Ferill 29. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 29 . mál.


305. Nefndarálit



um frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944.

Frá minni hluta stjórnarskrárnefndar.



    Sérstaklega kjörin stjórnarskrárnefnd hefur haft til meðferðar 29. mál þessa þings, frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Á fundi nefndarinnar hafa verið kvaddir ýmsir sérfróðir menn eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans.
    Íslenska stjórnarskráin er að því leyti frábrugðin skyldum stjórnarskrám á Norðurlöndum að í henni er ekkert ákvæði sem heimilar framsal á valdi, jafnvel þótt takmarkað sé. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafa verið gerðar breytingar á stjórnarskrá landanna er heimila ákveðið og afmarkað afsal ríkisvalds með samþykki aukins meiri hluta þjóðþinganna. Þar hefur verið litið svo á að eldri ákvæði í stjórnarskrám ríkjanna um samninga við önnur ríki væru ekki lengur í samræmi við þá alþjóðlegu samvinnu sem nú tíðkast. Í þessu sambandi má geta þess að þjóðþing Finnlands og Noregs komust að þeirri niðurstöðu að afgreiða yrði samninginn um Evrópska efnahagssvæðið á grundvelli stjórnarskrárgreina sem krefjast aukins meiri hluta. Svíar munu hins vegar beita svipuðu ákvæði komi til aðildar að Evrópubandalaginu. Einnig má nefna að í Austurríki er gerð krafa um aukinn meiri hluta á þjóðþinginu vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Stjórnarskrá Íslands byggist á norrænum stjórnskipunarrétti og með hliðsjón af aukinni þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi er það skoðun minni hluta nefndarinnar að eðlilegt sé að á íslensku stjórnarskránni verði gerðar svipaðar breytingar og verði á stjórnarskrám annarra ríkja á Norðurlöndum. Slíkar breytingar eru þeim mun mikilvægari þar sem nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til staðfestingar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Það er mat minni hluta nefndarinnar að ekki sé heimilt að óbreyttri stjórnarskrá að framselja íslenskt ríkisvald í þeim mæli sem gert er ráð fyrir í EES-samningnum. Það er jafnframt skoðun minni hlutans að ekki megi ríkja efi um stjórnskipulegt gildi þeirra milliríkjasamninga sem Ísland gerir og því sé brýn þörf á breytingu á stjórnarskrá er tekur af öll tvímæli í þessum efnum.
    Minni hluti nefndarinnar styður því það markmið frumvarpsins að sett verði ákvæði í stjórnarskrána um hvernig með skuli fara ef gerðir eru samningar við önnur ríki sem fela í sér ákveðið og afmarkað framsal á ríkisvaldi. Að mati minni hlutans er forsenda ákvæðisins sú að slíkir samningar feli í sér að Ísland og önnur samningsríki taki á sig sambærilegar og gagnkvæmar skuldbindingar, að Ísland eigi aðild að þeirri stofnun eða samtökum sem vald er framselt til og að framsalið sé ákveðið og afmarkað. Minni hlutinn telur að einhliða framsal ríkisvalds til annars ríkis sé ævinlega óheimilt og sama gildi um óskilyrt framsal á ríkisvaldi til alþjóðastofnunar. Minni hlutinn leggur áherslu á það ákvæði frumvarpsins að þrír fjórðu hlutar alþingismanna þurfi að samþykkja slíka samninga til að forseti Íslands geti staðfest þá enda verður að telja óverjandi að einfaldur meiri hluti á Alþingi geti framselt ríkisvald eða lagt verulegar kvaðir á íslenskt landsvæði, landhelgi eða lofthelgi. Til þess að slíkt geti átt sér stað þarf að vera tryggt að umtalsverður meiri hluti alþingismanna sé því fylgjandi.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið leggur minni hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt. Minni hlutinn telur hins vegar rétt að gera þrenns konar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi að kveðið verði skýrar á um að til þess að til framsals á íslensku ríkisvaldi geti komið þurfi slíkt framsal að vera vel afmarkað og á takmörkuðu sviði. Í öðru lagi að tiltekið verði að framsal valds til fjölþjóðlegrar stofnunar eða samtaka sé heimilt ef Ísland er aðili þar að. Í þriðja lagi að felld verði brott orðin „hvers konar“ og „einhvers hluta“ og byggist breytingin á því að sú ábending kom fram á fundi nefndarinnar að þau gætu valdið misskilningi. Að mati minni hlutans breyta þessi orð engu um efni greinarinnar og því óhætt að fella þau brott.
    Sú ábending kom fram á fundi nefndarinnar að rétt væri að setja ákvæði í frumvarpið þess efnis að heimildin til framsals á ríkisvaldi nái ekki til breytinga á stjórnarskránni. Að mati minni hluta nefndarinnar er ekki nauðsynlegt að gera slíka breytingu á frumvarpinu enda geti ekki ríkt um það neinn vafi að stjórnarskránni sé aðeins hægt að breyta með þeim hætti sem kveðið er á um í 79. gr. hennar. Komi til þess að alþjóðasamningur feli í sér breytingu á stjórnarskrá yrði augljóslega að fara með slíka breytingu skv. 79. gr. hennar.

Alþingi, 18. nóv. 1992.



Steingrímur Hermannsson,

Ragnar Arnalds.

Kristín Einarsdóttir.


frsm.



Páll Pétursson.