Ferill 375. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 375 . mál.


971. Nefndarálit



um frv. til l. um kirkjugarða, greftrun líka og líkbrennslu.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Ara Edwald, aðstoðarmann dóms- og kirkjumálaráðherra, Þorstein Geirsson, ráðuneytisstjóra dóms- og kirkjumálaráðuneytis, og Davíð Ósvaldsson frá Líkkistuvinnustofu Eyvindar Árnasonar.
    Umsagnir bárust frá biskupi Íslands, Kirkjugörðum Reykjavíkurprófastsdæma, Fríkirkjunni í Reykjavík, Verslunarráði Íslands, Reykjavíkurborg, Samkeppnisstofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Á meðal nýmæla frumvarpsins má nefna að lagt er til að afmarka megi í vígðum kirkjugarði óvígða reiti og eru utanþjóðkirkjumenn þá sérstaklega hafðir í huga. Enn fremur verði heimilt að afmarka svæði í kirkjugarði og greftra þar án þess að grafarnúmers innan svæðisins sé getið og er þar komið til móts við óskir þeirra sem vilja hvíla í ómerktum gröfum. Kirkjugarðsstjórn mundi þó búa yfir öllum upplýsingum ef á þyrfti að halda, t.d. vegna opinberrar rannsóknar.
    Frá því að frumvarpið var lagt fram á 115. löggjafarþingi hafa verið gerðar á því breytingar sem miða að því að afmarka betur hvaða verkefnum kirkjugörðum er ætlað að kosta með kirkjugarðsgjöldum. Er frumvarpinu ætlað að jafna aðstöðu þeirra sem njóta þjónustu sem greidd er af kirkjugarðsgjöldum þannig að hún sé ekki misjöfn eftir landshlutum og eftir því hver sér um útförina. Nokkrum breytingum, sem nefndin leggur til, er ætlað að koma enn frekar til móts við athugasemdir þeirra sem óttast hafa um samkeppnisstöðu þeirra sem starfa við útfararþjónustu.
    Nokkur túlkunaratriði voru rædd ítarlega í nefndinni og fékkst sá skilningur á hugtakinu „prestsþjónusta“ í 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins að forstöðumönnum skráðra trúfélaga yrði greitt fyrir þjónustu vegna útfara með sama hætti og prestum þjóðkirkjunnar. Er það í samræmi við það meginsjónarmið sem gilda á um túlkun laganna að þeim skuli framfylgt af umburðarlyndi og víðsýni gagnvart trúfélögum utan þjóðkirkjunnar. Einnig var upplýst að þótt ekki megi setja girðingar um leiði eða gera grafhýsi í kirkjugarði útiloki það t.d. ekki að þró sé steypt í leiði. Það verði skv. 28. gr. háð mati kirkjugarðsstjórnar hversu langt megi ganga og ágreiningi um það skotið til skipulagsnefndar kirkjugarða.
    Þá leggur nefndin til að gerðar verði eftirtaldar breytingar á frumvarpinu:
    Lögð er til sú breyting á 2. gr. að ekki þurfi einróma samþykki maka og niðja látins manns um að lík hans skuli brennt.
    Lögð er til sú breyting á 9. gr. að utanþjóðkirkjusöfnuðum með a.m.k. 1.500 gjaldskylda meðlimi sé heimilt að kjósa fulltrúa sinn í kirkjugarðsstjórn. Í frumvarpinu er miðað við 2.000 gjaldskylda meðlimi en borist hafa ábendingar um að sú tala sé of há. Samkvæmt ákvæðinu þarf utanþjóðkirkjusöfnuður að uppfylla ákvæðið um fjölda gjaldskyldra meðlima á því svæði sem hinn sameiginlegi kirkjugarður eða kirkjugarðar þjóna. Þá eru enn fremur tekin af tvímæli um að söfnuðum, sem uppfylla skilyrði greinarinnar, verði heimilt en ekki skylt að skipa fulltrúa í kirkjugarðsstjórn.
    Lögð er til sú breyting á 11. gr. að Samband íslenskra sveitarfélaga eigi fulltrúa í skipulagsnefnd kirkjugarða en hlutverk hennar er að hafa yfirumsjón með kirkjugörðum landsins eins og nánar er mælt fyrir um í frumvarpinu. Er þetta lagt til í ljósi þess að samkvæmt frumvarpinu hafa sveitarfélög með höndum margs konar verkefni. Þó er lögð áhersla á að ekki er með frumvarpinu verið að auka skyldur sveitarfélaga svo einhverju skipti.
    Lagt er til að í kaflafyrirsögn IV. kafla sé getið um skyldur sveitarfélaga og rétt en ekki eingöngu skyldur. Er þetta lagt til vegna 15. gr. sem kveður á um heimild sveitarfélags til eignarnáms með samþykki dóms- og kirkjumálaráðuneytis á hentugu landi undir kirkjugarð.
    Lagt er til að 12. gr. verði breytt þannig að skylda sveitarfélags varðandi girðingu um kirkjugarð nái til þess að leggja til efni í girðinguna en það þurfi ekki að kosta uppsetningu hennar. Er ákvæðið þannig óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því að ekki er tæmandi talið um hvaða byggingarefni geti verið að ræða. Það kom skýrt fram í nefndinni að þrátt fyrir það væri ekki stefnt að því að auka á kvaðir sveitarfélaga vegna þessa heldur væri aðeins verið að hafa ákvæðið opið varðandi önnur byggingarefni en áður voru upp talin.
    Lagt er til að 2. málsl. fyrri málsgreinar 13. gr. falli brott en þar er kveðið á um gerð og lýsingu vegar sem sveitarfélag á að leggja að kirkjugarði. Nefndin gengur út frá þessum atriðum sem vísum og er þeirrar skoðunar að óþarft sé að mæla fyrir um þau í lagatexta.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 21. gr. Annars vegar falli niður ákvæði um að dóms-og kirkjumálaráðuneyti leitir umsagnar skipulagsnefndar kirkjugarða um umsóknir um leyfi til útfararþjónustu. Í stað þess setji ráðherra nánari reglur um leyfisveitinguna í reglugerð. Hins vegar verði skýrt mælt fyrir um í síðari málsgrein að reki kirkjugarðsstjórnin útfararstarfsemi verði sú starfsemi og allir þættir tengdir henni algerlega aðskildir frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórna.
    Lögð er til breyting á 26. gr. sem miðar að því að gera ákvæðið skýrara.
    Lagt er til að orðalag 27. gr. verði leiðrétt til að fyrirbyggja misskilning.
    Lagt er til að 37. gr. verði breytt þannig að Ríkisendurskoðun fari yfir reikningshald kirkjugarða.
    Lagðar eru til tvær breytingar á 38. gr. Annars vegar falli niður 3. málsl. 4. mgr. en hann þykir óþarfur. Hins vegar verði 5. mgr. leiðrétt í samræmi við ákvæði laga um aðför, nr. 90/1989.
    Lagt er til að síðari málsliður 44. gr. falli brott en þar er kveðið á um kirkjuskoðunargjald sem prófasti ber fyrir skoðun kirkjugarðs og heimagrafreits. Ákvæði þetta er úrelt en kirkjuskoðunargjald var síðast ákvarðað 20 álnir og hefur ekki verið innheimt um langt árabil.
    Lagt er til að 45. gr. verði breytt en réttara mun vera að nefna utanþjóðkirkjusöfnuði sem skráða í ákvæðinu.
    Lagt er til að orðalagi 49. gr. verði breytt og mælt fyrir um að sóknarprestur skuli að jafnaði vera viðstaddur upptöku líks. Gefur það svigrúm til þess að forstöðumaður trúfélags utan þjóðkirkjunnar verði viðstaddur athöfnina sé þess óskað. Sóknarprestur yrði heldur aldrei viðstaddur ef við því væri amast af ættingjum. Ákvæðið stefnir aðeins að því almennt að uppgröftur líka fari fram með ákveðnum virðuleik.
    Lögð er til breyting á dagsetningu í 53. gr.
    Loks er lögð til breyting á fyrirsögn frumvarpsins en orðinu „líka“ þykir þar ofaukið.

Alþingi, 6. apríl 1993.



Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson,

Lilja Rafney Magnúsdóttir.


form., frsm.

með fyrirvara.



Björn Bjarnason.

Ingi Björn Albertsson.

Jón Helgason.



Ey. Kon. Jónsson.

Pétur Bjarnason.

Sigbjörn Gunnarsson.