Ferill 290. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 290 . mál.


1141. Nefndarálit



um till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1993–1996.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur lokið athugun sinni á tillögunni og eigi orðið sammála um afgreiðslu hennar. Meiri hluti nefndarinnar leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru tillögur um á sérstöku þingskjali, en minni hlutinn, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, hefur kosið að skila séráliti.
    Nefndin hefur í störfum sínum notið aðstoðar Helga Hallgrímssonar vegamálastjóra, Jóns Birgis Jónssonar aðstoðarvegamálastjóra og Jóns Rögnvaldssonar, forstöðumanns tæknisviðs Vegagerðar ríkisins, og veittu þeir nefndinni margvíslegar upplýsingar. Eru þeim færðar þakkir fyrir.
    Starfshættir við afgreiðslu tillögunnar voru með hefðbundnu sniði. Þingmannahópar kjördæmanna unnu að gerð tillagna um skiptingu framkvæmdafjár til almennra verkefna við stofnbrautir, þjóðbrautir og brúagerðir, þ.e. brýr 10 m og lengri. Sömuleiðis fjölluðu þingmannahópar um allar tillögur um breytingar á flokkun vega í hverju kjördæmi fyrir sig. Um allar aðrar tillögur, sem fram koma í breytingartillögum meiri hlutans, hefur verið fjallað og ákvarðanir teknar á vettvangi nefndarinnar. Er þar um að ræða tillögur er varða tekjuhlið áætlunarinnar, skiptingu á vegafé til rekstrarliða og einstakra framkvæmdaflokka, skiptitölur milli kjördæma, skiptingu á fé til stórverkefna o.fl.
    Breytingartillögur meiri hlutans við tekjuhlið áætlunarinnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er fé til framkvæmdaátaks í atvinnumálum 1993 lækkað úr 1.800 millj. kr. í 1.550 millj. kr. í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnar og Alþingis. Í öðru lagi er byggt á áætlun um að verðlag milli áranna 1993 og 1994 hækki um 3% og markaðir tekjustofnar hækki í samræmi við það. Auk þess er um að ræða lítils háttar tilfærslu milli tekjuliða á árinu 1993 samkvæmt nákvæmari áætlun. Í þriðja lagi eru gerðar tillögur um að minnka það fjármagn sem greitt er til ríkissjóðs á árunum 1994–1996 á móti því sem áætlað er að kostnaður vegna ferjumála hækki um frá því sem tillagan greinir.
    Tillögur um fé til stórverkefna byggjast á nýrri skilgreiningu fyrir þann vegaflokk sem samþykkt var af meiri hlutanum og raunar nefndinni í heild með fyrirvara einstakra nefndarmanna minni hlutans. Skilgreiningin er svohljóðandi miðað við verðlag 1993:
    Jarðgöng. Greitt af óskiptu 80%, kjördæmisfé 20%.
    Stórbrýr og vegir þvert á firði. Greitt af óskiptu 62,5%, kjördæmisfé 37,5%. Lágmarksframkvæmdakostnaður samkvæmt áætlun 130 millj. kr.
    Áfangi á hringvegi milli kjördæma. Greitt af óskiptu 70%, kjördæmisfé 30%. Lágmarksframkvæmdakostnaður samkvæmt áætlun 800 millj. kr.
    Tenging þéttbýlisstaða í eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Greitt af óskiptu 70%, kjördæmisfé 30%. Lágmarksframkvæmdakostnaður samkvæmt áætlun 400 millj. kr.
    Hin nýja skilgreining kemur fram í 3. og 4. tölul. hér að framan en verkefni, sem undir hana falla, eru hringvegurinn á Norðausturlandi frá Kísiliðju til Skjöldólfsstaða sem fær byrjunarfjárveitingar samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans og vegur fyrir Búlandshöfða á Snæfellsnesi sem ekki eru gerðar tillögur um að fái fjárveitingu af liðnum Stórverkefni á þessu áætlunartímabili.
    Í tillögunum er gert ráð fyrir að liðurinn Sérstök verkefni falli niður frá og með 1995. Telja verður að hann hafi eigi lengur raunhæft gildi enda greiðast slík verkefni algerlega af fé hvers kjördæmis fyrir sig.
    Í samræmi við ákvarðanir ríkisstjórnar og Alþingis er á fyrstu þremur árum þessarar vegáætlunar varið samtals 2.940 millj. kr. til sérstaks framkvæmdaátaks í atvinnumálum. Hér er um lánsfé að ræða sem gert er ráð fyrir að endurgreiðist af fjármagni til vegamála eftir að lokið er greiðslu á skuldum vegna vegaframkvæmda í Reykjavík, en stefnt er að því að þeim verði að fullu lokið á árinu 1998. Því fé, sem hér er lagt fram til atvinnumála, er í tillögum meiri hlutans skipt til einstakra verka, svo sem öðru framkvæmdafé til vegamála.
    Kostnaður við flóabáta er nú tekinn inn í vegáætlun og er það nýmæli. Í breytingartillögum meiri hlutans er skilgreint á hvaða leiðum flóabátar verði reknir og hvert sé meginmarkmið með rekstrinum. Er þar gert ráð fyrir að ferjuleiðir verði hinar sömu og styrks hafa notið undanfarin ár.
    Á þessu stigi telur meiri hlutinn þó eigi tímabært að taka ákvörðun um hvort reka eigi bílferju í Ísafjarðardjúpi. Áður en slík ákvörðun er tekin er ákjósanlegt að skoða málið betur, gera markaðskönnun og áætlun um stofnkostnað og rekstur og bera saman við aðra kosti ferjuþjónustu við þær byggðir sem eru háðar samgöngum á sjó, en jafnframt að athuga samhengi vetrarþjónustu á Djúpvegi við ferjurekstur. Leggur meiri hlutinn til að slík úttekt fari fram á þessu ári og málið verði tekið til athugunar að því loknu.
    Framlag til flóabáta 1993 er óbreytt frá tillögunni eins og hún var lögð fram, 330 millj. kr. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði eitthvað meiri á árinu og er gert ráð fyrir að það sem á kann að vanta verði greitt úr ríkissjóði samkvæmt fjáraukalögum 1993. Er það í samræmi við yfirlýsingu samgönguráðherra í framsöguræðu við 1. umr. málsins.
    Ljóst er að tillaga þessi um vegáætlun 1993–1996 boðar mesta framkvæmdatímabil síðari ára í vegamálum. Er það greinilega sýnt í meðfylgjandi fylgiskjali. Meiri hlutinn telur að hér sé um að ræða afar mikilvægan áfanga í samgöngumálum þjóðarinnar og leggur til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem fluttar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 4. maí 1993.



Pálmi Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Árni M. Mathiesen.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Sturla Böðvarsson.





Fylgiskjal.

Athugun á skiptingu fjármagns til vegagerðar samkvæmt vegáætlun undanfarinna ára


og hugmynd fyrir árin 1993–1996. Allar tölur á áætluðu verðlagi 1993 (v=4740).




1983
1984 1985 1986 1987 1988 1989 1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996

Stjórn og undirb.
249
281 248 296 290 301 293 274 287 290 269 269 269 269
Sumarviðhald
1421
1697 1603 1650 1431 1395 1376 1381 1462 1637 1770 1950 2000 2040
Vetrarviðhald
483
474 519 525 436 418 710 682 492 500 530 580 600 620
Nýir þjóðvegir
2006
2290 2081 2079 1806 2109 2185 2242 2449 2588 3748 * 2968 * 2555 * 2161
Brúagerð
161
259 175 164 140 160 133 161 153 168 143 150 150 150
Fjallvegir
56
67 58 64 38 45 42 45 55 59 56 70 75 75
Sýsluvegir
128
151 138 148 160 213 196 167 195 166 160 180 180 180
Vegir í kaupst.
313
361 295 302 264 280 267 251 281 239 232 260 270 280
Tilraunir
14
17 16 19 22 24 21 22 27 30 28 31 32 32
Véla- og áhaldakaup
33
30 25 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0 0
Samtals
4864
5627 5158 5247 4587 4945 5223 5225 5401 5677 6936 * 6458 * 6131 * 5807

Til ferja og flóabáta
0
0 0 0 0 0 0 0 0 0 330 535 553 539

   Tölur eru samkvæmt niðurstöðum útgjalda í skýrslu ráðherra fyrir árin 1983–1991 samkvæmt vegáætlun 1992 en samkvæmt hugmyndum fyrir árin 1993–1996.
* Fjárveitingar vegna framkvæmdaátaks vegna atvinnumála, 1.550 m.kr. 1993, 900 m.kr. 1994 og 450 m.kr. 1995, meðtaldar.