Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 439 . mál.


757. Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Finn Sveinbjörnsson, skrifstofustjóra í viðskiptaráðuneyti, Magnús Pétursson, ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneyti, Ólaf Davíðsson, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneyti, Halldór Guðbjarnason, bankastjóra Landsbanka Íslands, Árna Tómasson, löggiltan endurskoðanda Landsbanka Íslands, Þórð Ólafsson, forstöðumann bankaeftirlits Seðlabanka Íslands, Sigurð Hafstein, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sparisjóða, Stefán Pálsson, bankastjóra Búnaðarbanka Íslands, Val Valsson, bankastjóra Íslandsbanka, Jóhannes Nordal og Birgi Ísleif Gunnarsson, bankastjóra Seðlabanka Íslands.
    Nefndin hefur haldið þrjá fundi um þetta mál og reynt að hraða störfum sínum eins og unnt er til að flýta þessu brýna máli. Í frumvarpi þessu er mælt fyrir um þrenns konar aðgerðir til að efla eiginfjárstöðu innlánsstofnana og traust á þeim og fellst meiri hluti nefndarinnar á nauðsyn þeirra. Í fyrsta lagi er um að ræða fjárhagsstuðning ríkissjóðs við Landsbanka Íslands, í öðru lagi breytingu á hlutverki Tryggingarsjóðs viðskiptabanka þannig að hann geti, líkt og Tryggingarsjóður sparisjóða, veitt lán til að efla eiginfjárstöðu bankanna og í þriðja lagi heimild fyrir ríkisábyrgð á lántökum tryggingarsjóðanna tveggja í því skyni að veita víkjandi lán til innlánsstofnana. Meiri hluti nefndarinnar bendir á nokkur atriði varðandi frumvarpið:
    Hlutverk tryggingarsjóða viðskiptabanka og sparisjóða breytist með þessum lögum og er því brýnt að flýta endurskoðun ákvæða um sjóðina. Fram kom af hálfu forráðamanna bankanna að skoða þyrfti samsetningu stjórnar sjóðsins með tilliti til hins breytta hlutverks. Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laga um tryggingarsjóði viðskiptabanka og sparisjóða og mun taka það mál til meðferðar við umfjöllun nefndarinnar á frumvarpi til laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að komi til frekari lánveitinga í samræmi við 5. gr. frumvarpsins sé eðlilegt að hafa samráð um það við efnahags- og viðskiptanefnd.
    Þrátt fyrir ákvæði 6. gr. telur meiri hluti nefndarinnar að ekki sé nauðsynlegt að setja á stofn nýjan eftirlitsaðila.
    Að gefnu tilefni vill meiri hluti nefndarinnar benda á nýtt frumvarp um viðskiptabanka og sparisjóði sem nú er til umfjöllunar í nefndinni en þar eru m.a. ákvæði sem snúa að því að veita viðskiptabönkum og sparisjóðum ótvíræðari lagaheimildir en nú gilda til þess að tryggja viðskiptahagsmuni sína með þátttöku í starfsemi fyrirtækja. Nefndin mun leggja áherslu á að hraða meðferð þess.

Alþingi, 18. mars 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Sólveig Pétursdóttir.

Hjálmar Jónsson.


varaform., frsm.



Ingi Björn Albertsson.

Guðjón Guðmundsson.

Kristín Ástgeirsdóttir,


með fyrirvara.



Halldór Ásgrímsson,

Jóhannes Geir Sigurgeirsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.