Ferill 306. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 306 . mál.


1109. Nefndarálit



um frv. til l. um Menningarsjóð.

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Menntamálanefnd hefur haft til meðferðar frumvarp til laga um Menningarsjóð en sjóðnum er ætlað að leysa af hólmi menntamálaráð og hinn gamla menningarsjóð sem stofnaður var með lögum árið 1928.
    Forsaga þessa máls er vægast sagt furðuleg og áhöld um að aðgerðir menntamálaráðherra og fulltrúa hans við að leggja niður menntamálaráð, Menningarsjóð og Bókaútgáfu Menningarsjóðs standist lög. Gengið var fram af mikilli óbilgirni, tilsjónarmanni beitt og ákveðið fyrir fram að leggja starfsemina niður án þess að lagaheimilda væri aflað til þess. Alþingi stendur því frammi fyrir gerðum hlut. Bókaútgáfan hefur verið lögð niður, útgáfuréttur seldur, búið uppgert og gamla landshöfðingjahúsinu ráðstafað. Það er því ljóst að kaflaskil eru orðin í afskiptum ríkisins af menningarmálum án þess að Alþingi Íslendinga hafi gefist kostur á að svo mikið sem ræða þá stefnubreytingu fyrir fram sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir. Það væri ástæða til að gera ítarlega grein fyrir sögu og aðdraganda þessa máls en hér verður látið nægja að vísa til þeirra umræðna sem urðu um frumvarp til laga um Menningarsjóð í mars sl.
    Frumvarpið um nýjan Menningarsjóð er meingallað að mati minni hlutans þótt þær breytingar, sem meiri hlutinn leggur til, séu heldur til bóta.
    Í fyrsta lagi ber að nefna að sjóðurinn ber áfram nafnið Menningarsjóður þótt honum sé einkum ætlað að styðja bókaútgáfu og hafi ekki lengur því víðtæka menningarhlutverki að gegna sem fólst í lögum um menntamálaráð.
    Í öðru lagi er lagt til að stjórn sjóðsins verði kosin af Alþingi. Minni hlutinn er þeirrar skoðunar að í stjórninni eigi fyrst og fremst að vera fulltrúar rithöfunda og fræðimanna, þ.e. þeir sem þekkingu hafa á þeim bókum sem meiningin er að styrkja til útgáfu.
    Minni hlutinn er að sjálfsögðu fylgjandi því að bókaútgáfa, ekki síst á sviði fræða og menningarsögu, sé styrkt myndarlega, enda oft um rit að ræða sem seljast hægt en hafa ómetanlegt gildi. Ekki verður sagt að hinn nýi Menningarsjóður fái veglega vöggugjöf eða að honum verði tryggðar miklar tekjur. Hann fær á milli 15 og 20 millj. kr. í arf frá hinum gamla Menningarsjóði og á síðan að fá í sinn hlut gjald af kvikmyndasýningum og skuggamyndasýningum eins og hinn eldri sjóður samkvæmt lögum um skemmtanaskatt, nr. 58/1970. Reynslan sýnir að þessi tekjustofn hefur verið skertur ár eftir ár og ótrúlegt að þar verði breyting á nú. Að dómi minni hlutans hefði átt að fara betur ofan í tekjuöflun sjóðsins sem er vægast sagt gamaldags og úrelt.
    Í ljósi forsögu þessa frumvarps og þess hvernig að málum hefur verið staðið og í ljósi þess hve gallað frumvarpið er leggur minni hlutinn til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 5. maí 1993.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.

Svavar Gestsson.


frsm.