Ferill 297. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 297 . mál.


462. Frumvarp til laga



um Skálholtsskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    Skálholtsskóli er kirkjuleg menningar- og menntastofnun, í eigu þjóðkirkju Íslands og starfar á grunni fornrar skólahefðar í Skálholti og norrænnar lýðháskólahefðar.
     Kirkjuráð ber stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð á rekstri skólans fyrir hönd þjóðkirkju Íslands. Gerður skal samningur um þátttöku ríkissjóðs í rekstri hans.

2. gr.


    Markmið Skálholtsskóla er að efla tengsl kirkju og þjóðlífs og stuðla að sem víðtækustum áhrifum kristinnar trúar og kristinnar menningar í íslensku þjóðlífi. Skólinn skal leitast við að efla þjóðkirkjuna, m.a. með fræðslu starfsmanna hennar.

3. gr.


    Skólinn skal einkum starfa á eftirgreindum sviðum:
    Guðfræðisviði.
    Kirkjutónlistarsviði.
    Fræðslusviði.
     Sviðin skulu nánar skilgreind í samþykktum skólans, sbr. 4. gr.

4. gr.


    Kirkjuráð skipar skólaráð Skálholtsskóla til fjögurra ára í senn.
     Nánari ákvæði um starf og rekstur Skálholtsskóla skulu tilgreind í samþykktum hans sem kirkjuráð setur.

5. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um Skálholtsskóla, nr. 31 12. maí 1977.

Ákvæði til bráðabirgða.


    
Lög þessi skulu endurskoðuð innan fjögurra ára með hliðsjón af endurskoðun
samkomulags um rekstur Skálholtsskóla dags. 1. desember 1992.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta og athugasemdir með því er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu á grundvelli frumvarps sem nefnd um málefni Skálholtsstaðar hafði samið og að teknu tilliti til breytinga á því sem samþykktar höfðu verið á kirkjuþingi.
     Ofangreindri nefnd, sem dóms- og kirkjumálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, skipaði 27. maí 1991 í samráði við biskup Íslands, herra Ólaf Skúlason, og menntamálaráðherra, Ólaf G. Einarsson, var fengið það verkefni að huga að málefnum Skálholtsstaðar og gera tillögur þar að lútandi. Þar á meðal er starfsemi Skálholtsstaðar og tillögur um framtíðarskólarekstur á staðnum.
     Í nefndina voru skipuð Ásdís Sigurjónsdóttir deildarsérfræðingur, skipuð samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra, sr. Jón Einarsson prófastur, skipaður samkvæmt tilnefningu kirkjuráðs, sr. Jónas Gíslason, vígslubiskup Skálholtsstiftis, skipaður samkvæmt tilnefningu biskups, sr. Sigurður Sigurðarson sóknarprestur, skipaður samkvæmt tilnefningu menntamálaráðherra, og Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður, sem jafnframt var skipuð formaður nefndarinnar. Ritarar nefndarinnar hafa verið Anna Guðrún Björnsdóttir deildarstjóri og Guðmundur Þór Guðmundsson fulltrúi, bæði í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
     Nefndin samdi frumvarp að lögum um Skálholtsskóla, sem var lagt fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi, ásamt greinargerð og samningi um þátttöku ríkisins í kostnaði af rekstri skólans sem var fylgiskjal með frumvarpinu. Frumvarp þetta varð ekki útrætt á því þingi.
     Á 23. kirkjuþingi í október 1992 voru samþykktar ákveðnar breytingar sem miðuðu að því að stytta frumvarpið og einfalda, þannig að það fæli fremur í sér ramma um starfsemina en kirkjuráð kvæði nánar á um starfshætti skólans í samþykktum sem það setti skólanum. Það frumvarp, sem hér er lagt fram, tekur tillit til þessara sjónarmiða, þannig að þessi nýja stofnun mun að öllu leyti heyra undir kirkjuna, en þau afskipti, sem tengjast fjárstuðningi ríkisins, verða bundin í þeim samningi um þátttöku í rekstrarkostnaði sem gerður er skv. 1. gr. frumvarpsins. Samningurinn er fylgiskjal með frumvarpi þessu.
     Skálholtsskóli hinn nýi tók til starfa árið 1972 undir stjórn sr. Heimis Steinssonar sem var rektor skólans fyrstu tíu árin. Hann og kona hans, frú Dóra Þórhallsdóttir, lögðu grunninn að þessari nýju menntastofnun kirkjunnar. Fyrstu tvö árin fór starfsemi skólans að mestu leyti fram í sumarbúðum þjóðkirkjunnar (Skálholtsbúðum) en frá árinu 1974 hefur skólinn starfað í eigin húsnæði sem tekið var formlega í notkun við hátíðlega vígsluathöfn 6. október það ár.
     Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup tók fyrstu skóflustunguna að Skálholtsskóla á vígsludegi Skálholtskirkju 21. júlí árið 1963 og var hann öðrum mönnum fremur í fylkingarbrjósti um byggingu skólans, stofnun hans og starfrækslu. Skólabyggingin var að miklu leyti fjármögnuð fyrir söfnunarfé Skálholtsvina og lýðháskólamanna á Norðurlöndum. Munaði þar mestu um norska Íslandsvininn sr. Harald Hope.
     Í lögum um Skálholtsskóla, nr. 31/1977 er kveðið svo á að Skálholtsskóli skuli starfa í „anda norrænna lýðháskóla“. Þannig var ákveðið að skólinn skyldi starfa sem lýðháskóli er tæki mið af sambærilegum skólum á Norðurlöndum og hefði svipað námsframboð. Jafnframt er í lögunum lögð rík áhersla á að skólinn skuli vinna „að varðveislu þjóðlegrar menningararfleifðar Íslendinga“ og starfa á grundvelli kristinnar kirkju. Frá upphafi hefur skólinn verið opinn fyrir helstu straumum í menningarlegum og félagslegum efnum samtíðarinnar og þá ekki síst á vettvangi kirkjunnar. Hefur það m.a. komið fram í hinum fjölmörgu og merku ráðstefnum og námskeiðum sem skólinn hefur staðið fyrir.
     Þegar Skálholtsskóli hóf göngu sína fyrir tæpum 20 árum hafði fjölbrautaskólunum enn ekki verið komið á í landinu, en voru í undirbúningi. Ætla má að tilkoma fjölbrautaskólanna og hið mikla námsframboð þeirra hafi stuðlað að því að minni þörf var fyrir starfsemi lýðháskóla en ætlað var þegar hann var stofnaður, svo og það að lýðháskóli brautskráir ekki fólk með nein próf eða réttindi er opna þeim sjálfkrafa dyr að öðrum skólum.
     Vegna þessara breyttu viðhorfa og þróunar í skólamálum hefur orðið mikil breyting á rekstri Skálholtsskóla síðustu árin. Skólinn starfar ekki lengur sem hefðbundinn lýðháskóli innan þess ramma sem lögin frá 1977 marka honum. Hann hefur meira færst í það form að vera kirkjuleg menningar- og fræðslustofnun. Hefur starfsemin síðustu árin einkum verið í formi ráðstefnuhalds og námskeiða sem hafa verið vel sótt.
     Miðað við aðstæður í þjóðfélaginu í dag og ríkjandi skólastefnu virðist rekstur hefðbundins lýðháskóla ekki vera raunhæfur kostur. Með tilliti til þess er óhjákvæmilegt að skólanum verði markaður nýr farvegur með nýjum lögum. Með frumvarpi þessu er leitast við að laga starfsemi skólans að þörfum samtíðarinnar og þá einkum að þörfum kirkjunnar. Er lagt til að Skálholtsskóli heyri að öllu leyti undir kirkjuna, en ríkið taki, svo sem að framan greinir, þátt í kostnaði af rekstri hans samkvæmt sérstökum samningi þar að lútandi.
     Frá árinu 1975 hafa verið haldnir tónleikar í Skálholtskirkju á hverju sumri undir stjórn og handleiðslu Helgu Ingólfsdóttur semballeikara. Hafa þeir vakið verðskuldaða athygli, bæði hérlendis og erlendis, notið mikillar aðsóknar og vaxandi vinsælda og verið einn helsti vaxtarbroddurinn á Skálholtsstað síðastliðin ár. Hafa áhugamenn um tónlistarstarf í Skálholtskirkju stofnað með sér samtök, Collegium Musicum, sem Helga gegnir formennsku fyrir.
     Í ljósi þess mikla og góða tónlistarstarfs, sem unnið hefur verið í Skálholti á undanförnum árum og með hliðsjón af þörfum kirkjunnar á sviði tónlistarmála, er lagt til að starfrækt verði sérstakt kirkjutónlistarsvið við skólann.
     Einnig er gert ráð fyrir því að við skólann verði starfrækt guðfræðisvið og fræðslusvið svo sem nánar verður gerð grein fyrir í athugasemdum um 3. gr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lögð áhersla á að Skálholtsskóli sé fyrst og fremst kirkjuleg menningar- og menntastofnun. Jafnframt er vísað til fornrar skólahefðar í Skálholti og gert ráð fyrir að starfsemi skólans taki áfram nokkurt mið af norrænni lýðháskólahefð þó að ekki verði lengur um hefðbundinn lýðháskóla að ræða.
     Þá tekur greinin til þess að skólinn verði ekki lengur sjálfseignarstofnun, heldur heyri hann stjórnunarlega og fjárhagslega undir kirkjuráð og byggt er á að húsnæði skólans verði afhent þjóðkirkjunni, sbr. lög um heimild handa ríkisstjórninni til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað, nr. 32/1963, sbr. og 5. mgr. 8. gr. laga nr. 31/1977.
     Ekki er lagt til að bein ákvæði verði áfram í lögum um skyldur ríkissjóðs til að standa undir rekstrarkostnaði skólans, sbr. 8. gr. laga nr. 31/1977. Hins vegar er í lokamálslið greinarinnar kveðið á um að gerður skuli samningur um þátttöku ríkissjóðs í rekstri skólans. Á þessi skipan sér fordæmi í samskiptum og stuðningi ríkisins við suma einka- og sérskóla. Í 7. gr. samningsins er ákvæði um endurskoðun hans.
     Með samningunum um rekstur Skálholtsskóla, sem er fylgiskjal með frumvarpinu, er ríkið skuldbundið til að veita skólanum árlegt framlag sem nemur 4 m.kr. og auk þess allt að 2 m.kr. til viðbótar á móti framlagi annarra. Kirkjuráð skal skipa vígslubiskup Skálholts og þrjá fulltrúa tilgreindra aðila í skólaráð en ræður samsetningu og stærð skólaráðs að öðru leyti. Þá skal kirkjuráð sjá til þess að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu séu látnar í té áætlanir um langtímastefnu skólans og fjárhagsáætlun til samþykktar, auk endurskoðaðra ársreikninga. Vísast að öðru leyti til samningsins um efni hans.

Um 2. gr.


    Í greininni er kveðið á um markmið Skálholtsskóla og lögð áhersla á að hann skuli leitast við að styðja og efla þjóðkirkjuna, m.a. með fræðslu starfsmanna hennar, svo að hún megi betur þjóna síbreytilegum og vaxandi þörfum kirkjulegs starfs í samfélaginu.

Um 3. gr.


    Til að vinna að markmiði sínu skv. 2. gr. starfrækir Skálholtsskóli eftirtalin þrjú svið er grein þessi tekur til:
     Guðfræðisvið. Gert er ráð fyrir að þar geti farið fram endurmenntunarnámskeið fyrir presta og aðra starfsmenn kirkjunnar og einnig hluti af starfsþjálfun guðfræðikandídata, sbr. 16. gr. laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands, nr. 62/1990. Enn fremur námskeið á vegum guðfræðideildar Háskóla Íslands og Guðfræðistofnunar, svo og margs konar námsstefnur og ráðstefnur um málefni kristinnar trúar og kirkju.
     Kirkjutónlistarsvið. Undir þetta svið heyra sumartónleikarnir í Skálholtskirkju og ýmiss konar samstarf og tónlistariðkun í tengslum við þá. Enn fremur organista- og kóranámskeið á vegum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, tónlistaiðkun og æfingabúðir fyrir kirkjukóra og barnakóra, sumartónbúðir barna og námskeið á vegum Tónskóla þjóðkirkjunnar og guðfræðideildar. Með starfsemi kirkjutónlistarsviðsins skal almennt að því stefnt að það megi fegra og efla tónlistarlíf í íslenskum kirkjum.
     Fræðslusvið. Á þessu sviði er gert ráð fyrir margs konar námskeiðum og fræðslu, m.a. í samvinnu við fræðslu- og þjónustudeild kirkjunnar og fleiri aðila, t.d. námskeiðum í trúfræðslu, kyrrðardagahaldi o.fl. Gert er ráð fyrir að undir þetta svið heyri umfjöllun um þjóðlegan menningararf Íslendinga, bókmenntir, fornar og nýjar, kirkjulist og list yfirleitt frá ýmsum tímum, enn fremur ráðstefnur á sviði þjóðfélags- og menningarmála, félagsmálanámskeið og ráðstefnur á vegum félagsmálasamtaka og einnig starfsemi sem tengist norrænni lýðháskólahefð og norrænu samstarfi á því sviði.
        Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar skulu sviðin nánar skilgreind og útfærð í sérstökum samþykktum um skólann er heyra til innri samþykkta um starf hans.
     Af ofangreindu má ljóst vera að gert er ráð fyrir að starfsemi skólans verði afar víðfeðm og viðfangsefnin mörg. Starfsemin getur verið breytileg frá ári til árs og hefur skólinn mikið frelsi og svigrúm í þeim efnum.

Um 4. gr.


    Greinin fjallar um stjórn skólans og gerir ráð fyrir róttækri breytingu frá því sem er í gildandi lögum, enda er sú skipan miðuð við lýðháskólafyrirkomulag. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að skólinn heyri að öllu leyti undir kirkjuna. Kirkjuráð skipi skólaráð til fjögurra ára í senn og setji skólanum samþykktir sem kveði nánar á um starf og rekstur skólans.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.

     Dóms- og kirkjumálaráðherra, menntamálaráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og biskup Íslands f.h. kirkjuráðs vegna þjóðkirkju Íslands, gera með sér svofellt

samkomulag


um rekstur Skálholtsskóla:



1. gr.


    Til reksturs Skálholtsskóla rennur árlega framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 4 m.kr. miðað við meðalverðlag ársins 1992 (framfærsluvísitala 161,2, miðað við 100 í maí 1988).

2. gr.


    Auk þess framlags, sem um getur í 1. gr., veitir ríkissjóður framlag til Skálholtsskóla sem árlega nemur sömu fjárhæð og skólinn fær frá öðrum aðilum en ríkissjóði árið þar á undan, þó aldrei hærri fjárhæð en 2 m.kr. á ári miðað við meðalverðlag ársins 1992 (framfærsluvísitala 161,2 miðað við 100 í maí 1988).

3. gr.


    Framlagi skv. 1. og 2. gr. skal verja til rekstrar Skálholtsskóla í samræmi við ný lög um Skálholtsskóla en frumvarp til þeirra mun verða lagt fram á Alþingi á 116. löggjafarþingi.

4. gr.


    Í Skálholtsskólaráð, sem kirkjuráð skipar, skal skipa vígslubiskup Skálholts, enda sé hann formaður ráðsins, einn mann samkvæmt tilnefningu Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu hreppsnefndar Biskupstungnahrepps og einn samkvæmt tilnefningu samtaka um tónlistarstarf í Skálholtskirkju.

5. gr.


    Kirkjuráð sér til þess að dóms- og kirkjumálaráðuneytinu séu látnar í té áætlanir um langtímastefnu skólans og fyrirhugaða starfsemi á hverju hinna þriggja sviða hans.
     Jafnframt að ráðuneytinu sé fyrir upphaf hvers árs látin í té til samþykktar fjárhagsáætlun fyrir komandi almanaksár.
     Enn fremur að ráðuneytið fái í hendur endurskoðaða ársreikninga skólans og önnur þau gögn sem ráðuneytið telur nauðsynleg.

6. gr.


    Ríkissjóður er ekki skuldbundinn til fjárframlaga vegna stofnkostnaðar. Ef veittir eru styrkir til stofnkostnaðar eru þeir ákvarðaðir á fjárlögum hverju sinni en skuldbinda ekki ríkissjóð til frekari styrkja.

7. gr.


    Samkomulag er um það að menntamálaráðherra og kirkjuráð, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga um Skálholtsskóla, nr. 31/1977, afhendi húsnæði skólans í samræmi við lög nr. 32/1963.

8. gr.


    Samningur þessi gildir til 31. desember 1995 og skal koma til endurskoðunar við gerð fjárlaga fyrir árið 1996. Dóms- og kirkjumálaráðherra skipar í því skyni nefnd þriggja manna. Ráðherra skipar formann án tilnefningar, einn nefndarmanna skal skipaður samkvæmt tilnefningu kirkjuráðs og einn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðuneytis.
     Samningurinn skal einnig koma til endurskoðunar ef einhver samningsaðila telur forsendur fyrir rekstri Skálholtsskóla breyttar og skal þá skipuð nefnd til þess á sama hátt og kveðið er á um í 1. mgr.

9. gr.


    Samningur þessi er undirritaður og samþykktur með fyrirvara um lögfestingu frumvarps til nýrra laga um Skálholtsskóla sem getið er í 3. gr.

Reykjavík 1. desember 1992.



Þorsteinn Pálsson,

Herra Ólafur Skúlason


dóms- og kirkjumálaráðherra.

biskup.



Ólafur G. Einarsson

Friðrik Sophusson


menntamálaráðherra.

fjármálaráðherra.






Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Skálholtsskóla.


    Frumvarpið gerir ráð fyrir að Skálholtsskóli verði stjórnunarlega og fjárhagslega á ábyrgð kirkjuráðs fyrir hönd þjóðkirkju Íslands, en að gerður verði samningur um þátttöku ríkissjóðs í rekstri hans. Í samningnum, sem er fylgiskjal með frumvarpinu, er gert ráð fyrir að ríkið greiði 4 m.kr. grunnframlag til reksturs skólans. Að auki veitir ríkissjóður framlag til skólans sem árlega nemur sömu fjárhæð og skólinn fær frá öðrum aðilum en ríkissjóði árið þar á undan, þó aldrei hærri fjárhæð en 2 m.kr. á ári. Miðað er við meðalverðlag 1992.
     Á árinu 1993 verður framlag því 4 m.kr. en þar á eftir, þegar skólinn getur sýnt fram á framlög frá öðrum aðilum en ríkissjóði, verður árlegt framlag 4–6 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir kostnaðarauka fyrir ríkissjóð á næsta ári þar sem hluti af fjárveitingu þessa árs á viðfangsefni 06–790 610 Skálholtsstaður verður færður yfir á næsta ár.