Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 96 . mál.


436. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Störf fjárlaganefndar við afgreiðslu frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1993 hafa verið með hefðbundnum hætti. Nefndin hóf störf við undirbúning afgreiðslu fjárlaga 9. október sl. og átti viðtal við fulltrúa sveitarfélaga í landinu sem gerði henni grein fyrir erindum sínum. Með lagabreytingum þeim, sem tóku gildi á árinu 1990, um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er fækkað verulega þeim verkefnum sem ríkið og sveitarfélög vinna sameiginlega að. Þrátt fyrir það eru ýmis verkefni sameiginleg enn þá. Samstarf fjárlaganefndarmanna og sveitarstjórnarmanna hefur nú sem áður verið gott og sú yfirsýn, sem fundir nefndarinnar með sveitarstjórnarmönnum gefa, er mikilvæg fyrir nefndina við afgreiðslu fjárlaga.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. þingskapa getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Nefndin óskaði eftir með bréfi, dags. 26. október sl., álitum fastanefnda þingsins um frumvarp til fjárlaga er varða málefnasvið einstakra nefnda.
    Nefndirnar hafa skilað áliti sínu og eru þau prentuð sem fylgiskjöl með þessu nefndaráliti eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Þetta er annað árið sem þessi skipan er á um samskipti fastanefnda þingsins við fjárlaganefnd um afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Ekki er vafi á því að þessi nýbreytni er til bóta fyrir störf fjárlaganefndar. Eigi að síður er tekið undir þau sjónarmið, sem fram koma í álitsgerðum nokkurra fastanefnda, að nauðsyn beri til að koma fastari skipan á fyrirkomulag þessara mála í framtíðinni í ljósi þeirrar reynslu sem nú er fengin.
    Eftir að frumvarp til fjárlaga hefur verið lagt fram á Alþingi eru fjölmargir aðilar, félög, samtök og stofnanir, sem telja sig eiga erindi við fjárlaganefnd og kallar þá nefndin fyrir sig forsvarsmenn ýmissa stofnana til viðræðna um starfsemi þeirra og fjárframlög.
    Frá því að nefndin hóf störf við undirbúning afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið 44 bókaða fundi um frumvarpið og átt viðtöl við fjölmarga aðila sem komið hafa á fund hennar. Auk þess hafa undirnefndir unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka. Erindi eru nú nokkru færri en verið hefur á undanförnum árum og beiðnir um viðbótarfjárframlög einnig færri en verið hefur. Af þessu má ráða að undirbúningur fjárlagagerðarinnar sé traustari nú en oft áður. Í því sambandi má ætla að sú breyting, sem varð á undirbúningi fjárlaga af hálfu framkvæmdarvaldsins, að einstök fagráðuneyti komi meira við sögu, sé að skila sér í traustari upplýsingum um raunverulegar fjárþarfir.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem til hennar bárust, svo sem skiptingar allra fjárfestingarliða. Breytingartillögur, sem nefndin hefur sameiginlega unnið að, nema samtals 228,9 millj. kr. til hækkunar á 4. gr. frumvarpsins.
    Breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. gera hins vegar ráð fyrir lækkun útgjalda að fjárhæð 250 millj. kr.
    Meiri hluti nefndarinnar vill þakka fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf og tillitssemi. Meiri og minni hluti fjárlaganefndar hafa staðið saman að athugun allra erinda en ábyrgð á meginstefnumiðum í frumvarpinu hvílir að sjálfsögðu á stjórnarþingmönnum. Þá hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og einstök ráðuneyti hafa veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Eins og venja er bíða 3. umr. afgreiðsla á tekjuhlið frumvarpsins, B-hluta, og heimildir skv. 6. gr. Auk þess bíða ýmis viðfangsefni 3. umr., bæði smærri og stærri, sem nefndin hefur enn til umfjöllunar. Í því sambandi má nefna Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, Vegagerð ríkisins, veiðistjóra (framlag vegna veiða á refum og minkum), sérstakar greiðslur í landbúnaði, greiðslur vegna búvöruframleiðslu, sjúkrahús í Reykjavík (útdeiling sparnaðar), Ríkisspítalar (Gunnarsholt og Vífilsstaðir) og verðlags- og gengisbreytingar vegna gengisfellingar. Þá er eftir að færa ýmsa liði, einkum rekstrarliði, upp til verðlags vegna þeirra gengisbreytinga sem átt hafa sér stað frá því fjárlagafrumvarpið var lagt fram.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum þeim sem nefndin stendur að í heild svo og þeim breytingartillögum sem meiri hlutinn flytur á sérstöku þingskjali.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR



00 Æðsta stjórn ríkisins


201    Alþingi: Framlag til Alþingis hækkar alls um 31,3 m.kr. Viðfangsefni 1.01 Alþingiskostnaður hækkar um 10,5 m.kr. og verður 252,9 m.kr. Viðfangsefni 1.03 Þingmálaskrifstofa hækkar um 8,4 m.kr. og verður 107,7 m.kr., m.a. vegna hækkunar ferðakostnaðar nefnda innan lands og vegna starfsmanns fjárlaganefndar en kostnaður vegna hans var áður greiddur af Ríkisendurskoðun. Viðfangsefni 1.04 Rekstrarskrifstofa hækkar um 7,3 m.kr. og verður 155 m.kr. Viðfangsefni 1.05 Alþjóðasamstarf þingmanna lækkar um 2,2 m.kr. og verður 25,9 m.kr. vegna lækkunar á ferðakostnaði. Viðfangsefni 1.07 Hús Jóns Sigurðssonar hækkar um 0,4 m.kr. og verður 6,1 m.kr. Tekinn er inn nýr liður, 1.08 Hið íslenska þjóðvinafélag, 0,5 m.kr. Viðfangsefni 1.10 Sérfræðileg aðstoð fyrir þingflokka hækkar um 1,1 m.kr. og verður 25,2 m.kr. Alls hækkar rekstrarkostnaður Alþingis um 26 m.kr. Viðfangsefni 5.20 Fasteignir hækkar um 2,9 m.kr. og verður 8 m.kr. en viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 2,4 m.kr. og verður 16 m.kr. Fjárveiting er ætluð til atkvæðagreiðslukerfis, til kaupa á tækjum og skrifstofubúnaði og vinnu við tölvukerfi, hljóðkerfi o.fl.
610    Umboðsmaður Alþingis: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 0,9 m.kr. og verður 19,4 m.kr. en þar er um að ræða hækkun annarra rekstrargjalda.
620    Ríkisendurskoðun: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1,4 m.kr. og verður 153,7 m.kr. vegna hækkunar launagjalda. Sértekjur lækka um 1,6 m.kr. og verða 2 m.kr.


02 Menntamálaráðuneyti


101    Menntamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 2,5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
201    Háskóli Íslands: Fjárveiting til Háskóla Íslands hækkar alls um 35,2 m.kr. Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2 m.kr. en hækkunin er ætluð til bættrar stjórnunar. Viðfangsefni 1.02 Sameiginleg útgjöld hækkar um 30 m.kr. vegna hækkunar á framlagi í Vinnumatssjóð Félags háskólakennara. Viðfangsefni 1.05 Aðrar sérstofnanir og verkefni hækkar um 3,2 m.kr. vegna tveggja nýrra stöðugilda, prófessors í fiskifræði og prófessors í heimilislæknisfræði. Töluvert er um innbyrðis breytingar milli viðfangsefna Háskólans en vegna breytinga, sem gerðar voru á fjárlagatillögum skólans við vinnslu fjárlaga, varð misræmi sem að ósk skólans er leiðrétt. Nettóáhrif eru engin. Breytingar á viðfangsefnum skólans vegna þessa eru eftirfarandi: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 5,7 m.kr. Viðfangsefni 1.02 Sameiginleg útgjöld lækkar um 22,1 m.kr. Viðfangsefni 1.03 Rekstur fasteigna lækkar um 9,7 m.kr. Viðfangsefni 1.04 Háskólabókasafn lækkar um 13,4 m.kr. Viðfangsefni 1.05 Aðrar sérstofnanir og verkefni hækkar um 75,5 m.kr. Viðfangsefni 1.06 Kennslu- og vísindadeildir lækkar um 36 m.kr.
202    Tilraunastöð Háskólans að Keldum: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 2,5 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 1.10 Rannsóknadeild fisksjúkdóma um sömu fjárhæð.
203    Raunvísindastofnun Háskólans: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1,4 m.kr. vegna kostnaðar við öflun styrkja frá útlöndum og tækniflutnings innan lands. Viðfangsefni 1.03 Rannsóknastofur hækkar um 4 m.kr. vegna rekstrar- og efniskostnaðar á rannsóknastofum að fjárhæð 3,2 m.kr. og vegna hálfrar stöðu sérfræðings við NMR-kjarnarófstækið að fjárhæð 0,8 m.kr.
211    Tækniskóli Íslands: Viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 9 m.kr. og verður 12 m.kr. Hækkunin er vegna reiknistofu skólans og til ýmissa tækjakaupa.
318    Almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður: Viðfangsefni 6.90 Byggingarframkvæmdir hækkar um 5 m.kr. og verður 407 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðum á viðfangsefnum 5.90 Viðhald og 6.90 Byggingarframkvæmdir skipt á einstök verkefni í sérstöku yfirliti.
422    Námsgagnastofnun: Viðfangsefni 1.20 Framleiðsludeild hækkar um 8 m.kr. og verður 141,6 m.kr. en með tilkomu 14% virðisaukaskatts á miðju ári mun stofnunin þurfa að skila skatti af áður óskattlagðri framleiðslu sinni.
506    Vélskóli Íslands: Viðfangsefni 6.01 Tæki og búnaður hækkar um 2 m.kr. og verður 4 m.kr. vegna hönnunar og smíði á kennslukælikerfi.
720    Grunnskólar, almennt: Viðfangsefni 1.42 Hlíðardalsskóli, rekstrarstyrkur hækkar um 0,9 m.kr. og verður 6 m.kr.
919    Söfn, ýmis framlög: Teknir eru inn fjórir nýir liðir: 1.10 Listasafn ASÍ 2 m.kr., 1.12 Listasafn Sigurjóns Ólafssonar 4,5 m.kr., 1.30 Sögusafn alþýðu 0,9 m.kr. og 1.31 Kvennasögusafn 1 m.kr. Á móti þessum fjárhæðum lækkar viðfangsefni 1.90 Söfn, ýmis framlög um sömu fjárhæð eða um 8,4 m.kr. Viðfangsefni 6.90 Söfn, stofnkostnaður hækkar um 2 m.kr. og verður 12 m.kr. Hækkunin er ætluð byggðasöfnum.
982    Listir, framlög: Teknir eru inn þrír nýir liðir: 1.22 Starfsemi áhugaleikhópa 14 m.kr., 1.23 Bandalag íslenskra leikfélaga 3 m.kr. og 1.24 Starfsemi atvinnuleikhópa 12 m.kr. Á móti þessum fjárhæðum lækkar viðfangsefni 1.90 Listir, framlög um sömu fjárhæð eða um 29 m.kr.
983    Ýmis fræðistörf: Við bætist nýr liður, 1.12 Dönsk-íslensk orðabók, og er framlag 2 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 1.90 Ýmis fræðistörf um sömu fjárhæð.
988    Æskulýðsmál: Teknir eru inn fjórir nýir liðir: 1.10 Æskulýðsráð ríkisins 1,5 m.kr., 1.12 Ungmennafélag Íslands 9,5 m.kr., 1.13 Bandalag íslenskra skáta 5 m.kr., og 1.18 Iðnnemasamband Íslands 3,4 m.kr. Á móti þessum fjárhæðum lækkar viðfangsefni 1.90 Æskulýðsmál um sömu fjárhæð eða um 19,4 m.kr.
989    Ýmis íþróttamál: Teknir eru inn sex nýir liðir: 1.10 Íþróttasamband Íslands 24 m.kr., 1.11 Ólympíunefnd Íslands 3 m.kr., 1.12 Ólympíunefnd fatlaðra 1,5 m.kr., 1.14 Íþróttasamband fatlaðra 8,5 m.kr., 1.16 Íþróttafélög, styrkir, 14 m.kr. og 1.18 Íþróttamiðstöð Íslands 1,3 m.kr. Á móti þessum fjárhæðum lækkar viðfangsefni 1.90 Ýmis íþróttamál um sömu fjárhæð eða um 52,3 m.kr.
999    Ýmislegt: Teknir eru inn tveir nýir liðir: 1.63 Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna 3,9 m.kr. og 1.70 Íslenska menntanetið 6 m.kr. Á móti lækkar viðfangsefni 1.90 Ýmis framlög um sömu fjárhæð eða um 9,9 m.kr.


03 Utanríkisráðuneyti


101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 15,5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð. Tekinn er inn nýr liður 1.51 Útflutningsráð Íslands, 2 m.kr.


04 Landbúnaðarráðuneyti


101    Landbúnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 0,5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
201    Búnaðarfélag Íslands: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 3 m.kr. vegna greiðslu uppbóta á lífeyri héraðsráðunauta.
202    Hagþjónusta landbúnaðarins: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 0,4 m.kr. og verður 12,4 m.kr.
206    Rannsóknastofnun landbúnaðarins: Viðfangsefni 6.10 Fasteignir hækkar um 1,4 m.kr. en hækkunin er ætluð til afborgana af lánum vegna framkvæmda við Tilraunastöðina á Stóra-Ármóti.
235    Landgræðsla ríkisins: Viðfangsefni 1.90 Fyrirhleðslur hækkar um 4 m.kr. og verður 19 m.kr.
239    Skógrækt og landgræðsla, ýmis verkefni: Viðfangsefni 1.10 Skógræktarátak á Fljótsdalshéraði hækkar um 3,4 m.kr. og verður 51 m.kr.
246    Veiðimálastofnun: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1,5 m.kr. og verður 63,1 m.kr. vegna veiðieftirlits í sjó með ströndum landsins.
501    Bændaskólinn á Hvanneyri: Viðfangsefni 6.02 Tæki og búnaður hækkar um 2 m.kr. og verður 4 m.kr. vegna endurnýjunar og uppbyggingar á samræmdum tölvubúnaði fyrir stofnunina.


05 Sjávarútvegsráðuneyti


101    Sjávarútvegsráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
202    Hafrannsóknastofnun: Viðfangsefni 1.01 Almenn starfsemi hækkar um 2 m.kr. og verður 218,2 m.kr. vegna ráðstefnu um áhrif umhverfisbreytinga á þorskstofna.
299    Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.21 Sjóvinnukennsla, sjóvinnu- og rannsóknarbátur hækkar um 1,6 m.kr. og verður 2,8 m.kr.


06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


101    Dóms- og kirkjumálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 0,5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
290    Dómsmál, ýmis kostnaður: Viðfangsefni 1.14 Óviss útgjöld hækkar um 2,1 m.kr. og verður 3,9 m.kr. vegna biðlauna nokkurra starfsmanna dómsmálastofnana sem lagðar voru niður á þessu ári. Á móti lækkar fjárveiting fjárlagaliðar 390 Ýmis löggæslukostnaður um sömu fjárhæð.
390    Ýmis löggæslukostnaður: Viðfangsefni 1.10 lækkar um 2,1 m.kr. á móti hækkun á fjárlagalið 290 Dómsmál, ýmis kostnaður.
711    Prestaköll og prófastsdæmi: Viðfangsefni 1.10 Prestar og prófastar hækkar um 3 m.kr. og hækka launagjöld sem því nemur. Um er að ræða tvær nýjar stöður, staða farprests annars vegar og staða aðstoðarprests í Vestmannaeyjum hins vegar.
790    Kirkjumál, ýmis kostnaður: Tekinn er inn nýr liður 1.14 Kirkjumiðstöð Austurlands og er framlag 1,4 m.kr. Viðfangsefni 6.12 Hóladómkirkja hækkar um 2 m.kr. og verður 3 m.kr. vegna viðgerðar á þaki. Viðfangsefni 6.13 Snorrastofa hækkar um 1 m.kr. og verður 2 m.kr.


07 Félagsmálaráðuneyti


101    Félagsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1,5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
719    Tjaldanesheimilið, Mosfellsbæ: Framlag til heimilisins hækkar um 2 m.kr. og verður 38,2 m.kr.
954    Vinnueftirlit ríkisins: Rekstrarframlag hækkar um 0,5 m.kr. vegna hálfrar stöðu fulltrúa við stofnunina. Á móti hækka sértekjur um 0,2 m.kr.
981    Vinnumál: Tekinn er nýr liður 1.12 Alþýðusamband Íslands 13 m.kr.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.40 Kvennaathvarf í Reykjavík hækkar um 1 m.kr. og verður 15 m.kr. Viðfangsefni 1.41 Stígamót hækkar um 0,5 m.kr. og verður 6,7 m.kr.


08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


101    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
271    Tryggingastofnun ríkisins: Til samræmis við frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar o.fl. breytast eftirfarandi viðfangsefni sem hér segir: Viðfangsefni 1.10 Lífeyristryggingar lækkar um 50 m.kr. og verður 15.140 m.kr. Viðfangsefni 1.20 Sjúkratryggingar lækkar um 250 m.kr. og verður 9.480 m.kr. Viðfangsefni 1.30 Slysatryggingar hækkar um 50 m.kr. og verður 605 m.kr. Alls lækkar framlag til Tryggingastofnunar ríkisins um 250 m.kr.
301    Landlæknir: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 10 m.kr. og verður 43,1 m.kr. og er hækkunin ætluð Krýsuvíkursamtökunum.
324    Heyrnar- og talmeinastöð Íslands: Tekinn er inn nýr liður 6.10 Fasteign og er framlag 5 m.kr. vegna viðbótarhúsnæðis stofnunarinnar.
340    Málefni fatlaðra: Viðfangsefni 1.40 Endurhæfingarstöð hjarta- og lungnasjúklinga, Reykjavík hækkar um 2,4 m.kr. og verður 11 m.kr.
381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Teknir eru inn tveir nýir liðir: 6.92 Hlaðgerðarkot, 6 m.kr., og 6.94 Heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði, 12,5 m.kr.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Tekinn er inn nýr liður 1.54 Erfðafræðirannsóknir 5 m.kr. og er framlagið ætlað til rannsókna til greiningar á erfðasjúkdómum. Verkefnið er á vegum Landlæknisembættisins. Tekinn er inn nýr liður 1.72 Bláalónsnefnd og er framlag 10 m.kr.
420    Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið: Viðfangsefni 1.01 Sjúkrastofnanir SÁÁ hækkar um 15 m.kr. og verður 192,3 m.kr.
500    Heilsugæslustöðvar, almennt: Á viðfangsefni 1.10 Almennur rekstur er gerð breyting sem ekki kemur fram í breytingartillögum nefndarinnar því að hún varðar aðeins tegundasundurliðun. Framlag til samningsbundins ferðakostnaðar lækna 23,4 m.kr. er í frumvarpinu fært sem tilfærslur en gert er ráð fyrir að færa framlagið sem önnur rekstrargjöld. Breytingin er gerð í samráði við Ríkisbókhald og Ríkisendurskoðun.
511    Heilsugæsla í Reykjavík, Austurbæjarumdæmi nyrðra: Viðfangsefni 1.10 Heilsugæslustöðin Árbæ hækkar um 1,6 m.kr. og verður 34 m.kr. Viðfangsefni 1.20 Heilsugæslustöðin Grafarvogi lækkar um 0,2 m.kr. og verður 20,7 m.kr. Breytingarnar eru vegna tilfærslna milli heilsugæslustöðva að beiðni samstarfsráðs heilsugæslustöðva í Reykjavík.
512    Heilsugæsla í Reykjavík, Austurbæjarumdæmi syðra: Viðfangsefni 1.10 Heilsugæslustöðin Efra-Breiðholti hækkar um 1 m.kr. og verður 38 m.kr. Viðfangsefni 1.20 Heilsugæslustöðin Mjódd lækkar um 2 m.kr. og verður 31 m.kr. Breytingarnar eru vegna tilfærslna milli heilsugæslustöðva að beiðni samstarfsráðs heilsugæslustöðva í Reykjavík.
513    Heilsugæsla í Reykjavík, Miðbæjarumdæmi: Viðfangsefni 1.10 Heilsugæslustöðin Fossvogi hækkar um 1,4 m.kr. og verður 25 m.kr. Breytingin er vegna tilfærslna milli heilsugæslustöðva að beiðni samstarfsráðs heilsugæslustöðva í Reykjavík.
514    Heilsugæsla í Reykjavík, Vesturbæjarumdæmi: Viðfangsefni 1.10 Heilsugæslustöðin Hlíðum hækkar um 2,3 m.kr. og verður 24 m.kr. Viðfangsefni 1.20 Heilsugæslustöðin Miðbæ lækkar um 4,1 m.kr. og verður 30 m.kr. Breytingarnar eru vegna tilfærslna milli heilsugæslustöðva að beiðni samstarfsráðs heilsugæslustöðva í Reykjavík.
581    Heilsugæslustöð Suðurnesja: Launagjöld hækka um 1,8 m.kr. vegna stöðu heilsugæslulæknis.


09 Fjármálaráðuneyti


101    Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1,1 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
990    Ríkisstjórnarákvarðanir: Viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga lækkar um 33,1 m.kr. Í frumvarpinu eru ætlaðar 40 m.kr. til þessa kostnaðar. Við það var miðað að fjárveitingunni yrði skipt á einstök ráðuneyti í meðförum Alþingis. Eftir standa 6,9 m.kr. til síðari ráðstöfunar.


10 Samgönguráðuneyti


101    Samgönguráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 0,5 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.
190    Ýmis kostnaður ráðuneytis: Viðfangsefni 1.31 Flugbjörgunarsveitir fær nýtt heiti, 1.31 Landsbjörg. Framlag hækkar um 4 m.kr. og verður 6 m.kr.
333    Hafnamál: Viðfangsefni 6.20 Ferjubryggjur hækkar um 2 m.kr. og verður 12 m.kr. Fjárhæðin skiptist á Nauteyri 10 m.kr. og Mjóafjörð 2 m.kr. Viðfangsefni 6.30 Hafnamannvirki lækkar um 27,1 m.kr. og verður 781,9 m.kr. Í breytingartillögu nefndarinnar er fjárhæðinni skipt á einstök viðfangsefni í sérstöku yfirliti. Tekinn er inn nýr liður 6.39 Hafnamannvirki Sandgerði og er framlag 25,1 m.kr.
651    Ferðamálaráð: Rekstrarframlag hækkar um 5 m.kr. og verður 20,6 m.kr. en hækkunin er ætluð ferðamálasamtökum landshlutanna.


11 Iðnaðarráðuneyti


101    Iðnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.


12 Viðskiptaráðuneyti


101    Viðskiptaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.


13 Hagstofa Íslands


101    Hagstofa Íslands, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1 m.kr. en á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um sömu fjárhæð.


14 Umhverfisráðuneyti


101    Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 3 m.kr. og verður 53,1 m.kr. Á móti lækkar fjárveiting á fjárlagalið 990 undir fjármálaráðuneyti, viðfangsefni 1.91 Kostnaður við framkvæmd EES-samninga, um 2 m.kr. Staða húsvarðar, 1 m.kr.
190    Ýmis verkefni: Viðfangsefni 1.40 Alþjóðastofnanir hækkar um 1 m.kr. og verður 5,6 m.kr. Hækkun er vegna Montreal-bókunar.

Alþingi, 9. des. 1992.



Karl Steinar Guðnason,

Sturla Böðvarsson.

Árni Johnsen.


form., frsm.



Gunnlaugur Stefánsson.

Einar K. Guðfinnsson.

Árni M. Mathiesen.








Fylgiskjal I.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992 hefur nefndin fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Til útskýringar á helstu þáttum málsins komu á fundi nefndarinnar frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu Hjalti Zóphóníasson skrifstofustjóri, Dagný Leifsdóttir deildarstjóri og Ari Edwald, aðstoðarmaður ráðherra. Þá komu til viðræðna við nefndina herra Ólafur Skúlason biskup, Þorbjörn Hlynur Árnason biskupsritari, Gunnar Bergsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Böðvar Bragason lögreglustjóri í Reykjavík, Stefán Hirst, skrifstofustjóri lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, Þórir Oddsson aðstoðarrannsóknarlögreglustjóri og Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins.
    Nefndin ræddi einkum þá þætti frumvarpsins er snúa að Landhelgisgæslunni, lögreglunni og þjóðkirkjunni. Fram kom að nefndarmenn hafa talsverðar áhyggjur af málefnum Landhelgisgæslunnar. Upplýst var þó að verið væri að athuga breytingar á verkefnum sem hún sinnir og til stæði að endurskoða lög um Landhelgisgæsluna. Enn fremur hafa nefndarmenn áhyggjur af málefnum lögreglunnar, áhættuþáttum í störfum hennar og ekki síst fíkniefnalögreglunni. Fram kom að verið er að vinna að endurskipulagningu á fyrirkomulagi þessara mála, m.a. hvað snertir öryggisútbúnað lögreglumanna.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki tillögu til breytinga um þessi atriði en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur við frumvarpið eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.

Alþingi, 17. nóv. 1992.



Sólveig Pétursdóttir, form.


Sigbjörn Gunnarsson.


Björn Bjarnason.


Eyjólfur Konráð Jónsson.


Ingi Björn Albertsson.





Fylgiskjal II.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



     Í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992 hefur nefndin fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Til útskýringar á helstu þáttum málsins komu á fundi nefndarinnar frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu Hjalti Zóphóníasson skrifstofustjóri, Dagný Leifsdóttir deildarstjóri og Ari Edwald, aðstoðarmaður ráðherra. Þá komu til viðræðna við nefndina herra Ólafur Skúlason biskup, Þorbjörn Hlynur Árnason biskupsritari, Gunnar Bergsteinsson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Böðvar Bragason, lögreglustjóri í Reykjavík, Stefán Hirst, skrifstofustjóri lögreglustjóraembættisins í Reykjavík, Þórir Oddsson aðstoðarrannsóknarlögreglustjóri, Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, Guðmundur Malmquist, forstjóri Byggðastofnunar, og Guðmundur Árnason, skrifstofustjóri forsætisráðuneytis.
     Nefndin hefur ekki farið heildaryfirferð yfir þá kafla fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um fjárveitingar til forsætisráðuneytisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins heldur kynnt sér að nokkru leyti fáeina þætti þar. Hjá fulltrúum dómsmálaráðuneytisins, sem komu á fund nefndarinnar, kom fram að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu ætti að leggja niður störf hreppstjóra frá næstu áramótum. Þessi ákvörðun lækkar útgjaldatillögur í fjárlagafrumvarpinu um 18 millj. kr. en ekki hefur verið gerð nein athugun á því hver raunverulegur sparnaður verður. Við verkefnum hreppstjóra eiga lögregla, dýralæknar og sveitarstjórnir að taka. Því mun að sjálfsögðu fylgja aukinn kostnaður fyrir lögreglu, bæði vegna vinnu og aksturs, en ekki er gert ráð fyrir neinni hækkun fjárveitinga til hennar í því skyni. Ekkert kom fram um hver ætti að greiða dýralæknum fyrir þá aukavinnu sem þeir munu þurfa að taka að sér, en áreiðanlega er tímakaup þeirra ekki lægra en hreppstjóra. Ekkert samráð hefur verið haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um þau verkefni sem þeim er ætlað að sinna og ekki heldur gert ráð fyrir neinum greiðslum til þeirra af þeim sökum. Það er því augljóst að hér er um mjög flausturslega ákvörðun að ræða sem enginn veit hvaða tilgangi þjónar því að þeir sem til þekkja eru sannfærðir um að miðað við launakjör hreppstjóra muni breytingin ekki leiða til sparnaðar. Ekki hefur enn verið lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um hreppstjóra og því liggur ekki fyrir hvort meiri hluti er fyrir því á Alþingi að leggja niður þessi gömlu embætti.
     Hjá biskupi Íslands kom fram að 20% skerðing á tekjum kirkjunnar af kirkjugarðsgjaldi heldur áfram á næsta ári þó að kirkjumálaráðherra hefði gefið fyrirheit um það við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 að sú skerðing yrði ekki endurtekin. Í skýringum með frumvarpinu er sagt að sá hluti sem rennur í ríkissjóð standi undir ákveðnum útgjaldaliðum ráðuneytisins. Hins vegar hefur kirkjan fengið nýtt loforð frá dómsmálaráðherra um að síðar verði stefnt að því að einhver verkefna ráðuneytisins verði færð undir stjórn kirkjunnar.
    Lögreglan í Reykjavík vinnur að hagræðingu og endurskipulagningu í starfi sínu. Fyrir nokkrum árum var sett upp hverfisstöð í Breiðholti í þeim tilgangi að lögreglan kæmist í nánari tengsl við íbúana með vettvangsgöngu. Reynslan af því hefur orðið mjög góð. Því ætlar lögreglan að hafa sama hátt á í Grafarvogshverfi, en þá þarf hún að fara með staf í hönd að leita eftir því að einhver skjóti þar skjólshúsi yfir hana því engin fjárveiting er til þess á fjárlögum. Að öðru leyti hefur dómsmálaráðuneytið enga stefnu markað um starfsemi lögreglunnar í Reykjavík á sama tíma og yfirvinnuheimildir hennar hafa verið skornar niður um þriðjung á síðustu árum. Enn fremur hafa fjárveitingar til endurnýjunar á bílakosti verið skornar nærri alveg niður þannig að áætlun um endurnýjun bílanna, sem gerð var fyrir nokkrum árum, er runnin út í sandinn. Bættur bíla- og tækjakostur er lífsnauðsyn við sífellt erfiðara verkefni lögreglunnar við að halda uppi lögum og reglum.
     Landhelgisgæslunni er ætlað að leggja einu skipa sinna alveg en það hefur þær afleiðingar að þriðju hverja viku verður aðeins eitt varðskip úti á sjó, jafnframt því sem dregið verður út flugi Fokkervélarinnar. Landhelgisgæslan telur mjög æskilegt að fá að gera út og veita þjónustu á þrjú skip, þó að úthaldstíminn minnkaði eitthvað úr þeim 30 mánuðum sem eru á þessu ári, en fleiri yrðu þá til afleysinga svo að úr aukavinnu mundi draga. Vonlaust verður hins vegar að fylgjast með hafsvæðunum innan 200 mílnanna þar sem Íslendingar eiga hvað mestra hagsmuna að gæta hvað þá þeim svæðum utar. Jafnframt má benda á að erfiðara verður fyrir Landhelgisgæsluna að sinna starfi sínu ef Evrópubandalagsflotinn fær veiðiheimildir innan íslensku landhelginnar. Það virðist því ljóst að niðurskurður á fjárveitingum til þessara verkefna er handahófskenndur og sá sparnaður, sem þarna er ætlað að ná, getur valdið þjóðinni óbætanlegu tjóni.
     Hjá forstjóra Byggðastofnunar, Guðmundi Malmquist, kom fram að um leið og fjárveiting til Byggðastofnunar í fjárlagafrumvarpi lækkar um 10 millj. kr. frá þessu ári er áætlað að eigin tekjur stofnunarinnar muni lækka úr 230 millj. kr. á þessu ári í 100–130 millj. kr. á næsta ári. Ljóst er því að Byggðastofnun verður miklu þrengri stakkur skorinn á næsta ári og var þó hart gengið fram í því í fjárlögum þessa árs. Þar við bætist að reglugerð núverandi forsætisráðherra bindur mjög hendur stofnunarinnar til stuðnings atvinnulífi svo að ljóst er að hún verður að láta eitthvað af góðum verkefnum sitja á hakanum. Ákvæði reglugerðarinnar um framlög í varasjóð mun einnig stöðva lánveitingar til góðra framkvæmda þegar líður á næsta ár.
     Guðmundur Malmquist sagði að Byggðastofnun hefði ekkert fengið af þeim 100 millj. kr. sem bókun með búvörusamningi í mars 1991 kveður á um til atvinnuuppbyggingar í sveitum. Samkvæmt þeirri bókun skal Byggðastofnun fá sömu upphæð á næsta ári, en skrifstofustjóri forsætisráðuneytis gat engar upplýsingar gefið af hverju engin fjárveiting í þetta verkefni er í fjárlagafrumvarpinu.
     Þá má benda á að fjárveiting til umboðsmanns Alþingis lækkar um 600 þús. kr. Umboðsmanni hefur tekist á þeim fáu árum, sem hann hefur starfað, að afla þessari stöðu virðingar og viðurkenningar á þörf fyrir hana. Þetta hefur tekist með fámennu starfsliði þar sem kostnaði hefur verið mjög í hóf stillt. Það er því mjög slæmt ef nú verður dregið svo úr fjárveitingum að þessi stofnun yrði að breyta vinnubrögðum sínum sem svo vel hafa reynst.
    Minni hluti allsherjarnefndar telur að sá niðurskurður, sem bent hefur verið á hér að framan, þurfi miklu markvissari og vandaðri undirbúning til þess að ná raunhæfum árangri og mun af þeirri ástæðu ekki gera neinar breytingartillögur, enda er yfirlýst af ríkisstjórninni að fjárlagafrumvarpið allt þurfi gagngerðrar endurskoðunar við.

Alþingi, 26. nóv. 1992.



Jón Helgason.


Kristinn H. Gunnarsson.


Anna Ólafsdóttir Björnsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.





Fylgiskjal III.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1981, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992. Vegna þessarar umfjöllunar nefndarinnar komu á fund hennar Einar Sverrisson, yfirviðskiptafræðingur í fjármálaráðuneytinu, og frá félagsmálaráðuneytinu komu Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri, Gylfi Kristinsson deildarstjóri og Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri. Gáfu þau skýringar á þessum kafla frumvarpsins og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna. Enn fremur komu á fund nefndarinnar frá Húsnæðisstofnun ríkisins Hilmar Þórisson aðstoðarframkvæmdarstjóri, Guðmundur Gunnarsson tækniforstjóri og Einar Jónsson hdl., forstöðumaður lögfræðideildar, vegna atriða er varða skyldusparnað, hönnunardeild og Byggingarsjóð verkamanna. Þá gerði Þórður Skúlason, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, nefndinni grein fyrir þeim þætti Atvinnuleysistryggingasjóðs er varðar sveitarfélögin. Loks komu frá Hagsýslu ríkisins Haukur Ingibergsson deildarstjóri og Sigurður Helgi Helgason stjórnsýslufræðingur. Í nefndinni komu upp umræður um hversu takmarkaða möguleika fagnefndir hafa á að fjalla um málasvið fjárlaga á þann hátt sem þörf væri á. Má þar nefna að fagnefndirnar fá nauman tíma til að afla þeirra gagna sem nauðsynleg væru til nægilegrar umfjöllunar um málaflokk þennan. Mjög mikilvægt er að fjárlaganefnd og fagnefndir komi sér saman um hver þáttur fagnefndanna á að verða í fjárlagavinnunni. Meiri hluti félagsmálanefndar gerir ekki athugasemdir á þessu stigi við þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem að nefndinni snýr. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að lýsa viðhorfum sínum til einstakra málaflokka á þessu sviði við framhaldsumræðu málsins.

Alþingi, 25. nóv. 1992.



Rannveig Guðmundsdóttir, form.


Eggert Haukdal.


Guðjón Guðmundsson.


Einar K. Guðfinnsson.


Sigbjörn Gunnarsson.






Fylgiskjal IV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Undirrituð, sem skipa minni hluta félagmálanefndar, benda á að enn eru fjölmörg atriði óljós varðandi þá hluta fjárlagafrumvarpsins sem varða það málefnasvið er undir nefndina heyrir.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. nóvember, um aðgerðir til stuðnings atvinnuvegunum, birtast ný áform um niðurskurð ríkisútgjalda sem ekki hafa verið útfærð og ekki er ljóst hvaða áhrif hafa á gjaldahlið frumvarpsins. Ekki verður séð með hvaða hætti 132 millj. kr. sparnaður í rekstri Húsnæðisstofnunar ríkins muni nást, en mótaðar tillögur þar um hafa ekki borist nefndinni.
    Minni hluti félagsmálanefndar telur þannig engar forsendur til að taka afstöðu til frumvarpsins og stendur því ekki að áliti meiri hlutans.

Alþingi, 7. des. 1992.



Ingibjörg Pálmadóttir.


Jón Kristjánsson.


Svavar Gestsson.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.





Fylgiskjal V.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992 hefur nefndin fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Á fund nefndarinnar komu frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu Edda Hermannsdóttir skrifstofustjóri og Svanhvít Jakobsdóttir deildarstjóri og gáfu þær skýringar og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna hvað snerti aðalskrifstofu, eftirlits- og stjórnsýslustofnanir, sjúkrastofnanir og heilsugæslu. Enn fremur kom Þorkell Helgason, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og svaraði fyrirspurnum um tryggingamál.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir við málið á þessu stigi en bendir á varðandi fjárlagavinnu fagnefndanna að í fyrsta lagi þurfi að ætla nefndum rýmri tíma til vinnunnar og í öðru lagi þurfi að gera verkaskiptingu fjárlaganefndar og fagnefndanna skýrari. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur við málið eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.

Alþingi, 4. des. 1992.



Sigbjörn Gunnarsson, form.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Sólveig Pétursdóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.





Fylgiskjal VI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Heilbrigðis- og trygginganefnd hefur á tveimur fundum fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar. Á fundi nefndarinnar komu frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu Edda Hermannsdóttir skrifstofustjóri, Þorkell Helgason, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Svanhvít Jakobsdóttir deildarstjóri.
    Minni hluti nefndarinnar telur sig ekki hafa fengið svör við mörgum mjög mikilvægum spurningum er snerta útfærslu og framkvæmd á áformum um lækkun á útgjöldum á einstökum liðum fjárlagafrumvarpsins sem getið er um í greinargerð þess. Í því sambandi vill minni hlutinn benda á eftirfarandi:
    Draga á úr sjálfvirkri aukningu útgjalda lífeyristrygginganna. Ekki hafa fengist svör við því hver þessi sjálfvirku útgjöld eru né þá heldur hvernig á að draga úr þeim.
    Áform eru um að lækka útgjöld lífeyristrygginga um 580 millj. kr. með sérstökum aðgerðum. Ekki hafa fengist svör við því hvaða aðgerðir þetta séu.
    Stefnt er að því að eignatengja lífeyrisgreiðslur nái áform um fjármagnstekjuskatt fram að ganga. Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi fallið frá því í bili a.m.k. að leggja á fjármagnstekjuskatt.
    Þá er gert ráð fyrir því að lög um fæðingarorlof, mæðra- og feðralaun, svo og ýmsar félagslegar sérbætur lífeyristrygginga, verði endurskoðuð. Ekki hafa fengist svör við til hvers sú endurskoðun á að leiða.
    Stefnt er að því að ná sparnaði í lækniskostnaði með tilvísanakerfi og breytingum á greiðsluþátttöku ríkisins. Ekki hafa fengist svör við hvernig framkvæmd tilvísanakerfisins á að vera né hvaða breytingar séu fyrirhugaðar á greiðsluþátttöku ríkisins í lækniskostnaði.
    Áætlað er að verja 160 millj. kr. af ráðstöfunarfé Framkvæmdasjóðs aldraðra til reksturs stofnana sem til þessa hefur verið greiddur af sjúkratryggingunum. Sérstakt frumvarp hefur verið flutt um þetta. Engin svör hafa fengist um hvernig þessum 160 millj. kr. skuli ráðstafað né til hvaða stofnana.
    Gert er ráð fyrir að færa slysatryggingarnar að hluta eða öllu leyti til almennra tryggingafélaga á árinu 1993. Með þessu er áformað að ná 100 millj. kr. sparnaði. Ekki hafa fengist svör við því hvernig þessum sparnaði verði náð. Hafa verður í huga að slysatryggingarnar hafa að öllu leyti verið greiddar af atvinnurekendum.
    Framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs eru stórlega vanmetin því ljóst er að atvinnuleysi á árinu 1993 mun verða mun meira en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Engin svör hafa fengist við því hvernig þau viðbótarútgjöld, sem munu falla á Atvinnuleysistryggingasjóð á árinu 1993, munu verða fjármögnuð.
    Síðustu daga hafa fjölmiðlar greint frá því að til standi að lækka útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála enn frekar eða um 650 millj. kr. Heilbrigðis- og trygginganefnd hafa enn engar upplýsingar borist um þetta.
    Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar telur fyrirhugaðan niðurskurð í málaflokknum mjög varhugaverðan en í ljósi lítilla upplýsinga telur hann sér ekki fært að gefa faglega umsögn um þann kafla fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1993 sem snýr að nefndinni. Minni hlutinn telur eðlilegt að þegar fyrir liggur útfærsla á framkvæmd á einstökum liðum fjárlagafrumvarpsins fái heilbrigðis- og trygginganefnd tækifæri til að láta álit sitt í ljós á því við fjárlaganefnd.

Alþingi, 5. des. 1992.



Finnur Ingólfsson.


Ingibjörg Pálmadóttir.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Anna Kristín Sigurðardóttir.





Fylgiskjal VII.

Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.



    Í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa, hefur iðnaðarnefnd fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem snúa að málefnasviði nefndarinnar.
    Til fundar við nefndina komu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri og Kristmundur Halldórsson deildarstjóri frá iðnaðarráðuneytinu. Jafnframt komu til fundar við nefndina Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri, Steinar Friðgeirsson framkvæmdastjóri og Eiríkur Briem, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, frá Rafmagnsveitum ríkisins til viðræðna um hlut þeirrar stofnunar í fjárlagafrumvarpinu.
    Forsvarsmenn Rafmagsveitna ríkisins upplýstu að ástand dreifikerfis í sveitum fari versnandi og að um 150 millj. kr. þyrfti árlega til að sinna nauðsynlegum endurbótum á því. Í fjárlagafrumvarpi eru hins vegar ekki ætlaðar til þessa verkefnis nema 18,7 millj. kr. Þar af munu fara um það bil 15 millj. kr. til Rafmagnsveitna ríkisins. Að auki kom fram að Rafmagnsveitur ríkisins hafa tekið 50 millj. kr. frá öðrum þáttum fyrirtækisins í ár til að verja til styrkingar dreifikerfinu. Talsvert vantar því á að nægu fé sé varið til þeirra bóta sem forráðamenn Rafmagnsveitna ríkisins telja nauðsynlegar. Nefndin telur rétt að benda háttvirtri fjárlaganefnd á þetta atriði sérstaklega.
    Nefndarmenn telja óhjákvæmilegt að komið verði nýrri og gleggri skipan á meðferð frumvarps til fjárlaga í fagnefndum. Í iðnaðarnefnd hefur til dæmis komið fram sú hugmynd að fjárlaganefnd og viðkomandi fagnefnd geri í tæka tíð samkomulag um að fagnefndin fjalli um tiltekinn þátt fjárlagafrumvarpsins. Verði þá miðað við að fagnefndin fjalli um öll atriði viðkomandi málaflokks og skili efni í lokaálit fjárlaganefndar. Forsenda þessa er að sjálfsögðu, eins og áður var nefnt, fullt samkomulag við fjárlaganefnd. Mætti hugsa sér að fagnefndin og fjárlaganefndin gengju frá samkomulagi síðla sumars svo að fagnefndin gæti fyrir upphaf þings hafið umfjöllun um málið. Iðnaðarnefndin leggur áherslu á að fjárlaganefnd, forsætisnefnd og formenn þingflokkanna komi sér saman um fyrirkomulag þessara mála í vetur.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér að sjálfsögðu allan rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1993 kemur til framhaldsumræðu á Alþingi.

Alþingi, 19. nóv. 1992.



Össur Skarphéðinsson, form.


Pálmi Jónsson.


Svavar Gestsson.


Kristín Einarsdóttir.


Finnur Ingólfsson.


Tómas Ingi Olrich.


Guðjón Guðmundsson.


Sigríður Anna Þórðardóttir.


Páll Pétursson.





Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
    Íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir breyttum tímum. Framleiðsla sauðfjár- og mjólkurafurða tekur nú mið af samningum við ríkisvaldið þar sem innanlandsmarkaður er lagður til grundvallar, greiðslu útflutningsbóta hefur verið hætt og verð landbúnaðarafurða á að lækka. Samkvæmt framansögðu mun framleiðsluréttur bænda breytast í samræmi við innanlandsmarkað. Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í framleiðslu hefðbundinna greina, sérstaklega sauðfjárafurða. Sauðfjárbændur standa því frammi fyrir mikilli óvissu um afkomu sína.
    Fyrir liggur að Íslendingar kunni í byrjun næsta árs að gerast aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Á þeim grundvelli opnast heimildir til innflutnings landbúnaðarafurða. Auknar líkur eru á að samningar náist í GATT-viðræðunum, en þeir samningar mundu leiða af sér enn frekari heimildir til innflutnings á landbúnaðarvörum. Gangi þetta eftir munu áhrifin á íslenskan landbúnað verða umtalsverð.
    Á grundvelli þeirrar óvissu sem fram undan er um málefni landbúnaðarins einbeitti nefndin sér að þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem helst tengjast kjörum bændastéttarinnar. Nefndin leggur jafnframt til að viðhöfð sé fyllsta aðgát hvað varðar málefni stofnana landbúnaðarins, einkum fjárfestingar sem vandséð er að nýtast muni á þeim tímum sem fram undan eru.
    Samkvæmt venju leitaði nefndin upplýsinga víða að. Frá landbúnaðarráðuneytinu komu á fund nefndarinnar Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmaður ráðherra og Jóhann Guðmundsson. Þá komu frá Stéttarsambandi bænda Haukur Halldórsson formaður og Gísli Karlsson. Enn fremur komu á fund nefndarinnar Jón Loftsson skógræktarstjóri, Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri, Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri og eftirtaldir fulltrúar búnaðarsambandanna: Ágúst Sigurðsson frá Búnaðarsambandi Suðurlands, Bjarni Guðráðsson frá Búnaðarsambandi Borgarfjarðar og Jón Gíslason frá Búnaðarsambandi Austur-Húnavatnssýslu. Nefndinni bárust einnig gögn frá Búnaðarfélagi Íslands, Ríkisendurskoðun, Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins.
    Þau málefni sem nefndin fjallaði sérstaklega um verða nú rakin lið fyrir lið.

1. Búvörusamningarnir.
    Álit ríkislögmanns frá 15. maí 1991, er gefið var að ósk forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, er lagt til grundvallar skuldbindingum ríkissjóðs varðandi samninga ríkisins við bændur. Þar segir m.a. að séu samningar gerðir beri að efna þá án tillits til þess hver sitji í stól landbúnaðarráðherra hverju sinni. Þá segir orðrétt í áliti þessu:
    „Framkvæmd samninga, sem forverar hans (landbúnaðarráðherra) í starfi hafa gert með lögformlegum hætti, heyrir undir embættisskyldur hans. Á þessu stigi liggur ekkert það fyrir sem getur leyst hann undan að framkvæma samninginn eftir því sem lög leyfa og leita eftir frekari lagaheimildum til framkvæmdar hans. Á sama hátt hvílir skylda á fjármálaráðherra að leita eftir lagaheimildum til að unnt sé að efna skuldbindingar ríkissjóðs  . . .
    Þar sem framkvæmd búvörusamninganna grundvallast á fjárveitingum sem ákveðnar eru á fjárlögum hverju sinni ákvað nefndin að fá álit Ríkisendurskoðunar á því hvort fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1993 væri að þessu leyti í samræmi við búvörusamningana frá 11. mars 1991 og 15. ágúst 1992. Nefndinni barst svar Ríkisendurskoðunar 23. nóvember sl. og birtist það sem fylgiskjal með áliti þessu.
    Í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar kemur m.a. fram eftirfarandi:
    Að til viðbótar 175 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði á árinu 1993 vegna birgðauppgjörs mjólkurafurða verða fengnar að láni 175 millj. kr. úr Verðmiðlunarsjóði og mun ríkissjóður endurgreiða sjóðnum lánið á árinu 1994. Til ráðstöfunar á árinu 1993 verða þannig 350 millj. kr. Til að unnt sé að lána úr Verðmiðlunarsjóði þarf lagabreytingu. Enn fremur þarf að færa alla fjárhæðina, þ.e. 350 millj. kr., til gjalda í fjárlögum næsta árs og vantar því 175. millj. kr. í frumvarpið.
    Frestað er að greiða 50 millj. kr. af framlagi ríkissjóðs til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins þar til á árinu 1994.
    Óvíst er með framlög til Jarðasjóðs, en þau ráðast af því hver sala ríkisjarða verður á næsta ári.
    Byggðastofnun og fjármálaráðuneyti eru ekki sammála um hvort framlag til Byggðastofnunar samkvæmt búvörusamningi sé innan lántökuheimildar stofnunarinnar á næsta ári.
    Sú aukning á framlögum til landgræðslu og skógræktar, sem boðuð er í bókun 6 með búvörusamningnum frá í mars 1991, kemur ekki fram í fjárlagafrumvarpinu.
    Á grundvelli þessa mats Ríkisendurskoðunar, sem fram kemur í framangreindri skýrslu, liggur fyrir að frestað er greiðsluskuldbindingum á um 225 millj. kr. til ársins 1994. Vangreiddar eru 50 millj. kr. til Jarðasjóðs og 100 millj. kr. til Byggðastofnunar. Þá vantar, að mati framleiðsluráðs landbúnaðarins, um 14 millj. kr. upp á vangreiddan vaxta- og geymslukostnað. Til viðbótar þessu vantar framlög til landgræðslustarfa bænda sem getið verður í 4. lið álits þessa.

2. Lífeyrissjóðsgreiðslur.

    Sú breyting hefur nú verið gerð að niðurgreiðslum á búvörum hefur verið breytt í beinar greiðslur til sauðfjár- og kúabænda. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu falla því niður greiðslur til lífeyrissjóðs bænda sem áður voru greiddar af fjárveitingu til niðurgreiðslna. Þessar breytingar leiða til þess að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu falla niður lífeyrisskuldbindingar til annarra greina landbúnaðarins.
    Heildarlífeyrisgreiðslur voru 432 millj. kr. á árinu 1992 en eru 336,4 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1993. Mismunurinn er 95,6 millj. kr. Eins og áður segir stafar þessi mismunur af því að nú greiðir ríkissjóður hlutdeild sína aðeins í beinum greiðslum til bænda, auk lífeyrisgreiðslna til eldri bænda sem eiga lítil eða takmörkuð lífeyrisréttindi. Bændur, sem stunda aðrar búgreinar, fá samkvæmt frumvarpinu ekki greiddar lífeyrisbætur. Ríkisendurskoðun bendir á að eftirleiðis verði Lífeyrissjóður bænda að innheimta mótframlag vegna annarra bænda.
    Með því að hér er um að ræða veigamiklar breytingar er nauðsynlegt að fundin verði viðunandi lausn á þessu máli.

3. Búfjárræktar- og jarðræktarlög.
    Samkvæmt ákvörðun laga nr. 1, frá 24. janúar 1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, eru heimildir til greiðslu jarðræktarframlaga nú háðar fjárveitingu á fjárlögum hverju sinni. Þessi ákvörðun hnekkir þó ekki skuldbindingum ríkisins til greiðslu þeirra framlaga sem stofnað var til fyrir gildistöku tilvitnaðra laga. Þess vegna ber að greiða bændum þau jarðræktarframlög sem enn eru ógreidd frá síðasta ári og nemur sú upphæð 19 millj. kr.
    Til að uppfylltar verði skyldur samkvæmt búfjárræktarlögum vantar 6 millj. kr. vegna félagslegrar starfsemi. Þá vantar 3 millj. kr. til launagreiðslna héraðsráðunauta.
    Ógreiddar lífeyrisskuldbindingar vegna fyrrverandi starfsmanna búnaðarsambandanna eru að upphæð 14 millj. kr. og í framhaldi af því nema þessar skuldbindingar u.þ.b. 2–3 millj. kr. á ári.

4. Landgræðslan og skógræktin.
    Samkvæmt bókun 6 með búvörusamningnum frá í mars 1991 á að verja 2 milljörðum kr. til landgræðslustarfa bænda á samningstímanum. Þessi fyrirheit eru einungis að litlu leyti komin til framkvæmda. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1993 er áætlað að verja 20 millj. kr. til landgræðslustarfa bænda. Mikill áhugi er á þessum verkefnum og hefur fyrsta landgræðslufélagið þegar verið stofnað. Víða gætir áhuga á svipaðri félagsstofnun.
    Við Markarfljót á sér nú stað mikið landbrot sem getur valdið miklu tjóni á landi og mannvirkjum. Sama er að segja um Jökulsá á Dal. Áframhaldandi landbrot þar mundi spilla samgöngum og auðvelda ánni að brjóta sér farveg þvert í gegnum sveitina. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu lækkar fjárveiting vegna fyrirhleðslna um 10 millj. kr. frá því á árinu 1992 og nemur samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 1993 aðeins um 15 millj. kr. Þessi fjárhæð nægir einungis til að mæta brýnustu þörfum við viðhald fyrirhleðslugarða.
    Í gildi eru lög um Héraðsskóga. Á grundvelli þeirra laga hafa verið gerðir framkvæmdasamningar við fjölmarga bændur á Fljótsdalshéraði. Til þess að þeir samningar gangi fram með eðlilegum hætti þarf að sjá fyrir því fjármagni sem samningarnir grundvallast á. Að dómi Ríkisendurskoðunar vantar 10 millj. kr. til að fjárveiting sé í samræmi við tilgreinda samninga.
    Með þessu áliti landbúnaðarnefndar er vakin athygli á viðskiptum ríkisvaldsins og bænda landsins og þess vænst að fjárlaganefnd Alþingis taki mið af því sem hér kemur fram svo sem frekast er kostur.
    Össur Skarphéðinsson var ekki samþykkur afgreiðslu álits þessa.
    Einar K. Guðfinnsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 1992.



Egill Jónsson, form.


Guðni Ágústsson.


Ragnar Arnalds.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


Árni R. Árnason.


Eggert Haukdal.





Fylgiskjal IX.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa Alþingis, hefur menntamálanefnd fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar.
    Við umfjöllun nefndarinnar hafa starfsmenn menntamálaráðuneytisins, Árni Gunnarsson, Hákon Torfason, Ólafur Darri Andrason, Þorsteinn Gunnarsson og Örlygur Geirsson, komið á fund og svarað fyrirspurnum nefndarmanna. Frá fjármálaráðuneytinu kom Ásdís Sigurjónsdóttir til viðtals við nefndina og Lárus Jónsson og Guðjón Valdimarsson frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Jafnframt kom Guðmundur Magnússon þjóðminjavörður og greindi frá stöðu Þjóðminjasafnsins.
    Meiri hluti nefndarinnar ákvað að gera ekki athugasemdir við þennan hluta fjárlaga-frumvarpsins. Einstakir nefndarmenn munu, ef þeir kjósa, lýsa viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins.

Alþingi, 19. nóv. 1992.



Sigríður A. Þórðardóttir, form.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Björn Bjarnason.


Tómas Ingi Olrich.


Árni M. Mathiesen.





Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Minni hluti menntamálanefndar getur ekki staðið að þeim kafla fjárlagafrumvarpsins sem fjallar um mennta- og menningarmál. Niðurskurður sá, sem ákveðinn var í bandorminum í fyrra, er staðfestur áfram og að auki fylgir stórfelld lækkun framlaga til Lánasjóðs íslenskra námsmanna og vaxandi lántökur sjóðsins. Þá virðist gert ráð fyrir sérstakri nýrri atlögu að Námsgagnastofnun.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir nokkrum þáttum í áliti okkar á þessum kafla fjárlagafrumvarpsins, en tekið skal fram að hér er ekki um að ræða neina tilraun til að gera heildarúttekt á ráðuneytinu sem þó væri full þörf á.
     Minni hlutinn beinir því til fjárlaganefndar að skoða alvarlega níu efnisatriði sem rakin eru í álitinu hér á eftir og eru skáletruð og merkt með I til og með IX.

Háskólarnir.
    Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í framlögum til Háskóla Íslands jafnframt því sem gert er ráð fyrir að Háskólinn veiti í raun aukna þjónustu. Er nú svo komið að nemendur eru sjálfir farnir að borga fyrir dæmatíma í verkfræði- og raunvísindadeild Háskólans auk skólagjaldanna sem verða lögð á nemendur áfram. Ef svo heldur fram sem horfir er stórfelld hætta á að gæði háskólamenntunar á Íslandi dragist aftur úr sem kemur niður á þeim nemendum sem stunda nám hér og mun síðan hafa í för með sér aukinn fjölda nemenda sem fara til náms erlendis — ef þeir geta það þá af fjárhagslegum ástæðum. Samdrátturinn í Háskóla Íslands er ekki síst bagalegur vegna þess að á sama tíma eru kröfur um námsframvindu hertar geysilega vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna og er vandséð hvernig það gengur upp að gera hvort tveggja á sama tíma, að skera niður fjárveitingu til Háskólans og breyta kröfum Lánasjóðsins. Haldi sama stefna áfram verður óframkvæmanlegt fyrir nemendur að uppfylla þær kröfur um námsframvindu sem Lánasjóðurinn gerir — af því að Háskólinn getur ekki veitt þá kennslu sem Lánasjóðurinn krefst!
    Minni hluti menntamálanefndar fer þess á leit við fjárlaganefnd að sérstaklega verði kannað hvort niðurskurðurinn í Háskóla Íslands er í raun framkvæmanlegur (I).
    Nokkur hækkun er á framlögum til Háskólans á Akureyri í samræmi við hin nýju lög um skólann. Hins vegar fást ekki svör við því í fjárlagafrumvarpinu hvað gert verður til þess að hefja kennaranám á Akureyri næsta haust. Enn fremur vantar í fjárlagafrumvarpið upplýsingar um hvort skapaðar verða aðstæður til að skólinn fái aðgang að kennsluskipi á ný.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Farskóli Kennaraháskóla Íslands taki til starfa á næsta ári. Það hefur nokkur útgjöld í för með sér. Hins vegar telur minni hlutinn að hér sé um ódýra starfsemi að ræða og að eðlilegt væri að hleypa mun fleirum í þetta nám en nú er gert ráð fyrir. Því skorar minni hlutinn á fjárlaganefnd að hækka framlagið til Kennaraháskólans þannig að unnt verði að taka inn í fjarnámið fleiri nemendur en gert hefur verið ráð fyrir til þessa (II).

Lánasjóður íslenskra námsmanna.
    Framkvæmdastjóri Lánasjóðs íslenskra námsmanna lagði fram í nefndinni upplýsingar sem sanna að gagnrýni stjórnarandstöðunnar á nýju lögin um Lánasjóð íslenskra námsmanna átti við rök að styðjast:
    Nemendum fækkar.
    Lögin koma verst við þá sem búa við veikasta félagslega stöðu.
    Skuldir sjóðsins fara vaxandi.
    Á einu stólparitanna í fskj. I kemur fram að nemendum og þar með lánþegum fjölgaði gífurlega á árunum 1988–1991. Af því stafaði vandi sjóðsins. Á þeim tíma, frá hausti 1988 til vors 1991, fjölgaði lánþegum við Lánasjóðinn um 1.728 alls, úr 6.409 í 8.137, um 27%. Nemendum hér á landi fjölgaði meira eða um tæp 39%. Vandi sjóðsins stafaði því af stökki í fjölda námsmanna.
    Þá kemur núverandi ríkisstjórn til skjalanna og gjörbreytir sjóðnum. Rökin voru þau að sjóðurinn stæði illa fjárhagslega. Þau rök voru jafnharðan slegin niður af Ríkisendurskoðun er í ljós kom að eigið fé sjóðsins var 9 milljarðar kr. umfram skuldir. Engu að síður hélt menntamálaráðherra þessu fram og gagnrýndi um leið harðlega lántökur sjóðsins undanfarin ár. Jafnframt var fullyrt að lagabreytingarnar væru til að styrkja sjóðinn fjárhagslega og að þær yrðu ekki til þess að veikja á neinn hátt jöfnunarhlutverk sjóðsins. Nú þegar, eftir aðeins nokkurra mánaða gildistíma nýju laganna, liggja niðurstöðurnar fyrir.

Námsmönnum fækkar.
    Í fyrsta lagi kemur það fram í tölum frá framkvæmdastjóra Lánasjóðsins að námsmönnum hefur fækkað verulega eða á einu ári um 700 nemendur (sjá fskj. I). Það er um 8,6% á aðeins einu ári. Og tekið skal fram að þessi tala er áætlun sjóðsstjórnarinnar. Líklegt er að fækkunin verði í raun enn meiri að okkar mati. En látum hér við sitja: Sú fækkun námsmanna sem þeir viðurkenna sjálfir er um 8,6%.

Foreldrum í námi fækkar.
    Það er ljóst að foreldrum í hópi námsmanna fækkar. Þannig lækkar hlutfall foreldra í hópi námsmanna úr 38% í fyrra í 28% í ár og hlutfall einstæðra foreldra verður 7% af heildinni í stað 8% áður (sjá fskj. I). Af þessum tölum má einnig draga þá ályktun að lagabreytingin komi aðallega niður á konum í hópi námsmanna.

Lántökur sjóðsins aukast.
    En batnar þá fjárhagur sjóðsins? Það voru aðalrökin fyrir breytingunum sl. vor. Svarið er nei. Fjárhagur sjóðsins versnar af því að framlögin hafa aldrei verið lægri og lántökurnar eru því hærri en nokkru sinni fyrr og að óbreyttu verður sett nýtt skuldamet á hverju ári framvegis. Þetta framgengur einnig af tölum forráðamanna sjóðsins.
    Þar sést í fyrsta lagi að lántökur sjóðsins eru á næsta ári áætlaðar 320 millj. kr. hærri en fyrir tveimur árum eða samtals 3.540 millj. kr. Af þeirra eigin tölum (sjá fskj. I) sést líka að ef svo fer fram sem horfir munu lántökur sjóðsins fara vaxandi á næstu árum en ekki minnkandi:
    Lántökurnar eru taldar verða 3.540 millj. kr. á næsta ári. Þær eru taldar verða 4.270 millj. kr. árið 1995 og 1996 eru þær taldar verða 4.675 millj. kr. eða nær tvöfalt hærri en að meðaltali í tíð síðustu ríkisstjórnar.
    Niðurstöðurnar eru því þær sem fyrr komu fram: Færri nemendur, einkum færri foreldrar og færri konur í námi, og verri fjárhagsstaða sjóðsins.

Lækkun framlaga til rannsókna.
    Minni hluti nefndarinnar fagnar því að tekið hefur verið á fjármálum Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum, þ.e. ef áætlanir um innheimtu standast. Minni hlutinn hefur ekki fengið fullnægjandi skýringar á þeim verkefnatilflutningi sem á sér stað frá ráðuneytinu til Rannsóknastofnunar uppeldismála og mun leita skýringa á öðrum vettvangi. Minni hlutinn leggur áherslu á að Rannsóknastofnun uppeldismála er mikilvæg stofnun en hún þarf að geta stundað óháðar rannsóknir og hún má ekki um of vera tengd daglegum framkvæmdaverkefnum skólakerfisins.
    Framlög til „rannsóknastofnana, sem fjallað er um í langtímaáætlun Rannsóknaráðs, að viðbættum fjárveitingum til Raunvísindastofnunar Háskólans og Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum, lækka alls um 4% samanborið við fjárlög 1992 en um 40% ef miðað er við reikning 1991. Heildarfjárveiting til rannsóknastofnana lækkar um 40,6 millj. kr. milli ára,“ segir orðrétt í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu. Á móti þessu vísar ríkisstjórnin á 200 millj. kr. tekjur af sölu ríkisstofnana en þess er hvergi getið í fjárlagagreinargerð menntamálaráðuneytisins! Minni hlutinn telur eðlilegt að þær 200 millj. kr. sem færðar eru á fjármálaráðuneytið í þessu skyni verði fluttar á menntamálaráðuneytið. Leggur minni hluti menntamálanefndar til að fjárlaganefnd beiti sér fyrir breytingum á þessari færslu fjármuna (III).

Skólagjöld hækka í framhaldsskólum.
    Ekki er auðséð í frumvarpinu hvernig framhaldsskólarnir eru afgreiddir. Þar er gert ráð fyrir nokkurri hækkun sem aðallega skýrist af fjölgun nemenda. Þá er gert ráð fyrir að halda áfram innheimtu skólagjalda upp á 3.000 kr. á nemanda og er það tekið inn í frumvarpið. Vandséð er hvaða lagastoð er fyrir þessum vinnubrögðum af hálfu ríkisstjórnarinnar, en á bak við allar tölur í fjárlögum þarf að vera lagaheimild. Ákvæði framhaldsskólalaga eru skýr í þessum efnum: Þar er ekki gert ráð fyrir heimildum til að innheimta skólagjöld til almennra rekstrarþátta framhaldsskólanna.
     Hvetur minni hluti menntamálanefndar fjárlaganefnd til að athuga þessi skólagjöld í framhaldsskólum sérstaklega og færslu þeirra í fjárlögunum (IV). (Sjá enn fremur fskj. II sem er svar frá menntamálaráðuneytinu við fyrirspurn menntamálanefndar.)

Héraðsskólar lagðir niður.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er starfsemi héraðsskólanna í raun lögð niður án þess að gerð sér grein fyrir því af hálfu ráðuneytisins hvað á að koma í staðinn.
    Framlög til Héraðsskólans í Reykholti eru lækkuð þó að þar hafi orðið mikil fjölgun nemenda í haust. Ekkert kemur fram um það hvort ætlun ríkistjórnarinnar er að vinna að því verkefni að Félagsmálaskóli alþýðu verði í Reykholti. Í þessu sambandi má benda á að framhaldsskóli er nú starfræktur að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu og nauðsynlegt er að finna öðrum héraðsskólum önnur verkefni.
    Héraðsskólum á Vestfjörðum er lokað. Þeir voru tveir fyrir tveimur árum, í Reykjanesi og að Núpi. Þar eru á báðum stöðunum mikil og góð en ónotuð mannvirki. Óhjákvæmilegt er að leita skýringar á því af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig ætlunin er að nota þessi mannvirki í framtíðinni.
    Framlögin til Eiðaskóla eru lækkuð. Og ekkert fréttist af því heldur að ráðuneytið hafi neina stefnu í málefnum Laugarvatnsskólanna.
    Minni hlutinn telur það brýnt að fjárlaganefnd fari betur í saumana á framlögum til héraðsskólanna. Jafnvel þó að starfsemin dragist saman eða leggist niður eru framlögin óeðlilega lág (V).

Grunnskólinn áfram í vanda.
    Allir landsmenn eru sammála um að bæta þurfi grunnskólann. Það er ekki gert ráð fyrir neinu slíku í menntastefnu núverandi ríkisstjórnar. Þvert á móti var viðmiðunarstundum í 4.–5. bekk fækkað um eina. Sú skerðing stendur áfram. Viðmiðunarstundum í 6.–10. bekk fækkar um tvær á viku. „Samtals fækkar því viðmiðunarstundum allra árganga úr 299 vikustundum í 287 stundir, þ.e. um 4%,“ segja höfundar fjárlagafrumvarpsins. „Þessu til viðbótar er gripið til nokkurrar hagræðingar, bæði með því að fjölga í bekkjum og veita færri heimildir til viðbótarkennslu, svo sem til samkennslu,“ segir enn fremur í greinargerðinni.
    Sérstök athygli skal vakin á því að framlög til Heyrnleysingaskólans eru skorin niður um 12,6 millj. kr. án þess að hækka um leið sem þessu nemur framlag til Samkiptamiðstöðvar heyrnarlausra eða til túlkanáms í Háskóla Íslands.
    Þá vekur minni hlutinn athygli á því að kannað verði hvort lagaheimildir liggja fyrir til þess að skerða grunnskólann áfram eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir.

Námsgagnastofnun.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að skera framlög til Námsgagnastofnunar umfram það sem gerist með aðrar stofnanir. Framlögin verði á næsta ári 25 millj. kr. lægri en þau ættu að vera miðað við framlög þessa árs. Í greinargerð frumvarpsins er ekki að finna neinar tæmandi skýringar á því af hverju Námsgagnastofnun er ætlað að skera meira niður en öðrum. Í greinargerðinni kemur ekki fram að til standi að einkavæða stofnunina eins og heyrst hefur úr herbúðum Sjálfstæðisflokksins.
     Minni hlutinn fer fram á það við fjárlaganefnd að kannað verði hvort unnt sé að reka Námsgagnastofnun á næsta ári með þessum mikla niðurskurði (VI).

Ýmis atriði.
    Minni hlutinn fagnar því að haldið er áfram með eldri áætlanir sem ganga út frá því að Þjóðarbókhlaðan verði komin í notkun á 50 ára afmæli lýðveldisins.
    Gert er ráð fyrir að strika Menningarsjóð með öllu út enda þótt enn hafi ekki verið flutt frumvarp um að leggja sjóðinn niður.
    Minni hlutinn varar við þeim niðurskurði á fjárveitingu til húsafriðunar sem frumvarpið gerir ráð fyrir þar sem ekki á einasta að draga úr framlögum til húsafriðunar af hálfu ríkisins, heldur er einnig gert ráð fyrir að Húsafriðunarsjóður borgi rekstur húsafriðunarnefndar. Boðað er lagafrumvarp vegna þessa sem hefur ekki sést enn. Á fundum nefndarinnar kom fram að verulegt fjármagn skortir til þess að halda við þeim húsakosti sem Þjóðminjasafnið á, hvað þá heldur að fjármunir séu til að bæta þessi gömlu hús að marki.
    Gert er ráð fyrir að Kvikmyndasjóður fái það sem honum ber en hann á að fjármagna alla þátttöku Íslendinga í erlendu kvikmyndasamstarfi þannig að í raun er framlag til Kvikmyndasjóðs skorið verulega niður.
     Minni hlutinn fer fram á að fjárlaganefnd kanni sérstaklega hvað má ætla að Kvikmyndasjóður hafi í raun eftir að hann hefur greitt allan kostnað við þátttöku Íslands í alþjóðlegu samstarfi (VII).

Ríkisútvarpið.
    Fjárlagafrumvarpið vekur upp ýmsar athugasemdir vegna Ríkisútvarpsins.
    Gert er ráð fyrir að afnotagjöld RÚV hækki um 10% frá áramótum. Augljóst er af þeim umræðum sem eiga sér stað þessa dagana um ráðstafanir í ríkisfjármálum að ekki er víst að þessi hækkun náist fram fremur en aðrar hækkanir opinberra stofnana.
    Talið er koma til álita að endurskoða reglur um niðurfellingu afnotagjalda til tryggingaþega, en ekki kemur fram í frumvarpinu hvernig það verður gert.
    Gert er ráð fyrir virðisaukaskatti af afnotagjöldum upp á 120 millj. kr. án þess að frekar sé farið út í þá sálma í frumvarpinu.
     Nauðsynlegt er að fara vandlega ofan í fjármál Ríkisútvarpsins áður en fjárlögin verða afgreidd (VIII).
    Í frumvarpinu er lauslega fjallað um Sinfóníuhljómsveit Íslands en ekki er gerð grein fyrir þeim vanda sem hún mætir árlega vegna ágreinings um þá greiðslu sem fara á til hljómsveitarinnar frá Menningarsjóði útvarpsstöðva. Sérstök ástæða er til að skoða Menningarsjóð útvarpsstöðva (IX).

„Listir, framlög.“
    Loks ber að gagnrýna að í greinargerð með fjárlagatillögum menntamálaráðuneytisins er ekki gerð grein fyrir fjármunum til listasjóðanna samkvæmt nýjum lögum um þau efni. Fullyrt hefur verið að gert sé ráð fyrir óbreyttum fjárframlögum í því skyni og að staðið verði við ákvæði laganna um listamannalaun. Æskilegt er að fjárlaganefnd kanni sérstaklega hvort ekki á að færa listasjóðina inn í fjárlagafrumvörp og fjárlög með sjálfstæðum hætti í stað þess að setja þá alla ásamt fleiri þáttum undir einn safnlið, „Listir, framlög“, sem ekki er gerð nánari grein fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Alþingi, 26. nóv. 1992.



Svavar Gestsson.


Valgerður Sverrisdóttir.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Ólafur Þ. Þórðarson.





Fylgiskjal XI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá samgöngunefnd.



    Samgöngunefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar. Á fund nefndarinnar kom Rúnar Guðjónsson frá fjármálaráðuneytinu og gaf skýringar á þessum kafla frumvarpsins. Enn fremur ræddi nefndin við Hermann Guðjónsson, vita- og hafnamálastjóra, Tómas Sigurðsson frá Vitastofnun, Eyþór Elíasson frá Hafnamálastofnun, Helga Hallgrímsson vegamálastjóra og Jón Birgi Jónsson aðstoðarvegamálastjóra.
    Nefndin telur að ýmsar gagnlegar upplýsingar hafi komið fram í umræðum um þennan málaflokk. Þótt nefndin telji að ýmislegt megi bæta frá því sem fjárlagafrumvarpið greinir eru þær aðstæður nú ráðandi í fjármálum ríkisins að hún gerir ekki athugasemdir eða tillögur um breytingar á því. Einstakir nefndarmenn áskilja sér þó fullan rétt til að lýsa viðhorfum sínum til þessara mála í umræðum um fjárlagafrumvarpið eða í viðræðum við fjárlaganefnd.

Alþingi, 26. nóv. 1992.



Pálmi Jónsson, form.


Sigbjörn Gunnarsson.


Jóhann Ársælsson.


Kristín Einarsdóttir.


Guðjón Guðmundsson.


Guðni Ágústsson.


Árni M. Mathiesen.


Árni Johnsen

.

Stefán Guðmundsson.



Bókun.

    Til viðbótar áliti samgöngunefndar Alþingis vilja undirritaðir að eftirfarandi komi fram:
    Við teljum mjög óeðlilegt að skerða markaða tekjustofna Vegasjóðs um 694 millj. kr. og færa 330 millj. kr. kostnað vegna ferja og flóabáta frá ríkissjóði yfir á Vegasjóð en taka síðan 1.800 millj. kr. lán til átaks í vegamálum sem Vegasjóður skal endurgreiða með vöxtum á næstu árum. Eðlilegra hefði verið að nýta tekjustofna Vegasjóðs að fullu til vegaframkvæmda og hafa lántökuna í lágmarki.
    Þarna er verið að flytja vaxtakostnað af ríkissjóði yfir á Vegasjóð. Þetta mun valda verulegri skerðingu framkvæmdafjár Vegasjóðs á næstu árum.
    Sérstaklega viljum við þó mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið við undirbúning þess sérstaka átaks í vegamálum sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Með því að ekkert samráð var haft við nefndina eða þingmenn einstakra kjördæma hefur þinghefð og vinnuregla um langt skeið verið brotin. Hér eru á ferðinni breytingar á framkvæmdaröð sem áður hafði verið gert ráð fyrir á vegáætlun.

Jóhann Ársælsson.


Stefán Guðmundsson.


Guðni Ágústsson.


Kristín Einarsdóttir.





Fylgiskjal XII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992 hefur nefndin fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði. Á fund nefndarinnar komu Þórður Ásgeirsson fiskistofustjóri og Arndís Steinþórsdóttir, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.
    Við umræðu málsins var bent á að víða sé áformað að skera niður fjárframlög til þeirra þátta sem undir sjávarútvegsráðuneytið heyra, sérstaklega á sviði rannsókna, og kom fram hjá einstökum nefndarmönnum að þeir teldu hér of langt gengið.
    Nefndin gerir ekki tillögur til breytinga um þetta atriði en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögur við frumvarpið eða fylgja þeim sem fram kunna að koma. Anna Ólafsdóttir Björnsson, fulltrúi Samtaka um kvennalista, hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi. Fjarstaddur afgreiðslu málsins var Vilhjálmur Egilsson.

Alþingi, 11. nóv. 1992.



Matthías Bjarnason, form.


Össur Skarphéðinsson.


Guðmundur Hallvarðsson.


Stefán Guðmundsson.


Karen Erla Erlingsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Jóhann Ársælsson.




Bókun.
    Undirritaðir fulltrúar í sjávarútvegsnefnd Alþingis eru sammála öllu því sem fram kemur í áliti meðnefndarmanna, en til viðbótar vilja þeir að eftirfarandi komi fram:
    Við getum ekki mælt með því að aflaheimildir Hagræðingarsjóðs verði fénýttar með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir öðru sinni.
    Reynslan af þessu fyrirkomulagi er sú að áætlanir um að nota þessa tekjulind til reksturs Hafrannsóknastofnunar hafa ekki staðist. Á þessu ári hafa sáralitlar tekjur orðið af sölu aflaheimilda og rekstur Hafrannsóknastofnunar hefur verið fjármagnaður beint úr ríkissjóði.
    Viðbrögð sjávarútvegsins við áformaðri sölu veiðiheimilda endurspegla hvort tveggja í senn, mikla andstöðu við þessa nýju skattlagningu á sjávarútveginn og afleita rekstrarafkomu. Sala veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs er þegar orðin eitt allsherjarklúður og væri öllum fyrir bestu að viðurkenna aðstæður og falla frá frekari áformum í þessa veru. Svo gæti jafnvel farið að 300–400 millj. kr. fjárvöntun yrði hvort ár, 1992 og 1993. Rétt er að minna á að endurskoðun fiskveiðistefnunnar stendur yfir og ágreiningurinn um sölu aflaheimilda snýst um sjálfan grundvöll fiskveiðistefnunnar.

Jóhann Ársælsson.


Steingrímur J. Sigfússon.





Fylgiskjal XIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá umhverfisnefnd.



    Umhverfisnefnd hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992 fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar. Á fund nefndarinnar kom Þórður H. Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, og gaf skýringar á þeim liðum frumvarpsins er varða ráðuneytið og stofnanir þess. Enn fremur fékk nefndin á fund sinn frá Náttúruverndarráði, Þórodd F. Þóroddsson framkvæmdastjóra og Arnþór Garðarsson formann auk Páls Bergþórssonar veðurstofustjóra.
    Nefndin fjallaði um einstaka þætti þessa hluta frumvarpsins og ítarlega um þá þætti er varða starfsemi, verkefni og fjárveitingar til Veðurstofu Íslands, Náttúruverndarráðs og Ferðamálaráðs. Þá studdist nefndin við skrifleg gögn er henni bárust frá Náttúruverndarráði og Ferðamálaráði Íslands.
    Í viðræðum við nefndina greindi Veðurstofustjóri frá lokaáfanga í endurnýjun tölvubúnaðar, en með slíkum búnaði verður m.a. unnt að standa að gerð tölvuspár, auk annars ávinnings. Nefndin vekur á því athygli að til þeirra tækjakaupa þarf að afla fjárlagaheimildar.
    Fulltrúar Náttúruverndarráðs vöktu athygli á að fjárveitingar til ráðsins hefðu verið í lágmarki um margra ára skeið. Hefði það ekki síst bitnað á aðgerðum á fjölsóttum stöðum innan friðlýstra svæða og þjóðgarða sem ráðið hefur umsjón með. Upplýstu þeir að ástand viðkvæmra staða færi víða versnandi og að ráðið teldi því ástæðu til að efla eftirlit landvarða, auk þess sem mikið skorti á merkingar, stígagerð, snyrtiaðstöðu og annan viðbúnað fyrir komu ferðamanna. Enn fremur kom fram að Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra hefur tilkynnt að drykkjarvatn á tjaldstæði í Vesturdal og í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum sé óhæft til neyslu. Nefndin kynnti sér einnig upplýsingar um fjárframlög Ferðamálaráðs Íslands til framkvæmda á ferðamannastöðum um landið sem að verulegum hluta er varið til sambærilegra aðgerða og Náttúruverndarráð stendur fyrir en á öðrum svæðum en þeim sem Náttúruverndarráð hefur umsjón með.
    Vegna þess hve nefndin hafði stuttan tíma til að fjalla um umhverfisþátt fjárlagafrumvarpsins gafst henni ekki svigrúm til að ræða við fulltrúa fleiri stofnana eða fjalla sérstaklega um fleiri málaflokka en hér hefur verið getið um. Er því ekki í áliti þessu tekin afstaða til annarra málefna en fyrr eru greind.
    Nefndin gerir ekki breytingartillögur við einstaka liði þess hluta fjárlagafrumvarpsins er hún hefur fjallað um. Eigi að síður telja nefndarmenn óhjákvæmilegt að verja meiri fjármunum á árinu 1993 til fyrrnefndra verkefna á friðlýstum svæðum og í þjóðgörðum.
    Skilningur á þýðingu umhverfismála fyrir mannkynið fer vaxandi. Við Íslendingar byggjum lífsafkomu okkar jafnt í nútíð sem framtíð á heilbrigði lífríkis sjávarins. Þá búum við við viðkvæma náttúru af ýmsum orsökum, m.a. vegna ofnýtingar auðlinda.
    Umhverfisráðuneytið er yngst ráðuneyta stjórnarráðsins og í því sambandi er ástæða til að huga að uppbyggingu þess svo að það geti sinnt verkefnum sínum sem best í samvinnu við þær stofnanir sem að umhverfismálum starfa.
    Einstakir nefndarmenn munu, ef þeir svo kjósa, lýsa nánar viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins og skoða málefni umhverfisráðuneytis í ljósi heildarniðurstöðu fjárlaga. Árni M. Mathiesen og Lára M. Ragnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. des. 1992.



Gunnlaugur Stefánsson, form.


Tómas Ingi Olrich.


Hjörleifur Guttormsson.


Ólafur Ragnar Grímsson.


Kristín Einarsdóttir.


Árni R. Árnason.


Jón Helgason.





Fylgiskjal XIV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá utanríkismálanefnd.



    Í samræmi við bréf fjárlaganefndar frá 26. október 1992 hefur utanríkismálanefnd fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar. Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um málið Þorstein Ingólfsson, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu, og Benedikt Jónsson sendifulltrúa og gerðu þeir grein fyrir utanríkismálakafla frumvarpsins og svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna.
    Sú almenna skoðun kom fram í nefndinni að óæskilegt sé að fella niður embætti fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og fela sendiherra Íslands í Washington að gegna starfi fastafulltrúa samhliða sendiherrastarfi sínu í Bandaríkjunum. Í ljósi vaxandi mikilvægis Sameinuðu þjóðanna í alþjóðamálum telja nefndarmenn mikilvægt að fastafulltrúi Íslands hjá samtökunum hafi aðsetur í New York.
    Nefndin fjallaði einnig um ýmis önnur atriði í utanríkismálakafla fjárlagafrumvarpsins, einkum framlög til þróunarmála, Útflutningsráðs og gæslustarfa Sameinuðu þjóðanna og vegna þátttöku Íslands í starfi Evrópuráðsins, sem og hugsanleg framlög til kynningar á Keflavíkurflugvelli sem fríiðnaðarsvæði. Nefndin gerir ekki á þessu stigi tillögur um þessi atriði en hyggst taka sum þeirra til nánari umfjöllunar síðar í ljósi almennrar stefnumótunar á þeim sviðum. Þá áskilja einstakir nefndarmenn sér rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.

Alþingi, 16. nóv. 1992.



Björn Bjarnason, form.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Steingrímur Hermannsson.


Ólafur Ragnar Grímsson.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Geir H. Haarde.


Páll Pétursson.


Árni R. Árnason.


Tómas Ingi Olrich.