Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 504 . mál.


1215. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 46 27. júní 1985, með síðari breytingum.

Frá minni hluta landbúnaðarnefndar.



    Hér er á ferð eitt af þeim frumvörpum sem tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Frumvarpið er til komið vegna þeirra ákvæða sem felast í bókun 3 í EES-samningnum en hún kveður á um að heimilt verði að flytja inn ýmsar landbúnaðarvörur, þar með taldar einstakar mjólkur- og kjötvörur sem ekki hefur verið heimilt að flytja inn hingað til. Bókunin stríðir gegn núgildandi lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og því þarf að breyta þeim verði samningurinn að veruleika. Samkvæmt nýsamþykktum tollalögum er heimilt að leggja verðjöfnunargjöld m.a. á innfluttar landbúnaðarvörur. Það er túlkun ríkisstjórnarinnar á bókun 3 að heimilt sé að leggja á slík gjöld en ekki er ljóst hvort Evrópubandalagið fellst á þá túlkun m.a. vegna orðanna hljóðan í bókun 3. Endanlegt samkomulag um landbúnaðarþátt samningsins liggur þó ekki fyrir.
    Í frumvarpinu og breytingartillögum meiri hlutans felst að innflutningur landbúnaðarvara, sem jafnframt eru framleiddar hér á landi, er háður samþykki landbúnaðarráðherra og gengið út frá því að sá innflutningur sem leyfður verður eigi sér fyrst og fremst stað þegar innlend framleiðsla fullnægir ekki eftirspurn, með nokkrum undantekningum þó. Þá er og kveðið á um að ráðherra geti, þrátt fyrir þær takmarkanir sem áður er greint frá, heimilað innflutning í samræmi við fríverslunar- og milliríkjasamninga sem Íslendingar eru aðilar að, enda sé verðjöfnunargjöldum beitt. Þetta þýðir að almenna reglan er sú að innflutningur landbúnaðarvara er undir stjórn landbúnaðarráðherra en hann getur heimilað (eða verður að heimila) innflutning í samræmi við þá samninga sem Íslendingar gera við önnur ríki, þó þannig að verðjöfnunargjöldum verði beitt til þess að íslenskur landbúnaður standist samjöfnuð við innflutninginn.
    Það liggur fyrir að fjármálaráðuneytið er ekki sátt við hvernig að þessum málum er staðið í frumvarpinu, enda heyrir álagning jöfnunargjalda undir það ráðuneyti. Þann þátt málsins hefði þurft að athuga betur, en hart er deilt innan stjórnarliðsins um samskipti ráðuneyta fjármála og landbúnaðar um verðjöfnunargjöldin og vinnubrögð við afgreiðslu málsins.
    Minni hlutinn er sammála því að nauðsynlegt sé að standa vörð um hagsmuni íslensks landbúnaðar andspænis samkeppni utan frá en telur rétt að ríkisstjórnarflokkarnir beri ábyrgð á framkvæmd samningsins um EES og þeim umdeildu áhrifum sem hann mun hafa m.a. á íslenskan landbúnað. Undirritaðir nefndarmenn munu því sitja hjá við afgreiðslu þessa máls.

Alþingi, 6. maí 1993.



Kristín Ástgeirsdóttir,

Ragnar Arnalds.


frsm.