Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 29 . mál.


281. Nefndarálit



um frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944.

Frá meiri hluta stjórnarskrárnefndar.



    Á fundi sínum 10. september kaus Alþingi sérnefnd, sbr. 32. gr. þingskapa, til að fjalla um frumvarp þetta sem felur í sér breytingu á 21. gr. stjórnarskrárinnar um samninga við önnur ríki. Nefndin fjallaði samhliða þessu frumvarpi um 30. mál þingsins en það frumvarp lýtur að því að bæta við nýrri stjórnarskrárgrein um þjóðaratkvæðagreiðslur, m.a. í tengslum við staðfestingu samninga við önnur ríki sem háðir eru samþykki Alþingis.
    Nefndin fjallaði um frumvarpið á fimm fundum og viðaði að sér miklum gögnum um það við umfjöllun sína. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið lögfræðinga sem kennt hafa eða kenna stjórnskipunarrétt við lagadeild Háskóla Íslands, dr. Gunnar G. Schram prófessor, dr. Magnús K. Hannesson lektor og Eirík Tómasson hrl.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að viðræður nefndarinnar við stjórnskipunarfræðinga hafi leitt í ljós að verulegir ágallar séu á efni frumvarpsins. Meiri hlutinn er jafnframt þeirrar skoðunar að þær hugmyndir, sem fram koma í frumvarpinu, þarfnist ítarlegri pólitískrar umfjöllunar áður en þingið geti tekið afstöðu til þeirra. Í því sambandi telur meiri hlutinn að stjórnarskrárnefnd, sem skipuð er fulltrúum þingflokkanna og starfar á vegum forsætisráðuneytisins, sé heppilegur vettvangur til frekari faglegrar athugunar málsins. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 12. nóv. 1992.



Sólveig Pétursdóttir,

Geir H. Haarde.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Karl Steinar Guðnason.

Vilhjálmur Egilsson.