Ferill 232. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 232 . mál.


289. Tillaga til þingsályktunar



um framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna samkvæmt eftirfarandi framkvæmdaáætlun að aðgerðum til að ná fram jafnrétti kynjanna á tímabilinu 1992–1996.

FRAMKVÆMDAÁÆTLUN


A. Starfsmannamál ríkisins.



1.     Ákvæði um auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu.
    
Ítrekuð verði sú skylda ríkisstofnana að auglýsa allar lausar stöður til umsóknar. Í auglýsingu um starf skal koma fram hvatning til þess kynsins sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein eða hvatning um að konur jafnt sem karlar sæki um starfið.

2.     Ákvæði um ráðningar í störf.
    
Það kynið, sem er í minni hluta í viðkomandi starfsgrein, skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjandi er jafnhæfur eða hæfari.

3.     Almennt ákvæði um starfsmenntun í atvinnulífinu.
    
Ráðuneyti og ríkisstofnanir móti sérstaka stefnu í starfsmenntunarmálum. Í henni skal þess gætt að kynin hafi jafna möguleika til framhaldsmenntunar, starfsþjálfunar og til að sækja námskeið sem haldin eru í því skyni að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra starfa.

4.     Ákvæði um hlut kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum.
    
Ríkisstjórninni er falið að ná því markmiði að hlutur kvenna í nefndum á vegum ríkisins verði 30% í lok gildistíma áætlunarinnar. Hér er átt við heildarþátttöku í nefndum á vegum hvers ráðu neytis, en ekki miðað við 30% í hverri nefnd. Þegar leitað er eftir tilnefningu við skipun í opinbera nefnd verði framvegis óskað eftir nafni karls og konu þannig að markmiði þessu verði náð. Jafnrétt isráð taki árlega saman tölfræðilegt yfirlit um hlutfall kynjanna í nefndum, stjórnum og ráðum.

5.     Sveigjanlegur vinnutími.
    
Í þeim tilgangi að gera starfsmönnum kleift að samræma betur fjölskylduábyrgð og þátttöku í atvinnulífi skulu ráðuneyti og ríkisstofnanir gefa starfsmönnum kost á sveigjanlegum vinnutíma eftir því sem við verður komið.

6.     Bifreiðastyrkir.
    
Í 6. gr. jafnréttislaga er kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi, bifreiðastyrki, vinnuaðstæður og veitingu hvers konar hlunninda. Störf skulu því skilgreind með hliðsjón af því hvort bílastyrkja sé þörf.

7.     Starfsmat — starfslýsingar.
    
Kerfisbundið mat á störfum ríkisstarfsmanna fari fram í því skyni að framfylgja 4. gr. jafnréttislaga sem kveður á um að greiða skuli konum og körlum jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.
     Taka skal tillit til reynslu og þekkingar sem starfsmenn hafa öðlast, t.d. við ólaunuð umönnunar-, uppeldis- og heimilisstörf. Öllum atvinnurekendum ber skylda til að framfylgja ákvæði 4. gr. jafn réttislaganna. Lagt er fyrir stjórnvöld að þau framfylgi ákvæðinu.

B. Verkefni ráðuneyta og stofnana á þeirra vegum.


    
Hér fer á eftir kafli varðandi einstök ráðuneyti og stofnanir á þeirra vegum og eru
ráðuneytin hvert um sig ábyrg fyrir framkvæmd einstakra liða sem undir þau heyra.

1. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
1.1.     Staða kynja hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    
Markvisst verði unnið að því að ráða fleiri konur í störf rannsóknarlögreglumanna hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Auglýst verði eftir konum til starfa hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins til að ná þessu markmiði, sbr. 5. og 7. gr. jafnréttislaga.

1.2.     Nauðgunarbrot.
    
Á árinu 1984 skipaði dómsmálaráðherra nefnd sem fékk það hlutverk að kanna rannsóknir og meðferð nauðgunarmála og gera tillögur til úrbóta. Eftirfarandi tillögur nefndarinnar koma til fram kvæmda á gildistíma þessarar áætlunar:

1.2.1. Breytingar á XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en kaflinn fjallar um kynferðisafbrot. Þar er m.a. lagt til að ákvæði um kynferðisafbrot verði ókynbundin, að ákvæði laganna verði samræmd ríkjandi viðhorfum nú á dögum og að refsivernd verði almennt aukin þannig að ýmsar kynferðisathafnir verði lagðar að jöfnu við samræði.

1.2.2.     Breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974.
    Markmið þeirra breytinga er að dregið verði úr skaðlegum áhrifum brots og málsmeðferðar á brotaþola og tryggja þeim bætur fyrir fjártjón og miska. Jafnframt að styrkja refsivörslukerfið í bar áttunni við refsiverð brot.

1.2.3.     Haldin verði námskeið fyrir lögreglumenn og starfsfólk heilbrigðisþjónustu.
    Jafnframt verði fræðsla um kynferðisafbrot aukin í grunnnámi lögreglumanna.

1.3.     Staða kvenna innan kirkjunnar.
    
Dómsmálaráðuneytið beini þeim tilmælum til biskupsstofu að staða kvenna innan kirkjunnar verði sérstaklega skoðuð. Einkum verði kannað hlutfall kynjanna í ýmsum nefndum og ráðum innan kirkjunnar, svo sem sóknarnefndum og kirkjuráði. Óskað verði eftir því að biskupsstofa beiti sér fyrir því með tilmælum og fræðslu að unnið verði að því að jafna hlutfall kynjanna í trúnaðarstörfum hjá þjóðkirkjunni.

2.    Félagsmálaráðuneytið.
2.1.     Staða karla í breyttu samfélagi.
    
Gerð verði úttekt á stöðu karla í breyttu samfélagi með það að leiðarljósi að jafna fjölskylduábyrgð kynjanna. Starfshópur mun leggja fram áfangaskýrslu í maí 1992 sem verði grundvöllur sérstakrar áætlunar um framkvæmd þessara mála.
2.2.     Jafnréttisráðgjafi.
    
Ráðinn verði jafnréttisráðgjafi á tímabilinu til reynslu. Hlutverk jafnréttisráðgjafa verði að vinna að leiðréttingu á stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum. Enn fremur vinni hann í samvinnu við atvinnuráðgjafa að fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur og starfi í náinni samvinnu við jafnréttis nefndir þar sem þær eru starfandi.
     Mikilvægt er að starf jafnréttisráðgjafa efli starfsemi atvinnuþróunarfélaga og atvinnuráðgjafa. Komið verði á fót, til reynslu, miðstöð í einu kjördæmi þar sem saman starfi atvinnuráðgjafi og jafn réttisráðgjafi sem vinni m.a. að málefnum kvenna í landbúnaði.

2.3.     Vinnuvernd.
    
Gerð verði úttekt á nokkrum hefðbundnum kvennastörfum, svo sem umönnunar- og þjónustustörfum, með það að markmiði að draga fram tengslin milli atvinnu annars vegar og streitu, álags og slitsjúkdóma hins vegar. Sérstakur gaumur verði gefinn að einhæfum störfum. Með niðurstöðum úttektarinnar verði lagður grunnur að tillögum til að bæta vinnuumhverfið. Jafnframt verði lögð áhersla á kynningu og umræðu í þeim tilgangi að auka skilning á atvinnusjúkdómum sem tengjast hefðbundnum kvennastörfum og koma í veg fyrir þá.

2.4.     Launamunur kynjanna.
    
Á árunum 1992 og 1993 verði valdar fimm stórar ríkisstofnanir og athuguð kjör karla og kvenna, þ.e. laun, aðrar greiðslur og fríðindi innan þeirra. Verkefnið verði unnið í samráði við verkefnis stjórn norræna launaverkefnisins á Íslandi.

2.5.     Starfsmenntun.
    
Væntanleg löggjöf um starfsmenntun í atvinnulífinu verði nýtt sérstaklega til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaðnum og stuðla að auknu atvinnuöryggi þeirra. Á undanförnum árum hefur félagsmálaráðuneytið stutt starfsmenntunarnámskeið fyrir ófaglærðar konur, t.d. sem annast ræst ingar og standa að matvælaframleiðslu. Áfram skal lögð áhersla á stuðning ráðuneytisins við slíkt námskeiðahald.

2.6.     Orsakir brottflutnings kvenna úr dreifbýli í þéttbýli.
    
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands verði falin nánari úrvinnsla gagna um búferlaflutninga, með sérstöku tilliti til kynferðis þeirra sem flutt hafa af landsbyggðinni eða hafa slíkan flutning í hyggju. Stofnunin hefur kannað ástæður búferlaflutninga fyrir Húsnæðisstofnun ríkisins.

2.7.     Rekstur kvennaathvarfs og annarra félagasamtaka sem aðstoða konur sem þolendur ofbeldis og sifjaspella.
    Skipuð verði nefnd sem geri úttekt á og setji fram tillögur um það hvernig tryggja megi sem best rekstrargrundvöll félagasamtaka sem aðstoða konur og börn sem eru þolendur ofbeldis og sifja spella. Í henni eigi sæti fulltrúar dómsmálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka.

2.8.     Stefnumótun í málefnum fjölskyldunnar.
    
Unnið skal að heildarstefnumótun í málefnum fjölskyldunnar. Landsnefnd um alþjóðaár fjölskyldunnar 1994 mun leggja fram tillögur þar að lútandi. Í tillögunum verði sérstök áhersla lögð á stuðningsaðgerðir varðandi uppeldi og umönnun meðlima fjölskyldunnar. Jafnframt skal þess gætt að einstaklingar innan fjölskyldunnar eigi kost á að taka þátt í atvinnulífinu samhliða heimilisstörf um.

3.    Fjármálaráðuneytið.
3.1.     Stjórnsýslufræðsla ríkisins — sérstök námskeið fyrir konur.
    
Stjórnsýslufræðsla ríkisins skipuleggi sérstök námskeið fyrir konur sem starfa hjá ríkinu og hafi það að markmiði að auka hæfni þeirra og veiti þeim möguleika á stöðuhækkunum.

3.2.     Nefndaskipan.
    
Í nefndum á vegum fjármálaráðuneytis, er fjalla um launakjör, þóknanir og hlunnindi, verði skipan háttað þannig að hún samrýmist ákvæðum 12. gr. laga nr. 28/1991.

3.3.     Lög um tekjuskatt og eignarskatt.
    
Við endurskoðun núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt verði gætt jafnréttissjónarmiða karla og kvenna.

3.4.     Lög um lífeyrissjóði.
    
Sett verði lög um lífeyrissjóði. Við þá lagasetningu verði tillit tekið til jafnréttis kvenna og karla, jafnframt verði réttindi heimavinnandi fólks athuguð sérstaklega.

3.5.     Gagnasöfnun.
    
Fjármálaráðuneyti geri reglulega, í samráði við félagsmálaráðuneyti, athuganir á starfskjörum ríkisstarfsmanna. Þessar athuganir verði gerðar með tilliti til karla og kvenna.

4.    Forsætisráðuneytið.
4.1.     Fjarvinnslustofur.
    
Fjarvinnsla verði efld og Byggðastofnun verði falið að vekja athygli opinberra stofnana á verkefnum sem henta til fjarvinnslu og aðstoða þær eins og þurfa þykir.

4.2.     Laun kvenna og karla.
    
Þjóðhagsstofnun gefi áfram reglulega út yfirlitsskýrslu um tekjur einstaklinga. Þar komi fram atriði eins og tekjur eftir atvinnugreinum og starfsstéttum, aldri, kyni og enn fremur tekjudreifing.

4.3.     Efling heimilisiðnaðar.
    
Heimilisiðnaður og verkmenntun verði efld og stuðningur við hönnun í smáiðnaði verði aukinn. Til hliðsjónar verði hafðar niðurstöður nefndar um eflingu heimilisiðnaðar, en nefndin hefur m.a. kynnt sér atvinnumál kvenna á landsbyggðinni og þróun smáiðnaðar á Norðurlöndum.

5.    Hagstofan.
5.1.     Tölfræðihandbók um stöðu kvenna og karla.
    
Hagstofunni verði falið að gefa reglubundið út litla handbók sem hafi að geyma tölfræðilegar upplýsingar um stöðu kvenna og karla hér á landi, en Hagstofan tekur þátt í norrænu verkefni um útgáfu slíkra upplýsinga.
     Við reglubundna hagskýrslugerð verði, svo sem unnt er og þar sem það á við, unnar og birtar töl ur fyrir bæði kynin sérstaklega.
5.2.     Tölfræðileg úttekt á sifjamálum.
    
Hagstofan haldi áfram og auki við tölfræðilegar upplýsingar um sifjamál.

5.3.     Eignaréttur að fasteignum.
    
Hagstofu Íslands og Fasteignamati ríkisins verði falið að vinna úttekt á því hverjir eigi fasteignir hér á landi. Tilgangur slíkrar úttektar verði að vekja athygli kvenna á eignastöðu sinni. Við skýrslu gerðina ber að gæta þess að engir einstaklingar séu þar greinanlegir.

5.4.     Tölfræðileg úttekt á launamun kvenna og karla.
    
Lokið verði við úrvinnslu gagna Hagstofunnar um launamun kynjanna og útgáfa fari sem fyrst fram.

6.    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
6.1.     Lög um fæðingarorlof.
    
Á gildistíma þessarar áætlunar verði lögfestar reglur sem tryggja jafnan rétt foreldra til töku fæðingarorlofs og til greiðslna í fæðingarorlofi óháð því hvort um er að ræða opinberan starfsmann eða starfsmann á almennum vinnumarkaði. Jafnframt verði gildandi lög um fæðingarorlof endurskoðuð að því er varðar sjálfstæðan rétt feðra til töku fæðingarorlofs.

6.2.     Konur og möguleikar þeirra til réttinda hjá Tryggingastofnun ríkisins.
    
Athugað verði hvort jafnrétti ríki við útreikninga örorkubóta hjá Tryggingastofnun ríkisins, þ.e. hvort hefðbundið mat á hlutverkum kynja sé hugsanlega lagt til grundvallar.

6.3. Stofnuð verði neyðarmóttaka þar sem boðið verði upp á samræmda og markvissa þjónustu við fórnarlömb kynferðisafbrota og annars ofbeldis.

7.    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

7.1.     Könnun á stöðu kvenna í iðnaði.
    
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra skipi sérstaka nefnd til þess að gera úttekt á stöðu kvenna í iðnaði og móta tillögur í þá átt að jafna hlut kynjanna á öllum starfs- og stjórnunarstigum.

7.2.     Fræðslustarfsemi.
    
Unnið verði áfram í samráði við Iðntæknistofnun að námskeiðum sem nýtast konum sérstaklega. Dæmi um slík námskeið eru: Verkstjórn, stofnun og rekstur fyrirtækja, fjarnám í ferðaþjónustu og leiðbeinendanámskeið í starfsfræðslu.

7.2.1.     Námskeið fyrir konur um frumkvæði í atvinnulífinu.
    
Lagt er til að Iðntæknistofnun fái sérstaka fjárveitingu til að undirbúa og efna til tveggja daga námskeiða fyrir konur í sveitarfélögum og dreifbýli. Fjallað verði fyrst og fremst um stefnumótun og frumkvæði, leiðir til að meta hugmyndir með hliðsjón af mismunandi forsendum og aðferðum. Einnig verði kennt að gera verk-, tíma- og kostnaðaráætlanir þannig að hugmyndunum sé breytt í framkvæmanleg verkefni.

7.3.     Áherslur.
    
Lögð verði áhersla á endurmenntun og starfsmenntun fyrir konur er vilja fara að nýju út á atvinnumarkaðinn og takast á hendur störf í iðnaði.
     Efld verði fræðsla um störf í iðnaði og þjónustugreinum, á þann veg að þau höfði ekki síður til kvenna en karla og mætti slík fræðsla verða til þess að hvetja konur til starfa í óhefðbundnum kvennagreinum.
     Stuðlað verði að því að þekking og menntun kvenna nýtist að jöfnu á við karla við ákvarðana töku og stjórnunarstöður hinna ýmsu fyrirtækja og stofnana iðnaðarins.

7.4.     Þróunarverkefni.
    
Hafið verði fjögurra ára þróunarverkefni í einu byggðarlagi með það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur. Verkefnið verði unnið m.a. í samvinnu við atvinnuráðgjafa svæðisins og Byggðastofnun.

7.5.     Jafnrétti til stjórnunarstarfa í bönkum.
    
Ráðuneytið fylgi því eftir við ríkisbankana að gerð verði sérstök áætlun um fjölgun kvenna í stjórnunarstöðum hjá bönkum. Samband íslenskra bankamanna er einnig aðili að þessari áætlunar gerð og er að henni unnið.

8.    Landbúnaðarráðuneytið.
8.1.     Félagsleg réttindi kvenna í landbúnaði.
    
Landbúnaðarráðuneytið athugi ýmis opinber réttindi kvenna í landbúnaði og geri tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf. Samhliða þessari athugun verði kannaðir möguleikar kvenna á lands byggðinni til að njóta ýmiss konar félagslegrar þjónustu sem sveitarfélögum ber að inna af hendi. Gerðar verði tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf.

8.2.     Atvinnumál kvenna í landbúnaði.
    
Landbúnaðarráðuneytið styður það markmið að gera átak til að fjölga atvinnutækifærum kvenna á landsbyggðinni og er reiðubúið til samstarfs við félagasamtök landbúnaðarins við það verkefni.
     Í tengslum við átak í atvinnumálum kvenna til sveita, verði skipulögð námskeið í stofnun og rekstri fyrirtækja. Námskeiðin taki mið af viðfangsefninu á hverjum stað.

8.3.     Fræðsla fyrir konur í landbúnaði.
    
Landbúnaðarráðuneytið beiti sér fyrir fræðslu fyrir konur í landbúnaði. Fræðslan taki til félagskerfis landbúnaðarins, starfa Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Jafnframt verði staða landbúnaðarins kynnt og ýmis félagsleg réttindi kvenna á landsbyggðinni.
     Leitast verði við að fjölga konum í trúnaðarstörfum á vegum hagsmunasamtaka bænda.

9.    Menntamálaráðuneytið.
9.1.     Samfelldur skóladagur.
    
Stefnt verður að því að koma á samfelldum skóladegi í grunnskólum eins fljótt og unnt er samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 49/1991.

9.2.     Leikskólinn.
    
Hugað verði að endurskoðun laga um leikskóla, nr. 48/1991, í samráði við samtök sveitarfélaga með það fyrir augum að saman fari skuldbindingar, ábyrgð og völd, bæði í fjárhagslegu og faglegu tilliti.

9.3. Menntamálaráðuneytið vinnur samkvæmt tillögum nefndar um eflingu jafnréttis kynjanna á öllum skólastigum. Nefndin starfaði á vegum ráðuneytisins og skilaði hún áliti um framkvæmd jafn réttisfræðslu árið 1990. Stefnt er að því að framkvæmdin taki fjögur ár. Helstu atriðin eru:

9.3.1. Fræðslufundir og námskeið.
    
Starfsfólk allra skólastiga eigi kost á fræðslufundum og námskeiðum um jafnrétti og jafna stöðu kynja í skólum. Þar verði fjallað um stöðu kynja í þjóðfélaginu, starfshætti í skólum, samskipti, sjálfsvitund nemenda o.fl. Þetta á einnig við um fóstru- og kennaranema.

9.3.2.     Starfsmannastefna skóla.
    
Starfsmannastefna skóla verði mörkuð með hliðsjón af því að störf innan þeirra séu ekki kynbundin svo að fyrirmyndir nemenda séu ekki of einhæfar.

9.3.3.     Námsefni.
    
Náms- og kennslugögn séu án kynjafordóma og staðalmynda og jafnan samin og endurskoðuð með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi.

9.3.4.     Náms- og starfsfræðsla.
    
Náms- og starfsfræðsla fléttist inn í nám á öllum skólastigum en verði sérstakur þáttur í námi eldri nemenda grunnskóla og í framhaldsskólum.

9.3.5.     Nám í fjölskyldufræðum.
    
Í grunn- og framhaldsskólum verði boðið upp á nám í fjölskyldufræðum sem felist m.a. í umfjöllun um stofnun, umhirðu og rekstur heimilis, næringarfræði, barneignir, uppeldi og samskipti kynjanna.

9.3.6.     Fræðsluefni fyrir foreldra.
    
Samið verði fræðsluefni fyrir foreldra og forráðamenn barna um stöðu kynja í skólum.

9.3.7.     Skipun framkvæmdanefndar.
    
Skipuð hefur verið þriggja manna framkvæmdanefnd til þriggja ára. Hlutverk hennar verði m.a. að hrinda í framkvæmd þeirri stefnu sem mörkuð er í skýrslu starfshópsins um jafna stöðu kynja í skólum og sjá til þess að lögum um jafnrétti og jafna stöðu kvenna og karla er varðar menntun sé framfylgt. Nefndin starfi í samvinnu við aðila frá þeim menntastofnunum sem málin varða.

10. Samgönguráðuneytið.
10.1.     Störf hjá stofnunum sem falla undir samgönguráðuneytið.
    
Í stofnunum, sem falla undir samgönguráðuneytið, er meiri hluti þeirra starfa, sem iðn-, tækni- eða háskólamenntun þarf til, unnin af körlum. Hið sama á við um vinnuflokka. Áfram verður unnið að því að jafna hlut kynjanna í þessum störfum.

11. Sjávarútvegsráðuneytið.
11.1.     Gæðaátak í sjávarútvegi.
    
Mikill meiri hluti kvenna við sjávarsíðuna um allt land vinnur við fiskiðnað. Í tengslum við gæðaátak sjávarútvegsins, sem nú fer fram, verði sérstaklega skoðað á hvern hátt nýta megi reynslu og þekkingu fiskvinnslukvenna.

11.2.     Þjónustustörf tengd sjávarútvegi.
    
Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins hefur nokkuð verið unnið að því að færa ýmis þjónustustörf tengd sjávarútvegi frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar.
     Lagt er til að áfram verði haldið á þessari braut og að hinar margvíslegu þjónustugreinar tengdar þessari atvinnugrein verði skoðaðar með það í huga að auka fjölbreytni í störfum við sjávarsíðuna. Við þá athugun verði þess sérstaklega gætt að reynsla og hæfni kvenna á viðkomandi stað verði nýtt.

12. Umhverfisráðuneytið.
12.1.     Jafnréttisáætlun umhverfisráðuneytisins.
    
Umhverfisráðuneytið hefur samið jafnréttisáætlun og hefur hlutaðeigandi stofnunum sem heyra undir ráðuneytið og hafa 20 starfsmenn eða fleiri verið falið að semja slíka áætlun.
     Þar sem því verður við komið verður stefnt að því að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum í ráðu neytinu. Boðið verður upp á sveigjanlegan vinnutíma þar sem því verður við komið. Umhverfis ráðuneytið vinnur markvisst að því að auka hlut kvenna í nefndum sem tengjast ráðuneytinu og er ávallt vakin athygli á 12. gr. laga, nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir og starfshópa.

13. Utanríkisráðuneytið.
13.1.     Staða kvenna í utanríkisþjónustunni.
    
Utanríkisráðuneytið kanni hvernig auka megi tækifæri kvenna til starfsframa í utanríkisþjónustunni. Í framhaldi af því verði settar fram tillögur um hvernig möguleikar kvenna og karla á þessu sviði verði jafnaðir.
     Settar hafa verið reglur sem auka möguleika á starfsframa ritara. Frekari útfærsla fari fram.

13.2.     Konur í þróunarríkjunum.
    
Í öllum þróunarverkefnum á vegum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands verði sérstakur gaumur gefinn að stöðu kvenna. Öll þróunarverkefni taki þannig mið af því að vinna kvenna í þróunarlönd unum er undirstaða viðkomandi samfélags og að bætt staða þeirra er forsenda framþróunar.
     Ráðnar verði konur á vegum Þróunarsamvinnustofnunarinnar til að fylgja slíku starfi eftir.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


Inngangur.


     Fyrstu lögin um jafnrétti kvenna og karla voru sett á árinu 1976. Ný jafnréttislög tóku
gildi 1985, en gildandi lög, nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla tóku gildi í mars 1991 og eru þau mun ítarlegri en eldri lögin frá 1985. Í 17. gr. gildandi laga er kveðið á um að félagsmálaráðherra beri að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismál um til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs. Í áætluninni skulu koma fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum. Þetta ákvæði er hliðstætt eldra ákvæði í lögum nr. 65/1985 en þar var einungis kveðið á um skyldu félagsmálaráðherra til að kynna fyrir Alþingi framangreinda áætlun og var það gert í annað sinn vorið 1991. Framkvæmdaáætlunin, sem hér er lögð fram, er endurskoð uð áætlun ríkisstjórnarinnar frá febrúar 1991, að fengnum breytingartillögum Jafnréttisráðs og ein stakra ráðuneyta.
     Fyrsta framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar samkvæmt lögum nr. 65/1985 var lögð fyrir Al þingi í desember 1986. Hún var sett upp með nokkuð öðrum hætti en hér er gert. Í henni voru sett fram markmið á fjórum sviðum sem stefnt skyldi að á gildistíma áætlunarinnar. Þessi svið voru at vinnu- og launamál, menntun og fræðsla, trúnaðarstöður og ábyrgð og félagsleg atriði. Í skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála, sem félagsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi í mars 1991, var gerð grein fyrir því hvernig tókst að ná fram þeim markmiðum sem sett voru í fyrstu framkvæmdaáætlun inni.
     Framkvæmdaáætlunin byggir á því sjónarmiði, sem fram kemur í lögum um jafna stöðu og jafn an rétt kvenna og karla, að stjórnvöldum beri skylda til að vinna að bættri stöðu kvenna í samfélag inu. Í lögunum er jafnframt tekið fram að markvisst skuli unnið að því að jafna stöðu kvenna á vinnumarkaði og veitt er heimild til sérstakra tímabundinna aðgerða til að ná því markmiði. Með lagasetningunni var stjórnvöldum gert að sýna fordæmi og eiga frumkvæði að aðgerðum á þessu sviði. Í framkvæmdaáætluninni er lögð áhersla á skyldur ráðherra og ráðuneyta til að vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla, hver á sínu sérsviði. Með þessu er ekki verið að draga úr mikilvægi þess að unnið sé að bættri stöðu kvenna á hinum almenna vinnumarkaði. Í áætluninni er einmitt lögð áhersla á að verkefni ráðuneytanna tengist hinum almenna vinnumarkaði. Stjórnvöld geta og eiga á grundvelli frumkvæðisskyldu sinnar að vinna að bættri stöðu kvenna alls staðar í samfélaginu.
     Endurskoðun á gildandi framkvæmdaáætlun fór þannig fram að ráðuneytum, Hagstofunni og Jafnréttisráði var gefinn kostur á að gera á henni breytingar og/eða bæta við nýjum atriðum ef þau teldu þörf á. Jafnframt var fjármálaráðuneyti beðið um að fara sérstaklega yfir kaflann um starfs mannamál ríkisins.

Meginmarkmið.


    
Meginmarkmið þessarar framkvæmdaáætlunar er að bæta stöðu kvenna innan ráðu-
neytanna og undirstofnana þeirra, jafnframt því að hafa jákvæð áhrif á stöðu kvenna almennt á vinnumarkaðnum.
    Áhersla er m.a. lögð á eftirfarandi þætti:
     1 .     Starfsmannamál ríkisins.
     2 .     Aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á öllum skólastigum.
     3 .     Launamál kvenna og karla.
     4 .     Aðgerðir til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði.
     5 .     Sérstakar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna í dreifbýli.
     6 .     Ýmis félagsleg réttindi.
     Í framkvæmdaáætluninni er lögð áhersla á hin ýmsu verkefni sem leitt geta til meiri jafnaðar kynjanna í samfélaginu. Einstök ráðuneyti eru kölluð til ábyrgðar á tilgreindum verkefnum, sem unnin skulu af viðkomandi ráðuneyti. Til að slíkar áætlanir beri árangur er brýnt að Jafnréttisráð taki reglulega saman yfirlit yfir stöðu mála.

Starfsmannamál ríkisins.


    
Í byrjun ársins 1989 tóku gildi jafnréttisáætlanir hjá ráðuneytum og þeim ríkisstofn-
unum sem eru með 20 starfsmenn eða fleiri í vinnu. Þær áætlanir taka fyrst og fremst á starfsmanna stefnu viðkomandi ráðuneytis/ríkisstofnunar. Í áfangaskýrslu Jafnréttisráðs um jafnréttisáætlanir ríkisstofnana, sem birt var í september 1991, er gerð grein fyrir framgangi þessara jafnréttisáætlana.
     Kaflanum um starfsmannamál ríkisins í þessari framkvæmdaáætlun er ætlað að vera rammi að starfsreglum sem hvert ráðuneyti og ríkisstofnun útfæri nánar og hafi að leiðarljósi við gerð sér stakra jafnréttisáætlana til fjögurra ára í senn. Þessi rammi yrði þannig framhald af gildandi jafnrétt isáætlunum, en þær falla úr gildi árið 1993. Öll ákvæðin byggja á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991.
     Í ákvæði um auglýsingar á lausum stöðum er lagt til að stofnanir láti koma fram hvatningu í aug lýsingu þess efnis að konur jafnt sem karlar sæki um þær. Þetta ákvæði byggir á 5. gr. jafnréttislaga en þar er kveðið á um að atvinnurekendur skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og 7. gr. sömu laga hljóðar svo:
     „Starf, sem laust er, skal standa opið konum jafnt sem körlum. Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Ákvæði þessarar greinar gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynja skiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni.“
     Í 5. gr. jafnréttislaga er kveðið á um að atvinnurekendur skuli vinna sérstaklega að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar. Í framkvæmdaáætluninni er lögð á það áhersla að það kynið, sem er í minni hluta í starfsgrein, skuli að öðru jöfnu ganga fyrir þegar umsækjandi er jafnhæfur eða hæfari. Þetta er í samræmi við túlkun Jafnréttisráðs og kærunefndar jafnréttismála.
     Lagt er til að ríkisstjórnin setji sér það markmið að hlutur kvenna í nefndum á vegum ríkisins nái 30% í lok gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar. Hér er átt við heildarþátttöku í nefndum á vegum hvers ráðuneytis, en ekki er miðað við 30% í hverri nefnd. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 1985 er ákvæði um að leitast skuli við að hafa sem jafnasta tölu kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka þar sem því verður við komið. Í gildandi lögum er fastar að orði kveðið og hljóðar 12. gr. laganna svo: „Í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka skulu, þar sem því verður við komið, sitja sem næst jafnmargar konur og karlar og skal ávallt á það minnt þegar óskað er tilnefningar í hlutaðeigandi stjórnir, nefndir og ráð.“ Lagaákvæðið frá 1985 hefur skilað nokkrum árangri á allra síðustu árum, en fram kemur í úttektum Jafnréttisráðs á hlut kvenna og karla í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkisins að hlutur kvenna var um 11% árin 1985 og 1987, en í apríl 1990 var hlut ur kvenna orðinn um 16,6%. Þetta hlutfall er þó mun lægra en víðast hvar á Norðurlöndum, t.d. er hlutur kvenna í opinberum stjórnum, nefndum og ráðum í Noregi orðinn 36%.
     Í áfangaskýrslu Jafnréttisráðs um jafnréttisáætlanir ríkisstofnana 1991 kemur fram að þau ráðu neyti, sem settu sér það markmið að auka hlut kvenna í nefndum og ráðum og tilgreindu leiðir til að ná því markmiði, hafa náð árangri umfram önnur. Þær leiðir, sem einkum urðu fyrir valinu, voru tvær, annars vegar svokölluð tilnefningarleið og hins vegar að minna tilnefningaraðila á ákvæði 12. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Sem dæmi um slíkan árangur má nefna nefnd ir á vegum landbúnaðarráðuneytis, en þar hefur hlutur kvenna aukist töluvert eða úr 3,8% í 10,2%.
     Til að sem gleggst mynd fáist af þróun jafnréttismála hjá hinu opinbera er mikilvægt að fjármála ráðuneyti taki árlega saman hagskýrslur með tilliti til karla og kvenna um ráðningar, stöðuhækkanir, aukagreiðslur og fleira hjá starfsmönnum ríkisins, sem Jafnréttisráð fengi til nánari úrvinnslu.




Fylgiskjal I.


Staða kvenna.


    
Rétt þykir að rekja hér í stuttu máli samanburð á stöðu kvenna og karla almennt. Jafnframt er gerður ítarlegur samanburður á greiðslum til starfsmanna ríkisins á árabilinu 1987–1991. Einungis er fjallað um þá málaflokka þar sem fyrir liggja tölfræðilegar upplýsingar. Erfitt er hins vegar að meta breytingu á viðhorfum til kynjanna, til hlutverka þeirra og stöðu í samfélaginu.

1.    Menntun.
    
Skólaárið 1976/1977 voru konur rúm 47% þeirra nemenda sem luku stúdentsprófi en skólaárið 1989/90 voru þær rúm 60% brautskráðra stúdenta.
     Konur voru 17,5% brautskráðra nemenda frá Iðnskólanum í Reykjavík vorið 1975 en voru orðn ar 30% brautskráðra nemenda vorið 1989. Konur velja sér hinar hefðbundu iðngreinar og útskrifuð ust þær af 9 brautum en karlar af 29 brautum í Iðnskólanum árið 1988. Konur voru 14% af braut skráðum nemendum í Tækniskóla Íslands á árabilinu 1987 til 1989, en þar endurspeglast einnig mjög hið hefðbundna námsval kynjanna.
     Frá árinu 1985 hafa konur verið í meiri hluta í framhaldsskólum landsins og einnig sem nýnemar við Háskóla Íslands. Hlutur kvenna í Háskóla Íslands hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Skólaárið 1975/1976 voru konur 20% af útskriftarhópnum. Á árabilinu 1987 til 1989 voru þær orðn ar 52% brautskráðra. Nám á háskólastigi vitnar að hluta til um kynbundið námsval á framhaldsskólastiginu, þannig voru konur 16% brautskráðra úr verkfræðideild á sama árabili. Aftur á móti hefur orðið mikil aukning á fjölda kvenna í öðrum greinum, svo sem lögfræði, en þær voru um 29% brautskráðra árið 1981 en voru orðnar 54% vorið 1989.

2.    Atvinnuþátttaka.
    
Í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar, sem gerð var í apríl 1991, kom fram að þegar miðað er við atvinnuþátttöku allra einstaklinga á aldrinum 16 til 74 ára voru 72% kvenna í einhverri vinnu utan heimilis á móti 85% karla, en af þeim voru 88% karla í fullu starfi á móti 49% kvenna. Sama ár voru heimavinnandi konur 11,8% á móti 0,2% karla. Þessi könnun var hin fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
     Samkvæmt gögnum frá Þjóðhagsstofnun hefur atvinnuþátttaka íslenskra kvenna aukist ár frá ári. Sérstaklega hefur þáttur giftra kvenna vaxið, hins vegar er atvinnuþátttaka ógiftra mæðra yfir leitt meiri en giftra mæðra. Þegar miðað er við konur á aldrinum 16 til 74 ára voru 90,1% þeirra í launuðu starfi utan heimilis árið 1986 samanborið við 76% árið 1975.
     Hafa ber í huga að könnun Þjóðhagsstofnunar er unnin á annan hátt en vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar og eru þessar kannanir því ekki samanburðarhæfar.

3.    Atvinnuleysi.
    
Í yfirliti um atvinnuleysi á árabilinu 1980 til 1990 kemur fram að öll árin voru hlutfallslega fleiri konur en karlar atvinnulausar. Konur á landsbyggðinni hafa fundið sérstaklega fyrir atvinnuleysinu. Á árinu 1991 var 1,7% atvinnuleysi meðal kvenna á móti 1,3% hjá körlum á ársgrundvelli. Lítill munur hefur verið á atvinnuleysi kvenna og karla á höfuðborgarsvæðinu, en töluverður munur hefur verið víðast á landsbyggðinni, t.d. var 3,9% atvinnuleysi meðal kvenna á Suðurnesjum, en 1,3% meðal karla á sama svæði á árinu 1991.
     Þegar litið er á atvinnuleysi á undanförnum mánuðum kemur hið sama í ljós. Í janúar 1992 var 7,3% atvinnuleysi meðal kvenna á landsbyggðinni og í febrúar var það 4,8%, hjá körlum á lands byggðinni var atvinnuleysið 4,3% í janúar og 3,1% í febrúar.

4.    Tekjur.
4.1.     Samanburður milli tekna kvenna og karla almennt:
    
Konur voru u.þ.b. helmingur launþega árið 1986. En hlutur þeirra í heildaratvinnutekjum var rétt um 33%. Styttri vinnudagur kvenna vegur hér þungt.
     Heildartekjur kvenna í fullu starfi hafa verið rúm 60% af heildartekjum fullvinnandi karla frá árinu 1980 eða 60,3% árið 1980; 60,7% árið 1986 en náðu 63% af heildartekjum karla í árslok 1988. Samanburðarhæfar eldri tölur eru því miður ekki til. Meiri menntun kvenna virðist því tæplega hafa skilað sér í auknu launajafnrétti.
     Í könnun jafnréttisnefndar BHM kemur fram að laun háskólamenntaðra kvenna í fullu starfi á árinu 1988 voru tæp 75% af launum fullvinnandi karla.

4.2.     Launasamanburður kvenna og karla hjá ríkinu fyrir árin 1987, 1989 og 1991:
    
Í janúar 1992 lét félagsmálaráðherra kanna og bera saman laun karla og kvenna hjá hinu opinbera. Í þessum samanburði er um að ræða kyngreindar launagreiðslur starfsmanna ríkisins á árunum 1987, 1989 og 1991 fyrir hvert stöðugildi. Stofnanir ríkisins eru flokkaðar eftir ráðuneytum annars vegar á A-hluta fjárlaga og hins vegar á B-hluta fjárlaga. Þessi samanburður er sýndur í fskj. III, töflum 1–17 hér á eftir. Þessar launagreiðslur skiptast í yfirvinnu, álag, nefndarlaun og greiddan kostnað (akstur, dagpeninga innan lands, símakostnað, fæðispeninga o.fl.) og eru þær settar fram hér bæði sem hlutfallslegur mismunur (tafla 2) og sem mismunur á hlutfalli af dagvinnulaunum (tafla 1).
     Í töfu 1 er sýnt hversu hlutfallslega hærra hlutfall aukagreiðslna rennur til karla en kvenna fyrir hvert stöðugildi.


Tafla 1.

Hlutfallslegur mismunur karla og kvenna í vægi aukagreiðslna.



Í %     1987     1989     1991

Yfirvinnulaun          84,44     74,75     77,61
Álagslaun          50,43     30,22     31,25
Nefndarlaun          366,67     307,32     334,78
Kostnaðargreiðslur          488,89     417,31     239,74
Heildaraukagreiðslur          85,75     77,01     77,62

    Þó að nokkuð hafi dregið úr þessum mismun frá 1987, þá hefur mismunurinn aukist aftur frá 1989 til 1991 viðvíkjandi öllum liðum nema vegna greidds kostnaðar en verulega hefur dregið úr þeim mismun frá árinu 1989. Þannig er yfirvinnuhlutfall karla um 78% hærra en kvenna árið 1991 en var um 84% hærra árið 1987 og um 75% hærra 1989. Hlutfall álagslauna til karla er um 31% hærra en til kvenna árið 1991, en um 50% hærra árið 1987 og um 30% hærra árið 1989. Hlutfall nefndarlauna til karla er um 335% hærra en til kvenna árið 1991, en um 366% hærra árið 1987 og um 307% hærra árið 1989. Hlutfall greidds kostnaðar til karla er um 240% hærra en til kvenna árið 1991, en um 489% hærra árið 1987 og um 307% hærra árið 1989.
     Samanburðurinn hér að framan sýnir fyrst og fremst magnmismun milli kynjanna en ekki mis mun á greiðslum fyrir sömu einingu eins og yfirvinnustund eða vaktaálag, svo framarlega sem körl um og konum eru greidd sömu laun fyrir sömu vinnu.
     Í töflu 2 er hins vegar bætt við þeim tekjumismun sem felst í að fleiri karlar en konur eru í hærri launaflokkum hins opinbera. Tekjumismunur þessi er reiknaður á hvert stöðugildi.


Tafla 2.

Hlutfallslegur tekjumismunur karla og kvenna hjá hinu opinbera.



Í %     1987     1989     1991

Yfirvinnulaun          123,29     108,84     114,10
Álagslaun          82,12     55,51     58,16
Nefndarlaun          464,98     383,46     430,08
Kostnaðargreiðslur          612,96     516,62     308,11
Heildaraukagreiðslur          124,89     111,50     114,09
Dagvinnulaun          21,07     19,49     20,55
Heildarlaun          49,98     45,48     48,15

    Í töflu 2 koma fram sömu megindrættir og í töflu 1 nema að hér er mismunurinn alls staðar meiri þar sem hér bætist við tekjumunur ólíkra stöðugilda karla og kvenna.
     Mikið hefur dregið úr þessum mismun frá 1987, en hefur aukist nokkuð aftur frá 1989 til 1991 viðvíkjandi öllum liðum nema vegna greidds kostnaðar en verulega hefur dregið úr þeim mismun frá árinu 1989. Þannig eru yfirvinnulaun karla um 114% hærri en kvenna árið 1991 en voru um 123% hærri árið 1987 og um 109% hærri árið 1989. Álagslaun til karla eru um 58% hærri en kvenna árið 1991, en voru um 82% hærri árið 1987 og um 56% hærri árið 1989. Nefndarlaun karla eru um 430% hærri en kvenna árið 1991, en voru um 464% hærri árið 1987 og um 383% hærri árið 1989. Greiddur kostnaður til karla er um 308% hærri en til kvenna árið 1991, en var um 613% hærri árið 1987 og um 517% hærri árið 1989. Heildaraukagreiðslur eru þannig um 114% hærri hjá körlum en konum 1991, en voru um 125% hærri 1987 og tæplega 112% hærri 1989. Dagvinnulaun eru tæplega 21% hærri hjá körlum en konum árið 1991, en voru rúmlega 21% hærri árið 1987 og rúmlega 19% hærri árið 1989.
     Samtals eru heildarlaun karla um 48% hærri en kvenna árið 1991, en voru um 50% hærri árið 1987 og um 45% hærri árið 1989.

5.    Stjórnun og ábyrgð.
    
Sveitarstjórnir: Konur voru 4% sveitarstjórnarmanna árið 1974. Þeim fjölgaði í rúm 19% árið 1986 og voru orðnar 21,7% árið 1990.
     Ef einungis er litið á hlutfall kvenna í borgar/bæjarstjórnum þá var það 8,3% árið 1974, en var komið í 28,9% árið 1986 og náði 32,4% árið 1990. Hlutfall kvenna í hreppsnefndum er mun lægra en eykst þó stöðugt: Þær voru 15,3% hreppstjórnarmanna eftir kosningar 1986, en voru orðnar 21% árið 1990.
     Á höfuðborgarsvæðinu eru konur 45% borgar/bæjarfulltrúa. Þær eru í meiri hluta í tveimur ná grannabæjum Reykjavíkur og í borgarstjórn Reykjavíkur sitja nú 7 konur og 8 karlar.
     Alþingi: Á árabilinu 1971 til 1983 voru aðeins 3 konur á Alþingi Íslendinga eða 5%, en eftir kosningarnar 1983 urðu þær 9 eða 15% og munaði þar mest um þingmenn Kvennalistans. Eftir kosningar 1987 voru konur orðnar 20% þingmanna. Á Alþingi sitja nú 15 konur eða 24% þing manna. Hlutur kvenna á þingum annars staðar á Norðurlöndum er mun meiri, t.d. eru konur 33% danskra þingmanna og 38,5% finnskra þingmanna.
     Í krafti aukinnar menntunar hafa konur sótt inn í embættismannastéttina. Hlutur kvenna í stjórn unar- og ábyrgðarstöðum innan ráðuneyta og ríkisstofnana hefur aukist á undanförnum árum. Árið 1987 voru konur 32% þeirra sem gegndu ábyrgðarstörfum innan ráðuneyta, en árið 1985 voru þær 24%.

6.    Félagsleg réttindi.
    
Ýmis mikilvæg félagsleg réttindi hafa áunnist á síðustu árum sem skipta miklu máli með hliðsjón af jafnrétti kynjanna. Nefna má að fæðingarorlof hefur lengst verulega. Í kjarasamningum hef ur verið um það samið að eftir tveggja ára starf hjá sama vinnuveitanda teljist fjarvistir vegna fæð ingarorlofs til starfstíma við mat á ýmsum réttindum. Flest allir launþegar eiga nú einhvern rétt til fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna, en ekki er tillit tekið til barnafjölda í fjölskyldu þegar rétt urinn er metinn. Líklegt er að oftar sé boðið upp á sveigjanlegan vinnutíma í dag en var fyrir um það bil 10 til 15 árum. Engar tölfræðilegar upplýsingar liggja þó fyrir um það.

7.    Skólamál.
    
Í liðlega fjórðu hverri fjölskyldu á Íslandi eru börn á forskólaaldri. Þetta hlutfall er mun hærra en víðast annars staðar í nágrannalöndunum. Örugg og góð gæsla fyrir börnin er forsenda þess að báðir foreldrar geti unnið utan heimilis. Hér á landi hefur áhersla verið lögð á uppbyggingu leik skóla fyrir aldurshópinn 3–5 ára og eru hálfsdagsrými algengust. Árið 1981 voru 21,6% allra barna 0–5 ára í hálfsdagsvistun á leikskóla, sambærileg tala fyrir 1990 er 30,3%. Þetta hlutfall hefur þó lítið breyst frá árinu 1986. Í heilsdagsvistun voru 7,8% allra barna 0–5 ára árið 1981, en árið 1990 var þessi tala komin í 11,3%.
     Heildarfjöldi barna í leikskólum í hlutfalli af öllum 0–5 ára börnum var 41,5% árið 1990, borið saman við 29,4% árið 1981. Veruleg aukning hefur því orðið á þessu tímabili, en hún kom aðallega fram á árabilinu 1981 til 1986. Lítil breyting hefur orðið frá árinu 1987 þegar litið er á heildarfjölda barna í leikskólum í hlutfalli af öllum 0–5 ára börnum. Þess má geta að 56,8% 3–5 ára barna var í leikskóla hluta úr degi árið 1990.
     Í skýrslu, sem unnin var af félagsvísindastofnun Háskólans árið 1989, voru foreldrar 4–5 ára barna spurð að því hvort þau teldu að stjórnvöld styddu vel eða illa við bakið á foreldrum með börn á forskólaaldri. Töldu 6,6% að þau gerðu það vel eða mjög vel, en 66,5% töldu þau gera það frekar illa eða mjög illa. Er brýnt að bæta úr þörf barnafjölskyldna fyrir örugga gæslu barna með aukningu á heilsdagsleikskólarýmum. Slíkar aðgerðir bæta vissulega stöðu kvenna á vinnumarkaði.
     Kennslufyrirkomulag í grunnskólum tekur víðast ekki mið af þeirri staðreynd að á flestum heim ilum vinna báðir foreldrar utan heimilis. Í sumum skólum er boðið upp á samfelldan skóladag og gæslu fyrir yngri börn. Með því móti dvelja börnin í skólanum samfellt hálfan dag. Hins vegar er skóladagurinn víða rofinn og takmarkar það verulega möguleika kvenna til að stunda vinnu utan heimilis.




Fylgiskjal II.



Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um tillögu til þingsályktunar


um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára um aðgerðir


til að ná fram jafnrétti kynjanna.



    
Hér er um að ræða viðamikla áætlun um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna. Í
fyrri hluta hennar eru sett fram almenn markmið er lúta að starfsmannamálum ríkisins en í síðari hluta eru sett fram verkefni á vegum einstakra ráðuneyta eða stofnana þeirra. Framkvæmdaáætlunin felur í sér margs konar aðgerðir og má skipta þeim í nokkra flokka.
A.     Aðgerðir sem fela í sér að:
     1 .     jafna hlut kvenna í störfum, nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins,
     2 .     starfsfólki sé ekki mismunað eftir kynferði og gildir það m.a. um laun, launatengd fríðindi, bílastyrki, vinnuaðstæður og veitingu hvers konar hlunninda,
     3 .     kynin hafa jafna möguleika til framhaldsmenntunar, starfsþjálfunar og til að sækja námskeið.
                  Fyrri hluti framkvæmdaáætlunarinnar snýr nær eingöngu að þessu. Í flestum tilfellum ættu þessar aðgerðir ekki að hafa kostnaðarauka í för með sér þar sem ekki er stefnt að fjölgun starfa heldur að hlutur kvenna og karla í viðkomandi stéttum eða hjá viðkomandi stofnun verði sem jafnastur.
B.    Ýmiss konar athuganir eða úttektir með það að markmiði að bæta stöðu kvenna og jafna stöðu kynjanna. Kostnaðarauki vegna slíkra kannanna þarf ekki að vera mikill. Ef niðurstöður leiða hins vegar til nýrrar eða aukinnar starfsemi á vegum ríkisins getur það haft verulegan kostnaðar auka í för með sér nema ef forgangsröðun verkefna er endurmetin.
C.    Aðgerðir sem fela í sér breytingar á löggjöf til að tryggja réttindi kvenna og að jafnréttissjónarmiða sé gætt. Kostnaðaráhrif geta verið mjög misjöfn eftir því hvað er verið að fjalla um. T.d. má leiða getum að því að viðamiklar breytingar á lögum um fæðingarorlof geta haft mikinn kostnaðarauka í för með sér en kostnaðaráhrif endurskoðunar á lögum um tekjuskatt og eignar skatt eru mjög óljós.
D.    Ný eða aukin starfsemi á vegum ríkisins sem þjónar þeim tilgangi að bæta stöðu barna og fjölskyldunnar og að auka jafnrétti kynjanna. Sem dæmi má nefna samfelldan skóladag, efling heimilisiðnaðar og verkmenntunar og aukinn stuðning við hönnun í smáiðnaði, stofnun neyðar móttöku fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota og annars ofbeldis o.fl. Þessi flokkur hefur að öllum líkindum mest áhrif til hækkunar á kostnaði nema forgangsröðun verkefna verði endurmetin.
E.    Ýmiss konar fræðslustarfsemi sem í grófum dráttum er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða námskeið sem auka eiga möguleika kvenna til að bæta stöðu sína. Hins vegar er fræðslustarf semi sem hefur það að markmiði að upplýsa og auka skilning á stöðu kvenna, jafnrétti og mikil vægi þess að jafna stöðu kynjanna. Einhver kostnaðarauki hlýst væntanlega af fræðslustarfsemi en hann þarf ekki að verða mjög mikill, t.d. ef fræðsla er viðbót við nám eða ef nýtt er aðstaða sem er þegar fyrir hendi.
F.    Ýmiss konar stefnumótun og þróunarverkefni. Kostnaðaráhrif eru óljós.
     Ekki verður séð að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu jafngildi skuldbindingu um aukin ríkisútgjöld. Frekar verður að líta svo á að um ákveðna viljayfirlýsingu sé að ræða um forgangsröð un verkefna þegar til þess kemur að deila út takmörkuðu ráðstöfunarfé ríkissjóðs.




Fylgiskjal III.


Töflur yfir launasamanburð.



Skýringar með töflum 1–17.
     Allar tölur í töflunum eru reiknaðar sem meðaltöl á stöðugildi. Hinar margvíslegu aukagreiðslur eru flokkaðar í fjóra flokka, þ.e. yfirvinnu, álag, nefndarlaun og ýmsar kostnaðargreiðslur. Skipt ingin í töflunum byggist á flokkun eftir valdsviði ráðuneyta og er skipt upp, annars vegar í A-hluta stofnanir og hins vegar B-hluta stofnanir fjárlaga. Upptalning þeirra B-hluta stofnana, sem eru tald ar með, fylgir með þessu skjali.
     Í töflum 1–4 eru hlutföll hinna ýmsu greiðslutegunda af dagvinnu eftir kynjum. Í töflu 5 eru þessar greiðslur teknar samtals.
     Í töflum 6–10 er reiknaður hlutfallslegur mismunur talnanna í töflum 1–5, þannig að plústölur sýna hversu hlutfallslega hærra hlutfall karla er en kvenna, en mínustölur sýna hversu hlutfallslega hærra hlutfall kvenna er en karla.
     Í töflum 11–17 er hins vegar beinn hlutfallslegur samanburður á sömu tekjuliðum og áður, auk dagvinnulauna og heildarlauna.

Merkingar í töflunum:
     „. . .“ merkir að enginn grundvöllur er fyrir samanburði, t.d. að engin kona eða karl vinni í viðkomandi stofnanahópi.
     „.“ merkir að munurinn er hlutfallslega ómælanlega mikill þar sem engin slík greiðsla fellur öðru hvoru kyninu í skaut þótt bæði kynin starfi í viðkomandi stofnanahópi. Eingöngu er um plús tölur að ræða þar sem karlar eru alltaf með slíkar greiðslur nema þar sem hvorugt kynið fær slíkar greiðslur og hlutfallslegur mismunur er því enginn.

     Yfirlit yfir B-hluta stofnanir sem eru taldar með:

     Menntamálaráðuneytið:
     Byggingarsjóður rannsókna í þágu atvinnuveganna,
     Sameiginlegur kostnaður skólanna á Laugarvatni,
     Verkefna- og námsstyrkjasjóður KÍ,
     Lánasjóður íslenskra námsmanna,
     Ríkisútvarp,
     Þjóðleikhús,
     Sinfóníuhljómsveit Íslands,
     Menningarsjóður.

     Utanríkisráðuneytið:
    
Fríhöfnin Keflavíkurflugvelli,
     Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli,
     Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

     Landbúnaðarráðuneytið:
    
Rannsóknastofnun landbúnaðarins, tilraunastöð Hesti, Hvanneyri,
     Rannsóknastofnun landbúnaðarins, tilraunastöð Reykhólum,
     Rannsóknastofnun landbúnaðarins, tilraunastöð Sámsstöðum,
     Laxeldisstöðin Kollafirði,
     Einangrunarstöð Hrísey.

     Sjávarútvegsráðuneytið:
    
Síldarverksmiðjur ríkisins,
     Rannsóknastofnanir sjávarútvegsins bygging.

     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið:
    
Lögbirtingablaðið,
     Kristnisjóður.

     Félagsmálaráðuneytið:
    
Byggingarsjóður ríkisins.

     Fjármálaráðuneytið:
    
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins,
     Lyfjaverslun ríkisins,
     Innkaupastofnun ríkisins,
     Arnarhvoll,
     Húseignin Borgartúni 7,
     Tollstöðvarhús,
     Ýmsar fasteignir ríkissjóðs.


     Samgönguráðuneytið:
    
Póstur og sími,
     Skipaútgerð ríkisins,
     Vita- og hafnamál þjónustumiðstöð.

     Iðnaðarráðuneytið:
    
Rafmagnsveitur ríkisins.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið:
    
Ríkisspítalar, stofnanir.



(Töflur myndaðar.)