Ferill 34. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 34 . mál.


1135. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund frá fjármálaráðuneytinu Indriða H. Þorláksson skrifstofustjóra og Áslaugu Guðjónsdóttur lögfræðing. Umsagnir bárust frá Félagi vinnuvélaeigenda, Verslunarráði Íslands, Vita- og hafnamálaskrifstofunni, ASÍ, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Innkaupastofnun ríkisins, Félagi íslenskra iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna, VSÍ, Landsvirkjun, Verktakasambandi Íslands, Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar, Íslenskri verslun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
    Lagðar eru til nokkrar breytingar á 2. gr. Lagt er til að orðalag a- og b-liðar verði gert skýrara. Ákvæði d-liðar verði þrengt og lögð er til sú breyting á e-lið að ekki þurfi við kæru að færa sönnur á líkindi þess að tjón hafi orðið. Eðlilegra þykir að fara þá leið að kærur verði rökstuddar í stað þess að þær feli í sér sönnun. Þá er lagt til að f-lið verði breytt þannig að heimild félagsmálaráðuneytis til að grípa til aðgerða falli brott. 1. mgr. g-liðar færist yfir í f-lið þannig að eingöngu verði fjallað um bótaskyldu í g-lið og er það gert til að koma í veg fyrir misskilning. Lögð er til breyting á tímamörkum í h-lið til að enginn vafi verði um framkvæmd og loks er lagt til að ákvæði i-liðar verði skýrara.
    Lagt er til að ný grein komi á undan 4. gr. en lögum um opinber innkaup, nr. 52/1987, er ekki skipt í kafla þannig að afmarka verður gildissvið 9–14. gr. laganna til þess að kæruheimild nái ekki yfir öll ákvæði laganna.
    Lagt er til að 4. gr. verði breytt sem hér segir: Breytingar á b- og e-liðum eru í samræmi við áðurgreindar breytingartillögur, svo og á 1. mgr. d-liðar. Í a-lið verði orðalag leiðrétt og í 3. mgr. d-liðar verði kveðið á um lágmarksfjárhæð innkaupa sem ráðgert er að bjóða út á næstu 12 mánuðum í stað þess að hafa það ótímabundið.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.
    Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru Ingi Björn Albertsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Steingrímur J. Sigfússon.

Alþingi, 5. maí 1993.



Vilhjálmur Egilsson,

Sólveig Pétursdóttir.

Rannveig Guðmundsdóttir.


form., frsm.



Guðjón Guðmundsson.