Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 89 . mál.


99. Frumvarp til lagaum breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.1. gr.


    108. gr. laganna fellur brott.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en varð eigi rætt og er því endurflutt óbreytt.
     Greinin, sem lagt er til að falli brott, er í XII. kafla laganna, Brot gegn valdstjórninni, og hljóðar þannig:
    „Hver, sem hefur í frammi skammaryrði, aðrar móðganir í orðum eða athöfnum eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu, eða við hann eða um hann út af því, skal sæta sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Aðdróttun, þótt sönn uð sé, varðar sektum, ef hún er borin fram á ótilhlýðilegan hátt.“
    Hafa ber í huga að í greinargerð með hegningarlögunum kemur fram að ákvæði XII. kafla eru sett einkum til þess að vernda framkvæmd opinberra starfa. Brot gegn 108. gr. eru ekki þess eðlis að þar sé verið að hindra opinbera starfsmenn við framkvæmd starfa sinna og þykir flutningsmanni nægjanlegt að athæfi, sem nú varðar við 108. gr., verði dæmt á grundvelli XXV. kafla laganna sem nefnist Ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Í þeim kafla eru ákvæði sem veita opinberum starfsmönnum ríkari æruvernd en almennum borgurum og vísast einkum til 242. gr. laganna.
    Flutningsmönnum þykir sem dómar Hæstaréttar hafi túlkað 108. gr. laganna of rúmt miðað við tilgang XII. kafla og þannig þrengt um of að frelsi manna til þess að tjá sig í ræðu og riti. Engu að síður er dómur Hæstaréttar niðurstaða íslensks dómskerfis og því óhjákvæmilegt að breyta lögum á þann veg að treyst er í sessi frelsi manna til þess að tjá sig í ræðu og riti.
    Frá því að frumvarpið var flutt á síðasta vetri hafa þau tíðindi gerst að 25. júní sl. felldi Mannrétt indadómstóll Evrópu þann úrskurð að með dómi Hæstaréttar frá 20. október 1987 hafi verið brotið gegn 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um tjáningarfrelsi.
    Í dómnum kemur fram að ekki er andmælt því að leiða megi í lög takmörkun á tjáningarfrelsi heldur sé umrædd grein hegningarlaganna túlkuð þrengra en nauðsyn krefur. Niðurstaða dómstóls ins er engu að síður sú að þær röksemdir, sem ríkið hefur fært fram, nægi ekki til að sýna fram á að sú takmörkun, sem kært var vegna, hafi hæft því réttmæta markmiði sem sóst var eftir. Takmörkun in var því ekki „nauðsynleg í lýðfrjálsu þjóðfélagi“. Þetta undirstrikar þá skoðun flutningsmanna að rétt sé og nauðsynlegt að fella brott 108. gr.


Fylgiskjal I.


Leiðari DV 27. júní 1992:


Mannréttindabrot ríkisins.(Tölvutækur texti ekki til.)


Fylgiskjal II.


Leiðari Tímans 27. júní 1992:


Refilstigar réttvísinnar.(Tölvutækur texti ekki til.)


Fylgiskjal III.


Leiðari Alþýðublaðsins 1. júlí 1992:


Sigur Þorgeirs.(Tölvutækur texti ekki til.)
Fylgiskjal IV.


Evrópuráðið:Úr dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli


Þorgeirs Þorgeirssonar gegn Íslandi.


(25. júní 1992.)


(Tölvutækur texti ekki til.)

Fylgiskjal V.


Dómur Hæstaréttar frá 20. október 1987 í málinu nr. 272/1986,


Ákæruvaldið gegn Þorgeiri Þorgeirssyni.

(Tölvutækur texti ekki til.)