Ferill 303. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 303 . mál.


472. Tillaga til þingsályktunar



um tvíhliða samning við Evrópubandalagið.

Flm.: Steingrímur Hermannsson, Halldór Ásgrímsson.



    Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að ná tvíhliða samningi við Evrópubandalagið, fyrst og fremst á grundvelli viðskiptahluta þess samnings sem fyrir liggur um Evrópskt efnahagssvæði. Því felur Alþingi ríkisstjórninni að hefja undirbúning að slíkri samningsgerð og fara þess á leit við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að viðræður hefjist hið fyrsta.

Greinargerð.


    Frá því að viðræður hófust um myndun Evrópsks efnahagssvæðis með samningi Evrópubandalagsins og EFTA-ríkjanna hafa miklar breytingar átt sér stað. Upphafið má rekja til ræðu formanns framkvæmdastjórnar bandalagsins, Jacques Delors, í janúar 1989. Þar lagði hann þær línur að svæðið byggði á tveimur jafnréttháum stoðum, EB og EFTA. Slíkt jafnrétti hefur ekki náðst og auk þess er ljóst að EFTA-stoðin mun aðeins standa um stuttan tíma. Austurríki, Finnland, Svíþjóð og Noregur hafa ákveðið að sækja um aðild að bandalaginu og hafa þegar lagt inn beiðni um viðræður. Gert er ráð fyrir að þær viðræður hefjist fljótlega eftir áramótin og þessi ríki verði orðin aðilar að Evrópubandalaginu innan fárra ára. Auk þess hefur Sviss nú ákveðið að taka ekki þátt í EES sem að sjálfsögðu veikir strax EFTA-hlutann og tefur gildistöku samningsins. Þegar flest þeirra EFTA-ríkja, sem eftir standa, hafa sameinast EB verða allar forsendur fyrir EFTA-stoðinni brostnar.
    Af því sem nú hefur verið rakið má ljóst vera að afar mikilvægt er að hafa náð tvíhliða samningi við Evrópubandalagið áður en fyrrnefnd EFTA-ríki verða orðin aðilar að EB. Því er eðlilegt að Alþingi marki þá stefnu nú þegar að leitað verði tvíhliða samninga. Gert er ráð fyrir að sá samningur verði fyrst og fremst á grundvelli viðskiptahluta samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er að sjálfsögðu gert með tilliti til þess að stofnanahluti samningsins hlýtur að gjörbreytast eða hverfa. Að vísu virðist nauðsynlegt að gera einnig ýmsar breytingar á viðskiptahluta samningsins, einkum til þess að tryggja betur en gert hefur verið hlut Íslands í viðskiptum við Evrópubandalagið.
    Með samþykkt slíkrar stefnumörkunar á Alþingi væri jafnframt vísað frá hugmyndum um aðild Íslands að Evrópubandalaginu.