Ferill 541. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 541 . mál.


1174. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og studdist við umsagnir er henni bárust frá Búnaðarfélagi Íslands, Landgræðslu ríkisins, Stéttarsambandi bænda og Framleiðsluráði landbúnaðarins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Frumvarpið felur í sér heimild landbúnaðarráðherra til að taka upp samninga við Stéttarsamband bænda um breytingar á búvörusamningi. Stéttarsambandi bænda verði heimilt að semja um að sauðfjárbændur verðir leystir frá því að verða að framleiða a.m.k. 80% upp í greiðslumark sitt til að eiga rétt á fullum beingreiðslum. Einnig felst í frumvarpinu að bændum, sem eiga rétt til elli- og örorkulífeyris, verði skapað aukið svigrúm í landgræðslustörfum og veittur kostur á að draga saman búskap án þess að það hafi tilfinnanlegan tekjumissi í för með sér.
    Innan nefndarinnar var sérstaklega rætt um lokamálslið 2. mgr. frumvarpsins þar sem segir að heimilt sé að ákveða að efri mörk greiðslumarks verði mishá eftir landsvæðum. Nefndin vekur athygli á að þar sem framleiðsluheimildir miðast við bújarðir en ekki landshluta yrðu slíkar aðgerðir að taka til einstakra bújarða. Þar sem um er að ræða samninga sem Stéttarsamband bænda verður aðili að sér nefndin ekki ástæðu til að leggja fram tillögu um breytingu á texta frumvarpsins.
    Ragnar Arnalds var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. maí 1993.



Egill Jónsson,

Össur Skarphéðinsson.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


form., frsm.



Guðni Ágústsson.

Kristín Ástgeirsdóttir.

Eggert Haukdal.



Einar K. Guðfinnsson.

Árni R. Árnason.