Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 11 . mál.


389. Nefndarálit



um frv. til l. um verðbréfaviðskipti.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu frá viðskiptaráðuneytinu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Finnur Sveinbjörnsson skrifstofustjóri og Páll Ásgrímsson lögfræðingur. Þá komu Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Jóhann Albertsson, deildarstjóri í bankaeftirliti Seðlabanka Íslands, Eiríkur Guðnason, aðstoðarbankastjóri Seðlabanka Íslands, Jóhann Þorvarðarson, hagfræðingur Verslunarráðs Íslands, Rúnar B. Jóhannsson, formaður Félags löggiltra endurskoðenda, og loks frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja Gunnar Helgi Hálfdanarson formaður, Guðmundur Hauksson varaformaður og Helgi Sigurðsson hdl. Umsagnir bárust frá Seðlabanka Íslands, Verslunarráði Íslands, Árna Vilhjálmssyni, Neytendasamtökunum, Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Lögmannafélagi Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda og Verðbréfaþingi Íslands. Enn fremur var stuðst við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá Samtökum íslenskra verðbréfafyrirtækja, Verslunarráði Íslands og Neytendasamtökunum.
    Frumvarp þetta er eitt af þremur frumvörpum sem nefndin hefur fjallað um á sviði verðbréfaviðskipta á þessu löggjafarþingi, hin tvö eru frumvarp til laga um verðbréfasjóði og frumvarp til laga um Verðbréfaþing Íslands. Mál þessi eru í mörgum atriðum samofin og hafa jafnan verið rædd í nefndinni í tengslum hvert við annað.
    Hvað snertir þetta frumvarp leggur nefndin til að á því verði gerðar svofelldar breytingar:
    Lögð er til sú breyting á 1. gr. að síðari hluti skilgreiningar hugtaksins „verðbréf“ í 1. tölul. verði lagfærður.
    Lagt er til að 5. gr. verði breytt þannig að skipulegur verðbréfamarkaður, annar en opinber verðbréfamarkaður, sé sá sem er opinn almenningi og viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlitið metur gildan. Með þessari breytingu er verið að fella niður ákvæði um „viðurkenningu lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki“.
    Lögð er til sú breyting á 10. gr. að verðbréfafyrirtækjum verði einungis skylt að nota orðið „verðbréfafyrirtæki“ til nánari skýringar á starfsemi sinni þegar því verður við komið.
    Lagt er til að 11. gr. verði breytt þannig að enginn vafi leiki á því að verðbréfafyrirtækjum skuli heimilt að sjá um almenn sem lokuð útboð. Þá er lagt til að auk þess að sjá um fjárvörslu fyrir einstaklinga og lögaðila geti verðbréfafyrirtæki innt af hendi fjármálaþjónustu tengda verðbréfaviðskiptum. Loks komi fram í frumvarpinu með skýrum hætti að verðbréfafyrirtækjum er heimilt að kaupa og selja verðbréf fyrir eigin reikning.
    Lögð er til sú breyting á 14. gr. að síðari málsgrein falli brott, enda er hún óþörf í ljósi ákvæða frumvarps til samkeppnislaga sem er til umfjöllunar á þessu löggjafarþingi og nefndin hefur fjallað um.
    Lögð er til sú breyting á 17. gr. að 3. mgr. falli brott. Þar segir að verðbréf sem boðin eru til sölu í almennu útboði skuli skráð á opinberum verðbréfamarkaði. Með því er verið að skerða verulega það valfrelsi sem útgefendur hafa nú, auk þess sem heppilegra er að skráning verðbréfa á opinberum verðbréfamarkaði aukist samkvæmt þróun en ekki lögboði.
    Lagt er til að 18. gr. verði breytt en núverandi ákvæði hennar þykir ekki í samræmi við eðlilegt fyrirkomulag þeirra viðskipta sem þar er fjallað um.
    Lagt er til að 19. gr. verði breytt þannig að verðbréfafyrirtæki verði heimilt að veita viðskiptaaðila lán og ganga í ábyrgðir vegna verðbréfaviðskipta. Um þessa starfsemi skulu verðbréfafyrirtækin setja sér verklagsreglur sem staðfestar verði af bankaeftirlitinu. Tekið skal fram að litið er á þessa þjónustu sem hliðarstarfsemi en ekki afgerandi þátt í störfum verðbréfafyrirtækis.
    Lögð er til breyting á orðalagi kaflafyrirsagnar VI. kafla.
    Lagt er til að 22. gr. verði breytt og vísast um það til athugasemda með 5. gr. hér að framan.
    Lagt er til að 29. gr. verði breytt þannig að sú upplýsingaskylda, sem lögð er á endurskoðendur samkvæmt fyrri málslið 3. mgr., falli niður en hún þykir ekki samræmast hlutverki og skyldum endurskoðenda en þeir hafa m.a. ríkri trúnaðar- og þagnarskyldu að gegna. Aftur á móti er lagt til að viðbót komi við síðari málslið 3. mgr. þar sem komi fram að hafi endurskoðandi ástæðu til að ætla að stjórnendur fyrirtækis hafi ekki rækt upplýsingaskyldu sína við bankaeftirlitið skuli hann gera því viðvart.
    Lagt er til að 38. gr. falli brott en hún þykir fela í sér óeðlilegt framsal á heimildum ráðherra til bankaeftirlitsins.
    Lagt er til að 41. gr. verði breytt en heppilegra þykir að frumvarpið taki gildi 1. júlí nk.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 2. des. 1992.


Vilhjálmur Egilsson,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.

form., frsm.



Halldór Ásgrímsson.

Guðjón Guðmundsson.

Ingi Björn Albertsson.



Sólveig Pétursdóttir.

Kristín Ástgeirsdóttir,

Steingrímur J. Sigfússon,

með fyrirvara.

með fyrirvara.