Ferill 97. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 97 . mál.


499. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingu.

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarp þetta er lýtur að því að rýmka heimild til að nýta fé Framkvæmdasjóðs aldraðra til reksturs. Nefndin fékk umsagnir um frumvarpið frá Félagi eldri borgara, Landssambandi aldraðra, stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Öldrunarráði.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Tillagan felur í sér að b-lið 1. gr. frumvarpsins verði breytt á þann hátt að heimild til að nýta fé Framkvæmdasjóðs til reksturs verði bundin við árin 1993–1995 og að upphæðin verði tilgreind í fjárlögum. Jafnframt er gert ráð fyrir að þetta framlag nemi ekki meira en 55% af heildarúthlutun sjóðsins á ári hverju. Áfram er þó í lögunum heimild til að veita tímabundið rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst.
    Meiri hluti nefndarinnar vill leggja áherslu á að miðað við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að Framkvæmdasjóður aldraðra fjármagni meira en hingað til rekstur stofnana aldraðra. Jafnframt er ljóst að enn er veruleg þörf á fjármagni til uppbyggingar í húsnæðismálum aldraðra og með hliðsjón af því hefur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra lýst yfir því að hann muni beita sér fyrir könnun á högum aldraðra á áðurgreindu tímabili (1993–1995) og enn fremur verði á sama tímabili gerð áætlun um þjónustu- og byggingarþörf og að framkvæmdir í samræmi við þá áætlun hefjist fyrir lok tímabilsins.

Alþingi, 17. des. 1992.



Sigbjörn Gunnarsson,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.

Sigríður A. Þórðardóttir.


form., frsm.



Sólveig Pétursdóttir.

Guðmundur Hallvarðsson.