Ferill 276. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 276 . mál.


1049. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, sbr. lög nr. 76/1989, 70/1990, 124/1990, 130/1990, 24/1991, 47/1991 og 10.–12. gr. laga nr. 1/1992.

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund eftirtalda aðila: Frá fjármálaráðuneytinu Halldór Árnason skrifstofustjóra og Magnús Pétursson ráðuneytisstjóra, Inga Val Jóhannsson, deildarstjóra í félagsmálaráðuneytinu, frá Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna Birgi Björn Sigurjónsson og Pál Halldórsson, frá Alþýðusambandi Íslands Hervar Gunnarsson, Guðmund Gylfa Guðmundsson og Grétar Þorsteinsson, Rannveigu Sigurðardóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Hjört Eiríksson frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna og frá Húsnæðisstofnun ríkisins Yngva Örn Kristinsson, Sigurð Guðmundsson og Hilmar Þórisson. Þá komu á fund nefndarinnar, sérstaklega vegna þess þáttar frumvarpsins er snertir stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar, Jón L. Arnalds héraðsdómari, Páll Hreinsson lögfræðingur, Ragnar Aðalsteinsson hrl. og frá Ríkisendurskoðun Sigurður Þórðarson og Jón L. Björnsson. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Alþýðusambandi Íslands, stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, BHMR og félagsmálaráðuneytinu.
    Frumvarpið greinist í þrjá meginþætti. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á stjórnsýslulegri stöðu og stjórn Húsnæðisstofnunar. Þessum breytingum er minni hlutinn algerlega andvígur. Í öðru lagi er lögð til breyting á deildaskiptingu stofnunarinnar og að hönnunarvinnu á hennar vegum verði hætt og í þriðja lagi er lagt til að skyldusparnaður ungs fólks til húsnæðiskaupa verði afnuminn. Minni hlutinn er ekki efnislega andvígur því að gerðar verði breytingar á þessum þáttum.
    Minni hlutinn átelur engu að síður harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið varðandi hönnunardeildina, bæði af hálfu félagsmálaráðherra og meiri hluta stjórnar Húsnæðisstofnunar. Þannig tók meiri hluti stjórnarinnar þá ákvörðun, og fór þar að tilmælum ráðherra, að leggja niður starfsemi hönnunardeildar, segja upp starfsfólki hennar og selja eigur og starfsemi áður en Alþingi hafði lokið umfjöllun um málið. Slíkur málatilbúnaður er með öllu óþolandi og í raun óvirðing við Alþingi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fulltrúum aðila vinnumarkaðarins verði vikið úr stjórn Húsnæðisstofnunar og þar með höggvið á formlega aðild þeirra að stefnumörkun í húsnæðismálum. Húsnæðismál eru veigamikill þáttur kjaramála og hið opinbera húsnæðiskerfi er m.a. fjármagnað með kaupum lífeyrissjóðanna á skuldabréfum. Þessi skipan var tekin upp í tengslum við kjarasamninga á sínum tíma og engin sérstök rök til að breyta þessu fyrirkomulagi nú. Telur minni hlutinn að eins hefði mátt skoða hvort gera ætti breytingu á því hvaða aðilar tilnefna í stjórnina. Bendir minni hlutinn í því sambandi m.a. á umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga en sveitarfélögin bera nú aukna ábyrgð á stjórn félagslega húsnæðiskerfisins.
    Meginatriði frumvarpsins er þó án efa breytingin á stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar. Nái hún fram að ganga er Húsnæðisstofnun ekki lengur sjálfstæð ríkisstofnun, heldur lýtur boðvaldi ráðherra. Þessi breyting er í samræmi við þá tilhneigingu sem nú gætir hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þ.e. að draga sem mest úr sjálfstæði ríkisstofnana og fyrirtækja og auka miðstýringu frá ráðuneytunum.
    Þau rök hafa heyrst að félagsmálaráðherra beri hina pólitísku ábyrgð á húsnæðismálunum og verði að hafa þau meðul sem til þarf til að fylgja henni eftir, þar á meðal beint boðvald yfir Húsnæðisstofnun. Stefna stjórnvalda í húsnæðismálum birtist í lögum um Húsnæðisstofnun en þau eru mjög ítarleg og vald og ábyrgð einstakra aðila vel skilgreint. Samkvæmt þeim ákveður ríkisstjórnin vexti af hverjum lánaflokki, félagsmálaráðherra ákveður skiptingu áætlaðs ráðstöfunarfjár milli einstakra lánaflokka og hann getur flutt það milli lánaflokka innan ársins svo nokkuð sé nefnt. Þá skipar ráðherra bæði framkvæmdastjóra og skrifstofustjóra stofnunarinnar. Síðast en ekki síst hefur ráðherra verulegt boðvald í þessum málaflokki með valdinu til að setja reglugerð.
    Engin áþreifanleg dæmi liggja fyrir um að ráðherra og ríkisstjórn hafi ekki það vald sem þau þurfa til að koma fram stefnu sinni í húsnæðismálum. Fyrirhuguð breyting á stöðu Húsnæðisstofnunar innan stjórnsýslunnar er því vanhugsuð, illa rökstudd og gengur þvert á þá hugsun í nútímastjórnsýslu að dreifa valdi. Með þessari breytingu getur ráðherra gefið fyrirmæli um einstakar ákvarðanir Húsnæðisstofnunar auk þess sem hann hlýtur að verða áfrýjunaraðili um þær lánveitingar sem ákveðnar eru í stjórn stofnunarinnar. Með því að auka pólitískt vald ráðherra með þessum hætti yrðu innleiddir úreltir stjórnarhættir í rekstur þessarar lánastofnunar. Þessum breytingum er minni hlutinn algerlega andvígur og tekur þar undir sjónarmið stjórnar Húsnæðisstofnunar.
    Þegar fyrirhugaðar eru jafnmiklar og víðtækar breytingar á lögum um húsnæðismál saknar minni hlutinn þess að ekki skuli bætt úr augljósum agnúum á húsnæðismálalöggjöfinni. Þar má í fyrsta lagi nefna að taka ætti upp skýrar heimildir um lán til endurbóta á félagslegu húsnæði, en nú liggja mörg hús í félagslega húsnæðiskerfinu undir skemmdum á sama tíma og ný eru byggð. Í öðru lagi ætti að breyta lánveitingum vegna kaupa á almennum kaupleiguíbúðum, en þung greiðslubyrði veldur því að lítill áhugi er fyrir þessum valkosti.
    Minni hlutinn gerir tillögu um afdráttarlausar lagaheimildir í báðum þessum tilvikum og flytur tvær breytingartillögur við frumvarpið á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 29. apríl 1993.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,

Jón Kristjánsson.

Kristinn H. Gunnarsson.


frsm.



Ingibjörg Pálmadóttir.





Fylgiskjal I.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.


(15. febrúar 1993.)



    Alþýðusambandinu hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Frumvarpið má greina í þrjá höfuðþætti eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu.
    1. Stjórnsýsluþátt sem má skipta í tvo þætti: Skipan húsnæðismálastjórnar og stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar gagnvart félagsmálaráðuneyti.
    2. Tækni- og þjónustudeild Húsnæðisstofnunar verði lögð niður.
    3. Brottfall skyldusparnaðar.

    1. Á fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins 9. desember 1992 var eftirfarandi ályktun samþykkt:
    „Í áratugi hafa verkalýðssamtökin barist fyrir úrbótum í húsnæðiskerfinu. Þau hafa samið um skattlagningu til þess að fjármagna húsnæðiskerfið og staðið að lánsfjármögnun af hálfu lífeyrissjóðanna. Í ljósi þessa kemur á óvart að félagsmálaráðherra skuli nú kynna tillögu um að ryðja fulltrúum verkalýðssamtakanna úr stjórn Húsnæðisstofnunar. Félagsmálaráðherra ætti að vera það ljósara en nokkrum öðrum að einmitt nú ríður á að halda samstöðu um húsnæðiskerfið.
    Miðstjórn Alþýðusambandsins gerir kröfu til þess að samtökunum verði áfram tryggð aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar og varar alvarlega við því að höggvið verði á það samstarf sem verið hefur um húsnæðiskerfið.“
    Á undanförnum árum hefur stjórn Húsnæðisstofnunar verið skipuð fulltrúum kjörnum á Alþingi og fulltrúum tilnefndum af ASÍ og VSÍ. Með þessum hætti hafa fulltrúar margra stórra hagsmunaaðila komið saman og unnið að húsnæðismálum og haft sitt að segja um stefnumótun og framkvæmd húsnæðismála.
    Með því að veita félagsmálaráðuneyti og félagsmálaráðherra meiri áhrif á stjórnun Húsnæðisstofnunar er í fyrsta lagi verið að gera húsnæðismálastjórn óvirka sem stjórnunaraðila og jafnframt er verið að gera forstjóra og aðra stjórnendur stofnunarinnar sem næst að óbreyttum ráðuneytisstarfsmönnum. Í öðru lagi er sýnilegt að sá vettvangur hverfi sem húsnæðismálastjórn hefur verið fyrir hagsmunaaðila til að koma saman og vinna saman að framgangi jafnviðamikils og viðkvæms málaflokks og húsnæðismálin eru.
    Hætt er við að stefnumörkun og framkvæmd húsnæðismála muni eftir breytingar sem þessar leiða til meiri óstöðugleika í framkvæmd húsnæðismála en verið hefur til þessa þar sem félagsmálaráðherra hvers tíma muni hafa tilhneigingu til að setja fingraför sín of mikið á verk Húsnæðisstofnunar.
    Í athugasemdum með frumvarpinu er skipan tryggingaráðs tekin sem fyrirmynd að skipan nýrrar húsnæðismálastjórnar. Segja verður að hefði tryggingaráð verið skipað með öðrum hætti en gert er væri ef til vill ekki sami fljótfærnisbragur á breytingum í heilbrigðis- og tryggingamálum og verið hefur að undanförnu.
    Húsnæðisstofnun er stærsta lánastofnun landsins og fjármögnun útlána stofnunarinnar hefur áhrif á vexti og efnahagsmál í landinu. Það hlýtur því að orka tvímælis að svo viðamikil fjármálastofnun verði jafntengd einum ráðherra og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Ríkisbankarnir munu njóta mun meira sjálfstæðis en Húsnæðisstofnun. Með nýju stjórnskipulagi Húsnæðisstofnunar er verið að auka miðstýringu ríkisvaldsins í fjármálakerfinu.
    2. Almennt er viðurkennt að á undanförnum árum hafi tæknideild Húsnæðisstofnunar skilað frá sér góðum verkum á hönnun íbúðarhúsnæðis. Með þeim hætti hefur deildin verið öðrum hönnunaraðilum fyrirmynd og jafnframt veitt þeim aðhald í þeirra störfum. Hætt er við að með brotthvarfi deildarinnar muni gæði hönnunar á íbúðarhúsnæði í landinu minnka og sá kostnaður, sem Húsnæðisstofnun hefur þurft að bera af rekstri tæknideildar, muni verða mun meiri fyrir íbúðabyggjendur án tæknideildarinnar.
    3. Ljóst er að núverandi kerfi skyldusparnaðar er gengið sér til húðar, bæði vegna lítillar skilvirkni og mikils kostnaðar. Meira útstreymi hefur verið á skyldusparnaði en innstreymi, m.a. vegna vaxandi hlutfalls námsmanna í hópi ungs fólks. Skyldusparnaðurinn hefur því í reynd aðeins verið virkur hjá ungu fólki á vinnumarkaði. Ljóst er að fyrir þennan hóp fólks hefur skyldusparnaðurinn oft og tíðum komið sér vel og verið til góðs.
    Heppilegt væri að viðhalda skyldusparnaði hjá ungu fólki ef kostur væri, t.d. með því að fækka undanþágum en jafnframt lækka hlutfall sparnaðarins.

F.h. Alþýðusambands Íslands,


Guðmundur Gylfi Guðmundsson.





Fylgiskjal II.


Umsögn húsnæðismálastjórnar.


(22. febrúar 1993.)



    Vísað er til bréfs félagsmálanefndar Alþingis, dags. 23. janúar 1993, þar sem óskað er umsagnar húsnæðismálastjórnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins.
    Húsnæðismálastjórn hefur haft til skoðunar ofangreint frumvarp og fer álit stjórnarinnar hér á eftir. Greina má þær breytingar, sem frumvarpið felur í sér á lögunum, í þrennt. Í fyrsta lagi eru tillögur um breytingar á stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar, skipulagi og yfirstjórn hennar. Í öðru lagi eru breytingar sem tengjast því að áformað er að leggja niður skyldusparnað ungmenna og í þriðja lagi eru gerðar breytingar á þeim kafla laganna sem fjallar um tæknideild stofnunarinnar þar sem stefnt er að því að leggja niður rekstur stofnunarinnar á hönnunardeild. Fjallað verður um hvern þessara þátta fyrir sig hér á eftir en fyrst eru dregnar saman niðurstöður húsnæðismálastjórnar. Þar koma jafnframt fram ábendingar um ýmsar aðrar breytingar á húsnæðislöggjöfinni sem húsnæðismálastjórn telur brýnt að gerðar verði nú á yfirstandandi þingi. Rétt er að taka fram að stjórnin er ekki sammála um alla þætti málsins og verður reynt að gefa til kynna um hvaða þætti skoðanir eru skiptar og hvernig þær skiptast.

I. Yfirlit og helstu niðurstöður.
    1. Breytingar á stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar samkvæmt frumvarpinu miða að því að draga úr sjálfstæði stofnunarinnar og auka áhrif félagsmálaráðherra í yfirstjórn stofnunarinnar. Allir stjórnarmenn í húsnæðismálastjórn mæla gegn þessari breytingu sem þeir telja óæskilega. Rök húsnæðismálastjórnar eru m.a. þau að óeðlilegt sé að opinber lánastofnun sé undir beinni stjórn ráðherra, þar á meðal ákvarðanir um útlán, fjárhagsáætlun, innra skipulag, gjaldskrár og fleira. Tvennt kemur hér til, annars vegar að ekki er æskilegt að lánastofnun sé undir beinni stjórn ráðherra og hins vegar að rekstur stofnunar sem þessarar er svo sérhæfður að vart er hægt að ætla ráðherra að hafa á honum kunnugleik. Engin dæmi eru um að lánastofnun hér á landi í seinni tíð hafi verið undir beinni stjórn ráðherra.
    2. Húsnæðismálastjórn er sammála um að leggja niður skyldusparnað ungmenna í núverandi mynd. Hvað framhald málsins varðar koma einkum tveir kostir til greina að mati stjórnarinnar, annars vegar að leggja alfarið niður skyldusparnað ungmenna og hins vegar að fækka undanþágum verulega og lækka sparnaðarhlutfall samfara því. Skiptar skoðanir eru í stjórninni um þessa tvo kosti. Helmingur stjórnarmanna vill taka til rækilegrar skoðunar að fækka undanþágum og lækka sparnaðarhlutfall en hinn helmingur stjórnarinnar telur að kerfið hafi runnið sitt skeið.
    3. Meiri hluti stjórnar er sammála því að hætta skuli rekstri hönnunardeildar við Húsnæðisstofnun ríkisins en minni hluti stjórnar telur að deildin hafi áfram hlutverki að gegna. Rétt er að taka fram að meiri hluti stjórnar telur að ekki sé lögbundið að starfrækja hönnunardeild við stofnunina og hafa þegar verið gerðar ráðstafanir sem miða að því að leggja niður þessa starfsemi. Þannig var hönnunardeild stofnunarinnar lögð niður þann 1. febrúar sl. og fyrir liggur samningur við hluta starfsmanna deildarinnar um yfirtöku þeirra á starfseminni.
    4. Mikil ásókn er frá þeim aðilum, sem fengið hafa úthlutað almennum kaupleiguíbúðum, í að fá þær fluttar milli kerfa og þeim breytt í félagslegar kaupleiguíbúðir. Þau rök eru færð fram fyrir þessum óskum að erfitt eða ómögulegt sé að koma almennum kaupleiguíbúðum í notkun þar sem enginn áhugi sé á slíkum íbúðum. Þessu valdi þung greiðslubyrði af lánum þessara íbúða. Það stafar af tvennu. Annars vegar eru vextir lána almennra kaupleiguíbúða mun hærri en vextir félagslegra íbúða og hins vegar er hluti lánsins (20%) með mun skemmri lánstíma en tíðkast um aðrar félagslegar íbúðir. Hinu fyrra er erfitt að breyta en húsnæðismálastjórn leggur til að breytt verði ákvæðum 52. og 54. gr. laganna þannig að veitt verði eitt lán sem svarar til 90% af byggingarkostnaði eða kaupverði til 43 ára.
    5. Mjög brýnt er einnig að gerð verði lagfæring á 90. gr. laganna þar sem fjallað er um útreikning á söluverði félagslegra íbúða sem byggðar eru samkvæmt lögum fyrir gildistöku laga nr. 51/1980. Lagt er til að útreikningur verði samræmdur við ákvæði núverandi reglugerðar, þ.e. 99. gr. reglugerðar nr. 46/1991.
    6. Brýnt er einnig að lagaheimildir verði veittar til veitingar lána til meiri háttar endurbóta á félagslegum íbúðum.

II. Breytingar á stjórnsýslulegri stöðu, yfirstjórn og skipulagi stofnunarinnar.
    7. Í 1. gr. frumvarpsins eru gerðar breytingar á 2. gr. laganna. Þar eru gerðar breytingar á stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar. Þær eru eftirfarandi:
    a. Lagt er til að orðin „sjálfstæð ríkisstofnun“ falli niður en þess í stað verði einungis kveðið á um að Húsnæðisstofnun ríkisins sé ríkisstofnun.
    b. Fellt er út að stofnunin skuli hafa forustu í stefnumótun í húsnæðismálum en þess í stað kveðið á um að hún skuli vera ráðgefandi fyrir félagsmálaráðuneytið og önnur stjórnvöld.
    c. Tekinn er út úr núverandi grein sá málsliður sem kveður á um að stofnunin fari með stjórn hins opinbera veðlánakerfis og stofnuninni þess í stað falið að fara með þau verkefni sem ráðherra felur henni á sviði húsnæðismála.
    Allar þessar breytingar miða að því að rýra sjálfstæði stofnunarinnar og auka vald félagsmálaráðherra.
    8. Tilgangur þessara breytinga er samkvæmt greinargerð með frumvarpinu að tryggja að vald og ábyrgð fari saman við opinber afskipti af húsnæðismálum. Vísað er til þess að ráðherra félagsmála hafi í einhverjum tilfellum sætt gagnrýni vegna framkvæmdar í húsnæðismálum sem hafi verið á valdsviði Húsnæðisstofnunar ríkisins. Nú er það auðvitað slæmt þegar ráðherrar eru hafðir fyrir rangri sök en hitt er eigi að síður álitamál hvort breyta eigi húsnæðislöggjöfinni vegna slíkra mistaka. Núverandi löggjöf um Húsnæðisstofnun ríkisins er grundvölluð á því sjónarmiði, sem jafnframt hefur verið haft til viðmiðunar við lagasetningu um fjölmargar aðrar opinberar lánastofnanir, að Alþingi setur stofnuninni löggjöf þar sem markmið, hlutverk og starfsemi, þar með talin lánastarfsemi og fjármögnun, eru skilgreind. Heimildir stofnunarinnar til útlána og lántaka eru síðan ákveðnar með lánsfjárlögum á hverju ári. Sama gildir um reksturskostnað, þ.e. umfang starfseminnar, hámark hans er ákveðið með fjárlögum hverju sinni.
    9. Þau sjónarmið, sem kunna að liggja að baki ofangreindri skipan mála, geta verið margvísleg. Í fyrsta lagi er rekstur lánastofnana sérhæfð starfsemi og vart hægt að ætla að heppilegt sé að slíkri starfsemi sé stýrt beint af Stjórnarráði eða ráðherra. Í öðru lagi er hér um að ræða starfsemi sem ríkið hefur tekið að sér án þess að bein rök liggi til þess að starfsemin sé í höndum ríkisins, að minnsta kosti gildir þetta um sjálf útlán þessara stofnana. Af þeim sökum kunna menn að sækjast eftir því að starfsemi þessi sé sem minnst háð stjórnmálalegum afskiptum og sem mest á viðskiptalegum grundvelli. Aukin afskipti framkvæmdarvaldsins af rekstri Húsnæðisstofnunar og lánastofnana almennt eru að mati stjórnarinnar síst til bóta og með þeim væri verið að innleiða hér á landi stjórnarhætti í rekstri lánastofnana sem úreltir eru og hafa reynst illa hvarvetna annars staðar. Gengið væri þvert á stefnu aukins markaðsbúskapar og á þá stefnu að ákvarðanir lánastofnana, þótt þær séu í eigu ríkisins, séu alfarið byggðar á efnahagslegum forsendum. Það er mat húsnæðismálastjórnar að ofangreindar breytingar muni færa stjórn, rekstur og útlánastarfsemi stofnunarinnar að mestu undir beina stjórn ráðherra. Slík breyting er afar óæskileg að mati húsnæðismálastjórnar.
    10. Í raun mælir margt fremur með því að sjálfstæði stofnunarinnar verði frekar aukið en að úr því verði dregið. Það er álit húsnæðismálastjórnar að færa ætti ákvarðanir um vexti af útlánum sjóðanna til húsnæðismálastjórnar jafnframt því sem löggjöfin um Byggingarsjóð verkamanna væri afdráttarlaus um það hvernig staðið skuli að fjármögnun á vaxtaniðurgreiðslu sjóðsins. Núverandi fyrirkomulag vaxtamála hefur orðið til þess að tefja aðlögun útlánsvaxta að vaxtakostnaði sjóðanna og hefur það skapað fortíðarvanda hjá þeim.
    11. Frumvarpið gerir ráð fyrir að verulegar breytingar verði gerðar á skipan húsnæðismálastjórnar. Þessar breytingar eru þríþættar: Í fyrsta lagi er lagt til að fækkað verði í stjórninni úr tíu fulltrúum í fimm. Í öðru lagi er lagt til að úr stjórninni hverfi fulltrúar sem tilnefndir eru af Alþýðusambandi Íslands (tveir fulltrúar) og fulltrúi sem tilnefndur er af Vinnuveitendasambandi Íslands. Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að skipunartími formanns og varaformanns verði bundinn við starfstíma ráðherra. Skiptar skoðanir eru um tvo fyrri þætti breytinganna. Fulltrúar, sem kosnir hafa verið í stjórnina af núverandi ríkisstjórnarmeirihluta, auk fulltrúa Samtaka um kvennalista, styðja þessar breytingar. Þó telur fulltrúi Samtaka um kvennalista æskilegt að fulltrúar í húsnæðismálastjórn séu sjö. Ekki er ágreiningur um að skipunartími formanns og varaformanns sé bundinn við starfstíma ráðherra en nokkrir stjórnarmenn telja að þessi breyting sé í raun óþörf.
    12. Húsnæðismálastjórn er samþykk þeirri breytingu sem gerð er á skipan ráðningar framkvæmdastjóra, þ.e. að hún sé tímabundin. Hins vegar telur stjórnin að núverandi orðalag í greininni (5. gr.) sé eðlilegra, þ.e. að ráðherra skipi framkvæmdastjóra að fenginni tillögu húsnæðismálastjórnar frekar en að fenginni umsögn húsnæðismálastjórnar. Hið nýja orðalag miðar vafalaust að því að draga úr valdi húsnæðismálastjórnar en er rökleysa: Umsögn um hvað? Eðlilegt er jafnframt, ef kveða skal á um í lögunum að ráðherra setji framkvæmdastjóra erindisbréf, að það sé gert að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar.
    13. Húsnæðismálastjórn er sammála þeirri breytingu að ráðning skrifstofustjóra, eða hvaða starfsheiti sem nánasti aðstoðarmaður framkvæmdastjóra mun hafa, sé framvegis alfarið á ábyrgð framkvæmdastjóra og húsnæðismálastjórn eða ráðherra hafi ekkert um það að segja.
    14. Frumvarpið gerir ráð fyrir að núverandi ákvæði laganna um skiptingu stofnunarinnar í deildir, sbr. 2.–3. gr., 20. gr., 49. gr. og VII. kafla, verði felld úr lögunum. Tilgangur þessa er að auka sveigjanleika í skipulagi stofnunarinnar og stuðla að hagræðingu. Jafnframt er ráðherra falið að ákveða að fenginni tillögu húsnæðismálastjórnar skipulag stofnunarinnar (2. gr.). Húsnæðismálastjórn er fylgjandi því að sveigjanleiki í skipulagi stofnunarinnar verði aukinn og telur að núgildandi ákvæði séu of takmarkandi og því fylgjandi markmiði þessara breytinga. Þó vill stjórnin koma með eftirfarandi tvær ábendingar. Sú fyrri er að telja mætti eðlilegra að orðalag greinarinnar væri að ráðherra staðfesti skipulag stofnunarinnar að fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar. Hin seinni er að húsnæðismálastjórn telur að nauðsynlegt sé að löggjöfin kveði áfram á um að sjóðir þeir, sem stofnunin fer með, þ.e. Byggingarsjóður ríkisins, Byggingarsjóður ríkisins/húsbréfadeild, Byggingarsjóður verkamanna og Tryggingasjóður vegna byggingargalla, séu fjárhagslega aðskildir og hafi aðskilið bókhald. Jafnframt verður í lögunum að kveða á um hvernig kostnaði við rekstur stofnunarinnar skuli skipt milli sjóðanna.
    15. Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir Húsnæðisstofnunar til gjaldtöku vegna veittrar þjónustu. Slíkt er mjög til bóta að áliti húsnæðismálastjórnar. Eðlilegra væri þó að heimildir þessar væru til handa húsnæðismálastjórn eða að gjaldskrá stofnunarinnar væri einungis staðfest af ráðherra.
    16. Húsnæðismálastjórn telur að 8. og 12. gr. frumvarpsins séu óþarfar og að þær megi að skaðlausu fella út. Ekki virðist tryggara að ráðherra skipi þeim málum sem þar er fjallað um þótt hann geti „með reglugerð heimilað“ tiltekna skipan. Ekki er heldur vitað að ágreiningur sé við ráðherra um þá framkvæmd sem nú er á þeim málum sem fjallað er um í 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 22. gr.

III. Niðurfelling VII. kafla um tækni- og þjónustudeild.
    17. Sú breyting að fella niður úr lögunum kafla um tækni- og þjónustudeild við stofnunina hefur tvíþættan tilgang, annars vegar að auka sveigjanleika í skipulagi stofnunarinnar eins og áður er getið og hins vegar afnema þá lagaskyldu sem hvílir á stofnuninni að „veita húsbyggjendum þjónustu með ráðgjöf um byggingarmál og sölu íbúðateikninga“. Hér að ofan hefur þegar komið fram afstaða stjórnarinnar til aukins sveigjanleika í skipulagi stofnunarinnar og skal ekki orðlengt frekar um það mál. Um hitt efnisatriðið eru skiptar skoðanir í húsnæðismálastjórn. Meiri hluti húsnæðismálastjórnar hefur þegar tekið þá ákvörðun að leggja niður starfsemi hönnunardeildar, en sú deild annaðist gerð íbúðateikninga. Var sú ákvörðun annars vegar byggð á þeirri skoðun meiri hluta stjórnar að ekki væri lagaskylda að starfrækja teiknistofu heldur aðeins að hafa teikningar til sölu og hins vegar á þeim sjónarmiðum sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu, nefnilega að nægjanlegt framboð sé nú af þessari þjónustu á almennum markaði og að starfræksla deildar af þessu tagi geti teflt í tvísýnu stöðu stofnunarinnar til eftirlits við félagslegar íbúðabyggingar, þ.e. gert stofnunina að dómara í sjálfs sín sök.
    18. Minni hluti stjórnar telur að enn sé gagn að starfrækslu hönnunardeildar innan stofnunarinnar. Starfræksla hönnunardeildar feli í sér kostnaðar- og gæðaaðhald gagnvart hönnuðum á almennum markaði. Jafnframt hefur verið bent á að það að hönnunarvinna eigi sér stað innan stofnunarinnar styðji starfsmenn hennar í eftirliti og ráðgjöf vegna félagsíbúðakerfisins. Starfsmenn fylgist betur með nýjungum í hönnun og hafi lifandi þekkingu á þeim möguleikum sem bjóðast. Að auki er vísað til þess að minni sveitarfélög hafi ekki bolmagn til kaupa á hönnun á almennum markaði.
    19. Í 19. gr. frumvarpsins er gerð breyting á 1. mgr. 109. gr. laganna í IX. kafla um byggingarsamvinnufélög. Úr greininni er alveg fellt niður ákvæði um lánsrétt byggingarsamvinnufélaga en áfram er lagt til að Húsnæðisstofnun verði „stjórnum byggingarsamvinnufélaga til aðstoðar og leiðbeiningar við byggingarframkvæmdir og undirbúning þeirra“. Hliðstætt ákvæði um framkvæmdaraðila að félagslegum íbúðabyggingum er fellt úr lögunum með 14. gr. frumvarpsins. Húsnæðismálastjórn leggur til að þessi málsgrein falli alfarið niður og vísar til rökstuðnings sem kemur fram í athugasemd og skýringum við 14. gr. frumvarpsins.

IV. Niðurlagning skyldusparnaðar ungmenna.
    20. Húsnæðismálastjórn hefur haft til skoðunar breytingar á fyrirkomulagi skyldusparnaðar ungs fólks að beiðni félagsmálaráðherra. Meginniðurstöður þeirra athugana má draga saman í eftirfarandi:
    a. Vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna og rýmri reglna um undanþágur eru það nú tiltölulega fáir í hverjum árgangi sem spara til lengri tíma og mynda umtalsverðar innstæður á skyldusparnaðarreikningum.
    b. Mikil velta er inn og út af reikningum á hverju ári og samfara því er mikill umsýslukostnaður hjá Húsnæðisstofnun ríkisins.
    c. Skattaleg fríðindi tengd skyldusparnaði féllu niður við upptöku staðgreiðslukerfis skatta 1988 þrátt fyrir að skattfríðindi hafi haldist á frjálsum húsnæðissparnaðarreikningum og ávöxtunarkjör skyldusparnaðar ungs fólks því verið mun lakari en húsnæðissparnaðarreikninga.
    d. Miklar breytingar hafa átt sér stað á fjármagnsmarkaði frá því að skyldusparnaðarkerfinu var hleypt af stokkunum og framboð á sparnaðarkostum margfaldast auk þess sem ávöxtunarkjör hafa tekið stakkaskiptum.
    Allt þetta mælir með því að taka skyldusparnaðarkerfið til gagngerrar endurskoðunar.
    21. Á hinn bóginn er ljóst að umtalsverður hópur fólks á aldrinum 16–26 ára notar núverandi kerfi til reglubundins og varanlegs sparnaðar. Sé það gert myndast innstæður sem geta skipt sköpum við íbúðarkaup eða íbúðarbyggingu þegar að því kemur. Álitamál er hvað þessi hópur, sem leitar snemma út á vinnumarkaðinn, mun gera ef kerfið er lagt niður. Mun hann finna sér annan sparnaðarkost eða mun niðurlagning kerfisins leiða til aukningar á neyslu á kostnað sparnaðar og því veikja möguleika þessa hóps til íbúðarkaupa þegar til lengri tíma er litið? Við þessari spurningu er ekkert einhlítt svar.
    22. Til umræðu í húsnæðismálastjórn hafa einkum verið þrír kostir, í fyrsta lagi að leggja kerfið alfarið niður, í öðru lagi að þrengja verulega möguleika til úttekta, þ.e. fækka undanþágum og lækka sparnaðarhlutfall, og í þriðja lagi að loka núverandi kerfi en taka upp nýtt frjálst sparnaðarkerfi fyrir ungt fólk. Eins og áður er getið eru skoðanir skiptar í húsnæðismálastjórn milli tveggja fyrri kostanna. Þriðji kosturinn, þ.e. að hleypa af stokkunum nýju sparnaðarkerfi fyrir ungt fólk á vegum hins opinbera, er ekki talinn koma til greina.

Með virðingu,



f.h. húsnæðismálastjórnar,


Sigurður E. Guðmundsson.





Fylgiskjal III.


Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.


(4. mars 1993.)



    Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 25. febrúar sl. var tekið til afgreiðslu bréf félagsmálanefndar Alþingis, dags. 11. febrúar sl., þar sem leitað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 86/1988, stjórnarfrumvarp, 276. mál á þskj. 384.
    Stjórnin samþykkti að láta í té svofellda umsögn um frumvarpið:
    „Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga leggur sérstaka áherslu á síðustu málsgrein 1. gr. frumvarpsins þar sem segir: „Stofnunin skal leitast við að veita landsmönnum öllum sömu þjónustu óháð búsetu.“ Stjórnin telur að því markmiði verði best náð með því að stofnunin komi upp útibúum í landshlutunum sem hafi fullt vald til ákvarðanatöku og afgreiðslu mála, hvert á sínu svæði. Að sama skapi verði dregið úr starfsemi stofnunarinnar á aðalskrifstofunni í Reykjavík.
    Stjórn sambandsins er sammála því að skipulag stofnunarinnar verði allt tekið til endurskoðunar, þ.e. skipting hennar í deildir, svið og sjóði, með það að markmiði að laga skipulagið að stofnun sem sjálfstæðastra útibúa í landshlutunum og auka skilvirkni hennar. Eðlilegt er að stjórn stofnunarinnar hafi skýrar heimildir varðandi innri málefni hennar og varar við því að slíkar heimildir séu færðar til ráðherra.
    Ítrekuð er sú skoðun stjórnar sambandsins að sveitarfélögin fái aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar. Í því sambandi er minnt á að þau hafa þýðingarmiklu og margþættu hlutverki að gegna í húsnæðismálum og bera mikla ábyrgð á fjárreiðum og framkvæmd félagslega íbúðakerfisins.
    Stjórn sambandsins telur að stjórn Húsnæðisstofnunar eigi sjálf að taka ákvarðanir um lánveitingar og skiptingu útlána milli útlánaflokka á grundvelli tillagna frá útibúum í landshlutunum og telur engin rök fyrir því að auka valdsvið ráðherra hvað það varðar.
    Stjórnin telur rétt að breyta ákvæðum núgildandi laga um húsnæðisnefndir sveitarfélaga og kosningar til þeirra. Miðað við ábyrgð sveitarfélaga á félagslega húsnæðiskerfinu er eðlilegast að sveitarstjórnirnar einar skipi húsnæðisnefndir sveitarfélaganna sem starfa á þeirra ábyrgð. Sú skipan á enn frekar við ef fulltrúar atvinnulífs hverfa úr stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins.
    Þetta tilkynnist hér með.

Virðingarfyllst,



Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri.