Ferill 378. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 378 . mál.


671. Skýrsla



um störf Vestnorræna þingmannaráðsins árið 1992.

Frá Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins.



1.    Kjör fulltrúa í Vestnorræna þingmannaráðið og verkaskipting.
    Á fundi Alþingis 24. október 1991 voru eftirtaldir fulltrúar kosnir til setu í Vestnorræna þing­mannaráðinu: Árni Johnsen, Jón Helgason, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir. Varamenn voru þá kosnir Guðmundur Hallvarðsson, Valgerður Sverrisdóttir, Karl Steinar Guðnason, Margrét Frímannsdóttir og Anna Ólafsdóttir Björnsson. 7. nóvember sama ár kaus Íslandsdeild þingmannaráðsins Steingrím J. Sigfússon formann og Árna Johnsen varaformann.
    Kosning til setu í ráðinu fór fram á ný 3. nóvember 1992. Aðalmenn voru þá kosnir þeir sömu og áður að því undanskildu að Karl Steinar Guðnason var kosinn í stað Rannveigar Guðmundsdóttur og Sigbjörn Gunnarsson var kosinn varamaður.
    Á fundi í Íslandsdeild ráðsins 18. janúar 1993 var Árni Johnsen kosinn formaður og Jóna Val­gerður Kristjánsdóttir varaformaður deildarinnar.

2.    Vestnorrænt ár 1992.
    Vestnorræna þingmannaráðið samþykkti á ársfundi sínum sumarið 1989 í Stykkishólmi að leggja til að árið 1992 yrði sérstakt vestnorrænt ár. Í tilefni þess voru í samræmi við tilmæli frá þing­mannaráðinu til ríkisstjórna vestnorrænu landanna haldnar þrjár vestnorrænar ráðstefnur árið 1992, ein í hverju landi, og gefinn út af Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins kynningarbæklingur um Vestur-Norðurlönd og vestnorrænt samstarf.

2.1.
    Fyrsta ráðstefnan, vestnorrænt kvennaþing, var haldin á Egilsstöðum dagana 20.–23. ágúst. Undirbúningur og framkvæmd þingsins var í höndum undirbúningsnefndar sem félagsmálaráðherra skipaði, en formaður nefndarinnar var Ragnheiður Harðardóttir. Guðrún Ágústsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri. Einnig var skipuð framkvæmdanefnd fyrir Austurland og sérstakur starfsmaður tímabundið á Egilsstöðum. Um 350 konur sóttu þingið og voru 48 þeirra frá Grænlandi og 63 frá Færeyjum.
    Yfirskrift þingsins var vinnumarkaðurinn og var þar fjallað um vinnumarkaðinn, menntun og félagslega stöðu, möguleika kvenna til áhrifa í samfélaginu, hafið, sjávarútveg og umhverfismál.
    Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra setti þingið og á eftir setningarathöfn hófst fjölbreytt dagskrá með þátttöku kvenna frá löndunum þremur. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir flutti ávarp frá Vestnorræna þingmannaráðinu en auk hennar sóttu þingið af hálfu Vestnorræna þingmannaráðsins formaður þess Steingrímur J. Sigfússon og Rannveig Guðmundsdóttir. Upphafleg fjárhagsáætlun hljóðaði upp á tæplega 5 millj. kr. og mun kostnaður við þinghaldið hafa rúmast innan þess ramma. Af fjárlögum ársins 1992 fengust 3,2 millj. kr. en auk þess veittu Vestnorræni sjóðurinn, mennta­málaráðuneytið og fleiri aðilar styrki.
    Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins var í góðu sambandi við formann og framkvæmda­stjóra kvennaþingsins sem komu m.a. til funda við deildina bæði fyrir og eftir þingið. Þingið þótti hafa tekist í alla staði vel og er það álit Íslandsdeildar að rétt sé að framhald verði á því samstarfi sem hófst á þinginu og að eðlilegt sé að því verði haldið áfram í vestnorrænum vinnuhópi, skipuðum t.d. tveimur fulltrúum frá hverju landi, enda lagði kvennaþingið á Egilsstöðum til að annað slíkt þing yrði haldið 1995.
    Íslandsdeild mun fylgja máli þessu eftir við félagsmálaráðherra og samstarfsráðherra Norður­landa.

2.2.
    Önnur ráðstefnan, um umhverfismál, var haldin í Qaqortoq á Suður-Grænlandi 6.–11. ágúst. Hana sótti Árni Johnsen f.h. Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins. Ályktun ráðstefnunnar fylgir skýrslu þessari sem fskj. I.

2.3.
    Þriðja ráðstefnan, vestnorrænt ungmennaþing, var haldin í Færeyjum 12.–14. september. Hana sótti Steingrímur J. Sigfússon f.h. Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Ályktun, sem samþykkt var á þinginu, fylgir sem fskj. II.

2.4.
    Í tilefni Vestnorræna ársins gaf Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins út kynningarbækling um vestnorrænt samstarf og Vestur-Norðurlönd í 1.700 eintökum. Bæklingnum var m.a. dreift til allra grunnskóla landsins, allra kennslubókahöfunda, Námsgagnastofnunar, allra sveitarfélaga landsins og Ferðamálaráðs. Einnig var bæklingurinn þýddur á dönsku og Færeyingum og Græn­lendingum boðið handritið til útgáfu. Bæklingnum var vel tekið og er augljóst að skortur er á kynn­ingarefni um Vestur-Norðurlönd og samstarf þeirra.

3.    Áttundi ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Áttundi ársfundur Vestnorræna þingmannaráðsins var haldinn á Akureyri 15. júní 1992 og sóttu hann 14 þingmenn frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Allir fulltrúarnir í Íslandsdeild að undan­skilinni Rannveigu Guðmundsdóttur sóttu ársfundinn. Auk þess sátu fundinn aðal- og aðstoðarritar­ar forsætisnefndar Norðurlandaráðs, upplýsingastjóri ráðsins og aðalritari norsku landsdeildar Norðurlandaráðs, en þessir aðilar höfðu beðið um að fá að fylgjast með störfum ársfundarins vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í Norðurlandaráði og ráðherranefnd Norðurlanda um aukið vestnorrænt samstarf.
    Til fundarins var og boðið Jóni Júlíussyni, staðgengli samstarfsráðherra Norðurlanda, sem í fundarhléi skýrði frá tillögum þeim sem lagðar hafa verið fyrir samstarfsráðherrana um styrkingu stöðu Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi, fulltrúa vestnorrænu nefndarinnar, Sturlaugi Þor­steinssyni sem skýrði frá störfum nefndarinnar, Steinari Jakobssyni sem skýrði frá stöðu Vestnor­ræna sjóðsins og Ingu Sólnes sem skýrði frá stöðu vestnorrænna ferðamála.

    Steingrímur J. Sigfússon tók við formennsku í þingmannaráðinu af Jonathan Motzfeldt, sem gegnt hafði formennsku síðan á ársfundinum á Grænlandi árið áður.
    Ársfundurinn hófst með ávarpi fráfarandi formanns og kjöri nýs formanns. Að því loknu flutti fráfarandi formaður stutta skýrslu um störf ráðsins á árinu og Steingrímur J. Sigfússon nýkjörinn formaður flutti skýrslu um störf Íslandsdeildar ráðsins á árinu. Hann fjallaði auk þess um tillögur sem lagðar hafa verið fyrir ráðherranefnd Norðurlanda um styrkingu vestnorræns samstarfs, um­hverfismál, nýtingu auðlinda hafsins og þá erfiðleika sem steðja að sjávarútvegi vestnorrænu land­anna.
    Að lokinni ræðu nýkjörins formanns hófust almennu umræðurnar með þátttöku flestra þingfull­trúanna og stóðu þær til hádegis. Þá var skipuð vinnunefnd til að undirbúa meðferð fundarins á þeim níu þingmannatillögum sem fyrir þinginu lágu. Að loknu hádegishléi hófst umfjöllun um tillögurnar sem allar voru samþykktar að umfjöllun lokinni. Um efni þeirra vísast til þingsályktunartillögu þeirrar sem lögð var fram á Alþingi 19. febrúar 1993 sem 237. mál.
    Að loknum aðalfundinum bauð Akureyrarbær til kvöldverðar en næsta dag bauð Íslandsdeild ráðsins þingfulltrúum í skoðunarferð um Suður-Þingeyjarsýslu.

4.    Störf Íslandsdeildar Vestnorræna þingmannaráðsins.
    Deildin hélt sjö fundi á starfsárinu og fjallaði þar m.a. um flugsamgöngur, fiskveiðar og sjávar­útvegsmál, NORDPLUS- og NORDJOBB-verkefnin, yfirlýsingu frá Norðurlandaráði Æskunnar og ferð þá sem vestnorrænir þingmenn fóru til funda við umhverfis- og landbúnaðarnefndir þing­anna í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi.

4.1.
    Í mars 1992 bauð nefndin Önnu Birnu Halldórsdóttur, markaðsstjóra Flugleiða, til fundar til að fjalla um flugsamgöngur við Færeyjar og Grænland í tilefni þess að Grænlandsflug hafði hafið samvinnu við danskt flugfélag um flug til Grænlands. Það hafði leitt til þess að ekki var lengur millilent á Íslandi í flugi milli Grænlands og Danmerkur. Sökum ákvæða í loftferðasamningi Íslands og Dan­merkur, sem mjög er kominn til ára sinna, er íslenskum flugfélögum óheimilt að halda uppi áætlun­arflugi til Grænlands nema í samvinnu við Grænlandsflug. Af hálfu Íslandsdeildar ráðsins kom fram að núgildandi loftferðasamningur væri óviðunandi þar eð hann veitti ekki gagnkvæm flugréttindi.
    Upplýst var á fundinum að Flugleiðir og færeyskt flugfélag ættu í samningaviðræðum um flug­samgöngur milli Færeyja og Íslands.
    Til fundar við nefndina 18. febrúar 1993 komu forsvarsmenn flugfélagsins Óðins vegna þeirra rekstrarörðugleika sem félagið hefur átt í. Rætt var um þær alvarlegu afleiðingar sem það hefur fyrir samgöngur milli Íslands og Grænlands að ekki er lengur flogið til Grænlands á vegum félagsins og ákveðið að skýra þessi vandamál í bréfi til Vestnorræna sjóðsins.

4.2.
    Fiskveiðar og sjávarútvegsmál voru til umræðu í deildinni, aðallega með tilliti til þess að veiði­heimildir Færeyinga í íslenskri lögsögu voru minnkaðar á árinu, og í kjölfar þess urðu miklar um­ræður í Færeyjum um málið sem m.a. komu inn á gildi vestnorræns samstarfs. Steingrímur J. Sig­fússon skýrði frá því á fundi að hann hafði af því tilefni skrifað grein í færeyska dagblaðið Dimma­lætting þar sem hann skýrði ástæður þess að veiðiheimildirnar hefðu minnkað og benti á þá algeru sérstöðu sem Færeyingar hefðu á Íslandsmiðum þrátt fyrir allt.
4.3.
    Rætt var um NORDPLUS-nemenda- og -kennaraskiptin og NORDJOBB-vinnumiðlunina fyrir norræna unglinga og upplýsinga aflað um hvernig þeir möguleikar, sem NORDPLUS og NORDJOBB veita, geta nýst til að kynna vestnorrænum unglingum vestnorræn þjóðfélög og lönd. Ráð­herranefnd Norðurlanda veitir NORDPLUS-styrki til nemendaskipta á framhaldsskólastigi milli vestnorrænu landanna og annarra norrænna landa eingöngu. Ráðstafað var 160.000 dönskum krón­um til verkefnisins árið 1992 og sömu upphæð árið 1993.
    Innan NORDPLUS-junior-kerfisins eru veittir styrkir til nemenda- og kennaraskipta í síðustu bekkjum grunnskólans og fyrstu bekkjum framhaldsskólans. Þessir styrkir eru veittir til námsferða milli Íslands annars vegar og Færeyja eða Grænlands hins vegar en ekki til ferða milli Færeyja og Grænlands eða t.d. milli Færeyja og Danmerkur.
    Grænlenskum ungmennum var í fyrsta sinn sumarið 1992 gert kleift að sækja um NORDJOBB-sumarstörf á Íslandi en þrír íslenskir unglingar hafa fengið sumarstörf í Færeyjum og sex færeyskir á Íslandi síðustu tvö ár.
    Íslandsdeild telur ástæðu til að kanna hvort unnt væri að rýmka heimildir til námsferðastyrkja milli vestnorrænu landanna og til sumarstarfa samkvæmt NORDPLUS.
    
4.4.
    Lögð var fram á fundi deildarinnar í maí 1992 yfirlýsing frá vestnorrænum fulltrúum sem tóku þátt í Norðurlandaráði æskunnar í Esbo í Finnlandi. Þar lýstu þeir stuðningi við vestnorrænt sam­starf í ljósi þess að þyngdarpunktur norræns samstarfs hefði flust í suður- og austurátt. Þeir hvöttu því alla sem hlut eiga að máli til að koma með tillögur um hvernig styrkja megi samstarf vestnor­rænu landanna og annarra Norðurlanda. Fulltrúarnir þökkuðu sérstaklega Vestnorræna þingmanna­ráðinu fyrir að hafa átt frumkvæði að vestnorrænu ráðstefnunum þremur.

4.5.
    Á fundum deildarinnar var fjallað um ferð þá sem þingmenn frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi fóru til funda við landbúnaðar- og umhverfisnefndir þjóðþinga Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar til að útskýra viðhorf fyrrnefndu þjóðanna til nýtingar auðlinda hafsins. Fulltrúar Alþingis voru Árni R. Árnason og Steingrímur J. Sigfússon. Hópurinn kynnti á fundunum viðhorf íbúa vestnor­ræna svæðisins til nýtingar náttúruauðlinda og sérstök áhersla var lögð á að grundvallarreglur um sjálfbæra þróun og nýtingu lífrænna auðlinda eigi að gilda um allt lífríkið, sjávarspendýr og fiskstofna ekki síður en annað.
    Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins lýsti ánægju með að förin hefði verið farin og að annar þátttakandinn hefði verið frá deildinni.


4.6.
    Ákveðinn hefur verið fundur formanna landsdeilda Vestnorræna þingmannaráðsins í Kaup­mannahöfn 5. mars 1993 í tengslum við ferðir sumra þátttakendanna á Norðurlandaráðsþing. Á fundinum verður að venju rætt um undirbúning næsta ársfundar og önnur viðfangsefni sem uppi eru í samstarfinu.

Alþingi, 25. febr. 1993.



    Árni Johnsen,     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir,     Jón Helgason.
    form.     varaform.     

    Rannveig Guðmundsdóttir.     Steingrímur J. Sigfússon.



Fylgiskjal I.


Ályktun frá umhverfisráðstefnu Vestur-Norðurlanda í Qaqortoq.


(6.–11. ágúst 1992.)



    Á ráðstefnunni var eining um að nauðsyn væri á verndun fiskstofnanna á vestnorræna svæðinu til þess að þeir næðu þeirri stærð að veiðar yrðu hagkvæmar. Norrænt samstarf á þessu sviði er æski­legt bæði í formi tvíhliða samninga og í alþjóðlegum nefndum.
    Jafnframt taldi ráðstefnan mikilvægt að unnið væri sameiginlega gegn sjávarmengun sem gæti haft áhrif á stærð fiskstofna og á verðmæti sjávarafurða. Þarna er þörf á samræmingu og samstarfi vestnorrænu landanna til að tryggja áframhaldandi ómengað lífríki sjávar.
    Samspil á sér stað í lífríki sjávar og því hafði ráðstefnan þá grundvallarafstöðu að stjórna bæri nýtingu allra stofnanna sameiginlega í stað þess að stjórna nýtingu einstakra stofna án tillits til þess hver áhrifin yrðu á aðra stofna.
    Vitað er að menn, selir og hvalir byggja á sömu stofnum sjávarlífvera um fæðuöflun. Jafnframt er vitað að fiskurinn í sjónum og aðrar sjávarlífverur eru forsenda þess að Vestur-Norðurlönd verði áfram byggileg.
    Reynslan hefur leitt í ljós að erfitt er að fá umhverfis- og dýraverndunarsamtök til að viðurkenna að einnig geti verið þörf á stjórnun veiða. Ráðstefnan bendir og á að afleiðingar ótímabærra og ómálefnalegra afskipta, í líkingu við þá herferð sem farin var gegn selveiðum, geti verið varhuga­verðar.
    Því leggur ráðstefnan áherslu á að allar ákvarðanir um nýtingu lífríkis sjávar á Vestur-Norður­löndum skuli byggðar á alþjóðlegum vísindagrunni auk staðbundinnar reynslu og skuli gögn þar að lútandi vera opinber og aðgengileg á viðkomandi svæðum.
    Ráðstefnan lætur í ljós ósk um að veittur verði stuðningur til rannsókna á samspili milli mismun­andi tegunda sjávarlífvera og milli þeirra og umhverfisins á Vestur-Norðurlöndum.
    Ráðstefnan lýsir áhyggjum af þeim klofningi sem er milli norrænu landanna varðandi nýtingu og stjórnun veiða á sjávarspendýrum.
    Með tilliti til þess mælir ráðstefnan með stjórnun sel- og hvalveiða með svæðisbundnum samn­ingum á borð við fyrirhugað samstarf innan Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðsins (North Atl­antic Marine Mammal Commission, NAMMCO), sem lýst var á ráðstefnunni, á sama hátt og fisk­veiðum er stjórnað í samræmi við dreifræðisregluna (subsidiaritetsprincip) í stað þess að veiðunum sé stjórnað með alþjóðasamningum.
    Ráðstefnan lýsir jafnframt áhyggjum vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur á afstöðu Evrópu­bandalagsins til þessara mála. Hér er átt við bannið gegn innflutningi á selskinnum, íhaldssama af­stöðu til innflutnings hvalaafurða og ályktun Evrópuþingsins um veiðar Færeyinga á grindhval.
    Ráðstefnan hefur í grundvallaratriðum jákvæða afstöðu til nýtingar náttúruauðlinda á Vestur-Norðurlöndum að því tilskildu að nýtingin valdi ekki óásættanlegu umhverfistjóni.
    Ráðstefnan er sannfærð um að með eftirliti og stjórnun megi tryggja öryggi við hráefnisvinnslu og nýtingu þannig að sömu kröfum og t.d. í Noregi, Svíþjóð og Kanada sé fylgt um umhverfisvernd.
    Ráðstefnan lýsir yfir ánægju með þær rannsóknir sem gerðar eru á Suður-Grænlandi og Íslandi á áhrifum sauðfjárbeitar á gróður og jarðveg. Hún telur æskilegt að sams konar rannsóknir verði gerðar á áhrifum hreindýra- og moskusuxabeitar á þau svæði þar sem þessi dýr halda til.
    Unnið verður úr þeim gögnum, sem lögð voru fram á ráðstefnunni, á skrifstofum Vestnorræna þingmannaráðsins m.a. í því skyni að lögð verði fram tilmæli um það sem fjallað var um á ráðstefn­unni á næsta þingi Vestnorræna þingmannaráðsins.




Fylgiskjal II.


Ályktun vestnorræns ungmennaþings í Færeyjum.


(12.–14. september 1992.)




(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)