Ferill 567. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 567 . mál.


934. Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og lýðveldisins Póllands.

(Lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992–93.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og lýðveldisins Póllands sem gerður var í Genf 10. desember 1992.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Á árinu 1990 var ákveðið að hefja samningaviðræður um fríverslunarsamninga milli EFTA-ríkjanna og Póllands, Ungverjalands, Tékklands og Slóvakíu. Samningaviðræðum við öll þessi ríki er nú lokið með gerð fríverslunarsamninga. Samningurinn við Tékkland og Slóvak­íu tók gildi gagnvart Íslandi 1. janúar 1993 og samningurinn við Ungverjaland verður fljótlega lagður fyrir Alþingi. Samningurinn um fríverslun milli EFTA-ríkjanna og Póllands var undirrit­aður 10. desember 1992. Samningurinn er birtur sem fskj. I með þingsályktunartillögu þessari. Í fskj. II er birt bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins og í fskj. III er að finna tvíhliða landbúnaðarsamning Íslands og Póllands.
    Lagabreytingar vegna þessa samnings eru ekki nauðsynlegar, sbr. heimild í 6. gr. tollalaga til að láta koma til framkvæmda ákvæði fríverslunar- og milliríkjasamninga.
    Eitt af markmiðum fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Mið- og Austur-Evrópuríki er að efla efnahag ríkjanna, opna þeim greiðari leið að Vestur-Evrópumarkaðinum og tryggja þeim þátttöku í evrópskri efnahagssamvinnu. Með samningnum vilja EFTA-ríkin stuðla að uppbygg­ingu efnahags- og viðskiptasamvinnu í Evrópu á breiðari grundvelli en áður.
    Fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna ber að skoða með hliðsjón af þeim samningum sem Evrópubandalagið (EB) gerði samhliða þeim við ríki Mið- og Austur-Evrópu. Meðan á samn­ingaviðræðunum stóð héldu fulltrúar EFTA og Evrópubandalagsins með sér óformlega fundi þar sem rædd voru vandamál sem upp komu í tengslum við samningaviðræður um fríverslunar­samninga EFTA og samstarfssamninga EB við sömu ríki.
    Samningurinn er að mestu byggður á fríverslunarsamningum milli einstakra EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins frá 1972–1973, þ.e. hann tryggir fríverslun með iðnaðarvörur (25.–97. kafla í samræmdri vörulýsinga- og vöruheitaskrá), að undanskildum þeim vörum sem skráðar eru í I. viðauka samningsins. Jafnframt nær hann til ákveðinna vara sem unnar eru að hluta til eða öllu leyti úr landbúnaðarhráefnum. Þessar vörur eru sérstaklega tilgreindar og nánar er kveðið á um meðferð þeirra í bókun A við samninginn. Sams konar fyrirkomulag hefur gilt í öðrum fríverslunarsamningum.
    Frávik í þessum samningi frá fríverslunarsamningum einstakra EFTA-ríkja við Evrópu­bandalagið frá 1972–1973 eru að nokkur ákvæði í samningnum við Pólland eru færð til nútímalegra horfs. Hér er um að ræða ríkiseinkasölu (11. gr.), opinber innkaup (16. gr.), hugverkarétt­indi (17. gr.) og ríkisaðstoð (18. gr.). Jafnframt nær samningurinn til fisks og fiskafurða, sbr. nánari umfjöllun um 2. gr. og II. viðauka hér að neðan.
    Varðandi viðskipti með landbúnaðarafurðir lýsa samningsríki sig reiðubúin, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samfelldri þróun viðskipta með land­búnaðarafurðir (13. gr. ). Til þess að ná þessu markmiði hafa EFTA-ríkin gert tvíhliða samninga við Pólland til að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarvörur. Hvað Ísland varðar er hér um að ræða vörur sem ekki eru framleiddar hér á landi, einkum ávexti. Að öðru leyti fellur landbún­aður fyrir utan samninginn.
    Ein leið til að leggja mat á fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Pólland er að skoða þau markmið sem samningsaðilar settu sér með þessari samningsgerð. Samningnum er ekki aðeins ætlað að örva viðskipti og efnahagssamvinnu heldur er einnig vonast til að hann geti orðið lóð á vogarskál þeirra efnahagslegu umbóta og breytinga yfir í markaðshagkerfi sem nú standa yfir í Póllandi. Þess vegna buðu EFTA-ríkin Póllandi hraðari tollaniðurfellingu og afnám magntak­markana í viðskiptum, en Pólland gat boðið á móti í viðskiptum sínum við ríki EFTA.
    EFTA-ríkin afnema alla innflutningstolla á vörum sem upprunnar eru í Póllandi og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif frá og með gildistöku samningsins, að undanskildum nokkrum við­kvæmum vörum sem tilgreindar eru í II. viðauka þar sem ríkin hafa lengri aðlögunartíma til að afnema tollana. Hér er einkum um að ræða ýmsar textílvörur. Ísland hefur ekki sérstakan aðlög­unartíma hvað þessa tolla varðar. Aðlögunartími Póllands er til ársloka 2001. Á þeim tíma mun Pólland smám saman fella niður innflutningstolla í viðskiptum við EFTA-ríkin, sbr. 3. mgr. 4. gr. og IV.–V. viðauka. Að þeim tíma liðnum verður komið á fullri fríverslun milli ríkjanna. Hvað snertir fisk og fiskafurðir mun Pólland fella niður innflutningstolla á þeim vörum um tíu prósentustig við gildistöku samningsins, þ.e. 15% toll í 5%, 20% í 10% o.s.frv., en afganginn á sama aðlögunartíma og við innflutning iðnaðarvara.
    Með fríverslunarsamningnum verður komið á sameiginlegri nefnd með þátttöku allra samn­ingsaðila sem hefur það hlutverk að hafa umsjón og eftirlit með framkvæmd samningsins. Nefndin kemur saman eigi sjaldnar en einu sinni á ári.
    Sérstök bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins hefur verið gerð milli samningsaðila. Í henni eru ýmis túlkunaratriði og útfærsla á samningnum sem ekki þótti viðeigandi að hafa í megintexta hans.
    Viðskipti við Pólland fram til ársins 1990 voru byggð á jafnkaupasamningi og var inn- og út­flutningur nokkur síðustu árin fram til þess tíma um og yfir einn milljarður. Helstu útflutnings­vörur voru síld, fiskimjöl og ullarvörur og innflutningur skipasmíði og skipaviðgerðir og breyt­ingar. Þannig var útflutningur 1989 samtals að verðmæti 1.122,5 millj. kr., þar af mjöl 1.057,5 millj. kr., og innflutningur 1989 samtals að verðmæti 1.313,9 millj. kr., þar af skip og bátar 996,4 millj. kr.
    Á árinu 1990 var verðmæti útflutnings aðeins um 185,0 millj. kr., 193,0 millj. kr. 1991 og 25,5 millj. kr. 1992. Munar þar mestu að á þessum árum er enginn útflutningur á fiskimjöli til Póllands vegna gjaldeyrisskorts. Gátu Pólverjar því ekki greitt það verð sem sett var upp.
    Innflutningur hélst nær óbreyttur árið 1990 en dróst saman niður í 336,4 millj. kr. 1991 og 378,5 millj. kr. 1992. Skipasmíði, viðgerðir og breytingar vega hér þyngst eins og áður.
    Vonast er til að hér sé einungis um tímabundið ástand að ræða og að viðskipti ríkjanna geti aukist aftur í náinni framtíð.


Vöruviðskipti Íslands og Póllands


1989, 1990, 1991 og 1992.



(Töflur ekki tiltækar. Athugið pdf-skjalið)





Athugasemdir við samninginn.



Um inngangsorð samningsins og 1. gr. um markmið.


    Inngangsorð samningsins eru almenns eðlis. Þau kveða ekki skýrt á um skuldbindingar eða réttindi en geta verið þáttur í túlkun samningsins. Almennt orðalag er í 1. gr. um markmið samn­ingsins sem er að efla samvinnu EFTA-ríkjanna og Póllands, einkum með því að auka gagn­kvæm viðskipti, samfellda þróun efnahagssamskipta og skapa eðlilegar forsendur fyrir sam­keppni og afnema viðskiptahöft. Orðalagið á að mestu rætur sínar að rekja til 1. gr. fríverslunar­samninga EFTA-ríkjanna og EB. Jafnframt er í þessari grein kveðið á um að Pólland muni smám saman koma á fríverslun á aðlögunartímabili til 31. desember 2001. Í 3. mgr. 4. gr. og í IV.–V. viðauka er þetta ákvæði nánar útfært.

2. gr.


Um gildissvið samningsins. I. og II. viðauki og bókun A.


    Samningurinn nær til vöruviðskipta milli einstakra EFTA-ríkja og Póllands en ekki slíkra viðskipta milli EFTA-ríkjanna. Allar iðnaðarvörur (kaflar 25–97 í tollskránni) falla undir samninginn með þeim fáeinu undantekningum sem tilgreindar eru í I. viðauka. Þessar undanþágur endurspegla samsvarandi ákvæði í fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna við EB. Ísland hefur enga sérstöðu varðandi þennan viðauka. Hér er um að ræða nokkrar vörur, svo sem albúmín­kennd efni, umbreytta sterkju, lím og ensín úr 35. kafla, ýmsar kemískar vörur úr 38. kafla, kork­ur og vörur úr korki úr 45. kafla og aðrar spunatrefjar úr jurtaríkinu, pappírsgarn og ofinn dúkur úr pappírsgarni úr 53. kafla.
    Í bókun A með samningnum, sbr. 2. gr. (b), eru tilgreindar þær vörur unnar að hluta eða öllu úr landbúnaðarhráefnum sem falla undir samninginn og á hvern hátt þær gera það. Önnur EFTA-ríki en Ísland hafa aðeins heimild til að beita verðjöfnunargjöldum við innflutning þess­ara vara. Ísland hefur nokkra sérstöðu, sbr. 2. gr. 2. tölul. bókunar A og töflu VI við hann. Tafla VI samsvarar töflu 2, listum 1 og 2 í viðauka 2 í fríverslunarsamningi Íslands og EB ef undan er skilið að fáeinir vöruflokkar hafa verið teknir út. Íslandi er ekki aðeins heimilt að beita tollum og fjáröflunartollum í samræmi við töflu VI heldur jafnframt heimilt að taka upp verðjöfnunargjöld á þessar vörur. Með þessu heimildarákvæði er einkum haft í huga að með EES-samningnum verður Ísland að taka upp sama kerfi, þ.e. verðjöfnunargjöld, og önnur aðildaríki EES-samn­ingsins beita.
    Samkomulag EFTA-ríkjanna og Póllands um fisk og fiskafurðir er útlistað í II. viðauka, sbr. 2. gr. (c). Samkvæmt 3. tölul. 1. gr. II. viðauka á Pólland að lækka grunntolla um tíu prósentustig við gildistöku samningsins, þ.e. ef tollar eru 10% lækka þeir í 0% ef 15% í 5% o.s.frv. Tollar, sem eftir standa, eiga að lækka samkvæmt því sem gildir fyrir iðnaðarvörur skv. 3. mgr. 4. gr., þ.e. í fimm jöfnum áföngum frá og með 1. janúar 1995, þannig að full fríverslun verði komin á 31. desember 2001.
    Frjáls innflutningur frá Póllandi til Austurríkis, Liechtenstein og Sviss nær ekki til alls þess fisks og fiskafurða, sem falla undir frjáls viðskipti milli EFTA-ríkjanna. Að öðru leyti er þetta samkomulag byggt á fyrirkomulagi um fríverslun á sjávarafurðum innan EFTA.

3. gr.


Um upprunareglur og samvinnu um tollaframkvæmd. Bókun B.


    Í 3. gr. og bókun B samningsins er kveðið á um upprunareglur og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda um tollaframkvæmd. Reglur þessar styðjast við samsvarandi reglur í fríverslunar­samningum EFTA-ríkjanna við EB frá 1972–1973 og EFTA-samningnum.

4. gr.


Um innflutningstolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif. III.–V. viðauki.


    Við gildistöku samningsins skulu EFTA-ríkin afnema alla innflutningstolla og gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif, á þeim vörum er falla undir samninginn að undanskildum þeim sem til­greindar eru í III. viðauka. Tollar á þeim vörum skulu afnumdir í áföngum í samræmi við ákvæði viðaukans. Hér er um að ræða nokkrar vörur upprunnar í Austurríki, Noregi og Svíþjóð.
    Á móti skuldbindur Pólland sig til að afnema, á aðlögunartímabili fram til 31. desember 2001, alla innflutningstolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.
    Aðalreglan er sú að Pólland muni afnema slíkar hindranir í fimm jöfnum áföngum frá og með 1. janúar 1995. Frá þeirri aðalreglu er það frávik að Pólland mun afnema tolla og önnur gjöld sem hafa samsvarandi áhrif við gildistöku samningsins á þeim vörum sem tilgreindar eru í V. viðauka og hraðari tollaniðurfelling er á vörum sem tilgreindar eru í viðauka V. Tímaáætlun nið­urfellingarinnar er tilgreind í viðaukanum. Jafnframt mun Pólland, eins og áður er vikið að, fella slíkar hindranir á fisk og fiskafurðum um tíu prósentustig strax við gildistöku samningsins. Í 1. gr. bókunar um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins milli EFTA-ríkjanna og Póllands er ákveðið að samþykki Pólland að hraða tollaniðurfellingu gagnvart EB beri að taka það mál upp í sameiginlegu nefndinni með það fyrir augum að ná sambærilegri tilslökun í við­skiptum milli EFTA-ríkjanna og Póllands.

5. gr.


Um grunntolla.


    Grunntollurinn, bæði gagnvart EFTA-ríkjunum og Póllandi, er bestukjara tollurinn sem í gildi var 29. febrúar 1992.

6. gr.


Um fjáröflunartolla. Viðauki C.


    Við gildistöku samningsins skulu allir fjáröflunartollar við innflutning vara er falla undir samninginn afnumdir. Undanþágur frá þessu eru í viðauka C. Undanþágurnar varða Ísland, Liechtenstein og Sviss. Undanþágulisti Íslands er samhljóða gildandi lista í fríverslunarsamn­ingnum við EB. Í 9. gr. bókunar um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins seg­ir að réttur Íslands til að leggja áfram á fjáröflunartolla, eins og rakið er í töflu 1 bókun C í sam­ræmi við 5. gr., skuli ekki leiða til lakari kjara gagnvart Póllandi, að því er varðar vörur sem til­greindar eru í töflunni, en Ísland veitir gagnvart Evrópubandalaginu.

7. gr.


Um útflutningstolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif. VI. viðauki.


    Við gildistöku samningsins skulu EFTA-ríkin afnema alla útflutningstolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif. Í VI. viðauka eru tilgreindar undanþágur frá þessu fyrir Ísland, þ.e. að taka megi upp útflutningsgjöld á ákveðnar sjávarafurðir. Heimildin varðandi Íslands er sú sama og í fríverslunarsamningnum við EB. Póllandi er heimilt að afnema útflutningstolla sína í áföngum á aðlögunartíma fram til 1. janúar 1997.

8. gr.


Um magntakmarkanir á innflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif.



VII. og VIII. viðauki.


    Við gildistöku samningsins skulu magntakmarkanir á innflutning til EFTA-ríkjanna afnumdar. Undanþáguheimildir eru þó frá þessu banni, sbr. 8. gr. 2. tölul. og VII. viðauka. Undanþágurnar varða Austurríki, Ísland og Noreg. Íslandi er heimilt að hafa innflutningstakmarkanir á jarðolíu, sópum og burstum eins og tilgreint er í VII. viðauka, 2. tölul. Nú hafa viðskipti með olíu og olíuvör­ur verið gefin frjáls og er þessi heimild hvað þær vörur snertir því nú í raun óþörf. Hvað snertir sópana og burstana er verið að vernda framleiðslu á vegum Blindravinafélagsins líkt og gert var í fríverslunarsamningnum við EB 1973 og EES-samningnum. Póllandi ber að afnema innflutnings­takmarkanir í samræmi við ákvæði og tímaáætlun sem kveðið er á um í VIII. viðauka.

9. gr. IX. og X. viðauki.


Um magntakmarkanir á útflutning og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif.


    Við gildistöku samningsins skulu magntakmarkanir á útflutningi frá EFTA-ríkjunum afnumdar að öðru leyti en kveðið er á um í IX. viðauka. Undanþáguheimildirnar varða ekki Ísland.
    Póllandi ber að afnema magntakmarkanir frá Póllandi að öðru leyti en kveðið er á um í X. við­auka.     

10. gr.


Um almennar undantekningar.


    Í samningnum er ákvæði sem útilokar ekki að komið sé á banni eða takmörkunum á innflutningi, útflutningi eða umflutningi ef aðgerðir þessar réttlætast af ástæðum sem varða almennt siðgæði, allsherjarreglu, almannaöryggi, líf og heilsu manna og dýra, plantna og umhverfi þeirra, verndun þjóðarverðmæta sem hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi og verndun hugverka. Slíkum bönnum og takmörkunum má þó ekki beita til gerræðislegrar mismununar eða til að leggja dulin höft á viðskipti milli samningsaðilanna. Slíkt ákvæði er í GATT-samningnum (20. gr.), EES-samn­ingnum (13. gr.), EFTA-samningnum (12. gr.) og í flestum fríverslunarsamningum.

11. gr.


Um ríkiseinokun. Viðauki D.


    Ákvæðið um ríkiseinokun er samhljóða 16. gr. EES-samningsins sem endurspeglar aftur orðalag 37. gr. Rómarsamningsins. Hér er ekki um að ræða bann við ríkiseinokun, heldur er kveðið á um að tryggja verði að ríkiseinkasala geri ekki greinarmun á grundvelli ríkisfangs hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara.
    Í bókun 8 við EES-samninginn er tveggja ára aðlögunartími vegna Áburðarverksmiðju ríkisins. Í viðauka D við samninginn við Pólland segir að 11. gr. samningsins um ríkiseinokun á Íslandi á áburði gildi einungis að því marki að Ísland verði að uppfylla samsvarandi skuldbindingar vegna EES-samningsins.

12. gr.


Upplýsingaskipti vegna draga að tæknilegum reglugerðum. XI. viðauki.


    Til að tryggja upplýsingar og skýrleika varðandi breytingar á tæknilegum reglugerðum eru settar í samninginn ákveðnar reglur um tilkynningar um drög og breytingar á þessum reglum. Þetta ákvæði samsvarar því fyrirkomulagi sem gildir meðal EFTA-ríkja. Í XI. viðaukanum er nánar greint frá aðferð þeirri sem beita skal til að tilkynna um drög að tæknilegum reglugerðum. Veitt er tveggja ára aðlögunartími til að koma þessu ákvæði í framkvæmd. Sameiginlegu nefndinni er heimilt að framlengja aðlögunartímann.

13. gr.


Um viðskipti með landbúnaðarvörur.


    Í inngangi er gerð grein fyrir þessu ákvæði og er vísað til þeirrar umfjöllunar.

14. gr.


Um innlendar álögur.


    1. mgr. þessarar greinar felur í sér að forðast eigi að mismuna innlendum og innfluttum vörum með óbeinni skattlagningu eða gjaldtöku. Stjórnvöld hafa fullt svigrúm til þess að haga skattheimtu með hvaða hætti sem er svo fremi hún leggist með jöfnum þunga á innlenda og erlenda framleiðslu. Með 2. mgr. er verið að tryggja að ekki sé mismunað með því að endurgreiða meiri skatta en þá sem lagðir hafa verið á vörur og með því móti niðurgreiða útflutning til annars samningsríkis. Sams kon­ar ákvæði er í 19. gr. fríverslunarsamnings Íslands og EB og í 14.–15. gr. EES-samningsins.

15. gr.


Um greiðslur.


    Ákvæði þetta er spegilmynd 19. gr. fríverslunarsamnings einstakra EFTA-ríkja og EB. Það felur í sér skv. 1. mgr. að engin höft megi leggja á greiðslur sem fara fram vegna vöruviðskipta milli EFTA-ríkjanna og Póllands né á yfirfærslu á þessum greiðslum til samningsríkja þar sem kröfuhafi er búsettur. Jafnframt ber samningsríkjum, sbr. 2. mgr., að forðast að takmarka með ákvæðum um gjaldeyrisviðskipti eða fyrirkomulag afgreiðslu, veitingu, endurgreiðslu eða móttöku lána til skamms eða meðallangs tíma. Pólland hefur tímabundna og takmarkaða undanþágu frá 2. mgr. þessa ákvæðis sökum erfiðleika vegna greiðslujafnaðar.

16. gr.


Um opinber innkaup.


    Samningsríkin telja það vera æskilegt og mikilvægt markmið samnings þessa að auka frjálsræði í innkaupum hins opinbera. Frá og með gildistöku samningsins skulu samningsaðilar veita hver öðr­um aðgang að útboðsgerð við opinber innkaup sín í samræmi við GATT-samninginn um opinber innkaup frá 1979 og eins og honum var breytt 1987. Ætlunin er að eftir gildistöku samningsins verði opinber innkaup til umræðu í sameiginlegu nefndinni með það markmið í huga að opna frekari markaði samningsaðila fyrir opinberum innkaupum og ber samningsríkjum stig af stigi að aðlaga reglur, skilyrði og aðferðir, sem þau nota við opinber útboð, til að tryggja skýrleika í gerð samninga og koma í veg fyrir mismunun. Viðurkennt er að Pólland eigi að njóta þverrandi forskots í samskipt­um ríkjanna á sviði opinberra innkaupa, en fullt jafnvægi skuli nást eigi síðar en fyrir lok aðlögunar­tímans.

17. gr.


Um vernd hugverka. XII. viðauki.


    Samningurinn á að veita og tryggja nægilega og árangursríka vernd hugverkaréttinda án mis­mununar 31. desember 1996, þar með taldar ráðstafanir til að vernda þessi réttindi gegn brotum, eins og afritun og þjófnaði. Í XII. viðauka eru taldir upp ýmsir marghliða samningar á þessu sviði. Samn­ingsaðilar eru sammála um að fara efnislega eftir ákvæðum þeirra.

18. gr.


Um reglur um samkeppni milli fyrirtækja.


    Ákvæði þetta má rekja til 23. gr. fríverslunarsamninga einstakra EFTA-ríkja við EB sem endur­speglar meginreglur 85.–86. gr. Rómarsamningsins. Samkvæmt 12. gr. bókunarinnar um framkvæmd ýmissa þátta samningsins fær Pólland þriggja ára aðlögun frá gildistöku samnings til að setja nauðsynleg lagaákvæði til að framfylgja þessu ákvæði.

19. gr.


Um ríkisaðstoð. XIII. og XIV. viðauki.


    Ríkisaðstoð, sem raskar eða raskað gæti samkeppni með því að veita einstökum fyrirtækjum eða einstakri framleiðslugrein forréttindi, samræmist ekki framkvæmd samningsins að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkjanna og Póllands. Í XIII. viðauka er nánari útfærsla á þessu ákvæði. Viðaukinn endurspeglar túlkunarákvæðin sem eru í gildi meðal EFTA-ríkjanna og útfærir nánar 13. gr. EFTA-samningsins. Í viðaukanum eru sett fram dæmi um það hvaða ríkisað­stoð telst ekki brot á 19. gr. samningsins við Pólland, dæmi um hvað telst brot á henni og að jafnaði brot á henni. Póllandi er veitt heimild til 31. desember 1996 til að veita umfangsmeiri aðstoð en EFTA-ríkjunum er heimilt til að efla efnahagsumbætur og þróun í landinu. Nánari útfærsla er á þessari tímabundnu heimild í 14. gr. bókunarinnar um framkvæmd ýmissa þátta samningsins.
    Til að tryggja skýrleika í meðferð ríkisaðstoðar skulu samningsríki skiptast á upplýsingum eins og kveðið er á um í XIV. viðauka og nánar verður útfært af sameiginlegu nefndinni innan eins árs frá gildistöku samningsins.

20. gr.


Um undirboðstolla.


    Samkvæmt þessu ákvæði geta samningsríki, verði þau vör við að beitt sé undirboðum í viðskipt­um sem heyra undir samninginn, gripið til viðeigandi gagnráðstafana í samræmi við VI. gr. Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá aðferð sem tilgreind er í 25. gr. samningsins við Pólland.

21. og 23.–25. gr.


Um neyðaraðgerðir vegna útflutnings tiltekinna vara, um endurútflutning


og alvarlegan vöruskort og um erfiðleika vegna greiðslujafnaðar.


Aðferð við beitingu öryggisráðstafana.


    Í fríverslunarsamningum er að jafnaði öryggisákvæði sem gera það mögulegt að fella úr gildi tímabundið hluta samninganna ef þar til greindir ófyrirsjáanlegir erfiðleikar koma í ljós. Í 25. gr. er samkomulag um aðferð við beitingu öryggisráðstafana. Áður en hafist er handa við að beita þeim öryggisráðstöfunum sem þar eru tilgreindar skulu samningsríkin leita lausnar á ágreiningi sín í milli með beinu samráði og tilkynna öðrum samningsríkjum þar um og sameiginlegu nefndinni og láta þeim í té allar upplýsingar sem máli skipta. EFTA-ríkin og Pólland eru sammála um að heimilt sé að grípa til viðeigandi aðgerða skv. 25. gr. ef skilyrðum öryggisákvæðanna í 21. og 23.–25. gr. er fullnægt eða samningsríki uppfylla ekki samningsskyldu sína í samræmi við 18.–20. og 31. gr.
    Í framkvæmd hafa slík öryggisákvæði verið lítið sem ekkert notuð í samskiptum EFTA-ríkjanna né samskiptum þeirra við EB.

22. gr.


Endurskipulagning.


    Til að styðja við bakið á Póllandi við að koma á markaðshagkerfi er í samningnum ákvæði um endurskipulagningu sem heimilar Póllandi við sérstök skilyrði, á aðlögunartímabili sem stendur í fimm ár, að hækka tolla á innfluttar iðnaðarvörur til verndar innlendri framleiðslu. Ráðstöfunum þessum má eingöngu beita til aðstoðar iðnaði á frumstigi eða einstökum greinum atvinnulífsins sem verið er að endurskipuleggja eða sem standa frammi fyrir alvarlegum erfiðleikum, einkum þegar þessir erfiðleikar valda mikilvægum félagslegum vandkvæðum. Tollar, sem Póllandi er heimilt að grípa til á innflutning með slíkum ráðstöfunum, mega ekki vera hærri en 25% af verðmæti vörunnar. Verðmæti varanna, sem þessar ráðstafanir taka til, skal ekki nema meira en 15% alls árlegs innflutn­ings iðnaðarvara frá EFTA-ríkjunum.
    Póllandi er óheimilt að beita þessum ráðstöfunum gagnvart vöru sem hefur verið án tolla, gjalda sem hafa samsvarandi áhrif eða magntakmarkana í þrjú ár eða lengur.

26. gr.


Um undanþágur vegna öryggishagsmuna.


    Samningsaðilar geta gert ráðstafanir vegna öryggishagsmuna samkvæmt skilyrðum þessarar greinar. Sams konar ákvæði er að finna í 21. gr. fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við EB og í 23. gr. EES-samningsins.

27.–28. gr.


Um skipun og störf sameiginlegu nefndarinnar.


    Við gildistöku samningsins er sett á stofn sameiginleg nefnd. Hlutverk hennar verður að fram­kvæma samninginn. Fulltrúar allra samningsríkja eiga sæti í henni. Ákvarðanir hennar eða tillögur eru teknar með samhljóða samþykki allra. Nefndin kemur saman eins oft og nauðsyn krefur en eigi sjaldnar en einu sinni á ári og getur hún ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa, sem hún telur þörf á, til aðstoðar við að inna skyldu sína af hendi.

29.–30. gr.


Um þróunarákvæði.


    Samkvæmt 29. gr. getur samningsríki, þegar það telur það til framdráttar efnahag samningsríkja, þróað enn frekar þau samskipti sem til hefur verið stofnað með samningnum með því að láta þau ná til sviða sem hann tekur ekki til og sent hinum ríkjunum rökstudda beiðni þar um. Í 30. gr. er sérstakt þróunarákvæði varðandi þjónustu og fjárfestingu.

31. gr.


Uppfylling skuldbindinga.


    Samningsríki skulu gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að markmið samningsins náist og þau megi uppfylla skuldbindingar sínar sem í samningnum felast.

32. gr.


Um bókanir og viðauka.


    Bókanir og viðaukar með samningnum eru óaðskiljanlegir hlutar hans. Sameiginlega nefndin hefur vald til að breyta bókunum A og B og viðaukum samningsins með samhljóða samþykki allra samningsríkja. Um breytingar á megintexta samningsins gildir 36. gr. hans.

33. gr.


Viðskipti sem heyra undir aðra samninga.


    Samningur þessi gildir um viðskipti milli einstakra EFTA-ríkja og Póllands en ekki um viðskipti milli einstakra EFTA-ríkja.
    Í þessari grein er sérstaklega fjallað um tvíhliða samning Finnlands við Pólland frá 1976 sem mun gilda áfram á aðlögunartímabili.

34. gr.


Tollabandalög, fríverslunarsvæði og landamæraviðskipti.


    Samningurinn kemur ekki í veg fyrir að aðildarríki hans myndi tollabandalög, stofni fríverslun­arsvæði með öðrum ríkjum eða geri aðra samninga hafi þeir ekki neikvæð áhrif á viðskipti EFTA-ríkja og Póllands.

35. gr.


Um landsvæði það sem samningurinn gildir.


    Samningurinn tekur til landsvæða samningsríkjanna.

36. gr.


Um breytingar á samningnum.


    Breytingar á megintexta samningsins skulu lagðar fyrir samningsríkin til samþykktar og öðlast gildi þegar öll samningsríkin hafa samþykkt breytingarnar. Samþykktaskjölum skal koma í vörslu vörsluaðila.

37. gr.


Um aðild.


    Sérhvert ríki, sem aðild á að EFTA, getur gerst aðili að samningnum svo framarlega sem sameig­inlega nefndin samþykkir það samhljóða. Þetta á bæði við um núverandi og hugsanlega, nýja aðila að EFTA.

38. gr.


Um úrsögn og niðurfellingu samningsins.


    Sérhvert samningsríki getur dregið til baka aðild sína að samningnum með því að tilkynna það vörsluaðila skriflega. Úrsögnin tekur gildi sex mánuðum eftir að hún berst vörsluaðila. Ef Pólland eða öll EFTA-ríkin senda slíka tilkynningu um úrsögn fellur samningurinn úr gildi sex mánuðum eftir að slík úrsögn berst vörsluaðila frá Póllandi eða frá öllum EFTA-ríkjunum. Ef EFTA-ríki segir sig úr EFTA jafngildir það að aðild hans að þessum samningi falli niður frá þeim tíma sem úrsögn þess úr EFTA tekur gildi.

39. gr.


Gildistaka.


    Samningurinn öðlast gildi 1. apríl 1993 að því tilskildu að samningsríkin hafi afhent vörsluaðila, sem er Svíþjóð, fullgildingar- eða staðfestingarskjöl sín og að því tilskildu að Pólland sé eitt þeirra ríkja. Þegar um er að ræða samningsríki sem afhendir fullgildingar- eða staðfestingarskjal eftir 1. apríl 1993 öðlast samningurinn gildi á fyrsta degi annars mánaðar eftir að skjalið hefur verið afhent vörsluaðila.

40. gr.


Um vörsluaðila.


    Vörsluaðili samningsins er ríkisstjórn Svíþjóðar. Ákveðið var að Svíþjóð yrði vörsluaðili fyrir alla fríverslunarsamningana sem EFTA-ríkin standa að þar sem Svíþjóð er vörsluaðili EFTA-samn­ingsins, sbr. 39. gr. EFTA-samningsins.

Um bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins.


    Í bókuninni eru ýmis túlkunaratriði og útfærsla á samningnum sem ekki þótti viðeigandi að hafa í megintexta hans. Þegar hefur verið vikið að mörgum ákvæðum hans í umfjöllun um einstakar greinar samningsins hér að framan.

Landbúnaðarvörur: Tvíhliða samningur.


    Viðskipti með landbúnaðarvörur, sem falla undir 1.–24. kafla í samræmdu tollskránni (HS), voru tekin fyrir í tvíhliða samningaviðræðum milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og Póllands hins vegar. Í þessum tvíhliða viðræðum hefur ekki verið gert ráð fyrir því að breytingar verði á stefnu einstakra ríkja í landbúnaðarmálum. Því lýstu samningsaðilar sig reiðubúna, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmálum leyfir, að stuðla að samstilltri þróun viðskipta með landbún­aðarvörur. Í tvíhliða samningi Íslands og Póllands er eingöngu um að ræða niðurfellingu á tollum á vörum sem ekki eru framleiddar hér á landi, svo sem náttúrulegt hunang, laukur, belgávextir, spergill, ertur, belgaldin, heslihnetur, valhnetur og ýmsir ávextir.
    Með þessum tvíhliða landbúnaðarsamningi er einnig viðauki með þeim upprunareglum sem gilda munu um þær vörur sem tvíhliða samningurinn nær til.

Fylgiskjal I.

S A M N I N G U R


milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu


og lýðveldisins Póllands.



Formálsorð.



Lýðveldið Austurríki, lýðveldið Finnland, lýðveldið Ísland, furstadæmið Liechtenstein, konungs­ríkið Noregur, konungsríkið Svíþjóð, ríkjasambandið Sviss (hér eftir nefnd EFTA-ríkin)

og

lýðveldið Pólland (hér eftir nefnt Pólland),

sem vísa til ásetnings síns um að stuðla á virkan hátt að efnahagssamvinnu í Evrópu og lýsa sig til­búin til að leita sameiginlegra leiða og aðferða til að styrkja þá marghliða þróun,

með hliðsjón af yfirlýsingu sem undirrituð var af EFTA-ríkjunum og Póllandi í Gautaborg í júní 1990,

sem vísa til skuldbindinga sinna samkvæmt lokaákvörðun ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE) og Parísarsáttmála um hina nýju Evrópu og einkum til grundvallarreglna í loka­skjali RÖSE-ráðstefnunnar í Bonn um efnahagssamvinnu í Evrópu,

eru sannfærð um að fríverslunarsamningur þessi, ásamt samningum sem samningsríki gera við Evr­ópubandalögin, muni stuðla að því að mynda stærra og samstilltara fríverslunarsvæði í Evrópu og leggja þar með sitt af mörkum til efnahagssamvinna í Evrópu,

með hliðsjón af efnahagslegum og félagslegum mismun þeim sem ríkir milli EFTA-ríkjanna og Pól­lands, viðurkenna að markmið samningsins náist með beitingu viðeigandi ákvæða hans,

hafa einsett sér að afnema í áföngum allar hindranir á því sem næst öllum viðskiptum sínum í samræmi við Hið almenna samkomulag um tolla og viðskipti,

lýsa sig reiðubúin til að skoða möguleika á að þróa og efla tengsl sín svo þau nái til sviða sem þessi samningur tekur ekki til,

og með það í huga að ekkert ákvæði þessa samnings megi túlka þannig að það leysi samningsríkin undan skuldbindingum þeirra samkvæmt öðrum alþjóðasamningum, einkum Hinu almenna sam­komulagi um tolla og viðskipti,

hafa ákveðið, í samræmi við ofangreind markmið, að gera með sér svohljóðandi samning:

1. gr.


Markmið.


    1. Með hliðsjón af því að Póllandi er þörf á að hraða efnahagsþróun sinni skulu EFTA-ríkin og Pólland, á aðlögunartímabili sem lýkur 31. desember 2001, koma á fríverslunarsvæði stig af stigi, í samræmi við ákvæði samnings þessa.
    2. Markmið samnings þessa, sem byggist á viðskiptatengslum milli markaðshagkerfa, eru:
     a .     að efla, með auknum gagnkvæmum viðskiptum, samfellda þróun efnahagssamskipta EFTA-ríkjanna og Póllands og stuðla þannig, bæði í EFTA-ríkjunum og Póllandi, að framþró­un efnahagslífs, betri lífskjörum og atvinnuskilyrðum og auknum afköstum og fjárhagslegum stöðugleika;
     b .     að skapa eðlilegar forsendur fyrir samkeppni í viðskiptum milli samningsríkja;
     c .     að stuðla þannig með afnámi viðskiptahafta að efnahagssamvinnu í Evrópu, samfelldri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum.

2. gr.


Gildissvið.


    Samningurinn tekur til:
     a .     framleiðsluvara sem heyra undir 25.–97. kafla í samræmdri vörulýsingar- og vöruheitaskrá, að undanskildum þeim framleiðsluvörum sem skráðar eru í I. viðauka,
     b .     framleiðsluvara sem tilgreindar eru í bókun A, að teknu tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í þeirri bókun,
     c .     fisks og annarra sjávarafurða eins og kveðið er á um í II. viðauka,
sem upprunnar eru í EFTA-ríki eða Póllandi.

3. gr.


Upprunareglur og samvinna um tollaframkvæmd.


    1. Í bókun B er kveðið á um upprunareglur og fyrirkomulag á samvinnu stjórnvalda.
    2. Samningsríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal um reglubundna endurskoðun af hálfu sameiginlegu nefndarinnar og stjórnunarsamvinnu, til að tryggja að ákvæði 4.–9., 14. og 23. gr. samningsins og bókunar B séu framkvæmd til hlítar og á sem samræmdastan hátt og til að draga svo sem unnt er úr þeim formkröfum sem gerðar eru í viðskiptum og til að finna lausn á þeim vandamálum sem af framkvæmd ákvæðanna leiðir, þannig að allir geti vel við unað.

4. gr.


Innflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.


    1. Engir nýir innflutningstollar eða gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif, verða lögð á viðskipti milli EFTA-ríkjanna og Póllands.
    2. Frá og með gildistöku samningsins skulu EFTA-ríkin afnema alla innflutningstolla á framleiðsluvörum sem upprunnar eru í Póllandi og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, að undanskildum framleiðsluvörum sem tilgreindar eru í III. viðauka, en tollar á þeim framleiðsluvörum og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif skulu afnumin í áföngum í sam­ræmi við ákvæði viðaukans.
    3. Frá og með 1. janúar 1995 skal Pólland afnema í fimm jöfnum áföngum alla tolla, og öll gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, á framleiðsluvörum sem upprunnar eru í EFTA-ríkjum, að undanskildum þeim framleiðsluvörum sem tilgreindar eru í IV. við­auka, en tollar á þeim framleiðsluvörum og gjöld, sem hafa samsvarandi áhrif, skulu af­numin frá og með gildistöku samningsins, og framleiðsluvörum sem tilgreindar eru í V. viðauka, en tollar á þeim framleiðsluvörum, og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif, skulu afnumin í áföngum í samræmi við tímaáætlunina sem kveðið er á um í viðaukanum.

5. gr.


Grunntollar.


    1. Grunntollurinn á framleiðsluvörum, sem á að lækka í áföngum samkvæmt samn­ingnum, skal samsvara bestukjara tollinum sem í gildi var 29. febrúar 1992.
    2. Komi almennar tollalækkanir til framkvæmda eftir gildistöku samnings þessa, m.a. lækkanir vegna samnings um tolla sem nást munu í Úrúgvæ-viðræðunum um alþjóða­viðskipti, skulu lækkuðu tollarnir koma í staðinn fyrir grunntolla sem um getur í 1. mgr. frá þeim tíma er slíkar tollalækkanir taka gildi.
    3. Reikna skal lækkuðu tollana skv. 4. gr. með einum aukastaf eða, þegar um er að ræða sérstaka tolla, með tveimur aukastöfum.

6. gr.


Fjáröflunartollar.


    1. Ákvæði 1.–3. mgr. 4. gr. gilda þar að auki um fjáröflunartolla að öðru leyti en kveðið er á um í bókun C.
    2. Samningsríki geta lagt á fjáröflunargjöld í stað fjáröflunartolla eða þess hluta tolls sem er fjáröflunareðlis.

7. gr.


Útflutningstollar og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif.


    1. Engir nýir útflutningstollar eða gjöld sem hafa samsvarandi áhrif verða lögð á við­skipti milli EFTA-ríkjanna og Póllands.
    2. EFTA-ríkin skulu frá og með gildistöku samningsins afnema alla útflutningstolla og gjöld sem hafa samsvarandi áhrif að öðru leyti en kveðið er á um í VI. viðauka.
    3. Pólland skal afnema í áföngum alla útflutningstolla og öll gjöld sem hafa samsvar­andi áhrif. Afnema ber alla slíka tolla og öll gjöld eigi síðar en 1. janúar 1997.

8. gr.


Magntakmarkanir á innflutningi og ráðstafanir sem hafa


samsvarandi áhrif.


    1. Engar nýjar magntakmarkanir verða settar á innflutning, né gerðar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Póllands.
    2. Frá og með gildistöku samningsins skulu magntakmarkanir á innflutningi til EFTA-ríkjanna og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif afnumdar að öðru leyti en kveðið er á um í VII. viðauka.
    3. Frá og með gildistöku samningsins skulu magntakmarkanir á innflutningi til Pól­lands og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif afnumdar í samræmi við ákvæði og tíma­áætlun sem kveðið er á um í VIII. viðauka.

9. gr.


Magntakmarkanir á útflutningi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif.


    1. Engar nýjar magntakmarkanir verða settar á útflutning, né gerðar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif í viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Póllands.
    2. Frá og með gildistöku samningsins skulu magntakmarkanir á útflutningi frá EFTA-ríkjunum og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif afnumdar að öðru leyti en kveðið er á um í IX. viðauka.
    3. Frá og með gildistöku samningsins skulu magntakmarkanir á útflutningi frá Pól­landi og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif afnumdar að öðru leyti en kveðið er á um í X. viðauka.

10. gr.


Almennar undantekningar.


    Samningurinn kemur ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða um­flutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðgæði, allsherjarreglu, almanna­öryggi, vernd lífs og heilsu manna, dýra eða plantna og umhverfisins, vernd þjóðarverð­mæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, verndun hugverka eða reglur um meðferð á gulli og silfri. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mis­mununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsríkjanna.

11. gr.


Ríkiseinokun.


    1. Samningsríkin skulu tryggja breytingar á ríkiseinokun í viðskiptum, sbr. þó ákvæði bókunar D, þannig að enginn greinarmunur sé gerður milli ríkisborgara EFTA-ríkjanna og Póllands hvað snertir skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara.
    2. Ákvæði þessarar greinar gilda um allar stofnanir sem þar til bær yfirvöld samn­ingsríkjanna nota samkvæmt lögum eða í reynd, beint eða óbeint, til að hafa eftirlit með, ráða eða hafa umtalsverð áhrif á inn- eða útflutning milli samningsríkja. Þessi ákvæði gilda einnig um einkasölur sem ríki hefur fengið öðrum í hendur.

12. gr.


Skipti á upplýsingum um drög að tæknilegum reglugerðum.


    1. EFTA-ríkjunum og Póllandi ber að tilkynna hvert öðru með eins löngum fyrirvara og gerlegt er og samkvæmt þeim reglum sem settar eru í XI. viðauka um drög að tækni­legum reglugerðum og breytingar á þeim sem þau hyggjast gefa út.
    2. Samningsríki skulu leitast við að fara eftir þessum reglum innan tveggja ára frá gildistöku samningsins. Reynist þetta ekki að öllu leyti gerlegt skal sameiginlega nefnd­in lengja þennan frest.

13. gr.


Viðskipti með landbúnaðarafurðir.


    1. Samningsríki lýsa sig reiðubúin, að því marki sem stefna þeirra í landbúnaðarmál­um leyfir, að stuðla að samstilltri þróun viðskipta með landbúnaðarafurðir, með tilliti til mikilvægis þeirra fyrir efnahag Póllands.
    2. Til að ná þessum markmiðum hefur hvert EFTA-ríki gert tvíhliða samning við Pól­land um ráðstafanir til að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarafurðir.
    3. Samningsríkjum ber að beita reglum sínum um búfjár- og jurtasjúkdóma og heil­brigðiseftirlit í landbúnaði án mismununar og forðast að gera nýjar ráðstafanir sem gætu torveldað viðskipti á óréttmætan hátt.

14. gr.


Innlendar álögur.


    1. Samningsríkjum ber að forðast allar fjármálaráðstafanir og -aðgerðir innan lands sem hafa beint eða óbeint í för með sér mismunun milli framleiðsluvara sem upprunn­ar eru í EFTA-ríki og sambærilegra framleiðsluvara sem upprunnar eru í Póllandi.
    2. Framleiðsluvörur, sem fluttar eru út til samningsríkis, skulu ekki njóta hærri end­urgreiðslu á innlendum álögum en nemur beinum og óbeinum gjöldum sem hafa verið lögð á þær.

15. gr.


Greiðslur.


    1. Engar hömlur má leggja á greiðslur tengdar viðskiptum milli EFTA-ríkis og Pól­lands eða yfirfærslur á slíkum greiðslum til samningsríkis þar sem kröfuhafi er búsett­ur.
    2. Samningsríkin skulu forðast að takmarka, með höftum á gjaldeyrisviðskipti eða með stjórnsýsluathöfnum, veitingu, endurgreiðslu eða móttöku lána til skamms eða meðal­langs tíma vegna viðskipta sem íbúi samningsríkis á hlut að.
    3. Þangað til gjaldmiðill Póllands er orðinn að fullu skiptanlegur í skilningi VIII. gr. samþykkta Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áskilur Pólland sér rétt til að beita takmörkunum á yfirfærslu gjaldeyris er tengjast veitingu eða viðtöku lána til skamms eða meðallangs tíma, að því marki sem leyfilegt er samkvæmt stöðu Póllands gagnvart Alþjóðagjaldeyr­issjóðnum og að því tilskildu að þessum takmörkunum sé beitt án mismununar vegna uppruna framleiðsluvaranna og þeim sé ekki einungis beitt gagnvart tilteknum fram­leiðsluvörum eða tegundum framleiðsluvara.

16. gr.


Opinber innkaup.


    1. Samningsríkin telja það vera æskilegt og mikilvægt markmið samnings þessa að auka frjálsræði í innkaupum hins opinbera.
    2. Frá og með gildistöku samningsins skulu EFTA-ríkin veita fyrirtækjum frá Pól­landi aðgang að útboðsgerð við opinber innkaup sín í samræmi við samninginn um op­inber innkaup frá 12. apríl 1979, eins og honum var breytt með bókun um breytingar frá 2. febrúar 1987 sem samið var um innan ramma Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti. Pólland skal, með tilliti til endurskipulagningar og þróunar efnahagsmála sinna, veita fyrirtækjum EFTA-ríkjanna smám saman aðgang að útboðsgerð á hinum opinbera innkaupamarkaði á sömu forsendum.
    3. Eins skjótt og unnt er eftir gildistöku samningsins ber samningsríkjum stig af stigi að aðlaga reglur, skilyrði og aðferðir sem þau nota við að ákveða þátttöku í samningum sem boðnir eru út til að tryggja skýrleika í gerð samninga og koma í veg fyrir mismun­un milli hugsanlegra birgja frá samningsríkjunum. Eftir undirbúningstímabil, þar sem Pól­land skal njóta þverrandi forskots í samskiptum milli ríkjanna, ber að koma á fullu jafn­vægi milli réttinda og skuldbindinga samningsríkjanna eigi síðar en fyrir lok aðlögun­artímabils.
    4. Sameiginlega nefndin leggur til eða samþykkir, eftir því sem við á, fyrirkomulag þessarar þróunar, meðal annars gildissvið, tímasetningar og reglur sem beita skal og til­greinir stofnanir eða aðila sem gera samninga um opinber innkaup, þ.e. opinberar stofn­anir og fyrirtæki og einkafyrirtæki sem njóta sérréttinda eða einkaréttinda.
    5. Viðkomandi samningsríki skulu leitast við að fara eftir viðeigandi samningum inn­an ramma Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti.

17. gr.


Vernd hugverka.


    1. Samningsríki skulu veita og tryggja vernd hugverkaréttinda án mismununar, m.a. með því að samþykkja ráðstafanir til að veita þessi réttindi og framfylgja þeim. Auka ber verndina stig af stigi og fyrir 31. desember 1996 skal hún vera orðin sambærileg við þá vernd sem almennt tíðkast á því svæði sem samningsríkin tilheyra.
    2. Samningsríki eru sammála um að fara að efnislegum ákvæðum marghliða samn­inganna sem tilgreindir eru í XII. viðauka fyrir 31. desember 1996; þau skulu og leggja sig öll fram við að framfylgja þeim og öðrum marghliða samningum sem gerðir eru til að auðvelda samvinnu við að vernda hugverkaréttindi, án þess þó að skerða fullveldis­rétt samningsríkja til ákvarðana í því efni.
    3. Að því er samning þennan varðar tekur „vernd hugverkaréttar“ einkum til vernd­ar höfundarréttar, þar með talið til tölvuforrita og gagnagrunna og skyldra réttinda, vöru­merkja, landfræðilegra auðkenna, iðnhönnunar, einkaleyfa, svæðislýsinga smárása og þar að auki til óbirtra upplýsinga um þekkingu.
    4. a.    Að því er snertir hugverk skulu samningsríki ekki veita ríkisborgurum hvert annars lakari vernd en þá sem veitt er ríkisborgurum annarra ríkja. Hyglun, vild, forréttindi eða friðhelgi á sviði hugverka sem til komin er vegna:
                         i.      tvíhliða samninga sem í gildi eru hjá samningsríki við gildistöku samn­ingsins og tilkynntir eru öðrum samningsríkjum í síðasta lagi fyrir 1. jan­úar 1994,
                      ii.    alþjóðasamninga sem í gildi eru eða verða gerðir á komandi árum, þar á meðal svæðisbundinna samninga um efnahagssamvinnu, sem samnings­ríki hafa ekki öll gerst aðilar að,
              má undanþiggja þessari skuldbindingu, að því tilskildu að slíkt valdi ekki gerræð­islegri eða óréttlátri mismunun gegn ríkisborgurum annarra samningsríkja.
              b.      Tveimur samningsríkjum eða fleiri er heimilt að gera frekari samninga um víð­Stækari vernd en samkvæmt ákvæðum í samningi þessum, að því tilskildu að öll önnur samningsríki geti gerst aðilar að þeim með sambærilegum skilmál­um og að þau séu tilbúin að hefja samningaviðræður í þessu skyni í góðri trú.
    5. Samningsríkjum ber einnig að sjá til þess með lagasetningu að lögbundin nytja­leyfi vegna einkaleyfa skuli vera almenn nytjaleyfi, veitt án mismununar og fyrir þókn­un sem samsvarar markaðsverði fyrir nytjaleyfið og sem skjóta má til úrskurðar dóms­valda. Gildissvið og -tími slíkra nytjaleyfa skal takmarkast við tilgang veitingar þeirra. Nytjaleyfi vegna vannýtingar skal veita aðeins að því marki sem þarf til þess að full­nægja eftirspurn svæðisbundins markaðar á viðunandi kjörum.
    6. Samningsríkjum ber að sjá til þess að reglur um veitingu eða skráningu eða varð­veislu hugverkaréttinda og um eftirlit með þeim séu réttlátar og án mismununar. Forð­ast ber að setja flóknar reglur eða kostnaðarsamar eða sem fela í sér óþarflega langa tímafresti eða ónauðsynlegar tafir. Í ákvæðum um eftirlit ber einkum að kveða á um lög­bannsrétt, fullar bætur fyrir skaða sem rétthafi hefur orðið fyrir og bráðabirgðaráðstaf­anir, m.a. þegar annar aðili hefur ekki fengið áheyrn (inaudita altera parte).
    7. a.    Samningsríki skulu koma á skipulagi um tækniaðstoð og samvinnu yfirvalda ríkjanna. Til að ná þessum markmiðum skulu þau hafa samráð við hlutaðeig­andi alþjóðastofnanir eins og Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO) og Einka­leyfastofnun Evrópu (EPO).
          b.      Samningsríki samþykkja að efna til samráðs með sérfræðingum, fari samn­ingsríki þess á leit, um starfsemi sem tengist gildandi eða fyrirhuguðum al­þjóðasamningum um samhæfingu, stjórnun og eftirlit með hugverkarétti og um starfsemi á vegum alþjóðastofnana, t.d. Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti og Alþjóðahugverkastofnunarinnar, og um samskipti samn­ingsríkja við þriðju lönd um mál sem varða hugverkarétt.

18. gr.


Reglur um samkeppni fyrirtækja.


    1. Eftirfarandi samrýmist ekki réttri framkvæmd samningsins að því leyti sem það hef­ur áhrif á viðskipti EFTA-ríkis og Póllands:
     a.     allir samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar að­gerðir fyrirtækja sem miða að því að koma í veg fyrir, takmarka eða raska sam­keppni eða leiða til slíks;
     b.     misnotkun eins eða fleiri fyrirtækja á yfirburðastöðu sinni á yfirráðasvæðum samn­ingsríkja í heild eða á verulegum hluta þess.
    2. Ákvæði þessi skulu einnig gilda um starfsemi opinberra fyrirtækja og fyrirtækja sem njóta sér- eða einkaréttinda er samningsríki hafa veitt þeim, en beiting ákvæðanna má þó ekki hindra, að lögum eða í raun, opinber verkefni þeirra.
    3. Telji samningsríki að tiltekið athæfi samrýmist ekki ákvæðum greinar þessarar er því heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana, sem það álítur nauðsynlegar til að mæta þeim alvarlegu vandkvæðum er af athæfinu leiðir, samkvæmt þeim skilmálum og í sam­ræmi við þá aðferð sem tilgreind er í 25. gr.


19. gr.


Ríkisaðstoð.


    1. Sérhver aðstoð, sem samningsríki veitir eða felst með einhverju móti í ráðstöfun ríkisfjármuna og raskar eða gæti raskað samkeppni með því að veita einstökum fyrir­tækjum eða einstakri framleiðslugrein forréttindi, samrýmist ekki réttri framkvæmd samn­ingsins að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkis og Póllands.
    2. Meta skal athæfi, sem brjóta í bága við 1. mgr., á grundvelli forsendna sem til­greindar eru í XIII. viðauka.
    3. Að því er varðar framkvæmd ákvæða 1. mgr. er Póllandi heimilt til 31. desember 1996 að veita umfangsmeiri aðstoð, en leyfilegt væri að beitt yrði af hálfu EFTA-ríkja samkvæmt þeim forsendum sem tilgreindar eru í XIII. viðauka til að efla efnahagsum­bætur og þróun. Sameiginlega nefndin getur, með tilliti til efnahagsástandsins í Póllandi, ákveðið hvort ákvæði þessu verði beitt lengur.
    4. Samningsríkin skulu tryggja skýrleika í meðferð ríkisaðstoðar með því að skiptast á upplýsingum eins og kveðið er á um í XIV. viðauka. Sameiginlega nefndin skal, inn­an eins árs frá gildistöku samningsins, samþykkja nauðsynlegar reglur til að framfylgja þessari málsgrein.
    5. Telji samningsríki að tiltekið athæfi samrýmist ekki ákvæðum 1. mgr. er því heim­ilt að grípa til viðeigandi ráðstafana samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá að­ferð sem er tilgreind í 25. gr.

20. gr.


Undirboð.


    Verði EFTA-ríki vart við að beitt sé undirboðum, í skilningi VI. gr. Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti, í viðskiptum við Pólland eða verði Pólland vart við að beitt sé undirboðum í þessum skilningi í viðskiptum við EFTA-ríki getur viðkomandi samningsríki gripið til viðeigandi gagnráðstafana í samræmi við samkomulagið um fram­kvæmd VI. gr. Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti og þá aðferð sem til­greind er í 25. gr.

21. gr.


Neyðaraðgerðir vegna innflutnings tiltekinnar framleiðsluvöru.


    Þegar innflutningur tiltekinnar framleiðsluvöru eykst svo mjög og við slík skilyrði sem valda eða valdið gætu:
     a.     alvarlegu tjóni fyrir innlenda framleiðendur sambærilegra framleiðsluvara eða sam­keppnisvara á landsvæði samningsríkisins sem flytur inn eða
     b.     alvarlegri röskun í einhverri grein atvinnulífsins eða erfiðleikum sem gætu leitt til alvarlegra efnahagsþrenginga í einstökum landshlutum
er viðkomandi samningsríki heimilt að grípa til viðeigandi ráðstafana samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá aðferð sem tilgreind er í 25. gr.

22. gr.


Endurskipulagning.


    1. Póllandi er heimilt, í takmarkaðan tíma, að grípa til sérstakra ráðstafana í formi hækkaðra tolla sem víkja frá ákvæðum 4. gr.
    2. Ráðstafanirnar skulu eingöngu vernda iðnað á byrjunarstigi eða einstakar greinar atvinnulífs sem verið er að endurskipuleggja eða sem standa frammi fyrir alvarlegum erf­iðleikum, einkum þegar þessir erfiðleikar valda mikilvægum félagslegum vandkvæðum.
    3. Tollar, sem lagðir kunna að vera á innflutning til Póllands frá EFTA-ríkjum með slíkum ráðstöfunum, mega ekki vera hærri en 25% að verðmæti og skulu framleiðslu­vörur frá EFTA-ríkjum njóta að einhverju leyti hagstæðari kjara en aðrar. Verðmæti fram­leiðsluvaranna, sem þessar ráðstafanir taka til, skal ekki nema meira en 15% alls árlegs innflutnings iðnaðarvara frá EFTA-ríkjum samkvæmt skilgreiningu í 2. gr. og samkvæmt nýjustu fáanlegum tölum.
    4. Beita má ráðstöfununum í fimm ár hið lengsta nema sameiginlega nefndin heim­ili lengra tímabil. Þær falla niður í síðasta lagi í lok aðlögunartímabilsins.
    5. Óheimilt er að beita slíkum ráðstöfunum gagnvart framleiðsluvöru sem hefur ver­ið án tolla, gjalda sem hafa samsvarandi áhrif eða magntakmarkana í þrjú ár eða leng­ur.
    6. Póllandi ber að tilkynna sameiginlegu nefndinni fyrir fram um allar sérstakar ráð­stafanir sem það hyggst grípa til og, að beiðni EFTA-ríkja, hafa samráð um þær og um viðkomandi atvinnugreinar í sameiginlegu nefndinni áður en þeim er beitt. Þegar það grípur til slíkra ráðstafana ber Póllandi að afhenda sameiginlegu nefndinni tímaáætlun um afnám tollanna sem lagðir eru á samkvæmt þessari grein. Í tímaáætluninni skal gera grein fyrir afnámi tollanna í jöfnum árlegum áföngum sem hefjist eigi síðar en tveimur árum eftir að þeim er komið á. Sameiginlegu nefndinni er heimilt að ákveða aðra tímaáætlun.

23. gr.


Endurútflutningur og alvarlegur vöruskortur.


    Leiði beiting ákvæðanna í 7. og 9. gr. til þess að:
     a.     framleiðsluvara verði flutt aftur út til þriðja lands og samningsríkið sem flutt er út frá hefur beitt magntakmörkunum á útflutningi, útflutningstollum eða ráðstöfunum eða gjöldum sem hafa samsvarandi áhrif gagnvart útflutningi umræddrar framleiðslu­vöru þangað eða
     b.     alvarlegur skortur verði eða gæti orðið á framleiðsluvöru sem samningsríki sem flutt er út frá er nauðsynleg
og þar sem ofangreindar ástæður valda eða gætu valdið alvarlegum vandkvæðum fyrir samningsríki sem flutt er út frá er því samningsríki heimilt að grípa til viðeigandi ráð­stafana samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá aðferð sem tilgreind er í 25. gr.

24. gr.


Erfiðleikar vegna greiðslujafnaðar.


    1. Lendi EFTA-ríki eða Pólland í alvarlegum erfiðleikum eða sjái fram á erfiðleika varðandi greiðslujöfnuð sinn er EFTA-ríki eða Póllandi, eftir því sem við á, heimilt að grípa til takmarkandi ráðstafana, samkvæmt þeim skilmálum sem settir eru með Hinu al­menna samkomulagi um tolla og viðskipti sem skulu vara í takmarkaðan tíma og ekki hafa víðtækari áhrif en þörf er á til að leiðrétta erfiðleikana vegna greiðslujafnaðar. Ráð­stöfunum ber að aflétta stig af stigi eftir því sem erfiðleikar vegna greiðslujafnaðar minnka og með öllu þegar aðstæður réttlæta þær ekki lengur. EFTA-ríkinu eða Póllandi ber að tilkynna hinum samningsríkjunum og sameiginlegu nefndinni um ráðstafanir jafn­skjótt og gripið er til þeirra og um tímaáætlun um afnám þeirra verði því við komið.
    2. Samningsríkjum ber engu að síður að reyna eftir megni að forðast að grípa til tak­markandi ráðstafana vegna greiðslujafnaðar.

25. gr.


Aðferð við beitingu öryggisráðstafana.


    1. Áður en hafist er handa við að beita þeim öryggisráðstöfunum sem tilgreindar eru í þessari grein skulu samningsríkin leita lausnar á ágreiningi sín í milli með beinu sam­ráði og tilkynna öðrum samningsríkjum þar um.
    2. Þrátt fyrir 6. mgr. þessarar greinar ber samningsríki, sem íhugar að beita öryggis­ráðstöfunum, að tilkynna hinum samningsríkjunum og sameiginlegu nefndinni þegar þar um og láta þeim í té allar upplýsingar sem máli skipta. Samningsríki skulu hefja við­ræður innan sameiginlegu nefndarinnar án tafar til að leita lausnar sem öll ríkin geta sætt sig við.
    3. a.    Að því er varðar 18. og 19. gr. skulu samningsríki, sem í hlut eiga, veita sam­eiginlegu nefndinni nauðsynlega aðstoð til að rannsaka málið og, þegar við á, binda enda á athæfið sem mótmælt hefur verið. Hafi samningsríkið sem í hlut á ekki bundið enda á athæfið sem mótmælt er innan þess tímabils sem sam­eiginlega nefndin ákveður eða ef nefndin kemst ekki að samkomulagi innan þriggja mánaða frá því að málinu var vísað til hennar er viðkomandi samn­ingsríki heimilt að grípa til þeirra ráðstafana sem það telur nauðsynlegt til að bæta úr ástandinu.
          b.      Að því er varðar 20., 21. og 23. gr. skal sameiginlega nefndin rannsaka mál­ið og taka þá ákvörðun sem þörf er á til að binda enda á erfiðleika sem samn­ingsríki hefur tilkynnt um. Hafi engin ákvörðun verið tekin þrjátíu dögum eft­ir að málinu var vísað til sameiginlegu nefndarinnar er hlutaðeigandi samn­ingsríki heimilt að grípa til þeirra ráðstafana sem það telur nauðsynlegt til að bæta úr ástandinu.
          c.      Að því er varðar 31. gr. er hlutaðeigandi samningsríki heimilt að grípa til við­eigandi ráðstafana eftir að samráði lýkur eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að tilkynnt var um málið.
    4. Skylt er að tilkynna öllum samningsríkjum og sameiginlegu nefndinni þegar um öryggisráðstafanir sem gripið er til. Umfang ráðstafana og gildistími þeirra skal tak­markast við það sem óhjákvæmilegt er til að bæta úr því ástandi sem leiddi til beiting­ar þeirra og skulu ekki vera umfangsmeiri en sá skaði sem umrætt athæfi eða erfiðleik­ar hafa valdið. Reynt skal eftir megni að beita ráðstöfunum sem minnst hindra fram­kvæmd samningsins. Ráðstafanir, sem Pólland grípur til vegna aðgerða eða aðgerðaleys­is EFTA-ríkis, skulu einungis beinast að viðskiptum við það ríki. Einungis EFTA-ríki eða -ríkjum sem hefur orðið fyrir áhrifum af aðgerðum eða aðgerðaleysi Póllands er heim­ilt að grípa til ráðstafana sem beinast að slíkum aðgerðum eða aðgerðaleysi.
    5. Efna skal til reglubundins samráðs um öryggisráðstafanir í sameiginlegu nefnd­inni og leita leiða til að draga úr þeim, finna aðra valkosti í stað þeirra eins fljótt og unnt er eða afnema þær þegar aðstæður réttlæta þær ekki lengur.
    6. Þegar óvenjulegar aðstæður kalla á tafarlausar aðgerðir og útiloka að þær verði kannaðar fyrir fram getur viðkomandi samningsríki, í tilvikum sem um ræðir í 20., 21. og 23. gr. og þegar ríkisaðstoð hefur bein og tafarlaus áhrif á viðskipti milli samnings­ríkja, gripið strax til varrúðarráðstafana sem brýn þörf er á til að bæta úr ástandinu. Til­kynna ber um ráðstafanirnar án tafar og efna til samráðs milli samningsríkja innan sam­eiginlegu nefndarinnar eins fljótt og við verður komið.

26. gr.


Undanþágur af öryggisástæðum.


    Ekkert ákvæði þessa samnings kemur í veg fyrir að samningsríki geri ráðstafanir sem það telur nauðsynlegar:
     a.     til að koma í veg fyrir uppljóstranir sem eru andstæðar mikilvægum öryggishags­munum,
     b.     til að vernda mikilvæga öryggishagsmuni, standa við skuldbindingar sínar á alþjóða­vettvangi eða yfirlýsta stefnu sína
               i.      að því er snertir viðskipti með vopn, skotfæri og herbúnað og önnur viðskipti með vörur, efni eða þjónustu sem fer fram beint eða óbeint í þágu hernaðar­aðila, eða
              ii.    gagnvart útbreiðslu efna- og lífefnavopna, kjarnavopna eða annarra kjarna­sprengja, eða
          iii.    á stríðstímum eða þegar alvarleg spenna í alþjóðamálum ógnar friði.

27. gr.


Sameiginlega nefndin.


    1. Sameiginlega nefndin, sem sett var á stofn samkvæmt Gautaborgaryfirlýsingunni, skal annast umsjón og stjórnun á framkvæmd samningsins.
    2. Til að framkvæmd samningsins verði eins og til er ætlast skulu samningsríki skipt­ast á upplýsingum og efna til samráðs í sameiginlegu nefndinni að beiðni samningsrík­is. Sameiginlega nefndin skal kanna af og til frekari möguleika á að fjarlægja þær hindr­anir sem eftir standa í vegi fyrir viðskiptum milli EFTA-ríkja og Póllands.
    3. Sameiginlegu nefndinni er heimilt að taka ákvarðanir í málum sem kveðið er á um í samningnum. Í öðrum málum er sameiginlegu nefndinni heimilt að gera tillögur.

28. gr.


Störf sameiginlegu nefndarinnar.


    1. Til að annast framkvæmd samningsins eins og til er ætlast kemur sameiginlega nefndin saman eins oft og nauðsyn ber til og eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Sérhverju samningsríki er heimilt að fara þess á leit að fundur verði haldinn.
    2. Ákvarðanir nefndarinnar skulu hljóta samhljóða samþykki.
    3. Hafi fulltrúi samningsríkis í sameiginlegu nefndinni samþykkt ákvörðun með fyr­irvara um að uppfyllt verði stjórnskipuleg skilyrði skal ákvörðunin taka gildi þann dag sem tilkynnt er að fallið hafi verið frá fyrirvaranum sé ekki kveðið á um síðari gildis­tökudag í ákvörðuninni.
    4. Sameiginlega nefndin setur eigin starfsreglur er kveða á um, m.a. hvernig boða skal til fundar, hver veitir nefndinni formennsku og hve lengi formaður skal sitja.
    5. Sameiginlega nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa sem hún telur þörf á til aðstoðar við að inna skyldur sínar af hendi.

29. gr.


Þróunarákvæði.


    1. Þegar samningsríki telur það til framdráttar efnahag samningsríkja að þróa enn frekar þau samskipti sem til hefur verið stofnað með samningnum með því að láta þau ná til sviða sem hann tekur ekki til sendir það þeim rökstudda beiðni þar um. Samnings­ríkin geta falið sameiginlegu nefndinni að kanna beiðnina og leggja fyrir þau tillögur þar að lútandi þegar við á, einkum með það fyrir augum að hefja samningsviðræður.
    2. Samningar, sem kunna að verða gerðir eftir þeirri leið sem um getur í 1. mgr., eru háðir fullgildingu eða samþykki samningsríkja eins og ráð er fyrir gert í reglum þeirra.

30. gr.


Þjónusta og fjárfesting.


    1. Samningsríkin viðurkenna að tilteknar atvinnugreinar, m.a. á sviði þjónustu og fjár­festingar, verða æ mikilvægari. Í viðleitni sinni við að þróa og auka samstarf sitt, eink­um með tilliti til samvinnu í Evrópu, skulu þau vinna saman að því markmiði að auka frjálsræði og opna markaði sína fyrir fjárfestingu og þjónustuviðskiptum, með hliðsjón af viðeigandi vinnu á vegum Hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti.
    2. EFTA-ríkin og Pólland skulu ræða í sameiginlegu nefndinni möguleika á að láta viðskiptatengsl sín ná til beinna erlendra fjárfestinga og þjónustuviðskipta.

31. gr.


Uppfylling skuldbindinga.


    1. Samningsríki skulu gera allar ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að tryggja að markmið samningsins náist og til að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningn­um.
    2. Telji EFTA-ríki að Pólland hafi ekki, eða telji Pólland að EFTA-ríki hafi ekki, upp­fyllt skuldbindingu samkvæmt samningnum getur viðkomandi samningsríki gripið til við­eigandi ráðstafana samkvæmt þeim skilmálum og í samræmi við þá aðferð sem tilgreind er í 25. gr.

32. gr.


Viðaukar og bókanir.


    Viðaukar og bókanir við samninginn eru óaðskiljanlegir hlutar hans. Sameiginlega nefndin getur ákveðið breytingar á viðaukum og bókunum A og B.

33. gr.


Viðskipti sem heyra undir aðra samninga.


    1. Samningur þessi gildir um viðskipti milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og Pól­lands hins vegar en ekki um viðskipti milli einstakra EFTA-ríkja nema kveðið sé á um annað í samningnum.
    2. a.    Samningurinn milli Finnlands og Póllands um gagnkvæmt afnám viðskipta­hindrana, sem undirritaður var 29. september 1976 með áorðnum breytingum (hér eftir nefndur Finnsk-pólski-samningurinn), skal gilda áfram á aðlögunar­tímabili þangað til hagsbætur, sem þessi samningur kveður á um, hafa komið að fullu í stað gagnkvæmra hagsbóta sem samningur sá færði samn­ingsríkjunum.
                       Á því stigi skal Finnsk-pólski-samninginn felldur úr gildi með sameiginlegri ákvörðun Finnlands og Póllands. Tilkynna ber öðrum ríkjum, sem aðild eiga að samningi þessum, um ákvörðunina án tafar.
          b.      Ákvæði 7., 8., 9., 11., 12., 13., 14., 15., 16., 17., 18., 19., 20., 22., 23., 29. og 30. gr. samnings þessa gilda að breyttu breytanda um viðskipti milli Finnlands og Póllands samkvæmt Finnsk-pólska-samningnum.
          c.      Nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar er að finna í XV. og XVI. við­auka við samning þennan.

34. gr.


Tollabandalög, fríverslunarsvæði og landamæraviðskipti.


    Samningurinn kemur ekki í veg fyrir það að tollabandalögum eða fríverslunarsvæð­um eða samkomulagi gert um landamæraviðskipti verði haldið við eða til þeirra stofn­að að því marki sem það hefur ekki neikvæð áhrif á fyrirkomulag viðskiptanna, einkum upprunareglur sem kveðið er á um í samningnum.

35. gr.


Landsvæði þar sem samningur þessi gildir.


    Samningurinn tekur til landsvæða samningsríkjanna.

36. gr.


Breytingar.


    Breytingar á samningnum, að öðru leyti en um getur í 3. mgr. 27. gr., sem sameig­inlega nefndin samþykkir, skulu lagðar fyrir samningsríkin til samþykkis og öðlast gildi þegar öll ríki hafa samþykkt þær. Samþykktarskjölum skal komið í vörslu hjá vörsluað­ila.

37. gr.


Aðild.


    1. Sérhvert ríki, sem aðild á að Fríverslunarsamtökum Evrópu, getur gerst aðili að samningnum, svo framarlega sem sameiginlega nefndin ákveður að samþykkja aðild þess, með þeim kjörum og skilyrðum sem sett kunna að verða í þeirri ákvörðun. Aðildar­skjalinu skal koma í vörslu hjá vörsluaðila.
    2. Að því er varðar ríki, sem gerist aðili, skal samningurinn taka gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjalinu hefur verið komið í vörslu.

38. gr.


Úrsögn og niðurfelling samningsins.


    1. Sérhvert samningsríki getur dregið til baka aðild sína að samningnum með því að tilkynna það vörsluaðila skriflega. Úrsögn tekur gildi sex mánuðum eftir að hún berst vörsluaðila.
    2. Dragi Pólland aðild sína til baka fellur samningurinn úr gildi þegar uppsagnarfrest­urinn er liðinn og ef öll EFTA-ríkin draga aðild sína til baka fellur samningurinn úr gildi eftir að síðasti uppsagnarfresturinn er liðinn.
    3. Ef EFTA-ríki dregur til baka aðild sína að samningnum um stofnun Fríverslunar­samtaka Evrópu fellur aðild þess að samningi þessum af þeim sökum niður þann dag er úrsögnin tekur gildi.

39. gr.


Gildistaka.


    1. Samningurinn öðlast gildi 1. apríl 1993 gagnvart samningsríkjum sem þá hafa kom­ið fullgildingar- eða staðfestingarskjölum sínum til vörsluaðilans, að því tilskildu að Pól­land sé meðal þeirra ríkja sem komið hafa fullgildingar- eða staðfestingarskjölum sín­um í vörslu.
    2. Þegar um er að ræða ríki sem undirritar samninginn og kemur fullgildingar- eða staðfestingarskjali sínu í vörslu eftir 1. apríl 1993 öðlast samningurinn gildi á fyrsta degi annars mánaðar eftir að skjalinu hefur verið komið í vörslu hjá vörsluaðila, að því til­skildu að samningurinn öðlist gildi gagnvart Póllandi eigi síðar en þann dag.
    3. Ríki, sem undirritar samninginn, getur þegar við undirritun lýst yfir að geti samn­ingurinn ekki tekið gildi gagnvart því 1. apríl 1993 muni það þó fyrst í stað beita ákvæð­um hans til bráðabirgða, að því tilskildu að hann hafi tekið gildi gagnvart Póllandi.

40. gr.


Vörsluaðili.


    Ríkisstjórn Svíþjóðar, sem gegnir hlutverki vörsluaðila, tilkynnir öllum ríkjum, sem undirritað hafa samninginn eða gerst aðilar að honum, um afhendingu skjals um full­gildingu, staðfestingu eða aðild, gildistöku samningsins eða niðurfellingu hans eða úr­sögn samningsríkis.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

GJÖRT í Genf, 10. desember 1992, í einu fullgildu eintaki á ensku sem komið skal í vörslu hjá ríkisstjórn Svíþjóðar. Vörsluaðili skal senda öllum öðrum ríkjum, sem undir­rita samninginn og gerast aðilar, staðfest afrit.


..........



    Þrjú fylgiskjöl voru birt með þingsályktunartillögu þessari í þingskjalinu (lausaskjal­inu). Hér að framan er birtur fyrri hluti fskj. I, þ.e. fríverslunarsamningurinn á íslensku. Um önnur fylgiskjöl vísast til samhljóða gagna í lausaskjalinu.
    Auk samningsins voru prentuð í fskj. I fylgigögn á íslensku, viðaukar, bókanir og töflur og í fskj. II bókun um samkomulag um framkvæmd ýmissa þátta samningsins milli EFTA-ríkja og Póllands.
    Í fskj. III var tvíhliða landbúnaðarsamningur Íslands og Póllands, I. viðauki um land­búnaðarafurðir sem njóta tollfríðinda við innflutning til Íslands og II. viðauki um upp­runareglur; einnig orðsendingar milli sendiherra Íslands hjá fastanefndinni í Genf og ráðu­neytisstjóra pólska landbúnaðarráðuneytisins.
    Að auki voru í fskj. III í enskri þýðingu fríverslunarsamningurinn milli EFTA-ríkja og Póllands ásamt viðaukum, bókunum og töflum sama efnis og birt voru á íslensku með samningnum í fskj. I; einnig fskj. II á ensku svo og tvíhliða landbúnaðarsamningur Ís­lands og Póllands ásamt fylgigögnum.