Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 273 . mál.


369. Frumvarp til hjúskaparlaga(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)I. KAFLI


Efnissvið laganna og almenn ákvæði.


A. Gildissvið laganna.


1. gr.


    Lög þessi gilda um hjúskap karls og konu. Þau taka ekki til óvígðrar sambúðar.

B. Jafnstaða hjóna.


2. gr.


    Hjón eru í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlega hagsmuna heimilisins og fjölskyldu.
    Hjón eiga í sameiningu að annast uppeldi barna sinna, sjá þeim farborða og hjálpast að við að framfæra fjölskylduna með fjárframlögum, vinnu á heimili og á annan hátt.

C. Verkefnaskipting og upplýsingar um efnahag.


3. gr.


    Hjón skulu skipta milli sín verkefnum á heimili eftir föngum, svo og útgjöldum vegna heimilisrekstrar og framfærslu fjölskyldu.
     Hjónum er skylt að veita hvort öðru upplýsingar um efnahag sinn og afkomu.

D. Forræði eigna og skuldaábyrgð.


4. gr.


    Hvort hjóna ræður yfir eign sinni og svarar til skulda sinna eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum.

E. Lok hjúskapar.


5. gr.


    Hjúskap lýkur við andlát maka, vegna ógildingar hjúskapar eða lögskilnaðar.

F. Fjárskipti vegna fjárslita milli hjóna.


6. gr.


    Nú skilja hjón að borði og sæng eða skilja lögskilnaði eða annað þeirra andast. Skal skírri hjúskapareign hvors um sig þá skipt til helminga, svo sem nánar segir í lögum þessum. Hjón geta samið um fjárskipti sín vegna skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar, en ella getur annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra.
     Um fjárskipti vegna ógildingar hjúskapar segir í 30. gr. og um fjárskipti vegna fjárslita án hjúskaparloka í XIII. kafla.

II. KAFLI


Hjónavígsluskilyrði.


A. Aldur hjónaefna.


7. gr.


    Karl og kona mega stofna til hjúskapar þegar þau hafa náð 18 ára aldri. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur veitt yngra fólki leyfi til að ganga í hjúskap.

B. Hjónaefni er lögræðissvipt.


8. gr.


    Nú er maður sviptur lögræði og getur hann þá eigi stofnað til hjúskapar án samþykkis lögráðamanns síns. Bera má synjun um samþykki undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið sem leyft getur hjónavígsluna ef ekki þykir gild ástæða til synjunar.

C. Skyldleiki hjónaefna.


9. gr.


    Hvorki má vígja skyldmenni í beinan legg né systkin.D. Ættleiðing.


10. gr.


    Kjörforeldri og kjörbarn mega ekki giftast hvort öðru nema ættleiðing sé niður felld.

E. Tvíkvæni.


11. gr.


    Eigi má vígja mann sem er í hjúskap.

F. Fjárskipti milli hjónaefnis og fyrri maka.


12. gr.


    Nú hefur hjónaefni verið í hjúskap og má þá eigi vígja það nema opinber skipti séu hafin eða einkaskiptum lokið vegna fjárskipta hjónaefnis og fyrri maka. Þetta gildir þó ekki ef fullkomin séreignaskipan hefur verið á fjármálum hjóna. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti getur leyst undan þessu skilyrði ef sérstaklega stendur á.

III. KAFLI


Könnun á hjónavígsluskilyrðum.


A. Að hverju könnun lúti.


13. gr.


    Áður en hjónavígsla fer fram skulu hjónaefni leggja fram vottorð þess efnis að könnun hafi átt sér stað á hjónavígsluskilyrðum samkvæmt því sem segir í II. kafla og að lög tálmi ekki ráðahagnum.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið setur nánari reglur um könnun á hjónavígsluskilyrðum, þar á meðal um þau skilríki sem krefja skal hjónaefni um við gæslu þessara skilyrða, svo sem fæðingarvottorð og gögn um lok fyrra hjúskapar.
     Hjónaefni skulu lýsa því í skriflegri yfirlýsingu að viðlögðum drengskap að þau viti ekki um tálma á fyrirhuguðum hjúskap sínum. Vígslumaður krefur hjónaefni til tryggingar um vottorð tveggja áreiðanlegra svaramanna er báðir ábyrgjast að enginn lagatálmi sé á fyrirhuguðum hjúskap. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur leyft ef alveg sérstaklega stendur á að vikið sé frá þessu, þar á meðal að aðeins einn svaramaður undirriti vottorð.

B. Hverjir annast könnun.


Synjun um útgáfu könnunarvottorðs.


14. gr.


    Löggildir hjónavígslumenn skv. IV. kafla laga þessara annast könnun á hjónavígsluskilyrðum. Fer hún fram í lögsagnarumdæmi þar sem annað hjónaefna á lögheimili. Nú á hvorugt lögheimili hér á landi og fer könnun þá fram í umdæmi þar sem annað þeirra dvelst.
     Nú synjar vígslumaður um útgáfu könnunarvottorðs og getur hvort hjónaefni um sig þá skotið úrlausn hans til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sbr. 132. gr. Ef ráðuneytið felst á sjónarmið aðila fellir það synjun vígslumanns úr gildi og er hjónavígsla þá heimil á grundvelli úrlausnar þess.
C. Könnunarvottorð er forsenda hjónavígslu.


Heimild til að víkja frá því ef hjónaefni er alvarlega sjúkt.


15. gr.


    Hjónavígsla má ekki fara fram nema fyrir liggi vottorð löggilds vígslumanns um að enginn lagatálmi sé á fyrirhuguðum hjúskap. Vottorð þetta má þó ekki vera meira en fjögurra mánaða gamalt.
     Nú er annað hjónaefna eða bæði alvarlega sjúk og má hjónavígsla þá fara fram þótt sérstök könnun hjónavígsluskilyrða hafi ekki átt sér stað.
     Nú er vígslumanni kunnugt um hjúskapartálma og má hann þá eigi vígja hjónaefni þótt fullgildu könnunarvottorði skv. 1. mgr. sé til að dreifa.

IV. KAFLI


Hjónavígsla.


A. Vígslumenn.


1. Almennt.


16. gr.


    Stofna má til hjúskapar fyrir presti, forstöðumanni trúfélags er hefur vígsluheimild, sbr. 17. gr., eða borgaralegum vígslumanni.

2. Prestar og forstöðumenn trúfélaga.


17. gr.


    Prestar þjóðkirkjunnar annast kirkjulega hjónavígslu, svo og prestar og forstöðumenn annarra hérlendra trúfélaga sem fengið hafa löggildingu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess.
     Prestar þeir, er greinir í lögum nr. 62/1990, eru löggildir vígslumenn. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákveður að öðru leyti, að fengnum tillögum biskups, hvort aðrir prestar, sem starfa innan þjóðkirkjunnar, séu löggildir vígslumenn.
     Þjóðkirkjupresti, sem látið hefur af prestsembætti, er rétt að gefa saman hjón, að fenginni heimild tiltekins prests þjóðkirkju er kannað hefur hjónavígsluskilyrði og tekist á hendur ábyrgð á færslu hjónavígslu í kirkjubók og skýrsluskilum í því sambandi.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur löggilt íslenska presta til að framkvæma hjónavígslur erlendis.

3. Borgaralegir vígslumenn.


18. gr.


    Borgaralega hjónavígslu framkvæma sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.

4. Hjónavígsluheimild starfsmanna íslenskra sendiráða.


19. gr.


    Utanríkisráðuneytið getur, að höfðu samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, sett reglur um heimild starfsmanna í íslenskum sendiráðum, er hafa diplómatíska stöðu, til að framkvæma hjónavígslur erlendis, svo og um vígsluheimild ræðismanna Íslands erlendis með sama fyrirvara.
     Ákvæði laga þessara um hjónavígsluskilyrði, könnun þeirra, svo og hjónavígslu, gilda einnig um hjónavígslu skv. 1. mgr., svo og skv. 4. mgr. 17. gr.

5. Heimild erlendra vígslumanna til að framkvæma hjónavígslu hér á landi.


20. gr.


    Heimilt er að ákveða með samningi við erlent ríki að prestar frá viðkomandi ríki eða útsendir ræðismenn þess hér á landi, er hafa diplómatíska stöðu, geti framkvæmt hjónavígslu hér á landi, enda sé a.m.k. annað hjónaefna ríkisborgari þess ríkis.

6. Hæfi vígslumanns.


21. gr.


    Skyldleiki (kjörsifjar) eða tengdir vígslumanns við hjónaefni gera hann ekki vanhæfan til að framkvæma könnun á hjónavígsluskilyrðum eða til að gefa saman hjón.

B. Réttur til hjónavígslu og skylda prests til að framkvæma hjónavígslu.


22. gr.


    Hjónaefni eiga rétt á að stofna til hjúskapar fyrir borgaralegum vígslumanni hvort sem þau eiga kröfu á kirkjulegri hjónavígslu eða ekki.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur, að fengnum tillögum biskups, sett reglur um hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og nánari reglur um hvenær þeim sé þetta heimilt.

C. Hvar hjónavígsla fari fram.


23. gr.


    Borgaraleg hjónavígsla fer fram á skrifstofu vígslumanns nema vígslumaður og hjónaefni verði á annað sátt.
     Kirkjuleg hjónavígsla fer fram í kirkju nema vígslumaður og hjónaefni samþykki annað.

D. Hjónavígsluathöfnin.


24. gr.


    Hjónavígsla skal fara fram í viðurvist tveggja vitna.
     Vígslumaður spyr hjónaefni, sem bæði eru viðstödd, hvort fyrir sig hvort þau vilji stofna til hjúskaparins og lýsir þau hjón er þau hafa játað því.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd borgaralegrar og kirkjulegrar hjónavígslu að höfðu samráði við biskup Íslands og utanríkisráðuneytið.

E. Gildi hjónavígsluathafnar.


25. gr.


    Hjónavígsla er gild ef lögmætur vígslumaður hefur framkvæmt hana, enda hafi hann gætt þeirra reglna sem greinir í 2. mgr. 24. gr.
     Nú er hjónavígsla eigi gild skv. 1. mgr. og getur dóms- og kirkjumálaráðuneytið þá lýst hana gilda ef sérstakar ástæður mæla með því. Á þetta einnig við þótt annað hjóna eða bæði séu látin.


F. Færsla embættisbóka o.fl.


26. gr.


    Um færslu embættisbóka í sambandi við hjónavígslur og skil á skýrslum um það efni fer eftir þeim lögum og öðrum réttarreglum sem um það efni gilda eða sett kunna að verða. Heimilt er að kveða nánar á um þessi efni í reglugerð er dóms- og kirkjumálaráðuneytið setur.
     Nú framkvæmir prestur eða starfsmaður skráðs trúfélags hjónavígslu og gilda þá framangreindar reglur um þá hjónavígslu, en heimilt er að öðru leyti að viðhafa þá helgisiði er reglur eða venjur trúfélags segja til um.

V. KAFLI


Ógilding hjúskapar.


A. Hvenær hjúskapur verði ógiltur.


27. gr.


    Nú brýtur hjúskapur í bága við ákvæði 9. eða 11. gr. og skal þá ógilda hann með dómi, sbr. 116. gr. Ef hjúskapur gengur í berhögg við ákvæði 11. gr. er ekki unnt að ógilda hann ef fyrra hjúskap er lokið áður en mál er höfðað.

28. gr.


    Annað hjóna getur krafist ógildingar hjúskapar síns:
    Hafi það verið viti sínu fjær þegar vígsla fór fram eða að öðru leyti svo ástatt um það að það mátti þá eigi skuldbinda sig til hjúskapar að lögum.
    Hafi það af vangá látið vígja sig öðrum en þeim sem það hafði bundist hjúskaparorði eða hafi það verið vígt án þess að það ætlaðist til þess.
    Hafi eiginkona þess eða eiginmaður komið því til að eiga sig með því að villa vísvitandi á sér heimildir eða leyna atvikum úr lífi sínu er mundu hafa fælt hitt frá hjúskapnum ef vitað hefði.
    Hafi það verið neytt til vígslunnar.
     Mál til ógildingar verður ekki höfðað eftir að sex mánuðir eru liðnir frá því að ástandi því lauk sem lýst er í 1. lið, frá því að sóknaraðili komst að raun um ógildingarástæðu skv. 2. eða 3. lið eða frá því að nauðung létti skv. 4. lið. Hvernig sem á stendur verður ógildingarmál ekki höfðað eftir að liðin eru þrjú ár frá hjónavígslu.

B. Réttaráhrif ógildingar.


29. gr.


    Ógilding hjúskapar hefur sömu áhrif að lögum og lögskilnaður nema lög greini annað.

C. Fjárskipti vegna ógildingar.


30. gr.


    Við skipti vegna ógildingar hjúskapar tekur hvort hjóna að óskiptu verðmæti úr hjúskapareign sem svarar til þess er það átti er til hjúskapar var stofnað og til þess sem síðar hefur bæst því vegna gjafar eða arfs og enn fremur virði þess sem það hefur flutt frá séreign sinni til hjúskapareignar sinnar. Nú hrökkva eigur hjóna ekki til að fullnægja kröfum hvors um sig og ber þá að lækka þær að tiltölu. Nú hefur annað hjóna gefið hinu eitthvað til séreignar og er þá sú gjöf afturtæk.

D. Andlát maka áður en hjúskapur, sem ógildanlegur er, hefur verið ógiltur.


31. gr.


    Nú deyr annað hjóna áður en hjónaband, sem ógildanlegt er skv. 27. gr., sætir ógildingu og getur þá hitt, eða erfingjar hins látna, krafist þess að sérreglum um fjárskipti vegna ógildingar verði beitt.
     Sama rétt á það hjóna sem gat höfðað mál skv. 28. gr. þegar hitt hjóna andast áður en ógilding hefur átt sér stað, enda séu málshöfðunarfrestir ekki liðnir. Nú er ógildingarmál höfðað og maki andast eftir það og er þá erfingum hans heimilt að krefjast þess að sérreglum um fjárskipti vegna ógildingar verði beitt.
     Kröfu skv. 1. og 2. mgr. ber að hafa uppi innan sex mánaða frá andláti.

32. gr.


    Nú andast það hjóna sem stofnað hefur til hjúskapar andstætt ákvæði 11. gr. áður en hjúskapur sætir ógildingu og skal þá líta svo á að réttur gagnvart þriðja manni til bóta, lífeyris og eftirlauna eða annars verðmætis, sem því hjóna er lifir er ætlað, beri eftirlifandi maka úr þeim hjúskap sem tvíkvænishjúskapur braut í bága við nema annað sé ljóst af atvikum.

VI. KAFLI


Hjónaskilnaðir.


A. Skilnaður að borði og sæng.


1. Samkomulag hjóna um að leita skilnaðar að borði og sæng.


33. gr.


    Nú eru hjón sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng og ber þá að veita þeim leyfi til slíks skilnaðar.

2. Annað hjóna krefst skilnaðar að borði og sæng.


34. gr.


    Maki, sem telur sig ekki geta haldið áfram hjúskap, á rétt á skilnaði að borði og sæng.

3. Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falla niður.


35. gr.


    Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falla niður ef makar halda áfram sambúð umfram stuttan tíma sem sanngjarnt er að ætla þeim, einkum vegna búferlaflutnings og öflunar nýs húsnæðis. Réttaráhrifin falla einnig niður ef hjón taka síðar upp sambúð nema um sé að ræða skammvinna tilraun til að endurvekja samvistir að nýju.

B. Lögskilnaður.


1. Að undangengnum skilnaði að borði og sæng.


36. gr.


    Nú eru hjón á einu máli um að leita lögskilnaðar og er hann þá kræfur er liðnir eru sex mánuðir frá því að leyfi var gefið út til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, sbr. þó 35. gr.
     Hvor maki um sig á rétt á lögskilnaði eftir að eitt ár er liðið frá því að leyfi var veitt til skilnaðar að borði og sæng eða dómur gekk, sbr. þó 35. gr.

2. Samvistaslit hjóna.


37. gr.


    Nú hafa hjón slitið samvistir vegna ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta.

3. Tvíkvæni.


38. gr.


    Nú hefur annað hjóna stofnað til hjúskapar andstætt ákvæðum 11. gr. og getur þá hitt krafist lögskilnaðar á hjúskap sínum er tvíkvænishjúskapur gengur í berhögg við.

4. Hjúskaparbrot.


39. gr.


    Nú fremur annað hjóna hjúskaparbrot eða sýnir af sér atferli sem jafna má til þess og getur þá hitt krafist lögskilnaðar nema það hafi samþykkt brotið eða stutt að framgangi þess eða fallið frá því að hafa uppi lögskilnaðarkröfu af þessu tilefni.
     Lögskilnaðar verður ekki krafist skv. 1. mgr. vegna háttsemi sem á sér stað eftir skilnað að borði og sæng.
     Höfða skal mál eða setja fram kröfu um leyfi til lögskilnaðar innan sex mánaða frá því að maka varð kunnugt um háttsemina og þó eigi síðar en innan tveggja ára frá því að hún átti sér stað.

5. Líkamsárás.


40. gr.


    Nú hefur annað hjóna orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti er bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim. Getur þá hitt krafist lögskilnaðar, enda sé verknaður framinn af ásettu ráði og valdi tjóni á líkama eða heilbrigði þess er fyrir verður ef líkamsárás er til að dreifa.
     Sama gegnir ef maki hefur sýnt af sér atferli sem fallið er til að vekja alvarlegan ótta um að hann gerist sekur um verknað er greinir í 1. mgr.
     Höfða skal mál eða setja fram kröfu um leyfi til lögskilnaðar innan sex mánaða frá því að maka varð kunnugt um verknaðinn og þó eigi síðar en innan tveggja ára frá því að hann var framinn.

C. Úrlausn um kröfu til skilnaðar.


41. gr.


    Leyfi til skilnaðar að borði og sæng skv. 33. gr. og lögskilnaðar skv. 1. mgr. 36. gr. veita sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra.
     Skilnaðar samkvæmt öðrum ákvæðum má leita hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það, en ella hjá dómstólum.
     Nú synjar sýslumaður um leyfi til skilnaðar og getur aðili þá skotið synjuninni til dómsmálaráðuneytis, sbr. 132. gr. Synjun er ekki því til fyrirstöðu að skilnaðar sé leitað fyrir dómstólum.

D. Sáttaumleitan.


42. gr.


    Hjón, sem ákveðið hafa að leita skilnaðar, eiga þess ávallt kost að leitað sé um sættir með þeim samkvæmt þessari grein.
     Skylt er að leita um sættir með hjónum sem eiga ósjálfráða barn, annað eða bæði, er þau hafa forsjá fyrir. Þetta á þó ekki við ef hjón krefjast sameiginlega lögskilnaðar að undangengnum skilnaði að borði og sæng, sbr. 1. mgr. 36. gr.
     Í sáttatilraun felst að kanna skal grundvöll að framhaldi hjúskaparins.
     Prestar leita um sættir eða löggiltir forstöðumenn trúfélaga. Nú er annað eða bæði hjóna utan trúfélaga eða hvort heyrir til sínu trúfélagi og getur þá sýslumaður eða dómari eftir því hvar mál er til meðferðar leitað um sættir.
     Þeir sem leita um sættir samkvæmt þessu ákvæði skulu gæta trúnaðar um einkahagi sem þeir öðlast vitneskju um í sáttastarfi sínu.
     Sáttatilraun prests eða löggilts forstöðumanns trúfélags skal að jafnaði hafa farið fram á síðustu sex mánuðum áður en mál er höfðað eða sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað fyrir sýslumanni, en í síðasta lagi áður en skilnaður er veittur.
     Nú sækir annað hjóna ekki sáttafund þótt það hafi fengið kvaðningu tvívegis og er þá nægilegt að reyna sættir með hinu. Um lögmæt forföll hjóna frá sáttafundi fer skv. 1. mgr. a- til e-liða 97. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Nú eru hjón búsett hvort í sínum landshluta og er þá heimilt að reyna sættir með þeim hvoru í sínu lagi. Nú býr annað hjóna erlendis og þarf þá ekki að reyna sættir að því er það varðar.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur ákveðið í reglugerð að sáttaumleitan í stofnun um fjölskylduráðgjöf geti komið í stað sáttaumleitunar samkvæmt þessari grein.

E. Skilnaðarkjör.


43. gr.


    Áður en skilnaður að borði og sæng eða lögskilnaður er veittur skal sýslumaður eða dómari reyna að koma á samkomulagi milli hjóna um skipan forsjár fyrir börnum, um framfærslueyri og aðra skilnaðarskilmála. Hjón skulu staðfesta samkomulag um þessi efni fyrir sýslumanni eða dómara.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef óskað er lögskilnaðar á grundvelli skilnaðar að borði og sæng, sbr. 36. gr., með óbreyttum skilnaðarskilmálum.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti getur sett nánari reglur um umleitun skv. 1. mgr.

44. gr.


    Forsjá barns og framfærslueyri með því skal skipa við skilnað að borði og sæng og við lögskilnað í samræmi við ákvæði barnalaga, enn fremur framfærslueyri með maka í samræmi við ákvæði VII. kafla. Áður en skilnaður er veittur skal annað tveggja vera samkomulag milli hjóna um fjárskipti eða opinber skipti hafin vegna fjárslita.
     Ágreiningur foreldra um forsjá og framfærslueyri kemur ekki í veg fyrir að skilnaður verði veittur að kröfu annars hjóna, að öðrum skilyrðum fullnægðum.

F. Um gildi skilnaðarkjara vegna skilnaðar að borði og sæng.


45. gr.


    Þeir skilnaðarskilmálar, sem hjón hafa komið sér saman um eða ákveðnir hafa verið með öðrum hætti í tilefni skilnaðar að borði og sæng, skulu einnig gilda eftir að lögskilnaður er fenginn nema annars hafi verið getið þegar skilnaður að borði og sæng var veittur. Framfærslueyrir með maka eftir lögskilnað kemur þó ekki til greina nema því aðeins að ákvörðun um hann hafi verið tekin skv. 2. mgr. 50. gr.

VII. KAFLI


Ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar.


A. Framfærsluskylda hjóna meðan á hjúskap stendur.


1. Sameiginleg ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu.


46. gr.


    Hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar. Til framfærslu telst það sem með sanngirni verður krafist til sameiginlegs heimilishalds og annarra sameiginlegra þarfa, uppeldis og menntunar barna og sérþarfa hvors hjóna. Um framfærsluskyldu gagnvart börnum gilda að öðru leyti ákvæði barnalaga.
     Framlag annars maka til sérþarfa hins verður hjúskapareign viðtakanda nema sérstök heimild sé til að telja það séreign.

2. Framfærsluframlög.


47. gr.


    Framfærsluframlög hjóna eru fólgin í peningagreiðslum, vinnu á heimili eða öðrum stuðningi við fjölskyldu. Framlög skiptast milli hjóna eftir getu þeirra og aðstæðum.
     Nú nægja fjárframlög þau, sem annað hjóna á að inna af hendi skv. 1. mgr., ekki til að fullnægja sérþörfum þess og barna eða þörfum heimilisins og á viðkomandi þá kröfu á að hitt láti honum eða henni í té peningafjárhæð sem með þarf, hæfilega upphæð í hvert skipti, miðað við getu og hagi aðila.

3. Vanræksla á framfærsluskyldum.


48. gr.


    Nú vanrækir annað hjóna framfærsluskyldu sína skv. 46. og 47. gr. og skal þá eftir kröfu hins gera því að greiða hinu fé samkvæmt ákvæðum 47. gr. ef það eftir öllum aðstæðum þykir sanngjarnt.

4. Úrlausn sýslumanns um fjárframlög til framfærslu.


49. gr.


    Sýslumaður leysir úr kröfum skv. 48. gr., sbr. 46. og 47. gr., og ákveður fjárframlög með úrskurði. Hann getur, ef annað hjóna krefst þess, breytt úrskurði sínum ef aðstæður hafa breyst að mun eða atvik mæla að öðru leyti með því.
     Sýslumaður getur enn fremur, ef annað hjóna krefst þess, breytt samningi hjóna um fjárframlög skv. 46. og 47. gr. ef sá samningur er bersýnilega ósanngjarn eða hagir hjóna breyttir að mun.
     Fjárframlög skv. 48. gr. er aðeins hægt að ákveða fyrir síðasta árið áður en krafa var sett fram nema alveg sérstaklega standi á.

B. Lífeyrir með maka eftir skilnað að borði og sæng og lögskilnað.


1. Framfærsluskylda.


50. gr.


    Gagnkvæm framfærsluskylda hjóna helst eftir skilnað að borði og sæng. Við skilnað að borði og sæng skal taka ákvörðun um skyldu hjóna til að greiða lífeyri hvort með öðru og um fjárhæð hans.
     Eftir að lögskilnaður er veittur verður öðru hjóna ekki gert að greiða lífeyri með hinu nema alveg sérstaklega standi á.

2. Úrlausn um lífeyri.


51. gr.


    Nú næst ekki samkomulag um greiðslu lífeyris skv. 50. gr. og leysir þá sýslumaður eða dómstóll úr ágreiningnum. Ef skilnaðarmál er til úrlausnar hjá sýslumanni kveður hann á um skyldu til greiðslu lífeyris, svo og fjárhæð hans. Dómstóll, sem hefur skilnaðarmál til úrlausnar, kveður á um skyldu til greiðslu lífeyris, en fjárhæð hans úrskurðar sýslumaður.
     Við úrlausn skv. 1. mgr. skal við það miða hvað ætla megi að krefjandi geti aflað sér sjálfur, svo og við það hvað telja megi hitt hjóna aflögufært um. Þá skal einnig taka tillit til atvika að öðru leyti, þar á meðal hversu lengi hjúskapur hafi staðið og hvort þeim er kröfu hefur uppi sé þörf á menntun eða endurhæfingu.
     Skylda til greiðslu lífeyris fellur niður þegar sá sem rétt á til hans giftist að nýju, svo og þegar annað hvort hjónanna andast.
     Dómstóll getur að kröfu aðila breytt úrlausn sinni um skyldu til greiðslu lífeyris ef aðstæður hafa breyst að mun eða atvik mæla að öðru leyti með því.
     Um breytingu á úrskurði sýslumanns samkvæmt þessari grein fer eftir því sem segir í 1. mgr. 49. gr.

3. Breyting á samningi um lífeyri.


52. gr.


    Nú hafa hjón komið sér saman um skyldu til greiðslu lífeyris eða fjárhæð hans og er þá unnt að breyta samningi með dómi, enda sé sýnilega ósanngjarnt vegna breyttra aðstæðna að halda samningnum til streitu.
     Dómsmál skal höfða innan eins árs frá fullnaðardómi til skilnaðar eða frá útgáfu leyfisbréfs. Þessir tímafrestir gilda þó ekki ef freistað er að hnekkja samningi með stoð í almennum reglum um fjármunaréttarsamninga.

VIII. KAFLI


Eignir hjóna.


Yfirlit yfir eignadeildir í hjúskap.


53. gr.


    Eignir hjóna skiptast í hjúskapareignir og séreignir sem geta verið samningsbundnar eða lögmæltar.
     Hjón geta átt eign í sameign. Enn fremur getur hvort þeirra fyrir sig átt persónubundin réttindi.

A. Hjúskapareign.


54. gr.


    Eign maka verður hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars. Á þetta við um eignir sem maki flytur í búið við hjúskaparstofnun eða öðlast síðar og gegnir einu með hverjum hætti eignar er aflað að lögum.

B. Séreign.


55. gr.


    Séreign getur myndast með kaupmála hjóna eða hjónaefna, sbr. 74., 75. og 76. gr., eða fyrir ákvörðun gefanda eða arfleiðanda, sbr. 77. gr. Þá getur séreign verið lögmælt, sbr. 94. gr., svo og ákvæði annarra laga þar um.

C. Sameign.


56. gr.


    Eignarhlutdeild maka í verðmæti, sem er sameign þeirra, er hjúskapareign eða séreign eftir því hver skipan er á fjármálum þeirra.

D. Persónubundin réttindi.


57. gr.


    Reglurnar um hjúskapareignir eiga við um réttindi sem eigi má afhenda eða eru að öðru leyti persónulegs eðlis, að svo miklu leyti sem þær koma ekki í bága við sérreglur þær sem um þau réttindi gilda, enda séu þessi réttindi ekki séreign samkvæmt lögum þessum eða öðrum lagaákvæðum. Um fjárskipti varðandi þessi réttindi segir í 102. gr.

IX. KAFLI


Forræði maka á eign sinni.


A. Almenn ákvæði.


1. Ráðstöfunarréttur.


58. gr.


    Maki hefur ráðstöfunarrétt yfir eign sinni og getur gert samninga við aðra um hana nema sérstakar réttarreglur leiði til annars.

2. Ótilhlýðileg meðferð á eignum.


59. gr.


    Hvoru hjóna um sig er skylt að fara svo með hjúskapareign sína, þar á meðal eign sem er sameign hjónanna að hún skerðist ekki vegna ótilhlýðilegrar háttsemi þess.

B. Takmarkanir á forræði maka yfir eign sinni.


1. Samþykki til ráðstöfunar fasteignar.


60. gr.


    Öðru hjóna er óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda eða veðsetja fasteign sína, þar á meðal sumarbústað, leigja hana eða byggja, ef hún er ætluð til bústaðar fyrir fjölskylduna eða er notuð við atvinnurekstur beggja hjóna eða hins. Sama gegnir um uppsögn leigusamnings um húsnæði sem ætlað er til bústaðar fyrir fjölskylduna eða til nota við atvinnurekstur beggja eða annars, svo og framleigu slíks húsnæðis.
     Ákvæði 1. mgr. gilda um afhendingu á hlutabréfum, öðrum eignarskilríkjum eða réttindum sem tengjast þess konar húsnæði.

2. Samþykki til ráðstöfunar á innbúi eða lausafé.


61. gr.


    Öðru hjóna er óheimilt án skriflegs samþykkis hins að afhenda, veðsetja eða leigja innbú á sameiginlegu heimili þeirra eða annað lausafé sem ætlað er til persónulegra nota fyrir hinn makann eða börn þeirra eða fyrir sameiginlegan atvinnurekstur þeirra.

3. Nánar um samþykki skv. 60. og 61. gr.


62. gr.


     Ákvæði 60. og 61. gr. eiga við hvort sem eign er hjúskapareign eða séreign annars hjóna.
    Ákvæði 60. og 61. gr. gilda einnig um sameignir hjóna, svo og þótt samningur lúti aðeins að hluta af eign maka.
     Ákvæði 60. og 61. gr. gilda einnig þótt hjón hafi slitið samvistir, svo og eftir skilnað að borði og sæng eða lögskilnað, uns úr því er skorið hvort hjóna fái verðmæti í sinn hlut.
     Nú er sá maki, sem samþykkja á löggerning, sviptur lögræði, sjálfræði eða fjárræði og þarf þá samþykki lögráðamanns.

63. gr.


    Nú synjar maki eða lögráðamaður hans um samþykki til löggernings skv. 60. og 61. gr. eða eigi er unnt án verulegs dráttar að afla samþykkis þeirra og getur hinn makinn eða viðsemjandi hans þá krafist þess að sýslumaður samþykki hann. Getur hann veitt samþykki sitt ef hann telur rök mæla með því.

4. Þinglýsing löggerninga skv. 60. gr.


64. gr.


    Nú er óskað þinglýsingar á löggerningum er greinir í 60. gr. og skal skjalið þá geyma yfirlýsingu um hvort sá er skjal stafar frá sé í hjúskap og hvort eign sé bústaður fjölskyldu hans eða notuð við atvinnurekstur hjóna eða sé ætluð til þess.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur sett nánari reglur um könnun þeirra efna er í 1. mgr. greinir.

5. Ógilding samninga er ganga í berhögg við 60.–62. gr.


65. gr.


    Nú hefur annað hjóna gert samning án samþykkis hins þar sem þessa var þörf og getur hitt þá fengið samningnum hrundið með dómi. Þetta á þó ekki við um samninga skv. 61. gr. ef viðsemjandi sýnir fram á að honum hafi hvorki verið ljóst né átt að vera ljóst þegar samningurinn var gerður að makanum væri samningsgerðin óheimil.
     Dómsmál skal höfða innan sex mánaða frá því að það hjóna, sem samþykkja skyldi löggerninginn, fékk vitneskju um hann og í síðasta lagi innan árs frá því að honum var þinglýst eða lausafé afhent.

6. Gjöf til þriðja manns.


66. gr.


    Nú hefur maki gefið þriðja manni gjöf úr hjúskapareign sinni sem er úr hófi miðað við efnahag hjóna og telst ekki eðlileg eða sanngjörn eins og á stendur. Getur þá hitt hjóna eða erfingjar þess krafist þess að gjöfinni verði hrundið, enda hafi gjafþega verið ljóst eða mátt vera ljóst að gefanda væri gerningurinn óheimill.
     Dómsmál skv. 1. mgr. skal höfða innan árs frá því að hinum makanum eða erfingjum þess maka varð kunnugt um gjöfina og í síðasta lagi innan þriggja ára frá afhendingu gjafar.

X. KAFLI


Skuldaábyrgð hjóna.


Heimild annars hjóna til að skuldbinda hitt.


67. gr.


    Hvort hjóna ber ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíla hvort sem þær hafa stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar.

68. gr.


    Annað hjóna getur ekki skuldbundið hitt með samningsgerð sinni nema sérstaklega sé heimilað í lögum eða samningi hjóna.

69. gr.


    Meðan sambúðin varir er hvoru hjóna heimilt gagnvart þriðja manni að gera á ábyrgð beggja samninga sem venjulegir eru vegna sameiginlegs heimilishalds, svo og vegna þarfa barna og sérþarfa þess maka er stendur að samningi. Þetta gildir einnig um leigu húsnæðis sem ætlað er til sameiginlegs heimilis hjónanna. Slíkir samningar teljast gerðir á ábyrgð beggja hjóna nema atvik segi öðruvísi til.
     Ef viðsemjandi sá eða átti að sjá að samningurinn lá utan heimildar maka til samningsgerðar eins og á stóð verður það hjóna, sem eigi samdi, óbundið við samninginn.

70. gr.


    Nú getur annað hjóna, meðan sambúðin varir, eigi gætt fjármálefna sinna vegna fjarveru eða veikinda og er hinu þá heimilt, ef þörf krefur vegna framfærslu fjölskyldunnar, að gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir hönd maka síns svo að skuldbindi hann, þar á meðal að innheimta laun hans eða tekjur af eignum, taka út bankainnstæður hans eða taka við greiðslum úr hendi annarra og kvitta fyrir þær, enda hafi öðrum eigi verið falin þessi umsýsla.
     Samningur skuldbindur ekki makann ef viðsemjanda var ljóst eða átti að vera ljóst að eigi var þörf á samningsgerðinni eins og á stóð.

XI. KAFLI


Samningar milli hjóna o.fl.


Reglur um séreignir.


A. Almennt ákvæði.


71. gr.


    Hjón geta gert samninga sín á milli með þeim takmörkunum sem lög mæla fyrir um.
     Um samninga milli hjóna varðandi framfærslu eru fyrirmæli í VII. kafla og um fjárskipti í XIII. og XIV. kafla.

B. Gjafir milli hjónaefna og hjóna.


1. Nauðsyn kaupmála.


72. gr.


    Gjafir milli hjónaefna sem gjafþegi á að fá við hjúskaparstofnun og gjafir milli hjóna eru því aðeins gildar að um þær sé gerður kaupmáli.
     Þetta á þó ekki við um venjulegar gjafir sem eigi eru úr hófi miðað við efnahag gefanda og eigi heldur gjafir sem fólgnar eru í líftryggingu, lífrentu, lífeyri eða þess konar framfærslutryggingum af hendi annars hjóna til hagsbóta hinu.
     Með kaupmála, eða annars konar löggerningi, er eigi hægt að ákveða svo að gilt sé að það sem annað hjóna kann að eignast framvegis verði endurgjaldslaust eign hins. Þetta á þó ekki við um venjulegt innbú á sameiginlegu heimili hjóna.

2. Aðgangur kröfuhafa að gjöfum milli hjóna.


73. gr.


    Nú hefur annað hjóna gefið hinu verðmæti og getur sá er þá átti kröfu á hendur gefanda, sem hann fær ekki fullnustu fyrir, gengið að gjöfinni eða verðmæti hennar nema það sannist að gefandi hafi ótvírætt verið gjaldfær þrátt fyrir gjafagerninginn. Ef endurgjald hefur að einhverju leyti komið fyrir dregst það frá því verðmæti sem unnt er að ganga að. Ef bú þess hjóna, sem gefið hefur hinu verðmæti, er tekið til gjaldþrotaskipta gildir ákvæðið eingöngu að svo miklu leyti sem búið krefst ekki riftunar á gjöf eða afsali.
     Ákvæði 1. mgr. á ekki við um gjafir skv. 2. mgr. 72. gr.

C. Séreignir.


1. Séreignir samkvæmt kaupmála.


74. gr.


    Hjón eða hjónaefni geta ákveðið í kaupmála að tiltekin verðmæti skuli verða séreign annars þeirra. Séreign kemur eigi til skipta við skilnað milli hjóna eða milli annars þeirra og erfingja hins nema sérstakar heimildir leiði til annars.
     Séreignarákvæði er hægt að tímabinda, svo og skilyrða með þeim hætti að kaupmáli gildi ekki ef hjón eignast sameiginlegan skylduerfingja.
     Hjón geta enn fremur ákveðið í kaupmála að eign skuli vera séreign meðan bæði eru á lífi, en hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hvoru látnu, ótilgreint eða einskorðað við að annað þeirra, sem nafngreint er, látist.

75. gr.


    Verðmæti, sem koma í stað séreignar, verða einnig séreign, svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda.

76. gr.


    Ákvæðum kaupmála um séreignir er hægt að breyta eða fella þau niður með nýjum kaupmála.

2. Séreignir samkvæmt ákvörðun gefenda eða arfleiðenda.


77. gr.


    Gefandi eða arfleiðandi getur ákveðið að gjöf eða arfur, þar á meðal skylduarfur, skuli vera séreign í hjúskap gjafþega eða erfingja með því efni er greinir í 74. gr. Ákvæði 75. gr. á hér við að sínu leyti. Ákvarðanir um arf skulu vera í erfðaskrá.
     Hjón geta ekki breytt þessum ákvörðunum gefanda og arfleiðanda nema slíkt sé heimilað í gjafagerningi eða erfðaskrá eða leiði ótvírætt af þeim gerningum.

D. Afhending á tekjuafgangi.


78. gr.


    Annað hjóna getur án kaupmála afhent hinu endurgjaldslaust allt að helmingi af tekjuafgangi sínum umliðið almanaksár, enda sé það gert fyrir lok næsta árs eftir að tekna var aflað. Afsalið skal vera skriflegt og undirritað af viðkomandi maka í viðurvist tveggja votta svo að gilt verði gagnvart skuldheimtumönnum hans. Í skjalinu skal greina fjárhæð tekjuafgangsins. Enginn vafi má leika á um að það hjóna, er afhendir hinu verðmæti samkvæmt þessu, haldi eftir nægilegum efnum til greiðslu skuldbindinga sinna.

E. Réttur þess hjóna, sem veitir hinu aðstoð við atvinnurekstur þess,


til borgunar fyrir vinnu sína.


79. gr.


    Það hjóna, sem veitir hinu aðstoð við atvinnurekstur þess, getur krafist hæfilegrar borgunar fyrir vinnu sína þótt ekki hafi verið svo um samið ef það eftir öllum atvikum þykir sanngjarnt að svo sé gert. Krafa fyrnist á einu ári.

XII. KAFLI


Kaupmálar.


A. Form kaupmála.


80. gr.


    Kaupmáli skal vera skriflegur. Undirritun hjóna eða hjónaefna skal staðfest af lögbókanda, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni eða fulltrúa þeirra eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og rita nöfn sín og kennitölur á kaupmálann. Í vottorði þeirra skal koma fram að skjalið, sem vottað er, sé kaupmáli. Vottarnir skulu vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum.

B. Hæfi aðila.


81. gr.


    Nú er annað hjóna eða hjónaefna ólögráða og skal lögráðamaður þá einnig samþykkja kaupmálann skriflega.

C. Skráning kaupmála.


82. gr.


    Kaupmáli er ekki gildur milli hjóna og gagnvart þriðja manni nema hann sé skráður samkvæmt þeim reglum sem í lögum þessum greinir.

83. gr.


    Kaupmála skal skrá í kaupmálabók sem sýslumenn halda.
     Kaupmála, sem hjónaefni gera, skal skrá í lögsagnarumdæmi þar sem þau eiga lögheimili eða ætla sér að búa. Kaupmála hjóna skal skrá þar í umdæmi sem þau eiga lögheimili. Ef þau eiga ekki lögheimili hér á landi skal skrá kaupmálann í Reykjavík.
     Ekki þarf að skrá kaupmála að nýju þótt hjónin flytjist í annað lögsagnarumdæmi.

84. gr.


    Kaupmála skal afhenda í tvíriti, frumriti og samriti eða endurriti og fer um gerð skjals og efni samkvæmt því er segir í 5. og 6. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, eftir því sem við getur átt.
     Kaupmáli, sem afhentur er til skráningar, skal færður í dagbók að undangenginni könnun skjals, sbr. 6. gr. þinglýsingalaga. Að lokinni færslu í dagbók skal árita skjal og endurrit þess eða samrit og greina viðtökudag þess.

85. gr.


    Skjal skal fært í kaupmálabók þegar sýslumaður hefur gengið úr skugga um að það sé skráningartækt. Eiga hér við ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 39/1978 eftir því sem við á. Greiða skal úr því jafnfljótt og föng eru á hvort skjal verði skráð eða því vísað frá skráningu.
     Þegar kaupmáli hefur verið skráður í kaupmálabók skal rita á hann vottorð um innritunina og viðtökudag. Skjal verður ekki afhent þeim er óskar skráningar fyrr en að þessu loknu.
     Gildi skráningar telst frá viðtökudegi samkvæmt því er í dagbók greinir.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið getur sett nánari reglur um skráningu kaupmála með reglugerð.

86. gr.


    Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu skal haldin allsherjarskrá um kaupmála sem skráðir hafa verið. Sýslumanni ber, þegar eftir að kaupmáli hefur verið skráður, að senda ráðuneytinu tilkynningu um kaupmálann þar sem greina skal nöfn aðila, kennitölur þeirra og heimili og enn fremur viðtökudag kaupmála.
     Í lok hvers mánaðar skal auglýsa í Lögbirtingablaði það sem þann mánuð hefur verið tekið á kaupmálaskrá ráðuneytisins.

87. gr.


    Nú varðar kaupmáli fasteign, skip, 5 smálestir eða stærra, eða skráð loftfar og skal sýslumaður þá auk skráningar í kaupmálabók skrá kaupmálann í veðmálaskrá viðkomandi eignar, enda sé eignin skráð í umdæmi hans.
     Nú varðar kaupmálinn eign sem skráð er í öðru umdæmi og skal þá jafnframt þinglýsa kaupmálanum í því umdæmi.

D. Breyting og afturköllun á kaupmála.


88. gr.


    Við breytingu eða afturköllun á kaupmála skal gæta sömu reglna og að framan greinir.

89. gr.


    Þegar hjúskap er lokið getur hvor maki um sig krafist þess að kaupmáli verði afskráður í kaupmálabók. Hinu sama gegnir um erfingja maka. Krafa er þó ekki tæk fyrr en fjárskiptum er lokið.

E. Upplýsingar um efni kaupmála.


90. gr.


    Hver, sem þess óskar, á rétt á upplýsingum úr kaupmálabók um tilvist kaupmála og efni hans.

XIII. KAFLI


Um fjárskipti milli hjóna án skilnaðar.


91. gr.


    Hvort hjóna um sig getur krafist opinberra skipta vegna fjárslita milli sín og maka síns þótt hjúskapnum hafi ekki verið slitið:
    Ef hitt rýrir hjúskapareign sína með vangæslu á fjármálum sínum, misbeitingu á ráðum yfir hjúskapareign sinni eða annarri óhæfilegri háttsemi eða gefur sérstakt tilefni til að óttast að svo verði.
    Ef bú hins er tekið til gjaldþrotaskipta.
     Hjón geta að auki krafist slíkra skipta ef þau eru sammála um það.

92. gr.


    Krafa skv. 91. gr. skal vera skrifleg og skal beina henni til héraðsdómstóls í því umdæmi þar sem hjón eiga eða áttu síðast sameiginlegt lögheimili nema þau semji um annað. Um meðferð kröfu og framkvæmd opinberra skipta fer samkvæmt ákvæðum XIV. kafla laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.

93. gr.


    Nú er krafa skv. 91. gr. tekin til greina og skiptast þá eigur milli hjóna eftir efnisreglum um skipti við skilnað.

94. gr.


    Það sem öðru hjóna hlotnast eftir það tímamark er greinir í 1. mgr. 101. gr. og það fær við skiptin verður séreign þess.

XIV. KAFLI


Um fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita o.fl.


A. Um skiptahátt o.fl.


1. Fjárskiptasamningur.


95. gr.


    Hjón geta ráðið fjárskiptum sínum vegna skilnaðar til lykta með samningi. Fjárskiptasamningur skal vera skriflegur og undirritaður af hjónum eða umboðsmönnum þeirra. Samning þennan skal staðfesta fyrir sýslumanni eða dómara. Nú eru hjón eignalaus og skal þá yfirlýsing þeirra þar að lútandi staðfest af þeim eða umboðsmönnum þeirra fyrir sýslumanni eða dómara eftir því hvar skilnaðarmálið er til meðferðar.
     Nú hafa hjón vegna væntanlegs skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar gert samning um fjárskipti sín og er þá unnt að fella hann úr gildi að nokkru eða öllu með dómi ef hann var bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma er til hans var stofnað. Dómsmál skal höfða innan árs frá fullnaðardómi til skilnaðar eða frá útgáfu leyfisbréfs til skilnaðar. Tímafrestir þessir eiga þó ekki við ef freistað er að hnekkja samningi með stoð í reglum um fjármunaréttarsamninga.

2. Opinber fjárskipti.


96. gr.


    Hafi annað hjóna eða þau bæði sótt um leyfi til skilnaðar eða dómsmál verið höfðað til skilnaðar eða til ógildingar hjúskaparins getur annað þeirra eða þau bæði krafist þess að opinber fjárskipti fari fram milli þeirra samkvæmt ákvæðum þessa kafla og lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991.
     Efnisreglur um skipti í þessum kafla eiga einnig við um skipti vegna andláts maka nema annað leiði af einstökum ákvæðum.

97. gr.


    Krafa um opinber skipti við skilnað skal vera skrifleg og skal beina henni til héraðsdómstóls er greinir í 92. gr. og fer um meðferð kröfu og framkvæmd opinberra skipta samkvæmt því er þar segir.

98. gr.


    Við opinber skipti er hjónum skylt að skýra frá eignum sínum og skuldum og veita þeim sem annast skipti allar upplýsingar um fjármál sín sem þýðingu geta haft við skiptin.

B. Til hverra eigna og skulda skiptin taki.


1. Eignir.


99. gr.


     Skiptin taka til heildareigna hvors hjóna nema samningar um séreignir, reglur um lögmæltar séreignir eða fyrirmæli gefanda eða arfleiðanda leiði til annars, sbr. enn fremur reglur þessa kafla um verðmæti sem undanþegin eru skiptum eða geta verið það að kröfu aðila. Séreign ber þó að draga undir skiptin að svo miklu leyti sem þörf er á til að fullnægja endurgjaldskröfum, sbr. 3. mgr. 107. gr.

2. Skuldir.


100. gr.


    Frá eignum maka skulu dregnar skuldir sem hvíla á honum eða hann á að svara til samkvæmt því er segir í 109. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 104. gr. sömu laga.

3. Tímamark við úrlausn um eignir og skuldir.


101. gr.


    Við úrlausn um eignir og skuldir skv. 99. og 100. gr. skal, nema sammæli verði um annað, miða við það tímamark er sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar, dómsmál var höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar eða héraðsdómari tók fyrst fyrir kröfu um opinber fjárskipti milli hjóna skv. XIII. kafla. Eignir, sem maki hefur aflað sér eftir þetta tímamark og tekjur og arður af þeim, koma ekki undir skiptin. Skuldir, er maki hefur bakað sér eftir þennan tíma, koma ekki heldur til greina við skiptin.
     Nú stafar skuld, sem fyrr er til orðin en segir í 1. mgr., frá öflun verðmæta sem eigi koma undir skiptin eða af kostnaði vegna þeirra og kemur hún þá ekki til frádráttar við fjárskiptin.

4. Verðmæti sem geta fallið utan skipta.


102. gr.


    Maki getur krafist þess að eftirfarandi verðmæti og munir komi ekki undir skiptin hvort sem um er að ræða hjúskapareign hans sjálfs eða hins hjónanna:
    Munir sem eru því nauðsynlegir til að halda áfram atvinnu eða menntun sinni eða hefur eingöngu eða aðallega verið aflað til afnota þess nema verðgildi munanna sé slíkt að það verði talið ósanngjarnt gagnvart hinu hjónanna. Sama gegnir um muni sem hafa minjagildi fyrir annan maka eða fjölskyldu hans.
    Réttindi í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, svo og krafa til lífeyris eða líftryggingarfjár sem hefur ekki endurkaupsvirði samkvæmt kröfu annars makans eða þeirra sameiginlega.
    Önnur verðmæti eða réttindi sem ekki er hægt að afhenda eða eru persónulegs eðlis.
    Fébætur, almannatryggingabætur eða vátryggingarfé vegna líkams- eða heilsutjóns er leitt hefur til skerðingar á starfsorku til frambúðar eða vegna útgjalda sem tjónið veldur fyrirsjáanlega í framtíðinni. Sama er um bætur vegna þjáninga og annars ófjárhagslegs tjóns.
        Forsendan er þó ávallt sú að þessi verðmæti eða ígildi þeirra séu enn við lýði á því tímamarki er greinir í 1. mgr. 101. gr. og verði sérgreind. Nú stafar það af framlögum hins makans að fé þetta eða ígildi þess er enn fyrir hendi og ber þá að kröfu þess maka að lækka þá fjárhæð sem haldið er utan skipta með hliðsjón af þessu, svo sem sanngjarnt þykir.
    Munir sem aflað er vegna þarfa barna. Sá maki, sem barn býr hjá, á tilkall til þess að munir þessir komi ekki undir skiptin.
     Það hjóna, sem fær verðmæti eða muni utan skipta með þessum hætti, tekur að sér skuldir sem orðið hafa til vegna öflunar þeirra eða hvíla á þeim. Nú þykir ósanngjarnt gagnvart hinum makanum að verðmætum eða réttindum skv. 2., 3. eða 4. tölul. sé haldið utan skipta og er þá heimilt að bæta honum það með fjárgreiðslum sem eftir atvikum má inna af hendi með nánar greindum afborgunum.

C. Helmingaskiptareglan og frávik frá henni.


103. gr.


    Hvor maki um sig eða dánarbú hans eiga tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga.

104. gr.


     Víkja má frá reglum um helmingaskipti og ákvæðum um skipti á séreign ef skipti yrðu
að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Á þetta einkum við þegar tekið er tillit til fjárhags hjónanna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað hjóna hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum.
     Frávik frá helmingaskiptum geta enn fremur átt sér stað þegar annað hjóna hefur með vinnu, framlögum til framfærslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hefur átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti.
     Fráviki frá helmingaskiptum samkvæmt þessari grein er einnig hægt að beita til hagsbóta fyrir erfingja maka ef hagir þeirra mæla sérstaklega með því, að öðrum skilyrðum fullnægðum.

105. gr.


    Nú getur maki ekki innan marka hlutdeildar sinnar í samanlögðum eignum fengið búsgögn og annað lausafé sem er nauðsynlegt til að halda uppi heimili. Er þá heimilt samkvæmt kröfu hans að kveða svo á að hlutdeild hans skuli aukast enda séu ekki horfur á að hann geti á annan hátt aflað sér þessara nauðsynja.
    Réttur skv. 1. mgr. víkur þó fyrir rétti hins makans til að fá verðmæti í sinn hlut til greiðslu skuldbindinga sem á honum hvíla og til greina geta komið við skiptin.

D. Úthlutun til greiðslu skuldbindinga.


106. gr.


    Við skiptin skal hvoru hjóna úthlutað svo miklu af hjúskapareign sinni að það nægi til greiðslu skuldbindinga sem á því hvíldu á þeim tíma sem hér ber við að miða, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga þessara, svo og 109. gr. skiptalaga nr. 20/1991, þar á meðal til greiðslu á hluta hvors um sig í sameiginlegum skuldum ef því er að skipta, sbr. þó ákvæði 2. mgr. 101. gr.
     Skuldir, sem annað hjóna hefur bakað sér með vanhirðu á fjármálum sínum eða með annarri óhæfilegri aðferð, koma því aðeins til frádráttar skv. 1. mgr. að önnur efni maka hrökkvi ekki til greiðslu þeirra.

E. Endurgjaldskröfur.


107. gr.


    Nú hefur maki notað eigur sínar, er koma skyldu til skipta, til þess að auka verðmæti er ekki eiga að hlíta skiptum samkvæmt samningi makanna, ákvörðun gefanda eða arfleiðanda eða samkvæmt lagaákvæðum eða til að afla sér réttinda sem hafa verið þegin undan skiptum skv. 1. og 3. tölul. 102. gr. og getur hinn makinn eða dánarbú hans þá krafist endurgjalds af þessu tilefni. Sama gegnir um réttindi skv. 2. tölul. 102. gr. ef útgjöld til þessa fara út yfir eðlileg og sanngjörn mörk.
     Nú hefur annað hjóna rýrt hjúskapareign sína eða sameign hjóna með því að misbeita ráðum yfir hjúskapareigninni eða með öðru óhæfilegu atferli og slíkt hefur leitt til verulegrar skerðingar á fjárhlut þeim sem hitt hjóna á tilkall til og getur þá hitt hjóna eða dánarbú þess krafist endurgjalds af hjúskapareign beggja þegar skipti fara fram.
     Krafa skv. 1. og 2. mgr. verður því aðeins tekin til greina að eigur makans, sem krafan beinist gegn, nægi fyrir skuldum sem á honum hvíla. Krefjast má greiðslu úr séreign makans ef hjúskapareign hans hrekkur ekki til.
     Endurgjaldskrafa, sem ekki er hægt að jafna við skiptin, verður ekki síðar uppi höfð.
     Nú er fallist á endurgjaldskröfu samkvæmt þessari grein og er þá hægt að ákveða að fjárhæð verði greidd með nánar greindum afborgunum.

F. Um útlagningu.


108. gr.


    Við opinber skipti vegna fjárslita getur hvort hjóna um sig krafist þess að fá eignarhluta sinn útlagðan sér eftir virðingu.
     Nú krefjast hjón þess að fá sama hlutinn og gengur þá það þeirra fyrir sem á hlut að hjúskapareign. Annað hjóna getur þó krafist útlagningar á eign sem hitt á að hjúskapareign í eftirfarandi tilvikum enda megi ætla að það hafi meiri þörf fyrir eignina:
    Ef um er að ræða fasteign sem ætluð er til íbúðar fyrir það hjóna og börn þess.
    Sama á við um sumarbústað ef telja verður mikilvægara fyrir það að fá hann í sinn hlut, einkum með tilliti til barna hjóna.
    Þegar um er að ræða atvinnufyrirtæki sem það hjóna hefur eingöngu eða aðallega rekið.
    Sama á við um vinnutæki og annað lausafé sem stendur í tengslum við atvinnu ef sanngirni mælir með því með tilliti til áframhaldandi atvinnu viðkomandi.
    Þegar krafa maka beinist að húsgögnum, búsgögnum eða öðru lausafé sem hefur verið á sameiginlegu heimili hjónanna enda mæli sanngirni með því og það stuðli að því að honum sé unnt að halda uppi heimili.
     Um útlagningu að öðru leyti fer samkvæmt ákvæðum skiptalaga.

109. gr.


    Heimilt er að úthluta öðru hjóna verðmæti eftir virðingu þótt það fari fram úr eignarhluta þess enda megi ætla að það hafi meiri þörf fyrir verðmætið en hitt hjóna, sbr. ákvæði 108. gr. Þeim er útlagningu fær ber þá að greiða hinu eða erfingjum þess fjárhæð sem fram yfir er rétta tiltölu. Skiptastjóri getur ákveðið þegar sérstaklega stendur á, einkum með hliðsjón af fjárhagsstöðu þess sem útlagningu fær, að fjárhæð þessi sé greidd með afborgunum um tiltekinn tíma gegn tryggingum sem hann mælir fyrir um og með þeim vaxtakjörum sem hann tiltekur. Um ágreining um þetta fer samkvæmt því er segir í 112. gr. laga nr. 20/1991.

G. Heimild maka til að gefa eftir af tilkalli sínu til eigna.


110. gr.


    Maka er heimilt við fjárskipti að gefa eftir af tilkalli sínu til eigna, enda sé eigi ástæða til að óttast að hann geti ekki fullnægt fjárskuldbindingum sem á honum hvíldu þá.

H. Brottfall skilnaðar að borði og sæng.


111. gr.


    Nú takast samvistir hjóna að nýju eftir að skilnaður að borði og sæng, er leitt hefur til fjárskipta, er fenginn. Eiga þá ákvæði 1. mgr. 104. gr. við um eigur sem komið hafa í hlut maka við skiptin og hann hefur flutt að nýju í hjúskapinn komi til fjárskipta síðar milli hjónanna eða annars þeirra og erfingja hins.

I. Leiguréttindi.


112. gr.


    Nú greinir hjón á við skilnað hvort þeirra skuli halda rétti til leigu íbúðarhúsnæðis og skal þá sýslumaður eða dómari, eftir því hvar skilnaðarmál er til meðferðar, ákveða eftir öllum aðstæðum hvort þeirra haldi áfram leigumálanum og skal einkum taka tillit til þarfa hjóna og barna þeirra.
     Fari fram opinber skipti milli hjónanna tekur skiptastjóri ákvörðun um hvort hjóna haldi áfram leigumála eftir sömu reglum og kveðið er á um í 1. mgr.

XV. KAFLI


Um réttarfar í hjúskaparmálum o.fl.


A. Hvaða mál teljist hjúskaparmál.


113. gr.


    Hjúskaparmál samkvæmt þessum kafla eru eftirfarandi dómsmál:
    Mál sem höfðuð eru til ógildingar hjúskapar.
    Mál sem höfðuð eru til hjónaskilnaðar.
    Mál til úrlausnar um hvort hjúskapur sé gildur eða ekki gildur.
    Mál til úrlausnar um hvort réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng séu fallin niður.


B. Lögsaga.


114. gr.


    Hjúskaparmál má höfða hér á landi í eftirfarandi tilvikum:
    Ef stefndi er búsettur hér á landi.
    Ef stefnandi er hér búsettur og hefur verið það sl. tvö ár eða búið hér áður svo langan tíma.
    Ef stefnandi er íslenskur ríkisborgari og leitt er í ljós að hann geti ekki vegna ríkisfangs síns höfðað mál í því landi sem hann er búsettur í.
    Ef bæði eru íslenskir ríkisborgarar og stefndi lýsir eigi andstöðu sinni gegn því að málið sæti úrlausn dómstóls hér á landi.
    Ef lögskilnaðar er krafist á grundvelli undanfarandi skilnaðar að borði og sæng enda hafi leyfi verið veitt eða dómur gengið hér á landi.
     Mál til ógildingar hjúskapar má höfða hér á landi ef hjónavígslan hefur farið fram hér.
     Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þó ganga framar ákvæðum þessarar greinar.

C. Varnarþing.


115. gr.


    Mál skal höfða á heimilisvarnarþingi stefnda. Ef stefndi á ekki heimilisvarnarþing hér á landi skal mál höfða þar sem stefnandi á heimilisvarnarþing. Aðilar geta samið um annað varnarþing en að framan greinir.
     Nú er eigi til að dreifa varnarþingi skv. 1. mgr. og skal þá höfða mál fyrir dómstóli er dóms- og kirkjumálaráðuneytið kveður á um.

D. Aðild.


116. gr.


    Annað hjóna og það eitt getur höfðað hjúskaparmál.
     Mál til ógildingar á hjúskap skv. 9. og 11. gr. má þó höfða af dóms- og kirkjumálaráðuneyti eða öðru hvoru hjóna. Ef ógilding er reist á ákvæði 11. gr. er málshöfðun einnig heimil því hjóna úr eldra hjúskap sem tvíkvænishjúskapur gengur í berhögg við.

E. Málsmeðferð.


117. gr.


    Hjúskaparmál sæta meðferð einkamála nema um frávik sé mælt í lögum.
     Ef hvorki er vitað um heimilisfang né dvalarstað stefnda er dómara heimilt að skipa honum málsvara. Sama á við þegar stefndi er búsettur eða dvelst erlendis og ekki tekst að birta honum stefnu eða hvorki hann né umboðsmaður hans sækir þing við þingfestingu máls og sérstakar ástæður mæla að öðru leyti með því að honum verði skipaður málsvari. Málsvari skal hafa samráð við umbjóðanda sinn ef unnt er. Dómari ákveður þóknun til málsvara sem greiðist úr ríkissjóði. Dómari getur kveðið á um að stefndi skuli endurgreiða ríkissjóði kostnað vegna málsvara að öllu eða nokkru leyti ef rök mæla með því.
     Dómari gætir óhjákvæmilegra lagaskilyrða við úrlausn hjúskaparmáls.
     Hjúskap verður ekki slitið með dómsátt.

118. gr.


    Dómþing í hjúskaparmálum skulu háð fyrir luktum dyrum nema dómari kveði öðruvísi á með samþykki málsaðila.

F. Nafnleynd o.fl.


119. gr.


    Eigi má án leyfis dómara birta almenningi á nokkurn hátt annað af því sem gerst hefur í hjúskaparmáli en dóminn. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum.
     Nú er dómur í slíku máli birtur, þar á meðal að tilstuðlan dómsins, og skal þá gæta leyndar á nöfnum og upplýsingum sem bent geti til þess hverjir séu aðilar máls.

G. Andlát aðila.


120. gr.


    Hjúskaparmál verður eigi höfðað eftir dauða annars hjóna.
     Nú deyr annað hjóna áður en dómur gengur í hjúskaparmáli og fellur þá málið niður. Á þetta einnig við ef máli er áfrýjað.

H. Frávísun og niðurfelling máls.


121. gr.


    Nú er máli vísað frá dómi eða það fellt niður án kröfu sækjanda og getur sækjandi þá höfðað mál að nýju innan mánaðar þó að lögmæltur málshöfðunarfrestur sé þá liðinn.

I. Áfrýjun og endurupptaka máls.


122. gr.


    Heimilt er að áfrýja einstökum þáttum dóms.
     Hvorugur málsaðili má ganga í nýtt hjónaband innan loka áfrýjunarfrests nema því aðeins að gagnaðili og dóms- og kirkjumálaráðuneyti, þegar það á aðild máls, hafi bréflega fallið frá áfrýjun.
     Endurupptaka máls er ekki heimil eftir lok áfrýjunarfrests.

XVI. KAFLI


Um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögum þessum.


A. Lögsaga.


123. gr.


    Stjórnvöld geta leyst úr málum er tengjast öðrum ríkjum í eftirfarandi tilvikum:
    Ef sá sem krafa beinist gegn er búsettur hér á landi.
    Ef aðilar eru íslenskir ríkisborgarar og sá sem krafa beinist gegn samþykkir að málið sæti úrlausn hér á landi.
    Ef lögskilnaðar er krafist á grundvelli undanfarandi skilnaðar að borði og sæng, enda hafi leyfi til skilnaðar að borði og sæng verið veitt hér á landi.
     Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þó ganga framar ákvæðum 1. mgr.

B. Úrlausnarumdæmi.


124. gr.


    Leysa skal úr máli í því umdæmi þar sem sá sem krafa beinist gegn er búsettur. Ef hann er ekki búsettur hér á landi skal leysa úr máli í því umdæmi þar sem krefjandi er búsettur. Hjón geta samið um annað úrlausnarumdæmi.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákvarðar úrlausnarumdæmi ef hvorki sá sem krafa beinist gegn né krefjandi eru búsettir hér á landi eða ef annars leikur vafi á því hvar leysa skuli úr máli samkvæmt framangreindu.

C. Leiðbeiningarskylda.


125. gr.


    Sýslumaður skal leiðbeina aðilum um réttindi þeirra og skyldur er málið varðar.

D. Sáttaumleitan.


126. gr.


    Sýslumaður leitar sátta með aðilum áður en hann leysir úr ágreiningsmáli.
     Ef aðilar máls búa eða dvelja hvor í sínu umdæmi má leita sátta þar sem hvor aðila býr eða dvelst.

E. Kröfur aðila og gagnaöflun.


127. gr.


    Aðilum máls ber að setja fram skýrar kröfur fyrir stjórnvaldi og afla þeirra gagna sem stjórnvald telur þörf á til úrlausnar máls. Enn fremur getur stjórnvald aflað gagna að eigin frumkvæði ef þörf krefur.
     Ef sá sem kröfu gerði sinnir eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um framlagningu gagna er stjórnvaldi heimilt að synja um úrlausn.
     Nú sinnir gagnaðili máls eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um gagnaöflun og má þá veita úrlausn á grundvelli þeirra krafna og gagna sem fyrir liggja.

F. Réttur aðila til að kynna sér gögn máls.


128. gr.


    Aðilum máls er heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem málið varðar. Réttur þessi nær ekki til vinnuskjala sem rituð hafa verið hjá stjórnvaldi til eigin afnota í sambandi við meðferð málsins.

G. Réttur aðila til að tjá sig um mál.


129. gr.


    Aðilar skulu eiga þess kost að tjá sig um mál áður en ákvörðun er tekin og getur stjórnvald sett þeim ákveðinn frest til þess.

H. Form og efni úrskurðar.


130. gr.


    Úrskurður stjórnvalds skal vera skriflegur. Þar skal greina úrlausnarefni, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, þar á meðal lagaatriði er niðurstaða byggist á og önnur atriði er máli skipta, þar á meðal kæruheimild og þvingunarúrræði ef því er að skipta.

I. Tilkynning um úrskurð.


131. gr.


    Úrskurð stjórnvalds skal senda aðilum máls með ábyrgðarbréfi, hann birtur af einum stefnuvotti eða kynntur með öðrum sannanlegum hætti.

J. Stjórnsýslukæra.


132. gr.


    Kæra má úrlausn sýslumanns til dóms- og kirkjumálaráðuneytis innan tveggja mánaða frá dagsetningu hennar.
     Sýslumaður getur ákveðið í úrskurði að kæra fresti réttaráhrifum hans.
     Málsaðilum, sem fengið hafa leyfi til lögskilnaðar, er ekki heimilt að ganga í hjúskap að nýju fyrr en eftir lok kærufrests nema þeir hafi fallið bréflega frá kæru.

XVII. KAFLI


Gildistaka, lagaskil og brottfallin lög.


133. gr.


    Lög þessi taka gildi 1. júlí 1993.
     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið setur reglugerð og önnur fyrirmæli um einstök atriði er varða framkvæmd laganna.
     Ráðuneytið skal gera sérstakar ráðstafanir til að kynna almenningi efni laga þessara.

134. gr.


    Ákvæði 2. mgr. 25. gr. gilda einnig um hjónabönd sem til er stofnað fyrir gildistöku laga þessara.

135. gr.


    Nú var sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað fyrir gildistöku laga þessara og skal þá fara um þá kröfu eftir eldri lögum. Ef bæði hjón óska þess er þó unnt að beita reglum þessara laga.
     Um dómsmál til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar, sem höfðuð hafa verið fyrir gildistöku þessara laga, fer eftir eldri lögum nema bæði hjón óski þess að reglum þessara laga verði beitt, sbr. 2. málsl. 1. mgr.
     Nú sætir hjúskapur ógildingu eftir gildistöku þessara laga og fer þá um réttaráhrif þeirrar ógildingar eftir ákvæðum þessara laga. Sama er um réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar.

136. gr.


    Nú var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng í gildistíð eldri laga og fer þá um lögskilnað á grundvelli þess leyfis eftir eldri lögum, sbr. þó 41. gr.

137. gr.


    Breyting á úrskurði um framfærslueyri, sem gengið hefur fyrir gildistöku þessara laga, hlítir ákvæðum þeirra.
     Sama á við um breytingu á samningum um framfærslueyri.

138. gr.


    Ákvæði XX. kafla skiptalaga nr. 20/1991 gilda um opinber fjárskipti milli hjóna sem ólokið er við gildistöku laga þessara.

139. gr.


    Ákvæðum 12. gr. laga nr. 20/1923 skal beita um samninga sem gerðir eru fyrir gildistöku laga þessara.
    Ákvæðum 20. og 21. gr. laga nr. 20/1923 skal beita um samninga sem gerðir eru fyrir gildistöku laga þessara, þar á meðal um samþykki maka.
    Ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 20/1923 skal beita um tekjur af séreign sem myndast hafa fyrir gildistöku laganna.
    Ákvæðum 26. og 27. gr. laga nr. 20/1923 skal beita um samninga og skuldbindingar sem stofnast hafa fyrir gildistöku laga þessara.
    Gildi kaupmála, sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna, skal meta samkvæmt ákvæðum V. kafla laga nr. 20/1923, ásamt breytingalögum. Um réttaráhrif kaupmála fer samkvæmt ákvæðum laga þessara.

140. gr.


    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um stofnun og slit hjúskapar, nr. 60/1972, og lög nr. 17/1973, 64/1979, 132/1989 og 39/1992 er breyta þeim lögum, sbr. enn fremur lög nr. 25/1961. Þá falla úr gildi I.–VII. og IX.–XI. kafli laga um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923, svo og lög nr. 10/1962 er breyta þeim lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sifjalaganefnd samdi frumvarp það sem hér er flutt. Í henni eiga nú sæti dr. Ármann Snævarr, fyrrverandi hæstaréttardómari, Baldur Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, Drífa Pálsdóttir deildarstjóri og Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari. Auður Auðuns, fyrrverandi dómsmálaráðherra, átti sæti í nefndinni uns hún lét af störfum að eigin ósk. Tók hún þátt í mótun frumvarpsins á fyrstu stigum þess.
     Ritari nefndarinnar er Anna Guðrún Björnsdóttir deildarstjóri.
     Sifjalaganefnd er ein af fastanefndum dómsmálaráðuneytisins. Nefndin hefur það hlutverk að fylgjast með nýjungum í sifjalöggjöf, endurskoða sifjalöggjöfina og taka þátt í norrænu samstarfi á þessum lagavettvangi.
     Eftir að sifjalaganefnd lauk frumgerð að frumvarpi til hjúskaparlaga ásamt yfirlitsgreinargerð voru gögn þessi send ellefu aðilum til umsagnar. Bárust umsagnir frá fimm: biskupi Íslands, Jafnréttisráði, Lögmannafélagi Íslands, Prestafélagi Íslands og Sýslumannafélagi Íslands. Þá hafa réttarfars- og skiptaákvæði frumvarpsins verið kynnt fulltrúum réttarfarsnefndar sem settu fram ýmsar ábendingar. Enn fremur hefur verið haft samráð við ýmsa embættismenn og lögmenn sem hafa mikla reynslu á því lagasviði sem frumvarpið tekur til, þar á meðal um ákvæði frumvarpsins um kaupmála og fjárskipti. Hafa margar ábendingar verið teknar til greina við endanlega mótun frumvarpsins og greinargerðar með því.

I.


Yfirlit yfir gildandi hjúskaparrétt.


    
Allt frá þriðja áratug þessarar aldar hafa gilt hér á landi mismunandi lög um tvo meginþætti hjúskaparréttarins. Annars vegar eru lög nr. 39/1921, um stofnun og slit hjúskapar, er lög nr. 60/1972 leystu af hólmi. Hins vegar eru lög nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna. Þau fjalla um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna að einkarétti og um framfærsluskyldu gagnvart fjölskyldunni og um eignamynstrið í hjúskapnum. Enn fremur um skuldaábyrgð hjóna og fjárhagslega stöðu þeirra og um fjárslit, einkum við lok hjúskapar. Með lögum nr. 10/1962 var 29. gr. laga nr. 20/1923 breytt og lögfest ný gerð kaupmála þess efnis að um séreign geti farið sem um hjúskapareign eftir lát annars hjóna, þar á meðal að eignin geti gengið inn í óskipt bú eða komið til skipta samkvæmt helmingaskiptareglu ef maki situr ekki í óskiptu búi. Með erfðalögum, nr. 8/1962, voru reglurnar í VIII. kafla laga nr. 20/1923 fluttar í erfðalög, II. kafla, og sættu þá gagngerðri endurskoðun efnislega.
     Lög nr. 60/1972 hafa ekki tekið miklum breytingum. Aldursmark í 2. gr. var lækkað úr 20 árum í 18 ár með lögum nr. 64/1979 og 1. mgr. 44. gr. varðandi sættir í skilnaðarmálum var breytt með lögum nr. 132/1989.
     Í skiptalögum nr. 20/1991 er fjallað m.a. um opinber skipti vegna fjárslita milli hjóna. Sifjalaganefnd telur að efnisreglur um skipti þessi eigi að vera í hjúskaparlögum. Vegna hinna nýju laga varð nefndin að breyta upphaflegu frumvarpi sínu og hefur verið leitast við að samræma efni frumvarpsins skiptalögunum. Þetta verður nánar rætt í athugasemdum við XIV. kafla frumvarpsins.

II.


Almennar athugasemdir varðandi endurskoðun laga


nr. 20/1923 og laga nr. 60/1972.


    
Sifjalaganefnd leggur til með frumvarpi þessu að þessir tveir lagabálkar verið felld-
ir í einn. Með því móti fæst gleggri yfirsýn yfir löggjöf á þessu sviði og frá lagatæknilegu sjónarmiði er ýmislegt unnið við þetta, t.d. er óheppilegt að ákvæði um fjárskipti vegna skilnaða séu sumpart í lögum nr. 60/1972, VI. kafla, og sumpart og raunar þó aðallega í lögum nr. 20/1923, VII. kafla. Þá hefur nefndin í tillögum sínum leitast við að samræma efni þessara tveggja lagabálka.
     Nefndin hefur reynt að kanna framkvæmd þessara laga hér á landi og taka á þeim atriðum sem reynslan bendir til að breyta þurfi eða setja fyllri ákvæði um, þar á meðal í því skyni að samræma lagaframkvæmd.
     Til grundvallar frumvarpinu í heild sinni liggja enn fremur niðurstöður í norrænu löggjafarsamstarfi sem nánar verður gerð grein fyrir hér síðar og svo norrænu lögin sem sett hafa verið síðustu árin.
     Í norræna samstarfinu hafa menn verið á einu máli um að hrófla ekki við meginþáttunum í norrænu lögunum bæði um stofnun og slit hjúskapar og um fjármál hjóna. Lögð hefur verið áhersla á það grunnsjónarmið sem setur mjög mark sitt á norrænan sifjarétt að hjúskapur sé frjálst samkomulag karls og konu um þetta mikilvæga lífssamband. Eigi því annars vegar að greiða fyrir því að menn geti stofnað til hjúskapar með því að fella úr gildi ýmsa hjónavígslutálma og hins vegar að veita hjónum kost á að slíta hjúskap sínum ef samkomulag stendur til þess eða annað telur sig ekki geta haldið áfram sambúð. Þau lagasjónarmið hljóta að leiða til einföldunar bæði á hjónavígslu- og skilnaðarskilyrðum. Eftir sem áður er talið rétt að sporna við hjúskaparslitum sem ráðin eru í bráðræði og að viðhafa sáttastarfsemi, einkum með þeim hætti að þjóðfélagið veiti mönnum kost á að njóta sáttatilraunar. Þegar ósjálfráða börnum er til að dreifa sem hjón hafa forsjá fyrir þykir tillitið til barna leiða til þess að mæla fyrir um skyldubundnar sættir, sbr. 42. gr. frumvarpsins og norsku hjúskaparlögin frá 1991.
     Um fjármál hjóna hefur verið byggt á eignamynstri norrænu laganna. Það einkennist m.a. af rúmri heimild hvors maka um sig til forræðis á hjúskapareign sinni. Enn fremur á skiptri skuldaábyrgð og helmingaskiptareglunni ef hjúskap lýkur eða fjárslit verða ella. Þróun síðustu ára felur hins vegar í sér að þörf er talin á auknum heimildum til að víkja frá helmingaskiptareglunni ef hún leiðir til ósanngjarnra málaloka, auk þess sem rök þykja standa til þess að halda ýmsum verðmætum utan skipta í rýmra mæli en hingað til hefur verið heimilt. Framfærslureglur eru ekki mikið breyttar en heimild til að ákveða maka lífeyri eftir lögskilnað hefur víða verið þrengd, með hliðsjón af því grunnsjónarmiði að hjúskapur eigi ekki að vera framfærslustofnun út yfir endimörk sín.
     Í hjúskaparlöggjöf norrænu þjóðanna hafa verið reglur um alþjóðlegan einkamálarétt á þessu sviði. Slík ákvæði eru fá í íslenskum hjúskaparlögum. Er vafalaust þörf á lögskráningu reglna hér á landi og felur frumvarpið í sér fyllri reglur um þetta efni en lög nr. 60/1972, sbr. 114. og 123. gr. þess. Bent er á að í gildi eru samningar milli Norðurlandanna um þessi efni, sbr. lög nr. 29/1931, 62/1954, 98/1969 og 95/1973.
     Sérstök athygli er vakin á því að þar sem greinir í frumvarpinu að sýslumaður leysi úr ágreiningsmáli eða komi með öðrum hætti að afgreiðslu máls samkvæmt frumvarpinu er einnig átt við löglærða fulltrúa sýslumanns þótt þess sé ekki sérstaklega getið.
     Óvígð sambúð, sem svo er nefnd, hefur farið í vöxt síðustu áratugi. Stefnumið síðustu ára hefur ótvírætt verið í þá átt að leggja sambúð án vígslu í auknum mæli til jafns við hjúskap í einstökum lagasamböndum, einkum ef aðilar eiga barn saman. Skyldur hafa þó ekki verið tengdar óvígðri sambúð með hliðstæðum hætti og við hjúskap. Sem dæmi má nefna skattalöggjöf, samábyrgð á opinberum gjöldum, framfærsluskyldur og atriði eins og að heimild til setu í óskiptu búi fellur niður ef langlífari maki gengur í hjúskap, en ekki ef hann stofnar til óvígðrar sambúðar. Hitt er það að sambúðarfólk nýtur ekki ýmissa réttinda, svo sem erfðaréttar og hlutdeildar eftir helmingaskiptareglu við fjárskipti. Vissulega kemur til greina að lögfesta grundvallarreglur um ýmis atriði varðandi óvígða sambúð. Sifjalaganefnd hefur þó ekki talið rétt að leggja til að reglur um óvígða sambúð verði hluti hjúskaparlöggjafarinnar og er það í samræmi við niðurstöður í norræna löggjafarsamstarfinu.

III.


Norrænt samstarf um endurskoðun hjúskaparlaga.


    
Norrænt samstarf á þessu sviði hefur staðið um alllanga hríð. Endurskoðunarstarf það,
sem liggur til grundvallar frumvarpi þessu, hófst raunar á sjötta áratugnum. Í upphafi var einkum fengist við löggjöf um stofnun og slit hjúskapar. Leiddi það samstarf til breyttrar löggjafar um það efni hvarvetna á Norðurlöndum, sbr. hér á landi lög nr. 60/1972. Svíar settu lög um þetta lagasvið árið 1973 og tóku þeir nokkuð aðra stefnu en hinar þjóðirnar, einkum að því er varðar hjónaskilnaði. Eftir það hefur samstarfið verið mestmegnis bundið við löggjöf um réttindi og skyldur hjóna, einkum um fjármál og framfærslu. Þá hafa nefndirnar rætt allmikið hugmyndir að reglum um óvígða sambúð og hafa Svíar sett löggjöf um nokkra þætti þess máls.
     Norræna samstarfið um hjúskaparlöggjöf hefur verið mjög gagnlegt. Um tíma voru horfur á að í einstökum atriðum yrði talsvert mikill munur á fyrirhugaðri löggjöf. Eftir víðtækar umræður og athuganir á nýjum grundvelli varðandi löggjöf um fjármál hjóna, einkum með hliðsjón af nýlegri hjúskaparlöggjöf víða um lönd urðu samstarfsnefndirnar sammála um að rétt væri að byggja norræna löggjöf um það efni á sömu meginstoðum og nú er. Sú löggjöf markast af jafnrétti karls og konu í hjúskap, jafnstöðu þeirra og samstöðu sem foreldra að því er varðar forsjá barna og forsjárskyldur og um framfærslu. Enn fremur er byggt á efnahagslegu sjálfstæði hjóna, sbr. varðandi forræði eigna og skuldaábyrgð og samningsfrelsi þeirra, m.a. sín á milli, og enn á sameiginlegri ábyrgð þeirra á heimili og fjölskyldu, sbr. framfærslureglur.
     Að því er varðar stofnun og slit hjúskapar er ætlandi að löggjöf á Norðurlöndum verði mjög lík. Er það vissulega af margvíslegum ástæðum keppikefli. Þetta á nær óskorað við um reglur um stofnun hjúskapar. Um lok hjúskapar verða reglurnar hins vegar nokkuð breytilegar þótt fremur sé í orði en á borði. Reglur um ógildingu hjúskapar hafa verið afnumdar með nýjum lögum í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, en þær eru óbreyttar í dönsku hjúskaparlögunum og er gert ráð fyrir því í fumvarpi þessu að svo verði einnig hér á landi.
     Um skilnaði er þess að geta að Finnar og Svíar hafa horfið frá skilnaði að borði og sæng í hefðbundnum skilningi þess hugtaks. Í löggjöf þeirra er lögfest ein skilnaðargerð, lögskilnaður, og þó með tvenns konar tilbrigðum, þ.e. 1) lögskilnaður með reynslutíma í sex mánuði eða eitt ár eftir að leyfi er veitt til skilnaðar og svo 2) lögskilnaður umsvifalaust án slíks reynslutíma. Í reyndinni verður ekki mikill munur á þessum reglum og hinum eldri, sbr. þó að hjón geta haldið áfram samvistum þótt leyfi til skilnaðar með reynslutíma sé veitt, en samkvæmt dönsku, norsku og íslensku reglunum valda samvistir því yfirleitt að leyfi til skilnaðar að borði og sæng fellur niður, sbr. 35. gr. þessa frumvarps þar sem þó er lagt til að frjálslegri regla í þessu efni verði lögfest en er nú, sbr. 33. gr. laga nr. 60/1972.
     Þegar til loka hjúskapar kemur er almennt byggt á helmingaskiptareglunni, en samningsfrelsið milli hjóna leiðir til þess að þau geta skipað málum sínum annan veg að vissu marki, þ.e. með kaupmála. Fráviksreglur frá helmingaskiptum hafa svo verið lögmæltar í nokkrum mæli. Efnislega er svigrúmið til að víkja frá helmingaskiptareglunni svipað. Leiðirnar að því sameiginlega marki að skapa sveigjanlegt fyrirkomulag, sem veiti kost á að taka tillit til sanngirni og haga aðila við úrlausn hvers einstaks máls, eru þó mismunandi að nokkru. Hér er þess m.a. að geta að í Danmörku, Noregi og hér á landi (breytist 1. júlí 1992) starfa sérstakir dómstólar, skiptaréttir, sem fjalla um fjárskiptin ef óskað er, en slíkum dómstólum er ekki til að dreifa í Finnlandi og Svíþjóð. Vegna þessa mismunar er nokkuð erfitt að samræma norræna löggjöf um þetta efni. Frá sjónarmiði norræns lagasamstarfs og þeirra veigamiklu stefnumiða, sem búa þar að baki, má vel una við þær niðurstöður er samstarfsnefndirnar hafa komist að. Löggjafarþingin norrænu hafa tekið tillögum nefndanna vel og er mikilvægt að samræmi verði hér í sem ríkustum mæli.
     Sænsk heildarlöggjöf um hjúskap var lögfest 1987 og norsk vorið 1991 og veigamiklar breytingar voru gerðar á finnsku hjúskaparlöggjöfinni 1987 og hinni dönsku 1989. Mikil gróska hefur verið hin síðari ár í nýmælum á sviði hjúskaparréttar á Norðurlöndum. Á þetta einnig við um önnur Evrópulönd sem mörg hver hafa gerbreytt löggjöf sinni síðustu árin. Er hér um straumhvörf að ræða í þróun sifjalaga þótt það verði ekki rakið hér.

IV.


Helstu nýmæli frumvarpsins og yfirlit yfir efni þess.


I. KAFLI


Efnissvið laganna og almenn ákvæði.


    Þessi ákvæði sníða frumvarpinu efnisstakk og gegna almennu leiðsöguhlutverki. Benda má sérstaklega á jafnréttisákvæði 2. gr. og ákvæði 3. gr. um verkaskiptingu innan fjölskyldu og skyldu maka til að veita hinum upplýsingar um efnahag sinn.
     Í kaflanum eru ákvæði hliðstæð 1. og 2. gr. laga nr. 20/1923.

II. KAFLI

Hjónavígsluskilyrði.

    Kaflinn er hliðstæður I. kafla laga nr. 60/1972, en til muna styttri svo að ekki sé vitnað til enn eldri laga. Vakin er athygli á eftirfarandi atriðum:

A. Undanþága frá aldursskilyrði.

    Lagt er til að afnuminn verði áskilnaður um samþykki foreldra (lögráðamanns) sem skilyrði fyrir því að aldursleyfi verði veitt, sbr. 7. gr. frumvarpsins, enda fágætt að foreldrar taki af skarið í því efni. Aldursleyfi eru nú mjög fátíð.

B. Hjónavígsla geðveikra manna og þroskaheftra, sbr. 5. gr. laga nr. 60/1972.

     Lagt er til að þessi hjúskapartálmi verði felldur niður svo sem gert hefur verið í nýjustu norrænu hjúskaparlögunum. Mikilvægt er að andlega fatlaðir menn njóti þeirra mannréttinda að geta stofnað til fjölskyldubanda.

C. Undanþægt bann við hjúskap tengdra manna, sbr. 8. gr. laga nr. 60/1972.

     Lagt er til í frumvarpinu að bann gegn vígslu tengdra manna verði fellt með öllu niður og því 8. gr. í heild sinni. Þykir réttmætt að fylgja hér fordæmi norrænu laganna, enda er bann þetta ófullkomið úrræði til að ná því takmarki sem að baki ákvæðinu býr.

D. Skiptaskilyrði 10. gr. laga nr. 60/1972.

     Í norræna sifjalagasamstarfinu naut sú skoðun byrjar að afnema bæri lagaákvæði er vörðuðu skipti sem vígsluskilyrði. Varhugavert hefur þó þótt að afnema það hér á landi og vísast til athugasemda við 12. gr. frumvarpsins.

E. Hjúskapur hálfsystkina.

     Sænsku lögin frá 1987 heimila að leyfa hjúskap milli þessara aðila. Dönsku lögin frá
1989 halda hins vegar óbreyttu hjúskaparbanni þegar svo stendur á. Norsku lögin nýju heimila að staðfesta megi hjúskap milli hálfsystkina ef þeim hefur verið ókunnugt um frændsemi er hjónavígsla fór fram. Slík tilvik eru vafalaust fágæt hérlendis í þessu fámennisþjóðfélagi. Þykir ekki ástæða til að setja ákvæði um þetta í frumvarpið.

III. KAFLI


Könnun á hjónavígsluskilyrðum.


    Kaflinn er hliðstæður II. kafla laga nr. 60/1972, en hefur að geyma nokkuð fyllri reglur um þetta efni en hann þótt hann feli ekki í sér umtalsverðar breytingar á núgildandi reglum sem þykja hafa gefið góða raun.

IV. KAFLI


Hjónavígsla.


    Þessi kafli er hliðstæður III. kafla laga nr. 60/1972.

A. Vígsluheimild presta, sbr. 17. gr.

    Í 17. gr. segir að þeir prestar þjóðkirkjunnar, sem greinir í lögum nr. 62/1990 um starfsmenn þjóðkirkjunnar o.fl., séu löggildir hjónavígslumenn, en dóms- og kirkjumálaráðuneytið skuli að fengnum tillögum biskups ákveða hvort aðrir prestvígðir menn, sem starfa innan þjóðkirkjunnar, hafi heimild til hjónavígslu. Er örðugt að setja ákvæði er taki yfir alla þá starfsmenn sem hér geta komið til greina, t.d. presta sem ráðnir eru til þjónustu af stofnunum eða félagssamtökum. Þykir því heppilegt að láta það velta á ákvörðun ráðuneytis á grundvelli tillagna biskups hvernig ráða skuli því máli til lykta.
     Í 3. mgr. 17. gr. er kveðið á um vígsluheimild þjóðkirkjupresta sem látið hafa af embætti. Mælt er fyrir um að þeir skuli hafa samþykki prests sem hjónavígsluheimild hafi og að sá prestur kanni hjónavígsluskilyrði og takist á hendur ábyrgð á færslu hjónavígslu í kirkjubók og skýrsluskilum í því sambandi. Þessi tilhögun þykir tryggilegri en núgildandi skipan, en með þessu er vígsluheimild presta þessara ekki skert verulega.

B. Borgaralegir vígslumenn, sbr. 18. gr.

     Til samræmis við lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989,
hafa verið gerðar breytingar á ákvæðum um borgaralega vígslumenn. Lagt er til að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra framkvæmi borgaralega hjónavígslu.

C. Tengsl vígslumanns við hjónaefni, sbr. 21. gr.

     Vakin er athygli á nýmæli í 21. gr. um að skyldleiki eða vensl vígslumanns við hjónaefni valdi ekki vanhæfi til að kanna hjónavígsluskilyrði eða gefa saman hjón. Er það í samræmi við venjur sem rétt þykir að lögskrá, en þær reglur víkja frá reglum stjórnarfarsréttar um sérstakt hæfi stjórnvalda.

D. Staðfesting á hjónavígslu sem eigi er gild, sbr. 25. gr.

     Í niðurlagi 25. gr. frumvarpsins er nýmæli þess efnis að staðfesta megi hjónavígslu sem eigi hefur verið gild þótt annað hjóna eða bæði séu látin. Getur það skipt sköpum um skipti milli þeirra.

V. KAFLI


Ógilding hjúskapar.


    Hann er hliðstæður IV. kafla laga nr. 60/1972.
    Ógilding hjúskapar er næsta fágæt hvarvetna á Norðurlöndum. Í finnsku, sænsku og norsku hjúskaparlögunum er þetta úrræði fellt úr gildi. Í stað þess er þeim maka, sem misgert er við, heimilað að krefjast lögskilnaðar umsvifalaust. Gilda almennar lögskilnaðarreglur um málið, þar á meðal um fjárskipti. Heimildir til frávika frá helmingaskiptareglu þykja svo víðtækar að ekki sé þörf á sérreglu um fjárskiptin. Kunnugt er að Danir hafa ekki hugsað sér að afnema reglur um ógildingu hjúskapar, a.m.k. var það ekki gert með lagabreytingu 1989. Um rökstuðning vísast til umsagnar um V. kafla hér síðar.

VI. KAFLI


Hjónaskilnaðir.


    Hann er hliðstæður V. kafla laga nr. 60/1972.
     Reglur hafa verið gerðar einfaldari og hjónaskilnaðarástæðum hefur fækkað, sbr. að ákvæði 32., 36., 37., 41. og 42. gr. laga nr. 60/1972 eru ekki í frumvarpinu.

A. Skilnaður að borði og sæng, sbr. 33.–35. gr.

     Ákvæði frumvarpsins byggjast á því að skilnaði að borði og sæng sé haldið sem sérstakri skilnaðargerð og gegnir hinu sama í dönskum og norskum rétti. Finnsku og sænsku lögin nýju nota þetta hugtak hins vegar ekki. Er þar talað um skilnað með eða án umhugsunartíma sem oft er þá svipaður að tímalengd og við skilnað að borði og sæng í hinum löndunum. Sá grundvallarmunur er m.a. á að eftir finnskum og sænskum rétti er þess ekki krafist að hjónin rjúfi samvistir, en ella falli niður réttaráhrif skilnaðarins.
     Skilyrði til skilnaðar að borði og sæng skv. 33. og 34. gr. frumvarpsins eru óbrotnari en ákvæði 31. og 32. gr. laga nr. 60/1972.
     Nýmæli er í 35. gr. um áhrif þess að samvistir hjóna haldist eftir að skilnaður að borði og sæng er fenginn eða hjón taki aftur upp samvistir. Er þar dregið úr kröfunni um samvistaslit og verður þessi skilnaðargerð þá sveigjanlegri og sáttavænlegri.

B. Lögskilnaður, sbr. 36.–40. gr.

    Lágmarkstími, sem líða þarf, frá því að skilnaður að borði og sæng er veittur og til þess að lögskilnaður er kræfur á grundvelli hans er ávallt eitt ár skv. 34. gr. laga nr. 60/1972. Í 36. gr. frumvarpsins er lagt til að tíminn verði styttur í sex mánuði ef hjón eru á einu máli um að óska lögskilnaðar, en ella verði hann eitt ár. Þykir sex mánaða frestur fullnægjandi þegar samkomulag er milli hjóna um að leita lögskilnaðar.
    Í 37. gr. er frestur styttur úr þremur árum skv. 35. gr. laga nr. 60/1972 í tvö ár í samræmi við niðurstöður í norræna löggjafarsamstarfinu.
    Samkvæmt 39. gr. er hjúskaparbroti haldið sem lögskilnaðarástæðu andstætt því sem er í finnskum, norskum og sænskum rétti. Sú breyting er orðuð í 39. gr. að hjúskaparbrot, eftir að skilnaður að borði og sæng er fenginn, geti ekki verið grundvöllur að lögskilnaði. Samkvæmt lögum nr. 60/1972 helst trúnaðarskylda einnig á þessu tímabili.
    Orðalagi 40. gr. frumvarpsins um ofbeldisverk annars maka gagnvart hinu eða börnum er breytt nokkuð.

C. Úrlausn um kröfu til skilnaðar, sbr. 41. gr.

     Ákvæðum þar að lútandi hefur verið breytt til samræmis við ákvæði laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989. Ef hjón eru sammála um að leita skilnaðar að borði og sæng leysir sýslumaður eða löglærður fulltrúi hans úr kröfu og veitir leyfi, sbr. 1. mgr. 41. gr. frumvarpsins. Sama á við ef hjón leita sameiginlega lögskilnaðar eftir lok sex mánaða frests skv. 1. mgr. 36. gr. Í öðrum tilvikum er hægt að leita skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það, en ella hjá dómstólum. Dómsmálaráðuneytið er eingöngu málskotsstig í þessu sambandi. Er það grundvallarbreyting frá lögum nr. 60/1972.

D. Sáttaumleitan, sbr. 42. gr.

     Samkvæmt 44. gr. laga nr. 60/1972, sbr. lög nr. 132/1989, eru sættir vegna skilnaða
skyldubundnar. Skulu þær hafa farið fram á síðustu sex mánuðum áður en skilnaðar er leitað. Á Norðurlöndum hefur ákvæðum um sættir verið breytt svo að hjónum er ekki skylt að leita sátta, en hins vegar veittur kostur á sáttum, t.d. í sérstökum stofnunum um fjölskylduráðgjöf. Hér á landi eru mjög skiptar skoðanir um gildi sátta í þessu sambandi. Sifjalaganefnd hefur á grundvelli kannana sinna og athugana á gildi sátta komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu rök til að halda í það fyrirkomulag að sáttir séu skyldubundnar nema þegar hjón hafa forsjá fyrir ósjálfráða börnum. Þessa millileið hafa Norðmenn einnig valið. Sifjalaganefnd leggur áherslu á að hjón eigi samt sem áður ávallt kost á sáttameðferð og er ákvæði 42. gr. orðað með það stefnumið í huga. Í lok greinarinnar eru fyrirmæli um að unnt sé að kveða svo á að sættir í stofnun um fjölskylduráðgjöf geti komið í stað sátta af hendi annarra þeirra sáttasemjara sem greindir eru í ákvæðinu, þ.e. prests og forstöðumanns safnaða og sýslumanns eða dómara. Eiga hjón því nokkurra kosta völ um sáttasemjara samkvæmt ákvæðinu. Hér er sérstök ástæða til að benda á fjölskylduráðgjöf þjóðkirkjunnar. Í þessu sambandi skal vakin athygli á 59. og 68. gr. frumvarps til barnalaga og V. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga.
     Samkvæmt 42. gr. er eigi skylt að viðhafa sáttatilraun ef hjón óska bæði eftir lögskilnaði á grundvelli skilnaðar að borði og sæng og er það nýmæli.

E. Umleitun um skilnaðarkjör, sbr. 43. gr.

     Ákvæðin um þetta efni eru að mestu óbreytt frá því sem er í 45. gr. laga nr. 60/1972. Þó segir í frumvarpinu að umleitunar sé ekki þörf ef óskað er lögskilnaðar á grundvelli skilnaðar að borði og sæng, sbr. 36. gr., með óbreyttum skilnaðarskilmálum. Er þetta í samræmi við 42. gr. frumvarpsins.

F. Um gildi skilnaðarkjara vegna skilnaðar að borði og sæng, sbr. 45. gr.

     Samkvæmt henni skulu sömu skilnaðarskilmálar gilda við lögskilnað og við skilnað
að borði og sæng nema annars hafi verið getið þegar skilnaður að borði og sæng var veittur.
     Ákvæði um skipan forsjár barna og umgengnisrétt þykja eiga betur heima í barnalögum en hjúskaparlögum. Er þeim skipað í frumvarpi til barnalaga sem flutt var á Alþingi haustið 1991.

VII. KAFLI


Ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar.


    Kaflinn er hliðstæður 3.–11. gr. laga nr. 20/1923 og 49.–52. gr. og að nokkru 54. og 60. gr. laga nr. 60/1972. Í kaflanum eru felld saman ákvæði um framfærsluskyldu hjóna bæði meðan á hjúskap stendur, sbr. A, og um lífeyri með maka eftir skilnað, sbr. B. Ekki kveður mikið að nýmælum í kaflanum, en ákvæðin eru einfaldari í sniðum en hliðstæð ákvæði laga nr. 60/1972 og 20/1923.

VIII. KAFLI

Eignir hjóna.

Yfirlit yfir eignadeildir í hjúskap.

    Hliðstæð ákvæði er að finna í III. kafla laga nr. 20/1923. Ákvæðum kaflans, sem fela í sér nokkur nýmæli, er fyrst og fremst ætlað það hlutverk að veita yfirlit yfir eignadeildir í hjúskap og hafa leiðsögugildi.
     Í 53. gr. er eignamynstri í hjúskap lýst samfellt og til leiðsögu, þ.e. greindar eru þær eignadeildir sem til greina geta komið. Þetta er nýmæli.
     Í 54. gr. er hugtakið hjúskapareign skilgreint. Horfið er frá hugtakinu hjúskaparrétti, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1923, enda hefur það ekki verulegt sjálfstætt gildi.
     Í 55. gr. er það einnig greint til yfirlits hvernig séreign geti myndast, en hliðstætt ákvæði er ekki í lögum nr. 20/1923.
     Í 56. gr. er vikið að því að sameign geti myndast í hjúskap, sbr. og 53. gr., og kveðið er á um að eignarhlutdeild maka í sameign geti ýmist verið hjúskapareign eða séreign eftir því hver skipan er á fjármálum hjóna. Hér er lagt til að fræðiskýring verði lögfest og er greinin nýmæli að því er lögskráningu varðar.
     57. gr. samsvarar 2. mgr. 17. gr. laga nr. 20/1923 og felur ekki í sér nýmæli.

IX. KAFLI


Forræði maka á eign sinni.

A. Almenn ákvæði, sbr. 58.–59. gr.

     58. gr. samsvarar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1923. 59. gr. er hliðstæð 19. gr. laga nr.
20/1923 og felur fyrst og fremst í sér stefnumið og undirstöðu í regluheildinni um fjármál hjóna.

B. Takmarkanir á forræði maka yfir eign sinni.

1. 60. gr. um fasteignir.


    Hún samsvarar 20. gr. laga nr. 20/1923. Veitir 60. gr. fjölskyldu, er býr á fasteign, ríkari vernd gegn ráðstöfunum þess sem eignina á en 20. gr.
    60. gr. reisir skorður við ráðstöfun maka hvort sem fasteignin er hjúskapareign hans eða séreign, enda er verndarþörfin jafnrík í báðum tilvikum. Ætlunin er að bújarðir falli undir 60. gr., en hins vegar ekki óbyggðar lóðir, sbr. hér enn fremur skýringarákvæði 62. gr.
    Það er nýmæli að áskilið er að samþykki maka sé skriflegt svo sem það er tíðast í reynd.
    Þá er það nýmæli að kveðið er á um samþykki ef annar maki, sem er leigutaki íbúðar þar sem fjölskyldan býr, vill segja upp leigusamningi. Ákvæðið á einnig við um framleigu á slíku húsnæði eða hluta þess. Þetta ákvæði tekur einnig til leigusamninga um atvinnuhúsnæði annars hjóna eða beggja.
    Í 2. mgr. 60. gr. er mælt fyrir um samþykki ef maki vill afhenda hlutabréf eða önnur eignarskilríki sem tengjast slíku húsnæði. Ákvæðið er einskorðað við afhendingu og tekur ekki til veðsetningar á bréfum þessum.
     Verðmæti, er koma í stað fasteignar, t.d. eignarnámsbætur, lúta ekki reglu 60. gr.

2. 61. gr. um lausafé.

    Hún samsvarar 21. gr. laga nr. 20/1923.
     Nýmæli eru þessi:
    Ákvæðið á við þótt eign sé séreign þess er ráðstafa vill innbúi o.fl.
    Greinin áskilur að samþykki skuli vera skriflegt.
    Ákvæðið tekur til þess er leigja á verðmæti er fellur undir greinina.

3. 62. gr.

    1. mgr. er skýringarákvæði við 60. og 61. gr. og er hún nýmæli. Þar segir að greinar þessar eigi einnig við ef eign, sem er í sameign hjóna, er ráðstafað, þ.e. M ráðstafar hluta sínum í eign sem er sameign þeirra M og K. Vera má þó að sameignarreglur leiði til þess í einstaka tilviki að bæði hjónin þurfi beinlínis að standa að samningsgerðinni.
    Þá segir í 1. mgr., að ákvæðin eigi við ef aðeins hluta af eign sé ráðstafað eða hann bundinn öðrum kvöðum. Er einkum átt við fasteign. Hér er lögskráð ótvíræð fræðiskýring sem staðfest hefur verið af dómstólum. Ákvæðin gilda einnig ef hluti lóðar eða lands undir fasteign, sem fjölskyldan býr á, er seld eða bundin eignarkvöðum. Vísað er til skýringa fræðirita um það.
    2. mgr. 62. gr. er einnig nýmæli sem reist er á almennum lagarökum og stutt sanngirnisrökum.

4. 63. gr.

     Hún er hliðstæð 22. gr. laga nr. 20/1923. Það er nýmæli að viðsemjandi maka getur
skotið synjun um að veita samþykki til sýslumanns. Eru haldgóð rök fyrir því.

5. 64. gr.

    1. mgr. felur í sér nýmæli er varðar þinglýsingu á skjali um fasteign sem 60. gr. tekur til. Á skjal að geyma yfirlýsingu um hvort útgefandi sé í hjúskap og um það hvort fjölskyldan búi á eigninni. Er þetta hugsað sem öryggisákvæði.

6. Ógilding samninga er ganga í berhögg við 60.–62. gr., sbr. 65. gr.

    Í 65. gr. er það mikilvæga nýmæli að unnt sé að ógilda samning er 60. gr. tekur til vegna skorts á samþykki þótt viðsemjandi sé grandlaus um að þörf hafi verið á samþykki eins og á stóð. Í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 20/1923 er grandsemi hins vegar forsenda fyrir ógildingu samnings. Varðandi samninga skv. 61. gr. er regla 65. gr. frumvarpsins svipuð og í lögum nr. 20/1923.

7. Gjöf til þriðja manns, sbr. 66. gr.

    Greinin fjallar um riftun á gjöf maka til þriðja manns ef gjöf er úr hófi miðað við efnahag hjóna. Skilyrði riftunar er að viðtakandi sé grandsamur. Greinin er nýmæli.

X. KAFLI


Skuldaábyrgð hjóna.


Heimild annars hjóna til að skuldbinda hitt.

    Að nokkru hliðstæður IV. kafla laga nr. 20/1923. Hér er safnað saman í einn kafla dreifðum ákvæðum í lögum nr. 20/1923. Meginreglurnar eru óbreyttar. 67. gr. fer með grunnregluna, sbr. 25. gr. laga nr. 20/1923. 68. gr. áréttar hana og er hún nýmæli til frekari skýringar.
     69. gr. samsvarar 12. gr. laga nr. 20/1923. Lagt er til að afnumið verði sérákvæðið í 12. gr. um samninga vegna sérþarfa húsfreyju og jafnt látið yfir bæði hjón ganga hvað þetta varðar. Í greininni segir að heimild til samningsgerðar annars hjóna taki einnig til leigu húsnæðis vegna sameiginlegs heimilis hjóna, en hins vegar ekki atvinnuhúsnæðis.
     70. gr. er hliðstæð 14. gr. laga nr. 20/1923 en nokkru þrengri. Sérregla 26. gr. laga nr. 20/1923 um fyrningu á kröfu á hendur húsfreyju vegna samnings skv. 12. gr. þeirra laga er ekki í frumvarpinu. Hún samrýmist ekki jafnréttisviðhorfum nútímans.

XI. KAFLI


Samningar milli hjóna o.fl.


Reglur um séreignir.

     Í kaflanum er safnað ákvæðum um samninga hjóna í milli, þar á meðal um séreignir samkvæmt kaupmála. Samhengisins vegna eru hér raunar einnig reglur um aðrar séreignir, svo sem vegna fyrirmæla gefenda eða arfleiðenda. Þessi ákvæði eru á víð og dreif í lögum nr. 20/1923, sbr. m.a. ákvæði V. kafla þeirra, en heppilegra er til yfirlits að fella þau saman í einn kafla.
     Í þessum kafla eru ýmis nýmæli.

A. Almennt ákvæði, sbr. 71. gr.

     Þar segir almennt að hjón geti samið sín á milli með þeim takmörkunum sem lög mæla
fyrir um. Þetta er lögfesting á meginreglu sem nú gildir, en er nýmæli sem lögskráð regla.

B. Gjafir milli hjónaefna og hjóna, sbr. 72. og 73. gr.

     Í 3. mgr. 72. gr. er nýmæli er heimilar að gera kaupmála með því efni að venjulegt innbú á sameiginlegu heimili hjóna, sem aflað er eftir gerð kaupmála, verði séreign. Þetta er frávik frá þeirri meginreglu að ekki sé unnt að gera óöfluð verðmæti að séreign með kaupmála.

C. Séreignir, sbr. 74.–77. gr.

1. Séreignir samkvæmt kaupmála.

    Í 2. mgr. 74. gr. er lagt til að lögfest verði það nýmæli að unnt sé að tímabinda kaupmála, t.d. til 10 ára, og skilyrða þá með þeim hætti að kaupmáli gildi ekki ef hjón eignist sameiginlegan skylduerfingja.
     Í 3. mgr. 74. gr. eru nokkur nýmæli í sambandi við kaupmálagerð þá er greinir í lögum nr. 10/1962. Er lagt til að hægt sé að kveða svo á að um séreign samkvæmt kaupmála fari sem um hjúskapareign að öðru hvoru hjóna látnu.
     Í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 20/1923 segir að arður af séreign skuli teljast hjúskapareign nema öðruvísi sé löglega ákveðið. Alloft eru ákvæði í kaupmála, gjafagerningi eða erfðaskrá þar sem mælt er svo fyrir að arður af séreign verði einnig séreign. Í 75. gr. er lagt til að síðastgreind tilhögun verði lögfest sem aðalregla, þ.e. að arður (tekjur) af séreign verði einnig séreign nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda. Hliðstætt ákvæði er í sænsku lögunum nýju og hinum finnsku og norsku og verður væntanlega lögfest hvarvetna á Norðurlöndum.

2. Séreignir samkvæmt ákvörðun gefenda eða arfleiðenda.

    Í 77. gr., er samsvarar 2. tölul. 1. mgr. 23. gr. laga nr. 20/1923, er í fyrsta lagi það nýmæli að gefandi eða arfleiðandi geti mælt svo fyrir að gjöf eða arfur verði séreign með því efni er greinir í 74. gr., þar á meðal geti hann bundið séreignina við ævi annars eða tímabundið hana og skilyrt. Samkvæmt 75. gr. verður arður af slíkri séreign einnig séreign nema annars sé getið. Enn er það nýmæli í 2. mgr. 77. gr. að hjónum sé fyrirmunað að breyta ákvæðum gefanda eða arfleiðanda um séreign nema slíkt sé heimilað í gjafagerningi eða erfðaskrá eða leiði ótvírætt af þeim gerningum. Leysir þetta skýringarákvæði úr óvissu.

D. Aðrir samningar milli hjóna, sbr. 78. og 79. gr.

     Um aðra samninga hjóna eru ákvæði í 31.–35. gr. laga nr. 20/1923. Eru 31., 33. og
34. gr. teknar upp lítt breyttar í 73., 78. og 79. gr. frumvarpsins nema ákvæði 32. gr. sem ekki þótti ástæða til að hafa í frumvarpi þessu.

XII. KAFLI


Kaupmálar.


    Í þessum kafla er skipað samfellt ákvæðum um kaupmála, hæfi til kaupmálagerðar, form þeirra og reglum um skráningu. Ákvæði um þetta efni eru nokkuð dreifð í lögum nr. 20/1923, en er aðallega að finna í V. og IX. kafla þeirra.
    Í kaflanum eru ýmis nýmæli:
    Um form kaupmála er það nýmæli í 80. gr. að undirritun hjóna eða hjónaefna skuli staðfesta af lögbókanda eða lögmanni eða fulltrúa hans eða af tveimur vottum sem skulu vera samtímis viðstaddir og skal koma fram í vottorði þeirra að um kaupmála sé að ræða. Vottarnir eiga að vera lögráða og staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum.
     Í 82. gr. frumvarpsins er tekið fram að skráning kaupmála sé forsenda fyrir réttaráhrifum hans, bæði gagnvart þriðja manni og á milli hjóna.
     Reglur um skráningu kaupmála eru svipaðar núgildandi reglum, en þær eru m.a. færðar til samræmis við þinglýsingalög, nr. 39/1978. Vakin er athygli á 87. gr. er varðar þinglýsingu á ákvæði kaupmála um fasteign, skip stærra en 5 smálestir og skrásett loftför. Greinin er nýmæli sem lögskráð regla. Í 89. gr. er það nýmæli að hvort hjóna getur krafist þess að kaupmáli verði afskráður í kaupmálabók þegar hjúskap er lokið, en þó ekki fyrr en fjárskipti hafa farið fram. Erfingi getur einnig krafist þessa.

XIII. KAFLI


Um fjárskipti milli hjóna án skilnaðar.


    Í VI. kafla laga nr. 20/1923 eru ákvæði um skipti til fjárslita milli hjóna án þess að til skilnaðar komi. Þessum ákvæðum hefur ekki verið mikið beitt hér á landi. Í umræðum í norræna löggjafarsamstarfinu hafa skoðanir verið skiptar um hvort halda eigi þessum reglum. Sifjalaganefnd hefur hallast að því að svo verði, m.a. vegna þess að þær eru taldar hafa nokkurt varnaðargildi. Ákvæðin eru lítt breytt frá ákvæðum VI. kafla laga nr. 20/1923. Tengsl þessa kafla við ákvæði skiptalaga nr. 20/1991 hafa verið athuguð sérstaklega.

XIV. KAFLI


Um fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita o.fl.


    Efnisreglur um fjárskipti milli hjóna vegna hjúskaparslita eiga að mati sifjalaganefndar heima í hjúskaparlögum. Hefur það verið mótuð löggjafarstefna, sbr. VII. kafla laga nr. 20/1923 og VI. kafla laga nr. 60/1972. Skiptar skoðanir eru hins vegar um það hvort formreglum eða verklagsreglum um framkvæmd skipta eigi að öðru leyti að skipa í skiptalög eða hjúskaparlög og er það mál leyst með mismunandi hætti í norrænum lögum. Hér er þess að gæta að greinimark milli efnisreglna og formreglna er hvergi nærri hnitmiðað.
     Norræna löggjafarsamstarfið um endurskoðun hjúskaparlaga tók m.a. til skiptareglna, fyrst og fremst efnislegra skiptareglna. Var það haft í huga við samningu frumvarpsins að tekið væri tillit til þeirra meginniðurstaðna sem fengust í því samstarfi, svo og þeirra nýju norrænu laga sem sett hafa verið með hliðsjón af því. Þetta á t.d. við um það tímamark er miða skal eignir og skuldir hjóna við, sbr. 101. gr., um verðmæti sem maki getur krafist að haldið sé utan skipta, sbr. 102 gr., um frávik frá helmingaskiptareglu við slit hjúskapar, sbr. 104 gr., um endurgjaldskröfur, sbr. 107. gr., og um efnisviðmiðun varðandi útlagningu verðmæta, sbr. 108. og 109. gr. Einkum eru það norsku lögin sem höfð eru til fyrirmyndar við mótun ákvæðanna. Enn fremur var leitast við að kanna og færa sér í nyt reynslu af framkvæmd þessara mála hér á landi og naut sifjalaganefnd ráðgjafar reyndra skiptaráðenda við mótun ákvæðanna.
     Í skiptalögum nr. 20/1991 eru nokkur ákvæði er fela í sér efnislegar skiptareglur. Við samningu kaflans hefur verið tekið mið af þeim svo langt sem þau ná í þessu efni og leitast við að laga reglur frumvarpsins að þeim lögum. Hafa ákvæði kaflans verið stíluð með það í huga að tengja saman skiptalög og þá regluheild er XIV. kafli frumvarpsins geymir. Er þar mjög vísað til einstakra ákvæða skiptalaga nr. 20/1991.
    Hér á eftir verður athygli beint að fáeinum atriðum í XIV. kafla:
    Um greinimarkið, sem miða ber við eignir og skuldir, er nýmæli í 101. gr. Í frumvarpinu segir að leggja skuli til grundvallar það tímamark er héraðsdómari tók fyrst fyrir kröfu um opinber fjárskipti án hjúskaparslita eða sýslumaður umsókn um leyfi til skilnaðar eða dómsmál var höfðað til skilnaðar eða ógildingar hjúskapar. Ákvæðið er í samræmi við 1. mgr. 104. gr. skiptalaga.
    Í 102. gr. frumvarpsins segir um verðmæti sem maki getur krafist að komi ekki til skipta. Eru þær reglur að nokkru í samræmi við lagaframkvæmd, en jafnframt gætir þar nýmæla. Greinin er í samræmi við hliðstætt ákvæði í norskum lögum.
    Í 104. gr. er meginreglan um frávik frá helmingaskiptareglunni. Sú regla er nú í 57. gr. laga nr. 60/1972. Hún hefur þótt gegna góðu hlutverki, en þótt fela í sér of þrönga heimild til frávika. Í norræna löggjafarsamstarfinu var rætt rækilega um efni slíkrar reglu og er tekið tillit til þeirra umræðna við mótun 104. gr. og þá ekki síst höfð hliðsjón af dómum og annarri lagaframkvæmd varðandi 57. gr. laga nr. 60/1972 og reynslu sem af henni hefur fengist.
    Ákvæði 105. gr. fela í sér rýmri reglur en nú um að gerlegt sé að taka tillit til persónulegra þarfa við uppgjör bús.
    Ákvæði 107. gr. um endurgjaldskröfur er í stórum dráttum í samræmi við ákvæði laga nr. 20/1923, 51.–54. gr.
    Ákvæðin um útlagningu verðmæta veita aukið svigrúm til að taka tillit til sérþarfa maka og barna, sbr. 108. og 109. gr. Benda má sérstaklega á 1., 2. og 5. tölul. 108. gr.
    Ákvæði 111. gr. er nýmæli.

XV. KAFLI

Um réttarfar í hjúskaparmálum o.fl.

    Í þessum kafla eru endurskoðuð ákvæði VII. kafla laga nr. 60/1972. Ýmsu er breytt hér í efnisskipan og uppbyggingu kaflans, ákvæði einfölduð og nokkur felld niður. Mjög er hér tekið tillit til nýrra laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Lögsögureglur skv. 114. gr. eru nokkru víðtækari en skv. 66. gr. laga nr. 60/1972.
    Samkvæmt 117. gr. frumvarpsins sæta hjúskaparmál að meginstefnu til meðferð einkamála. Í kaflanum er mælt fyrir um nokkur frávik frá því sem nauðsynleg eru vegna séreðlis þessara mála.
    Í 122. gr. eru sérákvæði um áfrýjun sem þörf er á.

XVI. KAFLI


Um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögum þessum.


    Þessi kafli er nýr að stofni til. Hann er hliðstæður IX. kafla í frumvarpi til barnalaga.

XVII. KAFLI


Gildistaka, lagaskil og brottfallin lög.


    Lagt er til að lögin, ef samþykkt verða, gildi einnig að meginstefnu til um þau hjónabönd sem til er stofnað fyrir gildistöku laganna. Nokkur frávik eru þó frá því um tiltekna gerninga.
     Í 133. gr. er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 1993.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.

Um I. kafla.

     Ákvæði þessa kafla eru almenns eðlis, en fjalla um ólíkt efni. Einum þræði marka þau
lögunum efnissvið, sbr. 1. gr. Öðrum þræði eru þar ákvæði um jafnstöðu hjóna og verkefni innan fjölskyldu, sbr. 2. og 3. gr. Þá eru þar ákvæði sem gegna almennu leiðsöguhlutverki og eru ætluð til yfirlits, einkum um fjármálaskipunina, sbr. 4.–6. gr. Þau ákvæði fá svo síðar fyllra inntak í einstökum greinum frumvarpsins. Ákvæði 2. gr. svara til 1. og 2. gr. laga nr. 20/1923, en ákvæði 2. mgr. 3. gr. til 11. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 3. gr. og 4. og 5. gr. eiga ekki beina samsvörun í lögunum eins og þau eru nú, en 6. gr. frumvarpsins svarar til 2. mgr. 18. gr. laga nr. 20/1923.

Um 1. gr.

     Hér er það afmarkað til hverra lögin taki ef samþykkt verða. Eru þau einskorðuð við
hjón í skilningi sifjaréttarins, þ.e. við karl og konu sem gefin hafa verið saman í hjúskap svo að lágmarksskilyrðum um gildi hjónavígslu sé fullnægt, sbr. 24. og 25. gr. þessa frumvarps. Ná þau ekki til óvígðrar sambúðar. Lög gera að vísu hlut sambúðarkonu og sambúðarmanns hinn sama og hjóna í mörgum samböndum og er það m.a. rakið í riti Guðrúnar Erlendsdóttur: Óvígð sambúð 1988. Í norrænum lögum og lagafrumvörpum er hvarvetna hafnað þeirri hugmynd að fjalla samfellt og í sama lagabálki um þessi tvenn sambúðarform og hinu sama gegnir yfirleitt um evrópska sifjalöggjöf. Þykir fara betur á því að löggjöf um óvígða sambúð taki mið af hverju einstöku lagasambandi. Sérstök ástæða er til að kanna hvort ekki sé réttmætt að setja lagaákvæði um sameiginlegan bústað sambúðarfólks og búslóð á sameiginlegu heimili, m.a. þannig að reistar verði skorður við að annað þeirra ráðstafi slíkum verðmætum án þess að samþykki hins komi til. Um fjárskipti við slit á óvígðri sambúð hafa gengið allmargir stefnumarkandi dómar í Hæstarétti hin síðari ár. Er þörf á því að kannað verði hvort ekki sé ástæða til að setja efnislegar lagareglur um þennan mikilvæga þátt með hliðsjón af dómunum til fyllingar ákvæðum skiptalaga nr. 20/1991 sem hafa að geyma verklagsreglur um skipti við slit óvígðar sambúðar, sbr. XIV. kafla þeirra. Þá þarf frekari athugun á ákvæðum ýmissa laga þar sem til greina kemur að gera hlut óvígðrar sambúðar hinn sama eða svipaðan og hjúskapar, bæði að því er réttindi og skyldur varðar.
     Í 1. gr. er fólgið að hjúskapur getur aðeins myndast milli karls og konu. Frumvarpið tekur því ekki til heita samkynja manna um sambúð. Um það hafa nýlega verið sett lög í Danmörku, sbr. lög nr. 372/1989.

Um 2. gr.

     Í upphafi 2. gr. er almennt ákvæði um jafnstöðu hjóna. Ákvæðinu er fyrst og fremst
ætlað hlutverk á sviði sifjaréttar og einkaréttar almennt. Ákvæðið ætti einnig að hafa gildi á öðrum lagasviðum, m.a. sem lögskýringarregla.
     Í 2. gr. segir að hjón séu í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum. Ef þetta ákvæði verður samþykkt er afnuminn sá munur er kann að vera í sifjalögum að því er varðar lagastöðu karls og konu í hjúskap. Nefna má sem dæmi 12., 26. og 27. gr., sbr. 28. gr. laga nr. 20/1923, en hliðstæð ákvæði eru ekki tekin í þetta frumvarp.
     Lagastaða hvors hjóna um sig gagnvart börnum á einnig að vera hin sama. Segir nánar um það í barnalögum, nr. 9/1981, og í frumvarpi til barnalaga. Hér er m.a. átt við stöðu hjóna sem forsjáraðila og lögráðenda með réttindum og skyldum því samfara. Sérstök ákvæði í öðrum lögum geta þó kveðið á um annað, sbr. t.d. um ríkisfang, lögheimili, kenningarnafn og forsjá eftir hjúskaparslit og ganga þau framar hinu almenna ákvæði 2. gr.
     Ákvæði 2. gr. sver sig að öðru leyti í ætt við 1. og 2. gr. laga nr. 20/1923. Það er þó víðtækara þar sem hér er kveðið svo á að hjón skuli í sameiningu annast uppeldi og velferð barna sinna.
     Í 2. gr. segir að vinna á heimili feli í sér framlög til framfærslu fjölskyldunnar og er þetta áréttað í 47. gr. frumvarpsins. Í þessu felst að t.d. húsmóðir, sem vinnur á heimili en ekki utan þess, er ekki fremur framfærð af eiginmanni sínum, en hann af henni. Hugtakið framfærandi verður að skýrgreina í samræmi við þessi viðhorf. En hér er meira í efni. Það hjóna, sem vinnur aðallega eða eingöngu á heimili, leggur grundvöll að því að hitt geti aflað sér tekna utan heimilis. Hið síðarnefnda hefur jafnaðarlega fjárráðin og þau verðmæti, sem það aflar í skjóli þeirra, verða hjúskapareign þess. Hlutdeild hins heimavinnandi í eigninni verður ekki virk að ráði fyrr en við hjúskaparslit. Þetta er ágalli við norræna eignamynstrið og afleiðing þess er þá einnig sú að við fjárskipti við hjúskaparslit hefur sá maki, sem á verðmætið að hjúskapareign, forgangsrétt til þess að fá það í sinn hlut við útlagningu. Heimavinnandi makinn leggur með vinnu sinni á heimili til veigamikinn skerf til heimilis og fjölskyldunnar. Stuðlar hann með því að öflun tekna og spörun útgjalda o.fl. Er réttmætt að telja, a.m.k. hvað snertir eignir eins og íbúðarhúsnæði og innbú á heimili, að það hjóna komi til greina við útlagningu þeirra verðmæta miðað við mat á þörfum hvors um sig á verðmæti. Þetta hefur orðið niðurstaða í dómum Hæstaréttar Noregs í svonefndum húsmæðradómum allt frá 1975. Er frumvarp þetta miðað við að hliðstæð niðurstaða geti orðið hér á landi. Um þessi verðmæti gilda sérstakar reglur um samþykki vegna ráðstöfunargerninga, sbr. 20. og 21. gr. laga nr. 20/1923, sbr. og 60.–63. gr. frumvarpsins. Bent er hér á 108.–109. gr. frumvarpsins er geyma sérreglur um útlagningu verðmæta með hliðsjón af þörfum hvors maka um sig.

Um 3. gr.

     Í 1. mgr. er almennt ákvæði um að hjón skuli skipta verkefnum á heimili milli sín, svo
og útgjöldum vegna heimilisrekstrar, sbr. og 2. mgr. 2. gr. Þetta ákvæði er vissulega almenns eðlis, enda ógerlegt að setja hnitmiðaðar reglur um verkaskiptingu, m.a. vegna þess hve misjafnlega hagar til. Ákvæðið á bæði að gegna leiðsöguhlutverki og eins markar það almenna stefnu er gildi ætti að hafa. Þróunin er vafalaust sú að bæði hjón taki nú aukinn þátt í heimilisstörfum og er þessu ákvæði ætlað að stuðla enn frekar að þeirri mikilvægu þróun.
     Skipting útgjalda vegna heimilisrekstrar hlýtur að fara eftir getu hjóna og aðstæðum, sbr. 1. mgr. 47. gr. og 1. mgr. 48. gr. frumvarpsins, en réttmætt þykir að kveða á um þessa almennu stefnu í 3. gr. Heimilisrekstur er víðtækara orð en framfærsluframlög, sbr. VII. kafla, og nær það m.a. yfir margvísleg útgjöld vegna húsnæðis fjölskyldu, þar á meðal húsaleigu, afborganir af lánum af íbúðarhúsnæði, útgjöld vegna rafmagns, hitunar, síma, útvarps og sjónvarps, búsgagna og húsgagna. Ákvæðið tekur ekki sérstaklega til skatta, en gert er ráð fyrir því að greiðsla á sköttum, þar sem hjón eru samsköttuð, falli undir ákvæðið.
     Í 2. mgr. 3. gr. er ákvæði sem svipar til 11. gr. laga nr. 20/1923. Hún er þó víðtækari en 11. gr. þar sem hér er lagt til að hjónum sé almennt skylt að gefa hvort öðru upplýsingar um afkomu sína, þ.e. um tekjur, eignir og skuldir og horfur á næstunni. Helgast þetta af samstöðu hjónanna, sameiginlegri ábyrgð þeirra og trúnaði sem ríkir á milli þeirra. Ákvæði 11. gr. laga nr. 20/1923 einskorðar upplýsingaskylduna við það er taka þarf ákvörðun um framfærsluskyldu hjónanna. Maka getur verið þörf á upplýsingum um þetta endranær og er ákvæðið við þetta miðað. Hitt er ljóst að afkoma og efnahagur geta verið torvirt, sérstaklega hjá þeim er stunda atvinnurekstur og verður að túlka ákvæðið með þetta í huga.
     Samkvæmt 114. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, bera hjón óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir. Það þeirra sem innir af hendi greiðslu getur krafið hitt um þann hluta skatts sem koma skyldi í þess hlut miðað við tekjur og eignir hvors hjóna. Um skattskyldu og framtöl hjóna eru ákvæði í 5. gr., 63.–65. gr. og IX. kafla laganna. Í 1. mgr. 91. gr. þeirra er mælt svo fyrir að skattskyldur aðili skuli afhenda skattstjóra eða umboðsmanni hans skattframtal „í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður“. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að bæði hjón undirriti framtal, sbr. þó undantekningu í lok 1. mgr. 64. gr. um skattframtal hjóna sem slíta hjúskap eða samvistum á því ári sem tekna er aflað eða eignir miðast við. Í framkvæmd munu skattyfirvöld yfirleitt láta afskiptalaust þótt aðeins annað hjóna undirriti skattframtal og þá fyrir hönd beggja. Það hjóna, sem ekki undirritar skattframtal, á skv. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins kröfu á því að hitt láti því í té þær upplýsingar er framtalið geymir. Ef það hjóna, sem eitt hefur undirritað framtalið, virðir þessa kröfu að vettugi er hér á því byggt að hitt hjóna eigi tilkall til þess að fá ljósrit af skattframtali hjá skattstjóra eða upplýsingar um efni þess. Í norsku hjúskaparlögunum frá 1991 er kveðið svo á að maki geti krafist þess að fá að kynna sér skattframtal hins hjá skattstjóra eftir atvikum með því að fá ljósrit af því ef svo ber undir. Ekki þykir brýn þörf á slíku ákvæði hér þar eð upplýsingar um þetta munu kræfar hjá skattyfirvöldum samkvæmt almennum, óskráðum reglum um aðgang aðila að opinberum gögnum hjá stjórnsýslunni.

Um 4. gr.

     Þetta ákvæði er til yfirlits og leiðsögu um hið almenna fjárskipulag í hjúskapnum samkvæmt frumvarpi þessu. Hér er mörkuð sú meginstefna að hjón hafi forræði eigna sinna og beri ábyrgð á eigin skuldum, en ekki skuldum hins. Um þetta tvennt eru svo rækileg ákvæði í frumvarpinu, sbr. VIII. og IX. kafla um eignir hjóna, forræði þeirra og takmarkanir á því og X. kafla um skuldaábyrgð hjóna og frávik frá almennu reglunni um skipta skuldaábyrgð.

Um 5. gr.

     Hún fjallar samfellt um það hvernig hjúskap geti lokið, þ.e. fyrir ógildingu hans, lögskilnað og andlát maka. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á ákvæði 20. gr. laga nr. 44/1981, um horfna menn. Það tekur til þess er annað hjóna hefur horfið og dómur gengur um það að makinn teljist vera látinn. Heimilar sú dómsúrlausn hinu hjóna að ganga í hjúskap. Ef það hefur gengið í hjúskap að nýju og makinn, sem úrskurðaður var látinn, kemur fram kveður 20. gr. svo á að þetta haggi ekki gildi síðara hjúskaparins.
     Í 2. mgr. 96. gr. frumvarpsins segir að efnisreglur um fjárskipti skv. XIV. kafla frumvarpsins eigi einnig við þegar búi er skipt eftir lát annars hjóna til ákvörðunar um eignarhlut hvors um sig nema annað leiði af einstökum ákvæðum. Skipti eftir látinn mann hlíta einnig reglum skiptalaga og erfðalaga.
     Hjúskap lýkur ekki þótt leyfi sé veitt til skilnaðar að borði og sæng og því síður þótt fjárskipti fari fram skv. XIII. kafla frumvarpsins án skilnaðar.

Um 6. gr.

     Í þessari grein er mörkuð sú mikilvæga meginregla að við skilnað og andlát skuli haga
fjárskiptum svo að skírri hjúskapareign hvors um sig verði skipt til helminga. Um þetta segir nánar í XIV. kafla frumvarpsins, þar á meðal hvaða verðmæti geti verið undanþegin skiptum og svo um frávik frá helmingaskiptum („skáskipti“).
     6. gr. kveður á um ákvörðun á eignarhluta, en við andlát er það hann sem kemur til arfskipta eftir hinn látna. Ef það hjóna, er lengur lifir, fær leyfi til setu í óskiptu búi kemur ekki að svo stöddu til ákvörðunar á eignarhluta og erfðahluta.
     Í 6. gr. segir enn fremur að hjón geti samið um fjárskipti sín vegna skilnaðar, sbr. og 95. gr., en einnig getur hvort þeirra krafist þess að opinber skipti fari fram, sbr. 96. gr.
     Um fjárskipti vegna ógildingar hjúskapar eru sérreglur í 30. og 31. gr. frumvarpsins.

Um II. kafla.

A. Almennar athugasemdir um hjónavígsluskilyrði og hjónavígslur.

     Þessi kafli fjallar um hjónavígsluskilyrði og er ætlað að leysa ákvæði I. kafla laga nr.
60/1972 af hólmi.
     Þróun sifjalaga víða um lönd hefur falið í sér að mjög hefur dregið úr hjúskapartálmum fyrri tíðar. Allmargir þeirra hafa verið með öllu felldir úr lögum eða t.d. gerðir undanþægir í stað þess að vera afdráttarlausir. Sumpart hefur og verið felld úr lögum heimild til að ógilda hjúskap þótt hjúskapur gangi í berhögg við tiltekinn hjúskapartálma.
     Með lögum nr. 60/1972 voru róttækar breytingar gerðar á þessu sviði. Afnumin voru ákvæði er létu sjúkdóma, aðra en geðveiki, sbr. og vitsmunaskerðingu, tálma hjúskap og afnumið var undanþægt bann við hjúskap manns og afkomanda bróður eða systur. Enn fremur var afnumið undanþægt bann við hjúskap áður giftra kvenna tiltekinn tíma frá hjúskaparlokum. Bann við vígslu tengdra manna í beinan legg var gert undanþægt og hið sama var um bann við vígslu geðveikra manna og þeirra er var vitsmuna vant.
     Þá er þess að geta að ákvæði um hjónavígslualdur karla hafa tekið stakkaskiptum smám saman. Í lögum nr. 39/1921 voru aldursmörkin 18 ár fyrir konur, en 21 ár fyrir karla, en höfðu verið allt frá siðaskiptum til gildistöku þeirra laga 16 og 20 ár. Hjónavígslualdur karla lækkaði í 20 ár með lögum nr. 77/1967. Með 1. gr. laga nr. 60/1972 voru lögfest sömu aldursmörk fyrir bæði kynin, 18 ár.
     Í norræna lagasamstarfinu hafa ákvæði um hjónavígsluskilyrði sætt rækilegri athugun. Það eru vissulega mikilvæg mannréttindi að menn geti stofnað til fjölskyldu og að lög girði ekki fyrir að menn geti bundist hjúskap nema brýnir þjóðfélagshagsmunir bjóði annað. Vísa má hér til 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þess er og að gæta að oft hafa lögmæltir hjúskapartálmar takmarkað gildi þar eð þeir taka ekki fyrir óvígða sambúð. Ýmsir hjónavígslutálmar eru arfleifð fyrri tíma þegar siðferðisskoðanir manna voru annars konar en nú er. Í frumvarpi þessu er lagt til að enn verði hjónavígslutálmum fækkað allverulega og 2., 4., 5. og 8. gr. laga nr. 60/1972 verði felldar niður, sbr. athugasemdir hér að neðan. Er hér m.a. tekið mið af niðurstöðum í norræna lagasamstarfinu, svo og finnsku og sænsku lögunum frá 1987, dönsku lögunum frá 1989 og hinum norsku frá 1991. Er mikilvægt að norræn lögeining verði á þessu sviði í öllum meginatriðum og er stefnt að því með ákvæðum frumvarps þessa að svo verði að því er íslenskan sifjarétt varðar.
     Skal nú farið nokkrum orðum um hvaða rök leiði nánar til afnáms þeirra ákvæða laga nr. 60/1972 sem lagt er til að felld verði úr gildi.

Um 2. gr. laga nr. 60/1972.

     Þar er áskilið samþykki foreldra eða lögráðamanns ef hjónaefni er yngra en 18 ára og
sækir um leyfi dómsmálaráðuneytis til að stofna til hjúskapar. Í 7. gr. frumvarpsins er haldið heimild ráðuneytisins til að veita hjónaefni, sem ekki er orðið 18 ára, leyfi til hjónavígslu en ekki er gert ráð fyrir að leita skuli samþykkis foreldra. Er gert ráð fyrir að mat ráðuneytisins ráði því gagngert hvort svonefnt aldursleyfi verði veitt. Þykja ekki rök til þess í nútímaþjóðfélagi að foreldrar geti með afstöðu sinni girt fyrir að slík leyfi verði veitt, enda ugglaust mjög fágætt að foreldrar synji um samþykki. Benda má auk þess á að óeðlilegt er að sjálfráða ungmenni þurfi á samþykki að halda í þessu efni. Ráðuneytið getur allt að einu óskað umsagnar foreldra eða forsjármanna, sbr. athugasemdir við 7. og 8. gr.

Um 4. gr. laga nr. 60/1972.

     Fellur niður samhliða afnámi 2. gr. laga nr. 60/1972.

Um 5. gr. laga nr. 60/1972.

     Í finnsku og sænsku lögunum frá 1987 er afnumið bann við hjónavígslu geðveikra manna og þroskaheftra. Hið sama á við um dönsku lögin frá 1989 og hin norsku frá 1991. Hér er lagt til að þetta verði einnig niðurstaðan hér á landi með afnámi 5. gr. laga nr. 60/1972. Í því efni ber að hafa í huga hve rík mannréttindi það eru að geta stofnað til fjölskyldu og þar á meðal til hjúskapar. Mikilvægt er að andlega fatlaðir menn njóti þessara mannréttinda. Hjúskaparbann kemur ekki í veg fyrir að þeir gangi í óvígða sambúð eða eignist börn, en áður fyrr þótti bannið m.a. styðjast við viðleitni þjóðfélagsins til að sporna við barneignum slíkra manna þar eð hætta þótti á óheppilegum kynfylgjum. Viðhorf í því efni hafa tekið miklum stakkaskiptum. Hér er þess einnig að geta að hugtök þau, er 5. gr. greinir, eru vandskýrð. Í lagaframkvæmd mun hjónavígslubann þetta ekki hafa haft mikið gildi þar sem tilhneiging hefur verið til að fella undir hugtökin þau tilvik ein þar sem sjúkdómur eða andleg fötlun hefur verið á mjög háu stigi. Ef frumvarpið verður samþykkt verður Norðurlandalöggjöfin samræmd um þetta atriði og er sá árangur vissulega mikils virði.

Um 8. gr. laga nr. 60/1972.

     Í þessari grein er lagt undanþægt bann við hjónavígslu manna sem tengdir eru í beinan legg, einkum stjúpforeldris og stjúpbarns. Hliðstætt hjónavígslubann er afnumið í finnsku og sænsku lögunum frá 1987 og í hinum norsku frá 1991. Ákvæði 8. gr. er sögulega bundið og grundvallaðist í upphafi einkum á siðsemiskennd almennings. Síðar hefur það einkum verið stutt þeim rökum að það feli í sér vernd fyrir stjúpbarn gegn ásælni stjúpforeldris. Hjúskaparbann sýnist þó vera ófullkomið úrræði í því skyni. Sýnist varla vera brýn þörf á að halda banni þessu til streitu og síst þegar svo stendur á að kynforeldri (fyrri maki) er látið. Er réttmætt að fylgja hér fordæmi norræns réttar.

B. Hjónavígslur í tölfræðilegu ljósi.

1. Fjöldi hjónavígslna.

     Hjónavígslum hefur fækkað síðustu ár, einkum frá 1985. Þær urðu flestar 1974, tæplega 1900, en 1154 árið 1990. Þær reyndust um 39% færri á árabilinu 1986–1990 en 1974. Varð fækkunin þó enn meiri um skeið í Danmörku og Svíþjóð, en fjöldi þeirra hefur vaxið þar að nýju. Hér á eftir fer skrá um hjónavígslur hér á landi hin síðari ár og hlutfall þeirra, miðað við 1000 íbúa.

Meðalt.

Hlutf.tölur

Kirkjulegar

Borgaralegar

tölur

á 1.000

vígslur

vígslur

Ár

íbúa

%

%


1961–65     
1.458
7 ,9
1966–70     
1.650
8 ,2 94 ,2 5 ,8
1971–75     
1.730
8 ,2 89 ,7 11 ,3
1976–80     
1.511
6 ,7 84 ,8 15 ,2
1982          
1.303
5 ,6
1983          
1.396
5 ,9
1984          
1.413
5 ,9
1985          
1.252
5 ,2
1986          
1.229
5 ,1 85 ,4 14 ,6
1987          
1.160
4 ,7 86 ,2 13 ,8
1988          
1.294
5 ,2 86 ,7 13 ,3
1989          
1.176
4 ,7 86 ,5 13 ,5
1990          
1.154
4 ,5 88 ,0 12 ,0


    Kirkjulegar hjónavígslur hafa ávallt verið miklu tíðari en borgaralegar hjónavígslur hér á landi og munu þær hlutfallslega tíðari hér en annars staðar á Norðurlöndum. Borgaralegar hjónavígslur voru tiltölulega tíðastar hér árabilið 1936–1940, 21,2%. Sjöunda áratuginn námu kirkjulegar hjónavígslur u.þ.b. 95%, en á áttunda áratugnum lækkaði þetta hlutfall niður í rösk 87% og er síðustu ár 85–88%.
     Nú er svo komið að hjónavígslur eru fátíðari hér hlutfallslega en í nokkru öðru norrænu landi (1989) og e.t.v. er óvígð sambúð enn tíðari hér en í hinum norrænu löndunum. Tölurnar eru þessar 1989: Danmörk 6,25, Finnland 5,05, Ísland 4,7, Noregur 4,91 og Svíþjóð 5,24 (1988).

2. Aldur hjónaefna við fyrsta hjónaband.

     Árin 1966–1970 var meðalaldur kvenna 22,9 ár en karla 25,0 ár þegar til fyrsta hjónabands var stofnað hér á landi. Á árabilinu 1981–1985 var hann kominn upp í 24,2 og 26,3, en 1989 var hann 26,1 og 28,1. Þetta er umtalsverð breyting sem einnig kemur fram annars staðar á Norðurlöndum. Skiptir hér miklu máli að fólk hefur mjög oft og oftast verið í óvígðri sambúð áður en til fyrsta hjúskapar er stofnað.

Verður nú vikið að 7.–12. gr. frumvarpsins:

Um 7. gr.

     Hún er efnislega óbreytt 1. gr. laga nr. 60/1972 um hjónavígslualdur og heimild ráðuneytisins til að leyfa yngra fólki að ganga í hjúskap.
     Hjónavígslualdur annars staðar á Norðurlöndum er hinn sami og hér eftir að lögum var breytt í Finnlandi. Utan Norðurlanda er 18 ára aldur fyrir bæði kyn alltíður, sbr. t.d. vestur-þýskan rétt, rússneskan rétt og rétt margra ríkja í austurhluta álfunnar. 16 ára aldur fyrir bæði kyn er lögfestur í Bretlandi, Skotlandi, Írlandi, Portúgal og á Spáni. Hvarvetna í Evrópu eru nú afnumin hin fornu aldursmörk kanónísks réttar, 12 ár um konur og 14 ár um karla sem tekin voru í Common Law bresks réttar og síðar í löggjöf ýmissa ríkja í Bandaríkjunum.
     Aldursleyfi hér á landi voru alltíð allt fram til 1972, en á síðustu árum eru þau fátíð. Á árabilinu 1981–1986 voru alls veitt 39 aldursleyfi, 33 konum og 6 körlum, en ekkert leyfi var veitt árið 1987. Á sl. fjórum árum hafa að meðaltali verið veitt þrjú leyfi á ári. Fágætt er að synjað sé um leyfi, sbr. þó t.d. eina umsókn árið 1986.
     Þótt frumvarpið geri ráð fyrir að samþykkis foreldra sé ekki þörf þegar aldursleyfi er veitt er við það miðað að ráðuneytið mundi jafnaðarlega leita umsagnar foreldra eða lögráðamanns hjónaefnis. Umsögnin væri þó ekki bindandi.
     Sums staðar í löndum er greindur lágmarksaldur í sambandi við aldursleyfisveitingu. Ekki er gert ráð fyrir slíku í 7. gr. frekar en í fyrri lögum um efnið. Naumast yrði yngra fólki en 16 ára veitt aldursleyfi. Við mat á umsókn geta ýmis atriði komið til skoðunar, t.d. að stúlka sé vanfær eða aðilar hyggi á dvöl í útlöndum.
     Þótt hjónavígsla fari fram andstætt banni 7. gr. er ekki unnt að ógilda hjúskap nema um barnahjónaband væri að ræða, en slíku þarf ekki að gera skóna hér á landi.

Um 8. gr.

     1. málsl. er sama efnis og 3. gr. laga nr. 60/1972.
     2. málsl. er sama efnis að sínu leyti og 4. gr. sömu laga, en einskorðaður við synjun lögráðamanns. Samþykki þarf enda þótt maður sé eingöngu sviptur sjálfræði eða fjárræði.

Um 9. gr.

     Hún er sama efnis og 6. gr. laga nr. 60/1972. Sænsku lögin frá 1987 heimila hálfsystkinum að giftast að fengnu leyfi, en haldið er afdráttarlausu banni við hjónavígslu alsystkina. Í norsku lögunum er gert ráð fyrir að hjúskap hálfsystkina megi lýsa gildan, en einnig megi veita slíkum aðilum heimild til að eigast. Í dönsku lögunum frá 1989 og hinum finnsku frá 1987 er ekki haggað við banni gegn vígslu hálfsystkina.
     Sifjalaganefnd telur ekki rök standa til þess að breyta efni 6. gr. laga nr. 60/1972. Tilvikin, sem hér eru höfð í huga, eru ugglaust mjög fágæt. Vafalítið mundi hjúskapur hálfsystkina víða um lönd vera talinn brjóta gegn meginreglum laga og siðferðisviðhorfum (ordre public) og því ekki verða viðurkenndur þar. Sýnist yfirleitt ekki vera þörf á reglum, er að þessu lúta, hér á landi.
     Um ógildingu hjúskapar, sem gengur í berhögg við þetta ákvæði, er mælt í 27. gr. frumvarpsins.
     9. gr. á við um ættingja kjörbarns er þar greinir, t.d. kynforeldra og kynsystkin þrátt fyrir ættleiðinguna.

Um 10. gr.

     Hún fjallar um bann gegn hjónavígslu kjörforeldris og kjörbarns nema ættleiðing hafi
áður verið niður felld. Hún er sama efnis og 7. gr. laga nr. 60/1972. Í sænsku lögunum er þetta bann fellt niður, en samkvæmt finnsku lögunum er það undanþægt. Í norsku lögunum er hér vísað til ættleiðingarlaga og felst í því hjúskaparbann. Réttmætt þykir að halda ákvæði 7. gr. laga nr. 60/1972 óbreyttu. Í finnsku, norsku og sænsku ættleiðingarlögunum hefur nú verið numin úr gildi heimild til að fella niður ættleiðingu, en sú heimild er hins vegar í III. kafla laga nr. 15/1978 og sama er í Danmörku. Ef heimild til niðurfellingar ættleiðingar verður numin úr gildi hér á landi þarf að endurskoða þetta ákvæði.
    Hjónavígslubannið tekur ekki til kjörsystkina.

Um 11. gr.

     Bannið við tvíkvæni eða tvíveri er tekið óbreytt úr 9. gr. laga nr. 60/1972.
     Í 5. gr. frumvarpsins er greint með hverjum hætti hjúskap geti lokið. Úrlausn dómstóls samkvæmt lögum nr. 44/1981 um að maður skuli talinn látinn skapar fullnægjandi grundvöll fyrir hinn makann til að ganga að nýju í hjúskap. Gæta ber þó ákvæða 13. gr. laganna um áfrýjunarleika dóms. Að sínu leyti ber að gæta 122. gr. frumvarpsins, ef lögfest verður, um áfrýjunarleika ógildingar- og lögskilnaðardóma.
     Ef lögskilnaður er fenginn erlendis, utan Norðurlanda, kann að vera örðugt fyrir vígslumann að meta gögn um hann. Getur þá verið nauðsynlegt fyrir hann að leita álits dómsmálaráðuneytis um málið er aflar gagna ef þörf krefur. Um úrlausnir um lögskilnaði og ógildingu hjúskapar á Norðurlöndum vísast til laga nr. 29/1931, 7.–10. gr., sbr. lög nr. 62/1954, 98/1969 og 95/1973.
     Um ógildingu tvíkvænishjúskapar vísast til 27. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.

     Hún er óbreytt 10. gr. laga nr. 60/1972. Ákvæðið varðar þá sem hafa verið í hjúskap.
Felur það í sér bann við því að þeir stofni til hjúskapar að nýju nema skiptum sé lokið vegna fyrra hjúskaparins eða opinber skipti séu hafin. Ákvæðið á ekki við ef hjón hafa búið við fullkomið séreignafyrirkomulag. Bannið er undanþægt.
     Í norræna löggjafarsamstarfinu naut sú skoðun byrjar að afnema skyldi ákvæði er að þessu laut. Hvorki finnsku né sænsku lögin hafa slíkt bann að geyma. Það var ekki afnumið í dönsku lögunum við endurskoðunina 1989 og er í 8. gr. norsku hjúskaparlaganna frá 1991.
     Ákvæðið er á því reist að mikilvægt sé að draga úr eignaflækjum milli fyrri hjúskapar og hins síðari og skapa eftir föngum skýr skil milli eignaheilda hjúskapanna. Alkunna er að oft vill það lenda í undandrætti fyrir mönnum hér á landi að ganga frá skiptum, þar á meðal dánarbúskiptum eða koma þeim málum í lögmælt horf. Hefur ákvæði sem þetta skapað aðhald og styðst það álit við mat reyndra skiptaráðenda. Meðal annars að ráði þeirra og lögmanna, sem mikla reynslu hafa af þessum málum, er lagt til að ákvæði þetta verði áfram í hjúskaparlögum. Hér eru ekki síst hafðir í huga hagsmunir ófjárráða barna. Þess er vissulega að geta að bann þetta er ófullkomin vörn þar sem það girðir ekki fyrir að aðili stofni til óvígðrar sambúðar og verður eignaflækjum þá sjaldnast afstýrt.
     Svo er kveðið á um í greininni að einkaskiptum skuli lokið, en samkvæmt norsku lögunum er nægilegt að einkaskipti séu hafin. Markvísara þykir að áskilja að einkaskiptum sé lokið.
     Bannið er undanþægt, m.a. í því tilviki er sýnt þykir að engar eignir séu fyrir hendi. Einkaskipti kunna einnig að vera komin á lokastig og óyggjandi hverjar eignir og skuldir séu. Þá má vera að í hlut eigi fólk sem búsett er erlendis.

Um III. kafla.

     Ákvæði 13.–15. gr. um könnun hjónavígsluskilyrða eru tekin efnislega úr II. kafla laga nr. 60/1972, en nokkrum atriðum er breytt eða við aukið. Sú tilhögun, sem á komst hér á landi með þeim lögum, hefur reynst vel og skiptir miklu í því sambandi að reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða nr. 155/1973 var sett skömmu eftir að lögin tóku gildi.

Um 13. gr.

     Hún er hliðstæð 11. gr. laga nr. 60/1972.
     Þess ber að gæta að ákvæði um líkamlega sjúkdóma sem hjúskapartálma hafa þegar verið numin úr lögum og er lagt til í frumvarpinu að ákvæði 5. gr. laga nr. 60/1972 verði einnig fellt niður. Ef svo verður er ekki heimilt að áskilja í stjórnvaldsreglum að hjónaefni leggi fram læknisvottorð um heilbrigði, sbr. hins vegar 2. málsl. 11. gr. laga nr. 60/1972.
     Í 3. mgr. segir að hjónaefni skuli lýsa því í skriflegri yfirlýsingu, að viðlögðum drengskap, að þau viti ekki um lagatálma á fyrirhuguðum hjúskap. Í 11. gr. laga nr. 60/1972 er gert ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið geti mælt fyrir um slíka yfirlýsingu. Eðlilegra þykir að um hana sé beint ákvæði í sjálfum lagatextanum.
     Samkvæmt 4. mgr. er ráðuneytinu heimilað að leyfa frávik frá kröfu um tvo svaramenn „ef alveg sérstaklega stendur á“. Hliðstætt ákvæði er ekki í 12. gr. laga nr. 60/1972. Heimild til fráviks er nánast bundin við erlenda menn þar sem ekki er ávallt völ á mönnum er hafi þá þekkingu á högum hjónaefna að þeir geti ábyrgst að engir meinbugir séu að lögum á fyrirhuguðum hjúskap.
     Könnun skv. III. kafla verður ekki framkvæmd nema að ósk beggja hjónaefna.
     Þess mun dæmi að hjónaefni hafi beitt fyrir sig fæðingarvottorði annars manns og verið vígt í hjúskap á grundvelli slíks misferlis. Vegna atviks sem þessa er ástæða til að taka fram að vígslumaður á að ganga úr skugga um að hjónaefni sé sá eða sú er hann eða hún kveðst vera og sanna á sér deili með opinberum skilríkjum sem geyma mynd af viðkomanda, t.d. með vegabréfi eða ökuskírteini ef vígslumaður þekkir ekki hjónaefni.

Um 14. gr.

     Hún er sama efnis og 12. gr. laga nr. 60/1972, en nokkru víðtækari. Ákvæði um svaramenn og vottorð þeirra er þó í 13. gr. frumvarpsins.
     Um 1. mgr. skal bent á að könnun hjónavígsluskilyrða erlendis hjá presti, sbr. 4. mgr. 17. gr. frumvarpsins, eða starfsmanni í utanríkisþjónustu, sbr. 21. gr. frumvarpsins, er við það miðuð að a.m.k. annað hjónaefna dveljist á umdæmissvæði viðkomandi starfsmanns. Í 2. mgr. er nýmæli er heimilar hjónaefni að skjóta synjun vígslumanns um útgáfu könnunarvottorðs til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Ef ráðuneytið fellir synjun úr gildi er hjónavígsla heimil á grundvelli úrlausnarinnar. Ráðuneytið lætur því ekki við það eitt sitja að fella synjun úr gildi heldur gengur það einnig úr skugga um að hjónavígsluskilyrðum sé fullnægt.

Um 15. gr.

     Hún er efnislega óbreytt 13. gr. laga nr. 60/1972.
     Vígslumanni ber að ganga eftir læknisvottorði við mat á því hvort vikið verði frá könnun skv. 2. mgr. ef föng eru á því.

Um IV. kafla.

     Í þessum kafla eru ákvæði um hjónavígslu, borgaralega og kirkjulega, hverjir framkvæma hana og hvar og hverjum sé kræf borgaraleg hjónavígsla. Ákvæði kaflans samsvara III. kafla laga nr. 60/1972, en nokkrar breytingar eru lagðar til. 15. gr. laga nr. 60/1972 er felld niður þar sem það þykir vera undir ákvörðun hvers trúfélags komið hverjum sé kræf hjónavígsla innan þess. Ákvæði um vígsluheimild fyrrverandi þjóðkirkjupresta, sbr. 17. gr., er nokkuð breytt og 21. gr. er ný að stofni til. 18. gr. um borgaralega vígslumenn er stíluð til samræmis við lög nr. 92/1989. Í 2. mgr. 25. gr. er heimilað að lýsa hjónavígslu, sem eigi er gild, gilda eftir lát annars hjóna.

Um 16. gr.

     Hún er efnislega óbreytt 14. gr. laga nr. 60/1972.

Um 17. gr.

     Í 1. mgr. segir almennt að prestar þjóðkirkjunnar annist kirkjulega hjónavígslu. Nánari skilgreining á þessum hjónavígslumönnum er í 2. mgr. Þar segir að prestar þeir, er greinir í lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, séu löggildir vígslumenn. Þeir prestar, sem um er að ræða, eru sóknarprestar og aðstoðarprestar, sbr. 3. gr. laganna, en um hina síðarnefndu segir að þeir starfi „undir stjórn sóknarprests og samkvæmt erindisbréfi er biskup setur“. Samkvæmt því framkvæmir aðstoðarprestur hjónavígslu eftir fyrirmælum sóknarprests. Löggildir vígslumenn eru enn fremur sérþjónustuprestar, sbr. II. kafla laga nr. 62/1990 og Þingvallaprestur, sbr. 7. gr. laganna. Í 2. mgr. 17. gr. frumvarpsins segir um aðra þjóðkirkjupresta en þá sem greinir í lögum nr. 62/1990 að dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákveði að fengnum tillögum biskups hvort þeir hafi heimild til hjónavígslu. Á þetta einkum við um presta sem ráðnir eru af stofnunum eða félagasamtökum.
     Um presta og forstöðumenn annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar og vígsluheimild þeirra segir í 1. mgr. 17. gr. Veltur vígsluheimild þeirra á því hvort þeir hafi fengið viðurkenningu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þess að framkvæma embættisverk innan skráðs trúfélags, sbr. 12. gr. laga nr. 18/1975. Þeir þurfa að fullnægja skilyrðum 17. og 18. gr. þeirra laga. Hugtökin prestar og forstöðumenn geta náð yfir aðra starfsmenn trúfélags svo framarlega sem skráning trúfélags heimilar þeim að framkvæma embættisverk. Löggilding er almenn fyrir hvern starfsmann og þarf ekki á löggildingu að halda í hvert einstakt skipti sem vígsla fer fram.
     Í 3. mgr. 17. gr. er lagt til að nokkur breyting verði gerð á reglum um heimild þjóðkirkjupresta, er látið hafa af störfum, til að vígja hjón. Eðlilegt þykir að einskorða heimildina við þá sem látið hafa af embætti að eigin ósk eða samkvæmt ákvæðum laga um aldurshámark opinberra starfsmanna. Í annan stað er brotið upp á því að það sé ávallt starfandi prestur sem framkvæmi könnun á hjónavígsluskilyrðum og jafnframt takist sá prestur á hendur ábyrgð á færslu hjónavígslu í kirkjubók og skýrsluskilum í því sambandi. Eru þessi ákvæði tryggilegri en þau er nú gilda.
     4. mgr. 17. gr. samsvarar 1. mgr. 19. gr. laga nr. 60/1972. Undanfari löggildingar er samningur við ríki sem presti er ætlað starfa í. Þessara presta er getið í 10. gr. laga nr. 62/1990. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. frumvarpsins gilda ákvæði laga þessara, ef samþykkt verða, um könnun þessara starfsmanna á hjónavígsluskilyrðum og um hjónavígsluna.

Um 18. gr.

     Hér er kveðið á um það hverjir framkvæmi borgaralega hjónavígslu og er miðað við
skipan laga nr. 92/1989, um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, er taka gildi 1. júlí 1992. Bent er á að í 133. gr. frumvarps þessa er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 1992.

Um 19. gr.

     1. mgr. er sama efnis og 2. mgr. 19. gr. laga nr. 60/1972. Tekið er fram að vígsluheimild sé bundin við þá ræðismenn Íslands erlendis sem hafa diplómatíska stöðu. Könnun hjónavígsluskilyrða getur farið fram af hálfu vígslumanna í utanríkisþjónustunni er greinin tekur til þótt annar vígslumaður gefi saman hjónin.
     2. mgr. er skýringarákvæði.

Um 20. gr.

     Hún samsvarar 4. mgr. 19. gr. laga nr. 60/1972. Tekið er fram að vígsluheimild þeirra
erlendu manna, er þar greinir, sé bundin við að a.m.k. annað hjónaefna sé íslenskur ríkisborgari.

Um 21. gr.

     Greinin er nýmæli. Segir þar að skyldleiki eða vensl vígslumanns við hjónaefni valdi
ekki vanhæfi til að kanna hjónavígsluskilyrði eða gefa saman hjón. Er það í samræmi við venjur sem rétt þykir að lögskrá þar sem þær víkja frá almennum reglum stjórnarfarsréttar um hæfi stjórnvalds.

Um 22. gr.

     1. mgr. er sama efnis og 17. gr. laga nr. 60/1972.
     2. mgr. er sama efnis og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 60/1972. Byggt er á því að unnt sé samkvæmt almennum stjórnsýslureglum að skjóta synjun prests á að framkvæma hjónavígslu til úrlausnar ráðuneytisins sem mundi samkvæmt venju leita álits biskups um málið. Reglur þær, sem vísað er til í greininni, eiga vitaskuld eingöngu við um þjóðkirkjupresta.

Um 23. gr.

     Hún er sama efnis og 20. gr. laga nr. 60/1972.

Um 24. gr.

     Greinin er sama efnis og 21. gr. laga nr. 60/1972.
     Í 3. mgr. er lögð til sú breyting að dóms- og kirkjumálaráðuneytið setji reglur þær er þar greinir, að höfðu samráði við biskup, svo og við utanríkisráðuneytið. Sektaákvæðið, sem 3. mgr. 21. gr. geymir, er ekki tekið með í frumvarpinu, enda naumast þörf á því, sbr. almennar reglur um skyldur starfsmanna í opinberri sýslu.

Um 25. gr.

     1. mgr. er efnislega óbreytt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 60/1972.
     Í niðurlagi 2. mgr. er það nýmæli að unnt sé að lýsa gallaða hjónavígslu gilda þótt annað hjóna eða bæði séu látin. Getur sanngirni mælt með því. Hér er einkum stuðst við norsku hjúskaparlögin sem fyrirmynd.

Um 26. gr.

     Hún er sama efnis og 23. gr. laga nr. 60/1972. Ákvæði er varðar gjald fyrir hjónavígslu er þó ekki tekið með hér. Um gjald fyrir borgaralega hjónavígslu segir í 14. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

Um V. kafla.

     Í þessum kafla eru ákvæði um ógildingu hjúskapar. Eru þau í samræmi við ákvæði IV.
kafla laga nr. 60/1972.
     Ógilding hjúskapar er í reynd nálega óþekkt hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Hún er hins vegar alltíð í sumum löndum, einkum þar sem áhrif kaþólsku kirkjunnar eru rík og örðugleikum er bundið að fá lögskilnað.
     Vegna þess hve ógilding er fátíð hafa reglur um hana verið afnumdar í finnskum, sænskum og norskum hjúskaparlögum. Danska sifjalaganefndin taldi hins vegar réttmætt að halda þessum reglum í hjúskaparlögum.
     Samkvæmt finnsku, sænsku og norsku lögunum verða ógildingarástæður þær, sem nú eru lögmæltar, eftirleiðis lögskilnaðarástæður. Verður hjúskap því lokið með lögskilnaði ef slíkar ástæður eiga við, þ.e. hjúskapur brýtur gegn banni við vígslu skyldra manna og banni við tvíkvæni eða tvíveri. Samkvæmt finnsku og sænsku lögunum er hægt að fá lögskilnað umsvifalaust, þ.e. án reynslutímabils, ef ástæður þessar eiga við. Eftir norsku lögunum er lögskilnaður kræfur þegar svo stendur á án þess að á undan fari skilnaður að borði og sæng. Reglur um fjárskipti við skilnað gilda um lögskilnaði á þessum grundvelli og eru sérreglur um fjárskipti við ógildingu hjúskapar afnumdar. Heimild til að víkja frá helmingaskiptareglunni er svo víðtæk að talið er að hægt sé að komast að sömu niðurstöðu og með greindum sérreglum. Reglur um bætur vegna ógildingaratvika eru afnumdar með finnsku, sænsku og norsku lögunum.
     Um það, hvort afnema eigi ógildingarreglur hér á landi, skal þetta tekið fram:
    Þótt ógildingarmál séu nálega óþekkt hér á landi er ætlandi að reglurnar hafi varnaðargildi í einhverjum mæli og þær árétta í hugum manna hve mikilvæg sum hjónavígsluskilyrðin eru.
    Ef ógildingarreglur eru afnumdar er það undir þeim komið sem misgert er við hvort hjúskapurinn verði felldur úr gildi með lögskilnaði, andstætt því sem nú er um hinar meiri háttar ógildingarástæður. Kynni þá t.d. svo að fara að manni yrði refsað fyrir tvíkvæni eða sifjaspell, en hjúskapur héldi allt að einu gildi. Víða um lönd mundi það þykja óeðlilegt svo að ekki sé fastar að orði kveðið.
    Ekki er sýnilegt af finnsku og sænsku lögunum að aðili geti krafist loka hjúskapar síns ef ástæður þær eru fyrir hendi sem sambærilegar eru við 25. gr. laga nr. 60/1972.
    Benda má einnig á að fjárskiptareglur um ógildingu hjúskapar, sbr. 27. gr. laga nr. 60/1972 og 30. gr. frumvarpsins, eru afdráttarlausar. Ættu þær að vera þeim hagstæðari sem misgert er við en lögskilnaðarreglur þótt þetta fari þó eftir atvikum.
     Ákvæði V. kafla eru að mestu hin sömu og í IV. kafla laga nr. 60/1972. Ákvæði 28. gr. þeirra laga um bætur eru ekki í frumvarpinu, en bótaskylda kann í einstöku tilviki að vera fyrir hendi samkvæmt almennum bótareglum. Ákvæði 2. mgr. 24. gr. laga nr. 60/1972 um höfðun ógildingarmáls hefur verið flutt í 116. gr. frumvarpsins í réttarfarskaflanum þar sem eðlilegra þykir að skipa því.
     Í 38. gr. frumvarpsins er tvíkvæni (tvíveri) greint meðal lögskilnaðarástæðna og getur maki, sem misgert er við, farið þá leið að krefjast lögskilnaðar eins og verið hefur.

Um VI. kafla.

Almennar athugasemdir.

A. Efni VI. kafla.

     Í þessum kafla er fjallað um hjónaskilnaði, þ.e. forsendur skilnaða og úrlausnir um skilnaði og aðdraganda að þeim úrlausnum.
     Kaflinn fjallar ekki nema að nokkru leyti um réttaráhrif skilnaðar. Um það efni er tilvísunarákvæði í 44. gr. þar sem vikið er að því hvar í lögum sé kveðið á um skipan forsjár yfir börnum vegna skilnaða, svo og skipan framfærslumála og um fjárskipti. Um önnur réttaráhrif skilnaða, þ.e. utan vettvangs sifjaréttar, eru svo sérákvæði víða í löggjöf, sbr. t.d. 26. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, ákvæði í lífeyrislögum, sbr. t.d. 14. gr. laga nr. 29/1963, ásamt breytingalögum, 15. gr. almannatryggingalaga, nr. 67/1971, ásamt breytingalögum, 2. og 4. gr. framfærslulaga, nr. 80/1947, 7. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, 5. gr. laga um ríkisborgararétt, nr. 100/1952, sbr. 4. gr. laga nr. 49/1982, svo og t.d. vanhæfisreglur samkvæmt réttarfarslögum og reglum um stjórnsýslu. Þykir ógerlegt að kveða á um þessi sundurleitu réttaráhrif í hjúskaparlögum.

B. Tölfræðilegar upplýsingar.

1. Lögskilnaðir og tíðni þeirra.

     Skilnaðir hafa farið mjög í vöxt á þessari öld og allmikið síðustu áratugina. Fjöldi lögskilnaða hefur þrefaldast frá 1961, en tvöfaldast miðað við íbúatölu. Á árabilinu 1966–1970 komu 5,8 lögskilnaðir á hver þúsund hjónabönd og reyndust lögskilnaðir þá 219 árlega að jafnaði. Árið 1990 er þessi tala 10,2 og fjöldi lögskilnaða 479 (527 árið 1985). Á hinn veg er þess að geta að hlutfall skilnaða, miðað við hvert þúsund hjónabanda, hefur ekki breyst mikið síðasta áratuginn.
     Árið 1990 urðu 38% hjúskaparslita vegna andláts mannsins, 20% vegna andláts konunnar og 42% vegna lögskilnaðar. Í grannlöndunum eru hjónaskilnaðir hlutfallslega tíðastir í Danmörku, þá í Svíþjóð, Íslandi, Finnlandi og Noregi. Tölfræðigögn frá löndum utan Norðurlanda sýna að lögskilnaðir eru víða tíðari en hér á landi.

2. Fjöldi barna í hjónaböndum er lýkur með lögskilnaði.

     Árið 1984 og 1990 voru hundraðstölur um fjölda barna í hjónaböndum sem lauk með
skilnaði svo sem hér segir:

1984

1985

%

%


Barnlaus hjón     
37
35 ,2
Hjón með 1 barn     
34
35
Hjón með 2 börn     
22
22
Hjón með 3 börn     
6
7
Hjón með 4 börn, eða fleiri     
1
0 ,8


    Á áratugnum 1961–1970 voru börn skilinna foreldra talin alls um 2.877, en 5.252 á árabilinu 1981–1990.
     Lögskilnaðir snerta mjög börn og voru þau t.d. 479 árið 1990.

3. Forsjá barna við skilnað.

    Forsjá barna við skilnað var skipað svo sem hér segir í hundraðstölum nokkur síðustu ár:

1976–80

1990


Hjá móður      88
,8
88 ,8
Hjá föður      4
,5
11 ,2
Hjá öðrum     
6
,7


    Forsjá barna hefur samkvæmt þessu verið falin móður í rösklega 88% tilvika. Faðir fær forsjá barns nokkru oftar en áður var. Á árabilinu 1961–1968 voru hundraðstölurnar 93,8 og 6,4. Taka ber fram að langoftast er þessu máli skipað með samkomulagi hjóna.

4. Formlegar lögskilnaðarástæður.

     Hér á eftir er greint milli lögskilnaða á grundvelli undanfarins skilnaðar að borði og
sæng og lögskilnaðar sem á sér annan grundvöll (hundraðstölur).

1965

1971

1981

1990


Undanfarandi skilnaður að borði og sæng
   (34. gr. laga nr. 60/1972)      (78
,11) 78 ,4 66 ,9
80
Lögskilnaður samkvæmt öðrum lagaheimildum      21
,9 21 ,6 33 ,1
20


    Í reynd eru það einkum tvær lögskilnaðarástæður sem byggt er á svo að nokkru nemi, þ.e. skilnaður að borði og sæng og hjúskaparbrot. Hefur það orðið tíðara en áður að lögskilnaður sé reistur á síðargreindu ástæðunni. Þetta hefur þó breyst allra síðustu ár.

5. Meðallengd hjúskapar er lýkur með lögskilnaði.

    Samkvæmt tölfræðigögnum var meðallengd hjúskapar er lauk með lögskilnaði 1981–1985 10,9 ár, tíðasta lengd 5 ár, 1986–1990 var meðallengd 12,8 ár og tíðasta lengd 5 ár.

C. Skilnaðarforsendur.

     Með setningu hjúskaparlaga á Norðurlöndum á öðrum og þriðja áratug þessarar aldar, sbr. lög nr. 39/1921 hér á landi, var norræn skilnaðarlöggjöf samræmd í ríkum mæli, sbr. þó t.d. úrlausnarvald um skilnaði (hlutur dómstóla er mismikill) og sbr. einnig að skilnaður að borði og sæng var ekki lögleiddur í Finnlandi fyrr en 1948. Þessi norrænu lög byggðu á þremur grunnsjónarmiðum varðandi skilnaðarástæður, þ.e. sakarreglu, samkomulagsreglu og reglu um hjúskaparhrun. Var mikilvægt að þessar reglur voru festar í lögum og eigi látnar velta á venjum. Við endurskoðun norrænu löggjafarinnar á sjötta og sjöunda áratug þessarar aldar var í flestum löndunum ekki hvikað frá þessum reglum, sbr. hér á landi lög nr. 60/1972. Hin síðustu ár hafa viðhorfin breyst nokkuð og skal vikið stuttlega að því:
    Úr sakarreglunni hefur mjög dregið víða um lönd, bæði sem skilnaðarástæðu og sem áhrifaþætti við skipan mála er tengjast skilnaði, sbr. einkum varðandi forsjá barna, framfærslu og fjárskipti. Byggjast hin breyttu viðhorf m.a. á því að örðugt er að meta „sök“ aðila. Einnig að mikilvægt er að draga úr deilum við skilnað og að löggjöf stuðli að því að slit þessara persónutengsla verði jafnmanneskjuleg og frekast eru föng á. Sakarbundnar skilnaðarástæður kynda undir ýmis andfélagsleg viðbrögð er einkennast af áburði um vammir og skammir og hefndarhug.
        Ekki orkar tvímælis að ganga þarf lengra í því en nú er að draga úr sakarreglunni svo sem síðar verður greint.
    Samkomulag hjóna er vafalaust farsælasti grundvöllurinn bæði að því er skilnaðinn sjálfan varðar og svo um þau margvíslegu málefni sem ráða þarf til lykta í kjölfar hans. Íslensk skilnaðarlöggjöf er á því reist að samkomulag hjóna um skilnað geti leitt til skilnaðar að borði og sæng, en verði í fyrstu atrennu ekki grundvöllur að lögskilnaði. Löggjöfin hvetur til þess að mjög sé leitað eftir samkomulagi hjóna um skipan mála við skilnað, um forsjá barna, framfærslu og fjárskipti. Sáttafyrirkomulagið er úrræði til að hvetja hjón til að hugsa vel ráð sitt og rasa ekki um ráð fram, sbr. 44. gr. laga nr. 60/1972, sbr. lög nr. 132/1989. Umleitun yfirvalds um skilnaðarkjör og reglur um að samkomulag um þau verði staðfest fyrir því, sbr. 43. gr., stuðla að því að tryggilegar sé búið um þau mál en ella væri og draga úr hættu á að gengið sé ósanngjarnlega á hlut annars maka.
         Samkomulagsregluna má augsýnilega rýmka til muna frá því sem er í núgildandi lögum, einkum þannig að samkomulag hjóna geti beinlínis verið lögskilnaðargrundvöllur. Verður vikið nánar að því þegar að því kemur að skýra sænsku reglurnar frá 1973 (nú 1987) og þær finnsku frá 1987.
    Á síðustu áratugum á sú skoðun sér víða talsmenn að lagaforsenda skilnaða eigi að vera sú að grundvöllur sé hruninn undan hjúskap. Er skilnaðarlöggjöf víða um lönd reist á þessu í auknum mæli, sbr. t.d. í Bretlandi, Nýja-Sjálandi, Ástralíu, Vestur-Þýskalandi, ríkjum í austurhluta Evrópu o.fl. Tekur lagareglan þá sums staðar gagngert mið af því að grundvöllur sé hruninn og hlýtur sú regla þó að vera ærið matskennd. Í öðrum löndum er þetta greinimark notað sem undirstöðuregla, en jafnframt þarf að sýna fram á nánar tilgreind lögmælt atriði sem gefi hjúskaparhrun til kynna, svo sem löng samvistaslit, geðveiki annars hjóna, hjúskaparbrot, fangavist o.fl., sbr. t.d. breskan rétt. Í þessu efni skiptir vitaskuld miklu hvernig sönnunarviðhorfin eru, þ.e. hvort miðað sé við mat aðila sjálfra eða annars aðilans og hversu ríkar kröfur séu gerðar til sönnunar.
    Upp á síðkastið hefur í auknum mæli verið lögð áhersla á það grundvallarsjónarmið að hjúskapur sé sambúðarsamband karls og konu er byggist á samkomulagi þeirra. Þjóðfélagið hafi að vísu hagsmuni af því að tengslin verði sem varanlegust og að heimili og fjölskyldur sundrist ekki. Hins vegar sé á það að líta að þegar hjón séu ekki lengur samhuga um að halda áfram hjúskap sé ekki réttmætt að þjóðfélagið haldi til streitu kröfum sínum um samvistir hjóna, slíkt sé oft til ófarnaðar. Almenningsvaldi beri vissulega að gæta hags barna hjóna, en sú hagsmunagæsla geti naumast gengið lengra en að mæla fyrir um sáttafyrirkomulag og eftir atvikum tiltekið reynslutímabil frá því að leyst er úr frumkröfu um skilnað uns lögskilnaður fæst. Þetta meginviðhorf er ljóslega í andstöðu við sakarregluna og einnig við samkomulagsregluna að vissu marki. Nefna mætti það viljakenningu eða viljareglu.

D. Ný skilnaðarlöggjöf í Svíþjóð, Finnlandi, Danmörku og Noregi.

1. Sænsk lög frá 1973 og 1987.

    Með lögum frá 1973 voru gerðar allgagngerar breytingar á sænskri skilnaðarlöggjöf. Síðan hafa Svíar sett sér heildarlög um hjúskap (14. maí 1987, gildistaka 1. janúar 1988), en þau breyta ekki efnislega ákvæðum laganna frá 1973.
     Sænsku skilnaðarlögin fela í sér að hafnað er bæði sakarsjónarmiðum og sjónarmiðum um hjúskaparhrun sem grunnviðhorfi. Í stað þess er það viðhorf ríkjandi að viljaafstaða hvors hjóna um sig eigi að ráða framhaldi hjúskapar.
     Löggjöfin er reist á því grunnsjónarmiði að hjúskapur sé frá öndverðu frjálst sambúðarsamband karls og konu. Því beri að virða vilja hvors maka um sig til þess að rjúfa þetta samband. Í því skyni að koma í veg fyrir skilnaði, sem ráðnir eru í bráðræði, hefur þó verið lögmæltur sérstakur umhugsunar- eða biðtími sem ávallt er sex mánuðir. Hann á við 1) þegar foreldri hefur forsjá barns undir 16 ára aldri, 2) þegar bæði hjón óska eftir umhugsunar- eða biðtíma og 3) þegar hjón eru ekki samhuga um skilnað. Endranær getur lögskilnaður átt sér stað án biðtíma.
     Skilnaðarákvæði eru mjög einföld í sniðum og afnumin eru allmörg skilnaðarskilyrði eða skilnaðaratvik, svo sem hjúskaparbrot, geðveiki, refsivist annars maka o.fl. Skilnaður að borði og sæng sem réttarúrræði er afnuminn. Ekki er gerð krafa til þess að hjón búi ekki saman á umhugsunartímanum (betänketid).
     Rökin fyrir því að afnema skilnað að borði og sæng sem réttarúrræði eru þessi: 1) Fresturinn, eitt ár, þykir of langur. 2) Sú tilhögun að stemma stigu við sambúð það tímabil, sem skilnaður að borði og sæng stendur, er talinn til þess fallinn að vinna gegn sáttum milli hjóna. 3) Það að skilnaður að borði og sæng rýfur fjárhagslega samstöðu hjóna áréttar að til fulls skilnaðar muni draga.
     Maki verður að krefjast lögskilnaðar innan árs frá því að biðtími hófst ella brestur grundvöll undir lögskilnað.
     Samkvæmt þessu er meginskilnaðarforsendan sú að hjón séu samhuga um skilnað eða annað óski skilnaðar. Fæst þá fullnaðarskilnaður ýmist án umhugsunartíma eða ekki svo sem rakið hefur verið. Til viðbótar þessu eru greind tvö tilvik þar sem unnt er að fá fullnaðarskilnað án biðtíma, þ.e. ef hjón hafa ekki búið saman í a.m.k. tvö ár eða ef um tvíkvæni er að ræða. Reglur um ógildingu hjúskapar eru með öllu afnumdar í lögum þessum svo sem áður greinir.
    Ákvæði, sem taka mið af sök hjóna á skilnaði, t.d. varðandi forsjá og framfærslu milli maka, hafa verið afnumin. Framfærsluskylda hjóna helst meðan á biðtíma stendur. Eftir endanlegan skilnað er unnt að skylda annað hjóna til að styðja hitt fjárhagslega, sérstaklega vegna menntunar og endurþjálfunar o.fl., miðað við mat á þörfum aðila og aðstæðum.

2. Finnsk lög frá 1987.

    Í Finnlandi gengu í gildi ný lög um skilnaði 16. apríl 1987. Í megindráttum fylgja þau sænsku lögunum. Samkvæmt því eiga makar rétt á lögskilnaði eftir sex mánaða biðtíma. Sá grundvallarmunur er milli sænsku og finnsku reglnanna að samkvæmt hinum fyrrnefndu geta hjón alloft fengið lögskilnað ef þau eru sammála um það án þess að hlíta sex mánaða biðtímanum, en samkvæmt finnsku reglunum verða þau ávallt að hlíta honum. Trúnaðarskylda hvílir ekki á hjónum á biðtímanum fremur en samkvæmt sænsku reglunum. Sérgreindu lögskilnaðarástæðurnar eru flestar afnumdar, en þó er ákvæðum um tveggja ára samvistaslit, tvíkvæni og um það er hjúskapur er stofnaður í andstöðu við skyldleikatálmann viðhaldið. Ógildingarreglurnar eru afnumdar eins og í Svíþjóð.

3. Norsk lög frá 1991.

    Samkvæmt lögunum á skilnaður að borði og sæng að vera áfram við lýði, en reglunum er breytt svo að hvor maki um sig getur einhliða krafist slíks skilnaðar. Krafan um virk samvistaslit er áfram í gildi, en trúnaðarskyldan afnumin á þessu tímabili. Eitt ár verður að líða frá því að skilnaður að borði og sæng er veittur uns lögskilnaður er kræfur. Flestar af hinum sérgreindu lögskilnaðarástæðum eru felldar niður samkvæmt lögunum, en þó er haldið ákvæði um heimild til lögskilnaðar eftir tveggja ára samvistaslit, vegna ofbeldis sem annað sýnir af sér og bitnar á hinu eða börnum á heimilinu, tvíkvænis og ef hjúskapur er stofnaður andstætt skyldleikatálmum. Heimild til ógildingar hjúskapar er afnumin.

4. Dönsk lög frá 1989.

    Lögin eru mjög svipuð norsku lögunum frá 1991. Samkvæmt þeim er lögskilnaður þó kræfur í fyrsta lagi sex mánuðum eftir að leyfi er gefið út til skilnaðar að borði og sæng ef makar eru á einu máli um að skilja, en ella eftir eitt ár. Krafan um samvistaslit er áfram í gildi en með nokkru mildara orðalagi í samræmi við frjálslega lagaframkvæmd. Ýmsar sérgreindar lögskilnaðarástæður eru felldar úr gildi, en þó er lögskilnaður áfram heimill eftir tveggja ára samvistaslit þegar hjúskapur er stofnaður andstætt frændsemistálma, svo og vegna ofbeldis er maki beitir hitt eða börnin. Þá er gert ráð fyrir að hjúskaparbrot verði áfram lögskilnaðarástæða, þó þannig að ef slíkt atferli á sér stað eftir að leyfi er veitt til skilnaðar að borði og sæng þá er það ekki grundvöllur lögskilnaðar. Það ákvæði er afnumið að unnt sé, þegar svona stendur á, að veita skilnað að borði og sæng og hafna lögskilnaðarkröfu ef tillitið til barna eða aðrar veigamiklar ástæður mæla með því.

E. Er réttmætt að taka upp finnsk-sænsku tilhögunina

í stað skilnaðar að borði og sæng?

    Við fyrstu sýn virðist ekki vera mikill munur á finnsku og sænsku tilhöguninni og þeirri íslensku, enda í báðum tilvikum um reynsluúrræði að ræða. Munurinn er þó nokkur: a. Krafist er samvistaslita samkvæmt íslenskum rétti eftir að leyfi er veitt til skilnaðar að borði og sæng, andstætt því sem er við finnsk-sænsku lausnina. b. Hjón verða að ganga eftir lögskilnaði samkvæmt síðastgreindri tilhögun innan eins árs frá því að upprunalegur skilnaður var veittur. c. Krafa um að skipa skuli forsjármálum, framfærslumálum og fjárskiptamálum horfir annan veg við en samkvæmt íslenskum rétti.
    Fyrir þann fjölda hjóna, sem slitið hafa samvistum áður en leyfi er veitt til skilnaðar að borði og sæng og leita síðan lögskilnaðar einu ári síðar eða svo, er það verulegur kostur að forsjármálum, framfærslumálum og fjárskiptum sé ráðið til lykta þegar leyfi er veitt til skilnaðar að borði og sæng, enda er oftast svo um samið að sama skipan gildi eftir lögskilnað, að undantekinni framfærslu með maka, sbr. og hér 45. gr. frumvarpsins. Sama gegnir um þann hóp hjóna sem leitar ekki lögskilnaðar síðar þótt samvistaslit haldist.
    Fyrir þau hjón, sem samvistum eru þegar leyfi til skilnaðar að borði og sæng er gefið út, kann að virðast hart aðgöngu að slíkt leyfi leiði beinlínis til þess að þau hætti sambúð. Þess er þó að geta að eðlilegt er að túlka ákvæði, er að þessu lúta, tiltölulega frjálslega og t.d. ætla öðru hjóna nokkurn tíma til að afla íbúðar og flytja af heimilinu, sbr. hér 35. gr. frumvarpsins. Með þeim kröfum um samvistaslit og skipan ýmissa mála, sem að framan greinir, er fenginn grundvöllur fyrir hjónin til að meta hvernig skilnaðurinn muni verka í raun og veru; þau fá þá nokkra innsýn í það sem í vændum er ef lögskilnaðar verður leitað. Skilnaður án samvistaslita er á hinn veg með nokkrum óraunveruleikablæ.
    Það er mikill kostur við íslenska skipulagið að hjónin geta leitað lögskilnaðar án þess að þurfa að hlíta tímatakmörkunum fyrir utan ákvæðið um lágmarkstíma frá því að þau fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Það er enn fremur kostur að þau geta hafið samvistir á ný og með því fellt niður leyfi til skilnaðar að borði og sæng með allsendis óformlegum hætti. Er kunnugt um að slíkt gerist hér í reynd í nokkrum mæli.
    Skilnaður að borði og sæng á sér aldalanga hefð hér á landi. Ef ný skipan um þetta reynslutímabil væri lögleidd tæki vafalítið alllangan tíma að kynna almenningi hana. Ekki er kunnugt um að gildandi fyrirkomulag hafi sætt verulegri gagnrýni. Er þetta hvoru tveggja því til framdráttar að eigi verði horfið frá þessu rótgróna skilnaðarúrræði. Hér kemur það enn til að bæði Danir og Norðmenn ætla að halda þessu úrræði. Þótt nokkuð mismunandi leiðir séu valdar í annars vegar vestnorrænum og hins vegar austnorrænum rétti hvað þetta snertir ætti það ekki að koma að sök þar sem markmiðið er sameiginlegt með þessum tveimur úrræðum.
        Með skírskotun til þessa er sú stefna valin í frumvarpinu að halda skilnaði að borði og sæng sem skilnaðargerð svo sem verið hefur.

F. Heimild til að krefjast skilnaðar að borði og sæng í stað lögskilnaðar,

sbr. 3. mgr. 32. gr. og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 60/1972.

    
Lagarökin, sem búa að baki þessum ákvæðum, voru þau að draga úr lögskilnaði sem
ráðinn er í bráðræði.
    Telja verður ákvæðin þarflaus eins og frumvarpið er úr garði garði gert þar sem maki á samkvæmt því jafnan þess kost að takmarka skilnaðarkröfu sína við skilnað að borði og sæng, sbr. 34. gr. frumvarpsins. Með hliðsjón af ofangreindu og í samræmi við niðurstöðu norrænu samstarfsnefndanna er lagt til að ákvæðin verði afnumin.

G. Á samkomulag hjóna um skilnað að vera grundvöllur lögskilnaðar?

     Um þetta efni hafa miklar umræður vaknað síðustu árin. Þegar aukin áhersla er lögð
á hjúskapinn sem frjálst sambúðarsamband karls og konu er rökrétt að álykta að þau geti slitið þessu sambandi með samkomulagi sínu og raunar eigi annað hjóna að geta krafist þess einhliða, en þó þurfi staðfestingar af hálfu almenningsvalds. Í norræna lagasamstarfinu hafa menn verið á einu máli um að samkomulag hjóna um skilnað ætti að vera skilnaðarástæða. Skoðanir hafa verið skiptar um það eitt hvort samkomulag geti verið grundvöllur að lögskilnaði umsvifalaust eða aðeins að skilnaði að borði og sæng, svo sem nú er hér á landi og í Danmörku og Noregi.
     Í sænsku löggjöfinni er það sett fram sem meginregla að samkomulag hjóna sé grundvöllur að lögskilnaði án reynslutímabils. Frá þessu er þó undantekning ef hjón eiga barn undir 16 ára aldri, þar á meðal stjúpbarn. Þá verður lögskilnaður ekki veittur umsvifalaust heldur skilnaður til reynslu. Í ljós er leitt að þessu er svo farið um a.m.k. 60% hjóna sem óska eftir skilnaði. Undantekningarreglan ber því meginregluna ofurliði í lagaframkvæmd.
     Samkvæmt finnsku lögunum frá 1987 verður lögskilnaður án sex mánaða reynslutíma ekki veittur hjónum þótt þau beiðist hans sameiginlega. Skiptir ekki máli hvort hjón eigi börn undir 16 ára aldri eða ekki.
     Dönsku lögin frá 1989 og hin norsku frá 1991 byggjast á óbreyttum lagaákvæðum í þessu efni, þ.e. að samkomulag hjóna verði aðeins grundvöllur skilnaðar að borði og sæng en ekki lögskilnaðar.
     Í þessu frumvarpi er lögð til óbreytt skipan um þetta atriði. Byggist það m.a. á því að samkomulag hjóna verður oft að virða með nokkurri varúð. Að baki kann að leynast þrýstingur annars makans gagnvart hinu. Samkomulagið getur verið liður í að ná fram fjárskiptum eða ákveðinni niðurstöðu varðandi forsjá barna og að því kann að vera hrapað í því mikla tilfinningaróti sem hér ríkir oft og einatt. Sérstök ástæða er til að velja þá leið sem er varfærnislegri þegar hjónabönd hafa staðið alllengi og börnum er til að dreifa. Hér er þess einnig að gæta að lagt er til í frumvarpinu að unnt sé að krefjast lögskilnaðar sex til tólf mánuðum eftir að leyfi var veitt til skilnaðar að borði og sæng. Er það því ekki langur tími sem þreyja þarf.

H. Hjúskaparbrot sem skilnaðarástæða.

     Umræða um hvort viðhalda eigi hjúskaparbroti sem lögskilnaðarástæðu í norrænni skilnaðarlöggjöf hefur verið ofarlega á baugi á síðustu árum. Víðast hvar á Norðurlöndum, þar á meðal hér á landi, fer í vöxt að lögskilnaðar sé leitað með vísan til meints hjúskaparbrots. Hér á landi má ætla að 20–25% lögskilnaða sé veittur á grundvelli ákvæðisins um hjúskaparbrot.
     Sérákvæði um hjúskaparbrot hafa nú verið afnumin í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi.
     Í dönsku lögunum frá 1989 (1991) er hjúskaparbrot lögskilnaðarástæða svo sem verið hefur.
     Vissulega má segja að það skjóti nokkuð skökku við að halda í hjúskaparbrot sem sérgreinda lögskilnaðarástæðu í ljósi þess að sakarreglunni er almennt hafnað í skilnaðarréttinum. Þá má einnig benda á að skv. 34. gr. frumvarpsins getur maki ávallt krafist skilnaðar að borði og sæng án þess að tilgreina þurfi sérgreinda ástæðu. Til viðbótar þessu kemur svo að þrjú Norðurlandanna hafa afnumið þessa lögskilnaðarástæðu. Á móti þessu kemur að ætla má að hér á landi sé það nokkuð almenn afstaða hjá almenningi að hjúskaparbrot sé svo alvarlegt brot á hjúskaparskyldum að hinum aðilanum eigi að vera kræfur lögskilnaður og ekki aðeins skilnaður að borði og sæng. Þá ber einnig að geta þess að ákvæði 39. gr. laga nr. 60/1972 er allmikið beitt í lagaframkvæmdinni.
     Við samningu frumvarpsins hafa orðið þau málalok að greina hjúskaparbrot sem lögskilnaðarástæðu.

I. Aðrar sérgreindar skilnaðarástæður.

1. Lágmarkstími frá skilnaði að borði og sæng til lögskilnaðar.

     Sá tími er nú eitt ár, sbr. 34. gr. laga nr. 60/1972. Í 36. gr. frumvarpsins er lagt til að
greint verði milli þess svo sem var í lögum nr. 39/1921 hvort hjón séu sammála um að leita lögskilnaðar eða ekki. Ef þau eru á einu máli um það er lögskilnaður kræfur sex mánuðum eftir að skilnaður að borði og sæng var veittur, en ella eftir eitt ár. Skilnaður að borði og sæng getur ekki gegnt hlutverki sínu sem reynslu- og sáttaúrræði nema hann taki yfir nokkurt tímabil. Aðilar þurfa tíma til að hugsa ráð sitt og hyggja að ýmsu. Ef samkomulag er milli þeirra um að leita lögskilnaðar eftir hálft ár sýnist rök skorta til þess að girða fyrir að krafa þeirra verði tekin til greina. Hér er lagt til að sama skipan verði tekin upp og samkvæmt dönsku lögunum frá 1989. Finnsku og sænsku lögin kveða svo á að reynslutímabilið sé sex mánuðir. Norsku lögin frá 1991 miða við eitt ár.

2. Ákvæði 35. og 36. gr. laga nr. 60/1972 um samvistaslit sem lögskilnaðarástæðu.

     Þeim er steypt saman í eitt ákvæði, sbr. 37. gr. frumvarpsins, í samræmi við það að
leitast hefur verið við að einfalda skilnaðarákvæðin.

3. Geðveiki sem lögskilnaðarástæða, sbr. 42. gr. laga nr. 60/1972.

     Í frumvarpinu er lagt til að ákvæði 42. gr. laga nr. 60/1972 um geðveiki sem sérgreinda lögskilnaðarástæðu verði afnumið. Dönsku, finnsku, norsku og sænsku lögin hafa afnumið hliðstæð ákvæði, enda er sú niðurstaða í samræmi við mat norrænu samstarfsnefndanna.

4. Hvarf maka, sbr. 37. gr. laga nr. 60/1972.

     Ekki þykir ástæða til að halda í þetta ákvæði, enda er því ekki beitt í lagaframkvæmd
og óraunhæft að jafnaði fyrir hinn makann að leita lögskilnaðar þegar maki hefur horfið. Er nærlægara að maki leiti dómsúrskurðar um að makinn sé talinn látinn, sbr. lög nr. 44/1981.

5. Tvíkvæni (tvíveri), sbr. 38. gr. laga nr. 60/1972.

     Rétt hefur þótt að halda þessu ákvæði efnislega, sbr. 38. gr. frumvarpsins. Ákvæðið
um ógildingu hjúskapar, þegar svona stendur á, dugir að vísu oftast, en hugsanlegt er þó að sú leið reynist torveld og annað hitt að aðili kann fremur að óska eftir því að hjúskap verði lokið með lögskilnaði, m.a. vegna þess að dómstólaleiðin er jafnaðarlega seinfarnari en öflun leyfis til lögskilnaðar.

6. Fangavist annars maka, sbr. 41. gr. laga nr. 60/1972.

     Ekki þykja nægileg rök til að halda þessu ákvæði í lögum og er það lítt notað í framkvæmd. Endurhæfing fanga er mikilvægt sakfræðilegt markmið. Er þetta ákvæði í vissri andstöðu við þá yfirlýstu lagastefnu. Skilnaður að borði og sæng er þá æskilegri lausn ef hugur hins makans stendur til hjúskaparslita.

Athugasemdir um einstök ákvæði VI. kafla.

A. Skilnaður að borði og sæng.

Um 33. gr.

     Greinin samsvarar 31. gr. laga nr. 60/1972. Hér er gert ráð fyrir að samkomulag hjóna
um skilnað dugi sem grundvöllur að leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Samkvæmt 44. gr. frumvarpsins þarf annaðhvort að vera samkomulag um fjárskiptin eða fyrir liggi að opinber skipti séu hafin vegna fjárskipta.

Um 34. gr.

     Þessi grein er nýmæli og felur í sér að annað hjóna getur einhliða krafist skilnaðar að
borði og sæng. Verður gildi 33. gr. frumvarpsins vissulega takmarkað þegar greinar þessar eru bornar saman, en 33. gr. höfðar til þess að hjón leitist við að ráða máli til lykta með samkomulagi.
     Úrlausnaraðili hlýtur að verða að una mati maka sjálfs á því hvort hann telji sig geta haldið áfram sambúðinni, enda er utanaðkomandi torvelt að virða það mál.
    Greinin á sér nokkra samvörun í 32. gr. laga nr. 60/1972, en er til muna einfaldari og ekki er að finna í henni þau sakaratriði sem eru í 32. gr.

Um 35. gr.

     Í 33. gr. laga nr. 60/1972 segir að þegar samvistir takist milli hjóna sem skilin eru að
borði og sæng falli niður réttaráhrif skilnaðarleyfisins. Þetta á einnig við ef samvistir hafa aldrei rofnað. Lögskýring á orðalaginu að „samvistir takist“ hefur valdið nokkrum erfiðleikum. Má um það vísa til hæstaréttardóms 1979, bls. 1369, er felur í sér býsna strangar kröfur til samvistaslita. Réttmætt þykir að kveða nánar á um þetta atriði í lagatextanum sjálfum og draga úr kröfunni um samvistaslit. Er þá annars vegar tekið mið af því að maki þurfi tíma til að afla sér húsnæðis og heimilisaðstöðu vegna flutnings af heimilinu og hins vegar þykir eiga að búa svo um hnúta að hjón hafi tök á að reyna sættir með því að endurvekja samvistir um skamma hríð án þess að réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falli niður. Býr sanngirni hér að baki og viðleitni til að efla sáttahlutverk skilnaðar að borði og sæng. Vissulega er orðalag hér teygjanlegt, en það veitir grundvöll til frjálslegrar túlkunar. Hér er brotið upp á því að vísireglur verði lögfestar, en ógerningur er samkvæmt eðli máls að beita greinimarki sem hnitmiðað sé.

B. Lögskilnaður.

Um 36. gr.

     Greinin er hliðstæð 34. gr. laga nr. 60/1972, sbr. áður 62. gr. laga nr. 39/1921. Í greininni er kveðið á um lágmarkstíma er líða verður frá því að skilnaður að borði og sæng er veittur og fram til þess að lögskilnaður er kræfur. Í ákvæðinu er greint milli þess hvort hjón séu á einu máli um að leita lögskilnaðar eða ekki. Í fyrra tilvikinu er frestur sex mánuðir, en eitt ár í hinu síðarnefnda. Samkvæmt 34. gr. laga nr. 60/1972 er frestur ávallt eitt ár.

Um 37. gr.

     Greinin er hliðstæð 35. gr. laga nr. 60/1972, en fresturinn er styttur úr þremur árum
í tvö ár. Ákvæði 36. gr. laga nr. 60/1972 þykir óþarft við hlið 37. gr. frumvarpsins.

Um 38. gr.

     Greinin er efnislega óbreytt 38. gr. laga nr. 60/1972 og er vikið að henni hér áður.

Um 39. gr.

     Í þessari grein er ákvæði um hjúskaparbrot sem lögskilnaðarástæðu og vísast um það
til almennra athugasemda við þennan kafla frumvarpsins.
     1. og 3. mgr. samsvara 1. og 3. mgr. 39. gr. laga nr. 60/1972. Hins vegar hefur 2. mgr. 39. gr. laganna verið felld niður svo sem áður greinir. 2. mgr. 39. gr. frumvarpsins felur í sér það nýmæli að verknaður, sem á sér stað eftir skilnað að borði og sæng, verði ekki grundvöllur að lögskilnaði. Eftir núgildandi lögum hvílir trúnaðarskylda áfram á hjónum eftir skilnað að borði og sæng, en í norræna löggjafarsamstarfinu voru menn á einu máli um að afnema hana, sbr. dönsku lögin frá 1989 og hin norsku frá 1991.
     Í 3. mgr. er notað orðalagið að krafa sé „sett fram“ í stað þess að í lögum nr. 60/1972 er sambærilegt orðalag að afhenda umsókn. Þykir hið breytta orðalag markvísara, sbr. einnig um þetta 2. mgr. 40. gr. frumvarpsins.

Um 40. gr.

     Þessi grein er hliðstæð 40. gr. laga nr. 60/1972, en er allmiklu víðtækari. Ákvæðið mælir fyrir um lögskilnaðarástæðu sem miðast við að annar maki beitir hitt ofbeldi eða gerist sekt um ósæmilegt afgerli af kynferðistoga gagnvart börnum sem búa hjá hjónunum. Atferlið, sem greinin tekur til, getur falið í sér líkamsárás, sbr. XXIII. kafla almennra hegningarlaga eða verið kynferðisbrot skv. XXII. kafla sömu laga. Þetta atferli er oft ofbeldiskennt, en einnig sumpart ósæmileg kynferðishegðun án þess að beitt sé ofbeldi. Í upphaflegri gerð frumvarpsins var þessum verknaðartilvikum lýst samfellt með almennu orðalagi án sundurgreiningar. Við endurskoðun greinarinnar hefur sifjalaganefnd talið gleggra að greina sérstaklega hvort tilvik um sig, líkamsárás og kynferðisbrot og þykir það marka betur efnisinntak lögskilnaðarástæðunnar.
    Um líkamsárás er hér miðað við að hún sé allalvarleg, bæði þegar litið er til þess hve hættuleg hún er og hverjar afleiðingar hennar séu, þ.e. að hún valdi tjóni á líkama eða heilbrigði, þar á meðal andlegu heilbrigði árásarþolans. Athuga ber hvort um endurtekið ofbeldisverk sé að ræða. Í 2. mgr. felst að gefa skuli gaum að því hvort atferlið sé fallið til að vekja alvarlegan ótta um ofbeldi að nýju. Þetta á m.a. við ef um tilraunaverknað er að tefla. Í þessu sambandi skiptir máli að kanna feril árásarmannsins og andlega hagi hans.
     Minni háttar líkamsmeiðingar falla utan marka ákvæðisins. Er þessu einnig svo farið í dönsku og norsku hjúskaparlögunum sem falla hér í sama farveg. Styðst þetta við niðurstöður í norræna samstarfinu um samræmingu hjúskaparlöggjafar. Um líkamsárásir sem grundvöll að lögskilnaði hafa dönsk og norsk lög samstöðu við 40. gr. frumvarpsins. Hins vegar er kynferðisbrotum bætt við með brýnu orðalagi í 40. gr. frumvarpsins, en þeirra er ekki getið í dönsku og norsku lögunum. Til þess er stofnað með 40. gr. að lögskilnaðarástæða þessi verði rýmri en samkvæmt dönsku og norsku lögunum a.m.k. eftir orðanna hljóðan.
     Greinin er einskorðuð við líkamsárás sem framin er af ásetningi. Gáleysisverknaður fellur utan vébanda hennar, svo sem gáleysisleg stjórn ökutækja, gáleysisleg meðferð eldfimra efna eða leiktækja er leiða til tjóns á líkama eða heilsu.
     Kynferðisbrot eru nefnd í 40. gr. og er hér miðað við afmörkun þeirra brota í XXII. kafla almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 40/1992. Til þessara brota teljast nauðgun og önnur kynferðismök sem greinir á XXII. kafla svo og kynferðisleg áreitni við barn. Þá falla sifjaspell undir hugtakið kynferðisbrot. Kynferðisleg áreitni við barn eða ungmenni var um margt nýmæli sem sérstakt brot samkvæmt lögum nr. 40/1992. Er það atferli sem aukinn gaumur hefur verið gefinn að á síðustu árum. Þykir réttmætt að geta þessa sérstaklega í 40. gr. Vafalaust getur vaknað vafi um afmörkun þess hugtaks. Bíður það stjórnvalda og dómstóla að marka skil í því efni í úrlausnum sínum. Ekki þarf að sýna sérstaklega fram á að barni hafi stafað heilsutjón eða velferðar af verknaði. Þau kynferðisbrot ein, sem framin eru af ásetningi, falla undir greinina.
     Tilraun til verknaðar getur fallið undir greinina, svo sem tilraun til manndráps, líkamsárásar eða nauðgunar. Hlutdeild í verknaði gæti einnig komið til álita ef sérstaklega stendur á.
    Ekki er það skilyrði fyrir því að ákvæðinu verði beitt að maður hljóti refsidóm fyrir verknaðinn og hægt er að beita því þótt viðkomandi sé ósakhæfur.
    Um atlögu að börnum er tekið fram í greininni að hér sé átt við börn sem búi hjá hjónum. Brot gagnvart öðrum börnum á ekki undir greinina. Hér getur ýmist verið um að ræða sameiginleg börn þeirra, þar á meðal kjörbörn, eða ekki, svo sem stjúpbörn, enn fremur fósturbörn þeirra eða börn sem búa þar ella. Með barni er hér átt við barn allt til 16 ára aldurs.
    Verknaður verður vitaskuld að vera sannaður svo að ákvæðinu verði beitt. Sönnunarbyrði hvílir almennt á þeim er krefst lögskilnaðar.
    Ákvæði 40. gr. frumvarpsins er svo sem áður greinir a.m.k. samkvæmt orðanna hljóðan til muna víðtækara en sambærileg ákvæði dönsku og norsku laganna þar sem kynferðisbrotum er bætt hér við. Er ætlandi að þetta horfi til aukinnar verndar innan fjölskyldu, þ.e. fyrir maka og börn, og búa réttlætissjónarmið hér að baki.
    Frestir skv. 3. mgr. 40. gr. til málshöfðunar eða til að krefjast lögskilnaðar hjá stjórnvaldi eru styttir frá því sem er í lögum nr. 60/1972, 40. gr., og er það í samræmi við niðurstöður í norræna löggjafarsamstarfinu.
    Bent er á að skilnaður að borði og sæng er auðfenginn skv. 34. gr. frumvarpsins ef að lögum verður, sbr. nú lög nr. 39/1992, 2. gr., án þess að sérstök ástæða sé tilgreind og þá því fremur ef annað hjóna hefur haft í frammi atferli sem rúmast innan 40. gr. frumvarpsins. Í slíku tilviki er því tveggja kosta völ fyrir þann maka sem krafist getur skilnaðar.

C. Úrlausn um kröfu til skilnaðar.

Um 41. gr.

     Í þessari grein eru fyrirmæli um hverjir leysi úr kröfu um skilnað að borði og sæng
og lögskilnað. Er greininni ætlað að leysa 43. gr. laga nr. 60/1972 af hólmi.
     Ákvæðið byggist á þeirri grunnreglu að í flestum tilvikum eigi að vera unnt að leita skilnaðar hvort sem er hjá dómstólum eða stjórnvöldum. Er það sama meginregla og skv. 43. gr. laga nr. 60/1972. Með greininni er þó stofnað til allmikilla breytinga á úrlausnarvaldi stjórnvalda. Er úrlausnarvald sýslumanna aukið til muna, en gert er ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið verði málskotsstig um úrlausnir sýslumanns.
    Sýslumenn og þeir einir veita leyfi til skilnaðar að borði og sæng skv. 33. gr. frumvarpsins, svo og til lögskilnaðar skv. 1. mgr. 36. gr., þ.e. þegar hjón eru sammála um að leita skilnaðar. Hér er af eðlisástæðum ekki gert ráð fyrir málskoti til dómsmálaráðuneytis og ekki þykja rök til þess að dómstóll fjalli um mál þegar svona stendur á.
    Skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðar samkvæmt öðrum ákvæðum en 33. gr. og 1. mgr. 36. gr. má leita hjá sýslumönnum ef hjón eru sammála um það, en endranær leysir dómstóll úr kröfu aðila um skilnað. Ef hjón greinir á um hvort grundvöllur lögskilnaðar sé til staðar, t.d. skv. 36. gr., sbr. 35. gr., eða skv. 39. gr. frumvarpsins, en óska þó eftir að sýslumaður leysi úr máli, getur sýslumaður beint því til þess hjóna er skilnaðar æskir að það hlutist til um öflun sönnunargagna skv. XII. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, áður en hann tekur afstöðu til þess hvort skilnaður skuli veittur.
    Synjun sýslumanns á úrlausn skv. 2. mgr. 41. gr. getur aðili skotið til ráðuneytis innan tveggja mánaða frá dagsetningu bréfs um synjunina, sbr. og 132. gr. frumvarpsins. Synjun sýslumanns gæti einkum átt sér stað þegar hann teldi vandkvæði á sönnunarfærslu. Þótt dómsmálaráðuneytið felli synjun sýslumanns úr gildi gefur það ekki út skilnaðarleyfi heldur leggur fyrir sýslumann að taka málið til nýrrar meðferðar.
    Synjun stjórnvalds um útgáfu leyfis er ekki því til fyrirstöðu að unnt sé að leggja skilnaðarkröfu fyrir dómstóla. Þetta ákvæði á bæði við um skilnað að borði og sæng og lögskilnað.
     Víða um lönd er úrlausn skilnaðarmála hjá dómstólum einum. Ekki hafa þótt rök til þess að fara þá leið þegar hjón eru sammála um skilnað eða um að leita hans hjá stjórnvaldi. Er á það að líta að stjórnvaldsleiðin er að jafnaði greiðfærari og ódýrari fyrir aðila, auk þess sem hún styðst við langa hefð hér á landi. Ekki verður séð að þessi skipan sé andstæð þjóðréttarsamningnum er Ísland hefur bundist frekar en t.d. norska tilhögunin.
     Í frumvarpi til barnalaga er sýslumönnum ætlaður aukinn hlutur í úrlausnum sifjaréttarmála. Er vafalaust hagræði að því fyrir fólk, er býr utan höfuðborgarsvæðis, að geta leitað til sýslumanns með þessi mál. Auk þess sem það horfir til réttaröryggis að hægt sé að skjóta málum til ráðuneytis. Á það sama við um skilnaðarmál. Þekking sýslumanna á högum fólks í umdæmi þeirra getur hér komið að liði.

D. Sættir milli hjóna.

Um 42. gr.

     Greinin mælir fyrir um sættir milli hjóna vegna fyrirhugaðs skilnaðar. Er henni ætlað að koma í stað 44. gr. laga nr. 60/1972 svo sem henni var breytt með lögum nr. 132/1989.
    Það hefur lengi verið regla íslenskrar skilnaðarlöggjafar að skylt sé að reyna sættir með hjónum áður en skilnaður er veittur. Lengstum hafa prestar annast um sættir, en samkvæmt lögum nr. 39/1921 skyldu ýmist prestar eða sáttanefndir leita sátta milli hjóna, sbr. síðar 44. gr. laga nr. 60/1972. Gilti sú regla allt til þess að lög nr. 28/1981, um breyting á lögum nr. 85/1936, um meðferð einkamála í héraði, afnámu sáttanefndir. Hjúskaparlögum var ekki breytt þá og fjölluðu prestar eða forstöðumenn trúfélaga einir um sættir.
                  Með lögum nr. 132/1989 var bætt úr þessum annmarka. Var þar kveðið svo á að hjón, sem væru utan trúfélaga eða þar sem hvort heyrir til sínu trúfélagi, gætu leitað til yfirvalds um sættir.
    Með sáttum er hjónum, sem hyggja á skilnað, búinn vettvangur til að ræða mál sín við hlutlausan aðila er kannar með viðræðum við aðila hvort grundvöllur sé „að framhaldi hjúskaparins“. Þessu úrræði er ætlað að draga úr því að hrapað sé að skilnaðinum, en sáttasemjara ber að höfða til ábyrgðarkenndar hjóna ekki síst gagnvart ungum börnum þeirra.
    Um gildi sáttaumleitana vegna skilnaða eru vafalaust skiptar skoðanir. Í strjálbýli, þar sem prestar þekkja vel til haga fólks, verða umleitanir prests, ef að líkum lætur, vænlegri en í þéttbýli þar sem persónuleg kynni eru oft minni. Sáttastarfið er því miður oft of seint á ferð ef svo má að orði komast. Sátta er oftast ekki leitað fyrr en djúpstæður ágreiningur hefur myndast milli hjóna.
        Ráðgjöf reynds prests eða forstöðumanns trúfélags getur ótvírætt verið til mikilla bóta. Á það er þó einnig að líta að mikil þörf er á fjölskylduráðgjöf sem veitt sé í sérstökum stofnunum er hafi sérmenntuðum starfsmönnum á að skipa, svo sem lögfræðingum, prestum, sálfræðingum, uppeldisfræðingum, félagsráðgjöfum o.fl. Brýn þörf er einnig á stóraukinni fræðslu um fjölskyldumál, þar á meðal í skólum. Ætti íslensku þjóðfélagi að vera umhugað um úrræði er horfa til fjölskylduverndar og eflingar fjölskyldutengsla. Vantar hér á landi bagalega almenna stefnumörkun í fjölskyldupólitík.
    Í norræna hjúskaparlagasamstarfinu hefur verið um það rætt hvort réttmætt sé að halda í skyldubundnar sáttir. Enn fremur hafa farið fram víðtækar umræður um hvernig haga eigi sáttastarfinu. Þeim skoðunum hefur vaxið fylgi að rök standi ekki til þess að viðhalda skyldubundnum sáttum, heldur beri að veita hjónum kost á að leitað verði um sættir með þeim ef hugur þeirra stendur til þess. Einnig hefur það verið rætt að mikil þörf sé á að koma upp fjölskylduráðgjöf sem hjón eigi greiðan aðgang að með vandamál sín.
    Samkvæmt finnsku og sænsku lögunum frá 1987 og hinum dönsku frá 1989 er horfið frá skyldubundinni sáttatilhögun. Er reglunum breytt í það horf að sáttastarfsemi af hálfu þjóðfélags sé úrræði sem hjón eigi kost á, en þeim sé ekki skylt að nýta sér það.
    Í 42. gr. frumvarpsins er ekki gengið jafnlangt í að afnema skyldubundna sáttastarfsemi eins og í ofangreindum lögum. Hefur sú leið verið valin að greina milli þess hvort hjón eigi börn undir 16 ára aldri eða ekki. Tillitið til barnanna vegur þungt og þykir réttmætt að halda reglunni um skyldubundnar sáttir þegar þau eiga hlut að máli. Er auðsætt að sérstaklega rík ástæða er til þess fyrir hjón að ræða við sáttasemjara þegar þau eiga börn og þjóðfélagshagsmunir bjóða að þá sé stuðlað að sáttatilraunum. Hér er valin leið sem er svipuð norsku lögunum frá 1991 og naut mikils fylgis í norska Stórþinginu.
        Í frumvarpinu er lagt til að sættir verði ekki eingöngu skyldubundnar þegar hjón eiga sameiginleg börn, heldur einnig ef stjúpbarni er til að dreifa, enda fari stjúpforeldri með forsjá barns. Við þessar aðstæður mælir tillitið til barns með því að sátta verði leitað með hjónum svo sem er þegar þau eiga barn saman.
        Sú undantekning er frá ákvæðinu um skyldubundnar sættir að þær eiga ekki við þegar hjón, sem skilin eru að borði og sæng, eru sammála um að leita lögskilnaðar.
     Samkvæmt ofangreindu er það skoðun sifjalaganefndar að ekki séu rök til þess að skylda hjón til að gangast undir sáttaumleitan ef þau eiga ekki ósjálfráða börn, en lögð er áhersla á að hjón eigi þess ávallt kost. Virðist ólíkt sáttavænlegra að hjón óski sjálf þvingunarlaust eftir slíku en að þau séu skylduð til þess. Þeir er annast sáttir fá þá meira ráðrúm til að einbeita sér að því sáttastarfi þar sem frekar er að vænta árangurs.
     Bent er á að biskup Íslands og Prestafélag Íslands hafa í umsögnum sínum um frumvarpið varað við því að hvikað verði frá reglunni um skyldubundnar sættir og bent á að hjónum sé einnig þörf á sáttum þótt þau eigi ekki ósjálfráða börn. Aðrir umsagnaraðilar hafa ekki gert athugasemd við þetta ákvæði.
     Sáttatilraun prests eða löggilts forstöðumanns skal hafa farið fram á síðustu sex mánuðum áður en skilnaðarmál er höfðað eða sett fram krafa um skilnað fyrir sýslumanni. Samkvæmt eðli máls á þessi frestur ekki við ef sýslumaður eða dómari leitar um sættir samkvæmt ákvæðinu.
     Í 7. mgr. 42. gr. er ákvæði sem samsvarar 2. mgr., sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 60/1972. Ákvæðið byggist á þeirri reglu að hjón skuli sækja sáttafund persónulega. Dugir því ekki að fulltrúi maka, t.d. lögmaður, sæki sáttafund. Enn fremur er byggt á því að bæði hjón sæki sáttafund saman. Frá því víkur þó ef erfiðleikar eru á slíku vegna þess að hjón búa fjarri hvort öðru og dugir þá að leitað sé um sættir með hvoru um sig. Ekki þykir raunhæft að setja fram afdráttarlausa reglu um fjarlægð milli heimila hjóna svo sem er í 3. mgr. 44. gr. laga nr. 60/1972. Er þetta atriði háð mati sáttasemjara og síðar þess er leysir úr kröfu um skilnað og fer eftir aðstæðum, svo sem samgöngum og högum maka. Ekki þykir gerlegt að beita sektaviðurlögum þótt maki sinni ekki kvaðningu þegar sátt er skyldubundin, sbr. hins vegar 3. mgr. 44. gr. laga nr. 60/1972. Ef maki er búsettur erlendis þarf ekki að reyna sátt að því er hann varðar.
     Í 8. mgr. er kveðið á um að sáttaumleitan í stofnun um fjölskylduráðgjöf geti komið í stað sáttaumleitunar þeirra sáttamanna sem kveðið er á um í 4. mgr. greinarinnar. Er gert ráð fyrir að hjón geti þá valið milli þess að leita til stofnunar eða sáttamanna skv. 4. mgr.

E. Skilnaðarkjör.

Um 43. gr.

     Greinin kemur í stað 45. gr. laga nr. 60/1972.
     Umleitun um skilnaðarkjör fyrir sýslumanni eða dómara gegnir verulegu hlutverki. Í fyrsta lagi því hlutverki að reyna að koma á samkomulagi milli hjóna um skilnaðarkjör þar sem það er ekki fyrir hendi, en einnig til að staðreyna að raunverulegt samkomulag sé milli hjóna um þau og til að athuga hvort hallað sé á ósanngjarnan hátt á annað hjóna með slíku samkomulagi eða a.m.k. að vekja athygli á því ef slíku er til að dreifa. Ekki sýnist þörf á slíkri umleitun ef hún hefur verið framkvæmd við skilnað að borði og sæng og er kveðið á um að sú skipan skuli einnig gilda eftir lögskilnað, sbr. 2. mgr.
     Á því er byggt að lögmaður geti komið fyrir sýslumann eða dómara og undirritað þau skjöl sem hér er um að ræða fyrir hönd hjóna, enda hafi hann sérstakt umboð til þess.
     Athygli er vakin á því að skv. 107. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, er hægt að vísa sáttaumleitunum í dómsmáli til sýslumanns og ætti það einnig við í hjúskaparmálum sem rekin eru fyrir dómi.
     Samningur hjóna um skilnaðarkjör verður ekki endanlega skuldbindandi fyrr en hann hefur verið staðfestur fyrir sýslumanni eða dómara, sbr. hrd. 1987, bls. 724.

Um 44. gr.

     Hér segir um atriði sem skipa þarf við skilnað, þ.e. um forsjá barna, framfærslu og fjárskipti. Er vísað til viðeigandi ákvæða í lögum um þetta efni, en greinin hefur að öðru leyti ekki sjálfstætt réttarheimildagildi.
     Langan tíma getur tekið að leysa úr deilu foreldra um forsjá barna. Ekki þykir ástæða til að fresta úrlausn um skilnaðarkröfu þótt foreldrar deili um forsjá. Ákvæðið byggist að sjálfsögðu á því að ágreiningur um forsjá sé til meðferðar hjá lögmæltum yfirvöldum í samræmi við ákvæði barnalaga. Sama á við þegar foreldrar deila um framfærslueyri.
     Gert er ráð fyrir að sérstök krafa verði að koma fram hjá öðrum aðila eða báðum um að skilnaður verði veittur áður en leyst verði úr ágreiningi um forsjá eða framfærslueyri.

F. Um gildi skilnaðarkjara vegna skilnaðar að borði og sæng.

Um 45. gr.

     Greinin er sama efnis og 46. gr. laga nr. 60/1972. Áréttað er að til þess að heimilt sé
við lögskilnað að víkja frá skilnaðarskilmálum sem ákveðnir hafa verið við skilnað að borði og sæng þurfi fyrirvari þar að lútandi að hafa komið fram við skilnað að borði og sæng að jafnaði í skilnaðarsamningi hjóna eða verið bókaður í hjónaskilnaðarbók af sýslumanni eða löglærðum fulltrúa hans að ósk beggja hjóna, sbr. þó um framfærslueyri með maka í 50. gr. frumvarpsins.
     Þetta ákvæði stendur ekki í vegi fyrir því að unnt sé við lögskilnað að krefjast breytinga á forsjá barns og meðlagi með því samkvæmt almennum ákvæðum barnalaga vegna breyttra aðstæðna og haga og þarfa barns, sbr. 1. mgr. 35. gr. frumvarps til barnalaga.

Um VII. kafla.

     Í þessum kafla eru einkaréttarreglur um ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu, þ.e. um
gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna og ábyrgð þeirra í þessu efni gagnvart börnum sem á heimili eru. Ákvæðin um framfærsluskyldu í opinberum rétti eru í framfærslulögum, nr. 80/1947.
     Einkaréttarákvæðin um framfærsluskyldu og viðmiðun um efnisleg framlög til framfærslu eru alldreifð í gildandi lögum. Um framfærsluskyldu hjóna í virkum hjúskap eru ákvæði í I. kafla laga nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna. Ákvæðin um framfærslu eftir skilnað eru í V. kafla laga nr. 60/1972, einkum í 49. og 50. gr. Ákvæðin um framfærslu barna eru í IV. kafla barnalaga, nr. 9/1981.
     Í þessum kafla frumvarpsins eru felld saman ákvæði um framfærsluskyldu hjóna bæði meðan hjúskapur varir og eftir skilnað hjóna. Almenna ákvæðið í 46. gr., sbr. 47. gr. frumvarpsins, tekur til framfærsluskyldu gagnvart fjölskyldu í heild sinni, þar á meðal gagnvart börnum. Geyma þau ákvæði frumreglur um framfærsluskyldu og framfærsluframlög. Að öðru leyti fjalla ákvæðin um framfærsluskyldu hjóna sín á milli því að framfærsluákvæði barnalaga eru ekki felld inn í þennan kafla, heldur er lagt til að þau haldist í barnalögum, sbr. og III. kafla frumvarps til barnalaga. Stafar það af því að í barnalögum er fjallað samfellt um framfærslureglur varðandi öll börn. Er óheppilegt að rjúfa þá regluheild.
     Á síðustu árum hefur allmikil umræða orðið um það annars staðar á Norðurlöndum hvort ástæða sé til að halda í gagnkvæma framfærsluskyldu að lögum milli hjóna. Þeir sem vilja rjúfa þessi tengsl setja á oddinn að hjúskapur eigi ekki að vera framfærslustofnun og alls ekki út yfir endimörk sín, þ.e. eftir lögskilnað. Hið síðastnefnda hefur verið meginregla íslenskra sifjalaga allt frá setningu laga nr. 39/1921, um stofnun og slit hjúskapar. Hafa íslensk lög haft í því efni nokkra sérstöðu meðal annarra norrænna laga. Gert er ráð fyrir því í 2. mgr. 50. gr. að þessari reglu verði áfram haldið. Í norræna löggjafarsamstarfinu hefur sú skoðun að fella niður gagnkvæma framfærslu hjóna ekki notið byrjar. Lögð er áhersla á samábyrgð hjóna á afkomu fjölskyldunnar og samheldni innan hennar. Er eðlilegt út frá því grundvallarsjónarmiði að hvort hjóna um sig leggi það af mörkum til heimilisrekstrar og útgjalda hvors um sig sem hæfilegt megi telja, þar á meðal í formi vinnuframlaga á heimili. Frá lagatæknilegu sjónarmiði er örðugt að hverfa frá hugtakinu framfærsla sem merkir skyldu til framlaga. Hvorugt hjóna er þó framfærandi eða framfært öðru fremur og ætti að hverfa frá því orðalagi. Eins og í fyrri lögum er sérstök áhersla lögð á það að vinna á heimili sé ekki síður gilt framlag til framfærslu en peningagreiðsla, sbr. 1. mgr. 47. gr. frumvarpsins.
     Ekki gætir mikilla efnislegra nýmæla í þessum kafla frumvarpsins umfram hina nýju efnisskipan sem rætt er um hér að framan, en ákvæðin eru um margt nokkru einfaldari í sniðum en hliðstæð ákvæði í gildandi lögum.

A. Framfærsluskylda hjóna meðan á hjúskap stendur.

Um 46. gr.

     1. mgr. samsvarar 2. gr. laga nr. 20/1923. Hún geymir ákvæði um framfærslu og afkomu fjölskyldunnar. Sanngirnismælikvarða á að leggja á framlög hvors um sig í þessu efni.
     2. mgr. er sama efnis og 4. gr. laga nr. 20/1923. Segir þar fullum fetum að framlag annars hjóna til sérþarfa hins verði hjúskapareign viðtakanda sem skuldheimtumenn greiðanda geta þá ekki gengið að. Hins vegar verður þetta fé eða ígildi þess ekki séreign viðtakanda nema sérstök heimild sé til þess, þ.e. kaupmáli. Er það tekið fram vegna ummæla í greinargerð fyrir frumvarpi til laga nr. 20/1923.

Um 47. gr.

     1. mgr. samsvarar 1. málsl. 2. gr. laga nr. 20/1923, en er nokkru víðtækari að efni til.
     Í 2. mgr. er ákvæði er samsvarar 3. gr. laga nr. 20/1923 og að meginefni sams konar og það ákvæði.

Um 48. gr.

     Þessi grein fjallar um vanrækslu á skyldum skv. 46. og 47. gr. og hvernig brugðist skuli við því.
     Greinin er sama efnis og 5. gr. laga nr. 20/1923. Við úrlausn um framlög skal beita reglum 47. gr.
     Rétt er að árétta að barnalög gilda almennt um framfærsluskyldu foreldra gagnvart börnum, en með hliðsjón af því að örðugt getur reynst að aðgreina sérstaklega vanrækslu á framfærsluskyldum gagnvart börnum við mat á vanrækslu á framfærsluskyldu skv. 46. og 47. gr. fela ákvæðin í sér heimild til að kveða jafnframt á um framlög til framfærslu þeirra. Sjálfsagt verður þó þessari heimild ekki mikið beitt í framkvæmd þar sem úrskurðarhafi skv. 48. gr. á ekki aðgang að Tryggingastofnun um greiðslur eins og um úrskurði um meðlög með börnum á grundvelli barnalaga.

Um 49. gr.

     Hér segir um úrskurði um framfærslueyri samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Greinin
fjallar um sama efni og 9. og 10. gr. laga nr. 20/1923.
     Framlög skv. 49. gr. ákveða stjórnvöld, sýslumenn, sbr. 1. mgr., en dóms- og kirkjumálaráðuneytið ef úrlausn sýslumanns er skotið þangað, sbr. 132. gr. frumvarpsins. Dómstólum er ekki ætlað að leysa úr þessum málum og er það í samræmi við gildandi lög.
     2. mgr. er sama efnis og 10. gr. laga nr. 20/1923. Samkvæmt ákvæðinu hefur sýslumaður heimild til að breyta samningi hjóna. Þetta er undantekning frá þeirri meginreglu að eingöngu sé heimilt að gera breytingar á samningi með dómi, sbr. 52. gr. frumvarpsins. Styðst sú undantekning við það að ekki er við neinar formreglur að styðjast varðandi samninga hjóna um þessi efni og þau njóta ekki leiðsagnar um gerð þeirra andstætt því sem er við skilnað, sbr. 52. gr.
     Í 4. mgr. segir að aðeins sé hægt að ákveða framfærslueyri skv. 48. gr. fyrir síðasta árið áður en krafa er sett fram. Þykir réttmætt að setja hér tímaskorður, enda er ástæða til að stuðla að því að slíkar kröfur komi tímanlega fram, sbr. hér til hliðsjónar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 20/1923.

B. Lífeyrir með maka eftir skilnað að borði og sæng og lögskilnað.

Um 50. gr.

     Greinin er sama efnis og 49. gr. laga nr. 60/1972. Í upphafi segir þó að gagnkvæm framfærsluskylda haldist eftir skilnað að borði og sæng. Er lagt til að þar sé lögfest ótvíræð fræðiskýring.
    Orðalagi er nokkuð hnikað til varðandi heimild til að úrskurða lífeyri eftir lögskilnað til áréttingar á því að það skuli vera í algerum undantekningartilvikum sem lífeyrir sé úrskurðaður eftir lögskilnað.

Um 51. gr.

     1. og 2. mgr. eru hliðstæðar 1. og 2. mgr. 50. gr. laga nr. 60/1972. Úrskurði sýslumanns skv. 1. mgr. verður skotið til dóms- og kirkjumálaráðuneytis samkvæmt meginreglunni um málskot til æðra stjórnvalds, sbr. 132. gr. frumvarpsins.
     3. mgr. er samhljóða 3. mgr. 50. gr. laga nr. 60/1972. Um það hefur verið allmikið rætt í sifjalaganefnd og í norrænu samstarfsnefndunum hvort kveða ætti enn fremur svo á hér að skylda til greiðslu framfærslueyris falli niður ef sá sem á rétt til hans stofnar til óvígðrar sambúðar, þ.e. að leggja hér að jöfnu hjúskaparstofnun og stofnun óvígðrar sambúðar. Ótvírætt er að ákvæði 3. mgr. 50. gr. laga nr. 60/1972 verður ekki túlkað svo, enda ekki um að ræða framfærsluskyldu milli aðila í óvígðri sambúð eins og er milli hjóna. Eðlilegt þykir að þetta atriði verði tekið til gagngerðar athugunar þegar fjallað verður um heildarlagasetningu um óvígða sambúð. Að svo stöddu þykir ráðlegt að láta við óbreytta skipan sitja.
     Þótt hjúskapur falli niður raknar réttur til framfærslueyris eftir fyrri hjúskap ekki við; hann er fallinn brott endanlega.
     Sýslumaður getur breytt úrlausn sinni um fjárhæð framfærslueyris ef skilyrðum 1. mgr. 49. gr. er fullnægt þótt til grundvallar henni liggi dómur um framfærsluskyldu.

Um 52. gr.

     Greinin er sama efnis og 51. og 54. gr. laga nr. 60/1972.
     Á það hefur reynt í dómi hvernig meta eigi samkomulag hjóna um forsjá barna sem staðfest er fyrir valdsmanni ef dómsmálaráðuneyti tekur ákvæði í skilnaðarbréf um skipan máls í samræmi við það sem aðilar hafa orðið ásáttir um, sbr. hrd. 1976, bls. 656. Þetta gæti einnig gerst að því er framfærslueyri varðar. Þegar skýr gögn liggja fyrir um það að ákvörðun sýslumanns sé beinlínis reist á því sem hjón hafa orðið ásátt um virðist eiga að meta það svo að samningsreglan eigi við að því er breytingu varðar þótt ákvæði sé tekið upp í skilnaðarbréf um þetta efni.

Um eignaskipulag hjúskaparlaga og viðhorf við endurskoðun þess,

sbr. VIII.–XII. kafla.

    
Í VIII.–XII. köflum frumvarpsins er fjallað um eignaskipulagið í hjúskap, eignamynstrið, einstakar eignadeildir, skuldaábyrgð og samninga hjóna. Eru þetta mikilvægir þættir í hjúskaparlögum. Er virða skal hvernig skipa skuli þessum málum þykir nauðsynlegt að gera stutta grein fyrir eignaskipulagi laga nr. 20/1923 (skammstöfuð hjrl.) svo og lítillega erlendra laga. Með þessa greinargerð að bakhjarli verða svo settar fram athugasemdir um hverju ráðlegt þyki að breyta í núgildandi reglum og verður þá jöfnum höndum vikið að ýmsum álitamálum og niðurstöðum í hinni norrænu löggjafarsamvinnu síðustu ára um þessi efni.

A. Nokkur meginatriði í lögum nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna.

     Lögin um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20/1923, eru eftirtekja þeirrar norrænu samvinnu á sviði sifjalaga sem hófst árið 1909. Með norræna lagasamstarfinu var í ríkum mæli komið á lögeiningu á þessu veigamikla lagasviði um Norðurlönd öll. Samningar milli Norðurlandanna um framkvæmd einstakra þátta í þessari löggjöf hafa og stuðlað að greiðri framkvæmd laganna í skiptum þeirra í milli.
     Norrænu lögin um réttindi og skyldur hjóna, er einkum varða fjárhagsmálefni hjóna, vöktu mikla athygli víða um lönd. Þau höfðu það megintakmark að stuðla að jafnstöðu karls og konu innan hjúskapar og gagnvart börnum, svo og að lagalegu sjálfstæði hvors maka um sig.
    Mikilvægt var að samkvæmt lögum nr. 20/1923 skyldi forræði eigna hvors um sig vera í höndum þess hjóna er aflaði verðmætis. Fólst í því gagnger breyting frá fyrri tíðar lögum er ætluðu bóndanum forræði allra eigna hjóna er töldust til fjárfélags þeirra sem svo var nefnt, sbr. lög nr. 3/1900 hér á landi. Jafnframt var í hjrl. mælt fyrir um skipta skuldaábyrgð þótt nokkur dæmi séu um samábyrgð, en samkvæmt fyrri tíðar lögum svaraði fjárfélagið í heild sinni til skulda hjóna að meginstefnu til. Hlutur eiginkonu var næsta ófrjáls og áhættusamur eftir lögunum frá 1900.
    Þá skipti það miklu að lögin frá 1923 leggja að jöfnu, a.m.k. að því er framfærsluframlög varðar, hlut þess sem heima vinnur og hlut hins er leggur fram peninga til heimilishaldsins. Með þessu var til þess stofnað að veita framlagi þess er bundinn er við heimilisstörf, oftast húsfreyju, verðskuldaða viðurkenningu.
    Þótt meginreglan sé sú að hvort hjóna um sig hafi forræði hjúskapareigna sinna samkvæmt lögum nr. 20/1923 þá eru reistar skorður við því í einstaka tilviki, sbr. 20. og 21. gr. og raunar 19. gr. laganna, einkum með þeim hætti að áskilið er samþykki hins makans ef ætlunin er að afhenda, veðsetja eða leigja fasteign sem er í hjúskapareign og fjölskyldan býr á eða notuð er við atvinnurekstur hins hjóna. Sama er um afhendingu og veðsetningu lausafjármuna sem teljast til sameiginlegra búsmuna. Öryggisloki er svo í 22. gr. er tekur mið af því ef neitað er að ófyrirsynju um samþykki. Allt eru þetta ákvæði í þágu fjölskylduverndar.
    Lögin nr. 20/1923 kveða svo á að séreignir geti myndast í hjúskap bæði á þá lund að hjónum sé heimilt að lýsa tiltekin verðmæti séreign með kaupmála og einnig geta gefendur og arfleiðendur mælt svo fyrir að gjöf eða arfur verði séreign, sbr. 23. gr. laganna. Þá eru þess dæmi að séreign sé lögmælt til hlítar, sbr. 18. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, 30. gr. höfundalaga, nr. 73/1972, 6. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966, sbr. og 44. gr. hjrl. Með lögum nr. 10/1962 var hjónum heimilað að stofna til nýrrar gerðar af kaupmálum þar sem unnt var að kveða svo á að verðmæti skyldi verða séreign í lifanda lífi hjóna, en hlíta reglum um hjúskapareignir eftir lát annars þeirra.
    Lög nr. 20/1923 byggjast á því að við skipti eftir lok hjúskapar (og raunar við skilnað að borði og sæng) skuli skírri hjúskapareign hvors maka um sig skipt til helminga, sbr. 2. mgr. 18. gr., en sá maki, sem séreign á, taki séreignarverðmæti að óskiptu, sbr. þó kaupmálagerð þá sem heimiluð var með lögum nr. 10/1962. Frávik eru samt frá þessari reglu, sbr. einkum 51.–55. gr. laganna um endurgjaldskröfur annars hjóna, m.a. vegna þess að hitt hefur rýrt hjúskapareign sína með óhæfilegri háttsemi. Með VI. kafla laga nr. 60/1972 eru veittar frekari heimildir til að víkja frá helmingaskiptareglum, sbr. m.a. 57. gr., um það er helmingaskipti þykja bersýnilega ósanngjörn, „einkum vegna þess að hjúskapur hafi staðið skamma stund og hafi ekki leitt til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu“. Á þetta ákvæði hefur reynt í þó nokkrum dómum Hæstaréttar og úrskurðum skiptaréttar sem mælt hafa fyrir um „skáskipti“. Þá eru ýmis ákvæði í lögum nr. 20/1923, VI. kafla laga nr. 60/1972 og skiptalögum sem veita maka forgangsrétt til nauðsynlegra muna innan þeirra marka sem hann á tilkall til eða jafnvel þótt verðmæti þeirra fari fram úr því sem hann á tilkall til. Er maka veittur réttur til að krefjast útlagningar sér til handa á einstökum munum eftir virðingu. Ástæða er einnig til að benda á ákvæði 60. gr. laga nr. 60/1972 um rétt til leiguíbúðar og er heimilt að ákveða eftir öllum aðstæðum hvort hjónanna haldi áfram leigumálanum og ber að taka tillit til þarfa hjóna og barna sem hvort þeirra um sig hefur forsjá fyrir.
    Frá hinni sérstæðu og skiptu fjárábyrgð hvors maka um sig, sbr. IV. kafla laga nr. 20/1923, eru nokkrar undantekningar, sbr. m.a. 12. gr. um samábyrgð hjóna á samningum sem annað þeirra gerir vegna heimilisþarfa eða þarfa barna, svo og um samninga sem húsfreyjan gerir vegna sérþarfa sinna, en eigi gagnkvæmt og felst í því misrétti sem sjálfsagt er að leiðrétta. Þá veita lögin öðru hjóna heimild til að stofna til samninga á ábyrgð hins í einstaka tilviki, sbr. 14. gr. Hér má einnig benda á það er hjón eiga verðmæti í sameign eða vinna saman skaðaverk, sbr. og t.d. um sameiginlega ábyrgð þeirra á opinberum gjöldum sínum.
    Lög nr. 20/1923 byggjast á því að hjúskapurinn leggi ekki höft á hjón til þess að gera samninga sín á milli eða við aðra menn. Um fyrra atriðið er þess þó gæta að áskilið er að hjón geri kaupmála um gjafir sín á milli eða gjafir gefnar í tilefni af hjúskaparstofnun, enda sé um meiri gjafaverðmæti að ræða en venjulegar tækifærisgjafir, sbr. 30. gr., sbr. og ákvæði 32. og 33. gr. er hnykkja á þessu fyrirkomulagi. Stafa þessi ákvæði af því að hætta er á málamyndagerningum og að vegið sé gegn hagsmunum skuldheimtumanna með óheftri heimild til gjafagerninga. Athyglisvert er í þessu sambandi ákvæði 31. gr. er heimilar maka, sem haft hefur tekjuafgang á umliðnu almanaksári, að afhenda hinu endurgjaldslaust helming af tekjuafgangi án þess að til þess þurfi kaupmála, enda sé það gert fyrir lok næsta árs. Mun þessa ákvæðis þó lítt hafa gætt í lagaframkvæmd.
    Þegar hvort hjóna um sig hefur forræði á eign sinni og þar á meðal rétt til að stofna til fjárskuldbindinga getur verið hætta á því að annað misfari með heimildir sínar, hinu hjóna og fjölskyldunni í heild sinni til tjóns. Ýmis ákvæði eru í lögunum sem eiga rót að rekja til tillits til þessa. Hér má m.a. benda á almenna ákvæðið í 19. gr. sem býður hvoru hjóna um sig að fara svo með hjúskapareign sína að hinu verði eigi til tjóns vegna óhæfilegra athafna þess. Enn má benda á endurgjaldskröfur, sbr. 51.–54. gr., er áður var getið, og svo á ákvæði í VI. kafla hjrl. um slit á fjárfélagi, án þess þó að til skilnaðar komi. Raunar má einnig minna á reglurnar í I. kafla er varða m.a. úrræði til þess að ákvarða framfærsluframlög ef misbrestur verður í því efni af hendi annars hjóna.
     Lög nr. 20/1923 eru reist á ákveðnu eignamynstri. Meginreglan er sú að verðmæti, sem maki á við stofnun hjúskapar og eignast síðar, verður hjúskapareign hans.
     Hins vegar veita lögin hjónum svigrúm til að velja sér annað eignamynstur að nokkru eða öllu með því að lýsa nokkrar eða allar eignir séreignir. Til þess er áskilinn kaupmáli sem skal vera skriflegur og skráður í kaupmálabók, sbr. 37. og 38. gr. Í 29. gr. laganna, sbr. lög nr. 10/1962, er það þó bundið hvers konar séreignaskipan hjónum er völ á. Þótt tilhögunin um hjúskapareignir sé frávíkjanleg eru samkvæmt þessu reistar skorður í lögunum við því hvert séreignamynstrið geti orðið og er tæmandi talning á því efni í þeim lagaákvæðum sem greind voru. Þrátt fyrir þetta er hjónum samt veitt nokkuð víðtækt færi á að skipa fjármálum sínum eftir því sem þau telja sér henta. Rétt er að benda á að réttindi þau, sem 2. mgr. 17. gr. hjrl. víkur að, hafa nokkra sérstöðu. Þá nefna lögin ekki sérstaklega þann möguleika að hjón eigi verðmæti í sameign, en á slíkt getur vitaskuld reynt.

B. Fáein atriði um löggjöf um fjármál hjóna utan Norðurlanda.

     Lögum um fjármál hjóna er fyrir komið með margvíslegum hætti ef litið er til sifjalaga utan Norðurlanda. Oft er þar greint milli þrenns konar meginkerfa. Í fyrsta lagi að eignir hjóna verði sameign þeirra, í öðru lagi að lögmælt sé algert séreignaskipulag og í þriðja lagi svonefnt „blandað kerfi“. Dæmi um hið síðastnefnda er að forræðisreglur séu svipaðar og í löndum sem byggja á séreignakerfi, en beitt sé helmingaskiptum að meginstefnu við fjárskipti við lok hjúskapar sem er meginatriði í sameignarkerfi og jafnframt kann hjónum að vera heimilað að lýsa einstök verðmæti séreignir með kaupmála. Er sýnilegt að norræna sifjalagamynstrið fellur í þennan síðastgreinda flokk. Innan allra þessara kerfa geta verið margvísleg tilbrigði. Til dæmis kunna að vera mismunandi reglur um forræði og skuldaábyrgð í lögum sem reist eru á sameignarskipulagi að meginstefnu. Í lögum, sem byggjast á séreignaskipulagi, geta t.d. einnig verið sérstakar reglur er takmarka forræði á einstökum eignum, sérstaklega fasteign sem er bústaður fjölskyldu, svo og innanstokksmunum. Við þá skipan tengjast oft víðtækar reglur um framfærslueyri sem öðru hjóna er skylt að leggja hinu til eftir skilnað, jafnvel ævilangt. Í lagakerfi, sem svipar til norræna skipulagsins, geta líka verið mismunandi tilbrigði, t.d. varðandi svigrúm hjóna til samninga sín á milli og um val á einstökum flokkum séreigna. Ástæða er til að nefna að í lögum um fjármál hjóna, sem Vestur-Þjóðverjar settu árið 1957 og byggjast í veigamiklum greinum á norræna kerfinu, er sá meginmunur á að þau verðmæti, sem hjón flytja í búið í upphafi, eru ekki andlag helmingaskiptareglunnar við slit hjúskapar, sbr. einnig spænska og franska kerfið. Það er því aðeins hin skíra eignaaukning meðan á hjúskap stendur er skiptist, a.m.k. að meginstefnu til (aukningarreglur svonefndar).
     Benda má á að mörg lönd, sem búa við breska lagahefð, reisa hjúskaparlöggjöf sína á séreignakerfi með víðtækum reglum um framfærslueyri til þess maka sem hlýtur minni hlut við fjárskiptin. Þetta á við um mörg, en alls ekki öll, ríki Bandaríkjanna. Flest ríki í austurhluta Evrópu hafa hins vegar byggt löggjöf sína á sameignarskipulagi.

C. Endurskoðun norrænu laganna um fjármál hjóna og umræður er að því lúta.

    Endurskoðun norrænna laga um fjármál hjóna hefur staðið síðan á sjötta áratugnum, en síðustu fundir voru haldnir 1987. Norrænu sifjalaganefndirnar hafa lagt þar fram hugmyndir að breytingum og víðtækar umræður hafa farið fram um það efni. Reglur um fjármál fólks í óvígðri sambúð hafa einnig verið til meðferðar svo sem áður greinir. Um óvígða sambúð má einkum benda á sænsk lög frá 1980 er varða fyrst og fremst húsnæði sambúðarfólks.
        Norðurlandaráð hefur sett fram óskir um að þess verði freistað eftir föngum að ná samstöðu meðal Norðurlandaþjóða um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á hjúskaparlöggjöf.
    Norrænu sifjalaganefndirnar hafa verið á einu máli um að ekki sé tímabært að hvika frá þeim megingrundvelli sem núgildandi lög um fjármál hjóna eru reist á. Sá kostur var tekinn til gagngerðrar umræðu að hverfa að algeru séreignaskipulagi, sérstaklega með hliðsjón af því að nú aflar meiri hluti giftra kvenna sér peningatekna með vinnu utan heimilis. Á slíkri tilhögun eru þó auðsæir ágallar þar eð hætt er við að sá aðilinn, sem minni eignir á, fari út úr hjúskap með skarðan fjárhlut. Við þessu mætti að vísu sjá með víðtækum reglum um framfærslueyri til þessa maka eftir lok hjúskapar. Slíkt fyrirkomulag er þó annmarkakennt og er það andstætt hugmyndum þorra manna á Norðurlöndum um að hjúskapur verði framfærslustofnun út yfir endimörk sín. Í norrænu sifjalaganefndunum var einnig gefinn gaumur að aukningarreglu vestur-þýskra hjúskaparlaga, sbr. og t.d. franskan og spænskan rétt. Það fyrirkomulag var ekki talið heppilegt á Norðurlöndum, m.a. með hliðsjón af því að hjónaefni hafi naumast slíka hirðu á fjármálum sínum þegar til hjúskapar er stofnað að þau semji skrár um eigur sínar. Getur slíkt fyrirkomulag haft í för með sér margvíslegar sönnunarflækjur og mundi væntanlega verða torvelt í framkvæmd.
        Ekki hefur verið verulegur áhugi á sameignarskipulagi, en þó hefur verið lögð áhersla á að vissulega geti sameign myndast með hjónum innan hins norræna lagakerfis og hlutdeild hjóna hvors um sig í henni kann þá t.d. að verða hjúskapareign þess. Lögin sjálf víkja ekki að slíku, en málið er leyst sumpart á grundvelli lagaákvæða um fjármál hjóna og sumpart með hliðsjón af almennum reglum um sameignir, en þær eru raunar ekki skráðar hér á landi, andstætt því sem er t.d. í Noregi. Eru athyglisverðir dómar norskra dómstóla um að heimavinnandi húsfreyja geti með starfi sínu á heimili eignast verðmæti að sameign með bónda sínum án þess að peningaframlag komi til af hennar hendi þar sem starf hennar á heimili leggi grundvöll að því að bóndinn geti stundað tekjugæf störf. Á þetta ekki síst við um rétt til útlagningar verðmæta við skipti vegna skilnaðar og andláts.

D. Nánar um atriði sem upp hafa komið við endurskoðun laganna.

    Lögin um fjármál hjóna hafa nú gilt í nálega 70 ár lítið breytt og hafa því staðist vel tímans tönn. Þeir sem stóðu að samningu laganna voru vissulega framsýnir menn. Þeir sáu fyrir að sá tími nálgaðist að giftar konur mundu leita í auknum mæli út á hinn almenna vinnumarkað, m.a. vegna þess að þeirra biðu meiri menntunarkostir en áður og ýmiss konar starfsþjálfun. Segja má að helsti galli við norrænu hjúskaparlöggjöfina hafi frá upphafi verið sá að konum var lögmæltur forræðisréttur yfir hjúskapareign sinni, en ekki var í mörgum tilvikum um nein veruleg verðmæti að ræða sem konan átti að hjúskapareign. Lögin stuðluðu lítt að því að hjúskapareign gæti myndast hjá því hjóna sem vann ekki tekjugæf störf, sbr. þó 31. gr. laga nr. 20/1923, en hennar gætir mjög lítið í lagaframkvæmd. Uppi hafa að vísu verið hugmyndir um að skipta ætti tekjum hjóna í tvennt jafnskjótt og þeirra væri aflað, en slíkt er þó miklum örðugleikum bundið. Þá hafa verið settar fram skoðanir um að heimavinnandi aðilinn ætti að fá laun frá ríkinu, t.d. gegnum almannatryggingar, fyrir starf sitt á heimili. Með því væri í reynd fólgin viðurkenning á hinum mikilvægu störfum á heimili og þá fyrst yrði aðila veitt völ tveggja aðgengilegra kosta, heimavinnu eða útivinnu. Inn í þessa umræðu kemur einnig til skoðunar hvernig haga eigi sköttum hjóna. Athyglisvert er að nú þegar meiri hluti giftra kvenna vinnur tekjugæf störf utan heimilis eiga lögin um fjármál hjóna raunverulega betur við en áður var því að með vinnutekjum hvors hjóna um sig skapast einmitt grundvöllur að hjúskapareignum hvors um sig. Hitt er það að tekjur útivinnandi kvenna eru oft miklu lægri en karlmanna.
    Vissulega hefur þjóðfélagið tekið miklum félagslegum breytingum sl. 70 ár er gefa verður gaum að við endurskoðun laga um fjármál hjóna. Þegar lögin voru sett var miklu fátíðara en nú að giftar konur ynnu utan heimilis. Heimilin bjuggu þá meir að sínu, heimilið var framleiðslustofnun og þjónustustofnun í mun ríkara mæli en nú er. Fjölskyldur voru barnfleiri en nú. Uppeldi barna fór og meira fram á heimilunum. Verkefni og viðfangsefni heimilanna eru því ekki þau sömu og áður. Hér verður einnig að hafa í huga að skilnaðir eru miklu tíðari en var þegar lögin um fjármál hjóna voru sett. Hefur athygli manna því beinst í auknum mæli að þeim ákvæðum laganna er varða fjárskipti við skilnaði. Í reynd er velsæld meiri en áður og hjón eiga meiri eignir.
    Viðhorf um félagsleg málefni hafa tekið stakkaskiptum síðustu áratugina. Jafnréttisskoðunum hefur aukist fylgi og því viðhorfi að hjúskapurinn eigi ekki að vera framfærslustofnun eins og oft er tekið til orða, heldur frjálst samband karls og konu þeim til lífsfyllingar og þroska. Sjálfstæði hvors hjóna um sig gagnvart hinu er grein af þessum meiði. Hvorugt á að vera hinu háð. Umræður um jafnstöðu hjóna hafa sett mikið mark á endurskoðun laga um fjármál hjóna upp á síðkastið. Er þess að geta að jafnréttissjónarmið eru vissulega grunntónn laga nr. 20/1923 þótt frá því víki, sbr. t.d. 12. gr. laganna. Sifjalaganefnd hefur gefið tilliti til jafnstöðu maka mikinn gaum við endurskoðun laganna. Nefndin telur að því stefnumiði að hjón njóti sem mest sjálfstæðis í fjármálum sínum og þó með samábyrgð sé að höfuðstefnu vel borgið með núverandi skipulagi. Vissulega má segja að við algert séreignaskipulag njóti tillit til sjálfstæðis hvors maka um sig sín betur, en á því skipulagi er sú brotalöm sem áður greinir og felst í því að það hjóna, sem síður á þess kost að bæta eign sína meðan hjúskapur varir, stendur oft höllum fæti við slit slíks hjúskapar. Í því sambandi er sifjalaganefnd eindregið þeirrar skoðunar að ekki sé réttmætt að taka upp víðtækari reglur en nú eru í hjúskaparlögum um framfærslueyri til handa maka eftir lögskilnað.
    Almennt fjármálaskipulag hlýtur að taka mið af þeim skoðunum sem uppi eru meðal almennings um skipan þessara mála og af því hvaða skipulag muni henta best þörfum þorra hjóna. Vissulega væri æskilegt að stofna til víðtækrar félagslegrar könnunar á því hvernig viðhorf almennings séu til þessara mála og m.a. að leggja fyrir menn ýmsa kosti um breytta skipan þeirra. Á þessu stigi er ekki völ á slíkri rannsókn.
    Við endurskoðun hjúskaparlöggjafar ber vitaskuld að hafa í huga stóraukið samfélagslegt liðsinni við fjölskyldur, einkum með almannatryggingalöggjöf og öðrum úrræðum velferðarþjóðfélagsins.

Um VIII. kafla.

     Ákvæðum þessa kafla er ætlað að að veita yfirlit yfir hið almenna skipulag á fjármálum hjóna og tengsl hinna einstöku eignadeilda.

Um 53. gr.

     Í þessari grein er eignamynstri í hjúskap lýst samfellt, þ.e. greindar eru til yfirlits þær
eignadeildir sem til greina koma. Hér er ekki um efnisleg nýmæli að ræða, en heppilegt þykir að hefja þennan kafla um fjármál hjóna með slíku yfirliti um eignadeildirnar sem gegnir eins konar kynningarhlutverki. Hugtökin, sem hér ræðir um, eru ekki skýrgreind, en efni þeirra er lýst í greinunum næst á eftir, sbr. 54. gr. um hjúskapareignir, 55. gr. um séreignir, 56. gr. um sameignir og 57. gr. um réttindi með persónulegu ívafi. Nánari ákvæði eru í IX. og XI. kafla.

Um 54. gr.

    Greinin svarar til 1. mgr. 17. gr. hjrl. Eignir eru hjúskapareignir nema heimildir séu til annars. Sá er heldur því fram að tiltekið verðmæti sé ekki hjúskapareign hefur sönnunarbyrði fyrir því. Hugtakið hjúskaparréttur, sem vikið er að í 1. mgr. 17. gr., er ekki notað í frumvarpinu þar eð það hefur ekki verulegt sjálfstætt gildi.

Um 55. gr.

     Í þessu ákvæði er greint samfellt hvernig séreign geti myndast, þ.e. a) með kaupmála,
b) fyrir ákvæði gefanda eða arfleiðanda og c) með því að lög mæli svo að tiltekið verðmæti sé séreign. Um a vísast til XI. og XII. kafla frumvarpsins og um b og c til 77. gr. og 94. gr. frumvarpsins og til einstakra lagaákvæða.

Um 56. gr.

     Þetta ákvæði er að formi til nýmæli, en með því er lagt til að örugg fræðiskýring verði
lögfest. Sameignir geta vissulega myndast í hjúskap svo sem vegna framlaga beggja hjóna til kaupa á fasteign eða vegna þess að þau erfa sameiginlega tiltekna eign eða er gefin hún sameiginlega. Í lagaframkvæmd getur raunar verið örðugt að skera úr hvort t.d. brúðkaupsgjöf verði hjúskapareign annars eða sameign beggja. Ef eign er sameign hjóna verður eignarhlutdeild hvors um sig hjúskapareign nema sérstök heimild sé til að telja hana séreign. Einstakar réttarreglur um sérstakar sameignir geta átt hér við, en virða verður það mál með varúð því að í þessu efni ganga reglur hjúskaparlaga fyrir hinum almennu reglum, sbr. um slit á sameign og ráðstöfun á eignarhluta. Arður af sameign yrði þá einnig jafnaðarlega hjúskapareign í réttu hlutfalli við eignarhlutdeild og ber þá hjónum með hliðstæðum hætti að svara til skatta og skyldna og útgjalda vegna viðhalds o.fl.

Um 57. gr.

     Þessi grein samsvarar 2. mgr. 17. gr. hjrl. Persónuleg réttindi eða réttindi með persónulegu ívafi verða svo sem áður almennt hjúskapareign viðkomandi rétthafa, en þó svo að gæta verður hér sérreglna um hver einstök réttindi og ganga þau fyrir hinum almennu reglum hjúskaparlaga um hjúskapareignir. Höfundalög, nr. 73/1972, 30. gr., mæla t.d. svo fyrir að réttur til hugverka skuli vera séreign höfundar og verði því ekki raskað með kaupmála. Auk höfundaréttinda falla undir þessa grein ýmis framfærslu- og lífeyrisréttindi og t.d. bótaréttindi vegna miska eða þjáninga eða vegna skertrar starfsorku til frambúðar. Vísast um þetta til 102. gr. frumvarpsins sem geymir skiptareglu er varðar þessi réttindi.
     Réttindi þau, sem greinin tekur til, eru sérstaks eðlis þar sem persónuþáttur þeirra er mjög ríkur. Um sum þeirra er fjallað í löggjöf, en önnur eru ólögmælt. Um lífeyrisréttindi, sem stafa frá starfi í þágu annarra en opinberra aðila, er þess að geta að tilhögun þeirra er næsta margbreytileg og verður að virða þau eftir þeim ákvæðum sem samningar um þau mæla fyrir um. Í fræðiritum um sifjarétt og skaðabótarétt er mikið fjallað um þessi réttindi og annars staðar á Norðurlöndum hafa allmargir dómar gengið um þessi réttindi og stöðu þeirra í sambandi hjóna sín á milli, einkum við slit hjúskapar.

Um IX. kafla.

     Í þessum kafla eru ákvæði um forræði maka á eign sinni bæði almennt og svo um þær
skorður sem ráðstöfunarheimild eru settar. Meginreglurnar eru hinar sömu og í lögum nr. 20/1923, en ýmsu er þó öðruvísi skipað svo sem gerð verður grein fyrir hér síðar.
     Í frumvarpinu er ekki tekin afstaða til þess í hverjum mæli reglur þessa kafla séu frávíkjanlegar. Byggt er á því að hjón geti ekki samið sig undan þeim, t.d. svo að fasteign verði að vísu hjúskapareign, en þeim maka, sem eignina á, sé heimilt að selja hana án samþykkis hins þótt fjölskyldan búi á eigninni, sbr. 60. gr. Hitt er það að samþykki er hægt að veita fyrir fram. Telja verður enn fremur að gefanda eða arfleiðanda sé eigi heimilt að kveða svo á að gjöf eða arfur hlíti ekki ákvæðum þessa kafla um takmarkanir á forræði fyrir eign. Gefandi eða arfleiðandi geta mælt svo fyrir, sbr. 77. gr., að gjöf eða arfur verði séreign viðtakanda, en t.d. ekki að gjöf eða arfur verði hjúskapareign M er ekki hlíti ákvæðum um samþykki K vegna sölu eða veðsetningar.

A. Almenn ákvæði.

Um 58. gr.

     Í 1. mgr. 58. gr. er meginreglan um forræði maka á eignum sínum og heimild hans til
samningsgerðar almennt, sbr. hins vegar 68. gr. um samninga annars hjóna sem er ætlað að skuldbinda hitt. Í hjúskapnum á að ríkja frjálsræði til forráða eigna og til samningsgerðar. Það er eitt af meginauðkennum á norrænu hjúskaparlöggjöfinni að búa maka efnahagslegt sjálfstæði eftir föngum og veita honum m.a. svigrúm til umsvifa í atvinnurekstri og til að verja eignum sínum til að ná þeim markmiðum sem honum eru hugleikin, að aðgættum skyldum hans við fjölskyldu. Annar þátturinn og raunar grein á sama meiði er svo hin sjálfstæða skuldaábyrgð. Hvort hjóna ber ábyrgð á sínum skuldum hvort sem þær stafa frá löggerningum, bótaskyldu atferli o.fl. Segir um það í X. kafla frumvarpsins, sbr. 67. og 68. gr.
     58. gr. á við um samninga annars maka við þriðja mann, en um samningsgerð hjóna sín á milli eru fyrirmæli í 71. gr. frumvarpsins. Vissulega geta hjón staðið sameiginlega að samningsgerð við þriðja mann og verða þá skuldbundin vegna þessa skv. 58. gr.

Um 59. gr.

     Ákvæðið svarar til 19. gr. hjrl. og svo að sínu leyti ákvæða I. og VII. kafla frumvarpsins.
     Það er almenns eðlis, en þó stefnumarkandi. Það geymir undirstöðureglu er taka má mið af þegar meta skal hvort eign sé skert svo að fjárslitakrafa verði uppi höfð eða endurgjaldskrafa við skipti.

B. Takmarkanir á forræði maka yfir eign sinni.


Almennar athugasemdir um 60. og 61. gr.

     Þessar greinar samsvara 20. og 21. gr. hjrl. 60. gr. frumvarpsins reisir skorður við forræði maka á fasteign eða réttindum yfir fasteign ef fjölskyldan býr á henni eða hún er ætluð til þeirra nota eða til atvinnurekstrar annars eða beggja. 61. gr. frumvarpsins varðar hins vegar innbú á sameiginlegu heimili og muni sem ætlaðir eru til persónulegra nota eða til sameiginlegs atvinnurekstrar. Takmarkanir skv. 60. gr. eru fólgnar í því að áskilja skriflegt samþykki þess maka sem ekki á eignina ef ætlunin er að afhenda hana, leigja, byggja eða veðsetja. Í 61. gr. eru svipaðar takmarkanir á ráðstöfun varðandi innbú o.fl.
     Víða um lönd eru sérstakar reglur settar um fasteignir og fasteignaréttindi þar sem fjölskyldan býr, þar á meðal um leigusamninga í þágu fjölskyldu er býr í leiguhúsnæði. Sums staðar er svo fyrir mælt að þessi verðmæti og innbú séu sameign hjóna og verða bæði hjón þá að standa að öllum samningum um þau. Í norrænum rétti er hins vegar farin sú leið að áskilja samþykki þess maka, sem ekki á eignina, til ýmissa löggerninga um hana. Slík úrræði eiga rót að rekja til þess hversu nauðsynlegt er að vernda fjölskylduna og stuðla að samráðum hjóna um íbúðarhúsnæði og innanstokksmuni á heimili sem eru grundvallarmál hjá hverri fjölskyldu. Nefna mætti að meðal þeirra hugmynda, sem uppi hafa verið, er að sporna við því í lögum að þessi verðmæti verði gerð að séreign maka, en það skiptir verulegu máli eftir hjrl. eins og þau eru nú vegna þess að takmarkanirnar eru bundnar við verðmæti sem eru hjúskapareignir og taka ekki til séreigna. Í 60. og 61. gr. frumvarpsins er lagt til svo sem síðar greinir að áskilnaður um samþykki maka taki einnig til verðmæta sem eru séreign.

Um 60. gr.

     Þessi grein er hliðstæð 20. gr. hjrl.
     Í henni eru ýmis nýmæli:
    Ákvæði 20. gr. hjrl. er einskorðað við fasteign sem er hjúskapareign annars hjóna, en 60. gr. tekur einnig til fasteignar sem er séreign. Að baki ákvæðinu býr það sjónarmið að vernda fjölskylduna. Henni er það vitaskuld mikið hagsmunamál að samráð séu höfð um ráðstöfun á fasteign sem ætluð er til búsetu fyrir hana eða er notuð við atvinnurekstur beggja hjóna eða hins. Það verndarsjónarmið á einnig við þótt fasteignin sé séreign annars hjóna. Styðst þessi breyting við traust lagarök og er ekki fólgin í henni óviðhlítandi skerðing á séreignareglum. Greinin spornar ekki við því að skuldheimtumenn þess hjóna, sem fasteignin tilheyrir, leiti fullnustu í henni og t.d. að hún sé seld á nauðungaruppboði. Hún girðir ekki heldur fyrir að eignarnám verði gert í eigninni eða réttindi yfir henni verði hefðuð.
        Hafa ber í huga að hugsanlegt er að hjónin séu sameigendur fasteignar eða fasteignaréttinda. Þarf þá atbeini þeirra beggja beinlínis til að koma þannig að bæði verði samningsaðilar ef ráðstafa á eigninni. Það hjóna, er samþykkir löggerning skv. 60. gr., verður hins vegar ekki aðili hans og ber ekki ábyrgð á efnd hans.
    Í greininni er mælt svo fyrir að samþykki skuli vera skriflegt. Er munnlegt samþykki því ekki fullnægjandi. Samþykki er oftast skriflegt nú, en þess er ekki lagaþörf svo sem 20. gr. er úr garði gerð, sbr. þó að samþykkið þarf að vera skriflegt ef þinglýsa á löggerningi. Ekki þarf samþykkið að vera ritað á skjal sem löggerningur er ritaður á þótt slíkt sé tíðast. Sá sem samþykkir þarf að fá fræðslu um efni samnings og m.a. um samningskjör. Er það forsenda fyrir því að honum sé kleift að meta hvort samþykki verði veitt. Heppilegast er að samþykki sé ritað á skjalið því að þá fer sjaldnast á milli mála að sá er samþykkir hafi átt kost á að kynna sér efni löggerningsins. Endranær gæti þetta atriði valdið ágreiningi. Ekki er áskilið að samþykki sé ritað við votta, en heppilegt er að svo verði gert.
    Í 60. gr. er mælt fyrir um samþykki maka til að segja upp húsaleigusamningi þar sem fjölskyldan býr eða er notað við atvinnurekstur beggja hjóna eða annars. Lagt er til í 60. gr. að framleiga verði einnig háð samþykki hins makans. Með henni getur verið þrengt að fjölskyldunni og henni bökuð óþægindi, auk þess sem það skiptir hana máli hver framleigutakinn er. Í 20. gr. hjrl. er ekki vikið að uppsögn húsaleigusamninga.
    Þá kveður 60. gr. enn fremur á um samþykki vegna afhendingar á hlutabréfum eða öðrum eignarskilríkjum sem tengjast húsnæði þar sem fjölskyldan býr eða er ætlað til þeirra nota. Hugsanlegt er að hlutafélag sé um eignarhald að íbúð og felur afhending hlutabréfa þá í sér að eign hverfi úr eignarráðum afsalanda að nokkru eða öllu. Er eðlilegt að áskilja samþykki um slíka afhendingu. Um önnur eignarskilríki kann að gegna svipuðu máli, sbr. t.d. kaupleigusamninga. Þótt eignin sé sameign maka og þriðja manns er þörf á samþykki hins makans ef sá maki, sem á eignina með öðrum, vill afhenda, veðsetja eða leigja eignarhluta sinn. Er þessa getið sérstaklega í 1. mgr. 62. gr.
    60. gr. kveður svo á að samþykkis sé þörf ef fasteign er notuð við atvinnurekstur beggja eða hins makans. Er það sama regla og í 20. gr. hjrl.
    60. gr. tekur m.a. til sumarbústaðar sem ætlaður er fyrir fjölskyldu þótt hún búi þar um takmarkaðan tíma ár hvert. Ef ytri ummerki sýna að fjölskylda sé afhuga því að nota bústaðinn í þessu skyni er hugsanlegt að hann falli utan marka 60. gr. Húsnæði til annarra frístundaiðkana, svo sem veiðiskáli, fellur ekki undir 60. gr. Ætlunin er að bújarðir falli undir greinina, en hins vegar ekki óbyggðar lóðir.
     60. gr. á við þótt það sé aðeins hluti fasteignar sem ráðstafa á eða binda með löggerningi. Er það áréttað í 1. mgr. 62. gr. M á t.d. hæð í húsi þar sem fjölskyldan býr, en einnig rishæð í sama húsi. Afhending, veðsetning og leiga á rishæðinni er þá einnig háð samþykki, sbr. hrd. 1952, bls. 629.
     Það er ekki eingöngu húsnæðið sem slíkt er fellur undir 60. gr., heldur einnig landið er því fylgir. Ef ætlunin er að selja eða veðsetja (leigja) hluta af slíku landi eða lóð er samþykkis almennt þörf.
     Bent er á að um hlutabréf og eignarskilríki er aðeins vikið að samþykki við afhendingu þessara skilríkja, sbr. hins vegar um fasteignir, þar sem kveðið er á um afhendingu, veðsetningu, leigu og byggingu jarðar. Þykir ekki ástæða til að láta ákvæðið taka til annars en afhendingar þessara skilríkja. Að því er fasteignir varðar geta eignarhöft önnur en þau, sem nefnd eru sérstaklega, eftir atvikum fallið hér undir, t.d. samningur um malartöku, vatnstöku eða umferðarrétt um fasteign.
     Fébætur, eignarnámsbætur eða tryggingarfé, er stafar frá eða tengist fasteign, falla ekki undir 60. gr. að því er ráðstöfunargerninga varðar.

Um 61. gr.

     Hún samsvarar 21. gr. hjrl.
     Hér eru ýmis nýmæli:
    Í 61. gr. er sleppt sérákvæði 21. gr. um ófjárráða aðila, sbr. almenna ákvæðið í 3. mgr. 62. gr.
    Greinin mælir svo fyrir að samþykki skuli vera skriflegt, sbr. athugasemdir við 60. gr.
    Þá er sú meginbreyting fólgin í 61. gr. að ákvæðið á jafnt við hvort sem verðmæti er í hjúskapareign eða séreign þess maka er að ráðstöfun stendur. Á 61. gr. samstöðu með 60. gr. að þessu leyti svo sem áður greinir.
    Þá er því bætt við í 61. gr. að þörf sé á samþykki ef leigja á innbú. Hér er notað orðið innbú í stað búsgagna. Er með því átt við innanstokksmuni á heimili: húsgögn, heimilistæki, málverk og bækur, svo og tæki til matseldar, potta og pönnur, borðbúnað o.fl.
    Því er enn bætt við að munir til persónulegra nota fyrir maka eða börn þeirra falli hér undir, þar á meðal vinnutæki sem M á en K notar og enn fremur víkur 61. gr. að munum til sameiginlegs atvinnurekstrar hjóna.

Um 62. gr.

     Ákvæði 1. mgr. er áður getið, en hún felur í sér skýringu á efni 60. og 61. gr. Er hún
nýmæli.
     Í 2. mgr. er einnig nýmæli er tekur af vafa og geymir einnig skýringu á 60. og 61. gr. Samkvæmt því eiga ákvæðin um samþykki við allt til þess að úr því verður skorið hvort hjóna fái verðmæti í sinn hlut við fjárskipti. Er hér nánast lagt til að fræðiskýring verði lögfest. Leiða almenn lagarök og sanngirnissjónarmið til þessara málaloka.
     3. mgr. er sambærileg við 3. og 4. málsl. 1. mgr. 20. gr. hjrl. Er hér fjallað um það er annað hjóna (M) er svipt lögræði, sjálfræði eða fjárræði eða hvort tveggja og hinn makinn (K) vill t.d. selja fasteign er fjölskyldan býr á. Sé K lögráðamaður M þarf að skipa sérstakan lögráðamann til að taka afstöðu til málsins. Leiða almennar réttarreglur til þeirrar niðurstöðu, sbr. til hliðsjónar 28. gr. laga nr. 68/1984.

Um 63. gr.

     Hún er sambærileg við 22. gr. hjrl. Samkvæmt því er unnt að skjóta synjun maka eða
lögráðamanns hans um samþykki til sýslumanns. Hér er þess sérstaklega getið að bæði makinn er stendur að löggerningnum og viðsemjandi hans geta skotið málinu til sýslumanns. Talið hefur verið að hinn síðarnefndi eigi ekki aðild skv. 22. gr. hjrl. Rétt þykir að veita honum hana, enda getur hann átt mikilla hagsmuna að gæta og sá maki, er samið hefur, kann að sjá eftir samningsgerð og getur þá losnað undan skyldum sínum með því að telja hinn á að synja um samþykki. Sýslumaður metur þetta mál eftir öllum aðstæðum. Getur hann veitt samþykki ef hann telur rök mæla með því, þar á meðal ef hann telur að synjun sé reist á ómálefnalegum sjónarmiðum. Ákvæðið á einnig við ef ekki hefur verið hægt án verulegs dráttar að afla samþykkis maka eða lögráðamanns.

Um 64. gr.

     Greinin fer með nýmæli og ætti að geta komið að verulegu haldi fyrir þann sem fjallar um þinglýsingu á löggerningum er greinir í 60. gr. Rétt þykir að skipa þessu ákvæði hér þótt e.t.v. eigi það betur heima í þinglýsingalögum.
     Í 2. mgr. er mælt fyrir um að nánari reglur um könnun þeirra efna, er í 1. mgr. greinir, verði settar í reglugerð þar sem það þykir eðlilegra en að þeim sé skipað í lög.

C. Ógilding samninga er ganga í berhögg við 60.–62. gr.

Um 65. gr.

     Hér er samfellt kveðið á um hugræn skilyrði fyrir því að samningi, er gengur í berhögg við 60. og 61. gr., sbr. 62. gr., verði hrundið. Eru hliðstæð ákvæði í 2. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 21. gr. hjrl. Hér er sá meginmunur á að lagt er til að samning, er 60. gr. tekur til, sé unnt að ógilda vegna skorts á samþykki þótt viðsemjandi sé grandlaus um að þörf hafi verið á samþykki eins og á stóð. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. er hins vegar grandsemi forsenda fyrir ógildingu samnings. Ástæða þykir til að auka vernd til handa fjölskyldu með þessum hætti að fyrirmynd finnsku, norsku og sænsku laganna. Viðsemjanda er að jafnaði ekki torvelt að ganga úr skugga um hvort fasteign falli undir 60. gr., en viðbáru hans um grandleysi kann að vera örðugt að hnekkja.
     Um samninga skv. 61. gr. verður reglan svipuð og áður og verður samningi hrundið nema viðsemjandi sýni fram á að honum hafi hvorki verið ljóst né átt að vera ljóst að makanum væri samningsgerðin óheimil. Sönnunarbyrði er hér lögð á viðsemjandann, enda er ærin ástæða fyrir hann að ganga úr skugga um hvort um verðmæti sé að ræða sem 61. gr. tekur til.
     Málshöfðunarfrestur er greindur í einu lagi í 2. mgr. og efnislega á sama hátt og í 2. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 21. gr. hjrl. Viðsemjandi hefur e.t.v. flutt inn í húsnæði í skjóli samnings við maka er hrundið hefur verið. Kann þess þá að verða krafist að hann verði borinn út úr því. Mæla sænsku hjúskaparlögin þá svo fyrir að rétt sé að ætla honum frest til flutnings eftir því sem sanngjarnt þykir. Er hér einnig byggt á að slíks verði gætt þótt ekki þyki ástæða til að greina það sérstaklega í 2. mgr.

D. Gjöf til þriðja manns.

Um 66. gr.

     Þetta ákvæði er nýmæli.
     Greinin fjallar um riftun á gjöf maka til þriðja manns.
     Riftun er við það miðuð að gjöf sé úr hófi miðað við efnahag maka og teljist ekki eðlileg eða sanngjörn eins og á stendur. Gjöf verður þó ekki hrundið nema gjafþega hafi verið ljóst eða mátt vera ljóst að gefanda væri gerningurinn óheimill. Sönnunarbyrðin um grandsemi hvílir á þeim er hrinda vill gerningnum. Gæta verður þess að þótt gerningur sé örlætisgerningur á ytra borði má vera að hér sé í raun og veru um endurgjald að ræða, t.d. fyrir þjónustu.
     Í 2. mgr. er greindur frestur til málshöfðunar er miðast annars vegar við það er hinum makanum varð kunnugt um gjöfina og hins vegar við afhendingu gjafarinnar hvað sem vitneskju makans líður.
     Óhófleg gjöf getur leitt til endurgjaldskrafna skv. 52. gr. hjrl., sbr. og 107. gr. frumvarpsins, en reynslan hefur sýnt að þörf er á beinni heimild til að hrinda gjöfinni. Til samanburðar má hér benda á 2. mgr. 15. gr. erfðalaga, nr. 8/1962, varðandi verðmæti sem maki, er situr í óskiptu búi, gefur þriðja manni.

Um X. kafla.

     Hér er safnað í einn kafla ákvæðum er varða skuldaábyrgð hjóna. Ákvæði um þetta
eru nokkuð dreifð í hjrl., en haganlegra er að skipa þeim samfellt í sama kafla. 67. gr. svarar til 25. gr. hjrl., 68. gr. er nýmæli til frekari skýringar, 69. gr. er sama efnis og 12. gr. hrjl. og 70. gr. er hliðstæð 14. gr. sömu laga. Tekið skal fram að 13. og 15. gr. hjrl. eru ekki í frumvarpinu. Sérreglur um að kröfur á hendur húsfreyju fyrnist á skemmri tíma en á hendur bónda, sbr. 26. gr. hjrl., eru ekki í frumvarpinu og sama er um sérreglu 27. gr. hjrl. um kröfur á hendur eiginkonu. Mæla jafnréttissjónarmið gegn slíkum sérreglum. Þetta á að sínu leyti einnig við um 12. gr. hjrl. er geymir einum þræði sérreglu til handa húsfreyju um samningsgerð vegna sérþarfa sinna. Er lagt til í 69. gr. að sú sérstaða verði úr lögum numin.

Um 67. gr.

     Greinin samsvarar 25. gr. hjrl. og geymir meginregluna um skuldaábyrgð hjóna sem
er skipt eins og verið hefur.

Um 68. gr.

     Þessi grein er nýmæli og nánast til fyllingar á efni 67. gr. Hér segir að maki beri ekki
ábyrgð á skuldbindingum hins makans nema sérstök heimild sé til þess. Skiptir ekki máli hver lagagrundvöllur fjárskuldbindingar er, svo sem samningsgerð, skaðaverk, meðlagsskylda eða önnur réttaratvik er stofnað geta til fjárskuldbindinga. Um skatta gilda sérstakar lagareglur um samábyrgð. Heimild til samábyrgðar verður að vera ótvíræð samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Skuldbinding getur m.a. átt stoð í umboði er annar maki gefur hinum til samningsgerðar fyrir sig.

Um 69. gr.

     Greinin svarar til 12. gr. hjrl. Samkvæmt þeirri grein er heimildin bundin við að samningsgerð sé nauðsynleg. Hér er miðað við það greinimark að hún sé venjuleg og þykir það orðalag hæfa betur. Allt um það verður aðstaðan að vera sú að örðugt sé að ná til hins makans án bagalegrar biðar. Lagt er til að afnumin verði sérregla um sérþarfir húsfreyju, sbr. hér áður. Þá segir sérstaklega að heimildin taki einnig til leigu húsnæðis vegna sameiginlegs heimilis hjóna. Samningur um leigu á atvinnuhúsnæði fellur hins vegar utan vébanda greinarinnar.
     Um þessa samninga gildir sú regla að þeir teljast gerðir á ábyrgð beggja hjóna nema atvik segi öðruvísi til, þar á meðal að það hjóna, er semur, geti þess svo að sannað verði að samningur eigi ekki að binda hitt. Sérþarfir, sem fullnægja á með samningi, geta og verið þess eðlis að líta beri svo á að samningur bindi aðeins þann er semur.
     Samningur verður að vera gildur fyrir þann er semur svo að skuldbundið geti hitt hjóna, sbr. t.d. að sá er semur sé sviptur fjárræði.
     Ákvæðið heimilar ekki öðrum maka að hinu fornspurðu að ráða starfsfólk á heimili, nema til einstakra verkefna, svo sem ræstinga. Vistun barns á leikskóla er orðin svo venjulegur gerningur að miðað er við að hann rúmist innan 69. gr. Sama er um kaup á námsgögnum barna.
     Í 2. mgr. er tekið fram að ef viðsemjandi sá eða átti að sjá að samningur lægi utan heimildar maka til samningsgerðar verði það hjóna er ekki semur óbundið af samningnum. Samningurinn getur hins vegar bundið þann maka er samdi.
     Ekki þykir þörf á 13. gr. laga nr. 20/1923 og er hliðstætt ákvæði ekki í frumvarpinu.

Um 70. gr.

     Hún er sama efnis og 14. gr. hjrl., en þó nokkru þrengri. Heimildin til samningsgerðar er bundin við að nauðsyn beri til vegna framfærslu fjölskyldunnar að stofna til fjárskuldbindinga svo að skuldbindi hinn makann. Samkvæmt 14. gr. hjrl. er maka heimilt að selja eða veðsetja eignir hins, fasteign þó ekki nema með samþykki valdsmanns. Í 70. gr. frumvarpsins er þessu sleppt. Þykir ekki þörf á að ganga svo langt og ber m.a. að hafa í huga að félagsleg þjónusta er nú miklu víðtækari en var þegar þetta ákvæði var lögfest 1923 og auðveldara að ná til manna þótt í fjarska séu og bera undir þá fyrirhugaðar ráðstafanir.
     Ákvæði 15. gr. laga nr. 20/1923 er ekki tekið með í frumvarpið. Er það í samræmi við niðurstöður á fundum samvinnunefndanna norrænu. Það gengur lengra en þörf krefur varðandi samningsgerð makans sem ekki á eignina.

Um XI. kafla.

     Í þessum kafla er safnað ákvæðum um samninga hjóna í milli, þar á meðal um séreignir. Samhengis vegna eru hér raunar einnig reglur um aðrar séreignir, svo sem vegna fyrirmæla gefenda eða arfleiðenda. Þessi ákvæði eru á víð og dreif í hjrl. og er heppilegra til yfirlits að fella þau saman í einn kafla.
     Í þessum kafla eru ýmis nýmæli:
    Í 71. gr. segir almennt að hjón geti samið sín á milli með þeim takmörkunum sem lög mæla fyrir um. Þetta er lögfesting á meginreglu er nú gildir.
    Í 3. mgr. 72. gr. er nýmæli er heimilar að gera kaupmála með því efni að venjulegt innbú á sameiginlegu heimili hjóna, sem aflað er eftir gerð kaupmála, verði séreign. Þetta er frávik frá þeirri meginreglu að ekki sé unnt að gera óöfluð verðmæti að séreign með kaupmála.
    Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. er lagt til að lögfest verði það nýmæli að unnt sé að tímabinda kaupmála, t.d. til 10 ára, svo og skilyrða með þeim hætti að kaupmáli gildi ekki ef hjón eignist sameiginlegan skylduerfingja. Í 3. mgr. 74. gr. eru nokkur nýmæli í sambandi við kaupmálagerð sem eru þó að mestu í samræmi við lög nr. 10/1962 um breytingu á 29. gr. laga nr. 20/1923.
    Í 2. mgr. 23. gr. hjrl. segir að tekjur af séreign skuli teljast hjúskapareign nema öðruvísi sé löglega ákveðið. Oft eru ákvæði í kaupmála, gjafagerningi eða erfðaskrá þar sem mælt er svo fyrir að arður af séreign verði einnig séreign. Í 75. gr. er lagt til að síðastgreinda tilhögunin verði lögfest sem aðalregla, þ.e. að arður (tekjur) af séreign verði einnig séreign nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda. Hliðstætt ákvæði er í sænsku og norsku lögunum nýju og verður væntanlega lögfest hvarvetna á Norðurlöndum.
    Í 1. mgr. 77. gr., er samsvarar 2. tölul. 1. mgr. 23. gr. hjrl., er í fyrsta lagi það nýmæli að gefandi eða arfleiðandi geti mælt svo fyrir að gjöf eða arður verði séreign með því efni er greinir í 74. og 75. gr., þar á meðal geti hann bundið séreignina við ævi annars eða tímabundið hana og skilyrt, sbr. 74. gr. Enn er það nýmæli í 2. mgr. að hjónum er fyrirmunað að breyta ákvörðun gefanda eða arfleiðanda um séreign nema slíkt sé heimilað í gjafagerningi eða erfðaskrá eða leiði ótvírætt af þeim gerningum. Er þar lagt til að lögskráð verði regla sem nú er talin gilda.
    Um aðra samninga hjóna eru ákvæði í 31.–35. gr. hjrl. Eru 31. gr. og 34. gr. teknar upp í 78. og 79. gr. frumvarpsins, en 33. gr. í 73. gr. Ákvæði 33. og 35. gr. hjrl. þótti ekki ástæða til að taka upp í frumvarpið.
     Um einstakar greinar skulu að öðru leyti settar fram nokkrar athugasemdir.

A. Almenn ákvæði.

Um 71. gr.

     Greinin geymir almennt ákvæði, eins konar formála að XI. kafla.
     Með 1. mgr. er gert ráð fyrir að lögfest verði grundvallarregla í fjármálamynstrinu sem talin hefur verið gilda þótt ólögfest hafi verið.
     Í 2. mgr. er vísað til ákvæða í frumvarpinu er varða samningsgerð hjóna. Gegnir ákvæðið eingöngu almennu leiðsöguhlutverki.

B. Gjafir milli hjónaefna og hjóna.

Um 72. gr.

     Þessi grein er hliðstæð 30. gr. hjrl.
     Rétt er að árétta að enda þótt kaupmáli sé gerður um gjöf er ekki þar með sagt að hún verði séreign, heldur fer það eftir nánari ákvæðum kaupmálans.
     Nýmæli er í 3. mgr. Þar er lagt til að hjón geti gert kaupmála þess efnis að venjulegt innbú á sameiginlegu heimili þeirra geti orðið séreign þótt aflað sé eftir að kaupmáli er gerður. Er það frávik frá meginreglu 1. málsl. 3. mgr. Slíkir kaupmálar eru tíðkaðir, en hafa ekki gildi nema aðilar fallist á að þeim verði beitt. Er brýn þörf á að lögfesta slíka heimild er styðst við haldgóð rök.

Um 73. gr.

     Hún er sama efnis og 33. gr. hjrl. Bætt er þó við 1. mgr. ákvæði um það er bú gefanda er tekið til gjaldþrotaskipta. Er það nánast skýringarákvæði.

C. Séreignir.

1. Séreignir samkvæmt kaupmála.

Um 74. gr.

     1. mgr. svarar til upphafs 29. gr. hjrl., sbr. 1. gr. laga nr. 10/1962. Bætt er hér við ákvæði til skýringar og leiðsagnar um lagaáhrif séreignar við skilnað og andlát maka.
     Í 2. mgr. er nýmæli er heimilar að tímabinda kaupmála, svo og að skilyrða hann þannig að hann gildi ekki ef hjón eignast sameiginlegan skylduerfingja. Í síðara tilviki eru aðstæður breyttar frá því að kaupmáli var gerður og því eðlilegt að heimilt sé að binda kaupmála skilyrðum er að þessu lúta. Almennt er hins vegar ekki hægt að skilyrða kaupmála.
     3. mgr. á um margt sammerkt við 29. gr. hjrl., sbr. 1. gr. laga nr. 10/1962. Þó er sú regla greind hér að séreign geti hlítt reglum um hjúskapareignir að öðru hvoru látnu, ótilgreint eða tilgreint (nýmæli auðk. hér). Er mikilvægt að taka af skarið um hvort slíkt sé heimilt, en á því hefur leikið vafi. Eignin verður þá talin hjúskapareign við skipti.

Um 75. gr.

     Þetta ákvæði samsvarar 3. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 23. gr. hjrl. Arður (tekjur) af séreign á að verða hjúskapareign skv. 2. mgr. 23. gr. hjrl. nema öðruvísi sé löglega ákveðið. Oft er þess getið í kaupmála, gjafagerningi eða erfðaskrá að arður af séreign eigi einnig að verða séreign og liggur nærri að telja að þessu sé svo skipað ef menn yfirleitt koma auga á vandamálið. Þykir rétt að lögfesta þetta sem aðalreglu. Verður arður (tekjur) þá séreign samkvæmt frumvarpinu nema annars sé getið í kaupmála, gjafagerningi eða erfðaskrá. Þessi breyting hefur þegar verið gerð í sænsku og norsku lögunum og verður væntanlega lögfest á næstunni hvarvetna á Norðurlöndum.

Um 76. gr.

     Greinin samsvarar þætti úr 29. gr. hjrl., sbr. 1. gr. laga nr. 10/1962. Breyta má ákvæðum kaupmála eða fella þau niður með nýjum kaupmála, en breytingar fá ekki staðist ella, sbr. þó tímabundna kaupmála. Ef kaupmáli er fallinn úr gildi verður séreign hjúskapareign nema ný ákvæði séu sett er mæli fyrir um séreign. Heimilt er m.a. að fella niður eða breyta ákvæðum í kaupmála er greinir í 3. mgr. 72. og 75. gr. Gæta verður 2. mgr. 77. gr. ef fyrirhuguð er breyting á ákvæðum gjafagernings eða arfleiðsluskrár.
     Um breytingu á kaupmála vísast einnig til 88. gr. frumvarpsins.

2. Séreignir samkvæmt ákvörðun gefenda eða arfleiðenda.

Um 77. gr.

     Greinin er hliðstæð 23. gr. hjrl. um ákvarðanir gefanda og arfleiðanda um að gjöf eða
arfur skuli verða séreign viðtakanda í hjúskap. Hér er lögð til sú breyting að gefandi eða arfleiðandi geti tekið í gjafagerningi eða erfðaskrá þau ákvæði um séreignir er greinir í 74. og 75. gr. Áskilið er sem fyrr að ákvörðun arfleiðanda sé í erfðaskrá er hlíti form- og efnisreglum erfðalaga. Ekki er mælt fyrir um að gjafagerningur skuli vera skriflegur og er þó langtryggilegast að svo sé, enda almennt tíðkað. Hér er ekki haggað við eldri reglum um formleysi gjafar.
     Samkvæmt 2. mgr. er hjónum fyrirmunað að breyta ákvæðum gefanda eða arfleiðanda nema slíkt fái stoð í gjafagerningi eða erfðaskrá eða leiði ótvírætt af gerningi. Á þetta t.d. við um skilyrði og tímafresti, svo og t.d. um arð af séreign, svo að ekki sé talað um að fella niður það ákvæði að verðmæti skuli yfirleitt vera séreign. Hér er lagt til að fræðiskýring verði lögfest sem mikilvægt er að lögskráð verði. Orðið „ótvírætt“ í lok greinarinnar felur í sér að ríka kröfu verður að gera varðandi viljaafstöðu gefanda eða arfleiðanda.

D. Afhending á tekjuafgangi.

Um 78. gr.

     Greinin samsvarar 31. gr. hjrl., en hér er þó lagt til að skjal, sem mælir fyrir um afsal það er greinir í ákvæðinu, verði formbundið, þ.e. gert við votta. Þykir það tryggilegra, einkum vegna hættunnar á undanskoti fjár þegar skuldheimtumenn ganga að maka. Verðmæti, sem afhent er samkvæmt þessu, verður hjúskapareign viðtakanda nema sérstakar heimildir séu til annars.

E. Réttur þess hjóna, sem veitir hinu aðstoð við atvinnurekstur þess,

til borgunar fyrir vinnu sína.

Um 79. gr.

     Greinin er sama efnis og 34. gr. hjrl.

Um XII. kafla.

     Í þessum kafla er skipað samfellt ákvæðum um kaupmála, form þeirra og skráningu,
hæfi til kaupmálagerðar og upplýsingar úr kaupmálabók um efni þeirra.

Fjöldi kaupmála.

     Kaupmálar eru alltíðir hér á landi svo sem ráða má af eftirfarandi skrá um kaupmála
á árabilinu 1980–1990. Tala þeirra er borin saman við hjónavígslur og þannig fundin hundraðstala, en grundvöllur þessa samanburðar er þó ekki einhlítur.

Kaupmálar tilkynntir til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 1980–1990.
Kaupmálar

Hjónavígslur

Hundraðstala


1980          
177
1.306 13 ,5
1981          
159
1.357 11 ,7
1982          
129
1.303 12 ,0
1983          
178
1.396 12 ,4
1984          
176
1.413 12 ,4
1985          
170
1.252 13 ,5
1986          
165
1.229 13 ,4
1987          
216
1.160 18 ,6
1988          
236
1.294 18 ,2
1989          
312
1.176 26 ,5
1990          
239
1.154 20 ,7

Samtals, kaupmálar     
2.157     Af skránni má ráða að færst hefur í vöxt hin síðustu ár að stofna til kaupmála og er þá miðað við fjölda hjónavígslna. Valda því m.a. áhættusamur atvinnurekstur og aukin tíðni hjónaskilnaða.
     Ákvæði um kaupmála eru nokkuð dreifð í hjrl., sbr. 37. og 38. gr. og svo IX. kafla. Er þeim safnað hér í einn kafla.
     Í þessum kafla eru ýmis nýmæli:

A. Form kaupmála.

Um 80. gr.

     Greinin fjallar um form kaupmála og er hliðstæð 37. gr. hjrl. Hér kveður allmikið að
nýmælum. Í hjrl. er ekki mælt fyrir um neins konar vottfestingu á kaupmála. Þessa ætti þó að vera þörf bæði vegna þess að hann er oft veigamikill löggerningur og formið hvetur hér sem endranær til þess að menn vandi löggerning sinn. Þá stuðlar formið að því að sönnun fáist fyrir því að hjón hafi undirritað kaupmála af fúsum vilja og hvenær undirritun hafi farið fram. Það er út af fyrir sig ekki meðal formkrafna að löggerningur sé nefndur kaupmáli eða að það orð komi fyrir í texta gerningsins, en vottar eiga þó að ganga úr skugga um að skjalið geymi kaupmála að efni til og votta um það. Tíðast er nafnið kaupmáli greint í skjalinu, en endranær veitir efni skjalsins óræka vísbendingu um að kaupmála sé fyrir að fara. Ekki eru hér bein fyrirmæli um vanhæfi votta vegna tengsla við hjónin, en þeir eiga að vera staðfestingarhæfir samkvæmt réttarfarslögum og lögráða.

B. Hæfi aðila.

Um 81. gr.

     Greinin kveður á um hæfi til kaupmálagerðar og er sama efnis og 37. gr. hjrl. að því
er lögræði varðar. Hér er miðað við að maður sé sviptur lögræði, sjálfræði eða fjárræði, því að hann verður út af fyrir sig lögráða við hjúskaparstofnun ef ólögráða er vegna æsku, sbr. 2. gr. lögræðislaga, nr. 68/1984. Gert er ráð fyrir að samþykki lögráðamanns sé ritað á kaupmálann. Það er þó ekki algert gildisskilyrði. Áritun, sem væri rituð á annað skjal, en ætti ótvírætt við kaupmálann, gæti komið hér að haldi.

C. Skráning kaupmála.

    Í 82.–89. gr. er mælt fyrir um skráningu kaupmála.

Um 82. gr.

     Í 82. gr. er þess getið skýrlega að skráning kaupmála sé forsenda fyrir gildi hans, þ.e.
fyrir því að hann hafi réttaráhrif, bæði gagnvart þriðja manni og milli hjóna. Að því er síðarnefnda atriðið varðar er vikið frá almennum reglum um þinglýsingar.

Um 83.–86. gr.

     Hér er lagt til að haldið sé því fyrirkomulagi í megindráttum sem lögfest var með IX.
kafla hjrl., þ.e. færslu fyrst í dagbók en síðar í kaupmálabók. Reglurnar í frumvarpinu eru lagaðar eftir megintilhögun þinglýsingalaga, nr. 39/1978. Gildi skráningar telst frá viðtökudegi samkvæmt því er í dagbók greinir, sbr. 3. mgr. 85. gr., er endurtekur 80. gr. hjrl. og er þó forsendan að skjalið reynist tækt til skráningar.

Um 83. gr.

     Greinin er hliðstæð 82. gr. hjrl. að efni til og fjallar um það hvar kaupmáli skuli skráður. Lagt er til að afnumin verði sú regla að miða skuli við varnarþing bóndans. Kaupmála hjónaefna skal skrá þar í umdæmi sem þau eiga lögheimili eða hyggjast búa, en kaupmála hjóna þar sem þau eiga lögheimili. Ef þau eiga ekki lögheimili hér á landi er rétt að skrá kaupmálann í Reykjavík ef yfirleitt er unnt að skrá hann hér á landi.
     3. mgr. er endurtekning á lokamálslið 82. gr. hjrl.

Um 84.–85. gr.

     Þær mæla fyrir um skráningu í dagbók, sbr. 84. gr., og í kaupmálabók, sbr. 85. gr.
     Í 84. gr. er kveðið á um gerð kaupmála sem afhentur er til skráningar. Skjal á að vera úr garði gert í samræmi við 5. og 6. gr. þinglýsingalaga. Ef kaupmáli er ritaður á erlendu máli má áskilja að viðhlítandi þýðing fylgi skjalinu, sbr. 2. mgr. 5. gr. þinglýsingalaga.
     Kaupmáli er skráður í kaupmálabók eftir að kannað er hvort hann sé tækur til þeirrar skráningar. Rita skal síðan á kaupmálann um viðtökudag hans og telst gildi skráningar frá þeim degi, sbr. 3. mgr. 85. gr.
     Synjun um skráningu á kaupmála er heimilt að skjóta til dóms- og kirkjumálaráðuneytis, sbr. 132. gr. frumvarpsins.
     Reglur 85. gr. um skráningu í kaupmálabók víkja ekki frá núverandi framkvæmd hennar.

Um 86. gr.

     Í þessari grein eru ákvæði um allsherjarskrá um kaupmála er haldin skal í dóms- og
kirkjumálaráðuneyti, svo og um auglýsingar um kaupmála í Lögbirtingablaði. Greinin er hliðstæð 83. gr. hjrl., en efni hennar er lítilega breytt og einfaldað.

Um 87. gr.

     Þessi grein er nýmæli þar sem lagt er til að reglur, sem nú er farið eftir víða um landið, verði lögskráðar. Í greininni er fjallað um kaupmála sem varða fasteignir, skip stærri en 5 smálestir og skráð loftför. Eftir að kaupmáli er skráður í kaupmálabók er lagt til að sýslumaður skrái þegar í stað efni kaupmála í veðmálabók viðkomandi eignar. Nokkur vafi hefur leikið á því hver framkvæmd slíkra mála eigi að vera og ber nauðsyn til að taka hér af skarið. Er ætlandi að ákvæði þetta horfi til réttaröryggis. Þegar sýslumaður skráir efni kaupmála í veðmálabók samkvæmt þessu er ekki tekið sérstakt þinglýsingargjald. Ef eign er í öðru umdæmi þá ber sýslumanni, sem skráir kaupmála, að senda gögn til sýslumanns sem í hlut á og ber þá að þinglýsa efni kaupmála þar. Þá mun verða tekið þinglýsingargjald. Af eðlisástæðum ber að hraða þessum afgreiðslum eftir því sem frekast eru föng á.
     Aðgæta ber þörf á skráningu kaupmála á fyrirtækjaskrá og áritun á verðbréf ef því er að skipta, en um það verður rétthafi sjálfur að annast.

Um 88. gr.

     Þetta ákvæði er nýmæli, en hér er gert ráð fyrir að regla, sem í gildi er, verði lögskráð varðandi breytingu á kaupmála og afturköllun hans.

Um 89. gr.

     Þetta ákvæði er nýmæli. Þegar hjúskap er lokið og fjárskipti um garð gengin vegna
skilnaðar geta hjón haft réttmætra hagsmuna að gæta af því að kaupmáli verði afskráður. Getur hinu sama gegnt um erfingja látins maka. Það er efni þessa ákvæðis að mæla fyrir um rétt þessara aðila til að krefjast afskráningar kaupmála sem þá hefur gegnt hlutverki sínu.

Um 90. gr.

     Hér er lagt til að hver, sem þess óskar, eigi rétt á að fá upplýsingar úr kaupmálabók
um tilvist kaupmála og efni. Er það í samræmi við framkvæmd. Felur það í sér nokkrar breytingar á 2. mgr. 83. gr. hjrl.

Um XIII. kafla.

     Í VI. kafla hjrl. eru ákvæði um slit á fjárfélagi án þess að til skilnaðar komi, bæði samkvæmt einhliða kröfu annars hjóna vegna vangæslu hins á fjármálum sínum og einnig geta hjón verið sammála um að krefjast slita á fjárfélagi. Þessum ákvæðum hefur lítið verið beitt hér á landi. Í umræðum í norræna löggjafarsamstarfinu hafa skoðanir verið skiptar um hvort halda eigi þessum reglum. Sifjalaganefnd hefur hallast að því, að höfðu samráði við reynda lögmenn, m.a. vegna þess að þær eru taldar hafa nokkurt varnaðargildi. Ákvæðin eru lítt breytt frá því sem þau eru í VI. kafla hjrl.
     Í XIV. kafla skiptalaga nr. 20/1991 eru ákvæði um sama efni og greinir í þessum kafla. Eru ákvæði frumvarpsins löguð að ákvæðum laga nr. 20/1991. Vísast til athugasemda við næsta kafla varðandi rök fyrir því að halda þessum ákvæðum í hjúskaparlögum.

Um 91. gr.

     Hér er fjallað um sama efni og í 39. og 40. gr. hjrl. og 99. gr. laga nr. 20/1991. Hliðsjón skal m.a. af því höfð ef annað hjóna veldur hættu á að fjölskyldan missi af sameiginlegu heimili vegna háttsemi þess eða grundvöllur fyrir atvinnurekstri þess skerðist.

Um 92. gr.

     Hún kemur í stað 41.–42. gr. hjrl. en er nokkru einfaldari í sniðum. Greinin er í samræmi við 101. gr. laga nr. 20/1991. Úrskurð héraðsdómara um kröfu um fjárskipti má kæra til Hæstaréttar skv. 133. gr. laga nr. 20/1991.

Um 93. gr.

     Greinin er að nokkru um sama efni og 43. gr. hjrl., en einfaldari til muna. Í greininni er mælt fyrir um að beita skuli efnisreglum um fjárskipti við skilnað er skipti fara fram samkvæmt þessum kafla. Um stöðu maka meðan á skiptum stendur fer eftir sömu reglum og um skipti vegna skilnaðar.

Um 94. gr.

     Hér er lögmælt séreign sem ekki er háð kaupmála. Greinin er hliðstæð 44. gr. hjrl. Tímamark 1. mgr. 101. gr. er það sama og í 1. mgr. 104. gr. skiptalaga. Athyglisvert er að séreignafyrirkomulagið hefst þegar krafa um fjárskipti hefur verið sett fram, en ekki er miðað við það er þeim sé lokið.

Um XIV. kafla.

     Í þessum kafla er fjallað um skiptareglur. Þær reglur eru tvenns konar, annars vegar
efnislegar skiptareglur og hins vegar form- eða verklagsreglur um framkvæmd skipta. Almennt er talið að efnisreglur um skipti eigi undir hjúskaparlöggjöf en um staðsetningu reglna þessara að öðru leyti er stefna norrænu laganna nokkuð mismunandi. Sums staðar eru þær í hjúskaparlögum að verulegu leyti en annars staðar í skiptalögum. Í norræna löggjafarsamstarfinu voru þessar reglur, einkum efnisreglurnar, ræddar allrækilega. Í fyrstu drögum að frumvarpi til hjúskaparlaga byggði sifjalaganefnd á því að hjúskaparlög tækju til skiptareglna í svipuðum mæli og verið hefur og voru ákvæði þeirra draga stíluð á þeim grundvelli. Með XIV. kafla skiptalaga nr. 20/1991 voru hins vegar sett allvíðtæk ákvæði um skipti vegna hjónaskilnaða, ógildingar hjúskapar og slita á fjárfélagi án hjónaskilnaðar, þar á meðal nokkrar efnisreglur. Sifjalaganefnd endurskoðaði því fyrra frumvarp sitt með hliðsjón af ákvæðum hinna nýju skiptalaga og hefur reynt að samrýma og samlaga það þeim. Hefur verið gengið út frá því að skiptalögin gildi í heild sinni um skipti, auk þeirra ákvæða sem þetta frumvarp hefur að geyma. Hjúskaparlög varða almenning mjög miklu og með hliðsjón af því hefur sifjalaganefnd talið rétt að í lögunum sé gefið aðgengilegt yfirlit yfir fjárskipti hjóna, þar á meðal skiptaferlið, jafnmikilvægur þáttur og þau eru í fjármálaskipan hjóna. Er það gert með því að vísa til viðkomandi ákvæða skiptalaga, en einnig með því að taka upp í frumvarpið ákvæði sem skiptalög geyma reglur um. Með öðrum hætti næst ekki það leiðsöguhlutverk sem hjúskaparlögum er ætlað að gegna fyrir þá er við lögin eiga að búa. Að öðru leyti hefur í frumvarpinu verið lögð áhersla á efnisreglur um skipti. Tekið skal fram að ekki er að öllu leyti auðvelt að greina á milli efnis- og formreglna um skipti og skiptar skoðanir geta verið um greinimarkið.
     Ákvæði XIV. kafla má flokka svo sem hér segir:
     Ákvæði um skiptahætti, þ.e. annars vegar skipti er hjón framkvæma sín á milli með skiptasamningi og hins vegar opinber skipti, sbr. 95. og 96. gr. frumvarpsins.
    Reglur um kröfugerð og hvert beina skuli kröfu um skipti, sbr. 97. gr.
    Reglur um upplýsingaskyldu aðila , sbr. 98. gr.
    Reglur um það til hverra eigna og skulda skiptin taki, þar á meðal reglur um að séreignir skuli vera utan skipta að meginstefnu til og við hvaða tímamark skuli miða eigna- og skuldatal, sbr. 99.–101. gr.
    Mikilvægt er að afmarka hvort einstök réttindi séu utan skipta að einhverju leyti og er það gert í 102. gr.
     Helmingaskiptareglan, sbr. 103. gr. frumvarpsins, er rótgróin regla í norrænum hjúskaparrétti. Með 57. gr. laga nr. 60/1972 er heimilað að víkja frá þeirri reglu ef sérstaklega stendur á. Á síðustu árum hafa þær skoðanir notið byrjar að slíkar fráviksheimildir, svonefndar „skáskiptareglur“, eigi að rýmka og er það gert í þessu frumvarpi, sbr. einkum 104. gr. og enn fremur að nokkru 105. og 109. gr.
    Reglur um endurgjaldskröfur, sbr. 107. gr. frumvarpsins. Þær eru hliðstæðar 51.–54. gr. hjrl.
     Úthlutunarreglur eru í 106. gr. og útlagningarreglur í 108. og 109. gr.
    Í 110. gr. er almenn regla um heimildir hjóna til að gefa eftir af eignarhluta sínum.
    Þá er skýringarákvæði í 111. gr. sem tengist fjárskiptum vegna skilnaðar að borði og sæng og loks er regla er varðar leiguréttindi húsnæðis í 112. gr., sbr. 60. gr. laga nr. 60/1972.
     Hér á eftir fara athugasemdir um einstakar greinar þessa kafla. Í umsögnum um þær verður vísað hér til samsvarandi ákvæða í VII. kafla laga nr. 20/1923 þótt ýmis þeirra séu afnumin með skiptalögum nr. 20/1991 sem raunar taka ekki gildi fyrr en 1. júlí 1992. Er þetta gert samhengisins vegna.

Um 95. gr.

     Rétt þykir að hefja kaflann á ákvæði um fjárskiptasamning, enda æskilegt að hjón ráði
skiptum til lykta með samningi. Greinin er að nokkru sambærileg við 54. gr. laga nr. 60/1972. Hér er það nýmæli að lögfest er að slíkur samningur skuli vera skriflegur og undirritaður af hjónum eða umboðsmönnum þeirra. Hann skal enn fremur staðfestur fyrir sýslumanni eða dómara eftir því hvar skilnaðarmál er til meðferðar, sbr. einnig 43. gr. frumvarpsins, sbr. hrd. 1987, bls. 724. Hér er tekin upp sams konar regla og í 54. gr. laga 60/1972 um að unnt sé að ógilda samning ef hann hefur verið bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma er hann var gerður. Hér er því bætt við að unnt sé að ógilda hann að öllu eða nokkru. Ef hjón eru eignalaus kemur yfirlýsing þeirra um það efni í stað fjárskiptasamnings og skulu þau eða umboðsmenn þeirra staðfesta yfirlýsinguna fyrir sýslumanni eða dómara.
     Þar sem rætt er um umboð í 1. mgr. er á því byggt að lögmaður, sem undirritar fjárskiptasamning vegna annars hjóna, hafi sérstakt umboð þess til umsýslunnar, sbr. hrd. 1976, bls. 984.
     Sá sem heldur því fram að samningur sé „bersýnilega ósanngjarn“ á sönnunarbyrðina þar um. Getur sönnun orðið torveld svo sem ráða má af dómum, sbr. t.d. hrd. 1983, bls. 89, 1984, bls. 133, og 1985, bls. 832, sbr. þó hrd. 1988, bls. 474. Grundvöllur getur brostið undan fjárskiptasamningi, svo sem fyrir það að skilnaður að borði og sæng falli niður eða lögskilnaður er felldur úr gildi, sbr. hrd. 1979, bls. 1369.
     Í 2. mgr. eru skorður reistar við því hvenær mál út af ógildingu samnings verði höfðað og er þar endurtekin regla 2. og 3. mgr. 54. gr. laga nr. 60/1972, þar á meðal um upphaf frests, sbr. hrd. 1984, bls. 1085. Er réttmætt að stuðla að því að hafist verði fljótlega handa um málarekstur út af þessu. Þó þykir varhugavert að hafa þröngan frest ef málssókn er reist á almennum reglum fjármunaréttar um ógildingu samnings, sbr. hrd. 1984, bls. 1085. Frestur hefur stundum verið liðinn þegar mál var höfðað, sbr. hrd. 1975, bls. 283.

Um 96. gr.

     1. mgr. er til leiðsögu um að aðilar geti krafist opinberra fjárskipta vegna skilnaðar
og ógildingar hjúskapar, sbr. hér 98. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Tekið skal fram að tilvísun til skiptalaga í lok 1. mgr. felur m.a. í sér að lokaákvæði 1. mgr. 98. gr. skiptalaga eigi hér við.
     Í 2. mgr. segir að efnisreglur um skipti í þessum kafla eigi einnig við þegar skipti eiga sér stað vegna andláts maka. Þar ber einnig að beita ákvæðum skiptalaga, sbr. einkum III. kafla þeirra.

Um 97. gr.

     Hér er vísað til 92. gr. varðandi það til hvaða héraðsdómstóls eigi að beina kröfu. Er
þar miðað við umdæmi þar sem hjón eiga eða áttu síðast sameiginlegt lögheimili nema samið sé um annað, sbr. einnig 101. gr. skiptalaga þar sem mælt er fyrir um kröfugerð og gögn er henni fylgi. Um skipun skiptastjóra segir í 102. gr. skiptalaga.

Um 98. gr.

     Greinin fjallar um upplýsingaskyldu hjóna við skiptin. Miklu varðar fyrir skiptastjóra
að fá ekki aðeins upplýsingar um eignir og skuldir hjóna, heldur einnig aðrar upplýsingar um fjármál þeirra. Mikilvægt er að halda hjúskapareignum aðskildum, svo og séreignum, og að það komi fram þegar við uppskrift hvort ágreiningur sé í því efni. Sama er um sérskuldir svo og samskuldir.

Um 99. gr.

     Í þessari grein eru fyrirmæli um það til hverra eigna skiptin taki.
     Þar er sú meginregla mörkuð að skiptin nái ekki til séreigna hvort sem þær stafa frá kaupmála hjóna, fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda eða leiði af beinum lagaákvæðum er kveði svo á að tiltekin verðmæti skuli vera séreignir, sbr. þó 2. málsl. 99. gr. sem felur í sér sérreglu. Er hún í samræmi við gildandi rétt, sbr. 2. mgr. 52. gr. hjrl. sem heimilar að draga séreign undir skiptin til að fullnægja endurgjaldskröfu. Þetta er sérregla hjúskaparlaga er gengur framar hinum almennu ákvæðum skiptalaga. Til viðbótar er svo ákvæði 102. gr. frumvarpsins. Ákvæðið gegnir fyrst og fremst leiðsöguhlutverki. Efnislega felast ekki nýmæli í greininni.

Um 100. gr.

     Í greininni er greint frá þeirri meginreglu að skuldir hvors hjóna um sig skuli dregnar frá eignum þess við fjárskiptin, enda er það skír eign sem til skipta kemur, sbr. 103. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti vísar ákvæðið til viðeigandi ákvæða skiptalaga varðandi nánari útfærslu þessarar reglu.

Um 101. gr.

     Í 1. mgr. er tekin afstaða til þess mikilvæga máls við hvaða tímamark skuli miða eignir og skuldir er til skipta koma. Er hér miðað við sama tímamark og í 1. mgr. 104. gr. skiptalaga. Í því felst breyting frá gildandi lögum sem miða við lok fjárfélagsins, þ.e. við útgáfu leyfisbréfs til skilnaðar eða uppsögu dóms á frumdómstigi ef máli er áfrýjað og dómur staðfestur, sbr. 48. gr. hjrl. og 2. mgr. 65. gr. skiptalaganna dönsku. Við slit á fjárfélagi án skilnaðar ber þó að miða við það er krafa um fjárslit var sett fram. Þetta greinimark við skilnað að borði og sæng og lögskilnað er jafnaðarlega skýrt. Hins vegar er það því verði keypt að maki getur misfarið með eign hinum og fjölskyldunni til tjóns, bæði svo að hann fargi eignum eða stofni til óhæfilegra fjárskuldbindinga. Hafa menn því leitað eftir annarri viðmiðun sem fram kemur í greininni.
    2. mgr. varðar skuldir er stafa frá öflun verðmæta sem eigi koma undir skiptin eða af kostnaði vegna þeirra. Segir í ákvæðinu að þessar skuldir komi ekki til frádráttar við fjárskiptin. Eru auðsæ rök til þessa. Arður af slíkum eignum kemur ekki heldur undir skiptin.

Um 102. gr.

     Í þessari grein eru ákvæði um verðmæti sem maki, rétthafi, getur krafist að komi ekki
til skipta, þ.e. að hann taki að óskiptu. Ákvæði þetta er í heild sinni sniðið eftir norsku hjúskaparlögunum frá 1991 og öðrum norrænum lögum og með hliðsjón af umræðum í norrænu samstarfsnefndunum um hjúskaparlög. Þá er einnig höfð í huga lagaframkvæmd hér á landi. Um þetta efni er að nokkru mælt í 2. mgr. 104. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Ákvæði 102. gr. frumvarpsins er um margt fyllri en 104. gr., en í samræmi við það ákvæði svo langt sem það nær. Krafa getur lotið að eigin hjúskapareign maka eða húskapareign hins, sbr. upphaf 102. gr.
     Í 1. tölul. er fjallað um muni sem eingöngu eða aðallega eru ætlaðir til persónulegra nota maka og muni sem hafa minjagildi. Mæla rök með því að þeim sé haldið utan skipta að kröfu aðila, sbr. hér 50. gr. hjrl. Ákvæðið tekur einnig til muna sem maka eru nauðsynlegir til að halda áfram atvinnu eða menntun sinni, sbr. hér 2. mgr. 104. gr. skiptalaga.
     Í 2. tölul. er tekið á vandasömu máli þar sem eru réttindi maka í opinberum lífeyrissjóðum eða einkalífeyrissjóðum, svo og krafa til lífeyris eða líftryggingarfjár. Aðstaðan við líftryggingu sem slíka er þó almennt ljós og veltur á því hvort tilnefning á rétthafa er afturtæk eða ekki, sbr. einkum 108. gr. laga nr. 20/1954. Um stöðuna við skilnað kunna að vera ákvæði í lögum um opinbera lífeyrissjóði, sbr. tilvísunarákvæði 56. gr. laga nr. 60/1972, en um einkalífeyrissjóði eru oft ákvæði í samþykktum þeirra eða í samningum um frjálsa líftryggingu o.fl. Ákvæði 2. tölul. er almenns eðlis og er ljóst að sérlög ganga hér fyrir. Ekki eru bein ákvæði í gildandi hjúskaparlögum um þessi réttindi að því er skiptin varðar, en sú lausn, sem hér er lögð til, hefur stoð í grunnreglu 2. mgr. 17. gr. hjrl., að því er talið hefur verið, sbr. einnig 2. mgr. 30. gr. er markar þessum réttindum ýmsum sérstöðu, sbr. hér 57. gr. og 2. mgr. 72. gr. frumvarpsins. Bent er á að ákvæðið um að réttindi verði utan skipta er einskorðað við það að þau hafi ekki endurkaupsverð samkvæmt kröfu annars hjóna eða þeirra sameiginlega. Tryggingaréttindi þessi eru með margvíslegu móti. Hér geta vaknað flókin álitaefni sem leysa verður í lagaframkvæmd og lítt gerlegt er að setja nákvæm lagaákvæði um. Ákvæði 2. tölul. felur í sér stefnumið við úrlausn þessara mála, en er eins og fyrr segir almenns eðlis.
     Um 3. tölul. vísast til 57. gr. frumvarpsins og 2. mgr. 17. gr. hjrl. Hér er lagt til að lögfestar verði reglur sem ætla má að nú sé farið eftir hér á landi.
     Um 4. tölul. Þar er kveðið á um fébætur sem annað hjóna hlýtur vegna líkams- eða heilsutjóns er leitt hefur til skerðingar á starfsorku til frambúðar. Ekki er eðlilegt að hitt hljóti hlutdeild í því fé ef til skilnaðar kemur. Sama er um bætur vegna þjáninga og annars ófjárhagslegs tjóns. Þær fégreiðslur eru bundnar við persónu rétthafans og mæla rök með því að hann geti tekið fé þetta að óskiptu.
     Forsenda fyrir því að verðmæti þessi verði tekin að óskiptu er sú að unnt sé að sérgreina þau á því tímamarki er eignatal ber við að miða, sbr. 1. mgr. 101. gr. Um þetta má vitna til hrd. 1970, bls. 897. Þessu er ljóslega fullnægt ef bótaféð er óhreyft á sparisjóðsbók, en ákvæðið tekur einnig til ígildis bóta svo sem þegar féð er fest í verðbréfum eða fasteign er keypt fyrir það, atvinnufyrirtæki o.s.frv., enda verði kröfu um sérgreiningu fullnægt. Ef það stafar af framlögum hins makans M að þetta fé er enn við lýði er mælt fyrir um það í ákvæðinu að lækka megi fjárverðmæti sem K getur krafist að óskiptu, enda þyki það sanngjarnt, sbr. og lokaákvæði greinarinnar. Hér mætti t.d. benda á að M hafi kostað heimilisreksturinn um langt árabil að öllu verulegu og með því gert K kleift að ganga ekki á verðmæti sem greinir í þessum tölulið. Bætur fyrir missi framfæranda falla undir ákvæði 4. tölul.
     Sifjalaganefnd hefur átt þess kost að kynna sér frumvarp til skaðabótalaga sem samið hefur verið. Er ekki sýnilegt að ákvæði 4. tölul. stangist á við hliðstætt ákvæði í greindu frumvarpi.
     Um 5. tölul. Hér segir um verðmæti sem aflað hefur verið vegna þarfa barna. Það hjóna, sem barn býr hjá, getur krafist þess að þessum verðmætum sé haldið utan skipta. Er ákvæðið hliðstætt 2. mgr. 104. gr. skiptalaga nr. 20/1991. Vakin er þó athygli á því að í skiptalögunum er miðað við að það hjóna, sem fer með forsjá ófjárráða barns, geti sett fram kröfu. Ætla má að hjón fari oft sameiginlega með forsjá barns á því tímamarki sem hér um ræðir og þykir því heppilegra að miða við hjá hvoru hjóna barn búi. Ekki þótti ástæða til að gera fyrirvara um verðgildi munanna, sbr. hins vegar 2. mgr. 104. gr. skiptalaga. Gengur þetta ákvæði frumvarpsins framar ákvæði skiptalaga hvað þetta snertir.
     Ekki er fyrir það að synja að ósanngjarnt kunni að reynast í einstaka tilviki að halda réttindum skv. 2., 3. eða 4. tölul. utan skipta að öllu leyti. Hugsanlegt er að endurgjaldskrafa komi hér til greina, sbr. athugasemd í hrd. 1970, bls. 670. Slík mál hafa þó verið torsótt fyrir norrænum dómstólum og er því gert ráð fyrir því í lokaákvæði greinarinnar að unnt sé að bæta hinu hjóna með fjárgreiðslum við skiptin ef ósanngjarnt þykir að réttindi þessi verði í heild sinni utan skipta.
     Að lokum skal bent á að ákvæði 102. gr. skerða ekki heimildir skv. 3. mgr. 104. gr. skiptalaga.

Um 103. gr.

     Greinin mælir fyrir um helmingaskiptareglu við fjárskipti, sbr. einnig 6. gr. frumvarpsins og 4. mgr. 109. gr. skiptalaga.
     Helmingaskiptareglan við fjárskipti vegna skilnaðar á sér aldahefð í norrænum rétti. 2. mgr. 18. gr. hjrl., er mælir fyrir um þetta efni, var staðfesting á fyrri reglum. Hún byggist á því að í hjúskap ríki efnahagsleg samstaða og hefur það markmið að veita hvorum maka um sig hlutdeild í eignum hins og stuðla þannig að jafnstöðu þeirra við hjúskaparlok. Þessi regla tekur bæði til eignamyndunar eftir að hjúskapur er stofnaður og einnig til hlutdeildar í eignum sem hjón fluttu með sér í búið. Eftir rétti sumra ríkja nær helmingaskiptareglan ekki til síðargreindu verðmætanna, sbr. t.d. þýskan hjúskaparrétt eftir 1957, svo og franskan, grískan og spænskan rétt. Reglan tekur m.a. tillit til þess að hjón hafi mismikil tök á að afla sér tekna og eigna. Einkum verður staða heimavinnandi maka oft lakari en hins, auk þess sem tekjur hjóna geta verið næsta misháar. Helmingaskiptareglunni er ætlað að draga úr þessum mismun í reynd. Búa sanngirnissjónarmið þar að baki og ræður m.a. tillit til afkomu maka eftir skilnað efni þessarar reglu. Hjónin og fjölskyldan í heild sinni hafa notið þessara eigna og hefur þá sjaldnast verið greint milli verðmæta sem hvort um sig á að hjúskapareign. Má raunar segja að í virkum hjúskap líti hjón oft á t.d. íbúð, húsgögn og bifreið nánast sem sameign sína. Er oft torvelt að greina á milli hjúskapareigna þar sem bæði hafa innt af hendi framlög, t.d. til íbúðarbyggingar eða íbúðarkaupa, kaupa á húsgögnum o.fl. Helmingaskiptareglan kemur frá þessu sjónarmiði að haldi sem úrræði til að skapa hjónum fjárhagslega jafnstöðu við hjúskaparlok. Ef þessari reglu væri ekki fyrir að fara mundu sanngirnisrök bjóða að lögfestar yrðu víðtækar reglur um framfærslueyri til þess maka er stendur verr að vígi fjárhagslega eftir skilnað, sbr. t.d. breskan og bandarískan rétt. Á Norðurlöndum hefur verið tekin eindregin afstaða gegn því fyrirkomulagi sem er gallað úrræði frá félagslegu og persónulegu sjónarmiði og mjög erfitt í framkvæmd.

Um 104. gr.

     Þótt helmingaskiptareglan sé meginregla í íslenskum hjúskaparrétti voru nokkur frávik frá henni frá upphafi, sbr. séreignir, persónuleg réttindi, endurgjaldsreglur o.fl.
     Við endurskoðun norrænu hjúskaparlaganna á sjöunda áratugnum, sbr. lög nr. 60/1972 hér á landi, var það ríkjandi viðhorf að heimila ætti víðtækari frávik frá helmingaskiptareglunni en áður voru í lögum. Einkum var bent á að oft geti verið ósanngjarnt að beita henni ef hjúskapur hefur staðið skamman tíma og ekki leitt til fjárhagslegrar samstöðu að marki. Þegar svo standi á sé réttmætt að heimila hvorum maka um sig að taka að óskiptu þær eigur sem hann flutti í búið eða eftir atvikum verðígildi þeirra. Var þessi tilhögun lögfest með 57. gr. laga nr. 60/1972. Voru þá öðrum þræði hafðar í huga reglur um fjárskipti vegna ógildingar hjúskapar.
     Regla 57. gr. laga nr. 60/1972 hefur gegnt góðu og gildu hlutverki svo langt sem hún nær. Allnokkrir hæstaréttardómar hafa gengið um hana, ýmist svo að hafnað hefur verið kröfu um „skáskipti“ eða hún tekin til greina, a.m.k. að nokkru. Þá er einnig kunnugt um úrskurði í skiptaréttum sem gengið hafa án þess að til áfrýjunar hafi komið.
     Í norrænu samstarfi síðasta áratugar um endurskoðun hjúskaparlaga voru menn á einu máli um að rýmka þyrfti heimild til frávika frá helmingaskiptareglu. Einkum hafa umræður hnigið að því að ekki sé fullnægjandi að takmarka fráviksheimild svo að binda hana við eigur er makar hafa flutt í bú svo sem gert er í 57. gr. Ýmsar aðrar eignadeildir komi einnig til greina, þar á meðal verðmæti er maki hefur hlotið að gjöf eða arfi án þess þó að þær séu séreignir samkvæmt fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda, svo og t.d. þegar maki flytur verðmæti úr séreign sinni í hjúskapareign.
     Norrænu lögin eru nokkuð ólík hvað snertir framsetningu reglna þessara. Efnislegur munur verður þó ekki mikill í lagaframkvæmd að því er ætla verður.
     Skal nú farið nokkrum orðum um efni 104. gr.:
    Í 104. gr. er valin sú leið að greina það sem frumforsendu og allsherjarforsendu fyrir fráviki frá helmingaskiptareglu að skiptin yrðu bersýnilega ósanngjörn að öðrum kosti fyrir annað hjóna. Þykir eðlilegt að reglan, sem er raunar svonefnd vísiregla, hefjist á þessu greinimarki. Síðan eru sérgreind tilvik sem einkum ber að taka tillit til þegar sanngirnismælikvarði er á lagður, en þau eru ekki tæmandi talin í greininni.
    Taka á tillit til fjárhags hjóna og lengdar hjúskapar. Þessu er lýst svo í 57. gr. laga nr. 60/1972 að hafa skuli hliðsjón af því að hjúskapur hafi staðið skamma stund og ekki leitt til verulegrar fjárhagslegrar samstöðu. Orðalag 1. mgr. 104. gr. er almennara, en hér er átt við svipuð tilvik og þau er greinir í 57. gr. Skammvinnur hjúskapur leiðir sjaldnast til þeirrar fjárhagslegu og félagslegu samstöðu sem er grundvöllur helmingaskiptareglunnar. Hér ber jafnvel að hafa í huga hugsanlegt misferli í sambandi við hjúskaparstofnun þar sem annar aðili stofnar til hjúskaparins nánast í því skyni að komast yfir eignir í skjóli skjótfengins skilnaðar og helmingaskiptareglu.
    Einnig ber að hafa hliðsjón af því að annað hjóna kann að hafa flutt í búið við hjúskaparstofnun verðmæti sem eru verulega miklu meiri en þau er frá hinu stafa. Þessi þáttur er einnig greindur í 57. gr. laga nr. 60/1972. Ekki er þetta einskorðað við að hjúskapur hafi verið skammvinnur, en mundi einkum eiga við þegar svo hagar til.
    Þá er það greint að annað hjóna hafi eftir hjúskaparstofnun erft fé eða fengið gjöf frá öðrum en maka sínum. Hér er við það átt að arfur eða gjöf sé ekki séreign, sbr. 77. gr. frumvarpsins. Ýmsir hafa raunar talið að erfðafé eða gjafafé, er greinin tekur til, ætti að vera utan skipta. Ekki hefur þótt rétt að ganga svo langt því að hér getur staðið mjög misjafnlega á. Þykir heppilegra að láta sanngirnissjónarmið ráða.
    Loks víkur 104. gr. að því að annað hjóna hafi með vinnu, framlögum til framfærslu fjölskyldu eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu fjáreignar sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti. Hér er m.a. höfð í huga vinna maka á heimili og þann grundvöll sem með því fæst til þess að hinn makinn geti aflað sér tekna og eigna. Hlut þess maka ber einnig að virða þegar til útlagningar verðmæta kemur.
    Í 3. mgr. 104. gr. er tekið fram að frávik frá helmingaskiptareglu skv. 1. og 2. mgr. verði einnig beitt til hagsbóta fyrir erfingja maka ef hagir þeirra mæla sérstaklega með því. Hér verður að leggja til grundvallar þær lagaforsendur sem fólgnar eru í 1. og 2. mgr. Mælir sanngirni með þessari reglu sem ekki er greind í 57. gr. laga nr. 60/1972.
        Ákvæði 104. gr. fela í sér til muna rýmri frávik frá helmingaskiptareglu en þær er greinir í 57. gr., en bent skal á að þetta eru heimildareglur.
        Reglur um endurgjaldskröfur gilda sjálfstætt við hlið heimilda skv. 104. gr., sbr. hér 107. gr. frumvarpsins.

Um 105. gr.

     Hún samsvarar 58. gr. laga nr. 60/1972. Því er hér bætt við að réttur þessi víki fyrir rétti hins makans til að fá verðmæti í sinn hlut til greiðslu skuldbindinga sem á honum hvíla.

Um 106. gr.

     Hún samsvarar 48. gr. hjrl. og fjallar að nokkru um sama efni og 109. gr. skiptalaga
nr. 20/1991.

Um 107. gr.

     Hér eru fyrirmæli um endurgjaldskröfur, sbr. 51.–54. gr., sbr. 55. gr. laga nr. 20/1923.
Þær greinar eru ekki afnumdar með skiptalögum nr. 20/1991. Er til endurgjaldskrafna vísað í 2. mgr. 106. gr. og 4. mgr. 109. gr. þeirra laga.
     1. mgr. varðar sama efni og greinir í 53. gr. laga nr. 20/1923. Sérregla er hér um fé sem gengur til þess að afla lífeyrisréttinda, sbr. 2. tölul. 102. gr.
     2. mgr. svarar til 52. gr. laga nr. 20/1923.
     1. málsl. 3. mgr. er nánast skýringarákvæði. Í 2. málsl. segir að krefjast megi greiðslu úr séreign makans ef hjúskapareign hrekkur ekki til, sbr. 2. mgr. 52. gr. hjrl.
     4. mgr. er sama efnis og 55. gr. laga nr. 20/1923.
     5. mgr. er nýmæli og kveður á um greiðslu endurgjaldskrafna. Er unnt að mæla svo fyrir að greiðsla sé innt af hendi með afborgunum.
     Ákvæði 54. gr. laga nr. 20/1923 er ekki tekið með í 107. gr. Þegar svo stendur á sem þar greinir á maki sem notar séreignarfé til þess að auka verðgildi hjúskapareignar eftir atvikum kröfu á hitt hjóna er jafna ber við skiptin ef krafist verður.

Um 108. gr.

     Í greininni eru fyrirmæli um útlagningu verðmæta, þ.e. eftir að úthlutun fer fram til
greiðslu skulda, sbr. 106. gr.
     Í 1. mgr. er mælt svo fyrir að við opinber skipti vegna skilnaðar geti hvort hjóna um sig krafist þess að fá hlut sinn útlagðan eftir virðingu. Er það í samræmi við gildandi rétt.
     Í 2. mgr. er haldið þeirri reglu gildandi laga að það hjóna, sem á verðmæti að hjúskapareign, geti krafist þess að fá það í sinn hlut, enda rúmist það innan fjármarka eignarhluta hans.
     Frá meginreglu upphafsákvæðis 2. mgr. eru að öðru leyti frávik skv. 1.–5. tölul. Samkvæmt þeim er heimilt í ákveðnum tilvikum að leggja verðmæti út til þess hjóna sem ekki á mun að hjúskapareign. Sanngirnisrök þóttu mæla með slíkri reglu, auk þess sem hún er í samræmi við niðurstöður í norræna lagasamstarfinu. Samkvæmt 110. gr. skiptalaga getur annað hjóna hins vegar ekki krafist útlagningar úr hjúskapareign hins nema samkomulag verði um það. Ákvæði 108. gr. frumvarpsins hefur því að geyma sérreglu sem gengur framar 110. gr. skiptalaga hvað þetta snertir. Ákvæðið stangast að öðru leyti ekki á við skiptalög, en kveður á um fyllri reglur en ákvæði 110. gr. skiptalaga og gengur sem sérákvæði framar því.
     108. gr. getur líka átt við þegar hjón eiga eign í sameign enda þótt ekki sé vikið sérstaklega að sameignum í ákvæðinu. 3. mgr. 110. gr. skiptalaga fjallar um rétt aðila til að krefjast útlagningar úr sameign. Samkvæmt henni skal það hjóna ganga fyrir sem ætla má að hafi meiri þörf fyrir eignina en ella skal varpa hlukesti um í hvors hlut hún komi ef ekki verða sammæli um annað. Forsendan fyrir beitingu 1.–5. tölul. er þörf maka fyrir eign og stangast ákvæðið því ekki á við 110. gr. skiptalaga, en felur vissulega í sér fyllri reglur um þessi tilvik og gengur sem sérákvæði framar því.
     1. og 2. tölul. varða íbúðarhúsnæði fjölskyldu og sumarbústað. Ef ágreiningur verður ber að taka tillit til þess við útlagningu hvorum maka sé meiri þörf á húsnæðinu í því skyni að halda uppi heimili og varðandi sumarbústaði ræður sérstaklega tillitið til barna hjóna.
     Í 3. og 4. tölul. er kveðið á um atvinnufyrirtæki og vinnutæki og annað lausafé er tengist atvinnu. Þar er viðmiðunin hvort hjóna hafi rekið fyrirtækið (3. tölul.) og tillitið til áframhaldandi atvinnu og til sanngirni (4. tölul.).
     Í 5. tölul., sem varðar kröfu til útlagningar húsgagna, búsgagna og annars lausafjár á sameiginlegu heimili, er einnig boðið að taka tillit til þess að krefjanda sé unnt að halda uppi heimili.

Um 109. gr.

     Greinin heimilar að leggja maka út verðmæti þótt það fari fram úr eignarhluta hans,
enda mæli sanngirni með því. Í 105. gr. er einnig ákvæði um heimild til aukningar á eignarhluta en það ákvæði er bundið við tiltekin verðmæti, búsgögn og annað lausafé á sameiginlegu heimili. 109. gr. er ekki einskorðuð við nein sérstök verðmæti að því er andlag varðar. Þá er sá munur á ákvæðunum að skv. 109. gr. ber maka að greiða fjárhæð sem samsvarar því er verðmætið fer fram úr réttri tiltölu, en það á ekki við skv. 105. gr. Ákveða má þegar sérstaklega stendur á að fjárhæð verði greidd með afborgunum. Að öðrum kosti yrði þeim maka, sem í hlut á, oft ofviða að standa undir greiðslunni. Hér ber að hafa í huga aðstæður allar, en einkum fjárhagsstöðu og afkomu þess er greiða skal og fjölskylduhagi og framfærslubyrði hans.
     Svo sem áður er greint nýtur eftirlifandi maki við skipti dánarbúa ýmissa sérréttinda samkvæmt skiptalögum nr. 20/1991, sbr. einkum III. kafla.

Um 110. gr.

     Í greininni er fjallað um heimild annars hjóna til að gefa hinu við fjárskiptin eftir af
eignarhluta sínum.
     Samkvæmt 60. gr. laga nr. 20/1923 geta skuldheimtumenn hins fyrrnefnda gengið að hinu síðarnefnda um fjárhæð sem eftirgjöf nemur ef það er eigi alveg vafalaust að makinn hafi þá átt nægilega fjármuni til þess að fullnægja skuldheimtumönnum sínum. Þetta ákvæði er ekki tekið í frumvarpið, en í 3. mgr. 132. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, er riftunarregla er varðar þann fjárhlut er maki hefur hlotið við fjárskipti umfram rétta tiltölu.

Um 111. gr.

     Ákvæðið horfir til skýringar þegar svo er að fjárskipti hafa farið fram vegna skilnaðar að borði og sæng og samvistir takast að nýju. Segir í ákvæðinu að verðmæti, sem hvort hjóna um sig hefur fengið í sinn hlut við fjárskiptin og það flytur með sér er samvistir takast að nýju, falli undir ákvæði 1. mgr. 104. gr. Hér er í raun átt við 2. málsl. 1. mgr. Skilyrðum 1. málsl. 1. mgr. þarf að vera fullnægt. Ákvæðinu er ætlað að taka af tvímæli.

Um 112. gr.

     Ef hjón hafa haft íbúðarhúsnæði á leigu mundu þau að jafnaði sjálf ákveða hvort þeirra
taki við íbúðinni er hjúskap lýkur. Ef ágreiningur verður í þessu efni ber samkvæmt greininni að leysa málið með tilliti til þarfa hjóna og barna. Ákvæðið er hliðstætt 60. gr. laga nr. 60/1972.

Um XV. kafla.

     Í þessum kafla eru ákvæði um hjúskaparmál svo sem þau eru skýrgreind í 113. gr. frumvarpsins. Er þeim ætlað að leysa af hólmi VII. kafla laga nr. 60/1972. Gert er ráð fyrir að meðferð þessara mála lúti í öllum meginatriðum almennri meðferð einkamála samkvæmt lögum nr. 91/1991 með nokkrum frávikum sem greind eru í kaflanum.
     Í hjúskaparmálum þarf oft að taka á fleiri atriðum en skilnaðarkröfunni sjálfri. Eitt og sama dómsmálið getur verið höfðað með kröfu um skilnað vegna ágreinings um forsjá barna og vegna skyldu til greiðslu lífeyris með maka. Er unnt að sækja þessa þrjá þætti í sama dómsmálinu, en vegna séreðlis hvers þeirra gilda nokkuð ólík réttarfarsleg sjónarmið um þá, einkum hvað varðar forræði aðila á máli. Verður að meta þetta á grundvelli efnislegra lagareglna á þessu sviði.
     Varðandi forsjárþáttinn þarf að taka tillit til hagsmuna þriðja aðila, þ.e. barnsins, sem þarfnast sérstakrar verndar. Með tilliti til hagsmuna þess er talið nauðsynlegt að skerða forræði aðila á máli frá því sem tíðkast almennt í einkamálaréttarfari. Í VIII. kafla frumvarps til barnalaga, sem flutt hefur verið á Alþingi, eru sérákvæði um réttarfar í dómsmálum um forsjá barna. Í 3. mgr. 56. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að reglur hjúskaparlaga um lögsögu og varnarþing gildi sé krafa um forsjá þáttur í hjúskaparmáli, en sérákvæði barnalagafrumvarpsins eigi að öðru leyti við um forsjárþáttinn. Þetta á t.d. við um 62. gr. þess þar sem segir að dómari sé ekki bundinn af málsástæðum og kröfum aðila, en hliðstætt ákvæði er ekki í þessu frumvarpi. Rétt er að vekja á því athygli að skv. 44. gr. þessa frumvarps þarf ágreiningur um forsjá barna ekki að standa í vegi fyrir því að skilnaður verði veittur áður en leyst hefur verið úr forsjárdeilu, enda komi fram krafa þar að lútandi.
     Við úrlausn um skilnaðarkröfuna sjálfa gilda nokkur önnur sjónarmið en við úrlausn um forsjá barna. Þá er um tvo jafnsetta einstaklinga að ræða og því eðlilegt að aðilar hafi ríkara forræði á máli. Hins vegar koma hér til þau þjóðfélagslegu sjónarmið að styrkja eigi hjónabandið og ófrávíkjanlegar lagareglur um skilnaði sem settar hafa verið í því skyni, svo sem ákvæðin um lágmarksfrest frá því að skilnaður að borði og sæng er veittur og uns lögskilnaður er kræfur, sbr. 36. gr. frumvarpsins, eða um tímalengd samvistaslita, sbr. 37. gr. Einnig reglur þar sem skilnaðarforsendum er lýst með ákveðnu efnisinntaki, sbr. 39. gr. um hjúskaparbrot og 40. gr. um líkamsárás. Í þessum tilvikum verður að ganga úr skugga um að lagaskilyrðum sé fullnægt og skerða verður forræði aðila á máli með hliðsjón af því. Hér dugir ekki að stefndi samþykki skilnaðarkröfu stefnanda sem reist er t.d. á skemmri samvistaslitum en tveimur árum eða á líkamsárás sem ekki er jafnalvarleg og lýst er í 40. gr. Af þessum ástæðum hefur verið talin þörf á nokkrum sérákvæðum um meðferð þessara mála, sbr. 117. gr. frumvarpsins. Frávikin eru þó færri en um forsjármál samkvæmt barnalagafrumvarpi.
    Rétt er að benda á það að stefndi í hjúskaparmáli getur auðvitað sett fram gagnkröfu og krafist skilnaðar á öðrum grundvelli en stefnandi, t.d. skilnaðar að borði og sæng í stað lögskilnaðar vegna hjúskaparbrots.
     Þau sjónarmið, sem rakin hafa verið hér að ofan um skilnaðarkröfuna og forsjárþáttinn í hjúskaparmáli, eiga ekki við um eigna- og framfærslumál hjóna. Við meðferð þessara þátta eru ekki sömu rök til að skerða forræði aðila og frávik frá almennri meðferð einkamála verða færri. Verður að líta svo á að aðilar geti gert sátt um þessi mál, sbr. 43. og 95. gr. Ber ekki að túlka 4. mgr. 117. gr. frumvarpsins svo að ekki sé heimilt að gera sátt um slíka afmarkaða þætti sem ófrávíkjanlegar lagareglur gilda ekki um.
     Um hjúskaparmál gilda sömu sjónarmið og um forsjármál varðandi nauðsyn þess að dómþing séu lokuð og gætt sé nafnleyndar við birtingu dóms, sbr. 118. og 119. gr.

Um 113. gr.

     Hún er sama efnis og 61. gr. laga nr. 60/1972, en 4. tölul. er nýmæli sem mælir fyrir um að komi til dómsmáls um hvort réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng séu fallin niður fari um það mál sem hjúskaparmál.

Um 114. gr.

     Lögsögureglur samkvæmt þessu ákvæði eru mótaðar með hliðsjón af dönskum og norskum lögum. Þær fela í sér nokkra rýmkun á reglum 66. gr. laga nr. 60/1972. Lagt er til í 2. mgr. að mál til ógildingar hjúskapar megi höfða hér á landi ef hjónavígsla hefur farið hér fram.
     Lögsögureglur 114. gr. eru í samræmi við lögsögureglur 1. mgr. 56. gr. frumvarps til barnalaga að svo miklu leyti sem þessi tvenns konar mál eru sambærileg af eðlisástæðum. Í 1. mgr. 56. gr. segir að þegar krafa um forsjá barns sé þáttur í hjúskaparmáli gildi þær reglur um lögsögu og varnarþing sem greinir í lögum um hjúskaparmál.

Um 115. gr.

     Henni er ætlað að koma í stað 67. gr. laga nr. 60/1972 um varnarþing, sjá til samanburðar 57. gr. frumvarps til barnalaga, svo og 3. mgr. 56. gr. er greinir í umsögn um 114. gr. Aðilar geta samið um varnarþing, sbr. og 3. tölul. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Um 116. gr.

     Þetta ákvæði er í samræmi við gildandi lög.
     Um 1. mgr. vísast til 65. og 79. gr. laga nr. 60/1972 og um 2. mgr. til 24. gr. þeirra laga.
     Í frumvarpinu er ekki ákvæði hliðstætt 68. gr. laga nr. 60/1972 um að dómsmálaráðuneytið geti látið fresta málssókn til ógildingar tvíkvænishjúskap, sérstaklega ef ætla megi að fyrra hjúskap verði bráðlega slitið. Var ekki talin þörf á slíku ákvæði. Þessi mál sæta ekki lengur meðferð opinberra mála og ráðuneytið getur tekið ákvörðun um frestun enda þótt lagaákvæði kveði ekki á um það.

Um 117. gr.

     Í 1. mgr. er sú meginregla að hjúskaparmál sæti meðferð einkamála, sbr. lög nr. 91/1991. Er það í samræmi við 3. mgr. 68. gr. laga nr. 60/1972. Þetta á einnig við um mál til ógildingar hjúskapar, sbr. 2. mgr. 116. gr. frumvarpsins.
     Í 2. og 4. mgr. 117. gr. og greinunum þar á eftir er síðan mælt fyrir um nokkur frávik frá meginreglu 1. mgr.
     Í 2. mgr. er lagt til að dómara sé heimilt að skipa stefnda málsvara þegar svo stendur á að ekki er vitað um heimilisfang né dvalarstað stefnda. Enn fremur þegar stefndi er búsettur eða dvelst erlendis og ekki tekst að birta honum stefnu eða hvorki hann né umboðsmaður hans sækja þing við þingfestingu máls og sérstakar ástæður mæla að öðru leyti með því. Brýn nauðsyn getur borið til þessa úrræðis sem ætlað er m.a. að tryggja að mál, sem höfða má hér á landi skv. 113. gr., geti sætt meðferð hér og að skilnaðardómar sem kveðnir eru upp hér á landi gegn mönnum, sem eru búsettir erlendis, verði viðurkenndir utan Íslands. Þetta er þrengri regla en ákvæði 70. gr. laga nr. 60/1972. Málsvari skal tala máli hins stefnda og gæta hagsmuna hans, en hefur ekki heimild til að skuldbinda hann fyrir dómi. Ekki er þess krafist að málsvari skuli vera lögmaður, kæmi t.d. til greina að ættingi eða vinur hins stefnda yrði skipaður málsvari. Eðlilegt er að líta svo á að málsvari verði að fullnægja almennum hæfisskilyrðum lögræðislaga, sbr. 29. gr. laga nr. 68/1984. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna málsvara greiðist í fyrstu úr ríkissjóði, en dómari geti kveðið á um að stefndi skuli endurgreiða ríkissjóði hann að öllu eða nokkru leyti.
     Eins og vikið var að í almennum athugasemdum við XV. kafla takmarka ófrávíkjanlegar lagareglur forræði aðila á hjúskaparmáli. Ákvæði 3. mgr. áréttar þetta og vísar til þess að við úrlausn skilnaðarmála beri dómara „ex officio“ að gæta þess að ófrávíkjanlegum lagareglum sé fullnægt. Þannig eiga aðilar ekki að geta vikið sér undan ófrávíkjanlegum lagareglum, t.d. fengið lögskilnað með því að játa á sig hjúskaparbrot sem ekki hefur verið framið.
     Í 4. mgr. segir að hjúskap verði ekki slitið með dómsátt aðila. Þessi regla er í samræmi við danska, norska og sænska lagaframkvæmd. Hún helgast af þeim opinberu hagsmunum og einkahagsmunum sem eru af því að niðurstaða byggist á réttum forsendum og þeim víðtæku réttaráhrifum sem skilnaður hefur í för með sér. Hefur verið talið nauðsynlegt að lyktir máls séu með formlegri hætti en dómsátt. Hér þarf einnig að hafa í huga gildi íslenskra skilnaðardóma gagnvart rétti annarra ríkja. Ákvæðið girðir ekki fyrir að dómari staðfesti samkomulag aðila um einstaka þætti sem snerta hvorki ófrávíkjanlegar lagareglur né hagsmuni barns, sbr. hér að ofan.

Um 118. gr.

     Dómsmál þessi eru mjög persónuleg og viðkvæm og þykir réttmætt að kveða svo á að
þinghöld skuli fara fram fyrir luktum dyrum nema dómari kveði öðruvísi á með samþykki aðila, sbr. hér 1. mgr. 76. gr. laga nr. 60/1972 og 63. gr. frumvarps til barnalaga.

Um 119. gr.

     Í ákvæðinu er kveðið á um nafnleynd vegna þessara mála, bæði að því er varðar frásögn um það er gerist í slíkum málum, nema dómari leyfi, og svo þegar dómur er birtur, þar á meðal gefinn út að tilhlutan dóms svo sem er um dómasöfn Hæstaréttar. Stafa þessi ákvæði af því hve persónuleg og viðkvæm þessi mál eru að jafnaði, sbr. hér 2. mgr. 76. gr. laga nr. 60/1972 og 64. gr. frumvarps til barnalaga.

Um 120. gr.

     Þetta ákvæði varðar andlát málsaðila og áhrif þess á höfðun eða áfrýjun hjúskaparmáls.
     Ákvæði 1. mgr. má leiða af 1. mgr. 116. gr.
     2. mgr. kveður svo á að mál falli niður ef annað hjóna andast áður en dómur gengur í máli sem höfðað hefur verið. Á þetta einnig við um áfrýjun. Héraðsdómur verður því ekki endurskoðaður í æðra rétti. Við málalok í héraði verður að sitja.

Um 121. gr.

     Aðalgildi þessarar greinar er að kveðið er svo á að unnt sé að höfða mál að nýju innan mánaðar frá því að máli er vísað frá dómi eða fellt niður án kröfu sækjanda þótt málshöfðunarfrestir séu liðnir. Þess eru allmörg dæmi í frumvarpinu að settir séu tímafrestir til málshöfðunar, sbr. t.d. 3. mgr. 39. gr., 2. mgr. 40. gr., 2. mgr. 52. gr. og 2. mgr. 65. gr.

Um 122. gr.

     Í 1. mgr. segir að heimilt sé að áfrýja einstökum þáttum dómsmáls. Dómurinn kveður t.d. á um lögskilnað aðila, forsjá barna þeirra og skyldur til greiðslu lífeyris með maka. Vera má að báðir aðilar uni úrlausn dómara um lögskilnað, en annað eða bæði vilja áfrýja þættinum um forsjá og jafnvel skyldu til greiðslu lífeyris. Er lagt til að tekið sé af skarið um að slíkt sé heimilt. Réttaráhrif þeirra þátta, sem ekki er áfrýjað, haldast óbreytt. Sérreglur eru í lögum um málskot í sambandi við málskostnað og tekur ákvæðið ekki til þess þáttar.
     Í 2. mgr. segir að hvorugur málsaðili megi ganga í hjúskap innan loka áfrýjunarfrests nema aðilar, þar á meðal dóms- og kirkjumálaráðuneytið þegar það á aðild máls, hafi fallið bréflega frá áfrýjun. Ákvæðið er sama efnis og 3. mgr. 78. gr. laga nr. 60/1972.
    Um áfrýjunarleika dómsathafnar er vakin athygli á 13. gr. laga nr. 44/1981 varðandi úrskurð um að horfinn maður skuli talinn látinn.
     Í 3. mgr. segir að endurupptaka máls sé ekki heimil eftir lok áfrýjunarfrests. Af því leiðir að ákvæði einkamálalaga um endurupptöku eiga ekki við um þessi mál eftir lok áfrýjunarfrests. Stafar þetta ákvæði af hinum víðtæku réttaráhrifum dóms í hjúskaparmáli. Ef mál er dæmt að nýju eftir það tímamark sem nefnt er í greininni mundi það leiða til mikilla raunhæfra erfiðleika þar sem aðilar hafa treyst dómsniðurstöðunni og hagað sér samkvæmt því, t.d. gifst að nýju og hagað margvíslegum fjármálaráðstöfunum með hliðsjón af þeim málalokum. Þykir þetta sjónarmið svo mikilvægt að önnur hljóti að þoka.

Um XVI. kafla.

     Í þessum kafla eru ákvæði um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögunum. Hér er lagt til að lögfestar verði reglur sem mótast hafa í lagaframkvæmd, einkum við meðferð dómsmálaráðuneytisins á hjúskaparmálum. Horfir slík lögskráning til réttaröryggis. Er hennar og sérstök þörf nú þegar margvíslegar úrlausnir flytjast frá dómsmálaráðuneyti til sýslumanna. Tekið skal fram að reglur þessar gilda einnig um meðferð mála hjá dómsmálaráðuneyti þegar mál koma til kasta þess. Við mótun ákvæða þessa kafla hefur verið höfð hliðsjón af frumvörpum til stjórnsýslulaga, almennum viðhorfum í stjórnsýslurétti og sifjarétti og álitsgerðum umboðsmanns Alþingis.
     Ákvæði þessa kafla eru í megindráttum eftir því sem við getur átt, sama eða svipaðs efnis og ákvæði IX. kafla frumvarps til barnalaga. Þykir mega vísa til greinargerðar um þann kafla og einstakra greina hans. Verður hér aðeins getið fáeinna atriða.

Um 123. gr.

     Lögsögureglurnar eru nokkru þrengri en hliðstæðar reglur 114. gr. um lögsögu dómstóla. Verður hér að fara að með nokkurri gát. Meðal annars er þess að gæta að víða erlendis eru skilnaðarmál og ágreiningsmál, er tengjast þeim, alfarið háð úrlausn dómstóla.

Um 124. gr.

     Þetta ákvæði svarar til 115. gr. um varnarþing í dómsmálum.

Um 125. gr.

     Greinin er sama efnis og 67. gr. frumvarps til barnalaga og varðar leiðbeiningarskyldu sýslumanna.

Um 126. gr.

     Þessi grein varðar sáttaumleitun sýslumanns og er í megindráttum sama efnis og 1.
mgr. 68. gr. frumvarps til barnalaga, sbr. og 43. gr. þessa frumvarps.

Um 127. gr.

     Greinin fjallar um kröfur aðila og gagnaöflun og er sama efnis og 69. gr. frumvarps
til barnalaga.

Um 128. gr.

     Greinin fjallar um rétt aðila til að kynna sér gögn máls. Er hún sama efnis og 1. mgr.
70. gr. frumvarps til barnalaga. 2. mgr. þeirrar greinar er ekki í 128. gr., en þar er heimilað að takmarka aðgang að gögnum vegna hagsmuna barns. Hér horfir mál öðruvísi við.

Um 129. gr.

     Greinin er hliðstæð 71. gr. frumvarps til barnalaga og varðar rétt aðila til að tjá sig um
mál.

Um 130. gr.

     Greinin mælir fyrir um úrskurð stjórnvalds sem skal m.a. vera skriflegur og geyma lýsingu á úrlausnarefni, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, greiningu á kæruheimild og þvingunarúrræði ef því er að skipta. Ákvæðið er sama efnis og 72. gr. frumvarps til barnalaga og er vísað um rökstuðning fyrir ákvæðinu til athugasemda um þá grein. Horfa þeir hættir, sem greinin kveður á um, til réttaröryggis og verða nauðsynleg undirstaða að mati aðila á því hvort úrlausn verði skotið til æðra stjórnvalds. Benda ber á að afgreiðslur mála samkvæmt þessu frumvarpi eru oft og einatt ekki í formi úrskurða, heldur t.d. leyfisbréfa sem nokkuð önnur sjónarmið eiga við um. Í sambandi við leyfisbréf reynir helst á úrskurði ef synjað er um útgáfu leyfis.

Um 131. gr.

     Greinin er hliðstæð 73. gr. frumvarps til barnalaga og varðar tilkynningu um úrskurð.

Um 132. gr.

     Greinin fjallar um stjórnsýslukæru, sbr. 74. gr. frumvarps til barnalaga. Tekur ákvæðið til allra úrlausna sýslumanna á þessu sviði. Stundum er þess getið í frumvarpinu um einstaka úrlausnir að þær séu kæranlegar, en frá því má ekki gagnálykta svo að úrlausnir séu því aðeins kæranlegar að þessa sé getið í lögunum. Kærufrestur er tveir mánuðir miðað við dagsetningu úrlausnar. Kæra frestar ekki réttaráhrifum úrlausnar nema sýslumaður ákveði annað af sjálfsdáðum eða að kröfu aðila. Að því er leyfi til skilnaðar varðar þykja rök standa til þess að kæra fresti réttaráhrifunum þannig að maki geti ekki gengið í hjúskap að nýju að svo stöddu. Ef aðilar hafa lýst því bréflega að þeir muni ekki kæra stendur þetta ákvæði þó ekki í vegi fyrir því að til hjúskapar verði stofnað. Endranær verður að þreyja uns tveggja mánaða fresti lýkur, þ.e. allt til þess að sýnt er hvort úrlausn verði kærð.

Um XVII. kafla.

     Hér er fjallað um gildistöku laganna, lög er falla brott og tengsl laganna við eldri lög
um sama efni o.fl.

Um 133. gr.

     Lagt er til að lögin taki gildi 1. júlí 1993.
     Í einstökum greinum frumvarpsins er vikið að útgáfu reglna og reglugerða, sbr. t.d. 13. gr., 19. gr., 22. gr., 24. gr., 26. gr., 42. gr., 43. gr., 64. gr. og 85. gr. Í 2. mgr. 133. gr. er síðan greind almenn heimild til útgáfu reglugerða.
     Lögð er áhersla á nauðsynina sem til þess ber að kynna almenningi efni laganna, sbr. 3. mgr.

Um 134.–139. gr.

     Meginreglan er sú samkvæmt frumvarpinu að beita skuli lögunum frá gildistöku þeirra.
Einnig hvað snertir hjónabönd sem til er stofnað fyrir gildistöku þeirra. Stundum er þetta áréttað sérstaklega, sbr. 134. gr., 3. mgr. 135. gr. og 137. gr.
     Lögin eiga við um fjármál hjóna sem gengið hafa í hjónaband fyrir gildistöku laganna. Þessu var andstætt farið um lög nr. 20/1923 og gilti sú skipan allt til 1961. Þótt hjónavígsluskilyrði hafi verið könnuð fyrir gildistöku laganna hlítir hjónavígsla, sem fram fer eftir gildistöku laganna, ákvæðum þeirra o.s.frv.
     Um nokkur atriði segir í frumvarpinu að þau fari eftir eldri lögum. Í 1. mgr. 135. gr. segir að krafa um skilnað að borði og sæng og lögskilnað, sem sett er fram fyrir gildistöku laganna, hlíti ákvæðum eldri laga. Ef bæði hjón óska þess er þó unnt að beita reglum þessara laga um slíka kröfu. Hins vegar segir svo í 3. mgr. að um réttaráhrif ógildingar hjúskapar og skilnaðar fari eftir þessum lögum þegar svo stendur á sem í 1. og 2. mgr. segir. Í 1. mgr. 136. gr. er vikið að leyfi til skilnaðar að borði og sæng sem veitt er fyrir gildistöku laganna. Í 138. gr. er kveðið á um að lagaskilareglur skiptalaga gildi um opinber fjárskipti milli hjóna sem ólokið er við gildistöku laganna. Í 139. gr. eru nokkur tilvik greind þar sem beita á eldri lögum. Það á einkum við um samninga sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna, sbr. samning skv. 12. gr. hjrl. (1. tölul.), eða skv. 20. og 21. gr. ( 2. tölul.) og sama er um 26. og 27. gr. hjrl. er tengjast samningum (4. tölul.). Tekjur af séreign, sem myndast hefur fyrir gildistöku laganna, eiga að hlíta ákvæðum 2. mgr. 23. gr. hjrl., en tekjur, er síðar falla til, þessum lögum. Um kaupmála, sem gerðir eru fyrir gildistöku laganna, segir í 5. tölul. að um gildi þeirra fari skv. hjrl., en um réttaráhrif eftir gildistöku laganna á að beita lögum þessum.
     Stundum er ákvæði valkvætt þannig að aðilum er kostur að óska þess að þessum lögum verði beitt, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 135. gr.

Um 140. gr.

     Þar er kveðið á um lög sem lagt er til að felld verði brott. Bent skal á að með skiptalögum nr. 20/1991 eru felld niður nokkur ákvæði laga nr. 20/1923 með gildistöku 1. júlí 1992. Hér er þó sá kostur valinn að fella lög nr. 20/1923 samfellt úr gildi nema VIII. kafla sem afnuminn var með erfðalögum, nr. 8/1962.