Ferill 525. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 525 . mál.


883. Tillaga til þingsályktunar



um ferðamálastefnu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að framfylgja ferðamálastefnu sem felur í sér eftirfarandi meginmarkmið:

Markmið:
 —    Að þróa og viðurkenna ferðaþjónustu sem þjóðhagslega mikilvægan og arðgæfan atvinnuveg.
 —    Að bæta lífskjör almennings með fjölbreyttu framboði ferða á hagstæðum kjörum bæði innan lands og til annarra landa.
 —    Að valda sem minnstri röskun á íslenskri náttúru og samfélagi með ferðamennsku.
 —    Að hafa jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð landsmanna.
 —    Að auka fjölbreytni atvinnulífs í landinu og nýta vaxtarmöguleika ferðaþjónustunnar.
—    Að renna stoðum undir þróun byggðar sem víðast á landinu.
—    Að stuðla að því að sem flestir geti notið ferðalaga og útivistar við góðar aðstæður.
 —    Að hvetja Íslendinga til ferðalaga um eigið land til að efla þekkingu sína á náttúru þess, sögu og menningu.

Leiðir:
    Til að ná ofangreindum markmiðum í ferðamálum telur Alþingi að m.a. sé þörf á eftirfarandi aðgerðum:

Þróun og fjármögnun ferðaþjónustu.
 —    Að ríkið leggi fram aukið fjármagn til sameiginlegrar yfirstjórnar og þróunar ferðamála, en leitað verði eftir fjárhagslegri þátttöku aðila í ferðaþjónustu til einstakra verkefna.
 —    Að samkeppnisaðstaða þeirra sem sinna ferðaþjónustu sé á jafnréttisgrundvelli, m.a. að því er varðar opinber gjöld.
—    Að vinna að greiðum samskiptum og miðlun upplýsinga milli þeirra sem starfa að ferðaþjónustu, bæði í þágu innlendra og erlendra ferðamanna.
 —    Að móta langtímaáætlun um ferðamál, þar á meðal um opinberar aðgerðir, til þess að sem best heildarsýn fáist yfir alla þætti ferðamála. Slík áætlun verði endurskoðuð með vissu millibili.
 —    Að koma á ráðgjafarþjónustu á sem flestum sviðum ferðamála, ekki síst fyrir þá sem ætla að hefja rekstur og fjárfesta í greininni.
 —    Að hvetja lánastofnanir til að veita aðstoð um rekstrar- og markaðsáætlanir vegna uppbyggingar í ferðaþjónustu.
 —    Að kanna möguleika á hliðstæðri fyrirgreiðslu og felst í afurðalánum vegna viðskipta í ferðaþjónustu.
 —    Að gæta þess að atvinnugreinin sjálf sé aflögufær um fjármagn til uppbyggingar og þróunar.
 —    Að ríki og sveitarfélög leggi fram fé til þátta sem varða farsæla þróun ferðamála til lengri tíma litið og ekki er líklegt að sinnt verði af einkaaðilum.
 —    Að ná fram sem bestri nýtingu á fjármagni sem lagt er í ferðaþjónustu, m.a. með því að lengja ferðamannatímann og samnýta húsnæði og samgöngutæki, þar á meðal með samvinnu við aðrar atvinnugreinar.
—    Að hlúa að þeim grunnþáttum í ferðaþjónustu sem fyrir eru á hverjum tíma og nauðsynlegt er að starfræktir séu allt árið.

Rannsóknir og markaðsstörf.
 —    Að efla rannsóknir á sviði ferðamála, þróa aðferðir til að meta árangur af aðgerðum og miðla upplýsingum um niðurstöður til fyrirtækja.
 —    Að auka tölfræðilega heimildasöfnun er varpi ljósi á þýðingu ferðaþjónustunnar fyrir efnahags- og atvinnulíf þjóðarinnar, svo og um samkeppnisstöðu hennar og rekstrarskilyrði á hverjum tíma.
—    Að greina sem best milli ferðatilefna, svo sem viðskiptaferða, funda- og ráðstefnuhalds, orlofsdvalar og skemmtiferða vegna markaðssetningar og skipulags innan ferðaþjónustunnar.
 —    Að móta langtímastefnu um markaðsstörf og kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi og við val á markaðssvæðum.
—    Að leita eftir samvinnu við aðrar atvinnugreinar um að kynna land og þjóð.
 —    Að auka samstarf ferðamálaaðila og fjölmiðla, m.a. um að flytja fréttir og upplýsingar til erlendra ferðamanna á meðan þeir dvelja hérlendis.
—    Að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu á sviði ferðamála og fylgjast með þróun ferðamennsku um víða veröld.

Umhverfisvernd.
 —    Að líta á það sem grundvallaratriði við skipulag ferðamála og rekstur ferðaþjónustu að vernda þurfi náttúru landsins og umhverfi. Í þessu skyni verði tryggð náin samvinna við stjórnvöld skipulags- og umhverfismála.
 —    Að stuðla að því með skipulagi ferða og samgöngum að skemmtiferðafólk dreifist sem mest um landið.
—    Að skipuleggja aðgang að ferðamannastöðum og svæðum þar sem hætta er á of miklum ágangi og umhverfisspjöllum.
 —    Að gera hið fyrsta skipulag um landnotkun á hálendi og annars staðar í óbyggðum og koma á friðlýsingu að náttúruverndarlögum á völdum svæðum.
 —    Að móta stefnu um vegakerfi og umferð í óbyggðum sem miði í senn að náttúruvernd og að greiða fyrir ferðalögum til valinna svæða samkvæmt nánara skipulagi.
—    Að gera stórátak í sorphirðu og hreinlætisaðstöðu á ferðamannastöðum og tryggja fjármagn til slíkra aðgerða.
 —    Að leggja göngustíga og bæta upplýsingar um gönguleiðir, reiðleiðir og skoðunarverða staði.
 —    Að samvinna sé höfð við leiðsögumenn, landverði og fararstjóra um umhverfisvernd.

Hagstæður viðskiptajöfnuður.
 —    Að auðvelda Íslendingum að ferðast innan lands og stuðla að komu erlendra ferðamanna til Íslands eftir því sem samrýmst getur þjóðhagslegum markmiðum og umhverfisvernd.
 —    Að haga skattlagningu og verðlagningu í ferðaþjónustu hliðstætt því sem gerist í útflutningsgreinum og tryggja að atvinnugreinin sé samkeppnisfær í sem flestu tilliti.
—    Að leitast verði við að lækka innlenda kostnaðarliði vegna ferðaþjónustu, ekki síst verð á matvælum.
 —    Að skilgreina þá þætti sem styrkt geta stöðu Íslands sem ferðamannalands í augum heimamanna og útlendinga og vanda þær áherslur sem líklegar eru til að skila árangri.

Byggðaþróun og ferðaþjónusta.
 —    Að bæta skipulag ferðamála á landsbyggðinni, m.a. með því að efla þar miðstöðvar fyrir ferðaþjónustu og tryggja að ferðamálafulltrúar starfi í hverjum landshluta.
 —    Að efla svæðisbundna samvinnu innan landshluta um ferðaþjónustu og kynningu, m.a. með aðild sveitarfélaga og samtaka þeirra.
 —    Að haga samgöngum, miðlun upplýsinga og uppbyggingu í ferðaþjónustu þannig að ferðafólk dreifist sem víðast.
 —    Að varðveita sögulegar minjar í landinu og gera ferðafólki kleift að kynnast menningu og atvinnuháttum að fornu og nýju.
 —    Að vanda til kynningarefnis fyrir ferðamenn í máli og myndum um landið allt og einstaka landshluta og byggðarlög.
 —    Að veita áhugafélögum á sviði ferðamála og björgunarstarfa stuðning af hálfu hins opinbera og tryggja sem best tengsl þeirra innbyrðis og við aðra aðila í ferðaþjónustu.

Jafnrétti og neytendavernd.
 —    Að bæta aðstöðu fatlaðra til ferðalaga og aðgang þeirra að þjónustu sem almennt er í boði.
—    Að auðvelda aðgang sem flestra Íslendinga að orlofsdvöl við góðar aðstæður.
 —    Að bæta öryggi ferðamanna í byggð og óbyggð með leiðbeiningum, skipulagi björgunarmála og tryggingum.
 —    Að hafa sem fjölbreytilegast framboð af gististöðum og annarri þjónustu.
 —    Að miðlun upplýsinga til ferðafólks uppfylli kröfur um góða þjónustu og þær séu samræmdar og áreiðanlegar.
Fræðsla og menntun.
 —    Að auka þekkingu og færni þeirra sem vinna að ferðamálum með samræmdu framboði á námi sem tengist ferðaþjónustu, svo og þjálfun og eftirmenntun. Stuðlað verði að sem bestri samvinnu skóla og fyrirtækja í ferðaþjónustu.
 —    Að skólar efni í auknum mæli til skoðunar- og námsferða innan lands í tengslum við kennslu í náttúrufræði, sögu og bókmenntum.
 —    Að sett verði á fót fræðsluráð ferðaþjónustu á framhaldsskólastigi samkvæmt lögum um framhaldsskóla og samin námsskrá vegna fræðslu í ferðaþjónustu.
 —    Að styðja starfsemi áhugafélaga á sviði ferðamála sem láta sig varða fræðsluferðir innan lands.


Greinargerð.


     Tillaga þessi var áður flutt sem stjórnartillaga á 112. og 113. löggjafarþingi og var hún hluti af stefnumörkun og viðamiklu starfi að ferðamálum sem unnið var að á því kjörtímabili. Samtímis var futt frumvarp til laga um ferðaþjónustu sem einnig er endurflutt nú af sama þingmanni. Þar er í greinargerð ítarlega rökstutt hvers vegna nú er gripið til þess ráðs til að koma málefnum ferðaþjónustunnar á dagskrá, að endurflytja þessi mál og vísast til þess. Tillögunni fylgdi eftirfarandi greinargerð á sínum tíma:


..........




    Um greinargerð þingsályktunartillögunnar ásamt fylgiskjölum vísast til samhljóða athugasemda og fylgiskjala á þskj. 177, 164. mál 113. löggjafarþings, bls. 1853–1942 í A-deild Alþt. 1990–91.