Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 96 . mál.


433. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1993 er nú komið til 2. umr. Nefndin hefur í umfjöllun sinni um frumvarpið einkum fjallað um útgjaldahlið þess en umfjöllun um tekjuhliðina bíður 3. umr.
    Það fór svo nú eins og á síðasta ári að fjárlagafrumvarpið eins og það var lagt fram var ekki marktækt. Þegar fjárlaganefnd hafði haft frumvarpið til umfjöllunar í nær tvo mánuði birti ríkisstjórnin 23. nóvember yfirlýsingu um aðgerðir í efnahagsmálum sem breytti í veigamiklum atriðum forsendum frumvarpsins og gerði m.a. ráð fyrir viðbótarniðurskurði á gjaldahlið sem nemur 1.240 millj. kr. Einnig voru kynntar í yfirlýsingunni veigamiklar skattkerfisbreytingar sem varða tekjuhliðina.
    Þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að gera breytingar á lögunum um virðisaukaskatt sem fólust í því að draga úr skattfrelsi ýmissa neysluþátta, svo sem húshitunar, bóka, blaða, tímarita, útvarps og sjónvarps, sem nú eru án virðisaukaskatts, draga úr endurgreiðslum virðisaukaskatts af vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði og þjónustu sveitarfélaga, svo sem snjómokstri.
    Vegna harðrar andstöðu sveitarfélaganna í landinu féll ríkisstjórnin frá því að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu þeirra. Þess í stað var gert samkomulag milli formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, forsætisráðherra og félagsmálaráðherra um að mæla með að sveitarfélögin greiði 500 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð á móti framlagi til að draga úr atvinnuleysi.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. nóvember er gert ráð fyrir að taka upp tveggja þrepa virðisaukaskatt sem leggst á húshitun 1. janúar 1993, bækur, blöð og afnotagjöld fjölmiðla 1. júlí 1993 og ferðaþjónustu 1. janúar 1994.
    Þessi vandræðagangur hefur gert fjárlaganefnd erfitt fyrir í störfum sínum. Fylgifrumvörp fjárlaganna, sem varða skattkerfisbreytingarnar og tekjuhliðina, voru ekki lögð fram fyrr en á síðustu stundu. Nefndin hefur því ekki enn fjallað um tekjuhliðina og mun sú umfjöllun bíða 3. umr.

Gjaldahlið.
    Ein af megináherslum í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að skera niður ríkisútgjöld. Að hennar dómi á með því að leysa allan vanda, draga úr þenslu á lánamarkaði, lækka vexti og stöðva erlenda skuldasöfnun. Reynslan hefur sýnt að þetta hefur ekki tekist. Halli ríkissjóðs hefur ríflega tvöfaldast á árinu 1992 frá því sem áætlað var í upphafi árs og vextirnir íþyngja enn atvinnulífinu í landinu. Meðan þessu fer fram eru skattaálögur hærri en nokkru sinni fyrr.
    Áformaður niðurskurður kemur einkum niður á heilbrigðismálum, mennta- og menningarmálum og landbúnaðarmálum eins og nánar verður vikið að í umfjöllun um einstaka málaflokka.
    Um miðjan september sl. lagði ríkisstjórnin fram tillögur um fjárveitingar til atvinnuskapandi aðgerða. Þetta var útgjaldaauki að fjárhæð 2 milljarðar kr. Hér er þó um blekkingu að ræða því að hækkunin nemur aðeins 1 milljarði kr. þegar frá hefur verið dregin lækkun á öðrum fjárfestingarliðum, 1 milljarður kr.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um efnahagsaðgerðir frá 23. nóvember er gert ráð fyrir að lækka ríkisútgjöld um 1.240 millj. kr. til viðbótar við þann niðurskurð sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir. Það var ekki fyrr en 5. desember sem fjárlaganefnd bárust fyrstu upplýsingar um skiptingu þessa niðurskurðar sem deilt hafði verið um í stjórnarflokkunum í nær tvær vikur. Niðurstaðan varð að ekki náðist samkomulag um nema 800 millj. kr. af þessari upphæð og enn var vegið í sama knérunn og ákveðið að heilbrigðis- og tryggingamálaþátturinn skyldi sæta 600 millj. kr. niðurskurði, félagsmálaráðuneytið 110 millj. kr. niðurskurði og landbúnaðarráðuneytið skyldi skera niður 100 millj. kr. til viðbótar þeim 3,3 milljörðum sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Fjárlaganefnd hafa ekki enn borist tillögur landbúnaðarráðuneytisins um hvar 50 millj. kr. af þessum 100 millj. kr. verða teknar. 8. desember voru svo enn lagðar fram tillögur sem þýða að ekki náist sá sparnaður í heilbrigðismálum sem að var stefnt.
    Í boðuðum aðgerðum 23. nóvember voru áform um að leggja 500 millj. kr. til viðhaldsverkefna í tengslum við aðgerðir til atvinnusköpunar. Nú er útlit fyrir að þetta verði svikið vegna ósamkomulags stjórnarflokkanna um hvernig staðið skuli að þessum aðgerðum.
    Fullyrðingar um að fjárlagafrumvarpið styrki atvinnustarfsemi í landinu og fjölgi arðbærum störfum fá ekki staðist í ljósi þeirra sjónhverfinga sem hafðar eru í frammi um aðgerðir til atvinnusköpunar.
    Hér á eftir verður fjallað nánar um einstaka málaflokka í frumvarpinu.

Heilbrigðis- og tryggingamál.
    Á næsta ári verða heilbrigðis- og tryggingamálin harkalegast fyrir barðinu á niðurskurðarhníf ríkisstjórnarinnar eins og verið hefur á yfirstandandi ári. Nú kann hún ekki lengur neina feluleiki, svo sem að boða skipulagsbreytingar í rekstri sjúkrastofnana sem eiga að spara fjármuni án þess að draga úr þjónustu eða kerfisbreytingar í lyfjadreifingu sem leitt geta til samdráttar í lyfjakostnaði landsmanna.
    Nú er talað tæpitungulaust um að draga úr þjónustu. Loka skal eftirmeðferðarstöð SÁÁ að Staðarfelli og þjónustudeildum Ríkisspítalanna fyrir áfengissjúka að Gunnarsholti og Vífilsstöðum. Þá er boðaður samdráttur í þjónustu við öldrunar- og endurhæfingarsjúklinga á Kristnesspítala sem nemur 40 millj. kr.
    Svokallaður „sparnaður“ í sjúkratryggingum byggist nú fyrst og fremst á því að láta notendur þjónustunnar greiða hærri kostnaðarhlut. Þrátt fyrir áform um að lækka útgjöld sjúkratrygginga vegna lyfja úr 2,4 milljörðum kr. á árinu 1991 í 2,2 milljarða kr. í ár stefna útgjöldin í 2,6 milljarða. Í viðbót við þetta hafa útgjöld einstaklinga aukist um nær 400 millj. kr. vegna hærri greiðsluþátttöku, eða úr 18% í 30% af heildarútgjöldum til lyfjanotkunar.
    Af þeim 400 millj. kr., sem útgjöld ríkisins vegna lyfja aukast um í ár, á að vísa helmingi, eða 200 millj. kr., til næsta árs. Þá gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir 100–200 millj. kr. sparnaði í lyfjaútgjöldum.
    Hér er þó ekki látið staðar numið því að í nýjustu hugmyndum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð ríkisútgjalda er heilbrigðisráðherra ætlað að lækka útgjöld um 650 millj. kr. Þar af hyggst hann ná 200 millj. kr. í útgjöldum vegna lyfja. Ráðgerð lækkun frá útgjöldum í ár nemur því samtals um 600 millj. kr. á næsta ári og sjá allir að það er algjörlega óraunhæft, jafnvel þó að kostnaðarþátttaka sjúklinga verði enn aukin. Þess má geta að frumvarp það sem heilbrigðisráðherra boðaði um skipulagsbreytingar í lyfjamálum hefur ekki litið dagsins ljós. Það breytir litlu þótt orðalagi í almannatryggingalögum sé breytt úr „lyfjum sem sjúkratryggðum er brýn nauðsyn að nota“ í „lyf sem sjúkratryggðum er lífsnauðsynlegt að nota“.
    Þá er einnig ráðgert að spara 200 millj. kr. í sérfræðiþjónustu sem hætt er við að lendi að mestu á sjúklingum og að lokum má nefna breytingar á greiðsluþátttöku í tannviðgerðum sem allar munu þýða aukin útgjöld fyrir notendur, samtals um 200 millj. kr.
    Hætt er þó við að þessi aukna greiðsluþátttaka dragi verulega úr forvarnaaðgerðum á sviði tannheilsu en breytingarnar gera ráð fyrir að ríkið greiði ekki lengur fyrir forvarnir. Engar tannviðgerðir barna eða eftirlit eru lengur foreldrum að kostnaðarlausu og er full ástæða til að óttast að þetta leiði til lakari tannheilsu. Með þessu er verið að hverfa áratugi aftur í tímann.
    Þessar svokölluðu „sparnaðaraðgerðir“ munu því þýða auknar skattaálögur sem nema um 1 milljarði kr. á þá sem nota þurfa heilbrigðisþjónustuna.
    Í frumvarpinu er boðaður sparnaður á lífeyristryggingum sem nemur 580 millj. kr. Þar er m.a. gert ráð fyrir breytingum á fæðingarorlofi, mæðra- og feðralaunum, svo og ýmsum félagslegum sérbótum trygginganna. Auk þess var gert ráð fyrir að eignatekjutengja lífeyrisbæturnar. Ríkisstjórnin virðist nú hafa gefist upp við að skattleggja fjármagnstekjur svo að sá þáttur er þar með út úr myndinni.
    Í nýframkomnu frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar er hins vegar gert ráð fyrir verulegum breytingum á barnalífeyri og mæðra- og feðralaunum. Mæðra- og feðralaun eru samkvæmt frumvarpinu skorin niður um 680 millj. kr. samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun. Á móti þessu er barnalífeyrir hækkaður um 180 millj. kr. Hér er enn verið að auka álögur á barnafjölskyldur um 500 millj. kr.
    Þá er enn gert ráð fyrir að spara 100 millj. kr. með því að færa slysatryggingar til vátryggingafélaganna. Fyrsta skrefið í þá veru er stigið með því að færa slysatryggingar ökumanna frá almannatryggingum. Þessi trygging hefur verið greidd af bifreiðaeigendum að fullu og hafa því almannatryggingar ekki borið neinn kostnað af þessari tryggingu. Við þennan flutning verður því enginn sparnaður.
    Framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs eru miðuð við að atvinnuleysi verði 3,5–4% á næsta ári. Fjárþörfin er þó fyrst lækkuð um 300 millj. kr. vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin telur að geti dregið úr atvinnuleysi. Þá er sjóðnum gert að ganga á eigið fé sem nemur 250 millj. kr. og loks er ráðgert að spara 100 millj. kr. með breytingum á lögunum um atvinnuleysistryggingar. Allt bendir þó til þess að sú endurskoðun muni auka útgjöld sjóðsins en ekki spara fé þar sem fleiri telja sig nú eiga rétt á bótum en áður vegna breytinga á iðgjaldagreiðslum. Þá eru ótalin þau áhrif sem ný ákvæði um greiðslur til atvinnuskapandi verkefna í samningum við sveitarfélögin kunna að hafa á greiðslustreymi úr sjóðnum. Af þessu má sjá að mikil óvissa er ríkjandi um fjárreiður Atvinnuleysistryggingasjóðs og allt bendir til að þar sé þörf á verulega auknum framlögum ef ekki á að ganga enn frekar á eigið fé sjóðsins.

Reikningur

Fjárlög

Frumvarp

Breyting

Breyting


Sjúkrahús í Reykjavík

1991

1992

1993

frá fjárl.

frá reikn.


m.kr.

m.kr.

m.kr.

%

%



Sjúkrahús í Reykjavík      2
,8 107 ,0 168 ,9
58
Ríkisspítalar      6.462
,6 6.038 ,6 6.182 ,0
2 -4
Borgarspítali      2.682
,8 2.640 ,9 2.744 ,0
4 2
Landakot      1.241
,8 846 ,0 915 ,3
8 -26
Samtals      10.390
,0 9.632 ,5 10.010 ,2
4 -4


    Samkvæmt meðfylgjandi töflu sem birt er í greinargerð fjárlagafrumvarpsins kemur fram að á árinu 1992 var ráðgert að spara 760 millj. kr. í rekstri sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það vekur sérstaka athygli að meiri hlut upphæðarinnar, eða 424 millj., átti að spara á Ríkisspítölum en margumrædd og umdeild verkaskipting og breyting á rekstri Borgarspítala og Landakots virðist samkvæmt þessu ekki hafa átt að gefa nema 336 millj. í sparnað.
    Fulltrúar minni hlutans í fjárlaganefnd hafa margítrekað gengið eftir því að fá upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig þessi áform hafa gengið eftir en af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virðist ráðuneytið ekki hafa þessar upplýsingar eða ekki vilja láta þær af hendi. Mun verða gerð enn ein tilraun til að fá þær fram fyrir 3. umr. fjárlaga. Að öðrum kosti er óhjákvæmilegt að leggja fyrirspurn fyrir ráðherra í þinginu.
    Á næsta ári eru fjárveitingar til Borgarspítala og Landakots hækkaðar nokkuð umfram verðlag sem bendir til að ráðgerður sparnaður hafi ekki gengið eftir en Ríkisspítölum er ætlað að búa við óbreyttar fjárveitingar og sama niðurskurð á næsta ári. Þó að lítils háttar lagfæringar séu gerðar á sértekjum og launaútgjöldum Ríkisspítala er sú hækkun tekin til baka með ákvörðunum um að hætta áfengismeðferð að Vífilsstöðum og Gunnarsholti svo sem áður er getið. Minni hlutinn telur að ákvörðun um að selja Þvottahús Ríkisspítalanna sé misráðin og muni leiða til aukinna útgjalda er frá líður. Þá er því mótmælt að söluandvirði Þvottahússins skuli talið til sértekna og ef salan gengur ekki eftir sé spítölunum ætlað að skera niður þjónustu sem því nemur.
    Minni hlutinn telur rétt að taka upp skiptingu bráðavakta milli sjúkrahúsanna svo sem getið er um í greinargerð frumvarpsins, en ekkert bólar enn á ákvörðun af hálfu ráðuneytisins í því efni.
    Öllum óskum stjórnarnefndar Ríkisspítala um leiðréttingar á fjárveitingum er hafnað. Óskað hefur verið eftir nýju nefndaráliti um málefni Kristnesspítala og umræðu um þau í nefndinni en það hefur ekki fengist. Mun það mál verða tekið upp milli umræðna.
    Óskum Borgarspítala um leiðréttingar á launalið og sértekjum er hafnað, svo og öllum tillögum um ný stöðugildi. Sömu sögu er að segja um óskir annarra heilbrigðisstofnana og gildir þá einu hversu vel umsóknir þeirra eru rökstuddar.

Mennta- og menningarmál.
    Í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að færa enn fjármagn frá launamönnum til fjármagnseigenda hefur verið ráðist harkalega á allt skólakerfið í landinu, allt frá grunnskóla til háskóla.
    Á yfirstandandi fjárlagaári er verulegur niðurskurður til grunnskólans sem m.a. kom fram í styttingu skólatíma og fjölgun í bekkjum. Þessi niðurskurður er staðfestur áfram þrátt fyrir loforð um að hann skyldi aðeins gilda á skólaárinu 1992–1993. Viðmiðunarstundum í 4.–5. bekk er áfram fækkað um eina og í 6.–10. bekk fækkar þeim um tvær. Samtals fækkar viðmiðunarstundum í öllum bekkjum um 4% og því til viðbótar er fjölgað í bekkjum. Með þessu er grunnskólinn settur í mikinn vanda og honum gert erfitt að gegna hlutverki sínu eins og lög gera ráð fyrir. Á sama tíma er óljóst hvernig standa eigi að útgáfu námsgagna þar sem boðaður er verulegur niðurskurður til Námsgagnastofnunar.
    Minni hlutinn telur varasamt að þrengja þannig enn að grunnskólanum í íslensku samfélagi þar sem aðstæður barna og fjölskyldna þeirra eru afar bágbornar. Íslendingum hefur lánast verr en öðrum þjóðum að samræma vinnutíma foreldra og skólatíma barna svo að stórir hópar barna í þjóðfélaginu eru án umsjónar drjúgan hluta dagsins. Nýleg skýrsla um slysatíðni barna á Íslandi sýnir að hún er óhugnanlega miklu hærri en annars staðar á Norðurlöndum. Á sama hátt hefur komið í ljós að sálrænir erfiðleikar barna á Íslandi fara vaxandi.
    Í fjárlögum er gert ráð fyrir að skólagjöld verði innheimt af nemendum í framhaldsskólum og a.m.k. 3.000 kr. af skólagjöldum hvers nemanda verði nýttar til almenns rekstrar. Þetta er gert þrátt fyrir að innheimta skólagjalda eigi sér ekki stoð í lögum um framhaldsskóla. Er hér um grundvallarstefnubreytingu að ræða.
    Ekki hefur áður verið eins kreppt að Háskóla Íslands eins og nú er gert. Fé til rannsókna hefur stórlega dregist saman, orðið hefur að draga úr kennslu og fella niður námskeið. Stinga þessar aðgerðir í stúf við yfirlýsta stefnu Alþingis að efla vísindi og rannsóknir svo að þjóðin dragist ekki aftur úr nágrannaþjóðum. Þessi samdráttur í Háskóla Íslands kemur sérstaklega illa við nemendur nú þar sem kröfur um námsframvindu hafa verið hertar til muna í sambandi við námslán.
    Á sama tíma og nemendum er gert erfiðara að uppfylla kröfur um námsframvindu hafa framlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna verið skert um 510 millj. kr. Jafnframt hafa lánareglur verið stórhertar og innheimta skólagjalda hafin við Háskóla Íslands. Þetta er gert þó að Ríkisendurskoðun hafi sýnt fram á að eigið fé sjóðsins sé 9 milljarðar kr. umfram skuldir.
    Afleiðingar þessara aðgerða eru þegar farnar að koma í ljós. Námsmönnunm á háskólastigi hefur þegar fækkað um 700 eða um 8,6% á aðeins einu ári. Áhyggjuefni er að þeir, sem veikasta þjóðfélagsstöðu hafa, verða fyrstir til að hverfa frá námi. Hlutfall foreldra í hópi námsmanna hefur lækkað um 10% og hlutur einstæðra foreldra um 1%, einkum einstæðra mæðra.
    Með þessum aðgerðum er vegið gróflega að þeirri grundvallarstefnu sem stofnun sjóðsins byggðist á en hún var að tryggja öllum Íslendingum jafnan rétt til náms, án tillits til stéttar eða efnahags.
    Menningarmál og listir hafa ekki síður orðið fyrir barðinu á niðurskurði ríkisstjórnarinnar. Um mitt næsta ár verður lagður virðisaukaskattur á íslenskar bækur, en síðasta ríkisstjórn hafði aflétt sköttum af bókagerð. Með því tókst að lækka verulega verð á bókum. Hér er stigið skref aftur á bak sem kann að reynast afdrifaríkt fyrir bókritun og bókagerð í landinu.
    Bókaútgáfa Menningarsjóðs, sem um árabil hefur staðið fyrir útgáfu bóka sem bókaútgefendur treystu sér ekki til að gefa út, svo sem orðabóka og fræðirita, hefur verið lögð niður. Uppgefnar ástæður fyrir þessari vanhugsuðu aðgerð reyndust haldlausar þegar í ljós kom að útgáfan átti milljónir í eignum eftir að allar skuldir hennar höfðu verið greiddar. Fyrirhugað mun að fella núgildandi lög um sjóðinn úr gildi en ekkert frumvarp hefur séð dagsins ljós.
    Ný þjóðminjalög voru fagnaðarefni og samkvæmt þeim skyldi Húsafriðunarsjóður fá ákveðið framlag á hvern íbúa landsins. Þetta ákvæði er að engu haft og framlag til sjóðsins vart nema til málamynda. Það er alkunna að Íslendingar fara illa að ráði sínu við verndun gamalla húsa og menningarminja og skyldi með nýjum þjóðminjalögum úr bætt og það varið sem eftir er. Ljóst er að með þeim framlögum, sem veitt eru nú, verður ekki af því. Hin nýju lög voru sett til að efla fornminjarannsóknir og minjasöfn. Ekki er að sjá að þessari stefnumörkun verði fylgt.
    Framlög til listasjóða, sem nýlega voru í lög leiddir, eru óljós, framlög til einstakra listgreina eru að verulegu leyti lögð í hendur menntamálaráðherra.
    Framlög til íþróttamála eru lækkuð þrátt fyrir það mikla æskulýðs- og íþróttastarf sem íþróttahreyfingin skipuleggur.

Landbúnaðarmál.
    Þann 11. mars 1991 var undirritaður nýr búvörusamningur sem gerir ráð fyrir að hætt verði að greiða útflutningsuppbætur á næsta ári og teknar verði upp beinar greiðslur til bænda. Lækkun útgjalda af þessum sökum er 2,3 milljarðar kr. Dregið er úr framlögum um 319 millj. kr. vegna mjólkurframleiðslu og 1.675 millj. kr. vegna sauðfjárframleiðslu. Það sem upp á vantar til að staðið sé við búvörusamninginn eru 50 millj. kr. sem taka á úr Framleiðnisjóði, 175 millj. kr. úr Verðmiðlunarsjóði og 80 millj. kr. framlag í Lífeyrissjóð bænda. Þarna er þó ekki látið staðar numið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir niðurskurði í öllum þáttum sem lúta að landbúnaðarmálum og nemur hann um 1 milljarði kr. til viðbótar við það sem áður var talið, þannig að heildarniðurskurður til landbúnaðarmála nemur um 3,3 milljörðum kr. samkvæmt frumvarpinu. Að auki var ákveðinn viðbótarniðurskurður upp á 100 millj. kr. í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í efnahagsmálum frá 23. nóvember sl.
    Landbúnaðarnefnd tók þau ákvæði frumvarpsins, sem vörðuðu landbúnaðarráðuneytið, til sérstakrar skoðunar og skilaði ítarlegu nefndaráliti sem allir nefndarmenn stóðu að, utan fulltrúa Alþýðuflokksins. Ríkisendurskoðun skilaði áliti til landbúnaðarnefndar þar sem niðurstaða nefndarinnar er studd. Álit landbúnaðarnefndar birtist sem fylgiskjal með áliti meiri hluta fjárlaganefndar en sáralítið tillit hefur verið tekið til þess við afgreiðslu málsins. Þar kemur m.a. fram að þrátt fyrir bókun 6 við búvörusamninginn um aukið fjármagn til skógræktar og landgræðslu lækka framlög til þessara málaflokka og framlög til skógræktarátaks á Fljótsdalshéraði lækka frá fyrra ári. Framlög til Búnaðarfélags Íslands og leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði eru skorin niður.
    Framlag á fjárlögum til svína-, kjúklinga- og nautakjötsframleiðslu í formi endurgreiðslu á virðisaukaskatti fyrir þessar vörur er lækkað samkvæmt frumvarpinu um 200 millj. kr. og rætt hefur verið um 50 millj. kr. til viðbótar í tengslum við aðgerðir frá 23. nóvember. Endanlegar tillögur liggja þó ekki fyrir. Þessi upphæð ætti að koma fram í hærra vöruverði til neytenda. Þó er líklegt að eins og markaðsástand er nú komi þessi upphæð fram að meira eða minna leyti sem kjaraskerðing hjá framleiðendum þessara vörutegunda.

Sjávarútvegsmál.
    Niðurskurður í sjávarútvegsmálum er umtalsverður í þessu frumvarpi. Munar þar mest um rannsókna- og eftirlitsþáttinn. Þar er lækkun milli áranna 1991 og 1993 50% þegar á heildina er litið. Mikil lækkun er á lið sem merktur er Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi, en hann lækkar úr 51 millj. kr. í 21 millj. kr. milli ára. T.d. er ekki útlit fyrir að hægt verði að halda áfram þeim tilraunum með þorskklak sem byrjað var á og áttu að standa í nokkur ár. Þá á Hagræðingarsjóður að standa undir rekstri Hafrannsóknastofnunar þótt á yfirstandandi ári hafi þær tekjur brugðist í meginatriðum. Útlit er fyrir að allt að 300 millj. kr. vanti til að áætlanir standist í ár. Í nefndaráliti sjávarútvegsnefndar kemur fram að nefndinni í heild þykir of langt gengið í niðurskurði til rannsókna.
    Í nýlegri skýrslu OECD er bent á að Íslendingar veiti allt of lítið fé til grunnrannsókna, tilraunaverkefna og langtímarannsókna sem eru undirstaða framfara í nútímasamfélagi. Til lengri tíma litið getur þessi vanræksla orðið okkur dýrkeypt. Við munum dragast enn frekar aftur úr samkeppnisþjóðum okkar á því sviði.
    Niðurskurður til aflanýtingarnefndar er einnig áhyggjuefni þar sem sú nefnd hefur m.a. veitt fé til verkefna sem eiga að stuðla að nýtingu nýrra tegunda sjávarfangs.

Samgöngumál.
    Í vegamálum er fyrst skorið niður um 344 millj. kr. og til viðbótar er kostnaður við ferjur og flóabáta færður á Vegagerðina. Sá kostnaður er í fjárlögum 1992 304 millj. kr. Nýleg úttekt Vegagerðar ríkisins á fjármálum ferja og flóabáta bendir til að þær 330 millj. kr., sem ætlaðar eru til þess verkefnis í fjárlagafrumvarpi, dugi ekki. Þar segir að áætlaður rekstur árið 1993 kosti 389 millj. kr. og þá er eftir að gera upp gamlar skuldir að upphæð 94,5 millj. kr. Vegagerðin hefur sett það skilyrði fyrir því að taka við þessum rekstri að dæmið verði gert upp og þeir taki við „hreinu borði“. Þarna er fjárvöntun rúmlega 150 millj. kr. Ekki eru þó öll kurl komin til grafar þar sem enn er óvíst hvað hugsanlegar breytingar á hinu nýja skipi, Herjólfi, muni kosta.
    Hið sérstaka framlag til vegamála, 1.800 millj. kr., til að sporna við atvinnuleysi er enn þá ófrágengið dæmi, enda tæplega hægt að tala um að hér sé um viðbótarfjármagn að ræða þegar byrjað er á að skera niður tekjustofninn og síðan bætt við hann, auk þess sem afla á fjárins með lántökum sem lendir á Vegasjóði að greiða á næstu árum, bæði afborganir og vexti.
    Í hafnaframkvæmdum er unnið eins og mögulegt er miðað við það fjármagn sem til skiptanna er. Ekki er hægt að segja það sama um framlag til sjóvarnargarða sem er skert um helming frá fjárlögum í ár, en óskað hefur verið eftir styrk til sjóvarnargarða víða um land fyrir alls 130 millj. kr. Því má nærri geta að 25 millj. kr. koma að takmörkuðu gagni.

Ferðamál.
    Enn er haldið uppi sama hætti gagnvart Ferðamálaráði og markaður tekjustofn ráðsins skertur svo að það fær aðeins 1 / 3 af því sem lögboðið er. Framlag til reksturs skrifstofunnar er einnig lækkað og henni ætlað að afla talsverðra sértekna eins og flestum öðrum stofnunum, en yfirleitt kom fram í viðtölum þeirra stofnana, sem gert er að afla aukinna sértekna, við fjárlaganefnd að það væri með öllu óraunhæft. Þessi skerðing fjárveitingar til Ferðamálaráðs er ekki síst alvarleg í ljósi þess að í ferðamálum er helsti vaxtarbroddur nýrrar atvinnustarfsemi. Árið 1991 námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu nær 12,5 milljörðum kr. og það er skoðun Ferðamálaráðs að án mikilla fjárfestinga annarra en í markaðssetningu sé unnt að tvöfalda gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu á næstu átta árum og skapa 2.200 ný ársverk sem tækju við fjórða hverjum nýliða á vinnumarkaði.
    Ferðamálaráð hefur mótað stefnu í ferðamálum til aldamóta, sem lofar góðu, en ljóst er að lítið verður úr framkvæmdum ef fjárveiting verður ekki aukin.

Félagsmál.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1993 var upphaflega gert ráð fyrir að hætta að endurgreiða sveitarfélögum í landinu virðisaukaskatt af sorphreinsun, ræstingu, snjómokstri, björgunarstörfum og sérfræðiþjónustu. Einnig var gert ráð fyrir að hætta að endurgreiða virðisaukaskatt af aðföngum hitaveitna. Þetta hefði leitt til 600 millj. kr. útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin og gert að engu fyrirheit sem voru gefin um það af stjórnvöldum við fjárlagagerð fyrir árið 1992 að gjaldtakan, sem fylgdi lögregluskattinum, yrði ekki endurtekin. Þessu var harðlega mótmælt af forustumönnum sveitarfélaganna enda voru hér áform um að skattleggja sérstaklega aðstöðumun, svo sem snjómokstur og dýra húshitun.
    Ríkisstjórnin var hrakin frá þessum áformum með samkomulagi við forustumenn sveitarfélaganna um að í stað þessarar skattlagningar greiddu sveitarfélögin 500 millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð sem síðan yrði úthlutað til atvinnuskapandi verkefna í sveitarfélögunum í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Engin útfærsla liggur fyrir á því með hverjum hætti á að standa hér að verki.
    Þrátt fyrir það samkomulag, sem gert var milli ríkis og sveitarfélaga 10. október sl. er framlag til Jöfnunarsjóðs vegna Lánasjóðs sveitarfélaga skorið niður um 110 millj. kr. Ekki liggur fyrir hvaða áhrif þetta hefur á útlán sjóðsins sem í vaxandi mæli hefur skuldbreytt lánum sveitarfélaga og lánað til framkvæmda í höfnum og til umhverfisverkefna.
    Lagt er til að aðstöðugjald verði fellt niður og sveitarfélögunum verði bættur tekjumissirinn til bráðabirgða með beinni greiðslu úr ríkissjóði og framlagi í Jöfnunarsjóð til tekjujöfnunarframlaga að fjárhæð 120 millj. kr. til þess að bæta þeim sveitarfélögum sem hafa innheimtuhlutfall yfir 80%. Ljóst er að það er í algjörri óvissu hvort þessi upphæð, ásamt eftirstöðvum þessa árs, nægir til þess að bæta sveitarfélögunum tekjumissinn af aðstöðugjaldinu. Minni hlutinn lítur svo á að meðan varanlegur tekjustofn er ekki fundinn né þessum málum skipað til frambúðar eigi sveitarfélögin að fá bættan tekjumissinn af aðstöðugjaldinu.

Húsnæðismál.
    Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að sparaðar séu 132 millj. kr. í rekstri Húsnæðisstofnunar ríkisins með lækkun útgjalda og hækkun sértekna. Til þess að ná þessu markmiði er ætlunin að leggja niður skyldusparnaðinn, selja hönnunardeild og draga saman umfang annarra þátta. Í bréfi Húsnæðisstofnunar til formanns fjárlaganefndar frá 10. nóvember sl. kemur fram að stofnunin telur ekki raunhæft að ná svo mikilli lækkun í einum áfanga án þess að skerða þjónustu stofnunarinnar.

Umhverfismál.
    Þótt umhverfismál séu sífellt að fá meira vægi í allri umræðu þjóðmála um allan heim erum við þar ekki í takt við tímann. Fjárlagafrumvarpið ber það með sér, enda sá ráðherra umhverfismála ástæðu til að koma á fund fjárlaganefndar og benda á nauðsyn þess að auka fé til þessara mála um rúmar 20 millj. kr. Það er m.a. vegna mengunarmælinga í sjó og eins og ráðherra benti réttilega á er okkur mikil nauðsyn á að fylgjast vel með efnainnihaldi sjávar, svo mjög sem við byggjum afkomu okkar á hvers kyns sjávarafurðum. Þá eru sorp- og fráveitumál sveitarfélaga víða í miklum ólestri og flest sveitarfélög hafa óskað eftir aðstoð umhverfisráðuneytis við stefnumörkun í þeim málaflokki.
    Náttúruverndarráð hefur í mörg ár verið í fjársvelti og þrátt fyrir nokkra aukningu í frumvarpinu frá fjárlögum í ár er hér um algjöra lágmarksupphæð að ræða. Má minna á mikilvægi náttúruverndar í sambandi við hvers kyns landkynningu og ferðaþjónustu.
    Veðurstofunni er gert að afla sértekna af þjónustu við innanlandsflugið. Þar fylgir viss hætta á að flugfélögin reyni að spara þann kostnað með því að leita ekki eins oft til Veðurstofunnar um veðurathuganir. Ekki teljum við það til bóta í landi sem okkar þar sem veðurfar og landfræðilegar aðstæður eru erfiðari en víða annars staðar.
Dómsmál.
    Þær hugmyndir voru uppi að leggja einu skipi Landhelgisgæslunnar og ætla þess í stað 10 millj. kr. til Vitastofnunar til þjónustu við vita. Landhelgisgæslan lýsti sig reiðubúna til sparnaðar í rekstri og telur sig geta þjónað vitum landsins og haldið úti því skipi sem áætlað er að leggja með þeim 10 millj. kr. sem hér er um að ræða. Það er því vandséð hvaða tilgangi þessi ráðstöfun þjónar öðrum en að veikja Landhelgisgæsluna. Nú mun þess ekki lengur krafist að skipi verði lagt en fjárveiting ekki hækkuð að sama skapi. Þá má einnig minna á að enn hefur ríkisstjórnin ekki efnt það fyrirheit að standa að þyrlukaupum fyrir Landhelgisgæsluna þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þar um.
    Í þeim kafla fjárlagafrumvarpsins sem fjallar um framlög til dóms- og kirkjumála kemur fram að ætlunin er að leggja embætti hreppstjóra niður og skera niður útgjöld þess vegna um á 18,4 millj. kr. Alls óvíst er hvernig þau störf, sem hreppstjórar hafa haft með höndum, t.d. lögskráningar, verða leyst af hendi án mikilla óþæginda fyrir notendur þjónustunnar og ekki verður séð að af þessu hljótist neinn sparnaður því að launa þarf öðrum, jafnvel dýrari starfsmönnum, fyrir að vinna þessi verk.

Lokaorð.
    Ljóst er að mikið verk er óunnið til að ljúka fjárlagagerðinni. Samningurinn um EES og afdrif hans geta haft áhrif á efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og gjaldahlið þess. Þá er fjöldi fylgifrumvarpa óafgreiddur, þar með taldar veigamiklar breytingar á skattalöggjöf. Því mun minni hluti fjárlaganefndar gefa út framhaldsnefndarálit við 3. umr.
    Minni hluti nefndarinnar flytur ekki sameiginlegar breytingartillögur við frumvarpið en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja breytingartillögum sem fram kunna að koma.

Alþingi, 9. des. 1992.



Guðmundur Bjarnason,

Guðrún Helgadóttir.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.


frsm.



Anna Kristín Sigurðardóttir.

Jón Kristjánsson.