Ferill 115. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 115 . mál.


789. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



     Minni hluti nefndarinnar er samþykkur því að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag. Minni hlutinn hafði vænst þess að hægt yrði að ná samkomulagi um þau ágreiningsmál sem uppi voru um málið en því miður hefur það ekki tekist. Minni hlutinn flytur því allar sömu breytingartillögur og komu fram frá honum við umfjöllun málsins á síðasta þingi. Þau efnisatriði, sem minni hluti nefndarinnar gerir athugasemdir við, eru eftirfarandi:
     1 .     Sala eigna.
                  Minni hluti nefndarinnar getur ekki fallist á að veita heimild til að selja allt fyrirtækið. Eðli­legt er að í upphafi sé gefin heimild til að selja allt að 40% af hlutafénu, en ríkisstjórnin þurfi að fá heimild Alþingis til að selja meira og jafnframt til sölu á einstökum verksmiðjum. Verk­smiðjurnar skipta miklu máli fyrir afkomu fólks á þeim stöðum þar sem þær eru. Minni hlutinn telur eðlilegt að áður en ákvarðanir eru teknar um að selja meiri hluta félagsins eða einstakar verksmiðjur sé skylt að leita samþykkis Alþingis.
     2 .     Kjör stjórnar.
                  Minni hlutinn telur að eðlilegt sé að Alþingi kjósi stjórnarmenn fyrirtækisins sem eignar­hlutur ríkisins gefur rétt til, svo lengi sem ríkið á meiri hluta í fyrirtækinu.
     3 .     Efnahagsreikningur og skattaleg staða.
                  Ekkert liggur fyrir um hvert er mat á eignum fyrirtækisins. Eðlilegast hefði verið að áður en málið er afgreitt sé kynntur upphafsefnahagsreikningur hins nýja fyrirtækis. Jafnframt er eðlilegt að félagið yfirtaki rekstrartöp Síldarverksmiðja ríkisins frá fyrri árum. Þótt heimild sé veitt fyrir fjármálaráðherra að yfirtaka hluta af skuldum Síldarverksmiðja ríkisins liggur ekkert fyrir um hvort sú heimild verður notuð. Vonandi getur fyrirtækið greitt skuldir sínar sjálft án þess að ríkið komi þar til. Síldarverksmiðjur ríkisins eiga hafnarmannvirki sem aðrar verksmiðjur hafa ekki þurft að byggja. Ríkið hefur þurft að kosta til þeirra mannvirkja í gegn­um tíðina og væri eðlilegt að þessi hafnarmannvirki væru keypt þannig að staða Síldarverk­smiðja ríkisins væri svipuð og gerist um aðrar verksmiðjur í landinu.
     4 .     Samstarf við heimamenn.
                  Ávallt koma upp margvísleg samstarfsmál þar sem staðbundin þekking verður að vera fyrir hendi og því er nauðsynlegt að í samþykktum félagsins séu ákvæði um sérstaka samstarfs­nefnd. Það þarf að tryggja að heimamenn komi að stjórn fyrirtækisins og hafi þar eðlileg ítök. Það er ekki aðeins nauðsynlegt vegna byggðarlaganna heldur jafnframt fyrir fyrirtækið sem heild.
     5 .     Réttindi starfsmanna.
                  Verulegur ágreiningur hefur verið uppi um réttindi starfsmanna. Í því sambandi vísast til greinargerðar sem fylgir með nefndarálitinu. Minni hluti nefndarinnar óskaði eftir því við umfjöllun þess á síðasta þingi að fá að ræða við fulltrúa BSRB áður en frumvarpið væri afgreitt frá nefnd. Því var hafnað og vilyrði gefin um slíkar viðræður síðar. Þær viðræður fóru fram og í þeim kom í ljós alger andstaða fulltrúa BSRB við þessa meðferð á réttindamálum starfsmanna SR. Minni hluti nefndarinnar leggur því til að 7. gr. frumvarpsins falli niður og leitað verði samninga við starfsmenn um þessi ágreiningsmál.
     Minni hluti nefndarinnar flytur breytingartillögur á þskj. 797 og að þeim samþykktum getur hann fallist á að styðja frumvarpið. Fulltrúi samtaka um Kvennalista, Anna Ólafsdóttir Björnsson, er samþykk nefndaráliti þessu.

Alþingi, 22. mars 1993.



    Jóhann Ársælsson,     Halldór Ásgrímsson.     Steingrímur J. Sigfússon.
    frsm.          

Stefán Guðmundsson.





Fylgiskjal I.

Umsögn Síldarverksmiðja ríkisins.


(12. mars 1992.)



(Texti ekki tiltækur. Athugið pdf-skjalið)





Bréf Síldarverksmiðja ríkisins til sjávarútvegsnefndar.


(27. mars 1992.)


    Í framhaldi af komu okkar, fulltrúa SR, á fund sjávarútvegsnefndar leyfi ég mér í samráði við Þorstein Gíslason stjórnarformann SR að senda viðlagða punkta sem svör við nokkrum spurningum nefndarmanna.
    Það skal tekið fram að í þessum punktum koma fyrst og fremst fram skoðanir undirritaðs.

Þórður Jónsson,


rekstrarstjóri SR.





Staða fiskimjölsiðnaðar á Íslandi.


    Greinin sem heild stendur frammi fyrir miklum vanda vegna tekjusamdráttar sem stafar af lágu heimsmarkaðsverði á hefðbundnum afurðum og miklum sveiflum í hráefnisframboði.
    Á yfirliti um tekjur og gjöld verksmiðja á Íslandi kemur fram að heildartekjur minnkuðu úr 8 milljörðum króna 1988 í um 5 milljarða króna 1990. Tölur fyrir 1991 eru ekki fyrirliggjandi en það ár er eitt það versta í sögu fiskimjölsiðnaðarins á Íslandi.
    Heildarskilaverðstekjur úr loðnutonni voru í byrjun yfirstandandi vertíðar um 8.000 kr. en eru nú í lok vertíðarinnar komnar niður í um 6.000 kr.
    Ekki verður annað séð en að stefnt geti í að hefðbundin vinnsla á bræðslufiski leggist af á Íslandi ef ekki kemur til verulegrar hækkunar á tekjum og/eða lækkunar á útgjöldum.



(Súlurit ekki tiltækt. Athugið pdf-skjalið)




Verð á bræðslufiski og afurðum.


    Í mörg ár ákvað Verðlagsráð lágmarksverð á bræðslufiski. SR hélt sig fast við þetta verð. Skip fengu löndun eftir röð í höfn og verðmunur var yfirleitt lítill en þó yfirborguðu einkaverksmiðjur þegar lítið veiddist.
    Loðnuverð var gefið frjálst 1987. Til að byrja með ákvað stjórn SR verðið sem boðið var. Þetta verð var mjög hátt miðað við greiðslugetu verksmiðjanna.
    Aðrar verksmiðjur fóru samt yfir þetta fasta verð ef þeim bauð svo við að horfa.
    Einnig hófu verksmiðjur að kaupa skip og fluttu þar með kvótann í land. SR hefur fyrst og fremst keppt í verði og stefnan hefur verið að gera verksmiðjur fyrirtækisins hæfar til þessarar samkeppni.
    Reynslan af rekstri verksmiðjunnar á Seyðisfirði sýnir að of varlega var farið í samkeppninni sl. haust. Grundvöllur var fyrir kaupum SR á síldarkvótum sem síðan hefði verið unnt að fá báta til að veiða. Þetta sést best á þeirri staðreynd að mjöl frá Seyðisfirði seldist á að meðaltali 25–30% hærra verði en annað mjöl.
    Til þess að gefa mönnum einfalda hugmynd um hversu lágt verð er nú á loðnuafurðum má nefna að í dag kostar 8.000 kr. að flytja 1 tonn af vöru frá Reykjavík til Húsavíkur með bíl. Sé þetta dæmi heimfært á loðnuvinnslu þá má kostnaður við veiði á einu tonni, sigling til hafnar, löndun, vinnsla, útskipun afurða úr þessu eina tonni ásamt tilheyrandi afskriftum og fjármagnskostnaði skipa og verksmiðja ekki fara yfir 7.000 kr. á loðnutonn eigi þessi iðnaður að bera sig.
    Rækjukvóti, sem úthlutað er til verksmiðja sem eiga skip, hefur verið SR mjög dýr því honum hefur verið skipt út fyrir loðnu eða beinlínis notaður sem hluti af greiðslu fyrir loðnu. Þetta kom sér­staklega illa út fyrir SR veturinn 1991 þegar loðnukvótaeigendur fengu aukarækjukvóta vegna loðnubrestsins. Þetta jafngildir því að sumir af keppinautum SR hafi fengið ríkisstyrk til kaupa á loðnu.

Stýring loðnuveiðanna.


    Æskilegt væri að í byrjun vertíðar væri gefinn út allur sá kvóti sem talið er mögulegt að leyfður verði með fyrirvara um hugsanlega skerðingu eftir áramót. Til enn frekari hvatningar væri hægt að leyfa þeim skipum sem klára kvóta sína tímanlega að veiða úr því magni sem Norðmenn og Græn­lendingar ná ekki.
    Staðreynd er að mest verðmæti fást úr loðnu sem veidd er á tímabilinu ágúst–desember. Loðnan fer að horast í desember og lýsisnýtingin fellur úr 14–15% niður í 1–3% í lok mars. Skilaverð hvers loðnutonns lækkar því um 1.500–2.000 kr.
    Með öðrum orðum þýðir þetta að hver 50.000 tonn sem veidd eru fyrir áramót skila 80–100 millj. kr. meira en sama magn veitt í mars. Vinnslukostnaður er þó hinn sami í báðum tilfellum.
    Á undanförnum árum hefur verið mikil öfugþróun í loðnuverði innan hverrar vertíðar. Haust­verð hafa verið lág, en þegar liðið hefur verið á vertíðirnar hefur það hækkað þó svo að skilaverðið úr loðnunni hafi lækkað. Þetta hefur latt menn til haustveiða.

Markaðsmál.


    Venjulegt íslenskt fiskimjöl, FAQ-mjöl, er í beinni óheftri samkeppni við fiskimjöl frá Suð­ur-Ameríku, t.d. frá Perú þar sem laun eru 10% af því sem hér er greitt.

    Verðið, sem við fáum fyrir FAQ-mjöl, ræðst af framboði og verði frá Perú. Kostnaður hér innan lands breytir engu. Íslendingar verða að komast inn á markaði sem Perúmenn eru ekki á, sbr. mjölið frá SR á Seyðisfirði.
    Algjört útflutningsfrelsi hefur ríkt gagnvart mjöli og lýsi.
    Nokkur fyrirtæki hafa í mörg ár selt mjöl og lýsi í umboðssölu. Flest eru þessi fyrirtæki í sam­bandi við erlenda umboðsaðila sem sjá um hinar endanlegu sölur og sambandið við kaupendurna. Fyrir þessa þjónustu eru greidd 2% af cif-verði afurðanna.
    Helsti ókostur þessa kerfis var og er að nánast ekkert samband er á milli framleiðanda og kaup­anda. Kvartanir og ábendingar komast seint og illa til skila. Sárafá föst viðskiptasambönd myndast. Þetta fyrirkomulag gekk þó sæmilega á meðan eingöngu var framleitt FAQ-mjöl og kaupendur voru tilbúnir að kaupa með því hugarfari að þeir væru að spila í rúllettu því tilviljun réð hvers konar vöru þeir fengu og verðhugmyndir þeirra voru eftir því.
    Það skal þó tekið fram að í sumum tilfellum hafa íslenskir umboðsmenn náð mjög hagstæðum sölum á FAQ-mjöli til Austur-Evrópu og fjarlægari markaða.
    Ef ná á árangri með sérframleitt mjöl og lýsi er nauðsynlegt að hafa stöðugt og náið samband við stærstu notendurna og velja til samstarfs þá sem mesta þekkingu hafa.
    Nægjanlegt er að hafa einn umboðsaðila ef á annað borð er talið æskilegt að slíkur sé til staðar til þess að sjá um vissa hluta viðskiptanna. Umboðsaðilinn verður að sætta sig við að framleiðandi og kaupandi hafi samband sín á milli varðandi vöruþróun og framleiðsluhætti.
    Talið er að þær fáu fiskimjölsverksmiðjur sem eftir eru í Danmörku hafi lifað af vegna eigin markaðssetningar og vöruþróunar sem fært hafi þeim forskot á nú fallna keppinauta.
    Það er ekki ásættanlegt að íslenskt loðnumjöl sé yfirleitt alltaf selt á lægra verði en mjöl framleitt úr lakara hráefni í Noregi eða Danmörku.

(Tafla ekki tiltæk. Athugið pdf-skjalið)




Verkfræðistofa Daníels Gestssonar:

Bryggjur í eigu SR.


(Úr Mati á hafnarmannvirkjum Síldarverksmiðja ríkisins.)



(Teikning ekki tiltæk. Athugið pdf-skjalið)






Skipting aflakvóta á vertíð 1991–1992.



(Ekki tiltækt. Athugið pdf-skjalið)




Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda:


Móttaka loðnuverksmiðja á haustvertíð 1992.



    Mótt.
    tonn

F&L, Grindavík          8.096
Njörður, Sandgerði
Faxamjöl, Reykjavík          170
H. Böðvarsson, Akranesi          16.705
E. Guðfinnsson, Bolungarvík          324
SR, Siglufirði          40.685
Hrh. Ólafsfjarðar          108
Krossanes, Akureyri          17.667
SR, Raufarhöfn          29.878
Hst. Þórshafnar          15.945
Lón, Vopnafirði          3.269
Hafsíld, Seyðisfirði          2.312
SR, Seyðisfirði          22.638
SV, Neskaupstað          28.395
Hraðfrysihús Eskifjarðar          22.840
SR, Reyðarfirði          1.517
Höfn, Hornafirði
FES, Vestmannaeyjum          875
FIVE, Vestmannaeyjum          1.109
Færeyjar
Löndun frá síðustu skýrslu
* Endanleg löndunartala ekki tiltæk

Móttekin tonn          212.533

Haustvertíð          212.533
Heildarveiði á loðnuvertíð 1992–93
Heildarloðnukvóti          639.597
Eftirstöðvar loðnukvóta          427.172
Landanir erlendra skipa
SR, Raufarhöfn          2.886
Hst. Þórshöfn          846

Haustvertíð, íslensk og erlend skip          216.157


Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda:

Móttaka loðnuverksmiðja á vetrarvertíð 1993.


(19.–22. mars 1993.)




    Bátur sem     Veiði-     Lönd.     Veiði-     St. mótt.     Bátur     Veiði-     Áætl.
    hefur landað     dagur     tonn     reitur     tonn     væntanlegur     dagur     tonn

F&L, Grindavík                         21.064
Njörður hf.                         8.315
Eyrarmjöl, Þorlákshöfn                         1.619
Faxamjöl, Reykjavík     Keflvíkingur     19/3     301          23.642
                   Faxi     20/3     616          
H. Böðvars. Akranesi     Helga 2     20/3     914     423     20.542
                   Örn     20/3     449     423
                   Keflvíkingur     21/3     395     423
E. Guðf. Bolungarv.                         9.594
SR, Siglufirði                         40.618
Hrh. Ólafsfjarðar                         1.918
Krossan. Akureyri     Þórður Jónass     21/3     515          11.369
SR, Raufarhöfn                         25.400
Hst. Þórshafnar                         13.578
Lón Vopnafirði                         10.057
Hafs. Seyðisfirði                         13.303
SR, Seyðisfirði                         46.986
SV, Neskaupstað                         36.257
H. Eskifjarðar     Hólmaborg     22/3     434          48.896
H. Fáskrúðfjaðar                         1.710
SR, Reyðarfirði                         20.417
Ósland hf. Höfn                         11.834
Ísfélag Vestm. hf.                         27.021   Guðmundur          850
Vinnslustöðin hf.     Albert     22/3     663     474     40.851
                   Ísleifur     22/3     695     474
Færeyjar                         4.417
Löndun frá síðustu skýrslu          4.982                              850
* Endanleg löndunartala ekki tiltæk

Móttekin tonn                         439.408

Haustvertíð                         212.533
Vetrarvertíð                         439.408
Heildarafli á loðnuvertíð 1992–93                    651.941
Heildarloðnukvóti                         820.000
Eftirstöðvar loðnukvóta                         168.059
Landanir erlendra skipa
SR, Raufarhöfn                         2.886
Hst. Þórshöfn                         846
Eskifjörður                         541
SR, Seyðisfirði                         457



Framleiðslugeta verksmiðja SR



(Ekki tiltækt. Athugið pdf-skjalið)




Síldarverksmiðjur ríkisins:

Loðnuvertíðin 1992–1993.


(24. mars 1993.)



(Ekki tiltækt. Athugið pdf-skjalið)



Fylgiskjal II.

Umsögn hreppsnefndar Raufarhafnarhrepps.


(7. mars 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal III.

Umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.


(4. mars 1992.)


    Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, FFSÍ, hefur borist til umsagnar framangreint frum­varp til laga frá sjávarútvegsnefnd Alþingis.
    FFSÍ gerir engar athugasemdir við það frumvarp sem hér er til umsagnar. Aftur á móti vilja sam­tökin benda á þá staðreynd að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að koma á og viðhalda frjálsri verðmyndun á loðnu undanfarin ár. Segja má að þessu sé fyrst og fremst að þakka að verksmiðjunum hefur verið óheimilt að reka útgerð.

Virðingarfyllst,


f.h. FFSÍ,


Benedikt Valsson.





Fylgiskjal IV.

Umsögn Vélstjórafélags Íslands.


(10. mars 1992.)


    Félagið gerir ekki athugasemdir við frumvarpið.

Virðingarfyllst,


fh. Vélstjórafélags Íslands,


Helgi Laxdal, formaður.




Fylgiskjal V.

Umsögn Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda.


(5. mars 1992.)


    Stjórn Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda fjallaði á fundi sínum 4. mars um frumvarp til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins. Eftirfarandi var samþykkt:
    Stjórn Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda fagnar framkomnu frumvarpi um Síldarverk­smiðjur ríkisins og telur það mjög til bóta. Hvetur stjórnin jafnframt til að skrefið til fullkominnar einkavæðingar fyrirtækisins verði stigið hið fyrsta.

Kveðja,


Félag íslenskra fiskmjölsframleiðenda,


Jón Ólafsson.



Fylgiskjal VI.

Umsögn hreppsnefndar Reyðarfjarðarhrepps.


(4. mars 1992.)


    Á fundi hreppsnefndar Reyðjarfjarðarhrepps 2. mars sl. var eftirfarandi samþykkt gerð:
    „Hreppsnefnd Reyðarfjarðarhrepps er sammála því að Síldarverksmiðjum ríkisins sé breytt í hlutafélag, jafnframt telur sveitarstjórn eðlilegt að kveðið sé á um í samþykkt væntanlegs hlutafé­lags að Reyðarfjarðarhreppur fái að tilnefna einn stjórnarmann.“
    Þetta tilkynnist yður hér með.

Virðingarfyllst,


Ísak J. Ólafsson,


sveitarstjóri.




Fylgiskjal VII.

Umsögn Sjómannasambands Íslands.


(17. mars 1992.)


    Stjórn Sjómannasambands Íslands hefur fjallað um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins. Stjórnin styður frumvarpið og telur breytt rekstrarform á fyrirtækinu mjög til bóta.
    Vegna fyrirhugaðrar sölu ríkisins á hlut sínum í Síldarverksmiðjum ríkisins, verði frumvarpið að lögum, er það álit stjórnar Sjómannasambands Íslands að ekki eigi að hluta fyrirtækið í sundur því styrkur þess felist í stærðinni og staðsetningu verksmiðjanna.

F.h. Sjómannasambands Íslands,


Hólmgeir Jónsson.





Fylgiskjal VIII.

Umsögn Landssambands íslenskra útvegsmanna.


(10. mars 1992.)


    Við höfum móttekið bréf ykkar dags. 20. febrúar sl. þar sem okkur er sent til umsagnar frumvarp til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins.
    Stjórn LÍÚ samþykkti á fundi sínum í dag að mæla með samþykkt frumvarpsins um að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag.

Virðingarfyllst,


f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna,


Kristján Ragnarsson.



Fylgiskjal IX.

Umsögn starfsmannafélags ríkisstofnana.


(17. febrúar 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Umsögn Gests Jónssonar, hrl.


(15. febrúar 1992.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Fylgiskjal X.


Álit Almennu málflutningsstofunnar sf.


á 7. gr. frumvarps til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins


með tilliti til 14. gr laga nr. 38/1954.


(7. apríl 1992.)



    Með bréfi, dags. 7. apríl 1992, hafið þér óskað álits undirritaðs á því hvort ákvæði 7. gr. frum­varps til laga um Síldarverksmiðjur ríkisins komi í veg fyrir rétt starfsmanna Síldarverksmiðja ríkis­ins til biðlauna skv. 14. gr. laga nr. 38/1954 um ríkisstarfsmenn. Jafnframt er óskað álits á því hvort ákvæði nefndrar 7. gr. frumvarpsins geti falið í sér ólögmæta skerðingu á stjórnarskrárvörðum eign­arréttindum þessara starfsmanna.
    7. gr. frumvarpsins er svofelld:
    „Fastráðnir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins skulu hafa rétt til starfa hjá hinu nýja hlutafélagi við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá verk­smiðjunum. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á því ekki við um þá starfsmenn.“
    Álit undirritaðs er eftirfarandi:
    Um starfskjör ríkisstarfsmanna gilda lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis­ins. Enn fremur gilda lög nr. 97/1974, um eftirlit með ráðningu starfsmanna og húsnæðismálum rík­isstofnana, og lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
    Samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/1954 skal ríkisstarfsmaður, er staða er lögð niður, „jafnan fá föst laun er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði . . . ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu á vegum ríkisins“.
    Þau atriði, sem koma einkum til skoðunar hér, eru í fyrsta lagi skilgreining biðlauna, þ.e. tilgang­ur með greiðslu launa er staða er lögð niður og í öðru lagi hugtakið „sambærileg staða“. Í þriðja lagi réttur til biðlauna. Loks kemur til skoðunar gildi laganna gagnvart ákvæði 67. gr. stjórnarskrár og texti 7. gr. ofangreinds frumvarps borinn saman við ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954.

    1. Hvað eru biðlaun?
    Tilgangi löggjafans með greiðslu biðlauna, þegar staða er lögð niður, er ýmist jafnað til launa í uppsagnarfresti ellegar til skaðabóta fyrir þá röskun á atvinnuöryggi sem felst í missi starfs hjá rík­inu.
    Greinargerð með lögunum er þó eigi skýr um þetta atriði.
    Ég tel að ekki skipti máli að skilgreina bakgrunn þessarar bótareglu. Orðalag ákvæðisins um föst laun í tiltekinn tíma til þeirra sem ekki eiga kost á starfi hjá ríkinu verður aðeins skilið á þann veg að um lögbundnar skaðabætur sé að ræða fyrir missi starfs hjá ríkinu fyrir það að staða er lögð niður.

     2. Hverjir eiga rétt til biðlauna?
    Við ákvörðun þess hverjir eiga rétt til biðlauna er nærtækast að líta á efni laga nr. 38/1954 og skoða þau í samhengi við ákvæði laga nr. 97/1974 og 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfs­manna.
    Samkvæmt ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 er gert ráð fyrir að allir starfsmenn eigi rétt til bið­launa en starfsaldur ráði lengd biðlaunatímans. Þrátt fyrir að í lögum nr. 97/1974 sé ákveðið (3. gr., 2. mgr.) að ráða megi fólk til starfa hjá ríkinu með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti hefur ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 eigi verið breytt með tilliti til þessa. Því gerir 14. gr. laga nr. 38/1954 ekki greinarmun á skipun, setningu eða ráðningu með þriggja mánaða uppsagnarfresti við ákvörðun réttinda starfsmanna til biðlauna.
    Nærtækast er því, að mínu viti, að túlka ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 eftir orðanna hljóðan að þessu leyti. Fær þessi skoðun stuðning í dómi Hæstaréttar frá 1964, bls. 936.
    Af þeim ástæðum ber öllum ríkisstarfsmönnum réttur til sex mánaða eða tólf mánaða biðlauna eftir starfsaldri án tillits til þess hvort þeir séu æviráðnir eða ráðnir með þriggja mánaða uppsagnar­fresti, svo fremi sem staða sé lögð niður í skilningi laga nr. 38/1954.
    Vekja ber þó athygli á því að þessi skilningur hefur lítið gildi að því er varðar starfsmenn sem ráðnir eru með þriggja mánaða gagnkvæmum uppsagnarfresti. Ætla má að aðdragandi að því að staða er lögð niður sé það langur að unnt sé að koma fram uppsögn.

     3. Sambærilegt starf.
    Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954 gerir einungis ráð fyrir að ráðning eða höfnun ráðningar í sam­bærilegt starf á vegum ríkisins upphefji rétt til biðlauna. Af því leiðir að launuð atvinna hjá einkaað­ila hefur eigi áhrif til biðlaunagreiðslna. Í tilviki starfsmanna Síldarverksmiðja ríkisins sýnist mér ótvírætt að allir starfsmenn þeirra eigi rétt til biðlauna í samræmi við starfstíma sinn á vegum stofn­unarinnar enda þótt þeir kunni að þiggja starf hjá hinu nýja hlutafélagi ef frumvarpið verður að lög­um.

     4. Ólögmæt skerðing á stjórnarskrárvernduðum eignarréttindum?
    Íslenskir dómstólar hafa verið tregir til að fallast á að lög brjóti í bága við stjórnarskrá Íslands. Ágreiningur hefur einkum risið út af 67. gr. stjórnarskrárinnar og hafa dómstólar yfirleitt túlkað það ákvæði frjálslega þegar deilt hefur verið um lögmæti skattlagningar.
    Í stuttu máli má segja að öllu skipti hvort breyting á lögbundnum starfskjörum sé almenn eða sértæk. Ríkisstarfsmenn mega þola launalækkun og versnandi kjör ef breytingin nær til ríkisstarfs­manna almennt án tillits til þess hvar þeir starfa hjá ríkinu, sbr. grunnsjónarmið 18. gr. laga nr. 38/1954.
    Hins vegar verður að álíta að óheimilt sé að beina lagabreytingum að fámennum hópi (þröngum hagsmunum) og rýra þannig lögbundin kjör þeirra. Skilgreining þess hvað sé „fámennur hópur“ er afstæð. Það kann að skipta máli hvort sams konar breytingum sé ætlað að taka til margra „fámennra hópa“, svo sem nokkurra ríkisstofnana (Síldarverksmiðja ríkisins, Sementsverksmiðju ríkisins o.s.frv.). Ég hygg þó að breyting á fáum ríkisstofnunum í hlutafélög teljist eigi almenn skerðing í lögfræðilegum skilningi.
    Í tilfelli Síldarverksmiðja ríkisins virðist mér sem lögunum sé beint að svo afmörkuðum hópi starfsmanna að meta megi hagsmunina sem sértæka en alls ekki almenna.
    Mín skoðun er því sú að 7. gr. frumvarps að lögum um Síldarverksmiðjur ríkisins feli í sér óhæfi­lega skerðingu á lögbundnum starfskjörum þessara umræddu starfsmanna og sé af þeim ástæðum andstæð ákvæði 67. gr. stjórnarskrár.
    Þau starfsréttindi, sem boðuð eru í 7. gr., geta því eigi skoðast sambærileg við gildandi starfskjör samkvæmt lögum nr. 38/1954. Hið nýja hlutafélag mun bundið af ákvæðum laga nr. 32
1978, um hlutafélög, og réttindi og skyldur starfsmanna ráðast af almennum kjarasamningum og lögum nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
    Ákvæði 7. gr. um starfskjör starfsmannanna hjá hinu nýja hlutafélagi er jafnframt stefnuyfirlýs­ing sem eigi er sérstök þörf fyrir í lagatexta. Yfirlýsing af sama tagi gæti allt eins komið frá stjórn­endum verksmiðjanna svo að dæmi sé tekið. Gildi um slíka yfirlýsingu almennar reglur vinnuréttar.

    Það er skoðun mín að hið virðulega Alþingi eigi ekki að taka afstöðu til þess í frumvarpi til laga hvort réttindi skv. 14. gr. laga nr. 38/1954 séu niður fallin eður ei. Að mínu viti er það dómstóla að skera úr ágreiningi um hvort slík réttindi teljist vera fyrir hendi ef niðurstaðan verður sú að fjármála­ráðuneytið kýs að viðurkenna eigi rétt hlutaðeigandi starfsmanna til biðlauna. Ákvæði 7. gr. frum­varpsins i.f. verður að skoða sem fyrirmæli öðru fremur. Samkvæmt viðurkenndum sjónarmiðum um sjálfstæði dómenda eru fyrirmæli Alþingis eða jafnvel skýringar Alþingis á fyrirmælum sínum eigi bindandi fyrir dómstóla. Dómstólum ber skv. 61. gr. stjórnarskrár að fara einungis eftir lögum í víðasta skilningi orðsins, þ.e. ekki aðeins stjórnskipunarlögum heldur almennum lögum, réttar­venju, lögjöfnun o.s.frv.
    Með vísan til þessa er rétt að fella síðustu setningu 7. gr. frumvarpsins út úr texta þess.
    Sé það ætlun Alþingis að taka á réttindum ríkisstarfsmanna, sem lögbundin eru í 14. gr. laga nr. 38/1954, er að mínu áliti eðlilegra og réttara að breyta ákvæði 14. gr. laganna í þá veru enda hefði slík breyting almennt gildi gagnvart ríkisstarfsmönnum.

Virðingarfyllst,


Hróbjartur Jónatansson, hrl.



Fylgiskjal XI.

Bréf sjávarútvegsráðuneytisins
til Helga Bergs:


Skipun nefndar til að endurskoða lög um Síldarverksmiðju ríkisins.


(15. febrúar 1989.)


    Hér með eruð þér skipaður formaður nefndar til að endurskoða lög um Síldarverksmiðjur ríkis­ins. Núgildandi lög um Síldarverksmiðjur ríkisins eru orðin meira en hálfrar aldar gömul og því um margt úrelt. Er nefndinni m.a. falið að meta hvort Síldarverksmiðjurnar séu eðlileg rekstrareining eða hvort æskilegt sé að brjóta núverandi rekstur upp í fleiri sjálfstæðar einingar. Jafnframt er nefndinni falið að meta hvort æskilegt sé að breyta um rekstrarform, t.d. með því að breyta félaginu í hlutafélag og opna þannig fyrir þátttöku fleiri aðila, m.a. heimaaðila, starfsmanna og eigenda loðnuskipa.
    Ásamt yður hafa eftirtaldir menn verið skipaðir í nefndina: Gunnar Hilmarsson, Hörður Þór­hallsson, Ísak Ólafsson, Jón Ingi Ingvarsson, Þorsteinn Gíslason og Þorvaldur Jóhannsson. Jafn­framt hefur Arndísi Steinþórsdóttur, deildarstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu og Þórði Jónssyni, starfsmanni Síldarverksmiðjanna, verið falið að starfa með nefndinni.

Halldór Ásgrímsson.


Árni Kolbeinsson.





Fylgiskjal XII.

Álit nefndar til að endurskoða lög um Síldarverksmiðjur ríkisins.


(11. september 1989.)



(Tölvutækur texti ekki til. Athugið pdf-skjalið)




Frumvarp til laga um stofnun hlutafélags


um Síldarverksmiðjur ríkisins.



(Tölvutækur texti ekki til Athugið pdf-skjalið)




Bréf Endurskoðunar hf. til Helga Bergs.


(31. ágúst 1989.)



(Tölvutækur texti ekkit til. Athugið pdf-skjalið)