Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 80 . mál.


87. Frumvarp til laga



um umhverfismat.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Markmið laga þessara er að tryggja að áður en tekin er ákvörðun um framkvæmdir sem kunna vegna staðsetningar, eðlis og umfangs að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag hafi farið fram umhverfismat, svo og að tryggja að umhverfismat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana.

2. gr.


    Í lögum þessum merkir:
     Framkvæmdaraðili: Ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að nokkru eða hluta, lögaðili eða einstaklingur er hyggst hefja framkvæmdir sem lög þessi taka til.
     Framkvæmdir: Gerð bygginga og annarra mannvirkja, svo og breytingar á þeim eða viðbætur, landröskun og vinnsla jarðefna.
     Leyfi til framkvæmda: Heimild leyfisveitanda um að framkvæmdaraðili megi hefja framkvæmdir.
    Leyfisveitandi: Lögbært yfirvald sem veitir endanlegt leyfi til framkvæmda.
    Umhverfismat: Heildstætt mat eða úttekt á áhrifum eða afleiðingum, ásamt lýsingu á þeim, sem framkvæmdir kunna að hafa á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.

3. gr.


    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til en í umboði hans annast skipulagsstjóri ríkisins undirbúning umhverfismats og sér um framkvæmd þess í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir.
     Ráðherra skipar nefnd fimm sérfræðinga sér til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara. Nánari ákvæði um skipun nefndarinnar og starfshætti setur ráðherra í reglugerð.

4. gr.


    Lög þessi gilda um allar framkvæmdir sem kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, þó með þeim undantekningum sem getur um í 5. gr.
     Þegar um er að ræða framkvæmdir samkvæmt gildandi sérlögum sem ekki fela í sér ákvæði um framkvæmd umhverfismats er skylt að beita ákvæðum þessara laga um þær framkvæmdir.
     Beita skal ákvæðum skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, við framkvæmd þessara laga eins og þau geta átt við.

5. gr.


     Ef ríkar ástæður mæla með getur umhverfisráðherra ákveðið að einstakar framkvæmdir skuli undanþegnar ákvæðum laga þessara enda ákveði ráðherra, að fenginni umsögn sérfræðinganefndar skv. 2. mgr. 3. gr., með hvaða hætti umhverfismat skuli fara fram.
     Framkvæmdir í þágu varnarmála eru undanþegnar lögum þessum.
     Lög þessi hagga ekki strangari ákvæðum annarra laga um umfang og mat á umhverfisáhrifum.

6. gr.


    Eftirtaldar framkvæmdir eru háðar umhverfismati:
    Vatnsorkuvirkjanir með uppsett afl 10 MW eða meira eða vatnsmiðlanir þar sem meira en 5 km 2 lands fara undir vatn vegna stíflumannvirkja og/eða breytinga á árfarvegi.
    Varmaorkuver eða jarðvarmavirkjanir með varmaafl 25 MW eða meira í hráorku.
    Lagning háspennulína með 132 KV spennu eða meiri hvort sem þær eru lagðar ofan jarðar eða neðan.
    Efnistökustaðir (malarnám) á landi 50.000 m 2 eða stærri að flatarmáli eða þar sem fyrirhuguð efnistaka er meiri en 150.000 m 3 .
    Þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan byggða.
    Förgunarstöðvar þar sem eitraður og hættulegur úrgangur er brenndur, hlýtur efnameðhöndlun eða er urðaður.
    Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag.
    Verksmiðjur með blandaða framleiðslu þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli.
    Efnaverksmiðjur með blandaða framleiðslu.
    Lagning vega, hraðbrauta og járnbrauta, svo og flugvalla með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri.
    Viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
     Enn fremur skal framkvæmt umhverfismat vegna annarra framkvæmda sem taldar eru upp í fylgiskjali með lögum þessum að því marki sem þær felast ekki í 1. mgr.
     Umhverfisráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð nánar hvaða framkvæmdir eru háðar umhverfismati í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.

7. gr.


     Umhverfisráðherra er heimilt að ákveða að tiltekin framkvæmd eða framkvæmdir, sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag, en ekki er getið í 6. gr., verði háðar umhverfismati samkvæmt lögum þessum.
    Áður en ákvörðun skv. 1. mgr. er tekin skal ráðherra leita umsagnar sérfræðinganefndar skv. 2. mgr. 3. gr., framkvæmdaraðila og/eða leyfisveitanda, skipulagsstjóra og viðkomandi sveitarstjórnar (sveitarstjórna).

8. gr.


    Skipulagsstjóri ríkisins stjórnar framkvæmd umhverfismats og sér um að það fari fram. Hann skal semja leiðsögureglur um hvernig staðið er að umhverfismati og endurskoða þær eftir því sem nútímaþekking, nýjustu matsaðferðir og almenn þróun á þessu sviði gefa tilefni til.
     Skipulagsstjóri skal við undirbúning umhverfismats afla umsagna eftir því sem lög mæla fyrir. Enn fremur skal hann afla upplýsinga og álits hjá leyfisveitanda og/eða framkvæmdaraðila, sveitarstjórn (sveitarstjórnum) sem í hlut á, svo og hjá aðilum er hafa sérfræðiþekkingu á því sviði sem um ræðir hverju sinni.
     Skipulagsstjóri ríkisins skal ljúka gerð umhverfismats innan sex mánaða frá því að honum berst tilkynning skv. 10. gr. eða ákvörðun er tekin um að mat skuli fara fram skv. 7. gr. Umhverfisráðherra getur þó veitt lengri tímafrest ef mat er umfangsmikið.
     Skipulagsstjóra er heimilt að fela gerð matsins, að nokkru eða öllu leyti, tiltekinni sérfræðistofnun eða semja við aðra sérfróða aðila um slíkt. Þegar þannig stendur á skal skipulagsstjóra kynnt reglulega hvernig mati miðar.

9. gr.


    Í umhverfismati skal tilgreina, meta og lýsa á viðhlítandi hátt áhrifum sem framkvæmdir kunna að hafa á menn, dýr, plöntur og aðra þætti lífríkis, jarðveg, vatn, loft, veðurfar, landslag og samverkan þessara þátta. Jafnframt skal meta áhrif á efnisleg verðmæti og menningarverðmæti svo og félagsleg áhrif.
     Í umhverfismati skal gera sérstaka grein fyrir því hvaða forsendur hafi komið til mats, svo og rökstuddri niðurstöðu matsaðila.
     Þess skal gætt að framsetning og texti matsgerðar sé aðgengilegur almenningi.

10. gr.


     Áður en hafist er handa um framkvæmdir sem lög þessi eða reglugerð samkvæmt þeim taka til skal framkvæmdaraðili senda skipulagsstjóra tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd og beiðni um að fram fari umhverfismat.
    Í tilkynningu skv. 1. mgr. skulu a.m.k. eftirfarandi upplýsingar koma fram:
    Lýsing á fyrirhugaðri framkvæmd, hvar hún á að fara fram, hvernig hönnun er ráðgerð og hvert áætlað er umfang framkvæmdar.
    Greinargerð um hugsanlega umhverfisröskun.
    Hvaða ráðstafanir eru fyrirhugaðar til að mæta umhverfisröskun sem leitt getur af viðkomandi framkvæmd.
    Aðrar upplýsingar sem skipulagsstjóri telur nauðsynlegar til að umhverfismat geti farið fram eða sem leiðir af aðild Íslands að alþjóðasamningum.
     Skipulagsstjóri ríkisins skal birta tilkynningu framkvæmdaraðila ásamt meðfylgjandi gögnum skv. 2. mgr. með opinberri auglýsingu eða með öðrum tryggum hætti. Athugasemdum skal skilað til skipulagsstjóra innan fjögurra vikna frá auglýsingu. Skipulagsstjóri ríkisins skal innan átta vikna frá viðtöku tilkynningar skv. 1. mgr. ákveða hvort ákvæðum laga þessara sé fullnægt eða hvort þörf sé á frekara umhverfismati.
    Þegar niðurstaða umhverfismats liggur fyrir skal skipulagsstjóri kynna hana leyfisveitanda, framkvæmdaraðila og sveitarstjórn (sveitarstjórnum) sem í hlut á. Jafnframt skal birta niðurstöðuna eða útdrátt hennar opinberlega með auglýsingu eða með öðrum tryggilegum hætti. Athugasemdum skal skilað til skipulagsstjóra innan sex vikna frá birtingu niðurstöðu umhverfismats.

11. gr.


     Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. getur skipulagsstjóri heimilað framkvæmdaraðila, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að sjá um gerð og framkvæmd umhverfismats að nokkru eða öllu leyti samkvæmt ákvæðum laga þessara.
     Við undirbúning umhverfismats skal framkvæmdaraðili gæta ákvæða 2. mgr. 8. gr.
     Skipulagsstjóri skal innan sex vikna frá því að framkvæmdaraðili sendir honum niðurstöður sínar taka ákvörðun um hvort hann telur þær fullnægjandi eða ekki.
     Fullnægi umhverfismat skv. 1. mgr. ekki kröfum laga þessara eða frekari upplýsinga er þörf getur skipulagsstjóri krafist þess að framkvæmdaraðili afli frekari upplýsinga eða gagna. Verði framkvæmdaraðili ekki við tilmælum skipulagsstjóra getur hann lokið við gerð matsins á kostnað framkvæmdaraðila.

12. gr.


    Kostnað við gerð umhverfismats, sem skipulagsstjóri hefur framkvæmt, skal sá greiða sem matsins óskar. Umhverfisráðherra getur þó lækkað eða fellt niður greiðslu vegna umhverfismats ef sérstakar ástæður mæla með því enda sé heimild í fjárlögum til að kostnaður, sem af slíku hlýst, verði greiddur úr ríkissjóði.
     Skipulagsstjóri getur krafist tryggingar fyrir greiðslu kostnaðar við umhverfismat áður en það fer fram.

13. gr.


    Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda sem lög þessi taka til, hefja framkvæmdir eða staðfesta skipulagsáætlanir samkvæmt skipulagslögum, nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, nema ákvæða laga þessara hafi verið gætt.

14. gr.


     Í leyfi til framkvæmda ber leyfisveitanda að taka fullt tillit til upplýsinga þeirra sem umhverfismatið grundvallast á og niðurstöðu þess.

15. gr.


    Ákvörðunum skv. 10., 11. og 12. gr. má skjóta til úrskurðar umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því að kunnugt var um þær.
     Áður en úrskurður gengur skal umhverfisráðherra leita umsagnar sérfræðinganefndar skv. 2. mgr. 3. gr., skipulagsstjóra, framkvæmdaraðila og/eða leyfisveitanda svo og viðkomandi sveitarstjórnar (sveitarstjórna).
     Umhverfisráðherra skal kveða upp rökstuddan úrskurð innan átta vikna frá því er beiðni um úrskurð barst honum.

16. gr.


    Að fengnum tillögum skipulagsstjóra setur umhverfisráðherra almenn ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð. Þar skulu m.a. sett ákvæði um aðferðir, gerð og efni umhverfismats, um upplýsingar sem framkvæmdaraðili skal leggja fram, um leiðsögureglur um hvernig staðið skal að umhverfismati, svo og málsmeðferð.

17. gr.


    Brot gegn lögum þessum varða sektum. Um meðferð þeirra fer að hætti opinberra mála.

18. gr.


    Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Lög þessi skulu endurskoðuð jafnframt því sem fram fer endurskoðun skipulagslaga,
nr. 19 21. maí 1964, ásamt síðari breytingum, og byggingarlaga, nr. 54 16. maí 1978, ásamt síðari breytingum.



Fylgiskjal.


Skrá yfir þær framkvæmdir sem ætíð eru háðar umhverfismati,


sbr. I. viðauka við tilskipun 85/337/EBE.



I. viðauki.
    Olíuhreinsunarstöðvar (þó ekki fyrirtæki sem framleiða eingöngu smurolíur úr hráolíu) og mannvirki fyrir kolagösun og þéttingu úr a.m.k. 500 tonnum af kolum eða jarðbiksleir á dag.
    Varmaorkuver og önnur brennsluver með a.m.k. 300 megavatta hitaafköst og kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar (nema rannsóknastöðvar með yfir 1 kílóvatts heildarhitaafköst þar sem fram fer umbreyting á kjarnakleyfum efnum og tímgunarefnum).
    Mannvirki eingöngu ætluð til langtímageymslu eða endanlegrar geymslu á geislavirkum úrgangi.
    Verksmiðjur með blandaða framleiðslu þar sem fram fer frumbræðsla á steypujárni og stáli.
    Mannvirki fyrir asbestnám og vinnslu og úrvinnslu á asbesti og afurðum sem innihalda asbest: fyrir afurðir úr asbestsementi, með ársframleiðslu sem er yfir 20.000 tonn af fullunnum vörum, fyrir núningsþolin efni, með ársframleiðslu sem er yfir 50 tonn af fullunnum vörum og fyrir aðra notkun asbests ef notkun er meiri en sem nemur 200 tonnum á ári.
    Efnaverksmiðjur með blandaða framleiðslu.
    Lagning vega, hraðbrauta 1 og langra járnbrauta, svo og flugvalla 2 með 2.100 m langa meginflugbraut eða lengri.
    Viðskiptahafnir, skipgengar vatnaleiðir og innhafnir sem skip stærri en 1.350 tonn geta siglt um.
    Förgunarstöðvar þar sem eitraður og hættulegur úrgangur er brenndur, hlýtur efnameðhöndlun eða er urðaður.

1 Í þessari tilskipun merkir „hraðbraut“: hraðbraut samkvæmt skilgreiningu í Evrópusamningnum um aðalumferðaræðar milli landa frá 15. nóvember 1975.
2 Í þessari tilskipun merkir „flugvöllur“: flugvelli samkvæmt skilgreiningunni í Chicago-samþykktinni
frá 1944 um stofnun Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (14. viðauki).


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið annars vegar í þeim tilgangi að fullnægja skyldum þeim sem íslenska ríkið tekur á sig með aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og hins vegar til þess að hrinda í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram um umhverfismál að aukin áhersla verði lögð á umhverfisrannsóknir og umhverfismat í tengslum við meiri háttar framkvæmdir.
     Í 74. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er vísað til viðauka XX, en í honum er að finna tilskipun frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið (tilskipun 85/337/EBE). Frumvarpið er byggt á efnisreglum tilskipunarinnar en lagað að íslenskri löggjöf.
     Engin almenn lög hafa verið sett um framkvæmd umhverfismats. Þrátt fyrir það hefur farið fram mat á umhverfisáhrifum vegna ýmissa framkvæmda. Um þessar mundir er unnið að tilraunaverkefni með gerð umhverfismats á vegum Skipulags ríkisins vegna gerðar aðalskipulags fyrir Skútustaðahrepp og á árinu 1991 fór fram frummat vegna Fljótsdalslínu 1. Byggt hefur verið á bandarískri aðferðafræði sem hefur verið að ryðja sér til rúms í flestum nágrannalöndum okkar á undanförnum árum. Hefur verið unnið að því að laga aðferðafræðina að íslenskum aðstæðum svo að hana megi nota við undirbúning aðalskipulags fyrir sveitarfélög og við undirbúning ákvarðana um staðarval, t.d. verksmiðja og virkjana, legu vega og háspennulína.
     Í 3. gr. laga nr. 81 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. 8. kafla mengunarvarnareglugerðar nr. 389 28. september 1990, eru ákvæði um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Samkvæmt ákvæðum hennar, grein 8.2.6., skal framkvæma forkönnun vegna staðarvals, þar sem fram fari mat á umhverfisröskun vegna starfseminnar. Ákvæði þetta er miðað við að fjárfesting í tilteknum atvinnurekstri nái ákveðinni lágmarksupphæð. Enn fremur ber samkvæmt tilvitnaðri grein að framkvæma nauðsynlegar rannsóknir og mælingar á þeim umhverfisþáttum sem helst verða fyrir áhrifum af starfseminni. Ákvæði mengunarvarnareglugerðar eru því þrengri en ákvæði frumvarpsins að tvennu leyti. Frumvarpið gerir í fyrsta lagi ekki ráð fyrir því að skylda til framkvæmdar umhverfismats sé háð tiltekinni lágmarksupphæð fjárfestingar og í öðru lagi er andlag matsins samkvæmt frumvarpinu mun víðtækara. Hins vegar þurfa umhverfisröskun og kostnaður við einstakar framkvæmdir ekki að fara saman þó að svo geti verið.

     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að meginreglan verði sú að skipulagsstjóri ríkisins stjórni framkvæmd umhverfismats og sjái um að það fari fram. Skipulagsstjóri getur þó heimilað að framkvæmdaraðili sjái um gerð matsins að nokkru eða öllu leyti að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem hann setur. Eðlilegt þykir að skipulagsstjóri hafi þetta hlutverk á sínum herðum enda samræmist það hlutverki hans að öðru leyti skv. 2. gr. skipulagslaga.
     Á Norðurlöndum er gerð og framkvæmd umhverfismats tengd gerð skipulagsáætlana með einum eða öðrum hætti. Svo verður einnig hérlendis verði frumvarpið að lögum.

Lög um umhverfismat á Norðurlöndum.
    
Í samræmi við gildistöku tilskipunar 85/337/EBE sem nefnd var hér að framan var dönsku skipulagslögunum breytt (Lov om lands- og regionplanlægning, nr. 921 frá 1989). Nú eru í gildi Lov om planlægning, nr. 388 frá 1991, sem tóku gildi 1. janúar 1992, en í lögunum eru sambærileg ákvæði um umhverfismat og voru í lögunum frá 1989.
     Í Finnlandi hafa hingað til ekki verið til almenn lög um framkvæmd umhverfismats þó að einstök ákvæði sé að finna í ýmsum sérlögum. Nú er unnið að því að semja lagafrumvarp um framkvæmd umhverfismats sem leggja á fram á finnska þinginu haustið 1992. Frumvarpið á að fullnægja kröfum tilskipunar 85/337/EBE. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að umhverfismat fari fram vegna framkvæmda sem kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið og verður matið unnið í tengslum við skipulagsgerð.
     Þann 1. ágúst árið 1990 gengu í gildi ákvæði í norsku skipulags- og byggingarlögunum um framkvæmd umhverfismats vegna umfangsmikilla framkvæmda (Plan- og byggningslov frá 14. júní 1985, ásamt breytingum frá 1. ágúst 1990). Auk þeirra eru ýmis lagaákvæði í sérlögum um framkvæmd umhverfismats.
     Árið 1991 tóku gildi ákvæði í sænsku lögunum um náttúruauðlindir (lag 1987:12 om hushållning med naturresurser, sbr. lag 1991:650) þess efnis að við áætlana- og ákvarðanatöku um framkvæmdir, sem kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið, skuli framkvæmt umhverfismat. Enn fremur er að finna í ýmsum sérlögum ákvæði þess efnis að umhverfismat fari fram við undirbúning tiltekinna framkvæmda.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins kemur fram markmið þess. Hyggilegra þykir að stemma stigu við umhverfisröskun áður en ráðist er í tilteknar framkvæmdir en að reyna að bæta úr henni eftir á. Með frumvarpinu, ef að lögum verður, á að tryggja það að umhverfismat verði fastur liður í gerð skipulagsáætlana og ákvarðanatöku um tilteknar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér veruleg áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag.

Um 2. gr.


    Í 2. gr. eru hugtök skýrð. Stuðst hefur verið við skýringar þær sem koma fram í tilskipun 85/337/EBE að teknu tilliti til aðstæðna hér á landi.
     Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að áður en tilteknar framkvæmdir hefjast eða leyfi er veitt til framkvæmda skuli framkvæmt umhverfismat og óheimilt sé að veita leyfi til framkvæmda, hefja framkvæmdir eða staðfesta skipulagsáætlanir nema ákvæða frumvarpsins hafi verið gætt. Rétt þykir að skýra hugtök nánar í þessu samhengi.     Hugtakið framkvæmdaraðili er í frumvarpinu notað um þann sem ábyrgur er fyrir þeim framkvæmdum sem um ræðir hverju sinni. Í sumum tilvikum er hugsanlegt að líta beri á leyfisveitanda og framkvæmdaraðila sem einn og sama aðilann og þá er ekki þörf á sérstöku leyfi til framkvæmda. Enn fremur verður að ætla að leyfi til framkvæmda liggi í raun fyrir ef sérstök lög eru sett um framkvæmdir eða þær samþykktar sérstaklega, t.d. af Alþingi. Má hér t.d. nefna vegalög, nr. 6 25. mars 1977. Samkvæmt þeim er Vegagerð ríkisins veghaldari allra opinberra vega, þ. e. hún sér um gerð og viðhald vega innan þess ramma sem vegaáætlun setur og samþykkt hefur verið af Alþingi. Hins vegar er aðstaðan stundum sú að framkvæmdaraðili þarf sérstakt leyfi til framkvæmda hjá leyfisveitanda, t.d. byggingarleyfi hjá viðkomandi sveitarstjórn eða vinnsluleyfi hjá ráðherra, t.d. leyfi til vinnslu jarðefna, sbr. námulög.
     Með umhverfismati er átt við mat eða úttekt á áhrifum eða afleiðingum sem tilteknar framkvæmdir kunna að hafa á umhverfið. Matið felst einkum í því að lýsa ríkjandi umhverfisaðstæðum og spá fyrir um og meta áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum.

Um 3. gr.


    Samkvæmt 3. tölul. 13. gr. auglýsingar nr. 77 7. júní 1990 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um breyting á reglugerð nr. 96 31. desember 1969 um Stjórnarráð Íslands með síðari breytingum fer umhverfisráðuneytið með skipulags- og byggingarmál. Gerð og framkvæmd umhverfismats er nátengd gerð skipulagsáætlana og er raunar einn þáttur þeirra. Því er eðlilegt að mál þessi heyri undir umhverfisráðuneytið og umhverfisráðherra. Samkvæmt 1. gr. skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, er skipulagsstjóri ráðuneytinu til aðstoðar við stjórn skipulagsmála.
     Samkvæmt 2. mgr. skal ráðherra skipa nefnd fimm sérfræðinga sér til ráðuneytis við framkvæmd laganna vegna þess að í frumvarpinu er fjallað um lítið mótað ferli, þ.e. framkvæmd umhverfismats og þykir æskilegt að ráðherra hafi sér til fulltingis nefnd sérfræðinga við framkvæmd frumvarpsins verði það að lögum.

Um 4. gr.


     Fjallað er um gildissvið í 4. gr. frumvarpsins. Eins og orðalag 1. mgr. gefur til kynna
er frumvarpinu, ef að lögum verður, ætlað að gilda um framkvæmdir sem kunna að hafa veruleg áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Frumvarpinu er í fyrsta lagi ætlað að gilda um þær framkvæmdir sem taldar eru upp í 6. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi gilda ákvæði frumvarpsins um þær framkvæmdir sem ráðherra ákveður skv. 7. gr. frumvarpsins.
     Rétt er að taka fram að gildissvið frumvarpsins er óháð því hvort framkvæmdir eru á skipulagsskyldu svæði eða ekki.
     Til þess að frumvarpið nái markmiði sínu og hægt sé að standa við þær skuldbindingar er felast í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er svo mælt fyrir í 2. mgr. 4. gr. að við beitingu núgildandi sérlaga um einstakar tegundir framkvæmda, t.d. vegalaga sem ekki gera ráð fyrir umhverfismati, verði skylt að fylgja ákvæðum þessara laga.
     Í 3. mgr. kemur fram að beitt skuli ákvæðum skipulagslaga, eins og þau geta átt við, við framkvæmd þessara laga. Gert er ráð fyrir því að umhverfismat verði þáttur í ferli skipulagsmála. Slíkt er í raun farið að gera án sérstakrar lagaskyldu. Má sem dæmi nefna annars vegar undirbúning að gerð aðalskipulags Skútustaðahrepps og hins vegar undirbúning að lagningu Fljótsdalslínu 1.
    Því má bæta við að frumvarpinu er ætlað að gilda um framkvæmdir hvort sem framkvæmdaraðilinn er ríki, sveitarfélag, stofnun eða fyrirtæki í eigu slíkra aðila að öllu leyti eða að hluta, lögaðili eða einstaklingur, sbr. skýringar í 2. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


     Í 5. gr. frumvarpsins koma fram undantekningar frá ákvæðum 4. gr. Í 1. mgr. 5. gr.
er heimild til handa umhverfisráðherra til að ákveða að einstakar framkvæmdir verði undanþegnar lögunum og er heimild þessi skv. 3. mgr. 2. gr. tilskipunar 85/337/EBE. Þar er mælt svo fyrir að í undantekningartilvikum sé heimilt að ákveða að einstakar framkvæmdir séu með öllu eða að hluta til undanþegnar ákvæðum tilskipunarinnar með þeim skilyrðum sem um ræðir í tilvitnaðri grein. Heimildina má þó ekki skilja á þann veg að ekki eigi að fara fram umhverfismat. Ráðherra er einungis heimilt að ákveða hvort æskilegt sé að láta fara fram annars konar mat en greinir í frumvarpinu.
     Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. gilda lögin ekki um framkvæmdir í þágu varnarmála, sbr. 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 85/337/EBE.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. eru taldar upp þær framkvæmdir sem ávallt eru háðar umhverfismati. Hér er fyrst og fremst um umfangsmiklar framkvæmdir að ræða sem ástæða er til að ætla að hafi veruleg áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Framkvæmdir þær, sem taldar eru upp í 1.–5. tölul., eru einkennandi fyrir íslenskar aðstæður, en 6.–11. tölul. eru að mestu leyti samhljóða þeim framkvæmdum sem taldar eru upp í viðauka I við tilskipun 85/337/EBE og helst geta átt við íslenskar aðstæður, þ.e. framkvæmdir sem taldar eru upp í 1., 4., 6., 7., 8. og 9. tölul. í viðaukanum. Aðrar framkvæmdir, sem taldar eru upp í viðauka I við tilskipun 85/337/EBE, eru ekki taldar raunhæfar hvað varðar íslenskar aðstæður og því er ekki talin ástæða til þess að telja þær sérstaklega upp í 6. gr. frumvarpsins. Til þess að uppfylla skyldur íslenska ríkisins vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er viðauki I birtur í heild sinni sem fylgiskjal með frumvarpinu og skv. 2. mgr. 6. gr. skal enn fremur framkvæma umhverfismat vegna þeirra framkvæmda sem þar eru birtar og felast ekki í 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
     Gera má ráð fyrir því að í framtíðinni verði fleiri framkvæmdir háðar umhverfismati en nú koma fram í 6. gr. frumvarpsins. Því er lagt til í 3. mgr. að umhverfisráðherra verði heimilt að ákveða með reglugerð að fleiri framkvæmdir verði háðar umhverfismati vegna þeirra breytinga er kunna að verða á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. er lagt til að umhverfisráðherra geti ákveðið að framkvæmt skuli umhverfismat vegna tiltekinnar framkvæmdar eða framkvæmda þótt þeirra sé ekki getið í 6. gr. frumvarpsins. Rétt þykir að umhverfisráðherra hafi heimild þessa þar sem komið getur til framkvæmda sem ekki eru tilgreindar í 6. gr. frumvarpsins, en ástæða er til að ætla að hafi veruleg áhrif á umhverfið og þörf er á umhverfismati vegna þeirra. Telja verður heimild þessa í samræmi við tilgang og markmið tilskipunar 85/337/EBE, einkum með hliðsjón af formála hennar, þar sem segir að „í umhverfismálum sé heppilegra að stemma á að ósi og koma í veg fyrir mengun og aðra umhverfisröskun fremur en reyna að vinna gegn áhrifum þessa eftir á“ og þar sem kveðið er á um „nauðsyn þess, strax við upphaf allrar áætlanagerðar og þegar ákvarðanir um framkvæmd eru teknar, að taka tillit til þess hver áhrif framkvæmdarinnar kunni að hafa á umhverfi“. Ákvæðið 7. gr. frumvarpsins er enn fremur í samræmi við 2. gr. tilskipunar 85/337/EBE þar sem efnislega kemur fram að ekki skuli leyfa framkvæmdir sem geta haft í för með sér veruleg áhrif á umhverfið fyrr en farið hefur fram mat á því hver áhrifin kunna að verða og er sérstaklega vísað til 4. gr. tilskipunarinnar varðandi skilgreiningu á þeim framkvæmdum. Ef einungis ætti að framkvæma umhverfismat vegna þeirra framkvæmda sem taldar eru upp í viðauka I væri markmiðum tilskipunarinnar einungis að óverulegu leyti náð miðað við íslenskar aðstæður og þar með þeim skuldbindingum sem EES-samningurinn leggur á herðar íslenska ríkinu. Rétt skýring 2. gr., sbr. 4. gr. tilskipunar 85/337/EBE, og þegar tekið er tillit til þeirra framkvæmda sem taldar eru upp í viðauka II, leiðir til þess að heimild 7. gr. er talin nauðsynleg til þess að ná fyrrnefndum markmiðum.
     Í 2. mgr. er kveðið svo á um að áður en ákvörðun skv. 1. mgr. er tekin skuli ráðherra leita umsagnar þar tilgreindra aðila.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. 8. gr. kemur fram að hlutverk skipulagsstjóra ríkisins verður að stjórna framkvæmd umhverfismats. Enn fremur verður það hlutverk hans að semja leiðsögureglur um hvernig staðið er að umhverfismati og endurskoða þær eftir því sem þekking og þróun matsaðferða gefur tilefni til.
     Tilgangurinn með ákvæði 2. mgr. er fyrst og fremst sá að tryggja það að hlutaðeigendur komi sjónarmiðum sínum að og hafi tækifæri til þess að gera athugasemdir. Í ýmsum lögum eru ákvæði þess efnis að leita skuli álits þar til bærra stjórnvalda eða stofnana vegna tiltekinna framkvæmda. Dæmi um slíkan umsagnaraðila er Náttúruverndarráð, sbr. 29. gr. laga nr. 47 16. apríl 1971, um náttúruvernd.
     Í 3. mgr. er lagt til að skipulagsstjóri ljúki gerð umhverfismats innan sex mánaða frá því að honum berst tilkynning skv. 10. gr. eða ákvörðun er tekin skv. 7. gr. Rétt þykir að setja tímamörk í þessu sambandi. Heimilt er þó að víkja frá þessum tímafresti ef mat er umfangsmikið.
     Í 4. mgr. er lagt til að skipulagsstjóra verði heimilt að fela gerð matsins að nokkru eða öllu leyti tiltekinni sérfræðistofnun, t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands, eða semja við aðra sérfróða aðila um slíkt. Þörf er á þessu ákvæði þar sem skipulagsstjóri hefur ekki alltaf þá aðstöðu sem nauðsynleg er við gerð umhverfismats. Enn fremur er heimilt að leita til einkaaðila sem sérfróðir eru á þessu sviði.

Um 9. gr.


    Í 1. mgr. 9. gr. eru nefndir helstu þættir sem sérstaklega ber að taka tillit til við gerð umhverfismats. Umhverfismat felst einkum í því að lýsa umhverfisaðstæðum, náttúrulegum, félagslegum og hagrænum, og spá fyrir um og meta áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar á þessa þætti.

Um 10. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. stjórnar skipulagsstjóri ríkisins framkvæmd og gerð umhverfismats og er því eðlilegt að beina ósk um framkvæmd mats til hans, sbr. 1. mgr. 10. gr.
     Í 2. mgr. 10. gr. er gert ráð fyrir því að framkvæmdaraðili leggi fram tilteknar upplýsingar sem umhverfismat verður grundvallað á. Í viðauka III við tilskipun 85/337/EBE eru ítarlegri upplýsingar um þennan þátt en efni hans verður birt í reglugerð, sbr. 16. gr. frumvarpsins.
     Eðlilegt og sjálfsagt þykir að tilkynna opinberlega um fyrirhugaðar framkvæmdir sem háðar eru umhverfismati til að þeir sem málið varðar geti komið athugasemdum á framfæri áður en ráðist er í framkvæmd umhverfismats. Á grundvelli upplýsinga 2. mgr. og þeirra athugasemda sem borist hafa tekur skipulagsstjóri ákvörðun um hvernig staðið skuli að umhverfismati sbr. 3. mgr. 10. gr. Gögn þau, sem framkvæmdaraðili leggur fram, kunna í raun að fullnægja kröfum frumvarpsins um umhverfismat þannig að frekara mats sé ekki þörf.
     Í 4. mgr. er ákvæði þess efnis að niðurstaða umhverfismats skuli kynnt með þar tilgreindum hætti. Tilgangurinn með ákvæði þessu er að tryggja að þeir sem telji rétti sínum hallað eða geta ekki sætt sig við niðurstöðu matsins að öðru leyti geti gert athugasemdir við hana.

Um 11. gr.


     Þrátt fyrir að aðalreglan verði sú að skipulagsstjóri framkvæmi umhverfismat er lagt
til í 11. gr. að heimilt verði að fela framkvæmdaraðila að sjá um gerð þess að nokkru leyti eða öllu í samræmi við ákvæði frumvarpsins.
     Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 12. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. ber sá kostnað af umhverfismati sem þess óskar. Eðlilegt þykir að sá sem óskar matsins greiði þann kostnað sem af gerð þess hlýst. Oft er það svo að framkvæmd umhverfismats tekur langan tíma og þörf getur verið á ítarlegum og nákvæmum rannsóknum sérfræðinga til að matið hafi raunhæft gildi. Hins vegar er kveðið svo á um í 2. málsl. 1. mgr. að ráðherra geti lækkað eða fellt niður greiðslu vegna gerðar umhverfismats ef sérstakar ástæður mæla með því. Í undantekningartilfellum kann að vera réttlætanlegt að beita nefndri heimild, t.d. ef gerð matsins hefur almennt gildi fyrir landið í heild, einstök svæði eða byggðarlög. Notkun ákvæðisins er þó háð því að sérstök heimild sé í fjárlögum svo að hægt sé að mæta auknum kostnaði ríkissjóðs.
     Þar sem gerð umhverfismats er oft tímafrekt og kostnaðarsamt ferli er talið eðlilegt að skipulagsstjóri geti krafist sérstakrar tryggingar fyrir greiðslu kostnaðar sem hlýst af gerð matsins.

Um 13. gr.


    Til þess að tryggja að umhverfismat verði fastur liður í allri áætlanagerð um tilteknar framkvæmdir og frumvarpið nái markmiði sínu er kveðið svo á um í 13. gr. að óheimilt sé að veita leyfi til framkvæmda eða hefja framkvæmdir eða staðfesta skipulagsáætlanir fyrr en umhverfismat hefur farið fram.

Um 14. gr.


     Svo að markmiðum þeim er koma fram í 1. gr. frumvarps þessa verði náð er kveðið svo á um í 14. gr. að leyfisveitanda beri að taka mið af upplýsingum þeim sem umhverfismat er grundvallað á og niðurstöðu þess. Er ákvæði þetta í samræmi við 8. gr. tilskipunar 85/337/EBE.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. er kveðið svo á um að heimilt sé að skjóta ákvörðunum samkvæmt þar tilgreindum greinum frumvarpsins til úrskurðar ráðherra að fengnum umsögnum skv. 3. mgr.
     Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 16. gr.


    Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála er frumvarpið tekur til og í 16. gr. er honum veitt heimild til þess að setja nánari ákvæði um framkvæmd þess í reglugerð. Þar sem skipulagsstjóri fer í umboði ráðherra með framkvæmdina og semur leiðsögureglur um það hvernig staðið skuli að umhverfismati er eðlilegt að almenn reglugerð sé sett að tillögu hans.

Um 17. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 18. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


     Á 115. löggjafarþingi var lagt fram frumvarp til skipulags- og byggingarlaga en það varð ekki að lögum. Ráðgert er að halda áfram endurskoðun núgildandi skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, og byggingarlaga, nr. 54 16. maí 1978. Þar sem frumvarp þetta er á flestan hátt tengt gerð skipulagsáætlana og framkvæmd skipulagsmála almennt er eðlilegt að þau verði endurskoðuð um leið og heildarendurskoðun fyrrnefndra laga fer fram.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um umhverfismat.



Megininntak frumvarpsins.
     Frumvarp þetta miðar að því að við undirbúning helstu framkvæmda og mannvirkja hér á landi fari fram mat á áhrifum þeirra á umhverfið, að lögfestar verði nýjar kröfur um skil á upplýsingum frá framkvæmdaraðilum í þessu skyni og að unnið verði úr slíkum gögnum og mat lagt á þau með samræmdri aðferð. Yfirstjórn þessara mála yrði í höndum umhverfisráðherra. Skipulagsstjóra ríksins yrði falin framkvæmdin, þar á meðal að ákveða innan ramma laganna í hvaða tilvikum frekari rannsóknir og umhverfismat þurfi að fara fram, og einnig að leggja fram niðurstöðu matsins. Aðilum, sem veita leyfi til framkvæmda, yrði skylt að taka fullt tillit til þeirrar niðurstöðu.
     Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu er það lagt fram nú vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, nánar tiltekið til þess að fullnægja ákvæðum tilskipunar 85/337/EBE um mat á umhverfisáhrifum vegna vissra framkvæmda á vegum hins opinbera eða einkaaðila. Tilgangur þessarar tilskipunar EB er annars vegar að tryggja að tekið verði tillit til umhverfisáhrifa þegar ákvarðanir um framkvæmdir eru teknar og hins vegar að jafna samkeppnisstöðu aðildarríkjanna með því að setja samræmdar meginreglur um leyfisveitingar fyrir framkvæmdum, m.a. um hvers konar framkvæmdir skuli háðar mati. Samkvæmt tilskipuninni ber að uppfylla ákveðnar upplýsingaskyldur og leggja fram umhverfismat vegna níu flokka stærri framkvæmda sem álitið er að hafi jafnan veruleg áhrif á umhverfið. Aðildarríkjunum er eftirlátið að ákveða að öðru leyti þörfina fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Núverandi fyrirkomulag og löggjöf.
     Í núgildandi löggjöf eru til staðar allmörg lög sem ætlað er að koma í veg fyrir mengun og umhverfisröskun, sum almenn, en önnur sértæk varðandi tilteknar verksmiðjur. Þá eru ótaldar reglugerðirnar sem hafa verið settar með stoð í þessum lögum, t.d. mengunarvarnareglugerð. Mikilvægasta löggjöfin af þessum toga, sem beinist að sömu markmiðum og tilskipun EB, eru lög um náttúruvernd, námulög og lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit ásamt mengunarvarnareglugerð. Samkvæmt lögunum um náttúruvernd er skylt að hanna virkjanir, verksmiðjur og stór mannvirki í samráði við Náttúruverndarráð. Einnig er skylt að leita álits ráðsins á mannvirkjagerð og jarðraski sem getur haft í för með sér að land breyti varanlega um svip eða getur valdið mengun lofts eða lagar.
    Samkvæmt frumvarpinu yrði leitað umsagnar til aðila eins og Náttúruverndarráðs eftir sem áður og þyrftu framkvæmdaraðilar því að halda þeirri samvinnu áfram með tilheyrandi kostnaði. Umhverfismat í umsjón skipulagsstjóra kæmi að verulegu leyti til viðbótar þessari vinnu. Í mörgum tilvikum þyrftu þá þrír aðilar að fjalla um slíkar framkvæmdir: leyfisveitandinn, t.d. sveitarstjórn, umsagnaraðilinn, t.d. Náttúruverndarráð, og matsaðilinn eða skipulagsstjóri sem væri heimilt að hafa málið til skoðunar í allt að sex mánuði. Komi upp ágreiningur, t.d. varðandi staðsetningu mannvirkis, færi umhverfisráðherra með úrskurðarvaldið. Ef frumvarpið verður að lögum mun það því hafa í för með sér að ákvarðanataka og málsmeðferð varðandi undirbúning framkvæmda sem þau ná yfir verður tímafrekari og flóknari.

Gildissvið og matsaðferð.
     Í 1. og 4. gr. frumvarpsins er tiltekið að lögunum sé ætlað að ná til allra framkvæmda sem kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Í 6. gr. eru taldir upp sérstaklega ellefu víðtækir flokkar framkvæmda sem ávallt skuli háðir umhverfismati. Framkvæmdir, sem falla undir þessa flokka, eru flestar á vegum opinberra aðila hér. Helstu aðilarnir, sem mundu falla undir 6. gr. frumvarpsins, eru Vegagerðin, Hafnamálastofnun, Flugmálastjórn og Landsvirkjun. Með ákvæði um reglugerð í 6. gr. og einnig skv. 7. gr. getur umhverfisráðherra auk þess ákveðið að leyfi fyrir öðrum framkvæmdum verði bundið undangengnu umhverfismati. Eins og fram kemur í athugasemdum um 6. gr. má gera ráð fyrir að í framtíðinni verði fleiri framkvæmdir háðar umhverfismati, m.a. vegna alþjóðasamninga. Gildissvið laganna gæti því átt eftir að verða enn víðara.
     Í núverandi mynd nær frumvarpið til mun fleiri framkvæmda en nauðsynlegt er til þess að framfylgja ákvæðum EES-samningsins. Í fyrsta lagi hefur fjórum flokkum framkvæmda verið aukið við þá níu flokka sem samningurinn gerir ráð fyrir: vatnsorkuvirkjanir, háspennulínur, efnistökustaðir og þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn utan byggða. Í öðru lagi hefur stærðarviðmiðun í ákvæði um varmaorkuver verið færð niður úr 300 í 25 MW, en orkuver hér eru af þeirri stærðargráðu.
     Ákvæði um upplýsingaskil og framkvæmd umhverfismats eru einnig víðtækari í frumvarpinu en í tilskipun EB. Samkvæmt 10. gr. yrðu gerðar svipaðar kröfur um almennar upplýsingar varðandi hönnun og umfang verks og umhverfisröskun, en skipulagsstjóra jafnframt heimilað að ákveða hvaða upplýsingar þurfi til viðbótar. Nánari ákvæði um upplýsingaskyldu ásamt leiðsögureglum um umhverfismat yrðu sett í reglugerð. Þá felur frumvarpið í sér að gerð verður krafa um upplýsingar og mat á öllum helstu samfélagslegum afleiðingum framkvæmda. Í umhverfismati gæti þá eftir atvikum þurft að gera úttekt á mörgum hagrænum og félagslegum þáttum. Tilskipun EB takmarkast hins vegar við mat á afleiðingum fyrir íbúa, náttúru, lífríki, fasteignir og fornminjar.

Kostnaður við umhverfismat og áhrif á útgjöld ríkisins.
     Kostnaðurinn, sem frumvarpið gæti haft í för með sér, ræðst að mestu af tveimur þáttum: hvaða framkvæmdir verða háðar umhverfismati og hvernig matið verður unnið. Nokkur óvissa ríkir um framtíðaráform stjórnvalda í þeim flokkum framkvæmda sem ávallt yrðu háðir mati skv. 6. gr., en auk þess yrði heimilt skv. 7. gr. að fella aðrar framkvæmdir undir ákvæði laganna. Ekki er heldur fyllilega ljóst að svo stöddu hversu mikillar viðbótarvinnu verður krafist í rannsóknum, upplýsingaöflun og umhverfismati í hverjum framkvæmdaflokki fyrir sig. Á þessu stigi er því erfitt um vik að áætla kostnað þjóðfélagsins og opinberra aðila til lengri tíma með nokkurri vissu. Hér verður því aðallega fjallað um hvers konar kostnaðaráhrif frumvarpið gæti haft í för með sér.
     Stærsti óvissuþátturinn varðandi kostnaðaráhrifin snýr að því í hve miklum mæli lögin yrðu til þess að breyta þyrfti mannvirkjum í dýrara horf vegna niðurstöðu umhverfismats. Ekki er hægt að segja fyrir um þennan þátt, en þó er líklegt að fái umhverfissjónarmið aukið vægi í hönnun og staðarvali mannvirkja gæti það haft í för með sér að bæði framkvæmdakostnaður og afleiddur kostnaður notenda yrði hærri. Hækkun stofnkostnaðar mundi oftast falla á opinbera framkvæmdaraðila sem í sumum tilvikum getur haft bein áhrif á ríkissjóð, eins og í vega- og hafnargerð, en í öðrum tilvikum geta komið til óbein áhrif í gegnum arðgreiðslur eða hagnað, t.d. hjá Rafmagnsveitum ríkisins eða Landsvirkjun. Í stærstu framkvæmdum gæti verið um tugi eða jafnvel hundruð milljóna króna að ræða. Samanlögð áhrif á fjárhag allra notenda geta verið af svipaðri stærðargráðu, t.d. ef sparnaður vegfarenda verður minni vegna þess að ekki er farin hagkvæmasta veglína.
     Hér á landi hefur verið gengið út frá því sem fyrstu viðmiðun að þessi undirbúningskostnaður verði allt að 1% af framkvæmdakostnaði. Það hlutfall er til komið frá erlendum ráðgjöfum, en innlendir framkvæmdaraðilar telja að hlutfallið gæti orðið hærra. Þessi viðmiðun mundi þýða að t.d. í vegamálum yrði kostnaðurinn um 35 m.kr. árlega eða um þriðjungur af því fjármagni sem veitt er í tæknilegan undirbúning framkvæmda í vegáætlun. Ef framkvæmdageta á ekki að skerðast, sem þessu nemur, þarf að auka framlögin.
     Í frumvarpinu er ekki afmarkað hversu ströng krafan um umhverfismat á að vera hvað varðar umfang og eðli þeirra verkefna sem talin eru falla undir lögin. Taka má framkvæmdir í vegagerð sem dæmi. Hafist er handa við um 100 nýjar framkvæmdir í vegagerð á ári hverju. Stofnkostnaður verkanna getur verið allt frá 2–3 m.kr. upp í 4.000 m.kr., en flest þeirra eru af stærðargráðunni 10–20 m.kr. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt mun það væntanlega taka til allra þessara framkvæmda. Hugsanlegt er að afleiðingar smærra verkefnis verði taldar jafnumtalsverðar og áhrif stórverkefnis og gerð verði krafa um jafnviðamikið umhverfismat í báðum tilvikum. Í frumvarpinu er heldur ekki gerður greinarmunur á nýbyggingum og meiri háttar viðhaldi. Vaxandi hluta fjármagns til mannvirkjagerðar er varið til viðhalds fremur en til nýbygginga. Ef frumvarpið verður að lögum gætu framkvæmdaraðilar því þurft að leggja í aukinn kostnað við að safna og standa skil á grunnupplýsingum um mun fleiri og smærri verkefni en tíðkast hefur til þessa.
    Samkvæmt frumvarpinu yrði beinn kostnaður við rannsóknir, gagnaöflun, tölvuúrvinnslu, upplýsingaskil og skýrslugerð greiddur af viðkomandi framkvæmdaraðila hvort sem sú vinna færi fram innan stofnunarinnar eða hjá öðrum aðilum. Gera má ráð fyrir að þessi upplýsingaöflun og sjálft umhverfismatið yrði fremur kostnaðarsamt og tímafrekt í framkvæmd. Vinnan yrði að mestu í höndum háskólamenntaðra sérfræðinga í hærri launaflokkum, ferðalög og fundahöld væru oft nauðsynleg og yfirleitt þyrfti að vinna úr gögnum í sérhönnuðum tölvukerfum. Í sumum tilvikum þyrftu að fara fram margar sérhæfðar náttúrufræðilegar rannsóknir sem krefjast mundu töluverðrar vettvangsvinnu og ferðalaga áður en hægt væri að hefjast handa við mat á niðurstöðum og skýrslugerð. Kostnaður við slíkar umhverfisrannsóknir getur verið allt frá nokkrum hundruðum þúsunda upp í tugi milljóna. Sem dæmi um kostnað við náttúrufræðilega rannsókn á mjög afmörkuðum þætti má nefna eina af athugunum sem gerðar voru vegna þverunar Gilsfjarðar og kostaði 1,4 m.kr., en þar fór eingöngu fram 15 daga vettvangskönnun á fjörusvæðum rauðbrystinga ásamt skýrslugerð. Þá getur verið vandasamt og dýrt að meta ýmis bein og óbein áhrif á samfélagið, t.d. varðandi búsetu og byggð, umferð, atvinnustig, tekjuskiptingu eða arðsemi. Mat á slíkum víxlverkandi afleiðingum verður yfirleitt að fara fram í sérhæfðum tölvulíkönum undir umsjón reyndra sérfræðinga. Reynsla stofnana í þessum efnum hefur leitt í ljós að oft geta fyrstu rannsóknir og umfjöllun sérfræðinga ekki veitt einhlít svör eða endanlegar niðurstöður. Hætt er við að í slíkum tilvikum komi fram óskir um enn frekari rannsóknir, jafnvel þótt óvíst sé um árangurinn.
     Frumvarpið gerir ráð fyrir að skipulagsstjóri ákveði nánar hvaða upplýsingar skuli koma fram í tilkynningu um framkvæmd, hvort frekara umhverfismat þurfi að fara fram og hversu mikil vinna verði lögð í það hjá embættinu eða hjá aðkeyptum sérfræðingum. Þar sem aðhald með þessum kostnaði yrði ekki lengur í höndum framkvæmdaraðila væri æskilegt að reisa skorður við útgjöldunum sem heimilt verður að efna til vegna umhverfismats. Í því sambandi þyrfti að gæta að því að kostnaður við upplýsingaskil og umhverfismat verði í samræmi við þau gæði eða verðmæti í umhverfinu sem ætlunin er að vernda.
     Ef frumvarpið verður að lögum mun það hafa í för með sér aukin verkefni og sértekjur hjá nokkrum stofnunum sem heyra undir umhverfisráðuneytið: Skipulagi ríkisins, Náttúrufræðistofnun og í minna mæli hjá Veðurstofu og Landmælingum. Sértekjur rannsóknastofnana Háskólans ættu einnig að aukast. Ekki er gert ráð fyrir að kostnaður þessara stofnana af verkefninu verði umfram tekjurnar. Hjá skipulagsstjóra er á þessu stigi gert ráð fyrir að embættið þurfi tvö ný stöðugildi og um 10 m.kr. í aðkeypta þjónustu til þess að yfirfara og meta gögn frá framkvæmdaraðilum og verkstýra mati. Vinna embættisins að sjálfstæðum athugunum kæmi væntanlega til viðbótar þessu.