Ferill 437. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 437 . mál.


1021. Nefndarálit



um aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund Gunnar Pálsson frá utanríkisráðuneytinu og Sigþrúði Gunnarsdóttur og Svein Rúnar Hauksson frá Samtökum herstöðvaandstæðinga. Þá fékk nefndin umsögn um málið frá Varðbergi, félagi ungra áhugamanna um vestræna samvinnu.
    Minni hluti utanríkismálanefndar mótmælir því hvernig þetta mál bar að á Alþingi. Skjal um aukaaðild var undirritað af umhverfisráðherra, f.h. utanríkisráðherra, í nóvember sl. án þess að áður væri leitað eftir vilja Alþingis. Núna, tæpu hálfu ári síðar, er svo leitað blessunar á þegar gerðum hlut. Er það bæði andlýðræðislegt og andþingræðislegt að standa þannig að málum.
    Vestur-Evrópusambandið var stofnsett árið 1948 en lá nánast í dvala þar til á allra síðustu árum. Á fundi EB í Maastricht í desember 1991 var reynt að blása í það nýju lífi og því ætlað að vera nokkurs konar hernaðararmur sameiginlegrar stefnu EB í utanríkis- og varnarmálum.
    Aukaaðildin að VES tengist þeirri almennu umræðu sem nú fer fram um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og hvernig hagsmunum þjóðarinnar verði best borgið.
    Kalda stríðinu er lokið og óvinaímyndir þess að engu orðnar. Vígbúnaður, vopnakapphlaup og hernaðarbandalög verða ekki lengur réttlætt með öflugum óvini í austri eða vestri. Sovétkerfið er hrunið og engin ógn stafar lengur af meintri útþenslustefnu þess. Við þessar aðstæður hlýtur sú skilgreining og það mat á öryggishagsmunum Íslendinga, sem mótaðist í deiglu kalda stríðsins, að breytast. Það hlýtur að draga verulega úr áherslunni á hernaðarlegt mikilvægi Íslands og hefðbundnar landvarnir.
    Stærsta ógnunin við öryggi Íslendinga, sem og annarra þjóða, er sú arfleifð kalda stríðsins sem liggur í hinum gífurlegu vopnabirgðum heimsins. Mikilvægustu öryggishagsmunir íslensku þjóðarinnar eru nú að vernda hafsvæðin kringum landið m.a. fyrir geislavirkum úrgangi og þeirri hættu sem fylgir umferð kjarnorkuknúinna kafbáta. Við þessar aðstæður duga hernaðarbandalög og hefðbundnar landvarnir skammt og þar af leiðandi þjónar það ekki hagsmunum Íslendinga að gerast aukaaðilar að VES. Þetta verður enn augljósara þegar haft er í huga að VES hefur þá afstöðu til kjarnavopna að þau séu óhjákvæmileg til að tryggja öryggi og frið í Evrópu.
    Sem vopnlaus þjóð eiga Íslendingar að ástunda friðsamleg samskipti við allar þjóðir og stuðla að öryggi, friði og auknum jöfnuði milli þjóða fyrst og fremst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Minni hlutinn mun greiða atkvæði gegn tillögunni og leggur til að hún verði felld.

Alþingi, 27. apríl 1993.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,

Steingrímur Hermannsson.

Ólafur Ragnar Grímsson.


frsm.



Páll Pétursson.