Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 300 . mál.


821. Nefndarálit



um frv. til l. um brottfall laga nr. 67/1988, um bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku, sbr. lög nr. 30/1990.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur haft til meðferðar frumvarp ríkisstjórnarinnar um afnám viðskiptabanns við Suður-Afríku. Nefndin klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Minni hlutinn telur hins vegar ekki rétt að fella viðskiptabannið niður fyrr en samkomulag liggur fyrir um dagsetningu lýðræðislegra kosninga í Suður-Afríku. Minni hlutinn flytur á sérstöku þingskjali breytingu á 2. gr. frumvarpsins sem binda mundi gildistökuna við staðfest samkomulag um kjördag.
    Eftir vandlega athugun veturinn 1987–1988 var lagt til við Alþingi að bann yrði sett á viðskipti við Suður-Afríku. Var það samþykkt 20. maí 1988. Í þessu var fylgt fordæmi flestra vestrænna þjóða sem vildu með slíku sýna sterka andúð á stöðugum mannréttindabrotum hvíta minni hlutans.
    Viðskiptahagsmunir Íslendinga voru sáralitlir og vafalaust hefur viðskiptabann okkar haft mjög lítil eða engin efnahagsáhrif í Suður-Afríku. Viðskiptabannið var fyrst og fremst táknrænt og undirstrikaði sterka andstöðu við mannréttindabrotin og samúð með þeim sem þau þurfa að þola.
    Góðar breytingar hafa orðið í Suður-Afríku. Mjög erfiðar og vandasamar viðræður hafa um nokkurt skeið verið á milli hvíta minni hlutans og svarta meiri hlutans um afnám aðskilnaðarstefnunnar og lýðræðislegar kosningar sem hefur reyndar verið lofað. Dregið hefur úr mannréttindabrotum þó að ofbeldisverk séu enn daglegt brauð.
    Þessi þróun hefur orðið til þess að ýmis lönd hafa afnumið viðskiptabannið að stórum hluta. Enn gildir þó víðast bann við sölu olíu og vopna og við fjárfestingu. Önnur lönd telja ekki tímabært að afnema viðskiptabannið, t.d. Svíþjóð og Kanada.
    Á ráðstefnu Afríska þjóðarráðsins sem haldið var í Jóhannesarborg dagana 19. til 21. febrúar sl., þar sem mættir voru 650 erlendir gestir, var ályktað að ekki væri tímabært að afnema viðskiptabannið fyrr en „ . . .  tilkynnt hefði verið samþykkt dagsetning kosninga“.
    Að áliti minni hlutans verður stuðningi við mannréttindi ekki fórnað fyrir viðskiptahagsmuni. Því leggur minni hlutinn til að fylgt verði nýlegri samþykkt Afríska þjóðarráðsins.

Alþingi, 24. mars 1993.



Steingrímur Hermannsson,

Ólafur Ragnar Grímsson.

Páll Pétursson.


frsm.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.