Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 420 . mál.


1186. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 93 20. nóvember 1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.

Frá minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Frumvarp þetta snýst um tvö atriði, annars vegar um að auðvelda innlendum framleiðendum að blanda saman íslenskum fiski og fiski veiddum á öðrum hafsvæðum og hins vegar nýja gjaldtöku í formi þjónustugjalda á sjávarútveginn.
    Hvað varðar fyrra atriðið telur minni hlutinn að ekki hafi verið færð fyrir því sannfærandi rök að brennandi nauðsyn sé á því að þessi lagabreyting verði gerð. Réttara er að fara varlega í að leyfa samblöndun fiskafurða af Íslandsmiðum og fiskafurða af öðrum hafsvæðum. Íslendingar þurfa umfram allt að huga að langtímahagsmunum í þessu sambandi og þá hlýtur að vera mikilvægast að tryggja að kaupendur afurða okkar trúi og treysti því að þeir séu að kaupa alíslenska gæðavöru.
    Breytingartillaga meiri hlutans er þó til bóta því að þar er sjávarútvegsráðherra einungis gefin heimild til að veita undanþágu ef af vinnslutæknilegum ástæðum er ekki hægt að halda hráefnunum aðgreindum.
    Síðari frumvarpsgreininni er minni hlutinn algerlega andvígur vegna þess að þar er verið að auka skattheimtu af sjávarútveginum. Það er með ólíkindum ef ríkisstjórnin ætlar að hafa það sína lokakveðju áður en Alþingi er sent heim að bæta nýjum álögum á sjávarútveginn sem hefur naumast nokkru sinni staðið verr.
    Anna Ólafsdóttir Björnsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu nefndaráliti.

Alþingi, 6. maí 1993.



Jóhann Ársælsson,

Halldór Ásgrímsson.

Steingrímur J. Sigfússon.


frsm.



Stefán Guðmundsson.