Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 440 . mál.


1054. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt á l. um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Með afgreiðslu fyrirliggjandi frumvarps ræðst afstaða Alþingis til samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.
    Samningurinn brýtur gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Með honum skerðist stórlega raunverulegt löggjafarvald Alþingis. Til þingsins munu streyma lög og reglugerðir frá Evrópubandalaginu sem Alþingi hefur engan þátt átt í að móta. Um 250 slíkar samþykktir EB, sem gengið hefur verið frá í Brussel frá því megintexti EES-samningsins var frágenginn 1. ágúst 1991, bíða afgreiðslu. Sá pakki mundi berast inn á borð alþingismanna eftir að samningurinn hefði tekið gildi.
    Með EES-samningnum og því sem honum fylgir er verið að veita útlendingum aðgang að íslenskum náttúruauðlindum, fiskimiðum, orkulindum og landi.
    Með samningnum væru Íslendingar að kasta fyrir borð helstu stjórntækjum í efnahagsmálum og gefa sig á vald ákvörðunum sem teknar eru án tillits til íslenskra hagsmuna.
    Það stjórnkerfi, sem byggja á upp til að þjóna EES-kerfinu, er í senn ólýðræðislegt og kostnaðarsamt. Verið er að flytja ákvarðanatöku um íslensk málefni á fjölmörgum sviðum úr landi. Kostnaður við stjórnkerfi landsins mun vaxa til mikilla muna og nú þegar er byrjað að byggja upp í Brussel skrifstofur á vegum Stjórnarráðsins við tilkomu EES. Utanferðir íslenskra embættismanna og ráðherra mundu margfaldast.
    Aðild Íslendinga að EES auðveldar mjög þeim öflum eftirleikinn sem knýja leynt og ljóst á um aðild Íslands að Evrópubandalaginu.
    Alþýðubandalagið er andvígt aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði og telur að ekki komi til greina að Íslendingar sæki um aðild að Evrópubandalaginu.
    Þessi afstaða kom skýrt fram við umræðu um frumvarp til lögfestingar á EES-samningnum sem afgreitt var í janúar 1993.
    Frá því að frumvarpið um staðfestingu á EES-samningi var samþykkt af meiri hluta á Alþingi í janúar sl. hefur ýmislegt komið í ljós sem staðfestir aðvaranir andstæðinga samningsins.
    Utanríkisráðherra hefur kosið, í þeim samningum sem síðan fóru fram, að ganga gegn íslenskum hagsmunum á sviði landbúnaðar að því er varðar innflutning.
    Fullyrðingar ráðherrans um efnahagslegan ábata af EES-aðild hafa reynst stórlega ýktar og með framkomnum breytingum á samningnum er Íslandi ætlað að greiða enn stærri hlut í fjárhagsaðstoð til svæða innan EES.
    Enn er óafgreiddur fjöldi frumvarpa sem ríkisstjórnin telur að lögfesta þurfi vegna samningsins. Einnig hafa ekki verið lögð fram frumvörp sem boðuð voru á síðasta ári, m.a. varðandi eignarrétt á auðlindum, svo sem jarðhita og orku fallvatna.
    Enn er óvissa um afdrif EES-samningsins. Aðeins þrjú EB-ríki höfðu tekið samninginn til afgreiðslu eins og hann lá fyrir sl. haust. Þá hefur komið fram að Spánn og e.t.v. fleiri EB-ríki tengja afstöðu til EES-samningsins við afgreiðslu Maastricht-samningsins innan Evrópubandalagsins.
    Alþingi á að hafna þessum samningi og hefja undirbúning að bættum samskiptum við umheiminn út frá íslenskum forsendum. Það verður best gert með því að landið skipi sér utan stórra efnahagsheilda þar sem hagsmunir stórvelda og fjölþjóðafyrirtækja ráða ferðinni.

Alþingi, 29. apríl 1993.



Hjörleifur Guttormsson.