Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 352 . mál.


1068. Nefndarálit



um till. til þál. um ríkisábyrgð á bótagreiðslum vegna kynferðisbrota.

Frá allsherjarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Þorstein A. Jónsson, deildarstjóra í dómsmálaráðuneyti. Umsagnir bárust frá Fangelsismálastofnun ríkisins, Kvennaráðgjöfinni, Dómarafélagi Íslands, Stígamótum, Tryggingastofnun ríkisins og Kvennaathvarfinu.
    Í málinu er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að skipa nefnd sem kanni hvort grundvöllur sé til þess að ríkissjóður ábyrgist greiðslur dæmdra bóta vegna kynferðisbrota eða annarra grófra ofbeldisbrota. Við umfjöllun tillögunnar í nefndinni kom fram það sjónarmið að full ástæða væri til þess að kanna hvort ríkið ætti að ábyrgjast greiðslu bóta vegna ofbeldisbrota almennt. Til þess að tryggja að svo yrði gert leggur nefndin til að texta tillögugreinarinnar verði breytt. Hins vegar má nefna að sérstaklega hefur verið vakin athygli á að vandamál hafa risið við innheimtu bóta vegna kynferðislegs ofbeldis.     Kynferðisbrot eru í eðli sínu afar viðkvæm brot. Þegar miskabætur eru dæmdar í slíkum málum eru þær m.a. hugsaðar sem bætur fyrir andlegt tjón, þjáningar og óþægindi sem brotaþoli hefur orðið fyrir. Er brotaþoli settur í mjög óþægilega stöðu þegar hann þarf að sækja slíkar bætur með málarekstri eins og um venjulegt skuldamál sé að ræða. Þess má geta að í Evrópusamningnum frá 24. nóvember 1983, um bætur til fórnarlamba ofbeldisbrota, eru ákvæði um skyldu ríkis til að tryggja greiðslu dæmdra skaðabóta og hafa önnur norræn ríki sett ýmis lagaákvæði um slíka skyldu. Ísland er ekki aðili að samningnum.
    Nefndin álítur nauðsynlegt og tímabært að kanna þessi mál. Athuga þarf umfang og tíðni ofbeldisbrota, þar á meðal kynferðisbrota, dæmdar bætur, hvaða kostnað umrætt fyrirkomulag hefði í för með sér fyrir ríkið og hvort önnur úrræði en ríkisábyrgð á bótagreiðslum kæmu sér ef til vill betur. Hafa þarf enn fremur í huga þau varnaðaráhrif sem refsirétti er ætlað að hafa. Það verður að vera skýrt að ekki er ætlunin að draga úr ábyrgð brotamanns á gjörðum sínum.
    Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Ólafur Þ. Þórðarson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. maí 1993.


Sólveig Pétursdóttir,

Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Björn Bjarnason.

form., frsm.



Ey. Kon. Jónsson.

Ingi Björn Albertsson.

Kristinn H. Gunnarsson.



Sigbjörn Gunnarsson.

Jón Helgason.