Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 454 . mál.


790. Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum og að staðfesta breytingar á samþykktum bankans.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)1. gr.


     Ríkisstjórninni er heimilt að samþykkja aukningu á hlutafé Norræna fjárfestingarbankans úr 1.600 milljónum sérstakra dráttarréttinda (SDR) í 2.400 milljónir SDR. Jafnframt er ríkisstjórninni heimilt að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum, sbr. 2. og 3. gr. samþykkta bankans, um 7,2 milljónir SDR og leggja þar af fram allt að jafnvirði 243 þúsunda evrópskra mynteininga (ecu) á árunum 1993–1995.

2. gr.


     Ríkisstjórninni er heimilt að samþykkja breytingar á 6. gr. samþykkta bankans og bæta við þær grein 6b sem fjalli um sérstaka lánafyrirgreiðslu til Eystrasaltsríkja (BIL-lán) og takast á hendur ábyrgðir í því sambandi að fjárhæð allt að jafnvirði 300 þúsunda evrópskra mynteininga (ecu).

3. gr.


    Ríkisstjórninni er heimilt að samþykkja breytingar á 2., 4. og 9. gr. samþykkta bankans, þess eðlis að bankinn miði framvegis reikningshald sitt við evrópsku mynteininguna ecu.

4. gr.


    Lög þessi taka þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ráðherranefnd Norðurlanda hefur samþykkt þrjár breytingar á samþykktum Norræna fjárfestingarbankans.
     Í fyrsta lagi samþykkti ráðherranefndin 11. desember 1991 að auka hlutafé bankans í 2.400 milljónir SDR sem er hækkun um 800 milljónir SDR.
     Í öðru lagi samþykkti ráðherranefndin 27. apríl 1992 aðstoð við Eystrasaltsríkin sem annars vegar er fólgin í því að koma á fót tækniaðstoðarsjóði með höfuðstól að fjárhæð 5 milljónir ecu og hins vegar að Norðurlandaríkin ábyrgist að fullu fjárfestingarlán til aðila í Eystrasaltsríkjunum fyrir allt að jafngildi 30 milljóna ecu, en bankanum er falin framkvæmd málsins.
     Í þriðja lagi samþykkti ráðherranefndin 14. maí 1992 tillögu um að breyta reikningshaldi bankans á þann veg að framvegis verði miðað við evrópsku mynteininguna ecu í stað þess að miða við sérstök dráttarréttindi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, SDR. Tekur breytingin gildi 1. mars 1993.
     Frumvarp þetta er flutt til staðfestingar á þessum breytingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samþykkt ráðherranefndarinnar frá 11. desember 1991 hljóðar þannig:
     „Samstarfsráðherrarnir ákváðu að hækka stofnfé Norræna fjárfestingarbankans um 800 milljónir SDR í 2.400 milljónir SDR frá 1. 4. 1993 og að breyta 2. og 3. gr. samþykkta bankans til samræmis við framlagða tillögu (165/91).“
     Í tillögunni var gert ráð fyrir að inngreitt hlutafé aðildarríkjanna næmi alls 30 milljónum SDR en aðrar 30 milljónir SDR verði yfirfærðar úr varasjóði bankans. Hluti Íslands í aukningu stofnfjárins um 800 milljónir SDR er 0,9% eða 7,2 milljónir SDR og nemur hluti Íslands í stofnfénu eftir aukninguna 22,8 milljónum SDR. Innborgað stofnfé á árunum 1993–95 nemur samtals 243 þúsundum SDR eða um 22 milljónum króna.
     Eftir að reikningseiningu bankans hefur verið breytt úr SDR í ecu verða greiðslur inntar af hendi í ecu og verður þá fjárhæðin í ecu miðað við gengi þessara reikningseininga 1. mars 1993.

Um 2. gr.


    Samþykkt ráðherranefndarinnar frá 27. apríl 1992 um aðstoð við Eystrasaltsríkin er fimmþætt. Nafn verkefnisins er skammstafað BIP sem stendur fyrir enska heitið „Baltic Investment Program“. Í fyrsta lagi er það fólgið í því að komið er á fót sérstökum tækniaðstoðarsjóði í vörslu Norræna fjárfestingarbankans og er stofnfé hans að fjárhæð 5 milljónir ecu. Sjóðnum er m.a. ætlað að greiða kostnað við að koma á fót fjárfestingarbönkum í Eystrasaltsríkjunum þremur og hafa þeir þegar verið stofnaðir. Heita þeir Eistneski fjárfestingarbankinn ( EstIB), Lettneski fjárfestingarbankinn (LatIB) og Litáíski fjárfestingarbankinn (LIB). Eistneski fjárfestingarbankinn er að hefja starfsemi sína, en unnið er að undirbúningi starfseminnar hjá hinum bönkunum, m.a. með þjálfun starfsfólks o.fl.
     Í öðru lagi er settur á fót sérstakur sjóður við Norræna verkefnaútflutningssjóðinn NOPEF að fjárhæð 5 milljónir ecu og skal nota hann til þess að kosta forathuganir og arðsemisútreikninga á fjárfestingum í Eystrasaltsríkjum, fyrst og fremst með undirbúning á sameiginlegum verkefnum þarlendra og norrænna fyrirtækja í huga.
     Í þriðja lagi er settur á stofn sérstakur sjóður við Evrópska endurreisnar- og þróunarbankann í London EBRD að fjárhæð 5 milljónir ecu og er tilgangur hans að veita styrki til undirbúnings verkefna, einkavæðingar og stjórnunarfræðslu í Eystrasaltsríkjum.
     Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að Norðurlandaríkin ábyrgist að fullu lántökur vegna veitingar fjárfestingarlána í Eystrasaltsríkjunum, samtals að fjárhæð 30 milljónir ecu, þar sem fjár verði aflað af Norræna fjárfestingarbankanum, en ráðstöfun þessi er gerð í samráði framangreindra banka og Norræna fjárfestingarbankans. Sérstakur reikningur verður við bankann í þessu sambandi, skammstafaður BIL eftir enska heitinu „Baltic Investment Loans“.
     Í fimmta lagi er komið á fót sérstökum sjóði hjá EBRD fyrir áhættufjárfestingu sem getur veitt lán til, fjárfest í eða veitt ábyrgðir til fjárfestinga í Eystrasaltsríkjunum. Mun bankinn veita fé úr eigin sjóðum til viðbótar við fé úr hinum sérstaka sjóði og auk þess er gert ráð fyrir að fleiri aðilar komi hér til aðstoðar.
     Á lánsfjárlögum ársins 1993 er heimild fyrir fjármálaráðherra til þess að ábyrgjast lántökur Norræna fjárfestingarbankans samkvæmt framanskráðu, allt að 22 m.kr., en auk þess er nauðsynlegt að afla heimildar Alþingis til að breyta 6. gr. samþykkta bankans og bæta við þær grein 6b, sem fjallar sérstaklega um BIL-þátt Eystrasaltsverkefnisins.
     Í 6. gr. samþykktanna bætist við svohljóðandi málsgrein:
     „Bankanum er heimilt að veita sérstök fjárfestingarlán (ábyrgðir vegna fjárfestingarlána) til Eystrasaltsríkja samkvæmt gr. 6b allt að fjárhæð er nemur mótvirði 30 milljóna ecu.“
     Við samþykktirnar bætist ný grein 6b, svohljóðandi:
     „Lán og ábyrgðir fyrir lánum sem veitt eru vegna fjárfestinga í Eystrasaltsríkjum má veita að fengnu samþykki stjórnarinnar sem sérstök fjárfestingarlán eða sérstakar ábyrgðir fyrir lánum. Aðildarríkin ábyrgjast að bæta bankanum tap af þessum sökum um allt að 100% að eftirfarandi fjárhæðum:
     Danmörk 6,180 milljónir ecu, Finnland 6,720 milljónir ecu, Ísland 0,3 milljónir ecu, Noregur 5,490 milljónir ecu og Svíþjóð 11,310 milljónir ecu. Greiðsla er gjaldkræf að ósk stjórnar í samræmi við samning sem gerður er milli bankans og einstakra aðildarríkja.“

Um 3. gr.


     Um 3. gr. þarf ekki að hafa mörg orð. Þær breytingar, sem þar er fjallað um, þ.e. breytingar á 2., 4. og 9. gr., eru í því fólgnar að evrópska mynteiningin ecu kemur í stað sérstakra dráttarréttinda Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, SDR, og skilgreiningin á mynteiningunni er byggð á skilgreiningu Evrópubandalagsins.
     Sökum vaxandi þýðingar evrópsku mynteiningarinnar á fjármálamörkuðum og fyrir viðskiptavini Norræna fjárfestingarbankans þykir nú rétt að gera þá breytingu að reikningar bankans miðist við hana í stað þess að miðast við SDR. Breytingin tekur gildi frá 1. mars sl. og verður breytingin á reikningum bankans miðuð við hlutfallið milli verðmætis SDR og ecu á þeim degi. Fyrst um sinn nær þessi breyting þó ekki til lána sem bankinn veitir vegna verkefnaútflutnings eða af svokölluðum BIL-reikningi, en aðildarríki bankans ábyrgjast að bæta bankanum tap af þeim lánum um allt að 90%.
     Greiðslur aðildarríkjanna vegna hækkunar á stofnfé bankans verða inntar af hendi í ecu.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.