Ferill 326. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 326 . mál.


1033. Nefndarálitum frv. til skaðabótalaga.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Arnljót Björnsson prófessor, dr. Benedikt Jóhannesson stærðfræðing og frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga Sigmar Ármannsson og Ólaf B. Thors. Umsagnir bárust frá Bjarna Þórðarsyni tryggingastærðfræðingi, Dómarafélagi Íslands, Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Tryggingaeftirlitinu og Öryrkjabandalagi Íslands. Enn fremur bárust athugasemdir frá Arnljóti Björnssyni prófessor.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfestar verði reglur á sviði skaðabótaréttar utan samninga. Er það lagt fram öðru sinni og voru gerðar breytingar frá fyrra frumvarpi í samræmi við ábendingar sem bárust um það. Helstu breytingarnar eru þessar: Fellt var brott ákvæði um að ekki skyldi greiða örorkubætur væri varanleg skerðing á getu tjónþola til að afla vinnutekna minni en 15%. Þá var ákvæðum 6. og 9. gr. um ákvörðun bótafjárhæðar breytt þannig að örorkubætur fara hækkandi eftir því sem tjónþoli er yngri og gildir það sama um dánarbætur skv. 2. mgr. 13. gr. Í fyrri gerð frumvarpsins var ekki gerður greinarmunur á bótum til manna fyrir varanlega örorku eftir aldri nema tjónþoli væri 56 ára eða eldri þegar tjón varð og gekk sú regla nokkuð langt til einföldunar bóta. Enn fremur var hugtakanotkun í frumvarpinu nokkuð breytt til þess að koma í veg fyrir að ruglað væri saman varanlegum miska, sbr. 4. gr., og varanlegri örorku, sbr. 5. gr., eða örorkustigi, sbr. 5. gr., og orkuskerðingarstigi, sbr. 8. gr. Loks voru ákvæði 10. gr. um örorkunefnd gerð skýrari. Markmið frumvarpsins eru einkum þrjú:
    Í fyrsta lagi verði reglur um ákvörðun bóta fyrir tjón á mönnum endurbættar. Þótt dómvenja hafi þar myndast um mörg atriði ríkir m.a. óvissa um miskabætur, áhrif skattareglna á bótafjárhæð, fjárhæð örorkubóta til þeirra sem vinna heimilisstörf og ákvörðun dánarbóta til eftirlifandi maka og barna. Er tekið á þessu í frumvarpinu og miða reglur þess að því að tjónþoli fái fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sem hlýst af völdum líkamsmeiðsla. Ræddi nefndin sérstaklega um ákvæði 8. gr. en þar er fjallað um ákvörðun bóta til barna og tjónþola sem nýta starfsgetu sína þannig að þeir hafa engar eða takmarkaðar vinnutekjur og þess vegna ekki unnt að nota árslaun áður en slys varð sem viðmiðun við ákvörðun um fjárhæð bóta. Er hér m.a. um heimavinnandi fólk að ræða. Gert er ráð fyrir að í þeim tilvikum verði ákvörðun um bætur tekin á grundvelli miskastigs skv. 4. gr. frumvarpsins og verði bætur til þessara einstaklinga þannig staðlaðar. Reynslan hefur sýnt að umræddir tjónþolar hafa oft hlotið lægri örorkubætur en eðlilegt má telja og er stefnt að því að ráða bót á því með ákvæðum 8. gr.
    Í öðru lagi verði reglur um tengsl skaðabótaréttar og annarra bótaúrræða færðar til nútímahorfs. Vátryggingar og almannatryggingar hafa eflst og hefur það dregið stórlega úr mikilvægi skaðabótaréttar, sérstaklega að því er varðar tjón á mönnum. Skýrist það af því að réttur tjónþola til að gera skaðabótakröfu á hendur tjónvaldi skiptir hann litlu sem engu máli eigi hann greiðan aðgang að bótum annars staðar. Þá skiptir endurkröfuréttur tryggingafélaga og almannatrygginga á hendur tjónvaldi óverulegu máli um fjárhagslega afkomu þessara tryggingakerfa. Er því lagt til að skaðabótaréttur og endurkröfuréttur verði takmarkaður í ríkari mæli en nú er.
    Í þriðja lagi verði sett lagaákvæði sem gera dómstólum kleift að taka tillit til hagsmuna þeirra sem bera skaðabótaábyrgð. Í ýmsum tilvikum getur verið ósanngjarnt að tjónvaldur beri skilyrðislaust allt tjón sem hann hefur valdið af gáleysi. Hefur 24. gr. frumvarpsins að geyma almenna lækkunarreglu, þ.e. að lækka megi bótafjárhæð eða fella niður skaðabótaábyrgð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í 23. gr. eru nýmæli sem draga úr bótaábyrgð launþega sem valda tjóni í starfi. Má í því sambandi nefna að ýmis sérákvæði laga kveða á um heimild til lækkunar bóta þegar launþegi veldur tjóni í starfi. Eru þau lagaákvæði bundin við tilteknar stéttir og veldur það misræmi sem þörf er á að laga.
    Meiri hluti nefndarinnar telur brýnt að frumvarp þetta verði að lögum. Það felur í sér réttarbót og er ætlað að binda enda á óvissu sem ríkt hefur í framkvæmd um marga þætti skaðabótaréttarins. Reynslan verður síðan að leiða í ljós hvort þörf er á endurskoðun einstakra ákvæða. Þess má geta að skaðabótalög hafa verið í gildi um áraraðir í öðrum norrænum löndum.
    Meiri hlutinn álítur ákvæði frumvarpsins til bóta og mælir með að það verði samþykkt óbreytt. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Ingi Björn Albertsson og Kristinn H. Gunnarsson.

Alþingi, 28. apríl 1993.Sólveig Pétursdóttir,

Ólafur Þ. Þórðarson.

Björn Bjarnason.


form., frsm.Sigbjörn Gunnarsson.

Jón Helgason.

Ey. Kon. Jónsson.