Ferill 372. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 372 . mál.


991. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hlutinn getur ekki fallist á 2. gr. frumvarpsins en þar er ákvæðum um ákæruvald lögreglustjóra breytt þannig að það geti tekið til fleiri mála, þ.e. tiltekinna tegunda minni háttar afbrota.
    Lögmannafélag Íslands bendir á í umsögn sinni um málið að ávallt sé ákveðin hætta því samfara að einn og sami maðurinn annist rannsókn brotamáls, ákæri í því og sæki síðan málið. Við slíkar aðstæður sé ekki nægilega tryggt að gætt sé þeirrar hlutlægni við rannsókn sem 31. gr. laganna býður. Samkvæmt því lagaákvæði ber rannsóknara að gæta jafnt að þeim atriðum er horfa til sýknu og sektar. Hætt er við að ef hann eigi að sækja mál að rannsókn lokinni muni hann beina rannsókninni að þeim atriðum er horfi til sektar til þess að ná fram sakfellingu síðar og þar með „sýna árangur í starfi“. Það sé þáttur eða veikleiki í mannlegu eðli sem ekki megi loka augunum fyrir. Minni hluti nefndarinnar telur rétt að taka tillit til þessarar ábendingar.
    Enn fremur kom fram hjá fulltrúa réttarfarsnefndar sem kom á fund nefndarinnar að ekki hefði verið valin heppilegasta leiðin við setningu laga um meðferð opinberra mála með því að hafa ákværuvald í svo mörgun málum í höndum lögreglustjóra. Sú stefna var hins vegar mörkuð með setningu laganna.
    Minni hlutinn mun ekki taka þátt í afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. apríl 1993.



Anna Ólafsdóttir Björnsson.