkvæmt staðli Alþjóðlegu stöðlunarstofnunarinnar ISO, nr. 1176 Road vehicles - Weights - Vocabulary (tölul. 4.6), og er þá miðað við ökutæki tilbúin til aksturs m.a. með olíu, kælimiðli, eldsneyti, rafgeymi, aukahjólbarða og verkfærasetti.
    Af ökutækjum, sem knúin eru rafhreyfli, skal greiða vörugjald samkvæmt flokkun eftir þyngd, sbr. 1. mgr.

4. gr.

    Vörugjald af eftirtöldum vörum skal vera sem hér segir:
    15% vörugjald:
         Tengivagnar og festivagnar, til vöruflutninga, íbúðar eða ferðalaga, sem ekki          eru vélknúnir, og yfirbyggingar á þá.
         Kranabifreiðar og borkranabifreiðar.
         Grindur með hreyfli fyrir vélknúin ökutæki.
         Yfirbyggingar, þar með talin ökumannshús fyrir vélknúin ökutæki.
         Hópferðabifreiðar fyrir 30 farþega eða fleiri að meðtöldum ökumanni.
    30% vörugjald:
         Dráttarbifreiðar, þ.e. bifreiðar sem aðallega eru gerðar til að draga annað öku          tæki.
         Hópferðabifreiðar, þ.e. ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga og          skráð eru fyrir 11 til 29 farþega að meðtöldum ökumanni.
         Ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga.
         Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, gálgabifreiðar o.fl., sem ekki eru aðallega          hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum og ekki eru tilgreind annars stað          ar í þessari grein.
    70% vörugjald:
         Bifhjól, þar með talin stigin bifhjól, og reiðhjól með hjálparvél.
         Beltabifhjól (vélsleðar).
    90% vörugjald:
         Fjórhjól.

5. gr.

    Ökutæki í eigu erlendra sendiráða, sendiræðisskrifstofa og sendiræðismanna eru undanþegin gjaldskyldu samkvæmt kafla þessum sé slíkt skylt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Sama gildir um alþjóðasamtök og -stofnanir sem hér eru.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að lækka eða fella niður gjald samkvæmt þessum kafla á þau ökutæki sem hér greinir:
    Dráttarbifreiðar að heildarþyngd 4 tonn eða meira sem gerðar eru til nota utan þjóðvega.
    Ökutæki á beltum yfir 700 kg að eigin þyngd, sérstaklega ætluð til aksturs í snjó.
    Slökkvibifreiðar, snjóplógar.
    Sjúkrabifreiðar.
    Ökutæki sem knúin eru rafhreyfli og flutt eru inn eða smíðuð í tilraunaskyni.
    Sjálfhlaðandi eða sjálflosandi tengivagnar og festivagnar til landbúnaðarnota.

Innflutt ökutæki.


6. gr.

    Þegar ökutæki er innflutt skal innflytjandi þess afhenda viðkomandi tollyfirvaldi með aðflutningsskýrslu staðfestingu um forskráningu ökutækis þar sem m.a. skal gerð grein fyrir eigin þyngd þess og stærð aflvélar þess.

7. gr.

    Ákvæði 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, skulu gilda eftir því sem við getur átt um gjald af vörum samkvæmt þessum kafla laganna.

Innlend framleiðsla, samsetning og aðvinnsla.


8. gr.

    Breytist ökutæki við aðvinnslu áður en það er skráð samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, skal sá er aðvinnsluna framkvæmir skila gjaldi af ökutækinu í samræmi við þann gjaldflokk er ökutækið fellur í eftir aðvinnslu og breyttan gjaldstofn, sbr. 20. gr.
    Heimilt er gjaldanda að draga frá greiðslu skv. 1. mgr. það vörugjald sem hann hefur þegar greitt af ökutækinu og efnivörum í það.

9. gr.

    Eigandi ökutækis, sem skráð hefur verið samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, skal greiða viðbótarvörugjald sé ökutæki svo breytt eftir aðvinnslu eða endurnýjun að það flokkist eftir breytingu í hærri gjaldflokk en það gerði við upphaflega skráningu þess eigi breytingin sér stað innan fimm ára frá upphaflegum skráningardegi. Hlutfall viðbótargjaldsins skal vera munur á þeim gjaldflokki sem ökutækið hefði flokkast í óbreytt og þeim gjaldflokki sem ökutækið fellur í eftir breytinguna og skal útreikningurinn miðast við gjaldflokkana eins og þeir eru þegar viðbótarvörugjaldið gjaldfellur.

Ýmis ákvæði.


10. gr.

    Tollstjóri getur krafist þess að gjaldskyldir aðilar leggi fram upplýsingar frá framleiðanda ökutækis um eigin þyngd þess og stærð sprengirýmis aflvélar þess eða samsvarandi upplýsingar innlends aðila sem annast hefur aðvinnslu eða breytingar á ökutækinu.

11. gr.

    Óheimilt er að skrásetja ökutæki sem gjaldskylt er samkvæmt lögum þessum fyrr en gjald samkvæmt lögum þessum hefur verið greitt.
    Lögreglustjóri eða Bifreiðaskoðun Íslands skulu ganga úr skugga um það við skráningu ökutækis að gjald skv. II. kafla hafi verið greitt af viðkomandi ökutæki. Komi í ljós að gjald sé vangreitt skal synjað um skráningu og viðkomandi tollstjóra þegar tilkynnt um það.

12. gr.

    Ákveða má í reglugerð að ökutæki, sem falla undir lög þessi og ekki eru ætluð til einkanota eða undanþegin eru gjaldi samkvæmt lögum þessum, verði auðkennd sérstaklega.

III. KAFLI

Vörugjöld af eldsneyti.


Almennt vörugjald af eldsneyti.


13. gr.

    Af bensíni skal greiða 50% vörugjald.

Sérstakt vörugjald af eldsneyti.


14. gr.

    Auk vörugjalds skv. 13. gr. skal greiða sérstakt vörugjald — bensíngjald — af bensíni. Af blýlausu bensíni skal greiða gjald sem nemur 21,78 kr. af hverjum lítra. Af öðru bensíni skal greiða gjald sem nemur 23,82 kr. af hverjum lítra.
    Tekjum af bensíngjaldi skal einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun.

15. gr.

    Bensíngjald skv. 14. gr. er grunngjald. Ráðherra er heimilt að hækka bensíngjald allt að því að það hækki í réttu hlutfalli við þá hækkun sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Grunntaxti bensíngjalds er miðaður við vísitölu 1. febrúar 1990, þ.e. 164,9 stig.
    Heimilt er ráðherra að láta hækkun, er hann kann að ákveða á bensíngjaldi skv. 1. mgr. þessarar greinar, ná til bensínbirgða sem til eru í landinu þegar hækkunin tekur gildi. Getur ráðherra ákveðið að þeir sem hafa bensín til umráða, er hækkun tekur gildi, séu skyldir til að tilkynna það innheimtumanni ríkissjóðs og aðstoða hann við könnun birgða sé þess óskað.

16. gr.

    Ráðherra er heimilt með reglugerð að fella niður eða að ákveða endurgreiðslu á gjöldum skv. 13. gr. og 14. gr. af bensíni ef sönnur eru færðar á að það hafi verið notað eða verði notað á flugvélar.


IV. KAFLI

Gjaldskyldir aðilar, gjaldstofn og gjalddagar.


17. gr.

    Gjaldskyldir samkvæmt lögum þessum eru:
    Allir þeir sem flytja til landsins vörur sem eru gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum hvort sem er til endursölu eða eigin nota.
    Allir þeir sem framleiða hér á landi vörur sem eru gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum, vinna að þeim eða setja þær saman hvort sem er til endursölu eða eigin nota.
    Þeir sem gjaldskyldir eru skv. 2. tölul. 1. mgr. skulu ótilkvaddir greiða innheimtumanni ríkissjóðs í því umdæmi, þar sem þeir eru heimilisfastir, gjald það sem þeim ber að standa skil á.

Gjaldstofn.


18. gr.


    Gjaldstofn vörugjalds samkvæmt lögum þessum af innfluttum vörum er tollverð þeirra eins og það er ákveðið skv. 8.–12. gr. tollalaga, nr. 55/1987, að viðbættum tollum eins og þeir eru ákveðnir samkvæmt þeim lögum.

19. gr.


    Gjaldstofn vörugjalds samkvæmt lögum þessum af gjaldskyldum vörum, sem framleiddar eru, unnið er að eða settar eru saman hér á landi, er verksmiðjuverð þeirra, þ.e. söluverð framleiðanda þeirra án vörugjalds til óháðs aðila, sbr. 8. gr. tollalaga. Sé erfiðleikum bundið að ákvarða framleiðsluverð skal tollstjóri meta það. Skal við matið höfð hliðsjón af tollverði hliðstæðrar innfluttrar vöru eða framleiðsluverði hliðstæðrar vöru sem framleidd er hérlendis.

20. gr.

    Gjaldstofn ökutækis, sem framkvæmd hefur verið breyting á eða unnið hefur verið að, sbr. 9. og 10. gr., skal vera verðmæti ökutækis eftir breytingu eða aðvinnslu.
    Sé erfiðleikum bundið að finna verðmæti ökutækis skv. 1. mgr. skal tollstjóri áætla það, sbr. 19. gr.

Gjalddagar.


21. gr.


    Vörugjald af innfluttum gjaldskyldum vörum skal innheimt við tollafgreiðslu. Vörugjald af innlendum framleiðsluvörum eða vörum, sem hlotið hafa aðvinnslu hér á landi, reiknast við sölu eða afhendingu gjaldskyldrar vöru frá framleiðanda eða heildsala og skiptir ekki máli hvenær eða með hvaða hætti greiðsla kaupanda fer fram.

22. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 21. gr. skal vörugjald af skráningarskyldum ökutækjum, sem flutt eru inn af þeim sem stunda innflutning þeirra í atvinnuskyni, greitt við sölu þess frá slíkum aðila. Gjaldið skal þó ætíð vera greitt áður en skráning ökutækis fer fram.

23. gr.

    Heimilt er að ákveða með reglugerð að innflytjendur fái gjaldfrest á greiðslu bensíngjalds er miðast við sölu birgða.

V. KAFLI

Álagning, innheimta, eftirlit o.fl.


24. gr.

    Gjöld, sem lögð eru á samkvæmt lögum þessum, mynda gjaldstofn til virðisaukaskatts.

25. gr.

    Heimilt er að stöðva ökutæki og færa það til skoðunar ef ástæða er til að ætla að brot hafi verið framið samkvæmt lögum þessum. Reynist vera um brot að ræða er heimilt að taka skráningarmerki af ökutækinu til varðveislu.

26. gr.

    Að því leyti sem eigi er kveðið á um gjaldskyldu, álagningu, úrskurð um flokkun til gjaldskyldu, samræmingu gjalda, eftirlit, innheimtu, vörslusviptingu, veð, uppboð, sektir, viðurlög, refsingar og aðrar framkvæmdir varðandi gjald skv. 1. gr. skulu gilda ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, og laga nr. 97/1987, um vörugjald, eftir því sem við getur átt, svo og reglugerða og annarra fyrirmæla settra samkvæmt þeim.
    Breyting á skráningarskyldu frá því sem nú er ákveðið samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, hefur ekki áhrif á gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum.

27. gr.

    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli varðandi framkvæmd laga þessara.

VI. KAFLI

Gildistaka, brottfallin lagaákvæði o.fl.


28. gr.

    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

29. gr.

    Við gildistöku laga þessara falla niður lög nr. 4/1960, um efnahagsmál, og eftirtalin ákvæði laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, breytast sem hér segir:
    1. gr., 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laganna falla brott.
    Í stað orðanna „Bensíngjald samkvæmt 1. gr., þungaskattur“ í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. kemur orðið: Þungaskattur.
    Orðið „bensíngjalds“ í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. fellur brott.
    2. og 3. mgr. 6. gr. falla brott.
    Orðin „bensíngjalds og“ í 1. málsl. 8. gr. falla brott.
    2. málsl. 8. gr. fellur brott.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt í tilefni af samningi um Evrópska efnahagssvæðið sem lagður hefur verið fyrir Alþingi. Í II. hluta þess samnings er fjallað um frjálsa vöruflutninga innan EES. Hann felur í sér að aðildarþjóðir samningsins skuldbinda sig til þess að afnema tæknilegar hindranir innan svæðisins á þeim vörum sem samningurinn tekur til og að sköttum verði ekki beitt með þeim hætti að þeir hindri frjálst vöruflæði. Aðalákvæðin sem þetta varða og snerta skatta er að finna í 10. gr. og 14. gr. samningsins. Taka þau til vöruliða í 25.–97. kafla vörulýsingar- og vörunúmeraskrár (tollskrár), þ.e. iðnaðarvara og einstakra annarra vöruliða, einkum vara úr landbúnaðarafurðum, sem fjallað er um í bókunum 2 og 3 með samningnum og um gilda sérstakar reglur. Þær greinar samningsins, sem vísað er til hér að framan, eru svohljóðandi:

„10. gr.


    Tollar á innflutning og útflutning, svo og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðir milli samningsaðila. Með fyrirvara um það fyrirkomulag sem um getur í bókun 5 skal þetta einnig eiga við um fjáröflunartolla.“

„14. gr.


    Einstökum samningsaðilum er óheimilt að leggja hvers kyns beinan eða óbeinan skatt innan lands á framleiðsluvörur annarra samningsaðila umfram það sem beint eða óbeint er lagt á sams konar innlendar vörur.
    Samningsaðila er einnig óheimilt að leggja á framleiðsluvörur annarra samningsaðila innlendan skatt sem er til þess fallinn að vernda óbeint aðrar framleiðsluvörur.“

    Eins og greinar þessar bera með sér leggur samningurinn þær kvaðir á samningsaðila að leggja ekki á tolla eða skatta sem brjóta gegn því grundvallarmarkmiði að koma á frjálsum vöruflutningum. Að öðru leyti mælir hann ekki fyrir um skattlagningarreglur og er það í samræmi við það að innan EB og að sjálfsögðu einnig innan EFTA er skattlagning að fullu í höndum hvers og eins aðildarríkis og verður henni ekki breytt með sameiginlegum ákvörðunum.
    Hvað tolla og skatta varðar er meginatriði tilvitnaðra greina að jafnræði ríki milli samkeppnisaðila og að ekki skipti máli við gjaldtöku frá hvaða landi vara kemur. Það þýðir að Ísland þarf að leggja niður innflutningstolla og önnur gjöld sem leggjast á innflutning sérstaklega.
    Samningurinn hindrar það ekki að í stað tolla og innflutningsgjalda verði tekin upp gjöld sem leggjast jafnt á innflutning og innlenda framleiðslu. Slík gjöld eru kölluð vörugjöld og hafa þegar verið tekin upp á fjölmarga vöruliði sem ekki er heimilt að leggja toll á við innflutning frá EFTA- og EB-löndunum séu vörur þessar einnig framleiddar hér á landi.
    Samkvæmt gildandi tollalögum er heimilt að fella niður tolla í samræmi við þá fríverslunarsamninga sem Ísland gerist aðili að. Jafnframt niðurfellingunni er heimilt að lækka tolla á innflutningi frá löndum, sem Ísland hefur ekki gert fríverslunarsamning við, í 10% á unnum vörum og í 5% á hráefni. Niðurfelling tolla mun leiða til mismunar í samkeppnisaðstöðu milli vöru frá þeim löndum sem eru aðilar að fríverslunarsamningi og hinna sem eru það ekki nema tollar séu einnig felldir af sömu vörum frá þeim.
    Í frumvarpi þessu er eingöngu fjallað um gjaldtöku af ökutækjum og tengdum vörum og eldsneyti. Í öðru frumvarpi, sem lagt er fram samhliða, er fjallað um gjaldtöku af öðrum iðnaðarvörum.
    Samkvæmt gildandi lögum er lagður 10% tollur á flestar bifreiðar aðrar en atvinnubifreiðar sem bera yfirleitt 30% tolla. Á fólksbifreiðar er hins vegar einnig lagt sérstakt innflutningsgjald, sem tekur mið af þyngd bifreiðar og vélastærð, og er 16% til 77%. Af eldsneyti er einungis lagður tollur á bensín, 50%, en á það er einnig lagt sérstakt innflutningsgjald samkvæmt lögum um fjáröflun til vegagerðar.
    Í frumvarpi þessu er miðað við eftirfarandi:
    —    að gjaldtaka af þeim vörum sem það tekur til verði óbreytt bæði í heild og gagnvart einstökum vörum,
    —    að ekki verði gerður mismunur á gjaldtöku eftir því hvort varan er flutt inn frá EES-löndunum eða annars staðar frá,
    —    að ekki verði breytt þeim tekjum af bensíni sem fara til vegagerðar.
    Í samræmi við þessi markmið er í frumvarpinu gengið út frá því að felldir verði niður allir tollar af þeim vörum sem það tekur til. Ákvæði þess efnis eru í öðru frumvarpi sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi, sbr. framangreint, og fjallar m.a. um allar breytingar sem gera þarf á tollalögum.
    Þá felur frumvarpið í sér að núverandi bifreiðatollur og sérstakt aðflutningsgjald á bifreiðar verður sameinað í vörugjald á bifreiðar. Hvað eldsneyti varðar er lagt til að í stað tolls á bensín komi jafnhátt vörugjald og í stað hins sérstaka innflutningsgjalds á bensín komi sérstakt vörugjald, bensíngjald, sem eftir sem áður verði hluti af fjáröflun til vegagerðar.
    Við undirbúning að lögfestingu ákvæða varðandi þá vöru, sem frumvarp þetta fjallar um, kom til álita að fella gjaldtökuákvæði inn í núgildandi lög um vörugjald. Frá því var þó horfið og ákveðið að flytja sérstaklega frumvarp til laga um vörugjald á ökutæki og eldsneyti. Ástæðurnar eru nokkrar. Í fyrsta lagi er hér um að ræða stóra og sértæka vöruflokka sem um margt eru frábrugðnir almennri iðnaðarvöru. Í öðru lagi eru gjaldflokkar núgildandi vörugjaldslaga miðaðir við tiltekin tollnúmer en hvað bifreiðar varðar er nauðsynlegt að miða gjaldtöku við aðra flokkun eins og gert er í frumvarpi þessu. Í þriðja lagi falla vörur þessar illa að þeirri skilgreiningu gjaldstofns sem notuð er í vörugjaldslögum, þ.e. heildsöluverði, sem er áætlað hvað innflutning varðar. Í fjórða lagi kalla vörur þessar, einkum bifreiðar, á ýmis sértæk framkvæmdaákvæði einkum hvað snertir gjöld af bifreiðum.
    Niðurstaðan varð því sú að flytja sérstakt frumvarp til laga um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti. Auk ýmissa framkvæmdaákvæða og flokkunarreglna er það frábrugðið almennu vörugjaldslögunum í því að gjaldstofn innfluttrar vöru er innfluttningsverð hennar en gjaldstofn innlendrar vöru er framleiðslu- eða verksmiðjuverð hennar en í almennu vörugjaldslögunum er gjaldstofn innfluttrar vöru tollverð hennar að viðbættum tolli og áætluðu 25% heildsöluálagi. Gjaldstofn innlendrar vöru er þar heildsöluverð hennar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin kveður á um gildissvið laganna. Vörugjald þetta kemur í stað tolla og annarra aðflutningsgjalda sem í dag eru innheimt af þeim vörum sem undir lögin falla.

Um 2. gr.


    Greinin kveður á um að gjaldskylda taki jafnt til allrar vöru hvort sem hún er innflutt eða ekki. Enn fremur að um álitamál varðandi gjaldskyldu verði fjallað með sama hætti og um tolla.

Um 3. gr.


    Greinin kveður á um þá gjaldflokka sem fólksbifreiðar falla undir og hvað ráði þeirri flokkun. Í 3. mgr. greinarinnar er lagt vörugjald á rafbíla sem áður voru undanþegnir gjaldinu en í 2. mgr. 5. gr. er hins vegar heimild til að undanþiggja þessar bifreiðar gjaldinu séu þær fluttar inn eða framleiddar í tilraunaskyni. Í áðurgreindu ákvæði 2. mgr. 5. gr. er einnig heimild til að undanþiggja önnur ökutæki undir þessum vörulið ef ástæða er til. Að öðru leyti er ekki um breytingu á gjaldtöku á ökutækjum að ræða.

Um 4. gr.


    Í greininni eru talin upp þau vélknúnu ökutæki og fylgihlutir sem bera skulu vörugjald og ekki eru talin upp í 3. gr. Ekki er um að ræða breytingu á gjaldtöku af ökutækjum frá því sem nú er að öðru leyti en því að tengivagnar, sem báru 10% toll ef þeir voru til íbúðar eða ferðalaga en 30% ella, eru allir færðir í sama gjaldflokk, 15%. Grindur með hreyfli einnig eru settar í sama gjaldflokk en grindur fyrir almennings- og vörubifreiðar voru með 30% tolli. Samkvæmt greininni leggst gjaldið á öll ökutæki o.fl. sem þar eru talin upp en þau ökutæki, sem í dag eru undanþegin gjaldi, er heimilt að undanþiggja skv. 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Greinin felur í sér undanþágur frá hinni almennu reglu um gjaldskyldu vélknúinna ökutækja. Í 1. mgr. er bein undanþága varðandi ökutæki erlendra sendiráða, sendiræðisskrifstofa, sendiræðismanna, alþjóðasamtaka og -stofnana sem hér eru að því tilskildu að skylt sé samkvæmt milliríkjasamningum að undanþiggja þessi ökutæki. Í 2. mgr. er hins vegar um að ræða heimild til handa fjármálaráðherra að lækka eða fella niður gjald samkvæmt kafla þessum af tilteknum sérhæfðum ökutækjum.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.


    Tilvitnuð grein tollalaganna kveður á um ýmsar undanþágur frá gjaldskyldu við innflutning og gildir hún því um vörugjald samkvæmt þessum lögum eftir því sem við á. Fyrst og fremst er um að ræða ýmis tilvik vegna tímabundins innflutnings.

Um 8. gr.


    Greinin tekur til ökutækja eða hluta úr þeim sem ekki hafa verið skráð, svo sem bifreiðagrinda sem síðan er unnið við þannig að úr verði skráningarskylt ökutæki. Miðast endanleg gjaldskylda við eðli ökutækisins og verð þess að aðvinnslu lokinni. Í 2. mgr. greinarinnar felst heimild til handa framleiðanda að draga frá það vörugjald sem hann hefur þegar greitt af aðföngum til viðkomandi ökutækis.

Um 9. gr.


    Þessari grein er ætlað að taka til þeirra ökutækja sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum, nr. 50/1987, og hafa verið skráð og notuð í samræmi við skráninguna. Sé slíku ökutæki síðan breytt, t.d. sendibíl breytt í fólksbíl, á samkvæmt greininni að greiða vörugjald í samræmi við mismun gjaldhlutfalla ef breyting þessi er gerð innan fimm ára frá upphaflegri skráningu.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Samkvæmt greininni er Bifreiðaskoðun Íslands og lögreglu óheimilt að skrá ökutæki nema gjald samkvæmt lögum þessum hafi verið greitt af því. Einnig felst í greininni skylda fyrir viðkomandi að tilkynna það tollyfirvöldum sé gjald ógreitt þegar ökutæki er fært til skoðunar.

Um 12. gr.


    Í greininni er heimild til handa ráðherra að ákveða að ökutæki, sem ekki eru ætluð til einkanota, verði auðkennd sérstaklega. Hér er um að ræða bifreiðar sem fluttar eru inn í atvinnuskyni einhvers konar eða njóta gjaldaívilnana. Slíku auðkenni er ætlað að auðvelda eftirlit með þessum ökutækjum og gæti einnig stuðlað að bættu eftirliti með virðisaukaskatti.

Um 13. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um það að greiða skuli vörugjald af bensíni. Samkvæmt tollalögum í dag er lagður 50% tollur á bensín. Þar sem gert er ráð fyrir að gjaldstofn vegna álagningar vörugjalds verði sá sami og gildir um álagningu tolls í dag munu tekjur ríkissjóðs verða óbreyttar þrátt fyrir að tollur falli niður og í stað hans verði lagt á vörugjald.

Um 14. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að greiða skuli sérstakt vörugjald, bensíngjald, af bensíni. Þetta bensíngjald er eins og það bensíngjald sem í dag er lagt á samkvæmt lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, að öðru leyti en því að það er ekki innflutningsgjald og mundi því leggjast á innlent bensín væri það til. Í 2. mgr. er kveðið á um það að tekjum af þessu gjaldi skuli einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun en samsvarandi ákvæði er í lögunum um fjáröflun til vegagerðar að því er varðar bensíngjald sem innheimt er samkvæmt þeim lögum.

Um 15. gr.


    Samkvæmt þessari grein er kveðið á um það að heimilt sé að hækka bensíngjald í samræmi við hækkun sem verða kann á vísitölu byggingarkostnaðar. Hér er lagt til að gjaldið verði miðað við vísitölu byggingarkostnaðar er í gildi var í febrúar 1990. Þetta er gert vegna þess að heimild til hækkunar á bensíngjaldi hefur ekki verið fullnýtt og er gjaldið nú í samræmi við það vísitölustig sem tilgreint er í frumvarpinu. Með þessu er gert ráð fyrir að heimild til hækkunar á bensíngjaldi sé óbreytt að því er varðar blýlaust bensín frá ákvæðum gildandi laga, þ.e. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar. Þetta felur jafnframt í sér að heimild til að hækka verð á blýbensíni verður nokkru rýmri en hún er nú.

Um 16. gr.


    Samkvæmt 13. gr. frumvarpsins er lagt til að 50% vörugjald leggist á allt bensín. Jafnframt er í 14. gr. frumvarpsins lagt til að bensíngjald leggist á allt bensín. Ekki er nú lagður tollur né bensíngjald á bensín sem notað er á flugvélar (flugvélabensín). Er því lagt til að heimilt verði að fella niður vörugjöld af bensíni sem notað er á flugvélar. Flugvélabensín, sem notað kann að vera í öðrum tilgangi, t.d. til að knýja bíla, verður hins vegar gjaldskylt.

Um 17. gr.


    Hér er kveðið á um hverjir séu gjaldskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum og hvar þeim beri að greiða gjaldið. Gjaldskyldir eru allir innflytjendur, framleiðendur og aðvinnsluaðilar gjaldskyldrar vöru og innheimtumaður ríkissjóðs í umdæmi gjaldskylds aðila annast innheimtuna.

Um 18., 19. og 20. gr.


    Í þessum greinum er kveðið á um gjaldstofn vörugjalds samkvæmt lögum þessum. Er hann hinn sami og notaður hefur verið við ákvörðun vörugjalds á aðrar vörur að því frátöldu að vörugjald samkvæmt þessum lögum er lagt á innflutningsverð eða verksmiðjuverð en ekki heildsöluverð.

Um 21. gr.


    Hér kemur fram almenna reglan um gjalddaga vörugjalds, annars vegar af innfluttum vörum og hins vegar innlendum vörum sem framleiddar eru hér eða hlotið hafa aðvinnslu. Eru þeir hinir sömu og gilt hefur um vörugjöld hingað til. Í 22. og 23. gr. eru sérákvæði um bifreiðar og bensín.

Um 22. gr.


    Greinin tekur til þeirra sem stunda innflutning ökutækis o.fl. í atvinnuskyni og eru skráðir sem slíkir. Gjalddagi vörugjalds hjá þeim aðilum er við sölu ökutækis en þó aldrei síðar en við skráningu þess. Þetta er sami gjalddagi og gildir um innlenda framleiðendur eða aðvinnsluaðila skráningarskyldra ökutækja. Breyting þessi á ekki að hafa veruleg áhrif á innstreymi tekna ríkissjóðs þar sem tollafgreiðsla og greiðsla fer nú yfirleitt ekki fram nema fáum dögum fyrir skráningu. Breytingin getur á hinn bóginn auðveldað og einfaldað framkvæmd fyrir tollyfirvöld og innflytjendur og gert ýmsar sérreglur, svo sem um ryðvörn og sýningarbíla, óþarfar.

Um 23. gr.


    Samkvæmt þessari grein er ráðherra heimilt að kveða á um gjaldfrest á bensíngjaldi. Í gildandi lögum er samsvarandi heimild.

Um 24. gr.


    Til að taka af öll tvímæli er látið koma hér fram að gjald samkvæmt lögum þessum myndar gjaldstofn til virðisaukaskatts.

Um 25. gr.


    Hér er heimild til að stöðva ökutæki og færa það til skoðunar svo ganga megi úr skugga um að gjald hafi verið greitt í samræmi við lög þessi, svo og til þess að taka af því skráningarmerki hafi gjaldið ekki verið greitt.

Um 26. gr.


    Ákvæði tollalaga, nr. 55/1987, og laga um vörugjald, nr. 97/1987, gilda um vörur samkvæmt lögum þessum eftir því sem við getur átt. Breyting á skráningarskyldu samkvæmt umferðarlögum hefur ekki sjálfkrafa áhrif á gjaldskyldu samkvæmt lögum þessum.

Um 27. gr.


    Greinin felur í sér heimild til handa ráðherra að setja nánari fyrirmæli að því er varðar framkvæmd laganna og er gert ráð fyrir að svo verði gert m.a. til að skilgreina nánar flokkunarreglur, ákveða frekar hvernig gjaldtaka af ökutækjum verður framkvæmd o.fl.

Um 28. og 29. gr.


    Þessar greinar kveða á um gildistöku laganna og brottfall eldri laga og skýra sig sjálfar.