Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 146 . mál.


1169. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 33 26. apríl 1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun, ásamt síðari breytingum, vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á fund sinn Jón Gunnar Ottósson, skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Ferðamálaráði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fuglaverndarfélagi Íslands, Náttúruverndarráði, Eyþingi, Náttúrufræðistofnun Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Lífi og landi, Stéttarsambandi bænda og Búnaðarfélagi Íslands.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Samkvæmt 2. og 3. tölul. 5. gr. laga um fuglaveiðar og fuglafriðun eru fuglaveiðar heimilar öllum íslenskum ríkisborgurum á afréttum og í almenningum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra. Sama gildir um fuglaveiðar í íslenskri landhelgi utan netlaga lögbýla. Lagt er til að í stað þess að lögfesta undanþáguheimild í formi reglugerðarsetningar verði einstaklingum með lögheimili hér á landi veittur sami réttur og íslenskum ríkisborgurum. Er það einnig í samræmi við orðalag samsvarandi ákvæðis í frumvarpi til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum o.fl. sem lagt var fram á þessu þingi en hefur ekki hlotið afgreiðslu. Þá er lagt til að 1lögin öðlist þegar gildi.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að með samþykkt frumvarpsins er ekki verið að veita aukinn rétt að öðru leyti en fyrr er greint. Þannig er t.d. ekki verið að heimila framsal fuglaveiðiréttar af hendi þess sem réttinn á eða öðlast kann.

Alþingi, 5. maí 1993.



Gunnlaugur Stefánsson,

Tómas Ingi Olrich.

Árni R. Árnason.


form., frsm.



Árni M. Mathiesen.

Kristín Einarsdóttir,

Lára Margrét Ragnarsdóttir.


með fyrirvara.



Sigríður Jóhannesdóttir,

Valgerður Sverrisdóttir.


með fyrirvara.