Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 1 . mál.


376. Nefndarálit



um frv. til l. um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Utanríkismálanefnd hefur í raun að meira eða minna leyti haft samning um hið Evrópska efnahagssvæði til meðferðar allt frá því umræður um hann hófust vorið 1989. Sérstaklega hefur nefndin fjallað ítarlega um málið á sumarfundum og sl. mánuði eftir að frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Um störf nefndarinnar að öðru leyti er vísað til ítarlegs yfirlits sem fylgir áliti meiri hlutans.
    Fyrsti minni hluti hefur engar athugasemdir að gera við meðferð málsins, hvorki í núverandi utanríkismálanefnd eða þeirri fyrri.
    Á nefndarfundi komu þeir gestir sem óskað var eftir og þær upplýsingar fengust sem beðið var um. Hitt er svo annað mál að enn eru ýmis atriði þessa viðamikla samnings óljós. Sjávarútvegssamningur við Evrópubandalagið liggur enn ekki fyrir. Óljóst er hvort heimilt verður að leggja jöfnunargjald á ýmsar innfluttar landbúnaðarafurðir og réttindi erlendra iðnaðarmanna hér á landi eru enn ófrágengin, svo að nokkur atriði séu nefnd.
    Vafalaust er samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði sá viðamesti sem Íslendingar hafa gert og mikilvægur að sama skapi. Hann getur einnig orðið mjög örlagaríkur fyrir íslensku þjóðina, því er nauðsynlegt að meta þennan samning mjög vandlega en það verður að gera frá þremur hliðum.
    Í fyrsta lagi verður að meta efnahagsleg áhrif samningsins.
    Í öðru lagi er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, eins og unnt er, hver framtíð Íslands verður í slíku samstarfi.
    Í þriðja lagi verður að skoða af fullri einurð hvort hin íslenska stjórnarskrá heimilar að gera umræddan samning og hlýtur það að teljast forsenda þess að umræddur samningur verði gerður. Undirritaðir telja því rétt að skoða í upphafi stjórnskipulega hlið málsins.
         Utanríkismálanefnd hefur fjallað mjög ítarlega um stjórnskipulega hlið samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Á síðasta sumri fékk nefndin á sína fundi ýmsa lögfræðinga sem sérfróðir eru um íslensku stjórnarskrána. Ítarleg skrifleg álit fengust einnig. Þessari yfirferð yfir stjórnarskrárþátt málsins lauk með málþingi sem utanríkismálanefnd hélt ásamt stjórnarskrárnefnd að ósk Steingríms Hermannssonar. Þar voru mættir Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, Hannes Hafstein ráðuneytisstjóri, dr. Guðmundur Alfreðsson þjóðréttarfræðingur og prófessor Björn Þ. Guðmundsson. Einnig hafa verið skoðuð álit erlendra sérfræðinga, einkum danska prófessorsins Max Sørensens.
    2. gr. stjórnarskrárinnar skiptir ríkisvaldinu á milli forseta og Alþingis, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Að sjálfsögðu er hér aðeins um innlenda valdhafa að ræða. Hvergi í stjórnarskránni er gefið til kynna, hvað þá sagt skýrum orðum, að heimilt sé að framselja vald til erlends aðila.
    Hins vegar verður ekki um það deilt að gert er ráð fyrir að framselja vald til eftirlitsstofnunar EFTA og til EFTA-dómstólsins í tengslum við samkeppnisreglur samningsins. Að þessari niðurstöðu komast m.a. þeir fjórir lögfræðingar sem sátu í nefnd þeirri sem utanríkisráðherra skipaði og Björn Þór Guðmundsson og Guðmundur Alfreðsson. Aftur á móti eru lögfræðingarnir ósammála um það hvort um framsal valds er að ræða í öðrum atriðum samningsins.
    Eftirlitsstofnun EFTA hefur eftirlit með því að samkeppnisreglur séu haldnar. Ef stofnunin telur þær brotnar getur stofnunin m.a. ákveðið fésektir. Niðurstöðum verður ekki áfrýjað til innlends dómstóls, heldur aðeins til EFTA-dómstólsins. Fésektirnar eru aðfararhæfar án þess að innlendur dómstóll fái um þær fjallað.
    Nefnd sú, sem utanríkisráðherra skipaði, kemst að þeirri niðurstöðu að umrætt framsal á valdi sé það vel afmarkað, takmarkað og ekki íþyngandi fyrir íslenska aðila að það megi teljast heimilt. Björn Þór Guðmundsson og Guðmundur Alfreðsson vekja hins vegar athygli á því að stjórnarskráin heimilar hvergi framsal á valdi, jafnvel þótt takmarkað sé, og því beri að telja slíkt framsal óheimilt. Í ítarlegu riti kemst prófessor Max Sørensen að þeirri niðurstöðu að áður en sérstök heimild kom í dönsku stjórnarskrána hafi hvers konar framsal á valdi til erlendrar stofnunar verið óheimilt. Hann telur það grundvallaratriði að handhafar valdsins hafi orðið að vera danskir. Eins og kunnugt er rekur íslenska stjórnarskráin uppruna sinn til þeirrar dönsku.
    Rétt er að vekja athygli á því að öll önnur ríki Norðurlanda hafa á síðustu áratugum sett sérstakt ákvæði í sínar stjórnarskrár sem heimilar takmarkað framsal á valdi. Í greinargerðum með þessum breytingum kemur fram að þetta hafa löndin talið nauðsynlegt vegna vaxandi alþjóðlegs samstarfs.
    Einnig má nefna að bæði Norðmenn og Finnar, og reyndar einnig Austurríkismenn, töldu óhjákvæmilegt að fjalla um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði á grundvelli þeirrar greinar í stjórnarskrám sínum sem heimilar takmarkað framsal á valdi, enda sé það samþykkt með auknum meiri hluta á þingi.
    Á nýloknu flokksþingi framsóknarmanna var ályktað:
    „[Flokksþingið telur] vafasamt að það standist hina íslensku stjórnarskrá að framselja til eftirlitsstofnunar og dómstóls EFTA vald eins og gert er ráð fyrir í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Flokksþingið ber virðingu fyrir íslensku stjórnarskránni og telur að túlka beri allan vafa henni í hag. Flokksþingið telur því nauðsynlegt að breyting fari fram á íslensku stjórnarskránni áður en unnt verði að samþykkja aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði.“
    Fyrsti minni hluti er þeirrar skoðunar að íslenska stjórnarskráin heimili ekki samþykkt þess samnings um hið Evrópska efnahagssvæði sem hér liggur fyrir.
    Um efnishlið samningsins og framtíð Íslands í slíku samstarfi mætti hafa langt mál. Í samningnum eru bæði ákvæði sem eru jákvæð fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf og önnur sem teljast verða vafasöm eða neikvæð. Framtíð Íslands í hinu Evrópska efnahagssvæði mundi hins vegar ráðast mjög af því hve sterkt íslenskt atvinnulíf er í stórauknu erlendu samstarfi. Veikburða atvinnuvegir munu illa standast slíka samkeppni eða ásókn erlends fjármagns. Því miður eru íslensk fyrirtæki afar veikburða nú. Ef svo verður áfram getur samningurinn orðið stórhættulegur íslensku fullveldi.
    Fyrsti minni hluti sér hins vegar ekki ástæðu til að rekja efnisatriði samningsins nánar því eins og fyrr segir er það forsenda fyrir gerð þessa samnings að hann standist stjórnarskrána. Það gerir hann ekki að mati 1. minni hluta og þegar af þeirri ástæðu geta undirritaðir ekki stutt þátttöku Íslendinga í hinu Evrópska efnahagssvæði.

Alþingi, 30. nóv. 1992.


Steingrímur Hermannsson,

Páll Pétursson.

frsm.