Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 117 . mál.


954. Nefndarálit



um frv. til l. um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu frá félagsmálaráðuneytinu Berglind Ásgeirsdóttir ráðuneytisstjóri og Gylfi Kristinsson deildarstjóri, frá Alþýðusambandi Íslands Lára V. Júlíusdóttir og Ari Skúlason, Hrafnhildur Stefánsdóttir frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Jónas Haralds frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Björn Arnórsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Stéttarsambandi bænda, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Alþýðusambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Vélstjórafélagi Íslands, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Sambandi byggingamanna, Málm- og skipasmíðasambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Vinnuveitendasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Kennarasambandi Íslands, félagsmálaráðuneytinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur sem settar eru fram í tilskipun EBE nr. 77/187 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um vernd launþega við eigendaskipti að fyrirtækjum, atvinnurekstri eða hluta atvinnurekstrar, en þessar reglur er ekki að finna í íslenskri löggjöf. Samkvæmt 8. gr. hennar og í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið skulu aðildarríkin setja nauðsynleg lög og stjórnvaldsfyrirmæli til að hrinda markmiðum tilskipunarinnar í framkvæmd.
    Við nánari yfirferð á frumvarpinu kom fram ábending frá nefnd þeirri er samdi frumvarpið um að efnisreglur, er felast í 2. og 3. tölul. 3. gr. tilskipunarinnar og varða gildistíma kjarasamninga annars vegar og viðbótarlífeyrissjóði hins vegar, hafi ekki komist nægilega vel til skila og leggur nefndin því til að 2. gr. frumvarpsins verði umskrifuð með þeim hætti að reglur tilskipunarinnar verði skýrari. Því mælir nefndin með því að frumvarpið verði samþykkt með slíkri breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Eggert Haukdal tekur fram að stuðningur hans við frumvarpið sé óháður afstöðu hans við afgreiðslu frumvarps til laga um Evrópska efnahagssvæðið.     

Alþingi, 6. apríl 1993.



Rannveig Guðmundsdóttir,

Guðjón Guðmundsson.

Gunnlaugur Stefánsson.


form., frsm.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,

Ingibjörg Pálmadóttir,

Jón Kristjánsson,


með fyrirvara.

með fyrirvara.

með fyrirvara.



Eggert Haukdal.

Lilja Rafney Magnúsdóttir,

Einar K. Guðfinnsson.


með fyrirvara.