Ferill 211. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 211 . mál.


869. Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Minni hluti nefndarinnar telur ekki tímabært að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Vinna ríkisstjórnarinnar við breytingarnar er illa undirbúin og aðstæður í þjóðfélaginu til þessara breytinga eru slæmar. Því leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar.
     Helstu rökin fyrir þessari tillögu minni hlutans eru eftirfarandi:
    Í 6. tölul. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga á sl. ári segir: „Ríkisstjórnin staðfestir að á samningstímanum verði ekki gerðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim lögum. Ekki verða gerðar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna á samningstímanum.“ Ef Alþingi samþykkir frumvarpið um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins væri verið að brjóta þetta ákvæði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, skuli ekki eiga við um þá starfsmenn sem boðið verður sambærilegt starf hjá Sementsverksmiðju ríkisins eftir að hún er orðin að hlutafélagi.
    Það er skoðun Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, sem á sínum tíma kom á fund iðnaðarnefndar, að 4. gr. frumvarpsins feli í sér óeðlilega skerðingu á lögbundnum starfskjörum þeirra starfsmanna sem búa við ákvæði 14. gr laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og sé af þeim ástæðum andstæð ákvæði 67. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta sjónarmið kemur einnig fram hjá Hróbjarti Jónatanssyni hæstaréttarlögmanni í bréfi sem hann sendi sjávarútvegsnefnd Alþingis 7. apríl sl. eftir að nefndin hafði óskað umsagnar hans um 7. gr. frumvarps til laga um að gera Síldarverksmiðjur ríkisins að hlutafélagi, en sú grein er samhljóða 4. gr. þessa frumvarps.
    Starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins hafa í atkvæðagreiðslu lýst sig andvíga frumvarpinu en iðnaðarnefnd sendi starfsmannafélagi Sementsverksmiðjunnar málið til umsagnar. Í atkvæðagreiðslum voru 124 á kjörskrá. Atkvæði greiddu 103 eða 83%. Atkvæði féllu þannig að hlynntir frumvarpinu voru 21, andvígir voru 78, auðir og ógildir voru 4.
    Bæjarstjórn Akraness lýsir sig andvíga frumvarpinu þar sem þær forsendur, sem bæjarstjórn Akraness á sínum tíma gaf sér fyrir stuðningi við frumvarpið, eru brostnar. Ályktun bæjarstjórnar Akraness frá 12. janúar 1993 fylgir með nefndaráliti þessu sem fylgiskjal.
    Sementsverksmiðja ríkisins býr við þær markaðsaðstæður að vera einokunarfyrirtæki. Ekki eru uppi hugmyndir um að koma á samkeppni í þessari atvinnugrein og því óeðlilegt að afhenda einkaaðilum slíkt einokunarfyrirtæki. Þegar fyrirtækið er komið í hendur einkaaðila geta opinberir aðilar engin áhrif haft á verð á þeim afurðum er fyrirtækið selur.
    Gert er ráð fyrir því í 8. gr. frumvarpsins að ríkissjóður geti ekki boðið hlutabréf Sementsverksmiðjunnar til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis. Þá hefur það komið fram hjá iðnaðarráðherra í svari við fyrirspurn á Alþingi að ríkisstjórnin ætlar sér að selja fyrirtækið.

Alþingi, 26. mars 1993.



Finnur Ingólfsson,

Páll Pétursson.

Svavar Gestsson.


frsm.



Þórhildur Þorleifsdóttir.




Fylgiskjal.


Ályktun bæjarstjórnar Akraness um stofnun


hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.


    Á fundi bæjarstjórnar Akraness 12. janúar sl. var m.a. fjallað um frumvarp til laga um að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi.
    Bæjarstjórn Akraness samþykkti eftirfarandi umsögn um frumvarpið:
    „Á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 15. janúar 1991 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
    „Bæjarstjórn Akraness vill taka það skýrt fram að ef ákvæðum frumvarpsins um aðstöðugjald eða eignarhald á hlutafé verður breytt, þá lýsir bæjarstjórn yfir eindreginni andstöðu við frumvarpið.“
    Umrætt frumvarp var ekki afgreitt á síðasta þingi en er nú aftur til umfjöllunar Alþingis. Hins vegar virðast báðar þær forsendur, sem taldar eru upp í ályktun bæjarstjórnar Akraness, hafa brostið. Í ræðum áhrifamikilla stjórnmálamanna hefur komið skýrt fram að þeir líti á breytingu Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag sem fyrsta skref til sölu verksmiðjunnar. Einnig hefur aðstöðugald af fyrirtækjum verið fellt niður.
    Að báðu þessu athuguðu mælist því bæjarstjórn Akraness til þess að frumvarpið verði ekki samþykkt.“