Ferill 566. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 566 . mál.


1128. Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Ísraels.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fékk á sinn fund til viðræðna um efni hennar Árna Kolbeinsson, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu, Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, Jóhann Guðmundsson, deildarstjóra í landbúnaðarráðuneytinu, og Gunnar Snorra Gunnarsson, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu.
    Í umræðum um málið kom fram það sjónarmið að íslensk stjórnvöld yrðu að fylgjast vel með því hvort ísraelsk stjórnvöld stæðu við fyrirheit samkomulags sem gert var í tengslum við fríverslunarsamninginn um að arabískum framleiðendum og útflytjendum á hinu svonefnda „yfirráðasvæði“ (hernumdu svæðunum), sem tilgreint er í samningnum, verði leyft að koma á samböndum og semja við kaupendur frá EFTA-ríkjum til að þjóna viðskiptahagsmunum sínum og jafnframt hvort arabískum verslunarráðum á þessum svæðum verði heimilað að gefa út vottorð um uppruna. Það sjónarmið kom einnig fram að ekki væri rétt að þýða orðið „territory“ í samningnum sem „yfirráðasvæði“ heldur væri eðlilegra að þýða það sem „landsvæði“.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt tillögunnar.

Alþingi, 5. maí 1993.



Björn Bjarnason,

Rannveig Guðmundsdóttir.

Geir H. Haarde.


form., frsm.



Tómas Ingi Olrich.

Árni R. Árnason.