Ferill 305. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 305 . mál.


1085. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 68/1985.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund til viðræðna um það Gústav Arnar, yfirverkfræðing hjá Pósti og síma, Þórunni Hafstein, deildarstjóra í menntamálaráðuneytinu, Pál Magnússon, útvarpsstjóra Íslenska útvarpsfélagsins, Heimi Steinsson, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, Árna Pál Árnason, lögfræðing í utanríkisráðuneytinu, og Kristján Árnason, formann Íslenskrar málnefndar. Þá fékk nefndin umsagnir um frumvarpið frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Bandalagi íslenskra listamanna, Póst- og símamálastofnuninni, Íslenskri málstöð, Ríkisútvarpinu, Sambandi íslenskra auglýsingastofa, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Eyþingi, Verslunarráði Íslands og Íslenska útvarpsfélaginu.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Breytingarnar eru eftirtaldar:
    Leiðréttar eru tilvísanir til gildandi útvarpslaga í 3. og 4. gr. frumvarpsins.
    Í 3. og 7. gr. frumvarpsins eru gerðar leiðréttingar í samræmi við lög um fjarskipti, nr. 32 19. apríl 1993, sem fela í sér að verkefni eru flutt frá Póst- og símamálastofnun til Fjarskiptaeftirlits ríkisins.
    Gerð er breyting á lokamálslið 3. gr. er felur í sér að hafa skuli samráð við samgönguráðuneytið þegar úthlutað er senditíðnum á örbylgju fyrir útvarp og er það í samræmi við þá stefnu er fram kemur í athugasemdum við frumvarpsgreinina.
    Gerð er breyting á 3. efnismgr. 5. gr. til að gera ákvæði hennar skýrara.
    Lagt er til að í 9. gr. verði kveðið á um að tilhögun auglýsinga í útvarpsstöðvum eigi einnig við um starfsemi Ríkisútvarpsins. Er slíkt í samræmi við ákvæði frumvarpsins um að „kostun“ eigi einnig við um starfsemi Ríkisútvarpsins. Talið er eðlilegt að ákvæði frumvarpsins um kostun og tilhögun auglýsinga gildi bæði fyrir Ríkisútvarpið og aðrar útvarpsstöðvar.
    Bætt er við frumvarpið gildistökuákvæði.
    Svavar Gestsson áskilur sér rétt til að flytja breytingartillögu.
    Ólafur Þ. Þórðarson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 1993.



Sigríður A. Þórðardóttir,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Björn Bjarnason.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Kristín Ástgeirsdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir,


með fyrirvara.

með fyrirvara.



Árni Johnsen.

Svavar Gestsson,


með fyrirvara.