Ferill 273. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 273 . mál.


742. Nefndarálit



um frv. til hjúskaparlaga.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað fjallað ítarlega um málið. Á fundi hennar komu Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneyti, Ragnar Hall hrl., Sigríður Ingvarsdóttir og Helgi E. Jónsson frá Dómarafélagi Íslands og Sigurður Sveinsson, fyrrverandi borgarfógeti. Þá var stuðst við umsagnir er bárust á 115. löggjafarþingi frá biskupi Íslands, Dómarafélagi Íslands, Prestafélagi Íslands, Jafnréttisráði, Kaþólsku kirkjunni á Íslandi, Krossinum, Kvennaráðgjöfinni, Kvenréttindafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Siðmennt, Sýslumannafélagi Íslands, Veginum, Vottum Jehóva og Andlegu þjóðarráði Bahá'ía á Íslandi.
    Frumvarp þetta er til meðferðar í nefndinni öðru sinni. Sifjalaganefnd sá sem fyrr um samningu þess og tók hún tillit til margra ábendinga er bárust frá umsagnaraðilum á 115. löggjafarþingi. Ekki tókst allsherjarnefnd að ljúka meðferð málsins á því þingi vegna þess hve seint það barst. Hins vegar var nauðsynlegt að ákvæði frumvarpsins, sem snertu aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði, tækju gildi fyrir 1. júlí 1992. Voru þau ákvæði ásamt nokkrum öðrum því sett í sérstakt frumvarp sem nefndin flutti og samþykkt var sem lög nr. 39/1992.
    Ákvæðum frumvarpsins er ætlað að leysa af hólmi tvenn lög um málefni hjóna, lög nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar, og lög nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna. Með því að fella þessa tvo lagabálka saman í einn þykir yfirsýn yfir þessa löggjöf verða gleggri. Frumvarpið hefur að geyma nokkur nýmæli en einnig eru ákvæði þess gerð einfaldari og skýrari en í gildandi lögum, bæði að efni og skipan.
    Í I. kafla frumvarpsins eru almenn ákvæði og ákvæði um efnissvið laganna. Þar er m.a. ákvæði um jafnstöðu hjóna og segir þar að hjón séu í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum.
    Hjónavígsluskilyrði eru talin í II. kafla. Þar er m.a. lagt er til að hjúskapartálmar er lúta að hjúskap andlega fatlaðra manna falli niður, svo og tengdra manna.
    Í III. kafla eru reglur um könnun á hjónavígsluskilyrðum og í IV. kafla eru reglur um hjónavígsluna og vígslumenn. Í V. kafla eru ákvæði um ógildingu hjúskapar.
    Um hjónaskilnaði er fjallað í VI. kafla en ákvæði hans hafa mörg hver verið lögfest í lögum nr. 39/1992, þ.e. 33., 34., 36., 37., 41., 43. og 44. gr. frumvarpsins. Nýmæli er að finna í 40. gr. en þar er fjallað um líkamsárás eða kynferðisbrot annars hjóna sem bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim. Ef um slík tilvik er að ræða getur hitt hjóna þegar krafist lögskilnaðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Á það við þegar verknaður er framinn, gerð tilraun til hans eða maki sýnir atferli sem fallið er til að vekja alvarlegan ótta um að hann gerist sekur um verknaðinn. Ákvæðinu er breytt frá fyrra frumvarpi og greint sérstaklega frá hvoru tilviki fyrir sig, líkamsárás og kynferðisbroti. Er ætlandi að ákvæðið horfi til aukinnar verndar innan fjölskyldu, þ.e. fyrir maka og börn, og búa réttlætissjónarmið hér að baki. Þess má geta að norsk og dönsk lög kveða á um líkamsárás sem lögskilnaðarástæðu en þar er ekki kveðið á um kynferðisbrot. Þá er nýmæli í 42. gr., en þar er felld niður skylda til að leita um sættir með hjónum sem ákveðið hafa að leita skilnaðar nema þau eigi ósjálfráða börn. Á það er þó lögð áhersla að þau munu ávallt eiga þess kost að leita sátta.
    Í VII. kafla er fjallað um ábyrgð hjóna á framfærslu fjölskyldu sinnar. Ákvæði þar eru einfaldari í sniðum en hliðstæð ákvæði laga nr. 60/1972 og laga nr. 20/1923.
    Þá er fjallað um eignir hjóna í VIII. kafla. Þar eru nokkur nýmæli. Taldar eru upp í 53. gr. þær eignir sem um er að ræða og í 55. gr. er kveðið á um það hvernig séreign geti myndast.
    Um forræði maka á eign sinni er fjallað í IX. kafla. Skv. 60. gr. þarf skriflegt samþykki maka til ráðstöfunar á fasteign sem ætluð er sem bústaður fyrir fjölskylduna eða fyrir sameiginlegan atvinnurekstur þeirra. Í 64. gr. segir að sé óskað þinglýsingar á löggerningi skv. 60. gr. þurfi skjalið að geyma yfirlýsingu um hvort sá er skjal stafar frá sé í hjúskap og ef svo er, hvort eign sé bústaður fjölskyldu hans eða notuð við atvinnurekstur hjóna. Ákvæðið er nýmæli. Í nefndinni urðu umræður um hvort beita ætti réttarúrræðum ef ákvæðum 64. gr. væri ekki sinnt. Í þessu sambandi er rétt að benda á ákvæði 2. mgr. 64. gr. og 2. mgr. 133. gr. þar sem ráðherra er veitt heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna. Enn fremur er bent á ákvæði 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga, nr. 39/1978, þar sem kveðið er á um vísun skjals frá þinglýsingu. Loks var rætt allnokkuð í nefndinni um hversu betur hjón væru sett ef bæði væru skráð sem þinglýstir eigendur að fasteign.
    Í X. kafla er fjallað um skuldaábyrgð hjóna og eru meginreglur hans óbreyttar frá gildandi lögum.
    Í XI. kafla er kveðið á um samninga milli hjóna o.fl. Þar eru reglur um gjafir milli hjónaefna og hjóna, séreignir samkvæmt kaupmála sem hjón gera með sér og um aðrar séreignir. Í kaflanum eru ýmis nýmæli. Um hæfi til kaupmálagerðar, form þeirra og reglur um skráningu kaupmála o.fl. er fjallað í XII. kafla.
    Um fjárskipti milli hjóna án skilnaðar er fjallað í XIII. kafla og eru ákvæðin lítið breytt frá gildandi lögum. Um fjárskipti vegna hjúskaparslita er fjallað í XIV. kafla og má þar finna ýmis nýmæli. Má nefna ákvæði 101. gr. um tímamark það sem miðað skal við þegar ákvarða á eignir og skuldir. Enn fremur gætir nýmæla í 102. gr. þar sem kveðið er á um verðmæti sem falla utan skipta samkvæmt kröfu maka. Ef ósanngjarnt þykir að ákveðnum verðmætum sé haldið utan skipta er heimilt að bæta maka það með fjárgreiðslum. Þá eru í 104. gr. talsverð frávik frá helmingaskiptareglunni skv. 103. gr.
    Í XV. og XVI. kafla eru reglur um réttarfar í hjúskaparmálum og meðferð þeirra og úrlausn fyrir stjórnvöldum en þau ákvæði voru lögfest með lögum nr. 39/1992.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að 16. og 17. gr. verði breytt þannig að þar sé kveðið á um skráð trúfélög. Mun það vera nákvæmara því að samkvæmt lögum um trúfélög, nr. 18/1975, verða trúfélög að vera skráð til þess að prestar þeirra eða forstöðumenn geti framkvæmt embættisverk, þar á meðal hjónavígslu.
    Í öðru lagi verði lagfærð tilvísun í 2. mgr. 43. gr.
    Loks verði orðalagi 2. mgr. 69. gr. breytt til þess að gera það þjálla.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali.
    Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Ingi Björn Albertsson og Ólafur Þ. Þórðarson.

Alþingi, 17. mars 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Sigbjörn Gunnarsson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Jón Helgason.