Ferill 43. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 43 . mál.


274. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Ríkismat sjávarafurða.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur við umfjöllun sína stuðst við umsagnir sem lágu fyrir á síðasta þingi frá Ríkismati sjávarafurða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva, Félagi veiðieftirlitsmanna, Vélstjórafélagi Íslands, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, nefnd um einkavæðingu ríkisfyrirtækja, BSRB og BHMR.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að stéttarfélög starfsmanna hafa miklar áhyggjur af stöðu starfsmanna Ríkismatsins ef stofnað verður hlutafélag um Ríkismat sjávarafurða.
    Miklar skipulagsbreytingar hafa nú þegar verið gerðar á stjórnkerfi sjávarútvegsins með stofnun Fiskistofu. Hin nýja skipan þarf nú að fá sinn reynslutíma og þess vegna er rétt að reka starfsemi Ríkismats sjávarafurða tímabundið sem hluta af starfsemi Fiskistofu. Með því móti má koma í veg fyrir að vandamál skapist þegar nýtt kerfi tekur við í einu vetfangi. Það að stofna hlutafélag um þann hluta starfseminnar, sem ríkið hefur með höndum, er rétt að láta bíða þar til reynsla er komin á hve vel skoðunarstofurnar skila hlutverki sínu.
    Minni hluti nefndarinnar telur þær breytingar, sem í frumvarpinu felast, ekki tímabærar og leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og sjávarútvegsráðherra verði falið að undirbúa og leggja fyrir Alþingi nýjar tillögur þar sem gert verði ráð fyrir að starfsemi Ríkismats sjávarafurða falli undir Fiskistofu.

Alþingi, 11. nóv. 1992.



Jóhann Ársælsson,

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.